Nýtt upphaf

Jólahátíðin markar nýtt upphaf.  Hún er haldin á árstíma stytzta sólargangs.  Héðan í frá mun sól hækka á lofti, sem að lokum mun duga til að kveikja nýtt líf; náttúran mun lifna við enn á ný.  Þetta er guðdómleg endurnýjun og hringrás. 

Jólasaga kristinna manna snýst um þetta; fæðingu barns, sem reyndar hafði orðið til með yfirskilvitlegum hætti í móðurkviði.  Barn þetta óx og dafnaði og tók út mikinn andlegan þroska, eins og sögur herma.

Eðlilega hefur boðskapur Jesú, Krists, haft mikil áhrif í mannheimi, en hann hefur samt ekki breytt eðli mannsins.  Það eru þó fjölmörg dæmi um breytta hegðun vegna kristins boðskapar, en mikil illska er þó í kristnum samfélögum, eins og öðrum, og ókristileg hegðun.

Kristnir menn verða líka að viðurkenna, að sterkar siðferðiskenningar eru boðaðar af fleirum en kristnum mönnum, og ekki má fordæma guðleysingja.  Þeir geta verið siðavandir, tillitssamir við meðborgara sína og hinir mætustu menn ekki síður en kristnir.  "Homo sapiens", hinn viti borni maður, hefur náð þroskastigi siðvædds dýrs, þó að siðmenning hans sé brotakennd á köflum. 

Út af fyrir sig ættu allir að geta sameinazt um fegurð jólaboðskapar kristinna manna.  Sannleiksgildi sögunnar er aðalatriði fyrir trúaða, en boðskapurinn getur orðið hinum aðalatriði.  Fólk á að geta tekið sér til fyrirmyndar kristilegan boðskap um umburðarlyndi, miskunnsemi, tillitssemi og stuðning við sína minnstu bræður, þó að það trúi ekki biblíunni.  Það er vegna þess, að slík hegðun höfðar til þess í manninum, sem honum þykir vera gott og rétt.

Þetta er út af því, að maðurinn hefur samvizku.  Hann getur greint á milli góðs og ills, þó að hann geri það ekki alltaf.  Þess vegna getur maðurinn tileinkað sér góða siði og lifað í siðuðu samfélagi.

Annað mjög athyglivert við manninn er, að samfélög hans geta auðveldlega lent í höndum kúgara, en hann virðist að lokum alltaf ná að slíta af sér heljarfjötrana.  Þetta upplifðum við í ríkum mæli á 20. öldinni, sem var öld öfganna.  Lénsskipulagið, sem verið hafði við lýði frá upphafi fastrar búsetu, leið undir lok í Evrópu í heimsstyrjöldinni fyrri, 1914-1918, og eðlilega tóku þá við umbrotatímar eftir slík Ragnarök.  Einræði skólagenginna kaffihúsasnata, sem smjöðruðu fyrir verkalýðnum, tók við í Rússlandi, sem leiddi af sér hræðilegar hörmungar fyrir rússnesku þjóðina og allar þjóðir Ráðstjórnarríkjanna. 

Í öðru höfuðríki Evrópu, Þýzkalandi, var keisaranum steypt af stóli, og við tók lýðræði með miklu frelsi einstaklinganna í Weimarlýðveldinu, tækniþróun og þjóðfélagslegri gerjun, þar sem borgarastéttin náði þjóðfélagslegum undirtökum af aðlinum.  Versalasamningurinn 1919 batt þó Þjóðverjum slíka skuldaklafa, að ríkið átti sér ekki viðreisnar von.  Saman fór geigvænlegt atvinnuleysi og óðaverðbólga, sem varð Weimarlýðveldinu að falli í lok janúar árið 1933.

Upp úr þessum jarðvegi spratt þjóðernisjafnaðarstefnan.  Adolf Hitler, formaður þjóðernisjafnaðarmanna, lofaði Þjóðverjum hefnd eftir ófarir heimsstyrjaldarinnar fyrri og hefnd fyrir Versalasamningana.  Þjóðernisjafnaðarmenn kyntu undir ólgu með svikabrigzlum í garð Reichswehr, hers keisaradæmisins, og í garð samningamanna Þjóðverja, sem voru þvingaðir til að skrifa undir Versalasamningana. Þjóðernisjafnaðarmenn náðu um þriðjungi atkvæða, sem dugði þeim til að hrifsa til sín völdin árið 1933 vegna veiks forseta, Hindenburgs, hershöfðingja.  Reichstag undir stjórn þjóðernisjafnaðarmanna hætti strax að greiða stríðsskaðabætur, og ríkisstjórn þeirra sett alla menn til verka.  Þjóðverjar hófu framleiðslu Volkswagen, alþýðuvagnsins,  handa verkamönnum Þýzkalands, og reistir voru verkamannabústaðir.

Í stefnu þjóðernisjafnaðarmanna voru hins vegar efnisatriði, sem áttu eftir að leiða til tortímingar og óþarft er að rekja hér. Þriðja ríkið, sem stundum var kallað þúsund ára ríkið, stóð aðeins í 12 ár.  Því var tortímt.  Í grundvöll ríkisins vantaði algerlega hin kristnu gildi, sem tíunduð eru hér að ofan og eru nauðsynleg í hverju siðuðu samfélagi.  Þau geta heitið eitthvað annað en kristni, en innihaldið er ætíð hið sama.  Þau eru hverjum manni nauðsyn, ef hann og hans fjölskylda á að eiga möguleika á að ná nokkrum þroska og að lifa hamingjusömu lífi.  Við þurfum ætíð að huga að hinu siðræna, þegar við hrífumst af einhverjum boðskap, og setja frelsi einstaklingsins ofar réttindum ríkisins í nafni einhverja stjórnmálakenninga.   

     Íslenzki þjóðfáninn

  

    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband