Skaðlegt eftirlit

Nú hefur formaður "Beint frá býli" gert opinberar fáheyrðar kröfur um Innra eftirlitskerfi með gæðastjórnunarkerfi smáfyrirtækja, t.d. fjölskyldufyrirtækja.

Hlutverk opinberra eftirlitsaðila er í flestum tilvikum að vernda neytendur, og á það við um Matvælastofnun, að henni ber að gera þær ráðstafanir, sem duga, til að vernda heilsufar landsmanna með því að tryggja heilnæmi matvæla.  Henni og öðrum á sama sviði hefur þó tekizt misjafnlega upp við að sinna þessu hlutverki stóráfallalaust, svo að ekki sé meira sagt.

Nú ætla eftirlitsaðilar á sviði matvælaframleiðslu að skjóta spörfugl með kanónu með því að krefjast innra eftirlitskerfis með gæðastjórnunarkerfi smáfyrirtækja.  Þessi krafa er algerlega út í hött, því að smáfyrirtæki hafa ekki bolmagn til slíks.  Slíkt kerfi verður hvorki fugl né fiskur hjá þeim.  Þau eiga að einbeita sér að öðru en skriffinnsku, enda liggur styrkur þeirra oftast annars staðar.  Hann liggur t.d. í hugmyndaauðgi, vandvirkni og alúð eigendanna og annarra, sem þar starfa við framleiðslu á vörum og þjónustu.   

Viðkomandi ráðuneyti verður hér að grípa strax í taumana, því að þessi glórulausa kröfugerð eftirlitsaðilans drepur frjálst framtak einstaklinga, sem vilja bjóða fram nýjungar. 

Slíkt er skaðlegt fyrir neytendur og fyrir samfélagið, því að þessi smáfyrirtæki eru vaxtarbroddur hagkerfisins.  Þessi opinbera krafa er í anda lýsingar Mörtu Andreasen hinnar brezku og brottrekna aðalbókara ESB á vinnubrögðum framkvæmdastjórnar ESB, en þar er meginstefið: "one size fits all", eða ein regla fyrir alla, sem var aðalregla Sovétsins, sáluga, á sinni tíð.

Það þarf að finna aðferð, sem stendur ekki starfsemi smáfyrirtækja fyrir þrifum og tryggir hagsmuni neytenda.  

Aðferðin getur verið fólgin í tilviljanakenndu eftirliti með hreinlæti og þrifnaði, sem ekki er boðað fyrirfram, og að krefjast þess af téðum framleiðendum, að vara þeirra sé greinilega rekjanleg.  Fyrirtæki, sem hægt er að rekja alvarlegan galla til, sem t.d. stafar af sóðaskap, verður ekki langlíft í þeim rekstri.  Þetta eru nauðsynlegar og nægjanlegar kröfur til fyrirtækja með veltu innan við MISK 100. 

  Viðbótartekjur 10 kkrsovetisland

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Neytandinn leysir sjálfur þetta eftirlitsvandamál. 

Hann skiptir bara við "beint frá býli" án þess að blanda eftirlitinu í málið.

Kolbrún Hilmars, 8.9.2013 kl. 21:37

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég hygg, að framleiðendur, flestir, vilji gjarna sjá eftirlit með lágmarksgæðum, en það ætti að eftirláta neytandanum að dæma um, hvernig framleiðendum tekst til, og ekki að skikka smáfyrirtæki til að skrifa gæðahandbók um, hvernig þeir ætla að ná markmiðunum.  Í fjölskyldufyrirtæki, á þá húsbóndinn að hafa innra eftirlit með húsfreyjunni eða öfugt ?

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 9.9.2013 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband