17.4.2016 | 11:35
Ekkert er öruggt
Uggvænleg tíðindi berast af erlendum fjármálamörkuðum vestan hafs og austan. Spár um fjármálakreppu 8 árum eftir hámark síðustu alþjóðlegu kreppu skjóta mönnum skelk í bringu, þegar bjarg á borð við Deutsche Bank er sagt riða vegna hárra skulda og gríðarlegra tapa á afleiðuskuldbindingum, Credit Default Swaps, CDS. Væntanlega hafa undanfarið átt sér stað mikil útlánatöp stórra banka vegna efnahagserfiðleika þróunarríkjanna, og er Kína þar þyngst á metunum. Botnverð á hrávörumörkuðum síðan 2014 hafa valdið töpum á "fjármálagjörningum" bankanna á borð við CDS.
Þrátt fyrir "rífandi gang" í íslenzka hagkerfinu hefur erlend óáran smitazt hratt yfir á íslenzkan verðbréfamarkað, sem reyndar efldist mjög árið 2015, en menn töldu þó eiga talsvert inni 2016. Hvað við tekur hérlendis á kosningaári 2016 til Alþingis er enn á huldu, en skoðanakannanir á viðhorfum landsmanna boða meiri óvissu en oft áður. Ástæðan er sú, að fari svo sem horfir, að Píratar verði með stærsta þingflokkinn að kosningum loknum, er forseti, hver sem hann nú verður, líklegur til að fela "kapteini Pírata" fyrst stjórnarmyndunarumboðið. Það yrði í fyrsta sinn í heimssögunni, að forkólfi stjórnleysingja (anarkista) yrði falin ríkisstjórnarmyndun, og yrði vafalítið ávísun á skrípaleik og öngþveiti í stjórnmálum landsins.
Hvort kapteinninn telur vænlegra að koma málefnum sínum til framkvæmda með borgaralegu flokkunum eða "vinstra mixinu", veit enginn, en það skýtur skökku við, ef "uppreisnarflokkurinn" ætlar að leggja lag sitt við forræðishyggjuflokkana í stað þess að berjast með borgaralegum öflum og fá "báknið burt".
Píratar og kerfissnatar hljóta eðli sínu samkvæmt að fara saman eins og olía og vatn, og yrði það undirfurðuleg samsuða og hefði í för með sér snöggan stjórnmálalegan dauðdaga fyrir píratahreyfinguna. Hér verður að bæta því við, að verstu kerfissnatarnir hljóta að vera aðdáendur Evrópusambandsins, því að þar er versta "búrókratí", sem heimurinn hefur kynnzt frá falli Ráðstjórnarríkjanna 1991.
Við þessar óvissu aðstæður í alþjóðlegum fjármálaheimi og innlendum stjórnmálaheimi er ómetanlegt, að kjölfesta finnist í atvinnulífinu. Þrátt fyrir áföll blómstraði sjávarútvegurinn 2015 og er tvímælalaust orðin kjölfesta íslenzks efnahagslífs, þótt ekki sé nú umsetningin mest í gjaldeyri talið. Stærsta atvinnugreinin, ferðaþjónustan, slítur nú barnsskónum sem risinn á leikvanginum, en á eftir að sanna sig sem sjálfbær og viðvarandi risaatvinnugrein. Ferðaþjónustan á Íslandi nútímans gengur á náttúruauðlindina með náttúruspjöllum, eins og fráfarandi Landgreæðslustjóri hefur bent á, og er þess vegna ósjálfbær atvinnugrein. Sé gríðarleg losun hennar á gróðurhúsalofttegundum meðtalin, verður ljóst, að ferðaþjónustan leikur lausum hala í hagkerfinu, skilur eftir sig gríðarlegt kolefnisspor, og þess vegna þarf hún að búa sig undir háa kolefnisskattheimtu.
Við þessar aðstæður er fáheyrt, að þessi atvinnugrein skuli telja sig þess umkomna að setja sig upp á móti sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og uppsetningu nauðsynlegra flutningsmannvirkja til að flytja þessa orku á milli landshluta, þó að 97 % erlendra ferðamanna líti með velþóknun á mannvirki tengd þessari nýtingu á Íslandi, 3 % tóku ekki afstöðu, og enginn lýsti sig andvígan. Það er tóm vitleysa hjá forkólfum náttúruverndarsamtaka og ferðaiðnaðarins, að sá síðast nefndi mundi verða fyrir tjóni vegna nýrra virkjana og flutningslína. Allt fer þetta ágætlega saman. Nýtum og njótum !
Eftirfarandi tíðindi gat að líta í Fiskifréttum, 4. febrúar 2016:
"Útflutningur sjávarafurða á árinu 2015 jókst um tæpan 21 milljarð kr frá árinu áður eða um 8,5 % að því, er fram kemur í upplýsingum á vef Hagstofunnar.
Árið 2015 fluttu Íslendingar út sjávarafurðir fyrir tæpa 265 miakr, en árið 2014 nam þessi útflutningur 244 miakr.
Alls voru fluttar út vörur frá Íslandi fyrir 626,3 miakr FOB á síðasta ári, og var verðmæti vöruútflutnings um 36 miakr eða 6,1 % hærra, á gengi hvors árs, en á sama tíma árið áður.
Iðnaðarvörur voru 52,9 % alls vöruútflutnings, og var verðmæti þeirra 6,8 % hærra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna útflutnings á áli.
Sjávarafurðir voru 42,2 % alls vöruútflutnings. Aukning varð einkum vegna útflutnings á fiskimjöli. Verðmæti mjöls jókst um 85 % á milli ára."
Hér eru mjög jákvæð hagtíðindi á ferð af árinu 2015. Þrátt fyrir mótlæti af völdum tapaðs Rússlandsmarkaðar, minni loðnuveiði og efnahagsstöðnunar víða í heiminum, tókst sjávarútveginum að auka verðmætasköpun sína og gjaldeyrisöflun. Sannar það styrk vöruþróunar og markaðssetningar sjávarútvegsins, og sennilega má þakka þetta líka veðurfyrirbrigðinu El Nino, sem dró mjög úr ansjósugengd í Suður-Ameríku og hækkaði þar með mjölverð í heiminum.
Eiginfjárhlutfall sjávarútvegsins er um þriðjungur af heildareign, svo að efnahagurinn er traustur, þó að hann beri merki mikilla fjárfestinga. Þær eru undirstaða framtíðarteknanna. Íslendingar eru í 3. sæti yfir mestu fiskveiðiþjóðir Evrópu og eiga að njóta sannmælis sem slíkir í samningum um deilistofnana. Evrópusambandið verður að láta af kúgunartilburðum sínum gagnvart Íslandi um auðlindir hafsins. Hafrétturinn er Íslands megin, og með vísindin að vopni, lögum og þrautseigju, mun sanngjörn hlutdeild Íslands af makríl og öðrum slíkum stofnum verða viðurkennd. Nýr og efnilegur utanríkisráðherra Íslands skrifaði þann 16. apríl 2016 góða grein í Morgunblaðið, þar sem hún fagnaði því, að Sameinuðu þjóðirnar hefðu nýlega samþykkt mikinn hluta af umráðakröfum Íslendinga til landgrunnsins út af Reykjanesi.
Alls starfa um 8´000 manns í greininni við veiðar og vinnslu, og voru launagreiðslur alls 82 miakr og bein opinber gjöld 25 miakr árið 2014. Beint og óbeint þiggja vart færri en 25´000 manns laun af greininni eða um 14 % af vinnuaflanum. Greinin er talin standa undir um fjórðungi landsframleiðslunnar.
Iðnaðurinn, utan matvælaiðnaðar, er með stærstu hlutdeildina í vöruútflutninginum, og nemur hún yfir helmingi. Að iðnaðurinn nái að auka verðmætasköpun sína á sama tíma og álmarkaðir eru í algerri ládeyðu, vitnar um ótrúlegan kraft og sýnir, að fjölbreytni útfluttra iðnaðarvara hefur vaxið gríðarlega síðast liðinn áratug.
Þó að herði að efnahagi fólks, verður það alltaf að borða. Um allan heim, og ekki sízt á helztu mörkuðum Íslendinga fyrir matvæli, er vaxandi meðvitund almennings um mikilvægi heilnæmrar fæðu fyrir heilsufarið. "Fish from Iceland" hefur ímynd matvöru úr hreinu umhverfi, sem verður að varðveita. Að síun skolps frá hreinsistöðvum frárennslis á Íslandi standist ekki gæðasamanburð við danskar og sænskar hreinsistöðvar, hvað agnir úr plasti og öðru snertir, eru þess vegna vonbrigði, því að þetta eru vísast heilsuskaðleg efni. Hér þarf hið opinbera, aðallega sveitarfélögin, að bæta frammistöðu sína.
Fregnir berast nú um, að Norðmenn séu búnir að skrínleggja áform um olíuleit á norðurslóðum, þ.á.m. á Drekasvæðinu, en engin slík tíðindi eru frá fyrirtækjum, sem Össur Skarphéðinsson, þáverandi olíumálaráðherra Íslands, úthlutaði leitar- og vinnsluleyfum á íslenzka Drekasvæðinu. Fáfnir offshore, leitarfyrirtæki, á nú mjög erfitt uppdráttar, en í þessu fyrirtæki hafa a.m.k. 2 íslenzkir lífeyrissjóðir fest fé. Eru það auðvitað hrapalleg mistök og forkastanlegt af lífeyrissjóðum að kasta fé á glæ í "rússneska rúllettu", sem samræmist heldur ekki markmiðum Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna frá desember 2015 um hámarkshitnun andrúmslofts 2°C, en til þess verður að láta "óbrennanlegt jarðefnaeldsneyti" liggja, þar sem það er. Er ekki að spyrja að gáfnafari og gæfu íslenzkra vinstri manna, þegar kemur að stefnumörkun í hinum örlagaríkari málum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.