Píratar - dýrt spaug

Píratar eru angi alþjóðlegrar hreyfingar, sem hvergi hefur hlotið umtalsverðan stuðning, hvorki í kosningum né í skoðanakönnunum, nema á Íslandi. Hugmyndum þessa fólks svipar til hugmynda stjórnleysingja, anarkista 19. og 20. aldarinnar.  Þeir eru í uppreisn gegn ríkjandi stjórnskipulagi Vesturlanda, hvort sem það er kennt við þingræði eða forsetaræði, og þeir vilja rífa niður ríkisvaldið.  Þess vegna segja margir þeirra, að þeir vilji ekki setjast í ríkisstjórn. 

Þeir vilja stigmagna óreiðuna í þjóðfélaginu, þar til spennan verður óviðráðanleg og ríkisvaldið splundrast. Þetta er ófögur sýn, en þessa nöðru næra kjósendur nú við brjóst sér.  Á meðan fitnar púkinn á fjósbitanum, sem í þessu tilviki er Vinstri hreyfingin grænt framboð, sem gælir við píratana, þó að þessir tveir hópar fólks séu á öndverðum meiði. Þessir tveir flokkar hafa sem sagt algerlega öndverða meginstefnu, annar vill rífa niður ríkisvaldið, en hinn vill svæla alla starfsemi undir pilsfald ríkisins, og til þess grefur hann undan einkaframtakinu og dregur fjárhagslegan þrótt úr einstaklingunum undir fölsku flaggi jöfnunar lífskjara. Um þetta geta nöðrurnar sameinast. 

Sem dæmi um einstrengingslega og óþingræðislega hegðun kapteins pírata, sem nú gegnir víst stöðu þingflokksformanns þeirra, Birgittu Jónsdóttur, má grípa niður í það, sem frá henni kom í pontu þingsins 12. apríl 2016.  Þar talar utangerðsmanneskja, sem engan veginn er tilbúin að laga sig að siðaðra manna háttum og nota tíma sinn í pontu Alþingis til að leggja eitthvað jákvætt til málanna þjóðinni til heilla, heldur hefur hún, stjórnleysinginn, í hótunum um að hefta þingræðið og lama starfsemi þingsins. Er það í anda stefnu stjórnleysingja um að hámarka öngþveitið á þjóðarheimilinu. 

Hegðun Birgittu Jónsdóttur er dónaskapur gagnvart Stjórnarskrá landsins, sem hún þó á að hafa svarið trúnaðareið, því að þar er mælt fyrir um þingræðisstjórn á landinu, en ekki meirihlutaræði samkvæmt skoðanakönnunum eða tilfinningum einstakra þingmanna um "háværar kröfur" á torgum úti. Eitt einkenna lýðskrumara er einmitt að þykjast tala "í nafni þjóðarinnar".  Þannig hafa loddarar sögunnar réttlætt moldvörpustarfsemi sína gagnvart löglega kjörnum fulltrúum, sem myndað hafa meirihlutastjórn á þingi, og eru dæmin frá Reichstag í Berlín um 1930 víti til varnaðar.:

"Þetta er óboðlegt ástand.  Að ætla okkur að fara í hefðbundin þingstörf og láta, eins og ekkert hafi gerzt á landinu, er ekki í boði.  Látið okkur fá dagsetningu.  Það kom mjög skýrt fram, forseti, á fundi forseta, að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að fá dagsetningu.  Hér verða engin hefðbundin þingstörf fyrr en það verður gert, forseti."

Það er engin leið að semja við offors pírata, eins og þarna kemur fram, og geðslagið er þannig, að Birgitta getur rokið upp eins og naðra upp úr þurru og kynnt nýjar kröfur til sögunnar.  Flokksmenn hennar eru búnir að fá nóg af baktjaldamakki hennar og baknagi, svo að hún er "rúin trausti".  Hún hefur enn ekki sýnt nokkurn lit á málefnalegri umræðu um "hefðbundin þingstörf", sem henni sennilega leiðast.  Við þessar aðstæður verður kjörtímabilið ekki stytt um heilt þing.  Skilyrði þeirrar hugmyndar eru einfaldlega enn ekki uppfyllt. Það er þingræðisfyrirkomulag í landinu, en hvorki skrílræði né meirihlutaræði samkvæmt skoðanakönnunum.  Fyrir hag almennings er stöðugleiki í stjórnarfari grundvallarmál.

Í Morgunblaðinu, 13. apríl 2016, var frétt á viðskiptasíðu: "Fitch varar við aukinni áhættu":

"Fitch bendir á, að stjórnvöld séu þegar langt komin við losun fjármagnshafta, og væntir fyrirtækið þess, að þeirri áætlun verði framfylgt, á meðan núverandi ríkisstjórn situr.  Hins vegar kunni sú staðreynd, að kosningum verður flýtt um ár að hafa töluverðar pólitískar afleiðingar til lengri tíma litið.  Segir í tilkynningu Fitch, að fyrirtækið muni í lánshæfismati sínu fylgjast sérstaklega með því, hvort pólitískri uppstokkun fylgi breytt efnahagsstefna, sem geti leitt til ofhitnunar í hagkerfinu. 

Í því sambandi vísar Fitch sérstaklega til ráðstöfunar stöðugleikaframlaga slitabúa föllnu bankanna, sem núverandi stjórnvöld hyggjast nýta til að greiða niður skuldir ríkisins.  Verði þeim fjármunum hins vegar varið til ríkisútgjalda, muni þensluhætta aukast verulega. 

Bendir matsfyrirtækið á mikinn uppgang Pírata, sem dæmi um pólitíska óvissu hér á landi, en þar sé um að ræða nýlegan flokk með óljósa stefnu í efnahagsmálum."

Traust alþjóðlegra matsfyrirtækja á lánshæfi íslenzka ríkissjóðsins er landsmönnum mikilvægt, því að vaxtakjör hans fara að miklu leyti eftir þessu mati, og þau eru leiðbeinandi um vaxtakjör ríkisfyrirtækja, og vextir til annarra fyrirtækja og heimila draga dám af þessum vöxtum.  Hagur atvinnulífs og almennings er þess vegna háður mati Fitch og annarra slíkra.  Það má draga þá ályktun af tilvitnuðu áliti Fitch, að matsfyrirtækið næri efasemdir í garð núverandi stjórnarandstöðuflokka, hvað varðar getu þeirra og vilja til að halda aga á ríkisfjármálunum.  Saga vinstri flokka við völd á Íslandi er skelfileg m.t.t. halla á ríkisbúskapi, skuldasöfnun og verðbólgu þrátt fyrir skattpíningu miðstéttarinnar.

Fylgi við pírata felur í sér óvissu um stjórnarstefnu ríkisstjórnar, sem þeir hugsanlega munu eiga aðild að.  Ástæðan er sú, að stefnumörkun þeirra í efnahagsmálum er í þoku, enda hafa þeir ekki hug á að fara með ríkisvald, heldur að mola það niður.  Stjórnleysingjum er illa við ríkisvald.  Ef þeir munu fást til stjórnarþátttöku, gæti hún orðið alger skrípaleikur til að skapa glundroða og upplausnarástand. 

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður pírata, veitti innsýn í sýktan hugarheim sinn, er henni varð á að hrópa: "Þetta er valdarán !", þegar kunngert var, að varaformaður Framsóknarflokksins og formaður Sjálfstæðisflokksins hygðust halda stjórnarsamstarfinu áfram, enda myndu 38 þingmenn verja ríkisstjórnina vantrausti. Þessi upphrópun bendir til, að þegar hér var komið sögu, hafi Birgitta talið, að hennar tími væri kominn og að ekkert nema öngþveiti, draumastaða Birgittu, blasti við, þ.e. valdataka þeirra, sem hún gerði sér tíðar ferðir til að hitta á Austurvelli í byrjun apríl 2016.  Þetta hugarfar á ekkert skylt við þingræðisstjórnarfyrirkomulag, sem varð ofan á hina örlagaríku daga 4. -  6. apríl 2016 fyrir tilstyrk Stjórnarskrárinnar, forseta lýðveldisins og þingflokka stjórnarflokkanna.  Allt þetta hatast téð Birgitta alveg sérstaklega við.  Hún er eins konar meinvættur fyrir stöðugt stjórnarfar í landinu. 

Fyrir smurt gangverk hagkerfisins er stöðugt, fyrirsjáanlegt og frjálslynt stjórnarfar í landinu lykilatriði.  Ríkisstjórnin og þingmenn hennar eiga þess vegna drjúgan heiður skilinn fyrir methagvöxt, metkaupmátt, lágmarksatvinnuleysi og lágmarksverðbólgu á Íslandi á þessu kjörtímabili. Um samspil stjórnarfars og heilbrigðs hagkerfis skrifar Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, í Markaðinn 13. apríl 2016 undir fyrirsögninni:

"Hagfræði stjórnmálakreppu":

"Í öðru lagi, og þetta skiptir meira máli að mínu mati, er það, sem bandaríski hagfræðingurinn, Robert Higgs, hefur kallað "stjórnaróvissu".  Stjórnaróvissa vísar til almenns trausts til lagalegs og stofnanalegs umhverfis í hagkerfinu.  Ef það er mikil óvissa um þessa innviði, getur það varanlega dregið úr fjárfestingum og þar af leiðandi framleiðniaukningu í hagkerfinu."

Sú "stjórnaróvissa", sem hér er gerð að umræðuefni, heldur nú innreið sína á Íslandi, því að kosningar til þings gætu hugsanlega farið fram að 5 mánuðum liðnum, og enginn veit, hvers konar stjórnarstefna verður við lýði í kjölfar þeirra. Það skiptir öllu máli fyrir hagkerfið, hagvöxtinn, kaupmáttinn og arðsemi fjárfestinga, hvort haldið verður áfram á sömu braut á næsta kjörtímabili og á núverandi kjörtímabili, en ekki innleitt hér öngþveiti eða skattaáþján og verðbólga vinstri sinnaðra stjórnarhátta með ögn af stjórnleysisívafi frá pírötum að hætti borgarstjórnar, þar sem þetta stjórnarmynztur er við lýði. 

Kjósendur ákvarða með atkvæðaseðli sínum, hvort hérlendis verður afturhvarf til fortíðar og þjóðfélagslegur sirkus eða stöðug framþróun til lægstu ríkisskulda og beztu lífskjara í Evrópu.

"Hins vegar er meginspurningin ekki um, hvað gerist í íslenzku efnahagslífi á næstu 2-3 ársfjórðungum, heldur hvort þessi stjórnmálakreppa setji af stað meiriháttar breytingar á hinu pólitíska landslagi á Íslandi, sem gætu hugsanlega breytt efnahagslegu og pólitísku valdakerfi landsins.  Persónulega tel ég þetta mikilvægustu spurninguna, þegar litið er til næsta áratugarins eða svo.", skrifaði Lars Christensen ennfremur.

Landsmenn þurfa nú að feta hinn gullna meðalveg, sem hefur ekki ávallt reynzt þeim auðrataður.  Hann er sá, að gera strangar kröfur um heiðarleika í orði og verki til stjórnmálamanna sinna og sín einnig, en hlaupa ekki í múgæsingu á eftir ofstækismönnum af báðum kynjum á jaðri stjórnmálanna, sem beita óprúttnum meðulum til að efna til galdrabrenna, þar sem ofstækismennirnir hirða ekkert um sekt eða sakleysi þeirra, sem kastað er á bálköstinn.  Aðalatriðið virðist vera að búa til fórnarlömb og ná sér niðri á  pólitískum andstæðingum sínum.  Ekkert er nýtt undir sólunni í mannlegri hegðun. Það er hámark lýðskrumsins að hrópa:

"Hann er í Panamaskjölunum, á bálköstinn með hann".  Slíkir loddarar munu hitta sjálfa sig fyrir í vítislogum almennrar fordæmingar, þegar menn ná áttum, áður en yfir lýkur, og dómur sögunnar hefur aldrei orðið ofstækismönnum og -konum vilhallur. 

       Alþingishúsið

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Mögnuð og góð grein, sem segir vel til um hers konar "óværa" er þarna á ferðinni.

Jóhann Elíasson, 22.4.2016 kl. 13:30

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jóhann;

Stjórnarandstöðuna virðist langa til að mynda "hræðslubandalag" gegn borgaralegu flokkunum.  Hvers konar minnsti samnefnari getur orðið úr því kraðaki.  Líklega hin fáránlega hugmynd Birgittu um 9 mánaða kjörtímabil til að skipta um stjórnarskrá.  Þetta er hið fullkomna ábyrgðarleysi trúðanna, sem láta sig engu skipta hagsmuni almennings, en allt verður undan að láta til að koma í gegn sérvizku og sérmálefnum, sem fela í sér sóun á tíma og fjármunum, þ.e. uppskrift að stjórnleysi í anda stjórnleysingja.  Stjórnarskránni á að breyta hægt og varlega, og það er stjórnskipulegt óráð að kasta lýðveldisstjórnarskránni út á einu bretti, þó að hún sé barn síns tíma.

Bjarni Jónsson, 22.4.2016 kl. 17:12

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Allt sem þú segir í athugasemdinni og greininni er hverju orði sannara og hafðu bestu þakkir fyrir.

Jóhann Elíasson, 22.4.2016 kl. 17:52

4 Smámynd: Steinar B Jakobsson

Þetta finnst mér skýr og góð grein, sem flestir ættu að lesa og íhuga.Mættti birtast í fleiri fjölmiðlum!

Steinar B Jakobsson, 22.4.2016 kl. 22:05

5 Smámynd: Elle_

 Já ég held það sé enginn vafi að Birgitta Pírati sé stórhættulegur stjórnmálamaður.  Og kannski allur Pírataflokkurinn.  Skildi aldrei fylgi þeirra.  Það var nú ekki bætandi ofan á stjórnarandstöðuna. 

Elle_, 23.4.2016 kl. 00:59

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hún minnir um margt á Jóhönnu Sig. blessunin. 

Jón Steinar Ragnarsson, 23.4.2016 kl. 06:33

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þegar málflutningur og rýr stefnuskrá pírata eru höfð í huga, sjá menn sömu blæbrigðin og einkenndu stjórnleysingjana gömlu.  Þeir þóttu ekki góður pappír í Evrópu, og þess vegna brugðu þeir yfir sig huliðsdulu til að villa á sér heimildir.  Er hægt að benda á nokkuð í fari pírata, sem ekki gæti átt við um stjórnleysingja ?  Spyr sá, sem ekki veit.  Aðalbaráttumálið, frítt niðurhal af netinu og að traðka á höfundarréttinum, er a.m.k. ekki þess eðlis.  Ég trúi ekki fyrr en ég tek á því, að yfir 30 % landsmanna vilji veita stjórnleysingjum brautargengi til að skapa hér óreiðu og stjórnarfarslegt öngþveiti.

Bjarni Jónsson, 23.4.2016 kl. 10:47

8 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Í allri minni umgengni i kringum stjórmál á Íslandi og lestur greina hef ég aldrei lesið eins kex ruglað skrum og þú ferð með hér og fer best á að benda á þettar fáránlega bull frá launuðum falsprófessor LÍÚ. Munum að stjórn stærstu greinar í "smurðu gangaverki hagkerfisins" er í EINOKUN. EINOKUN - SJÁLFSTÆÐISFLOKKURIN ?????

Fyrir smurt gangverk hagkerfisins er stöðugt, fyrirsjáanlegt og frjálslynt stjórnarfar í landinu lykilatriði.  Ríkisstjórnin og þingmenn hennar eiga þess vegna drjúgan heiður skilinn fyrir methagvöxt, metkaupmátt, lágmarksatvinnuleysi og lágmarksverðbólgu á Íslandi á þessu kjörtímabili. Um samspil stjórnarfars og heilbrigðs hagkerfis skrifar Lars Christensen.

Með handafli hefur gengi krónunnar frá hruni verið haldið niðri með fyrirfram niðurgreiðslu hagkæmra erlendra lána sem ekkert lá á að greiða og uppkaupum á yfir 300 milljarða virði i erlendum gjaldeyri til að láta launþega og lifeyrisþega borga brúsann.

Píratar hópur heiðarlegs fólks gera það ekki annað en það að koma inn með breytingar og kröfur um aukið lýðræði þar sem völdin verði færð nær fólkinu kjósendum sem hafa verið hundsaðir síðast liðin 22 ár eða frá 1995 þegar óheiðarlegur formaður sjálfstæðisflokksins færði EIGN flokksins í hendur útgerðamanna sem ráða öll með stuðningi manna eins og þín sem gerir þér enga grein fyrir hversu ólýðræðisleg hegðun ríkisstjórnarinnar er.

Ólafur Örn Jónsson, 23.4.2016 kl. 11:46

9 Smámynd: Hallþór Jökull Hákonarson

Fyrir greinarhöfund og fjölda fólks í athugasemdakerfinu sem að hafa augljóslega aldrei kynnt sér neitt um stefnur Pírata þá eru þær aðgengilegar öllum hérna http://www.piratar.is/stefnumal/grunnstefna/ bæði í rituðu formi og í myndbandsformi. Mér sýnist á skrifum greinarhöfundar að hann sé bitur, og að hann viti akkurat ekki neitt um hvað hann er að tala. Það er lágmarkskrafa að fólk kynni sér stefnur flokks áður en að það hefst við að skrifa stórar greinar þar sem að fullyrt er allskonar þvaður um flokkinn. Skrif þessi sýna mikið greinarleysi greinarhöfunds.

Hallþór Jökull Hákonarson, 23.4.2016 kl. 12:18

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Nú hefur mannvitsbrekkan Ólafur Örn Jónsson tjáð sig hér á vefsetrinu, eins og honum er lagið, með torskiljanlegum hætti, enda samhengislausum og út í hött.  Skyldi hann vera orðinn talsmaður pírata í sjávarútvegsmálum ?  Þá fer nú að reytast fylgið af flokkinum í skoðanakönnunum, því að aldrei hefur örlað á heilbrigðri skynsemi, hvað þá óbrenglaðri málsgrein, frá þessum arma bullustampi. 

Bjarni Jónsson, 23.4.2016 kl. 21:18

11 Smámynd: Bjarni Jónsson

Að fara á vefslóð Píratahreyfingarinnar til að kynna sér stefnu flokksins er að fara í geitarhús að leita ullar.  Aldrei hefur nokkur stjórnmálahreyfing boðið lesendum stefnuskráar sinnar upp á annað eins endemis froðusnakk, þar sem ægir saman "selvfölgeligheder, þokukenndum hugmyndum og furðulegheitum.  Það er villuljós að kalla þessi ósköp stefnumál.  Þetta er hvorki fugl né fiskur. 

Í gr. 3.5 í Grunnstefnu pírata stendur: "Nafnleysi hefur ekki þann tilgang að skjóta einstaklingi undan ábyrgð."  Hvaða erindi á þessi málsgrein í stefnuskrá stjórnmálaflokks, og til hvers er þá nafnleysið ?  Hallþór Jökull Hákonarson er nafnleysingi, því að ekkert vefsetur virðist vera á hann skráð.

Bjarni Jónsson, 23.4.2016 kl. 21:29

12 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Skal uppfaerast â Facebook med tilvísan í valdar athugasemdir med leyfi hõfundar ..hûn má til med ad lesast sem vídas

Helga Kristjánsdóttir, 24.4.2016 kl. 06:02

13 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga;

Að sjálfsögðu hefur þú alltaf leyfi til að dreifa boðskapnum sem víðast.  Mér er ánægja að því, að þér skuli falla hann í geð, og ég verð að játa, að mér er ekki síður ánægja að því, að hann virðist hafa fallið í grýttan jarðveg hjá þeim, sem hann einmitt beindist gegn, en einkenni þeirra sundurleitu hópa nú um stundir virðist vera andleg fátækt og furðumálefni.

Bjarni Jónsson, 24.4.2016 kl. 08:59

14 Smámynd: Hallþór Jökull Hákonarson

Sæll Bjarni.

Ég get alls ekki verið sammála þér um það að verslóð pírata sé slæm, hún er þvert á móti með eindæmum skýr. Einnig vil ég benda þér á að skoða youtube síðu pírata, en hana má finna hérna; https://www.youtube.com/channel/UCf7lFaEt5uRGC33iEmjVT8g Á þessari youtube-síðu eru allar grunnstefnur Pírata settar fram í virkilega einföldu máli, þannig að meira að segja grunnskólabörn geti kynnt sér stefnurnar á einfaldan og skýran hátt. 

Hvaðan í ósköpunum færð þú þá flugu í höfuðið að Píratar séu stjórnleysingjar? af Útvarpi Sögu kannski?

Ég er ekki nafnleysingi þó svo að ég bloggi ekki sjálfur. Ég stofnaði þennan blog-aðgang minn í gær í þeim tilgangi einum að svara þessari grein þinni. Ég kem þó fram undir fullu nafni og með mynd af mér. Þú getur flétt mér upp í þjóðskrá ef að þú efast um tilvist mína, eða á ja.is og víðar. Kennitala mín er 040994-2979 ef að þú vilt fá hana líka :) 

Enn og aftur ég þá vil ég byðja þig um að afla þér upplýsinga áður en þú hefst við að skrifa opinberar greinar um ákveðin málefni, því annað er bara vandræðalegt.

Auk þess þá vil ég spurja þig persónulega, hvaða íslenska stjórnmálaafl aðhyllist þú Bjarni?

Bestu kveðjur.

Hallþór Jökull Hákonarson

Hallþór Jökull Hákonarson, 24.4.2016 kl. 14:11

15 Smámynd: Magnús Ragnar (Maggi Raggi).

Eitt hefur maður lært í sínu lífi, að kynna sér hluti áður en maður byrjar að skrifa um þá, því ekki treystir maður neina flokka, ekki síst þannig flokka sem viljandi fara illa með sýna þjóð?

Þannig ekki er ég Pírati eða einhver annar flokkdýrkandi eins og margir kunna að vera. En að læra að kjósa rétt nú á okkar nútíma öld, er nú orðið mjög erfitt og flókið. Af hverju? Er það kannski ekki útaf því að kjósendur kunna ekki að kjósa rétt, því hvað kallast rétt kosning?

Já, kosningar snúast upp á að geta treyst þeim flokki sem býður sig fram, og ef sá flokkur viljandi fer illa með sitt eigið traust, nákvæmlega eins og xB og xD, þá auðvitað krefst maður nýrra kosninga strax!

Því ef maður vill einhvern tíman breytingar, þá er það núna eða aldrei.

Þannig ekki er ég að hvetja fólk að kjósa einhvern flokk, heldur að biðja um réttláta framtíð fyrir Ísland, mína fjölskildu, og fyrir framtíð allra sem stjórnarskráin skipar fyrir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum“, þannig lærum nú einhvern tíman að kjósa rétt, því það kallast réttlát framtíð, þótt maður dreymi um þannig framtíð eður ei“!!

Þannig nýjar kosningar strax, takk fyrir!!!

Kær einlægs vonar kveðja eftir skárri framtíð,
Magnús Ragnar (Maggi Raggi).

Panamaskjala Íslandsskömmin 2016! => http://maggiraggi.blog.is/blog/maggiraggi/entry/2170390/

Magnús Ragnar (Maggi Raggi)., 24.4.2016 kl. 15:21

16 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Hallþór Jökull;

Ég gegnrýni ekki umbúðirnar á vefsetri pírata, heldur innihaldið.  Mér þykir það svo mikil þynnka, að óboðlegt sé íslenzkum kjósendum.  Grunnstefnan markar pírötum enga sérstöðu, og ég hygg, að fæstir, hvar í flokki, sem þeir standa, geti gert umtalsverðan ágreining um hana.  Svipaða sögu má segja um stefnumálin.  Það vantar allt kjöt á beinið.  Þetta eru bara almennar hugleiðingar, en alla stefnumörkun ásamt aðferðafræði um, hvernig á að raungera stefnuna, vantar.

Ég tel, að píratahreyfingin sé angi af stjórnleysisstefnunni.  Það eru mikil líkindi með eftirfarandi lýsingu á stjórnleysingjum af www.wikipedia.org og grunnstefnu pírata:

"Stjórnleysisstefna eða anarkismi er stjórnmála- og félagsstefna, sem einkennist fyrst og fremst af andstöðu við yfirvald, og höfnun á réttmæti þess.  Fylgismenn stefnunnar stefna að samfélagi byggðu á sjálfviljugri samvinnu einstaklinga.  Stjórnleysingjar eru afar fjölbreyttur hópur, eins og við er að búast, þar sem hugmyndafræðin byggist á höfnun á yfirvaldi, gagnrýninni hugsun og einstaklingsfrelsi.  Nafngjöfin á þessari stjórnmálastefnu, anarkismi, sem íslenzkað hefur verið sem stjórnleysisstefna, er upphaflega níðyrði andstæðinganna, sem vildu meina, að hún mundi leiða til upplausnar og ringulreiðar.  Orðið sjálft, anarkhia, kemur úr grísku og þýðir án höfðingja eða stjórnanda."

Úr því að þú spyrð, hvaða íslenzka stjórnmálaafl ég aðhyllist, þá er mér ljúft að upplýsa þig um það, svo að þú velkist ekki lengur í vafa, að ég er borgaralega þenkjandi íhaldsmaður.  Nú getur þú notað útilokunaraðferðina til að finna réttu lausnina. 

Með kveðju /

Bjarni Jónsson, 24.4.2016 kl. 18:01

17 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Magnús Ragnar;

Það er ekki hlaupið að því að henda reiður á því, sem þú skrifar hér að ofan, en ef þú átt við, að maður skuli kjósa þann stjórnmálaflokk, sem maður treystir bezt til þinglegra verka, þá er ég sammála þér um það.  Nú kunna leiðir að skilja og stjórnmálaflokkurinn að glata trausti kjósandans.  Þá er ekki sjálfgefið, að kjósandinn eigi rétt á nýjum kosningum strax.  Það kann að vera á misskilningi reist.  Ef ríkisstjórnin hefur enn starfhæfan meirihluta á Alþingi, þá segir þingræðisreglan, sem er íslenzka stjórnarfyrirkomulagið, að ríkisstjórnin eigi að starfa áfram út kjörtímabilið.  Sú er einmitt staðan núna, og þess vegna eru hávaði og sóðaskapur við Alþingishúsið dónaskapur og reyndar brot á íslenzku Stjórnarskránni. 

Á síðasta kjörtímabili var uppi gjörólík staða.  Ríkisstjórnin var rúin trausti eftir að hafa koltapað tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum, sem hún var á móti, að haldnar yrðu, og hún hafði ekki lengur starfhæfan þingmeirihluta, en var samt varin vantrausti.  Samt hékk þessi ömurlegasta ríkisstjórn lýðveldissögunnar, kennd við Jóhönnu Sigurðardóttur, á völdunum eins og hundur á roði.  Það var óþingræðisleg hegðun, sem verðskuldaði friðsamleg og þrifaleg mótmæli á Austurvelli.

Bjarni Jónsson, 24.4.2016 kl. 18:28

18 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég tel, að píratahreyfingin sé gamalt vín á nýjum belgjum.  Píratar hafi tekið allmörg mál stjórnleysingja (anarkista) traustataki og gert að sínum.  Ef þetta er rétt, sem ég á eftir að sannreyna með samanburði, þá eru píratar ekki frumlegir fyrir fimm aura og meira að segja fremur ómerkilegir að afneita skyldleikanum.  Helzta skýringin á viðkvæmni þeirra fyrir að vera bendlaðir við stjórnleysingja er einmitt, að þeir vilja láta líta út fyrir, að þeir hafi "hannað" nýtt hugmyndakerfi.  Í fljótu bragði virðist það af og frá.

Bjarni Jónsson, 25.4.2016 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband