10.7.2016 | 10:53
Borgaralaun - paradísarheimt ?
Hugmyndin um borgarastyrk úr ríkissjóði til allra (fjárráða) íbúa er ekki ný í heiminum, þó að hún sé ný á stjórnmálasviðinu á Íslandi. Píratar hafa hérlendis gert þessa stefnu að sinni. Hún snýst um að greiða öllum fullorðnum fasta upphæð úr ríkissjóði óháð tekjum þeirra og þörfum. Þá yrðu um leið aðrir styrkir úr ríkissjóði, á borð við ellistyrk og örorkustyrk, afnumdir.
Það eru vissar þjóðfélagsaðstæður uppi núna víða á Vesturlöndum, sem ýta undir umræður af þessu tagi. Þær eru aukin misskipting tekna víðast hvar í heiminum og tækniþróun, sem menn óttast, að auka muni atvinnuleysi, og sé rót atvinnuleysis, sem víða er mikið fyrir, og jafnvel leysa af hólmi ýmis láglaunastörf. Borgarastyrkur kæmi þá í stað atvinnuleysisbóta.
Mælikvarði á téða misskiptingu er Gini-stuðullinn. Fái allir jafnt, er hann 0. Það er ekki æskilegt, því að þá hverfur allur hvati til að gera betur í dag en í gær og til að bæta kjör sín og sinna. Fái einn allar tekjurnar, er Gini-stuðullinn 1,00. Þetta er sízti kosturinn, enda jafngildir þetta ástand þrælahaldi, kúgun og uppreisnarástandi. Vandinn er að finna hinn gullna meðalveg, en hann er líklega nokkuð mismunandi eftir menningu og hefðum hvers lands.
Meðaltalið í OECD-ríkjunum var árið 2013 0,32 og hafði þá hækkað úr 0,29 árið 1985. Mestur jöfnuður allra OECD-ríkjanna árið 2013 var á Íslandi, 0,24 á Gini, og síðan þá hefur jöfnuðurinn enn vaxið á þennan mælikvarða hérlendis. Næst á eftir Íslandi komu Danmörk og Noregur með 0,25 og 0,26 í sömu röð. Á Norðurlöndunum er kjör-Ginistuðull líklega á bilinu 0,22-0,27, og Ísland er sem sagt þar við neðri mörkin um þessar mundir.
Það hefur verið kvartað undan of miklum launajöfnuði á Íslandi og að menntun borgi sig vart fjárhagslega, af því að lífslaun háskólamanna séu lægri en t.d. iðnaðarmanna. Þetta á aðeins við sumar stéttir háskólamanna, og er sennilega undantekning, þó að BHM hafi látið ófriðlega í vinnudeilum í vetur og heimtað hækkanir umfram aðra. Laun fara yfirleitt eftir ábyrgð og spurn eftir því, sem launþeginn hefur fram að færa. Til að fá sérfræðinga til landsins úr námi og starfi, verða ráðstöfunartekjur hérlendis hins vegar að vera sambærilegar við ráðstöfunartekjur erlendis. Líklega má jöfnuðurinn hérlendis ekki aukast úr þessu, svo að hvati til náms verði ekki of lítill og til að samkeppnishæfni landsins versni ekki. Hana þarf að bæta. Styrking gengisins undanfarið bætir hag almennings til skemmri tíma, en samkeppnisstaða útflutningsgreinanna versnar, sem getur hefnt sín í lakari stöðu þjóðarbúsins. Ef viðskiptajöfnuðurinn verður neikvæður, munu lífskjör óhjákvæmilega versna aftur.
Nú verður vitnað til greinar um borgarastyrk í The Economist 4. júní 2016,
"Sighing for paradise to come":
"Sumir segja, að framtíðin sé paradís tæknilegrar gnóttar, þar sem launað starf sé valkvætt og enginn líði skort. Í sjónhendingu gefur að líta í Maricá, hvað þetta getur þýtt, en Maricá er sjávarbær skammt frá Rio de Janeiro. Í desember 2015 öðluðust allir 150´000 íbúarnir rétt til mánaðarlegs framfærslustyrks að upphæð tæplega USD 3,0, sem er fjármagnaður af hlutdeild Maricá í olíuvinnslugjaldi ríkisins.
Upphæðin er lág, en fyrir Washington Quaquá, bæjarstjórann í Maricá og höfund borgarastyrkshugmyndarinnar þarna, er hugmyndin stór í sniðum. Hann segist stjórnast af siðferðiskennd, sem geti raungert ævidraum sinn um jafnréttissamfélag. Verkefni sitt segir hann dæmi um "allsherjar grunnlaun": skilyrðislausa greiðslu til allra í tilteknu lögsagnarumdæmi.
Hugmyndin á sér langa forsögu, og hana studdu miklir menn upplýsingatímans, t.d. Marquis de Condorcet og Thomas Paine. Þremur öldum síðar hafa nokkrar ríkisstjórnir vítt um heiminn, aðallega í ríkum löndum, sett af stað tilraunaverkefni um fyrirkomulag grunnlauna, eða eru að íhuga slíkt. Finnland mun hefja slíkt tilraunaverkefni 2017, þar sem nokkrir borgarar munu fá óskuldbindandi greiðslur í reiðufé allt að EUR 800 (kISK 110) á mánuði. Svipað á sér nú stað í nokkrum hollenzkum borgum."
Þann 5. júní 2016 greiddu Svisslendingar atkvæði um stjórnarskrárbreytingu, sem fól í sér rétt íbúanna til slíks grunnframfærslustyrks. Um 70 % kjósenda, sem atkvæði greiddu, höfnuðu innleiðingu slíks ákvæðis í stjórnarskrá.
Það, sem mælir gegn slíkum borgaralaunum eða -styrk, er, að úr ríkissjóði er þá ausið fé til þeirra, sem enga þörf hafa fyrir slíka sporslu frá ríkinu, til jafns við hina, sem raunverulega þurfa framfærslustyrk, og hvatinn til að vinna sér inn laun er rýrður. Bandaríkjamenn hafa gert kostnaðargreiningu á því, hvað USD 1000 (tæplega kISK 125) á mánuði til allra mundi þýða, þó að á móti væru felldar niður opinberar tryggingar. Við þetta mundu ríkisútgjöldin þenjast út og nema 35 % af VLF, eins og nú er í Þýzkalandi, en í BNA nemur þetta hlutfall aðeins um 26 % um þessar mundir.
Það virðist vera ótímabært að innleiða ákvæði af þessu tagi núna í lög eða stjórnarskrá, því að enn hefur gríðarleg tækniþróun ekki leitt af sér slíkt fjöldaatvinnuleysi, sem sumir hafa spáð. Störf hafa hins vegar breytzt eða flutzt til á milli starfsstétta fyrir atbeina tækninnar. Í öllum vel heppnuðum tilvikum hefur orðið framleiðniaukning og verðmætasköpun hefur vaxið. Þetta hefur samt ekki leitt til almennrar auðsöfnunar í atvinnulífi eða minnkandi heildarframboðs á vinnu. Ástæður fjöldaatvinnuleysis eru oftast raktar til strangs regluverks varðandi ráðningar og brottrekstur og hárrar skattheimtu á fyrirtækin.
Píratar hafa á Íslandi gerzt boðberar borgarastyrks. Fyrirbærið á illa við á Íslandi, þar sem meinið, sem það á að bæta úr, er vart fyrir hendi á Íslandi, þar sem jöfnuður er hvergi meiri og nægt framboð vinnu fyrir alla, sem vilja vinna, þó ekki fyrir alla háskólaborgara. Þeir verða þá tímabundið að sætta sig við vinnu á öðrum sviðum en þeir hafa menntað sig á. Þetta stefnumál pírata, eins og ýmislegt annað hjá þeim, er þess vegna illa ígrundað og yrði líklega þung fjárhagsleg byrði á ríkissjóði, á kostnaðar- og tekjuhlið, þó að sumir aðrir styrkir yrðu felldir niður um leið og þessi yrði innleiddur, sem vonandi verður ekki á vorum dögum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Tölvur og tækni, Fjármál, Lífstíll | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.