Að ganga í endurnýjun lífdaganna

Íslenzka hagkerfið hefur tekið stakkaskiptum á einum áratugi.  Á ytra borði lýsir þetta sér í lengra hagvaxtarskeiði og peningalegu stöðugleikaskeiði en áður, og að eignastaða landsins við útlönd er orðin jákvæð, sem vonandi verður viðvarandi staða.  Sama má segja um viðskiptajöfnuðinn við útlönd.  Hann bætir stöðugt gjaldeyrisstöðu landsins. Skuldir ríkisins eru þó enn þungbærar,  miaISK 900, þótt þær hafi verið lækkaðar um miaISK 600 eða 40 % síðan árið 2012.   

Á innra borði hefur orðið grundvallarbreyting á eignarhaldi fyrirtækja.  Óþarft er að minnast á mikla ríkiseign í fjármálakerfinu, um 400 miaISK, sem er í senn óeðlilegt og óhagkvæmt ástand og breytist vonandi til batnaðar á næsta kjörtímabili, þótt nú um stundir blási ekki byrlega fyrir borgaralegri ríkisstjórn eftir næstu kosningar. Það virðast of margir ætla að renna blint í sjóinn og láta pírata og enn smærri flokka fá atkvæði sitt, svo að ekki sé nú minnzt á ótrúlega mikið fylgi Vinstri hreyfingarinnar græns framboð í mælingum á fylgi flokkanna, en sá flokkur er gaddfreðinn ríkiseinokunarflokkur og háskattaflokkur.

Með andvirði eigna ríkissjóðs í fjármálakerfinu mætti tæplega helminga útistandandi skuldir ríkisins. Auk skuldalækkunar ríkissjóðs hefur sú róttæka breyting orðið á eignamyndun í þjóðfélaginu, að lífeyrissjóðum landsmanna hefur vaxið mjög fiskur um hrygg, og nemur andvirði eignar þeirra um þessar mundir um miaISK 3´500 eða um 1,4 x VLF.

Innflæði iðgjalda er enn mun meira en útflæði lífeyris úr lífeyrissjóðum landsmanna, og mun árleg fjárfestingarþörf þeirra þar af leiðandi vera yfir miaISK 100.  Á haftaárunum eftir hrun fjármálamarkaðarins 2008 fjárfestu lífeyrissjóðirnir gríðarlega innanlands, og enn fjárfesta þeir mikið hér vegna meiri arðsemi og hærra vaxtastigs.  Allur gangur er á skynseminni í þessum fjárfestingum.  Ótrúlega óvandað var af nokkrum sjóðum og banka að leggja lag sitt við ævintýramann í Helguvík, sem ekkert kunni til verka við uppbyggingu iðnaðarfyrirtækis, heldur keypti allt sitt úr hverri áttinni, þar sem ódýrast var.  Hönnunin varð þá í skötulíki og miklir hnökrar reyndust við samtengingar, eins og búast mátti við.  Þetta er dauðadómur yfir verksmiðju nú á dögum, þegar allur búnaður þarf að geta "talað saman" um samskiptakerfi verksmiðjunnar.  Gagnstæð aðferðarfræði er viðhöfð í þýzku kísilverksmiðjunni, PCC, á Bakka við Húsavík, þar sem verksmiðjuhönnun, hönnun búnaðar og innkaup eru á einni hendi, svo að allt framleiðsluferlið verður samhæft.  Þarf ekki annað en að bera saman útlit verksmiðjanna í Helguvík og á Bakka til að átta sig á, að með ólíkum hætti er staðið að hönnun þessara tveggja verksmiðja.  

Niðurstaðan varðandi lífeyrissjóðina í landinu er orðin sú, að þeir eru nú ríki í ríkinu, stærsti eigandinn að íslenzku athafnalífi, þegar litið er á þá sem heild.  Þetta er íslenzk útgáfa af "Mitbestimmungsberechtigkeit" eða meðákvörðunarrétti starfsmanna um stjórnun þýzkra fyrirtækja.  Hagsmunir starfsmanna og eigenda fara saman; í raun og veru í meiri mæli á Íslandi en í Þýzkalandi vegna þess, að íslenzkir starfsmenn eiga orðið stóran hlut í mörgum fyrirtækjum á Íslandi með aðild lífeyrissjóðanna, og fulltrúar starfsmanna og atvinnurekenda skipa stjórnir fyrirtækjanna, en í Þýzkalandi er yfirleitt ekki þessu sterka eignarhaldi starfsmanna til að dreifa. 

Þetta eru sterk rök fyrir friði hér á vinnumarkaði og hófsömum launahækkunum í takti við framleiðniaukningu fyrirtækjanna og samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna vegna þess, að hagur fyrirtækjanna er nú orðinn hagur launþeganna. Ef fyrirtækjunum gengur illa, þá mun lífeyrir launþeganna skerðast að sama skapi.  Allir eru í sama báti. Þessi þróun er útfærsla á hinum gömlu og góðu slagorðum Sjálfstæðisflokksins, "Eign handa öllum" og "Stétt með stétt".

Sá, sem liggur óbættur hjá garði hér, er þó litli atvinnurekandinn, einyrkinn, sem byrjaði með tvær hendur tómar, og efldi fyrirtæki sitt með elju og þrautseigju, svo að það er e.t.v. komið með 10 manns eða fleiri í vinnu, stundum.  

Þessi maður býr við mjög erfiða samkeppnisstöðu oft og tíðum, og þarf oftar en ekki að berjast við risana, sem t.d. lífeyrissjóðir hafa fjárfest í.  Hér er komið að litlum og meðalstórum fyrirtækjum, eins manns og upp í 80 manna fyrirtæki.  Þau brauðfæða flesta launamenn og standa oft í harðri samkeppni við fyrirtæki með opinberu ívafi og við stórfyrirtæki, sem m.a. lífeyrissjóðirnir eiga.  Það er kominn tími til að létta þessum litlu og meðalstóru fyrirtækjum lífið með minni skriffinnskukröfum að hálfu hins opinbera og skattalækkunum, t.d. þannig, að af fyrstu 20 starfsmönnum hvers fyrirtækis þurfi aðeins að greiða 50 % tryggingagjald.

Ráðdeild þarf almennt að efla í þjóðfélaginu.  Þess vegna þarf að ýta undir sparnað, og það getur hið opinbera gert með því að draga úr skattheimtu á fjármagnstekjur, fara aftur niður í 10 % fjármagsntekjuskatt og hætta að skattleggja verðbætur á sparnað. 

Húsnæði er of dýrt, hvort sem er eignarhúsnæði eða leiguhúsnæði.  Þetta er litlum fyrirtækjum, ungu fólki og eldri borgurum, þungt í skauti.  Alþingi getur sett lög til að stemma stigu við þessu, sem ákvarði hámark heildar fasteignagjalda 0,2 %/ár af verðmæti fasteignar og lóðar (fasteignamati) og afnemi lágmarkið.  Þar með skapast samkeppni á milli sveitarfélaga um íbúa og fyrirtæki, sem er veitir sveitarstjórnum aðhald. 

Sérstaka lagasetningu þarf um auðlindargjald af vatnsréttindum, sem Hæstiréttur hefur úrskurðað, að viðkomandi sveitarfélög megi innheimta af virkjunareiganda sem fasteignagjald af metnu verðmæti vatnsréttindanna. Þar kemur 0,5 %/ár, til greina.

Fartækjaútgerð er töluverður kostnaðarþáttur hjá litlum fyrirtækjum og hjá fjölskyldunum.  Í fjárlagafrumvarpi 2018 er gert ráð fyrir óhóflegri aukningu á gjaldtöku af eldsneyti með 18 kr/l hækkun á dísilolíu og 8 kr/l hækkun á benzíni og tvöföldun kolefnisgjalds til viðbótar, auk VSK.  Sjálfstæðismenn á þingi hafa gert athugasemdir við þessar gríðarlegu hækkanir,  enda ná þær engri átt og ætti að lækka hækkunina á báðum eldsneytistegundunum um 8 kr/l og fresta kolefnishækkuninni.  Stjórnvöld geta enn ekki með réttu réttlætt miklar eldsneytishækkanir og hækkun kolefnisgjalds með þörfinni á að hraða rafbílavæðingu, af því að innviðauppbygging fyrir rafvæðingu bílaflotans er allt of skammt komin til að rafbílavæðing geti orðið almenn. Það stendur enn upp á yfirvöld að hraða styrkingu dreifiveitna og uppsetningu tengla, 1x16 A, 3x16 A, 3x32 A, 3x63 A, við fjölbýlishús og á bílastæðum.   

Í tilefni frumvarps til fjárlaga er mjög virðingarvert, að sjálfstæðismenn velti fyrir sér, hvers vegna er þörf á að styrkja hugmyndafræðilegan grundvöll Sjálfstæðisflokksins, og horfi þá gjarna til "systurflokks", sem stöðugt heldur fylgi sínu í grennd við 40 % þrátt fyrir að leiða ríkisstjórn síðan 2005 ?  Grein Björns Jóns Bragasonar, lögfræðings og sagnfræðings, í Morgunblaðinu, 11. september 2017," Frú Merkel og Sjálfstæðisflokkurinn" , var mjög gott innlegg í þessar hugleiðingar.  Meira um það síðar.

Það er m.a. vegna þess, að nauðsynlegt er að hamla gegn sósíalistunum, sem boða, eins og vant er, algerlega ábyrgðarlausa stefnu í fjármálum ríkisins, sem strax mundi leiða til hallarekstrar, skuldasöfnunar og hárrar verðbólgu.  Sósíalistarnir lifa í hugmyndafræðilegri gerviveröld, í sýndarveruleika, sem afneitar staðreyndum.  Þeir reyna að telja fólki trú um, að þeir muni og geti bætt kjör fólks með því að auka samneyzluna upp úr öllu valdi.  Þeir reyna meira að segja að telja fólki trú um, að afkoma þess hafi verið betri áður.  Samt segja tölur, að samneyzlan hefur aldrei verið hlutfallslega hærri en nú á Íslandi og er á meðal þess hæsta, sem þekkist innan OECD.  Skattheimta hins opinbera er svo há, að hún virkar hamlandi á getu atvinnulífsins til fjárfestinga og kjarabóta launþeganna.  Skattheimtan á Íslandi heggur stórt skarð í kaupmátt almennings, ekki sízt þeirra, sem eru undir miðgildi tekna. 

Dæmi um þennan falsboðskap vinstri manna gat að líta í Morgunblaðinu 11. september 2017 í viðtali Sigurðar Boga Sævarssonar við Kolbein Óttarsson Proppé, þingmann VG:

"Ég hef oft velt fyrir mér, hvort fjölskylda á lágmarkslaunum hafi fyrir 30-40 árum [um 1982-innsk. BJo] hugsanlega haft það betra en nú, að teknu tilliti til margs þess, sem fólk þarf að greiða sjálft fyrir, en var áður samfélagslegt. [Þessi fortíðarþrá er fáránleg.  Þá ríkti hér óðaverðbólga og skortur á fjölbreytilegum atvinnutækifærum, og lífsbaráttan var mun erfiðari en nú er.  Annaðhvort er þessum manni, Proppé, ekki sjálfrátt eða hann er loddari af lökustu sort. - innsk. BJo]  Því miður er ábyrgðin í dag í allt of ríkum mæli sett á hvern og einn, óháð tekjum og stöðu viðkomandi. [Þetta eru ótrúleg öfugmæli forræðishyggjumanns m.v. öryggisnetið, sem velferðarkerfið íslenzka hefur strengt á sviðum menntunar, sjúkdóma og elli, svo að eitthvað sé nefnt. - innsk. BJo] Svo virðist sem skattar og samneyzla séu orðin neikvæð orð, og sjálfur hef ég oft verið snupraður fyrir að segjast vilja samneyzlu, sósíalisma. [Þarna talar maður, sem gefur skít í eignarréttinn og telur, að hið opinbera eigi heilagan rétt á að gera eins stóran hlut af sjálfsaflafé almennings upptækan og því sýnist hverju sinni. - innsk. BJo]  Mér finnst því mjög miður og í raun hættulegt, að sett hafi verið ríkisfjármálaáætlun, þar sem kveðið er á um, að ríkisútgjöld megi aldrei fara yfir 41,5 % af VLF.  Það þýðir í raun, að ekki verði hægt að beita ríkissjóði til jöfnunar, ef harðnar á dalnum.  Þetta er stóra myndin, og henni viljum við í VG breyta."

 

Hámark ríkisútgjalda af VLF á Íslandi, sem Kolbeinn Óttarsson nefnir, er með því hæsta í heimi, og hærra hlutfall er algerlega ósjálfbært og sligandi fyrir hagkerfið.  Það er engum til framdráttar, nema síður sé, að hækka það. Slíkt mundi draga alla niður í sósíalistískt svað. Að nefna aukna jöfnun sem ástæðu  aukinnar skattheimtuer er út í hött í landi, þar sem jöfnuður er þegar sá mesti, sem þekkist samkvæmt alþjóðlegum stuðli, GINI.  Sósíalistar eru blindingjar, sem hugsa mjög skammt fram á veg (og sennilega dauflega, þá sjaldan týrir á þeim), svo að þeir gera sér ekki grein fyrir afleiðingum háskattastefnu sinnar.  Þeir eru þess vegna ómarktækir í þessum efnum.

Menn á borð við téðan Proppé, sem hrópa út um borg og bí, að "samneyzlan sé svelt" í landi, þar sem útgjöld ríkissjóðs til heilbrigðismála 2018 eru áætluð miaISK 201 og útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála, eru áætluð miaISK 208, eru hugmyndafræðilega á sömu vegferð og Hugo Chavez og Nicólas Maduro, sem komust til valda í Venezúela undir slagorðum sósíalismans um aukinn jöfnuð í ríkasta landi Suður-Ameríku, en tókst á 10 árum að koma landinu á vonarvöl hungursneyðar og hruns velferðarkerfisins. 

Gammur vokir yfir hræiVetur á Íslandi

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Mjög góð grein !

Snorri Hansson, 22.9.2017 kl. 00:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband