"Nýsköpun og rannsóknir" í Stjórnarsáttmála

Það er mikill fagurgali í Stjórnarsáttmálanum um "nýsköpun og rannsóknir".  Þar stendur t.d.: "Lögð verður áherzla á að hvetja til nýsköpunar á sviði opinberrar þjónustu og stjórnsýslu, velferðarþjónustu og verkefna í þágu loftslagsmarkmiða".

Það hefur nú ríkt bann að hálfu ráðuneyta í bráðum 1,5 ár við nýjum samningum Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna, sem hefur leitt til þess, að íslenzkir sérfræðingar á sviði læknavísinda hafa ekki fengið starfsaðstöðu við hæfi hérlendis, enda lítið sem ekkert á lausu á Landsspítalanum.  

Samt er staða heilbrigðismála hérlendis sú í hnotskurn, að Landsspítalinn verður ekki í stakk búinn til að annast "sjúklingaflóðið" fyrr en nýr "meðferðarkjarni" Landsspítalans hefur verið tekinn í gagnið að 5 árum liðnum. Um þessar mundir er hann yfirfullur, þ.e. sjúklingar, jafnvel á bráðadeild sjúkrahússins, híma í rúmum sínum á göngunum, jafnvel dögum saman.  Það er reyndar alveg undir hælinn lagt, hvort Landsspítalinn mun anna "aðflæðinu" eftir opnun nýja meðferðarkjarnans, því að heilsufari þjóðarinnar fer hrakandi, m.a. vegna hraðfara öldrunar (mikillar fjölgunar eldri borgara).

Hvers vegna í ósköpunum leggjast þá yfirvöld heilbrigðismála í landinu algerlega þversum gegn því að fitjað sé upp á nýjungum í einkageiranum til að létta farginu af Landsspítalanum í þeirri von, að lífsgæði sjúklinga á biðlistum batni fyrr ?  Samt má túlka fagurgalann í stjórnarsáttmálanum á þann veg, að höfundum hans gæti hugnazt vel, að fitjað væri upp á nýbreytni í þjónustunni við sjúklinga, þótt gaddfreðnir hugmyndafræðingar láti sjúklinga fremur húka á göngum opinberrar stofnunar en hljóta viðunandi þjónustu á einkarekinni læknastofu eða umönnunarfyrirtæki.  

Í Morgunblaðinu, 9. janúar 2018, birti Ingveldur Geirsdóttir athyglisverðar upplýsingar í frétt sinni:

"Fleiri leita sér lækninga erlendis".

Fréttin hófst þannig:

"Rúmlega 300 Íslendingar leituðu sér læknismeðferðar erlendis árið 2017 og fengu kostnaðinn niðurgreiddan af Sjúkratryggingum Íslands (SÍ)."

Forysta heilbrigðismála á Íslandi lætur hugmyndafræði sína um það, hverjir mega framkvæma aðgerðir á sjúklingum, ráða för, þótt slíkur fíflagangur komi hart niður á skjólstæðingunum og feli í sér sóun á almannafé.  Heilbrigðisstefnan einkennist þar með af ábyrgðarleysi gagnvart skjólstæðingum kerfisins, enda eru innstu koppar í búri á þeim bænum illa haldnir af  fordómum í garð fjölbreytni rekstrarforma.  Þá er náttúrulega ekki von á góðu. Létta verður helsi úreltrar hugmyndafræði af heilbrigðisgeiranum og "hvetja til nýsköpunar á sviði opinberrar þjónustu og stjórnsýslu", eins og segir í Stjórnarsáttmálanum.  Þangað til munu sjúklingar fremur verða fórnarlömb kerfisins en þiggjendur þjónustu, aðstandendur líða önn fyrir ömurlega stöðu nákominna og fréttamenn sýna hneykslanlegar myndir af kerfi, sem ræður ekki við viðfangsefni sín, þótt starfsfólkið leggi sig allt fram og komi kúguppgefið heim af vinnustaðnum.    

Undir lok fréttarinnar sagði:

"Ef mál er samþykkt, þá er greiddur ferðakostnaður, dagpeningar, meðferðarkostnaður og mögulegur fylgdarmannskostnaður.  .... Ljóst er, að þeim fjölgaði mikið, sem leituðu sér læknisþjónustu erlendis, bæði á grundvelli landamæratilskipunarinnar [EES] og biðtímaákvæðisins árið 2017 [biðtími yfir 90 dagar].  Búizt er við áframhaldandi fjölgun á þessu ári, samkvæmt upplýsingum frá SÍ."

Þetta er hneyksli í opinberri stjórnsýslu.  Með því að koma fram af sanngirni við einkageirann undir formerkjum aukinnar fjölbreytni og bættrar þjónustu, og hætta að hreyta í hann fúkyrðum um gróða af bágstöddum, væri hægt að þjónusta hérlendis lungann af hópnum, sem leitar í neyð sinni utan til lækninga á einkastofum, og um leið mætti spara ríkissjóði talsverð útgjöld.  Hvað skyldi Ríkisendurskoðun segja um þessa slæmu meðferð opinbers fjár, eða Umboðsmaður Alþingis um hornrekuhætti heilbrigðisstjórnvalda gagnvart sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki, sem gjarna vilja veita þjónustu sína utan Landsspítala, af því að hann rúmar ekki fleiri ?

Heimsósómi Skáld-Sveins 1614


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband