Þvermóðska keyrir um þverbak

Útgjöld til heilbrigðismála eru langstærsti útgjaldaliðurinn á fjárlögum íslenzka ríkisins, og útgjöldin þangað vaxa  reyndar meira en góðu hófi gegnir.  Samt linnir ekki fréttum af ófremdarástandi í þessum geira, sem er miðstýrður af skrifstofu heilbrigðisráðherrans í velferðarráðuneytinu, og heilbrigðisráðherrann er heldur betur frekur til fjárins við gerð fjárlagafrumvarps.   

Heilbrigðisráðherrann núverandi, Svandís Svavarsdóttir, flæmir nú forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, Steingrím Ara Arason, úr starfi sínu.  Eftir Steingrím Ara birtist uppgjörsgrein við ráðherrann í Fréttablaðinu, 17. apríl 2018, undir fyrirsögninni:

"Skammsýni og sóun":

Greinin er einn samfelldur áfellisdómur yfir téðum ráðherra.  Málið er grafalvarlegt fyrir þjóðina, um leið og það er hápólitískt.  Ráðherrann hefur sagt starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks stríð á hendur.  Sú stríðsyfirlýsing er glórulaus, því að hún vill færa þessa starfsemi til göngudeilda ríkissjúkrahúsanna, sem ekki eru í nokkrum færum til að taka við henni, eins og sakir standa.  Ráðherrann ætlar með öðrum orðum með háttsemi sinni að auka enn á öngþveitið á Landsspítalanum og víðar með hræðilegum afleiðingum fyrir sjúklingana og óhjákvæmilega auknum samfélagslegum kostnaði.  Spyrja verður: er þetta stefna ríkisstjórnarinnar ?  Ef ekki, er þá ekki komið fullt tilefni fyrir þingmenn að sýna vígtennurnar og undirbúa vantraust á ráðherra, sem leikur "sóló" af þessu tagi ?  

Ef ráðherrann verður ekki bráðlega stöðvaður á sinni óheillabraut, mun það hafa ómældar þjáningar í för með sér fyrir fjölda sjúklinga, mikinn samfélagslegan aukakostnað og óþörf útgjöld úr ríkissjóði.  Forstjóri SÍ hóf grein sína þannig:

"Systur tvær, skammsýni og sóun", fara oft saman.  Í atvinnurekstri og stjórnmálum er viðvarandi viðfangsefni að fyrirbyggja, að þær fái ráðið för.

Ragnar Hall, lögmaður, skrifaði 13.apríl sl. athyglisverða grein, þar sem hann fjallar um þá niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og úrskurðarnefndar velferðarmála að synja einstaklingi um greiðsluþátttöku vegna liðskiptaaðgerðar hjá Klínikinni Ármúla.  Þetta gerist þrátt fyrir, að einstaklingurinn hafi verið í brýnni þörf fyrir aðgerðina, þrátt fyrir meira en árs bið eftir aðgerðinni á Landsspítalanum, þrátt fyrir að Klínikin Ármúla hafi uppfyllt öll fagleg skilyrði og þrátt fyrir lægri kostnað ríkisins við að samþykkja aðgerðina hjá íslenzkum fremur en sænskum aðila.  Nei skal það vera, þar sem SÍ hafa einungis heimild til að taka þátt í kostnaði við liðskiptaaðgerðir, sem framkvæmdar eru erlendis."

Hér opnast lesendum sýn inn í forarvilpu sósíalistískrar stjórnunar á einokuðum geira, þar sem aðalatriðið er, að ákvarðanir fylgi hugmyndafræði sósíalismans um að knésetja þjónustu, sem reist er á einkaeignarrétti aðstöðu og tækjabúnaðar, en hagsmunir sjúklinga og ríkissjóðs eru um leið bornir fyrir borð.  Þessari endemis óstjórn, sem enda mun sem venezúelskt ástand í heilbrigðisgeiranum, enda fetar Svandís hér í fótspor ríkisstjórnar Hugos Chavez i Venezúela fyrir hálfum öðrum áratugi, verður að linna.  Þessi ráðherra hefur brugðizt skyldum sínum og misst traust fjölmargra starfsmanna heilbrigðisgeirans.

Hryllingssagan um yfirstjórn heilbrigðisgeirans heldur áfram:

"Samtímis hefur þeirri ósk SÍ verið hafnað að semja um gerviliðaaðgerðir á þeim grunni, að "mæli fagleg og fjárhagsleg rök með því, verði SÍ jafnframt heimilað að semja um hluta aðgerðanna við sjálfstætt starfandi bæklunarlækna."

Ósk, sem er sett fram til að tryggja sjúkratryggðum greiðan aðgang að þjónustunni og til að nýta fjármuni ríkisins, eins vel og kostur er.

Árið 2018 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að fela Landsspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands að framkvæma allar biðlistaaðgerðir átaksins án sérstaks samnings.  Þetta er ákveðið, þó að fyrir liggi, að sjálfstætt starfandi aðilar séu einnig reiðubúnir að veita þjónustuna og að biðlistaaðgerðirnar koma orðið niður á annarri þjónustu Landsspítalans."

Af þessari lýsingu Steingríms Ara má ljóst vera, að í velferðarráðuneytinu situr nú heilbrigðisráðherra, sem veit ekki sitt rjúkandi ráð.  Heilbrigðisráðherrann tekur geðþóttaákvarðanir án nokkurs tillits til raunveruleikans, sem er sá, að allar þessar þrjár stofnanir eru yfirlestaðar og geta ekki annað þessum viðbótar verkefnum án þess að þau bitni á annarri starfsemi þessara ágætu stofnana.  Skeytingarleysi ráðherrans um hag sjúklinganna og meðferð skattfjár er forkastanlegt.  

Þann 8. júní 2018 skrifuðu tveir menn grein í Morgunblaðið, sem bar heitið:

"Háskaleikur heilbrigðisráðherrans".

Höfundarnir voru Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja, og Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur.  Grein þeirra hófst þannig:

"Ekki verður betur séð en heilbrigðisráðherra þjóðarinnar sé í einhvers konar afneitun, þegar kostnaður og gæði heilbrigðisþjónustunnar eru annars vegar. Eitt virtasta tímarit heims í læknisfræði, The Lancet, birti fyrir nokkrum dögum úttekt á heilbrigðistengdum gæðavísum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu 195 landa fyrir árið 2016.  Til að gera langa sögu stutta toppar Ísland þennan lista.  Erfitt er að ímynda sér, hvernig hægt er að fá betri staðfestingu á góðu kerfi og glæsilegri frammistöðu heilbrigðisstarfsfólks.  Sjálfsagt er að óska því fólki til hamingju.  Við getum verið stolt af árangrinum, enda þótt ráðherrann virðist ekki mega heyra á hann minnzt."

Þeim, sem aðeins þekkja heilbrigðiskerfið af frásögnum í fréttatímum fjölmiðlanna, hlýtur þessi toppeinkunn að koma á óvart, en hinum ekki algerlega.  Þá þarf að hafa í huga samsetningu heilbrigðiskerfisins, sem er í grófum dráttum þrískipt: heilsugæzlur, sjúkrahús og starfsemi sjálfstæðra heilbrigðisstarfsmanna.  Í fréttatímum hefur megináherzlan verið á neikvæðar fréttir af hinum tveimur fyrrnefndu og þó aðallega af Landsspítalanum.  Af þeim fréttum að dæma er sjúkrahúsið þó rekið af duglegu og hæfu starfsfólki, en á yztu mörkum hins mögulega vegna gamallar umgjarðar og óheppilegs stjórnunarfyrirkomulags fastra framlaga úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum í stað afkasta- og gæðahvetjandi greiðslufyrirkomulags fyrir veitta þjónustu.

Það má telja víst, að Ísland hafi lent í efsta sæti téðrar könnunar fyrir tilverknað starfsemi hinna sjálfstæðu heilbrigðisstarfsmanna. Núverandi heilbrigðisráðherra beinir nú spjótum sínum að þeim og ætlar að rífa niður starfsemi þeirra.  Þessa niðurrifsstarfsemi í nafni löngu afskrifaðrar sósíalistískrar hugmyndafræði má Svandís Svavarsdóttir ekki komast upp með, enda eru þetta ólýðræðislegar aðfarir, hvergi getið í stjórnarsáttmálanum og nánast örugglega í blóra við vilja þings og þjóðar.  Ráðherrann hefur nú sjálfviljug sett hausinn í snöruna, og hún ræður ekki hinu pólitíska framhaldi.  

 Um afköst, gæði og kostnað þjónustunnar skrifuðu tilvitnaðir tvímenningar:

"Sérfræðiþjónusta lækna hefur um áraraðir verið kjölfesta góðrar læknisþjónustu hér á landi.  Á síðasta ári [2017] tóku sérfræðilæknar á rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands á móti um 500 þúsund heimsóknum.  Þeir framkvæmdu m.a. um 18 þúsund skurðaðgerðir og þúsundir speglana auk margs konar lífeðlisfræðilegra rannsókna.  Á sama tíma voru um 244 þúsund komur á göngudeild Landsspítala og um 250 þúsund komur á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.  Þannig er stofustarfsemi sérfræðilækna stærri en göngudeildarstarfsemi þessara tveggja stærstu heilbrigðisstofnana landsins."

Það er fullkomið dómgreindarleysi af heilbrigðisráðherra að skerða þessa starfsemi og ætla biðlistahrjáðum Landsspítala, hvers starfsemi er strekkt til hins ýtrasta, að taka við. Eitt er víst: hagsmunir sjúklinganna verða algerlega fyrir borð bornir með slíku fyrirkomulagi.  Það er bæði synd og skömm, að við skulum búa við fyrirkomulag, sem getur veitt misheppnuðum ráðherra tök á að vinna heilbrigðiskerfinu stórfellt tjón.

"Um 350 læknar starfa á samningum í ýmsum sérgreinum.  Til viðbótar eru um 300 önnur stöðugildi fagfólks í ýmsum greinum.  Enda þótt starfsemin sé afar umfangsmikil, er athyglisvert, að hún tekur einungis til sín um 6 % af heildarútgjöldum heilbrigðisþjónustunnar.  Sérfræðiþjónustan er einfaldlega vel rekin, ódýr m.v.í nágrannalöndum og með gott aðgengi sjúklinga.  Gæðin þarf enginn að draga í efa.  Það er vandséð annað en hér sé vel farið með hverja krónu skattfjárins."

Ein af leiðunum út úr kostnaðarógöngum heilbrigðisgeirans er að auka vægi annarra rekstrarforma en hins opinbera.  Með því fá sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn æskilegt valfrelsi, sem er nauðsynlegt fyrir sæmilega heilbrigða þjónustugrein.  Með auknum samanburði og samkeppni verða hagsmunir skattgreiðenda betur tryggðir en nú er, því að reynslan á hinum Norðurlöndunum er sú, að aukin fjölbreytni leiðir til bættrar skilvirkni.  

Marxisminn hefur því miður komið við sögu í þessum pistli um nýjustu vendingar í heilbrigðismálum á Íslandi, og þess vegna er ekki úr vegi að enda hann með tilvitnun í frábæra grein Carls Bildts, sem er fyrrverandi formaður "Moderatarna" í Svíþjóð og fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra landsins, og birtist í Morgunblaðinu 15. maí 2018 undir fyrirsögninni,

"Hvers vegna Marx hafði rangt fyrir sér":

"Marx leit á eignarréttinn sem rót alls hins illa í þeim kapitalísku samfélögum, sem voru að myndast á dögum hans.  Af því leiddi, að hann trúði því, að bara með því að afnema hann væri hægt að laga stéttaskiptingu samfélagsins og tryggja samlynda framtíð.  Friedrich Engels, samverkamaður Marx, hélt því síðar fram, að undir kommúnismanum myndi ríkið verða óþarft og "veslast upp".  Þessar fullyrðingar voru ekki settar fram sem getgátur, heldur sem vísindalegar fullyrðingar um það, hvað framtíðin hefði í för með sér.

En að sjálfsögðu var þetta allt þvaður, og kenning Marx um söguna - díalektíska efnishyggjan - hefur síðan verið afsönnuð og reynzt hættuleg að nánast hverju einasta leyti." 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband