22.11.2018 | 13:55
Útflutningshömlur á rafmagn yrðu óheimilar
Það leiðir af EES-samninginum, gr. 12, að leggi íslenzk yfirvöld stein í götu aflsæstrengsfjárfesta, sem tengjast vilja íslenzka raforkukerfinu, eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins, og Landsreglarinn á Íslandi er meðmæltur leyfisumsókn um slíkan streng, þá mun sá sami Landsreglari umsvifalaust tilkynna slíkan þvergirðing til yfirboðara sinna hjá ACER (gegnum ESA) og getur tilfært slíkt sem skýlaust brot á "fjórfrelsisreglu" nr 12 í EES-samninginum um bann við hvers kyns hömlum á útflutningi, svo að ekki sé nú minnzt á áætlanagerðir ACER um millilandatengingar, sem ætlazt er til, að ACER-aðildarlönd styðji, þótt þau hafi þar ekki atkvæðisrétt, eins og við mun eiga um EFTA-ríkin.
Samkvæmt núgildandi orkupakka 2 á Íslandi er almennt talið, að íslenzk yfirvöld og löggjafi hafa það í hendi sér, hvort gengið verður til samninga við sæstrengsfjárfesta eða ekki. Þetta er hinn mikli munur, sem felst í orkupakka 2 og 3. Segja má, að fjórfrelsið hljóti nýja vídd með Þriðja orkupakkanum og spanni með honum utanríkisviðskipti með rafmagn.
Þess vegna er alveg dæmalaust að sjá útlistun iðnaðarráðuneytisins nr 7 á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar til ráðherrans í apríl 2018:
"Þriðji orkupakkinn haggar því ekki, að það er á forræði Íslands að ákveða, hvaða stjórnvald myndi veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs og eins, hvort íslenzka ríkið ætti að vera eigandi að honum."
Þetta orkar mjög tvímælis, því að segja má, að áherzlan í orkupakka 3 felist í útvíkkun fjórfrelsins til að spanna utanlandsviðskipti með raforku (og gas). Það þýðir, að innlend stjórnvöld verða ekki látin komast upp með að leggja stein í götu utanlandsviðskipta með orku, eftir að Alþingi hefur afsalað ákvörðunarvaldi um þetta til yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER (gegnum í þessu tilviki ljósritarann og þýðandann, ESA).
Landsreglarinn verður Orkustofnun til ráðuneytis um afgreiðslu leyfisumsókna frá sæstrengsfjárfestum. Komi upp ágreiningur á milli Landsreglara og Orkustofnunar um afgreiðslu umsóknar, ber Landsreglara að tilkynna ACER (gegnum ESA) um þann ágreining, og hlutverk ACER er að kveða upp bindandi úrskurði í deilumálum um millilandatengingar. Verður þá að sjálfsögðu tekið tillit til þess, hvort viðkomandi millilandatenging er á forgangsverkefnaskrá ACER eða ekki. Um slík verkefni gildir t.d. samkvæmt Innviðagerð #347/2013, að Orkustofnun verður að afgreiða sæstrengsumsóknir á innan við 18 mánuðum. Með texta ráðuneytisins er hins vegar gefið í skyn, að innlend stjórnvöld muni ráða þessu, en það er alls ekki svo samkvæmt orkupakka 3, þótt það sé rétt samkvæmt orkupakka 2. Þetta hefur prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, sýnt fram á í rýniritgerðum sínum um minnisblað Ólafs Jóhannesar Einarssonar til iðnaðarráðherra í apríl 2018 og um greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar til sama ráðherra í september 2018.
Það er heldur ekki rétt, að íslenzk stjórnvöld ráði því alfarið, hvort íslenzka ríkið kaupi sig inn í félag um sæstreng. Það yrði alfarið samningsatriði á milli aðila á frjálsum markaði, og ríkisvaldinu verður óheimilt að troða einkafyrirtækjum um tær. Norski Verkamannaflokkurinn setti í vetur 8 skilyrði fyrir stuðningi sínum við innleiðingu Orkupakka 3, og eitt af því var einmitt, að raforkuflutningsfyrirtækið Statnett, sem er alfarið í eigu norska ríkisins, yrði eigandi allra framtíðarsæstrengja frá Noregi. Hefðu Norðmenn sett þennan fyrirvara, ef augljóst væri við lestur orkupakkans, að norsk yfirvöld hefðu eignarhaldið í hendi sér ? Auðvitað ekki. Hér er um heimatilbúna túlkun lögmannsins og ráðuneytisins að ræða.
Hins vegar ber Landsneti að standa straum af kostnaði við tengingar frá stofnrafkerfi landsins og niður að sæstrengnum samkvæmt forskrift Orkupakka 3. Sá kostnaður gæti numið um mrðISK 100 og mun hærri upphæð, ef endabúnaður sæstrengs (spennar, afriðlar, áriðlar o.fl) verður innifalinn. Öllum þessum kostnaði ber Landsneti að standa straum af með hækkun gjaldskráa sinna, svo að innlendir raforkunotendur munu standa af þessu straum með verulegri hækkun útgjalda fyrir rafmagnsnotkun. Þetta þýðir, að a.m.k. tveir þættir rafmagnsreiknings almennings munu hækka með tilkomu sæstrengs, raforkuverð frá orkuseljanda og flutningsgjald Landsnets. Það er ekki ólíklegt, að fyrri þátturinn tvöfaldist og seinni þátturinn hækki um 60 %, sem mundi þýða yfir 50 % hækkun raforkureiknings, ef dreifingarkostnaður breytist ekki.
Um meint forræði Íslands yfir þessum málum skrifar pófessor Peter Örebech m.a.:
"Ekki myndi ég reiða mig á þetta [þ.e. mat ÓJE-innsk. BJo]. Ísland nýtur fullveldisréttar síns m.t.t. áframhaldandi eignarréttar ríkisins á orkunni [þar sem hann á við-innsk. BJo], EES#125, en stýring orkuvinnslunnar, þ.e. samþykkt, sem ekki er gerð á grundvelli eignarréttarins, heldur á grundvelli stjórnunarréttar - þ.e.a.s. stýring atvinnugreinarinnar - verður að vera í samræmi við EES. Einkaaðilar eru ekki útilokaðir frá því að setja á laggirnar og reka raforkusölu [og vinnslu-innsk. BJo], heldur þvert á móti. Það myndi þýða tvísýna baráttu fyrir Ísland að veita því mótspyrnu, að E´ON, Vattenfall, Statkraft eða einkafyrirtæki - með vísun til áætlana samþykktra í ACER um streng frá Íslandi og til Noregs tengdum mörgum strengjum við ESB-markaðinn - legði og tengdi slíkan sæstreng. Sjá gerð nr 714/2009, Viðauka I (Leiðbeiningar um stjórnun og úthlutun flutningsgetu til ráðstöfunar á flutningslínum á milli landskerfa), þar sem stendur í lið 1.1: "Flutningskerfisstjórar (TSO-hérlendis Landsnet) skulu leggja sig fram um að samþykkja öll fjárhagslega tengd viðskipti, þ.m.t. þau, sem fela í sér viðskipti á milli landa.".
Ennfremur stendur í lið 2.1: "Aðferðirnar við framkvæmd flutningstakmarkana skulu vera markaðstengdar til að létta undir skilvirkum viðskiptum á milli landa.".
Það er alveg óviðunandi, að einhverjir embættismenn og stjórnmálamenn hérlendir fullyrði, að engin hætta sé á ferðum, þótt sérfræðingur í Evrópurétti rökstyðji hið gagnstæða með sínum lögfræðilegu rökum og tilvísunum í Evrópugerðirnar, sem um málið gilda, ásamt því að rekja úrskurði Evrópudómstólsins, eins og PÖ gerði í athugasemdum sínum við greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar til iðnaðarráðherra frá september 2018. Það er allt of mikið í húfi til að taka þessa áhættu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Ísland þarf eigin auðlindastýringu. Þriðji orkupakki ESB gæti rústað orkuöryggi landsins. Samþætting og samvinna vatnsaflsvirkjana (og reyndar einnig jarðvarmavirkjana) er grunnforsenda fyrir skynsamlegri nýtingu þessara orkuauðlinda okkar. Slíkt yrði hins vegar andstætt reglum ESB um frjálsa samkeppni á orkumarkaði. Hvaða heilvita Íslendingi dettur því í hug að hleypa framkvæmdavaldi erlends ríkjasambands, Landsreglara ESB og ACER inn í stjórn orkuauðlinda landsins?
Júlíus Valsson, 23.11.2018 kl. 09:12
Þau málefni, sem þú rekur hér að ofan, eru öll sannleikanum samkvæmt og þess vegna ber að berjast gegn þessari erlendu lagasetningu á Íslandi. Ekki af því að hún er erlend, heldur af því, að hún mun stórskaða okkar hagkerfi, verði hún hér innleidd.
Engin upplýst og sjálfstæð þjóð getur tekið við löggjöf frá útlöndum, sem hún hefur ekki haft neina aðkomu að og er sniðin við gjörólíkar aðstæður. Aðeins "róbótar" sætta við slíkt. Lítil eru geð guma og snóta, sem ætla afkomendum sínum að verða annars flokks þegnar í landinu með mikla auðlind undir erlendu valdi og flutta utan í stað þess að nýta hana til atvinnusköpunar innanlands.
Bjarni Jónsson, 23.11.2018 kl. 11:12
Verkfræðingur sem hefur unnið lengi í orkugeiranum var að sýna mér eina grein samningsins sem hefur 54 undirgreinar. Það er gert til að esb geti túlkað pakkann að vild segir hann.
Guðmundur Böðvarsson, 24.11.2018 kl. 05:03
Sæll, Guðmundur;
Ef þú átt við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, Guðmundur, þá er texti hans og uppsetning tyrfinn. Það leiðir til misskilnings og skilningsleysis á einstökum atriðum. Hins vegar hefur iðnaðarráðuneytið fallið á prófinu, því að það botnar ekkert í þessum dæmalausa pakka. Túlkanir þess og útlistanir eru tómt blaður. Það er stórhættulegt í stórmáli.
Bjarni Jónsson, 24.11.2018 kl. 18:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.