Mishátt er risið

 Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður árið 1929 m.a. til að knýja á um fullt sjálfstæði Íslands við fyrsta tækifæri, þ.e. með uppsögn Sambandslagasamningsins frá 1918 að 25 árum liðnum frá gildistöku hans.  Af þessu dró flokkurinn nafn sitt, og sá baráttuandi á enn fullt erindi í íslenzk stjórnmál og mun aldrei úreldast, þótt hann taki breytingum "að breyttu breytanda".  

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins notaði pistilpláss sitt í sunnudagsblaði Moggans 2. desember 2018 í greininni:

"Til hamingju Ísland"

hins vegar ekki til að minna á, að fullveldið 1918 var aðeins mikilsverður áfangi á leið þjóðarinnar til fulls sjálfstæðis, heldur virtist varaformanninum í mun að sýna fram á, að hægt væri að vera í ríkjasambandi og samt að vera fullvalda !  Þetta ríkjasamband var samt aðallega konungssamband og gagnkvæmur jafn þegnréttur, en engin kvöð var þá um að taka upp hluta af löggjöf "herraríkisins".

Það var alls ekki eins hátt risið á þessari grein og búast hefði mátt við af varaformanni Sjálfstæðisflokksins á einnar aldar afmæli fullveldis Íslands.  Þar var engu líkara en varaformaðurinn gerði málstað þeirra að sínum, sem ekkert sjá því til fyrirstöðu að taka upp hverja risagerðina á fætur annarri frá Evrópusambandinu (ESB) í íslenzka löggjöf og framselja þar með ákvarðanatöku um ríkismálefni og um málefni lögaðila og einstaklinga til stofnana ESB, þar sem landsmenn eiga ekki fullgilda fulltrúa. 

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins virðist þannig enn berjast með kjafti og klóm fyrir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn og vinna þannig flokki sínum pólitískt stórtjón. Þessi málstaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur er orðinn pólitískur baggi á flokki hennar, enda stingur hann í stúf við sögu Sjálfstæðisflokksins og á ekki upp á pallborðið hjá grasrót hans eða almenningi þessa lands.  

  Varaformanninn virðist skorta skilning á því, að Sambandslagasamningurinn 1918 var aldrei hérlendis hugsaður sem endastöð, heldur mikilvægur áfangi á leið til fulls sjálfstæðis, sbr þetta:

"Það er áhugavert að velta því fyrir sér, að við öðluðumst fullveldið með lögum um náið samband við annað ríki."

Sett í samband við stöðu Íslands 2018 virðist varaformaðurinn gefa í skyn, að af þessu megi álykta, að hægt sé að vera fullvalda og í nánu sambandi við annað ríki eða ríkjasamband.  Þetta hefur aldrei verið skoðun meginþorra Íslendinga og sízt af öllu stofnenda núverandi Sjálfstæðisflokks.  

Villandi málflutningur varaformannsins í tilefni aldarafmælis fullveldis landsins hélt áfram í téðri "fullveldisgrein":

"Enginn efast um, að við urðum fullvalda með þessum lögum.  En annað land fór með utanríkismál okkar, annað land fór með æðsta dómsvald, og borgarar annars lands höfðu hér öll sömu réttindi og við, þar á meðal til að nýta auðlindir okkar til lands og sjávar.  Það má segja, að við höfum verið "fullvalda á föstu", en samt fullvalda, vegna þess að við gengum frjáls til þessara samninga og gátum sagt þeim upp."

Í samningnum stóð, að fela ætti starfsmanni utanríkisráðuneytis Dana að sjá um íslenzk utanríkismál samkvæmt ósk íslenzkra stjórnvalda og í samráði við þau.  Það er þess vegna villandi hjá varaformanni Sjálfstæðisflokksins að halda því fram, að Danir hafi farið með utanríkismál okkar.  Það var einvörðungu að forminu til.  

Þá er líka villandi af varaformanninum að halda því fram, að Danir hafi farið áfram með æðsta dómsvaldið, því að Hæstiréttur Íslands var settur á laggirnar í Reykjavík 1920.  Spyrja má, hvað er eiginlega fullveldi í huga varaformanns Sjálfstæðisflokksins ?

  Er hún að reyna að leggja sig, á misheppnaðan hátt, í framkróka við að sýna fram á, að úr því að Ísland var fullvalda 1918, sé landið ekki síður fullvalda 2018, þótt því sé gert að taka við heilu lagabálkunum frá evrópsku ríkjasambandi og yfirþjóðlegar stofnanir sama ríkjasambands hafi öðlazt valdheimildir á Íslandi, sem aðeins íslenzka ríkið hafði áður ? 

Til þess eru refirnir skornir hjá varaformanninum, að af þessum sökum felist engin fullveldisskerðing í því að stofna hér embætti Landsreglara, sem framkvæmir fyrirmæli ESA/ACER/ESB og íslenzk yfirvöld geta engin áhrif haft á.  Er þetta hægt, Matthías, á aldarafmæli fullveldis Íslands ?

Út yfir þjófabálk tók, þegar varaformaðurinn tók að vitna með velþóknun í Bjarna Má Magnússon, aðjunkt við Lagadeild HR, en hann hefur undanfarin misseri boðað öfugsnúnar kenningar um afsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem beitingu fullveldis, þótt ljóst sé, að framhald slíkrar beitingar muni eiga sér dapurlegan endi:

"Það má taka undir það sjónarmið Bjarna Más, að þröng skilgreining á fullveldishugtakinu er sérlega varhugaverð fyrir ríki, sem byggja þjóðaröryggi sitt og hagsmunagæzlu að miklu leyti á milliríkjasamningum og alþjóðlegri samvinnu.  Ekki verður heldur séð, að slík skilgreining samræmist viðhorfum þeirra, sem leiddu fullveldisbaráttuna."

Hér veður varaformaður Sjálfstæðisflokksins reyk.  Leiðtogar sjálfstæðisbaráttunnar á tveimur fyrstu áratugum 20. aldarinnar höfðu að vissu leyti fyrirmynd í sjálfstæðistöku Norðmanna 7. júní 1905 og sáu alltaf fyrir sér Ísland sem frjálst og fullvalda ríki með óskorað löggjafar-, framkvæmda- og dómsvald.  Innan þeirrar hugmyndafræði rúmast t.d. Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn alls ekki, en varaformaður Sjálfstæðisflokksins rembist, eins og rjúpan við staurinn, við að sannfæra landsmenn um, að hann sé landsmönnum nauðsynlegur, þótt við flestum blasi, að hann er stórhættulegur fullveldi okkar og hagsmunum.

Í ofangreindri tilvitnun virðist varaformaður Sjálfstæðisflokksins ekki skilja muninn á leyfilegum þjóðréttarlegum samningum ríkisins annars vegar og hins vegar samningum, sem fela í sér óleyfilegt fullveldisframsal.  Dæmi um þjóðréttarlega samninga eru aðildin að Sameinuðu þjóðunum, NATO, EFTA og Hafréttarsáttmálanum.  EES-samningurinn var árið 1992 talinn af ýmsum lögfræðingum (ekki öllum) rúmast innan marka Stjórnarskrár, en nú er viðurkennt, að við hann hefur bætzt svo mikið, að mikil áhöld eru um, að svo sé lengur.  Það þýðir, að spyrna verður við fótum.

Við þær aðstæður, sem nú eru uppi í stjórnmálum, er áreiðanlega ekki viturlegt, að Sjálfstæðisflokkurinn taki sér stöðu með þeim, sem helzt vilja "deila fullveldi landsins með öðrum".  Nú er þvert á móti lag fyrir Sjálfstæðisflokkinn að skera upp herör gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Það er afstaða, sem langflestir kjósendur Sjálfstæðisflokksins mundu kunna að meta við hann, og hann gæti jafnframt vænzt stuðnings við slíka stefnu víðar að í stað núverandi lágmarksfylgis flokksins.

Í viðhengi með þessum pistli er inngangserindi höfundar að ávarpi Norðmannsins Eiriks Farets Sakariassen á fundi Heimssýnar að kvöldi 1. desember 2018. 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þetta er gott hjá þér, og svo megum við ekki gleyma fundinum í Marakes í Marokó.

Það +a að yfirtaka smáþjóðirnar, með því að leifa ótakmarkaðan flutning á fólki á milli landa, og fá þeir strax borgaraleg réttindi í löndunum.

Hér á Íslandi eiga erlendir aðilar stórann hlut af landinu, og fasteignunum ásamt íbúðarhúsnæði.

Þetta FyllirísröfL er aðeins til að fela undirskrift utanríkisráðherrans eða fulltrúa hans  um að taka þátt í að opna landamæri ríkjanna.  

Í Marakes í Marokó núna á mánudaginn þann 10. 12 2018 á að skrifa undir æalyktunina.

Einnig er í ályktuninni hnikt á reglum um að óheimilt verði að gagnrýna fjöldaflutnings reglurna, þegar smáþjóðirnar verða yfirteknar.

Þegar átti að knýa íslendinga til að borga Ísave, þá greiddu margir stjórnmálamenn atkvæði með því.

Nú virðist búið að hlera flesta og þá þora þeir ekki öðru, en að gera eins og þeim er sagt.

Hér skrifa ýmsir um málefnið.

000

slóðir

Skrifar ríkisstjórnin undir "hömlulausan fólksinnflutning" 10. desember?

Gústaf Adolf Skúlason

2.12.2018 | 09:45

000

2.12.2018 | 00:01

Vill þjóðin galopin landamæri?

Valdimar H Jóhannesson

000

28.11.2018 | 11:25

Ætlar ríkisstjórnin að galopna landamærin?

Jón Magnússon

000

Egilsstaðir, 06.12.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 6.12.2018 kl. 15:53

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þórdís Kolbrún ESB-Reykfjörð Gylfadóttir er sjálf nú þegar orðin pólitískur baggi á flokki sínum. Þvílík 1. des. grein á 100 ára afmælinu!!!

Jón Valur Jensson, 6.12.2018 kl. 18:14

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Viðreisnarsnykur þessarar "fullveldisgreinar" var með endemum.  Boðskapur greinarinnar er óboðlegur.  Þessi ESB-þjónkun er að fara með Sjálfstæðisflokkinn norður og niður.  Þó skortir ekki aðvörunarljósin allt í kring, en það er ekkert skeytt um þau.  Forysta flokksins verður að halda sig við grunngildi flokksins, berjast jafnan fyrir óskoruðu sjálfstæði landsins og hætta þessu daðri við kenninguna um, að bezt sé að "deila fullveldinu með öðrum".  Við getum tekið fullan þátt í fjölbreytilegu alþjóðastarfi án þess að færa hluta ríkisvaldsins til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem við höfum takmarkaða aðild (engan atkvæðisrétt).  Þegar fylgi Sjálfstæðisflokksins er komið undir 20 %, eins og í nýlegri könnun, þá er eitthvað mikið að.  Að hundsa stefnumörkun Landsfundar, er pólitískt banvænt fyrir flokksforystuna.  

Bjarni Jónsson, 6.12.2018 kl. 21:11

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Heyr, heyr, Bjarni, vel mælt ! smile

Jón Valur Jensson, 6.12.2018 kl. 23:09

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Kokdillar í klaustrum færa menn fjær guðdómnum. 
Kokdillar í Brussel, færa menn fjær fullveldinu. 

Júlíus Valsson, 7.12.2018 kl. 09:10

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Kokteilar í Klaustri, koma mönnum í klandur.  Kokteila í Brüssel, bíða menn ekki bætur.

Jafnvel guðfaðir EES-samningsins telur brýnt að stinga niður fæti og hafna Þriðja orkupakkanum, sem á ekkert erindi hingað, enda sniðinn með hagsmuni annarra fyrir augum.

Bjarni Jónsson, 7.12.2018 kl. 10:34

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gersamlega.

Góður, sem og JBH, þvert gegn Samfylkingu!

Jón Valur Jensson, 7.12.2018 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband