Orkumálin reka á reiðanum

Iðnaðarráðherrann, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fékk á sig réttmæta gagnrýni úr eigin kjördæmi, þ.e. frá bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar, fyrir stefnuleysi í málefnum orkukræfs iðnaðar, í lok ágúst 2019, en þessi starfsemi á nú undir högg að sækja á Íslandi, m.a. út af háu raforkuverði. 

Sannleikurinn er sá, að flestar framleiðslugreinar og þjónustugreinar í landinu berjast í bökkum, á meðan raforkuvinnslufyrirtækin, jafnvel flutningsfyrirtækið, Landsnet, græða á tá og fingri.  Þetta er óeðlilegt, og sérstaklega er undarlegt, að verðlagsstefna Landsvirkjunar virtist breytast árið 2010, og síðan þá er hún ónæm gagnvart afkomu viðskiptavina sinna.  

Þetta hafa allir skynjað, sem nálægt Landsvirkjun hafa komið, og vissulega hafa óánægjuraddir heyrzt, en nú eru þær komnar á nýtt stig, svo að iðnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra geta ekki lengur skotið sér á  bak við orkustefnunefnd og stjórn Landsvirkjunar, heldur verða að setja Landsvirkjun eigandastefnu hið fyrsta, þar sem upphafleg stefnumörkun um uppbyggingu og viðhald samkeppnishæfs atvinnulífs í landinu fær sess í þeim mæli, sem samrýmist OP#3. 

Því miður er hætt við, að Landsreglarinn fetti fingur út í slíka eigandastefnu á grundvelli banns við ríkisstuðningi til atvinnurekstrar.  Er þetta smjörþefurinn af erfiðleikunum, sem OP#3 á eftir að valda íslenzku atvinnulífi ?  

Þann 2. september 2019 birtist frétt Jóns Birgis Eiríkssonar í Morgunblaðinu um nýjar vendingar í þessu máli undir fyrirsögninni:

"Ríkisstjórnin endurskoði stefnu sína".

Hún hófst þannig:

"Bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar skora á ríkisstjórnina að endurskoða stefnu sína í málefnum orkukræfs iðnaðar og setja Landsvirkjun eigendastefnu án tafar.

Áskorunin var samþykkt á sameiginlegum fundi sveitarstjórnanna í síðustu viku, en þar kemur fram, að fundurinn hafi verið haldinn vegna "þeirrar alvarlegu stöðu, sem upp er komin í atvinnumálum á Grundartanga og leitt getur til verulegs samdráttar í starfsemi orkukræfs iðnaðar og fækkunar starfa".

Fram kemur í áskoruninni, að rekstrarumhverfi þessa iðnaðar á Íslandi hafi versnað til muna, og það  samkeppnisforskot, sem hér hafi verið í orkuverði, sé nú algerlega horfið.  Kjörnir fulltrúar á svæðinu kalli eftir svörum um, hver hafi tekið ákvörðun um þessa stefnubreytingu og á hvaða vettvangi hún hafi verið tekin."

Hér fer ekkert á milli mála.  Landsvirkjun hefur gengið fram af offorsi, ekkert tillit tekið til þess, að umsamið raforkuverð skyldi styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á alþjóðlegum markaði, eins og hún jafnan gerði fyrrum tíð.  Ráðherra iðnaðar hefur ekki farið ofan í saumana á nýjustu orkusamningunum með þetta í huga og á sennilega óhægt um vik vegna ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem hefur tekið sér það hlutverk frá 2003.  Eðlilega er samt spurt um eigandastefnu Landsvirkjunar, og hvernig stefnubreyting Landsvirkjunar sé komin undir.  Hver veit, nema hana megi rekja allt aftur til OP#1 (2003) ?

Hér sjáum við svart á hvítu, að Landsvirkjun er á rangri braut með verðlagsstefnu sína og er komin yfir þolmörk íslenzks atvinnulífs.  Rétt viðbrögð eru þá að taka skref til baka og endursemja til að tryggja framtíð fyrirtækjanna og afkomuöryggi þeirra, sem þar vinna, beint og óbeint.  Einnig ætti hún að eiga frumkvæði að lækkun heildsöluverðs á almennum markaði.  Sé einhver samkeppni virk, koma hin fyrirtækin á eftir.

Nú er hins vegar komið babb í bátinn.  Alþingi hefur innleitt OP#3, og eftir það er Landsreglarinn (undir ESA/ACER) innsti koppur í búri orkumálanna og ráðherrarnir í aukahlutverkum.  Það ber vissulega keim af fullveldisframsali, ef ráðherra getur ekki haft áhrif á verðlagsstefnu ríkisfyrirtækja með útgáfu eigandastefnu, sem ríkisstjórnin samþykkir.  

Þetta er smjörþefurinn af því, sem koma skal, þ.e. verðhækkanir á rafmagni, sem ógna tilveru fyrirtækja og afkomu heimila.  Stjórnvöld klumsa í eigin landi.  Innleiddu orkupakka með neytendavernd á vörunum.  Hvílíkir stjórnarhættir.  O, sancta simplicitas.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Enn einn snilldarpistillinn frá þér, Bjarni.

Heill þér, landvarnarmaður!

En baráttan heldur áfram. Fella þarf 4. orkupakkann (enn skaðvænlegri) á Alþingi, þegar hann kemur þar fram.

Jón Valur Jensson, 11.9.2019 kl. 15:54

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir ofangreint og einarða baráttu í þágu baráttu fyrir fullveldi á orkusviði.

"Hreinorkupakkinn" er skýrt dæmi um lagasetningu ESB, sem ekkert erindi á hingað.  Áður en hann fer fyrir Sameiginlegu EES-nefndina, þurfa EFTA-ríkin þrjú í EES að móta sameiginlega stefnu.  Hún þarf ekki að vera sú sama fyrir öll ríkin, eins og dæmin sanna.  Ég tel, að Ísland eigi að óska eftir undanþágu frá honum í heild sinni.  

Vatnaskil kunna að hafa átt sér stað í sveitarstjórnarkosningunum í Noregi um síðustu helgi.  Verkamannaflokkurinn galt afhroð.  Ég tengi það við skipun landsstjórnar flokksins til þingflokksins um að kjósa "sem blokk" með OP#3 á Stórþinginu.  Grasrót flokksins varð æf og verkalýðshreyfingin sömuleiðis. Miðflokkurinn vann stórsigur.   Líklega mun núverandi stjórnarandstaða fá meirihluta í næstu Stórþingskosningum.  Slík ný norsk ríkisstjórn mun ekki samþykkja OP#4.

Bjarni Jónsson, 11.9.2019 kl. 18:05

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér frábærar fréttir hér frá Noregi, þetta er gott að vita, ásamt öðrum þínum upplýsingum, Bjarni, þetta um málin sem koma fyrir ESB-nefndina. smile

Jón Valur Jensson, 11.9.2019 kl. 18:12

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Fyrirtæki sem ekki ráða við að greiða markaðsverð fyrir aðföng sín hljóta að þurfa að hætta starfsemi eða endurskoða hana. Það á ekki að vera hlutverk skattgreiðenda að niðurgreiða ósjálfbæra starfsemi. Svo lengi sem orkan selst á því verði sem boðið er, og samkeppni ríkir á markaðnum, er markaðsverðið hið eðlilega verð.

Það að stjórnvöld gefi ekki lengur fyrirmæli um niðurgreiðslur á orku er alls ekki til marks um vöntun á stefnu í orkumálum. Það merkir aðeins að stefnan er heilbrigðari en þegar raforka var notuð sem skiptimynt í atkvæðakaupum óheiðarlegra pólitíkusa.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.9.2019 kl. 19:53

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Iðnaðarráðherrann úr NV-kjördæmi á eftir að finna það, að kjósendur flýja framboðslista hennar, ef þeir átta sig á því, að hún virðir ekki umsamin kjör á orkusölu og ætlar einfaldlega að horfa upp á það aðgerðalaus og með ánægju yfir allri "markaðshyggjunni" að mannfrek fyrirtæki á Grundartanga veslist eða fari á hausinn, með stórfelldu atvinnuleysi, vegna stefnu hennar og fjármálaráðherrans, með stuðningi verkalýðs-vanrækjandi Vinstri" grænna að auki!

Jón Valur Jensson, 11.9.2019 kl. 20:55

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Valur;

Ég held þú verðir sannspár um NV-kjördæmi, og í fleiri kjördæmum verða kosningar fréttnæmar.  Það gætir furðulegrar fáfræði um endurnýjun langtíma raforkusamninga og illskiljanlegs illvilja í garð gjaldeyrisskapandi stóriðjufyrirtækja í athugasemd Þorsteins hér fyrir ofan.  Þegar verksmiðja hérlendis með langtímasamning um raforkukaup stendur frammi fyrir því að endurnýja slíkan samning, sem getur verið um og yfir 300 MW, þá er hún ekki stödd á venjulegum markaði, því að hún getur ekki leitað hófanna annars staðar.  Þar er ekkert að hafa.  Hún er í klóm einokunar.  Einokarinn þrýstir verðinu upp í hæðir, sem er langt ofan við kostnað hans við raforkuvinnsluna.  Tekjur hans af nýjum samningi eru jafnframt hærri en honum býðst í öðrum samningum hérlendis, því að aflstuðull er mjög hár og nýting virkjana (fjárfestingar) verður hærri en honum býðst nokkurs staðar.  Kaupandinn gerir samning, sem skilar honum alls engri framlegð við núverandi ástand markaða, en hann getur þá staðið við sína langtímasamninga og vonað, að afurðaverð hans hækki.  Þessi staða hamlar hins vegar fjárfestingum hans og viðhaldið getur liðið fyrir.  Orðstír orkuseljandans á þessum markaði fer í vaskinn.  Þetta getur ekki verið í samræmi við langtímahagsmuni eigandans, sem í þessu dæmi er ríkið.

Bjarni Jónsson, 12.9.2019 kl. 10:48

7 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ég held að við þurfum að fá nánari útskýringar á meintri niðurgreiðslu á orku til stóriðjunnar.  Að ég best veit hefur slíkt viðgengist í áratugi en samt hefur Landsvirkjun skilað ágóða í heildina,*)  þrátt fyrir uppbyggingar og framkvæmdir vegna orkuframleiðslunnar.  Viðurkenni fáfræði mína því ég skil einfaldlega ekki þetta reikningsdæmi - kann þó að lesa ársreikninga og afkomutölur. 
*) Minni þá á fyrirhugaðan Þjóðarsjóð til þess að varðveita alla milljarðana

Kolbrún Hilmars, 12.9.2019 kl. 11:44

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Kæra Kolbrún: Ef um hefði verið að ræða niðurgreiðslu til stóriðjunnar, þá væri raforkuverð til almennings á Íslandi, sem notar tæplega 20 % af heild, ekki með því lægsta sem gerist. Þvert á móti hefur íslenzkur almenningur hagnazt mikið á sambýlinu við stóriðjuna, því að hún gerði það kleift að virkja stórt og hagkvæmt.  Stóriðjan hefur með öðrum orðum staðið undir uppbyggingu íslenzka raforkukerfisins, einnig flutningskerfisins.  Hitt er innantómur áróður afla af ýmsu tagi.  Fyrst kommúnista, sem hötuðust við erlendar fjárfestingar í landinu, síðan afturhaldssinna, sem bjuggu til einhvers konar trúarbrögð um, að nýting náttúruauðlinda væri af hinu illa, og nú gróðapunga, sem sjá fyrir sér skjótfenginn gróða með því að stórhækka raforkuverð í landinu með því að fá aflsæstreng til landsins.

Bjarni Jónsson, 12.9.2019 kl. 13:44

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góð greining sem fyrri daginn hjá Bjarna.

Jón Valur Jensson, 12.9.2019 kl. 15:51

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er mikill misskilningur að fyrirtæki semji um orkuverð sem þau ráða ekki við að greiða. Standi fyrirtæki frammi fyrir þeirri stöðu hlýtur það vitanlega að flytja sig annað eða hætta starfsemi. Og það ríkir ekki einokun á íslenskum orkumarkaði. Þar keppa nokkrir aðilar. Standi orkusali frammi fyrir því að stór kaupandi endurnýji ekki samning sinn hlýtur hann að lækka verðið, nema aðrir kaupendur séu tilbúnir til að greiða meira. Svo einfalt er nú það.

Og niðurgreiðsla til stóriðjunnar er staðreynd. Orkuverðið hefur lengst af alls ekki staðið undir eðlilegri ávöxtunarkröfu og þegar svo er þá er um niðurgreiðslu að ræða.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.9.2019 kl. 17:10

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

Bjarni mun svara þessu.

Jón Valur Jensson, 13.9.2019 kl. 18:33

12 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þegar ávöxtunarkrafa til fjárfestinga í orkumannvirkjum, sem að meginhluta eru fyrir orkusölu til stóriðju, er annars vegar, þá notar Þorsteinn Siglaugsson einfaldlega rangan mælikvarða.  Hann ber þessa ávöxtunarkröfu saman við ávöxtunarkröfu fjárfestinga í verkefnum með mun styttri endingartíma.  Allt frá dögum Viðreisnarstjórnarinnar á Íslandi hefur verið ljóst, að til að byggja upp orkukerfi landsins, virkjanir og flutningsmannvirki, með raforkusölu til alþjóðlegra stórfyrirtækja, væri eðlilegt að taka tillit til langs samningstíma við þessi fyrirtæki og til langrar endingar orkumannvirkjanna.  Nú eru sum þessara orkumannvirkja bókhaldslega afskrifuð, en þau munu mala eiganda sínum gull áratugum lengur, ef vel er haldið á spilunum.

Allt frá því um 1900 hefur þetta sjónarmið notið viðurkenningar í Noregi, og þar hefur jafnframt verið skilningur á því, að til að fá þessa alþjóðlegu starfsemi til sin (stóriðjuna), yrði við ákvörðun raforkuverðsins að taka tillit til meiri fjarlægða fyrir aðdrætti og afurðir en eru á meginlandi Evrópu.

Það er auðvitað rangt hjá Þorsteini, að orkukaupandi að yfir 300 MW afli, sem stendur frammi fyrir því, að orkusamningur hans er að renna út hérlendis, geti leitað tilboða á markaði um framlengdan samning.  Það er bara einn birgir, sem kemur til greina, og það fyrirkomulag heitir einokun.  Við sjáum það síðan í afkomutölum fyrirtækjanna, sem framlengt hafa orkukaupasamninga síðan 2010, að rafmagnskostnaðurinn sligar afkomu þeirra.  Þetta er mér kunnugt um frá Straumsvík, og þetta sést af sameiginlegri yfirlýsingu sveitarstjórna Akraness og Hvalfjarðarsveitar nýlega, þar sem þær lýsa miklum áhyggjum vegna atvinnuöryggis og framtíðartekna. Jafnframt furða þær sig á framgöngu Landsvirkjunar við samningaborðið og kalla eftir eigandastefnu ríkisins.  Sveigjanleikinn, sem fólst í að tengja rafmagnsverðið við afurðaverðið, var afnuminn að kröfu orkubirgisins.  Þetta setur nú framtíð þessara iðjuvera í hættu og þar með afkomuöryggi og verðmætasköpun í landinu í uppnám í þessum geira.  Þetta er afleiðing misbeitingar á einokunarstöðu. Á að trúa því, að þessi þróun mála sé með velþóknun ríkisstjórnar og Alþingis ?  

Bjarni Jónsson, 14.9.2019 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband