Náttúruauðlindirnar knýja hér hagkerfið áfram

Með náttúruauðlindum hérlendum er hér átt við lífríki hafsins í landhelgi Íslands, orkulindirnar jarðgufu og vatnsföll og sérstæða náttúru eldfjallaeyju norður við heimsskautsbaug.  Spurn er eftir þessu öllu, og nýting á öllum þessum auðlindum stendur undir hagkerfi landsins með sóma.  Nú sjáum við hagkerfið hins vegar gefa eftir vegna versnandi samkeppnisstöðu við útlönd með ískyggilega vaxandi atvinnuleysi sem afleiðingu. Fréttir um öra fækkun bandarískra ferðamanna til landsins um þessar mundir vekja ugg vegna mikilla fjárfestinga, sem ráðizt hefur verið í til að flytja og taka við ferðamönnum. Núverandi stöðu Icelandair í kauphöllinni má að töluverðu leyti skrifa á reikning Boeing, og enginn veit, hvort MAX-vélunum verður leyft að flytja farþega aftur.  Hönnunarsaga þessara véla, sem einn reyndasti þjálfunarflugmaður Íslands telur reyndar, að verði með öruggustu flugvélum eftir breytingar, sem flogið hafa, er sorglegt dæmi um dómgreindarleysi "baunateljara", sem láta ráðleggingar verkfræðinga sem vind um eyru þjóta. 

Það ríkir óvissa með lífríki sjávar vegna hlýnandi sjávar.  Loðnan er horfin af Íslandsmiðum og humarinn sömuleiðis, hvað sem verður.  Tegundir, sem áður fundust einvörðungu úti fyrir Suðurlandi, hafa nú breiðzt út norður fyrir land.  Útflutningur unninna fiskafurða dregst saman á kostnað útflutnings óunninnar vöru vegna samkeppnisstöðunnar, sem hefur versnað, enda er launakostnaður hérlendis sem hlutfall af verðmætasköpun fyrirtækja orðinn sá hæsti í heimi.

Ferðamannagreinarnar eiga allar erfitt uppdráttar.  Samkeppnisstaða Íslands um ferðamenn með áhuga á norðurhjara hefur versnað verulega, t.d. gagnvart Noregi, þar sem stöðug aukning er á ferðamannastrauminum, síðan NOK gaf verulega eftir m.v. EUR í kjölfar lækkunar á olíuverði 2013-2015. Vekur lág staða NOK undrun m.v. risavaxinn gjaldeyrissjóð landsins, sem ríkissjóður er farinn að hirða sneið af (hluta af vaxtatekjum) til rekstrar.  NOK hefur aldrei verið jafnlág m.v. EUR og nú, og skýringin kann að vera þessi: í fyrsta sinn um áraraðir er nú viðskiptajöfnuður Noregs við útlönd neikvæður.  Gas- og olíuvinnsla Noregs fer minnkandi og verð á þessum vörum er fremur lágt.  Atvinnulíf Noregs er gírað inn á þessar greinar og mun eiga erfitt með að skipta um vettvang. Þetta mun hafa áhrif á norskt þjóðlíf í átt til aukinna átaka.

Orkusækin málmframleiðsla hefur átt undir högg að sækja í heiminum undanfarin ár vegna offramboðs á vestrænum mörkuðum, þar sem Kínverjar hafa dembt miklu magni, t.d. af áli, inn á markaðina frá ríkisreknum eða ríkisstyrktum verksmiðjum sínum, sem kaupa rafmagn frá kolakyntum raforkuverum með lágmarks tilkostnaði og ófullnægjandi mengunarvörnum.  Á sama tíma hefur tilkostnaður íslenzkra álvera í sumum tilvikum aukizt gríðarlega vegna launahækkana og raforkuverðshækkana við endurnýjun samninga.  Þar sem mestar kostnaðarhækkanir hafa orðið, er nú bullandi taprekstur, sem auðvitað getur ekki gengið lengi.

LME-verð á áli er nú um 1700 USD/t.  Hámarksraforkukostnaður hérlendis jafngildir um 600 USD/t Al, súrálskostnaður um 600 USD/t Al, skautakostnaður um 400 USD/t Al.  Þá eru eftir 100 USD/t Al fyrir viðhaldsefni, launakostnaði, þjónustukostnaði, fjárfestingum auk eðlilegrar arðgjafar af eigin fé.  Það, sem hefur bjargað afkomu álveranna hérlendis, og þó ekki dugað í öllum tilvikum, er allt að 500 USD/ Al verðviðbót (premium) vegna gæða og sérhæfni. 

Því miður er útlitið á álmörkuðum ekki bjart á næsta áratug, og þess vegna hangir þessi starfsemi á bláþræði hjá þeim fyrirtækjum, þar sem raforkubirgirinn hefur knúið fram afnám tengingar álverðs og orkuverðs auk verulegrar hækkunar.  Kann svo að fara, að mjólkurkýrnar hætti að selja.  Orkubirgjarnir vita sem er, að á næsta leiti er Innri markaður Evrópusambandsins, sem getur tekið við allri tiltækri raforku héðan.  Því hefur hins vegar ekki verið svarað, hvort slík umskipti eru þjóðhagslega hagkvæm eður ei.  Er e.t.v. þjóðhagslega hagkvæmast að búa svo um hnútana, eins og gert var fyrir 2010, að hámarka megi verðmætasköpun í landinu sjálfu með orku landsins í stað þess að senda hana til útlanda til verðmætasköpunar þar.  Þurfum við ekki á að halda vaxandi fjölda fjölbreytilegra atvinnutækifæra hérlendis til að ungt kunnáttufólk kjósi sér búsetu hér til langframa fremur en annars staðar.  Rafmagnssala til útlanda skapar atvinnu í útlöndum, ekki á Íslandi, nema í litlum mæli. Að reiða sig að mestu á ferðamannastraum til landsins er fallvalt.

Núna eru orkumál landsins í deiglunni, og skiptir gríðarlega miklu fyrir hag landsins, hvernig til tekst um þá stefnumótun.  Með samþykki Orkupakka 3 (OP#3) gerðist Ísland aðili að ACER (Orkustofnun ESB) og batt þannig sitt trúss við Orkusamband Evrópu.  Það krefst alveg sérstakrar aðgæzlu og þekkingar að fást við þá aðild á farsælan hátt, og þess vegna var grein Elíasar Elíassonar, verkfræðings, og Svans Guðmundssonar, fiskeldisfræðings, í Morgunblaðinu 30. september 2019, sérstakt fagnaðarefni.  Heiti greinarinnar var:

"Ísland í Orkusambandi ESB",

og verður nú vitnað í hana:

"Íslenzk stjórnvöld þurfa að finna leiðir til að mæta kröfum almennings við að efla atvinnu og orkuvinnslu hér á landi óháð þeim vanda, sem orkuvinnsla Evrópu stendur frammi fyrir.  Þetta, ásamt ráðandi stöðu ESB innan EES-samstarfsins, er og hefur verið grundvöllur þeirrar kröfu almennings, að Ísland hafi sjálft full yfirráð yfir orkuauðlindum sínum og þeirri orku, sem frá þeim fæst."

Hér drepa þeir félagar á það, sem líklega má telja meginviðfangsefni íslenzkra stjórnvalda við framkvæmd EES-samningsins, en þau virðast því miður illa í stakkinn búin til þess og ekki átta sig fyllilega á um hvað orkustefna ESB snýst.  Bernska, blindni og lögfræðileg einhæfni hefur hingað til sett sitt mark á afstöðu íslenzkra stjórnvalda til orkustefnu ESB.  Gallar stjórnsýslunnar urðu svo aftur lýðum ljósir, þegar Ísland 17.10.2019 var sett á "gráan" lista alþjóðlegra samtaka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eftir langan aðdraganda og viðvaranir.  Eftir fúskið voru svo viðbrögðin þau að mótmæla því, að ástandið hér réttlætti að fara á þennan lista.  Hegðunin minnir á latan og/eða lítt gefinn nemanda, sem fellur á prófi og mótmælir því að vera felldur. Allt er þetta ömurlegur vitnisburður um núverandi ríkisstjórn.

   Til marks um firringuna, sem ríkir um EES-samninginn, er, að 01.10.2019 kom út 301 bls. skýrsla á vegum utanríkisráðuneytisins að beiðni Alþingis, og þar verður ekki séð í fljótu bragði, að minnzt sé einu orði á þessa hlið frjálsra fjármagnsflutninga eða málefnið, sem fjallað er um í tilvitnuninni hér að ofan.  Þessi ósköp uppskera stjórnvöld með því að setja einvörðungu til verka fólk með lögfræðileg einglirni, svo að ekki sé nú minnzt á vanhæfni vegna tjáðra einstrengingslegra skoðana um Orkupakka 3 (OP#3) og EES-samninginn á opinberum vettvangi.  Niðurstaðan er næsta gagnslítill doðrantur, sem segir meira um annmarka höfundanna en um mikilvægt viðfangsefnið.  Margfalt gagnlegri er skýrsla, sem út kom í Noregi í ágúst 2019, þótt hún sé mun styttri,og fjallaði m.a. um valkostina, sem Noregur hefur í viðskiptalegu tilliti við EES-samninginn.  Landsþing stærstu verkalýðssamtaka Noregs, Fellesforbundets, skaut föstu skoti framan við stefni EES með samþykkt 16.10.2019 á að greina hagstæðustu leiðina fyrir norsk tengsli við ESB og að segja sig úr ACER-Orkustofnun ESB, sem varð að veruleika 02.09.2019, þegar Alþingi samþykkti OP#3. 

Elías og Svanur tengja síðan saman loftslagsmál og orkumál Evrópusambandsins og þar með EES:

"ESB hefur nú sameinað loftslagsmál og orkumál undir hatti Orkusambands Evrópu og ætlast til þess, að við göngum þar inn á þeirra forsendum og leggjum okkar hreinu auðlindir undir þeirra stjórn.  En loftslagsmál eru ekki einkamál Evrópu, heldur alls heimsins."

Vegna samþykktar OP#3 og þar með aðildar Íslands að ACER, er Ísland nú í Orkusambandi Evrópu, þótt þangað eigum við ekkert erindi.  Íslenzk stjórnvöld hafa metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum, og það verður hægt að beita orkustefnu landsins fyrir vagn loftslagsstefnunnar með orkuskiptum, þ.e. að virkja og reisa flutningsmannvirki fyrir orku til að knýja verksmiðjur fyrir umhverfisvænt eldsneyti, t.d. vetni, etanól og repjuolíu, eða leggja dreifikerfi að hleðslustöðvum rafmagnsbíla. Ætti nýsköpunarráðherra að beita sér fyrir rannsóknum á sviði innlendrar framleiðslu vistvæns eldsneytis, svo að hætta megi innflutningi á eldsneyti með íblandaðri pálmaolíu með stóru kolefnisspori.  

Hættan er hins vegar sú, að ESB heimti, að við göngum enn lengra og virkjum fyrir raforkusölu um aflsæstreng, sem tengi Ísland við Innri markað ESB. OP#3 leggur drögin að aflsæstreng, sem fjárfestar kunna að gera tillögu um, og ágreiningur íslenzku ríkisstjórnarinnar og ACER um lagningu og tengingu slíks strengs gæti lent hjá EFTA-dómstólinum. Verði síðan af slíkum streng og Ísland innleiðir OP#4 í fyllingu tímans, þá mun áreiðanlega verða vísað til bindandi ákvæða í OP#4 um að veita leyfi til að rannsaka og virkja endurnýjanlegar orkulindir og tengja þær við flutningskerfið gegn gjaldi, sem er óháð vegalengd á milli tengistaðar og virkjunar.

Félagarnir, Elías og Svanur, eru ekki sannfærðir um, að hagkvæmasta leiðin fyrir Íslendinga sé að ganga Orkusambandi Evrópu á hönd:

"Án þess að útiloka samstarf höfum við því, þegar grannt er skoðað, trúlega betri tækifæri til að gera loftslagsmálum heimsins gagn utan Orkusambands Evrópu."

Þetta er jafngilt því að segja sem svo, að við getum þjónað sameiginlegum hagsmunum jarðarbúa betur með því að móta orkustefnu landsins sjálf, eins og við höfum gert hingað til.  Dæmi um þetta má taka af áliðnaðinum.  Hann keypti árið 2018 12,9 TWh (terwattstundir) af raforku og framleiddi þá tæplega 0,9 Mt af Al.  Ef þetta ál hefði ekki verið framleitt á Íslandi, hefði það áreiðanlega verið framleitt annars staðar og líklegast með raforku frá eldsneytisraforkuverum.  Algengasta tegundin þar eru kol, og af þeim þarf um 4,0 Mt til að framleiða 12,9 TWh.  Bruni þeirra myndar vart undir 14 Mt af CO2-gasi og kynstur af öðrum óheilnæmum gösum og sóti.  Þetta þýðir, að íslenzku álverin spara losun a.m.k. 12 Mt CO2/ár.

Sé notað jarðgas við raforkuvinnsluna, verður losunin minni, en hún getur líka orðið meiri, ef notuð eru kol með lágu orkugildi (brúnkol) eða raforkuverið er með mjög lága nýtni.  Sparnaðurinn, 12 Mt CO2/ár, er 2,4 föld losunin hérlendis (án millilandaflugs og millilandaskipa).  Í raun leggur þannig íslenzk stóriðja mest að mörkum hérlendis á alþjóðavísu í baráttunni við hlýnun jarðar.

Síðan útskýra þeir félagar í hverju áhyggjur þeirra eru fólgnar varðandi Orkusamband Evrópu:

"Innan EES-samstarfsins skrifar ESB allar nýjar viðbætur, sem EFTA-ríkin eiga síðan að samþykkja.  Það er auðvelt að gera mistök, þegar þannig er samið, og það virðist einmitt hafa verið gert í EES-samningnum, hvað varðar orkulindir Íslands.  

Skýrasta dæmið um þetta er e.t.v. úrskurður Eftirlitsnefndar EES [ESA] og bréf til íslenzkra stjórnvalda frá 20. apríl 2016 þess efnis, að allur réttur til að nýta náttúrulegar auðlindir í eigu almennings og ríkis fari fram á markaðsforsendum [þ.e. úthlutun alls nýtingarréttar hins opinbera fari fram á markaðsforsendum, og á þetta féllst íslenzka ríkisstjórnin skömmu síðar, svo að málið fór ekki fyrir EFTA-dómstólinn - innsk. BJo].  Þetta felur í sér, að markaðurinn á að ráða nýtingu og stjórnun auðlinda okkar, en eignarréttur okkar og fullveldi skulu sniðgengin. 

Afleiðing þessa úrskurðar ESA verður til þess að hækka orkuverð og minnka samkeppnisforskot íslenzkra iðnfyrirtækja gagnvart erlendum.  Þetta hvetur fyrirtæki til að flytja starfsemi eins og fiskvinnslu nær mörkuðunum inn í iðnaðarkjarna ESB, en erfitt verður fyrir íslenzkan iðnað að keppa á alþjóðlegum mörkuðum með evrópskt orkuverð.  Það sjá allir í hvaða hættu íslenzkum efnahag er stefnt, ef þessum úrskurði ESA er að fullu fylgt." [Undirstr. BJo.]

Utanríkisráðherrann á þessum tíma, Lilja Alfreðsdóttir, virðist þó ekki hafa áttað sig á téðri hættu fyrir íslenzkan fullveldisrétt til að stjórna orkulindunum, né forsætisráðherrann, Sigurður Ingi Jóhannsson, eða iðnaðarráðherrann, Ragnheiður Elín Árnadóttir.  Var utanríkismálanefnd höfð með í ráðum, þegar þessi endemisákvörðun var tekin, eða atvinnuveganefnd Alþingis ? 

Þessi afglöp vitna um brotalöm, þverbresti, í íslenzkri stjórnsýslu.  Það er með öllu óskiljanlegt, að þessi afdrifaríka uppgjöf gagnvart ESA skyldi eiga sér stað, og það þegjandi og hljóðalaust, enda tók norska stjórnsýslan allt annan pól í hæðina, þegar hún fékk svipaða fyrirspurn frá ESA 30.04.2019 (úrskurður ESA kemur ekki strax).  Norska olíu- og orkuráðuneytið tók þegar til varna og færði rök fyrir því, að tilskipanirnar, sem ESA beitti fyrir sig, og eru aðrar en gagnvart Íslendingum, ættu alls ekki við um raforkuvinnslu.  

Líklega mun iðnaðarráðherra núverandi ríkisstjórnar, Þórdís Reykfjörð, leggja á þessu þingi fram frumvarp um útfærslu umræddrar markaðsvæðingar.  Ef frumvarpið felur í sér, að téður nýtingarréttur verður boðinn upp eða boðinn út á Evrópska efnahagssvæðinu, þá gæti það orðið pólitískur banabiti þessa ráðherra og jafnvel ríkisstjórnarinnar allrar.  Ef ráðherrann gerir ekki neitt í þessu máli, þá er hætt við, að ESA ókyrrist og hóti málssókn á hendur ríkinu fyrir EFTA-dómstólinum  vegna vanefnda.  

Hér kann að verða um stórpólitískt mál að ræða bæði í Noregi og á Íslandi. "Fellesforbundet" lýsti því yfir á Landsþingi sínu 16.10.2019, að ef þessari kröfu ESA yrði haldið til streitu, neyddist Noregur til að segja upp EES-samninginum. Ef ESA/ESB ætla að framfylgja orkustefnu sinni í þessum löndum, Íslandi og Noregi, þá ryðja þau einkaframtakinu braut inn í orkuvinnsluna, t.d. með þeim hætti, sem að ofan er lýst.  Ætla má, að í báðum löndunum sé mikill meirihluti kjósenda á öndverðum meiði við ESA/ESB í þessu máli.  Ef þetta hrikalega mál fer á versta veg, kann að þurfa að velja á milli fullveldisréttar yfir náttúruauðlindunum og aðildar að EES. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband