Orkupakkarnir og loftslagið

Á þjóðhátíðardegi Þýzkalands (Der Tag der Wiedervereinigung Deutschlands), 03.10.2019, gekk Orkupakki 3 (OP#3) formlega í gildi í EES, þ.e. í EFTA-löndunum þremur, sem aðild eiga að þessu erfiða sambýli við Evrópusambandið, ESB, en OP#3 hafði gengið í gildi í ESB 03.03.2011.  

Mikilvægi EES-samningsins er stórlega ofmetið í skýrslu þriggja lögfræðinga, sem út kom 01.10.2019, og reynt er að láta þar líta út fyrir, að eini valkostur Íslands við hann sé ESB-aðild.  Það er fjarstæða, eins og sýnt var fram á í "Alternativrapporten" varðandi Noreg 2012, og hið sama á við um Ísland.  Fjölmennasta verkalýðsfélag Noregs hélt Landsþing sitt 11.-16. október 2019, og þar var samþykkt að segja upp ACER-aðild Noregs (ACER er Orkustofnun ESB, sem stofnað var til með reglugerð ESB nr 713/2013, og lögfræðingarnir Stefán Már og Friðrik Árni töldu stærstu stjórnlagalegu hindrunina í vegi samþykktar Alþingis á OP#3.).  Þetta sýnir vaxandi óánægju í hinu leiðandi EFTA-ríki innan EES með þróun samstarfsins við ESB, enda er þetta samstarf eins fjarri því og unnt er að geta kallst sanngjarnt samstarf á jafningjagrundvelli.  Þetta er "samstarf" húsbóndans og þrælsins, sem ber feigðina með sér.  

Orkusamstarf EES er skýrt dæmi um þetta, en gríðarleg sundurþykkja myndaðist bæði í Noregi og á Íslandi í aðdraganda innleiðingar á næstsíðasta afrakstri ESB í þessum efnum, OP#3.  Það er ömurlegt, að þvílík læti verði vegna orkustefnu, að stjórnmálaflokkar leika á reiðiskjálfi.  Það er auðvitað út af því, að orkustefna ESB og Orkusamband Evrópu þjóna ekki hagsmunum þessara tveggja norrænu landa, sem ekki búa við neinn skort á sjálfbærri orku, eins og flest eða öll ESB-löndin. Hagsmunir norrænu EFTA-ríkjanna og ESB fara þess vegna ekki saman í orkumálum. Það verður jafnframt ætlazt til þess, að þessi Norðurlönd leggi sitt að mörkum til að berjast við hlýnun jarðar með því að draga úr koltvíildislosun ESB við raforkuvinnslu og jafnvel húshitun.  

Nú líður að dæmi um þetta frá Noregi, þar sem er NorthConnect aflsæstrengur til Skotlands. Statnett (norska Landsnet) er á móti þessum streng af orkuöryggisástæðum í Noregi.  Það er jafnframt búizt við, að hann færi verðlag raforku í Noregi enn nær verðlagi raforku á Bretlandseyjum en nú er, og það er hátt, jafnvel á evrópskan mælikvarða.  Bretar hafa aðra orkustefnu en Þjóðverjar; ætla að loka síðasta kolakynta raforkuverinu 2025, einum áratugi á undan Þjóðverjum, og Bretar leyfa byggingu og rekstur kjarnorkuvera, sem Þjóðverjar ætla að binda enda á hjá sér 2022.  Það er hald margra, að orkustefna Þjóðverja sé óraunhæf og muni reynast hagkerfi þeirra ofraun, draga úr hagvexti þar og við núverandi aðstæður (með neikvæða vexti á skuldabréfum ríkisins) valda samdrætti hagkerfisins. Af ýmsum ástæðum ríkir nú mikil svartsýni í Þýzkalandi um efnahagshorfur næstu missera. 

Þann 20. september 2019 lauk 19 klukkustunda fundi þýzkrar ráðherranefndar um loftslagsmál á skrifstofu Angelu Merkel í Berlín.  Til marks um alvarleika málsins þrumaði Markus Söder, formaður bæverska CSU, systurflokks CDU, að ráðherrarnir hefðu hamrað saman "Marshall-áætlun fyrir loftslagsvarnir". 

Þýzkaland, sem er 6. í röðinni í heiminum yfir losun gróðurhúsalofttegunda, mun ekki ná losunarmarkmiðum sínum 2020. Þjóðverjar hafa sett sér strangari losunarmarkmið 2030 en flestir eða allir aðrir, þ.e. 55 % samdrátt koltvíildislosunar m.v. 1990. Það jafngildir fyrirætlun um, að þessi losun út í andrúmsloftið fari úr 866 Mt árið 2018 og í 563 Mt árið 2030.  Þetta er aðeins 35 % samdráttur, sem sýnir, að losunin árið 1990 var enn meiri en nú.  Þessu er öfugt farið á Íslandi.

"Marshall-áætlun" Þjóðverja er blanda af niðurgreiðslum og nýju regluverki ásamt fjárfestingum í auknum innviðum fyrir rafmagnsbíla og rafknúnar járnbrautarlestir.  Hún gerir líka ráð fyrir hreinni upphitunarkerfum húsnæðis og fjölgun vindmyllna, en nú þegar hefur hægt á henni vegna andstöðu íbúanna.  Hryggjarstykkið er skyldukaup á kolefniskvóta í geirum, sem kolefniskvótar ESB-spanna ekki,  umferð og byggingar.  Lokamarkið er kolefnishlutleysi árið 2050.

Sumir sérfræðingar höfðu vonazt eftir upphafsverði á þessum koltvíildiskvóta a.m.k. 50 EUR/t, sem myndi hækka upp í 100 EUR/t, til að örva fjárfestingar í hreinu eldsneyti og í breytingum á kyndikerfum  húsnæðis og til að hvetja til flýttrar lokunar kolakyntra orkuvera, sem núna sjá Þýzkalandi fyrir 29 % raforkuþarfarinnar.  Þess í stað mun upphafsverðið verða "aðeins" 10 EUR/t f.o.m. 2021 og hækka upp í 35 EUR/t 2025, og síðan verða viðskipti með koltvíildiskvóta á fyrirfram ákveðnu verðbili.  Við þessa ákvarðanatöku hefur nýhafið efnahagslegt samdráttarskeið í Þýzkalandi (2 samliggjandi ársfjórðungar með minni verðmætasköpun en samsvarandi ársfjórðungar árið á undan) vafalaust haft áhrif.  Við slíkar aðstæður auka ígildi skattahækkana við efnahagsvandann. Það er ekki gert ráð fyrir endurgreiðslum skattheimtunnar, eins og tíðkast í British Columbia.  Lisa Badum, talsmaður Græningja í umhverfismálum, lýsti þessari "Marshall-áætlun" sem allsherjar mistökum.

Það er minnkandi bílaframleiðsla í Þýzkalandi, sem talin er vera undirrót 2/3 þessa efnahagsvanda, en þýzkur bílaiðnaður heldur nú að sér höndum vegna útblásturshneyksla hjá dráttarklárum þýzks bílaiðnaðar. Um 1/3 vandans er talinn stafa af áhyggjum út af BREXIT.  Þýzki iðnaðarrisinn er að verða tilbúinn með nýjar gerðir umhverfisvænna bifreiða á markað og mun í fyllingu tímans hefja öfluga gagnsókn, sem vafalítið mun bera góðan árangur.

Olaf Scholz, fjármálaráðherra, lýsti því yfir við kynningu á "Marshall-áætluninni", að fjárfestingar ríkissjóðs vegna orkuskiptanna myndu á næstu 4 árum nema mrdEUR 54.  Fært til Íslands næmi það mrdISK 32, og er dágóð upphæð, en Þjóðverjar vilja ekki taka lán fyrir fjárfestingum í þágu orkuskiptanna, jafnvel þótt þýzka ríkissjóðnum bjóðist lán á neikvæðum vöxtum.  Þeir halda sig ofan við "svarta núllið", þ.e. halda ríkisrekstrinum í jafnvægi, þótt á móti blási.

Staðan í þjóðarbúskapnum ræður för, og enginn skilur, hvernig Þjóðverjar ætla að standa við metnaðarfull markmið sín í orku- og loftslagsmálum.  Það er eins og beðið sé eftir "Wunderwaffen".  Slík undravopn geta verið á næsta leiti með gegnumbroti í þróun nýrra orkugjafa, t.d. þóríum-kjarnorkuvera.  Angela Merkel segist skilja gagnrýnina frá Græningjum, en stjórnmálamenn verði að tryggja, að þeir njóti stuðnings borgaranna.  Kanzlarinn veit, að stuðningur kjósenda við loftslagsvarnir dvínar, þegar þeir eru spurðir um tilgreindar fórnir, sem þeir séu tilbúnir að færa.  Erfiðu ákvarðanirnar verða geymdar handa næstu ríkisstjórn.  Ef Annegret Kramp Karrenbauer stendur sig vel sem arftaki Ursulu von der Layen í embætti landvarnaráðherra, stendur hún vel að vígi sem kanzlaraefni í næstu kosningum til Bundestag, annars ekki. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sch Thorsteinsson

 

Sæll Bjarni,

Takk fyrir þessar upplýsingar , en rétt eins og Bilderberg Group er og hefur verið á bakvið ESB, þá er Rómarklúbburinn (Club of Rome) á bakvið allan þennan svokallaða loftslagsáróður af mannavöldum fyrir banka- og fjármálaelítuna (Committee of 300). 


Þorsteinn Sch Thorsteinsson, 24.10.2019 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband