25.10.2019 | 11:13
Afleiðingar sæstrengsumsóknar
Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, ritaði eina af sínum gagnmerku hugleiðingum í Morgunblaðið 21. september 2019, og hét hún:
"Ótti leiðir í snöru".
Arnar Þór hefur áhyggjur af því, hvernig íslenzk stjórnmál hafa þróazt og raunar allar þrjár greinar ríkisvaldsins, einkum þó löggjafarvaldið. Vitað er, að fjárfestar hafa hug á að leggja og reka aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands og tengja þannig "orkuríkt" Ísland við Innri raforkumarkað ESB, sem sárvantar raforku úr sjálfbærum orkulindum og mun líklega greiða hærra verð fyrir hana á næsta áratugi, þegar orkufyrirtækjunum verður gert að kaupa sér koltvíildiskvóta við síhækkandi verði. Hvernig munu Íslendingar bregðast við slíkri sæstrengsumsókn ?
Í þessu sambandi er áhugavert að fylgjast með þróun sæstrengsmála í Noregi. Tveir stórir (1400 MW) sæstrengir verða teknir í brúk þar 2020-2021, annar til Þýzkalands og hinn til Englands. Afleiðingin verður harðari samkeppni um raforkuna í Noregi, minni varaforði í miðlunarlónum og þar af leiðandi hærra raforkuverð á orkumörkuðum í Noregi (orkukauphöllum).
Þá er beðið með talsverðri eftirvæntingu eftir afgreiðslu umsóknar NorthConnect-félagsins um 1400 MW sæstreng á milli Noregs og Skotlands. Ef af honum verður, mun verðmunur raforku á Bretlandi og í Noregi sennilega þurrkast út með þeim alvarlegu afleiðingum, sem það hefur á samkeppnishæfni Noregs innanlands og utan.
Hvaða afleiðingar telur Arnar Þór, að innleiðing OP#3 hafi á sjálfsákvörðunarrétt Íslands í sæstrengsmálum?:
"Því miður sýnist staðan vera sú, að íslenzk stjórnmál séu föst á milli tveggja elda; til annarrar hliðar ofurseld reglusetningarvaldi ESB í flestu, sem máli skiptir, en stjórnist að hinu leytinu af hræðslu við fjölmiðla og "almannatengla" í málum, sem að nafninu til eiga þó að lúta forræði Alþingis. Hér skal ekki lítið úr því gert, að Evrópuréttur hefur á ýmsan hátt bætt íslenzkan rétt. Það réttlætir þó ekki, að Alþingi víki sér, á ögurstundu, undan því að axla ábyrgð á löggjafarvaldinu og kjósi, þegar upp koma sérlega umdeild mál, eins og O3, að leggja á flótta með því að setja svo misvísandi reglur, að helzt má líkja þeim við óútfylltar ávísanir til dómara."
Dæmið, sem dómarinn tilfærir, sýnir, svo að ekki verður um villzt, í hvílíkar ógöngur löggjafinn ratar, þegar hann stendur frammi fyrir "skítamixi" ráðuneytanna til að sniðganga Stjórnarskrána, svo að á yfirborðinu sé hægt að innleiða gerðir Evrópusambandsins í íslenzka lögbók.
Þetta fyrirkomulag; að taka við yfirgripsmiklum lagabálkum ESB og færa þannig lagalega bindandi ákvörðunarvald til stofnunar Evrópusambandsins, hér ACER, hefur nú gengið sér til húðar, því að þar með erum við í stöðu hjálendu Evrópusambandsins.
Hver er munurinn á þessu fyrirkomulagi og stjórnarháttum einveldistímans á Íslandi, þegar hirðstjóri Danakonungs mætti með tilskipanir og reglugerðir frá Kaupmannahöfn og lagði þær fyrir þingheim á Þingvöllum til samþykktar og innleiðingar í löggjöf landsins ?
"Með innleiðingu O3 í íslenzkan rétt og samhliða séríslenzkum lagalegum fyrirvörum, sem beinast gegn markmiðum O3, hefur sjálft Alþingi brotið gegn því meginmarkmiði réttarríkisins, að lög séu skýr og skiljanleg. Með því að tala tungum tveim í málinu hefur þingið leitt misvísandi reglur í lög og þar með skapað innri lagalegar mótsagnir.
Þá hafa þingmenn með þessu vinnulagi í raun sett afturvirk lög, sem einnig er brot gegn því, sem réttarríkið stendur fyrir. Lagalegri óvissu, sem af þessu leiðir, verður ekki eytt fyrr en dómstóll, að öllum líkindum EFTA-dómstóllinn, hefur kveðið upp úr um það, hvort íslenzka ríkinu sé nokkurt hald í margumræddum lagalegum fyrirvörum Alþingis við O3."
Ef fjárfestar sjá gullið viðskiptatækifæri fólgið í því að tengja saman íslenzka raforkukerfið og Innri markað ESB vegna mikils verðmunar á þessum mörkuðum án tillits til mikils flutningskostnaðar, þá munu þeir búa til verkefni um þá viðskiptahugmynd, og hún verður lögð fyrir landsreglara ACER í sitt hvorum enda tilvonandi sæstrengs.
Höfundi pistilsins þykir líklegt, að verkefnið verði í tveimur áföngum, þ.e. 2x500 kV DC, 600 MW, sæstrengir (sjór og hafsbotn ekki notaðir sem straumleiðari af öryggisástæðum) í hvorum áfanga með viðkomu í Færeyjum, með möguleika á tengingu við færeyska landskerfið, ef Færeyingar kæra sig um.
Kerfi af þessu tagi myndi útheimta fjárfestingu um mrdUSD (2x2,5) með 30 % óvissu. Árlegur kostnaður fjárfestanna í USD/MWh fer eftir því, hversu mikill hluti af endabúnaði sæstrengjanna lendir á flutningsfyrirtækjunum í sitt hvorum enda, og hversu mikill orkuflutningur mun eiga sér stað, og hver borgar flutningstöpin, sem eru umtalsverð með töpum í afriðla- og áriðlabúnaði.
M.v. raforkuverðið 50 EUR/MWh, sem er algengt heildsöluverð á Nord Pool kauphöllinni um þessar mundir, er þetta engan veginn arðsöm orkusala frá Íslandi. M.v. hækkun upp í 80 EUR/MWh (60 % hækkun) vegna koltvíildiskvóta á orkuvinnslufyrirtækin í Þýzkalandi (og kannski víðar) árið 2025 að upphæð 35 EUR/t CO2, þá verður þessi flutningur aðeins arðsamur, ef fjárfestarnir þurfa ekki að borga endabúnaðinn, og með því að fullnýta flutningsgetu strengjanna. Þetta verkefni er miklum vafa undirorpið án styrkja og/eða niðurgreiðslna, sem Evrópusambandið þó vissulega beitir sem lið í orkustefnu sinni, og stefna þess er vissulega að tengja jaðarsvæði Evrópu við Innri markað sinn.
Hins vegar er ljóst, að það er mesta glapræði fyrir orkufyrirtæki á Íslandi, sem eru með langtímasamninga um raforkusölu við iðjufyrirtæki, að setja þá samninga í uppnám með það í huga að græða meira á viðskiptum á Innri markaðinum. Þau eru algerlega undir hælinn lögð og alls engin trygging fyrir háu orkuverði til framtíðar, þótt næsti áratugur geti litið þannig út. Enginn í Evrópu mun tryggja íslenzkum orkubirgjum hátt framtíðarverð fyrir raforku frá Íslandi. Ástæðan er sú, að alger óvissa ríkir um framtíðarverðið. Á næsta áratugi er þó líklegt, að dragi til tíðinda við þróun raforkugjafa, sem jafnvel græningjar geta samþykkt.
Arnar Þór Jónsson benti í grein sinni á líklega sviðsmynd, sem gæti orðið uppi á teninginum þegar á þessu kjörtímabili. Þar er líklega komin snaran í heiti greinarinnar:
"Ef alvarleiki framangreindra atriða nægir ekki til að viðhalda umræðum um það, sem hér hefur gerzt, má vænta þess, að sú umræða lifni af fullum krafti, þegar og ef í ljós kemur, að O3 var ekkert "smámál", eins og meirihluti þingmanna lét þó í veðri vaka. Eins og ég hef áður bent á, gæti það t.a.m. gerzt með því, að höfðað verði samningsbrotamál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum. Ráðherrar, þingmenn og ráðgjafar þeirra, mega þá búast við, að opinbert verði, að þeir hafi farið með staðlausa stafi um mögulega nauðvörn á grunni hafréttarsáttmálans [og] um ómöguleika þess að nýta undanþáguheimildir EES-samningsins eða um óskert fullveldi Íslands yfir raforkulindum. Það væri ekki léttvægur áfellisdómur, sem menn hefðu kveðið upp yfir sjálfum sér, ef í ljós kæmi, að fræðimennskan reyndist innistæðulaus, sjálfsöryggið aðeins gríma, yfirlætið tilraun til að breiða yfir óvissu og fela undirliggjandi ótta."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill Bjarni, ætli yfirlæti þeirra kalli ekki á skömm sem þeir einhvernvegin munu breiða yfir,en nú er þjóðin búin að fá nóg og held að engan langi að breiða yfir bresti þeirra eða þaðan af verra. Ísland er okkar um aldur og ævi....
Helga Kristjánsdóttir, 25.10.2019 kl. 19:24
Það verður að spyrna við fótum nú, Helga, þ.e. ekki síðar en í næstu kosningum, og af Reykjavíkurbréfinu í dag er ljóst, að mönnum blöskrar, hversu djúpt Alþingi er sokkið. Það þarf að hætta að taka gagnrýnislítið við löggjöf frá ESB, sem samin er fyrir allt annað umhverfi en hér er.
Bjarni Jónsson, 26.10.2019 kl. 18:32
Takk fyrir enn einn snilldarpistilinn Bjarni.En það er enginn neyðarhemill þetta fólk fer bara sínu fram sama hvað vitlaust það er.
þetta er bara algert stjórnleisi.eða réttarasagt öll stjórnun er frá esb.
ÖMURLEGT
KV af Suðurlandi
Óskar Kristinsson, 26.10.2019 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.