28.10.2019 | 11:42
Samkeppnishæfni á niðurleið
Það eru váboðar í efnahagslífi landsins bæði nær og fjær. Fyrirtækin eiga langflest erfitt uppdráttar, og eftir gerð Lífskjarasamninganna hefur atvinnuleysið aukizt geigvænlega miðað við árstíma. Kostnaður atvinnulífsins er of mikill m.v. tekjurnar, og þessi kostnaður fer enn vaxandi, þótt verðbólgan og stýrivextir Seðlabankans undir stjórn nýs Seðlabankastjóra fari lækkandi. Þessu má m.a. um kenna stöðugt vaxandi skattheimtu, aðallega sveitarfélaganna, sem sjást ekki fyrir við álagningu t.d. fasteignagjalda. Við þessar aðstæður er ekki kyn, þó að keraldið leki, og 10.10.2019 birti Morgunblaðið frétt frá "World Economic Forum" (WEF)(Heimshagkerfisvettvangur (Alþjóða efnahagsráð er röng þýðing)), sem leiddi í ljós, að slök staða Íslands í heimshagkerfinu fór enn versnandi 2018. Það er auðvitað bábylja, að EES-aðild tryggi samkeppnishæfni. Óhentugt og ofvaxið reglusetningar- og eftirlitsbákn innleitt hér frá Brüssel lendir allt á kostnaðarhlið atvinnulífsins í landinu. Stjórnmálamenn og skrifræðisberserkir Stjórnarráðsins hafa í heimsku sinni gengizt upp í því að leggjast á sveif með harðsvíruðustu skrifræðispúkunum í Brüssel, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, t.d. Morgunblaðinu í dag, 28.10.2019. Þegar aðeins á að slaka á klónni, rís "Kúba norðursins" og aðrir slíkir upp á afturlappirnar og fjargviðrast út af því, að nú eigi að ganga erinda stórfyrirtækja. EES-farganið leggst því þyngra á fyrirtæki, þeim mun minni sem þau eru, því að löggjöf ESB er miðuð við allt aðra og stórkarlalegri samsetningu atvinnulífsins en hér tíðkast.
Kostnaðarvandinn dregur mátt úr fyrirtækjunum til fjárfestinga og nýsköpunar. Hið opinbera er sökudólgurinn með einhverja mestu skattpíningu í heimi og stærstu hlutdeild hins opinbera m.v. vestræn hagkerfi, og enn á að auka í, nú undir yfirskyni umhverfisverndar við undirspil dómsdagsspámanna. Þessi græna skattatefna er tómt píp, eins og sannast á því, að útgerðin, sem þegar hefur náð markmiðum Íslands fyrir sitt leyti um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda 2030, fær enga umbun fyrir það með niðurfellingu "grænna skatta" á eldsneyti útgerðarinnar. Með því að fella þá niður á útgerðirnar gætu þær hafið næsta stig tækniþróunarinnar, sem er að knýja litla farkosti með rafmagni og stór fiskiskip með lífdísilolíu unninni úr jurtum ræktuðum hérlendis, t.d. repju, sem grundvöllur hefur verið lagður að.
Umhverfisráðherrann má vart vatni halda af hrifningu yfir urðunarskatti, sem fyrirhugaður er þrefalt hærri en að meðaltali í Evrópu og Sorpa hefur gagnrýnt harðlega og telur ekki munu koma að neinu haldi í baráttunni fyrir minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Pípið kemur úr æðstu lögum stjórnsýslunnar, sem halda, að þau slái með því pólitískar keilur. Vonandi fá þau bjúgverpil í fangið í næstu kosningum.
Útþensla hins opinbera í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið gegndarlaus, mikið undir formerkjum: "Hér varð hrun". Sveitarfélögin flest stunda eignaupptöku af heimilum og fyrirtækjum með hóflausum fasteignagjöldum, og höfuðborgin bítur höfuðið af skömminni með innviðagjöldum, sem virðast ekki eiga sér stoð í lögum. Við þessar aðstæður er Borgarlínan hreint bruðl, því að hún er reist á óskhyggju borgarstjóra og meðreiðarsveina/meyja um, að hún muni fækka bílum í umferðinni vegna aukningar á hlutdeild strætó í fólksfjölda í umferðinni úr 4 % í 12 %. Reynslan af fjölgun strætóferða og sérakreinum sýnir, að þetta mun einfaldlega ekki gerast, og þá sitjum við uppi með aðþrengda bílaumferð og misheppnaða, burtkastaða fjárfestingu um a.m.k. mrdISK 50 í fyrsta áfanga í stað þess að beina fénu þangað, sem það gefur árangur strax í öruggari og greiðari umferð fjöldans. Hér er nóg rými fyrir þau umferðarmannvirki, sem nauðsynleg eru til að anna farartækjunum, sem fólkið hefur fest kaup á til að komast hratt og örugglega á milli staða, ef vinstri-vinglar verða ekki látnir komast upp með skemmdarverk, eins og skipulagning byggðar á svæðum, sem bezt henta umferðarmannvirkjum. Stríð borgarstjóra og rauðvínssötrandi sérvizkulýðs í kringum hann gegn fjölskyldubílnum er stórskaðlegt, rándýrt og verður að brjóta á bak aftur hið snarasta.
Samkvæmt "WEF" eru mælikvarðar þessa hagvangs fjölmargir, bæði efnahagslegir, félagslegir og lífsgæðatengdir, en þyngstir á metunum eru þættir, sem leiða til eða styðja við framleiðniaukningu. Að Ísland skuli lenda í 26. sæti og falla um tvö sæti árið 2018 er grafalvarlegt fyrir framtíðar lífskjör á Íslandi. Framleiðniaukningin hefur hins vegar verið þokkaleg frá Hruni, en það eru greinilega feysknar stoðir undir henni. Stjórnvöld fljóta sofandi að feigðarósi, eins og fyrri daginn, enda lítill skilningur þar á þörfum atvinnulífsins.
Í ljósi þess, sem vitað er um áhrifaþætti á framleiðniaukningu, er óráðlegt fyrir smáþjóð (small is beautiful) að gangast undir það jarðarmen að þurfa að innleiða alla þá lagasetningu, sem 500 milljóna ríkjasambandi dettur í hug að láta EFTA-ríkin innleiða til að þau fái óheftan aðgang að Innri markaði ESB. Fyrir nokkrum árum gerði Viðskiptaráð Íslands athugun á byrðinni, sem atvinnulífinu væri gert að bera vegna reglusetninga og eftirlits hins opinbera. Það eru tugmilljarðar í beinan kostnað til stofnana og til eigin starfsmannahalds, en hinn óbeini kostnaður hleðst ört upp og er margfaldur á við beina kostnaðinn, því að hann var þá (2015) talinn valda 0,5 % minni framleiðniaukningu á ári en ella, og eftir innleiðingu viðamikilla lagabálka um fjármálaeftirlit, persónueftirlit og orkueftirlit (OP#3), hefur enn sigið á ógæfuhliðina.
Nú er næsta víst, að það, sem væri hægt að grisja úr reglugerðafrumskóginum eftir uppsögn EES-samningsins, mundi geta aukið framleiðniaukningu á ári um a.m.k. 0,5 %. Er raunhæft að reka þetta reglugerðafargan á dyr ? Við verðum að hafa eftirlitsstofnanir, en það eru fyrirtækin sjálf, sem annast vottað gæðaeftirlit samkvæmt ISO-stöðlum, sem markaðurinn í Evrópu og annars staðar tekur mark á.
Í ágúst 2019 kom út í Noregi skýrsla, sem Menon Economics gerði fyrir "Nei til EU" um hagræn áhrif EES-samningsins í Noregi og valkosti við hann. Niðurstaðan var sú, að nýlegir fríverzlunarsamningar ESB við Kanada og Japan fella niður toll á öllum vörum á 7-15 árum, og verða þeir þá útflytjendum unninna fiskafurða hagfelldari en EES-samningurinn. 15 % af vörusendingum lenda í einhvers konar tollskoðun, og hljóta EFTA-ríkin að geta samið um miklu lægra hlutfall gegn gæðatryggingu og vegna núverandi aðlögunar sinnar að ESB, svo að vöruflutningar geti að mestu gengið jafnsnurðulaust og núna.
Samþykkt Íslands á Orkupakka 3 (OP#3) og þar með aðild landsins að Orkusambandi Evrópu getur haft skelfileg áhrif á samkeppnishæfni Íslands, því að yfirlýst stefna ESB er að hvetja með lagasetningu, ívilnunum og styrkjum, til eflingar millilandatenginga fyrir orkuflutninga til að jafna orkuverðið innan Orkusambandsins og skapa betra jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar. Nú væri hægt að leggja 600 MW sæstreng um Færeyjar og til Skotlands með styrk frá ESB, sem næmi kostnaði við endabúnaðinn (afriðlar/áriðlar) og selja orku inn á strenginn fyrir um 40 USD/MWh með flutningskostnaði frá virkjun að streng. Þetta er nálægt núverandi viðmiðunarverði Landsvirkjunar til stórnotenda. Þar með þyrfti íslenzkt athafnalíf að keppa um íslenzka orku við fyrirtæki með að mörgu leyti hagstæðari staðsetningu. Þessi orkustefna ESB er Íslandi einfaldlega mjög í óhag, því að mesta samkeppnisforskot Íslands er fólgið í sjálfstæðri nýtingu fiskveiðilögsögunnar og sjálfstæðri nýtingu endurnýjanlegra, hagkvæmra orkulinda, sem gefa kost á tiltölulega lágu orkuverði.
Jafnvel þótt enginn sæstrengur væri í sjónmáli, er hætt við, að tiltektir Landsreglarans muni valda verðhækkunum á raforkumarkaðinum. M.v. tiltektir þessa embættis í öðrum löndum, t.d. í Svíþjóð, og samræmda stefnu í öllum aðildarlöndum EES, sem er höfuðatriði fyrir Framkvæmdastjórnina, má vænta gjaldskrárhækkana hjá Landsneti og dreifiveitunum umfram verðlagsþróun í meiri mæli en verið hefur, og hefur hún þó numið 7 % - 8 % frá innleiðingu OP#1.
Þá ber Landsreglara að koma á markaðsstýringu raforkuvinnslunnar í stað orkulindastýringar, og fer hún fram í orkukauphöll, sem stofnuð verður, og það er engin leið að sjá, að þessi aðferð geti leitt til verðlækkunar á raforku á Íslandi, þótt ráðherra orkumála hafi verið talin trú um það og hún síðan boðað fagnaðarerindið. Þetta er einvörðungu ráðstöfun til að laga íslenzka raforkumarkaðinn að Innri markaði ESB, sem hentar þetta fyrirkomulag, þannig að íslenzki raforkumarkaðurinn geti hnökralaust tengzt Innri markaðinum með aflsæstrengjum í fyllingu tímans.
Raforkuverðið mun í orkukauphöllinni sveiflast innan sólarhringsins, verða hæst á toppálagstíma á daginn á virkum dögum og lægst að næturlagi. Notendur geta spilað á þetta, sérstaklega eftir að þeir fá til sín snjallmæla, þar sem orkuverðið og orkunotkunin í rauntíma (aflið) verða sýnd. Á sumrin verður orkuverðið lægra en á veturna, ef vel gengur með fyllingu miðlunarlóna, en það getur hækkað mjög á útmánuðum á meðan vatnsstaðan fer enn lækkandi í miðlunarlónum og lítið er eftir. Það er hætt við, að niðurstaðan verði hækkun meðalverðs.
Þegar illa árar í atvinnulífinu, eins og nú stefnir í, getur slík þróun á kostnaði riðið þeim fyrirtækjum að fullu, sem eru með þungan rafmagnsreikning fyrir, og heimili gætu neyðzt til þess að spara rafmagn. Sú er reynslan frá Noregi, sem hefur búið við markaðsstýringu raforkuvinnslunnar síðan 1990 og fær nú yfir sig Landsreglara (RME-reguleringsmyndighet for energi). Þar leggst reykjarsvæla yfir hverfi og byggðir í kuldatíð, því að fólk kyndir þá með viði fremur en rafmagni. Fjarvarmaveitur heyra þar til undantekninga, svo að framboðshliðin er einsleit, en ekki innbyrðis ólík, eins og hér.
Þetta kerfi er til þess fallið að vekja upp mikla óánægju almennings í landi, þar sem raunverð raforku fór lækkandi fyrir innleiðingu OP#1 og þar sem megnið af orkulindunum og orkufyrirtækjunum er enn í almannaeigu. Eigendurnir eiga rétt á að krefjast þess, að fyrirtækin séu rekin með hagsmuni þeirra fyrir augum. Það er auk þess fullveldisréttur hverrar þjóðar að ráða, hvernig stjórnun náttúruauðlindanna er háttað. Almenningur hefur aldrei verið spurður um þetta. Samt hefur ríkisstjórn og meirihluti á Alþingi tekið sér bessaleyfi til að ákveða að fela yfirþjóðlegu valdi að ráðskast með þessi mál. Þetta eru veigamikil mistök, sem Miðflokkurinn barðist þó öttullega gegn á þingi, eins og í minnum er haft, og Flokkur fólksins og Ásmundur Friðriksson, auk fjölmargra utan þings, vöruðu við.
Í þingræðisskipulagi virkar lýðræðið einfaldlega þannig, að vanþóknun eða velþóknun kjósenda á þessum málatilbúnaði öllum mun koma í ljós í næstu Alþingiskosningum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Flott grein og virkilega vel unnin og tek ég undir allt sem í henni stendur.....
Jóhann Elíasson, 29.10.2019 kl. 16:57
Þakka þér fyrir, Jóhann.
Bjarni Jónsson, 29.10.2019 kl. 20:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.