15.11.2019 | 22:23
"Arðbærar loftslagsaðgerðir"
Þann 24. október 2019 birtist dæmalaus grein í Fréttablaðinu undir ofangreindri fyrirsögn eftir Ingólf Hjörleifsson, aðjunkt við eitthvert Verkfræði- og náttúruvísindasvið (við hvaða skóla kom ekki fram). Af greininni framgengur draumur stæks vinstri græningja, hvort sem hann fylgir VG að málum eður ei, um afturhvarf til fortíðar, nú í krafti skefjalauss hræðsluáróðurs um náttúruhamfarir af mannavöldum. Dómsdagsspámenn finna sér alltaf ný tilefni til að láta að sér kveða, og andstæðingar iðnvæðingar Íslands hafa alltaf bundið upp í "Zeitgeist" hvers tíma og flengriðið honum gegn framförum landsins í atvinnulegu tilliti.
Fyrsta skotmarkið er fjölskyldubíllinn, sem þó er langflestum fjölskyldum á Íslandi gríðarlega mikilvægur vegna búsetu þeirra, atvinnusóknar, skólasóknar afkomendanna og tómstundaiðkunar fjölskyldunnar. Hann sparar gríðarlegan tíma, eykur þægindi og skapar fjölskyldunni áður óþekkt frelsi. Fjölskyldubíllinn fól í sér byltingu lífsgæðanna til hins betra, og almenningssamgöngur eða reiðhjól koma aldrei í hans stað. Það þarf verulega veruleikafirringu til að láta sér detta það í hug, hvað þá að berjast fyrir því hérlendis. Hann er hins vegar dýr, en vegna orkuskiptanna, sem líka eru nauðsynleg til að varðveita loftgæði, aðallega í þéttbýli, stendur rekstrarkostnaðarhliðin til bóta hérlendis vegna nægra ónýttra endurnýjanlegra orkulinda. Þá mega orkufyrirtækin hér reyndar ekki leika lausum hala. Nú verður litið á skrif téðs aðjunkts:
"Róttækar breytingar í lagaumhverfi bílaflotans. Rafmagnsbílum fjölgar ört eða um 15 - 20 % [af hverju ?] á næstu árum, en það nægir engan veginn til að uppfylla skilyrði Parísarsamkomulagsins frá 2016 [40 % minni losun CO2 árið 2030 en árið 1990 - innsk. BJo]. Tilkoma Borgarlínu er vissulega mótvægisbyggjandi, en takmarkaður þáttur. Ökutækjum á vegum þarf einfaldlega að fækka, svo [að] um munar."
Þessi forræðishyggja er einfaldlega óþolandi og ólíðandi. Það er ekki í verkahring yfirvalda að ákveða, hvers konar samgöngutæki borgararnir velja sér til handa. Dagdraumar um Borgarlínu snúast einmitt um að veita Strætó forgang í umferðinni, og þá er hætt við, að þrengt verði enn að fjölskyldubílnum, sem augljóslega þarf þó fleiri akreinar á stofnbrautum. Reynslan hingað til af auknum fjárveitingum til Strætó til að auka hlutdeild hans í umferð gefur hins vegar sterka vísbendingu um, að fjárfestingar í Borgarlínu verði algerlega misheppnaðar og árangurslausar í þá veru að fækka bílum í umferðinni. Nær væri að verja fénu af skynsemi og fjárfesta í að greiða götu vaxandi fjölda fjölskyldubíla. Það er tæknilega vel framkvæmanlegt og ódýrara en Borgarlínuævintýrið. Viðbárur um, að nýjar akreinar fyllist strax af bílum eru gott dæmi um afturhaldshugsun, sem er eiginlega þéttbýlisfjandsamleg.
Næst kemur stalínistísk sýn Ingólfs á skipulagslausnir:
"Þörf er á nýjum og haldbærum breytingum, sem samtengja bílaeign við búsetu. Nota mætti hlutfall af fermetrastærð fasteigna sem mælistiku fyrir fjölda ökutækja, sem hægt væri að skrá á viðeigandi eign."
Ekki er vaninn að skrá ökutæki á fasteign, heldur á einstakling eða lögaðila. Þetta fyrirkomulag setur einstaklingsfrelsi í landi, þar sem gnótt er landrýmis, allt of miklar og algerlega óþarfar skorður. Þetta er ofstjórn. Á t.d. að meina þremur, sem búa í 60 m2 íbúð, að eiga 3 bíla ?
Í næsta þætti tekur steininn úr, því að þar beinast fordómarnir gegn einu fyrirtæki, sem stundar hér heiðvirða og merka starfsemi, og hefur skapað landinu gríðarlegar gjaldeyristekjur í hálfa öld:
"Straumsvík getur orðið hafnarsvæði fyrir skemmtiferðaskip á höfuðborgarsvæðinu. Þessum fljótandi borgum ætti að vera óheimilt að liggja við landfestar og framleiða rafmagn með brennslu jarðeldsneytis. Ef markmiðið er að þjóna þessum skipum, er þörf fyrir nýtt hafnarstæði, og er Straumsvík ákjósanlegur kostur. Þar eru innviðir með háspennu- og tengivirki til að mæta breyttum þörfum, sem aðlaga þarf að umgjörð hafnarinnar og orkuþörfum skipanna, en væri ekki óyfirstíganlegt verkefni. Ekkert hafnarstæði á höfuðborgarsvæðinu er betur til fallið með minnsta mögulega tilkostnaði."
Þarna leggur Ingólfur Hjörleifsson í raun til að hætta álframleiðslu í Straumsvík og nota innviðina þar til að taka á móti skemmtiferðaskipum og tengja þau við rafkerfi álversins, á meðan á dvöl þeirra stendur. Hann bítur höfuðið af skömminni með því að fullyrða, að slík ráðstöfun yrði hvergi ódýrari. Hið rétta er, að hún yrði óvíða dýrari, því að það eru engar smáræðistekjur, sem tapast. Hér verður litið á nokkra kostnaðar- og tekjuþætti í þessu dæmi:
- Reiknað er með möguleika á landtengingu tveggja stórra farþegaskipa samtímis, og að mesta samtímaaflþörf sé 20 MW.
- Bjartsýnisáætlun um orkusölu til farþegaskipa 4 mánuði á ári gæti gefið 40 GWh/ár. Hana má e.t.v. selja til skipanna á 20 ISK/kWh + vsk. Þá verða brúttótekjur 800 MISK/ár, en til Landsvirkjunar og Landsnets myndu renna 200 MISK/ár, svo að nettótekjur af raforkusölu til farþegaskipanna í Straumsvík yrðu 600 MISK/ár samkvæmt þessu. Með þessum nettótekjum þarf að standa straum af fjárfestingu, viðhaldi og rekstri búnaðarins.
- Þótt innviðir rafmagns séu góðir í Straumsvík, einnig við höfnina, þarf að aðlaga dreifistöðvarnar þar að tengingu við farþegaskip og setja upp tengibúnað við skip. Þetta gæti kostað um MISK 500. Endurgreiðslutíminn er þannig um eitt ár, sem þykir yfirleitt réttlæta fjárfestingu.
- Sá galli er auðvitað á gjöf Njarðar, að forsenda þessa alls er að afleggja núverandi starfsemi í Straumsvík. Það er ofboðslega dýrt og veldur því, að þessi viðskiptahugmynd er dauðadæmd. Höfundur þessa vefpistils gerir t.d. ráð fyrir því, að gjaldeyristekjur af starfsemi álversins í Straumsvík árið 2018 hafi numið a.m.k. mrdISK 65 m.v. núverandi gengi bandaríkjadals 125 ISK/USD, en þessi viðskipti fara fram í þeirri mynt. Af þessari upphæð má, m.v. upplýsingar á vefsetri Samáls, reikna með, að innlendur kostnaður hafi numið um mrdISK 30 og að verðmætasköpunin innanlands hafi verið um mrdISK 27 eða tæplega 1 % af VLF það ár.
Það er þannig arfaslök viðskiptahugmynd að hætta núverandi starfsemi í Straumsvík og taka í staðinn að selja þaðan rafmagn til farþegaskipa. Yfir 500 manns myndu missa vinnuna og sárafá störf skapast í staðinn. Þeir, sem vinnuna missa, geta ekki búizt við að fá jafn vel launuð störf í staðinn, því að áliðnaðurinn á Íslandi borgar meira en meðallaun, sem tíðkast í hverri starfsstétt. A.m.k. 1000 manns til viðbótar á öðrum launaskrám mundu verða fyrir tekjumissi, og hið opinbera yrði fyrir verulegu höggi. Atburður af þessu tagi hefur verulega neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn, sem getur valdið gengissigi, sem skerðir hag allra landsmanna. Það er algerlega ábyrgðarlaust að fitja upp á vitleysu af þessu tagi, en það var ekki allt komið frá aðjunktinum með þessu fimbulfambi hans:
"Svanasöngur álversins í Straumsvík er óumdeilanlegur, og hefur reksturinn seinustu árin ekki gengið vel. Tækjabúnaður er gamall, og með stuttu millibili hafa myndazt svokallaðir ljósbogar í kerskálum verksmiðjunnar. Öll skynsamleg rök eru til staðar fyrir lokun álversins. Spara mætti útsölu þjóðarbúsins á orku til stóriðju og minnka gróðurhúsalofttegundir í sama vetfangi."
Þetta er argasta svartagallsraus, sem á sér enga stoð í veruleikanum, en virðist hafa búið um sig í heila þessa aðjunkts, hvar sem hann starfar, við afar óheilnæmar aðstæður. Í Straumsvík fer ekki fram svanasöngur starfseminnar, enda er langt komið við að endurræsa rafgreiningarkerin, sem ákveðið var að stöðva framleiðslu í í sumar vegna óhentugs hráefnis (og s.k. kaldræsingu lauk 01.11.2019).
Tækjabúnaður er alls ekki allur gamall, því að í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008 fjárfesti Rio Tinto Alcan, eigandi ISAL, fyrir um mrdISK 100 í nýjum búnaði í raforkukerfinu, í steypuskálanum og víðar. Á þessu ári,2019, var nýr súrálslöndunarkrani tekinn í gagnið, og er sá nýi mun afkastameiri en sá gamli. Þannig er enginn uppgjafarhugur í starfsmönnum ISAL, þótt tilvitnaður aðjunkt virðist halda það. Verksmiðjunni hefur verið vel við haldið, og hún hefur verið í fremstu röð sjálfvirknivæðingar. Tæknilegur rekstur verksmiðjunnar hefur að mörgu leyti verið framúrskarandi, og er t.d. koltvíildislosun á hvert framleitt tonn Al með því allægsta í heiminum.
Að reyna að gera sér mat úr ljósbogamyndun til að reyna að koma höggi á ISAL er aulaframkoma. Þessum pistilhöfundi er kunnugt um það, að engin önnur verksmiðja hérlendis eða í eigu Rio Tinto, og þótt víðar væri leitað, býr að jafnfullkominni ljósbogaskynjun og -vörn og ISAL, enda varð mjög takmarkað tjón af völdum téðs ljósboga (gat á þekju), en slíkir ljósbogar hafa valdið margföldu tjóni á við þetta, m.a. í þeim kerskála, sem hér um ræðir, árið eftir gangsetningu hans, enda var ISAL þá ekki búið að innleiða ljósbogavörn sína í nýja kerskálanum, heldur treysti á þá vörn, sem með nýja búnaðinum kom. Frumástæða vandræðanna í sumar var mikill hiti í kerum af völdum gallaðs hráefnis, sem olli miklum skautföllum, en slíkir atburðir framkalla ljósboga.
Það standa engin rök til þess að loka ISAL-verksmiðjunni núna, hvorki til að hægt sé að taka á móti farþegaskipum í Straumsvík eða af öðrum ástæðum. Það eru alger öfugmæli, að í Straumsvík fari fram "útsala" á raforku. ISAL borgar langhæst raforkuverð allra stóriðjuvera landsins, sem eru með langtímasamning, og þetta verð er langt ofan við tilkostnað Landsvirkjunar og Landsnets við öflun og flutning þessarar orku til Straumsvíkur. Verðið er jafnframt hærra en í mörgum álverksmiðjum á Vesturlöndum og miklu hærra en í Miðausturlöndum. Raforkuverðið ógnar samkeppnisstöðu verksmiðjunnar, því að hún verður auk þess að glíma við hærri flutningskostnað en samkeppnisaðilarnir.
Orkuverið, sem í upphafi lá til grundvallar starfseminni, Búrfellsvirkjun, er fyrir löngu uppgreitt með fé frá ISAL og malar nú eiganda sínum gull, vinnslukostnaður virkjunarinnar, sem tengist nýjum orkusamningi við ISAL, Búðarhálsvirkjunar, er einnig mun lægri en nemur orkuverðinu til ISAL.
Það er í raun minni munur á orkuverðinu til ISAL og almennu heildsöluverði raforku í landinu en nemur ávinningi orkufyrirtækis af að virkja vatnsfall einvörðungu fyrir álver miðað við einvörðungu fyrir almennan markað. Langtímasamningur er ein skýring á því (veitir betri lánskjör), önnur er miklu jafnara álag álvers en almenns markaðar og betri nýting fjárfestingarinnar, þriðja er hærri aflstuðull álvera, sem gerir enn meira af heildarorkunni nýtanlega og seljanlega. Þannig hefur stóriðjan lengi staðið undir fjárfestingum í raforkukerfinu og í raun greitt niður orkuverð til almennings, sem er skýringin á því, að almenningur á Íslandi býr við eitt lægsta raforkuverð í heiminum án þess, að það sé greitt niður af hinu opinbera.
Auðvitað fellur aðjunktinn líka í þá forarvilpu að halda því fram, að álver á Íslandi auki við gróðurhúsaáhrifin í andrúmslofti jarðar. Hið rétta er, að álverin 3 á Íslandi draga úr losun heimsins um a.m.k. 12 Mt CO2 á ári, sem jafgildir 2-3 faldri losun íbúa Íslands, miðað við, að sama magn áls yrði framleitt annars staðar, þar sem ekki er völ á kolefnisfríum orkulindum. Þar við bætist, að íslenzku álverin hafa náð tiltölulega mjög góðum tökum á losun CF4 og C2F6, kolflúoríða, sem eru öflugar gróðurhúsalofttegundir, og mengunarvarnir eru allar til fyrirmyndar í Straumsvík. T.d. fjárfesti Rio Tinto Alcan í nýju hreinsivirki fyrir kerreykinn á árunum 2011-2014.
"Bræðsla á málmgrjóti og útblástur olíudrifinna véla eru stærsti orsakavaldur gróðurhúsalofttegunda hérlendis. Málmbræðsla og önnur stóriðja notar á bilinu 85-90 % af endurnýjanlegum orkugjöfum landsins og beinlínis hindrar nýsköpunaratvinnuvegi í að ná rekstrarlegri fótfestu. Þörf er á lagabreytingum, svo [að] við sem þjóðfélag getum haft aðra vitsmunalegri og arðbærari atvinnuvegi en málmbræðslu, sjávarútveg og ferðaþjónustu."
Aðjunktinn er að reyna að koma því inn hjá landsmönnum, að þeir séu syndarar gagnvart heiminum öllum í umhverfismálum, þegar staðreyndum málsins er þveröfugt farið; starfsemi áliðnar á Íslandi sparar lofthjúpnum a.m.k. 12 Mt/ár af CO2 auk þess sparnaðar, sem hlýzt af notkun áls vegna léttleika þess, en hann er auðvitað óháður framleiðslustað. Íslendingar eru einfaldlega að fylgja viðteknum hagfræðikenningum um nýtingu hlutfallslegra yfirburða sinna og landsins, þegar þeir framleiða málma með eins umhverfisvænum hætti og framast er kostur núna, veiða nytjastofna í efnahagslögsögunni og bjóða erlendu ferðafólki að skoða einstæða eyju sína norður undir heimskautsbaug. Boðskapur aðjunktsins er forneskjulegt afturhaldsvæl, sem bíður ekki upp á annað en afturhvarf til fortíðar og fátæktar.
"Brýn þörf er á lagabreytingum, er varða sölu Landsvirkjunar á raforku þjóðarbúsins, og tilkoma sæstrengs mun auka ábata og minnka áhættu orkuframleiðenda hérlendis. Sala á raforku í gegnum sæstreng mun koma fram sem áhættudreifing fyrir Landsvirkjun, þar sem selt er til nýrra aðila og undir öðrum skilmálum. Frá árinu 2016 hafa verið birtar skýrslur (Landsvirkjun, Orkustofnun, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Gamma), sem sýna árlega á fimmta tug milljarða króna í aukinni hagsæld þjóðarbúsins sem tekjur til ríkisins vegna sölu á raforku gegnum sæstreng til Evrópu. Það munar um minna en 50 milljarða."
Hér er farið algerlega með staðlausa stafi. Það hefur einmitt ekki tekizt með trúverðugum hætti í nokkurri skýrslu að sýna fram á þjóðhagslega hagkvæmni þess að selja raforku um sæstreng til útlanda. Það er út af því, að mismunur raforkuverðs í Evrópu og flutningskostnaðar raforku þangað frá Íslandi er ekki nægur til að veita raforkusölu um sæstreng þjóðhagslega hagkvæmni, nema bætt verði meira en 35 EUR/t CO2 við verðlagningu losaðs koltvíildis frá raforkuverum og það endurspeglist í meðalverðinu. Það mun hins vegar aldrei verða svo, því að verðhækkanir munu aðallega koma fram í verði afltoppanna, en aðeins að litlu leyti endurspeglast í meðalverðinu, eins og lesa má um í Skýrslu Orkunnar okkar, útg. 16.08.2019, kafla 6.
Það stappar nærri geggjun að halda því fram, að raforkuútflutningur um sæstreng muni "minnka áhættu orkuframleiðenda hérlendis". Ekkert ríkisvald í Evrópu né ESB er fúst til að ábyrgjast raforkuverð frá Íslandi. Íslenzkir raforkuseljendur munu þurfa að setja alla sína raforku á markað orkukauphallar Nord Pool fyrir Norðvestur-Evrópu, nema þá, sem bundin er með langtímasamningum á Íslandi, og þessi markaður er sveiflukenndur, og verðið mun hrynja, ef/þegar ný tækni brýzt inn á þennan markað, t.d. þóríum-kjarnorkuver, sem verið er að rannsaka í Evrópu, Norður-Ameríku, Austur-Asíu og e.t.v. víðar. Núverandi langtímasamningar um raforkusölu til álveranna á Íslandi eru hins vegar óháðir slíkum sveiflum, en sumir þeirra taka hins vegar mið af markaðsverði áls. Móðurfyrirtæki álveranna standa sem tryggingaraðili að kaupskyldu 80 %- 90 % forgangsorkunnar samkvæmt samningum. Aðjunktinn virðist lifa í raunveruleikafirrtum heimi fordóma og fordæðuskapar.
Tökum dæmi af ISAL: Á árinu 2018 keypti fyrirtækið 3361 GWh af Landsvirkjun og ætla má út frá gögnum Samáls o.fl., að þá hafi verðmætasköpun ISAL innanlands numið mrdISK 27. Hlutfall þessara tveggja stærða gefur verðmætasköpun raforku til ISAL innanlands 8,0 ISK/kWh eða 64 USD/MWh m.v. núverandi gengi. Sala um sæstreng að frádregnum öllum viðbótar kostnaði vegna hennar innanlands, t.d. af uppbyggingu flutningskerfis frá stofnrafkerfinu að landtökustað sæstrengs, verður þá að gefa Landsvirkjun hærri tölu en þetta, svo að sala um sæstreng verði þjóðhagslega hagkvæm. Því fer hins vegar víðs fjarri.
Samkvæmt gögnum frá sæstrengja- og rafbúnaðarframleiðanda myndi kostnaður sæstrengs og endabúnaðar 600 MW kerfis nema mrdUSD 2,5. M.v. 5,0 % ávöxtunarkröfu á ári, meðalafskriftatíma 16,8 ár, 10 % töp í streng og endabúnaði og árlegan viðhaldskostnað 1-2 % af stofnkostnaði, þá fæst árlegur kostnaður fjárfestingarinnar MUSD 48. Sé reiknað með, að seld orka verði 4000 GWh/ár inn á flutningsbúnað við strönd, þá nemur flutningskostnaðurinn 50 USD/MWh auk flutningskostnaðar innanlands. Ef reiknað er með hækkun meðalverðs um 60 % frá núverandi, þ.e. upp í 80 EUR/MWh=90 USD/MWh, þá fær orkuseljandi hér á Íslandi verðið 40 USD/MWh, en á þá eftir að greiða Landsneti fyrir flutninginn innanlands. Sá kostnaður nemur að lágmarki 5 USD/MWh. Landsvirkjun fær þannig í mesta lagi 35 USD/MWh í sæstrengsviðskiptum með ISAL-orkuna og tilfallandi umframorku, en ISAL-orkan er aftur á móti núna að skapa 64 USD/MWh í verðmætum innanlands. Þarna vantar næstum 30 USD/MWh upp á eða 47 %, að sæstrengsviðskiptin ná samjöfnuði við ISAL-orkuviðskiptin.
Þetta bil verður ekki brúað í fyrirsjáanlegri framtíð án verulegra meðlaga, t.d. úr sjóðum Evrópusambandsins, en áhætta slíkra viðskipta er margföld á við áhættu núverandi viðskipta. Það er þess vegna tóm firra, að lofthjúpnum eða þjóðarbúskap landsmanna geti gagnast að loka ISAL og selja raforkuna í staðinn inn á Innri markað ESB um sæstreng.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Umhverfismál | Facebook
Athugasemdir
Takk bjarni að leiðrétt þessa vitleysu.
Haukur Árnason, 16.11.2019 kl. 17:02
Það er auðvelt að sýna fram á, að m.v. núverandi hlutfall verða til almenningsveitna og stóriðju, 1,4, þá er hagkvæmara að virkja eingöngu fyrir almenningsveitur, ef virkjunin er minni en 1200 GWh/ár, en annars er hagkvæmara að virkja einvörðungu fyrir stóriðju. Þar af leiðandi nýtur almenningur góðs af lægra raforkuverði en ella, ef virkjað er stórt, og hluti orkunnar seldur til almenningsveitna.
Bjarni Jónsson, 17.11.2019 kl. 13:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.