Er íslenzk orka ósamkeppnishæf ?

Uggvænlegar fregnir af verðlagningu dótturfyrirtækja Orkuveitu Reykjavíkur, OR, bárust með Bændablaðinu að kvöldi miðvikudagsins 6. nóvember 2019.  Ef orkuverðin á heitu vatni og raforku til ylræktar í Reykjavík ganga eftir, eins og fram kemur í viðtali Bændablaðsins við Hafberg Þórisson í Bbl., dags. 7. nóvember 2019, þá stöndum við frammi fyrir eftirfarandi stöðu:

Orkuveita Reykjavíkur (OR) er búin að verðleggja sig út af hitaveitumarkaði stórnotenda, og hér getur á tímum hástemmdra heitstrenginga um að draga úr losun koltvíildis hafizt uppsetning kyndistöðva, sem brenna kolum, plasti og viðarkurli. 

Þá er OR alls ekki samkeppnishæf um raforkusölu til ylræktar við raforkuseljendur í Hollandi, Danmörku og Noregi. 

Þetta hlýtur að virka sem sprenging inn í loftslagsumræðuna, þótt hún reyndar sé að mestu leyti fótalaus og notuð til að boða lífsháttabreytingar á grundvelli hræðsluáróðurs. Reykjavík talar tungum tveim, þegar viðskiptin við Lambhagabúið eru borin saman við loftkenndar yfirlýsingar stjórnenda borgarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Nú verður vitnað til viðtals Bændablaðsins við Hafberg í Lambhaga:

"Það á að hækka verð á heita vatninu til mín um 97 % frá 1. janúar 2020.  Hérna verður verðið eftir hækkun 120 kr fyrir rúmmetrann á vatni (=120 kr/m3), en það er 37 kr/m3 uppi í Mosfellsdal. Við erum að nota um og yfir 100 kt/ár af heitu vatni í Lambhaga.  Við erum að borga um 600-800 kkr/mán fyrir heitt vatn.  Ef þessi hækkun verður um áramótin, þá fer kostnaðurinn í um 1,4 MISK/mán eða nærri 16,8 MISK/ár.  Síðan erum við að nota yfir 60 milljónir kílówattstunda af raforku á ári (=60 GWh/ár)." 

Ýmislegt vekur athygli þarna.  Mest sláandi er, að OR/Veitur virðast leggja af gróðurhúsataxtann, sem nú er 65,64 ISK/m3, þ.e. 50 % af almenna taxtanum, og taka upp verð fyrir notkun, sem er um 100-föld notkun einbýlishúss, er nemur um 91 % af einingarverði til almennra notenda.  Það er augsýnilega afar ósanngjarnt, og getur ekki svarað til kostnaðarhlutfalla við öflun og dreifingu vatns til lítils og stórs notanda. 

Það er hægt að fullyrða, að þessi grófa aðgerð á hlut viðskiptavinar sé gerð í skjóli einokunar á markaði fyrir hitaveituvatn og mundi alls ekki ganga upp, ef snefill af samkeppni væri á þessum markaði.  Er alveg makalaust, hversu mikla ósvífni OR/Veitur leyfa sér að sýna viðskiptavini sínum, og hlýtur hann að eiga lögverndaðan rétt gegn slíkri árás á hagsmuni hans og atvinnustarfsemi. Eins og fram kemur hér á eftir, er þessi óprúttna verðlagning ekki í neinu samræmi við það, sem viðgengst í a.m.k. 3 samkeppnislöndum íslenzkra grænmetisbænda, sem á sinn hlut í miklu tapi markaðshlutdeildar þeirra hérlendis.  Er það stórmál, því að allgóð sátt er um það í landinu, að orkulindir landsins skuli nýta í þágu eflingar íslenzkra atvinnuvega, og ekki má gleyma kolefnisspori flutninganna, mestmegnis með flugi.  

Annað atriði í þessum texta sýnir, að OR/Veitur virðast algerlega vera úti á þekju í verðlagningu á vöru/þjónustu sinni.  Það sýnir verðið 37 ISK/m3 í Mosfellsdal.  Það er rúmlega 28 % af verði til almennings hjá Veitum og um 60 % af núverandi verði OR/Veitna til Lambhaga og verður um 31 % af væntanlegu verði þeirra.  Þetta getur bent til, að OR/Veitur taki ekki nægt tillit til lægri kostnaðar á einingu við öflun og dreifingu heits vatns til stórnotenda, heldur okri ótæpilega á þeim.  Hvernig stendur á því, að hvorki Samkeppnisstofnun né Orkustofnun grípa í taumana, þegar einokunarfyrirtæki virðist misnota einokunaraðstöðu sína gróflega ?

""Ef þessi hækkun á heitavatnsverði gengur eftir, er aðeins tvennt í stöðunni.  Annaðhvort að starfsemin hér leggist af og flytjist annað eða, að sett verði upp kyndistöð við Lambhaga, sem brenni þá plasti, timburkurli og kolum við háan hita, líkt og gert er í Noregi og í Danmörku.  Mér finnst sorglegt, að borgin sé að reyna að ýta okkur í burtu með þessum hætti."

Kostnaður við að reisa kyndistöð gæti að mati Hafbergs numið á bilinu MISK 15-20, þannig að hún yrði mjög fljót að borga sig upp miðað við hækkað orkuverð."

Arðsemi kyndistöðvar, sem gæti afkastað um 10 GWh/ár af varmaorku og væri með fastan árlegan kostnað MISK 2,7 m.v. ávöxtunarkröfu 6,0 %/ár út afskriftartíma sinn, 10 ár, fer algerlega eftir árlegum rekstrarkostnaði hennar, sem að mestu leyti er eldsneytiskostnaður.  Ef þessi rekstrarkostnaður er undir 14,1 MISK/ár, þá borgar kyndistöðin sig, en það útheimtir mjög ódýrt eldsneyti eða innan við 15,7 kISK/t komið í Lambhaga. Hafberg sagðist í viðtalinu hafa aðgang að ódýrum kolum og viðarkurli, og plasts getur hann væntanlega aflað sér hjá Sorpu. 

Að OR skuli ekki sjá sóma sinn í að verðleggja heitt vatn þannig, að það sé hagstæðara en heitt vatn frá lítilli kyndistöð, er reginhneyksli á tímum, þegar keppikefli er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda mjög mikið. Málið sýnir, að meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur, sem ræður lögum og lofum í stjórn OR, meinar ekkert með fagurgala sínum um að gera borgina umhverfisvæna og að leggja sitt lóð á vogarskálarnar gegn hlýnun andrúmslofts yfir 2,0°C m.v. 1850. Orð stjórnenda borgarinnar eru eintóm hræsni, og verk þeirra eru umhverfisskaðleg (loftið versnar).  Til að takist að ná loftslagsmarkmiðum ríkisins, verður verðlagning á heitu vatni og rafmagni að vera notendum mjög hagstæð.  Verðlagning á orku að hálfu stjórnenda Reykjavíkurborgar, sem bera ábyrgð á stjórn OR, sýnir öfugþróun í atvinnu- og umhverfismálum Reykjavíkur.

"Hafberg segir, að raforkuverðið hafi vissulega hækkað mikið, þegar ákveðið var að skipta upp framleiðslu og flutningi á raforku að kröfu Evrópusambandsins.  Þeir hafi þó sætt sig við það verð, þótt það sé mun hærra en gróðrarstöðvar bæði í Noregi og Hollandi þurfi að greiða fyrir raforkuna."

Iðnaðarráðherra ætti að hugleiða vel þessi orð Hafbergs, því að hún hefur haldið hinu gagnstæða fram, að stofnun Landsnets og s.k. samkeppni um sölu á rafmagni á heildsölu- og smásölumarkaði, sem tekin var upp með raforkulögum 2003 við innleiðingu Orkupakka #1 frá ESB, hafi gagnazt neytendum.  Þessu var alveg þveröfugt varið í raun, eins og heilbrigð skynsemi gæti sagt ráðherranum vegna kostnaðar við sundrun og hærri rekstrarkostnað með minni einingum. Í gamla daga nýtti Landsvirkjun hluta af hagnaði sínum af orkusölu til að fjármagna flutningskerfið.  Nú fer arðurinn hins vegar í ríkissjóð, og þjóðin borgar brúsann við flutning raforkunnar.  Svipaða sögu er að segja af dreifingunni.  Hvort fyrirkomulagið halda menn, að styðji betur við atvinnuöryggi og lífskjör í landinu ? 

Þetta var líka staðfest í rannsókn prófessors Ragnars Árnasonar, hagfræðings, sumarið 2019, sem hann skrifaði um í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019.  Þar kemur fram, að umrædd kerfisbreyting, sem iðnaðarráðherrann, Þórdís Kolbrún, hefur farið lofsamlegum orðum um, kostaði neytendur að lágmarki 8 % hækkun orkuverðs að raunvirði, og hækkunin varð miklu meiri í dreifbýli.  Ekki kæmi á óvart, að kjósendur í Norð-Vesturkjördæmi væru að fá sig fullsadda á fjarvistum þessa þingmanns og ráðherra frá raunveruleikanum.  

Nú verður að taka það fram, að samkvæmt OP#1 bar litlum samfélögum á borð við okkar ekki skylda til að fremja þá uppstokkun á starfsemi orkufyrirtækja, sem hér um ræðir, heldur var það þáverandi orku- og iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins og Alþingi þess tíma, sem þessa ákvörðun tóku, vafalaust að ráði embættismanna Stjórnarráðsins.  Er þetta eitt dæmi af mörgum um óþarfar og íþyngjandi innleiðingar ESB-löggjafar íslenzkra embættismanna og stjórnmálamanna.

  Er vissulega löngu orðið tímabært að hugleiða, að löggjöf fyrir 500 M manna samfélag hentar sjaldan óbreytt 0,36 M manna samfélagi.  Neikvæðar afleiðingar af innleiðingu orkupakka ESB eru og munu verða margvíslegar hérlendis, og eina sjáum við hér í því, að garðyrkjumenn í Hollandi, þar sem rafmagn var 2015 að 82 % framleitt með olíu, gasi og kolum, fengu rafmagn á mun lægra verði en íslenzkir starfsbræður þeirra, eða um 6,0 ISK/kWh.

Verðið til heimila í Hollandi 2018 var hins vegar mun hærra en hér, þ.e. 17,07 cEUR/kWh  (notkun upp að 2499 kWh/ár) eða 23,6 ISK/kWh (EUR/ISK=138), og til iðnaðar með notkun 20-70 GWh/ár var verðið 8,63 cEUR/kWh eða 11,9 ISK/kWh.  Það vekur athygli, að hollenzkur iðnaður með svipaða rafmagnsnotkun og Lambhagi greiðir aðeins 51 % af lágmarksheimilistaxta.  Enn meiri undrun vekur, að hollenzkir gróðurhúsabændur greiða minna en 53 % af iðnaðartaxtanum m.v. það, sem fram kemur hjá Hafberg Þórissyni hér á eftir:

"Þrátt fyrir hátt orkuverð segist Hafberg vera með ódýrara salat en t.d. kollegar hans í Noregi.  Sýndi Hafberg blaðamanni gögn frá Noregi því til stuðnings.  Segir hann, að á meðan hann sé að borga um 10,40 ISK/kWh með flutningi [og væntanlega dreifingu], séu kollegar hans í Noregi að borga ígildi um 6,30 ISK/kWh (m.v. verð í ágúst)."

 Það er ekki gefið upp, hvers konar raforkusamning norski bóndinn hefur.  Flestir taxtar þar eru sveiflukenndir, og raforkuverðið þar er að jafnaði lægst einmitt síðsumars í venjulegum vatnsárum. Á öðrum ársfjórðungi 2019 nam meðalverð til heimila með flutningi og dreifingu án skatta 76,0 Naur/kWh eða 10,4 ISK/kWh.  Ofangreint verð til norska garðyrkjubóndans, 6,3 ISK/kWh, nemur aðeins rúmlega 60 % af heimilistaxtanum, sem er með s.k. netleigu innifalinni.  Í Reykjavík er einingarverðið til heimila með flutningi og dreifingu án jöfnunargjalds og skatts um 14,2 ISK/kWh.  Lambhagabóndinn borgar 10,4 ISK/kWh, sem er 73 % af almenna taxtanum.  Hann er sem sagt látinn borga mun hærra hlutfall af heimilistaxtanum en norski bóndinn, og notar Lambhagabóndinn þó 60 GWh/ár, sem telst vera stórnotkun hérlendis.  

Enn meiri ívilnun til garðyrkju kemur í ljós, þegar raforkuverð í Hollandi er skoðað:

""Það kom til okkar í Lambhaga á dögunum viðskiptanefnd frá Hollandi, þar sem m.a. var farið yfir rafmagnsverðið.  Þá kom í ljós, að gróðrarstöðvar í Hollandi eru að greiða örlítið lægra verð en sambærilegar stöðvar í Noregi. Í Danmörku er verðið aðeins hærra en í Noregi eða sem svarar um 7,0 ISK/kWh.  

Það er því algert bull, að raforkuverðið sé lágt á Íslandi.  Það er athyglisvert að skoða, hvar þetta háa orkuverð til okkar verður til.  Það er að stórum hluta við flutning orkunnar", segir Hafberg Þórisson."

Dreifingarkostnaðurinn til almennings nemur um 42 % af heildarkostnaðinum hérlendis, og þar er um einokun að ræða.  Stórnotendur borga minna fyrir dreifingu á hverja kWh, en sennilega er notanda á borð við garðyrkjustöð alls ekki veittur sanngjarn afsláttur. (Stóriðjan rekur sitt eigið dreifikerfi.)

Raforkuverð til heimila í Hollandi er hærra en hér eða 23,6 ISK/kWh, en garðyrkjustöðvar þar eru að greiða um 6,0 ISK/kWh eða aðeins 25 % af heimilistaxtanum með flutningi og dreifingu.  Þetta útheimtir rannsókn, en sýnir svart á hvítu, að hollenzk matvælaframleiðsla nýtur vildarkjara.  Á hvaða grundvelli er það m.v. bann ESB við mismunun notenda eftir því til hvers þeir nota orkuna ?  Það má aðeins ívilna eftir eðli notkunar, magni, stöðugleika álags, aflstuðli o.þ.h.  Margt bendir til, að einokunaraðilar hérlendis fari tiltölulega illa með garðyrkjubændur að þessu leyti. Þetta hefur slæm áhrif á samkeppnisstöðu íslenzkrar ylræktar, eins og fram kemur í sömu frétt Bændablaðsins:

"Þegar skoðaðar eru tölur Hagstofu Íslands um grænmetisneyzluna á Íslandi, þá var hún ríflega 22 kt á árinu 2018. Af því voru íslenzkir framleiðendur með um 52 %, eins og sjá má á bls. 2. 

Hlutdeild íslenzkra framleiðenda hefur verið að dragast verulega saman á undanförnum árum eða úr 75 % árið 2010 í 52 % árið 2018. Þá er garðyrkjubændum stöðugt að fækka, m.a. vegna hækkana á orkuverði.  Þetta þýðir, að innflutningur á grænmeti, sem hér væri hægt að rækta, mun aukast hröðum skrefum.

Skýtur þetta mjög skökku við yfirlýsingar frá stjórnvöldum, falleg orð ráðherra í garð íslenzks landbúnaðar og áætlanir um að sporna við losun kolefnis út í andrúmsloftið."

Fyrir utan skatta er kostnaðarmunur Lambhagabóndans og hollenzks garðyrkjubónda á kaupum á 60 GWh/ár raforku:

DK=(10,4-6,0)ISK/kWh x 60 GWh/ár = 264 MISK/ár. 

Þetta er gríðarupphæð í samanburði við árlegar sölutekjur búsins og hefur úrslitaáhrif á arðsemi og  samkeppnishæfni Lambahagabúsins og sjálfsagt gildir hið sama um alla ylræktargreinina, sem notar rafmagn í miklum mæli við sína framleiðslu.  Það er mjög ranglega gefið, þegar land með mun hærra raforkuverð til heimila en íslenzk heimili verða aðnjótandi, getur og má láta garðyrkjubændum sínum í té raforku, sem er um 4,4 ISK/kWh ódýrara en til íslenzkra starfsbræðra. 

Það ætti að vera innlendum stjórnvöldum keppikefli af öryggis- og heilsufarsástæðum, svo að ekki sé nú minnzt á tíðrætt kolefnisspor, að landið sjái íbúum sínum fyrir eins miklu grænmeti og kostur er.  Það er tiltölulega stórt sót- og kolefnisspor, sem flutningur á grænmeti til Íslands hefur í för með sér, af því að mikill hluti þess kemur með flugi, sumt um langan veg, og gróðurhúsaáhrif losunar frá þotuhreyflum í háloftunum eru þreföld á við losun sama magns á jörðu niðri.  Það er þess vegna sízt of í lagt, að jafngildislosun muni nema 4 kg CO2eq/kg grænmeti.  Ef innlend ræktun er 11,4 kt nú (hún er áreiðanlega meiri, m.a. vegna einkaræktunar, sjálfsþurftarbúskapar, sem Hagstofan fær engar skýrslur um, þá nemur sparnaður koltvíildislosunar um 50 kt CO2/ár, sem m.v. væntanlegt verð á koltvíildiskvótum í Evrópu á næstu árum, 35 EUR/t CO2eq, er virði meira en 240 MISK/ár.

Það er greinilega beitt allt annarri og þjóðhagslega óhagstæðari aðferðarfræði við verðlagningu á orku til garðyrkju á Íslandi en í Hollandi, Danmörku og Noregi, og sennilega almennt til iðnaðar, sem notar yfir 20 GWh/ár af rafmagni. 

Garðyrkjan í landinu getur tekið sig saman og óskað tilboða um raforkuhlutann, og e.t.v. gerir hún það, en það er ekki boðið upp á slíkt fyrir einokunarþættina, flutning og dreifingu, og það eru þeir birgjar, sem þurfa að sýna meiri sveigjanleika í verðlagningu m.t.t. umfangs viðskipta. Þá þýðir ekki að bera því við, að slíkt megi ekki vegna EES-samningsins, því að upplýsingar garðyrkjubóndans Hafbergs sýna, að mikil og satt að segja ótrúleg vildarkjör bjóðast öðrum garðyrkjubændum innan EES.  Er þetta mál ekki einnar messu virði á hinu háa Alþingi ?  

 150787boeing

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband