1.12.2019 | 18:51
Rafmagnsverð til fyrirtækja er ósamkeppnisfært
Fullyrðingin í fyrirsögninni er ekki ótímabær forsögn um þróunina hérlendis á næstu árum, heldur staðreynd um raforkuverð núna til fyrirtækja. Rafmagnsverð til heimila hér er hins vegar lægra en víðast hvar annars staðar. Virðist almenningur erlendis vera fórnarlamb hins frjálsa uppboðsmarkaðar raforku, en nauðsynin á að halda uppi samkeppnishæfri framleiðslustarfsemi virðist hafa veitt fyrirtækjum í samkeppnisrekstri kost á hagstæðari samningum en heimilin búa við, e.t.v. í krafti jafnara álags (betri nýtingar aflgetu virkjana, flutnings og dreifikerfis), meiri orkunotkunar yfir árið frá fyrsta ári og þar af leiðandi vegna fullnýtingar fjárfestinga fyrr, langtímasamninga (tryggar tekjur orkufyrirtækja á afskriftartíma fjárfestinga) og hærri aflstuðuls en heimilisnotkun býður upp á.
Íslenzk heimili njóta hins vegar enn góðs af, að langtímasamningar um raforkusölu við stórnotendur hafa staðið undir uppbyggingu raforkukerfisins á Íslandi. Annars gæti raforkuverð til almennings ekki verið lægst hér. Opinberar niðurgreiðslur, sem kunna að fela í sér mismunun neytenda, eru hins vegar bannaðar innan EES, en þó virðist leyfilegt að hygla neytendum eftir búsetu (dreifbýlisívilnun) og fyrirtækjum líka.
Fyrsta dæmið, sem hér verður tekið til að sýna fram á ósamkeppnisfært innlent orkuverð, er aðalfréttin á forsíðu Fréttablaðsins, 11. nóvember 2019, undir fyrirsögninni:
"Telja orkuverð hér allt of hátt":
""Orkuverð í miðborg Stokkhólms er 20 % lægra en það, sem okkur býðst á Íslandi. Sá munur eykst, ef gagnaver eru byggð uppi í Norður-Svíþjóð. Orkuverð hér er orðið allt of hátt eða 25-40 % hærra en t.d. í Svíþjóð og Noregi", segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri íslenska gagnaversfyrirtækisins Advania Data Centers."
Það er ljóður á ráði þessarar frásagnar, að hvorki er getið umsaminna orkuverða erlendis né boðinna orkuverða hérlendis. Þó er ekki ástæða til að rengja staðhæfinguna um, að boðið orkuverð hér, með flutnings- og dreifingarkostnaði eftir atvikum, sé um þriðjungi of hátt til að geta talizt samkeppnishæft við Svíþjóð.
Ef ekki nást neinir samningar við fjárfesta, erlenda eða innlenda, sem valið geta úr staðsetningum í nokkrum löndum og talizt geta til stórnotenda (E>60 GWh/ár), þá verður ekki hægt að ráðast í meðalstóra virkjun og láta almenning njóta góðs af langtímasamningum fyrir hluta orkunnar þaðan, eins og gert hefur verið hérlendis, heldur verður þá orkuverðið til almennings um 40 % hærra en ella frá þeirri virkjun, af því að hún fullnýtist svo seint.
T.d. munu þá virkjanir í Neðri-Þjórsá leiða til töluverðrar verðhækkunar á markaðinum hér. Verst af öllu er þó að aðhafast ekkert, en nú eru í raun og veru engar virkjanir á framkvæmdastigi, sem ráða við eftirspurnaraukninguna á almenna markaðinum að orkuskiptunum meðtöldum, sem er a.m.k. 130 GWh/ár. Það er mikil vá fyrir dyrum, ef sú skoðun er ráðandi í iðnaðarráðuneytinu, að markaðurinn muni hér leysa vandann. Hann gerir það of seint, því að undirbúnings- og framkvæmdatími virkjana og flutningslína er hér tiltölulega mjög langur.
""Ólafur Adolfsson, formaður Þróunarfélags Grundartanga, hefur einnig áhyggjur af háu raforkuverði. Á Grundartanga vinna um 1100 manns hjá 20 stórum og smærri fyrirtækjum, og um 1000 til viðbótar þjónusta svæðið. "Við höfum miklar áhyggjur af háu raforkuverði. Það er varhugaverð þróun, að verið sé að verðleggja íslenzkan iðnað út af samkeppnismörkuðum. Við höfum ítrekað varað við þessu. Þetta lýtur ekki eingöngu að samkeppnishæfni nýrra verkefna. Verja þarf þau störf, sem fyrir eru", segir Ólafur." [Undirstr. BJo.]
Hér talar maður með góða yfirsýn um annað af tveimur stærstu iðnaðarsvæðum landsins, Grundartangann. Hann segir það berum orðum, að hátt raforkuverð í landinu ógni nú atvinnuöryggi þúsunda manna og kvenna. Á tímum vaxandi atvinnuleysis, þegar atvinnuleysisbótaútgjöld ríkisins eru farin að slaga upp í 20 mrdISK/ár, er þetta algerlega óásættanlegt, af því að að það er þarflaust. Það eru ríkisfyrirtæki, sem standa fyrir þessari óheillaþróun á Grundartanga og annars staðar, Landsvirkjun og Landsnet (ON og LV selja NÁ raforku, LV selur Elkem Íslandi raforku). Báðir þessir raforkubirgjar og flutningsfyrirtækið LN hafa skilað arði undanfarin ár, og forstjóri Landsvirkjunar hefur í a.m.k. 5 ár gumað af því, að fyrirtæki hans myndi á "næstu árum" skila ríkisstjóði 20 mrdISK/ár í arðgreiðslum. Hann þarf þess vegna ekki að ganga jafnhart fram og hann gerir við að hækka verð raforku umfram þanþol gjaldeyrisskapandi og atvinnuskapandi fyrirtækja í landinu, sem vilja þó halda starfsemi sinni áfram í von um betri tíð.
Þess er skemmst að minnast, að forstjóri LV stóð í harðvítugum deilum við stjórnendur Elkem Ísland (áður Íslenska járnblendifélagið), sem varð fertugt í sumar, um endurnýjun rafmagnssamnings, sem hafði runnið sitt skeið á enda. Samningar náðust ekki vegna kröfugerðar Landsvirkjunar um hækkun á raforkuverði, sem stjórnendur Elkem Ísland gátu ekki séð, að fyrirtækið gæti staðið undir við gildandi markaðsaðstæður. Fór þá ágreiningurinn fyrir gerðardóm. Hann hefur því miður ekki verið birtur, en í kjölfar hans lýsti forstjóri Landsvirkjunar yfir megnri vanþóknun og fullyrti, að hann væri undir kostnaði Landsvirkjunar við að framleiða rafmagnið til Elkem Ísland.
Hér er býsna djúpt tekið í árinni, og forstjórinn skákar þar í skjóli leyndarinnar, sem hann vill, að hvíli yfir samningum þessa ríkisfyrirtækis. Hér krystallast verðlagningarstefna Landsvirkjunar og um leið sú kúvending, sem orðið hefur á stefnu fyrirtækisins gagnvart atvinnuuppbyggingu og iðnþróun í landinu með þessum forstjóra og núverandi stjórn Landsvirkjunar, án þess að fulltrúar eigendanna, Alþingismenn, hafi komið nálægt þessari stefnumótun, svo að vitað sé.
Forstjórinn getur ekki átt við raunverulegan (meðaltals) vinnslukostnað Landsvirkjunar, því að upphaflegi rafmagnssamningurinn við Íslenska járnblendifélagið var reistur á Sigölduvirkjun. Lán hennar vegna eru upp greidd, og virkjunin hefur að mestu verið bókhaldslega afskrifuð. Vinnslukostnaðurinn nemur þess vegna aðeins rekstrar- og viðhaldskostnaði virkjunarinnar, sem er líklega innan við 0,5 ISK/kWh, en gizka má á, að úrskurður gerðardómsins hafi jafngilt um 4 ISK/kWh fyrir forgangsorku til verksmiðjunnar. Landsvirkjun malar gull á þessum viðskiptum með raforku, þar sem verðið er um áttfaldur tilkostnaðurinn.
Hvað á forstjóri Landsvirkjunar þá við ? Hann fylgir dyggilega fram stefnu Evrópusambandsins, ESB, um verðlagningu raforku, en hún er í stuttu máli þannig, að raforkuverðið eigi að endurspegla kostnað raforku frá næstu virkjun, þ.e. verðið til neytenda á að endurspegla jaðarkostnað vinnslu, flutnings og dreifingar, til að skapa nægan hvata til fjárfestinga í nýjum mannvirkjum (virkjunum, aðveitustöðvum, loftlínum, jarðstrengjum, dreifistöðvum). Þetta er harðsvíruð markaðshyggja Landsvirkjunar, sem mun eyðileggja samkeppnishæfni landsins, því að erlendis njóta fyrirtæki ívilnana til að varðveita verðmætasköpun og atvinnusköpun. Það er afar ólíklegt, að þessi kúvending Landsvirkjunar frá stefnu, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn lögðu blessun sína yfir við stofnun Landsvirkjunar með lögum frá Alþingi árið 1965, njóti nokkurs fylgis í hinu myndarlega steinhúsi við Austurvöll. Þó virðist iðnaðarráðherra láta sér vel líka. Hverju sætir sú værukærð, á meðan Róm brennur ? Með þessa stefnu við stýrið verður erfitt eða ómögulegt að ná samningum á milli Landsvirkjunar og "Paradise Farm", sem hefur á stefnuskrá að reisa 10 ha ylræktarver á Víkursandi við Þorlákshöfn, þar sem rækta á tómata, papriku og salat fyrst í stað, og síðar meir er ætlunin að bæta við suðrænum ávöxtum á borð við papaja og mangó. Það vantar tengipunkt hjá Landsneti fyrir þessi viðskipti, en það er afar eðlilegt að raforkan komi frá tengivirki við virkjun í Neðri-Þjórsá og hugsanlega frá nýrri aðveitustöð, sem sjá mundi jafnframt hinum vaxandi þéttýlisstöðum Árborg og Hveragerði fyrir nýrri orkuleið. Hér er um gjaldeyrisskapandi hagsmunamál fyrir Sunnlendinga og landsmenn alla að ræða, sem þingmenn ættu að fylgjast með. Á tímum mikils nasablásturs yfir kolefnissporum vegna innflutnings er ekki verjandi, að ríkisfyrirtæki dragi lappirnar við að raungera umhverfisvænt verkefni, sem getur dregið úr innflutningi grænmetis, sem ræktað er með stóru kolefnisspori.
Forstjóri Landsvirkjunar tekur rangan pól í hæðina við verðlagningu raforku. Hann virðist horfa framhjá þeirri staðreynd, að við útreikning á kostnaði raforku frá nýrri virkjun skiptir höfuðmáli, hve langan tíma tekur að fullnýta hana. Ef t.d. 1200 GWh/ár virkjun þarf að fá 5,0 ISK/kWh frá almenningsveitum, þá þyrfti hún aðeins 3,6 ISK/kWh frá notanda á borð við Elkem Ísland til að skila sömu arðsemi. Þetta er grundvöllur þess, að íslenzk heimili í þéttbýli njóta líklega lægsta raforkuverðs í heimi án niðurgreiðslna hins opinbera, en það er hins vegar enn þá "svínað" á notendum í dreifbýli eftir innleiðingu Orkupakka #1 árið 2003.
Þetta á sér þó ekki lagastoð í orkupakkanum, því að leyfilegt er að umbuna neytendum á grundvelli búsetu. Hér er þeim hins vegar refsað, bæði heimilum og fyrirtækjum, og felur þetta í sér ólíðandi mismunun innan sömu dreifiveitu.
Fyrsti þingmaður Norð-Vesturkjördæmis, Haraldur Benediktsson, hefur barizt fyrir leiðréttingu á "svínaríinu" á Alþingi. Annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins í sama kjördæmi gegnir embætti iðnaðarráðherra og er þar af leiðandi í lykilstöðu til að hafa forgöngu um breytingar til batnaðar, en hvorki gengur né rekur á þessum bæ. Hvers konar verkstjórn er þar eiginlega við lýði ? Ef embættismenn eru tregir í taumi, þarf einfaldlega að bregða saxi og höggva á hnútinn. Til að bregða saxi þurfti kraft, áræðni og vilja.
Gegndi Haraldur þessu embætti, væri trúlega margt með öðrum brag í þessu ráðuneyti. Góður bóndi, sem kann að taka til hendinni á jörð sinni, getur rekið ráðuneyti með myndarbrag og rekið erindi þess á fundum ríkisstjórnar og Alþingis. Haraldur skrifaði góða grein að vanda í Moggann 17.09.2019,
"Þetta er spurning um sanngirni og jafnræði":
"Afleiðingar af breytingum, sem gerðar voru á raforkumarkaði eftir 2003 hafa sett ljótan blett á breytingar, sem í mörgu voru annars skynsamlegar. En hvað sem hverjum finnst, er samt ekki hægt að segja, að uppstokkun raforkumarkaðar sé um að kenna. Aðskilnaður framleiðslu og flutnings var í sjálfu sér ekki neikvætt skref. En við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að framkvæmdin tókst illa og hefur búið til misvægi milli landsmanna og verið mörgum þungur baggi. Þetta misvægi verður að leiðrétta, og koma á jafnræði milli allra, óháð búsetu."
Það er raunar vafasamt að halda því fram, að uppskipting íslenzka raforkukerfisins í kjölfar innleiðingar Orkupakka #1 frá ESB hafi verið skynsamleg við íslenzkar aðstæður, enda var ESB meðvitað um, að slíkt orkar tvímælis fyrir lítil og einangruð raforkukerfi, og veitti slíkum valfrelsi um þessa framkvæmd. Íslendingum var þess vegna í lófa lagið að leita undanþágu um uppskiptingu Landsvirkjunar og stofnsetningu Landsnets, en slík undanþága var þá Framsóknarflokkinun, sem fór með iðnaðar- og orkumálin, ekki þóknanleg.
Fyrir tíð þessarar uppskiptingar veitti Landsvirkjun ágóða sínum af orkusölu, m.a. til stóriðju, til uppbyggingar flutningskerfisins. Nú greiðir Landsvirkjun arð til ríkissjóðs og Landsnet fjármagnar flutningskerfið með tveimur gjaldskrám, fyrir almenningsveitur og fyrir stórnotendur með langtímasamninga. Af þessum ástæðum er ljóst, að þessi hluti raforkukerfisins er nú neytendum dýrari en hann var. Hið sama á við um dreifikerfið. Þar var áður samþætting raforkuvinnslu og dreifingar, en hún var bönnuð við hina óþörfu innleiðingu Orkupakka #1. Nú þarf dreifikerfið að fjármagna sig sjálft, og það hefur valdið miklum kostnaðarhækkunum fyrir neytendur. Ofan á þetta bætist, að hagkvæmni stærðarinnar, sem þó var fyrir hendi, var fórnað á altari samkeppni, sem aldrei varð og getur ekki orðið í okkar fákeppnisumhverfi. Þetta eru veigamiklar skýringar á hækkun rafmagnsverðs til notenda, sem valdið hefur ósamkeppnishæfni greinarinnar, með alvarlegum afleiðingum fyrir umfang fjárfestinga og afkomu atvinnulífs í landinu.
Um afleiðingarnar á allmarga kjósendur þingmannsins og flokks hans skrifar Haraldur Benediktsson:
"Íbúar dreifðari byggða hafa upplifað miklar hækkanir á orkuverði frá þessum breytingum. Það er staðreynd, sem loksins fékk almennilegt kastljós í umræðu um orkupakka 3.
Veruleikinn er, að íbúar dreifbýlis, á dreifisvæði Rarik, hafa þurft að sæta því, að flutningskostnaður á raforku hækkaði um ríflega 100 % árin 2005-2017. Á sama tíma nutu íbúar á þéttbýlissvæðum Rarik verulegrar raunlækkunar - eða um 44 % hækkunar meðan verðlag hækkaði um 80 %."
Í skýrslu Orkunnar okkar, 16.08.2019, komst hagfræðiprófessorinn Ragnar Árnason að þeirri niðurstöðu, að meðalhækkun til almennings (raforka, flutningur, dreifing) á ofangreindu tímabili (2004-2018) hefði numið um 8 % að raungildi. Það er meðaltalshækkun fyrir öll heimili landsins og er bein afleiðing af skipulagsbreytingu, sem á ekki við íslenzkar aðstæður. Sú mikla hækkun til dreifbýlis, sem Haraldur gerði grein fyrir, er líka sjálfskaparvíti, en er ekki áskilin í orkupökkunum. Þvert á móti er dreifbýlisívilnun viðurkennd, og ESB er að jafna orkuverðið innan vébanda sinna með því að hvetja til öflugra samtenginga á milli orkusvæða. Hérlendis er samtengingu á milli orkusvæða enn ábótavant, sem veldur miklum aukakostnaði. Sleifarlag stjórnvalda við að leiðrétta þetta óréttlæti er óafsakanlegt.
Hér er þá komin að einhverju leyti skýringin á ósamkeppnishæfni Íslands á raforkusviðinu. Hún á rætur að rekja til innleiðingar Íslands á löggjöf ESB á orkusviðinu, s.k. orkupökkum. Vinnslufyrirtækin spenna upp verðið og rembast við að skila sem mestum arði; flutnings-og dreifingarfyrirtækin verða að fjármagna sig sjálf, en eru óhagkvæmar einingar og dreifingarfyrirtækin flest of lítil.
Hvað er til ráða ? Eigendastefnu opinberra raforkuvinnslufyrirtækja þarf að móta þannig, að þau skuli selja sína orku á verði, sem spannar meðalkostnað þeirra, en ekki jaðarkostnað, og að það sé ekki þeirra keppikefli að skila arði. Arðurinn á þess í stað að fara beint til fólks og fyrirtækja, neytendanna. Fjármálalegt frelsi Landsnets þarf að auka og leyfa fyrirtækinu skuldabréfaútgáfu til að fjármagna dýrar framkvæmdir til að dreifa kostnaði og draga úr hækkunarþörf gjaldskráa. Dreifiveitum þarf að fækka, svo að þær stækki, í von um hagkvæmari rekstur.
Þá aftur að tilvitnuðum Fréttablaðsuppslætti:
"Eyjólfur segir, að raforkuhlutinn hér sé almennt ekki langt frá verðunum á Norðurlöndunum, en flutningshlutinn og dreifingin séu miklu dýrari."
Hætti raforkuvinnslufyrirtækin að stefna að sívaxandi arðgreiðslum, geta þau lækkað raunverðið, eftir því sem skuldastaða þeirra batnar. Það getur að nokkru vegið upp á móti háum flutnings- og dreifingarkostnaði og vonandi gert íslenzka raforku aftur samkeppnishæfa.
""Þegar íslenzkir raforkuframleiðendur bera saman verð hér og í viðmiðunarlöndunum, nota þeir gjarnan verð á stundarmörkuðum (spot) Norðurlanda og bera saman við raforkuverð hér, sem bundið er í langtímasamningum. Slíkur samanburður er rangur, því að í langtímasamningum um orkukaup á Norðurlöndum er verð töluvert ódýrara en stundarmarkaðir segja til um", segir Eyjólfur.
Hann segir, að gagnaver og aðrir nýlegir stórnotendur hér á landi greiði umtalsvert hærra verð en uppgefið meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju sé."
Ef það er rétt, að hérlendir raforkuframleiðendur noti meðalverð á "stundarmörkuðum" Nord Pool til að gefa sér viðmiðun um verðlagningu sinnar orku, þá gefa þeir sér, að sértækir samningar við notendur á borð við gagnaver, t.d. 20 MW, 170 GWh/ár, tíðkist ekki á stöðum, þar sem hluti orkunnar er boðinn upp í orkukauphöll. Það er þá gróf yfirsjón hjá þeim, því að fyrirtækjum á svæði Nord Pool (Norð-Vestur Evrópa) bjóðast mun hagstæðari samningar en heimilum og smánotendum (<20 GWh/ár). Þetta hefur t.d. komið í ljós, þegar garðyrkjubændur hér hafa borið saman bækur sínar við starfsbræður í Hollandi, Noregi og Danmörku, en þeir greiða um 6,3 ISK/kWh fyrir raforkuna komna til sín. Ennfremur verða raforkuvinnslufyrirtæki hér að líta til flutningskostnaðarins, því að heildarverð á afhendingarstað er það, sem skiptir viðskiptavininn máli og ræður úrslitum um það, hvort samningar nást.
Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar 2018 nemur vegið meðalverð til stóriðju á Íslandi 28,3 USD/MWh. Ef reiknað er með 15 % hærra verði til gagnavera og flutningsgjaldi samkvæmt gjaldskrá Landsnets, fæst orkuverð P=32,5+5,5=38,0 USD/MWh=4,8 ISK/kWh án dreifingarkostnaðar. Þetta verð ætti að vera ásættanlegt fyrir gagnaver, en ef dreifiveita kemur inn sem milliliður, þá getur verðið hækkað um 2,7 ISK/kWh og orðið 7,5 ISK/kWh, sem er áreiðanlega ósamkeppnishæft við löndin, sem Ísland keppir við um hýsingu gagna.
Það eru miklar ranghugmyndir uppi hérlendis um skynsamlega verðlagningu raforku til stóriðju á Íslandi. Sýnishorn yfirborðslegrar umfjöllunar gat að líta í forystugrein Viðskiptablaðsins 14. nóvember 2019,
"Furðulegar hugmyndir um raforkuverð".
Hún hófst þannig:
"Landsvirkjun hefur unnið að því á undanförnum árum að fá hærra verð fyrir raforkuna og draga út tengingum raforkuverðs við sveiflur í álverði. Hlutfall raforku, sem tengd er við verð á áli, hefur lækkað úr tveimur þriðju, og er nú hlutfallið ríflega þriðjungur. Þessi stefna beri [svo ?] þann árangur, að fyrirtækið geti greitt 10-20 milljarða króna í arð til ríkisins á ári næstu árin. Einnig er stefnt að því, að sérstakur þjóðarsjóður verði stofnaður, fyrst og fremst um arðgreiðslur Landsvirkjunar."
Þarna stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Landsvirkjun hefur ekki beitt hófsemi og forsjálni við verðlagningu á "vöru" sinni, en fyrirtækið og margir viðskiptavinir þess eru í samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum. Ljóst er af dæmum, sem rakin hafa verið af fjárfestum, t.d. á sviði gagnavistunar, að um yfirverðlagningu er að ræða, þannig að ekkert hefur orðið af viðskiptum hérlendis, af því að fjárfestirinn fékk mun hagkvæmari orkusamning, t.d. annars staðar á Norðurlöndunum, jafnvel í miðborg Stokkhólms.
Raforkukaup eru verulegur kostnaðarliður, jafnvel 30 % af heild, hjá álverum. Miklar sveiflur hafa alltaf verið á álverði, og ládeyða eða offramboð á álmörkuðum hefur iðulega valdið lokun álvera á Vesturlöndum, stundum tímabundnum. Samt hefur meðaleftirspurnaraukning áls í heiminum numið 4 %/ár.
Álver skapa fjölbreytileg störf, innan sem utan girðingar, og víða mikil útflutningsverðmæti, t.d. á Íslandi, þar sem verðmætasköpunin er miklu meiri en svarar til andvirðis raforkuviðskiptanna. Það ber að hafa í huga, að víða eru álverin og orkuverin, sem sjá þeim og byggðarlaginu í kring fyrir raforku, t.d. vatnsorkuver í Kanada, í eigu sama aðila. Orkukostnaður þessara álvera er í lágmarki, e.t.v. 15 USD/MWh með flutningi, og sama á við stór álver við Persaflóann, þar sem álverin og gasvinnslan oft á tíðum eru á sömu hendi. Gefur auga leið, að þessi staða gerir öðrum álverum, t.d. á Íslandi, mjög erfitt um vik í samkeppninni.
Þau hafa t.d. brugðizt við með fjárfestingum til að geta framleitt dýrari vöru, sérvöru. Þar af leiðandi var þróuð sú leið, að álver og raforkubirgjar þeirra deildu með sér áhættunni á álmörkuðunum þannig, að einingarverð raforkunnar tæki mið af markaðsverði á áli, t.d. ákveðinni vörutegund á LME (London Metal Exchange) markaðinum. Í ljósi aðstæðna er þetta eðlileg ráðstöfun, sem tryggir orkubirginum þá ávöxtun fjárfestingar sinnar, sem hann telur duga í lægðum, og í hæðum fær hann góða ávöxtun og fleytir rjómann af háu afurðaverði álveranna. Þetta tengir aðila saman á gagnkvæmum hagsmunum.
Núverandi forstjóri Landsvirkjunar, örugglega með stuðningi stjórnar Landsvirkjunar, hefur rifið þetta kerfi niður, þegar eldri samningar hafa runnið sitt skeið, þröngvað fram verulegum hækkunum á grunnverði og síðan vísitölubindingu þess við þætti, sem óskyldir eru afkomu birgis og viðskiptavinar, eins og vísitala neyzluverðs í Bandaríkjunum og vísitala raforkuverðs á Nord Pool uppboðsmarkaðinum. Hið síðara þýðir, að sé gott vatnsár og vindar blási vel í Norð-Vestur Evrópu, þá lækkar raforkuverð til Landsvirkjunar. Það er varla glóra í því. Ekki er vitað til, að umfjöllun um þessa afdrifaríku stefnubreytingu Landsvirkjunar hafi farið fram á meðal fulltrúa eigandans, íslenzku þjóðarinnar, og er þar átt við Alþingi.
Við slíka ákvörðun er margs að gæta og dugar ekki, að gæta einvörðungu skammtíma hagsmuna Landsvirkjunar, heldur þarf að huga að langtíma hagsmunum þjóðarinnar. Umfjöllun Viðskiptablaðsins er mjög einhliða, þar sem ekki er gætt að því, að stefnan hlýtur að vera hámörkun virðisauka í landinu við nýtingu orkulinda í eigu opinberra aðila, og til langframa þarf að gæta gaumgæfilega að samkeppnisstöðunni við útlönd. Það er ófullnægjandi að líta á skammtímagróða einstakra fyrirtækja og arðgreiðslna þeirra í ríkissjóð eða í borgarstjóð.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Sæll Bjarni og þökk fyrir þennan góða pistil. Við hann er engu að bæta, en þó stingur í augu mér eitt og annað.
Þú nefnir Harald á Reyn og telur hann vera baráttumann gegn "svínaríinu" og nefnir þar skrif hans í dagblað. Halli var einstaklega duglegur talsmaður bænda, meðan hann gegndi forustu Bændasamtakanna. Þegar hann fór í framboð til alþingis, þá sótti hann mörg atkvæði í sínu kjördæmi, enda einstaklega skýr náungi á ferð og rökfastur, að menn töldu. Því miður hefur hann ekki staðið undir væntingum kjósenda sinna, fyrst með því að láta eftir ráðherraembætti, sem kjósendur hans töldu hann sannarlega eiga og síðan í sinnaskiptum sínum varðandi op3. Hann á þó enn sína fylgismenn í kjördæminu, þó margir hafi staldrað við þegar framkoma hans í op3 varð ljós. Halli er hins vegar einstaklega góður penni og gaman að lesa skrif hans. En skrif og verk fara sjaldnar saman hjá honum, ólíkt því sem áður var.
Um varaformann Sjálfstæðisflokks ætla ég ekki að fjölyrða. Eitt er þó víst að hún mun væntanlega þurfa að skipta um kjördæmi, ætli hún að fá traust sæti á alþingi. Hvað það er sem veldur hennar framkomu við þann málaflokk sem henni er ætlað að verja í sínu ráðuneyti, iðnaðinum, er erfitt að segja til um. Velvilji vill kannski halda því fram að vegna fjölskyldutengsla við ákveðið fyrirtæki á Grundartangasvæðinu, vilji hún ekki berjast fyrir því svæði, en þó er sú söguskýring langsótt.
Kveðja
Gunnar Heiðarsson, 2.12.2019 kl. 20:14
Sæll, Gunnar.
Sammála þér. Téður Haraldur hefur kynnt óánægju sína með dreifbýlisgjaldskrá dreifiveitnanna opinberlega og í þingflokki sínum, en það á enn eftir að koma í ljós, hversu ágengt honum hefur orðið, og dráttur úrbóta er orðinn pínlega langur m.v. eðli viðfangsefnisins. Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun, að dragbíturinn sé iðnaðarráðuneytið, og þar ber þingmaður ábyrgð, sem er á eftir honum á lista flokksins í NV. Þetta hlýtur að skapa spennu í kjördæminu, og ástandið getur ekki varað til frambúðar. Ég sé ekki, að ráðherra iðnaðar, orku o.fl. hafi haft erindi sem erfiði í þetta ráðuneyti, og gerðir og aðgerðaleysi hennar þar vekja enga hrifningu, sízt á Grundartanga.
Bjarni Jónsson, 3.12.2019 kl. 10:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.