Gefið hefur á bátinn, en áfram siglir hann þó

Nú eru rúmlega 7000 manns á atvinnuleysisskrá eða um 4 % af vinnuaflinu og enn hærra hlutfall af starfsmannafjölda einkageirans, en atvinnuleysingjar koma að langmestu leyti þaðan.  Svo margir hafa ekki verið án atvinnu hérlendis síðan 2012, sem vitnar um aðlögun atvinnulífsins að tekjutapi og hækkandi kostnaði, þótt verðbólga sé blessunarlega lág.

Allir höfuðatvinnuvegirnir eiga við erfiðleika að stríða, en mismikla.  Meðalhagvöxtur heimsins fer minnkandi og er rétt ofan við núllið í Evrópu.  Bloomberg metur líkur á samdrætti í stærsta hagkerfi heims á tímabilinu desember 2019-nóvember 2020 vera 26 % og lækkandi, þrátt fyrir íþyngjandi tollastríð Bandaríkjanna (BNA) og Kína. Bandaríkjaforseti skekur enn tollavopnið, en hann virðist halda, að hægt sé að beita því "to make America great again", en Bandaríkjamenn finna þegar á eigin skinni, að tollavopnið virkar sem bjúgverpill.  

Stærsta atvinnugreinin á Íslandi, ferðaþjónustan, hefur orðið harðast úti 2019, þrátt fyrir stöðugt vaxandi áhuga ferðamanna hvaðanæva að úr heiminum fyrir norðurslóðum, þökk sé loftslagsumræðunni og myndum af bráðnandi ísbreiðum. Noregur nýtur þessa vaxtar enn, enda er gjaldmiðill þessarar jarðolíu- og -gasþjóðar búinn að vera ótrúlega veikur allt styrkingartímabil ISK. Er það til merkis um ruðningsáhrif olíu- og gasvinnslu Norðmanna í atvinnulífi þeirra. 

Ferðaþjónusta er vinnuaflsfrek, var komin yfir 30 k manns áður en hallaði undan fæti 2018. Þess vegna má ætla, að ferðaþjónustan hafi orðið ósamkeppnishæf 2018 og að enn hafi hallað undan fæti við gerð "Lífskjarasamninganna" 2019, því að greinin er dæmigerð lágtekjugrein, og mestar urðu launahækkanirnar á meðal lágtekjufólks. Áætlanir Isavia um farþegafjölgun og þörf á stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar virðast nú hafa verið reistar á sandi.  Höfundar þeirra hafa flaskað á mótvægi gjaldmiðilsins ISK við öfgum.  ISK rís við "óeðlilega" hratt flæði gjaldeyris inn í landið, þar til útflutningsgreinarnar, þ.m.t. ferðamennskan, verða ósamkeppnisfærar.  Með sama hætti fellur ISK við mótlæti og gerir útflutningsgreinarnar aftur samkeppnishæfar.  Þetta ferli er þó þyrnum stráð, því að af hljótast verðhækkanir á innflutningi og yfirleitt verðbólga.  Á meðan meðan viðskiptajöfnuðurinn er jákvæður, eins og nú, verður þó ekki djúp dýfa. 

Fall VOW air varð bæði af of lágum tekjum og of miklum kostnaði.  Fækkun ferðamanna í kjölfarið dró úr vinnu innanlands, en tekjur af ferðamönnum lækkuðu samt ekki, því að tekjur af hverjum ferðamanni hækkaði í gjaldeyri og í ISK, sem er merkileg og jákvæð þróun. Nú horfir illa með spurn eftir ferðaþjónustu í vetur, einkum utan höfuðborgarsvæðisins. Einkum fækkar ferðamönnum frá Bandaríkjunum (BNA) og EES-löndunum.  Aukning frá Asíu gæti vegið þetta fall upp með tímanum, því að Kínverjar fjölmenna nú til Evrópu. Fljúga þeir beint, m.a. frá Sjanghæ til Helsinki í Finnlandi, og hafa nú tilkynnt áframhaldandi flug þaðan til Keflavíkurflugvallar í vetur. Þarna er komin nýrík miðstétt Kína, sem telur 300-400 k manns, og heimsviðskiptakerfi auðhyggjunnar hefur með samþykki kínverska kommúnistaflokksins lyft úr örbirgð til bjargálna. 

Nýtt millilandaflugfél er í undirbúningi hérlendis, en hingað til virðist ekki hafa verið rekstrargrundvöllur fyrir tveimur slíkum flugfélögum hérlendis, enda eru nú um 25 flugfélög, sem keppa á flugleiðum til Íslands.  SAS hefur t.d. tilkynnt um áform um reglubundnar ferðir til Keflavíkurflugvallar. Gleðilegt er, að hlutabréfaverð Icelandair er nú að jafna sig eftir áföll þessa árs.  Munu evrópsk flugmálayfirvöld leyfa notkun Boeing 737 MAX á fyrsta ársfjórðungi 2020 ?  Það er enn á huldu og skiptir marga gríðarlegu máli.

Flugvallarmálin eru í deiglunni hér og víðar.  Samgönguráðherra landsins kynnti nýlega sérfræðingaskýrslu "stýrihóps" undir formennsku Eyjólfs Árna Rafnssonar, verkfræðings og formanns Samtaka atvinnurekenda, um flugvallarvalkosti á SV-landi. Hópurinn kvaddi erlenda flugvallarsérfræðinga sér til ráðuneytis.  Samgönguráðherra ætlar í kjölfarið að fá fé í rannsóknir á flugvallarskilyrðum í Hvassahrauni og gerði samkomulag við borgarstjóra um áframhaldandi tvær flugbrautir í Vatnsmýri í 15 ár hið minnsta.  Fremja á skemmriskírnar rannsóknir á umhverfi (vatnsvernd) og veðurfari í Hvassahrauni. Er það gagnrýnt, að ekki sé ætlunin að fylgja alþjóðlegum stöðlum um tímabil nákvæmra rannsókna á veðurfari á hugsanlegu flugvallarstæði (minnst 4 ár).  Millilandaflugvöllur og innanlandsflugvöllur í Hvassahrauni eru sagðir munu kosta samtals mrdISK 300, en innanlandsflugvöllur einn og sér mrdISK 44.  Mun ódýrara er þó að fjárfesta í Vatnsmýrarvellinum til notkunar fyrir einkaflug, kennsluflug, sjúkraflug og áætlunarflug innanlands og til Færeyja ásamt því að nota hann sem varaflugvöll fyrir millilandaflugið. Það má þróa Vatnsmýrarvöllinn með lengingu flugbrautar út í sjó.  Veðurfarslega er þetta flugvallarstæði líklega  hið bezta á landinu, og því má ekki fórna frekar en orðið er á altari lóðaviðskipta undir íbúðir.  Slíkt væri aðeins verjanlegt, ef hörgull væri á byggingarlandi á höfuðborgarsvæðinu, sem er alls ekki.

Það er sömuleiðis mun ódýrara en Hvassahraunsvöllur að fjárfesta á Keflavíkurflugvelli til að gera hann hæfan fyrir afgreiðslu allt að 20 M farþega á ári, sem hann er talinn geta annað með nauðsynlegum fjárfestingum. Það hillir ekkert undir, að glíma þurfi þar við þann farþegafjölda, því að áætlanir Isavia hafa reynzt vera alveg út úr kortinu. Það er heldur ekki skynsamlegt að fjárfesta í öðrum flugvelli á sama eldvirka svæðinu, og öruggari kostur að fjárfesta í flugvelli utan eldvirkra svæða, ef/þegar hillir undir, að núverandi flugvellir á SV-horninu verði fulllestaðir. Sá flugvöllur, sem verður fyrir valinu þá, þarf jafnframt að þjóna sem heppilegur varafluvöllur fyrir hina. Isavia hefur nú tilkynnt um fjárveitingar til fyrirhugaðs viðhalds og fjárfestinga í endurbótum á Egilsstaðaflugvelli sem varaflugvelli Keflavíkurflugvallar, sem staðið geti undir nafni.  Í kjölfarið getur þá þróazt beint flug erlendis frá til Egilsstaða.

Miðað við þá gríðarlegu fjárþörf, sem er í framtíðar samgöngukerfi með framkvæmdum á Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllum, jarðgöngum, brúargerð, fjölgun akreina, mislægum gatnamótum og stígagerð fyrir gangandi og hjólandi, er engan veginn verjanlegt að hefja framkvæmdir við langdýrasta flugvallarkostinn, sem er jafnframt illa staðsettur og óþarfur.

Þá að sjávarútvegi: veiði villtra botnfiska fer minnkandi í heiminum, en fer vaxandi á Íslandi, og á næsta ári er spáð um 10 kt aukningu m.v. 2019.  Jafnframt er spáð um 17 % heildaraukningu á veiðum íslenzkra skipa á næsta ári.  Þá er spáð um 23 % aukningu í vinnslu og útflutningi eldisfisks á Íslandi, og getur sú vinnsla  þrefaldazt á einum áratugi að magni.  Þokkalegt verð er fyrir afurðirnar, enda eru matvælamarkaðir hvorki næmir fyrir hagsveiflum né sveiflum á hrávörumörkuðum, svo að framtíð sjávarútvegs og fiskeldis á Íslandi virðist björt, og skjóta þessar greinar æ traustari stoðum undir hagstæðan viðskiptajöfnuð, sem er ein af undirstöðum trausts gengis, lágrar verðbólgu og velmegunar í landinu. Vaxandi próteinskortur er í heiminum, sem íslenzkir matvælaframleiðendur geta og eru að nýta sér.  Laxeldið er sérlega efnilegt í þessu sambandi, hefur þegar bætt hlut Vestfirðinga og hefur vaxtarstyrk, sem duga mun Vestfirðingum til uppbyggingar fjölbreyttra atvinnuhátta og mikillar velmegunar.  Atvinnusaga Vestfjarða er glæst, og nú eru forsendur fyrir nýju blómaskeiði þar fyrir hendi. Athyglisvert er, að aftur knýr norsk þekking og fjármagn þessa þróun áfram.

Jákvætt er, að nú stefnir í meiri viðskiptaafgang við útlönd en í fyrra, og staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum hefur aldrei verið betri í eignalegu tilliti.  Þessi tíðindi styrktu gengi ISK um 3 % í byrjun desember 2019, og við það situr enn.

Fiskveiðistjórnunarkerfið er lífseigt umræðuefni hérlendis, og tilefni þótti til að endurlífga þá umræðu í kjölfar umfjöllunar Kveiks/RÚV um starfsemi Samherja í Namibíu, en Samherji virðist hafa komið til skjalanna sem samstarfsaðili namibískra stjórnvalda í sjávarútvegi í kjölfar brottvísunar suður-afrískra útgerða frá Namibíu 2011, en ferill Suður-Afríkumanna í Namibíu er ekki til fyrirmyndar, svo að vægt sé til orða tekið, heldur virðast þeir hafa verið í hlutverki nýlenduherra þar.  Vart er að efa, að þeir sækja aftur á sömu mið og þurfa þá að hrekja þá brott, sem Namibíumenn kusu heldur að starfa með.  Er þetta sýnidæmi um það, að hollast er nýfrjálsum þjóðum að taka stjórn auðlinda sinna í eigin hendur sem allra fyrst.  Frá fullveldi Íslendinga liðu 58 ár, þar til þeir öðluðust óskoraðan yfirráðarátt yfir 200 sjómílna lögsögu sinni.  Nú eru 59 ár liðin frá því, að þessi fyrrum þýzka nýlenda öðlaðist sjálfstæði.  Á þessu ári hafa þeir atburðir orðið á Íslandi, að löggjöf Evrópusambandsins um milliríkjaviðskipti með rafmagn hefur verið leidd í íslenzk lög.  Þótti ýmsum hérlandsmönnum það of áhættusamur gjörningur, en framtíðin mun skera úr um það, hvort fullveldisrétti landsmanna yfir orkulindunum verður með þeim gjörningi og síðari gjörningum í orkusviðinu stefnt í tvísýnu. 

Ekki er að efa, að hatrömm barátta stendur yfir um náttúruauðlindir í Namibíu, og gengur ýmislegt á, á meðan Namibíuþjóðin öðlast stjórn á þeim, en langt er í land með að dreifa arði auðlinda til almennings þar í landi. Svo virðist sem Samherji hafi lent í skotlínu hatrammra átaka á milli hinnar nýfrjálsu Namibíu og drottnaranna í Suður-Afríku, þar sem Namibíumenn hafa fengið Samherja til að hjálpa sér við auðlindanýtinguna í kjölfar brottrekstrar Suður-Afríkumanna.  Í þessu sambandi ber að spyrja spurningar Rómverja: "cuo bono"-hverjum í hag ?  Stöðvun starfsemi Samherja í Namibíu opnar e.t.v. Suður-Afríkumönnum aftur leiðina að sjávarauðlind Namibíumanna.  Það er ekki allt sem sýnist.  

Á Íslandi hefur betur tekizt til, enda veiðar og vinnsla í höndum landsmanna sjálfra, sem er nauðsynlegt og nægjanlegt skilyrði fyrir því, að náttúruauðlindanýtingin gagnist þjóðinni sem heild, ef réttum leikreglum er fylgt og eftirlitsaðilar vinna vinnuna sína. 

Deilt er um kvótaþakið, þ.e. hámarksaflahlutdeild á tegund hjá hverju fyrirtæki.  Hún er hér 12 %, en í Noregi er hún tvöfalt hærri.  Íslenzku fyrirtækin eru í harðri samkeppni við mun stærri norsk fyrirtæki, og verði kvótaþakið lækkað hérlendis, mun framleiðni íslenzku fyrirtækjanna minnka, sem er ávísun á það að verða undir á alþjóðlegum mörkuðum, og það mun þýða veikingu ISK og lakari lífskjör á Íslandi.  Stjórnmálamenn verða að huga vel að gjörðum sínum varðandi fyrirtæki í grimmri alþjóðlegri samkeppni og varast fljótræðislegar aðgerðir til að þóknast hávaðaseggjum.  Með því að komast inn á og halda stöðu sinni á bezt borgandi mörkuðunum, fæst hæsta mögulega verð fyrir sjávarauðlind landsmanna, sem seytlar um allt hagkerfið.  Það er einmitt það, sem gerzt hefur.

  Ásta Björk Sigurðardóttir, hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, upplýsir Gunnlaug Snæ Ólafsson á 200 mílum Morgunblaðsins, eins og birtist 04.12.2019, um vísitöluþróun magns og verðmæta í sjávarútvegi tímabilið 1999-2019. M.v. við vísitölu hvors tveggja 100 í byrjun, er hún 101 í lokin fyrir magnið (t) og 163 fyrir verðmætin í erlendri mynt.  

"Ásta Björk Sigurðardóttir, hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, segir það ekki einungis framboð og eftirspurn á mörkuðum, sem ýti undir hærra verð fyrir afurðirnar, heldur geti verð einnig hækkað vegna aukinna gæða.  Þessi auknu gæði má m.a. rekja til fjárfestinga í hátæknilausnum, sem gera það að verkum, að meira fæst fyrir þann fisk, sem veiddur er.  "Þrátt fyrir að útflutningur sjávarafurða sé að dragast saman að magni til, sem má einna helzt rekja til loðnubrests, er lítilsháttar aukning í útflutningsverðmætum sjávarafurða á föstu gengi á fyrstu 10 mánuðum ársins.  Kemur það til af hagstæðri verðþróun sjávarafurða undanfarin misseri.  Sem endranær er ekkert gefið í þessum efnum, en þar gegnir fjárfesting í nýsköpun og tækni lykilhlutverki sem og markaðssetning afurðanna erlendis, þar sem hörð samkeppni ríkir", útskýrir Ásta Björk."

Auðlindanýting íslenzkra fiskimiða getur varla fengið betri umsögn en þessa, og hún er beztu meðmæli, sem íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið getur fengið.  Það er einfaldlega ekkert betra kerfi þekkt fyrir þessa auðlindanýtingu.  Ef auðlindagjaldið hefði verið haft hærra, hefðu fjárfestingarnar óhjákvæmilega orðið minni, og að sama skapi hefði verðmætasköpunin fyrir samfélagið orðið minni.  Það hefði verið afar óskynsamleg ráðstöfun.  

Hugmyndin um veiðileyfagjaldið er reist á auðlindarentu, sem hefur gengið erfiðlega að sýna fram á.  Sjávarútvegurinn er fjármagnsfrekur, og arður af fjármagni þar er ekki hærri en í mörgum öðrum greinum. Honum er nauðsyn á að hafa bolmagn til fjárfestinga.  Þær hafa skilað sér í svo miklum eldsneytissparnaði, að sjávarútveginum mun fyrirsjáanlega takast að ná losunarmarkmiðum koltvíildis 2030 um 40 % minnkun frá 1990. Þær hafa líka skilað honum framleiðniaukningu, sem hafa gert honum kleift að greiða góð laun og að standast alþjóðlega samkeppni fram að þessu.

Sjávarútvegurinn er í samkeppni um fjármagn og fólk hér innanlands og á í samkeppni við allar fiskveiðiþjóðir Evrópu, Kínverja og Kanadamenn, á hinum kröfuharða evrópska markaði og víðar.  Nefna má fiskútflytjendur á borð við Norðmenn og Rússa.  Engin þessara fiskveiðiþjóða, nema Færeyingar, leggja veiðileyfagjald á sinn sjávarútveg, en nokkrar hafa gefizt upp á því, t.d. Rússar, sem gáfust upp á sínu uppboðskerfi, því að útvegurinn var við að lognast út af undir því kerfi.  Þvert á móti nýtur sjávarútvegur yfirleitt fjárhagslegra hlunninda eða fjárstuðnings úr hendi opinberra aðila í sínu landi í nafni fæðuöryggis, auðlindanýtingar og byggðastefnu.  Við þessar aðstæður er vandasamt að leggja auðlindagjald á íslenzkan sjávarútveg, og stjórnmálamenn og embættismenn geta hæglega gert herfileg mistök, sem vængstífa atvinnugreinina og gera hana ósamkeppnishæfa. Ekki er að spyrja að því, að þá mun verðmætasköpunin koðna niður.  

Lengst allra í vitleysunni ganga þeir, sem halda því fram, að leiguverð kvóta endurspegli markaðsverð á endurgjaldi til ríkisins fyrir aðgang að auðlindinni. Leiguverð á bolfiski mun vera yfir 200 ISK/kg og er jaðarverð, sem leigutakinn telur sér hagfellt vegna lágs kostnaðar við að afla viðbótarafla, og eftir atvikum að verka hann og fullvinna.  Ef ríkið mundi innheimta þessa upphæð sem auðlindagjald, jafngilti það þjóðnýtingu, og enginn myndi hafa hug á að draga bein úr sjó.  Við sætum uppi með ríkisútgerð og bæjarútgerðir með stjórnmálamenn og embættismenn við stjórnvölinn, sem hvorki hafa vit á né áhuga á útgerð, og öll þjóðin myndi stórtapa, af því að þá væri náttúruauðlindin hennar í tröllahöndum getuleysins, sem er ekkert skárra fyrir hana en arðrán útlendinga á sjávarauðlind landsmanna fyrr á tíð.  Hvort tveggja leiðir til fátæktar.  

Fiskveiðistjórnunarlöggjöfin tryggir ríkisvaldinu óskoraðan rétt til að stjórna auðlindanýtingunni innan efnahagslögsögunnar.  Þetta er gott fyrirkomulag, á meðan við völd eru stjórnmálamenn, sem vilja leggja beztu vísindalegu þekkingu til grundvallar hámarksnýtingu nytjastofnanna til langs tíma.  Því fer fjarri, að einhugur sé um slíkt í Evrópu, hvað þá annars staðar.  Þetta kemur fram við skiptingu flökkustofna.  Hún er í ólestri, og niðurstaðan er ofveiði, af því að Evrópusambandið (ESB), Noregur og Færeyjar, hafa myndað skúrkabandalag gegn Íslendingum, Grænlendingum og Rússum.  Þegar Bretar hafa gengið úr ESB, geta þeir annaðhvort magnað vandann með því að ganga í skúrkabandalagið, eða þeir geta beitt áhrifum sínum til að kalla alla þessa aðila að samningaborðinu, þar sem tekizt verður á um skiptinguna með tiltækum rökum.

Þriðja undirstaða hagkerfisins, útflutningsiðnaðurinn, má muna sinn fífil fegri, því að verð á málmmörkuðum hefur verið lágt undanfarin ár.  Á sama tíma hefur tilkostnaður hans hækkað mjög, hráefni, starfsmannahald og orka.  Viðskiptastríð BNA við Kína og ESB hefur orðið til bölvunar, keyrt Evrópu í stöðnun (Þýzkaland í samdrátt), minnkað hagvöxt Kína í 6 % og Bandaríkjunum sjálfum er aðeins spáð 2 % hagvexti 2020. Íslenzkur hátækniiðnaður, sem að miklu leyti er afsprengi sjávarútvegs og málmiðnaðarins, hefur þó dafnað vel og næstum tvöfaldað útflutningsverðmæti sín 2019 m.v. við 2018.  

Kraftgjafi iðnaðarins og almennt góðra lífskjara er lágur raforkukostnaður á kWh að flutningi, dreifingu og sköttum meðtöldum.  Í þessum efnum hefur sigið á ógæfuhliðina hérlendis með innleiðingu ESB-regluverks, sem á ekki við hér.  Uppskipting raforkugeirans olli neytendum miklum kostnaðarauka, vegna þess að hluti gróðans af orkusölunni fór ekki lengur til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis, heldur í arðgreiðslur til eigendanna.  Kerfið er í ógöngum, af því að það hefur misst alþjóðlega samkeppnisstöðu sína og í því felast ekki nægilegir hvatar til að virkja. Enginn er ábyrgur fyrir afhendingaröryggi raforku til almennings, og þess vegna getur dregizt á langinn að hefja nýjar virkjanir. Frá iðnaðarráðuneytinu kemur engin leiðsögn út úr þessum ógöngum, heldur vitleysa á borð við það, að samkeppni á milli fyrirtækja (á örmarkaði) tryggi hag neytenda. Þar er étinn upp áróður að utan. Íslendingar eru orðnir bundnir í báða skó á raforkusviðinu vegna innleiðingar þvingandi löggjafar frá Evrópusambandinu, sem hentar landinu engan veginn. Reyna þarf að sníða af þessu kerfi vankantana m.v. íslenzkar aðstæður í samráði við ESB eða leita eftir annars konar samstarfi á viðskipta-, vísinda- og menningarsviðinu. Þegar stærsta orkufyrirtæki landsins, sem jafnframt er að fullu í ríkiseign, telur hagsmunum sínum og eigandans betur borgið með því að láta vatn renna framhjá virkjunum en að selja málmframleiðanda, sem vantar 10 MW, afl og orku á samkeppnishæfu verði, þá er maðkur í mysunni og sýnilega vitlaust gefið.

Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll  

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Virkilega gefandi og fróðleg lesning Bjarni.

Hafðu þökk fyrir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.12.2019 kl. 16:04

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Gott að frétta, Ómar, að þú hefur fundið eitthvað bitastætt í pistlinum þeim arna.

Bjarni Jónsson, 10.12.2019 kl. 17:33

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Þér að segja Bjarni þá utan margt annað komst þú með tvennt sem passar vel sem beinar tilvitnanir inní pistla sem eru að veltast um í hausnum á mér, en mig vantar réttu fréttirnar til að tengja við, það er umræðu þar um á Alþingi, eða stórar fréttir sem tengjast efninu.

Annars vegar er umfjöllun þín um sjávarútveginn mjög yfirgripsmikil, en samt hnitmiðuð og skömm að fólk skuli ekki kynna sér svona rök og rökstuðning, svo þegar ég var að hlusta á fréttir um hættuna á rafmagnstruflanir, þá fóru þessi orð um huga mér;

"Uppskipting raforkugeirans olli neytendum miklum kostnaðarauka, vegna þess að hluti gróðans af orkusölunni fór ekki lengur til uppbyggingar flutnings- og dreifikerfis, heldur í arðgreiðslur til eigendanna.  Kerfið er í ógöngum, af því að það hefur misst alþjóðlega samkeppnisstöðu sína og í því felast ekki nægilegir hvatar til að virkja. Enginn er ábyrgur fyrir afhendingaröryggi raforku til almennings, og þess vegna getur dregizt á langinn að hefja nýjar virkjanir.".

Og hann Villi verkó ætti að lesa þessa klausu þína á hverju kvöldi áður en hann fer að sofa; "Þegar stærsta orkufyrirtæki landsins, sem jafnframt er að fullu í ríkiseign, telur hagsmunum sínum og eigandans betur borgið með því að láta vatn renna framhjá virkjunum en að selja málmframleiðanda, sem vantar 10 MW, afl og orku á samkeppnishæfu verði, þá er maðkur í mysunni og sýnilega vitlaust gefið."".

Þetta er nefnilega kjarninn.

Allavega fór þessi pistill á áberandi stað í bókarmerki tækjastiku minnar, til taks ef ég fæ tilefni til að vekja athygli á skynsemisorðum.

Dropinn holar steininn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.12.2019 kl. 18:32

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að helsti veikleiki íslensks hagkerfis sé sá, hversu háð það er auðlindanýtingu. Sjávarútvegurinn byggir á henni, sú iðnaðarframleiðsla sem hér er grundvallast á ódýrri orku fremur en innlendu hugviti, og ferðaþjónustan er auðlindagrein líka, fyrir utan það að hún er ferðaþjónusta, og ferðaþjónusta hefur aldrei gert lönd rík. Það sem okkur skortir er iðnaður, grundvallaður á hugviti, líkt og Þjóðverjar byggja á svo dæmi sé tekið. 

Þorsteinn Siglaugsson, 10.12.2019 kl. 23:15

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

´´Fall WOW var bæði af of lágum tekjum og of miklum kostnaði´´

 Skólabókardæmi um hvernig ekki á reka fyrirtæki.

 ´´Kraftgjafi iðnaðarins og almennt góðra lífskjara er lágur raforkukostnaður´´

 Orkupakki þrjú, fjögur og allir sem á eftir fylgja munu stúta samkeppnishæfni allra Íslenskra fyrirtækja og verða niðurgreidd af Íslenskum almenningi, sem eins og áður er aldrei spurður neins. Ef allar þær lygar sem stjórnmálamenn voga sér að matreiða ofan í Íslenska kjósendur, fyrir kosningar, væru hermdar upp á þá og þeir dæmdir samkvæmt því, væri enginn á Alþingi, svo rotin er þessi samkoma orðin. Allir í grjótinu, fullir sem edrú og Bára fangavörður.

 Að það sé veikleiki að vera háður auðlindum sínum telur tuðarinn skringileg rök. Út frá hverju öðru ætti hagkerfið að vinna Þorsteinn? Út frá hverju vinna önnur hagkerfi, öðru en því sem heima er ræktað og nærtækast? Að líkja Íslenska hagkerfinu við það þýska er hreinn og klár barnaskapur. Þjóðverjar ráða Evrópu og geta nánast gert það sem þeim sýnist í flæði fjármagns. Þeir framleiða fimm sinnum meira en þeir geta sjálfir keypt. Til að selja það sem ekki selst innanlands, lána þeir öðrum fjármagn. Þegar þeir sem hafa fengið lánað geta ekki lengur borgað, er þeim lánað enn meira og síðan ennþá meira. Boltinn rúllar þar til einn daginn er skyndilega komið vacum í fjárhyrslurnar og allt hrynur hjá lántakendunum. Þýskaland heldur þó ávallt sínum sjóðum, því ávallt er lagt nægilega mikið til hliðar til að mæta fjárhagslegum áföllum. Á skellur kreppa og allt fer til helvítis. Fyrirtæki um allan heim falla og hrægammar bjóða hrakvirði í þau bestu.

 Hrægammarnir í Evrópu er Þýskaland. Þeim tókst ekki að leggja heimsálfuna undir sig í tveimur heimsstyrjöldum með vopnavaldi, en þeim er hægt og bítandi að takast það með fjármagni og heilaþvotti um sameinaða Evrópu. Ef hrúgað er nægilega mörgum kerfisrottum og kvislingum í raðir nágrannaríkjanna næst markmiðið innan fimm ára, héðan í frá. Fjórða ríkið nálgast hraðar en menn geta ímyndað sér!

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 11.12.2019 kl. 00:19

6 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þungamiðjan í þýska hagkerfinu er iðnaðarframleiðsla sem grundvallast á hugviti. Þú spyrð á hverju hagkerfi geti byggt öðru en auðlindum. Líttu á danska hagkerfið til dæmis. Það er lítið um auðlindir í Danmörku, hagkerfið grundvallast á iðnaði og verslun. Það er þetta sem þróuð nútímahagkerfi byggja á.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.12.2019 kl. 09:52

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Vel heppnuð þróun hagkerfa er reist á hlutfallslegum styrkleika.  Það er eðlilegt, að undirstöður íslenzka hagkerfisins séu lagðar með nýtingu hinna auðugu fiskimiða við landið, tiltölulega auðvirkjanlegra jökulfljóta og einstaka bergvatnsáa og einstæðri náttúru landsins.  Af  tveimur hinna fyrstnefndu hefur síðan sprottið háþróaður og samkeppnishæfur iðnaður, sem tvöfaldaði verðmæti síns útflutnings á þessu ári.  Þetta er þróunarferli, en það er á brattann að sækja, af því að innlendi markaðurinn er lítill.  Ég hygg, að danska hagkerfið sé reist á dönskum landbúnaði, sem nýtur mjög frjósams jarðvegs.  Danir hafa síðan nýtt staðsetningu sína til viðskipta og nú upp á síðkastið verið í fararbroddi orkuskiptanna, og eru á meðal mestu vindmylluframleiðenda í heimi, enda notið þar öflugs heimamarkaðar.  

Þýzkaland bar á góma hér að ofan.  Með sameiningu þýzku ríkjanna 1871 "með járni og blóði" undir forystu "járnkanzlarans", varð til stærsti innanlandsmarkaður Evrópu fyrir iðnvarning og annað.  Hann gekk þó ekki hnökralaust í byrjun vegna mismunandi tækniumhverfis, en þann vanda leystu Þjóðverjar með stöðlun - DIN (Deutsche Industrie Normen).  Iðnþróun hins unga þýzka ríkis var reist á tækniháskólum í fremstu röð og stórum innanlandsmarkaði.  Þegar Vilhjálmur 2 tók við, var tækniþróunar- og iðnaðarmætti Þýzkalands beint að uppbyggingu Reichswehr á landi, sjó og síðar í lofti.  Þannig var stórfelld ríkisfjármögnun undirstaða þýzkrar iðnþróunar.  Hið sama endurtók sig á dögum Þriðja ríkisins, en þá var staðið á fornum merg tækniþekkingar í fremstu röð.  Eftir síðari heimsstyrjöldina tók auðvitað við endurreisn Þýzkalands og á 6. áratuginum var grunnurinn lagður að næstu stórverkefnum þýzks iðnaðar, farartækjaþróun, farartækjasmíði og gríðarlegur útflutningur.  

Íslendingar eru í annars konar stöðu en Þjóðverjar.  Báðar þjóðirnar nýta sér þó hlutfallslegan styrkleika sinn í samstarfi og samkeppni við aðrar þjóðir.

Bjarni Jónsson, 11.12.2019 kl. 11:38

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, við erum aftarlega á merinni. Sjávarútvegur hér er fyrst og fremst hráefnisútflutningur. Raforkugeirinn er svipaður - orkan er seld til erlendra fyrirtækja með litlum sem engum virðisauka. Og ekki batnar það ef farið verður að selja orkuna beint um sæstreng. Ferðamannaiðnaðurinn er orðinn alltof stór hluti af hagkerfinu, því hann er mjög sveiflukenndur og skilar litlum virðisauka.

Það sem gerist gjarna í hráefnahagkerfum er að alvöru iðnaður byggist ekki upp, eða jafnvel hverfur.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.12.2019 kl. 12:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband