Tveggja stoða kerfi EES er á undanhaldi

Nú stendur yfir stjórnmálabarátta í Noregi um innleiðingu 4. járnbrautapakka ESB í norska löggjöf.  Þar er um að ræða bæði efnislegan grundvallarágreining og ágreining við norsku ríkisstjórnina og ESB um mál, sem var forsenda þess, að Íslendingar og Norðmenn féllust á að samþykkja EES-samninginn á sinni tíð.  Verður nú gerð grein fyrir þessum sjónarmiðum, því að þau eru áhugaverð fyrir Íslendinga, sem velta fyrir sér þróun sambandsins á milli EFTA og ESB.

Járnbrautarpakki 4 er lokahnykkur ESB í einkavæðingarferli járnbrautanna á Innri markaði EES. Með honum verður einkaréttur fyrirtækja, oftast í eigu ríkisins, á rekstri járnbrauta í hverju EES-landi afnuminn.  Íslendingar fengu undanþágu af skiljanlegum ástæðum.  Einkaréttur verður þó áfram á járnbrautarteinunum, og er þetta hliðstætt fyrirkomulag og í orkugeiranum, þar sem flutningskerfin njóta einkaréttar, sbr Landsnet hér, en þetta á líka við um eldsneytisgaslagnir. 

Síðan verður öllum með leyfi til járnbrautarrekstrar á Innri markaðinum hleypt á teinana, hvar sem er í EES, og skal frjáls samkeppni ríkja um viðskiptavinina.  Þetta fyrirkomulag leggst illa í marga Norðmenn, sem vilja halda í einkarétt NSB (Norges statsbaner), og kæra sig ekki um samkeppni frá SJ (Sveriges Järnvägar) eða DB (Deutsche Bundesbahn), svo að aðeins 2 dæmi séu tekin.  Er óvíst, hver úrslit þessa máls verða í Stórþinginu, og velta þau á Framfaraflokkinum, sem yfirgaf ríkisstjórnina í fyrra.

Þessi hlið málsins varðar okkur Íslendinga litlu.  Það er aðferðarfræðin við innleiðinguna, sem er áhyggjuefnið, þótt hún sé ekki einsdæmi.  ESB heimtar einnar stoðar fyrirkomulag við innleiðinguna í EFTA-löndunum, Noregi og Liechtenstein, og stjórnvöld í Noregi virðast hafa fallizt á þá kröfu ESB.  Það þýðir, að Tveggja stoða fyrirkomulagið með ESA sem stjórnvald á EFTA-hlið og EFTA-dómstólinn sem dómsvald, verður ekki haft í heiðri, heldur á að leggja járnbrautarmálefni Noregs beint undir járnbrautarstofnun ESB, ERA, og ESB-dómstólinn. 

Nú hafa norsk stjórnvöld leitað samþykkis íslenzkra stjórnvalda og stjórnvalda í Liechtenstein á þessu fyrirkomulagi, m.a. með yfirlýsingu, sem norsk stjórnvöld hafa sent þeim íslenzku til undirritunar.  Þetta skjal er enn ekki opinbert í Noregi, en spurning er, hvort þetta pukur með mikilvægt EES-mál nær einnig til Íslands.  Hvað stendur í þessu skjali ?  Þýðir undirritun þess, að hinu margdásamaða Tveggja stoða kerfi EES verði kastað fyrir róða, eins og ESB kýs ?

Það er grafalvarlegt, ef íslenzk stjórnvöld undirrita þessa yfirlýsingu, því að þar með varða þau veginn fyrir þá kúvendingu í anda ESB í samskiptum EFTA-landanna (utan Svisslands), að Tveggja stoða fyrirkomulaginu verði kastað fyrir róða.  Þar með hrynur ein meginstoðin undan aðild Íslands að EES.  Ríkisstjórnin ætti að hafna þeirri málaleitan Norðmanna að skrifa undir þessa yfirlýsingu án undanfarandi aðkomu Alþingis, og lýðræðislegast væri þá að opinbera þetta skjal, og að umræðan um það fari fram fyrir opnum tjöldum, en ekki einvörðungu á lokuðum nefndafundum Alþingis. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur viðhaft mjög eindregin ummæli á Alþingi á þessu kjörtímabili um, að Tveggja stoða kerfið sé grundvallaratriði fyrir aðild Íslands að EES, og utanríkisráðherra hefur tekið í sama streng.  Hann sagði t.d. efnislega á fundi í EES-ráðinu 2018: 

Ég vil gjarna endurtaka áhyggjur okkar um þróun Tveggja stoða fyrirkomulags EES-samningsins.  Það verður stöðugt erfiðara, þegar löggjöf ESB, sem felur í sér valdaframsal, er felld inn í EES-samninginn, að finna lausnir, sem taka tillit til Tveggja stoða fyrirkomulags samningsins. 

Þessi orð kunna að hafa fallið í tilefni af kröfum ESB um fyrirkomulag innleiðingar lagabálks um fjármálastarfsemi og eftirlit með henni og í tilefni persónuverndarlöggjafar ESB, en persónuverndarstofnunin á Íslandi fellur beint undir Persónuverndarstofnun ESB.  

Þetta fyrirkomulag, Einnar stoðar kerfið, hefur alltaf vakið upp tortryggni á Íslandi í garð ESB, sem sýnir þess augljós merki að telja EES-samninginn of þunglamalegan og jafnvel úreltan og vilji auka einsleitnina á Innri markaðinum jafnvel með afnámi ESA og EFTA-dómstólsins.  Þar með yrði staða EFTA-landanna gjörómöguleg og EES-samningurinn fallinn um sjálfan sig.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Takk fyrir þetta - deili.

Guðjón E. Hreinberg, 19.10.2020 kl. 13:46

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það veitir ekkert af því. Utanríkisráðherra og forsætisráðherra Noregs eru hallar undir ESB.  Þess vegna hafa þær samþykkt Einnar stoðar fyrirkomulagið, en vita, að það er brot á reglum EES og hafa þess vegna gripið til þess óyndisúrræðis að biðja íslenzku ríkisstjórnina um að samþykkja gjörninginn.  Ef hún gerir það, kemst hún í mótsögn við sjálfa sig, missir trúverðugleika og grefur undan EES-samstarfinu.

Bjarni Jónsson, 19.10.2020 kl. 17:18

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sem betur fer myndi það ekki samræmast íslenskri stjórnarskrá að veita Evrópudómstólnum dómsvald um innlend málefni og tilraun til þess myndi því einfaldlega falla um sjálfa sig.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.10.2020 kl. 17:46

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

ESB-dómstóllinn fer með dómsvald í ágreiningsmálum, er varða Persónuverndarráð ESB.  Á það ekki líka við í málefnum íslenzkra aðila og Persónuverndarráðs ?  Nú er það reyndar þannig, að EFTA-dómstólinum ber að fylgja dómafordæmum ESB-dómstólsins, þannig að munurinn er að mestu formlegs eðlis.  

Bjarni Jónsson, 20.10.2020 kl. 10:31

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Persónuverndarráð ESB hefur ekkert úrskurðarvald í málum einstaklinga. Hér innanlands er það vald á höndum Persónuverndar.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.10.2020 kl. 12:33

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ef einstaklingar eða lögaðilar sætta sig ekki við úrskurð Persónuverndar, geta þeir þá kært úrskurðinn fyrir íslenzkum dómstólum ?  Hvað gera þeir, ef fordæmi finnst hjá ESB-dómstólinum, sem stangast á við íslenzk lög ?

Bjarni Jónsson, 20.10.2020 kl. 13:38

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ef aðili sættir sig ekki við úrskurð Persónuverndar getur hann að sjálfsögðu leitað ógildingar hans fyrir íslenskum dómstólum í samræmi við íslensk lög. Samkvæmt íslenskum lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 á að skýra reglur innlendra laga til samræmis við þær EES reglur sem hafa verið innleiddar í íslensk lög. Við þá skýringu á að hafa til hliðsjónar þau dómafordæmi sem liggja fyrir um túlkun á þeim reglum. Annað væri ekki góð lögfræði enda hefur Hæstiréttur Íslands miklu oftar en einu sinni haft slík fordæmi til hliðsjónar í dómum sínum.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.10.2020 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband