Fyrirmyndar fiskeldi

Þann 12. nóvember 2020 birtist stutt frétt í Morgunblaðinu, sem gefur til kynna, að laxeldi við Íslandsstrendur beinist nú í ríkari mæli en áður að framleiðslu hágæðavöru í hæsta verðflokki.  Þetta voru mjög ánægjuleg tíðindi.

Fyrirsögn fréttarinnar var:

"Fá lífræna vottun á lax".

Hún hófst þannig:

"Fiskeldi Austfjarða hefur fengið lífræna vottun samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins.  Tryggir þetta fyrirtækinu eftirsóttan markað fyrir hágæða laxaafurðir í Evrópu. 

 

Aðeins 4 önnur fyrirtæki í heiminum standast þessa vottun, enda gilda um hana afar ströng skilyrði að sögn Jónatans Þórðarsonar, þróunarstjóra Fiskeldis Austfjarða.  Þannig má ekki nota lyf eða önnur efni og aðeins hágæða fóður og aðrar vistvænar aðferðir við eldi laxins.  Sem dæmi má nefna, að litarefni fóðursins er framleitt úr brúnþörungum, og er það jafnframt afar öflugt andoxunarefni úr náttúrunni.  Raunar eru öll hráefni í fóðrið lífrænt vottuð.  Jónatan segir, að vissulega sé meiru til kostað en í hefðbundnu sjókvíaeldi, en á móti fáist mun hærra verð fyrir afurðirnar." 

Rík ástæða er til að óska starfsfólki Fiskeldis Austfjarða til hamingju með þessa verðmætu vottun á gæðastjórnunarkerfi fyrirtækisins.  Hún fæst aðeins með gæðameðvituðu hugarfari starfsmanna, ekki sízt stjórnendanna.  Hún útheimtir í aðdragandanum að velta við hverjum steini í rekstri og stefnu fyrirtækisins ásamt skjalfestingu allra ferla fyrirtækisins.  Nú tekur við nýtt tímabil agaðra vinnubragða til að viðhalda þessari gæðavottun, sem vottunarfyrirtækið mun reglubundið rýna. 

Það er markaðurinn, sem knýr fram þessa þróun gæðastjórnunar.  Fiskeldi Austfjarða hefur selt vörur sínar m.a. til heilsuvörukeðjunnar Whole Foods í Bandaríkjunum.  Þar er greitt fyrir skjalfest gæði.  Þessi nýfengna vottun opnar nýjar dyr, þ.e. að hæst greiðandi hluta Evrópumarkaðarins. Í lok fréttarinnar er greint frá því, hvaða hluta starfseminnar þessi vottun spannar:

"Vottunin nær til sjókvíaeldis Fiskeldis Austfjarða í Berufirði og Fáskrúðsfirði og seiðastöðvarinnar Rifóss í Kelduhverfi."

Hagsmunaaðilar á borð við Félag veiðiréttarhafa virðast telja hagsmunum sínum ógnað af sjókvíaeldi þess afbrigðis Norður-Atlantshafslaxins, sem stundað er við Ísland.  Ekki verður betur séð en málflutningurinn einkennist af tröllasögum um sjúkdóma, mengun fjarðanna og dreifingu laxalúsar í villta stofna, og síðast en ekki sízt er skrattinn málaður á vegginn, þegar kemur að erfðabreytingum af völdum sleppilaxa úr kvíunum.  Þetta eru mest ímyndanir og dylgjur án vísunar til staðreynda úr íslenzku umhverfi.  Oft fellur þetta undir "ólyginn sagði mér", að svona væri þetta í útlöndum.  Það eru nánast engar líkur á, að sleppilax úr þessum eldiskvíum geti breytt erfðamengi villtu íslenzku laxastofnanna varanlega.  Til þess þarf stórar sleppingar, meira en 15 % af árstofninum, að ná að eignast lifandi afkvæmi með íslenzkum löxum í mörg ár í röð.  Slíkt gerist einfaldlega ekki með því verklagi, sem nú er viðhaft, og þeim búnaði og eftirliti, sem nú tíðkast við sjókvíaeldi í íslenzkum fjörðum.  Hælbítar þessarar efnilegu atvinnugreinar á Íslandi hafa ástæðu til að hafa meiri áhyggjur af öðru, er varðar laxveiðar í íslenzkum ám, en sjókvíaeldinu.

Teitur Björn Einarsson, lögmaður og 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norð-Vesturkjördæmi, birti athyglisverða lögfræðilega greiningu á því í Morgunblaðinu 11. nóvember 2020, hvaða skilyrði verða að vera fyrir hendi, til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti tekið lögmæta ákvörðun um að loka svæði fyrir fiskeldi, en umræða hefur spunnizt um lokun Eyjafjarðar, Jökulfjarða og sunnanverðs Norðfjarðarflóa fyrir laxeldi.  Framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga, Elías Blöndal Guðjónsson, gagnrýndi fyrstu grein Teits á síðum Morgunblaðsins um þetta efni 7. nóvember 2020.  Önnur grein Teits Björns bar fyrirsögnina:

"Um valdheimildir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra".

 

 Nú verður vitnað til þessarar vönduðu greinar:

"Málið, sem hér um ræðir, er nokkuð sértækt, en aðalatriðin snúa að því, hvaða valdheimildir ráðherra hefur til að takmarka eða stöðva lögbundna atvinnustarfsemi og mikilvægi vísinda í allri ákvarðanatöku."  

Teitur Björn boðar, að í stað duttlunga, tilfinninga og annarra ómálefnalegra kennda skuli ráðherra reisa ákvarðanir sínar um leyfilega staðsetningu fiskeldis í sjó á vísindalegum rannsóknum og ályktunum, sem leiða má beint af þeim. Þetta þýðir t.d., að auglýsing ráðherra frá 2004 um leyfileg eldissvæði í sjó við Ísland víkur fyrir nýjum fiskeldislögum og ákvörðunum ráðherra um leyfileg eldissvæði, sem á þeim eru reist. 

"Matskenndar stjórnvaldsákvarðanir og stjórnvaldsfyrirmæli verða samkvæmt lögmætisreglunni að eiga sér næga lagastoð og vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum; ella telst ákvörðunin ólögmæt. Að baki sérhverri ákvörðun verða að búa málefnaleg sjónarmið.  Ákvarðanir, sem byggjast á geðþótta, óvild eða öðrum persónulegum sjónarmiðum, eru ólögmætar." 

Bæjarstjórn Akureyrar er stjórnvald.  Engan veginn verður séð, að samþykkt hennar um að beina því til ráðherra að banna laxeldi í Eyjafirði, sé reist á öðru en geðþótta og óvild í garð þessarar atvinnustarfsemi. Margir virðast því miður haldnir sömu kenndum, og það verður lítið við því gert, en stjórnvöld hafa ekki leyfi til að haga sér þannig og alls ekki, þegar um lögmæta starfsemi er að ræða, mikla hagsmuni margra og atvinnufrelsi, sem varið er af Stjórnarskrá.   

"Niðurstaðan er því sú, að leggja verður til grundvallar matskenndri ákvörðun ráðherra þá málefnalegu og lögbundnu aðferðafræði fiskeldislaga, sem felst í burðarþolsmati og áhættumati erfðablöndunar, til að ákvarða, hvort fiskeldisstarfsemi hafi neikvæð áhrif á umhverfið eða lífríki á ákveðnu svæði stafi hætta af starfseminni."

Í raun ætti að leggja þessa aðferðarfræði til grundvallar ákvörðun um nýtingu allra náttúruauðlinda á og við landið, sem ekki eru í einkaeign.  Þetta hefur um árabil verið hornsteinn fiskveiðistjórnunarinnar, og það þarf að festa þetta sjónarmið enn betur í sessi, væntanlega með lagasetningu, um orkunýtingu, flutning orku og vegagerð, svo að sérhagsmunir, sérvizka, geðþótti eða óvild fái ekki dregið nauðsynlegar framkvæmdir í almannaþágu von úr viti eða jafnvel alfarið komið í veg fyrir þær.  Ný verðmætasköpun og atvinnusköpun varðar þjóðarhag, og almenn lífskjör í landinu varða almannahag. 

"Meginregla stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu, sbr 10. gr. stjórnsýslulaga, sem kveður á um, að stjórnvald skuli sjá til þess, að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, rennir frekari stoðum undir þá niðurstöðu, að ráðherra beri að afla allra gagna og horfa til lögbundinna rannsókna um burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar áður en mat er lagt á, hvort tiltekin svæði teljast sérlega viðkvæm fyrir starfsemi fiskeldis.  Meginreglan um meðalhóf kemur hér einnig til álita."

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband