Röng lausn á mikilvægu viðfangsefni

Reglubundnar tafir í bílaumferðinni á höfuðborgarsvæðinu eru dýrar fyrir einstaklinga og fyrirtæki og fela þess vegna í sér þjóðhagslegan kostnað, sem bæði hefur neikvæð áhrif á lífskjör almennings og lífsgæði. Ástæðan er vanþróað gatnakerfi m.v. umferðarþungann.  Ástand umferðarmála í Reykjavík felur í sér stórfellda slysahættu, einkum á fjölförnum gatnamótum við slæm veðurskilyrði.  Það dregur jafnframt úr skilvirkni atvinnulífsins og felur í sér eldsneytissóun og aukna loftmengun.

Þetta vandamál hefur vafizt fyrir yfirvöldum samgöngumála á svæðinu að leysa; aðallega vegna þvergirðingsháttar borgarstjórnar og meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur frá 2010, sem tekið hefur mislæg gatnamót út af Aðalskipulagi Reykjavíkur og hafnað óskum ríkisins um að fá að reisa mislæg gatnamót og annað til að leysa brýnasta vandann.  Þetta er yfirnáttúrulega vitlaus og mannfjandsamleg afstaða stjórnenda höfuðborgar, sem helzt hefur verið reynt að skýra með skírskotun til annarlegra sértrúarsafnaða.  

Tafakostnaður einstaklinga og fyrirtækja, sem fyrir honum verða, má ætla, að nemi a.m.k. 40 mrdISK/ár.  Þetta er gríðarlegur kostnaður, sem ekki er spurning um, hvort þurfi að lækka, heldur hvernig.   Þessi óhemjulegi kostnaður vex ár frá ári og er vegna þess, að framkvæmdir við vitlega afkastaaukningu gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins hafa legið í láginni í meira en áratug, þrátt fyrir að Vegagerðin hafi verið tilbúin að hefja þær. Fáránlegur samningur borgarinnar um, að Vegagerðin sturtaði í  staðinn fé í Strætó, svo að hann gæti keyrt hringinn í kringum landið, hefur tafið fyrir arðsömum framkvæmdum til að bæta flæði umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Þegar úr sér gengin hugmyndafræði í stað verkfræði og hagfræði hleypur í samgöngumálin, verður fjandinn laus.  Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur t.d. eyðilagt 1. valkost Vegagerðarinnar um gerð og legu Sundabrautar. 

Ekki hefur þó skort góð ráð.  Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur og fyrrverandi bæjarverkfræðingur í Kópavogi, hefur t.d. verið óþreytandi við að vara við stórkarlalegum fyrirætlunum um Borgarlínu og benda á aðrar viðaminni lausnir, sem kæmu til móts við þarfir borgaranna fyrir bættar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu án gríðarlegra fjárútláta og án þess að þrengja umtalsvert að almennri bílaumferð. Hann skrifaði í Morgunblaðið 7. nóvember 2020 greinina:

"Aukum ferðatíðni strætó":

"Árið 2015 flutti Jarrett Walker, sem er virtur sérfræðingur í almenningssamgöngum, erindi í Salnum í Kópavogi.  Rauði þráðurinn í erindi hans var mikilvægi þess að auka ferðatíðni strætó.  Það skipti mun meira máli en gönguvegalengd að biðstöð, og mætti því fækka strætóleiðum í staðinn til þess að takmarka aukningu á rekstrarkostnaði. Með þessu móti fengist hagkvæmasta lausnin fyrir bætta þjónustu strætó." 

Það er kominn tími til að hlusta á og íhuga slíkar hugmyndir til bættrar þjónustu í stað þess að einblína á stórkarlalegar lausnir, sem flest bendir til, að henti ekki við íslenzkar aðstæður, en geti hæglega orðið flestum vegfarendum á höfuðborgarsvæðinu óþægur ljár í þúfu og skattgreiðendum öllum, einkum þó íbúum sveitarfélaga, sem þátt ætla að taka í þessu ævintýri, myllusteinn um háls.  Þórarinn Hjaltason hélt áfram:

"Ég skora á samgönguyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu að endurskoða áætlanir um uppbyggingu borgarlínunnar.  Beinast liggur við að skoða þann valkost að fækka leiðum strætó og auka í staðinn ferðatíðni.  Unnt er að stytta ferðatíma strætó með sama hætti og gert hefur verið fram til þessa, þ.e. bæta við akrein hægra megin við akbraut, þar sem eru langar biðraðir bíla á álagstímum umferðar. Það er margfalt ódýrara en að gera sérrými í miðeyju gatna eða sérgötur, eins og áætlað er fyrir borgarlínuna." 

 Taka skal undir þetta.  Þetta væri til bóta, og gætu slíkar akreinar þjónað allri forgangsumferð, þ.e. lögreglu, sjúkraflutningum og almenningsvögnum, og mundu létta aðeins á almennri umferð.  

Þann 16. október 2020 birtist fróðleg og rökföst grein eftir sama Þórarin Hjaltason í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Dularfull skýrsla um arðsemi borgarlínu".

Þar er fjallað um skrýtna COWI/Mannvitsskýrslu, sem gefin var út 5. júní 2020, en kom ekki fram á sjónarsviðið fyrr en 9. október 2020.  Þórarinn finnur ýmsar villur í þessari skýrslu, þannig að varasamt er að reisa á henni stórar ákvarðanir.  Meginniðurstaða þessarar rýni Þórarins er eftirfarandi:

"Það er deginum ljósara, að borgarlína mun aðeins leiða til þess, að umferð einkabíla verði í bezta falli nokkrum prósentum minni en ella."

Þessi niðurstaða hins reynda umferðarverkfræðings er vel ígrunduð og rökstudd með reikningum hans í tilvitnaðri grein. Af niðurstöðunni má álykta, að Borgarlínan mun ekki draga merkjanlega úr bílaumferð, og hún er þannig ónothæf lausn til að stytta umferðartafir á álagstímum.  Þar af leiðandi er óráð af sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og ríkissjóði að fara út í miklar og dýrar framkvæmdir við Borgarlínu, sem þrengja að bílaumferð.  Fjármunum ber þess í stað að verja til þjóðhagslega arðbærustu framkvæmdanna, sem greiða úr umferðarflækjum og stytta ferðatímann á álagstímum. Það er óskandi, að nýstofnað félag um framkvæmdir til að auka flutningsafköst gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins nýti sér beztu þekkingu á þessu sviði í stað þess að steypa sér í hugmyndafræðilegt kviksyndi.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband