12.12.2020 | 21:18
Beinar erlendar fjárfestingar eru nauðsyn
Það hefur lengi verið alið á ótta hérlendis í garð þeirra útlendinga, sem vilja fjárfesta í íslenzku atvinnulífi. Samt er þar iðulega um að ræða brautryðjendastarfsemi hérlendis, sem færir nýja þekkingu inn í landið og ný störf, sem ekki hefur veitt af á tímum atvinnuleysis. Ný áhættulítil verðmætasköpun fyrir landsmenn í erlendum gjaldeyri á sér stað. Viðkvæðið er, að "gróðinn verði fluttur úr landi". Þá gleymist, að fjármagn kostar, og fyrir hérlandsmenn er mun áhættusamara að standa í öllu sjálfir, taka þess vegna tiltölulega dýr lán erlendis, kaupa nýja þekkingu, sem sumpart er illfáanleg, og síðast en ekki sízt að berjast inn á nýja markaði með viðeigandi undirboðum og aukakostnaði.
Beinar erlendar fjárfestingar eru í mörgum tilvikum eftirsóknarverðar, en þurfa ekki að vera það í öllum tilvikum. Af sögulegum ástæðum komst Alþingi að þeirri niðurstöðu, að beinar erlendar fjárfestingar í íslenzkum sjávarútvegi væru óæskilegar og setti þeim þröngar skorður. Þróunin hefur sýnt, að þetta var rétt stefnumörkun. Þessi auðlindanýting hefur staðið undir hraðri og metnaðarfullri tækniþróun, þannig að íslenzkur sjávarútvegur stendur öðrum á sporði, og sömu söguna er að segja af veiðiskipulagningu, vinnslu og markaðssetningu. Órofin keðja frá veiðum til markaðar, aðallega erlends markaðar, ásamt nærliggjandi gjöfulum miðum, gefur íslenzkum sjávarútvegi það markaðslega forskot, sem þarf til, ásamt öðru, að standa undir samkeppnishæfum lífskjörum hérlendis.
Dæmi um vel heppnaða stefnumörkun á sviði beinna erlendra fjárfestinga er sú stefnumörkun Viðreisnarstjórnarinnar undir forystu dr Bjarna Benediktssonar að skapa innviði hérlendis til stórsölu ríkisins á raforku til erlendra fjárfesta á sviði málmframleiðslu, aðallega álvinnslu. Sú hugmynd rættist, að með þessu móti yrði hluti af orkulindum landsins virkjaður og flutningskerfi og dreifikerfi reist til að afla almenningi ódýrrar raforku með þokkalegu afhendingaröryggi. Kröfur um hið síðar nefnda aukast eðlilega stöðugt eftir því sem tjón af straumleysi eykst.
Með stóriðjunni fluttist margvísleg þekking til landsins á sviði tækni og stjórnunar, t.d. gæða- og öryggisstjórnunar, og alls konar þjónusta spratt upp við þessa nýju framleiðendur í landinu. Landsmenn hefðu ekki haft bolmagn í þessa uppbyggingu sjálfir, enda er þetta sama leiðin og Norðmenn fóru rúmri hálfri öld fyrr við iðnvæðinguna þar í landi.
Vaxtarbroddur erlendrar fjárfestingar á Íslandi um þessar mundir er í laxeldinu, þar sem Norðmenn miðla af beztu fáanlegu þekkingu á sviði sjókvíaeldis með frábærum árangri að því, er bezt verður séð. Engu að síður kom fram í Morgunblaðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar 2. desember 2020, að "[á] tímabilinu 2018 - 2020 minnkaði bein erlend fjárfesting á Íslandi um mrdISK 180." Þessi staðreynd er ávísun á daufara atvinnulíf í nánustu framtíð, minni hagvöxt og þar af leiðandi jafnvel lífskjaraskerðingu þjóðar, sem fjölgar tiltölulega mikið.
Við athugun OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) hefur komið í ljós, að hérlendis eru tæplega þrefalt meiri (þungvægari) hömlur á beinar erlendar fjárfestingar en að meðaltali innan OECD, tæplega tvöfalt meiri en í EFTA/EES-landinu Noregi og rúmlega tvöfalt meiri en í EFTA-landinu Sviss. Ísland sker sig algerlega úr öðrum EES-löndum, hvað þetta varðar. Á mælikvarðann 0-100 hjá OECD hafa hömlur Hollendinga ekkert vægi, 0, en hömlur Íslendinga 17. Hvers vegna er þetta svona ?
Frétt Stefáns,
"Örva þarf erlenda fjárfestingu",
hófst þannig:
""Til þess að auka erlenda fjárfestingu á Íslandi þarf að auka tiltrú og traust á fjárfestingarkostinum Íslandi". Þetta segir Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, en ráðið hefur nú tekið saman tillögur í 7 liðum, sem ætlað er að ýta undir erlenda fjárfestingu hér á landi. Bendir það á, að það sé ekki aðeins nauðsynlegt til þess að halda uppi lífsgæðum hér á landi, heldur einnig til þess að tryggja getu lífeyrissjóða til þess að auka fjárfestingar utan landsteinanna. Án erlendrar fjárfestingar til mótvægis við útflæði fjármagns sjóðanna skapist þrýstingur til lækkunar gengis krónunnar, sem aftur leiði til verðbólgu og óstöðugleika."
Allt er þetta satt og rétt, og skortur á "tiltrú og trausti" var t.d. talsverður þröskuldur í upphaflegum samningaviðræðum á vegum Viðreisnarstjórnarinnar við erlenda fjárfesta um stóriðju og við Alþjóðabankann um fjármögnun Búrfellsvirkjunar og tengdra mannvirkja. Þessi skortur var vegna reynsluleysis Íslendinga á þessum sviðum þá, en Íslendingar áunnu sér fljótlega traust og tiltrú með verkum sínum, sem aftur leiddi til meiri orkusölu og hærra verðs fyrir raforkuna.
Það er ekki vel til þess fallið að auka tiltrú og traust erlendra fjárfesta til Íslands sem fjárfestingarkosts, þegar í kjölfar frétta af kaupum í félagi við Íslendinga á Hjörleifshöfða og sandnámum þar til atvinnurekstrar taka að heyrast úrtöluraddir um jarðasölu til útlendinga, sem ríkisvaldið ætti að girða fyrir með því að ganga inn í kaupin. Þar með mundi hvati til framkvæmda og verðmætasköpunar þar verða úr sögunni, svo að þetta er dæmi um of dýrkeypta varfærni.
Orkunýting í stórum stíl á Íslandi hefur ætíð verið nátengd beinum erlendum fjárfestingum. Landsmenn standa nú frammi fyrir dýpstu efnahagskreppu í heila öld, og sem liður í að koma af stað góðum hagvexti á ný er fullkomlega eðlilegt að reyna að örva erlendar fjárfestingar. Það verður enn og aftur unnt að gera í tengslum við orkunýtinguna; í þetta skipti með því að færa verðið fyrir orkuna niður í samkeppnishæft verð m.v. önnur ríki í EES, ekki sízt Noreg með framleiðslugetu um 1,5 Mt Al/ár. Norðmenn vinna úr 0,3-0,4 Mt Al/ár, t.d. hjólfelgur, og flytja þess vegna meira en 1,0 Mt Al/ár sem hálfunna vöru, eins og Íslendingar, hverra framleiðslugeta er um 0,9 Mt Al/ár.
Þórður Gunnarsson hefur birt fróðlegar greinar í Markaði Fréttablaðsins um orkumál og stóriðju. Þann 2. desember 2020 hélt hann uppteknum hætti með greininni:
"Stóriðjan njóti sömu kjara og í Noregi".
Hún hófst þannig:
"Landsvirkjun hefur komið því á framfæri við atvinnuvegaráðuneytið, að tryggja verði getu íslenzka ríkisins til að styðja við orkufrekan iðnað með sama hætti hér á landi og gert er í Noregi, svo að tryggja megi samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi. Norskir álframleiðendur munu á þessu og næsta ári fá sem nemur á bilinu 10-12 USD/MWh til niðurgreiðslu á kostnaði vegna kolefnislosunar frá norska ríkinu á næsta ári, en norska Stórþingið hefur málið nú til meðferðar. Engar líkur eru á öðru en málið fái samþykki þingsins, enda um að ræða framlengingu á fyrirkomulagi, sem þegar er í gildi. Samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) liggur þó ekki enn fyrir. Endurgreiðslur vegna kostnaðar, sem tengist kolefnislosun (ETS-einingum) hafa tíðkazt í Noregi allt frá árinu 2013, en hækkandi verð á ETS-einingum frá árinu 2018 hefur aukið getu norskra stjórnvalda til að styðja við orkufrekan iðnað í Noregi."
Tómlæti iðnaðarráðuneytisins íslenzka undir stjórn núverandi ferða-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra er við brugðið, en kólfunum kastar, þegar svefnhöfginn er svo djúpur, að Landsvirkjun sér sig knúna til að benda ráðuneytinu á, hvernig Norðmenn styrkja samkeppnisstöðu síns orkukræfa iðnaðar. Niðurgreiðslan er ekkert smáræði eða svipuð og Rio Tinto fer fram á við Landsvirkjun, að orkuverðið til ISAL verði lækkað vegna taprekstrar í slæmu árferði. 11 USD/MWh niðurgreiðsla norska ríkissjóðsins til álveranna í Noregi er ekkert smáræði og er í raun ferföld á við það, sem tæknilega vel rekið álver á borð við íslenzku álverin borgar fyrir ETS-kolefniskvóta, ef hann kostar 25 USD/t CO2. Norska ríkið er í raun að viðurkenna, að orkuverðið í Noregi sé 9 USD/MWh of hátt vegna tengingar Noregs við eldsneytisknúin raforkukerfi Evrópu. Það er löngu kominn tími til, að íslenzki iðnaðarráðherrann rumski og að hún og fjármála- og efnahagsráðherra hlutist til um lækkun óeðlilega hárrar ávöxtunarkröfu ríkisins á hendur Landsvirkjun.
Svo virðist sem 25 % tollur ESB á ál frá löndum með mikla losun koltvíildis samfara álframleiðslu (frá raforkuvinnslu og rafgreiningu) hafi slegið á framboð áls frá Kína inn á Innri markaðinn, því að álverðið hefur hækkað um 40 % frá lágmarkinu í Kófinu (komið yfir 2000 USD/t). Þetta hefur valdið því, að álfyrirtækin eru að auka framleiðslu sína. Dæmi um það er endurræsing annars kerskálans í verksmiðju Norsk Hydro á Husnes í Vestur-Noregi, sem er systurverksmiðja ISAL í Straumsvík frá dögum Alusuisse, sem reisti báðar verksmiðjurnar 1965-1972. ISAL aftur á móti eykur ekki framleiðslu sína fyrr en raforkusamningurinn hefur verið endurnýjaður. Það er óþolandi, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skuli enn draga lappirnar, þegar hagkerfi landsins ríður á, að öll framleiðslugetan sé fullnýtt, ef markaðirnir leyfa.
Þann 25. nóvember 2020 birtist frétt efst og með fyrirsögn þvert yfir forsíðu Morgunblaðsins:
"Þokast í átt að samkomulagi".
Var þar átt við samningaviðræður á milli Rio Tinto/ISAL og Landsvirkjunar um endurskoðun raforkusamnings þeirra. Lyktir þessara samningaviðræðna hafa dregizt á langinn, og er það ljóður á ráði ríkisfyrirtækisins og ríkisstjórnarinnar að hafa ekki tryggt farsæla lausn á þessu deilumáli í Kófinu, svo að ISAL geti með öflugum hætti lagt hönd á plóg við endurreisn hagkerfisins úr Kófinu í líkingu við hið öfluga fjárfestingarátak eiganda ISAL í kjölfar kerfishrunsins 2008. Ef allt fer á versta veg, mun lokun ISAL hins vegar magna atvinnuleysi og efnahagskreppu. Það er eðlilegt, að Morgunblaðið láti sér annt um þetta mál, sem varðar þjóðarhag. Fréttin á forsíðunni hófst þannig:
"Nokkur gangur hefur verið í viðræðum milli Landsvirkjunar og Rio Tinto varðandi endurskoðun þess raforkuverðs, sem síðar nefnda fyrirtækið greiðir í tengslum við framleiðslu sína í Straumsvík. Eru vonir bundnar við, að samkomulag um verulega lækkun orkuverðsins náist fyrir áramót, og herma heimildir Morgunblaðsins, að raforkuverðið til verksmiðjunnar kunni að lækka um 30 % í kjölfar endurskoðunarinnar. Hafa forsvarsmenn Rio Tinto verið skýrir um það, að verksmiðjunni verði lokað, ef raforkusamningurinn verður ekki endurskoðaður hið fyrsta."
Það er einkennilegt og gæti borið vitni um forystuleysi, sem oft leiðir til eitraðs andrúmslofts, að ekki skuli hafa verið gefin út opinber yfirlýsing um það, sem hér er á seyði. Það er búið að draga stjórn og forstjóra Landsvirkjunar "að samningaborðinu" (fjarfundir, bréf og skeyti), því að framtíð Straumsvíkurverksmiðjunnar, örlög Hafnarfjarðar og afkoma fjölda fólks innan og utan verksmiðjulóðarinnar, er í húfi. Efnahagsleg endurreisn eftir Kófið verður miklu torsóttari án öflugrar viðspyrnu alls iðnaðarins.
Á sama tíma og þessu vindur fram, undirbýr flutningsfyrirtækið Landsnet hækkun á gjaldskrá, sem er þegar of há m.v. raunverulegar þarfir fyrirtækisins. Þórður Gunnarsson gerði ágæta grein fyrir þessu í Markaði Fréttablaðsins 25. nóvember 2020. Grein hans hófst þannig:
"Landsnet hefur tilkynnt stórnotendum flutningskerfis raforku á Íslandi, að f.o.m. janúar n.k. muni gjaldskrá fyrirtækisins hækka um 5,5 %. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, segir, að ráðgert sé að leggja fram breytingar á raforkulögum á komandi vorþingi, þar sem byggt verður á yfirstandandi greiningarvinnu [Deloitte], sem snýr að tekjumörkum Landsnets."
Eins og fyrri daginn er þessi ráðherra á seinni skipunum með sín mál. Hún er það, sem Englendingar kalla "reactive", en manneskja í hennar stöðu þarf að vera "proactive". Hún hlýtur að hafa vitað fyrir löngu, ef hún hefur ekki verið steinsofandi á vaktinni, að hjá Landsneti er borð fyrir báru, og það hefði getað liðkað fyrir samningum í Straumsvík og á Grundartanga að lækka flutningsgjaldið.
Það var vel til fundið hjá Þórði að leita í smíðju hjá SI:
"Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins [SI], segir algerlega óskiljanlegt, að Landsnet ætli að hækka gjaldskrá sína í janúar. "Hækkunin leggst á öll heimili og fyrirtæki landsins, langt umfram almenna hækkun verðlags á Íslandi, og tímasetningin er með ólíkindum. Í fyrsta lagi vegna þess, sem sýnt hefur verið fram á, að arðsemi fyrirtækisins er langt umfram það, sem ætla má hjá fyrirtæki með lögbundnum tekjumörkum. Í öðru lagi vegna þess, að nýútkomin skýrsla Fraunhofer um íslenzka raforkumarkaðinn sýndi með óyggjandi hætti, að flutningskostnaður raforku á Íslandi er allt of hár. Í þriðja lagi vegna þess, að iðnaðarráðherra hefur nýlega óskað eftir úttekt á fyrirkomulagi flutnings raforku á Íslandi m.t.t. kostnaðar notenda, sem er nú þegar mjög íþyngjandi. Ástæða þess er, að allir eru sammála um, að vandinn sé raunverulegur, en ekki er vitað, hvar hann liggur nákvæmlega. Það þarf að greina til hlítar og gera viðeigandi ráðstafanir.""
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.