30.12.2008 | 22:07
Ísland er land þitt
Við áramót er við hæfi að líta fram á veginn og einnig að horfa til baka. Horft er til baka til að draga lærdóma af hinu liðna til gagns fyrir stefnumörkunina á þessari vegferð. Augljóslega mun ársins 2008 verða getið í Íslandssögunni og í mannkynssögunni vegna þess, að atburðir þess munu hafa langvarandi áhrif á þróun samfélagsins á Íslandi og um allan heim.
Í þessu sambandi er vert að minnast afmælis Þróunarkenningarinnar, en á árinu 2009 verða 150 ár liðin frá útgáfu ritverks Charles Darwins, "Um uppruna tegundanna". Er furðulegt til þess að hugsa, að fyrir 5 kynslóðum var Sköpunarsaga Gamla testamentisins, "Genesis", enn viðtekin skýring á lífríki jarðar.
En þróunarkenningin hefur verið mistúlkuð og misnotuð herfilega, t.d. af stjórnmálaöflum, sem gerðu út á kynþáttafordóma með áróðri um yfirburði eiginn kynstofns. Átti m.a. að sanna þessar kenningar á Olympíuleikunum í Berlín 1936, en það mistókst, eins og kunnugt er. Þróunarkenningin sýnir ekki fram á yfirburði neins kynstofns, hvað þá þjóðar, en hún sýnir okkur, hvaða öfl eru að verki í sífelldri lífsbaráttu tegunda og einstaklinga.
Enn vinna vísindamenn með þróunarkenninguna, þróa hana og skýra margt í mannlegu eðli og hegðun með henni. Samkvæmt þróunarkenningunni knýja tveir frumkraftar þróunina áfram, þ.e. baráttan um að komast af, lífsbaráttan, og baráttan um að dreifa erfðamengi sínu, genum, með öruggum hætti fyrir framtíðina, eignast afkomendur. Af þessu tvennu er hið síðar nefnda sterkara.
Darwinistar hafa sýnt fram á, að sameignarstefnan stríðir gegn þróunarkenningunni, þ.e. ofangreindir tveir frumkraftar í manneðlinu grafa undan miðstjórnarvaldi, sem reynir að gera alla jafnfátæka. Jafnaðarstefna, sem ekki leysir úr læðingi öfl frjálsrar samkeppni, skilar þjóðfélaginu lægri hagvexti en frjáls markaðsbúskapur. Það liggur hins vegar í mannlegu eðli að leitast við að losa sig við samkeppni. Verði sú raunin á í viðskiptalífinu, dregur líka úr æskilegri valddreifingu, sem endar með óþolandi spillingu. Hlutverk valdhafa í lýðræðis þjóðfélagi er þess vegna að hlúa að heilbrigðri samkeppni á öllum sviðum.
Samkvæmt þróunarkenningunni er "homo sapiens", hinn vitiborni maður, reistur api. Til að hámarka afkomumöguleika sína héldu menn saman í hópum, en þessir hópar elduðu iðulega grátt silfur saman í baráttunni um lífsgæðin, t.d. veiðilendur og síðar ræktarland. Hugarfarið "við og hinir" er mjög ríkt í manninum. Það er mjög lítill munur á mönnum, sem hundstungan finnur ekki. T.d. sá enginn mun á Króata og Serba. Eini munurinn voru rómversk og grísk katólsk trúarbrögð, þ.e.a.s. munur var á menningunni. Það dugði til að hleypa öllu í bál og brand á milli þeirra. Tungumál er annað, sem nægir til að skilja á milli hópa, að ekki sé nú minnzt á hörundslitinn.
Viðvarandi ófriðarástand máttu þjóðir Evrópu lengi vel búa við og eftir heimsstyrjöldina síðari, þegar Evrópa var í efnislegum og siðferðislegum rústum, var svo komið, að flestir sáu, að við svo búið mátti ekki standa. Guðfeður forvera Evrópusambandsins, ESB, Frakkarnir Schuman og Monét, beittu sér fyrir því, að hagsmunir Frakka og Þjóðverja yrðu svo samtvinnaðir, að báðum yrði hagfelldast að halda friðinn. Þetta stendur enn, en vandinn við ESB er sá, að enginn veit, hvaða stefnu sambandið tekur, þó að mantran í Brüssel sé "an ever closer union".
Rauði þráðurinn í ESB, nú síðast evran, er ótti við mátt Þýzkalands og tilraunir til að halda Þýzkalandi í skefjum. Stjórnvöldin í Berlín eru hins vegar nú um stundir hörðustu talsmenn þess að breyta ríkjasambandinu, ESB, í sambandsríki Evrópu með stjórnarskrá Sambandsríkisins Þýzkalands að fyrirmynd. Hörðustu andstæðingar þessa fyrirkomulags eru Bretar, sem vilja hvorki fórna sjálfstæði "The Parliament" né sterlingspundinu. Bretar kjósa helzt, að ESB starfi sem tollabandalag, og vilja þeir geta ræktað samband sitt við Brezka heimsveldið og Norður-Ameríku óháðir afskiptum Berlínar, Parísar, Madrídar eða Rómar.
Það er fagnaðarefni, að friður skuli hafa haldizt í Evrópu frá lokum Ragnarakanna 1939-1945, ef undan er skilinn ófriðurinn á Balkanskaga, þegar Júgóslavía leystist upp. Við Íslendingar eigum mikið undir því, að Evrópu vegni vel og viljum taka þátt í samstarfi Evrópu ríkjanna á viðskipta sviðinu. Á hernaðarsviðinu í samstarfi Evrópu höfum við ekkert fram að færa og verðum að láta aðildina að NATO duga, sem er nauðsynlegt og nægjanlegt fyrir okkur á því sviði. Ágreiningurinn innanlands snýst aðallega um samstarfið við ESB á stjórnmálasviðinu.
Andleg uppgjöf hérlendis nú um stundir lýsir sér m.a. í skoðunum af því tagi, að óstjórn og spilling geti ekki versnað við að færa völdin til Brüssel. Það er þó næsta víst, að með slíku ráðslagi væri farið úr öskunni í eldinn. Spillingin grasserar í Brüssel. Hundruðir milljóna evra týnast á hverju ári í meðförum embættismanna sambandsins. Hrossakaup og klíkuskapur einkenna fjárveitingar og styrki af öllu mögulegu og ómögulegu tagi innan ESB. Bullandi óánægja ríkir með fjárreiðurnar. Bókhald rekstrarreiknings ESB hefur ekki hlotið samþykki lögformlegra staðfestingaraðila um árabil. Í Brüssel ríkir sem sagt sukk og svínarí, enda er skortur á lýðræðislegu aðhaldi þar á bæ.
Það er alrangt, sem sagt er, að þeir, sem gjalda vilja varhug við fullri aðild að ESB, séu einangrunarsinnar. Þetta eru í raun örgustu öfugmæli um marga þeirra, sem kenna vilja sig við alþjóðahyggju og frelsi í viðskiptum heimshorna á milli. Á þetta bæði við um hægri-og vinstri menn í hópi fullveldissinna. Sumir vinstri menn eru á móti ESB af því, að þeir telja það vera brimbrjót auðvaldsins, sem leiði til valdaójafnvægis verkalýð hvarvetna í óhag, og að það sé verkæri til að svæla undir sig nýja markaði, t.d. í Austur-Evrópu. Hægri menn óttast á hinn bóginn aukna miðstýringu, háskattasamræmingu og reglugerðafargan, sem leiði til minni hagvaxtar en ella. Fullveldissinnar, bæði í hópum hægri-og vinstri manna, óttast jafnframt ólýðræðislega uppbyggingu ESB, þar sem stefnumótun og dagleg vinna fer fram á vegum framkvæmdastjórnar ESB, sem skipuð er til 5 ára í senn og þarf ekki að standa neinum kjósendum reikningsskap gerða sinna. Þing ESB er sundurleitt og valdalítið og getur ekki veitt framkvæmdastjórninni aðhald í sama mæli og þjóðkjörin þing veita ríkisstjórnum aðhald.
Sú klisja gengur, að með ESB sé loksins kominn vettvangur fyrir smáríki Evrópu til að hafa áhrif á stefnumótun Evrópu. Stóru ríkin eru orðin þreytt á möguleikum minni ríkja til að "þvælast fyrir ákvarðanatöku" og vilja formleg völd í hlutfalli við mannfjölda. Þetta var megininntak stjórnarskráarinnar, sem felld var í kosningum af Frökkum og Hollendingum, og er megininntak arftaka hennar, Lissabon sáttmálans, sem nú er í staðfestingarferli og Írar felldu, en verða látnir greiða atkvæði um að nýju árið 2009.
Sagt er, að andstaða við fullveldisframsal sé tímaskekkja á tímum alþjóðavæðingar. Þarna stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Með fullri aðild að ESB fórnum við fullveldinu á altari "Evrópuhugsjónar", sem enginn getur lengur skilgreint, hvað er, en getur hæglega leitt til myndunar stórríkis Evrópu. Við getum ekki gert okkur neinar vonir um áhrif á stefnumörkun í mannhafi 400-500 milljóna manna. Við mundum við inngöngu kasta frá okkur stjórntækjum eigin ríkis í gin þessa tæpa hálfa milljarðs. Um mótun utanríkisstefnu og gerð viðskiptasamninga væri íslenzka ríkið gjörsamlega háð fulltrúum þessara tæplega 500 milljóna íbúa.
Síðast en ekki sízt felst mikil áhætta í því fyrir auðlindastjórnun og frelsi Alþingis á öðrum sviðum, t.d. til að ákveða skattlagningu þegnanna, að deila fullveldi örþjóðar með risaríki.
Sagt hefur verið, að sameining Evrópu sé söguleg þróun og Ísland fái ekki staðizt utan hennar og sé núverandi staða landsins til marks um þetta. Hér er hættuleg nauðhyggja á ferð, fordómar og þröngsýni. Með þetta sjónarmið að leiðarljósi værum við enn í ríkjasambandi við Dani. Það er grundvallar atriði fyrir óhefta þróun íslenzks efnahags-og menningarlífs að hafa fullt svigrúm til samstarfs í allar áttir, t.d. við Bandaríkin, sem léku lykilhlutverk hér við lýðveldisstofnunina 1944 og við varnir landsins í heimsstyrjöldinni síðari og á dögum Kalda stríðsins. Enn höfum við varnarsamning við BNA, sem er eina ríkið í NATO, sem veitt getur okkur raunhæfa hervernd, ef í harðbakka slær. Þá eru okkur og mikils um verð samböndin við Kanada, þar sem fjölmargir frændur okkar og frænkur flestra búa. Ekki má gleyma Rússum, feiknaauðugum að auðlindum, sem brugðizt hafa vel við hjálparbeiðni okkar oftar en einu sinni, þegar Vesturveldin brugðust, enda minnast þeir enn skipalestanna til Murmansk, á tímum heljarátaka Þýzkalands og Rússlands, sem viðdvöl höfðu í Hvalfirði.
Mörgum er staða gjaldmiðils okkar hugleikin og velta fyrir sér, hvaða stefnumörkun muni verða affarasælust í gjaldmiðilsmálum. Höfundur þessarar vefsíðu hefur ekki komizt að niðurstöðu í þeim efnum, en telur, að unnt eigi að vera að nálgast hagkvæmustu lausn með því að reikna út, hver gjaldmiðlanna, ISK, evru, bandaríkjadals, CHF, NOK, jafnvel sterlingspunds, hefðu gefið okkur hæstan hagvöxt síðast liðinn áratug. Ljóst er, að í fjármálaumróti undanfarinna mánaða hefur evran veitt skjól, sem minni ríki evrusvæðisins hefur munað mest um. Hins vegar hefur evran ekki staðið undir hagvaxtarvæntingum höfunda sinna. Þeir reiknuðu með skarpari samkeppni í kjölfar evru, sem knýja mundi hagvöxt. Hagvöxtur á evrusvæðinu hefur hins vegar helmingazt frá upptöku hennar og verið aðeins 0,8 % að meðaltali. Þetta er sumpart skýrt með því, að evran veiti skjól og sé þess vegna letjandi fyrir umbætur. Tekjur á mann eru á evrusvæðinu enn aðeins 70 % af því, sem þær eru í Bandaríkjunum, BNA.
Gjaldmiðillinn er mikilvægasti stiki (e."parameter") efnahagskerfisins. Þetta fá nú þjóðir innan og utan evru svæðisins glögglega að reyna. Súluritið hér til hliðar sýnir launaþróun á evru svæðinu. Efstu löndin eiga nú í stórfelldum útflutningserfiðleikum, því að framleiðniaukning hélzt ekki í hendur við launahækkun. Þýzkaland er þarna neðst og stendur nú með pálmann í höndunum. Bretland lenti í verri þrengingum en flest löndin á evru svæðinu. Nú lagar sterlingspundið sig hins vegar að erfiðri stöðu Breta, gengi þess fellur og léttir þar með Bretum róðurinn.
Það er algert ábyrgðarleysi að kasta krónunni að óathuguðu máli. Það þarf að fara í vandaðar áhættugreiningar áður en við veljum okkur framtíðar mynt. Enginn veit, hvað framtíðin ber í skauti sér, og þess vegna er ekki hægt að yfirfæra niðurstöðu úr fortíðarútreikningum yfir á framtíðina óvissulaust. Menn draga úr óvissunni með næmnigreiningu á mismunandi valkostum. Niðurstaðan ræðst líka í viðtölum við viðkomandi seðlabanka og ríkisstjórnir. Gjaldmiðilsval er flókið hagfræðilegt og stjórnmálalegt úrlausnarefni, og beita verður beztu þekktu aðferðum við undirbúning slíkrar ákvörðunar. Undirbúningur ætti að hefjast strax, ef gagnasöfnun er ekki þegar hafin.
Undirrót fjármálakreppunnar nú og áður telja sumir menn megi rekja til rangrar peningamagnsstefnu flestra seðlabanka heimsins. Of mikið peningamagn í umferð miðað við þróun sparnaðar blási út verðlagsbólur, sem springi með voveiflegum afleiðingum. Þessi skoðun styðst við kenningar austurrísku hagfræðinganna Ludwig von Mises og Friedrich Hayeks. Af þessari kenningu má draga þá ályktun, að réttast sé að einkavæða peningaútgáfuna, gefa hana frjálsa. Er e.t.v. unnt fyrir Ísland að komast hjá notkun ríkisgjaldmiðils ? Myndin hér að neðan sýnir, að evran er engin trygging fyrir sama vaxtastigi á evru svæðinu.
Hér að neðan er tengill að undurfagurri myndasýningu frá Íslandi, sem gæti borið heiti þessarar greinar, en er Ísland séð með augum Svisslendingsins Ursulu Riesen, sem hér hefur ferðazt um á reiðhjóli. Undir þessari sýningu er tilvalið að leika hið tilfinningaþrungna "Tearing and Breaking" með Phil Collins, sem er þarna einnig undir tengli. Undir þriðja tenglinum er sama myndasýning með fyrrgreindri tónlist samfléttaðri.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Menning og listir, Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.1.2009 kl. 21:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.