Heilbrigðiskerfi á villigötum

Á Vesturlöndum vex kostnaður við heilbrigðiskerfin linnulaust, svo að stefnir í algert óefni.  Meginástæðan eru rangir lifnaðarhættir miðað við það, sem bezt þjónar góðu heilsufari og lengra æviskeið.  Forsætisráðherra minntist á í ágætri þjóðhátíðarræðu 17. júní 2017, að meðalævi Íslendinga hefði á lýðveldistímanum lengzt um 15 ár, en hann gat eðlilega ekki um, hvernig háttað er lífsgæðunum á þessu 15 ára ævilengingartímabili.  Þau eru mjög misjöfn.  Algengt er, að lyf séu notuð í skaðlegum mæli, og margir eldri borgarar nota allt of mikið af lyfjum og eru þar staddir í vítahring.  Vitund almennings um kostnað við læknisþjónustu og sjúkrahúsþjónustu er ábótavant.  Þar sem miklar opinberar niðurgreiðslur eiga sér stað, þar myndast venjulega langar biðraðir.  Eftirspurnin vex meir en opinbert framboð getur annað.  Þetta er alls staðar vandamál í heilbrigðisgeiranum.  Það verður að fækka sjúklingum með því að efla ábyrgðartilfinningu almennings gagnvart eigin heilsu til að komast út úr vítahring versnandi heilsufars þjóðarinnar og sívaxandi kostnaðar við heilbrigðiskerfið.   

Þann 16. júní 2017 birtist í Morgunblaðinu hugvekja í þessa veru, þar sem var viðtal við bandarískan lækni, Gilbert Welch, prófessor við Dartmouth-stofnun í BNA. Viðtal Guðrúnar Erlingsdóttur bar fyrirsögnina, "Prófessor hræddur um ofnotkun lækninga":

"Ég er hræddur um, að það sé verið að draga okkur inn í of mikla "lækningavæðingu" [hefur einnig verið nefnt "sjúklingavæðing" heilbrigðra hérlendis - innsk. BJo]. Læknar geta gert margt gott fyrir fólk, sem er veikt eða slasað.  Þeir geta þó gert illt verra, þegar þeir meðhöndla fólk, sem er ekki veikt."

Þessi gagnrýni hefur einnig heyrzt úr læknastétt hérlendis, að leit að sjúkdómum sé hér orðin of umfangsmikil.  Betra sé fyrir skjólstæðinga lækna og hagkvæmara fyrir þjóðfélagið og skjólstæðingana sjálfa, að þeir taki ábyrgð á eigin heilsufari með heilbrigðu líferni og leiti ekki til læknis fyrr en einkenni koma í ljós.

"Ég óttast, að við séum að ofnota lækningar í stað þess að horfa á það, sem einstaklingarnir sjálfir geta gert."

Máttur tækninnar er eitt, en annað er, hvernig við nýtum hana okkur til framdráttar.  Við megum ekki gleyma því, að mannslíkaminn er enn í grundvallaratriðum sá sami og fyrir meira en 100 þúsund árum, þ.e.a.s. hann hefur alls ekki lagað sig að nútíma umhverfi og lifnaðarháttum, hvað þá tæknilegri getu lyflækninganna.  Heilbrigt líferni er bezta vörnin gegn sjúkdómum, en það er vissulega vandratað í öllu upplýsingaflóðinu og skruminu og erfitt að greina hismið frá kjarnanum. 

Síðar í viðtalinu víkur prófessor Welch að sjúkdómaskimunum, sem verða æ meira áberandi nú um stundir:

"Það getur orkað tvímælis að skima fyrir brjóstakrabbameini.  Það er hægt að finna hnúta, sem ekki eru og verða aldrei krabbamein.  Stundum er verið að leggja óþarfa aukaverkanir og óþægindi á fólk."

Segja má, að ver sé af stað farið en heima setið, þegar alls kyns aukaverkanir leiða af skimunum og lyfjagjöf.  Slíkt má kalla misnotkun á tækninni, og að gert sé út á ótta fólks.  Það er vandfundið, meðalhófið. 

"Stór hluti karlmanna, kominn á minn aldur, er með meinið [blöðruhálskirtilskrabbamein] án þess, að af því stafi nokkur hætta.  Ristilkrabbamein er hins vegar ekki ofgreint, og af völdum þess fer dauðsföllum fjölgandi.  Það er hætta á, að ofgreining færist yfir á aðra sjúkdóma, og þar skiptir ástin á tölfræði miklu máli."

Það eru feiknarlegir hagsmunir undir, sem þrýsta á um óþarfar greiningar og meðferðir, sem skjólstæðingarnir verða auðveld fórnarlömb fyrir og tryggingar taka þátt í.  Boðskapur Gilberts Welch er sá, að þessi þróun læknisfræðinnar þjóni ekki hugsjóninni um betra líf, og varla heldur hugmyndum um lengra líf.

"Ég hef ekki orðið fyrir líkamlegri áreitni að hálfu hagsmunaaðila, en það hafa verið gerðar tilraunir til þess að láta reka mig úr starfi.  Peningarnir tala alltaf.  Lækningaiðnaðurinn er stór hluti efnahagskerfisins, sem vill endalaust stækka og þróa nýja hluti.  Hjálpar það raunverulega fólki, eða verður það taugaveiklaðra, kvíðnara og hræddara ?  

Ekki leita til læknis, ef þú ert ekki veikur.  Verið efagjörn, spyrjið spurninga.  Hverjir eru valkostirnir, hvað getur farið úrskeiðis ?  Gefið ykkur tíma til þess að melta upplýsingarnar, nema um sé að ræða miklar blæðingar eða hjartaáfall.  Heilsan er á ykkar ábyrgð, læknar geta ekki tryggt hana."

Hér er á ferð nýstárlegur málflutningur frá hendi reynds læknis og háskólakennara.  Þessi boðskapur á fullan rétt á sér og eru orð í tíma töluð.  Læknar hafa verið hafnir á stall töframanna fyrri tíðar, og töfralæknirinn hafði líklega svipaða stöðu og presturinn í fornum samfélögum, þ.e. hann var tengiliður við almættið eða andaheiminn. Það er engu líkara en fjöldi fólks treysti nú á getu læknavísindanna til að lappa upp á bágborið heilsufar, sem oftast er algert sjálfskaparvíti.  Slík afstaða er misnotkun á læknavísindunum og á almannatryggingakerfinu.  

Dæmi um sjálfskaparvíti er offita.  Rangt fæðuval, ofát og hreyfingarleysi, eru oftast sökudólgarnir.  Yfirdrifið kjötát, saltur matur, brauðmeti úr hvítu hveiti, kökur og önnur sætindi, áfengisneyzla og neyzla orkudrykkja eru sökudólgarnir í mörgum tilvikum.  Matvælaiðnaðurinn lætur frá sér fara of mikið af varasömum matvælum, sem innihalda óholl efni, litarefni, rotvarnarefni, salt, hvítan sykur o.s.frv.

Í Evrópu er ástandið verst í þessum efnum í Ungverjalandi, en þar voru árið 2015 yfir 30 % fullorðinna of feitir eða með BMI>30,0.  (BMI stuðull er reiknaður út frá hæð og þyngd líkamans, og er talið eðlilegt að vera á bilinu 18,5-24,9.)  Í Ungverjalandi voru þá 2/3 fullorðinna of þungir með BMI 25,0-29,9. Þetta þýðir, að sárafáir fullorðinna voru með eðlilega líkamsþyngd m.v. hæð.  Það er ótrúlegt, ef satt er.  Ungverjar borða minna af grænmeti en flestir í velmegunarlöndum og meira af salti en aðrir í ESB.  Fyrir vikið eru lífslíkur Ungverja 5 árum styttri en meðaltal íbúa í ESB eða 76 ár.

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, tilkynnti árið 2011, að þeir, sem lifa "óheilsusamlegu lífi, yrðu að greiða hærri skatt".  Fyrir 3 árum var innleiddur neyzluskattur á sykur, salt, fitu, áfengi og orkudrykki.  Skattur þessi nemur rúmlega 90 ISK/l af orkudrykk og 180 ISK/kg af sultu.  Árangur hefur orðið nokkur við að beina fólki til hollustusamlegri neyzluhátta.  Um 40 % matvæla- og sælgætisframleiðenda hafa fækkað eða minnkað magn óhollra efna í vörum sínum, og neytendur hafa dálítið breytt neyzluvenjum sínum.  Neyzla sykraðra drykkja hefur minnkað um 10 %.  Tekjum af þessari skattheimtu er beint til heilbrigðisþjónustunnar.  

Á Íslandi var á vinstristjórnarárunum síðustu við lýði neyzlustýring með skattheimtu, s.k. sykurskattur, en hann hafði lítil önnur áhrif en að hækka neyzluverðsvísitöluna.  Þessi aðferð við neyzlustýringu sætti gagnrýni, enda kom hún afkáralega út í sumum tilvikum, þar sem illskiljanlegt var, hvers vegna sumt var sérskattað, en annað ekki.  Þá er í raun of mikil forræðishyggja fólgin í neyzlustýringu af þessu tagi, sem litlu skilaði, þegar upp var staðið, öðru en aukinni dýrtíð og vísitöluhækkun neyzluverðs. Líklega eru aðrar leiðir skilvirkari, strangari reglur um vörumerkingar og að auðkenna innihald varasamra efna, og almenn fræðsla um afleiðingar óhollrar neyzlu fyrir líkamann, sem hefja ætti þegar í grunnskóla.      

 

 

 

 

 


Innviðir í svelti

Íslenzka hagkerfið hefur hrist af sér fjárhagslegar afleiðingar falls fjármálakerfisins fyrir tæpum 9 árum, haustið 2008, og hið nýja fjármálakerfi virðist vera traustara en áður hefur þekkzt á Íslandi og traustara en víða erlendis, nær og fjær. 

Jón Daníelsson, prófessor við "London School of Economics", varar jafnvel við of mikilli varfærni og regluviðjum um fjármálafyrirtækin, því að hún dragi úr skilvirkni fjármálakerfisins.  Til þess má örugglega flokka hugmyndina um að kljúfa fjárfestingarstarfsemi bankanna frá almennri inn- og útlánastarfsemi.  Fjárfestingarstarfsemin er svo lítill þáttur af heildarstarfseminni, að hún er hverfandi áhættuþáttur.  Að kljúfa hana frá er þess vegna alger óþarfi og verður ekki til annars en að veikja fjármálastofnanirnar, gera þær óskilvirkari og dýrari í rekstri.  Allt það óhagræði bitnar á viðskiptavinum bankanna með hærri umsýslugjöldum og vöxtum. Umræðan ber vitni um forræðishyggju þeirra, sem lítt þekkja til fyrirtækjarekstrar á fjármálamarkaði.  Ríkið situr nú uppi með hundruði milljarða ISK bundna í þremur stærstu bönkunum.  Það er líklega einsdæmi innan OECD, að ríkið eigi jafnstóran skerf af bankakerfinu og reyndin er hér.  Nær væri að setja hluti í bönkunum hægt og rólega á markað, greiða upp skuldir fyrir andvirðið og losa þannig um framvæmdafé hjá ríkissjóði fyrir brýna og arðbæra innviðauppbyggingu.   

Íslenzkir innviðir hafa verið sveltir frá og með árinu 2009, svo að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í innviðum nemur nú um miaISK 230.  Þetta er alvarlegt mál, því að góðir og nægir innviðir fyrir atvinnuvegina eru forsenda hagvaxtar og þar með velferðar.  Við höfum undanfarið búið að því, að á árunum 1990-2008 nam árleg nýfjárfesting í innviðum um 5,5 % af VLF (vergri landsframleiðslu) að jafnaði, og þetta hlutfall að staðaldri er talið geta viðhaldið 2,5 %-3,0 % hagvexti hérlendis, þ.e.a.s. innviðafjárfesting er að öðru jöfnu mjög arðsöm og getur ein og sér knúið framleiðniaukningu og aukningu landsframleiðslunnar, sem nemur helmingi fjárfestingarinnar. Til innviða í þessum skilningi eru taldar hafnir, flugvellir, vegir, brýr, jarðgöng, flutningskerfi raforku, ljósleiðaralagnir, sjúkrahús og skólar.  

Þar sem Ísland er strjálbýlt  með aðeins 3,3 íbúa/km2, á pari við Kanada, en t.d. Bretland og Þýzkaland eru með 70-80 sinnum fleiri íbúa á flatareiningu, þá verður kostnaður á íbúa miklu hærri við innviðauppbyggingu hérlendis en annars staðar í Evrópu.  Þó að landsframleiðsla á mann á Íslandi sé á meðal þess hæsta, sem gerist innan OECD, þá fer samt ekki hjá því, að landsmenn verði að verja hærra hlutfalli af VLF til innviðafjárfestinga en aðrir innan OECD til að framkalla sama hagvöxt.

Hagfræðingar OECD telja nauðsynlegt miðgildi innviðafjárfestingar í löndum samtakanna sé 4,1 % af VLF til að framkalla 2,5 % - 3,0 % hagvöxt.  Bæði innviðafjárfesting og hagvöxtur hafa minnkað á tímabilinu 1990-2016 innan OECD. Þannig nam fjárfesting í innviðum innan OECD 5,0 % af VLF árið 1990, en hafði helmingazt árið 2016.  Þetta er ávísun á afar lágan hagvöxt á næstu árum og hrörnun samfélaganna, þ.e. að fjármunastofn innviða skreppi saman, enda hafa hagfræðingar OECD komizt að þeirri niðurstöðu, að fjárfestingarþörfin nemi þar nú yfirleitt 4,1 % af VLF á ári, en á Íslandi er þetta hlutfall talið þurfa að vera 5,5 % til að viðhalda hagvexti, sem tryggir fullt atvinnustig, þ.e. atvinnuleysi undir 3,0 % af fjölda á vinnumarkaði að meðaltali yfir árið.  Þetta jafngildir árlegri innviðafjárfestingu hérlendis a.m.k. miaISK 130, en árið 2016 nam hún aðeins 3,8 % af VLF eða um miaISK 90.  Þá er uppsafnaða þörfin ekki talin með.  

Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, þurfa sem sagt að bæta um 40 miaISK/ár við fjárfestingarnar í fyrra, og eftir því sem skuldabyrði og vaxtakostnaður þessara aðila lækkar og skattstofnar stækka, verður raunhæfara að ná því marki án þess að auka skattheimtuna eða að gefa út skuldabréf.  Þá stendur hins vegar eftir uppsafnaði stabbinn upp á miaISK 230, sem æskilegt er að vinna upp innan næstu 8 ára eða tæplega 30 miaISK/ár.  

Hvernig er bezt að leysa þetta ?  Um það ritaði Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá GAMMA Capital Management, í Markað Fréttablaðsins, 14. júní 2017,

"Innviðafjárfesting á Íslandi í lágmarki":

"Eina ástæðu fyrir takmörkuðum fjárfestingum opinberra aðila í hefðbundnum innviðafjárfestingum má rekja til sívaxandi útgjalda til heilbrigðismála, menntamála og félagsþjónustu.  Til að fjármagna aukna fjárfestingu í innviðum geta stjórnvöld hækkað skatta og aukið útgáfu ríkisskuldabréfa [leið Katrínar Jakobsdóttur og félaga - innsk. BJo], en þá að sama skapi átt það á hættu að lækka í lánshæfi [sem hækkar vaxtakostnað ríkissjóðs, sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga - innsk. BJo].

Stjórnvöld hafa hins vegar einnig leitað nýrra leiða til uppbyggingar innviða með aðkomu einkaaðila.  Markmiðið með því er að draga úr ríkisskuldum og hallarekstri, flýta uppbyggingu þjóðhagslega arðbærra verkefna, auka kostnaðarþátttöku þeirra, sem nýta opinbera þjónustu, og nýta almennt kosti einkaframtaks.  

Við ákveðnar kringumstæður er einkaframkvæmd talin vera hagkvæmur kostur, og er þá helzt horft til, hversu mikil áhætta fylgir framkvæmdinni, hvort einkaaðili búi yfir meiri færni en opinberir aðilar, eða hvort einkaaðili geti náð fram samlegðaráhrifum með annarri starfsemi sinni.

Einkaframkvæmd fylgja lægri útgjöld í upphafi fyrir ríkið, og kostnaður dreifist yfir lengra tímabil.  

Mótrök gegn aðkomu einkaaðila að innviðafjárfestingum er, að fjármagnskostnaður sé að jafnaði hærri en hjá opinberum aðilum.  Hins vegar má ætla, að sá munur minnki, ef opinberir aðilar skuldsetja sig fyrir öllum þessum verkefnum, því að þá kemur að því, að lánshæfi þeirra lækkar, sem leiðir til þess, að fjármagnskostnaður opinberra aðila hækkar."

Við aðstæður, eins og nú eru uppi, þar sem þörfin fyrir nýja innviði hefur hrúgazt upp, er alveg borðleggjandi að selja ríkiseignir og fara einnig leið einkaframkvæmdar.  Þetta á t.d. við um samgönguleiðirnar að höfuðborgarsvæðinu, Sundabraut, Reykjanesbraut og leiðina austur fyrir fjall að Selfossi ásamt nýjum Hvalfjarðargöngum.  Einnig næstu jarðgöng gegnum fjall. Það má koma gjaldtökunni þannig fyrir, að aðeins þurfi að hægja ferðina á meðan samskipti fara sjálfvirkt fram á milli aðgangskorts í bíl og lesara í vegtollsstöð.  Með þessu móti munu tæplega 25´000 bílaleigubílar, sem aka svipað og 36´000 aðrir bílar landsmanna á ári eða 15 % fólksbílafjöldans, létta undir við þessa nauðsynlegu innviðafjármögnun.  

 

 

 

 

 

 

 


Lestarstjórar á hliðarspori

Þeir, sem halda því fram, að járnbrautarlest á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (FLR) og Umferðarmiðstöðvarinnar (UMS) í Vatnsmýri geti í fyrirsjáanlegri framtíð orðið arðbær, vaða reyk, og þeir eru á villigötum bæði varðandi kostnað verkefnisins og tekjur af lestinni.  Kveður svo rammt að þessu, að afskrifa þyrfti meira en 60 % kostnaðarins við verklok, svo að reksturinn stæði undir öllum kostnaði m.v. 9,0 %/ár ávöxtunarkröfu fjármagns, sem bundið er í þessu verkefni.  Það eru alls engin þjóðhagsleg eða umhverfisleg rök fyrir svo fráleitum gerningi, sem að öllum líkindum væri þá afskrifaður á kostnað skattborgaranna, eins og rakið er í lok þessa pistils.  

Hér er um að ræða "offjárfestingu dauðans", því að megnið af leið lestarinnar liggur hún samhliða vegi, sem mun geta flutt 100´000 manns á sólarhring, þegar hann hefur verið tvöfaldaður alla leið og tengdur gatnakerfi allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, nema Seltjarnarness, með mislægum gatnamótum við stofnæðar. Þetta þarf að framkvæma sem fyrst af öryggisástæðum, t.d. vegna mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna á bílaleigubílum og kostar smáræði m.v. lestarkostnaðinn.   

Umferðarþunginn á Reykjanesbraut frá Njarðvíkum til Hafnarfjarðarfjarðar (2x2 brautir) um þessar mundir er að jafnaði vel innan við fimmtungur af flutningsgetu vegarins, og er nauðsynlegt að vinda bráðan bug að 2x2 braut alla leið.  Ef þessi flutningsgeta verður einhvern tíma fullnýtt, þá er hægurinn á að bæta við akrein í sitt hvora átt fyrir kostnað, sem nemur rúmlega tíunda hluta lestarkostnaðarins.    

"Lestarstjórarnir" (fluglestarfélagið) áætla, að flutningsgeta lestarinnar muni verða um 10´000 farþegar á sólarhring. Að leggja út í gríðarlega fjárfestingu, miaISK 175, til að bæta 10 % við flutningsgetu, þar sem nýtingin er nú minni en 20 %, er það, sem átt er við með "offjárfestingu dauðans" í þessu sambandi. Hvernig stendur á því, að stjórnmálamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, ljá máls á, að viðkomandi sveitarfélög taki þátt í að undirbúa þessa endileysu ?

Forsvarsmaður undirbúningsfélags "fluglestarinnar" hefur upplýst, að farmiði með lestinni muni kosta ISK 5000 aðra leið.  Farþeginn borgar þá 100 ISK/km, en til samanburðar nemur rekstrarkostnaður rafmagnsbíls (orka, viðhald, tryggingar, opinber gjöld) um 6,0 kr/km.  Það eru einmitt rafmagnsbílar, sem lestin mun þurfa að keppa við, bílaleigubílar, rútur, leigubílar og einkabílar. 

Lestin getur ekki keppt á tíma, þótt hún verði einungis 20 mín í förum, nema við rúturnar, vegna biðtíma á endastöðvunum og millibiðstöðvum, og ferðatíma að og frá þeim öllum, nema flugstöðinni.  Hún mun heldur ekki geta keppt á verði, eins og kom fram hér að ofan. 

Járnbrautarlest á milli FLR og UMS hefur ekkert samkeppnisforskotHvernig á hún þá að ryðja sér til rúms á markaðinum ?

Jónas Elíasson, prófessor emeritus og áhugamaður um betri borg, ritaði fróðlega grein í Morgunblaðið 19. júní 2017, um þessa járnbrautarlest, og þar er hann ómyrkur í máli um þetta gæluverkefni.  Fyrirsögn greinarinnar var,

"Illa grundað gæluverkefni": 

Um kostnaðaráætlun verkefnisins reit hann eftirfarandi:

"Einnig upplýsti forsvarsmaðurinn [fluglestarfélagsins í útvarpsviðtali - innsk. BJo], að engar rannsóknir hefðu farið fram vegna 12 km af jarðgöngum, sem gert er ráð fyrir frá Straumsvík inn á BSÍ. Reyndar er heill hellingur af rannsóknum til, en sem dæmi þá er vitað, að grunnberg í Straumsvík er á 20 m dýpi.  Ofan á því liggja míglek hraun og Reykjavíkurgrágrýti, og það er því nokkuð ljóst, að áætlun félagsins upp á 100 milljarða fær vart staðizt.  Um 150-200 milljarðar eru nær lagi."

Í arðsemisútreikningum blekbónda, sem raktir  verða hér að neðan, er farið bil beggja og reiknað með stofnkostnaðinum A=miaISK 175.

Gert er ráð fyrir viðhaldskostnaði, VHA=miaISK 1,0, starfsmannakostnaði, STA=miaISK 1,0 og orkukostnaði, ORK=miaISK 0,2.  Alls verður þá árlegur rekstrarkostnaður, B=miaISK 2,2, sem er lágmark til þessara þarfa.  

Verkefnið er áhættusamt, og þess vegna má reikna með, að fjárfestar sætti sig ekki við minni ávöxtun en 9,0 % á ári.  Einhvern tímann nefndi forsvarsmaður undirbúningsfélags fluglestarinnar reyndar, að hún mundi skila 15 % ávöxtun.  

Eimreið og vagnar endast e.t.v. í 15 ár, spor í 40 ár og jarðgöng í 60 ár án verulegs viðhalds.  Á þessum grunni er valinn afskriftatími verkefnisins 40 ár.

Með núvirðisreikningum má finna út, að árlegur fjármagnskostnaður verkefnisins, KF=miaISK 16,3, og árlegur rekstrarkostnaður er samkvæmt ofangreindu a.m.k., B=miaISK 2,2.  Þetta saman lagt gefur heildarkostnað af verkefninu á ári: K=miaISK 18,5. 

Þá er auðvitað næsta spurning, hvort árlegar tekjur af járnbrautarlestinni muni hrökkva fyrir þessum kostnaði.  Áætlanir "lestarstjóranna" munu snúast um að flytja 10´000 manns á sólarhring fyrir 5000 kr/mann að jafnaði.  Gangi þessi ofurbjartsýnisspá eftir, þá gengur dæmið upp, því að árlegar tekjur munu þá nema: T=10k x 5 kISK x 0,365k = miaISK 18,3.

Það er hins vegar nánast alveg útilokað, að járnbrautarlestin hreppi svona stóran skerf af heildarfarþegafjöldanum á milli FLR og höfuðborgarsvæðisins, sem m.v. 3,0 M erlenda ferðamenn, 1,0 M innlenda ferðamenn (í báðar áttir) og 10 % íbúa Reykjanesbæjar og nágrennis í förum til vinnu eða skóla eru tæplega 8,0 M/ár eða tæplega 22 k á sólarhring að meðaltali.

Meginástæðan fyrir því, að nánast útilokað er, að lestin hreppi 10/22=0,45=45 % heildarfarþegafjöldans,  er sívaxandi notkun erlendra ferðamanna á bílaleigubílum.  Þegar þeir verða rafvæddir (drægni rafbíla á einni rafgeymahleðslu er nú þegar meiri en meðalakstursvegalengd erlendra ferðamanna á dag), þá verður orkukostnaður þeirra aðeins 1/3 af núverandi eldsneytiskostnaði, og verðið á rafmagnsbílum er að verða svipað og á sambærilegum eldsneytisbílum vegna niðurfellingar ríkissjóðs á vörugjöldum og virðisaukaskatti og sívaxandi framleiðslufjölda rafmagnsbílanna.  

Þann 17. marz 2017 birtist í Morgunblaðinu frétt undir fyrirsögninni, "Stóraukin notkun bílaleigubíla".

Þar var vitnað í skýrsluna "Akstur og öryggi erlendra ferðamanna 2016", sem fyrirtækið "Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf" samdi með tilstyrk Rannsóknarsjóðs Vegagerðarinnar.

"Áætlað er, að árið 2016 hafi um 960 þúsund erlendir ferðamenn nýtt sér bílaleigubíla á Íslandi (56 % gestanna) samanborið við um 480 þúsund árið 2014 (48 %) og 166 þúsund árið 2009 (33 %)."

Af þessu sést, að það er stígandi í hlutfalli erlendra ferðamanna, sem skiptir við bílaleigurnar.  Þetta hlutfall stefnir vel yfir 60 %, og hér verður gert ráð fyrir, að 60 % erlendra ferðamanna leigi sér bíl í FLR og skili honum þar, og 20 % þeirra noti aðra ferðamáta en bílaleigubíl og lest.  Þannig verður hlutdeild lestarinnar í flutningum erlendra ferðamanna úr og að FLR aðeins 20 %, sem er innan við helmingur þess, sem "Fluglestin-þróunarfélag" hefur gefið út. 

Þá verður gert ráð fyrir, að sem svarar 5 % íbúa í Reykjanesbæ taki lestina 200 daga á ári og 50 þúsund íslenzkir ferðamenn taki hana fram og til baka á ári.  

M.v. 3,0 M erlendra ferðamanna verður farþegafjöldinn með fluglestinni samkvæmt þessu: FÞF=4700 manns/ár.

Þetta er innan við helmingur þess farþegafjölda, sem lestarstjórarnir reikna með, og með meðalmiðaverði ISK 5000 verða árlegar tekjur 8,5 miaISK/ár.

Árlegur kostnaður er sem sagt ríflega tvöfaldar árlegar tekjur í þessu dæmi.  Hér hefur þó kostnaður sízt verið ofáætlaður og tekjurnar ekki verið vanáætlaðar, nema síður sé.  Fluglestarhugmyndin er annarleg og sem viðskiptahugmynd hreint glapræði, sem opinberir aðilar á Íslandi, ríki og sveitarfélög, verða að halda sig frá, þótt a.m.k. sum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafi hug á að tengja hugarfóstur vissra stjórnmálamanna þar, Borgarlínuna, við Fluglestina.  Hvað hefur Jónas Elíasson að segja um þessi mál ?:

"Í þeim borgum, sem lestir eru reknar, er það undantekningarlaust vegna þess, að vegasamgöngur hafa ekki undan.  Vegir anna með öðrum orðum ekki einir sér þeim fjölda fólks, sem þarf til að komast inn í London, París, Tokyo, New York og Kaupmannahöfn, svo að algeng dæmi séu nefnd.  Engum slíkum rökum er þó hér til að dreifa.  Vegirnir í Reykjavík hafa þrátt fyrir allt við, og tiltölulega litlu þyrfti að kosta til, svo að umferð á höfuðborgarsvæðinu komist í gott lag.  

Næsta mannsaldurinn eða svo (rúmlega 30 ár) er búizt við 70 þúsund manna fjölgun á höfuðborgarsvæðinu.  Mannfjöldinn verður þar samt um eða undir kvartmilljón, sem er fátt m.v. mannfjöldann í ofangreindum borgum og færra en alls staðar, þar sem talið hefur verið nauðsynlegt að létta á vegumferð með járnbrautarlest.  Járnbrautarlest til að tengja höfuðborgarsvæðið við stærsta alþjóðaflugvöll landsins er þess vegna verkefni án fordæma erlendis frá að teknu tilliti til aðstæðna.  Þetta er sérvizkugrilla, sem ekki er reist á raunverulegri þörf eða vandaðri þarfagreiningu.

  Mislægu gatnamótin, sem nú er verið að byggja á mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar í Hafnarfirði kosta "aðeins" miaISK 1,2.  Það þarf að byggja allt að 10 slík mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu og fjölga akreinum á stofnæðum til að greiða úr umferðarhnútunum.  Slík fjárfesting fyrir e.t.v. miaISK 25 leysir umferðarvandann fyrir einvörðungu þriðjung af kostnaði við Borgarlínu, sem þó mun alls engan vanda leysa.  

"Svo virðist sem gylliboð um erlent fjármagn hafi sannfært ráðherrann og sýnt honum fram á, að ríkissjóður væri þar með úr allri hættu.  Það er reyndar á töluverðum misskilningi byggt.  Með hliðsjón af þeim neikvæða hagnaði (tapi), sem lestarreksturinn stefnir að óbreyttu í, er afar ólíklegt, að fjárfestar komi að málinu öðruvísi en með því skilyrði, að ríki og borg ábyrgist eins og 50-100 milljarða króna lán[reyndar líklega 60%x175miaISK = miaISK 105 - innsk. BJo] til einkahlutafélags, sem byggja á lestina.  Fjárfestar, og alls ekki erlendir, eru ekki þekktir að því að hætta eigin fjármagni í framkvæmdir með litla sem enga hagnaðarvon.  

Að umsömdum byggingartíma liðnum, þegar hin gamalkunnuga Vaðlaheiðarstaða verður komin upp með öllum sínum forsendubrestum, hvaða tryggingu hafa skattgreiðendur fyrir því, að fjárfestarnir verði ekki farnir og fjármagnið með; að ríki og borg sitji ekki eftir með lestarrekstur í fanginu ?

Að erlendir fjárfestar taki fjárhagslega ábyrgð á umræddri lest með eigin peningum - menn geta rólega gleymt því.  Það er því harla ólíklegt, að einkahlutafélag sveitarfélaga fái svo mikið sem krónu af innviðagjaldi í svona lestarrekstur, jafnvel þó að gjaldið verði sett á (sem verður þó vonandi ekki), enda er málið tóm vitleysa frá upphafi, sprottið upp af óstjórninni í Reykjavík."

Hugmynd um að leggja járnbrautarteina á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Umferðarmiðstöðvarinnar er afspyrnu léleg viðskiptahugmynd, sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og vitnar um meira en litla veruleikafirringu.  Þegar mun hafa verið varið MISK 200 til skýrsluskrifa, sem ætlað er að tæla einfalda stjórnmálamenn og aðra auðtrúa til fylgilags við fluglestina.  Hver hefur verið svo ábyrgðarlaus að ljá máls á þessum blekkingum ?  Eru það sveitarstjórnarmenn ?  Jónas Elíasson heldur því fram, að þetta vitlausa mál sé "sprottið upp af óstjórninni í Reykjavík".  Þar eru menn, eins og þeir eru, gaddfreðnir á lestarspori til heljar, en í öðrum sveitarfélögum ættu menn ekki að láta hafa sig að ginningarfíflum með því að veita fluglestarfélaginu ádrátt um að taka frá verðmætt land undir teina og biðstöðvar, sem að öllum líkindum aldrei munu verða að veruleika.

Nýjustu fregnir herma þó, að undirbúningur að "Lava Express" sé að komast á flugstig að tilstuðlan viðkomandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu.  Þannig birtist kortskreytt frétt af legu jarðganganna eftir Baldur Arnarson í Morgunblaðinu á Jónsmessunni, 24. júní 2017, undir hinni ískyggilegu fyrirsögn:

"Nýr kafli að hefjast í þróun fluglestar":

"Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu [SSH] og Fluglestin - þróunarfélag hafa gert með sér samstarfssamning um þróun skipulagsmála vegna hraðlestar, sem ætlað er að tengja saman Keflavíkurflugvöll og höfuðborgarsvæðið.  Hann bíður nú samþykkis sveitarfélaga."

Íbúar eiga heimtingu á því að fá að vita, hvað hér er verið að bralla.  Er þessu ævintýrafélagi, Fluglestinni - þróunarfélagi, veittur ádráttur um að taka dýrmætt land frá undir gríðarlegan hávaðavald meðfram ströndinni á Suðurnesjum í samningum þess við sveitarfélög þar og land fyrir biðstöðvar og op niður í lestargöngin í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Reykjavík ?  Af fréttum að dæma eru yfirvöld einum um of leiðitöm; sumir mundu jafnvel kveða svo rammt að orði, að þau láti ævintýramenn teyma sig á asnaeyrunum.  Ef þessi sömu sveitarfélög ætla að samþykkja að taka þátt í fjármögnun undirbúningsfélags, sem á að fá miaISK 1,5 til ráðstöfunar í rannsóknir, umhverfismat og frumhönnun, þá er of langt gengið, og munu þá væntanlega margir kjósendur sýna hug sinn í verki á vori komanda.  

Í fréttinni var þetta haft eftir Runólfi Ágústssyni, framkvæmdastjóra Fluglestarinnar - þróunarfélags um nýgerðan samning á milli félags hans og SSH:

"Runólfur segir samninginn mikinn áfanga.  "Þetta hefur þá þýðingu, að við getum farið í næsta fasa, og farið að fjármagna hann, sem eru skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum, frumhönnun og rannsóknir, sérstaklega á berglögum í gangastæðinu.  Þessi fasi kostar í heild 1,5 milljarða [ISK] og tekur 3 ár.  Við stefnum á að fjármagna þennan pakka í haust.""

Það væri synd að segja, að þær sveitarstjórnir og hugsanlega aðrir stjórnmálamenn, sem við þessa fluglest eru riðnir, hafi ekki verið varaðir rækilega við.  Allur kostnaður, beinn og óbeinn, sem af þessum skýjaborgum hlýzt, mun fara í súginn.  Í þeim tilvikum, að um skattfé verði að ræða, verða viðkomandi stjórnmálamenn látnir standa umbjóðendum sínum reikningsskil gerða sinna.  

 

 

 

 

 

 

  

 


Borgin er að sökkva í skuldafen

Samkvæmt ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016 nema heildarskuldir borgarinnar af eigin rekstri og hjá dótturfyrirtækjum miaISK 290, og er þetta 187 % af heildartekjum sömu aðila.  

Í 64. grein Sveitarstjórnarlaga segir, að skuldir og skuldbindingar sveitarstjórnar, kjarna og dótturfyrirtækja, skuli vera innan við 150 % af tekjum samstæðunnar.  Hjá Reykjavík er þetta hlutfall 187 %.  Það er með öðrum orðum búið að kollsigla fjárhag borgarinnar, svo að við blasir að skipa henni tilsjónarmann.  Einhvern tíma hefði það þótt saga til næsta bæjar, ef fjármálastjórnun höfuðborgarinnar væri með þeim endemum, að hún stefndi í að verða svipt fjárhagslegu sjálfstæði sínu.  Nú eru hins vegar nýir tímar með endemis búskussa við völd í Reykjavík.  

Skuldir kjarnans (A-hluta) nema miaISK 84 og fara vaxandi í bullandi góðæri.  Það sýnir, að rekstur borgarinnar er ósjálfbær, en í lögum segir, að rekstur heildar, A og B hluta, skuli á hverju þriggja ára skeiði vera réttum megin við núllið.  Aðalfyrirtæki B-hluta er Orkuveita Reykjavíkur, OR, með sín dótturfyrirtæki, ON og Veitur.  Þar hefur loksins tekizt að bjarga orkusamstæðu frá greiðsluþroti með því að láta borgarana, notendur þjónustu OR, borga brúsann af röngum fjárfestingarákvörðunum á tímum R-listans og mjög áhættusömum samningum um raforkusölu til stóriðju frá jarðgufuorkuveri á fallandi fæti, þ.e. orkuveri með mjög háum  rekstrarkostnaði vegna mikillar viðhaldsþarfar af völdum tæringa, útfellinga, og gufuöflunar.  Aðrir viðskiptavinir ON en viðkomandi stóriðja eru látnir gjalda fyrir sífellda nýja orkuöflun í stað minnkandi afkasta á meðan orkusamningur til þessarar stóriðju tekur ekkert tillit til viðbótar kostnaðar vegna oflestunar á jarðgufuforða Hellisheiðarvirkjunar.  

Hafa almennir notendur hins vegar mátt axla um 50 % gjaldskrárhækkun síðan árið 2010, sem er um 25 % umfram hækkun neyzluverðsvísitölu.  Eru nú jafnvel boðaðar arðgreiðslur til borgarinnar frá OR, og er það til að bíta höfuðið af skömminni.  Það nær auðvitað engri átt, og væri OR öllu nær að skila verðhækkunum umfram vísitölu til baka til neytenda.  Fyrirtækið er áfram lágt metið af matsfyrirtækjum, og ákvað eitt þeirra, Moody´s, 15. júní 2017, að halda lánshæfiseinkunn óbreyttri, Ba2, sem er óvenjulega léleg einkunn til orkusamstæðu.  

Það er þess vegna allsendis undir hælinn lagt, að Reykjavík takist að sleppa undir 150 % mark sveitarstjórnarlaga fyrir 2023, en þá fellur úr gildi undanþága í lögum um þessi mörk til sveitarfélaga, sem eiga orkufyrirtæki.  

Vegna bágborinnar skuldastöðu Reykjavíkur hefur borgin ekki efni á neinum stórframkvæmdum, allra sízt algerlega óarðbærum, dýrum framkvæmdum á borð við Borgarlínuna, sem í fyrsta áfanga er áætlað, að kosta muni miaISK 22 og að lokum miaISK 70, en sá kostnaður fer yfir miaISK 100, ef að líkum lætur með gæluverkefni stjórnmálamanna, sem engin spurn er eftir á meðal notenda.  Framtíð Borgarlínu veltur þess vegna alfarið á því, hvort Alþingi samþykkir Borgarlínu inn á Samgönguáætlun  ríkisins, en þar er barizt um hvern bita, og það væri glórulaust athæfi að forgangsraða ríkisfjármunum í þágu gæluverkefnis, sem ætlað er að leysa umferðarvanda, sem miklu raunhæfara er að bregðast við í þágu allra vegfarenda á höfuðborgarsvæðinu með gerð mislægra gatnamóta og fjölgun akreina á stofnæðum þéttbýlisins fyrir mun lægri upphæð en nemur kostnaði við Borgarlínuna.  

Jónas Elíasson, prófessor emeritus, vakti máls á grafalvarlegri fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar með grein í Morgunblaðinu, 13. júní 2017, 

"Óstjórn í Reykjavík",

sem lauk með þessum orðum:

"Bjarga má fjármálum venjulegra bæjarfélaga með góðum vilja og samningum við lánadrottna, en 380 milljarða króna skuld Reykjavíkurborgar [mismunur 380 og 290 miaISK er e.t.v. vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga Reykjavíkurborgar - innsk. BJo] verður vart bjargað með slíkum hætti.  Til að svo megi verða, þarf þjóðarátak.  Skuldastaða Reykjavíkur er þjóðhættuleg.  

Hér er svo líklega skýringin komin á því, hve hægt gengur að viðhalda götum, að engar marktækar framkvæmdir eru í samgöngum og lagnakerfum eða þróun nýrra byggingarsvæða, svo að fátt eitt sé nefnt um stöðnun höfuðborgarinnar á flestum sviðum verklegra framkvæmda.  Þetta er kannski einnig skýringin á því, að pótintátar borgarinnar tala um fátt annað en umhverfisvæna hjólreiðastíga eða álíka gæluverkefni, verkefni, sem þeir vita, sem vilja, að leysir ekki umferðar- og skipulagsvanda borgarinnar - hvorki í bráð né langd - en eru þeim óneitanlega kosti búin að kosta lítið í samanburði við allar þær framkvæmdir, sem æpandi þörf er á.

Á sama tíma er skuldahamarinn á leiðinni niður, og við því verður væntanlega að bregðast ?"

Það er búið að keyra höfuðborgina í fjárhagslegt fúafen, og núverandi valdhafar þar hafa hvorki getu né vilja til að draga hana þaðan upp.  Til þess þarf nýja vendi í valdastólana, sem hafa bein í nefinu til að gera uppskurð á stjórnkerfi borgarinnar til að gera það bæði skilvirkara og ódýrara.  Jafnframt þarf að auka tekjur borgarinnar enn meir með því að bjóða upp á mikla fjölbreytni lóða, og umfram allt að auka heildarlóðaframboð á sanngjörnu verði, þ.e. sem næst upphafskostnaði við innviði til að þjóna nýjum húsbyggjendum.  Með þessum hætti mun skattstofn borgarinnar vaxa meira en ella. Þá misheppnuðu stefnu að láta allt snúast um þéttingu byggðar, svo að almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur fyrir fleiri en nú, verður að leggja fyrir róða. 

Staðan er orðin grafalvarleg, þegar prófessor emeritus við Verkfræðideild HÍ kallar hana þjóðhættulega.  

 

 


Borgarlína bætir ekki úr skák

Hugmyndafræðin að baki Borgarlínu er reist á sandi, og efniviðurinn í henni stenzt illa tímans tönn.  Það er með öðrum orðum veruleg fjárfestingaráhætta fólgin í Borgarlínu, sem ber að vara sterklega við.  Hugmyndin er reist á óskhyggju, sem mun rýra lífskjör og lífsgæði allra landsmanna, mest þó íbúa höfuðborgarsvæðisins. Ástæðan er sú, að ætlunin er að leggja út í mjög mikla fjárfestingu eða um miaISK 70 á tæplega 60 km löngum vegi, sem hæglega getur orðið miklu dýrari.  Vegurinn verður ætlaður til forgangsaksturs um 30 m langra rafknúinna langvagna, sem er mjög hætt við, að verði illa nýttur, og þessi vegur, Borgarlína, mun óhjákvæmilega þrengja að almennri bílaumferð, sem alls ekki má við slíku, og sjúga til sín fjármagn, sem kæmi sér mun betur fyrir almenning að nýta til að auka flutningsgetu núverandi vegakerfis með uppsetningu nokkurra vel valinna mislægra gatnamóta og fjölgun akreina á höfuðborgarsvæðinu.  

Árið 2009 var gert óþurftarsamkomulag á milli ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, sem standa að Strætó BS samlagsfélagi, um, að ríkissjóður legði samlagsfélaginu árlega til einn milljarð króna, miaISK 1,0, til uppbyggingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2018 gegn því, að Vegagerðin þyrfti ekki að leggja neitt fé að mörkum til nýrra umferðarmannvirkja á borð við mislæg gatnamót og fjölgun akreina á stofnæðum.

Þetta var óþurftarsamkomulag vegna þess, að það hafði í för með sér afar óhagkvæma ráðstöfun almannafjár, sem margfalt hagkvæmara hefði verið að ráðstafa til að greiða för almennrar umferðar með því að auka flutningsgetu lykilæða.  

Árið 2009 er talið, að 4 % af ferðum hafi verið með almenningsvögnum og að þetta hlutfall sé núna 5 %, en markmiðið er 8 % árið 2018, sem fyrirsjáanlega næst ekki. Yfirgengilegur fjáraustur til almenningssamgangna hefur sáralítilli farþegaaukningu skilað, og þrátt fyrir ýmiss konar þvingunarráðstafanir að hálfu borgaryfirvalda á borð við þrengingu gatna og fækkun bílastæða í grennd við Borgarlínuna, eru sáralitlar líkur á, að aukningin muni verða meiri en 1 % í stað 7 %, þ.e. 20 % fjölgun farþega, með Borgarlínu, svo að markmiðið um 12 %, eða meira en tvöföldun farþegafjölda með strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu, árið 2040 mun að öllum líkindum ekki nást vegna aðstæðna á Íslandi, erfiðari og tímafrekari ferðamáta með strætó auk sívaxandi bílaeignar almennings og lægri rekstrarkostnaðar bíla í tímans rás, t.d. með orkuskiptum.   

Þá sitjum við uppi með stórtap á fjárfestingu, sem líklega verður yfir miaISK 100, ef af verður, og 94 % ferðanna verður með einkabílum, sem Borgarlínan hefur þrengt hræðilega að bæði rýmislega og fjárhagslega, því að hún verður plássfrek og fjársveltir allar aðrar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og víðar.  

Helga Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs þar, skrifaði fróðlega grein í Morgunblaðið 27. maí 2017, sem hún nefndi:

"Mun Borgarlína fjölga farþegum Strætó ?:

"Ávinningurinn af Borgarlínunni, ef vel tekst til, ætti að koma fram í sparnaði á fjárfrekum framkvæmdum við aðra samgöngukosti, en þennan ávinning þarf að sýna, þannig að verkefnið fái þann almenna stuðning, sem sótzt er eftir af þeim aðilum, sem hafa borið hitann og þungann af undirbúningi þess. "

"Aðrir samgöngukostir" hafa nú verið sveltir í 8 ár í tilraun til að efla almenningssamgöngur.  95 % fólks á ferðinni hefur orðið fyrir barðinu á því með árlegri lengingu farartíma á virkum dögum. Það er að öllum líkindum ranglega verið að gefa sér, að Borgarlínan fækki fólki í bílum úr 95 % í 88 % af heild árið 2040, en á þessu 23 ára tímabili mun íbúum fjölga um meira en 30 %, ef að líkum lætur. Að teknu tilliti til uppsafnaðrar þarfar í innviðauppbyggingu samgöngukerfisins er mjög óráðlegt núna að reikna með nokkrum einasta sparnaði vegna Borgarlínu.  Það er nóg komið af þessari sérvizkulegu forgangsröðun.  

Þegar í stað ber að leggja á hilluna öll áform um forgangsakreinar fyrir Strætó, en þess í stað beina fjármagni í að leysa úr umferðarhnútum allrar umferðar, líka strætó, með viðbótar akreinum og nýjum mislægum gatnamótum. Það er ódýr lausn á umferðarvandanum m.v. Borgarlínu, og slík fjárfesting mun nýtast allri umferðinni í stað lítils hluta hennar.

Það er ekki nóg með, að Borgarlína feli í sér stórfellt bruðl með skattfé í verkefni, sem mun nýtast fáum og há mörgum, heldur hefur borið á þeim skoðunum, að um þær mundir, er hún verður tilbúin fyrir miaISK 70 - 150, þá verði hún úrlelt orðin.  Þá skoðun lét t.d. Elías Elíasson, verkfræðingur, í ljós í Morgunblaðinu 13. júní 2017 í greininni,

"Ó, þétta borg".  Greinin hófst þannig:

"Draumar um, að almenningssamgöngur í Reykjavík gætu verið svona nokkurn veginn sjálfbært fyrirbæri, eru býsna gamlir og hafa breytzt í áranna rás.  Þrátt fyrir að ætíð hafi það sýnt sig, að samfélagið í Reykjavík sé of lítið og dreift, til að draumurinn sá geti rætzt, hafa menn haldið áfram að leita leiðar, og vinstri menn í Reykjavík telja sig nú hafa fundið hana.  Leiðin er sú að þétta byggð í Reykjavík, þar til draumurinn verður að veruleika.  Skipuleggja skal borgina kringum samgöngukerfið, sem hefur hlotið nafnið "Borgarlína".

Því fer fjarri, að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu séu fjárhagslega sjálfbærar, því að rekstrartekjur frá farþegum standa aðeins undir fjórðungi kostnaðarins.  Þær verða seint sjálfbærar, af því að íbúafjöldinn verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð slíkur, að samkeppnisforskot skapist gagnvart einkabílnum.  Þótt vinstri menn í Reykjavík þétti byggð, láti annað sitja á hakanum og valdi stórfelldu efnahagstjóni með þessu sérvizkulega uppátæki, þá snýst þessi forræðishyggja algerlega í höndunum á þeim, því að fólkið leitar einfaldlega í önnur sveitarfélög, og íbúar höfuðborgarsvæðisins munu vonandi krefjast þess, að fjandskap yfirvalda í Reykjavík gagnvart einkabílnum linni og að opinberu fé verði varið með skilvirkari hætti til úrbóta á umferðarkerfinu.  

"Þétting borgarinnar er þegar hafin.  Í því skyni er framboð lóða takmarkað sem mest við dýrari lóðir í gömlu hverfunum og úr verður lóðaskortur. Þar sem borgin hefur markaðsráðandi stöðu á lóðamarkaði, getur hún spennt upp lóðaverð, svo að hinar dýru þéttingarlóðir seljast, en þetta heitir markaðsmisnotkun í annars konar viðskiptum.

Markaðurinn svarar auðvitað á sinn hátt með því, að þeim fækkar, sem byggja vilja hús sín og borga sín gjöld í Reykjavík, þannig að útsvarstekjur borgarinnar lækka.  Nágrannasveitarfélögum finnst auðvitað gott að fá nýja, góða útsvarsgreiðendur og taka þeim opnum örmum.  

Til viðbótar ofurgjaldi á lóðirnar er fyrirhugað að leggja innviðagjöld á íbúa í grennd við Borgarlínu og fjármagna hana með þeim hætti.  Síðan fullyrðir borgarstjóri, að þarna sé um að ræða arðsama framkvæmd, sem borginni stendur til boða."

Þegar litið er á glórulausar fyrirætlanir meirihluta borgarstjórnar um ráðstöfun fjár borgarbúa, þarf engan að undra, að fjárhagur borgarinnar sé svo illa staddur, að litlu megi muna, að ríkisvaldið þurfi samkvæmt lögum að taka fjárráðin af borgaryfirvöldum með skipun tilsjónarmanns.  Þar sem skattheimta borgarinnar er í leyfilegu hámarki, er ljóst, að tvær ástæður liggja til þessarar slæmu fjárhagsstöðu.  Er önnur sú, sem Elías nefnir, að borgin hefur fælt frá sér vel borgandi íbúa og fyrirtæki með glórulausri lóðaskortsstefnu, og hin er bruðl með ráðstöfunarfé borgarinnar, auk hás vaxtakostnaðar af himinháum skuldum.

Í lokin færir Elías eftirfarandi ástæður fyrir því, að Borgarlínuhugmynd borgarforkólfa verður úrelt áður en hún kemst á koppinn:

"Þó þeir séu til, sem dásama líf án bíls, þá stefna lífshættir okkar í aðra átt.  Við sjáum hilla undir byggð án umferðartafa, mengunarfría, sjálfkeyrandi bíla og netþjónustu í fólksflutningum, með mínar dyr sem mína biðstöð í stað sérbyggðra biðstöðva með línum á milli.

Þess sjást þegar merki, að þrenging byggðar hvetur efnameiri borgara til búsetu annars staðar, og fyrirtæki eru farin að flytja til rýmri svæða utan borgar.  

Borgarlínudraumurinn er úreltur og orðinn skaðlegur.  Þetta finna borgarbúar á sér og munu tryggja, að draumar um þéttingu byggðar og Borgarlínu verði draumar liðins dags eftir næstu kosningar."

Í Hafnarfirði, sem verður á suðurjaðri Borgarlínunnar, gætir nú raunsæislegra viðhorfa til hennar.  Í Morgunblaðinu birtist 15. júní 2017 grein til merkis um þetta eftir Rósu Guðbjartsdóttur, formann bæjarráðs Hafnarfjarðar, og Inga Tómasson, formann skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar, undir fyrirsögninni, "Mikilvægar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu".  

Þar er lögð áherzla á, að Borgarlína muni mynda greiða samgönguleið á milli sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins fyrir öll samgöngutæki og verði t.d. með forgangsakrein fyrir öll samgöngutæki, þar sem í eru tveir eða fleiri.  Þá segir:

"Þrátt fyrir bjartsýnustu spár um 12 % notkun almenningssamgangna árið 2040 gera umferðarspár ráð fyrir allt að 46´000 bílum á þessari leið [Reykjanesbrautinni, sem er 53 % aukning frá árinu 2016 - innsk. BJo].  Fyrir okkur Hafnfirðinga er ástandið óásættanlegt.  Umferðarvandinn verður ekki leystur með tilkomu Borgarlínu.  Án annarra aðgerða mun vandinn halda áfram að vaxa."

Höfundarnir hafa lög að mæla og í lok sinnar ágætu greinar rita þau:

"Þótt flestir séu sammála því, að stefna beri að bættum almenningssamgöngum, þarf að vinna heildrænt og á raunhæfan máta að því að bæta samgöngurnar á svæðinu.  Fjármagn til samgöngumála er af skornum skammti, og þegar því er útdeilt, verður að taka tillit til hagsmuna fjöldans og þess, að vegfarendur hafa mismunandi þarfir og gera ólíkar kröfur."

Kjarni málsins er einmitt sá, að fjármagni til samgöngumála er þröngur stakkur skorinn.  Af þeim sökum er nauðsynlegt að forgangsraða.  Forgangsröðunin á að verða í þágu hinna mörgu, en ekki í þágu hinna fáu, sem fæstir hafa farið fram á eða bíða spenntir eftir löngum hraðvögnum á forgangsakreinum.  Það er allt í lagi að setja Borgarlínu á Aðalskipulag höfuðborgarsvæðisins, en ekki í þeim gæluverkefnisdúr, sem Dagur og Hjálmar í borgarstjórn Reykjavíkur hugsa sér, heldur á þá leið í þágu almannahagsmuna, sem Rósa og Ingi nefna hér að ofan, þ.e. ein forgangsakrein fyrir farþegaflutninga af öllu tagi, og 2-3 akreinar fyrir hvers konar umferð.   

 

 

 


Stjórnarandstaða í ruslflokki

Stjórnarandstaðan á Íslandi hefur engan annan valkost við ríkisstjórnina fram að færa en stórhækkaða skattbyrði á miðstéttina, útþenslu ríkisbáknsins með hallarekstri, verðbólgu og vinnudeilum sem afleiðingu.  

Nú síðast hafa talsmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Katrín Jakobsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir o.fl., tekið að fjargviðrast út af sýnilegum viðbúnaði lögreglunnar á mannamótum í Reykjavík gegn illvirkjum. Er svo að skilja af málflutninginum, að slík návist lögreglunnar sé viðstöddum hættuleg; hún dragi að illvirkja.  

Hér er svo nýstárlegur málflutningur á ferð, að nauðsynlegt er að deila þessari speki með lögregluyfirvöldum í öðrum löndum, sem tekin eru upp á þessu sama í kjölfar viðbjóðslegra hryðjuverka Múhameðstrúarmanna á Vesturlöndum, sem standa nú í forneskjulegu "heilögu stríði", Jihad, gegn Vesturlöndum og þeirri menningu, sem þau standa fyrir. 

Hér er á ferðinni eitt dæmið af mörgum um glópsku fólksins í stjórnarandstöðunni.  Þau hafa löngum haldið því fram, að vörnum landsins yrði bezt fyrir komið án hervarna og án aðildar að NATO.  Nú halda þau því með sama hætti fram, að hættulegt sé að hafa í frammi sýnilegar varnir og viðbúnað gegn hryðjuverki.  Vinstri menn eru öfugmælaskáld okkar tíma, og enginn kemst með tærnar, þar sem þeir hafa hælana í fíflaganginum. Eru vinstri menn margir hverjir hérlendir sennilega lengst til vinstri í vinstra litrófinu á Vesturlöndum og svipar til "Die Linke" í Þýzkalandi, sem eru arftakar SED, "Sozialistische Einheitspartei Deutschlands", sem fór með alræðisvald í DDR á sinni tíð.  Er það ekki leiðum að líkjast, eða hitt þó heldur.   

Kári er maður nefndur, Stefánsson, kenndur við Erfðagreiningu, sonur Stefáns Jónssonar, frábærs fréttamanns og liðtæks penna, fyrrverandi þingmanns Alþýðubandalagsins, sem var arftaki Kommúnistaflokks Íslands á sinni tíð.  Þrátt fyrir að vera framtaksmaður virðist Kári, þessi, vera býsna langt til vinstri í ýmsum skoðunum, en það aftrar honum þó ekki frá því að gefa núverandi stjórnarandstöðu á Íslandi falleinkunn fyrir ferlega frammistöðu.  Hann líkir henni við sveitahund, sem beit í álfótlegg föður hans forðum og vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið.  Kári ritaði um þetta óvenju skemmtilega grein í Fréttablaðið 6. júní 2017,

"Heppin þjóð":

"Og ég prísa okkur samt sæl, þótt undarlegt megi virðast.  Þegar bölvunin verður blessun, sem gerist af og til [danskt orðalag-innsk. BJo], minnir það mig gjarnan á sögu, sem ég hef oft sagt af því, þegar faðir minn sté út úr bíl við bæ í Suðursveit, og hundur rauk á hann og beit hann  í hægri fótlegginn.  Faðir minn var einfættur og með gervifótlegg úr áli hægra megin, þannig að hundgreyið fékk taugaáfall og þaut ýlfrandi frá bænum, niður brekkuna, fyrir fjóshorn og sást ekki aftur í nokkra daga.  En faðir minn leit á mig og sagði brosandi út undir eyru: "þarna sérðu, strákur, það er ekki alltaf vont að hafa glatað fæti".

Stjórnarandstaðan á Þingi er sá hundur, sem hefur sannfært mig um, að núverandi ríkisstjórn sé ekki það versta, sem hefði getað komið fyrir okkur.  Stjórnarandstaðan er gagnslaus, hugmyndasnauð og málstola.  Hvar eru tillögur stjórnarandstöðunnar um endurreisn heilbrigðiskerfisins, til minnkunar á muninum á þeim, sem eiga og eiga ekki, að heilbrigðu bankakerfi og til þess að takast á við árekstra hagsmuna samfélagsins og hagsmuna þeirra, sem samfélagið hefur kosið til þess að stjórna sér ?  Hvar er stjórnarandstaðan ?  Skyldi hún halda, að hún sé að ferja okkur inn í betri heim og að leiðin liggi í gegnum Vaðlaheiðargöngin ?  Það er eins gott fyrir hana að gera sér grein fyrir því, að í þá ferð fer hún ein.  Það fylgir henni enginn.  

Að lokum ráð til lesandans: þegar þú fyllist örvæntingu út af vesöld ríkisstjórnarinnar, mundu, að þetta hefði gerað verið verra.  Við hefðum getað endað með núverandi stjórnarandstöðu í ríkisstjórn, og það er staðreynd, að þótt ríkisstjórnin sé býsna slöpp, er stjórnarandstaðan líklega verri.  Þar af leiðandi eigum við kannski að prísa okkur sæl fyrir þann gervifót, sem ríkisstjórnin er, þótt það þýði, að við verðum ein og óstudd að sjá um að veita henni aðhald.  Stjórnarandstaðan á Þingi leggur þar næstum ekkert af mörkum."

Hér tekur framtaksmaður af eðalkommaætt stjórnarandstöðuna á kné sér og lætur hana hafa það óþvegið að hætti hússins.  Hér er enginn aukvisi á ferð og augljóst, að getuleysi, flumbrugangur, kjaftavaðall og rangar áherzlur stjórnarandstöðunnar hafa gengið svo fram af vinstri manninum, að hann sér þann kost vænstan að stofna nýjan stjórnmálaflokk, "Kárínurnar", til að freista þess að berjast fyrir hugðarefnum sínum á Alþingi, þar sem þar sé enginn, sem talar máli hans.  Þetta eru nokkur tíðindi ofan á "ekki-fréttina" af stofnun Sósíalistaflokks Íslands.  Skyldu ekki vinstri menn fyllast valkvíða, þegar þeir ganga að kjörborðinu næst ?  Kannski þeir gefist þá upp á að gera upp á milli fulltrúa hins eina sannleika og kjósi bara Píratana, sem hvarvetna annars staðar eru að hverfa af vettvangi stjórnmálanna.  

Hvernig svara stjórnmálaflokkarnir kalli framtíðarinnar ?  Hvað bíður okkar í framtíðinni ?  Um það skrifaði Þorkell Sigurlaugsson, viðskiptafræðingur og formaður menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins, áhugaverða grein í Viðskiptablaðið 8. júní 2017,

"Er erfitt að spá fyrir um framtíðina ?:

"Ferðaþjónustan er gott dæmi um undirbúningsleysi stjórnvalda, en fiskveiðistjórnun og stýring á því sviði er að flestu leyti til fyrirmyndar.  Stefnumörkun, t.d. í atvinnumálum, menntamálum og á öðrum sviðum, þarf að vera mun skýrari og byggja á meira samstarfi stjórnvalda og atvinnufyrirtækja."

Er stjórnarandstaðan líkleg til afreka á þessu sviði ?  Hún vill rífa niður fiskveiðistjórnunarkerfið. Afstaða hennar til atvinnulífsins er bæði einhæf og neikvæð, enda reist á skilningsleysi á þörfum þess og getu.  Stjórnarandstaðan lítur á atvinnulífið sem skattstofn, og er sjávarútvegurinn gott dæmi um það, en hún hefur lýst fyrirætlunum sínum um stórfellt aukna skattheimtu af honum til að fjármagna aukin ríkisumsvif.  Við núverandi aðstæður mundi slíkt hafa hrun hinna minni fyrirtækja vítt og breitt um landið í för með sér, sem oft eru reist á dugnaði eins framtaksmanns eða framtakshjóna.  

"Þetta [ný iðnbylting] kallar á nýja hugsun, alveg eins og rafmagnið umbreytti þjóðfélaginu.  Við hættum fyrir löngu að tala um rafmagnið og mikilvægi þess.  Það er orðið sjálfsagður hlutur, og allt okkar líf og starf byggist á því.  Sama gildir um Internetið, það er orðið 40 ára gamalt.  Við tölum um það með öðrum hætti en áður, og það er orðið sjálfsagt til samskipta og viðskipta.  Nýting Internetsins, þráðlausra og stafrænna lausna og nýting gervigreindar, er rétt að byrja."

Það er ekki ríkisvaldið, heldur einkaframtakið, stórfyrirtæki, framtaksmenn og frumkvöðlar, sem eru í fararbroddi þessarar þróunar.  Stjórnarandstaðan vill bara skattleggja einkaframtakið undir drep og þenja út ríkisbáknið.  Þar með kæfir hún þróun og frumkvöðlastarfsemi hérlendis og veldur atgervisflótta og flótta verðmætra starfa til útlanda.  Stefna íslenzku stjórnarandstöðunnar er í þágu nýrra starfa á erlendri grundu.  

"Við verðum að taka þátt í þessari 4. iðnbyltingu, því að lífskjör Íslendinga, lífsgæði og lífsgleði, munu ráðast af því, hvernig til tekst.  Verðmætasköpun mun í vaxandi mæli byggja á hugviti, sköpun og þekkingu til að auka framleiðni og verðmætasköpun.  Þekkingin getur auðveldlega flutzt af landi brott, ef við sköpum ekki tækifæri hér á landi.  Hún verður ekki í höftum eða bundin við Ísland, eins og fasteignir, fiskveiðikvóti eða aðrar náttúruauðlindir.  Auk innlendrar þekkingar verður að laða til landsins erlenda þekkingu, erlenda nemendur og erlent vinnuafl á sviði þekkingarsköpunar, en ekki eingöngu láglaunastarfa."

Tæknibyltingin, sem Þorkell Sigurlaugsson lýsir hér, verður reist á tækniþekkingu einstaklinga, frumkvöðlum og einkaframtaksmönnum, en ekki á frumkvæði að hálfu ríkisvaldsins.  Hlutverk stjórnmálamanna í þessari þróun er að skapa hagstæða efnahagslega umgjörð um þessa starfsemi, sem flyzt óhjákvæmilega þangað, sem starfsskilyrðin eru bezt, eins og Þorkell bendir á.  Stjórnarandstaðan hefur margsýnt það, þegar hluti hennar hefur verið við völd og með málflutningi sínum á síðasta og núverandi kjörtímabili, að hún hefur engan skilning á þörfum framtaksmanna, og hún hefur þannig dæmt sig úr leik sem valkostur til að leiða þjóðina inn í framtíðina, enda getur hún ekki haft augun af baksýnisspeglinum.    

 

 

 

 


Höfin eru í hættu

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur nú efnt eitt kosningaloforða sinna, sem var um að hefja ferli, sem losar Bandaríkin (BNA) undan Parísarsáttmálanum frá desember 2015 um losun gróðurhúsalofttegunda.  Þetta er mjög umdeild ákvörðun í BNA og áhrifin af henni verða líklega aðallega pólitísk og sparnaður fyrir ríkissjóð BNA um 3 miaUSD/ár í styrki til fátækra landa vegna orkuskipta.  Bandaríkin eru, eins og aðrar þróaðar þjóðir, á óstöðvandi vegferð til kolefnisfrírrar tilveru.  Þau eru leiðandi á ýmsum sviðum mengunarvarna, eins og nýlega kom fram í viðtali á RÚV við sérfræðing frá Cleveland um fínkornótt ryk undir 2,5 míkron í borgum.  

Höfin spanna 3/4 yfirborðs jarðar og eru matarkista mannkyns.  Þau sjá 3 milljörðum manna (af um 7 milljörðum) fyrir allt að fimmtungi próteinþarfar þeirra og eru þannig stærri uppspretta próteins (eggjahvítuefna) en nautakjöt. Meðalneyzla fiskmetis í heiminum er 20 kg/mann og hefur aldrei verið meiri, en aukningin kemur nánast öll frá fiskeldi, því að afli úr hafi stendur í stað.  Helmingur neyzlunnar kemur frá fiskeldinu, sem er umsvifamest í Kína. Tíundi hluti jarðarbúa hefur framfæri sitt af veiðum úr sjó og af fiskeldi.  

Þessum lífshagsmunum mannkyns er ógnað úr þremur áttum.  Í fyrsta lagi af losun manna á gróðurhúsalofttegundum.  Hafið sogar í sig hluta af koltvíildinu (CO2) og súrnar við það. Við lægra pH-gildi (aukna súrnun) eykst hættan á upplausn kalks, og þá verður öllum skeldýrum hætta búin.  Vísindamenn búast við, að öll kóralrif verði horfin árið 2050, en þau eru mikilvægur hlekkur í lífkeðjunni, þar sem þau eru nú.

Hlýnun andrúmslofts væri mun meiri en sú u.þ.b. 1,0°C hlýnun frá iðnbyltingu (1750), sem raunin er núna, ef ekki nyti við hafanna, því að þau taka til sín yfir 90 % varmaaukningarinnar á jörðinni, sem af gróðurhúsalofttegundum af mannavöldum leiðir. Þetta hefur þegar leitt til meðalhlýnunar hafanna um 0,7°C. Afleiðingin af því er t.d. hækkun sjávarborðs og tilfærsla átu og annarra lífvera í átt að pólunum.

Önnur hætta, sem steðjar að höfunum, er mengun frá föstum og fljótandi efnum.  "Lengi tekur sjórinn við" er orðtak hérlendis.  Víðátta og gríðarlegt rúmtak hafanna gaf mönnum lengi vel þá tilfinningu, að í þau gæti allur úrgangur og rusl farið að ósekju og að frá höfunum mætti taka takmarkalaust .  Nú vita menn betur.  Rusl á alls ekki heima þar og skolp verður að hreinsa, fjarlægja eiturefni og föst efni niður í 0,1 míkron, ef þau leysast treglega upp.  

Plastefni eru mikil ógn fyrir lífríki hafanna og fyrir a.m.k. 40 % mannkyns, sem neytir mikils fiskmetis úr sjó. Talið er, að 5 trilljónir (=þúsund milljarðar) plastagna séu í höfunum núna og 8 milljónir tonna  bætist við árlega, Mt/ár.  Áætlað er, að verði ekkert að gert, þá muni plastmassinn í höfunum verða meiri en massi fiskistofnanna fyrir 2050.  Þetta er ógnun við allt lífríki, sem háð er höfunum, ekki sízt tegundinni, sem efst trónir í fæðukeðjunni.  Fjölmargt annað mengar höfin, t.d. afrennsli ræktarlands, þar sem tilbúinn áburður og eiturefni eru notuð til að auka framleiðsluna.  Þetta hefur þegar valdið mörgum lífkerfum hafanna skaða.  

Þriðja ógnin við lífríki hafsins stafar af ofveiði.  Á tímabilinu 1974-2013 hefur þeim stofnum, sem ofveiddir eru, fjölgað gríðarlega, eða úr 10 % í 32 %, og þeim fer enn fjölgandi.  Að sama skapi hefur vannýttum tegundum fækkað úr 40 % í 10 % á sama tímabili.  Fullnýttir eru þá 58 % stofnanna.  

Ofveiði skapar ekki einvörðungu hættu á hruni fiskistofna og þar með minni afla, heldur er ofveiði fjárhagslega óhagkvæm.  Nú nemur heimsaflinn um 95 Mt/ár, en væru veiðar allra tegunda rétt undir sjálfbærnimörkum þeirra, þá mundi veiðin geta aukizt um 16,5 Mt/ár eða um 17 %, og tekjur af veiðinni mundu aukast um 32 miaUSD/ár.

Í brezka tímaritinu The Economist birtist þann 27. maí 2017 grein um ástand hafanna undir heitinu,

"All the fish in the sea".  

Þar stóð þetta m.a. um fiskveiðistjórnun:

"Með góðri stjórnun ætti fræðilega að vera hægt að stækka fiskistofnana með innleiðingu kvótakerfis tengdu eignarrétti ásamt öðrum takmörkunum á óheftri nýtingu.  Kvótar og svipuð stjórntæki hafa virkað vel sums staðar.  Á bandarísku hafsvæði voru 16 % nytjastofna ofveiddir árið 2015, og hafði ofveiddum stofnum fækkað úr 25 % árið 2000.  En það eru annmarkar á kerfinu.  Af því að útgerðirnar vilja koma með vænsta fiskinn í land, þá á sér stað brottkast minni eintaka, sem oft drepast í kjölfarið, og þar sem mismunandi tegundir eru hverjar innan um aðra, er meðafla fleygt fyrir borð, ef skipið er ekki með kvóta í þeirri tegund.

Þar að auki er ákvörðunartaka um kvótann oft með böggum hildar.  Stofnanir og stjórnmálamenn gefa oft of mikið eftir gagnvart valdamiklum hagsmunaaðilum í sjávarútvegi samkvæmt Rainer Fröse hjá Helmholtz hafrannsóknarstofnuninni í Kiel í Þýzkalandi.  Þrýstihópar, sem færa sér í nyt mikilvægi sjávarútvegs fyrir ákveðin byggðarlög, þrýsta á um skammtímaávinning í stað langtíma sjálfbærni.  "Þeir ná í eplin með því að saga trjágreinarnar af", segir herra Fröse." 

Hér er vakið máls á göllum, sem komið hafa í ljós eftir innleiðingu á kvótakerfi við fiskveiðar.  Brottkast smáfiskjar er hins vegar ekki dæmigert fyrir kvótakerfi.  Það tíðkast víða, þar sem lægra verð fæst fyrir slíkan.  Bezta ráðið gegn brottkasti er, að ótímabundið eignarhald á afnotarétti auðlindarinnar festi sig í sessi.  Þegar útgerðir og sjómenn taka að treysta á eignarhaldið, rennur upp fyrir þeim, að brottkast vinnur gegn langtíma hagsmunum þeirra. Þetta virðist hafa gerzt á Íslandi, því að brottkast smáfiskjar er talið hafa minnkað umtalsvert á þessari öld m.v. það, sem var.  

Lýsingin að ofan er af of stífu kvótakerfi.  Árangursríkt fiskveiðistjórnunarkerfi þarf að vera sveigjanlegt á milli tegunda, á milli ára, á milli skipa og á milli fyrirtækja og tegunda svo að nokkuð sé nefnt.  Sé svo, hverfur hvati til að kasta meðafla fyrir borð, sem enginn kvóti er fyrir, enda er slíkt brottkast bæði kostnaðarsamt og felur í sér sóun á auðlindinni. Þessi sveigjanleiki er fyrir hendi hérlendis, svo að umgengni íslenzkra sjómanna og útgerðarmanna um auðlindina er talin vera til fyrirmyndar á heimsvísu. 

Það, sem Rainer Fröse hjá hafrannsóknarstofnuninni í Kiel kvartar undan, er vel þekktur galli á fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins, ESB.  Bretar hafa fundið þetta á eigin skinni, því að fiskveiðiflotar ESB-landanna hafa aðgang að fiskveiðilögsögu Bretlands upp að 12 sjómílum, og brezk fiskimið eru ekki svipur hjá sjón eftir ofveiði þessa mikla flota.  

Árið 2019 munu Bretar losna úr viðjum ESB, öðlast fullveldi á ný og þar með ráða yfir allri fiskveiðilögsögu sinni.  Þar með mun framboð fiskmetis af brezkum skipum stóraukast á Bretlandi, sem mun minnka spurn eftir fiski frá Íslandi og e.t.v. lækka fiskverð á Bretlandi.  Þetta að viðbættu falli sterlingspundsins mun gera útflutning sjávarafurða til Bretlands óhagkvæmari héðan en áður.  Aftur á móti mun eftirspurnin að sama skapi aukast fyrst um sinn á meginlandi Evrópu.

Sjávarútvegsyfirvöld á Bretlandi eru farin að íhuga, hvers konar fiskveiðistjórnunarkerfi hentar Bretum bezt, og einn valkostanna er aflahlutdeildarkerfi að íslenzkri fyrirmynd.  Ef Bretar taka upp aflareglu í líkingu við þá íslenzku og fylgja henni stranglega eftir, þá mun þeim með tíð og tíma takast að reisa nytjastofna sína við, en þeir eru flestir illa farnir. Gangi þetta eftir, mun sjávarútvegur þeirra ekki aðeins verða rekinn með hagkvæmari hætti en nú og með minni niðurgreiðslum, heldur mun framboð fisks á brezkum fiskmörkuðum úr brezkri lögsögu aukast enn.

Fjárstuðningur við sjávarútveg úr ríkissjóðum er vandamál um allan heim.  Niðurgreiðslurnar stuðla að ofveiði nytjastofna bæði á úthafsmiðum og innan lögsögu ríkja, og þær skekkja samkeppnisstöðuna.  Hjá Alþjóða viðskiptamálastofnuninni, WTO, hyggjast menn leggja fram tillögur um nýjar reglur um opinberar niðurgreiðslur fiskveiða á ráðherrasamkomu í desember 2017.  Þær eru taldar nema 30 miaUSD/ár í heiminum og 70 % þeirra koma frá vel stæðum ríkjum, sem væntanlega halda útgerðum á floti af byggðalegum ástæðum.  Ísland, eitt örfárra ríkja, hefur ekki greitt niður sjávarútveg sinn frá innleiðingu aflahlutdeildarkerfisins.  Þvert á móti greiðir íslenzkur sjávarútvegur mjög há opinber gjöld, sem hafa numið um 30 % af framlegð í góðæri.  Veiðigjaldafyrirkomulagið á Íslandi er þeirrar náttúru, að það tekur tillit til afkomunnar með allt að þriggja ára töf, sem er alvarlegur galli.  

Umræðan um sjávarútveginn íslenzka er með röngum formerkjum.  Í stað þess að reyna að bæta rekstrarumhverfi hans og gera það sanngjarnara nú á tímum rekstrarerfiðleika vegna lágs fiskverðs í ISK, þá er rekinn áróður gegn honum með rangtúlkunum á lögum um stjórnun fiskveiða og því haldið blákalt fram, að honum beri og hann geti borgað enn meir til samfélagsins.  Þetta eru þó fullyrðingar greinilega viðhafðar að órannsökuðu máli.  Villtustu hugmyndirnar snúast jafnvel um að kollvarpa núverandi stjórnkerfi og taka upp bastarð, sem alls staðar hefur gefizt hroðalega, þar sem hann hefur verið reyndur og síðan fljótlega aflagður.  Þetta er hin meingallaða hugmynd um uppboð aflamarks eða hluta þess.  Sérfræðingar um auðlindastjórnun og uppboð segja þau ekki henta í greinum, sem þegar hafa vel virkandi stjórnkerfi reist á varanlegum og framseljanlegum afnotarétti.  Nær væri stjórnvöldum að hanna auðlindamat og samræmt og sanngjarnt auðlindagjald fyrir allar nýttar náttúruauðlindir utan einkaeigna.  Það á ekki að þurfa að vefjast fyrir stjórnvöldum.  Það hefur birzt sitthvað á prenti um þann efnivið, t.d. á þessu vefsetri.  

Þann 8. júni 2017 birtist fróðleg grein um fiskveiðistjórnun Íslendinga í Fréttablaðinu eftir Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðing SFS, sem bar heitið:

"Sjálfbær nýting íslenzka þorskstofnsins".  

Hún hófst þannig:

"Vel heppnuð endurreisn íslenzka þorskstofnsins er að mínu mati langmikilvægasti árangur á sviði sjálfbærni, sem náðst hefur í stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum.  

Þar sem sjávarútvegur er mikilvæg stoð efnahagslífs okkar, áttum við engan annan kost en að takast á við tvíþættan vanda ofveiði og óhagkvæmni af fullri alvöru. Þetta var gert með því að innleiða markvissa fiskveiðistjórnun með nauðsynlegri festu við ákvörðun leyfilegs heildarafla ásamt eftirfylgni með aflaskráningu og eftirliti.  Þannig var kerfi aflakvóta við stjórn fiskveiða komið á í áföngum á níunda áratugi síðustu aldar, og það síðan þróað í átt til virkari stjórnunar heildarafla og aukins sveigjanleika með framsali á tíunda áratuginum og síðar.  

Í kjölfar ráðgjafar frá árinu 1992 um alvarlega stöðu þorskstofnsins var dregið verulega úr veiðiálaginu.  Um miðjan tíunda áratuginn voru Íslendingar síðan á meðal leiðandi þjóða í þróun langtíma aflareglna í fiskveiðum.  Aflareglum er ætlað að tryggja, að veiðiálag sé hóflegt og nýtingin sjálfbær.  Mikilvægt markmið með minnkun veiðiálags á þorskinn var að gera stofninum mögulegt að stækka og ná fyrri stærð, en stór veiðistofn gerir veiðar hagkvæmari, og stór og fjölbreyttur hrygningarstofn er talinn hafa meiri möguleika á að geta af sér stærri nýliðunarárganga.

Árið 2007 var veiðihlutfall þorsks samkvæmt aflareglu lækkað úr 25 % í 20 % af viðmiðunarstofni fiska fjögurra ára og eldri."

Frá því að "Svarta skýrslan" kom út hjá Hafrannsóknarstofnun árið 1975 hefur ástand og þróun þorskstofnsins löngum verið áhyggjuefni hérlendis.  Þannig hafa Íslendingar horfzt í augu við hrörnun fiskistofna, eins og allir aðrirÁrið 1955 var viðmiðunarstofn þorsks um 2,4 Mt og hrygningarstofninn um 1,0 Mt.  Viðmiðunarstofninn hrapaði á 35 árum um 1,8 Mt (51 kt/ár) niður í lágmark um 0,6 Mt. Hrygningarstofninn hagaði sér dálítið öðruvísi.  Hann hrapaði úr um 1,0 Mt/ár árið 1955 og niður í varúðarmark, 0,15 Mt, árið 1980, en neðan varúðarmarks er þrautalendingin friðun stofnsins.  Hrygningarstofninn sveiflaðist síðan á milli aðgerðarmarks, 0,2 Mt og varúðarmarks um aldamótin, en með hinni nýju aflareflu frá árinu 2007 hefur hrygningarstofninn rétt úr kútnum og er nú kominn í um 0,5 Mt, og í kjölfarið hefur viðmiðunarstofninn stækkað upp í um 1,3 Mt, sem þá gefur aflamark í þorski 260 kt/ár, sem er nálægt ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar fyrir fiskveiðiárið 2017/2018.  Það eru auðvitað strax komnir fram á sjónarsviðið beturvitringar, sem fullyrða að veiða megi umtalsvert meira af þorski hér við land.  Brjóstvitið hefur mörgum reynzt notadrjúgt, þegar öðru var ekki til að dreifa, en það verður auðvitað að sýna fram á með rökum og tilvísunum í rannsóknir, að 20 % sé of lágt veiðihlutfall m.v. hámörkun afrakstrar til langs tíma.  Annars eru upphrópanir gegn Hafró broslegar í bezta falli.    

Á Íslandi var mikið í húfi, því að sjávarútvegur aflaði mests gjaldeyris allra atvinnuveganna, þegar þorskstofninn hrundi.  Hann hrundi vegna langvarandi ofveiði innlendra og erlendra togara, og við lok síðustu landhelgisdeilunnar 1976 voru með opinberri hvatningu og tilstyrk pöntuð yfir 100 öflug veiðiskip.  Þessa miklu sóknargetu stóðu landsmenn uppi með, þegar viðmiðunarstofninn hafði hrapað niður fyrir 1,0 Mt og hrygningarstofninn niður í varúðarmörk.

Neyðin kennir nakinni konu að spinna, og stjórnmálamönnum 9. áratugar 20. aldar tókst með aðstoð hæfra sérfræðinga að setja á laggirnar fiskveiðistjórnunarkerfi, sem leysti samtímis 2 meginviðfangsefni: að endurreisa þorskstofninn og nýta sjávarauðlindina með sjálfbærum hætti og að fénýta hana með arðbærum hætti.  Það er þó vert að gefa því gaum, að þorskstofninn er fjarri því að hafa endurheimt stærð sína frá miðjum 6. áratuginum, heldur er hann nælægt því, sem hann var á miðjum 7. áratugi 20. aldar.  Með 20 % aflareglunni gæti hann stefnt í hámark sitt, ef náttúruleg skilyrði fyrir hann hafa ekki versnað, sem hætt er við.  Með 25 % aflareglu gerði hann það ekki. 

"Á nýliðnum árum hafa stjórnvöld sett aflareglur um veiðar þriggja tegunda botnfiska - ýsu, ufsa og gullkarfa - til viðbótar við þorskinn.  Þessar veiðar hafa síðan fengið vottun eftir alþjóðlegum sjálfbærnikröfum samkvæmt fiskveiðistjórnunarstaðli Ábyrgra fiskveiða, sem gerir kröfu um formlega nýtingarstefnu (aflareglu) stjórnvalda, byggða á svokallaðri varúðarleið [varúðarleið er reikniaðferð fyrir viðmiðunarstofn, sem t.d. var beitt við ákvörðun aflamarks á loðnu í vetur - innsk. BJo].  Sömu veiðar, auk annarra, hafa einnig hlotið vottun samkvæmt MSC-staðli.

Ábyrg, sjálfbær og hagkvæm nýting fiskistofna er nauðsynleg undirstaða öflugs sjávarútvegs.  Mikilvægt er, að nýting fiskistofna á Íslandsmiðum byggi ávallt á þessum grunni."

Ljóst er, að íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið nýtur virðingar og trausts erlendis, bæði á vettvangi fræðimanna á sviði sjávarlíffræði/sjávarútvegs og á markaði sjávarafurða. Að hækka aflaregluna núna gæti stefnt þessari viðurkenningu í tvísýnu. Það skýtur mjög skökku við, að hjáróma raddir innanlands skuli enn heyrast um að bylta þessu kerfi eða að auka opinbera gjaldtöku af útveginum.  Til þess standa engin haldbær rök, hvorki sanngirnis- né efnahagsleg rök. 

Að auka auðlindargjaldið enn frekar er einhvers konar lýðskrum af ómerkilegasta tagi, sem er bæði efnahagslegt og byggðalegt óráð.  Nær væri að finna sameiginlegan grundvöll fyrir verðmætamat á öllum nýttum náttúruauðlindum, sem ekki eru í einkaeign, og taka hóflegt (innan við 5 % af framlegð og ekkert, fari hún undir 20 %) auðlindargjald af þeim öllum.  Núverandi ráðherra sjávarútvegsmála virðist því miður vera stödd á algerum villigötum (eða hafvillu), hvað þetta varðar.   

 

 

   

 

 

 

 

 


Bretland byrjar illa

Forsætisráðherra Breta, Theresa May, tók þarflitla ákvörðun í apríl um þingkosningar 8. júní 2017 , þótt kjörtímabilið þyrfti ekki að enda fyrr en 2020, þ.e. að afloknum skilnaði Bretlands við Evrópusambandið, ESB.  Virtist hún þá treysta því, að mælingar í skoðanakönnun héldust og skiluðu sér í kjörkassana 7 vikum síðar.  Það er af, sem áður var, að brezki forsætisráðherrann geti tekið andstæðinginn í bólinu og boðað til kosninga með þriggja vikna fyrirvara.  Þessi mismunur á lengd kosningabaráttu reyndist Theresu May afdrifaríkur, og fyrsti ráðherra Skotlands og flokkur hennar beið reyndar afhroð.  Þar með er búinn draumur Nicola Sturgeon um nýtt þjóðaratkvæði um aðskilnað Skotlands frá Englandi, Wales og Norður-Írlandi.

May hafði við valdatöku sína haustið 2016 að afloknu formannskjöri í brezka Íhaldsflokkinum í kjölfar BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar í júní sagt, að næstu þingkosningar yrðu 2020.  Íhaldsflokkurinn hafði 5 sæta meirihluta á þingi, og hún hefur væntanlega verið spurð að því í heimsókn sinni til Berlínar og víðar í vetur, hvort hún gæti tryggt samþykki þingsins á útgöngusamningi með svo tæpan meirihluta, enda voru það meginrök hennar fyrir ákvörðun um flýtingu kosninga, að "Westminster" væri regandi, en þjóðin ákveðin í að fara úr ESB.  Hún vildi "hard Brexit", sem þýðir alskilnað við stofnanir ESB og ekki aðild að Innri markaðinum um EFTA og EES, heldur skyldi Bretland gera tvíhliða viðskiptasamning við ESB og öll ríki, sem gæfu kost á slíku.  Bretland yrði ekki innan "Festung Europa" - varnarvirkis Evrópu, sem er þýzkt hugtak úr Heimsstyrjöldinni síðari.

Theresa May hafði sem ráðherra hjá Cameron stutt veru Bretlands í ESB.  Þegar úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðildina urðu ljós, sneri hún við blaðinu og tók upp harða afstöðu gegn ESB og fór fram undir þeim merkjum í formannskjörinu.  Kosningaklækir áttu líklega þar þátt, því að öllum var ljóst, að dagar brezka Sjálfstæðisflokksins, UKIP, voru taldir, um leið og Bretland tók stefnuna út úr ESB.  Hún ætlaði að hremma atkvæðin, en krókur kom á móti bragði frá "gamla kommanum" Corbyn.  Hann sneri við stefnu Verkamannaflokksins um, að Bretar skyldu halda áfram í ESB, og studdi úrsögnina á þinginu og í kosningabaráttunni.  Við þetta gátu stuðningsmenn UKIP, sem flestir komu reyndar frá Verkamannaflokkinum, snúið aftur til föðurhúsanna.  

Það var einmitt þetta, sem gerðist, því að flest kjördæmin, þar sem mjótt var á munum á milli stóru flokkanna tveggja, féllu Verkamannaflokkinum í skaut, Íhaldsmönnum til furðu og sárra vonbrigða.  Þannig varð Verkamannaflokkur Jeremy Corbyns sigurvegari kosninganna með um 40 % atkvæða, jók fylgi sitt um ein 10 % og þingmannafjölda um 33 eða rúmlega 14 %.  Kosningarnar reistu formann Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, úr öskustó, pólitískt séð, og það verður ómögulegt fyrir Theresu May að kveða hann í kútinn.  Hann er einfaldlega meiri baráttumaður en hún og naut sín vel í kosningabaráttunni, en hún gerði hver mistökin á fætur öðrum.  Theresa May særðist til stjórnmálalegs ólífis í þessari kosningabaráttu, ástæða er til að draga dómgreind hennar í efa, hún er lélegur leiðtogi í kosningabaráttu og hvorki sterk né stöðug, eins og hún hamraði þó stöðugt á.  

Íhaldsflokkurinn fékk þó meira fylgi kjósenda en hann hefur fengið í háa herrans tíð eða 42,4 %, sem er fylgisaukning um rúmlega 5 % frá síðustu þingkosningum.  Þrátt fyrir það mun Theresa May að líkindum verða sett af innan tíðar, því að hún lét kosningarnar snúast um sig að miklu leyti, tapaði 12 þingmönnum og glutraði niður 5 sæta þingmeirihluta.  Hún þykir ekki á vetur setjandi sem leiðtogi, og menn vilja alls ekki fara í nýjar þingkosningar undir forystu hennar.  Það þykja vera alvarlegar eyður í þekkingu hennar, t.d. um efnahagsmál, og hún hefur ekki haft lag á að fylla í eyður verðleikanna með réttu vali á ráðgjöfum, heldur setur hún í kringum sig fámennan hóp ráðgjafa, sem er með sömu annmarkana og hún sjálf.  Nú hefur hún fórnað tveimur aðalráðgjöfunum, en það mun hrökkva skammt.  Líklegt er, að minnihlutastjórn hennar verði skammlíf og að boðað verði til kosninga aftur síðar á þessu ári.  Þá verður einhver annar í brúnni hjá Íhaldsflokkinum, en það er óvíst, að það dugi.  Vindar blása nú með Verkamannaflokkinum, sem fer að láta sníða rauð gluggatjöld fyrir Downing stræti 10.  Yngstu kjósendurnir eru Corbyn hlynntir, eins og hinum hálfáttræða Sanders í BNA, og þeir hafa aftur fengið nægan áhuga á pólitík til að fara á kjörstað.  

"It is the economy, stupid", var einu sinni sagt sem svar við spurningunni um, hvað réði helzt gjörðum kjósenda í kjörklefanum.  Í því ljósi var ekki óeðlilegt, að Verkamannaflokkurinn ynni sigur, því að hagur Breta hefur versnað mikið frá fjármálakreppunni 2007-2008 og kaupmáttur hjá mörgum lækkað um 10 % að raunvirði síðan þá vegna lítilla nafnlaunahækkana, verðlagshækkana og mikils gengisfalls sterlingspundsins.  Að flýta kosningum að þarflitlu við slíkar aðstæður ber vott um lélegt jarðsamband.  

Núverandi staða á Bretlandi er hörmuleg m.t.t. þess, að brezka ríkisstjórnin þarf á næstu dögum að hefja mjög erfiðar viðræður við meginlandsríkin undir hjálmi ESB um útgöngu úr þeim félagsskapi. Samninganefnd ESB sezt þá niður með Bretum, sem vinna fyrir ríkisstjórn flokks, sem tapaði meirihluta sínum í nýafstöðnum kosningum.  Theresu May mistókst að styrkja stöðu sína og er nú augljóslega veikur leiðtogi, sem ekki getur tryggt samþykki þingsins á útgöngusamningi sínum.  Staða brezku samninganefndarinnar er veikari fyrir vikið, og af þessum ástæðum verður May að taka pokann sinn og hreint umboð að koma frá þjóðinni nýrri ríkisstjórn til handa. 

Liggur við, að þörf sé á þjóðstjórn nú í London til að styrkja stöðuna út á við.  Þessar viðræður verða stríð að nútímahætti, enda tekizt á um framtíðarskipan Evrópu, sem hæglega geta endað án nokkurs samnings.  Nú er ekki lengur sterkur foringi í stafni hjá Bretum, eins og 1939, þegar staðfastur dagdrykkjumaður (að mati púrítana) og stórreykingamaður var settur í stafn þjóðarskútunnar, sem á tímabili ein atti kappi við meginlandsríkin, sem þá lutu forræði grænmetisætunnar og bindindismannsins  alræmda í Berlín.  Bretar unnu sigur í þeim hildarleik.  Þessi lota getur orðið lengri en lota misheppnaða málarans frá Linz. Sennilega munu Bretar einnig hafa betur í þessari viðureign, þegar upp verður staðið, þó að það muni ekki koma strax í ljós.  

 

 


Leikrit við frumskipun Landsréttar

Það er vandaverk að búa til kerfi fyrir skipun lögfræðinga í dómaraembætti, sem tryggi kjörsamsetningu dómarahóps, hvort sem dómararnir eiga að starfa í Héraðsdómi, Landsrétti eða Hæstarétti, og það þarf að vanda mjög val á einstaklingum í öll dómaraembætti.  Þar þarf að vera valinn maður í hverju rúmi. Líklega er bezt, að sama fyrirkomulag ríki á valinu fyrir öll 3 dómsstigin. Núverandi fyrirkomulag þarfnast endurskoðunar að mati dómsmálaráðherra og margra annarra.   

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, ritaði fróðlega grein í Morgunblaðið sunnudaginn 4. júní 2017, "Hlutverk Alþingis": 

 "Fyrirkomulag við skipan dómara hefur verið með ýmsum hætti fram til þessa og mismunandi eftir því, hvort við á Hæstarétt eða héraðsdómstól. Dómsmálaráðherra skipaði áður fyrr hæstaréttardómara eftir umsögn Hæstaréttar, en 3 manna dómnefnd fjallaði um umsækjendur héraðsdóma áður en ráðherra tók ákvörðun um skipun.  

Árið 2010 var sett á laggirnar 5 manna dómnefnd, sem hefur síðan fjallað um umsækjendur um bæði stöður héraðsdómara og hæstaréttardómara.  Um leið var vægi nefndarinnar aukið þannig, að ráðherra hefur verið bundinn við niðurstöðu hennar.  Þó er það ekki fortakslaust,  því að sérstaklega er kveðið á um, að ráðherra geti vikið frá mati nefndarinnar, en þá verður hann að bera það undir Alþingi.  

Í greinargerð með frumvarpi með þessari breytingu er sérstaklega áréttað, að veitingavaldið sé hjá ráðherra.  Það sé enda eðlilegt, að valdið liggi hjá stjórnvaldi, sem ber ábyrgð á gerðum sínum gagnvart þinginu [undirstr. BJo].

Með lögum um Landsrétt var svo kveðið á um, að við skipun dómara í fyrsta sinn yrði ráðherra að bera tillögu sína upp við Alþingi, hvort sem ráðherra gerði tillögu um að skipa dómara alfarið í samræmi við niðurstöðu dómnefndar eða ekki."

Á grundvelli þessa skýtur skökku við, að nokkur skuli draga í efa vald ráðherra til að hvika frá tillögu dómnefndar um 15 fyrstu dómendur í nýstofnuðum Landsrétti,  úr hópi 37 umsækjenda, og það vitnar beinlínis um dómgreindarleysi að saka ráðherrann um valdníðslu í ljósi þess, að mikill meirihluti fulltrúa landsmanna á Alþingi staðfestu gjörning ráðherrans.  Löggjafarsamkoman hafði búið svo um hnútana, að hún hefði lokaorðið um þessa frumskipun, væntanlega til að geta tekið í taumana, ef henni þætti tillögugerð ótæk.

Á Alþingi þótti mönnum 15 manna hópur dómnefndar einmitt vera  ótækur í þessu tilviki, og þá átti ráðherra ekki annarra kosta völ en að breyta þessum 15 manna hópi.  Þetta og fleira gerir málshöfðun á hendur ráðherra út af veitingunni alveg út í hött, og hún er aðeins til vitnis um öfgafull tapsárindi, sem bera viðkomandi lögmanni, lögskýringum hans og persónueinkennum, slæmt vitni.

"Ráðherra varð strax ljóst, eftir viðræður við forystumenn flokkanna, að niðurstaða dómnefndar um skipan dómara við Landsrétt myndi ekki hljóta brautargengi á Alþingi.  Rökstuðningur ráðherra hefði þar engu breytt.  Sjálfum fannst ráðherra niðurstaða nefndarinnar of einstrengingsleg.  

Að virtum öllum sjónarmiðum, sem máli skipta, gerði ráðherra tillögu til Alþingis um tiltekna 15 einstaklinga úr hópi þeirra 24, sem hann hafði metið hæfasta.  Virtist mikil og góð sátt um tillögu ráðherra í upphafi.  Það breyttist, hvað stjórnarandstöðuflokkana varðaði."

Það má geta nærri, að leikritið, sem þá fór í gang á Alþingi og í fjölmiðlum, hafi verið að undirlagi einhvers tapsárs, sem ekki ber meiri virðingu fyrir Alþingi, löggjafarsamkomunni, en svo, að hann telur við hæfi að efna til æsingarkenndrar umræðu um alvarlegt og mikilvægt mál.  Ekki bætti úr skák, að skýrslu dómnefndar, eða kjarna hennar, var lekið í fjölmiðla, sem er algerlega óviðunandi fyrir alla, sem hlut eiga að máli.  Verður sá leki rannsakaður ?

Eftir þessa atburðarás er óhjákvæmilegt að taka skipun dómara til endurskoðunar. Það er engin ástæða til að hafa mismunandi fyrirkomulag fyrir dómstigin 3, heldur er kostur við að hafa samræmt vinnulag fyrir þau öll.  Sama dómnefndin getur séð um matið á dómaraefnum fyrir öll dómstigin þrjú, en það þarf að standa öðruvísi að vali dómnefndar, og hún verður að fá nákvæmari forskrift frá Alþingi en núverandi dómnefnd fékk, svo að hún hlaupi ekki út um víðan völl.  

Það má hugsa sér, að Alþingi kjósi 4 nefndarmenn, stjórnarliðar 2 og stjórnarandstaða 2, og sé einn af hvoru kyni í hvorum hópi.  Hæstiréttur tilnefni þann 5., sem verði formaður.  

Verkefni dómnefndar verði að flokka hæfa umsækjendur frá óhæfum og gefa þeim hæfu einkunn eftir hæfni á hverju sviði, t.d. á sviðum fræðimennsku, dómstólastarfa, lögmennsku, stjórnsýslu, en sleppa því að vigta saman þessi hæfnissvið.  Einkunnir séu í heilum tölum frá 0-10. Nákvæmni núverandi dómnefndar með aðaleinkunn með tveimur aukastöfum er alveg út í hött.  Matsnákvæmnin leyfir ekki slíkt, nema umsækjendur séu látnir þreyta próf.  

Það á ekki að vera hlutverk dómnefndar að vega hin ólíku hæfnissvið saman í eina einkunn, enda er óljóst, hvernig dómnefnd Landsréttarumsækjenda ákvarðaði mismunandi vægi færnisviðanna, heldur á það að vera verkefni þess, sem með veitingarvaldið fer, dómsmálaráðherrans.  Hann verður við þá vigtun að vega og meta á hvaða sviðum viðkomandi dómstóll þarf helzt styrkingar við í hvert sinn, og ákvarða vægistuðlana út frá því.   Það var einmitt það, sem Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra gerði, þegar hún vék frá þröngri og hæpinni raðaðri tillögu dómnefndarinnar með því að styrkja hópinn með þekkingu og reynslu af dómstólastörfum.  Það var fullkomlega málefnalegt sjónarmið. 

Haukur Örn Birgisson, hæstaréttarlögmaður, ritaði á Sjónarhóli Morgunblaðsins 1. júní 2017 greinina

"Hæfir dómarar".  Þar sagði m.a.:

"Ég hef áður gagnrýnt það á þessum vettvangi, að val á dómurum sé sett í hendurnar á hæfnisnefndum, sem ekki njóta lýðræðislegs umboðs og bera ekki stjórnskipulega ábyrgð á skipununum.  Á meðan ráðherra er í lögum falið að skipa dómara og bera ábyrgð á slíkum ákvörðunum, pólitískt og stjórnskipulega, er eðlilegt, að hann leggi sjálfstætt mat á þá, sem skipaðir eru.  Með núverandi fyrirkomulagi virðist valnefnd geta stillt ráðherra upp við vegg með því að veita ráðherra ekkert svigrúm við skipunina, líkt og gert var í þessu tilviki."

Valnefndin stillti ekki aðeins dómsmálaráðherra upp við vegg, heldur hinu háa Alþingi líka, með því að búa sér til innri vog á mikilvægi hvers frammistöðuþáttar.  Upp á þessu tók dómnefndin án nokkurrar forskriftar um það, og það er vafasamt, að hún hafi haft heimild til slíkrar ráðstöfunar.

Haukur Örn skrifar t.d., að reynsla umsækjenda af stjórnun þinghalda og samningu dóma hafi ekki fengið neitt vægi hjá dómnefndinni.  Það sýnir, að störf dómnefndarinnar eru gölluð og að nauðsynlegt er að njörva verklagsreglu dómnefndar niður með lögum eða reglugerð.  Með gagnrýniverðri einkunnagjöf batt dómnefndin hendur ráðherra og Alþingis, en ráðherra leysti greiðlega úr því, enda stóðu engin rök til þess, að einvörðungu 15 væru hæfir til embættanna.  Það voru röng skilaboð til umsækjenda og annarra, sem hug hafa á þessum málum.

"Sitt sýnist auðvitað hverjum um listann, og eðlilega eru þeir, sem duttu út af listanum, óánægðir.  Einn aðili, Ástráður Haraldsson, lögmaður, einn umsækjendanna, sem duttu út af lista ráðherra, var snöggur til og hljóp fram með nokkrum gífuryrðum strax og fréttist af tillögu ráðherra.  Sendi hann opið bréf á forseta Alþingis, þar sem fullyrt var, að ráðherra hefði gerzt lögbrjótur með athæfi sínu og að þingheimur mætti ekki leggja blessun sína við slík lögbrot.  Taldi hann það t.d. ekki standast lög, að ráðherra ætlaði sér að leggja fram 15 einstaklinga í einum "pakka", auk þess sem verulega hefði vantað upp á rökstuðning ráðherra fyrir tillögunni.

Hvað fyrra atriðið varðar, er augljóst mál, að umsækjandinn lagði ekki á sig að kynna sér tillögu ráðherrans áður en hann lýsti yfir lögbroti hennar.  Enda virðist það aldrei hafa staðið til hjá ráðherranum að óska eftir því við þingmenn, að þeir samþykktu allar 15 tilnefningarnar í einu, heldur ávallt gengið út frá því, að kosið yrði um hvern og einn umsækjanda. 

Hið sama má segja um seinna umkvörtunarefnið.  Ráðherra fylgdi tillögu sinni eftir með útskýringum og rökstuðningi, sem hann hefur nú látið þingmönnum í té.  Svo virðist sem bréf umsækjandans hafi því falið í sér frumhlaup, sett fram í þeim tilgangi að hræða þingmenn í átt að sérstakri niðurstöðu."

Það er einsdæmi hérlendis, að umsækjandi um dómarastöðu eða aðra opinbera stöðu hlaupi opinberlega svo hrapallega á sig "í ráðningarferlinu" sem Ástráður Haraldsson í þessu máli.  Það er skrýtið, að slíkur gallagripur skuli lenda í hópi 15 efstu hjá dómnefndinni.  Öll málafylgja og gífuryrði téðs Ástráðs í þessu máli sýna almenningi svart á hvítu, að hann átti ekkert erindi í Landsrétt.  

Það er stormur í vatnsglasi að ásaka ráðherra um lögbrot fyrir að leggja tillögu sína fram sem heild, en ekki í 15 liðum.  Ákvörðun um þetta var tekin af yfirstjórn þingsins, og þingið samþykkti þetta form, enda alvanalegt þar.  Allir vissu, að hver þingmaður gat gert þá grein fyrir atkvæði sínu, að undanskilja einhverja frá samþykki sínu. Þingmönnum var ennfremur í lófa lagið að fara fram á atkvæðagreiðslu um hvern og einn, og samkvæmt þingsköpum hefði slík beiðni verið samþykkt.  Hér var um hreint framkvæmdaatriði að ræða, sem fráleitt er að kalla lögbrot.  Þá væru fjölmargar atkvæðagreiðslur á þingi um nokkra liði í einu lögbrot. Þetta upphlaup Ástráðs missti þess vegna algerlega marks og ber einvörðungu vott um mjög óvönduð vinnubrögð, sem allir dómarar í landinu verða að vera hátt hafnir yfir.   

 

 

 

 

 

 

 


Einstaklingurinn gagnvart ríkisvaldinu

Stjórnmálaafstaða okkar mótast af grundvallarviðhorfum um hlutverk og hlutverkaskiptingu einstaklinga og hins opinbera í þjóðfélaginu. Þeir, sem vilja frelsi einstaklingsins til athafna eins mikið og kostur er, þeir vilja jafnframt virða eignarréttinn í hvívetna, og þar með réttinn til að ráðstafa eigin aflafé, að því gefnu, að hann stangist ekki á við almannahag og að yfirvöld gæti laga, jafnræðis og meðalhófs, við skattheimtu.  Af þessu leiðir, að skattheimtu ber að stilla í hóf, svo að jaðarskattur tekna dragi hvorki úr hvata til verðmætasköpunar sé hvetji til undanskota; sé t.d. undir þriðjungi og af fjármagni helmingi lægri til að efla sparnað (og auðvitað sé hann ekki reiknaður af verðbótum).  Einkaframtaksmenn eru jafnframt hliðhollir hvers konar einkaeign, t.d. á húsnæði og bílum, og telja fasteign undirstöðu fjárhagslegs öryggis í ellinni.    

Sósíalistar eða jafnaðarmenn eru á öndverðum meiði á öllum þessum sviðum.  Þeir vilja mjög umsvifamikið ríkisvald og hika ekki við að hvetja til og verja einokunaraðstöðu þess með kjafti og klóm. Einkaeignarréttur er sósíalistum lítils virði, og þetta hafa þeir opinberað hérlendis t.d. með því að segja og skrifa, að hið opinbera, ríki eða sveitarfélag, sé að afsala sér tekjum með því að draga úr skattheimtunni. Þannig geta aðeins þeir tekið til orða, sem líta á vinnulaun, vaxtatekjur, fasteign eða gjaldstofn fyrirtækja, sem eign hins opinbera áður en skipt er, sem sjálfsagt sé að hremma eins stóran skerf af og hugmyndaflug jafnaðarmannanna um útgjöld útheimtir.  Þar með er litið á einstaklinginn sem tannhjól í vélbúnaði hins opinbera.  Þar sem slík sjónarmið ná fótfestu, er stutt í stjórnkerfi kúgunar í anda skáldsögunnar 1984 eftir George Orwell.

Í stað þess að líta á skattkerfið sem fjármögnunarkerfi fyrir lágmarks sameiginlegar þarfir samfélagsins að teknu tilliti til jafns réttar allra til heilbrigðis og menntunar, þá lítur sósíalistinn á skattkerfið sem refsivönd á þá, sem meira bera úr býtum, langoftast með því að leggja meira á sig en aðrir í námi og/eða í starfi, af því að ójöfn öflun fjár sé óréttlát.  Þannig geta aðeins grillupúkar hugsað, en með slíkar grillur að vopni hefur verið gengið mjög langt á eignarréttinn.   

Mismunurinn á hugarfari hægri manna og vinstri manna á Alþingi kom auðvitað berlega fram í afstöðunni til 5-ára Fjármálaáætlunar ríkisins 2018-2022.  Óli Björn Kárason, Alþingismaður, ÓBK, gerði áformaða aukningu ríkisútgjalda samkvæmt áætluninni og samkvæmt viðbótar útgjaldatillögum vinstri manna, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, að umræðuefni í Morgunblaðsgreininni, 31. maí 2017,

"Kennedy, Reagan og íslenskir vinstrimenn":

"Að minnsta kosti tveir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna hefðu átt erfitt með að skilja hugmyndafræði íslenzkra vinstri manna og stefnu þeirra í skattamálum og harða samkeppni [um yfirboð-innsk. BJo]; John F. Kennedy og Ronald Reagan. 

Reagan hélt því [réttilega] fram, að því hærri sem skattarnir væru, þeim mun minni hvata hefði fólk til að vinna og afla sér aukinna tekna [t.d. með því að afla sér meiri menntunar].  Lægri skattar gæfu almenningi tækifæri til aukinnar neyzlu og meiri sparnaðar, hvatinn til að leggja meira á sig og afla tekna yrði eldsneyti hagkerfisins.  "Niðurstaðan", sagði Reagan, "er meiri hagsæld fyrir alla og auknar tekjur fyrir ríkissjóð.""

Þetta er mergurinn málsins.  Þegar skattheimta er í hæstu hæðum, eins og nú á Íslandi, í sögulegum og í alþjóðlegum samanburði, þá er alveg áreiðanlegt, að við skattalækkun stækkar skattstofninn, og hann skreppur saman við skattahækkun m.v. óbreytta skattheimtu.  Þess vegna getur lægri skattheimta þýtt auknar skatttekjur fyrir ríkissjóð, eins og Reagan sagði.  Þetta eru ekki lengur tilgátur hagfræðinga og stjórnmálamanna.  Þetta er raunveruleiki, eins og reynslan sýnir.  Vinstri mönnum eru hins vegar allar bjargir bannaðar.  Þeir átta sig hugsanlega á þessari leið til að auka opinberar tekjur, en þeir hafna henni samt, því að í þeirra huga er refsihlutverk skattkerfisins mikilvægara.

Tilvitnun ÓBK í JFK hér að neðan á greinilega við stöðu ríkisfjármála á Íslandi nú um stundir:

"Á blaðamannafundi í nóvember 1960 sagði Kennedy [þá nýkjörinn forseti BNA]:

"Það er mótsagnakenndur sannleikur, að skattar eru of háir og skatttekjur of lágar og að til lengri tíma litið er lækkun skatta bezta leiðin til að auka tekjurnar."

Kennedy lagði áherzlu á, að lækkun skatta yrði til þess að auka ráðstöfunarfé heimilanna og hagnað fyrirtækja og þar með kæmist jafnvægi á ríkisfjármálin með hækkandi skatttekjum.  Á fundi félags hagfræðinga í New York árið 1962 sagði forsetinn m.a.:

"Efnahagskerfi, sem er þrúgað af háum sköttum, mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, alveg eins og það mun aldrei búa til nægilegan hagvöxt eða nægilega mörg störf.""

Það, sem JFK sagði þarna um ofurháa skattheimtu, voru ekki orðin tóm, heldur hafa margsannazt bæði fyrr og síðar.  Á Íslandi er nú há skattheimta, því að hún er enn á meðal þess hæsta, sem þekkist á meðal þróaðra þjóða Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.  Verði hún hækkuð umtalsvert, breytist hún umsvifalaust í ofurskattheimtu með þeim afleiðingum, að skattstofninn rýrnar og halli verður á rekstri ríkissjóðs, hagvöxtur koðnar niður og atvinnuleysi heldur innreið sína á ný.  Skattahækkunarleið vinstri flokkanna leiðir þess vegna beint út í ófæruna.  Þegar halla mun undan fæti eftir núverandi mikla hagvaxtarskeið, ætti að lækka skattheimtuna til að örva hagvöxt, og má nefna tryggingagjaldið fyrst. 

Í nýsamþykktri Fjármálaáætlun ríkisins 2018-2022 er ekki reiknað með aukinni skattheimtu, heldur lækkun tryggingagjalds á síðari hluta skeiðsins og lækkun virðisaukaskatts eftir samræmingu VSK á atvinnugreinar, en samt eiga tekjur ríkisins að verða miaISK 185 hærri árið 2022 en árið 2017 í lágri verðbólgu. Af þessari hækkun ríkistekna koma 57 % frá sköttum af vörum og þjónustu og 41 % frá tekjusköttum.  Þessi fjórðungshækkun skatttekna á 5 árum á einvörðungu að koma frá stækkuðum og breikkuðum skattstofnum, þ.e. tekjuáætlunin er reist á öflugum hagvexti allt tímabilið.  Síðan er útgjaldaramminn sniðinn við þetta og miðað við 1,3 % tekjuafgang á ári.  Ef meðalhagvöxtur á ári verður undir 3,5 %, þá verður halli á ríkisrekstrinum m.v. þessa áætlun.  Boginn er þannig spenntur til hins ýtrasta, og það vantar borð fyrir báru.  Í góðæri ætti tekjuafgangur ríkisins að vera yfir 3 % af tekjum til að draga úr þenslu og til að draga úr þörf á niðurskurði, þegar tekjur minnka. 

Vinstri flokkarnir vilja samt meiri hækkun tekna, sem óhjákvæmilega þýðir þá skattahækkanir, þótt þeir hafi ekki útfært þær.  Þannig vill Samfylkingin miaISK 236 hækkun skatttekna árið 2022.  Mismunur hækkana er miaISK miaISK 51, sem þýðir skattahækkun 0,6 MISK/ár á hverja fjagra manna fjölskyldu.  

Hugmyndir Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um skattahækkanir keyra þó um þverbak.  Formaður VG hefur verið nefnd "litla stúlkan með eldspýturnar"; ekki af því að hún þurfi að selja eldspýtur á götum úti loppin af kulda, eins og í ævintýri H.C. Andersens, heldur af því að umgengni hennar við ríkisfjármálin þykir minna á brennuvarg, sem hótar að bera eld að opnum benzíntunnum.  Þannig mundi efnahagskerfi Íslands kveikja á afturbrennaranum um stund eftir valdatöku "litlu stúlkunnar með eldspýturnar", og síðan stæði hér allt í björtu verðbólgubáli, sem fljótt mundi leiða af sér stöðnun hagkerfisins, skuldasöfnun, vinnudeilur og atvinnuleysi.  

"Litla stúlkan með eldspýturnar" vildi, að í Fjármálaáætlun yrði gert ráð fyrir miaISK 334 hærri skatttekjum árið 2022 en árið 2017.  Mismunur þessa og samþykktrar Fjármálaáætlunar er 149 miaISK/ár, sem þá nemur skattahækkun vinstri grænna.  Hún jafngildir aukinni skattbyrði hverrar 4 manna fjölskyldu um 1,75 MISK/ár.  Með þessu mundu vinstri grænir vafalítið senda Ísland á skattheimtutopp OECD ríkja, sem mundi eyðileggja samkeppnisstöðu Íslands um fólk og fjármagn.  Launþegahreyfingarnar mundu gera háar launahækkunarkröfur í tilraun til að endurheimta kaupmátt launa, sem nú er einn sá hæsti innan OECD, og allt mundi þetta leggjast á eitt um að senda hagkerfi landsins niður þann óheillaspíral, sem lýst er hér að ofan sem afleiðingu ofurskattlagningar.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, japlar á því bæði sýknt og heilagt, að með úrslitum síðustu Alþingiskosninga hafi kjósendur verið að biðja um aukna samneyzlu, og þess vegna sé sjálfsagt að gefa nú hraustlega í ríkisútgjöldin.  Þetta er fullkomin fjarstæða hjá "litlu stúlkunni með eldspýturnar", enda mundu aukin ríkisútgjöld í þegar þöndu hagkerfi losa skrattann úr böndum með hræðilegum afleiðingum fyrir kaupmátt og skuldastöðu almennings. Ef þetta væri rétt hjá Katrínu, þá hefðu vinstri flokkarnir auðvitað aukið fylgi sitt hraustlega, en það lá hins vegar við, að annar þeirra þurrkaðist út.  Almenningur skilur þetta efnahagslega samhengi ósköp vel, en "litla stúlkan með eldspýturnar" kærir sig kollótta, því að flokkur hennar nærist á óstöðugleika, þjóðfélagsóróa og almennri óánægju.  

Það, sem þarf að gera við núverandi aðstæður, er að leggja áherzlu á aukna skilvirkni ríkisrekstrar og bætta nýtingu fjármagns, sem ríkissjóður hefur úr að moða.  Tækifæri til þess eru vannýtt.  Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, SA, ritaði grein í Viðskiptablaðið 4. maí 2017, þar sem hann tíundaði útgjaldaaukningu ríkissjóðs til heilbrigðismála 2010-2015, sem nam þriðjungi, 33 %, á verðlagi 2015, þ.e. útgjöldin 2015 voru miaISK 39,3 hærri en árið 2010.  Svipuð aukning er ráðgerð í Fjármálaáætlun 2018-2022.  Landsspítalanum þykir samt ekki nóg að gert, þótt til reiðu sé fjárfestingarfé upp á miaISK 50 og sé þarna fyrir utan.  Þá er lausnin ekki að ausa í spítalann meira fé, heldur að virkja einkarekstrarformið til að stytta biðlistana og að slást í hóp hinna Norðurlandanna við útboð, t.d. á lyfjum.  Þar þarf atbeina Alþingis við að brjóta á bak aftur hagsmunapotara.  Halldór Benjamín skrifar:

"Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hefur aðeins verið nýttur að takmörkuðu leyti á Íslandi.  Fjölmörg dæmi er þó að finna um jákvætt framlag einkarekinna íslenzkra heilbrigðisfyrirtækja, sem hafa sýnt fram á, að þau geta veitt jafngóða eða betri þjónustu en hið opinbera með hagkvæmari rekstri fyrir þjóðfélagið."

Heilbrigðisgeirinn, meðferð og umönnun sjúklinga, er stærsti einstaki kostnaðarþáttur ríkissjóðs og virðist vera botnlaus hít. Þar eru þess vegna fjölmörg sparnaðartækifæri fyrir ríkissjóð, þar sem er nauðsynlegt að fá meira fyrir minna, og það er vel hægt, eins og dæmin sanna. 

Þá bregður hins vegar svo við, að forysta Landsspítalans ásamt Landlækni rekur upp angistarvein sem stunginn grís væri og dengir yfir landslýð, að með auknum einkarekstri til að stytta allt of langa biðlista sjúklinga verði spónn dreginn úr aski háskólasjúkrahússins. Þetta er með ólíkindum.  

Það er öfugsnúið að halda því fram, að með því að létta á yfirlestuðu sjúkrahúsi, þar sem yfirvinnustundir nema 15 % af venjulegum vinnutíma, muni það skaðast, þegar þjónustan er bætt við langhrjáða sjúklinga á biðlista.  Jafn réttur sjúklinga er orðinn að réttleysi til lækninga, þegar á þarf að halda. Fullyrðing forystunnar er svo mótsagnakennd, að óþarft er fyrir fulltrúa fólksins að taka mark á henni, enda virðast ríkjandi hagsmunir á sjúkrahúsinu ekki hér að öllu leyti fara saman við almannahagsmuni.   

"Hugmyndafræðileg afstaða á ekki að koma í veg fyrir, að gerðir verði samningar við einkareknar heilbrigðisstofnanir, sem geta stytt biðlista eftir aðgerðum.  Mun betur mætti gera, ef krafa um hagkvæmni og árangur væri höfð að leiðarljósi og ríkjandi stefna um einokun opinberrar heilbrigðisþjónustu yrði endurskoðuð.  

Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu byggist á því, að ríkið greiði sömu framlög til einkaaðila til að framkvæma sömu aðgerðir af jafnmiklum eða meiri gæðum.  Það er ekki einkavæðing, heldur stefna um að bæta nýtingu skattfjár og auka þjónustu og að bæta lífsgæði sjúklinga."

Það mun reyndar vera þannig, að Klínikin Ármúla býðst til að taka að sér bæklunaraðgerðir á 95 % af kostnaði Landsspítalans, svo að hreinn sparnaður næst fyrir ríkissjóð.  Í risafyrirtæki á borð við Landsspítalann (á íslenzkan mælikvarða) er mörg matarholan, og hætt er við, að margir maki krókinn með þeim hætti, sem ekki ætti að viðgangast.  Dæmi um það eru lyfjakaupin, en fjármálastjóri Landsstítalans lýsti því nýlega í fréttaskýringarþætti á RÚV, að spítalann skorti skýlausa heimild frá Alþingi til að taka þátt í stóru útboði á lyfjum með norrænum sjúkrahúsum. Samt yrðu íslenzk fyrirtæki á bjóðendalista í þessu útboði.  Felast ekki í því tækifæri fyrir þau og fyrir ríkissjóð ?

Hagsmunapotarar lyfjaiðnaðar- og innflytjenda hérlendis hafa komið ár sinni svo fyrir borð hjá Viðskiptanefnd þingsins, að spítalinn verður af líklega yfir eins milljarðs ISK sparnaði við lyfjakaup.  Þarna er Landsspítalinn hlunnfarinn og þar með skattborgararnir.  Er þetta ekki málefni fyrir heilbrigðisráðherra til að setja upp "gula gúmmíhanzkann" og skera upp herör ?

"OECD komst að þeirri niðurstöðu árið 2008, að hagræðing í heilbrigðiskerfinu [íslenzka] geti skilað tugprósentustiga lækkun kostnaðar.  Þar starfi of margt fólk í samanburði við önnur lönd, hlutur einkaaðila sé of lítill, þjónusta sé í of miklum mæli veitt af dýrum þjónustuaðilum og samkeppni sé ekki nægjanleg."

Ef OECD hefur komizt að því árið 2010, að spara megi um 20 % í íslenzka heilbrigðiskerfinu, þá er hægt að losa þar um 30 miaISK/ár, sem nota má til að leysa úr brýnum vanda skjólstæðinganna.  Hvers vegna í ósköpunum snúa menn sér ekki að slíkum alvöruviðfangsefnum í stað þess að setja reglulega á grátkór í fjölmiðlum um, að meira fé vanti úr ríkissjóði í reksturinn ?  

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband