29.4.2022 | 11:10
Stríð í Evrópu 2022-202?
Vladimir Putin skáldar upp söguskýringar í fortíð og nútíð til að reyna að réttlæta gjörðir sínar og rússneska hersins, sem hann er æðsti yfirmaður fyrir (commander in chief). Þessar fáránlegu söguskýringar ná ekki máli og réttlæta auðvitað hvorki eitt né neitt, nema í hugum siðblindra og vanheilla. Hann heldur því fram, að innrás Rússlands í stórt nágrannaríki sitt, Úkraínu, hafi verið óhjákvæmileg 24. febrúar 2022, til að bjarga rússnesku mælandi fólki í Úkraínu frá þjóðarmorði nazista, sem væru við stjórnvölinn í Kænugarði.
Þessa endemis vitleysu og lygaþvælu telur hann þjóð sinni, Rússum, trú um í krafti alræðis síns og lokunar á öllum frjálsum fjölmiðlum. 15 ára fangelsisvist liggur við því að láta aðra túlkun í ljósi, sem nær væri sannleikanum.
Tal forseta Rússlands um nágranna sinn í vestri er fyrir neðan allar hellur og vitnar um glámskyggni hans, mannfyrirlitningu og botnlausan hroka, sem viðgengizt hefur í Kreml um aldaraðir. Hann segir, að Úkraína sé ekki til sem land og því síður nokkurt ríki úkraínskrar þjóðar, heldur sé um að ræða hérað í Rússlandi.
Þetta ömurlega viðhorf er grundvöllur landvinningastefnu Rússlands, sem birtist með innrás Rússlandshers í Úkraínu 24.02.2022. Þetta vitfirringslega mat forsetans hefur síðan þá orðið sér rækilega til skammar, því að Úkraínumenn hafa sýnt og sannað, að þeir eru ein þjóð, hvort sem móðurmál þeirra er úkraínska eða rússneska. Þeir eru fúsir til að berjast til þrautar fyrir fullveldi lands síns og sjálfstæði til að taka með lýðræðislegum hætti ákvarðanir í innanríkis- og utanríkismálum.
Sízt af öllu vilja þeir lenda aftur undir hrammi rússneska bjarnarins. Þegar forseta Rússlands varð þetta ljóst, skipaði hann rússneska hernum að refsa fyrir þessa "þrákelkni", og svívirðilegar aðgerðir rússneska hersins eru mjög alvarlegir stríðsglæpir, sem jafna má við þjóðarmorð. Rússar munu ekki komast upp með þennan glæp gegn mannkyni, heldur munu gjalda með útskúfun og haldlagningu rússneskra verðmæta til að nota við uppbyggingu Úkraínu með vestrænni tækni. Úkraína mun njóta aðstoðar Vesturlanda við uppbyggingu, og lífskjör þar munu fara hratt batnandi, en versnandi í Rússlandi. DÝRÐ SÉ ÚKRAÍNU !
Það er ljóst, að Rússar lúta nú alræði siðblindingja, dómgreindarlauss fants. Hér verða nefnd til sögunnar 20 atriði, sem vitna um þetta:
#1 Viðskiptaþvinganirnar bíta mun meir en Putin bjóst við:
Putin gæti hafa búizt við kraftlausum viðskiptaþvingunum á svipuðum nótum og eftir töku Krímskagans 2014. Samt vöruðu Bandaríkin við því, að þær yrðu ósambærilegar að styrk. Putin er alræmdur fyrir hótanir sínar og hefur túlkað þessa viðvörun BNA sem innantóma hótun ráðvilltra Vesturvelda.
Síðla janúar 2022 var honum einnig tjáð, að þvinganirnar mundu einnig beinast að einstaklingum. Putin hefur ekki búizt við, að öll helztu ríki heims, nema Kína og Indland, mundu koma sér saman um fordæmalausar efnahagsþvinganir. Það er nægilegt bit í þeim, til að nokkrir ólígarkar vinna nú að því að fjarlægja Putin frá völdum. Árangursríkar efnahagsþvinganir munu draga úr getu Rússa til að halda úti þessu stríði, og þær munu þess vegna vonandi stytta stríðið.
Nú hafa borizt fregnir af því, að forysturíki Evrópusambandsins, Þýzkalands og Frakklands, hafi selt Rússum vopn fyrir hundruði milljóna EUR á tímabilinu 2015-8. apríl 2022, þegar ekki mátti einu sinni selja þeim íhluti, sem nýtzt gætu í vopnabúnað. Þetta vitnar um ótrúlega hálfvelgju og tvískinnung ESB í afstöðunni til Rússa allt fram til þessa. Aðeins fyrir árvekni og harðfylgi Eystrasaltsríkjanna og austur-evrópskra aðildarríkja tókst að binda enda á þessi skammarlegu viðskipti. Einfeldningsháttur friðþægingarinnar ríður ekki við einteyming.
#2 Zelenski-stjórnin gafst ekki upp:
Allt bendir til, að Putin hafi fastlega reiknað með snöggri uppgjöf úkraínsku ríkisstjórnarinnar, og að hún mundi flýja land. Þá ætlaði Putin að koma á leppstjórn í Úkraínu og færa hana þannig undir yfirráð Rússa. Þetta varð afdrifaríkur misreikningur Putins, og hann hefur í kjölfarið kennt FSB um mistökin og leyst starfsmenn´FSB, sem áttu að undirbúa jarðveginn og safna réttum upplýsingum þaðan, frá störfum. Siðblindir alræðisherrar viðurkenna aldrei eigin mistök. Adolf Hitler kenndi í lokin þýzku þjóðinni um ósigur Wehrmacht.
#3 Úkraínski herinn er mun öflugri en búizt var við:
Rússland hefur ranglega reitt sig á vonlausan úkraínskan her, aðeins 1/5 af innrásarhernum í fjölda hermanna og með lakari vígtól. Úkraínski herinn er í raun vel þjálfaður (að hluta af Vesturveldunum), og hann er bardagavanur eftir að hafa fengizt við rússneska herinn í austurhéruðunum í 8 ár. Hann er einbeittur að verja land sitt, beitir góðri herstjórn og er búinn öflugum léttum vestrænum varnarvopnum.
#4 Hernaðarleg frammistaða rússneska hersins hefur ekki verið upp á marga fiska:
Fyrir innrásina í Úkraínu var það hald manna, að rússneski herinn væri öflugur, tæknilega þróaður og skilvirkur. Ekkert af þessu hefur gengið eftir, og er það sennilega vegna rótgróinnar spillingar í hernum. Honum hefur verið beitt skefjalaust gegn óvopnuðum almenningi til þess gagngert að valda sem mestri skelfingu og sem mestu tjóni til að draga kjarkinn úr Úkraínumönnum. Þessi hegðun hefur gjörsamlega lagt orðstír rússneska hersins í rúst og er líkleg til að grafa undan siðferðisþreki hans og baráttugetu.
#5 Fæstir nýliðar rússneska hersins, sem gegna herskyldu, eru fúsir til að berjast í Úkraínu:
Þetta er alvarlegt vandamál, þar sem herskyldumenn mynda 80 % hersins. Sumir hafa gefizt upp, bardagalaust, og tæki þeirra, vopn og skotfæri eru nú í höndum úkraínska hersins, sem beitir þeim gegn rússneska hernum, sem er martraðarkennt ástand fyrir rússneska liðsforingja.
#6 Rússar hafa ekki náð fullum yfirráðum í lofti:
Rússar hafa á undirbúningsstigum talið sig strax mundu ná fullum yfirráðum í lofti, og þar með yrði þeim eftirleikurinn auðveldur. Þetta hefur ekki gengið eftir, og eiga Úkraínumenn enn einhverja tugi orrustuþota og herþyrlna. Mest hefur þó munað um léttu varnarvopnin á landi, eins og Stinger, sem leita fórnarlambið uppi með hitanema. Rússar hafa tapað hundruðum orrustuþota og herþyrlna, og hefur tapið örugglega komið þeim í opna skjöldu. Vandi BNA í þessu sambandi er hins vegar, að fyrir nokkrum árum var hætt að framleiða Stinger-varnarbúnaðinn. Rússar eiga greinilega einnig í erfiðleikum með að fylla upp í eyður herbúnaðarins eftir gríðarlegt tap.
#7 Almenningur í Úkraínu tekur á móti rússneska hernum sem svörnum óvinum sínum:
Rússnesku hermönnunum var tjáð fyrir innrásina af yfirmönnum sínum, að Úkraínumenn mundu taka á móti þeim sem frelsurum. Þetta mat Rússa hefur reynzt vera fjarstæða. Úkraínskur almenningur í borgum og sveitum lítur á rússneska herinn sem svæsinn óvinn, sem ætli að svipta þá frelsinu og leggja á þá rússneskt helsi. Í minnum er Mólotoff-kokkteilgerð almennings, sem myndir birtust af í upphafi stríðsins. Úkraínska þjóðin er einhuga um að berjast gegn rússneska einvaldinum, enda er saga rússneskra yfirráða í Úkraínu hrikaleg og ekkert framundan annað en eymd og volæði undir rússneskri stjórn.
#8 Tjón rússneska hersins er mikið:
Rússneski herinn hefur með grimmdaræði valdið miklu óþörfu tjóni í Úkraínu, en hann hefur líka mætt harðri mótspyrnu úkraínska hersins, og líklega hafa yfir 20 þús. rússneskir hermenn fallið síðan 24. febrúar 2022, en mun færri úkraínskir hermenn. Hergagnatjón Rússa er og gríðarlegt. Birtingarmynd þessa er flótti Rússa úr stöðum sínum við Kænugarð, þar sem í ljós hafa komið hryllilegir stríðsglæpir rússneska hersins. Fyrir vikið mun Rússland verða útlagaríki í mörg ár á kafi í eigin foraði og mega horfa fram á stóreflt NATO vegna eigin gerða.
#9 Tugþúsundir erlendra hermanna á eigin vegum til Úkraínu til að berjast við hlið Úkraínumanna:
Um 40 þús. menn erlendis frá hafa bætzt í raðir úkraínska hersins hvaðanæva að úr heiminum. Þetta hefur áhrif á gang stríðsins og var að sjálfsögðu óvænt fyrir Rússa. Úkraína hefur lofað hverjum þeim, sem kemur til að berjast fyrir Úkraínu, úkraínskum ríkisborgararétti. Eitthvað mun vera um málaliða Rússamegin, t.d. frá Tétseníu og Sýrlandi. Stóra spurningin er hins vegar um kínverska hernaðaraðstoð.
#10 Rússum hefur reynzt erfitt að halda unnum landsvæðum:
Dæmi um þetta eru borgir í norðurhlutanum og flugvöllur, sem Rússar nýttu strax til að geyma þyrlur og orrustuþotur á. Úkraínski herinn gerði gagnárás, náði flugvellinum og eyðilagði allar þyrlurnar og orrustuþoturnar.
#11 Birgðaflutningar hafa reynzt Rússum erfiðir:
Herinn hefur sums staðar orðið uppiskroppa með mat, eldsneyti og skotfæri, og varahluti hefur vantað í búnaðinn. Við hlustun á samskiptarásum á milli hermanna og liðsforingja þeirra hefur komið í ljós, að hermenn þjást af kali og sulti. Matarskammtar, sem fundust í teknum tækjum, voru árum frá ráðlögðum neyzludegi. Margir rússneskir hermenn hafa leiðzt út í rán og gripdeildir, m.a. á mat, en aðrir hafa stöðvazt fjarri mannabyggð.
#12 Rússneskir hermenn eru að komast að sannleikanum:
Hægt og sígandi komast nú rússneskir hermenn að því, að orðfæri einræðisherrans í Kreml og hershöfðingja hans, "sérstök hernaðaraðgerð" til frelsunar Úkraínu er helber þvæla og að aðgerðin, sem þeir hafa verið skikkaðir í, er innrás, framkvæmd úr a.m.k. 3 áttum. Nú er lygalaupurinn Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tekinn að hóta 3. heimsstyrjöld, af því að rússneska hernum gangi svo illa á vígstöðvunum í Úkraínu, og væntanlega er þessi heimskulega hótun merki um gremju út af væntanlegri inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO í júní 2022. Er hann svo skyni skroppinn að halda, að einhverjum á Vesturlöndum detti í hug, að Rússum muni ganga betur í hernaði gegn NATO og bandamönnum bandalagsins en gegn Úkraínumönnum einum ? Til hvers að fara í kjarnorkustríð ? Rússar hafa ekki roð við NATO, og líkur þeirra á einhvers konar sigri í kjarnorkuátökum eru engar, núll.
#13 Mótmæli gegn Úkraínustríðinu í Rússlandi eru sterk og viðvarandi:
Einvaldur Rússlands líður engin mótmæli. Þrátt fyrir þungar refsingar á borð við fangelsisvist og sektir hafa Rússar haldið áfram að mótmæla stríðsrekstrinum. Daglega fara margir út á strætin í 60 borgum í mótmælaskyni, enda eiga ýmsir Rússar vini og ættingja í Úkraínu, sem þeir hafa haft símasamband við.
#14 Rússland hefur þegar tapað "fjölmiðlastríðinu":
Nú á dögum eru stríð ekki einvörðungu háð á vígvöllunum. Sérhver með alnetsaðgang getur tjáð skoðanir sínar. Orðspor Rússlands hefur verið lagt í rúst í fjölmiðlum, aðallega með því að varpa myndum af illvirkjum Rússa á netið. Núna eru alþjóðlegir miðlar á borð við Facebook og Twitter aflæstir og bannaðir í Rússlandi, en ríkisstjórnin sviðssetur þess í stað lygaþvælu um atburðarásina. Spurning er, hversu lengi almenningur gleypir við áróðri rússneskra yfirvalda.
#15 Rússnesk yfirvöld hafa festst í eigin lygavef:
Rússar réðust á Úkraínu með áform um að setja lygaáróður sinn í stað sannleikans og villa um fyrir eigin þegnum með rangnefninu "sérstök hernaðaraðgerð" til frelsunar Úkraínu undan helsi nýnazisma. Öllum heiminum utan Rússlands er nú ljóst, að um lygaþvætting Kremlverja er að ræða, og sannleikurinn er tekinn að síga inn í Rússland m.a. með særðum hermönnum, sem sennilega nema um 60 þúsund um þessar mundir. Þetta grefur um síðir undan trausti almennings á stjórnvöldum með slæmum afleiðingum fyrir skrímslið í Kreml.
#16 Heimurinn er að töluverðu leyti sameinaður í andstöðu við rússnesku innrásina í Úkraínu:
141 ríki Sameinuðu þjóðanna greiddi atkvæði með fordæmingu á Rússum vegna innrásarinnar. Þetta er sjaldgæf samstaða á alþjóðavettvangi og sýnir, að Rússar hafa með ofbeldi og glæpaverkum gegn mannkyni í Úkraínu svert eigið mannorð svo mjög, að það mun liggja í svaðinu næstu áratugina, og Rússa bíður ekki annað en eymd og volæði fjárhagslegrar, viðskiptalegrar og menningarlegrar einangrunar. Núverandi Rússlandsstjórn getur engan veginn lagað þá stöðu, því að hún á aðeins heima á sakamannabekk alþjóðlegs glæpadómstóls.
#17 NATO er sterkara og sameinaðra en áður:
Putin hefur rembzt, eins og rjúpan við staurinn, síðustu 15 árin eða lengur við að sá óeiningu innan NATO og hefur rekið hræðsluáróður gagnvart ríkjum Evrópu utan NATO gagnvart því að leita inngöngu þar. Hann kom með hræðsluáróðri í veg fyrir inngöngu Úkraínu í NATO um 2007, og þess vegna þorði hann að taka Krímskagann og sneiðar af Austur-Úkraínu 2014, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin 2022. Hlutur Austur-Þjóðverjans Angelu Merkel er þar sérstaklega bágborinn.
Mörg NATO-ríkin hafa fórnað töluverðu til að setja harðar viðskiptaþvinganir á Rússland, en Þjóðverjar hafa þó ekki enn losað um hramm rússneska bjarnarins á eldsneytisgaskaupum sínum, þótt þeir stöðvuðu NORD STREAM 2. Gerhard Schröder, krati og fyrrverandi kanzlari, er orðin þjóðarskömm Þjóðverja.
#18 Nú sjá þjóðir sitt óvænna að æskja ásjár NATO:
Þjóðir á borð við Finna og að sjálfsögðu Úkraínumenn líta nú svo á, að NATO-aðild þeirra sé nauðsynleg fyrir tilveru sína sem fullvalda og sjálfstæðra þjóða til langframa. Nú bendir margt til þess, að þjóðþing Finna og Svía muni samþykkja aðildarumsókn fyrir fund forystumanna NATO í júní 2022, og umsókn þeirra verður að sjálfsögðu samþykkt eins fljótt og verða má. Þetta verður verðskuldað kjaftshögg á fjandsamlega utanríkisstefnu Rússa, sem hafa hingað til þvingað Finna til undirgefnihlutleysis, sem hlotið hefur heitið "Finnlandisering".
Rússar hafa haldið hótunum sínum áfram, nú með kjarnorkuvopnavæðingu Eystrasaltsins, en hvað hafa þeir haft um árabil í Kalíningrad, hinni fornu "Königsberg der Dichter und Denker", annað en vígtól, sem borið geta kjarnaodda ? Það er kominn tími til, að útþenslustefnu þessa grimma, víðlenda ríkis verði settar skorður. Að venju munu Rússar og málpípur þeirra æpa um sókn NATO upp að vesturlandamærum Rússlands, en þetta rotna ríki mafíunnar í Kreml á ekki lengur að komast upp með að ráða utanríkis- og varnarstefnu nágrannanna. Það er stórhættulegt.
#19 Áður hlutlaus ríki hafa nú snúizt gegn Rússlandi:
Rússar hafa misreiknað viðbrögð Vesturlanda á fjölmörgum sviðum, þ.á.m. hlutlausu þjóðanna. Þeir hafa ekki átt von á því, að Svisslendingum yrði nóg boðið og mundu taka afstöðu í þessum átökum, enda er það saga til næsta bæjar. Rússnesku ólígarkarnir hafa orðið fyrir áfalli, þegar svissneskum bankareikningum þeirra var lokað. Svíþjóð hefur líklega í um 200 ár staðið utan við vopnuð átök, en nú aðstoða Svíar Úkraínumenn með vopnasendingum og þjálfun.
Hinum siðmenntaða heimi blöskrar villimannleg framganga Rússa í Úkraínu, sem nú fylla í skörð rússneska hersins með íbúum frá Síberíu, sem minni tengsl hafa við Úkraínu en íbúar Rússlands vestan Úral.
#20 Þjóðareining Úkraínumanna hefur aldrei verið meiri en nú:
Heimskulegur, hrokafullur og fasistískur rússneskur áróður um, að Úkraína sé ekki til sem land, hefur nú skolazt niður um skolpræsið með montinu um "mikilleika Rússlands", sem fyrir víst er ekki fyrir hendi nú, hafi hann einhvern tíma verið það. Baráttuandi og baráttuþrek Úkraínumanna á vígvöllunum og þrautseigja og þolgæði almennings þrátt fyrir svívirðilegar árásir rússneska hersins á varnarlausa borgara í húsum sínum, í skólum, á sjúkrahúsum og á götum úti, hefur fært umheiminum heim sanninn um, að Úkraínumenn eru samheldin og samstæð þjóð með eigin menningu, sem einræðisherrann í Kreml vill feiga. Þessi yfirgengilegi fruntaháttur frumstæðra Rússa má ekki verða til þess, að Úkraínumenn missi land og fullveldi sitt í hendur kúgaranna. Hvort sem móðurmál Úkraínumanna er úkraínska eða rússneska vilja þeir í lengstu lög forðast að verða undir beinni eða óbeinni stjórn Rússlands. Það hafa þeir sannað með frækilegri vörn sinni, og allt annað er ekki annað en ómerkileg, rússnesk lygi, sem meira en nóg hefur verið af í þessu stríði. Beztu lyktir þessa stríðs væru, að rússneska herliðið verði hrakið til baka yfir landamærin til Rússlands, einnig frá Krímskaga, og að frystar eignir ólígarka og rússneska ríkisins á Vesturlöndum verði síðan notaðar til endurreisnar Úkraínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.4.2022 | 20:39
Óttastjórnun af ýmsu tagi
Óttatilfinningin er rík í manninum og tengist viðleitni hans til að sleppa sem bezt út úr aðstæðum, sem hann ræður ekki fyllilega við eða jafnvel alls ekki við. Hrottinn í Kreml, sem gerzt hefur sekur um hryllilega glæpi gegn mannkyni í viðbjóðslegum stríðsrekstri rússneska hersins í Tétseníu, Georgíu, Sýrlandi og nú í Úkraínu, hefur í hótunum við NATO-löndin um að beita kjarnorkuvopnum af lítt skilgreindum tilefnum. Þetta er gert til að vekja ótta Vesturveldanna við að taka beinan þátt í átökunum, t.d. með því að verja lofthelgi Úkraínu, sem mikil þörf er á af mannúðarástæðum. Úkraínumenn hafa nú náð töluverðum árangri í loftvörnum sjálfir, þótt þeir hafi ekki öflugustu tólin til þess (Patriot ?). Þjóðverjar hafa dregið lappirnar skammarlega við að aðstoða Úkraínumenn við varnirnar, en nú hafa þeir lofað að senda þeim eina 50 loftvarnarskriðdreka.
Forstokkaðir einræðisherrar með sjúklegar landvinningahugmyndir skilja hins vegar ekki fyrr en skellur í tönnum, og þess vegna er kominn tími til að NATO setja hinum ofbeldisfulla ómerkingi og þorpara stólinn fyrir dyrnar varðandi villimannlegan hernað Rússa gegn varnarlausum borgurum. Það hefur verið lengi að renna upp fyrir ýmsum, að æðstikoppur í Kreml núna er nýr Hitler.
Það hefur verið meira áberandi á Vesturlöndum undanfarin misserin en áður, að yfirvöld hafa talið sér sæma að skapa ótta í samfélaginu til að hafa sitt fram. Skemmst er að minnast viðbragða sóttvarnayfirvalda við SARS-CoV-2 veirunni í öllum tilbrigðum hennar. Einkenni hennar voru frá því að vera engin og upp í kvef, hálsbólgu, inflúensu og lungnabólgu. Kínverjar gáfu línuna með harkalegum viðbrögðum með lokunum, samkomubönnum og einangrun, eins og búast má við í einræðisríkjum, en með þeirri afleiðingu, að þeir eru alls ekki lausir við veiruna, eins og þó flestir aðrir eru að mestu.
Viðbrögðin á Vesturlöndum hafa víða verið algert yfirskot m.v. tilefni, svipað og að skjóta spörfugl með kanónu. Hið eina, sem dugir gegn veirunni, er náttúrulegt lýðónæmi, því að áhrif bóluefnanna vara aðeins í nokkrar vikur (vörusvik !).
Vesturlönd brugðust misjafnlega við. Þar sem minnstar frelsishömlur voru lagðar á, t.d. í Svíþjóð, mældist engin hækkun á dánartíðni yfir árin 2020-2021 m.v. meðaltal 5 ára á undan, en hömlurnar kostuðu greinilega mannslíf víða annars staðar, eins tölur um heildardánartíðni sýndu, þar sem þær þrengdu mjög að frelsi fólks og lífsgæðum.
Þá ráku sóttvarnaryfirvöld harðan áróður fyrir bólusetningum, jafnvel eftir að í ljós kom, að skaðsemi bóluefnanna var meiri en gagnsemin. Þó kastaði fyrst tólfunum, þegar sóttvarnarlæknirinn hérlendis tók að reka harðan áróður fyrir bólusetningum barna með ónýtum og áhættusömum bóluefnum, þótt almennt væru einkenni barna væg eftir C-19 smit. Cuo bono ?
Fjölmargir maka krókinn af öllum þessum bólusetningum, og kostnaður ríkissjóðs var gríðarhár. Kostnaður sjúkdómsgreininga einna saman nam mrdISK 10, sem er óheyrilegur kostnaður sýnataka og sýnagreininga. Hátt var reitt til höggs af vægu tilefni. Hvað gerist, ef/þegar skelfileg veira á borð við ebólu ber að dyrum ? Brýnt er að breyta stjórnkerfi sóttvarna, og breytingin mun vera í farvatninu hjá heilbrigðisráðherra.
Þá hefur ekki lítið gengið á í fjölmiðlum, en minna í raun, út af meintri hlýnun jarðar, sem rakin er til gróðurhúsaáhrifa nokkurra gastegunda, og starfsemi mannsins kennt um hitastigshækkun, sem sögð er stofna lífinu á jörðunni í sinni núverandi mynd í voða. Tvennum sögum fer af þessari hitastigshækkun, og er annars vegar orðræða SÞ-IPCC og hins vegar t.d. þeirra, sem unnið hafa úr gervihnattamælingum hitastigs í andrúmsloftinu, og ber mikið á milli eða um 3°C í hækkun á 100 árum.
Þann 17. marz 2022 birtist í Fréttablaðinu áhugaverð grein eftir Gunnlaug Jónsson, eðlisfræðing, um þróun hitastigs á Íslandi, sem hét:
"Gleðitíðindi eða áhyggjuefni ?".
Hún hófst þannig:
"Daglega berast nýjar fréttir, sem tengja má við hlýnun jarðar. Kristján Vigfússon, aðjunkt við HR, sagði í Fréttablaðinu 1. febrúar sl. loftslagskvíða barna og ungmenna gríðarlegt áhyggjuefni. Nýleg könnun sýni, að 60 % ungs fólks hafi svo miklar áhyggjur, að þau telji mannkynið dauðadæmt."
Þetta er mjög mikill áfellisdómur yfir framsetningu loftslagspostulanna á meintri óviðráðanlegri hlýnun jarðar. Framsetningin er í anda áróðurspostula í því augnamiði að hræða fólk til að breyta um lífsstíl. Þetta er algerlega óábyrg hegðun þessara postula í ljósi þess, að mæliniðurstöður um hitastigsþróun andrúmsloftsins eru alls ekki einhlítar.
Nákvæmustu og áreiðanlegustu fáanlegu mælingar, sem eru hitastigsmælingar í neðri lögum lofthjúpsins úr gervihnöttum, benda til hækkunar um 1,5°C/100 ár, sem er ekki ávísun á helvíti á jörðu. Í einhliða áróðri SÞ/IPCC hafa Sameinuðu þjóðirnar útilokað nokkra gagnrýna loftslagsfræðinga, t.d. mikla fræðimenn á þessu sviði hjá Alabama-háskóla í BNA, frá skýrslum sínum og greinargerðum um þróun hitastigs á jörðunni.
Þegar minni spámenn taka til við að flytja dómsdagsspár, verða þeir að hafa algerlega traust land undir fótum vegna þess mikla tjóns, sem ógætilegur og illa ígrundaður málflutningur þeirra getur valdið.
"Í þessu samhengi má spyrja sig, hvort eftirfarandi fréttir séu gleðiefni eða áhyggjuefni. Sjófarendur sjá risastóran borgarísjaka á Húnaflóa og hafís, sem er aðeins 17 sjómílur frá landi. Hafís er óvenjumikill á norðurslóðum, og NA-siglingaleiðin fyrir norðan Síberíu lokaðist fyrr en venjulega í haust, þannig að fjöldi flutningaskipa sat fastur í hafís."
Stjórnmálamenn o.fl. hafa mikið hjalað um hitafarið á norðurslóðum og möguleikana á nýtingu, sem opnast við, að ísinn hopar. Þarna lýsir Gunnlaugur afturkippi á NA-siglingaleiðinni. Ef ísbrjótur þarf að fylgja flutningaskipum þessa leið, verður hún ekki hagkvæmari en hefðbundna leiðin um Súez, nema Egyptar taki upp á að hækka verulega gjaldið þar í gegn, eins og komið hefur til tals (vegna aukinnar gjaldeyrisþarfar þeirra í kjölfar hveitiverðshækkana). Skip á NA-leiðinni þurfa að vera sérstaklega styrkt, ef tryggingafélög eiga að fást til að tryggja þau gegn sjótjóni eða óhæfilegum töfum.
Þá er nú svo komið, að mikið af blaðri Hringborðs norðurslóða stenzt ekki, t.d. um, að hægt sé að viðhalda ráðstefnuhaldi o.fl. á þess vegum utan átaka í heiminum. Svívirðileg innrás rússneska hersins í Úkraínu, sem afhjúpaði m.a. landvinningastefnu Rússa í Evrópu til að endurvekja "Stór-Rússland", sem gegnumrotið Rússland nútímans hefur engan lagalegan/siðferðilegan rétt til að krefjast né fjárhagslega/hernaðarlega burði til að standa undir, hefur sannað, að kenningin um, að hægt sé að véla um norðurslóðir í pólitísku/hernaðarlegu tómarúmi er algerlega fráleit, þegar á reynir.
Í lok greinarinnar gerði Gunnlaugur grein fyrir hitastigsþróun á 3 veðurmælistöðvum á Íslandi, í Stykkishólmi, í Reykjavík og á Stórhöfða, í 100 ár, til 2019 og til 2021, með þessum hætti:
"Hlýnun á þessum 3 veðurstöðvum hægir á sér, en gefur ekki í, eins og ætla mætti af umræðu um hlýnun jarðar. Í umræðunni hefur komið fram, að veðurfar á Íslandi muni eftir 100 - 200 ár líkjast veðurfari, eins og það er nú á Skotlandi. Landsvirkjun muni njóta meiri úrkomu og rennslis í ám, og bændum muni ganga betur að rækta korn og þá sérstaklega bygg, en það hentar vel til bruggunar á bjór og Whisky á Skotlandi.
Lítum aðeins nánar á þessa hugmynd með hliðsjón af því, að meðalárshiti í Reykjavík hefur vaxið um 0,28°C á síðustu 100 árum. Meðalhiti í Reykjavík síðustu 100 árin var 4,8°C, meðalhiti í höfuðborg Skotlands, Edinborg, er 9,5°C. Mismunurinn er 4,7°C. Með 0,28°C hlýnun á öld verður hiti í Reykjavík orðinn sambærilegur við hitann í Edinborg eftir nær 17 aldir eða árið 3700. Það virðist því ekki sérstök ástæða til þess að hlakka til eða kvíða breytingum á hita í Reykjavík næstu aldirnar."
Hitastigullinn í Reykjavík í 100 ár til 2019 var 0,36°C/100 ár. Með aðeins 2 ára hliðrun lækkar hitastigullinn um 22 %, sem er mjög mikið. Sagt er, að hitastigullinn vaxi, þegar farið er í átt að pólum jarðar, og það getur skýrt hærri hitastigul í Reykjavík en að meðaltali í gufuhvolfinu samkvæmt gervihnattamælingum, en einnig geta áhrif þéttbýlisins skekkt mæliniðurstöðurnar til hækkunar.
Veðurfræðingar ýmsir hafa skotið landsmönnum skelk í bringu með því, að ein afleiðinga bráðnunar Grænlandsjökuls og minnkunar annarra jökla á norðurhveli væri veiking Golfstraumsins. Ef sú tilgáta væri sönn, hefði slíkt margháttuð slæm áhrif á lífsafkomu Íslendinga, sem stundum eru sagðir búa á mörkum hins byggilega heims. Þann 25. marz 2022 birtist í Morgunblaðinu ánægjuleg frétt, sem afsannar þessa tilgátu, a.m.k. m.v. núverandi stöðu.
Fyrirsögn fréttarinnar var:
"Golfstraumurinn er ekki að veikjast".
"Lars H. Smedsrud, prófessor við Háskólann í Bergen, hefur ásamt fleirum rannsakað gögn frá heilli öld til að sjá, hvernig flutningskerfi hafsins hefur þróazt. Hann segir þau sýna, að flæði Golfstraumsins inn í norðurhöf hafi aukizt. Með auknu flæði hlýs sjávar hafi varmaflutningur norður á bóginn aukizt um 30 %.
"Þetta er alveg rétt. Við [Steingrímur Jónsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun og prófessor við Háskólann á Akureyri og Héðinn Valdimarsson, haffræðingur] skrifuðum greinar um varma- og sjávarflutninginn inn á þetta svæði fyrir nokkrum árum. Okkar framlag var mæling á þessum Norður-Íslands Irminger-straumi á Hornbanka í um 20 ár. Við sáum mikla breytingu frá 1996 til 2000. Þá hækkaði hitastigið og straumurinn jókst, þannig að það varð töluvert mikil aukning á varmaflutninginum norður í höf", segir Steingrímur. Hvernig rímar þetta við kenningar um, að Golfstraumurinn sé að veikjast ?
Það rímar alls ekki við [þær]. Þessar mælingar sýna, að hann er frekar að eflast hérna. En það er bara lítill hluti af Golfstraumnum, sem fer hér norðureftir. Hann er miklu stærri fyrir sunnan Ísland."
Sumir, sem telja sig hafa höndlað stóra sannleik, og að hann eigi brýnt erindi til almennings, eru óþarflega PR-kátir, þ.e. veikir fyrir sviðsljósinu. Með því að draga boðskapinn dökkum dráttum, fær hann áberandi rými og umfjöllun í fjölmiðlum, en þá verður líka að hafa í huga, að hafa skal gát í nærveru sálar. Að vekja tilvistarótta í huga almennings er ábyrgðarhluti, enda oft hræðsluáróður í vafasömu og ankannalegu augnamiði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2022 | 09:37
Lexíur frá Fukushima
Í marz 2021 voru 10 ár liðin frá því, að flóðöldur (tsunami) lögðu norðanverða Kyrrahafsströnd fjölmennustu eyjar Japans í auðn. Flóðöldurnar og neðansjávar jarðskjálftinn, sem orsakaði þær, sá stærsti, sem þar hefur mælzt, tóku líf 20 þús. manns, eyðilögðu yfir 100 þús. heimili og breytti lífi tugmilljóna manna í öngþveiti. Beint fjárhagstjón er talið hafa orðið yfir mrdUSD 200.
Eftir mánaðarstríð í Úkraínu höfðu Rússar með ótrúlega viðurstyggilegu framferði hers þeirra í Úkraínu, þar sem ráðizt er á óbreytta borgara, sem er stríðsglæpur, valdið meiru efnistjóni en þessu nemur. Samt er þetta náttúruhamfaratjón í Japan meira en sagan kann frá að greina annars staðar. Þótt undarlegt megi virðast, eru þessar hamfarir í Japan í minningu margra aðallega af allt öðru, þ.e. vandræðunum í Fukushima Dai-ichi kjarnorkuverinu í kjölfarið. Óttinn við kjarnorkugeislun stendur djúpt.
Jarðskjálftinn einangraði kjarnorkuverið frá raforkukerfi Japans. Flóðbylgjurnar, allt að 40 m háar, fóru yfir varnarveggi versins og fylltu kjallara þess, þar sem neyðarrafstöðin var hýst. Regluvörðum japanska kjarnorkuiðnaðarins hafði yfirsézt þessi áhætta og ekki gætt þess að krefjast fleiri staðsetninga fyrir neyðarrafstöðvar. Þess vegna var engin leið að kæla kjarnakljúfinn, og kjarnaeldsneytið fór að bráðna í gegnum steypuna undir. Eldur gaus upp og sprengingar kváðu við og geislunin hækkaði yfir aðvörunarmörk.
Heimsbyggðin fylgdist með í angist. Í Shanghai og San Francisco runnu joðtöflur og joðsalt út, eins og heitar lummur, þótt fólk hefði þar enga þörf fyrir slík mótefni. Kanzlari Þýzkalands, Angela Merkel, sem áður hafði stutt kjarnorkuiðnaðinn gegn græningjunum, fyrirskipaði nú lokun allra kjarnorkuvera Þýzkalands fyrir árslok 2022. Þetta var frumhlaup, sem ýtti undir aukna þörf Þjóðverja fyrir jarðgas, og þá var samið um Nord Stream 2 við Rússa gegn ráðleggingum Bandaríkjamanna o.fl. Angela Merkel setti þannig snöruna um háls Þjóðverja og gerði þá algerlega háða gasinnflutningi frá Rússum, sem frá aldamótunum voru undir stjórn kaldrifjaðs útþenslueinvalds, sem tókst að kasta ryki í augu þessa fyrrverandi kanzlara með alvarlegum afleiðingum. Lýðræðisríki mega aldrei verða háð einræðisríkjum með nauðþurftir. Angela Merkel áttaði sig ekki á, að um valdataumana í Kreml hélt nýr Stalín. Hún áttaði sig ekki á því, þegar hann bjó til átyllu til að ráðast á Tétseníu með því að láta FSB (leyniþjónustu Rússlands) sprengja upp íbúðarblokk í Moskvu. Hún hélt áfram að friðmælast við Putin, eftir að hann lagði hluta Georgíu (fæðingarland Jósefs Stalíns) undir Rússland með hervaldi, og hún neitaði að hætta við Nord Stream 2 og draga úr gasviðskiptunum við Rússa, þegar þeir réðust á Austur-Úkraínu undir fölsku yfirskyni 2014, en voru stöðvaðir af úkraínska hernum, sem kom í veg fyrir, að rússneski herinn legði allt Donbass og Luhansk undir sig, en veitti hins vegar ekki mótspyrnu á Krím. Síðan þá hefur úkraínski herinn eflzt til muna fyrir tilstilli Vesturveldanna.
Kínverjar settu mestu uppbyggingaráætlun heims á kjarnorkuverum í bið í kjölfar Fukushima-slyssins. Tal um endurnýjun lífdaga kjarnorkunnar til að berjast við hlýnun jarðar féll nú í grýttan jarðveg. Öll þessi viðbrögð voru yfirdrifin og röng.
Kjarnorkan hefur marga galla. Einingarnar eru stórar og dýrar í byggingu, og há fjárfestingarupphæð varpast yfir í háan vinnslukostnað raforku (um 150 USD/MWh). Í Íslandi er framleiðslukostnaður nýrra virkjana rúmlega fimmtungur af þessum kjarnorkukostnaði. Mjög lítil en raunveruleg hætta á kjarnorkuslysi hefur kallað á viðamikið regluverk fyrir hönnun, byggingu og rekstur kjarnorkuvera, sem hefur líka varpazt yfir í vinnslukostnaðinn. Helmingunartími geislavirks úrgangs nýttrar úraníum samsætu er langur (aldir), og freisting er fyrir sumar óábyrgar ríkisstjórnir að nota hann í kjarnorkusprengjur. Efasemdarraddir um réttmæti kjarnorkuvera sem lausn á orkuviðfangsefnum eru þannig skiljanlegar.
Andspænis þessu þarf að íhuga fleira. Eitt er, að sé öllum hönnunarreglum, byggingarreglum og rekstrarreglum fylgt út í æsar, er kjarnorkuver öruggt. Með sovézka kjarnorkuverinu í Chernobyl sem undantekningu hafa kjarnorkuslys ekki kostað mörg mannslíf. Það voru flóðbylgjurnar í Fukushima, ekki geislavirkni, sem orsökuðu langflesta dauðdagana þar.
Annað er meint loftslagsvá, og kjarnorkuver geta framleitt kolefnisfrítt megnið af þeirri raforku, sem nú er unnin úr jarðefnaeldsneyti. Raforka frá sólarhlöðum og vindorkuverum er nú mun ódýrari en frá kjarnorkuverum, en fyrr nefndu orkugjafarnir hafa takmarkað notagildi, af því að vinnsla þeirra er slitrótt. Landrými skortir víða fyrir sólarhlöður og vindrafstöðvar, þar sem mikil raforkuþörf er.
Þrátt fyrir bægslagang stjórnmálamanna út af hlýnun jarðar er samt nú verið að loka framleiðsluhæfum og öruggum kjarnorkuverum í þróuðum ríkjum. Þessar lokanir og lokanir vegna aldurs kjarnorkuvera gætu valdið því, að 2/3 af uppsettu afli kjarnorkuvera þróaðra ríkja m.v. það, sem mest var samkvæmt IEA (International Energy Authority), gæti árið 2040 verið horfið af sjónarsviðinu. Ef orkuver knúin jarðefnaeldsneyti munu koma í staðinn, munu þau verða nokkra áratugi í rekstri. Ef sólarhlöður og vindmyllur koma í stað kjarnorkuveranna, mun losunaraukning CO2 nema nokkrum gígatonnum á ári, af því að jarðefnaeldsneyti verður að hlaupa í skarðið. Það er nánast alltaf betra, að þessir slitróttu orkugjafar leysi jarðefnaeldsneyti af hólmi en þeir leysi kjarnorkuver af hólmi út frá loftslagssjónarmiðum.
Stundum er lokun kjarnorkuvera þó aðallega af fjárhagsástæðum. Á stöðum, þar sem ekkert gjald er lagt á losun gróðurhúsalofttegunda, eru kostir kolefnisfrírrar raforkuvinnslu duldir. Þetta skekkir samkeppnisstöðu kjarnorkuveranna. Þegar lokunin er af pólitískum rótum runnin, stendur upp á græningjana að forgangsraða í þágu loftslagsins.
Mesti veikleiki kjarnorkuvera er, að í lýðræðislöndum er raforkan frá þeim dýr vegna umfangsmikils regluverks og andúðar almennings, sem veldur sölutregðu á kjarnorkuverum. Þessi tækni er þar af leiðandi núna aðallega nýtt í einræðisríkjum, en einmitt þar er hættara við slöku regluverki og slælegu eftirliti.
Eftir hlé í Kína eftir Fukushima er nú mikill kraftur kominn í uppbyggingu kjarnorkuvera þar til að leysa kolaknúin orkuver af hólmi. Í Kína var árið 2019 framleitt ferfalt meira rafmagn í kjarnorkuverum en árið 2011. Nú eru 16 kjarnakljúfar þar í uppsetningu og 39 eru í hönnun. Þeir, sem reisa vilja kjarnorkuver, leita nú fyrir sér um kaup í Kína og í Rússlandi. Eftir villimannlega innrás Rússa í Úkraínu 24.02.2022 hafa þó langflestir skorið á viðskiptatengsl þangað.
Það er brýnt fyrir lýðræðisþjóðirnar að leitast við að leysa gömul kjarnorkuver sín af hólmi með orkuverum, sem gengið geta stöðugt á allt að fullum afköstum. Ef kjarnorkuver Kínverja eru hönnuð m.v. að geta farið í gegnum nálarauga óháðra eftirlitsstofnana, þá verður heimurinn vissulega öruggari. Á sama tíma ættu vestrænar þjóðir ekki að hika við að leyfa kjarnorkunni að vera með í þróunarverkefnum, sem miða við að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi. Kjarnorkuiðnaðurinn er nú þegar með álitlegar lausnir, þar sem eru stöðluð kjarnorkuver í u.þ.b. 500 MW einingum með lægri einingarkostnað en þau gömlu (aflgetan er nokkru minni en í tveimur Búrfellvirkjunum I). Lærdómurinn af Fukushima er ekki að forðast kjarnorkuna, heldur að nýta hana með beztu þekkingu að vopni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.4.2022 | 10:37
Tvískinnungur og hræsni eftiráklókra
Tvískinnungur, hræsni og eftirávizka tröllríður gagnrýni þingmanna og eins ráðherrans á útboðsferli Bankasýslunnar á 20 % hlut í Íslandsbanka, sem jókst í 22,5 %. Líklegt er, að óvandaðir stjórnmálamenn hræri hér í gruggugu vatni í tilefni væntanlegra sveitarstjórnarkosninga, aðallega til að rétta borgarstjórnarmeirihluta með allt á hælunum hjálparhönd á ögurstundu, en tilfinningaþrungin umræða, þótt á röngum forsendum sé, getur haft áhrif á val á milli stjórnmálaflokka í kjörklefanum.
Mest kom á óvart, að einn ráðherrann fann til ríkrar þarfar að þjóna lýðskrumsónáttúru sinni, þegar hún varð vör við kurrinn. Þóttist Lilja D. Alfreðsdóttir hafa mælt gegn málinu á vettvangi ríkisstjórnar, en forsætisráðherra kvað enga bókun um það finnanlega í fórum ríkisstjórnarinnar, og sat téð Lilja þó í ráðherranefndinni, sem á undirbúningsstigum fjallaði um þessa bankasölu og hélt gerðabók. Hefur téð Lilja þagað þunnu hljóði eftir þessa ádrepu. Er betra að veifa röngu tré en öngu í pólitík ? Fer eftir, hver á heldur. Af gögnum málsins er ljóst, að hér er um fullkomlega ábyrgðarlausa hegðun viðskipta- og menningarráðherra og varaformanns Framsóknarflokksins að ræða, sem hefur grafið undan trausti á henni, sem var þó lítið fyrir, m.a. vegna lagabrots hennar við ráðningu ráðuneytisstjóra og málaferla, sem kostuðu ríkið stórfé. Ráðherrann, sem við tók, flokksbróðir Lilju, stöðvaði áfrýjun hennar á töpuðu máli til Landsréttar og dró líklega þannig úr tjóni ríkisins. Dómgreind téðrar Lilju Daggar virðist ekki vera upp á marga fiska.
Þá voru skrýtin ummæli Lilju um, að EES-reglur hindruðu að fara í almennt útboð. Það er rangt hjá henni, en þá þarf að semja nákvæma útboðslýsingu, eins og gert var fyrir frumútboðið, og það kostar auðvitað sitt. Þetta varð ekki ferð til fjár fyrir Lilju D. Alfreðsdóttur, en er fallið til að eitra andrúmsloftið innan ríkisstjórnarinnar. Var það ætlunin ?
Þingmenn hafa sennilega sjaldan fengið jafnítarlega kynningu á nokkru máli eins og þessu útboði á um fimmtungi af hlutabréfum Íslandsbanka. Samt láta þeir eins og þeir komi af fjöllum, margir hverjir. Jólasveinar geta ekki leynt eðli sínu. Gera þeir þó ekki helzti lítið úr sér og hæfileikum sínum til að taka við, greina og spyrja gagnrýninna spurninga ? Nokkrir af þeim, sem hæst hafa látið og vitrastir og um leið hneykslaðistir hafa orðið eftir á, sitja í þingnefndunum, sem fjölluðu sérstaklega um málið. Morgunblaðið greindi frá þessu þannig í fréttaskýringu 13. apríl 2022:
"Þingmenn í fjárlaganefnd og í efnahags- og viðskiptanefnd fengu ítarlegar kynningar frá fulltrúum Bankasýslunnar og fjármálaráðuneytisins í aðdraganda útboðsins. Fyrsti kynningarfundurinn var haldinn nokkrum dögum eftir að fjármála- og efnahagsráðherra hafði óskað eftir umsögnum nefndanna.
Á fundunum var farið yfir kosti og galla þeirra aðferða, sem hægt er að [beita] í útboðum sem þessum, hvaða áhrif salan kynni að hafa á þróun á hlutabréfamarkaði, hvernig salan færi fram og fleira til.
Nokkrir af þeim þingmönnum, sem hafa gagnrýnt útboðið, eftir að því lauk, sátu umrædda fundi, þar sem þau eiga sæti í nefndunum. Má þar m.a. nefna Bryndísi Haraldsdóttur (Sjálfstæðisflokki), Jóhann Pál Jóhannsson og Kristrúnu Frostadóttur (Samfylkingu), Guðbrand Einarsson (Viðreisn), Björn Leví Gunnarsson og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur (Pírötum).
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gerðu þau ekki athugasemdir við verklag eða aðferðafræði Bankasýslunnar í aðdraganda útboðsins, þó [að] sum þeirra hafi skilað séráliti, þegar nefndirnar skiluðu sínum umsögnum, og þar gagnrýnt með margvíslegum hætti, að til stæði að selja hlut ríkisins."
Það er heiðarleg pólitísk afstaða, þótt arfavitlaus sé frá hagfræðilegu sjónarmiði, að vera andvíg[ur] sölu ríkiseigna. Það er út af því, að ríkið á ekki að standa í samkeppnisrekstri, enda stendur ríkið sig yfirleitt illa í þeim rekstri, sem það tekur sér fyrir hendur að sinna, á almenna mælikvarða um árangur í rekstri. Ef Jón og Gunna vilja eiga hlut í banka, gátu þau tekið þátt í frumútboði Íslandsbanka og aftur óbeint núna með því að kaupa í verðbréfasjóðum, sem eru á hlutabréfamarkaði. Það eru viðurkenndir fagfjárfestar og voru þar af leiðandi taldir hæfir til að bjóða í hluti Íslandsbanka nú. Hvergi var sett skilyrði um stærð fagfjárfestis, svo að það er hreinn fyrirsláttur hjá þingmönnum og öðrum, að lítil stærð fagfjárfesta hafi komið á óvart, ef hlutlægt er skoðað.
Annað gagnrýniatriði er söluþóknunin, og hún er nú til athugunar hjá Bankaeftirliti Seðlabankans. Ekki verður annað séð en upphlaupið út af þessu máli sé stormur í vatnsglasi, og stjórnmálamenn hafa þarna fallið fyrir freistingum sýndarmennsku og lýðskrums.
Kristrún Frostadóttir, nýr þingmaður Samfylkingar í Reykjavík, hefur bókstaflega staðið á öndinni út af þessu máli. Það er skiljanlegt, þar sem hún hefur haft meiri persónuleg kynni af hlutabréfum en margur annar, og þeir, sem hafa kynnt sér bankaferil hennar, hafa reyndar staðið á öndinni af hneykslun yfir þeim skjótfengna gróða og án verðleika, sem hún varð aðnjótandi, en vill ekki að fréttist um og alls ekki, að aðrir njóti.
Í Staksteinum Morgunblaðsins 14. apríl 2022 stóð þetta m.a. um þennan sérkennilega ofsagróða kratans Kristrúnar:
"Björn Bjarnason skrifar:"Kristrún Frostadóttir stefnir að formennsku í Samfylkingunni. Fyrir kosningar 25. september 2021 var hún þráspurð um viðskipti sín með bréf í Kvikubanka, þar sem hún starfaði. Hún vildi engu svara fyrir kosningar, en að þeim loknum fékk hún drottningarviðtal í Silfrinu.""
Hvers vegna neitaði kratinn Kristrún að upplýsa um ofsagróða sinn á verðbréfum í Kviku fyrir kosningar í september 2021 ? Kannski þótti kratanum það ekki vænlegt til vinsælda og atkvæðaveiða í kosningum ? Þetta vitnar um óhreint eðli hennar og óheiðarleika gagnvart kjósendum, þótt hún nú ásaki aðstandendur útboðsins á fimmtungshluti ríkisins í Íslandsbanka um skort á gagnsæi. Sá skortur er uppspuni hennar, en ekki nóg með það, heldur hefur hún sýnt af sér tvískinnung með því að mótmæla söluferlinu ekki hástöfum fyrir útboðið, en standa svo á öndinni af vandlætingu eftir útboðið. Ef hún telur einfaldlega engan tíma heppilegan til að losa um bundið fé ríkisins í fyrirtækjum í samkeppnisrekstri, þá væri heiðarlegra af henni að segja það hreint út í stað þess að sá tortryggni um framkvæmd útboðsins. Í hvaða gróðabralli stóð þessi krati ? Það var ekkert smáræði:
"Björn heldur áfram og segir, að í Viðskiptablaðinu hafi viðskiptum Kristrúnar verið lýst á þennan hátt: "Hún fékk að kaupa áskrift að kaupum á 10 milljónum hluta í bankanum á ákveðnu gengi á fyrirfram ákveðnum dagsetningum gegn hóflegri greiðslu. Myndi þróun á gengi bréfa bankans verða hagfelld - gætu þessi áskriftarréttindi skapað gríðarlega mikinn hagnað, eins og kom á daginn: Þrjár milljónir króna urðu að áttatíu."
MISK 80/MISK 3 = 27 Þetta er með betri ávöxtun, sem sézt hefur, enda býðst hún ekki hverjum sem er. Téð Kristrún er forréttindaspíra, sem nú kastar steinum úr glerhúsi yfir skjótfengnum gróða annarra, sem þó bliknar í samanburðinum við gróða Kristrúnar, og þessir aðrir nutu engra forréttinda, heldur spiluðu eftir almennum leikreglum, sem Alþingi var rækilega upplýst um. Hvers vegna þyrlar hún upp þessu moldviðri núna ? Það er af ómerkilegasta tagi, enda kosningar í nánd.
""Nú býsnast Kristrún mjög yfir skjótfengnum gróða þeirra, sem keyptu bréf í Íslandsbanka 22. marz [2022] og segir á visir.is 12. apríl [2022], að stór hópur þeirra rúmlega 200, sem keyptu bréfin, hafi "komið inn aðeins fyrir skjótfenginn gróða", og sé ávöxtun þeirra "ævintýraleg". Fyrir Kristrúnu, sem breytti þremur milljónum í áttatíu með hlutabréfaviðskiptum er þarna mjög sterkt að orði kveðið um gróða annarra af slíkum viðskiptum", skrifar Björn."
Þessi gagnrýni Kristrúnar Frostadóttur er helber hræsni. Hún fór langt með að setja Íslandsmet í hræsni í dymbilvikunni og lætur eins og það sé glæpsamlegt að selja nýkeypt hlutabréf í Íslandsbanka með nokkurra % hagnaði. Í útboðsskilmálunum var það ekki bannað. Hvers konar reginvitleysu er þessi fyrrverandi bankadama að sviðsetja hér ? Hjá henni fara tal og mynd alls ekki saman. Hún starfaði áður hjá einkabanka og hrærir nú í gruggugu vatni, vegna þess að undir fölsku flaggi háværrar gagnrýni, sem er stormur í vatnsglasi, leynist hin kommúnistíska hugmyndafræði um, að öll atvinnutæki og fjármálastarfsemi eigi að vera á höndum ríkisins. Skyldi þessi hræsnari dymbilvikunnar nú sem þingmaður vera orðin að bráð þeirrar gjörsamlega misheppnuðu og hættulegu hugmyndafræði sameignarstefnunnar, eða er hún loddari og lýðskrumari af Guðs náð ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2022 | 10:17
Raforkuyfirvald án innlends eftirlits
Eftir fólskulega innrás rússneska hersins í friðsamt lýðræðisríki, Úkraínu, eru veður válynd. Þing og ríkisstjórn landsins voru vel meðvituð um, hversu berskjaldað landið væri, og biðluðu þess vegna ítrekað um þá vernd, sem þjóðir fá við inngöngu í NATO, en úkraínska þjóðin var skilin ein eftir á köldum klaka, svo að hinn kaldrifjaði forseti Rússlands stóðst ekki mátið, heldur gerði allsherjar árás á Úkraínu 24.02.2022 og reyndi þannig með svívirðilegum aðferðum og voveiflegum blóðsúthellingum að svæla landið undir kúgunarvald rússnesku stjórnarinnar. Þorparastjórn auðklíku í Kreml má ekki verða kápan úr þessu klæðinu nú á 21. öldinni. Árásarríki má ekki takast að virða viðurkennt fullveldi Evrópulands að vettugi og fara yfir nágrannaland með blóði og brandi, eldi og brennisteini. Þessi hegðun er fullkomlega óásættanleg, og þess vegna Rússar nú óalandi og óferjandi.
Hagkerfi heimsins mun gjörbreytast til hins verra við þennan geðveikislega gjörning. Vígbúnaður mun magnast í Evrópu og víðar. Verðbólga mun magnast og hagur þjóða mun versna, m.a. vegna orkuverðshækkana og matvöruverðshækkana. Frændur vorir, Norðmenn, munu vegna afltenginga sinna (í eigu Statnett) verða fyrir barðinu á hækkunum raforkuverðs, en olíusjóður þeirra mun fitna ótæpilega af sölu gass og olíu á þessu ári og lengur. Þrýst er á Norðmenn að framleiða nú þessa vöru undir skóslit og beinbrot.
Innrásin í Úkraínu hófst skömmu fyrir birtingu 24.02.2022. Daginn eftir kostaði hver kWh 24 % meira í Ósló en 5 dögum áður og 7 % meira í Þrándheimi, og hækkunin var þá rétt að hefjast.
Eðlilega er að sama skapi vaxandi óánægja með raforkuverð í Noregi (Norðmenn hita húsnæði sitt yfirleitt með rafmagni), sem er margfalt hærra en Norðmenn hafa átt að venjast og þeir telja, að þeim beri réttur til sem eiganda vatnsorkunnar. Þeir kenna Orkupakka 3 (OP3) um þessa stöðu. Morten Harper hjá samtökunum "Nei til EU" ritaði 24.02.2022 fróðlega grein í Klassekampen um þá staðreynd, að "Statnett" lýtur nú stjórn Orkulandsreglarans og ACER-Orkustofu ESB:
"Raforkuyfirvald án eftirlits".
"Forstjóri Statnetts, Gunnar G. Lövås, skrifar í grein um rafmagnsverð og rafmagnskauphöll, að "norsk yfirvöld með RME-deild NVE (orkulandsreglari innan Orkustofnunar Noregs) fari með eftirlitshlutverk með raforkukauphöllinni" (Klassekampen 7. febrúar 2022). Hvernig getur Lövås haldið því fram, að "norsk yfirvöld" stundi slíkt eftirlit, þegar regluverk EES segir, að RME, orkulandsreglarinn, sé óháður stjórnkerfi ríkisins ?
Fyrrum Raforkumarkaðseftirliti var breytt í RME (Reguleringsmyndighet for energi) áður en Orkupakki 3 var leiddur í lög í Noregi. Þótt RME sé hluti af skrifstofuhaldi NVE, er RME óháð valdeining, sem stjórnar og ákvarðar skilmála fyrir flutnings- og dreififyrirtækin, virkjanafyrirtækin og raforkumarkaðinn. RME ber að hafa eftirlit með, að reglum orkupakka ESB sé framfylgt, og RME á að framkvæma í Noregi samþykktir frá ESB-orkustofunni ACER, sem koma til Noregs [og Íslands] með milligöngu ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA.
Í Raforkumarkaðstilskipun OP3 er slegið föstu í kafla 35, að RME skuli vera algerlega óháð norskum yfirvöldum og taki ekki við fyrirmælum frá þeim. Þetta er njörvað niður í orkulögunum, gr. 2-3, 2. lið: Orkulandsreglarinn og úrskurðarnefnd deilumála um orkumál eru óháð, og viðkomandi yfirvald getur ekki gefið þeim fyrirmæli um tilhögun mála.
Það er EES-regluverkið, sem stjórnar RME. Norsk yfirvöld [og íslenzk] hafa með lögleiðingu OP3 afsalað sér möguleikanum til áhrifa eða yfirstjórnunar. Það er bæði villandi og rangt að lýsa RME sem "norsku" stjórnvaldi. Til að endurheimta stjórnunar- og eftirlitshlutverk ríkisins þarf að endursemja um orkuregluverkið í EES-samninginum."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2022 | 11:10
Skipbrot Rússlands
Feigðarflan fasistans á forsetastóli, sem sölsað hefur undir sig öll völd í Rússlandi og ráðizt á nágrannalönd Rússlands, Georgíu, Tétseníu og síðar Úkraínu 2014 og með allsherjarinnrás þar tæplega 200 k manna hers þann 24. febrúar 2022, hefur þegar dregið Rússland siðferðilega og efnahagslega gjörsamlega niður í svaðið, þaðan sem landið mun ekki eiga afturkvæmt í mannsaldur eða meir.
Rússland er einangraðra en það hefur verið frá því, er Jósef Stalín, fjöldamorðingi, var við völd í skjóli kommúnistaflokksins í Kalda stríðinu við Vesturveldin. Þá mun þó hafa verið hagvöxtur, en samdrætti í vergri landsframleiðslu Rússlands er spáð 10 %-20 % árið 2022 m.v. 2021, og atgervisflótti er hafinn. Einræðisríkið Kína virðist jafnvel vera hálfvolgt í stuðningi sínum við ofbeldishegðun Rússlands, og Indverjar, sem jafnan hafa notið stuðnings Kremlarstjórnar í átökum sínum við nágrannana, eru tvístígandi í afstöðu sinni til Rússlands núna. Rússland, ríkisstjórn og herstjórn, hafa gert herfileg mistök á öllum sviðum, er lúta að þessum hernaðarátökum, og berað sig sem gegnumrotið, siðspillt og veikt ríki, sem fellur nú í fúafen þriðjaheims ríkja.
Verkfræðiprófessor Jónas Elíasson skrifaði af sinni glöggskyggni grein í Morgunblaðið þann 7. apríl 2022, sem hann nefndi:
"Vegferð Pútíns".
Undir millifyrirsögninni:
"Aðgerðir Pútíns styrkja NATO og eyða evrópskum sósíalisma",
stóð þetta:
"Þau ríki, sem vildu sýna Rússum hlutleysi eða vináttu, ganga nú í NATO. Ef Pútín óttaðist NATO áður, ætti hann að vera alvarlega hræddur núna. Framferði Rússa skapar gríðarlegan pólitískan vanda fyrir evrópska vinstrimenn, gæti einfaldlega þýtt endalok vinstri sósíalisma í Evrópu.
Aðalmál þeirra, hatrið á bandarískum kapítalisma, hefur leitt þá yfir í ósjálfrátt, og stundum ómeðvitað, Rússadekur og kröftuga andstöðu við NATO, en allt þetta er nú að gufa upp [og rjúka] út í veður og vind. Evrópskir stjórnmálamenn munu ekki komast upp með Rússadekur, og evrópskir vinstrimenn verða að snúast á sveif með NATO, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Lítil grein á forsíðu Fréttablaðsins 09.03.2022 sýnir, að þetta vandamál á ekki síður við um íslenzka sósíalista. Pútín á eftir að fara verr með evrópska vinstrimenn en Stalín í Finnagaldrinum, uppreisnum í Austur-Þýzkalandi, Ungverjalandi og Póllandi. Stalín stal korni Úkraínu 1931-1933, og 3 milljónir [manna] dóu úr hungri. Þetta man Úkraína, svo [að] á hvaða vegferð er Pútín."
Austurríki stendur utan NATO og virðist ekki vera á leiðinni inn fyrir, en það virðast hins vegar bæði Finnland og Svíþjóð vera. Finnland var hluti af ríki zarsins, og Ráðstjórnarríki Stalíns réðust á landið 30.11.1939, og stóð Vetrarstríðið yfir til 13.03.1940. Þar af leiðandi er Finnland í stórhættu gagnvart fasistaríki Putins, sem hikar ekki við landvinningastríð til að endurvekja ríki zarsins.
Í áróðri Kremlverja hefur því verið haldið fram, að Rússland eigi rétt á áhrifasvæðum við landamæri sín. Þetta er ekkert annað en skálkaskjól til að eiga auðveldar með að hremma þessi lönd með valdi við tækifæri. Þetta hefur nú runnið upp fyrir meirihluta Finna, sem sjá sér ekki annan kost vænni til að styrkja öryggi sitt en að ganga í NATO. Það mun verða auðsótt, og verða þeir boðnir velkomnir, þótt björninn í austri muni reka upp ramakvein og skekja klærnar. Það verður ein af langtíma afleiðingum þess axarskapts einræðisherrans Putins að gefa dauðann og djöfulinn í fullveldi Úkraínu, að þjóðir á áhrifasvæði Rússlands brjótast undan því og leita undir verndarvæng Vesturveldanna.
Nú er sú gamla grýla þokuhöfða vinstrisins dauð, að Bandaríkin (BNA) séu árásargjarnasta stórveldið, sem minni ríkjum stafi mest hætta af. Þar með gufar upp goðsögnin um auðvaldið, sem mati krókinn með hergagnaframleiðslu. Þrjóturinn Vladimir Putin er valdur að því, að BNA stíga nú fram sem bólvirki frelsins og baráttunnar við landvinningamenn og sem kjölfestan í varnarbandalagi vestrænna þjóða, NATO. Allt snýst í höndunum á ódáminum í Kreml.
"Í síðustu heimsstyrjöld börðust Úkraínumenn af mikilli hörku gegn Þjóðverjum og áfram gegn Rússum allt til 1953. Vesturlönd komust ekki upp með annað en að styðja þá baráttu, leynt, ef ekki ljóst. Munu Rússar sætta sig við, að skæruliðar í Úkraínu fái skjól, vistir og búnað í NATO-löndum og herji á Rússa bæði í Úkraínu og Hvíta-Rússlandi ? Nei, það mun Pútín ekki sætta sig við. Rússar fengu að leika þetta hlutverk í stríðunum í Kóreu og Víetnam, en Vesturlönd fá ekki að gera þetta núna, ekki á landamærum Rússlands. Þá fara Rússar út fyrir landamæri Úkraínu með hernaðinn, taka Moldóvíu, einangra Eystrasaltslöndin með [því] að loka Suvlaki-hliðinu, og það leiðir til afskipta NATO og heimsstyrjaldar.
Hvað getur komið í veg fyrir þetta ? Menn einfaldlega vona, að valdadagar Pútíns verði ekki miklu lengri, sem er reyndar spurningin um, hve lengi hann hefur stuðning hersins, eða hvort honum verður komið frá með þeim aðferðum, sem hann hefur beitt á aðra. En ef það gerist ekki og Pútín verður áfram við völd, þá er gríðarleg stríðshætta fram undan."
Líklega er meiri spurning um heilsufar mafíuforingja ólígarkanna en hvort tekst að koma honum fyrir kattarnef. Af útlitinu að dæma er maðurinn sjúkur, enda fylgja honum 9 læknar við hvert fótmál. Hann er auðvitað vænisjúkur og hreinsaði meira að segja nýlega til í FSB, utanríkismáladeildinni, þar sem hann sjálfur starfaði, þegar Boris Jeltsín var bent á gaurinn sem forsætisráðherraefni hjá sér laust fyrir aldamótin.
Með vísun til ofangreindrar tilvitnunar í prófessor Jónas er ljóst, að á miklu ríður, að Úkraínumönnum takist að koma þannig höggi á rússneska herinn, að hann hörfi frá austurhéruðunum og til baka á sína heimatorfu, eins og gerðist norður af Kænugarði um mánaðamótin marz-apríl 2022. Í þessu ljósi er óafsakanlegt, að kratinn Olaf Scholz skuli nú þvælast fyrir því, að Bundeswehr láti brynvarða trukka og skriðdreka og önnur þungavopn af hendi rakna við Úkraínumenn. Utanríkisráðherra hans, græningjanum Önnu Lenu Bärbock, er tekið að leiðast þóf karlsins á kanzlaraskrifstofunni og talar nú eindregið fyrir því, að Þjóðverjar taki sig á og sendi þungavopn austur til Úkraínu. Þegar menn segja A, þ.e. "Zeitenwende" (vatnaskil), verða þeir að vera menn til að segja B líka. Í ljósi þess, að Boris Johnson var nýlega gestur Volodimirs Zelenski, forseta, í Kænugarði og lagði þar á ráðin um hergagnasendingar til Úkraínumanna að beiðni Zelenskis, kemur loðmullukratinn í Berlín alveg sérstaklega illa út.
Þjóðverjar eru komnir í slæmt ljós fyrir undirlægjuhátt við Rússa, sem þeir misreiknuðu algerlega í samskiptum sínum við þá. Þeir skilja ekki hugsunarganginn í Moskvu, enda er hann forneskjulegur og algerlega óraunsær, tragíkómisk hugmyndafræði um mikilleika Rússlands, sem er hrein firra.
Þótt Frank-Walter Steinmeier, forseti Sambandslýðveldisins, hafi séð að sér eftir hina svívirðilegu innrás glæpahyskisins og lygalaupanna í Kreml 24.02.2022, var heimsókn hans afþökkuð í Kænugarði. Það ætti að verða þýzku stjórninni verðugt umhugsunarefni, en Steinmeier, ásamt Gerhard Schröder, krata og fyrrum kanzlara, var einn helzti talsmaður samstarfsverkefnis Rússa og Þjóðverja, Nord Stream 2, og aðstandandi hins misheppnaða Minsk-samkomulags á milli Úkraínumanna og Rússa 2015. Við þessar aðstæður sér líklega enginn þýzkur ráðherra sér fært að heimsækja Kænugarð, sem er miður.
Þann 5. apríl 2022 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Geir Waage, "pastor emeritus", undir fyrirsögninni:
"Skildi leiðir við Minsk ?"
Þar örlar víða á samúð með Rússum og fremur hornóttum ummælum í garð Úkraínumanna og ekki laust við, að nokkurri sök sé velt yfir á Vesturlönd á því, hvernig komið er. Þessi afstaða kemur spánskt fyrir sjónir hér, þar sem Davíð berst við Golíat fyrir varðveizlu fullveldis þjóðar sinnar. Ef það eru rök í málinu Rússum í vil, að Úkraína hafi áður verið hluti af Rússaveldi, Guð hjálpi þá Íslendingum og öðrum, oft á tíðum smáríkjum, sem rifið hafa sig lausa úr ríkjasambandi við mun mun fjölmennari þjóðir, oft óhamingjusömu kúgunar- og arðránssambandi. Berum niður í grein prestsins:
"Svo sem komið hefur á daginn, hafa efndir Minsk-samkomulagsins orðið verri en engar. Úkraína hefur virt það að vettugi. Frakkar, Þjóðverjar og ÖSE hafa ekki hafzt að. BNA hafa ýtt fram sókn NATO í austur. Rússar rjettlæta árás sína á Úkraínu nú m.a. á vísun til þessa. Eins og nú er komið málum, er vandsjeð, hvar finnast kunni hlutlægt mat á þeirri rjettlætingu."
Þarna er kíkirinn settur fyrir blinda augað, þegar horft er til austurs. Staðreyndum er snúið á haus að hætti rússnesku áróðursvélarinnar. Árásaraðilinn er gerður að fórnarlambi. Látið er í veðri vaka, að Bandaríkjamenn láti NATO gleypa þjóðir Austur-Evrópu. Þær þrábáðu um að komast inn undir verndarvæng NATO, senda þekktu þær Rússa af eigin raun og vissu fullvel, að þeir væru árásargjarnir og til alls líklegir, eins og margsinnis hefur komið í ljós. Því miður komu smjaðurskjóður á borð við Angelu Merkel í veg fyrir aðild Úkraínu, og þess vegna stendur nú hinn siðmenntaði heimur á öndinni yfir illvirkjum og níðingslegri framgöngu rússneska hersins í Úkraínu. Það á að láta af "Stokkhólmsheilkenninu" svo nefnda og hætta að taka mark á hótunum mafíunnar í Kreml.
"Í grein hjer í blaðinu hinn 21. marz [2022] rifjaði eg upp ummæli Henrys Kissingers í grein í Washington Post af því tilefni, að hann gaf út bók sína, World Order", árið 2014. Þar minnir hann á, að Úkraína sje sögulega og menningarlega órjúfanlegur hluti rússneskrar sögu og menningararfs."
Það er ekki víst, að minningu dr Henrys Kissinger, utanríkisráðherra Richards Nixon, Bandaríkjaforseta, sé greiði gerður með því að rifja þessa skoðun hans upp núna, sem hefur eldst mjög illa, enda mörkuð af hugmyndafræðinni um ógnarjafnvægi á milli Ráðstjórnarríkjanna og Bandaríkjanna, sem skipti heiminum á milli sín í áhrifasvæði til að varðveita friðinn sín í millum. Það liggur í hlutarins eðli, að þeir sem eiga að ráða stjórnskipun sinni og afstöðu Úkraínu til annarra landa, eru Úkraínumenn sjálfir. Það er óréttlætanlegt, að önnur ríki reyni að ráðskast með fullveldi Úkraínu. Úkraínumenn hafa reynzt meta fullveldi lands síns svo mikils, að þeir eru tilbúnir að úthella blóði sínu til að viðhalda því. Allt annað er aukaatriði og að reyna að færa einhver söguleg rök fyrir öðru er bull ættað frá Moskvu og söguleg fölsun í þokkabót.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.4.2022 | 10:11
Efnahagsátök og styrjaldarvafstur
Stríðið um Úkraínu 2022 eru mestu stríðsátök í Evrópu síðan 1945, þegar Heimsstyrjöld 2 lauk. Það er athyglisvert, að nú eru Úkraínumenn og Rússar í aðalhlutverkunum, og þeir léku stór hlutverk í heimsstyrjöldinni 1941-1945. Úkraínumenn voru kúgaðir og hart leiknir í ríkjasambandi Ráðstjórnarríkjanna undir Jósef Stalín, og margir þeirra tóku Wehrmacht fagnandi sem frelsurum 1941, en Schutzstaffel (SS) og GESTAPO Heinrich Himmlers gengu þannig fram á hernámssvæðunum, að Úkraínumenn snerust gegn hernámi Þriðja ríkisins, og kunni Wehrmacht framgöngu Himmlers og manna hans litlar þakkir fyrir, því að Úkraínumenn gerðu Wehrmacht lífið miklu erfiðara en ella. Nú hamrar ódámurinn Vladimir Putin á því við landsmenn sína, að Rússland eigi aftur í höggi við nazista handan landamæra sinna við Úkraínu og Eistland, og bráðum kemur áreiðanlega að Lettlandi og Lithauen o.fl. Sannleikurinn er sá, að yfirgangur og stríðsglæpir Putins minna í mörgu á aðfarir Foringja Þriðja ríkisins. Mannfyrirlitning þeirra og miskunnarleysi beggja er slík, að hvorugur getur talizt mennskur og má þar af leiðandi telja vitstola.
Stríðið um Úkraínu núna er líka háð af Vesturveldunum, þótt ekki sé það enn með hermönnum á vígvellinum eða á höfunum, en að því getur hæglega komið m.v. málflutning höfuðpaurs stríðsglæpamannanna í Kreml. NATO er núna að búa sig undir vopnuð átök við Rússland, varnarstríð, og þess vegna ættu menn fyrir löngu að vera hættir að taka mark á hótunum þorparans um, að afhendi Vesturveldin Úkraínumönnum sóknarvopn, líti hann á það sem stríðsyfirlýsingu NATO. Vesturveldin verða að venja sig af þeim kæk að láta þetta gegnumrotna ríki stjórna gerðum sínum. Ekkert stöðvar einræðisherra með guðlega köllun til illvirkja annað en valdbeiting máttar, sem hefur í fullu tré við fólið.
Efnahagsþvinganir Vesturveldanna gagnvart Rússlandi eru sögulega einstæðar, og áhrif þeirra á Rússland munu ráða miklu um Úkraínustríðið og átök í heiminum næstu árin. Þær hafa nú þegar skapað öngþveiti í þessu trnUSD 1,6 hagkerfi og valdið rétt einni hótuninni frá forseta Rússlands; í þetta sinn var það hótun um beitingu kjarnorkuvopna. Þetta var heimskulegasta hótunin af þeim öllum og sýnir dómgreindarleysi þessa einræðisherra. Hann skilur ekki, að hann hefur glatað stöðu sinni út á við. Vestrænir leiðtogar skilja nú flestir loksins, að friðsamleg sambúð við stríðsglæpamennina í Kreml er útilokuð. Ef Rússar ekki losa sig við illmennið og draga sig alfarið út úr Úkraínu með sinn her, þá verður öngþveiti í Rússlandi, og landið verður þriðjaheimsland, sem mun ekki eiga sér viðreisnar von um áratugaskeið.
Snöggum umskiptum til hins verra í Rússlandi í kjölfar efnahagsþvingana Vesturveldanna er tekið eftir um allan heim, ekki sízt í Kína, þar sem aðalritari kommúnistaflokksins ætlar að skilja eftir sig þá arfleifð að hafa fært Taiwan undir vald Kínastjórnar í Peking. Vestrið verður að vinna þetta efnahagsstríð gegn Rússlandi og síðan að koma á laggirnar lagagrundvelli, sem ávarðar skilyrðin, sem þarf að uppfylla til að beita megi mismunandi stigum þessa öfluga tóls.
Þann 26. febrúar 2022 fóru Vesturveldin yfir Rúbíkon ána í anda rómverska herforingjans Júlíusar Cesars forðum, þegar efnahagsþvinganir voru settar á 11. stærsta hagkerfi heims. Með því að gera viðskipti vestrænna fyrirtækja við rússneska banka ólögleg, nema á sviði orkuviðskipta, og útiloka þá frá alþjóðlega greiðslumiðlunarkerfinu SWIFT, stórminnkaði fjármagnsflæði yfir rússnesku landamærin. Frysting þess hluta gjaldeyrisforða Seðlabanka Rússlands, sem geymdur er á Vesturlöndum, hindrar aðgengi rússneska ríkisins að rúmlega helmingi þessa mrdUSD 630 forða. Rúblan féll um tæplega 30 % á fyrstu 10 dögum stríðsins, en mun eitthvað hafa hjarnað við um sinn vegna tekna rússneskra olíu- og gasfyrirtækja, en fyrir gasið til Evrópu fá þeir um 1 mrdUSD/sólarhr. m.v. núverandi gasverð. Meiri verðbólga geisar nú í Rússlandi en víðast hvar annars staðar og bætist við 10 % lækkun lífskjara í Rússlandi frá 2014, er Rússar lögðu undir sig Krím og fengu á sig vægar viðskiptaþvinganir. Hlutabréfavísitalan í Moskvu hefur lækkað um a.m.k. 90 % frá 24.02.2022, og vöruskortur hefur hafið innreið sína.
Rússland er ríki á fallanda fæti(failed state), því að það er þegar gjaldþrota pólitískt og bráðlega efnahagslega. Það er dæmigert fasistaríki, þar sem mikilleiki Rússlands er hafinn upp til skýjanna með aðstoð rétttrúnaðarkirkjunnar, en þessi mikilleiki er innantómur, því að hann er reistur á hernaðarmætti, sem er ekki fyrir hendi. Putin sigar hernum á lítil ríki í grennd, s.s. Georgíu og Tétseníu, og nú stærra ríki, sem hann taldi mundu verða sér auðveld bráð, alveg eins og Mússólíni á sinni tíð. Sá var gerður afturreka úr Abbessyníu í NA-Afríku (Eþíópía-Eritrea), og Þjóðverjar urðu að bjarga ítalska hernum undan Grikkjum vorið 1941, sem tafði "Operation Barbarossa" um örlagaríkar vikur.
Nú hefur Úkraínumönnum tekizt að eyða þriðjungi rússneska hersins, og framganga hans í Úkraínu sýnir engan mikilleika, heldur þvert á móti algera lágkúru á vígvellinum og níðingshátt gagnvart almennum borgurum. Það er ekkert eftir af Pótemkíntjöldum fastaleiðtogans Putins. Það er ekki hægt að gera neina samninga við hann; það er aðeins hægt að sigra hann.
Í Kænugarði er aftur á móti fram kominn pólitískur leiðtogi Vestursins í stríði, sem líkja má við Winston Churchill 1939. Fyrsti forsætisráðherra Rússlands eftir fall kommúnistastjórnarinnar 1991 var gagnmerkur maður, sem lézt fyrir aldur fram 2009. Árið 2007 gaf Yegor Gaidar út bók, "Collapse of an Empire: Lessons for modern Russia". Þar greinir hann hættuna, sem umheiminum stafar af Rússum undir einræðisstjórn. Reynt verði með öllum tiltækum ráðum að ná ítökum á öllu yfirráðasvæði Ráðstjórnarríkjanna. Nú hefur hrollvekjuspá Yegors Gaidars rætzt. Vesturveldin verða að knýja fram skilning á því í Kreml, að öllu afli Vesturveldanna verður beitt til að koma í veg fyrir, að fasistastjórninni í Kreml, blóðugri upp að öxlum, takist ætlunarverk sitt. Ef eitt ríki fellur, bíða hinna sömu örlög. Úkraínumenn berjast nú ekki einvörðungu fyrir föðurland sitt, heldur hinn lýðræðislega heim allan.
Ef Vestrinu tekst að ráða niðurlögum hinna illu afla í Kreml með aðgerðum sínum (til þess þarf að draga verulega úr eldsneytiskaupum af Rússum), verða langtímaáhrifin af því veruleg. Heimurinn er ókræsilegur, og ýmis ríki munu þá reyna að smeygja sér út úr vestrænu fjármálakerfi. Slíkt dregur úr áhrifum þvingunaraðgerða og mun leiða til breyttra heimsviðskipta (End of Globalisation). Á 4. áratugi 20. aldarinnar var uppi ótti við viðskiptabönn samfara uppgangi einræðis og efnahagslegra áhrifasvæða.
Óttinn við þetta efnahagsvopn verður mestur í einræðisríkjum, en á þeirra snærum er nú helmingur trnUSD 20 gjaldeyrissjóða og varasjóða ríkisstjórna heimsins. Þótt Kínastjórn muni geta valdið Vestrinu og bandamönnum vestrænna ríkja (lýðræðisríkjunum) gríðarlegu tjóni með því að stöðva afhendingu aðfanga til þeirra, ef Kínaher ræðst á Taiwan, gæti Vestrið þá fryst varasjóð Kínastjórnar upp á trnUSD 3,3. Jafnvel Indverjar, sem enn hafa neitað að fordæma innrás Rússa í Úkraínu, hafa ástæðu til að íhuga stöðu sína í þessu ljósi. Á næstu 10 árum gætu tæknibreytingar leitt af sér þróun peningakerfis, sem gerir löndum kleift að sniðganga vestrænt fjármálakerfi. Kínverska stafræna mynttilraunin hefur nú 261 milljón (M) notendur. Núna er erfitt að koma trilljónum bandaríkjadala fyrir til ávöxtunar utan vestrænna markaða, en í tímans rás munu fleiri ríki e.t.v. reyna að koma varasjóðum sínum víðar fyrir með fjárfestingum.
Klofningur fjármálaheimsins virðist vera óhjákvæmilegur. Með víðtækari og áhrifameiri notkun viðskiptaþvingana sem vopns í pólitískri baráttu við andstæðinga eiga Vesturveldin á hættu, að fleiri ríki reyni að rjúfa sig frá vestrænu fjármálakerfi en æskilegt þykir. Þess vegna þurfa Vesturlönd að afloknum núverandi átökum við Rússland að leitast við að koma sér upp einhverju regluverki um þessar þvingunarráðstafanir. Bitlitlar þvingunarráðstafanir ætti að forðast. Víðtækar og djúptækar þvingunarráðstafanir með lömunaráhrif að hætti viðskipta- og fjármálahamlanna gegn Rússlandi ætti aðeins að vera unnt að beita gegn árásaraðila, sem hefur ólögmætt stríð að alþjóðalögum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.4.2022 | 13:10
Tilvistarhætta stafar af Rússlandi undir alræðisstjórn
Úkraínuher vann sigur á rússneska hernum í um 5 vikna stríði um Kænugarð frá upphafi svívirðilegrar innrásar Rússlands í Úkraínu 24. febrúar 2022. Þetta er saga til næsta bæjar, og þessum hernaðarátökum á eftir að gera góð skil, en þau munu vafalaust fara í sögubækurnar á meðal glæstustu hernaðarafreka. Sérstaklega verður fróðlegt að sjá, hversu stórt hlutverk öflug samskiptakerfi léku, AWACS-gagnaöflunar- og samskiptaflugvélar Bandaríkjamanna og drónar af öllum gerðum, jafnvel leikfangadrónar úkraínskra borgara voru notaðir til að staðsetja óvininn, svo að unnt væri að gera að honum markvissa atlögu með öflugum varnarvopnum frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýzkalandi og e.t.v. víðar að.
Rússaher hundskaðist laskaður norður yfir landamærin til Hvíta-Rússlands og Rússlands með skottið á milli lappanna og skildi eftir sig blóði drifna slóð. Komið hefur í ljós, að hann hefur framið níðingsverk á varnarlausum borgurum og framið þjóðarmorð á hersetnum svæðum. Orðstír rússneska hersins liggur í valnum, og Rússland er útskúfað og verður lengi. Þar eru ómenni á ferð og stjórnendurnir upp til forseta Rússlands eru viðbjóðslegir stríðsglæpamenn.
Það er aumkvunarvert að heyra hérlendis enduróm endalauss lygaþvættings frá Moskvu, þar sem þrætt er fyrir meingerðir óþverranna, t.d. við óbreytta borgara í Bútsja. Ósvífnin og forstokkunin er svo alger, að Úkraínumönnum er kennt um óhugnaðinn. Enginn heiðvirður maður getur haft snefil af samúð með lygamörðunum í Moskvu. Þýzka leyniþjónustan hefur undir höndum hljóðupptökur af samtölum rússneskra hermanna, þar sem einn segist hafa skotið niður mann á reiðhjóli. Mynd af þeim vettvangi í Bútsja hefur birzt í íslenzkum dagblöðum. Þá er til myndupptaka úr dróna, sem sýnir rússneska hermenn drepa vegfarendur í Bútsja. Andspænis þessum sönnunargögnum tjáir ekki lygalaupunum Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Dimitry Peskov, málpípu Putins, að halda áfram lygavef sínum um, að rússneski herinn beini ekki vopnum sínum að saklausum borgurum. Þvert á móti, rússneski herinn beitir skefjalausri tortímingar- og eyðileggingarstefnu í Úkraínu.
Nú ætla óþverrarnir að sleikja sár sín og síðan að auka liðssafnaðinn í Suð-Austur-Úkraínu. Þar er stór hluti íbúanna rússneskrar ættar, en það gildir líka um Maríupol, sem rússneski herinn hefur lagt í rústir. Rússneskumælandi hermenn Úkraínuhers hafa ekki síður barizt af hreysti gegn rússneska innrásarhernum en þeir, sem eiga úkraínsku að móðurmáli, og rússneskumælandi borgarar hafa einnig veitt innrásarliðinu harðvítuga andspyrnu.
Rússlandsstjórn er ábyrg fyrir stríðinu, sem staðið hefur yfir í Austur-Úkraínu síðan 2014. Nú ætlar hún að styrkja innrásarliðið þar og leggja undir Rússland enn stærri sneið af Úkraínu en henni tókst í 8 ára stríðsrekstri þar, sem hefur verið rekinn með svívirðilegum hætti, eins og engum þarf að koma á óvart núna. Það er yfirvarp eitt og haugalygi, að Rússlandsstjórn sé þar að vernda rússneskumælandi fólk gegn nazistum. Aðfarir Rússlandsstjórnar og Rússahers minna ekki á neitt meira en aðfarir Hitlersstjórnarinnar og SS-sveita Heinrich Himmlers í Úkraínu 1941-1944.
Ástæðan fyrir ásókn Rússlands í austurhéruðin er ekki umhyggja fyrir neinum íbúum þar, heldur sú, að í Austur-Úkraínu finnast auðlindir í jörðu, sem rússneskir ólígarkar vilja koma höndum yfir, og Putin er sennilega ríkastur af þeim öllum. Það getur enginn friður orðið um þá landvinninga, sem Vladimir Putin ætlar sér og ólígörkum sínum í Úkraínu. Hann mun ekki láta af sjúklegri landvinningaþráhyggju sinni fyrr en hann verður stöðvaður. Hann er þegar kominn á ruslahauga sögunnar. Það er sorglegt, að hann dregur Rússland með sér þangað.
Þann 24. marz 2022, mánuði frá upphafi hinnar alræmdu innrásar, birtist í Morgunblaðinu afar þörf og læsileg grein eftir Einar S. Hálfdánarson, hæstaréttarlögmann, undir umhugsunarverðri fyrirsögn:
"Vakna Vesturlönd ?".
Fyrirsögnin er af gefnu tilefni, því að Vesturlönd hafa sofið á verðinum og rekið bláeyga friðþægingarstefnu gagnvart Rússlandi, sem hefur snúizt um að eiga sem mest viðskipti við Rússland í von um, að friðaröflum þar yxi ásmegin og að landið mundi virða landamæri í Evrópu vegna mikilla viðskiptahagsmuna, sem í húfi væru. Skemmst er frá því að segja, að þessi fyrirætlun er öll runnin út í sandinn. Í Kreml nærðu menn allan tímann með sér landvinningadrauma, og nú er ljóst, að Vestrið er komið í tilvistarkreppu vegna blindunnar, sem það var slegið. "Ostpolitik" kratans Willy Brandt kom ekki í veg fyrir uppgang landvinningadrauma í Kreml, og Angela Merkel, þrátt fyrir mörg samtöl við Putin á þýzku og rússnesku, setti kíkinn fyrir blinda augað og gerði Þjóðverja mjög háða Rússum á viðskiptasviðinu.
Í raun eru Úkraínumenn núna að úthella blóði sínu fyrir Vestrið og vestræna lifnaðarhætti. Þess vegna ber varnarbandalaginu NATO og lýðræðislöndum utan þess að láta Úkraínumönnum í té allan þann stuðning, sem þau geta, á formi hergagna, loftvarnarbúnaðar, þjálfunar, mannúðaraðstoðar, hersjúkrahúsa og fjár. Á Svartahafi getur reyndar hæglega komið til átaka á milli NATO-flota og þess rússneska. Ef ekki tekst að reka Rússaher út úr Úkraínu, er bara tímaspurning, hvenær NATO lendir í beinum hernaðarátökum við Rússland. Þangað til Vestrið lætur Úkraínu í té næga aðstoð til að reka villimennina af höndum sér, verður að svara spurningunni í fyrirsögn Einars Hálfdánarsonar neitandi.
Téð grein Einars S. Hálfdánarsonar hófst þannig:
"Ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar (ÓRG), þar sem hann virtist kenna NATO um innrás Pútíns í Úkraínu, hafa að vonum vakið mikla athygli. Afstaða ÓRG á sér langan aðdraganda. Á 8. og 9. áratug áratug liðinnar aldar fór hann fyrir vinstrisinnuðum þingmannasamtökum, sem sáu þann kost vænstan að gera kröfur Rússlands í öryggismálum Vestur-Evrópu að sínum. Vestur-Evrópa mætti ekki koma fyrir nýjum varnarbúnaði, nema Rússland leyfði. Félagar ÓRG voru felldir af Bandaríkjaþingi, þegar Ronald Reagan komst til valda með yfirburðasigri á Carter og nýjum þingmeirihluta.-
Við tóku nýir, betri og friðsamari tímar, þar sem kommúnisminn var settur á sinn stað næstu 3 áratugina, en Arne Treholt skemur. ÓRG er enn á sama stað (og Arne reyndar líka) og hann þá var, hvað Rússland varðar. Heiðra skálkinn og hlýða Pútín."
Frá því að Pútín tók við af Boris Jeltsín sem forseti rússneska sambandsríkisins, hafa Vesturlönd einmitt fylgt kjörorðinu "Heiðra skaltu skálkinn, svo að hann skaði þig ekki", en 24. febrúar 2022 rann upp ljós fyrir vestrænum þjóðum, að þetta væri í grundvallaratriðum röng stefnumörkun og stórhættuleg fyrir öryggi Evrópu, því að lygalauparnir í Kreml væru bara í blekkingarleik og ætluðu sér að ráðast á nágranna sína og endurskapa Stór-Rússland, sem næði að landamærum Þýzkalands og jafnvel Ráðstjórnarríkin að járntjaldinu, sem klauf Þýzkaland.
Rússland var látið komast upp með að hafa neitunarvald um það, hvaða löndum, sem óskuðu aðildar að NATO, yrði hleypt þar inn. Þetta var gert á þeirri skökku forsendu, sem Angela Merkel studdi gegn vilja Bandaríkjanna (BNA), að Rússar ættu af öryggisástæðum rétt á áhrifasvæðum í kringum sig, þar sem þeim væri játað neitunarvald um öryggismál þessara áhrifasvæða. Þetta er Finnlandisering og nær engri átt, enda er komið í ljós, að hér er aðeins um skálkaskjól Rússa að ræða til að geta fært út kvíarnar án þess að lenda strax í beinum átökum við BNA.
Það á ekki lengur að taka mark á hræðsluáróðri Rússa. Þeir segjast núna sjá Finna, þegar þeir horfi til Finnlands, en gangi Finnland í NATO, muni þeir sjá þar óvini. "So what" ? Er ekki orðið ljóst núna, að eina vörn nágrannalanda Rússlands er NATO og nágrannar Rússa utan NATO eru annaðhvort orðin fórnarlömb þeirra eða munu verða það, hafi þau einhvern tímann áður verið undir rússneskri stjórn. Þannig væri óskandi, að Finnland sækti sem fyrst um aðild að NATO. Þeim verður tekið þar fagnandi.
Þannig eru það eins og hver önnur öfugmæli, ættuð úr lygamaskínu Kremlar, að NATO beri ábyrgð á innrás Rússahers í Úkraínu. Ef Úkraínu hefði verið hleypt inn í varnarbandalagið NATO 2008, eins og BNA vildu, hefðu Rússar ekki lagt í að ráðast á þetta lögmæta fullvalda lýðræðisríki 24. febrúar 2022.
Lok ágætrar greinar Einars voru þannig:
"Nú eru síðustu forvöð fyrir Evrópu. Ef Bretland og Bandaríkin hefðu ekki undirbúið Úkraínu fyrir innrás síðustu ár, væri draumur Pútíns orðinn að veruleika. Draumurinn um stórríkið. Allir, sem tengsl hafa við Eystrasaltslöndin og Úkraínu, hafa óttazt, að þeir dagar, sem upp eru runnir, kynnu að koma. En íbúarnir auðvitað mest. Það er súrrealískt að hlusta á Letta ræða flóttaleiðir, yrði á þá ráðizt.
Evrópubúar, ekki sízt Íslendingar, þurfa að horfast í augu við veruleikann. Hætta umræðum um fjölda kynjanna, kynlaus klósett og búningsklefa í sundlaugunum. Hætta að taka við ólöglegum innflytjendum, sem misnota flóttamannakerfið á kostnað flóttamanna o.s.frv. Framtíðarkynslóðir Evrópu eiga á stórhættu að verða undir í heiminum, verði raunveruleikinn ekki viðfangsefni stjórnmálanna á nýjan leik.
Er til of mikils mælzt, að Evrópa dragi úr hitun híbýla og minnki umferð og lækki hraða á vegum ? Efnahagur Rússlands bíður einungis viðráðanlegt tjón, ef orkukaupin hætta ekki. Bretland og Bandaríkin komu meginlandi Evrópu til hjálpar á síðustu öld. Heimurinn horfði upp á fjöldamorðingjana Lenín, Stalín, Maó og Hitler leika lausum hala. Nú hefur Pútín bætzt í þennan fríða flokk. Ekki má láta hann endurtaka leik hinna fyrrnefndu."
Frá 2014 hafa Úkraínumenn herzt í átökum við Rússa í Donbass- og Lughansk-héruðunum. Þeir hafa líka sjálfir þróað varnarkerfi, skriðdrekavarnir og loftvarnarbúnað, en jafnframt fengið ómetanlegar vopnasendingar frá Bandaríkjamönnum, Bretum, Áströlum, Þjóðverjum, Pólverjum, Tékkum, Rúmenum o.fl. Ef þeir eiga að geta sótt gegn Rússum á víðerni, þurfa þeir þó miklu meira, einkum loftvarnarkerfi, eins og t.d. Ísraelar eiga, skriðdreka (hver vegna ekki Leopard II ?), flugvélar og þyrlur. Sjálfboðaliðar af öðru þjóðerni hafa gefið sig fram til skráningar í úkraínska herinn, t.d. Hvítrússar.
Úkraínumenn úthella nú blóði sínu fyrir allan hinn frjálsa heim. Vesturlönd verða að skilja sinn vitjunartíma, láta Úkraínumönnum í té þann vopnabúnað, sem þeir fara fram á og skera á öll viðskipti við Rússland. Ekki má gera lítið úr áhrifamætti viðskiptabannsins, sem nú þegar er í gildi, og stutt er talið vera í greiðslufall rússneska ríkisins. Eftir friðarrof einræðisherrans Putins í Evrópu og hryðjuverk rússneska hersins í Úkraínu geta Vesturlönd ekki verið þekkt fyrir nokkur samskipti við þetta útlagaríki, og það verður þriðja heims ríki, gegnumrotið af spillingu og að mestu án ungs og hæfileikaríks fólks. Keisaraveldi á 21. öld gengur engan veginn upp.
Nú hefur um 400 rússneskum njósnurum verið vísað úr landi á Vesturlöndum. Ef við höfum engin samskipti við Rússland lengur, til hvers höfum við þá sendiráð starfandi í Moskvu ? Er þá ekki við hæfi að fara að fordæmi Litháa og vísa rússneska sendiherranum úr landi ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.4.2022 | 10:01
Söguskoðun Pútíns er röng
Vladimir Pútín, forseti Rússlands, sem nú hefur breytt Rússlandi í alræðisríki, hefur greinilega misreiknað sig á öllum sviðum, sem máli skipta í hernaðinum gegn vestrænum lifnaðarháttum og stjórnarháttum, sem nú geisar í Úkraínu. Mafíforinginn lætur nú óspart illsku sína og vesælmennsku bitna á óbreyttum borgurum Úkraínu. Þjóðarmorð opinberaðist, þegar hersveitir Úkraínu stökktu rögum Rússum á flótta úr nærsveitum Kænugarðs. Myndir og lýsingar frá Bútsja, norðvestan Kænugarðs, varpa ljósi á, hvílík ómenni er við að eiga í Moskvu og neðanjarðarbyrgi alræðisseggsins í Vestur-Síberíu.
Vesturlönd verða að bregðast við þeirri bráðu ógn, sem að þeim stafar, ekki aðeins með fordæmingu, heldur með því að láta Úkraínumönnum í té enn öflugri vopn og þjálfun á þau en þeir hafa nú, til að reka óþverrana af höndum sér, loftvarnarkerfi, flugvélar, herdróna, þyrlur og skriðdreka auk hersjúkrahúsa, matfanga og annars. Söder, formaður CSU-stjórnarflokks Bæjaralands, hefur hvatt þýzku ríkisstjórnina til að banna þýzkum fyrirtækjum kaup á rússnesku gasi, og Lambrecht, varnarmálaráðherra Þýzkalands, hefur hvatt Úrsúlu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, til að banna aðildarríkjunum að kaupa eldsneytisgas af illvirkjunum í Rússlandi. Rússland undir forystu illmennisins, sem hlaut uppeldi í KGB, leyniþjónustu Ráðstjórnarríkjanna, er á hraðri leið á ruslahauga sögunnar, þangað sem grimm árásarríki eiga heima.
Hugarfar Úkraínumanna er ólíkt Rússa, enda eru Úkraínumenn afkomendur Kósakkanna, sem voru hugrakkir bardagamenn og frelsisunnandi föðurlandsvinir, sem stunduðu meira lýðræði við val á forystumönnum sínum en Rússar nokkurn tímann hafa viðhaft. Alls engin lýðræðishefð er fyrir hendi í Rússlandi, en hún er aftur á móti fyrir hendi í Úkraínu, og þeir vilja allt til vinna, eins og þeir hafa sannað síðan 24. febrúar 2022, til að fá að lifa í frjálsu og fullvalda landi, lausir undan oki hinna frumstæðu Rússa, sem lengi hafa þjakað þá, síðast á Ráðstjórnartímanum, en á Stalínstímanum var þeim sýnt algert miskunnarleysi. Enginn vill búa við kúgun, allra sízt af hendi siðlauss undirmálsfólks. Pútín, garmurinn, sá lífskjarabatann, sem var að verða í Úkraínu undir lýðræðisstjórn, vissi að betri lífskjör í Úkraínu en í Rússlandi kynnu að vekja alvarlegar spurningar í huga rússnesks almennings um stjórnarfarið í Rússlandi, og hræddist samkeppni um lífskjörin. Nú hrapa lífskjör hratt í Rússlandi og atgervisflótti er hafinn þaðan. Vonandi tekst Úkraínumönnum með hjálp Vesturlanda að fleygja vörgunum á dyr, endurreisa land sitt og lifa í friði í góðu samneyti við lýðræðisríkin.
Kósakkarnir stóðu uppi í hárinu á stórvesírum Ottómanaríkisins, sem vildu leggja undir sig Úkraínu, og sendu súltaninum í Miklagarði háðulegt svarbréf við bréfi, þar sem þeim var skipað að leggja upp laupana og gerast þegnar Tyrkjasoldáns. Bréf þetta minnir á svar úkraínsku varðmannanna á eyju nokkurri í Svartahafi, undan strönd Úkraínu, til rússnesks herskips, sem skipaði þeim að gefast upp. Þessir varðmenn gáfu tóninn. Nú bendir ýmislegt til, að til átaka kunni að koma á milli NATO-flotans á Svartahafi og þess rússneska, því að sá síðar nefndi er tekinn að leggja tundurdufl úti fyrir strönd NATO-ríkis (Búlgaríu).
Þá má benda á Khmelnytski-uppreisn Úkraínumanna gegn innlimun lands þeirra í Pólsk-Lithúaníska stórríkið 1648 (lokaár 30 ára stríðsins) og stofnun sjálfstæðs hertogadæmis, sem þurfti þó vernd öflugra herveldis, og var þá leitað eftir henni hjá zarnum austur í Moskvu, svo að sagan er flókin. Ef skrattanum er réttur litli fingur, tekur hann alla höndina.
Þann 31. marz 2022 birtist í Fréttablaðinu grein eftir Sergii Iaromenko, dósent við Hagfræðiháskóla Ódessu við Svartahafið, þar sem reynt er að varpa ljósi á þau brengluðu sögulegu viðhorf, sem gripið er til af hálfu rússnesku mafíunnar til að "réttlæta" óréttlætanlegt blóðugt ofbeldi hennar gagnvart friðsömum nágranna í suðvestri. Fyrirsögn þessarar nýstárlegu greinar var:
"Af hverju ræðst Rússland á Úkraínu ? Er Kreml flækt í hjól sögunnar ?"
Hún hófst þannig:
"Sögulega réttlætingu á ofríki Rússa gagnvart Úkraínu má rekja til hugmyndarinnar um hið mikla Rússland, sem mótaðist í Moskvuríki á 14.-16. öld. Kenning þessi á sér nokkrar meginstoðir. Hin fyrsta kveður á um, að Moskvuríki eigi tilkall til þeirra landa, sem áður heyrðu undir Kænugarð og Rús. Útþenslu Moskvuríkis voru engin takmörk sett - ekki frekar en útþenslu rússneska heimsveldisins eða Sovétríkjanna síðar meir. Þessi gegndarlausa útþensla var afsprengi tatarskrar eða mongólskrar stjórnsýslu, sem byggði á lóðréttum valdastrúktúr; aðalkhaninn var sá, sem allir greiddu skatt, á hann reiddi fólk sig í skilyrðislausri undirgefni. Stjórnsýsla Rússlands hefur í aðalatriðum verið rekin með sama hætti fram á þennan dag."
Önnur meginforsendan var trúin, skrifar Sergii Iaromenko, og sú þriðja krýning keisarans. Allt er þetta óttalega rýrt í roðinu á 21. öldinni, og þeir sem reisa landvinningakröfur á þessum forsendum eru ekki með öllum mjalla. Úkraína hefur í seinni tíð verið fullvalda ríki frá 1991, íbúarnir aðhyllast lýðræðislega stjórnarhætti, frelsi til orðs og athafna, og vilja þétt samstarf við Vesturlönd á sem flestum sviðum. Allt þetta ber öllum nágrönnum landsins að virða. Rússar hafa nú með níðingsskap sínum, fláræði og fólsku, brennt allar brýr að baki sér í samskiptum við Úkraínumenn og sameinað þjóðina gegn sér, og gildir þá einu, hvert móðurmál eða uppruni íbúa Úkraínu er.
"Vladimir Pútín lítur ekki á Úkraínu sem sjálfstætt ríki. Þetta hefur ítrekað komið fram opinberlega hjá rússneskum stjórnvöldum og eins á leiðtogafundi NATO í Búkarest árið 2008 [þar sem Angela Merkel, þáverandi kanzlari Þýzkalands, kom, illu heilli, í veg fyrir aðild Úkraínu að NATO, þótt Bandaríkin styddu aðild Úkraínu. Friðþægingarstefna þessarar austur-þýzku prestsdóttur gagnvart Rússlandi var reist á kolröngu stjórnmálalegu mati á ríkjandi viðhorfum í Kreml. Þáverandi utanríkisráðherra Þýzkalands, núverandi forseti Sambandslýðveldisins, Frank-Walter Steinmeier, hefur viðurkennt mistök sín og beðizt afsökunar. - innsk. BJo]. Rússar verja söguskoðun sína með kjafti og klóm. Samkvæmt Kreml er Úkraína sýsla, sem gert hefur uppreisn gegn valdamiðjunni, og nú ríður á að lægja öldurnar. Opinber[ri] niðurlæging[u] og valdbeiting[u] hefur löngum verið beitt gagnvart fyrrum Sovétlýðveldum og héruðum rússneska keisaradæmisins."
Frammistaða og framganga rússneska hersins í Úkraínu er fyrir neðan allar hellur og hefur kallað fram fyrirlitningu og fordæmingu allra siðlegra ríkja. Framgangan er til vitnis um gegnumrotið ríki ólígarka, sem skefjalaust skara eld að sinni köku og taka vafalaust sneiðar af fjárframlögum ríkisins til hersins. Siðleysi og getuleysi yfirmanna hefur framkallað agaleysi og óánægju hermanna í víglínunni með miklu mannfalli þeirra og tapi hergagna. 6-10 hershöfðingjar hafa fallið, sem bendir til, að fjarskiptakerfi hersins sé í lamasessi. Siðferðileg og hernaðarleg niðurlæging Rússlands er alger, svo að búast má við, að óánægja með yfirráð Rússa muni koma upp á yfirborðið sums staðar í rússneska ríkjasambandinu, þar sem aðrir kynþættir búa. Þegar alræðisherrar vanmeta andstæðinga sína og fara í landvinningastríð, fer iðulega illa. Þetta þekkja menn úr evrópskri sögu.
"Hvers vegna er Pútín jafnheltekinn af sögunni og raun ber vitni [um] ? Án efa er það vegna þess, að þannig getur hann skýrt fyrir mér, þér og Rússum, að ofríki Rússa eigi sér sögulega réttlætingu. Lýsingar Pútíns á klofinni þjóð, sem beri að sameina, skilgreinir Úkraínumenn, sem tala rússnesku - í krafti þeirrar Rússavæðingar, sem átt hefur sér stað - sem Rússa. Þessi aðferð gerir honum kleift að viðhalda málstað hinnar þríeinu þjóðar, sem tilheyri einu og sama ríkinu.
Á fundi öryggisráðsins í Rússlandi varð enn eina ferðina ljóst, að rússneska elítan lítur ekki á Úkraínu sem sjálfstætt ríki. Undir því falska flaggi, að Lenín hafi búið til Úkraínu, leitast Pútín við að réttlæta fyrir forréttindastéttum og Rússum almennt, að Úkraína sé gerviríki, sem hafi engan tilverurétt."
Málflutningur forseta Rússlands ber merki um vitfirringu, því að það er ekki heil brú í honum, enda er hann hreint yfirvarp í áróðursskyni til að draga fjöður yfir raunverulega fyrirætlun hans, sem er að maka krókinn, krók hans og ólígarkanna hans, á auðæfum Úkraínu. Þetta skynja Úkraínumenn, enda þekkja þeir rússnesk yfirráð af langri og biturri reynslu, og kæra sig sízt af öllu um að verða aftur þrælar rússneskrar yfirstéttar. Allir sæmilega réttsýnir menn hljóta að styðja Úkraínumenn með ráðum og dáð við að varðveita fullveldi og frelsi lands síns síns, enda hefur nú komið í ljós meiri einhugur á meðal þjóðarinnar um að verja frelsi sitt en nokkru sinni áður, og skiptir þá móðurmál viðkomandi litlu máli, enda eru flestir tvítyngdir og úkraínska og rússneska skyld tungumál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.4.2022 | 10:38
Orkulöggjöf ESB hentar ekki í vatnsorkulöndum
Þegar orkumarkaðir eru hannaðir, er ævinlega tekið mið af aðstæðum á þeim svæðum, þar sem á að beita þeim, enda geta þeir annars orðið neytendum þungir í skauti. Evrópusambandið (ESB) hefur hannað markað með frjálsri samkeppni. Henni er ætlað að halda verðinu í skefjum til neytenda. Eldsneytismörkuðum er ætlað að sjá til þess, að næg orka sé ævinlega fyrir hendi í kerfinu, og samkeppni, t.d. raforkubirgjanna um viðskiptavinina, á síðan að sjá til þess, að raforkubirgjarnir reisi ný raforkuver til að fullnægja aflþörf markaðarins.
Þetta fyrirkomulag virkar ekki vel í Evrópu á tímabili orkuskipta, því að ríkisstjórnir hafa truflað markaðinn með niðurgreiðslu á endurnýjanlegri orku, t.d. vind- og sólarorku. Þegar vindur blæs eða sólin skín, hafa seljendur þessarar orku undirboðið eldsneytisorkuna, og markaðsverðið hefur jafnvel orðið neikvætt, þ.e. notendur hafa fengið borgað fyrir að nota raforku, þegar offramboð er af raforku á markaðinum. Afkoma eldsneytisveranna hefur fyrir vikið versnað, svo að hvati til nýbygginga orkuvera hefur minnkað, sem skapar hættu á aflskorti. Í þokkabót hefur orðið að reisa gasorkuver með opinberum fjárhagsstuðningu til að hlaupa í skarðið fyrir slitróttan rekstur vind- og sólarorkuvera. Þegar gasskorts og mikillar hækkunar á jarðgasverði tók að gæta þar árið 2021, var orkumarkaðurinn þegar í ójafnvægi.
Árið 2022 hefur verð jarðefnaeldsneytis hækkað enn og þróun Evrópumála valdið skorti á jarðgasi. Þetta hleypti raforkumörkuðum í uppnám áður en rússneski herinn réðist inn í Úkraínu og opinberaði berlega veikleika markaðanna, enda kikna atvinnulíf og heimili undan margföldun raforkuverðs, svo að hið opinbera hefur orðið að hlaupa undir bagga. Þar með er grundvöllur þessa kerfis brostinn og markaðurinn orðinn að sorglegum sirkus. Staðan er virkilega alvarleg, þegar gasbirgjarnir lúta boðvaldi siðblinds útþensluseggs, sem telur hlutverk sitt vera að "leiðrétta" gang sögunnar og þar með að breyta landæmærum Evrópu. Fáa renndi grun í, að jafnvirfirrt viðhorf gæti orðið ofan á í nokkru Evrópulandi á 21. öldinni, en þetta er samt endurtekning á atburðarás á 20. öldinni. Öllu er snúið á haus í Kreml. Þjóðernissinnaður einvaldur þykist með "sérstakri hernaðaraðgerð" vera að ganga á milli bols og höfuðs á nazistum í nágrannalandi, en framferði hans minnir þó mest á framferði nazistaforingja í ríki, sem mátti lúta í gras rúmum 20 árum áður en hann hleypti öllu í bál og brand í Evrópu.
Í vatnsorkulandinu Noregi, sem að hluta (sunnan Dovre) er tengt evrópska raforkumarkaðskerfinu með fjölda aflsæstrengja, hefur einnig orðið markaðsbrestur, því að ríkisstjórnin í Ósló ákvað í vetur, að f.o.m. desember 2021 fengju notendur endurgreiðslur úr ríkissjóði á 80 % af heildsöluverði raforku umfram 0,7 NOK/kWh (9,8 ISK/kWh). Þetta er nokkurn veginn tvöfalt heildsöluverðið hér. Norðan Dovre er hins vegar nóg í miðlunarlónum, og þar er heildsöluverðið til almenningsveitna aðeins 0,14 NOK/kWh eða 2,0 ISK/kWh.
Þetta verð sýnir, hversu hagkvæmt vatnsorkukerfi Noregs er fyrir raforkunotendur þar í landi, stóra sem smáa, enda er kerfið hannað m.v. raforkuhitun nánast alls húsnæðis þar í landi. Þetta gefur til kynna, að 30 mrdISK/ár hagnaður Landsvirkjunar sé reistur á okri á neytendum m.v. meðalkostnaðinn við vinnslu þessarar raforku. Iðnaðurinn stendur reyndar undir þessum hagnaði Landsvirkjunar að mestu.
ESB hefur lagt mikla áherzlu á jöfnun raforkuverðs á Innri markaði sínum, og forsenda þess eru öflugar tengingar á milli landa. Reglugerð 714/2009 í Orkupakka 3 (OP3) myndar lagaumgjörð milliríkjaviðskipta með rafmagn, og hún kemur í veg fyrir, að einstök lönd, t.d. Noregur, láti eiginn hag njóta forgangs, t.d. út frá vatnsstöðu í miðlunarlónum sínum, en raforkumarkaðurinn í Noregi tekur mest mið af stöðu miðlunarlóna. Áhættugreining gefur til kynna líkur á orkuskorti að vori, hann er verðlagður og endurspeglar raforkuverð í boði daginn eftir í orkukauphöll. Þetta er gjörólíkt verðmyndun raforku í orkukauphöllum ESB og Bretlands.
Téð reglugerð hvetur til þróunar raforkukauphallar, skilgreinir, hvað koma á fram í kerfisáætlunum (raforkuflutningskerfis) hvers ríkis, gefur fyrirmæli um, að hámarksflutningsgetu millilandatenginga eigi að ráðstafa til markaðsaðila innanlands og utan, ákvarðar, hvernig ráðstafa má "flöskuhálstekjum" af millilandatengingum og veitir framkvæmdastjórn ESB víðtækar heimildir til að útfæra regluverkið í smáatriðum. "Flöskuhálstekjur" í þessu sambandi eru viðbótar tekjur, sem flutningsfyrirtækið nýtur vegna takmarkaðrar flutningsgetu m.v. eftirspurn.
Viðhengi reglugerðarinnar gefur nákvæmari fyrirmæli um framkvæmdina á téðum sviðum.
Nokkrar reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar voru með heimild í EB 714/2009 teknar inn í EES-samninginn sumarið 2021. Ein þeirra er reglugerð um úthlutun rýmis í flutningskerfi og meðferð "flöskuhálstekna" (CACM), EB 2015/1222. Hún opnar fyrir þann möguleika, að ekki aðeins ein, heldur fleiri kauphallir geti starfað á hverju svæði, t.d. í Noregi og á Íslandi. Þannig verður fyrirkomulagið enn ruglingslegra fyrir notendur en nú.
Það skal taka fram, að ekki hvílir sú skylda á yfirvöldum að taka upp kauphallarviðskipti með raforku, en í reglugerð EB 714/2009 er eindregið mælt með því. Nú hafa dökku hliðar þessa fyrirkomulags opinberazt. Með CACM eru aðferðir fyrir úthlutun flutningsrýmis t.d. í aflsæstrengjum, aðferð fyrir skiptingu "flöskuhálstekna" á milli kerfisstjóra í báðum endum samtengingar á milli landa, hér Landsnets, og útfærsla ýmissa markaðsreglna, fest í lög.
Nútíma ríki í Noregi og á Íslandi eru reist á ódýrri raforku (hún var yfirleitt ódýrari um allan Noreg en á Íslandi fyrir Kóf). Nú hafa markaðsöflin torveldað almenningi kaup á þessari innviðaþjónustu, þótt norsk lög slái föstu, að "vatnsorlulindir landsins séu þjóðareign og þær beri að nýta almenningi til hámarksávinnings".
Raunveruleikinn núna er hins vegar, að meirihluti á Stórþinginu hefur fært orkukauphöll og Innri markaði ESB á orkusviði (Orkusambandi ESB) umsetningu auðlinda þjóðarinnar, og löglega kjörin yfirvöld landsins mega ekki grípa inn í þann markað. Lagalega gildir sama á Íslandi, en hér hefur þó orkukauphöll ekki verið sett á laggirnar, enda ekki lagaskylda, og enginn aflsæstrengur tengir Ísland við útlönd, enda rak Alþingi varnagla gegn slíku við innleiðingu OP3, sem heldur, þar til EFTA-dómstóllinn dæmir öðruvísi.
Reglugerð 714/2009 með viðhengi og undirliggjandi reglugerðum er nú norsk og íslenzk löggjöf á formi fyrirmæla frá framkvæmdastjórn ESB. Afleiðingarnar eru nú að taka á sig hrikalega mynd í Noregi fyrir land, fólk og fyrirtæki. Hérlendis þarf að finna leið framjá þeirri ætlun löggjafarinnar, að enginn sé ábyrgur gagnvart því, að aflskortur myndist, heldur skuli markaðurinn njóta nægilegra hvata með hækkuðu orkuverði til að byggja nóg af nýjum raforkuverum. Þetta hefur ekki virkað á Íslandi með rándýrum og skammarlegum afleiðingum fyrir þjóðina. Þetta er hættulegt vegna hins langa aðdraganda fyrir virkjun að komast í rekstur hérlendis. Þeir, sem enn halda því fram, að ótímabært sé að hefja verulegar virkjunarframkvæmdir hérlendis, horfa framhjá þeirri staðreynd, að tjón viðskiptavina orkufyrirtækjanna er 10-1000 sinnum meira en sölutap óafhentrar og umsaminnar raforku.
Nú er uppi krafa um það í Noregi, að reglugerð 714/2009 fari út úr EES-samninginum, að norska ríkið taki aftur í sínar hendur stjórn á miðlun úr miðlunarlónum, til að Noregur verði á ný með stöðugt lágt og gegnsætt raforkuverð fyrir forgangsorku til heimila og atvinnurekstrar, ef vatnsbúskapurinn leyfir það. Þeir, sem berjast fyrir þessu, telja einnig nauðsynlegt að endursemja um aðra samninga, sem skuldbinda Noreg á þann hátt, að samfélagslegir hagsmunir eru í hættu. Íslendingar ættu ekki að standa gegn Norðmönnum innan EFTA með þessar breytingar, ef ríkisstjórn Noregs fær heimild Stórþingsins til að fara fram með slíkt á vettvangi EFTA.
Orkulandsreglari ESB, á Íslandi Orkumálastjóri og í Noregi Reguleringsmyndigheten for energi, RME, hefur það hlutverk að framkvæma samkvæmt forskrift laganna (OP3). Orkulandsreglarinn getur ekki og á ekki að snúa sér að yfirvöldum landsins, heldur að orkustofu ESB, ACER, og að framkvæmdastjórn ESB með milligöngu ESA. Skyldur og sjálfstæði orkulandsreglara eru niður njörvuð í raforkumarkaðstilskipun EB 72/2009. Íslenzk og norsk yfirvöld geta ekki beitt sér neitt við stjórnun raforkumarkaðarins, nema RME verði aftur venjuleg deild í NVE, háð beinu pólitísku og rekstrarlegu eftirliti ríkisins af hálfu OED. Að taka upp slíkt eftirlit aftur þykir fólki brýnt til að endurheimta stjórn ríkisins á orkumálunum. Á Íslandi er óþolandi tvískinnungur fólginn í, að Orkumálastjóri er stundum undir ráðherra og stundum undir ACER.
Norðmenn, sem losna vilja undan forræði ESB/ACER á milliríkjaviðskiptum með rafmagn telja, að í nauðvörn verði að gera reglugerðina um milliríkjaviðskipti og aðra hluta OP3, sem um málið fjalla, óvirka, með vísun til verndarákvæðis EES-samningsins, kafla 112. Þetta sé þó bara bráðabirgða lausn.
Rafmagn á ekki að ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði. Noregur og Ísland búa að fáum náttúruauðlindum, nema orkulindunum og auðlindum hafsins. Þær á að nýta og bjóða afurðir þeirra, rafmagn og heitt vatn, íbúum landsins á hagstæðu verði, sem jafngildir kostnaði við fjárfestingu og rekstur að viðbættri ávöxtun fjárfestinganna í sammræmi við aðrar fjárfestingar í landinu með sambærilegri áhættu. Að löggjafinn skuli hafa samþykkt á okkur bann við slíkri þjóðhagslegri nýtingu orkulindanna er fáránlegt og hefur örlagsríkar afleiðingar, eins og nú er komið á daginn í Noregi.
Ef talið er nauðsynlegt að starfrækja uppboðsmarkað fyrir rafmagn, ætti hann ekki að spanna forgangsorku, heldur afgangsorku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)