Orkulöggjöf ESB hentar ekki í vatnsorkulöndum

Þegar orkumarkaðir eru hannaðir, er ævinlega tekið mið af aðstæðum á þeim svæðum, þar sem á að beita þeim, enda geta þeir annars orðið neytendum þungir í skauti.  Evrópusambandið (ESB) hefur hannað markað með frjálsri samkeppni. Henni er ætlað að halda verðinu í skefjum til neytenda. Eldsneytismörkuðum er ætlað að sjá til þess, að næg orka sé ævinlega fyrir hendi í kerfinu, og samkeppni, t.d. raforkubirgjanna um viðskiptavinina, á síðan að sjá til þess, að raforkubirgjarnir reisi ný raforkuver til að fullnægja aflþörf markaðarins. 

Þetta fyrirkomulag virkar ekki vel í Evrópu á tímabili orkuskipta, því að ríkisstjórnir hafa truflað markaðinn með niðurgreiðslu á endurnýjanlegri orku, t.d. vind- og sólarorku.  Þegar vindur blæs eða sólin skín, hafa seljendur þessarar orku undirboðið eldsneytisorkuna, og markaðsverðið hefur jafnvel orðið neikvætt, þ.e. notendur hafa fengið borgað fyrir að nota raforku, þegar offramboð er af raforku á markaðinum.  Afkoma eldsneytisveranna hefur fyrir vikið versnað, svo að hvati til nýbygginga orkuvera hefur minnkað, sem skapar hættu á aflskorti.  Í þokkabót hefur orðið að reisa gasorkuver með opinberum fjárhagsstuðningu til að hlaupa í skarðið fyrir slitróttan rekstur vind- og sólarorkuvera. Þegar gasskorts og mikillar hækkunar á jarðgasverði tók að gæta þar árið 2021, var orkumarkaðurinn þegar í ójafnvægi.  

Árið 2022 hefur verð jarðefnaeldsneytis hækkað enn og þróun Evrópumála valdið skorti á jarðgasi.  Þetta  hleypti raforkumörkuðum í uppnám áður en rússneski herinn réðist inn í Úkraínu og opinberaði berlega veikleika markaðanna, enda kikna atvinnulíf og heimili undan margföldun raforkuverðs, svo að hið opinbera hefur orðið að hlaupa undir bagga.  Þar með er grundvöllur þessa kerfis brostinn og markaðurinn orðinn að sorglegum sirkus.  Staðan er virkilega alvarleg, þegar gasbirgjarnir lúta boðvaldi siðblinds  útþensluseggs, sem telur hlutverk sitt vera að "leiðrétta" gang sögunnar og þar með að breyta landæmærum Evrópu.  Fáa renndi grun í, að jafnvirfirrt viðhorf gæti orðið ofan á í nokkru Evrópulandi á 21. öldinni, en þetta er samt endurtekning á atburðarás á 20. öldinni.  Öllu er snúið á haus í Kreml.  Þjóðernissinnaður einvaldur þykist með "sérstakri hernaðaraðgerð" vera að ganga á milli bols og höfuðs á nazistum í nágrannalandi, en framferði hans minnir þó mest á framferði nazistaforingja í ríki, sem mátti lúta í gras rúmum 20 árum áður en hann hleypti öllu í bál og brand í Evrópu. 

Í vatnsorkulandinu Noregi, sem að hluta (sunnan Dovre) er tengt evrópska raforkumarkaðskerfinu með fjölda aflsæstrengja, hefur einnig orðið markaðsbrestur, því að ríkisstjórnin í Ósló ákvað í vetur, að f.o.m. desember 2021 fengju notendur endurgreiðslur úr ríkissjóði á 80 % af heildsöluverði raforku umfram 0,7 NOK/kWh (9,8 ISK/kWh).  Þetta er nokkurn veginn tvöfalt heildsöluverðið hér.  Norðan Dovre er hins vegar nóg í miðlunarlónum, og þar er heildsöluverðið til almenningsveitna aðeins 0,14 NOK/kWh eða 2,0 ISK/kWh. 

Þetta verð sýnir, hversu hagkvæmt vatnsorkukerfi Noregs er fyrir raforkunotendur þar í landi, stóra sem smáa, enda er kerfið hannað m.v. raforkuhitun nánast alls húsnæðis þar í landi.  Þetta gefur til kynna, að 30 mrdISK/ár hagnaður Landsvirkjunar sé reistur á okri á neytendum m.v. meðalkostnaðinn við vinnslu þessarar raforku.  Iðnaðurinn stendur reyndar undir þessum hagnaði Landsvirkjunar að mestu.  

ESB hefur lagt mikla áherzlu á jöfnun raforkuverðs á Innri markaði sínum, og forsenda þess eru öflugar tengingar á milli landa.  Reglugerð 714/2009 í Orkupakka 3 (OP3) myndar lagaumgjörð milliríkjaviðskipta með rafmagn, og hún kemur í veg fyrir, að einstök lönd, t.d. Noregur, láti eiginn hag njóta forgangs, t.d. út frá vatnsstöðu í miðlunarlónum sínum, en raforkumarkaðurinn í Noregi tekur mest mið af stöðu miðlunarlóna.  Áhættugreining gefur til kynna líkur á orkuskorti að vori, hann er verðlagður og endurspeglar raforkuverð í boði daginn eftir í orkukauphöll. Þetta er gjörólíkt verðmyndun raforku í orkukauphöllum ESB og Bretlands.

Téð reglugerð hvetur til þróunar raforkukauphallar, skilgreinir, hvað koma á fram í kerfisáætlunum (raforkuflutningskerfis) hvers ríkis, gefur fyrirmæli um, að hámarksflutningsgetu millilandatenginga eigi að ráðstafa til markaðsaðila innanlands og utan, ákvarðar, hvernig ráðstafa má "flöskuhálstekjum" af millilandatengingum og veitir framkvæmdastjórn ESB víðtækar heimildir til að útfæra regluverkið í smáatriðum.  "Flöskuhálstekjur" í þessu sambandi eru viðbótar tekjur, sem flutningsfyrirtækið nýtur vegna takmarkaðrar flutningsgetu m.v. eftirspurn. 

Viðhengi reglugerðarinnar gefur nákvæmari fyrirmæli um framkvæmdina á téðum sviðum. 

Nokkrar reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar voru með heimild í EB 714/2009 teknar inn í EES-samninginn sumarið 2021.  Ein þeirra er reglugerð um úthlutun rýmis í flutningskerfi og meðferð "flöskuhálstekna" (CACM), EB 2015/1222.  Hún opnar fyrir þann möguleika, að ekki aðeins ein, heldur fleiri kauphallir geti starfað á hverju svæði, t.d. í Noregi og á Íslandi.  Þannig verður fyrirkomulagið enn ruglingslegra fyrir notendur en nú. 

Það skal taka fram, að ekki hvílir sú skylda á yfirvöldum að taka upp kauphallarviðskipti með raforku, en í reglugerð EB 714/2009 er eindregið mælt með því.  Nú hafa dökku hliðar þessa fyrirkomulags opinberazt. Með CACM eru aðferðir fyrir úthlutun flutningsrýmis t.d. í aflsæstrengjum, aðferð fyrir skiptingu "flöskuhálstekna" á milli kerfisstjóra í báðum endum samtengingar á milli landa, hér Landsnets, og útfærsla ýmissa markaðsreglna, fest í lög.

Nútíma ríki í Noregi og á Íslandi eru reist á ódýrri raforku (hún var yfirleitt ódýrari um allan Noreg en á Íslandi fyrir Kóf). Nú hafa markaðsöflin torveldað almenningi kaup á þessari innviðaþjónustu, þótt norsk lög slái föstu, að "vatnsorlulindir landsins séu þjóðareign og þær beri að nýta almenningi til hámarksávinnings". 

Raunveruleikinn núna er hins vegar, að meirihluti á Stórþinginu hefur fært orkukauphöll og Innri markaði ESB á orkusviði (Orkusambandi ESB) umsetningu auðlinda þjóðarinnar, og löglega kjörin yfirvöld landsins mega ekki grípa inn í þann markað.  Lagalega gildir sama á Íslandi, en hér hefur þó orkukauphöll ekki verið sett á laggirnar, enda ekki lagaskylda, og enginn aflsæstrengur tengir Ísland við útlönd, enda rak Alþingi varnagla gegn slíku við innleiðingu OP3, sem heldur, þar til EFTA-dómstóllinn dæmir öðruvísi.

Reglugerð 714/2009 með viðhengi og undirliggjandi reglugerðum er nú norsk og íslenzk löggjöf á formi fyrirmæla frá framkvæmdastjórn ESB.  Afleiðingarnar eru nú að taka á sig hrikalega mynd í Noregi fyrir land, fólk og fyrirtæki. Hérlendis þarf að finna leið framjá þeirri ætlun löggjafarinnar, að enginn sé ábyrgur gagnvart því, að aflskortur myndist, heldur skuli markaðurinn njóta nægilegra hvata með hækkuðu orkuverði til að byggja nóg af nýjum raforkuverum.  Þetta hefur ekki virkað á Íslandi með rándýrum og skammarlegum afleiðingum fyrir þjóðina. Þetta er hættulegt vegna hins langa aðdraganda fyrir virkjun að komast í rekstur hérlendis. Þeir, sem enn halda því fram, að ótímabært sé að hefja verulegar virkjunarframkvæmdir hérlendis, horfa framhjá þeirri staðreynd, að tjón viðskiptavina orkufyrirtækjanna er 10-1000 sinnum meira en sölutap óafhentrar og umsaminnar raforku.    

Nú er uppi krafa um það í Noregi, að reglugerð 714/2009 fari út úr EES-samninginum, að norska ríkið taki aftur í sínar hendur stjórn á miðlun úr miðlunarlónum, til að Noregur verði á ný með stöðugt lágt og gegnsætt raforkuverð fyrir forgangsorku til heimila og atvinnurekstrar, ef vatnsbúskapurinn leyfir það.  Þeir, sem berjast fyrir þessu, telja einnig nauðsynlegt að endursemja um aðra samninga, sem skuldbinda Noreg á þann hátt, að samfélagslegir hagsmunir eru í hættu.  Íslendingar ættu ekki að standa gegn Norðmönnum innan EFTA með þessar breytingar, ef ríkisstjórn Noregs fær heimild Stórþingsins til að fara fram með slíkt á vettvangi EFTA. 

Orkulandsreglari ESB, á Íslandi Orkumálastjóri og í Noregi Reguleringsmyndigheten for energi, RME, hefur það hlutverk að framkvæma samkvæmt forskrift laganna (OP3).  Orkulandsreglarinn getur ekki og á ekki að snúa sér að yfirvöldum landsins, heldur að orkustofu ESB, ACER, og að framkvæmdastjórn ESB með milligöngu ESA.  Skyldur og sjálfstæði orkulandsreglara eru niður njörvuð í raforkumarkaðstilskipun EB 72/2009. Íslenzk og norsk yfirvöld geta ekki beitt sér neitt við stjórnun raforkumarkaðarins, nema RME verði aftur venjuleg deild í NVE, háð beinu pólitísku og rekstrarlegu eftirliti ríkisins af hálfu OED. Að taka upp slíkt eftirlit aftur þykir fólki brýnt til að endurheimta stjórn ríkisins á orkumálunum.  Á Íslandi er óþolandi tvískinnungur fólginn í, að Orkumálastjóri er stundum undir ráðherra og stundum undir ACER.   

Norðmenn, sem losna vilja undan forræði ESB/ACER á milliríkjaviðskiptum með rafmagn telja, að í nauðvörn verði að gera reglugerðina um milliríkjaviðskipti og aðra hluta OP3, sem um málið fjalla, óvirka, með vísun til verndarákvæðis EES-samningsins, kafla 112.  Þetta sé þó bara bráðabirgða lausn. 

Rafmagn á ekki að ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði.  Noregur og Ísland búa að fáum náttúruauðlindum, nema orkulindunum og auðlindum hafsins.  Þær á að nýta og bjóða afurðir þeirra, rafmagn og heitt vatn, íbúum landsins á hagstæðu verði, sem jafngildir kostnaði við fjárfestingu og rekstur að viðbættri ávöxtun fjárfestinganna í sammræmi við aðrar fjárfestingar í landinu með sambærilegri áhættu. Að löggjafinn skuli hafa samþykkt á okkur bann við slíkri þjóðhagslegri nýtingu orkulindanna er fáránlegt og hefur örlagsríkar afleiðingar, eins og nú er komið á daginn í Noregi. 

Ef talið er nauðsynlegt að starfrækja uppboðsmarkað fyrir rafmagn, ætti hann ekki að spanna forgangsorku, heldur afgangsorku.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband