29.9.2015 | 21:43
Nýting jarðvarma á Norð-Austurlandi
Ánægjuleg tíðindi berast af Bakka við Húsavík, þar sem framkvæmdir við kísilver þýzka fyrirtækisins PCC hafa öðlazt skriðþunga við fögnuð flestra Þingeyinga og fleiri.
Samhliða virkjar Landsvirkjun jarðgufu á Þeistareykjum. Þar munu koma í fyrsta áfanga tveir gufuhverflar, sem knýja 2 x 45 MW rafala. Kostnaðaráætlun nemur um ISK 24 miö eða um 270 MISK/MW (2,0 MUSD/MW). Út frá þessu má reikna orkuvinnslukostnaðinn um 36 USD/MWh, og er vart að efa, að PCC þarf að greiða a.m.k. þetta útreiknaða kostnaðarverð, m.v. 8,0 % arðsemi fjárfestingar, til Landsvirkjunar fyrir raforkuna frá Þeistareykjum, a.m.k. er frá líður.
Þessi orkuvinnslukostnaður Þeistareykja er a.m.k. 30 % hærri en orkuvinnslukostnaður vatnsaflsvirkjana fyrir svipað álag og kísilver PCC. Þess vegna er það skrýtin viðskiptahugmynd að virkja jarðgufu fyrir orkukræfan iðnað í stað vatnsafls. Í þessu tilviki er það neyðarbrauð vegna veiks flutningskerfis raforku og skorts á tilbúnum virkjunarkostum vatnsafls á Norð-Austurlandi. Kemur þá Jökulsá á Fjöllum jafnan upp í hugann, en frekari vatnaflutningar á Norð-Austurlandi en þegar hafa verið framkvæmdir, með því að steypa Jökulsá á Brú ofan í Fljótsdal, koma ekki til greina af umhverfisverndarástæðum, svo að þróa yrði virkjunarkost í gamla farveginum án þess að breyta ásýnd Dettifoss.
Það eru þó aðrir vatnaflskostir mögulegir, og það er ekki síður með hliðsjón af sjálfbærni orkuöflunarinnar en kostnaði, sem valin leið Landsvirkjunar, jarðgufunýtingin, orkar tvímælis. Um það hefur sérfræðingur í jarðhitanýtingu, Gunnlaugur H. Jónsson, eðlisfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Orkustofnunar, ritað nokkrar athygliverðar greinar í Fréttablaðið, t.d. 17. september 2015 undir heitinu:
"Orkan er ótakmörkuð, en aflið verðmætt",
sem vitnað verður til hér. Hann hafði í fyrri greinum sett fram og varið kenningu um, að tvær jarðgufuvirkjanir mættu ekki vera staðsettar með styttra millibili en 20 km. Þessi kenning var sett fram með vísun til Reykjanesskagans og virkjana HS Orku og ON, en hið sama hlýtur að gilda annars staðar á landinu, og nú vill svo til, að á milli Kröfluvirkjunar og Þeistareykjavirkjunar eru u.þ.b. 20 km. Í ljósi mikillar fyrirhugaðrar nýtingar Landsvirkjunar á báðum stöðunum, hlýtur hún að vera stödd á hálum ísi með stórar virkjanir og miklar fjárfestingar á Norð-Austurlandi.
Þeistareykjavirkjun er áformuð 200 MW, Krafla I er 60 MW og Krafla II er áformuð 150 MW. Alls er þannig lagt upp með aflgetu 310 MW á líkast til sama jarðgufusvæðinu. Þetta er svipað virkjunarafl og á Hellisheiðinni, sem gefizt hefur miður vel með miklum niðurdrætti í holum á köflum eða um 10 %. Hvers vegna leita menn stöðugt í sama ógæfufarið ?
Hér skal setja fram þá kenningu, að væru téð virkjanafyrirtæki í einkaeigu, þá tækju þau ekki svipaða áhættu með fjárfestingar- og rekstrarfé sitt, heldur reyndu að hafa vaðið fyrir neðan sig til að forðast óvæntan aukakostnað.
Í téðri grein skrifaði Gunnlaugur:
"Ekki er vit í að bæta nýrri virkjun í Eldvörp, þar sem þrýstingur er að falla vegna tengsla við nálægar virkjanir. Virkjun Eldvarpa myndi enn auka á ofnýtingu svæðisins í heild og stuðla að fallandi afli í þeim holum, sem fyrir eru."
Þó að Landsvirkjun hafi látið Þeistareyki blása í innan við ár á 40 MW án afláts, þá er ekki þar með sagt, að Þeistareykir geti staðið undir fyrri áfanga sínum, 90 MW eða Krafla undir 210 MW, þegar allt kemur til alls. Hins vegar er Landsvirkjun búin að koma sér í tímaþröng við orkuöflun fyrir PCC og aðra stóriðju, svo að hún hefur ekki ráðrúm til að áfangaskipta virkjununum og þolprófa gufuforðabúrið, eins og vert væri.
Þetta tímahrak getur komið henni og viðskiptavinum hennar í koll síðar.
Gunnlaugur heldur áfram:
"Fyrir liggja þó vandaðar skýrslur ÍSÓR um þrýsting í borholum við Hverahlíð, sem sýna, að jarðvatnsborð lækkar um 1-8 m árlega og þyngdarmælingar sýna, að jarðhitavatn streymir af svæðinu, m.a. fyrir áhrif Hellisheiðarvirkjunar áður en Hverhlíð er virkjuð."
Þetta eru alvarleg tíðindi fyrir eigendur og viðskiptavini ON og afleiðing af því að hunza vísindalegar rannsóknir og gefa virkjununum ekki tíma á milli að hámarki 50 MW áfanga. Fyrir norðan þyrftu slíkar rannsóknir að fara fram eftir fyrri og seinni áfanga Þeistareykjavirkjunar, 2 x 45 MW, í a.m.k. 2 ár, jafnfram sem fylgzt væri með Kröflu áður en þar verður ráðizt í stækkun, væntanlega 3 x 50 MW, sem og eftir hvern áfanga þar, með þrýstingsmælingum og óbeinum gufustreymismælingum.
Þessa hugsun orðar Gunnlaugur Jónsson með eftirfarandi hætti í téðri grein:
"Stór virkjun eykur framboð á raforkumarkaði. Samkvæmt lögmálum hagfræðinnar lækkar raforkuverð, og þar sem Ísland er lokaður markaður, kallar það á stóran raforkusölusamning við stóriðju. Sá samningur felur i sér sölu á mikilli orku á "samkeppnisfæru verði" til langs tíma. Semja þarf áður en tryggt er, að orkan sé til staðar til lengri tíma."
Af þessu leiðir, að það felur í sér innri mótsögn að stunda sjálfbæra nýtingu á jarðgufuauðlindinni og að breyta gufuorkunni í raforku, sem fyrirfram er ráðstafað í stórum stíl. Af þessu leiðir jafnframt, að ekki ætti að virkja jarðgufu til raforkuvinnslu fyrir notanda, sem þarf meira í einu en hæfilegt er fyrir hvern áfanga jarðgufuvirkjunar, til að tryggja sjálfbæra orkunýtingu, t.d. 50 MW. Því má bæta við, að raforkuvinnsla úr jarðgufu án annarrar nýtingar á sömu gufu felur í sér orkusóun, sem ber að forðast, jafnvel þó að gufuforðinn endist í 100 ár. Sóunin er þarflaus, því að aðrir virkjunarkostir eru nærtækari.
Í lok greinar sinnar skrifar Gunnlaugur eftirfarandi, og má heimfæra varnaðarorð hans upp á Norð-Austurland:
"Temjum okkur langtímahugsun og takmörkum uppsett afl til raforkuframleiðslu á Reykjanesskaga. Aðgengilegt hagkvæmt afl í jarðhita er takmarkað . Nýtum það vel."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2015 | 21:07
Undiralda og brimboðar
Í grípandi viðtali á Sprengisandi, öllu heldur Sprengjusandi, sunnudaginn 13. september 2015, tjáði formaður Sjálfstæðisflokksins landslýð áhyggjur sínar vegna óvissu um stöðugleika hagkerfisins. Mesta ógnin við stöðugleikann nú um stundir á meðal innlendra áhrifavalda er úrelt fyrirkomulag við að ákvarða kaup og kjör, "skipta kökunni". Það er sjúkleg samanburðarárátta við lýði á milli stétta, jafnvel mjög ólíkra stétta, og það vill brenna við, að ekki sé búið að baka kökuna, þegar farið er að ræða um að skipta henni, svo að gripið sé til samlíkingar við sígilda kennslubók í lestri.
Það var reyndar ekki minnzt á versnandi viðskiptakjör útflutningsatvinnuveganna, sem í raun eru vegna minnkandi kaupmáttar almennings víðast hvar. Það er að bera í bakkafullan lækinn að gera innflutningsbann Rússa á íslenzk matvæli að umræðuefni, en að missa rússneska markaðinn vegna klaufaskapar íslenzka utanríkisráðuneytisins er högg fyrir uppsjávarútgerðir- og vinnslu, en vonir standa þó til sterkra mjölmarkaða næstu árin vegna El Nino (barnsins) hafstraumsins og lélega ansjósugengd tengda honum.
Enn hafa fréttir borizt, sem benda til að utanríkisráðuneytið ráði ekki við hlutverk sitt að gæta viðskiptahagsmuna Íslands utan ESB. Hér er átt við frumkvæði Norðmanna um, að Norðurlöndin reyni að lagfæra tengslin við Rússland, sem hafa beðið hnekki. Það er sláandi, að þar var Ísland ekki með upphaflega. Á að trúa því, að ekki hafi verið símasamband á milli utanríkisráðuneyta Íslands og Noregs vegna stöðunnar, sem upp er komin á uppsjávarmörkuðum ?
Frumhlaup meirihluta borgarstjórnar, sem ætlaði að fyrir hönd Reykvíkinga að feta slóðir Rússa um innflutningsbann, sem að vísu átti einvörðungu að bitna á Ísrael og á flótta borgarstjóra einvörðungu að beinast gegn landnemabyggðum Gyðinga í Palestínu, svo gáfulegt sem það nú er, stefndi í að kosta landsmenn alla stórfé og olli álitshnekki um víða veröld. Viðskiptabann Íslendinga við þjóðir, sem við höfum stjórnmálasamband við, kemur ekki til greina. Viðskiptabann Íslendinga á aðra er líklegt til að valda okkur sjálfum meira tjóni en þeim, sem spjótunum er beint gegn. Viðskiptabann er oftast tóm vitleysa, en viðskipti geta aukið skilning á milli þjóða.
Stóriðjan, þ.e. orkukræfur iðnaður, t.d. áliðnaður, kísiljárnframleiðsla og kísiliðnaður, eiga undir högg að sækja vegna minnkandi hagvaxtar í Kína, sem leitt getur til samdráttar og efnahagskreppu þar ásamt stjórnmálalegum óstöðugleika. Eftirspurn í Kína hefur staðnað eða dregizt saman, og fjárfestingar minnkað. Þetta kemur mjög niður á spurn eftir málmum og kísli. Júanið hefur fallið og a.m.k. trilljón (= 1000 milljarðar) bandaríkjadalir gufað upp á verðbréfamarkaði í Kína. Í stað innflutnings á ofangreindum málmum er nú kominn útflutningur frá Kína, sem auðvitað hefur fellt markaðsverðið. Mörg vestræn álver eru nú rekin með tapi, þar á meðal á Íslandi. Tilkynnt hefur verið um lækkun raforkuverðs frá Hydro Quebec í Kanada til að tryggja áframhaldandi rekstur álveranna þar. Raforkuverðið til ISAL er ekki lengur (frá 2010) tengt vísitölu álverðs, og raforkukostnaðurinn er þess vegna fyrirtækinu mjög þungur í skauti. Samt hefur Landsvirkjun ekki léð máls á að veita tímabundinn afslátt, sem vitnar um þvergirðing á þeim bænum.
Þetta ástand í Kína smitar til iðnaðarvelda Evrópu, sem geta flutt minna út til Kína fyrir vikið, og þetta kemur niður á hag almennings, sem mun ferðast minna, þegar tekjur dragast saman. Þetta dregur líklega úr straumaukningu ferðamanna til Íslands, enda verða nokkrar verðhækkanir, þegar ferðaþjónustan verður loksins felld inn undir almenna álagningu virðisaukaskatts, þó að vonandi tímabundið sé aðeins um neðra þrepið að ræða.
Forystufyrirtæki krúnu þýzks iðnaðar, bílaiðnaðarins, sem með birgjum sínum veitir 15 % vinnandi fólks í Þýzkalandi lífsviðurværi, hefur orðið fyrir þungu höggi, sem lama mun alla dísilvélaframleiðslu Evrópu, en tæplega 50 % nýrra fólksbifreiða eru með dísilvél um þessar mundir. Sú uppljóstrun Bandaríkjamanna, að VW hafi í stýriforriti dísilbílanna skilyrt mengunarvarnir við inngjöf og hreyfingarlaust stýri er álitshnekkir fyrir nýorðinn stærsta bílaframleiðanda heims og fyrir góðan orðstýr þýzks iðnaðar, sem er svo alvarlegur, að hægja kann á eimreiðinni, sem knýr áfram hagkerfi evrusvæðisins. Auðvitað munu Þjóðverjar ná vopnum sínum á ný, bíta í skjaldarrendur og hefja gagnsókn, eins og þeir hafa alltaf gert, þegar þeir hafa þurft að láta í minni pokann.
Það eru þess vegna vissulega blikur á lofti íslenzku útflutningsatvinnuveganna, sem skapað geta þrýsting á gengið til lækkunar. Við þessar aðstæður væri glórulaust af Seðlabankanum að gera fyrirtækjum og fjölskyldum enn erfiðara fyrir með vaxtahækkunum, og það væri jafnglórulaust af "aðilum vinnumarkaðarins" að glata tækifærinu, sem þeir hafa nú til að leggja grunninn að viðvarandi kaupmáttaraukningu alls almennings í samvinnu við ríkisvaldið.
Þessi staða er enn meira áhyggjuefni vegna þess, að fyrirtæki, sem selja vörur og þjónustu á innlendum markaði, gætu freistazt til að hleypa kostnaðarhækkunum sínum út í verðlagið (hin geta það ekki), og þá er fjandinn laus. Það var ekki innistæða fyrir umsömdum launahækkunum hjá öllum fyrirtækjum, og þau, sem nú eru illa stödd, kunna að vera nægilega mörg til að endurvekja verðbólgudrauginn, sem er versti óvinur fyrirtækja, launþega og bótaþega, og því meiri ógn stafar afkomunni af honum, þeim mun lakari, sem afkoman var fyrir launahækkanir. Verðbólgan fer svo illa með atvinnulífið og rýrir svo mjög hag almennings til lengri tíma litið, að allir ættu að átta sig á, að skynsamlegt er að fórna nokkru tímabundið til að hreppa ávinning framleiðniaukningar og heilbrigðs hagvaxtar. Það gerðu Þjóðverjar 2005. Þá stöðvuðu þeir allar launahækkanir í 5 ár, verðbólgan eftir endursameiningu Þýzkalands hjaðnaði, samkeppnisstaðan batnaði, framleiðni og framleiðsla jókst og mjög dró úr atvinnuleysi. Allir græddu.
Það er allt til vinnandi að ná tökum á þessu íslenzka ástandi, stöðva þessa hringekju. Til þess dugar ekkert minna en sameiginlegt átak; samtaka á árarnar verða að leggjast samtök atvinnurekenda og launþega ásamt stjórnmálastéttinni. Markmiðið er, að landsframleiðsla á mann á Íslandi verði í þriðja til fjórða sæti í Evrópu árið 2020 og kaupmátturinn einnig. Ef við gætum þá orðið í hópi með Lúxemborg, Sviss og Noregi, eða jafnvel tekið sæti Noregs, sem nú sýpur seyðið af olíuævintýri á enda, þá væri mikill sigur unninn. Þetta er verðugt markmið allra annarra en þeirra, sem eru á móti hagvexti og telja hann af hinu illa.
Til þessa mikla árangurs þarf auðvitað miklar og arðsamar fjárfestingar, e.t.v. 25 % af VLF á ári eða um ISK 500 milljarða á ári, en grunnurinn verður að vera efnahagslegur stöðugleiki, og hann næst engan veginn án þess að stöðva höfrungahlaup á vinnumarkaði né án mikillar hófsemdar varðandi launahækkanir á tímabilinu eftir að núverandi samningstímabili lýkur.
Til þess að tryggja sem réttlátastan hlut launþega í aukningu verðmætasköpunar á hverjum tíma þarf með lagasetningu að stofna til skuldbindandi stöðugs samráðs á grundvelli söfnunar beztu upplýsinga um hag fyrirtækjanna. Allt þetta fari fram á vegum embættis Ríkissáttasemjara, sem ný lagasetning tryggi aukin völd og ábyrgð, sem dugi til að aga vinnumarkaðinn, ef hann ætlar að hlaupa út undan sér. Hér er mikið í ráðizt, en þjóðarhagur liggur við. Framtíð Íslands er í húfi.
Lykilatriði verði þó gagnaöflun á vegum embættis Ríkissáttasemjara og samráðsfundir með aðilum vinnumarkaðarins, launþegahreyfingunum og vinnuveitendum í því augnamiði að freista þess að ná fram sameiginlegum skilningi á getu hinna ýmsu atvinnugreina til launahækkana. Hér, eins og annars staðar, þar sem svipaðri aðferðarfræði er beitt, t.d. á hinum Norðurlöndunum, þarf aðallega að taka tillit til stöðu útflutningsatvinnuveganna, því að þeir eru undirstaða tekjuöflunar landsins, og dágóður jákvæður viðskiptajöfnuður við útlönd er nauðsynlegur fyrir traust gengi gjaldmiðilsins, sem aftur er undirstaða lágrar verðbólgu og hás kaupmáttar. Keppikeflið á að vera að skapa grundvöll fyrir svipaðri verðbólgu og í helztu viðskiptalöndunum, góðan (>3,0 %) hagvöxt og lækkun fjármagnskostnaðar, svo að hann endurspegli atvinnustig, hagvöxt og verðbólgu með svipuðum hætti og á hinum Norðurlöndunum. Eignarhald bankanna skiptir máli í þessu sambandi og ótækt að búa við eignarhald kröfuhafa gömlu bankanna, enda munu þeir væntanlega selja sinn hlut, og mun þá e.t.v. einn stóru bankanna þriggja verða í erlendri eigu, sem skapar grundvöll að almennilegri samkeppni, svo að vænta megi minni munar á útláns- og innlánsvöxtum en nú er raunin.
Opinberir starfsmenn þurfa að koma að ofangreindu samráðsferli, og samræming skyldu og réttinda félaga lífeyrissjóðanna virðist vera í bígerð í þessu sambandi. Kröfuharka ríkisstarfsmanna á þessu ári vekur athygli. Þeir hafa jafnvel reynt að leiða kjaraþróunina. Slíkt tíðkast líklega hvergi og alls ekki á hinum Norðurlöndunum, enda eru starfskjör opinberra starfsmanna að sumu leyti betri en hinna, sem auðvitað þarf að meta til launa, t.d. iðgjöld vinnuveitanda í lífeyrissjóð, tryggð ávöxtun lífeyrissjóðs og meira starfsöryggi.
Hið síðast nefnda kom berlega í ljós í efnahagskreppunni eftir hrun fjármálakerfisins, þegar 15-20 þúsund manns misstu vinnuna í einkageiranum, en sárafáir hjá hinu opinbera.
Opinberir starfsmenn, sem nú hafa lausa samninga, vitna mikið til úrskurðar Kjaradóms um laun félaga í BHM og hjúkrunarfræðinga. Langt er seilzt, þegar t.d. lögreglumenn vitna til alveg sérstaks kjarasamnings við lækna til að tryggja landinu þessa sérfræðikunnáttu á íslenzku.
Það ætti að geta orðið að samkomulagi deiluaðila, að þeir vísi kjaradeilu sinni til Kjaradóms. Hann tók í síðasta dómi tillit til sérþekkingar og þess, hvort starfsmenn hefðu dregizt aftur úr viðmiðunarstéttum, svo að hann gæti orðið þrautalending hér einnig.
Það er efni í hringavitleysu og óðaverðbólgu, ef stéttir, sem áður voru búnar að semja um hækkanir, sem flestir óvilhallir menn telja vera umfram getu meirihluta fyrirtækjanna, sem samið var fyrir, ætla við fyrsta tækifæri að rífa upp þá samninga til að heimta meira. Mál er, að linni. Þetta er hömlulaus sérgæðingsháttur á kostnað heildarhagsmuna og stríðir algerlega gegn heilbrigðri skynsemi, af því að kollsteypa hagkerfisins verður hin augljósa afleiðing slíks framferðis.
Það ríður á, að endurskoðun vinnulöggjafarinnar heppnist vel, hún feli í sér hvata til að ná samkomulagi um lágmarkslaunahækkanir, sem fyrirtæki, sem veita a.m.k. 90 % starfsmanna, sem samið er fyrir í hverju tilviki, ráða við í þeim skilningi, að þau skili eftir sem áður nægum hagnaði til eðlilegra fjárfestinga og arðgreiðslna að beztu manna yfirsýn undir verkstjórn Ríkissáttasemjara í nánu samráðsferli aðila vinnumarkaðarins. Síðan taki við staðarsamningar launþega hjá fyrirtækjum, þar sem verðmætasköpun hefur aukizt meira en lagt var til grundvallar í almennu samningunum samkvæmt niðurstöðum samráðsferlisins hjá Ríkissáttasemjara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2015 | 14:16
Afl- og orkuskortur í vændum
Þróun raforkukerfisins hefur ekki haldið í við þjóðfélagsþróunina að öðru leyti. Þetta er alvarlegur veikleiki á innviðum landsins. Á þessu hefur blekbóndi þessa vefseturs iðulega vakið athygli, og þann 10. september 2015 var þetta staðfest í blaðaviðtölum við forstjóra flutningsfyrirtækisins Landsnets og forstjóra lang stærsta orkuvinnslufyrirtækis landsins. Því miður vantar enn nauðsynlegt gegnumbrot, enda "kverúlantar" á Alþingi, sem láta sig ekki muna um að taka eitt framfaramál í gíslingu.
Viðtalið við Guðmund Inga Ásmundsson, forstjóra Landsnets, birtist í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni "Öryggi og aðgengi að rafmagni er grunnurinn". Þar kom ekkert óvænt fram, en viðtalið var samt efnisríkt og upplýsandi. Samt hefur Snorri Baldursson, formaður Landverndar, séð ástæðu til að hnýta í Guðmund Inga vegna þessa viðtals, og ætti Landsnet ekki að láta hjá líða að gera einhvern út af örkinni og svara þeirri gagnrýni, sérstaklega kaflanum "Orkudreifing og orkuflutningur", sem er bein árás á Landsnet og forstjóra hennar.
Gæðum raforkunnar er ábótavant um allt land vegna sveiflna, sem verða á milli virkjana í fjarlægum landshlutum, sem tengdar eru saman með veikri tengingu Byggðalínu, sem veldur óstöðugleika í bilunartilvikum, sem oft endar með rofi á henni. Kerfið þolir t.d. illa, að stærri kerskáli Norðuráls falli út af kerfinu með snöggútleysingu, sem óhjákvæmilegt er, að gerist í öllum álverum, t.d. við kerleka.
Það er þó enn hægt að flytja fullt afl til allra notenda á höfuðborgarsvæðinu. Suðvesturlínan nýja mun gjörbreyta flutningsgetu raforku til og frá Suðurnesjum og auka stöðugleika raforkukerfisins þar, og gera öllum nýjum og gömlum virkjunum kleift að koma frá sér allri vinnanlegri raforku á Suðurnesjum. Samhliða þessu munu Hafnfirðingar losna við loftlínur í og við þéttbýli, og ISAL í Straumsvík mun fá tvær aðskildar línur frá nýrri aðveitustöð utan byggðar í Hafnarfirði í stað einnar tvöfaldrar línu frá Hamranesstöðinni nú.
Vestfirðingar hafa fengið nokkra bót meina sinna, þar sem er aukið varaafl, en þá vantar hringtengingu eða jarðstrengjavæðingu, ef vel á að vera, einnig á 132 kV línunni frá Glerárskógum, þar sem bilanahætta er mest á henni vegna óveðurs.
Gríðarleg og ánægjuleg umskipti eru að verða í atvinnumálum Vestfirðinga, aðallega vegna stórvaxandi fiskeldis, sem rekið er með mjög myndarlegum hætti á Suðurfjörðunum, en einnig hafa þeir fengið smáskerf af ferðamannabylgjunni, t.d. með fjölda farþegaskipa til Ísafjarðar. Þetta allt útheimtir stöðuga og vaxandi raforku ásamt byltingu í samgöngum.
Norðurland og Austurland eru hins vegar rafmagnslega í öngstræti, því að það er ekki unnt að flytja nægt afl til þeirra um núverandi 132 kV flutningskerfi, og eftir að United Silicon og Silicor koma í rekstur 2016-2018, mun reyndar raforka verða af skornum skammti í landinu.
Guðmundur Ingi virðist nú hafa tekið einarða afstöðu með einni lausn, sem "losa mundi um núverandi stíflur" í stofnkerfisflutningum á milli landshluta. Þessi lausn er u.þ.b. 200 km löng 220 kV lína, líklega reist fyrir 400 kV spennu í framtíðinni, frá Tungnaár/Þjórsársvæðinu og norður Sprengisand til Þingeyjarsýslanna, og tvöföldun Byggðalínu frá Blöndu til Fljótsdals.
Ekki kom fram í téðu viðtali, hvernig þessi tvöföldun færi fram, en ein leið er að reisa nýja 220 kV línu, sem hefði reyndar næstum þreföldun flutningsgetunnar í för með sér á þeirri leið og veitir ekki af. Gamla 132 kV línan yrði þá tekin niður, enda orkar staðsetning hennar víða tvímælis í túnfæti margra býla, t.d. í Skagafirði. Slæm staðsetning blasir við af Þjóðvegi 1, hvað þá af bæjarhlöðum.
Þetta er mjög brýnt hagsmunamál fyrir landið allt. Nú eru stórir raforkunotendur, t.d. fiskimjölsverksmiðjur og hitaveitur, með takmarkaðan eða engan jarðhita, að brenna olíu, af því að flutningsgetu raforku skortir, þegar mest á ríður. Það er skammarlegt, að þetta ástand skuli vera uppi, og hryllilegt til þess að vita, að stjórnunarlegar ástæður eru fyrir þessu, deiliskipulag vantar vegna þess, að minni hagsmunir og áróður umhverfisskrumara hafa hingað til náð að víkja meiri hagsmunum til hliðar.
Sprengisandslína er umhverfisvænn valkostur að því gefnu, að hún verði grafin í jörðu, þar sem hún gæti annars haft mest truflandi áhrif á víðerni hálendisins, eins og þau blasa við í góðu skyggni frá aðalleiðinni. Það verður annars staðar hægt að staðsetja hana þannig, að hún sjáist ekki frá vegstæðinu, sem líklega verður fyrir valinu. Þá eru nú orðið fáanleg "felumöstur", sem eiga að falla eins vel að náttúrunni og hægt er. Með nútíma tækni er unnt að draga mjög úr umhverfisraski, svo að langflestir megi vel við una.
Kostnaðurinn vegna ófullnægjandi flutningsgetu raforku er nú þegar kominn upp í 10 milljarða kr á ári, og hann verður enn þá hærri í þurrkaárum. Með öflugri línu á milli landshluta á borð við Sprengisandslínu er unnt að draga úr skerðingarþörf í einum landshluta með miðlun orku úr öðrum landshluta að því gefnu, að þar sé miðlunarvatn fyrir hendi. Af veðurfarslegum ástæðum er afar sjaldgæft, að slæmt ár fyrir vatnsbúskapinn beri upp á sama tíma fyrir austan, norðan og sunnan. Heildarmiðlunargetan er hins vegar ekki lengur í samræmi við álagið, en ekki virðist vera nægilega mikill skilningur á nauðsyn þess að bæta úr þessu, sem þó er ólíkt ódýrara fyrir alla aðila að gera en t.d. að leggja sæstreng til útlanda, sem hafa mundi í för með sér gríðarlegt umhverfisrask og hækkun raforkuverðs í landinu.
Að hálfu ferðaþjónustunnar er haldið uppi andófi gegn Sprengisandslínu. Hún er þó bæði ódýrari og umhverfisvænni en ný lína í byggð, sem stöðugt væri fyrir augum fjölda manns. Hér skal fullyrða, að yfirgnæfandi meirihluti ferðamanna til Íslands og innlendir ferðamenn hafa skilning á nauðsyn þess að flytja raforku á milli landshluta á Íslandi, eins og gert er í löndunum, sem flestir erlendu ferðamennirnir koma frá. Í mesta lagi 1 % ferðamanna, sem hug hafa á að ferðast um hálendið, er trúlegt, að mundi hætta við komu sína fyrir vikið. Í framtíðinni eru þetta e.t.v. 10 000 manns á ári, sem jafngildir þá tekjutapi, sem er innan við fimmtungur af tapi atvinnutækifæra og kostnaðaraukanum af ófullnægjandi flutningsgetu. Ferðaþjónustan, sem hefur í för með sér gríðarlegan álagsauka á allt umhverfið, láð, loft og lög, hefur ekki efni á því að setja sig á háan hest gagnvart öðrum atvinnugreinum á grundvelli umhverfisverndar.
Hitt blaðaviðtalið um raforkumál, sem hér verður gert að umfjöllunarefni, birtist í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni
"Kostar 80 milljarða að tryggja afhendingu", og var við Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar. Það var miklu síðra að gæðum en hið fyrr nefnda, því að það einkenndist af órökstuddum fullyrðingum, enda skildi það eftir sig fleiri spurningar en svör.
Byrjunin, sem greinilega er höfð eftir Herði, er þannig:
"Landsvirkjun myndi þurfa að fjárfesta í nýjum virkjunum fyrir um 80 milljarða króna, ef orkufyrirtækið vildi komast alfarið hjá því að þurfa að skerða afhendingu raforku til viðskiptavina sinna í vondum vatnsárum, eins og nú. Það myndi hins vegar reynast afar óskynsamleg fjárfesting, þar sem skerðing á afhendingu raforku er undantekning frá reglunni og aðeins hefur í eitt skipti á síðastliðnum fimmtán árum komið til slíkrar aðgerðar."
Lesandinn er skilinn eftir í lausu lofti með það, hvaða rándýru aðgerðir þetta eru, sem forstjórinn hefur í huga. Hér skal bera brigður á sannleiksgildi þessarar fullyrðingar, því að hið eina, sem þarf að gera er að virkja Búrfell 2, sem er a.m.k. 100 MW virkjun, og auka miðlunargetuna fyrir virkjanir á Þjórsár/Tungnaársvæðinu. Þetta er í raun brýn aðgerð til að halda uppi almennilegu afhendingaröryggi nú, þegar ýmislegt bendir til breyttrar veðráttu, ef marka má hinn aldna veðurspeking, Pál Bergþórsson. Kostnaður af þessu yrði innan við helmingur þeirrar upphæðar, sem Hörður slær um sig með.
Miðlun til Norður- og Austurlands verður um Sprengisandslínu, sem verður að koma af stöðugleikaástæðum, svo að ekki þarf að telja hana með í þessum kostnaðarvangaveltum, en hún á að kosta 37 milljarða kr.
Það gætir ónákvæmni hjá Herði við meðferð hugtaka. Hann heldur því fram, að Landsvirkjun hafi heimild til"að minnka orkuframboð um allt að 10 %, og hefur Landsvirkjun nýtt sér þessa heimild einu sinni á undanförnum árum ...".
Hörður hefur ekki heimild til að skerða forgangsorku, en sumir viðskiptavina Landsvirkjunar, t.d. orkukræfu málmverksmiðjurar, kaupa einnig ótryggða orku eða afgangsorku, og nemur hún 10 % af heild til álveranna. Orkuverðið er að sama skapi lægra, því að vinnslukostnaður afgangsorkunnar er lægri, þar sem hún útheimtir minni fjárfestingar. Í orkusamningunum er kveðið á um, að fyrsta ár skerðingar megi skerða 50 % afgangsorkunnar, þ.e. 100 % afgangsaflsins í hálft ár. Annað skerðingarárið í röð má skerða um 40 % og enn minna þriðja,fjórða og fimmta árið í röð. Framsetning forstjórans er þess vegna villandi og óskiljanlegt, að hann skuli ekki hafa tamið sér meiri nákvæmni í frásögn.
Þá lætur hann þess ógetið, að fyrir 5-6 árum komu upp alvarlegar bilanir í aðalspennum Sultartangavirkjunar, sem leiddu til aflskorts í kerfinu og þar af leiðandi til tilfinnanlegra aflskerðinga hjá stóriðjunni, þó að orkuskerðingar yrðu litlar fyrir heppni.
Það er ennfremur rangt, sem hann gefur í skyn, að einsdæmi séu tvö þurrkáár í röð. Það hefur meira að segja gerzt, að vatn hafi skort í Þórisvatn tvö ár í röð, og það er enn líklegra, að tvö þurrkaár í röð komi fram á Suðurlandi annað árið og Austurlandi hitt árið. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt, að hægt sé að miðla raforku á milli landshluta. Forstjórinn verður að reyna að átta sig á breytilegum aðstæðum álags og veðurfars.
"Það er reyndar gríðarlegur munur á orkuvinnslunni tengdur þessum duttlungum náttúrunnar, en hægt er að vinna allt að því 40 % meira af orku í hárennslisári en lágrennslisári."
Gaman væri að vita, hvernig Hörður fær út þennan mikla mun. Miðlunargeta lóna Landsvirkjunar er talin jafngilda 5150 GWh/a. Í sumar spáðu Landsvirkjunarmenn þurrkaári í ár, og í lok ágúst var spáð 80 % fyllingu, þannig að vöntun næmi 0,2 x 5150 = 1030 GWh/a. Í hárennslisári er í mesta lagi hægt að vinna sem nemur 100 MW í 3 mánuði aukalega sem afgangsorku eða um 200 GWh/a. Lágmarksorkuvinnsla með vatnsafli er þá e.t.v. 11,3 TWh/a og hámarkið með núverandi notendum og miðlunum 13,3 TWh/a. Munurinn þarna á, 2,0 TWh/a, er aðeins 18 %. Landsvirkjun telur sjálf, að hámarksvinnslugetan sé 14,5 TWh/a, en vélbúnað vantar í vinnsluna og markaðinn skortir enn til að taka við allri þeirri orku. Munurinn þarna á hámarki og lágmarki er 28 %, sem virðist vera fræðilegur, en ekki raunverulegur sem stendur.
Hörður Arnarson telur, að m.v. 80 % fyllingu lóna muni aðeins verða 3,5 % skerðing á orkuafhendingu Landsvirkjunar. Það eru aðeins um 450 GWh/a, sem var innan við helmingur af meintri skertri miðlunargetu, svo að skerðingin gæti hafa verið vanáætluð hjá honum, en septemberrennslið bjargar honum væntanlega.
Það er sjaldgæft, að til raforkuskerðinga hafi komið strax að haustinu, en í ágústlok boðaði Landsvirkjun, að vísu ótímabært, skerðingu frá októberbyrjun 2015, sem sýnir, að vatnsbúskapur sumarsins 2015 m.v. orkuspána í vetur var alveg óvenju rýr, en haustið bjargaði miklu. Forstjóri Fjarðaáls hefur upplýst, að boðað sé, að þessi skerðing verði 10 %, og hann ber sig illa undan framleiðslutjóni nú 3 ár í röð. Það er eðlilegt, og það stefnir í algert óefni í þessum efnum, nema þegar verði gripið til mótvægisaðgerða. Eins og áður segir mundu þær geta falizt í Sprengisandslínu, Búrfellsvirkjun 2 og Norðlingaölduveitu. Því miður er lítið aðhafzt, en flotið sofandi að feigðarósi.
Það er misskilningur, að afhendingaröryggi raforku sé mjög hátt á Íslandi. Raforkukerfið er veikt, óvenjulega veikt mælt í stærð einstaks álags á borð við álverin sem hlutfall af skammhlaupsafli í stofnkerfinu við afhendingarstað til álveranna. Birtingarmynd þessa er spennu- og tíðniflökt með tiltölulega tíðum rofum álags, flutningslína og virkjana, sem afleiðingu. Þessi rýru afhendingar- og spennugæði mega stórnotendur og aðrir búa við, en hinir fyrrnefndu bera tjónið. Í stað þess að vera í hlutverki baunateljara ætti forstjóri Landsvirkjunar að snúa sér af krafti að raunhæfum framkvæmdum til úrbóta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2015 | 17:33
Enn af öryggismálum flugvallar
Deilan um örlög Reykjavíkurflugvallar og þar með íslenzks innanlandsflugs er í sjálfheldu, algerlega að þarflausu. Almenningur hefur sýnt málinu mikinn áhuga, og það er afmarkað í þeim skilningi, að það er einfalt að bera upp spurningu á atkvæðaseðli, svo að enginn þurfi að fara í grafgötur um niðurstöðuna á grundvelli hinna einföldustu svara, já eða nei.
Málið er komið í hnút, og borgarstjórn virðist ekki hafa hug á að leiða það farsællega til lykta. Það er miður, því að hún gæti hæglega höggvið á hnútinn með því að lýsa því yfir, að hún mæli með því við Innanríkisráðherra, að öll þjóðin fái að kjósa um málið, þar sem deilan snerti Reykjavík sem höfuðborg landsins, og þess vegna sé borgarstjórn fús til að hlíta meirihlutaúrskurði kjósenda til spurningarinnar:
- Vilt þú, að Reykjavíkurflugvöllur verði starfræktur með þremur flugbrautum áfram, eins og verið hefur, á meðan rekstraraðilar farþegaflugs, sjúkraflugs, kennsluflugs og einkaflugs, hafa áhuga á áframhaldandi starfsemi þar ?
- Já
- Nei
- Verði jákvæðir í meirihluta, þýðir það, að löngu tímabær uppbygging aðstöðu fyrir starfsemina mun strax hefjast.
- Verði neikvæðir í meirihluta þýðir það, að Neyðarbrautinni mun verða lokað, jafnvel árið 2016, og hinum tveimur flugbrautunum verður lokað um árið 2024 samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar.
"Rök flugvallarandstæðinga" eru aðallega, að Reykjavík þurfi á Vatnsmýrinni að halda undir byggingarlóðir. Margvíslegir annmarkar eru á þeirri röksemdarfærslu, s.s. gnótt ódýrara byggingarlands innan marka Reykjavíkur, fjölmenn byggð í Vatnsmýri útheimtir mikil samgöngumannvirki og gatnagerð og lóðagröftur mundu eyðileggja viðkvæmt vistkerfi Vatnsmýrar og ógna Reykjavíkurtjörn í sinni núverandi mynd.
Rök flugvallarvina eru af margvíslegum toga, en nú hafa bætzt við þungavigtarrök, eins og sjá mátti í frétt Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu þriðjudaginn 15. september 2015 undir fyrirsögninni:
"Hörð gagnrýni á EFLU og Isavia".
Fréttin hefst á þessa leið:
"Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) hefur nýverið sent Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, skýrslu sína, um aðra útgáfu áhættumats Isavia frá 22. maí sl. vegna hugsanlegrar lokunar á flugbraut 06/24, svonefndri neyðarbraut, á Reykjavíkurflugvelli, sem Samgöngustofa samþykkti í júníbyrjun.
ÖFÍA kemst að þeirri niðurstöðu, að skýrsla EFLU, frá því í nóvember 2014, sé ónothæf og það sé af þeim sökum óviðunandi, að áhættumatsskýrsla byggist á henni við ákvarðanatöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar."
Hér tjá fagaðilar sig, sem mestra hagsmuna eiga að gæta varðandi öruggan rekstur Reykjavíkurflugvallar og sem gerzt þekkja til af langri reynslu, hvaða öryggiskröfur er nauðsynlegt að gera til flugvalla í rekstri, þ.e.a.s. atvinnuflugmennirnir sjálfir. Að ganga gegn einarðri skoðun þeirra á flugöryggismálum kemur að mati blekbónda ekki til mála, og mætti flokka slíkt sem stjórnsýslulegt glapræði. Svo að ekkert fari á milli mála í viðkvæmu máli, skal hér vitna beint í skýrslu ÖFÍA:
"ÖFÍA telur því, að skýrsla EFLU, frá nóvember 2014, sé ónothæf, og það er óásættanlegt, að áhættumatsskýrsla Isavia byggi á henni við ákvarðanatöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar."
Skýrsla EFLU: "Það er ekki skýrt, hvort nothæfisstuðull eigi að innihalda takmarkanir vegna skyggnis og skýjahæðar."
Skýrsla ÖFÍA: "Augljóst er því að taka skal til greina skyggni og skýjahæð við útreikning á nothæfisstuðli samkvæmt leiðbeiningum ICAO. Aftur leiðir það til þess, að útreikningur í skýrslu EFLU á nothæfisstuðli Reykjavíkurflugvallar er rangur."
Það er ljóst, að maðkur er í mysunni, þegar kemur að ráðgjöfinni, sem borgaryfirvöldum er veitt varðandi afleiðingar þess að loka Neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar. Því miður virðist núverandi meirihluta borgarstjórnar hætta til að hlaupa á sig og hrapa að niðurstöðu, láta tilfinningar hlaupa með sig í gönur í stað þess að ígrunda viðfangsefnin áður en ákvörðun er tekin. Nýjasta dæmið er sú arfavitlausa og skaðlega ákvörðun að sniðganga vörur frá Ísrael. Vonandi bera þá yfirvöld landsins gæfu til að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í varðandi örlög flugvallarins.
Sjúkraflugið var sniðgengið í áhættumati Isavia, sem er enn einn áfellisdómurinn yfir þeirri makalausu stofnun. Í lok téðrar fréttar skrifar Agnes:
"ÖFÍA gerir einnig athugasemdir við, að áhættumatsskýrsla Isavia taki ekki mið af sjúkraflugi og sú ráðstöfun sé ekki rökstudd í skýrslunni. Jafnframt sé það gagnrýnivert, að Samgöngustofa skuli samþykkja áhættumat, þar sem sjúkraflug er tekið út fyrir sviga. Lokaorð skýrslu ÖFÍA eru þessi:
"ÖFÍA gerir alvarlegar athugasemdir við framvindu þessa máls. Það er grundvallaratriði, að úrvinnsla, sem varðar flugöryggismál, sé unnin með lögmætum og óvéfengjanlegum hætti.""
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.9.2015 | 18:22
Kínverska kreppan
Frá því að Deng Tsiao Ping fékk uppreisn æru í Beijing, þegar miðstjórn kínverska kommúnistaflokksins urðu ljós hrapalleg mistök flokksins undir stjórn stórglæpamannsins Mao Tse Tung, hefur verið reynt að framlengja óskoraðan valdatíma kommúnistaflokksins með því að virkja auðvaldskerfið, sem reist er á ágóðavon einstaklinganna, til að draga hlassið. Kommúnistar hafa frá dögum læriföður síns, Karls Marx, haldið því til streitu, að ágóði einstaklinga sé jafnan á kostnað annarra og þar með heildarinnar, og þess vegna sé ófélagsleg hegðun að græða fé. Tilraunir Kínverja með auðvaldskerfið á afmörkuðum svæðum landsins sýndu þvert á móti, að einstaklingsgróði lyfti hag heildarinnar, nákvæmlega eins og Adam Smith, lærifaðir auðvaldssinna, hélt fram á 18. öld og búið er að margsanna í verki á Vesturlöndum og víða annars staðar síðan. Þetta eru þess vegna flestum á Vesturlöndum löngu kunn sannindi, þó að vinstri sinnaðir jafnaðarmenn neiti að viðurkenna þau, hvar sem er í heiminum. Það sýnir betur en margt annað, að marxisminn og afsprengi hans eru eins konar trúarbrögð, þar sem staðreyndir koma málinu ekki við.
Þetta var auðvitað niðurlægjandi niðurstaða fyrir kommúnista í Kína, en Kínverjar eru raunsæismenn og ákváðu eftir árangursríka tilraun í héruðum við ströndina að innleiða auðvaldskerfið um allt land, jafnvel í landbúnaði, þar sem stofnun samyrkjubúa hafði leitt til hungursneyðar í hinu "Stóra stökki" Maos, formanns. Deng hafði sagt með réttu, að ekki skipti máli, hvort kötturinn væri svartur eða hvítur, heldur hvort hann veiddi eða ekki. Auðvaldskerfið gerði kraftaverk á kínverska hagkerfinu, en friðsamleg sambúð þess og kommúnistaflokksins kann nú að vera komin á leiðarenda, því að margvísleg sjúkdómseinkenni, sem stafa af þessari sambúð, eru nú að koma í ljós, enda er miðstýrt auðvaldskerfi mótsögn í sjálfu sér, og samkeppnin getur aldrei orðið frjáls í slíku kerfi. Megnið af fjárfestingum í Kína hefur verið á vegum ríkisfyrirtækja, en hagvöxturinn er mestmegnis framkallaður af einkafyrirtækjum. Fjárfestingar ríkisfyrirtækjanna voru skuldsettar, fjárfestingar einkafyrirtækjanna ekki. Nú er komin upp peningaþurrð í Kína, sem leitt getur til hruns hagkerfisins.
Fyrsta augljósa veikleikamerkið var hrun bólgins hlutabréfamarkaðar sumarið 2015. Stjórnvöld eru sek um bæði bólguna og hrunið. Þau hvöttu almenning til að setja sparifé sitt í hlutabréfakaup, og margir skuldsettu sig fyrir hlutabréfakaupum. Þeir hugsa nú yfirvöldum þegjandi þörfina, því að þeim er kennt um hrunið. Stjórnvöld hafa misst trúverðugleika í augum almennings, einkum unga fólksins.
Fyrirtæki í Kína eru gríðarlega skuldsett, og yfirvöld ráðlögðu þeim að selja hlutabréf á útblásnum markaði og greiða niður skuldir sínar þannig. Skuldir Kínverja nema nú um 28 trilljónum bandaríkjadala (trilljón=1000 milljarðar), sem er mikið m.v. íbúatölu og landsframleiðslu. Nú hefur hagvöxtur lækkað úr tæplega 10 % árið 2011 og í 7 % 2014 og fer lækkandi. Júanið lækkar líka, því að fjármagnsflótti er hafinn frá Kína og aðallega til Bandaríkjanna, BNA. Vöruinnflutningur til Kína var 14 % minni í bandaríkjadölum talið í ágúst 2015 en í ágúst 2014.
Kínversk stjórnvöld lofuðu að beita öllum brögðum til að styðja við hlutabréfamarkaðinn og hefur loforðið kostað kínverska ríkið um 1 trilljón bandaríkjadala, og enn er óstöðugleiki í kínverska hagkerfinu. Kínversk stjórnvöld eiga nú í síauknum erfiðleikum með að finna fjármagn til að halda hagkerfinu gangandi. Þessi vandi á sér lengri aðdraganda en hrun hlutabréfamarkaðarins. Mistök við hagstjórn í Kína gera það mjög ósennilegt, að landið verði mesta efnahagsveldi heims undir stjórn kommúnistaflokksins. Við þekkjum það, Íslendingar, að froðuhagkerfi veitir stundarfró, en í kjölfarið koma skuldadagarnir óhjákvæmilega. Pappírsverðmæti eru hillingar. Aðeins verðmæti framleidd á sjálfbæran hátt verða varanleg, þó að mölur og ryð fái þeim grandað að lokum, eins og öðru veraldlegu.
Með því að binda gengi júans við bandaríkjadal og skrá gengið of lágt m.v. markaðsgengi, hefur Kínverjum tekizt að safna 4 trilljónum bandaríkjadala í gjaldeyrisvarasjóð, en þessi ráðstöfun hefur haft mjög þensluhvetjandi áhrif og ótæpileg peningaprentun verið stunduð. Slíkt hefur alltaf timburmenn í för með sér, sem nú virðist vera komið að.
Tvenns konar ályktanir má draga af óförum Kínverja. Í fyrsta lagi, að Kína standi nú og muni áfram, með eins flokks kerfi, standa efnahagslega langt að baki vestrænum auðvaldsríkjum og Japan.
Í öðru lagi, að hinn mikli uppgangur síðustu ára hafi ekki verið annað en sígild hagbóla, sem stafar af gegndarlausri peningaprentun og misráðnum ákvörðunum ráðamanna.
Héraðsstjórar og aðrir pótintátar kommúnistaflokksins hafa beint gríðarlegu fjármagni í óarðbærar fjárfestingar, gæluverkefni sín, sem oft eru skuldsett, og af því stafar í raun núverandi afturkippur og fjármagnsskortur, að arðsemi fjárfestinganna vantar.
Tilraunir kínverskra stjórnvalda til að viðhalda veizluhöldunum ættu að verða mönnum víti til varnaðar. Allar mótvægisaðgerðir kínverska seðlabanakans og ríkisstjórnarinnar hafa haft neikvæðar afleiðingar annars staðar í hagkerfinu. Þær kölluðu á aðrar mótvægisaðgerðir með neikvæðum afleiðingum o.s.frv.
Lögmálið er, að eina ráðið við slæmum fjárfestingum eru afskriftir og gjaldþrot, ef sú er staðan. Að dæla inn fé til að viðhalda ósjálfbæru ástandi gerir ekkert gagn til lengri tíma, heldur veldur tjóni, jafnvel gríðarlegu. Þetta er algild lexía, og mætti verða mörgum forræðishyggjumanninum víti til varnaðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2015 | 17:53
Ráðsmennskan í Ráðhúsinu við Tjörnina
Í höfuðstað landsins ríkir nú vinstri stjórn undir forsæti jafnaðarmannsins Dags B. Eggertssonar. Þessi ólukkulegi vagn er með varadekk úr flokki pírata, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn og flugvallarvinir eru í minnihluta í borgarstjórn á þessu kjörtímabili sveitarstjórna. Nú horfir þunglega í málefnum borgarinnar, sem stingur í stúf við stöðu ríkisins, og ýmissa annarra nágrannasveitarfélaga, og er ástæða til að gera frammistöðu jafnaðarmanna og sjóræningja við stjórnvölinn nokkur skil.
Vel að merkja flugvallarvinir. Þeir söfnuðu tæplega 70 000 undirskriftum til stuðnings við óskertan flugvöll, svo að innanlandsflugið mætti dafna og þroskast á 21. öldinni og taka við hluta af þeirri gríðarlegu umferðaraukningu, sem sprenging í ferðamannageiranum hefur í för með sér. Hér er um að ræða umtalsverða tekjulind fyrir Reykjavíkurborg, sem hleypur á milljörðum króna, þegar allt er talið. Hvorki Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, núverandi borgarstjóri, né fulltrúi pírata í meirihluta núverandi borgarstjórnar, virðast gera nokkurn skapaðan hlut með þessa fjölmennustu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar. Lýsir það lýðræðisást og grasrótarsamkennd ? Hvernig í ósköpunum stendur á því, að píratinn virðir aðalstefnumið Pírataflokksins um opna stjórnsýslu og virkjun almennings við ákvarðanatöku að vettugi í þessu máli, sem svo mikinn áhuga hefur vakið á meðal almennings ? Úr því að þannig er í pottinn búið, að Píratar vilja heldur ekki vísa þessu ágreiningsmáli í þjóðaratkvæðagreiðslu, verður að álykta sem svo, að lýðræðishjal píratanna sé einvörðungu í nösunum á þeim. "Sorry, Stína." Lýðræðishjal jafnaðarmanna og pírata er lýðskrum. Það sýna efndirnar, þar sem þessir aðilar fara með völdin. Þeir, sem vegsama beint lýðræði í orði, en sniðganga það á borði, skulu loddarar heita.
Viðskiptablaðið birti fimmtudaginn 3. september 2015 vandaða úttekt á fjárhag Reykjavíkurborgar. Úttektin sýnir því miður, að fjármál höfuðborgarinnar eru í megnasta ólestri, og stjórnunin er í lamasessi, því að engir tilburðir eru sjáanlegir til að snúa af braut skuldasöfnunar. Undir stjórn jafnaðarmanna og pírata er flotið sofandi að feigðarósi. Dagur B. Eggertsson er sem áhorfandi, en ekki gerandi, og leikur á fiðlu á meðan Róm brennur. Slíka menn dæmir sagan harðlega.
Viðvaranir fjármálaskrifstofu borgarinnar virka á Dag B. eins og að stökkva vatni á gæs. Draumóramaðurinn Dagur vill þó afleggja mikla tekjulind borgarinnar, sem er Vatnsmýrarvöllur. Reykjavík á gnægð byggingarlands, en það er samt hörgull á tilbúnum lóðum, og borgin okrar á þeim. Allt snýst um sérvizkuna "þéttingu byggðar" og "þrengingu gatna". Útsvarsheimildin er fullnýtt, en fasteignagjöldin ekki. Jafnaðarmennirnir og píratinn kunna því að seilast enn dýpra ofan í vasa húseigenda, og eru þó húsnæðiskostnaður og húsaleiga allt of há í borginni, sem er ungu fólki þungt í skauti.
Vandamálið er hins vegar á kostnaðarhlið borgarrekstrarins, eins og nú verður stiklað á stóru um, og þar verður að koma til uppskurðar, sem læknirinn þó veigrar sér við af óskiljanlegum ástæðum, þó að öllum megi ljóst vera, að meinið verður að fjarlægja. Að öðrum kosti deyr sjúklingurinn (borgarsjóður lendir í greiðsluþroti). Áður en að því kemur verður hann þó settur í öndunarvél tilsjónarmanns. Niðurlæging höfuðborgarinnar í boði jafnaðarmanna verður þá alger.
Aðgerðarleysi Dags má e.t.v. skýra með því, að hann bíði eftir kraftaverki, einhvers konar Wunderwaffen, að hætti þjóðernisjafnaðarmanna 1944-1945. Eitt slíkt undravopn gæti verið OR-Orkuveita Reykjavíkur, en fjárhagur hennar hefur verið bágborinn, og hún verður ekki sérlega aflögufær á meðan álverðið er í lægð, og það mun verða í lægð þar til Kína nær sér á strik, en undir það hillir ekki, nema síður sé. Tilraun kínverska Kommúnistaflokksins með auðvaldskerfi undir einræði kommúnista hefur mistekizt, og þar verður eitthvað undan að láta. Hrávörumarkaðir o.fl. verða fórnarlömb kínverskrar kreppu.
"Veltufé frá grunnrekstri Reykjavíkurborgar dugði ekki fyrir afborgunum af lánum á fyrri hluta þessa árs. Útgjöld hafa aukist um marga milljarða umfram verðlag, fólksfjöldaþróun og kostnað við nýja málaflokka. Stöðugildum hefur hlutfallslega fjölgað helmingi hraðar en íbúum í Reykjavík frá 2009. Aukið lánsfé þarf til að fjármagna grunnþjónustu."
Þessi niðurstaða Viðskiptablaðsins sýnir í hnotskurn, að borgin eyðir um efni um fram, og meginskýringin er hömlulaus fjölgun starfsmanna borgarinnar. Það eru of margar silkihúfur að ráðstafa fjármunum borgarinnar og spyrja má, hvort hlöðukálfum jafnaðarmanna sé raðað á garðann ? Það er gamla sagan með jafnaðarmenn. Þeir sýna af sér algert ábyrgðarleysi í opinberum fjármálum og stjórna aldrei með hagsmuni skattborgaranna að leiðarljósi, heldur þenja báknið fyrirhyggjulaust út og vænta með því sæluríkis sameignarstefnunnar, sem auðvitað aldrei kemur, því að þetta er botnlaus hít. Þetta er nú að koma jafnaðarmönnum í koll um alla Evrópu.
"Útgjöld Reykjavíkurborgar hafa eftir sem áður aukist um 18,45 % umfram verðlag, íbúafjölgun og útgjaldaaukningu vegna málefna fatlaðra frá árinu 2010."
Þessi hömlulausa útgjaldaaukning sýnir svart á hvítu, að Reykjavík er stjórnlaus. Mýsnar dansa á borðinu, og kötturinn liggur á meltunni og rumskar ekki. Parkinsonslögmálið ríkir í Ráðhúsinu í Reykjavíkurtjörn.
Þessi óöld hófst fyrir alvöru með Besta flokkinum, sem var beztur við að sólunda almannafé, en óöldin hefur haldið áfram á fullum hraða á vakt Dags B. Eggertssonar. Sumum urðu það vonbrigði, en aðrir vissu, að jafnaðarmenn yrðu ófærir um að snúa af þessari óheillabraut. Þá skortir bæði getu og vilja til stórræðanna. Það fjarar hratt undan þeim núna. Farið hefur fé betra.
"Í fyrri úttekt Viðskiptablaðsins frá 7. maí síðastliðnum um fjárhag Reykjavíkurborgar var greint frá því, að borgaryfirvöld hafa fengið viðvaranir frá fjármálaskrifstofu borgarinnar vegna hættumerkja í rekstrinum, þegar ársreikningi fyrir seinasta ár var skilað. Viðvaranir fjármálaskrifstofunnar beindust fyrst og fremst að útgjöldum, en þar var til að mynda bent á, að laun og annar rekstrarkostnaður væru orðin 123 % af skatttekjum. Samkvæmt árshlutareikningi er þetta hlutfall komið í 129 % á fyrri helmingi ársins 2015, bæði vegna launahækkana hjá borginni og fjölgunar stöðugilda."
Þegar rekstur stórfyrirtækis á borð við borgina er orðinn jafndúndrandi ósjálfbær og þessi lýsing ber með sér, er með öllu ófyrirgefanlegt að grípa ekki í taumana þrátt fyrir, að öll viðvörunarljós blikki rauðu í Ráðhúsinu. Þar hlýtur að vera lömun á æðstu stöðum á ferðinni og ákvarðanafælni á sjúklega háu stigi. Kjósendur geta því miður ekki skipt um áhöfn á skútunni fyrr en í sveitarstjórnarkosningum 2018, en þá mega þeir heldur ekki láta nein trúðslæti villa sér sín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.9.2015 | 10:40
Baráttan við báknið
Framlagt fjárlagafrumvarp lofar góðu um viðsnúning í ríkisrekstrinum, þar sem vaxtagjöld árið 2016 munu lækka um meira en 8 mia (milljarða) kr, og afgangur verður af rekstri ríkissjóðs u.þ.b. 2 % af tekjum hans. Boðaðar eru löngu tímabærar tollalækkanir og tekjuskattslækkanir ásamt lækkun fjármagnstekjuskatts, sem auka munu ráðstöfunartekjur heimila á árunum 2016-2017 um 1,4 %, þegar allt verður komið til framkvæmda. Þetta svarar til þess, að ríkið skili til almennings 17 miö kr, en ríkissjóður mun fá drjúgan hluta þeirrar upphæðar bættan upp með hærri tekjum af virðisaukaskatti o.fl.
Formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs lét ekki á sér standa með að taka afstöðu gegn þessari kaupmáttaraukningu almennings og með bákninu, sem hún telur hér missa af fé, sem því beri síðan að endurdreifa um þjóðfélagið eftir smekk stjórnlyndra stjórnmálamanna. Þetta eru stjórnmál af gamla skólanum, sem sífellt fjarar undan. Hún sagði það beint út, að almenningur færi nú að verzla meira, og formaður VG óttaðist þenslu í hagkerfinu þess vegna. Vinstra heimatrúboðið er samt við sig og sér skrattann í hverju horni, ef almenningur getur farið að veita sér meira af fatnaði eða öðru. Hvernig vesalings Katrín Jakobsdóttir getur fengið það út, að verðlækkanir og skattalækkanir valdi þenslu út af fyrir sig, er ekki boðlegur málflutningur, nema fyrir áhangendur villta vinstrisins. Heldur hún virkilega, að ríkisútgjöld geti ekki valdið þenslu ? Þessi gamla og ryðgaða plata villta vinstrisins gengur í raun út á, að fólkið sé til fyrir ríkið, en ekki öfugt, og að ríkisreksturinn eigi að vaxa stöðugt að umfangi, þar til sælustigi sameignarstefnunnar sé náð. Þess vegna megi aldrei skila neinu til almennings, sem ríkið hefur einu sinni komið höndum yfir. Skattalækkanir, hverju nafni, sem þær nefnast, eru eins og guðlast í huga vinstra heimatrúboðsins.
Hugarheimur Katrínar Jakobsdóttur er mengaður af stéttastríðshugmyndum, þar sem tilgangurinn helgar meðalið, og tilgangur allra aðgerða er að koma höggi á "stéttaróvininn", vinnuveitandann. Þannig er alltaf hvatt til sem mestra nafnlaunahækkana í viðleitni til að draga úr hagnaði auðvaldsins, en hagur verkalýðs og borgara er algert aukaatriði í huga vinstra heimatrúboðsins. Af þessum sökum berst það ætíð gegn kaupmáttaraukningu, sem ekki er sótt í vasa vinnuveitenda. Þetta er eins andfélagslegt viðhorf og hugsazt getur.
Því miður hefur þessi sjúklegi hugsunarháttur smitað út frá sér, t.d. til embættismannakerfisins, sem iðulega setur sig á háan hest gagnvart einstaklingum og einkafyrirtækjum, og þykist vera yfir almenning hafið. Þetta er alþekkt, og Orson Wells gerði þessu sjúklega atferli, yfirlæti, drambsemi og kúgunartilburðum, skil að sínu leyti í bók sinni, 1984.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritaði um þetta þarfa ádrepu í Morgunblaðið 9. september 2015, undir fyrirsögninni:
"Röng, letjandi og rotin skilaboð".
Um hroka og yfirgang embættismannastéttarinnar gagnvart einstaklingum og einkafyrirtækjum nefnir Óli Björn seðlabankahneykslið síðasta og skrifar:
"Það hefur verið búið til andrúmsloft stjórnlyndis, þar sem það þykir ekki óeðlilegt, að stjórnkerfið gangi fram af fullkominni hörku gagnvart framtaksmönnum, sem hafa skarað fram úr. Að undirlagi Seðlabankans var gerð innrás í skrifstofur Samherja fyrir fjórum árum vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum."
Þessi ófyrirleitna framkoma er ólíðandi. Nú hefur fjármála-og efnahagsráðherra boðað framlagningu frumvarps um breytta skipan Seðlabanka Íslands. M.a. á að hverfa aftur til baka til bankastjórnar þriggja jafnsettra bankastjóra, þó að einn þeirra gegni formennsku bankastjórnar. Er þá vonandi, að ákvarðanataka á vegum bankans verði yfirvegaðri og betur ígrunduð, lögfræðilega og hagfræðilega, en hún hefur verið frá skipulagsbreytingu og ráðningu Jóhönnustjórnarinnar á núverandi húsbónda í Svörtuloftum.
Hið endurupptekna fyrirkomulag tryggir jafnframt betri samfellu í æðstu stjórn bankans, því að til undantekninga heyrir, að öll bankastjórnin hverfi í einu, eins og Jóhanna Sigurðardóttir varð þó valdur að á sínum tíma og fékk þá norskan krata til að stýra fleyinu þar til hún réð núverandi gallagrip, sem síðan reyndi að fara dómstólaleiðina til að hremma laun, sem hann taldi téða Jóhönnu hafa lofað sér.
Peningamálastjórnun landsins er að nokkru leyti valdur að miklum fjármagnskostnaði við húsbyggingar og aðrar fjárfestingar í landinu. Þessi mikli fjármagnskostnaður vegna húsbygginga er miklu hærri en á hinum Norðurlöndunum, svo að munar 1,5-2,5 milljónum kr á ári af 30 milljón kr láni, og er ein meginskýringin á skorti á trausti í garð hefðbundnu stjórnmálaflokkanna og flótta til sjóræningjanna að mati blekbónda. Hér eiga bæði verðtrygging og háir vextir sök. Það er verkefni ríkisstjórnarinnar að varða veginn til lausnar á þessu vandamáli, og fjármála- og efnahagsráðherra lét á sér skilja í ræðu sinni í umræðum á þingi um stefnuræðu forsætisráðherra, að hann gerði sér grein fyrir vandamálinu og mikilvægi góðrar lausnar á því. Líklega er pólitískur og hagfræðilegur þjóðfélagsstöðugleiki lykilatriði til lausnar.
Um skuldir unga fólksins ritar Óli Björn Kárason í téðri grein:
"Þúsundir ungmenna eru skuldum vafin eftir að hafa fleytt sér í gegnum langt nám með dýrum lánum auk atvinnutekna á sumrin, og þegar færi hefur gefist með námi. Engu skiptir, þótt í boði séu ágætlega launuð störf. Unga fólkið sér, að það á litla eða enga möguleika á því að eignast eigin íbúð í náinni framtíð. Það er búið að takmarka möguleika þess - skerða valfrelsið. Nauðugt á það ekki annan kost en að halda áfram að vera leigjendur. Engu virðist skipta, að afborganir af láni vegna þokkalegrar íbúðar séu lægri en það, sem greitt er í leigu. Kerfið er búið að loka á lánamöguleika."
Óli Björn tengir þessa alvarlegu stöðu ungs fólks, sem auðvitað smitar um allt þjóðfélagið, við lítið fylgi hefðbundinna stjórnmálaflokka. Það stendur borgaralegu stjórnmálaflokkunum næst að lagfæra þetta. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins að gera fólki kleift að búa í eigin húsnæði sem lengst á æviskeiðinu, og 90 % landsmanna kjósa það helzt. Þess vegna standa úrbætur Sjálfstæðisflokkinum næst, og fyrr getur hann varla vænzt verulegrar fylgisleiðréttingar en hann leggur fram trúverðuga áætlun um að skapa forsendur svipaðs fjármagnskostnaðar við húsbyggingar og á hinum Norðurlöndunum. Þar er reyndar minna um, að fólk búi í eigin húsnæði en á Íslandi. Um þetta viðfangsefni skrifar Óli Björn og er hægt að taka heils hugar undir með honum:
"Svo undrast margir, að ungt fólk sé afhuga hefðbundnum stjórnmálaflokkum ! Á meðan borgaralegir stjórnmálaflokkar leggja litla eða enga áherslu á að skapa ungu fólki a.m.k. ekki síðri tækifæri en foreldrar þess fengu til að eignast eigið húsnæði, munu þeir aldrei ná eyrum yngri kjósenda."
Að lokum er herhvöt til borgaralegra afla, ekki sízt Sjálfstæðisflokksins, um að bretta upp ermarnar í þágu ungu kynslóðarinnar og húsnæðisvanda hennar. Það er ónógt framboð húsnæðis vegna eftirspurnarleysis, sem stafar af háum fjármagnskostnaði við byggingar og að nokkru of háum byggingarkostnaði. Óli Björn:
"Stjórnmálamenn, sem vilja tryggja fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinganna, geta ekki setið aðgerðarlausir. Þeir geta ekki sætt sig við, að aðeins þeir, sem eiga fjárhagslega sterka bakhjarla eigi raunverulegt valfrelsi í húsnæðismálum að loknu námi. En með aðgerðaleysi senda þeir þau skilaboð, að helsta forsenda þess að eignast eigið húsnæði sé fjárhagslegur styrkur foreldra eða afa og ömmu."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.9.2015 | 14:43
Snigillinn hefur stöðvazt
Í byrjun september 2015 voru birtar skoðanakannanir um fylgi við stjórnmálaflokka á Íslandi, sem sýna tveimur krataflokkum skriftina á veggnum. Því fer fjarri, að þessi þróun mála sé einsdæmi fyrir Ísland, heldur er um að ræða sömu tilhneigingu um alla Evrópu. Þessi þróun hefur valdið heilabrotum, og þess vegna verður gripið niður í hugleiðingar The Economist um málefnið í þessari vefgrein og blandað við eigin.
Píratar á Íslandi eru angi af alþjóðlegri hreyfingu, sem þó nýtur hvergi viðlíka fylgis og í skoðanakönnunum á Íslandi, þar sem stuðningurinn var í byrjun september 2015 36 %. Þetta er óánægjufylgi og mótmæli gegn ríkjandi valdastétt í öllum stjórnmálaflokkum. Rætur óánægjunnar standa þó mun dýpra en hjá persónum og leikendum, þannig að mannaskipti mundu engu breyta.
Óánægjufylgi af þessu tagi hefur í Evrópu safnazt á þjóðernissinnaða flokka til hægri og vinstri á hinu pólitíska litrófi, sem allir eru þó á móti skrifræðisbákninu í Brussel og vilja taka upp hefðbundið landamæraeftirlit og vísa flóttamönnum til baka, enda gætir mikillar tortryggni í þessum hópum gagnvart Múhameðstrúarmönnum.
Athyglivert er í öllu þessu umróti, að síðasta skoðanakönnun í Þýzkalandi gaf CDU, flokki Angelu Merkel, 43 % atkvæða, yfir landið allt. Þetta er merkilegur árangur kanzlarans og stefnu flokks hennar, sem hefur í öndvegi Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi. Þessi stefna beið ekki skipbrot í hruni fjármálakerfis heimsins 2008. Þvert á móti sigldu Þjóðverjar þá tiltölulega lygnan sjó undir forystu CDU/Merkel. Merkel hefur nú tekið forystu um að opna Þýzkaland fyrir sýrlenzkum flóttamönnum, og á eftir að koma í ljós, hversu farsæl sú stefna er. Það er skoðun blekbónda, að Sjálfstæðisflokkinum á Íslandi væri hollt að leita fyrirmynda hjá CDU. Til þess þarf ekki miklar breytingar; aðeins að skerpa á nokkrum atriðum.
Um fall jafnaðarstefnunnar var grein í The Economist þann 1. ágúst 2015 eftir "Karlamagnús", og verður nú gripið niður í henni.
Gunter Grass, sem var áhugasamur um miðju-vinstri hugmyndir Willys Brandts, fyrrum borgarstjóra Vestur-Berlínar og kanzlara V-Þýzkalands, skrifaði grein um hinn hæga stíganda jafnaðarstefnunnar eftir seinni heimsstyrjöld, "Úr dagbók snigils".
Nú hefur þessi snigill stöðvazt alveg. Mið-hægriflokkar hafa knésett jafnaðarmenn í kosningum um alla Evrópu undanfarin ár og tekið við valdataumunum. Undantekning eru Færeyjar, en þar varð tilviljun til þess, að jafnaðarmenn sigruðu í nýlegum kosningum til Lögþingsins, þar sem Lögmaðurinn var fundinn sekur um ósannsögli gagnvart Lögþinginu.
Má lánleysi jafnaðarmanna furðu gegna í kjölfar fjármálakreppunnar 2007-2008, sem mið-vinstriflokkum tókst engan veginn að notfæra sér til að knýja á um aukin ríkisafskipti, reglugerðasmíði, aukinn eftirlitsiðnað og minni áherzlu á frjálsan markað. Öll þessi áhugamál jafnaðarmanna eru til þess fallin að draga úr samkeppnihæfni fyrirtækja, og það hefur runnið upp fyrir kjósendum, að slíkt er ekki launþegum í hag.
Í forysturíki Evrópu, Þýzkalandi, hefur Angela Merkel, formaður kristilegra demókrata, CDU, ríkt síðan 2005. Á Bretlandi hefur íhaldsstjórn verið við völd síðan 2010, og Jafnaðarmannaflokkurinn þar, sem koltapaði nýlegum þingkosningum, er uppteknastur við innri baráttu, naflaskoðun, um framtíðarstefnu og nýjan formann, sem gæti hæglega orðið svo langt til vinstri, að almennir kjósendur útskúfi flokkinum. Á Íslandi urðu næstum slík formannsskipti í vor hjá Samfylkingunni, en hún virðist reyndar vera á tortímingarbraut með sitjandi formanni, sem hangir í embætti á eigin atkvæði. Aumari frammistöðu formanns eru vart dæmi um.
Í Frakklandi er við völd í forsetahöllinni jafnaðarmaður með minna fylgi í skoðanakönnunum en nokkur fyrirrennara hans, og er endurkjör hans næsta vonlaust. Meira spennandi er, hvernig formanni Þjóðarframvarðanna reiðir af, en hún er andsnúin ESB og innflytjendastefnu þess og stefnir á að taka við sem húsbóndi og húsfreyja í Elysée-höllinni eftir næstu forsetakosningar.
Jafnvel í Skandinavíu, sem var löngum þekkt fyrir hófsama vinstri stefnu við stjórnvölinn, hefur verið skipt um stefnu. Að vísu sneru Svíar aftur til jafnaðarmannastjórnar árið 2014 eftir 8 ára mið-hægri stjórn, en nýja ríkisstjórnin fylgir fjárlagaáætlun fyrri ríkisstjórnar og er upp á náð og miskunn stjórnarandstöðu í Riksdagen komin.
Hægri menn í Noregi bundu enda á 12 ára vinstri sinnaða samsteypustjórn árið 2013, og Helle Thorning Schmidt, danskur jafnaðarmaður, sem fór fyrir vinstri samsteypustjórn, missti völdin í Kristjánsborgarhöll í júní 2015.
Í fyrrverandi Austantjaldslöndum eru dæmi um ríkisstjórnir, sem náð hafa nokkrum árangri, en eru samt hallar undir ríkisrekstur, t.d. í Tékklandi, en annars staðar hafa þjóðernissinnar og hægri menn hagnazt pólitískt á óvissunni, sem einkennt hefur eftirhruns tímann í Evrópu.
Auðvitað skipta persónuleikar máli, og einmitt núna eru fáir beinskeyttir persónuleikar í forystusveit jafnaðarmanna í Evrópu. Eftirminnilegir persónuleikar í hópi leiðtoga jafnaðarmanna á borð við Willy Brandt, Helmut Schmidt og Gerhard Schröder í Þýzkalandi, Bruno Kreisky í Austurríki, Einar Gerhardsen og Gro Harlem Bruntland í Noregi og jafnvel Tony Bair á Bretlandi,
höfðu sjálfstraust og sóttust ekki bara eftir einróma ákvörðunum. Í fremur litlausum hópi núverandi jafnaðarmannaleiðtoga stendur Sigmar Gabriel, leiðtogi SPD, þýzkra jafnaðarmanna og varakanzlari, upp úr, en það virðist ekki duga þýzkum jafnaðarmönnum til að ná forystu í Þýzkalandi, en þeir hafa þó 25 % fylgi nú í skoðanakönnunum.
Mótlæti jafnaðarmanna í Evrópu á sér dýpri rætur en persónutengdar. Ein er óþreyja almennings í garð valdhafa. Miðju-vinstri flokkar voru víða við völd, þegar fjármálakreppan reið yfir; á Bretlandi, í Grikklandi, Portúgal og á Spáni. Kjósendur náðu sér niðri á valdhöfunum og voru í engu skapi til að taka við afsökunum. Í Grikklandi var PASOK, jafnaðarmannaflokkur, lengst af aðalvaldaflokkurinn eftir herforingjastjórnina 1974, en nú er hann með 4 % fylgi í skoðanakönnunum. Það er sama og Björt framtíð hér um þessar mundir, sem nú fær væntanlega bráðlega nábjargirnar.
Þessi óþreyja kjósenda getur skýrt nokkrar undantekningar frá reglunni. Ítalir, sem umborið höfðu hæpið háttarlag Silvios Berlusconis, sem illa samræmdist katólskri háttprýði, snerust til vinstri, þegar Demókrataflokkurinn eignaðist frambærilegan leiðtoga, Matteo Renzi. Hann virðist nú einn á báti á evrópska sviðinu, þar sem endir örlagaþrungins efnahagsdrama er skrifaður af Þjóðverjum á mið-hægri væng.
Frú Merkel, sem sat að völdum, þegar fjármálakreppan reið yfir, hélt völdunum, af því að kreppan í Þýzkalandi varð skammvinn, og hún festi sig í sessi sem fremsti leiðtogi Evrópuríkis með hörku gagnvart skuldugum þjóðum og hélt þó Evrópusamstarfinu gangandi. Þetta blessaða Evrópusamstarf er þó alfarið smurt af evrum, sem verða til við verðmætasköpun í Þýzkalandi. Hvað verður um það, ef/þegar Bretar segja skilið við ESB 2017 ?
Þrátt fyrir allar deilurnar um aðhaldssemi (austerity) í Evrópu þá hefur boðun hennar hljómað skynsamlegri í eyrum kjósenda en töfrabrögð í anda Keynes. Kjósendur hafa hugsanlega ályktað sem svo, að yrði á annað borð að skera niður opinberan kostnað, þá færi flokkum minni ríkisafskipta það betur úr hendi en flokkum, sem hallir eru undir mikil og vaxandi ríkisafskipti. Þetta sannaðist á síðasta kjörtímabili á Íslandi, þar sem niðurskurðurinn var algerlega misheppnaður, og þetta sannast núna í Reykjavík undir jafnaðarmanni í borgarstjórastóli, sem stingur hausnum í sandinn gagnvart geigvænlegri skuldasöfnun borgarinnar.
Ær og kýr jafnaðarmanna eru mikil opinber útgjöld til að koma á þjóðfélagsumbreytingum, og þessa hugmyndafræði skorti allan trúverðugleika, þegar markaðirnir vantreystu og hækkuðu vexti mjög á skuldabréfum skuldugra þjóða. Meira aðlaðandi hefur verið sú tilhneiging sumra mið-hægri ríkisstjórna "að stela" nokkrum stefnumálum vinstrisins, t.d. að hækka lágmarkslaun í Þýzkalandi og á Bretlandi, eða að taka hjónaband samkynhneigðra upp á arma sér, eins og Íhaldsflokkurinn, brezki.
Frá falli Ráðstjórnarríkjanna hafa hefðbundnir stórflokkar haft tilhneigingu til klofnings, en miðju-vinstrið hefur orðið fyrir meiri skakkaföllum af völdum fækkunar iðnverkamanna og fækkunar félaga í verkalýðsfélögum. Stéttasamsetning vestrænna þjóðfélaga er að breytast, svo að ekki sé nú minnzt á aldurssamsetninguna, sem þvinga mun fram minnkandi útgjöld til velferðarmála á hvern íbúa yfir sextugu vegna fækkunar á vinnumarkaði. Það eru líklega lýðfræðilegar ástæður meðvirkandi í falli jafnaðarmanna Evrópu.
Nýtt vandamál, sem fjármálakreppan jók, er vaxandi gengi lýðskrumara, sem ógna ríkjandi öflum. Jafnaðarmannaflokki Grikklands, PASOK, var nærri útrýmt af öfgakenndum Syriza flokkinum. Jafnaðarmenn Spánar hafa misst fylgi til andaðhaldsflokksins Podemos.
Jafnvel UKIP, andstöðuflokkur við aðild Breta að ESB, sem aðallega hýsti óánægða íhaldsmenn, hefur dregið til sín fylgi frá jafnaðarmönnum. Matthew Taylor, fyrrverandi aðstoðarmaður síðasta sigursæla brezka jafnaðarmannaleiðtogans, Blairs, segir, að nýjar hreyfingar geti státað af því að vera á svipaðri bylgjulengd og almenningur og þröngva stóru flokkunum þannig til hliðar. Nýgræðingarnir, segir Taylor, hafa frumlegra og breytilegra skipulag, en hefðbundnir vinstri flokkar séu bundnir við flokksþing og goggunarröð innan flokkanna.
Efasemdir kjósenda varðandi innflytjendastefnu stjórnvalda stafa m.a. af ótta verkalýðs við aukið atvinnuleysi og samkeppni á vinnumarkaði. Ímynd jafnaðarmanna sem rausnarlegur flokkur fyrir hönd skattgreiðenda, sem ekkert aumt megi sjá án þess að snara út fúlgum fjár, er að snúast upp í stjórnmálalega byrði fyrir jafnaðarmannaflokkana í heimi alþjóðavæðingar og flóttamannastraums.
Franz Walter, stjórnmálasagnfræðingur við háskólann í Göttingen, hefur bent á, að þýzki jafnaðarmannaflokkurinn, SPD, hafi verið áhrifaríkt stjórnmálaafl í yfir 150 ár, en aðeins verið við völd í 30 ár. Með hægfara nálgun sinni á fjarlægum markmiðum eru þeir e.t.v. ánægðari með að undirbúa valdatöku sína en að hafa völdin, segir Walter. Ennfremur segir hann, að þeir séu alsælir með að dreyma um betri framtíð, og í mörgum tilvikum eru aðrir að skapa þessa framtíð núna. Sem sagt, jafnaðarmenn eru draumóramenn, en litlir sem engir stjórnendur. Á þessi lýsing ekki býsna vel við jafnaðarmanninn í borgarstjórastóli Reykjavíkur ? Ákvarðanafælni lýsir honum vel.
Birtingarmynd stjórnmálalegrar óþreyju kjósenda á Íslandi er Sjóræningjaflokkurinn. Sá flokkur hefur sogað til sín fylgi jafnaðarmanna á Íslandi og Sjálfstæðisflokksins. Þetta hefur ekki verið útskýrt almennilega, en tvennt getur t.d. valdið þessu:
1) Kjósendur fundu fyrir afli sínu í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave. Þáverandi stjórnarflokkar, jafnaðarmenn (Samfylking) og róttækir félagshyggjumenn (vinstri grænir), börðust hatrammlega gegn þessum þjóðaratkvæðagreiðslum, sem þó gáfu mjög góða raun, þegar upp var staðið. Jafnaðarmenn við stjórnvöl borgarinnar með borgarstjórann, Dag B. Eggertsson, í broddi fylkingar, hafa staðið gegn því að höggva á Gordíons-hnútinn, sem myndazt hefur um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að vísa málinu til kjósenda. Borgaralegu flokkarnir, sem nú sitja í Stjórnarráðinu, vilja hafa Reykjavíkurflugvöll áfram með þremur flugbrautum. Þeir styðja báðir þjóðaratkvæðagreiðslu um flugvöllinn, því að framtíð hans varðar auðvitað landsmenn alla. Hið mótsagnakennda er, að sjóræningi stendur að meirihlutanum með Degi í borgarstjórn, en hann hefur ekki látið steyta á þessu mikla lýðræðismáli sjóræningjaflokksins, pírata. Sá flokkur reynist þess vegna vera nákvæmlega jafnlaus í rásinni og hann virðist vera, og kjósendur geta þess vegna síður en svo reitt sig á, að hann standi við stóru orðin. Stjórnarflokkarnir eru með stjórnarskrárbreytingu í bígerð, sem m.a. á að breyta ákvæðinu um synjunarheimild forseta lýðveldisins í heimildarákvæði þings og þjóðar til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, ráðgefandi eða bindandi, eftir atvikum.
Þess má geta, að margir kjósendur hérlendis virtust vilja fá að kjósa um framhald aðildarviðræðna að ESB, sem stjórnarflokkarnir lögðust gegn, af því að hún hefði verið fullkomlega órökrétt af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi var það ESB, sem stöðvaði viðræðurnar, af því að lágmarksskilyrði Alþingis og landbúnaðar- og sjávarútvegssáttmáli ESB voru ósamrýmanleg.
Hitt var, að stjórnarflokkarnir, sem umboð hafa til að stjórna landinu út þetta kjörtímabil, eru báðir andvígir inngöngu Íslands í ESB. Það var þess vegna fjarstæðukennt að fela þeim að semja við ESB um inngöngu, og ESB hefði ekki tekið í mál að taka þátt í slíkum pólitískum farsa, enda hafa menn þar á bæ öðrum hnöppum að hneppa um þessar mundir.
Hvor röksemdin um sig dugði til að fella tillöguna um þjóðaratkvæði um framhald samkomulagsgerðar um aðild Íslands að ESB, enda hefði þjóðin þannig verið dregin á asnaeyrunum á kjörstað, þar sem niðurstaða atkvæðagreiðslunnar gat engu breytt um núverandi stöðu.
2) Hitt atriðið, sem tína má til skýringar á miklu óánægjufylgi, er mikill húsnæðiskostnaður hérlendis. Hann er ekki vegna hærri byggingarkostnaðar en í nágrannalöndunum, þó að hérlendis geti hann lækkað, heldur vegna miklu hærri fjármagnskostnaðar. Um þetta ritar Sigurður Ingólfsson, framkvæmdastjóri Hannars ehf, beinskeytta grein í Morgunblaðið 5. september 2015 undir fyrirsögninni:
"Á að horfa á eftir ungu fólki úr landi eða bjóða því framtíð hér ?" Greinin hefst þannig:
"Við erum nú að upplifa hér á landi eina mestu eignatilfærslu, sem núlifandi Íslendingar hafa upplifað. Eignatilfærslan er frá þeim, sem skulda, yfir til þeirra, sem lána. Fyrir utan þá, sem standa í rekstri, er það unga fólkið okkar, sem skuldar, þ.e. það sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið. Einnig skulda þeir, sem byggja leiguhúsnæði fyrir það fólk, sem ekki hefur sjálft fjárráð til að festa sér fasteign.
Eignatilfærslan er það stórkostleg í íslenzku þjóðfélagi, að hún kemur í veg fyrir, að venjulegt fólk geti eignazt þak yfir höfuðið og heldur uppi leiguverði, þannig að hvorug leiðin er valkostur fyrir það unga fólk, sem er að reyna að hefja sitt sjálfstæða líf.
Þeir, sem eru kallaðir til sem álitsgjafar til að fjalla um vandamálið, eru þeir sömu og hagnast mest á eignatilfærslunni, enda forðast þeir að ræða hana."
Sigurður Ingólfsson kemst síðan að því, að árlegur mismunur á fjármagnskostnaði (án afborgana) á Íslandi og í nágrannalöndunum nemi MISK 1,5-2,5 af MISK 30 láni til húsnæðiskaupa, og síðan skrifar hann:
"Það þarf ekki mikinn speking til að draga þá ályktun, að þetta sé aðalástæðan fyrir því, að allt of fáar íbúðir eru byggðar nú þrátt fyrir uppsveiflu í þjóðfélaginu."
Í lokakafla greinarinnar stendur:
"Þeim fækkar, sem geta tekið lán með þessum aðferðum, en hvað gerir það til; fjármagnseigendurnir (vogunarsjóðirnir) eru búnir að ná því, sem þeir geta, út úr viðskiptunum og verða fljótlega farnir með það fé, sem þeir hafa sogað til sín á þennan hátt, og þurfa ekki á þeim að halda eftir það."
Það er áreiðanlegt, að hér eru miklir hagsmunir í húfi, sem snerta nægilega marga til að valda stjórnmálalegri ólgu og flótta til stjórnleysingjanna frá núverandi stjórnarflokkum og frá jafnaðarmönnum, en hinir síðar nefndu eru sekir um að hafa fært vogunarsjóðunum tvo banka á silfurfati. Í þessu sambandi breytir engu, þó að sjóræningjar hafi engar lausnir á takteinum á þessu mikla þjóðfélagslega viðfangsefni frekar en öðrum aðsteðjandi vanda, enda er þar fátt um fína drætti.
Grein Sigurðar lýkur með eftirfarandi spurningu:
"Er ekki kominn tími til fyrir stjórnvöld, að þau taki að sér að stjórna fjármálum þjóðarinnar sjálf ?"
Undir allt þetta er unnt að taka. Kannski bera menn þá von í brjósti, að Pírataflokkurinn muni hrista upp í peningamálastjórnuninni og taka ráðin af Seðlabankanum varðandi vaxtaákvarðanir. Hefðu þeir bolmagn til þess, og hafa þeir bein í nefinu til þess ? Kannski þeir láti kjósa um vextina ?
Aðgerðir núverandi félagsmálaráðherra eru hálfkák eitt. Miðað við greiningu Sigurðar Ingólfssonar hér að ofan skilur Eygló Harðardóttir ekki vandamálið, og þess vegna munu tillögur hennar einvörðungu gera viðfangsefnið erfiðara viðfangs, komist þær til framkvæmda.
Vonir standa til, að fjármála- og efnahagsráðherra hafi hins vegar áttað sig á kjarna vandans og að ríkisstjórnin muni á kjörtímabilinu hefja vegferð í rétta átt til lausnar, þ.e. til lækkunar á fjármagnskostnaði við húsbyggingar. Í Noregi eru nú íslenzkir byggingarverkamenn, iðnaðarmenn, verkfræðingar og aðrir, sem teknir eru að horfa heim eftir verðugum verkefnum, þar sem hallar undan fæti í norsku hagkerfi. Lækkun fjármagnskostnaðar mun strax leiða til fjölgunar nýbygginga hér, og það mun að öllum líkindum duga til að laga fylgistölur stjórnarflokkanna.
Hvað sem þessum vangaveltum líður, ættu núverandi stjórnvöld að íhuga vandlega stefnumótun, sem leitt getur til raunhæfra úrræða til lækkunar fjármagnskostnaðar húsbyggjenda.
Bloggar | Breytt 8.9.2015 kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.9.2015 | 13:10
Sýndarveruleiki utanríkisráðherra
Þegar raunveruleikinn loks rann upp fyrir ráðuneyti utanríkismála við Rauðarárstíg í Reykjavík, þá greip það í tómt. Hringt var af Rauðarárstíg í skiptiborðið í Berlaymont í Brussel, en viðkomandi, sem beðið var um . Sambönd ráðuneytisstjórans, fyrrverandi aðalsamninsamband við, voru þá í orlofigamanns um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, í Berlaymont, eru þá ekki beysnari en þetta. Eru engin takmörk fyrir eymd einnar stjórnsýslu ?
Í ársbyrjun 2014 var rífandi gangur í samskiptum Íslands og Rússlands á viðskiptasviðinu, og samskipti stjórnvaldanna endurspegluðu þetta. Á einum áratugi, 2004-2013, þrettánfaldaðist vöruútflutningur Íslands til Rússlands og nam líklega ISK 35 milljörðum árið 2014. Íslenzkir útflytjendur fiskafurða hafa í samvinnu við rússneska innflytjendur þróað nýjan og dýrmætan markað, sem líklega var einstæður í þeim skilningi, að annars staðar er ekki unnt að þróa annan sambærilega verðmætan markað fyrir þær uppsjávarafurðir, sem hér um ræðir. Þar að auki hlupu Rússar undir bagga með Íslendingum, þegar ESB o.fl. gerðu tilraun til að kúga Íslendinga til að hverfa frá fyrirætlunum sínum um nýtingu á nýrri tegund í lögsögunni, makrílnum.
Við þessar aðstæður var rétt af utanríkisráðuneytinu að funda með Rússum í Reykjavík um þróun viðskipta landanna á fjölmörgum sviðum. Í tilkynningu Utanríkisráðuneytisins í Reykjavík 30. janúar 2014 stóð, að fulltrúar ríkjanna mundu hittast einu sinni eða tvisvar á ári til að ræða fjölbreytileg verkefni til að stuðla að og greiða fyrir viðskiptum á milli landanna. Á fundinum var rætt um ferðaþjónustu, matvæli, fjarskipti, fjárfestingatækifæri og orkumál auk nýsköpunarverkefna. Tekið var fram, að sendiráð landanna ynnu ötullega að því að fylgja þessum málum fram í samstarfi við atvinnulífið.
Í ársbyrjun 2014 lék sem sagt allt í lyndi á milli Íslendinga og Rússa. Hefði utanríkisráðherra Íslands betur haldið í heiðri ofangreinda viljayfirlýsingu í stað þess að eltast við ESB og áhangendur þess á Alþingi, en hann átti á þessum tíma nokkuð undir högg að sækja hjá þeim vegna ógildingar umsóknarinnar um aðild að ESB.
Nú tekur hann til við að láta eins og fíll í postulínsbúð algerlega að þarflausu. Í aðdraganda innlimunar Krím í Rússland í marz 2014, sem auðvitað var brot á alþjóðalögum og bar að mótmæla, kallaði Gunnar Bragi Sveinsson sendiherra Rússlands á sinn fund og sagði grundvallaratriði, að Rússar stæðu við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum og drægju herlið sitt til baka úr Úkraínu.
Látum þessa framkvæmd utanríkisstefnunnar vera, en svo fór Utanríkisráðherra yfir strikið þann 7. marz 2014, er hann lýsti yfir stuðningi við alþjóðlegar aðgerðir í þágu Úkraínu, og hinn 17. marz 2014 lýsti hann því yfir, að alþjóðasamfélagið þyrfti að senda skýr skilaboð til stjórnvalda í Rússlandi. Íslendingar gætu á grundvelli EES-samningsins tekið þátt í refsiaðgerðum ESB og ættu að gera það.
Þarna gekk ráðherrann of langt. Íslendingar hefðu ekki átt að taka þátt í sérsniðnum refsiaðgerðum ESB, því að þátttaka Íslands breytti alls engu um þær, þar eð viðkomandi vörur og þjónusta eru ekki í boði á Íslandi. Utanríkisráðherra með bein í nefinu hefði útskýrt þetta skilmerkilega fyrir starfsbræðrum og síðan og tilkynnt rússneska sendiherranum, að hann teldi viljayfirlýsingu þjóðanna frá ársbyrjun 2014 í fullu gildi.
Um lokahnykk vitleysunnar skrifar Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, í Morgunblaðið 21. ágúst 2015, "Harka hleypur í Rússaviðskipti":
"Hinn 20. mars 2014, eftir samráð utanríkisráðherra við utanríkismálanefnd, tilkynnti utanríkisráðuneytið, að ráðherrann hefði þann sama dag staðfest "þvingunaraðgerðir gegn rússneskum og úkraínskum einstaklingum, sem tengjast aðgerðum Rússa á Krímskaga." Utanríkisráðherra fordæmdi innlimun Rússlands á Krím og ítrekaði fyrri yfirlýsingar sínar um ólögmæti þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 16. mars."
Utanríkisráðherra tók sér stöðu með "haukunum" í þessu máli algerlega að þarflausu og þrátt fyrir að vera í engu hafður með í ráðum um refsiaðgerðirnar og að þær vörðuðu Ísland ekkert. Síðan kom innflutningsbann Rússa á matvæli frá "refsiþjóðunum", nema Íslendingum og örfáum öðrum. Þá þekkti utanríkisráðuneyti Íslands ekki sinn vitjunartíma og lét algerlega hjá líða að tryggja sér áframhaldandi undanþágu. Fyrir vikið stendur Ísland viðskiptalega mun ver að vígi í viðskiptaátökum við ESB, sem munu halda áfram sem þáttur í baráttunni um deilistofnana, vinnuframboð á Íslandi minnkar, fyrirtæki verða fyrir skelli og dregur úr hagvexti. Síðast en ekki sízt er búið að ómerkja gott og vaxandi viðskiptasamband við stóran markað.
Þetta eru pólitísk afglöp af stærri gerðinni, sem draga munu dilk á eftir sér. Fyrir þeim er æðsta stjórn Utanríkisráðuneytisins ábyrg, og þessi ábyrgð merkir í þessu tilviki, að ráðuneytisstjórinn og/eða ráðherrann verður að axla sín skinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)