Enn af öryggismálum flugvallar

Deilan um örlög Reykjavíkurflugvallar og þar með íslenzks innanlandsflugs er í sjálfheldu, algerlega að þarflausu.  Almenningur hefur sýnt málinu mikinn áhuga, og það er afmarkað í þeim skilningi, að það er einfalt að bera upp spurningu á atkvæðaseðli, svo að enginn þurfi að fara í grafgötur um niðurstöðuna á grundvelli hinna einföldustu svara, já eða nei.

Málið er komið í hnút, og borgarstjórn virðist ekki hafa hug á að leiða það farsællega til lykta.  Það er miður, því að hún gæti hæglega höggvið á hnútinn með því að lýsa því yfir, að hún mæli með því við Innanríkisráðherra, að öll þjóðin fái að kjósa um málið, þar sem deilan snerti Reykjavík sem höfuðborg landsins, og þess vegna sé borgarstjórn fús til að hlíta meirihlutaúrskurði kjósenda til spurningarinnar:

  • Vilt þú, að Reykjavíkurflugvöllur verði starfræktur með þremur flugbrautum áfram, eins og verið hefur, á meðan rekstraraðilar farþegaflugs, sjúkraflugs, kennsluflugs og einkaflugs, hafa áhuga á áframhaldandi starfsemi þar ?
  • Nei
  • Verði jákvæðir í meirihluta, þýðir það, að löngu tímabær uppbygging aðstöðu fyrir starfsemina mun strax hefjast.
  • Verði neikvæðir í meirihluta þýðir það, að Neyðarbrautinni mun verða lokað, jafnvel árið 2016, og hinum tveimur flugbrautunum verður lokað um árið 2024 samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar.

"Rök flugvallarandstæðinga" eru aðallega, að Reykjavík þurfi á Vatnsmýrinni að halda undir byggingarlóðir.  Margvíslegir annmarkar eru á þeirri röksemdarfærslu, s.s. gnótt ódýrara byggingarlands innan marka Reykjavíkur, fjölmenn byggð í Vatnsmýri útheimtir mikil samgöngumannvirki og gatnagerð og lóðagröftur mundu eyðileggja viðkvæmt vistkerfi Vatnsmýrar og ógna Reykjavíkurtjörn í sinni núverandi mynd. 

Rök flugvallarvina eru af margvíslegum toga, en nú hafa bætzt við þungavigtarrök, eins og sjá mátti í frétt Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu þriðjudaginn 15. september 2015 undir fyrirsögninni:

"Hörð gagnrýni á EFLU og Isavia".

Fréttin hefst á þessa leið:

"Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (ÖFÍA) hefur nýverið sent Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, skýrslu sína, um aðra útgáfu áhættumats Isavia frá 22. maí sl. vegna hugsanlegrar lokunar á flugbraut 06/24, svonefndri neyðarbraut, á Reykjavíkurflugvelli, sem Samgöngustofa samþykkti í júníbyrjun.

ÖFÍA kemst að þeirri niðurstöðu, að skýrsla EFLU, frá því í nóvember 2014, sé ónothæf og það sé af þeim sökum óviðunandi, að áhættumatsskýrsla byggist á henni við ákvarðanatöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar."

Hér tjá fagaðilar sig, sem mestra hagsmuna eiga að gæta varðandi öruggan rekstur Reykjavíkurflugvallar og sem gerzt þekkja til af langri reynslu, hvaða öryggiskröfur er nauðsynlegt að gera til flugvalla í rekstri, þ.e.a.s. atvinnuflugmennirnir sjálfir.  Að ganga gegn einarðri skoðun þeirra á flugöryggismálum kemur að mati blekbónda ekki til mála, og mætti flokka slíkt sem stjórnsýslulegt glapræði. Svo að ekkert fari á milli mála í viðkvæmu máli, skal hér vitna beint í skýrslu ÖFÍA:

"ÖFÍA telur því, að skýrsla EFLU, frá nóvember 2014, sé ónothæf, og það er óásættanlegt, að áhættumatsskýrsla Isavia byggi á henni við ákvarðanatöku um breytt fyrirkomulag Reykjavíkurflugvallar."

 

Skýrsla EFLU: "Það er ekki skýrt, hvort nothæfisstuðull eigi að innihalda takmarkanir vegna skyggnis og skýjahæðar."

Skýrsla ÖFÍA: "Augljóst er því að taka skal til greina skyggni og skýjahæð við útreikning á nothæfisstuðli samkvæmt leiðbeiningum ICAO.  Aftur leiðir það til þess, að útreikningur í skýrslu EFLU á nothæfisstuðli Reykjavíkurflugvallar er rangur." 

Það er ljóst, að maðkur er í mysunni, þegar kemur að ráðgjöfinni, sem borgaryfirvöldum er veitt varðandi afleiðingar þess að loka Neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar.  Því miður virðist núverandi meirihluta borgarstjórnar hætta til að hlaupa á sig og hrapa að niðurstöðu, láta tilfinningar hlaupa með sig í gönur í stað þess að ígrunda viðfangsefnin áður en ákvörðun er tekin.  Nýjasta dæmið er sú arfavitlausa og skaðlega ákvörðun að sniðganga vörur frá Ísrael.  Vonandi bera þá yfirvöld landsins gæfu til að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í varðandi örlög flugvallarins.

Sjúkraflugið var sniðgengið í áhættumati Isavia, sem er enn einn áfellisdómurinn yfir þeirri makalausu stofnun.  Í lok téðrar fréttar skrifar Agnes:

"ÖFÍA gerir einnig athugasemdir við, að áhættumatsskýrsla Isavia taki ekki mið af sjúkraflugi og sú ráðstöfun sé ekki rökstudd í skýrslunni.  Jafnframt sé það gagnrýnivert, að Samgöngustofa skuli samþykkja áhættumat, þar sem sjúkraflug er tekið út fyrir sviga.  Lokaorð skýrslu ÖFÍA eru þessi:

"ÖFÍA gerir alvarlegar athugasemdir við framvindu þessa máls.  Það er grundvallaratriði, að úrvinnsla, sem varðar flugöryggismál, sé unnin með lögmætum og óvéfengjanlegum hætti."" 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Bjarni.

Vonandi verður þetta síðasta axarskaft Dags og félaga til þess að innanríkis- eða forsætisráðherra, eða hreinlega borgarar landsins moki út flór Ráðhúss Reykjavíkur.

Jónatan Karlsson, 20.9.2015 kl. 10:45

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónatan;

"Svona gera menn ekki", nema þeir séu veruleikafirrtir.  Það væri of mikið sagt, að vinstri menn skorti skynsemi, þó að það eigi við þá allmarga, en þá skortir jarðsamband, þ.e.a.s. þeir skynja ekki samhengi hlutanna, og minna að því leyti dálítið á trúarofstækismenn.  Í þessu tilviki skynja þeir ekki, Íslendingar, borg eða ríki, eru ekki í neinni aðstöðu til að setja "viðskiptabann" á Ísrael eða hluta af landsvæðum, sem Ísraelsstjórn fer með forræði yfir.  Það er ófyrirgefanlegt að tefla hagsmunum Íslands í tvísýnu fyrir sýndargjörning, sem engin áhrif getur haft á gang mála fyrir botni Miðjarðarhafs.  Þar að auki skulum við hafa i huga, að Ísrael er stjórnarfarslega sem vin í eyðimörkinni í Austurlöndum nær, eina lýðræðisríkið og haukur í horni Vesturlanda á stóru svæði, þar sem Persar og Arabar berjast um völd og áhrif. 

Bjarni Jónsson, 20.9.2015 kl. 14:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband