12.8.2018 | 09:43
Akkilesarhæll rafbílavæðingarinnar
Orkuberinn (orkugeymslan-rafgeymar) er Akkilesarhæll rafbílavæðingarinnar. Það stafar af litlum orkuþéttleika (kWh/kg) rafgeymanna og þar af leiðandi tiltölulega lítilli drægni. Vetni vetnisrafalanna hefur mun meiri orkuþéttleika, en orkunýtnin frá framleiðslu vetnis til nýtingar þess er hins vegar slök.
Sumir evrópskir bílaframleiðendur, sem enn hafa ekki sett alrafbíl á markaðinn, boða, að fyrsta kynslóð slíkra muni hafa drægnina 500 km á fullri hleðslu rafgeyma. Fyrir íslenzkar aðstæður gæti það þýtt um 260 km að jafnaði yfir árið, en drægnin er mjög háð útihitastigi. Samkvæmt reynslunni af tengiltvinnbíl höfundar gæti meðalnýtni orðið 0,35 kWh/km hérlendis, sem m.v. 90 kWh rafgeymi gefur tæplega 260 km drægni, sem er óþægilega stutt. Þróunin er hins vegar hröð, einnig í rafgeymum, svo að meðalnýtni kann að hafa batnað um 14 % á þremur árum, og þá verður meðaldrægnin 300 km á einni hleðslu árið 2019.
Valkosturinn við rafgeyma sem orkubera er vetni, H2. Það gefur kost á lengri drægni á einum vetnisgeymi en 300-500 km, og eru 1000 km fyrir fólksbíl sennilega ekki vandamál, þótt 500 km sé algengari drægni vetnisknúinna bifreiða nú. Þar af leiðandi þarf færri áfyllistöðvar, og hver 100 % áfylling tekur mun skemmri tíma en hraðhleðsla frá 0 upp í 80 % af orkurýmd rafgeyma.
Orkulega séð hefur orkuberinn vetni þann alvarlega ókost, að orkunýtni hans er aðeins hálfdrættingur á við orkunýtni rafgeymisins, ef orkutöp við vinnslu vetnis eru meðtalin, og svipar þar með til beztu orkunýtni í sprengihreyflinum. Leggja má eftirfarandi mat á orkunýtnina:
Vetni: Aðalaðferðin við framleiðslu vetnis, H2, og sú ódýrasta er að skilja vetnissameind frá sameind eldsneytisgass, en það er hins vegar umhverfislega ósjálfbær aðferð. Þess vegna hefur verið gripið til þess ráðs að sundra (tveimur) vatnssameindum, H2O, með rafstraumi í (tvær) vetnissameindir og eina súrefnissameind (O2). Ferlið nefnist rafgreining, og þarf 9 kg af vatni til að framleiða 1 kg af vetni og 8 kg af súrefni. Þetta er umhverfislega sjálfbært ferli, en kostnaðarlega varla vegna dýrs búnaðar og hárra orkutapa, sem eru um 20 %.
Efnarafalar (fuel cells) snúa þessu ferli við og nota vetni til að framleiða rafstraum og gufu. Þeir eru enn í þróun, eru dýrir í innkaupum (lítið upplag) og dýrir í rekstri, því að orkunýtni þeirra er lág, aðeins um 50 %. Heildarnýtni vetnisvinnslu og efnarafala:
HNvetni = 0,8 x 0,5 = 40 % (um 30 % að hjólum)
Með sams konar hugleiðingu má leggja mat á nýtni rafbíls með rafgeyma. Töp við hleðslu rafgeymanna eru um 10 % (gleymist oft, þegar raforkukostnaður rafbíls er reiknaður). Töp við afhleðslu rafgeymanna eru um 10 %. Heildarnýtni rafgeyma inn og út:
HNrafg = 0,9 x 0,9 = 81 % (um 65 % að hjólum)
Rafgeymarnir nýta orkuna rúmlega tvöfalt betur en vetnisrafalinn. Þetta er mikill kostur, en dugar rafgeymunum samt ekki til ótvíræðra yfirburða sökum þess, að þeir hafa enn stórgalla. Orkuþéttleiki og þar með drægni á hleðslu er miklu minni en vetnisrafalans, og það eru fyrir hendi alvarlegir flöskuhálsar við útvegun torgæfra málma í algengustu rafgeymana, s.k. liþíumrafgeyma. Verður nú gerð grein fyrir þeim með vísun til The Economist, 24. marz 2018, bls. 65-66:
Kobalt-málmurinn dregur nafn sitt af Kobold, stríðnum þýzkum búálfi, sem hélt sig mikið neðanjarðar samkvæmt þjóðtrúnni. Kobalt villti um fyrir námuverkamönnum um aldir með því að líta út fyrir að vera verðmætur málmur, en var svo verðlaus og jafnvel skaðlegur, þegar til kastanna kom. Enn er hætt við, að kobalt valdi vandræðum, nú á stækkandi markaði rafgeyma fyrir rafbíla, sem hver um sig þarf 10 kg af kobalti. Uppruni vandræðanna er ekki í Þýzkalandi í þetta skiptið, heldur í Kína.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að meira en helmingur þekkts kobalts í jörðu og meira en helmingur vinnslu þess úr jörðu á sér stað í hinu óstöðuga "Lýðræðislega lýðveldi Kongó". Það er síður þekkt, að 80 % af úrvinnslu kobaltsúlfíða og kobaltoxíða, sem notuð eru í bakskaut liþíum-rafgeymanna, fer fram í Kína.
Mikið af eftirstandandi 20 % úrvinnslunnar á kobaltinu fer fram í Finnlandi, en hráefnið í hana kemur líka frá námu í Kongó, sem að meirihluta til er í eigu kínversks fyrirtækis, "China Molybdenum".
Þann 14. marz 2018 þyngdust áhyggjur bílaframleiðenda og annarra vegna kverkataks Kínverja á kobalt-vinnslu heimsins, þegar GEM, kínverskur rafgeymaframleiðandi, tilkynnti, að hann myndi kaupa þriðjung af kobalti Glencore, stærsta kobaltnámufyrirtækis heims, á árabilinu 2018-2020, jafngildi helmings af heimsframleiðslunni, 110 kt, árið 2017.
Það er líklegt, að þetta leiði til áframhaldandi verðhækkana á kobalti, en það hefur hækkað úr 26,5 kUSD/t árið 2016, rétt áður en miklar verðhækkanir hófust, og upp fyrir 90 kUSD/t á fyrsta fjórðungi 2018. Núverandi einingarverð á kobalti er meira en 40 sinnum hærra en núverandi verð á óunnu áli á markaði. Það er til mikils að vinna að þróa nýja gerð rafgeyma, sem t.d. nýta ál (álrafgeymar).
Þessa gríðarlegu áherzlu Kínverja á að tryggja sér hörgulefnið kobalt má rekja til örvæntingarfullra aðgerða þeirra til að tryggja framgang metnaðarfullra ríkisáætlana Kína um að stórauka framleiðslu rafmagnsbíla fyrir innanlandsmarkað til að draga úr hættulegri loftmengun í stórborgum Kína. Hún veldur tugþúsunda dauðsfalla á ári og er orðin mikið óánægjuefni á meðal borgarbúa í Kína í garð yfirvalda.
George Heppel hjá ráðgjafarfyrirtækinu CRU segir, að auk kaupa GEM á þriðjungi kobalts frá Glencore, muni kínverska Molybdenum hugsanlega flytja kobaltið sitt frá Kongó til Kína fremur en til Finnlands, og þar með mundu Kínverjar ráða yfir 95 % af kobaltvinnslu heimsins. Stórir notendur kobalts eru tæknifyrirtæki í Japan og í Suður-Kóreu, og þar hafa menn miklar áhyggjur af ríkjandi stöðu Kínverja sem kobaltbirgjar og ekki að ástæðulausu, ef litið er til reynslunnar af kínverskum yfirvöldum.
Fáir markaðsgreinendur eiga von á bættu jafnvægi á kobaltmarkaðinum á næstunni. Námugröfturinn mun líklega vaxa í Kongó, en vaxtarhamlandi verður vafalaust nýleg fimmföldun námuleyfisgjalds fyrir kobalt þar í landi. Fjárfestingar í kobaltnámum annars staðar auka framboðið varla, því að þar er kobalt aukaafurð við gröft eftir kopar og nikkel. Jafnvel á núverandi verði er magnþörfin of lítil til að réttlæta framleiðsluaukningu á kobalti þar einvörðungu. Þessi staða kallar á nýjar lausnir með nýjum efnum.
Eftirspurnaraukning kobalts getur orðið gífurleg, ef spurn eftir rafbílum vex, eins og vonir standa til alls staðar í heiminum. Mest af kobaltinu fer nú í rafhlöður snjallsíma og ofurmelmi inni í hverflum þotuhreyflanna, en til að anna spurn eftir rafbílum gæti þörf fyrir kobalt í rafgeyma rafbíla aukizt úr 9 kt árið 2017 í 107 kt árið 2026, sem svarar til 10,7 M rafgeyma 2026 í nýja rafbíla, sem verða tæplega 10 % nýrra bíla. Að auki verða sennilega nokkrar milljónir nýrra bifreiða árið 2026 með vetnisrafala, þannig að allt að 15 % nýs bílaflota gæti þá orðið rafknúinn.
Hækkandi verð á kobalti mun kannski leiða til nýrrar námuvinnslu, en rafgeymaframleiðendur utan Kína eru samt nú þegar farnir að huga að öðrum valkostum til að verjast kobaltskorti. Þeir horfa þá til málmsins nikkels.
Algengustu málmarnir í málmblöndu bakskauta rafgeyma rafbílanna eru nikkel, mangan og kobalt, nefnd NMC, og nikkel, kobalt og ál, nefnd NCA. Vegna verðhækkana og skorts á kobalti hafa sumir framleiðendur framleitt kobaltrýr bakskaut með því að auka nikkelinnihaldið í að verða áttfalt kobaltmagnið. Þetta eykur orkurýmd rafgeymanna, en flækir framleiðsluferli bakskautsins, og hættara verður við íkviknun í rekstri rafgeymanna. Kúnstin er að finna rétta hlutfallið á milli málmanna.
Aukin spurn eftir nikkeli hefur enn ekki leitt til verðhækkana á því vegna offramleiðslugetu frá 2011, þegar verðið lækkaði úr 29 kUSD/t undir 10 kUSD/t árið 2017. Árið 2017 var framleiðsla nikkels fyrir rafgeyma rafbíla aðeins 35 kt af heildarframleiðslu nikkels, 2,1 Mt. McKinsey-ráðgjafinn býst við 16-faldri eftirspurnaraukningu árið 2025 upp í 550 kt frá rafgeymaverksmiðjum fyrir rafbíla.
Þær takmarkanir á frjálsum markaði fyrir bakskautaefni í rafgeyma, sem hér hafa verið reifaðar, eru líklega meginástæða þess, að japanskir og suður-koreanskir bílaframleiðendur verja nú háum upphæðum til þróunar á vetnisrafalanum og á vetnisgeyminum fyrir rafbíla. Það er mun einfaldara að auka drægni á hverri hleðslu þessara bíla en rafbíla, sem knúnir eru liþíumrafgeymum. Það mun verða spennandi barátta um rafbílamarkaðinn á milli þessara tvenns konar tæknilausna, sem hér hafa verið nefndar.
Þriðja lausnin getur hæglega rutt hinum tveimur úr vegi, a.m.k. í stórum farartækjum og vinnuvélum. Það er þóríum-kjarnorkuverið, sem hægt á að verða að sníða að þörfum notandans á mjög stóru stærðarbili, alveg niður í 10 kW. Helmingunartími úrgangsins er stuttur og geislavirknin nægilega lítil fyrir almenna notkun. Ending slíks orkugjafa í bíl yrði ekki skemmri en ending bílsins. Á næsta áratugi mun skýrast, hvað ofan á verður í orkuskiptum samgöngugeirans á láði, legi og í lofti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.8.2018 | 13:33
Evrópa er í losti - hvað svo ?
Framkoma Donalds Trump gagnvart leiðtogum hefðbundinna bandamanna Bandaríkjamanna í Evrópu er einsdæmi á okkar tímum og gerist e.t.v. einu sinni á 200 ára fresti, nema einhver skaðvænleg þróun eigi sér nú stað í framkomu ríkja í millum. Hvað sem í skerst á næstunni, jafnvel þótt bandaríska þingið taki fram fyrir hendur forsetanum, hefur þegar orðið trúnaðarbrestur yfir Atlantshafið, og kalt stríð virðist hafið yfir Kyrrahafið. Á þetta horfa Rússar og núa saman höndum af ánægju. Fundur Trumps og Putins í Helsinki í júlí 2018 olli miklu fjaðrafoki í Washington DC, sem vonlegt er, og sennilega angist í Berlín, Brüssel og París. Þjóðverjar hafa nú gert sér grein fyrir, að ekki dugir lengur að hafa varnir landsins í algerum ólestri, eins og reyndin hefur verið á þessari öld.
Ef einhvers konar söguleg þróun endurspeglast í gjörðum Bandaríkjamanna undanfarið, þá er hún helzt sú á viðskiptasviðinu, að dagar tollabandalaga eru taldir, en tími tvíhliða viðskiptasamninga er runninn upp. Hvaða skjól hafa Þjóðverjar af ESB, ef vera þeirra þar veldur álagningu hárra tolla á bílaútflutning þeirra til Bandaríkjanna, BNA, eins og Bandaríkjaforseti hefur hótað, en nú dregið í land með um sinn ?
Atburðirnir ýta eindregið undir það, að Ísland segi upp EES-samninginum, en bindi ekki trúss sitt við tæknilegar viðskiptahömlur hins pólitíska tollabandalags ESB, sem er auðvitað líka stjórnmálabandalag með löngun til að verða sambandsríki á heimsmælikvarða, sem forseti Bandaríkjanna hefur lýst yfir, að sé versti andstæðingur Bandaríkjanna á viðskiptasviðinu. Þá er nú langt til jafnað, þegar viðskipti Bandaríkjanna og Kína eru höfð í huga.
Hvaða áhrif hefur þetta ástand á ESB ? Það aukast líkur á, að enn meir kvarnist úr bandalaginu, þegar einhver mynd kemst loksins á viðskilnað Breta, en nú er allt upp í loft í þeim viðræðum, enda ríkisstjórn Bretlands stórlöskuð. Verður því samt ekki trúað, að Bretar fari með hálfvelgju út úr ESB, verði í tollabandalagi áfram, jafnvel á Innri markaðinum með fjórfrelsin í einhverri mynd virk og Evrópudómstólinn sem úrskurðaraðila í þrætum þeirra við ESB. Þá er líklegt, að lífi verði blásið í UKIP, sem nái svo miklu fylgi af hægri væng, að Verkamannaflokkurinn nái völdum með erkisósíalistann og þjóðnýtingarsinnann Corbyn sem húsbónda í nr 10 (Downing Street). Það yrði afturhvarf til fortíðar fyrir Breta, þegar þeim hins vegar ríður á leiðtoga með framtíðarsýn fyrir öflugt Bretland utan ESB, sem stendur frjálst að gerð viðskiptasamninga við hvern sem er, og verður í fylkingarbrjósti frjálsra alþjóða viðskipta innan vébanda WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, sem Bandaríkjamenn leika svo grátt um þessar mundir. Þeir neita m.a. að samþykkja dómara í 7 manna úrskurðarteymi, en allar aðildarþjóðirnar, rúmlega 130, verða að samþykkja dómaraskipunina. Þar með lama Bandaríkjamenn þessa mikilvægu alþjóðastofnun. Vonir standa til, að þeir sjái sig um hönd.
Það er ekki síður áhugavert, hvernig Þjóðverjar taka nú á málaum. Munu þeir stökkva inn í tómarúmið, sem Bandaríkjamenn skilja eftir sig á alþjóðavettvangi ? Þar er mikil gerjun í gangi. AfD (Alternative für Deutschland) togar miðju stjórnmálanna til hægri þar í landi. Þetta sést mjög greinilega í Bæjaralandi núna í aðdraganda þingkosninga í október 2018, þar sem AfD getur kostað valdaflokkinn CSU ríkjandi stöðu í fylkinu. Ef stjórnmál Þýzkalands hnikast til hægri, jafngildir það sjálfstæðari stefnumörkun innanlands og í utanríkismálum. Þetta gæti aukið enn á innbyrðis vanda ESB, en þar rekast Austur-Evrópuríkin mjög illa. Þau hafa t.d. neitað að taka við nokkrum flóttamanni, en Þjóðverjar sitja uppi með 1-2 milljónir slíkra og fyrirséð, að fólkið á erfitt með að fá vinnu, aðlagast þar með seint og illa og verður að skjólstæðingum almannatrygginga fyrir vikið. Þetta er undirrót óánægjunnar.
Frá því að Gústaf 2. Adolf, Svíakonungur, tók þátt í 30 ára stríðinu með mótmælendum, sem var borgarastyrjöld í Þýzkalandi 1618-1648, og kannski lengur, hafa sterk og fjölþætt tengsl verið á milli Svía og Þjóðverja. Þetta kom berlega í ljós í báðum heimsstyrjöldunum á 20. öld.
Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra Svíþjóðar, fylgist vel með stjórnmálum Þýzkalands og skrifaði grein um þau, sem birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2018 undir fyrirsögninni:
"Orrustan um sál Þýzkalands".
Orrusta um sama málefni hefur áður verið háð. Niðurstaðan ræður jafnan örlögum Evrópu. Fyrirsögnin hefur þess vegna djúpa og áhrifamikla skírskotun. Carl Bildt skrifaði m.a.:
"Á yfirborðinu er umræðan, sem nú heltekur Þýzkaland, um, hvort það eigi að senda hælisleitendur, sem þegar hafa verið skrásettir í öðrum ESB-ríkjum, til baka, eins og innanríkisráðherrann, Horst Seehofer, leiðtogi kristilegra í Bæjaralandi (CSU), hefur talað fyrir. En þegar kafað er dýpra, er spurningin fyrir Þýzkaland, hvort landið ætti að fara sínar eigin leiðir eða halda áfram að leita sameiginlegra lausna."
Varðandi hælisleitendur er þegar þrautreynt, að það finnast engar sameiginlegar lausnir innan ESB eða innan Evrópu. Mörg ríki ESB hafa harðneitað að taka við flóttamönnum, þannig að Þýzkaland situr enn uppi með yfir eina milljón flóttamanna frá 2015, sem ætlunin var að dreifa á ESB-ríkin. Nú er ósköpunum eitthvað að linna í Sýrlandi, þannig að ætla mætti, að margir Sýrlendinganna gætu snúið heim til að taka þátt í uppbyggingunni. Það er einboðið að fylgja reglunum og senda þá, sem eru skráðir inn í Evrópu annars staðar, þangað.
Evrópa hvorki getur né vill taka við efnahagsflóttamönnum, sem margir hverjir eru hvorki læsir né skrifandi á latneskt letur, en uppfullir af fornaldargrillum Múhameðs úr Kóraninum og hafa engan vilja til að laga sig að vestrænum hugsunarhætti og lifnaðarháttum. Velferðarkerfi Vesturlanda fara á hliðina, ef slíkum byrðum verður hlaðið á þau. Þess vegna má víða greina sterk varnarviðbrögð á meðal almennings, og Svíþjóðardemókratarnir gætu t.d. fengið meira en fjórðungsfylgi í þingkosningum í Svíþjóð í september 2018 og þar með orðið stærsti flokkurinn í Riksdagen.
Síðar í grein sinni skrifar Carl Bildt:
"Árás þjóðernissinnaðra afla á sýn Kohls [Helmut Kohl var kanzlari Þýzkalands í 16 ár, þ.á.m. þegar Austur-Þýzkaland var innlimað í Sambandslýðveldið Þýzkaland-BRD árin 1989-1990, 40 árum eftir stofnun BRD úr rústum hluta Þriðja ríkisins-innsk. BJo.] gæti haft afleiðingar í för með sér, sem næðu langt umfram deiluna um innflytjendamál. Það er ekki bara hlutverk Þýzkalands í Evrópu, sem er í húfi, heldur einnig framtíð samrunaferlis Evrópu. Þýzkaland, sem varpar af sér arfleifð Kohls, myndi allt í einu verða uppspretta mikillar óvissu, frekar en brjóstvörn stöðugleikans í hjarta Evrópu. Þar sem Vesturveldin eiga þegar undir högg að sækja frá mönnum eins og Vladimír Pútín, Rússlandsforseta, og Donald Trump, Bandaríkjaforseta, væri það hið síðasta, sem Evrópa þarfnaðist."
Þetta er að nokkru úrelt greining á stöðunni. Þjóðverjar kæra sig ekki um meiri samruna Evrópuríkjanna, af því að þeir vita sem er, að ekkert ríki ESB hefur áhuga á meiri samruna, nema hann auðveldi þeim að krækja í þýzka peninga, sem alþýða Þýzkalands hefur unnið fyrir og sparað til elliáranna, en hið sama verður ekki sagt um rómönsku þjóðirnar, og slavarnir berjast enn við spillingarhít kommúnistastjórna Kalda stríðsins.
Bandaríkjamenn hafa kastað pólitískum sprengjum inn í ESB-samstarfið og NATO. Donald Trump hefur úthúðað kanzlara Þýzkalands, heimtað 70 % aukningu strax á framlögum Þjóðverja til varnarmála og hótað háum tollum á bíla, sem ESB-ríkin flytja út til BNA. Þetta mun hrista ærlega upp í stjórnendum Þýzkalands og færa þeim heim sanninn um, að þeir verða að setja hagsmuni síns eigin lands í forgrunn stjórnmálastefnu sinnar, þótt slíkt verði á kostnað samstarfsins innan ESB og þó að afturkippur komi jafnvel í samrunaferlið. Þýzkur almenningur er þarna á undan leiðtogunum í Berlín, eins og komið hefur fram í skoðanakönnunum undanfarið og mun sýna sig í næstu fylkiskosningum, sem haldnar verða í Bæjaralandi í október 2018.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.8.2018 | 11:10
Kúvending Bandaríkjanna
Bandaríkjaforseti hefur sett af stað viðskiptastríð við Kína, Kanada, Mexíkó, Evrópusambandið (ESB) og Japan, eins og upp úr þurru. Hér eru mikil firn á ferð, sem hafa munu víðtækar og alvarlegar afleiðingar um allan heim. Margir binda þessi ósköp við persónu Donalds Trumps, en hvers vegna hefur bandaríska þingið þá ekki gripið í taumana og sett honum stólinn fyrir dyrnar ? Þingmenn eru sennilega á báðum áttum um vilja kjósenda í þessum efnum, og kjósendur munu tjá hug sinn í nóvember 2018. Því miður verður að álykta, að hér sé um stefnubreytingu að hálfu Bandaríkjanna að ræða í alþjóða viðskiptamálum.
Ef það reynist rétt, er það alger uppgjöf Bandaríkjamanna á sviði frjálsrar samkeppni, hornsteins auðgunarstefnunnar, kapítalisma Skotans Adams Smiths o.fl. Þessi hegðun er veikleikamerki að hálfu Bandaríkjanna, sem mun gera Bandaríkin enn þá veikari og að hornkerlingu í alþjóða samstarfi.
Þetta er jafnframt pólitískt gjörningaveður, sem gjörbreyta mun valdahlutföllum í heiminum og dæma Bandaríkin til minni áhrifa en nokkru sinni síðan fyrir Fyrri heimsstyrjöld. Hugsanlegt er, að einangrunarhyggja taki völdin í Bandaríkjunum, ef ekki verður stefnubreyting eftir næstu þingkosningar og forsetakosningar þar. Utanríkisráðuneytið hér hlýtur að kanna, hvort staðfesta Bandaríkjamanna um að standa við Varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna stendur óhögguð í þessu gjörningaveðri, þar sem allt er upp í loft.
Finnur Magnússon, hæstaréttarlögmaður og aðjunkt við Lagadeild HÍ, ritar grein um síðustu atburði á sviði alþjóðaviðskipta á Sjónarhóli Morgunblaðsins 26. júlí 2018,
"Fríverzlun á tímamótum" ,
þar sem hann skrifar m.a.:
"Gagnrýni Bandaríkjastjórnar beinist nú gegn helztu bandamönnum Bandaríkjanna, s.s. Kanada, Evrópusambandinu og Japan, og hefur leitt til álagningar verndartolla á vörur innfluttar m.a. frá þessum löndum. Hér kveður við nýjan tón, sem mun að öllum líkindum leiða til grundvallarbreytinga á meira en hálfrar aldar fyrirkomulagi í alþjóðaviðskiptum."
Það er ástæða til að óttast, að Finnur hafi rétt fyrir sér um þetta. Þá vaknar spurningin um það, hvernig Íslendingar koma ár sinni bezt fyrir borð í þessum ólgusjó. Við höfum fellt niður alla tolla, nema á bílum, eldsneyti og sumum matvælum, og viljum hafa frjálsan aðgang að öllum mörkuðum fyrir vörur okkar og þjónustu. Þá er áreiðanlega affarasælast að láta ekki loka sig inni í neinu tollabandalagi, eins og EES, heldur að stefna á gagnkvæma fríverzlunarsamninga við sem flesta og þátttöku í fríverzlunarsamtökum Evrópu, EFTA.
Þessi þróun alþjóðamála ýtir með öðrum orðum undir það að segja upp EES-samninginum, enda er hann gjörsamlega vonlaust fyrirkomulag til frambúðar í viðskiptalegum efnum.
Athugum nú, hvernig Finnur Magnússon lauk téðri grein sinni:
"Önnur afleiðing verndartolla Bandaríkjanna er, að þau ríki, sem aðhyllast frjáls vöruviðskipti, hafa tvíeflzt í afstöðu sinni til frelsis í alþjóðaviðskiptum. Hinn 17. júlí sl. gerðu Evrópusambandið og Japan með sér einn stærsta fríverzlunarsamning, sem gerður hefur verið. Samningurinn mun afnema tolla að allmestu leyti á milli þessara aðila. Svo að dæmi sé nefnt, þá verða afnumdir tollar á 99 % japanskra vara innfluttra til Evrópusambandsins og af 94 % evrópskra vara innfluttra til Japan. Það mun leiða til lægra vöruverðs til hagsbóta fyrir neytendur og fyrirtæki í Evrópu og Japan.
Er nú svo komið, að bandamenn Bandaríkjanna, s.s. Japan og Suður-Kórea, hafa ákveðið að draga úr samvinnu sinni við Bandaríkin á sviði frjálsra vöruviðskipta og leitast við að gera fríverzlunarsamninga sín á milli án aðkomu Bandaríkjanna. Er hér um stefnubreytingu að ræða, enda ljóst, að þessi ríki hafa horft mjög til Bandaríkjanna á þessu sviði um áratugaskeið.
Af þessu leiðir, að nú reynir sem aldrei fyrr á regluverk alþjóðaviðskipta, þ.e. GATT-samninginn frá 1947, og undirsamninga þess samnings, og WTO-samninginn frá 1994. Ef svo fer, að Bandaríkin tapi fyrrnefndum ágreiningsmálum [á vettvangi WTO-innsk. BJo], er ekki hægt að útiloka, að Bandaríkjastjórn dragi sig út úr þessum samningum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Verður þá komin upp ný staða í alþjóðamálum. Fjölþjóðlegir samningar um vöruviðskipti munu þá heyra sögunni til, og algengustu samningar á sviði vöruviðskipta verða að öllum líkindum tvíhliða þjóðréttarsamningar."
Hér skal taka undir lokaályktun höfundarins og álykta á þeim grunni áfram, að þessi þróun viðskiptamála heimsins ýtir undir það, að Íslendingar segi upp þeim fjölþjóðlega og um margt stjórnarfarslega íþyngjandi (yfirþjóðlega) viðskiptasamningi, sem í gildi er á milli Íslands, ESB, Noregs og Liechtenstein, s.k. EES-samningi, og sækist í staðinn eftir tvíhliða þjóðréttarsamningi á viðskiptasviði og jafnvel fleiri sviðum.
Martin Wolf, dálkahöfundur "Financial Times", er þungorður í garð Donalds Trumps, enda eru gjörðir hans dæmalausar og hafa nú þegar grafið undan trausti hefðbundinna bandamanna Bandaríkjanna á þeim með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Morgunblaðið birti grein eftir hann 12. júlí 2018,
"Trump skapar glundroða með tollastríði".
Greinin hófst með einstæðum hætti, þegar um er að ræða Bandaríkjaforseta:
"Leiðtogi valdamestu þjóðar heims er bæði hættulegur maður og fáfróður. Hvernig á heimsbyggðin að bregðast við honum ? Það er erfitt að finna svarið, því að Donald Trump hefur tekizt að skapa mikinn glundroða. Það er erfitt að semja við manninn einmitt vegna þess, að enginn veit fyrir víst, hvað það er, sem hann, eða fólkið í kringum hann, vill í raun. Þetta er allt annað en eðlilegt ástand."
Það er illa komið fyrir Vesturlöndum, þegar forysturíki þeirra lýtur stjórn, sem bandamennirnir telja algert ólíkindatól. Ef þingkosningarnar í nóvember í ár verða til að treysta forsetann í sessi, þá má jafnvel búast við, að viðskiptastríð Bandaríkjanna muni leiða til einangrunar þeirra. Hvað verður þá um NATO ? Það er furðulega lítil umræða farin af stað um það, að jafnvægið í heiminum er á tjá og tundri fyrir tilverknað ríkis, sem verið hefur í forystu ríkja, sem vilja stunda frjálsan markaðsbúskap.
"Ríkisstjórnin hefur réttlætt tolla á stál og ál, sem þegar eru í gildi, með vísan til þjóðaröryggis. Sömu rök liggja að baki rannsókn á innflutningi á bílum, sem hófst í maí. Það var einmitt vegna þess, að menn óttuðust, að lönd myndu misnota heimild til undanþágu vegna þjóðaröryggis, að reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eru þröngt skilgreindar. Þar er tiltekið, að undir viðskipti, sem gætu varðað þjóðaröryggi, falli t.d. verzlun með "klarnakleyf efni" og "viðskipti með vopn, skotfæri, stríðstól og aðrar vörur, sem beint eða óbent eru notaðar í hernaði", og fjallað um "aðgerðir, sem gerðar eru á stríðstímum, eða þegar neyðarástand af öðrum toga skapast á alþjóðavettvangi".
Ál- og stáltollarnir og hvað þá heldur tollar á bifreiðar, brjóta greinilega gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, og ef viðskipti við Kanada stefna þjóðaröryggi Bandaríkjanna í voða, hvaða landi stafar þeim þá ekki ógn af ? Ef bílar hafa eitthvað að gera með þjóðaröryggi, hvaða vörur gætu þá mögulega ekki varðað öryggishagsmuni þjóðarinnar ?
"Verndarstefna mun auka velmegun okkar og styrk", sagði Trump, þegar hann sór embættiseið sinn. Því miður var honum full alvara."
Það er ekki annað hægt en að taka undir þessa gegnrýni Martins Wolf á Donald Trump. Bandaríkin þverbrjóta reglur WTO, og geta með framferði sínu gengið af Alþjóðaviðskiptastofnuninni dauðri í krafti stærðar sinnar. Þá er líklegt, að önnur ríki taki höndum saman um að endurreisa WTO og kannski fela henni auknar valdheimildir. Það verður fróðlegt að sjá, hver gengur þar fram fyrir skjöldu. Verður það e.t.v. Bretland eða Þýzkaland, eða þau tvö ríki og Japan ?
Áfram heldur Martin Wolf:
"Og hvar endar þetta allt saman ? Paul Krugman, einn af fremstu viðskiptahagfræðingum heims, telur, að þróist málin á þann veg, að allir verði komnir í tollastríð gegn öllum, þá muni alþjóðaviðskipti minnka um 70 %.
Það kemur á óvart, að framleiðsla á heimsvísu myndi hins vegar aðeins dragast saman um 3 %. Þessar tölur ganga út frá forsendum reiknilíkana, sem taka ekki með í reikninginn þá röskun, sem á sér stað í hagkerfum þjóða og þá óvissu,sem skapast, þegar alþjóðahagkerfið lagar sig að breyttum leikreglum. Þessi líkön taka heldur ekki með í reikninginn, hvernig það mun draga þróttinn úr hagkerfum þjóða, þegar alþjóðleg samkeppni minnkar. Síðast en ekki sízt líta reiknilíkönin framhjá þeirri óvild, sem tollastríð geta skapað. Er næsta víst, að velvild á milli þjóða yrði ekki svipur hjá sjón."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.8.2018 | 16:30
Millilandaverzlun dregst saman
Það blæs ekki byrlega með alþjóðlega hagkerfið um þessar mundir, þegar helztu viðskiptastórveldin stunda þá ótrúlegu iðju að grafa undan heimsviðskiptunum með því að keppast við að leggja tolla á innflutning sinn frá stórveldi, sem þegar hefur lagt á verndartolla hjá sér. Þar eigast Vesturveldin líka við innbyrðis, og hefði enginn trúað því fyrir 5 árum. Allt mun þetta draga dilk á eftir sér, þótt vonandi verði WTO-Alþjóða viðskiptastofnuninni bjargað. Kínverjar hafa vissulega hagað sér illa. Yfirvöld hafa t.d. heimtað nána samvinnu ("joint venture") við kínverskt félag, ef erlent iðnfyrirtæki fjárfestir í Kína, og til að erlenda fyrirtækið fái markaðsaðgang í Kína, hefur afhending nýjustu tækniupplýsinga verið skilyrðið. WTO hefur ekki náð tökum á þessu vandamáli fremur en því, að kínversk útflutningsfyrirtæki eru í mörgum tilvikum að miklu leyti í höndum ríkisins, og þá er samkeppnin vissulega brengluð og hætt við undirboðum. Nú hefur soðið upp úr. Vonandi endar þetta viðskiptastríð fljótt og með því að styrkja WTO, færa stofnuninni meiri völd í hendur til að draga fyrirtæki og ríkisstjórnir til ábyrgðar fyrir brot á nýjum reglum WTO.
Þó að Ísland sleppi við þetta viðskiptastríð, þá lenda slæmar efnahagslegar afleiðingar af þessu gjörningaveðri hart á Íslendingum, af því að efnahagur okkar er mjög háður utanríkisviðskiptum. Minnkandi kaupmáttur erlendis leiðir til lægra verðs fyrir vörur okkar og þjónustu og getur jafnvel dregið úr ferðamannastraumnum hingað. Flugfélögin og hótelgeirinn eru þegar illa sett, og ferðaþjónustan hérlendis mun lenda í verulegum hremmingum, ef ferðamannafjöldinn minnkar. Ýmsum kotbóndanum mun þykja fara verða þröngt fyrir sínum dyrum, ef Lufthansa verður ríkjandi í millilandafluginu hér.
Raungengi ISK hefur hækkað meira en gengi annarra gjaldmiðla, sem við eigum í viðskiptum við og er núna í sögulegu hámarki. Það slæma er, að þetta sögulega hámark er ósjálfbært, og núverandi staða er þess vegna tímabundin. Það er aðeins ein leið af toppnum, eins og kunnugt er. Hún heitir kjararýrnun, og gorgeir einhverra verkalýðsfrömuða breytir þar engu um. Nú þarf að snúa bökum saman í varnarbaráttu til að lágmarka tjón heildarinnar.
Raungengi er annað hugtak en nafngengi. Styrkist raungengið, eins og gerzt hefur undanfarin misseri, er verðlag og/eða launakostnaður að hækka hraðar innanlands en erlendis, mælt í sömu mynt. Raungengi launa hefur hækkað um 20 %-30 % á undanförnum árum, hvað sem gaspri blöðrusela í hópi s.k. verkalýðsforingja líður og túðri um ranga útreikninga, af því að neyzluvísitala og launavísitala séu rangar. Þeir láta sem herskáir séu fyrir hönd umbjóðenda sinna, en þessir umbjóðendur og reyndar þjóðin öll verða fórnarlömb fíflagangs, sem fólginn er í órökstuddum launakröfum, sem atvinnulífið getur ekki borið núna, því að það er tekið að halla verulega undan fæti, sbr bullandi tap í ferðamannageiranum. Ef verkalýðsleiðtogar átta sig ekki á, hvað það þýðir fyrir umbjóðendur þeirra, þá eru þeir ekki starfi sínu vaxnir.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður Efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA), greindi þessa stöðu rétt þegar 27. febrúar 2018 í viðtali við Baldur Arnarson í Morgunblaðinu:
""Viðsnúningurinn er hraðari en spáð var. T.d. er að hægja verulega hratt á vexti ferðaþjónustunnar. Greinin hefur vaxið um tugi prósenta á milli ára undanfarin ár. Nú er hins vegar að hægja á vextinum. Hagvaxtarspár hafa breytzt verulega vegna breyttra forsenda, og við teljum mikilvægt að gefa því sérstakan gaum. Allar spár gera nú ráð fyrir 2-3 % hagvexti á næstu árum, sem er auðvitað ágætis vöxtur í alþjóðlegum samanburði. Þær forsendur geta þó breytzt og hafa verið að breytast samfara því, sem nýjar vísbendingar koma fram", segir Ásdís."
Síðan þetta var sagt hafa horfur alþjóðlegra efnahagsmála versnað ískyggilega. Eldsneytishækkanir hafa þyngt róður margra atvinnugreina hérlendis, þ.á.m. sjávarútvegs og ferðaþjónustu. Samtímis stundar ríkissjóður rányrkju á fyrrnefndu greininni með veiðigjaldi úr takti við afkomuna, og meginmillilandaflugfélögin tvö hérlendis berjast í bökkum vegna gríðarlegra fjárfestinga í flugkosti og harðrar samkeppni á flugleiðum til Íslands. Þýzkum ferðamönnum hingað hefur fækkað mikið, og almennt halda Evrópumenn fastar um budduna en áður. Bandarískum ferðalöngum hefur hins vegar fjölgað, og ekki er farið að slá á kaupgleði Bandaríkjamanna.
Vegna nýjustu mjög neikvæðu þróunar alþjóðamála, sem Bandaríkjastjórn hrinti af stað með viðskiptastríði við Kínverja og hárri tollalagningu á vörur frá ESB, Kanada og Mexíkó, má búast við versnandi hag Bandaríkjamanna og stöðnun eða jafnvel samdrætti ferðamennsku almennt í heiminum. Það er mikil breyting.
Meðferð Bandaríkjamanna á WTO-Alþjóða viðskiptamálastofnuninni er hryllileg. Líklega leiðir þessi ófriður Bandaríkjamanna á viðskiptasviðinu til hrörnunar viðskiptabandalaga á borð við ESB/EES ("Festung Europa") og aukinnar þróunar í átt til tvíhliða fríverzlunarsamninga, vonandi á grundvelli WTO, sem allir ættu að virða, ekki sízt höfundarnir, Bandaríkjamenn.
Síðan snýr Ásdís sér að þróun kaupmáttar í téðu viðtali. Þegar málflutningur hennar er borinn saman við hótanir og háreysti s.k. verkalýðsforingja undanfarið, hvarflar að manni, að hún og þeir búi ekki í sama landi. Ásdís reisir málflutning sinn á staðreyndum, sem eru þessum verkalýðsforingjum aðgengilegar líka, en þeir hunza þær og reyna að sá vantrausti í garð þeirra, sem matreitt hafa þessar staðreyndir. Það er flónska. Slíkt fær almenning til að álykta, að "hávaðaseggirnir" séu með óhreint mjöl í pokahorninu, stefna þeirra snúist ekki um að bæta kjör félagsmanna sinna í bráð og lengd, heldur sé meira í ætt við pólitískt prump sósíalista, fýlubomba úr iðrum stjórnmálanna, frá blöðruselum, sem einskis svífast, en lifa samkvæmt reglunni um, að tilgangurinn helgi meðalið.
""Við höfum upplifað fordæmalausa kaupmáttaraukningu á undanförnum árum. Laun hafa hækkað verulega samtímis því, sem ríkt hefur verðstöðugleiki, sem ekki var fyrirséður. Fyrir því eru þó ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi vorum við heppin með þróun viðskiptakjara. Þau hafa verið okkur hagstæð á undanförnum árum, sem hefur veitt aukið svigrúm til launahækkana. [Nú hafa viðskiptakjör versnað með hækkun eldsneytisverðs og margra annarra innflutningsvara, en verð á útflutningsvörunum er hætt að stíga í bili-innsk. BJo.]
Í öðru lagi styrktist krónan verulega samfara miklum vexti ferðaþjónustunnar. Það skilaði sér í verðlækkun á innfluttum vörum og þar með minni verðbólgu. [Nú eru tekjur af erlendum ferðamönnum jafnvel farnar að dragast saman-innsk. BJo.]
Í þriðja lagi kom til einskiptisaðgerða frá ríkisstjórninni, og t.d. voru gerðar breytingar á tollum og vörugjöldum, segir Ásdís og bendir á, að sú aðgerð hafi skilað lægra vöruverði."
"Við getum ekki treyst á, að allir þessir þættir endurtaki sig. Í fyrsta lagi er óábyrgt að treysta áfram á hagstæð viðskiptakjör. Við sjáum nú þegar, hvernig farið er að hægja á vexti ferðaþjónustunnar. Frekari gengisstyrking krónunnar er því ólíkleg, a.m.k. í líkingu við það, sem verið hefur. Þá getum við auðvitað ekki endurtekið leikinn aftur með breytingum á tollum og vörugjöldum."
Það er hins vegar eðlilegt í niðursveiflu að huga að skattalækkunum á einstaklinga og fyrirtæki. Hvetja ætti til meiri sparnaðar í þjóðfélaginu með lækkun fjármagnstekjuskatts og huga ætti að lækkun virðisaukaskatts og tekjuskatts á fyrirtæki og að breytingum á fyrirkomulagi persónuafsláttar í þágu launþega með lægstu tekjurnar.
Þann 27. febrúar 2018 birtist í Morgunblaðinu góð grein eftir Halldór Benjamín Þorbergsson:
"Kjarasamningar snúast um lífskjör fólks",
þar sem hann færir rök fyrir því, að tímabil minnkandi hagvaxtar sé hafið. Greinin hófst þannig:
"Kjaraviðræður eru samningar um lífskjör fólks og um jákvæða þróun samfélagsins. Og sú þróun hefur verið gríðarlega hagstæð á undanförnum árum. Kaupmáttur hefur aukizt á tíma gildandi samninga frá apríl 2015 um 20 % og um 25 % hjá þeim lægst launuðu. Það er Evrópu- og Íslandsmet."
Síðan rekur hann, að bættur hagur hafi að hluta verið nýttur til að bæta efnahagslegan mótstöðukraft gegn nýrri efnahagslægð, sem örugglega mun koma:
"Íslenzk heimili, fyrirtæki og hið opinbera, hafa nýtt uppsveifluna til að greiða niður skuldir, og eru Íslendingar nú orðnir hreinir lánveitendur til útlanda. Hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins er loksins orðin jákvæð. Þetta er undraverður árangur, ekki sízt þegar horft er til þess, að fyrir örfáum árum glímdi Ísland við alvarlegan skuldavanda."
Þá rekur Halldór Benjamín nokkur merki um, að nú séum við á leið niður eftir þessa uppsveiflu:
"Fyrsta vísbending er vaxandi atvinnuleysi. [Þrátt fyrir gríðarlega fjölgun í landinu vegna aðfluttra hélzt atvinnuleysi í aðeins tæplega 3,0 þar til á 2. ársfjórðungi 2017, en tók þá að hækka og er nú tæplega 4,0 %-innsk. BJo.] ...
Önnur vísbending er minnkandi spenna í efnahagslífinu. [Sannleikurinn er sá, að aðfluttir og gengishækkun ISK hafa dregið úr framleiðsluspennu og þar með hjálpað til við að ná jafnvægi í hagkerfinu á nýjan leik. Ef jákvæður viðskiptajöfnuður minnkar mikið vegna minni útflutningstekna og meiri innflutnings, mun gengi ISK lækka, en það mun væntanlega auka verðbólgu, sem enn dregur úr atvinnu og rýrir lífskjörin-innsk. BJo.] ...
Þriðja vísbending er í ferðaþjónustu. [ Á þessu ári verður lítil fjölgun erlendra ferðamanna og sums staðar fækkun. Tekjur af þeim hér innanlands (flug ekki meðtalið) gætu jafnvel dregizt saman í ISK-innsk. BJo.] ....
Fjórða vísbending er í fréttum úr atvinnulífinu. Nær daglega birtast fréttir af íslenzkum fyrirtækjum, sem finna fyrir versnandi samkeppnisstöðu við útlönd. Það, sem helzt veldur fyrirtækjunum áhyggjum, er hátt gengi krónunnar og íþyngjandi launakostnaður. Skyldi engan undra. Raungengi íslenzkra launa, þ.e. hlutfallslegur kaupmáttur þeirra í erlendri mynt saman borin við laun í öðrum ríkjum, hefur rokið upp á síðustu árum."
Nú þarf að leggja áherzlu á að halda sjó. Það verður bezt gert með því að gera a.m.k. árshlé á launahækkunum á meðan í ljós kemur, hvað verður um heimshagkerfið á þessum óvissutíma. Í versta tilviki stefnir í heimskreppu, og þá er nú aldeilis betra að rifa seglin hér í tæka tíð, en spenna ekki bogann um of á versta tíma. Við vitum hvað það þýðir. Kreppan verður þá enn dýpri og sársaukafyllri hér en annars staðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.8.2018 | 13:43
31 % jarða á Íslandi eru í eigu félaga
Fjölmörg bú á Íslandi eru fjölskyldufyrirtæki í eigu félaga, og við það er ekkert að athuga. Það má hins vegar furðu gegna, að hérlend yfirvöld rumski ekki við, þegar jarðir hér eru keyptar af félögum, þar sem eignarhaldið er allsendis óljóst.
Þegar þannig er í pottinn búið, er sú hætta fyrir hendi, að með fjárfestingunni sé stundað peningaþvætti. Hvernig í ósköpunum má það vera, að Fjármálaeftirlitið, FME, láti hjá líða að rannsaka þess konar eignarhald til að ganga úr skugga um, að allt sé með felldu ?
Það er heldur ekki vanzalaust, að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið hafi enn ekki haft í sér döngun til að stemma stigu við keðjueignarhaldi félaga á jörðum, sem gæti verið til þess eins ætlað að fela eignarhaldið. Hér hafa yfirvöldin rétt einu sinni flotið sofandi að feigðarósi um borð í EES-skekktunni. Alls konar ósómi þrífst í skjóli EES-samningsins, af því að yfirvöld ráða ekki við það stórverkefni að standa á rétti landsmanna, þegar búið er að hleypa risaríkjasambandi hér inn á gafl. Eina rökrétta leiðin út úr þessum ógöngum er að segja EES-samninginum upp, fara að setja lög, eins og fullvalda þjóð getur gert, og hreinsa moðverkið út úr laga- og reglugerðafargani EES-aðildarinnar, atvinnulífi og stjórnkerfi til ómælds léttis.
Samkvæmt fasteignaskrá eru 7670 jarðir á landinu, og þar af eru 6600 lögbýli. Hefðbundinn búskapur með sauðfé og/eða nautgripi virðist aðeins vera stundaður á 2218 jörðum eða 34 % lögbýla. Eðlilegt er að gera meiri kröfur til eignarhalds á jörðum, þar sem hefðbundin matvælaframleiðsla er stunduð en hinna m.t.t. fæðuöryggis og byggðastefnu í landinu.
Í landinu eru 2378 jarðir í eigu félaga eða fyrirtækja eða 31 %. Öll jarðeignarfélög með óljósu eignarhaldi þurfa að gera grein fyrir eigendum sínum, og óljóst eignarhald á að verða óleyfilegt. Fastrar ábúðar meirihlutaeigenda eða kosti á útleigu til ábúanda þarf að krefjast, ef um hefðbundna landbúnaðarjörð er að ræða.
Í landinu eru 384 jarðir eða 5 % að hluta eða að öllu leyti í eigu einstaklinga með lögheimili erlendis, þar af 62 jarðir alfarið í eigu slíkra. Í sambandi við þetta skiptir tilgangurinn öllu máli. Að kaupa jörð í söfnunarskyni eða til að afleggja búskap án þess að hefja eigi nokkurn annan atvinnurekstur á jörðinni er hæpið að samþykkja, og viðkomandi sveitarfélag ætti að fá slíkt til umsagnar. Hins vegar ber almennt að fagna beinum erlendum fjárfestingum til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar. Það hefur verið allt of lítið um slíkt, og þess vegna ber að gjalda varhug við erlendum kaupum á landi og meta í hverju tilviki, hvort kaupin séu líklega til að styrkja sveitarfélagið og byggðina.
Það verður líklega vaxandi hörgull á matvælum í heiminum í framtíðinni vegna loftslagsbreytinga, fjölgunar fólks og vaxandi vatnsskorts. Það er þekkt annars staðar frá, að útlendingar hafa fjárfest í landbúnaði til að framleiða matvæli fyrir sitt heimaland, sem annars gæti ekki brauðfætt sig. Íslenzk löggjöf um matvælaframleiðslu verður að tryggja íbúum landsins forgangsrétt til vatns og lands til matvælaframleiðslu.
Stjórnvöld verða að toga sig upp á hárinu og setja þá löggjöf, sem dugir í þessum efnum án tillits til gjamms frá ESA, enda fer nú vonandi að styttast í þessari dæmalausu EES-aðild, hverrar alvarlegu ókostir koma nú sífellt betur í ljós á einu sviðinu á fætur öðru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.7.2018 | 09:33
Viðskiptastríð
Það er með ólíkindum, að heimsbyggðin skuli á árinu 2018 upplifa viðskiptastríð stórvelda, þ.á.m. Bandaríkjanna við bandamenn sína, þótt Bandaríkjamenn berðust ötullegast fyrir viðskiptafrelsi á síðustu öld og lengst af þessari. Þeir voru aðalhöfundar WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, en nú hunza þeir gjörsamlega regluverk hennar. Þetta er forkastanleg hegðun, enda hafa Bandaríkjamenn grafið undan trausti bandamanna sinna til sín. Ef fram heldur sem horfir, mun "America first" stefna Bandaríkjastjórnar leiða til einangrunarhyggju þessa mesta stórveldis fyrr og síðar. Það mun gjörbreyta valdahlutföllum í heiminum.
Allt er í heiminum hverfult, og nú er skollið á viðskiptastríð á milli rótgróinna bandamanna, þ.e. stríð BNA við ESB, Kanada, Japan o.fl. Forseti BNA hefur jafnvel varpað fram efasemdum um grundvallarreglu NATO, 5. greinina, um að árás á einn jafngildi árás á alla og verði svarað sem stríðsyfirlýsingu á NATO. Allt þetta hlýtur að draga sögulegan dilk á eftir sér. Eru Bandaríkjamenn enn staðráðnir í að standa við skuldbindingar sínar í varnarsamningi sínum við Ísland ? Slík spurning hefði verið fráleit fyrir 2 árum, en er hún það nú ?
Augljóslega er nú kostur fyrir Íslendinga að standa utan ESB og losna þar með við viðsjárvert og kostnaðarsamt viðskiptastríð, en óbeinum afleiðingum viðskiptastríðs losnar þó enginn undan. Þær eru samdráttur alþjóðlegra viðskipta og fjárfestinga, sem strax leiðir til minni hagvaxtar alls staðar, mun breyta innbyrðis hlutföllum á gengi gjaldmiðla og getur endað með heimskreppu, eins og gerðist fyrir 90 árum.
Það vinnur enginn viðskiptastríð. Donald Trump gumar af því, að Bandaríkjamenn vinni þetta viðskiptastríð auðveldlega. Hann á eftir að komast að öðru. Það ættu Bandaríkjamenn að vita, eins og aðrir, og þeir hafa ekki leyfi til að ganga fram með þessum hætti, gjörsamlega í trássi við "barn sitt", Alþjóða viðskiptastofnunina-WTO. "America first" gengur ekki upp.
Leikritið, sem við horfum á núna, er raunveruleikaþátturinn "Skipbrot bandaríska auðvaldskerfisins", hvorki meira né minna. Bandaríkin, forysturíki auðvaldsins, kveina nú og kvarta undan frjálsri samkeppni, aðallega við þróunarlandið Kína og "elliheimilið" ESB, og setja í kjölfarið tolla á varning frá þeim án nokkurra viðræðna innan WTO ! Svona gera menn ekki, nema þeir séu ákveðnir í að grafa undan sjálfum sér, því að sér grefur gröf, þótt grafi.
Það er einfeldningslegt, ef einhver heldur, að tollar á innflutning komi ekki niður á lífskjörum íbúanna, sem látið er í veðri vaka, að verið sé að vernda. Íslendingar afnámu fyrir 3 árum tolla og vörugjöld á öllum vörum, nema eldsneytisbílum og eldsneyti. Það bætti kjör landsmanna sannanlega. Bandaríkjamenn munu fljótlega átta sig á raunveruleikanum og væntanlega taka afstöðu samkvæmt því í þingkosningunum í nóvember 2018. Gæti þá þessum farsa lokið áður en gengið verður af frjálsum viðskiptum dauðum um langa framtíð.
Lítum á upphafið að þessum ósköpum. 15. júní 2018 gaf Trumpstjórnin út tvo lista með kínverskum vörum, sem hún hugðist skella 25 % tollum á, vöruandvirði miaUSD 50 árið 2017. Sá fyrri tók gildi 6. júlí 2018. Kínverjar endurguldu með eigin lista sömu upphæðar. Þá gaf Donald Trump skipun til Roberts Lighthizer, viðskiptafulltrúa BNA (USTR), að útbúa nýjan lista að virði miaUSD 200, sem á skyldi leggja 10 % toll, og hótaði enn öðrum, að vöruandvirði miaUSD 200. Heildin, miaUSD 450, er um 80 % af heildarútflutningi Kína til BNA. Kínverjar flytja hins vegar aðeins inn frá BNA fjórðung af útflutningsverðmætunum þangað. Það er ein af meinsemdunum, en segir ekki alla söguna.
Kína lítur á upphafsleik BNA sem einhliða brot á alþjóðlegum reglum um viðskipti (WTO). Lögð hefur verið fram kæra hjá WTO. Teymi Trumps heldur því fram, að Kínverjar hafi hafið þessi átök með því að stela þekkingu frá Bandaríkjamönnum og reka óheiðarlega viðskiptastefnu (undirboð). Þegar búið er að leggja tolla á, gleymist rétt og rangt og jafnvel hlutverk WTO í málinu. Dæmigert stríðsástand.
Skrifstofa USTR hefur tekið sér tíma til að velja vörur til tolllagningar. Hún vill valda bandarískum neytendum lágmarkskostnaði og kínverskum útflytjendum hámarkstjóni. Af vörunum á listum frá 15. júní 2018 voru 95 % af verðgildinu fjárfestingarvörur eða íhlutir. Það átti að draga úr skammtímaáhrifum á verðlag í BNA, þar sem framleiðslukostnaður hækkar sáralítið við álagninguna. USTR hefur líka reynt að tryggja, að bandarískir innflytjendur gætu fundið aðra birgja. Samkvæmt ITC (International Trade Centre) þá nemur hlutdeild Kínverja aðeins 8 % af heildarinnflutningi þessara vara.
Það fer þó ekki hjá því, að tollarnir skaði bandarísk fyrirtæki, því að þau verða fyrir kostnaði, en ekki alþjóðlegir keppinautar þeirra. Jafnvel þótt í hlut eigi vörur með lítilli kínverskri hlutdeild, getur verið hægara sagt en gert að skipta um birgi. Í yfirheyrslum þingnefndar skýrðu fulltrúar risans GE frá því, að sérhæfðir íhlutir þess fari í alls konar gæðaprófanir og opinbert samþykktarferli, en af 34 íhlutum, sem fyrirtækið vildi fjarlægja af tollalistum USTR, var enginn fjarlægður.
Að valda Kína tjóni gæti líka verið hægara sagt en gert. Trumpstjórnin vill hemja metnað Kínverja á þýðingarmiklum sviðum, sem þeir kalla "Made in China 2025". Þetta hittir Kanann þó sjálfan fyrir, því að samkvæmt Yang Liang í Syracuse háskólanum og Mary Lovely í Peterson Institute for International Economics, sem er hugveita í Washington DC, komu 55 % af hátækni útflutningsvörum Kínverja 2013 til BNA frá fyrirtækjum að fullu í erlendri eigu í Kína. miaUSD 3,6 virði hálfleiðara innflutnings frá Kína í eldlínunni eru aðallega frá bandarískum dótturfyrirtækjum, innihalda díóður, transistora og týristora, sem framleiddir eru í BNA og fluttir til Kína vegna tímafrekrar samsetningar og prófana.
Byrjunarandsvar Kínverja snertir landbúnaðarafurðir, sem aðallega koma frá ríkjum, sem studdu Trump 2016, svo að greinilega er stílað inn á kosningarnar í nóvember 2018 í þessu stríði. Eftir því sem stríðið magnast, dreifist tjónið um samfélagið. Árið 2017 fluttu Bandaríkjamenn inn vörur frá Kína fyrir miaUSD 505. Ef tollar verða lagðir á vörur fyrir miaUSD 250, svo að ekki sé minnzt á miaUSD 450, verður ómögulegt að forðast neytendavörur á borð við föt og rafeindatæki. Vörur með fáa staðgöngubirgja verða fyrir barðinu. Bandarískum innflytjendum mun reynast erfiðara en áður að forðast verðhækkanir til neytenda.
Dmitry Grozubinski hjá hugveitunni "International Centre for Trade and Sustainable Development" er með sláandi samlíkingu í greininni "Battle-lines drawn" í "The Economist" 23. júní 2018: "Viðskiptastríði má jafna við það að sprengja upp eigin borgir og blása rykinu og reyknum yfir landamærin í von um, að íbúunum þar (andstæðingunum) súrni í augum."
Árið 2017 fluttu Kinverjar aðeins inn fyrir miaUSD 130 frá Bandaríkjamönnum, svo að þeir hafa minna svigrúm í viðskiptastríði, en geta hins vegar gripið til annarra refsinga. Þeir gætu stöðvað námsmannaferðir og ferðalög Kínverja til Bandaríkjanna. Þeir gætu með beitingu reglugerða gert bandarískum fyrirtækjum erfitt fyrir í Kína. Samkvæmt upplýsingum frá Bandarísk-kínverska viðskiptaráðinu hefur kínverska ríkisstjórnin rætt við kínversk fyrirtæki um að finna staðgönguvörur fyrir bandarískar vörur, sem þau nota. Þetta mun leiða til minni bandarískra fjárfestinga í Kína, en bandarísk yfirvöld gráta krókódílstárum yfir því. Allt er þetta makalaust. Adam Smith, höfundur auðgunarstefnunnar, verður væntanlega ekki vært í gröfinni við þessi öfugmæli.
Þessi yfirferð ætti að sannfæra flesta um, að andstæðan við þá andstyggilegu og viðsjárverðu stöðu, sem upp er komin á milli stórvelda, þ.e. fríverzlun þeirra og annarra á milli, er hagstæðasta fyrirkomulagið. Leita þarf annarra leiða til að auka samkeppnihæfni landa og minnka viðskiptahalla en að leggja á innflutningsgjöld.
E.t.v. hefur bandaríkjadalur verið of hátt skráður undanfarið. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur verið að þoka stýrivöxtum sínum upp, sem hefur leitt til fjárstreymis til BNA. Donald Trump hefur fyrstur Bandaríkjaforseta í háa herrans tíð gagnrýnt "Federal Reserve" fyrir vaxtastefnu seðlabankans, og hann hefur sakað ESB um að halda gengi evrunnar niðri til að styrkja viðskiptastöðu evrulandanna. Samtímis lætur hann skammirnar dynja á Þjóðverjum, enda eru þeir með yfir 5 % viðskiptaafgang af sinni VLF.
Þetta er mjög ósanngjörn gagnrýni, því að Þjóðverjar hafa verið manna gagnrýnastir á Ítalann Mario Draghi og bankastjórn ECB-evrubankans fyrir peningamálastjórnun bankans, sem Þjóðverjar telja auka of mikið peningamagn í umferð og verða verðbólguhvetjandi, er frá líður, og ræni þýzka sparifjáreigendur sanngjarnri ávöxtun af heiðarlegum sparnaði sínum, t.d. til elliáranna, en hvetji þess í stað til neyzlu. Þessi gagnrýni hefur t.d. komið frá yfirstjórn Bundesbank, banka ofurmarksins, DEM.
Þessir atburðir, sem að ofan er lýst, hafa eyðilagt gamalgróið traust, sem ríkt hefur á milli vestrænna ríkja yfir Atlantshafið. Það verður ekki endurreist í sjónhendingu. Þetta á líka við öryggis- og varnarmál. Afleiðingarnar verða stórvægilegar og alvarlegar.
Íslendingar hafa varnarsamning við Bandaríkin. Hvers virði er hann ? Við þessar aðstæður er Íslendingum hollast að reyna að stunda fríverzlun við sem flesta og ekki að loka sig af innan einhverra tollmúra, heldur ekki "Festung Europa", sem aðallega hefur verið fólgin í tæknilegum viðskiptahindrunum út á við á borð við framleiðslu- og gæðastaðla.
Árið 1918 endaði fyrri heimsstyrjöldin fyrir tilverknað Bandaríkjamanna með uppgjöf Miðveldanna. Woodrow Wilson, þáverandi Bandaríkjaforseti, boðaði árið 1918 sjálfstæði þjóðríkja. Sá boðskapur varð vatn á myllu íslenzku þingnefndarinnar, sem samdi um fullveldi við danska þingnefnd í Reykjavík 18. júlí 1918. Bandaríkin urðu fyrst til að viðurkenna lýðveldið Ísland 1944 og tryggðu öryggi þess. Árið 2018 brauzt út viðskiptastríð Bandaríkjanna við umheiminn. Hvernig fer með fullveldi landsins árið 2018 í hverfulum heimi ? Það er engum að treysta. Þjóðir eiga enga vini. Stundum fara hagsmunir sumra saman, og stundum fara hagsmunir annarra saman. Ræður íslenzka utanríkisráðuneytið fram úr þessari flóknu stöðu, þannig að hagsmunum Íslands verði borgið í bráð ? Það má efast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.7.2018 | 09:06
Út úr EES með með samningi á milli EFTA og ESB
Á heimsvísu finnast fjölmargir svæðisbundnir viðskiptaskilmálar. Þeir eru iðulega reistir á ákvæðum WTO, Alþjóða viðskiptastofnunarinnar.
Þegar árið 2012 hafði EFTA gert 23 fríverzlunarsamninga, sem spönnuðu 32 lönd, og þeim fjölgar stöðugt. ESB hefur líka gert fjölmarga slíka samninga, svo að í báðum herbúðum er reynsla fyrir slíku.
Þannig er fullkomlega raunhæft að koma á hefðbundnum viðskipta- og samstarfssamningi á milli EFTA og ESB. Eftir tvenns konar samband EFTA-landanna fjögurra við ESB í aldarfjórðung er fyllilega tímabært að sameina EFTA-löndin í einum samningi við ESB. Segja má, að stærð núverandi EFTA leyfi það ekki, að þessi fríverzlunarsamtök Evrópu gangi klofin til samninga við ESB, annars vegar Ísland, Noregur og Liechtenstein og hins vegar Sviss eitt á báti. Þótt EFTA-löndin séu tiltölulega fámenn, þá er EFTA samt þriðji mikilvægasti vöruviðskiptaaðilinn fyrir ESB og sá næst mikilvægasti á þjónustusviðinu.
BREXIT-ferlið gengur brösuglega, og það mun hugsanlega leiða til inngöngu BRETA í EFTA, sem þá verður mikilvægasti viðskiptavinur ESB á flestum sviðum. Bretar hafa eðlilega engan áhuga á EES, ef frá er skilin Lávarðadeild brezka þingsins, en það gæti orðið góður kostur fyrir alla, að EFTA og ESB mundu leggja niður EES og gera með sér fríverzlunar- og samstarfssamning með Breta í EFTA í staðinn.
Um það leyti sem inngönguviðræður Íslands við ESB stóðu yfir fyrir um 6 árum, setti ESB af stað mat á EES-samninginum og Svisslandssamningunum og hefur gefið til kynna vilja sinn um endurskoðun hvors tveggja.
Fríverzlunarsamningur EFTA og ESB verður að mynda minnsta samnefnara. Það þýðir, að nýr samningur þarf að fjalla um atriði, sem sameiginlegir eru EES-samninginum og Svisslandssamningunum. Þetta þýðir í raun að leggja af stofnanir EES, og að tilskipanir geti ekki komið á færibandi til EFTA-ríkjanna, heldur þurfi samningaviðræður í hvert skipti, sem óskað er breytinga/viðbóta á viðskiptasamninginum.
Vegna Svisslands mun nýi samningurinn í upphafi ekki spanna þjónustusvið. Þá þarf að skilgreina leyfilegar fjárfestingar. T.d. leyfa Íslendingar ekki erlendar fjárfestingar í fiskiskipaútgerðum, og landakaup verða væntanlega takmörkuð. Ákvæði um viðskipti með landbúnaðarvörur og unnin matvæli munu ekki fela í sér þrýsting um frjáls viðskipti með þessar vörur, bæði til að vernda eigin landbúnað gegn niðurgreiddum erlendum landbúnaði og vegna smithættu. Væntanlega verður eftirfarandi ákvæði EFTA-samningsins lagt til grundvallar um landbúnaðarvörur:
"Varðandi vörurnar í viðhengi D, hluta III, lýsa aðildarþjóðirnar sig fúsar til að vinna að samræmdri þróun viðskiptanna, að svo miklu leyti sem landbúnaðarstefna þeirra leyfir slíkt."
Tollaívilnanir og sjúkdómavarnir, sem af þessum samningi leiða, eru ekki vandamál í líkingu við þau, sem af EES-samninginum leiða.
Þar sem EFTA-ESB viðskiptasamningur verður í raun alveg nýr samningur á milli svæða með að nokkru leyti öðrum löndum við samningaborðið en aðild eiga að EES, verður unnt að fara fram á samningaviðræður við ESB, þótt EES-samninginum hafi þá enn ekki verið sagt upp. Takist ekki að leiða slíkar samningaviðræður til lykta, verður annaðhvort hægt að halda áfram um sinn með EES-samninginn eða að þrengja gildissvið hans og/eða kveða skýrara að orði um svigrúm EFTA-ríkjanna til að hafna tillögum ESB um nýjar innleiðingar á Evrópugjörðum. Það verður þá líka hægt að huga að enn öðrum valkostum á borð við samning reistan á reglum WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, tvíhliða viðskiptasamning eða tvíhliða viðskipta- og samstarfssamning við ESB.
Sé ESB ófúst til að hefja slíka samningaferla, sem drepið hefur verið á hér að ofan, þá er sú leið til, að Ísland, eitt sér eða ásamt hinum EFTA-löndunum tveimur, tilkynni, að ætlunin sé að segja upp EES-samninginum, en semja helzt fyrst við ESB um nýjan svæðissamning, sem reistur sé á Vaduz-sáttmálanum. Við slíkar aðstæður mun ESB mjög sennilega sjá hag sínum bezt borgið með því, að millibilsástandið, þar sem gamli viðskiptasamningurinn með viðbótum frá WTO-regluverkinu yrði lagður til grundvallar, myndi vara sem stytzt, þar eð Vaduz-sáttmálinn spannar víðtækara samstarf.
Það eru margir valkostir í stöðunni varðandi samskiptin við ESB, og það er fullkomlega raunhæft að taka upp samningaviðræður við ESB um samning, sem leyst getur hinn meingallaða og í raun úr sér gengna EES-samning af hólmi, samning, sem sumir telja ESB hafa brotið með kröfum um yfirþjóðlega stjórnun málaflokka í EFTA-ríkjunum, eins og í ESB-ríkjunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.7.2018 | 10:24
Út úr EES með tvíhliða viðskipta- og samstarfssamning
Það er vel gerlegt að mati höfunda "Alternativrapporten" í Noregi að fá rammasamning við ESB um alla samninga viðkomandi lands við ESB - án þess að slíkur þurfi að fela í sér nánari samruna við ESB, eins og bandalagið þó og ýmsir hérlendir menn, ekki hvað sízt embættismenn, virðast hafa mestan hug á.
Til þess að slíkur samningur losi Ísland við núverandi stjórnlagalegar efasemdir um lögmæti samstarfsins við ESB, þarf að fjarlægja sérkenni EES-samningsins, þ.e.a.s. ESA, EFTA-dómstólinn og ákvæðin, sem kveða á um, að allar gjörðir, sem ESB merkir sem EES-viðeigandi, séu innleiddar á færibandi á Íslandi.
Þannig er hægt að stofna til tvíhliða viðskipta- og samstarfssamnings við ESB, sem felur í sér þá þætti EES-samningsins, sem samstaða er um að halda áfram með, þ.e. atriði, sem hagstæð eru báðum aðilum, með gildissvið og innihald, sem er ásættanlegt fyrir báða samningsaðila. Breytingar á nýja samninginum munu þá einvörðungu eiga sér stað eftir viðræður og samþykki beggja, öfugt við núverandi sjálfvirka fyrirkomulag, sem ógnar fullveldi Íslands og Noregs í ýmsum tilvikum og skapar þess vegna óvissu um lögmæti Evrópugerðanna í þessum tveimur löndum.
ESB hefur gert yfir 200 viðskiptasamninga við lönd alls staðar í heiminum. Þeir eru næstum allir tvíhliða og venjulega ekki rammar utan um sjálfvirka upptöku gjörða, eins og EES-samningurinn. Hvers vegna ætti ESB að þverskallast við slíkum samningi við Ísland, nú þegar fullreynt er, að EES-samningurinn verður aldrei neitt stökkbretti landsmanna inn í ESB, eins og margir hugðu, er til var stofnað, m.a. þáverandi stjórnendur ESB ?
ESB hefur líka gert tvíhliða samninga um annars konar samstarf, t.d. um þátttöku í rannsóknarverkefnum, við fjölmörg lönd. Sviss er með viðamestu tvíhliða samningana við ESB. Tilkynning ESB um, að þar á bæ óski menn eftir að breyta samningunum við Sviss í áttina að sjálfvirkara EES-fyrirkomulagi þýðir ekki, að ESB útiloki nýja tvíhliða samninga. Þetta er aðferð ESB við að hefja samningaviðræður við Svisslendinga, og að baki býr ósk ESB um aukna vitneskju um svissneska bankakerfið.
ESB hefur verið með samninga í gangi um tvíhliða viðskiptasamninga við m.a. Indland, Kanada, Egyptaland og Japan, sem hvert um sig hefur minna viðskiptalegt vægi fyrir ESB en t.d. Noregur, aðallega vegna ál- og gasútflutnings Norðmanna.
Eðlilegt er að gera ráð fyrir, varðandi nýjan tvíhliða viðskipta- og samstarfssamning við ESB, að aðrir hlutar EES-samningsins en þeir óaðgengilegu verði framlengdir við uppsögn heildarsamningsins. Gildissvið tvíhliða samningsins verða að vera nákvæmlega skilgreind, og hann verður að vera einvörðungu þjóðréttarlegrar gerðar, svo að hann stangist ekki á við Stjórnarskrá. Samstarfssvið, sem raunhæft er að semja um, eru t.d. rannsóknir, menntun og menning með þátttöku í rammaverkefnum ESB, annaðhvort að fullu eða að hluta, ásamt umhverfisvernd með þátttöku í Evrópsku umhverfisstofnuninni.
Samningurinn má þó ekki fela í sér fyrirkomulag, sem þrýstir á Ísland um að innleiða nýjar gjörðir frá ESB. Ef Íslendingar vilja taka upp nýjar reglur frá ESB, þarf að endursemja um samninginn eða bæta umsömdum viðaukum við hann.
Samningslíkan af þessum toga þýðir, að Ísland getur krafizt einhvers á móti frá ESB gegn því að taka upp nýtt ESB-regluverk. Þannig kemst á samningsleg jafnstaða samningsaðilanna. Vald má heldur ekki framselja frá Íslandi til nokkurrar eftirlitsstofnunar á borð við ESA eða EFTA/ESB dómstólana. Deilur skal leysa á vettvangi stjórnmálanna. Með því að fjarlægja núverandi fyrirkomulag fjölþjóðlegs framkvæmdavalds, dómsvalds og löggjafarvalds, sem er í EES-samninginum, ásamt "sjálfvirku" ferli markaðsvæðingar á æ fleiri sviðum með innleiðingu nýrra ESB-gerða, má aðgreina tvíhliða samning með skýrum hætti frá EES-samninginum.
Er líklegt, að "breiður" stuðningur verði við slíkan tvíhliða samning Íslands og ESB hér innanlands ? Það fer dálítið eftir því, hvernig að honum yrði staðið. Á undirbúningsstigum málsins þarf að kveðja að alla helztu hagsmunaaðila, sem fái tækifæri til að koma að atriðum, sem þeir vilja setja á oddinn, áður en setzt er að samningaborðinu með ESB. Um slíkan samning gæti náðst góð samstaða í landinu, og um hann gæti orðið langvarandi friður. Slíkt yrði stórt framfaraspor í samanburði við hinn umdeilanlega, óhagstæða, þrúgandi og að margra mati ólögmæta EES-samning.
Bloggar | Breytt 28.7.2018 kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2018 | 09:35
Nútímalegur viðskiptasamningur við ESB í stað EES-helsis
Á fyrri hluta 8. áratugar 20. aldarinnar gerðu Norðmenn og Íslendingar viðskiptasamning við ESB. Sá samningur tæki sjálfkrafa gildi við útgöngu úr EES-samstarfinu, ef ekki hefur innan árs frá uppsögn EES-samningsins tekizt að gera fríverzlunarsamning við ESB, t.d. í líkingu við samning ESB við Kanada og Japan.
Á tveimur sviðum var EES-samningurinn ívið hagstæðari Íslandi og Noregi en gamli viðskiptasamningurinn var. Í fyrsta lagi voru tollar á unnum fiskafurðum ívið lægri samkvæmt EES-samninginum, og í öðru lagi getur ESB ekki gripið til aðgerða gegn meintum undirboðum íslenzks iðnaðar í EES, eins og viðskiptasamningurinn leyfði. Þetta eru þó harla léttvægir kostir.
Rannsóknarstjóri við Sjávarútvegsháskóla Noregs, Peter Örebech, reiknaði út í skýrslu um norska valkostaverkefnið (við EES) haustið 2011, að hækkun tollheimtu af unnum fiskafurðum við að hverfa aftur til gamla viðskiptasamningsins gæti að hámarki orðið 1,8 % af útflutningsandvirði þessara afurða. Örebech komst ennfremur að þeirri niðurstöðu, að þetta hefði engin áhrif á markaðshlutdeild Noregs í ESB á þessu sviði, svo að tekjulækkun sjávarútvegsins yrði engin. Hið sama mun gilda fyrir Ísland.
Á Íslandi tíðkast enginn opinber stuðningur við útflutningsiðnað, sem ekki er leyfilegur samkvæmt ESA og Evrópurétti, nema þá á sviði raforkumála, þar sem ESA hefur fett fingur út í það, að raforkuvinnslufyrirtækin hafi frían aðgang að orkulindunum. Þetta er að vísu ekki alls kostar rétt, en má engu að síður bæta úr með auðlindagjaldi eða fasteignagjaldi af vatnsréttindum og gufuréttindum, eins og Hæstiréttur hefur dæmt Fljótsdalshreppi í vil gegn Landsvirkjun, sem er líka sjálfsagt mál til að jafna aðstöðumun atvinnugreina innanlands, sem nýta náttúruauðlindir. Allar eiga þær að greiða sams konar auðlindagjald, þegar auðlindarenta finnst í bókhaldi þeirra.
Fyrir matvælaiðnaðinn var EES-samningurinn að vissu leyti um tíma betri en viðskiptasamningurinn var. Annars vegar átti EES-samningurinn að vernda afurðastöðvar landbúnaðarins gegn því að verða undir í samkeppni við innflutning frá ESB, og hins vegar fól hann í sér vissar tollalækkanir fyrir fiskiðnaðinn, sem flutti út vörur til ESB.
Þessi sviðsmynd er breytt. Í nokkrum samningalotum við ESB er búið að auka viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur. Í raun hefur átt sér stað mikil aukning innflutnings landbúnaðarvara frá ESB, en útflutningur slíkra vara hefur að mestu staðið í stað. Í þessu sambandi verður að nefna innflutning á hráu kjöti, mjólkurvörum og eggjum, en ESB hefur sýnt ósveigjanleika og óbilgirni gagnvart röksemdum íslenzkra stjórnvalda um nauðsyn þess að beita sérstökum varúðarráðstöfunum til verndar íslenzkum dýrastofnum og mönnum gagnvart sýkingum frá bakteríum, sem ekki hafa náð fótfestu hérlendis. Það er gjörsamlega ólíðandi átroðsla að hálfu ESB að hunza ráðleggingar færustu sérfræðinga hér á sviði þessara sýkinga, og myndar sterk rök fyrir uppsögn mjög íþyngjandi samnings E.
Fyrir þjónustustarfsemi hérlendis er erfitt að sýna fram á, að hún hafi unnið stærri markað en hún hefur tapað með EES-samninginum. Dæmi hafa komið upp um ólöglega og ósiðlega starfsemi hérlendis við útleigu á vinnuafli, sem er nánast meðhöndlað eins og þrælar, í skjóli fjórfrelsisins á Innri markaðinum um frjálsa för fólks. Mikill innflutningur verkafólks hefur klárlega dregið úr launaskriði hér, en sterkur grunur leikur á um undirboð og reyndar ófá dæmi um þau, sem gera löghlýðnum íslenzkum atvinnurekendum lífið erfitt.
Uppsögn EES-samningsins og útganga úr Schengen-fyrirbærinu mundi gera slíkri og annarri alþjóðlegri glæpastarfsemi erfiðara um vik, en vinnuveitendur gætu eftir sem áður leitað eftir erlendum vinnukrafti, ef þörf reynist á á toppi hagsveiflunnar. Við 3 % árlegan hagvöxt eða minni er aðeins þörf fyrir slíkt í undantekningartilvikum.
Þegar öllu er á botninn hvolft, er ekkert viðskiptalegt hagræði af EES-samninginum í samanburði við fríverzlunarsamning. EES-samningurinn opnar fámennt velferðarsamfélag fyrir straumi efnahagsflóttamanna og glæpagengja. Hann er mjög íþyngjandi byrði á fyrirtækjum og stjórnkerfi landsins vegna reglugerðafargans, sem hamlar nauðsynlegri framleiðniaukningu á öllum sviðum. Það er grundvallar misskilningur, að smáþjóð geti með góðum árangri tekið þátt í því risavaxna búrókratíska kerfi, sem ESB er. Reynslan sýnir það einfaldlega, að gerðir ESB eru hér innleiddar á færibandi gagnrýnislaust, þótt þær eigi hingað ekkert erindi í sinni hráu mynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.7.2018 | 15:33
Viðskipti með jarðir á Íslandi
Landbúnaður á Íslandi á undir högg að sækja, sumpart vegna þess að hann er nú kominn í beina samkeppni við annars konar landbúnað en hér er stundaður, þ.e. niðurgreiddan verksmiðjulandbúnað ESB, sem notar alls konar hjálparmeðul, sem hér eru bönnuð af heilsufarsástæðum eða ekki þörf fyrir. Heilnæmið er þess vegna ósambærilegt, nema bornar séu saman vörur með vottun um lífræna ræktun.
Íslenzkir bændur hafa aukið framleiðni fyrirtækja sinna, búanna, gríðarlega undanfarin 30 ár, en búin eru samt enn rekin sem fjölskyldufyrirtæki. Frá sjónarhorni byggðastefnu með eðlilegu og fjölbreyttu mannlífi í hinum dreifðu byggðum landsins er það æskilegasta rekstrarformið. Vegna stærðarmunar er framleiðni íslenzkra búa yfirleitt minni en framleiðslufyrirtækja landbúnaðarafurða í ESB, en gæðamunur framleiðslunnar er yfirleitt mikill, íslenzkum landbúnaði í vil. Það er verkefni næstu ára að fá þetta formlega vottað, svo að þessi kostur, sem verður sífellt mikilvægari í augum almennings um allan heim, endurvarpist í verð á útflutningsvöru.
Loftslagsþróunin gæti og lagzt á sveif með íslenzkum bændum, eins og komið hefur á daginn í sumar með brýnni þörf norrænna bænda fyrir hey, og á Íslandi eru umframhey af góðum gæðum.
Bændum hérlendis hefur fækkað stöðugt á sama tíma og framleiðsluaukning hefur orðið í landbúnaðinum í heild. Þetta er auðvitað lykillinn að nauðsynlegri framleiðniaukningu. Bændur hafa við þessar aðstæður fengið fremur lágt verð fyrir jarðir sínar í samanburði við íbúðaverð í þéttbýli, og jarðir hafa jafnvel lagzt í eyði, þegar gamlir bændur bregða búi. Bændur hafa þess vegna gripið fegins hendi tilboð frá fjársterkum aðilum, innlendum og frá jafnsettum erlendum ríkisborgurum samkvæmt EES-samninginum. Stjórnarskráin tryggir bændum (jarðeigendum) rétt til að selja eign sína löglegum bjóðendum.
Hin hliðin á þessum peningi er, að margar jarðir eru að safnast á fáar hendur, sem ekki vinna þar handtak, hvorki beint né óbeint. Nýju eigendurnir eru þó a.m.k. sumir fúsir til að leigja jarðirnar undir búskap og hafa víst boðið sanngjörn kjör leigutökum. Við þær aðstæður eru uppfyllt skilyrði um áframhaldandi eðlilegt og fjölbreytt líf í sveit, og eignarhaldið skiptir þá ekki höfuðmáli. Ef nýir eigendur ekki ætla að stunda atvinnustarfsemi á jörðinni, mætti gera það að skilyrði fyrir kaupum, að þeir leigðu hana til búskapar eða landbóta af einhverju tagi.
Það virðist sammerkt flestum jörðunum, sem keyptar hafa verið án fyrirætlunar um búskap þar, að það eru hlunnindajarðir, oftast með laxveiðiréttindi. Veiðiréttarhafar telja veiðihlunnindi til mikilvægra hagsmuna sinna, og þess vegna missir bændastéttin spón úr aski sínum, þegar aðrir kaupa jarðir með veiðihlunnindum. Það mætti reisa skorður við þessu með því að setja nokkur skilyrði um rekstur eignanna, sem þó mismuna ekki eftir þjóðerni:
- Félag má þá aðeins eiga jörð, eina eða fleiri, ef handhafar meirihlutaeignar í félaginu hafa fasta búsetu á jörð, og/eða þeir reka atvinnustarfsemi á a.m.k. einni jörð árið um kring. Eigendaskrá félagsins skal vera opinber og spanna skýlaust alla eigendur. Félagið skal hafa heimilisfesti á Íslandi og vera þar skattskylt. Undanþágu frá þessu ákvæði um fasta búsetu og/eða atvinnustarfsemi eiganda á jörð er unnt að veita, ef félagið leigir jarðirnar til ábúðar og hefðbundinna nytja, landgræðslu eða annarrar sprotastarfsemi, innan tveggja ára frá kaupum eða brottflutningi síðasta ábúanda, ella skal viðkomandi sveitarfélag öðlast kauprétt samkvæmt verðmætamati í fasteignaskrá.
- Einstaklingi skal vera heimilt að eiga ótakmarkaðan fjölda jarða, ef hann hefur fasta búsetu á einni þeirri og/eða nytjar jarðirnar til hefðbundins búskapar, landgræðslu, þ.m.t. skógræktar, hrossaræktar e.þ.l.
Bloggar | Breytt 2.8.2018 kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)