Færsluflokkur: Bloggar
17.8.2022 | 12:57
Að finna fjölina sína
Þremur dögum eftir upphaf innrásar Rússlands í Úkraínu hélt kanzlari Þýzkalands, kratinn Olaf Scholz , ræðu í þýzka Sambandsþinginu í Berlín, Bundestag, sem kennd er við "Zeitenwende" eða tímamót. Þýzka þjóðin hafði líklega orðið fyrir meira áfalli við þennan glæpsamlega gjörning Kremlarstjórnarinnar en aðrar vestrænar þjóðir fyrir utan auðvitað saklaus fórnarlömbin, Úkraínumenn sjálfa. Ástæðan var sú, að Þjóðverjar höfðu a.m.k. frá kanzlaratíð kratans Willys Brandts lagt sig fram um að efla vinsamleg samskipti við Rússa og treystu því, að gagnkvæmir viðskiptahagsmunir myndu halda rússneska birninum í skefjum.
Þjóðverjar höfðu í þessu skyni tekið mikla áhættu í orkumálum og reitt sig á ábyrga afstöðu Rússa og áreiðanlega afhendingu kola, olíu og jarðgass, þannig að árið 2021 nam t.d. hlutdeild rússnesks gass af þýzka gasmarkaðinum um 55 % og hafði þá hækkað úr 30 % um aldamótin 2000. Nú um miðjan ágúst 2022 nemur þessi hlutdeild um 25 %, en samt hækkar í birgðatönkum Þjóðverja fyrir jarðgas. Þeir hafa aðlagað sig stríðsástandinu furðufljótt.
Þjóðverjar hafa löngum verið veikir fyrir ævintýrum. Á Íslandi og miklu víðar eru Grímsævintýri alþekkt eða hluti þeirra. Þetta er safn ævintýra hinna ýmsu germönsku ættbálka, sem tala þýzka mállýzku, og safnararnir hafa samræmt mismunandi útgáfur og jafnvel sniðið að eigin höfði.
Eitt ævintýranna fjallar um Karl Katz, geitahirði í Harz-fjöllum í Mið-Þýzkalandi. Dag einn leiðir villuráfandi geit téðan Karl inn í langan helli, þar sem hann hittir skrýtna karla, sem freista hans með drykk, og hann lætur ánetjast og fellur í djúpan svefn. Þegar hann vaknar, skynjar hann fljótt, að svefntími hans verður ekki talinn í klukkustundum, heldur í árum. Heimurinn er breyttur.
Margir Þjóðverjar finna sig nú í sömu stöðu og Karl. Þjóðin hafi verið eins og svefngenglar. Eftir Endursameiningu Þýzkalands voru þeir ánægðir með árangur sinn á sviði efnahagsmála og utanríkismála og trúðu því til hægðarauka, að kerfi þeirra virkaði nánast fullkomlega. Stjórnmálamenn þeirra töldu þeim trú um ævarandi velgengni með lágmarks núningi við umheiminn og auðvitað núll-losun gróðurhúsalofttegunda í nánustu framtíð.
Að vakna síðan upp með andfælum við hávaðann frá rússneskum skriðdrekum, sem héldu með offorsi innreið sína í Evrópuríkið Úkraínu, var hræðileg reynsla. Þjóðverjar upplifa sig ekki, eins og Karl, stadda í framtíðinni, heldur áratugum aftur í fortíðinni. Í stað þess að þeysa á hraðbraut (Autobahn) inn í víðsýnt lýðræðiskerfi, hefur stór hluti heimsins hallazt í átt til ómerkilegs lýðskrums, sem Þjóðverjar þekkja allt of vel úr eigin fortíð.
Í stað þess að njóta tímabils friðsamlegrar samvinnu, sem Þjóðverjar töldu, að þeir hefðu lagt grunninn að, reka Þjóðverjar sig nú á, að krafizt er vopna og hermanna af þeim. Auðlegð Þýzkalands reynist nú ekki stafa einvörðungu af dugnaði íbúanna, eins og ævintýraútgáfan af þýzku þjóðfélagi skáldaði, heldur á ódýrri orku og ódýru vinnuafli, og auðvitað hefur nú komið á daginn, að þessi Vladimir Putin, sem skenkti Þjóðverjum 2 gaslagnir undir Eystrasalti frá Rússlandi, hefur nú reynzt vera úlfur í sauðargæru, einn af grimmustu og miskunnarlausustu úlfum Evrópusögunnar, sem ekki vílar fyrir sér að hóta að sprengja stærsta kjarnorkuver Evrópu í loft upp og staðfestir þannig glæpsamlegt eðli sitt.
Allt, sem forveri Olaf Scholz á kanzlarastóli, Angela Merkel, beitti sér fyrir í orkumálum Þjóðverja, var eins og eftir pöntun frá téðum Putin. Hún "flippaði út-flippte aus" eftir stórflóðið í Fukushima 2011 og lét loka helmingi kjarnorkuvera Þjóðverja strax og setti lokadag á 3 síðustu 31.12.2022, og hún fékk Bundestag til að banna jarðgasvinnslu með vökvaþrýstiaðferð (fracking).
Þjóðverjar hafa ekki farið sömu leið og nágrannarnir í Hollandi, sem nýta enn Groningen gaslindirnar, sem hafa gefið af sér mrdUSD 500 síðan 1959. (Í The Economist var af þessu tilefni 1977 skrifað um hollenzku veikina. Hér er stuðzt við The Economist-23.07.2022-Let the sleeper awaken.) Samt eru gasbirgðir Þjóðverja alls ekki litlar. Um aldamótin 2000 dældu Þjóðverjar upp 20 mrdm3/ár af jarðgasi, sem nam um fjórðungi af gasnotkun Þjóðverja. Þótt jarðfræðingar meti nýtanlegan jarðgasforða Þjóðverja um mrdm3 800, hefur vinnslan hrapað niður í 5-6 mrdm3/ár, sem nemur um 10 % af innflutningi jarðgass frá Rússlandi til Þýzkalands fyrir Úkraínustríð.
Það er sorgleg skýring á þessu. Af jarðfræðilegum ástæðum er nauðsynlegt að beita vökvaþrýstingi á jarðlögin til að ná upp nánast öllu þýzku jarðgasi, en þýzkur almenningur er haldinn óraunhæfum ótta við þessa aðferð, og á þessum tilfinningalega grundvelli tókst Merkel árið 2017 að fá Bundestag til að banna í raun vinnslu jarðgass með vökvaþrýstiaðferð í ábataskyni, þótt þýzk fyrirtæki hafi frá 6. áratugi 20. aldar notað þessa tækni við jarðgasvinnslu án nokkurs skráðs tilviks um umhverfistjón.
Það er ekki erfitt að rekja ástæður téðs ótta almennings. Árið 2008 sótti stórt bandarískt olíufélag, Exxon, um stækkun athafnasvæðis fyrir gasvinnslu fyrirtækisins í Norður-Þýzkalandi með þessari vökvaþrýstiaðferð. Þegar s.k. umhverfisverndarsinnar hópuðust saman til mótmæla, hoppaði Græningjaflokkurinn, sem nú er í ríkisstjórn og þá var í sókn, um borð í mótmælafleyið. Hið sama gerði "Russia Today", málpípa Kremlar, og spann upp aðvaranir um, að þessi tegund gasvinnslu leiddi til geislavirkni, fæðingargalla, hormónaójafnvægis, losunar gríðarlegs magns metans, eitraðs úrgangs og eitrunar fiskistofna. Ekki minni sérfræðingur en náungi að nafni Vladimir Putin lýsti því yfir í ræðustóli á alþjóðlegri ráðstefnu, að téð vökvaþrýstiaðferð gasvinnslu mundi valda því, að sótsvart sull spýttist út um eldhúskrana almennings. Þjóðverjar virðast ginnkeyptir fyrir ævintýrum, en það eru margir aðrir.
Hræðsluáróður af þessu tagi á greiða leið að eyrum almennings. Augljóst er nú til hvers refirnir voru skornir hjá Putin. Hann vildi drepa gasvinnslu Þjóðverja í dróma til að gera þá háða Rússlandi um þennan mikilvæga orkugjafa, og kanzlarinn sjálfur, prestsdóttirin frá Austur-Þýzkalandi, beit á agnið. Það er alls ekki einleikið.
"Að þessu búnu gáfumst við hreinlega upp við að útskýra, að vökvaþrýstivinnsla jarðgass er algerlega örugg", andvarpar Hans-Joachim Kümpel, fyrrverandi formaður meginráðgjafarráðs ríkisstjórnarinnar um jarðfræði. "Ég get í raun ekki áfellzt fólk, sem hefur enga þekkingu á jarðfræði, ef allt, sem það heyrir um viðfangsefnið, eru hryllingssögur."
Þýzkir gasframleiðendur segja, að í ljósi þróaðri, hreinni og öruggari vinnsluaðferða nútímans, gætu þeir tvöfaldað vinnsluafköstin á 18-24 mánuðum, ef þeir fengju tækifærið. Með slíkum afköstum gætu Þjóðverjar dælt upp gasi fram á næstu öld. Slíkt mundi draga úr innflutningsþörf að jafngildi u.þ.b. 15 mrdUSD/ár. Það er ekkert ævintýri. Núverandi ríkisstjórn Þýzkalands er ekki líkleg til að slaka á hömlunum í þessum efnum, þótt hart sverfi að Þjóðverjum, en væri Friedrich Mertz kanzlari væri meiri von til, að heilbrigð skynsemi og öryggishagsmunir væru í fyrirrúmi, en ekki tvístígandi og hálfgerður rolugangur.
Friedrich Mertz er formaður stjórnarandstöðuflokksins CDU, sem er miðhægriflokkur Konrads Adenauers og dr Ludwigs Erhards, og hann er tilbúinn til að leiða Þýzkaland til forystu í Evrópu gegn árásargirni Rússlands undir forystu hins siðblinda Putins, sem nú bítur höfuðið af skömminni með því að setja stærsta kjarnorkuver Evrópu í uppnám, láta rússneska herinn hafast þar við og skjóta þaðan eldflaugum og úr sprengivörpum. Öfugmælin og ósvífnin nálgast hámark, þegar sami Putin sakar Bandaríkjamenn um að lengja í Úkraínustríðinu og efna til ófriðar um allan heim. Margur heldur mig sig. Hann þarf ekki annað en að gefa rússneska hernum fyrirmæli um að hætta blóðugu og illa ígrunduðu árásarstríði sínu í Úkraínu og hverfa inn fyrir rússnesku landamærin til að binda endi á þessi fáránlegu átök, sem hafa gjörsamlega eyðilagt orðstír Rússa. Þrátt fyrir "vatnaskil" hjá kratanum Olaf Scholz, er hann enginn bógur til að finna fjölina sína sem leiðtogi frjálsrar Evrópu við gjörbreyttar aðstæður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2022 | 18:05
Hnignun orkuveldis
Frá hruni Ráðstjórnarríkjanna 1990 hefur Rússland sótt í sig veðrið sem orkuútflytjandi, og sú sókn magnaðist, eftir að Boris Jeltsín, þáverandi forseti rússneska ríkjasambandsins, skipaði KGB-foringjann Vladimir Putin, eftirmann sinn, illu heilli. Ætlun Rússa með því að efla vinnslu jarðefnaeldsneytis var að afla dýrmæts gjaldeyris og halda þar með rúblunni uppi; svo og að ná hreðjataki á kaupendum orkunnar, aðallega Evrópuríkjunum. Hvort tveggja tókst, en það tókst þó ekki að Finnlandisera viðskiptalöndin í Evrópu, sem vonir einvaldsins í Kreml vafalítið stóðu til, þegar hann hrinti innrásinni í Úkraínu af stað 24. febrúar 2022.
Þann dag urðu vatnaskil í stjórnmálum Evrópu, því að þjóðunum varð ljóst, að binda yrði endi á öll viðskipti við hið löglausa og árásargjarna ríki, sem nú hafði notað her sinn, fjármagnaðan með hinum verðmæta afrakstri jarðefnaeldsneytisins, í miskunnarlausri og blóðþyrstri tilraun til að leggja undir sig allt nágrannaríkið Úkraínu, sem sneiðum hafði verið stolið af strax 2014.
Þessi endurvakning á skefjalausum ríkishernaði í Evrópu, sem ekki hafði sézt þar frá falli Þriðja ríkisins 8. maí 1945, varð Evrópumönnum og öllum hinum vestræna heimi andlegt áfall og ástæða sjálfsrýni og endurskoðunar á lífsviðhorfi og stefnu. Barátta einræðis og lýðræðisstjórnarfars hefur ekki kristallazt með jafnskýrum hætti í Evrópu síðan vorið 1940, þegar Bretar stóðu einir gegn landvinningum Stór-Þýzkalands.
Gert hefur verið lítið úr viðbrögðum Vesturveldanna til að draga máttinn úr stríðsvél nýlenduveldisins í austri. Björn Bjarnason, fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra, telur þær efasemdir orðum auknar og færir fyrir því viðhorfi sínu sterk rök í umræðugrein í Morgunblaðinu, laugardaginn 6. ágúst 2022, undir fyrirsögninni:
"Greining á rússnesku hruni".
Umfjöllunarefnið er þjóðarbúskapur Rússa:
"Í nýlegri skýrslu 5 rannsakenda við Yale-háskóla í Bandaríkjunum um hrikalegar afleiðingar vestrænna refsiaðgerða á efnahag Rússlands segir, að Vladimir Putin, Rússlandsforseti, fylgist náið með verðþróun á olíumörkuðum, enda sé það olía og gas, sem geri Rússa gildandi í heimsbúskapnum; þeir séu 3. stærsti olíuframleiðandi heims, en vegi aðeins 3 %, þegar litið sé til hlutdeildar þeirra í vergri heimsframleiðslu."
Þetta sýnir, hversu furðulega lítið Rússar hafa upp á að bjóða af eftirsóknarverðri framleiðslu annarri en jarðefnaeldsneyti, sem dælt er upp úr jörðunni. Þetta er hvorki í samræmi við landstærðina né mannfjöldann og sýnir djúpstæða meinsemd í rússnesku samfélagi, sem e.t.v. má kalla spillingu valdhafanna, sem gegnsýrir allt þjóðfélagið, einnig herinn.
"Yale-menn segja, að nú glími Rússar við mun meiri vanda við útflutning á hrávöru en almennt er rætt um í fréttum. Heildartekjur þeirra af olíu og gasi hafi lækkað um meira en helming í maí m.v. apríl 2022, sé tekið mið af opinberum rússneskum tölum. Rússar hafi í raun sveigt verulega hjá því framtíðarmarkmiði sínu um að ná lykilstöðu á hrávörumarkaðinum."
Þessar upplýsingar sýna, að hnignun rússneskrar markaðshlutdeildar jarðefnaeldsneytis í heiminum er hafin. Sennilega liggja til þess 2 meginástæður og eru báðar varanlegar. Önnur er lokun aðgengis fyrir Rússa að vestrænni tækniþekkingu á sviði viðhalds, rekstrar og nýborana á vettvangi orkuvinnslu, og þar með lokun á varahluti fyrir kerfi í rekstri og búnað fyrir ný verkefni.
Hin ástæðan er, að viðskiptavinir Rússa hafi fórnað höndum yfir villimannlegu grimmdaræði þeirra í árásarstríði þeirra í Úkraínu, þar sem óbreyttir borgarar og vistarverur þeirra eru helztu skotmörk hins lítilsiglda hers þeirra, og að Rússar hafi af þeim sökum hreinlega séð undir iljar gamalla viðskiptavina sinna. Það hefur óhjákvæmilega afleiðingar að ganga fram með þvílíkum kúgunartilburðum og ofstopa gegn friðsömum nágrönnum, sem ekkert hafa til saka unnið, og reyna í einu vetfangi að breyta heimssögunni. Það er alger tímaskekkja.
"Það skipti e.t.v. enn meira máli, að til þess að snúa viðskiptum sínum í austur verði Putin að ráða yfir tækni til að gera olíu og gas hæf til flutnings í leiðslum frá norðurslóðum til kaupenda. Eftir að erlendir samstarfsaðilar sögðu skilið við rússnesku fyrirtækin Rosneft og Gazprom hafi þessir orkurisar sjálfir enga burði til að geta nýtt sér til gagns gífurlegar olíu- og gaslindir, einkum í Síberíu og á norðurslóðum, og því síður að koma eldsneytinu á markað. Til skamms tíma þýði þetta, að rússneska ríkið fari á mis við lífsnauðsynlegar skatttekjur fyrir utan að tapa stöðu sinni og trúverðugleika á heimsmarkaði og sem félagi í OPEC+ félagsskapnum. Nú verði þeir hins vegar að skríða á hnjánum til Kínverja og Indverja í von um, að þeir kaupi eitthvað af þeim á miklu afsláttarverði."
Á tímabilinu 1999-2014 óx rússnesku millistéttinni fiskur um hrygg, enda jukust tekjur hennar ríflega árlega á þessu tímabili, en síðan hefur ríkt stöðnun og jafnvel afturför, hvað lífskjör millistéttarinnar varðar, og þjóðnýting hefur haldið innreið sína, svo að þjóðfélaginu er tekið að svipa til Ráðstjórnarára 9. áratugar 20. aldarinnar. Þá kemur nú u.þ.b. fimmtungur af tekjum almennings úr ríkissjóði, svo að sú skerðing ríkistekna, sem þarna er gerð að umfjöllunarefni, getur reynzt rússneska ríkissjóðinum þungbær og að lokum skert lífskjör almennings.
Þjóðirnar, sem þarna eru nefndar til sögunnar að taka við jarðefnaeldsneyti af Rússum, Indverjar og Kínverjarar, eru alræmdir prúttarar. Þær munu hikstalaust nýta sér vandræði Rússa á heimsmarkaðinum og heimta af þeim langtímasamninga á tiltölulega lágu verði. Þetta mun draga allan kraft úr hagkerfi Rússa. Rússar eiga fjölda góðra verkfræðinga og vísindamanna, þótt spekileki sé úr þeirra röðum líka, en Rússland er enn með sömu böggum hildar og Ráðstjórnarríkin að geta ekki framleitt hátæknivörur. Þessi veikleiki dæmir Rússland meira eða minna úr leik á heimssviðinu við núverandi aðstæður.
""Þrátt fyrir hugaróra Pútins um sjálfsþurftarbúskap og heimavarning í stað innflutts hefur heimaframleiðslan algjörlega stöðvazt og ræður ekki við að koma í stað þeirra viðskipta, sem horfin eru, hvorki með vörur né mannafla; eftir útþurrkun á nýsköpun og framleiðslu á heimavelli hefur verðlag rokið upp úr öllu valdi ásamt kvíða neytenda", segir Yale-hópurinn.
Skýrsluhöfundarnir 5 benda á, að niðurstöður þeirra stangist á við ítrekaðar fullyrðingar um, að refsiaðgerðirnar skaði þjóðirnar í vestri meira en Rússa. Þeir segja:
"Þegar 5. mánuður innrásarstríðs Rússa hefst, hefur sú almenna skoðun birzt, að einhugur þjóða heims um andstöðu gegn Rússum hafi einhvern veginn þróazt í "efnahagslegt þreytustríð, sem sé Vestrinu dýrkeypt" vegna svo nefndrar "seiglu" og jafnvel "hagsældar" í rússneskum þjóðarbúskapi."
"Þetta eru einfaldlega ósannindi", segir í skýrslunni. Hagsmunir Pútins felast í blekkingum út á við um efnahag Rússa. Inn á við bannar forsetinn, að hernaður hans sé kallaður stríð. Þeir, sem gera það, eru fangelsaðir. Notum frelsið til að greina og lýsa hlutunum, eins og þeir eru."
Lygamaskína rússneska stjórnkerfisins segir enga sögu, eins og hún er, ef lygin setur Rússland og Kremlverja í skárra ljós en sannleikurinn. Rússar virðast stela öllu steini léttara í Úkraínu, jafnvel af heimilum fólks, og sögur gengu um, að rússneskir hermenn hefðu selt þýfið á uppboðsmörkuðum í Hvíta-Rússlandi og í Rússlandi, sem auðvitað gefur til kynna meiri velmegun almennings í Úkraínu en í hinum löndunum tveimur.
Alls konar bolaskítur hefur verið borinn á borð af Putin um ástæður innrásarinnar 24.02.2022. Einfaldasta skýringin er sennilega sönn, af því að hún hefur legið í þagnargildi hjá Kremlverjum. Hún er sú, að um hreinræktað nýlendustríð af gamla skólanum sé að ræða. Frétt í brezka tímaritinu Spectator 12.08.2022 styður þetta. Hún var sú, að Rússar hefðu nú með "blóði og járni" svælt undir sig í Úkraínu síðan 24.02.2022 auðlindir á borð við orkugjafa (kol, olíu, gas), málma og steinefni í jörðu að verðmæti trnGBP 10, sem nemur tæplega 7-faldri vergri landsframleiðslu Rússlands árið 2021.
Putin og ólígarkar hans ætla að skítnýta auðlindir nýlendunnar Úkraínu í eigin auðgunarskyni og til að láta Úkraínu borga fyrir kostnað Rússlands af stríðsrekstrinum í Úkraínu. Þá munu þeir beita sömu kúgunartökunum við enduruppbyggingu Úkraínu og Kremlverjar beittu Austur-Evrópuríkin, sem lentu austan Járntjaldsins eftir Heimsstyrjöldina 1939-1945, að láta þjóðina þræla sjálfa fyrir endurreisninni úr rústunum.
Þetta er ástæðan fyrir því, að forseti Úkraínu, Volodimir Zelenski, leggur höfuðáherzlu á að reka Rússaher út úr Úkraínu og að nýta frystar eigur rússneskra ólígarka og rússneska ríkisins á Vesturlöndum til enduruppbyggingarinnar. Vonandi, Evrópu allrar vegna og hins frjálsa heims alls, verður sú niðurstaðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2022 | 11:09
Kjarnorkan mun ganga í endurnýjun lífdaganna
Fyrir villimannlega innrás Rússlands í Úkraínu var það meint loftslagsvá, sem helzt mælti með fjölgun kjarnorkuvera. Þar sem hvorki er fyrir hendi fallorka vatns né jarðgufa, er jarðefnaeldsneyti eini orkugjafinn, sem knúið getur raforkuver með stöðugu afli og umtalsverðu uppsettu afli auk kjarnorkuveranna. Við téða innrás bættust við rök fyrir kjarnorkuverum, þ.e.a.s. Rússar tóku til við að beita jarðefnaeldsneytinu, aðallega jarðgasinu, sem vopni á Evrópulöndin með því að draga úr framboðinu. Þeir, sem gerst þekktu til þankagangsins í Kreml, höfðu fyrir löngu varað við, að þetta mundi gerast, en við slíkum viðvörunum var skellt skollaeyrum, t.d. í Berlín, þar sem gjörsamlega ábyrgðarlaus stefnumörkun fór fram fyrir hönd fjölmennasta ríkis Evrópusambandsins.
Þar með hækkaði orkuverðið upp úr öllu valdi. Þorparar í Kreml kunna að skrúfa algerlega fyrir gasflæðið til Evrópu í haust með voveiflegum afleiðingum fyrir evrópsk heimili og fyrirtæki. Það er engin huggun harmi gegn, að um sjálfskaparvíti er að ræða, sem barnaleg utanríkispólitík Angelu Merkel ber sök á.
Þess vegna hefur öllum samningum vestrænna ríkja við rússnesk fyrirtæki um ný kjarnorkuver verið rift. Allt traust er horfið um fyrirsjáanlega framtíð, og djúpstætt hatur á Rússum hefur myndazt í Úkraínu og gengið í endurnýjun lífdaganna víða í fyrri nýlendum Ráðstjórnarríkjanna í Austur-Evrópu. Það geisar viðskiptastríð á milli Rússlands og Vesturlanda og blóðugt stríð á milli Rússlands og Úkraínu. Hið síðar nefnda stríð mun ákvarða örlög Evrópu á þessari öld og er í raun stríð hugmyndafræðikerfa einræðis og yfirgangs annars vegar og hins vegar lýðræðis og friðsemdar. Líklega sígur sól hins víðfeðma Rússaríkis senn til viðar. "Der Zeitgeist" eða tíðarandinn er ekki hliðhollur nýlendustefnu nú fremur en hann reyndist hliðhollur þjóðernisjafnaðarstefnu fyrir miðja 20. öldina. Hvort tveggja tímaskekkja m.v. þróunarstig tækni og menningar.
Viðskiptalíkan Þýzkalands um tiltölulega ódýra orku úr jarðefnaeldsneyti og mikla markaði fyrir iðnvarning í Rússlandi og Kína hefur lent uppi á skeri, enda var hún tálsýn um friðsamlega sambúð lýðræðisríkja og einræðisríkja með sögulega útþenslutilhneigingu. Þegar Rússland fær ekki lengur aðgang að vestrænum varningi og vestrænni tækni, mun landið verða fyrir hæfileikaleka, sem hófst þegar í febrúar 2022, og hnigna ört þess vegna og vegna margháttaðrar einangrunar. Þetta fjölþjóðaríki siglir inn í innri óstöðugleika, borgarastyrjöld, sem sennilega hefst með uppreisn í Tétsníu á þessu ári. Nokkrir baráttumenn frá Tétseníu hafa barizt með úkraínska hernum, og ætlunin er að nota tækifærið nú, eftir að rússneski herinn hefur orðið fyrir skelli í Úkraínu og er upptekinn við grimmdarverk sín þar gegn óbeyttum borgurum, til að gera uppreisn gegn leppstjórninni í Grozni.
Putin hefur lagt sig í framkróka við að sundra Vesturveldunum. Eitt af fáum handbendum hans við völd á Vesturlöndum um þessar mundir er hinn hægri sinnaði Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Í sögulegu samhengi vekur afstaða hans til samstarfs við Rússa fyrir hönd Ungverja furðu. Hann hefur samþykkt áform um 2 nýja rússneska kjarnakljúfa í Paks verinu í miðju landinu, sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt harðlega á þeim grundvelli, að rússneskt kjarnorkuver muni veita Rússum of mikil áhrif í landinu. Nú þykir vafasamt, að Rosatom muni geta lokið verkefninu vegna viðskiptabanns Vesturveldanna. Stríð Rússa við Úkraínumenn hefur opinberað, hversu vanþróað ríki Rússland er. Ríkið stendur á brauðfótum, en hefur haldið sér á floti með útflutningi á orku og hráefnum. Það sækist eftir yfirráðum í Úkraínu til að mergsjúga Úkraínumenn, sem standa á hærra menningarstigi en steppubúarnir í austri.
Bretar eru nú að endurskoða afstöðu sína til þátttöku Kínverja í kjarnorkuverkefni í Bradwell. Einræðisríkin Rússland og Kína eru nú búin að spila rassinn úr buxunum sem áreiðanlegur viðskiptafélagi. Brot ríkisstjórnar Kína á samningi við Breta um sjálfstæði Hong Kong og móðursýkisleg viðbrögð hennar við heimsókn forseta Fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi, til Taiwan í ágústbyrjun 2022, sýna lögleysuna og yfirganginn, sem einkennir framferði einræðisríkja.
Ein af afleiðingum yfirstandandi orkukreppu er aukinn áhugi á kjarnorku, en Vesturveldin ætla ekki að fara úr öskunni í eldinn og afhenda Rússum, og varla Kínverjum heldur, lykilinn að þessum orkuverum. Kjarnorkuverin geta séð eigendum sínum fyrir mikilli orku með hámarks áreiðanleika. Það er ljóst, að hefði uppbyggingu kjarnorkuvera í Evrópu verið haldið áfram á síðasta áratug og þessum bæði til að draga úr loftmengun, koltvíildi í andrúmsloftinu og kverkataki Rússa á orkukerfinu, þá væri meira gas til ráðstöfunar nú fyrir iðnað og kyndingu húsnæðis í Evrópu. Þetta er ástæða þess, að Finnar, sem reitt hafa sig í talsverðum mæli á rússneskt gas, sem nú er búið að skrúfa fyrir, er umhugað um þá tækni, sem fyrir valinu verður í kjarnorkuverum þeirra.
Frakkar hafa verið leiðandi á sviði kjarnorku í Evrópu og fá meira en helming sinnar raforku frá kjarnorkuverum. Af þessum ástæðum blasir ekki sama hryggðarmyndin við orkukerfinu þar og í Þýzkalandi. Emanuel Macron lýsti því yfir 10. febrúar 2022, að Frakkar mundu senn hefja nýtt uppbyggingarskeið kjarnorkuvera í landi sínu og að nýting sjálfbærra orkugjafa (mikil vatnsorka er virkjuð í Frakklandi) og kjarnorku væri sjálfstæðasta leiðin (most sovereign) til að framleiða raforku.
Bretar hafa líka verið drjúgir í kjarnorkunni. Í apríl 2022 sagði forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, í heimsókn til HPC kjarnorkuversins, sem er á byggingarstigi, að verið væri þáttur í stefnumörkun um orkuöryggi Breta:
"Við getum ekki leyft landi okkar að verða háð rússneskri olíu og gasi",
sagði hann við þetta tækifæri. Til að gefa nasasjón af byrðum almennings á Bretlandi af orkukreppu Evrópu og heimsins alls má nefna, að f.o.m. október 2022 mun meðalfjölskylda á Bretlandi þurfa að greiða 3582 GBP/ár eða um 590 kISK/ár, sem mun hækka um 19 % strax um næstu áramót. Þetta er ófremdarástand, sem eitt og sér dugir til að draga úr allri eftirspurn og keyra samfélagið í samdrátt. Bretlandi er vaxandi ólga á vinnumarkaði, enda er þar í þokkabót spáð 13 % verðbólgu síðustu 12 mánuði í október 2022. Atvinnulífið er almennt ekki í neinum færum til að bæta launþegum þessa lífskjaraskerðingu, því að fyrirtækin eru sömuleiðis mörg hver að sligast undan auknum rekstrarkostnaði og nú fjármagnskostnaði, því að Englandsbanki er tekinn að hækka stýrivexti sína ofan í þetta ástand í tilraun til að veita verðbólgunni viðnám.
Þann 24. febrúar 2022 urðu vatnaskil í sögu 21. aldarinnar, einkum í Evrópu. Markaðir gjörbreyttust og samskipti þjóða líka. Tvípólun blasir við í heimsstjórnmálum. Annars vegar Vesturveldin og önnur lýðræðisríki heims, þar sem mannréttindi og lög og réttur eru lögð til grundvallar stjórnarfarinu, og hins vegar einræðisríkin Rússland og Kína með Rússland á brauðfótum og fáein önnur löglaus einræðisríki á borð við hið forneskjulega klerkaveldi í Íran.
Markaðir Íslendinga í Evrópu fyrir fisk og ál hafa batnað fyrir vikið um hríð a.m.k vegna mun minna framboðs frá einræðisríkjunum vegna viðskiptabanns á Rússa og tollalagningar áls frá Kína og framleiðsluminnkun þar. Yfirvofandi kreppa getur þó sett strik í reikninginn hér líka. Við þessar viðkvæmu aðstæður blasir við, að engin sóknarfæri eru fyrir verkalýðshreyfinguna til að auka kaupmáttinn frá því, sem hann var um síðustu áramót og varnarsigur væri fyrir verkalýðshreyfinguna, ef tækist nokkurn veginn að varðveita þann kaupmátt að öllu samanlögðu á næstu árum. Það yrði einstök staða fyrir Ísland í samanburði við flestar þjóðir heimsins. Svisslendingar eru þó á svipuðu róli. Þar er þó félagsaðild að verkalýðsfélögum miklu lægri en hér. Eru verkalýðsfélögin hérlendis e.t.v. gengin sér til húðar ? Væru launþegar betur settir með staðbundnum samningum við sína vinnuveitendur ? Þessir vinnuveitendur eru í stöðugri samkeppni um starfsfólk.
Staðan á mörkuðunum ofan í mikla peningaprentun á Covid-tímanum (2020-2021) hefur valdið mikilli verðbólgu í heiminum. Þrátt fyrir lítinn sem engan hagvöxt í ESB og Bretlandi, hafa seðlabankarnir hækkað stýrivexti til að kveða verðbólgudrauginn niður. Þetta mun að líkindum keyra Evrópu í djúpa efnahagskreppu. Hún kemur ofan í skuldakreppu eftir Covid og getur valdið því, að ríki á evrusvæðinu fari fram á hengiflug greiðsluþrots vegna hás vaxtaálags á ríkisskuldabréf. Evrópu bíður erfiðari vetur en dæmi eru um, eftir að hungursneyðinni eftir Síðari heimsstyrjöldina linnti. Óhjákvæmilega hlýtur angi þessa grafalvarlega ástands að teygja sig til Íslands. Það er bezt að hafa eggin í körfunni ættuð sem víðast að, en frá bandamönnum þó. Heyrðist einhvers staðar í horni klisjan um, að nú sé Íslendingum brýnast að ganga í Evrópusambandið ? Eru engin takmörk fyrir vitleysunni, sem talin er vera boðleg landsmönnum ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.8.2022 | 16:12
Átök lýðræðis og einræðis og hlutur orkunnar
Með þungvopnaðri innrás víðfeðms vanþróaðs einræðisríkis í lýðræðisríkið Úkraínu, sem var á framfarabraut og kaus að tileinka sér stjórnarhætti og lifnaðarhætti Vesturlanda, enda menningarþjóð að fornu og nýju, hefur loks runnið upp fyrir íbúum Evrópu, hvað til þeirra friðar heyrir í samskiptunum við Rússland. Hinir ósvífnu og miskunnarlausu stjórnendur Rússlands hafa nú fellt grímuna og sýnt umheiminum, að í hópi siðaðra samfélaga eru Kremlverjar óalandi og óferjandi. Það þýðir, að engin leið er að eiga viðskipti við Rússlandi, allra sízt með orku. Kremlverjar eru nú teknir að beita orkuvopninu skefjalaust. Í stuttu máli er gasstreymið frá Síberíu nú bundið við eina lögn, Nordstream 1 undir Eystrasalt og beint til Þýzkalands, og um nokkurra vikna skeið hefur streymið um hana aðeins numið um fimmtungi afkastagetu hennar.
Þetta er ekki nægilegt til að safna nægum birgðum fyrir veturinn, svo að þá er neyðarástand fyrirsjáanlegt. Evrópusambandið hefur samþykkt 15 % minnkun notkunar fyrirtækja og heimila m.v. árstíma. Það mun draga úr framleiðslugetu landanna og magna "stagflation" eða stöðnunarverðbólgu, sem líka getur verið samdráttur hagkerfisins ásamt mikilli verðbólgu og verður nú hlutskipti ESB-ríkjanna um sinn. Heimilin munu lækka óskhitastig vistarveranna, en ekki hefur heyrzt um, að hraðatakmörkun verði sett á "Autobahnen", enda er draumur í dós að þeysa á drekum þýzkra bílasmiðja á tæplega 200 km/klst. Orkukreppan mun þó kalla á breyttan lífsstíl.
Rússar hafa borið við bilun í hverfli í Nordstream 1 lögninni. Siemens sendi hann í viðgerð í Kanada, en Kanadastjórn neitaði um hríð um leyfi til að senda hann þaðan og til Rússlands vegna viðskiptabanns, sem Kanada og Þýzkaland eru aðilar að. Eftir um vikustapp fengur Þjóðverjar þó Kanadamenn til að sniðganga bannið og senda sér hverfilinn vegna orkuneyðar sinnar. Þetta er orðið pólitískt deilumál í Kanada.
Nú ber Putin við ýmsum pappírslegum formsatriðum og neitar að taka við hverflinum vegna viðskiptabannsins. Það er engu orði treystandi frá þessum Putin og útilokað að gera við hann samning, sem heldur. Hann er tækifærissinni, ómerkingur og lygalaupur. Hann notar gasið í kúgunarskyni gagnvart Þjóðverjum o.fl. og reynir að hrekja þá til að opna Nordstream 2. Þá geti þeir fengið eins mikið og þeir vilji, því að sú lögn er spáný og tilbúin í rekstur. Að vanda er seigla í Þjóðverjum, og fremur munu þeir skjálfa úr kulda í húsum sínum í vetur en láta undan þessum fyrirlitlegu kúgurum sínum í Moskvu.
Vandi Þjóðverja o.fl. er þó í sögulegu ljósi eitt allsherjar sjálfskaparvíti. Enginn bað þá um að styrkja rússneska björninn með orkukaupum af honum, og Þjóðverjar voru meira að segja ítrekað varaðir við af Bandaríkjamönnum og ESB-þjóðum, sem áður voru austan járntjalds, að kaupa svo mikla orku af Rússum, t.d. 55 % af gasþörf sinni, að þeir yrðu illilega háðir þessum viðskiptum. Þeir, sem mesta reynslu hafa af Rússum, óttast þá og vantreysta þeim mest. Þjóðverjar, sem eru allra manna athugulastir og vilja hafa vaðið fyrir neðan sig, létu meira að segja hjá líða að eiga undankomuleið vísa með því að byggja móttökustöðvar fyrir LNG - fljótandi, kælt jarðgas, í höfnum sínum. Þetta er ekki einleikið. Stjórnmálaforysta þeirra brást þeim gersamlega, vann ekki heimavinnuna sína, nýtti sér ekki leyniþjónustuupplýsingar, Engilsaxar bjuggu yfir. Það er grunnt á rígnum.
Þá hafa Þjóðverjar fest gríðarlegt fé í raforkuvinnslu, sem er afkastalítil og óviss í stað þess að efla það eina, sem verulega munar um og er kolefnisfrítt, þ.e.a.s. kjarnorkuna. Útilokunarstefnu var beitt gagnvart kjarnorkunni á þeim grundvelli, að hún væri of hættuleg. Það er falsáróður, eins og sést með því að virða fyrir sér yfirlit um fjölda dauðsfalla per TWh af framleiddri raforku 1990-2014:
Orkugjafi Dauðsföll per TWh
Kol-----------------------25
Olía----------------------18
Lífmassi-------------------4
Jarðgas--------------------3
Vatnsföll------------------2*
Vindorka-------------------0,04**
Kjarnorka------------------0,03***
Sólargeislar---------------0,02****
*Meðtalin er Banqiao stíflubilun 1975
**Raforka úr vindorku nemur aðeins 7 % af heild
***Meðtalið er Chernobyl-slysið 1986
****Raforka úr sólarhlöðum nemur aðeins 4 % af heild
Þetta yfirlit sýnir, að kjarnorkuver hafa verið álíka hættuleg og vindmyllur og sólarhlöður í dauðsföllum talið, og þau verða sífellt öruggari í rekstri. Hins vegar er Akkilesarhæll kjarnorkuveranna geislavirki úrgangurinn, sem ekki hefur tekizt að útrýma enn, þótt með endurnýtingu hafi hann minnkað stórlega á hverja TWh talið. Ógnin er óviss, því að reynt er að búa traustlega um úrganginn til geymslu.
Að sumu leyti svipar þessari framtíðarógn til ógnarinnar, sem lífríki jarðarinnar stafar af meintri hlýnun andrúmslofts. Umfang þessarar hlýnunar er umdeilt, hvað sem loftslagstrúboðinu líður, en óumdeilt er, að af mannavöldum sé koltvíildi, CO2, aðaláhrifavaldurinn, og út frá þeim áhrifum er koltvíildisjafngildið reiknað út. Í neyð sinni eru Þjóðverjar nú að gangsetja kolaorkuver, sem búið var að loka, en áhrifin af hverri framleiddri orkueiningu í kolaveri eru 200 sinnum meiri á andrúmsloftið en í kjarnorkuveri, sem þó ekki er hægt að grípa til núna vegna fáheyrðs einstrengingsháttar Angelu Merkel í kjölfar Fukushima-slyssins í Japan 2011.
Í neðangreindu yfirliti getur að líta mynduð gróðurhúsagös í tonnum af koltvíildisjafngildum á hverja GWh framleiddrar raforku:
Orkugjafi t CO2/GWh
Kol---------------------------810
Olía--------------------------720
Jarðgas-----------------------490
Lífmassi-------------------80-210*
Vatsföll-----------------------40
Sólargeislar--------------------5
Kjarnorka-----------------------4
Vindmyllur----------------------4
*Háð nýtni katlanna í verinu
Í þessu yfirliti koma fram sterk meðmæli með kjarnorkuverum m.v. þá miklu áherzlu sem vestræn ríki leggja á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda án þess að draga úr raforkunotkun. Hún mun óhjákvæmilega aukast mikið í orkuskiptunum, hvað sem heimóttarlegum áróðri Landverndar á Íslandi líður, sem nálgast heimsmet í sérvizku. Vindrellur og sólarhlöður munu aldrei geta gegnt veigamiklu hlutverki í orkuskiptum Evrópu. Þar verður að virkja kjarnorkuna.
Nýjasta kjarnorkuverið á Vesturlöndum er nú loksins að taka á sig mynd. Þegar það verður tilbúið, mun það geta sent 3,2 GW inn á raforkukerfi Bretlands og annað um 7 % af orkuþörf landsins (þetta jafngildir 640 vindmyllum, en orkugetan væri aðeins 1/3 af orkugetu kjarnorkuversins). Á þeim 4 árum, sem kjarnorkuverið Hinkley Point C (HPC) við Bristolflóa á vesturströnd Englands hefur verið í smíðum, hefur það stöðugt verið notað sem dæmi um vandann, sem að kjarnorkuiðnaðinum stafar, en þá gleymist neikvæður þáttur eftirlitsiðnaðarins, sem stöðugt hleður utan á kröfugerð sína um varabúnað, öryggiseftirlit og neyðarkerfi. Þetta olli því, að raforka frá nýjum kjarnorkuverum átti erfitt með keppa við kola- og gasorkuver, nema á þau væru lögð há koltvíildisgjöld. Nú eiga þau erfitt með samkeppnina við vindorku og sólarorku, enda engin auðlindagjöld innheimt af þeim.
Þegar brezka ríkisstjórnin undirskrifaði samninginn um HPC við franska eigandann EDF árið 2013, þá átti orkuverðið frá verinu að verða 92 GBP/MWh, þá 145 USD/MWh. Þá kostaði orkan frá vindorkuveri undan ströndu 125 GBP/MWh (36 % meira en frá HPC). 9 árum seinna er HPC 2 árum á eftir áætlun og mrdGBP 10 yfir fjárfestingaráætlun, sem mun hækka orkuverðið frá HPC, en vindmylluverið á hafi úti framleiðir fyrir aðeins 50 GBP/MWh, nú 60 USD/MWh (60 % lækkun). (Þetta skýrir áhuga fjárfesta á vindorkuverum úti fyrir SA-landi, en þá þarf aflsæstreng til Bretlands, sem hækkar raforkukostnaðinn. Orkuverð frá sólarhlöðum hefur fallið jafnvel enn meira).
Andstæðingum kjarnorkuvera vegna meintrar hættu, sem af þeim stafar, getur nú bætzt liðsauki þeirra, sem telja þau of dýr. EDF á nú í fjárhagserfiðleikum, eins og mörg önnur orkufyrirtæki Evrópu með langtímasamninga við viðskiptavini. Önnur fyrirtæki með kjarnorkuver sömu gerðar í smíðum og HPC, þ.e. s.k. EPR-kjarnorkuver, eru líka á eftir áætlun með sín verkefni.
EDF á í rekstrarerfiðleikum með sín kjarnorkuver frá 2021 vegna tæringar og hefur orðið að loka þeim vegna viðhalds og viðgerða og kaupa á meðan rándýra raforku frá gasorkuverum. Í marz 2022 lækkaði ágóði EDF um mrdEUR 11 af þessum sökum. Annað högg upp á 8,4 mrdEUR/mán kom frá frönsku ríkisstjórninni, þegar hún fyrirskipaði ríkisorkufyrirtækinu EDF að selja endurseljendum raforkuna á verði undir gildandi heildsöluverði til að verja neytendur í núverandi orkukreppu.
Þrátt fyrir allt kemur HPC vel út í samanburðinum við önnur vestræn kjarnorkuver í byggingu. Hafizt var handa við EPR-verin í Olkiluotu í Finnlandi og Flamanville C í Frakklandi árin 2005 og 2007 (í sömu röð). Bæði eru enn án tekna af sölu raforku inn á stofnkerfið. Hið sama er uppi á teninginum með Vogtle-kjarnorkuverið í Bandaríkjunum, sem er hannað með tveimur Westinghouse AP1000 kjarnakljúfum, sem hafizt var handa við 2009. Árið 2017 hafði verkefnið leitt til gjaldþrots Westingouse. Öll 3 verin eru með uppfærðar kostnaðaráætlanir, sem eru 2-3 faldar upphaflegu áætlanirnar og um áratug á eftir tímaáætlun.
Það er mjög alvarlegt mál fyrir Vesturlönd, sem krefst tafarlausrar úrlausnar með tækniþróun, að fara verður til Rússlands og Kína til að finna nýleg kjarnorkuversverkefni, sem leidd hafa verið til lykta nokkurn veginn í samræmi við áætlanir, en þá fylgja ekki sögunni ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í öryggisskyni að kröfu eftirlitsaðila, en þær eru höfuðástæða þess, hversu mjög kjarnorkuversverkefni þessarar aldar á Vesturlöndum hafa gengið á afturfótunum. Á árunum 2008-2021 hóf og lauk ríkisfyrirtækið Rosatom framkvæmdum við 5 kjarnorkuver með 10 kjarnakljúfum í Rússlandi. Kínverjar hafa reist kjarnorkuver með ýmissi tækni, þ.á.m. AP1000 og EPR. Kínverska "General Nuclear Power Group" hóf framkvæmdir við sína 2 EPR kjarnakljúfa í Taishan í Suður-Kína eftir að framkvæmdir voru hafnar í Olkiluotu og Flamanville, en lauk sínu verkefni árið 2019. Þetta hefur leitt til þess, að vestræn lönd, sem vilja fá ný kjarnorkuver hjá sér til að anna raforkuþörfinni, hafa leitað til fyrirtækja utan Vesturlanda. Í ársbyrjun 2022 voru þannig uppi áform um, að Rosatom reisti 4 kjarnakljúfa innan Evrópusambandsins, sem yrðu 7 % af þeim 70 GW, sem fyrirtækið hugðist setja upp utan landamæra Rússlands. Í febrúar 2022 samþykkti brezki kjarnorkueftirlitsaðilinn Hualong 1, kínverska kjarnorkutækni, til uppsetningar í Bradwell í Essex.
Þá skall Ukraínustríðið á. 15. febrúar 2022, þegar mikill liðssafnaður rússneskra hersveita átti sér stað við landamæri Rússlands og Hvíta-Rússlands að Úkraínu, neitaði Búlgaría Rússum alfarið um alla þátttöku í kjarnorkuveri, sem á að fara að reisa við borgina Belene í norðurhluta landsins. Efnahagsráðherra Finnlands, Mika Lintila, hefur ítrekað yfirlýsingu sína um, að það verði "algerlega ómögulegt" að veita ráðgerðu rússnesku kjarnorkuversverkefni í Hanhikivi leyfi til að halda áfram. Í marz 2022 útilokaði Tékkland rússneska kjarnakljúfa úr útboði, þar sem Rússarnir höfðu áður verið taldir líklegastir til að verða hlutskarpastir.
Það er líklegt, að rússneskum kjarnorkuiðnaði muni hnigna vegna viðskiptabanns Vesturveldanna á Rússland, en Rússar hafa keypt ýmiss konar tæknibúnað og jafnvel tækni af Vesturlöndum fyrir sinn iðnað. Vitað er, að þetta er að eiga sér stað núna við orkulindir Síberíu, þar sem olía og gas er unnið við erfiðar aðstæður. Án vestrænnar tækni virðast Rússar ekki ráða við að halda vinnslunni þar í horfinu, en eins og kunnugt er, hefur fjöldi vestrænna fyrirtækja með starfsemi í Rússlandi horfið á braut, þar sem allt traust í garð Rússa á sviði viðskipta hefur horfið í einni svipan vegna villimannlegs hernaðar þeirra gegn fullvalda nágrannaþjóð í vestri.
Ekki verður undan því vikizt hér í lokin að minnast á ótrúlegt framferði rússneska hersins gagnvart kjarnorkuverum í Úkraínu, en þeir hafa lagt á það áherzlu að hertaka þau. Hafa þeir ekki skirrzt við að beina skothríð að þessum verum og möstrum háspennulína frá þeim. Á fyrstu dögum stríðsins tóku þeir kjarnorkuver í norðurhluta landsins og ollu tjóni á athafnasvæði versins. Sem betur fór mun hernaðarbrölt Rússa ekki hafa raskað rekstraröryggi versins alvarlega í það sinn. Úkraínskir starfsmenn versins héldu því gangandi, og Alþjóða kjarnorkumálastofnunin gerði úttekt á verinu.
Öðru máli gegnir um stærsta kjarnorkuver Evrópu, sem er í suðurhluta Úkraínu. Það hafa Rússar hertekið og valdið tjóni á því og flutningslínu frá því með eldflaugaárásum, svo að taka hefur orðið einn kjarnaljúfinn úr rekstri. Auðvitað reyna Rússar að ljúga þessum skemmdum upp á Úkraínumenn, en af hverju flýðu þá rússneskir starfsmenn úr verinu skömmu áður en árásin var gerð ?
Rússneski herinn hefur gert athafnasvæði þessa kjarnorkuvers að eldflaugaskotstöð sinni og hergagnabirgðageymslu. Lengra verður varla komizt í undirmálshegðun og hreinni mannfyrirlitningu á stríðstímum. Það er alveg ljóst, að Rússlandi er stjórnað af siðblindingjum, af bandittum, sem einskis svífast. Það er alveg makalaust, hversu djúpt Rússland er sokkið í fen mannvonnsku og illmennsku. Heyrzt hefur, að jafnvel rétttrúnaðarkirkjunni rússnesku, sem kallar ekki allt ömmu sína og lýsti í upphafi stríð Putins sem heilögu stríði til að sameina rússnesku og úkraínsku kirkjuna undir patríarkanum af Moskvu, sé nú nóg boðið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.8.2022 | 16:44
Úr sér gengið efnahagslíkan
Frá því að Járntjaldið féll með hruni kommúnismans í Austur-Evrópu 1989 og Endursameiningu Þýzkalands (die Wiedervereinigung Deutschlands) í kjölfarið, hefur efnahagskerfi Þýzkalands og þar með lifibrauð Þjóðverja verið reist á fölskum forsendum í veigamiklum atriðum. Undirstöður nokkurra þessara forsendna hafa nú brostið, og aðrar forsendur efnahagslegrar velgengni Þjóðverja og velmegunar eru í uppnámi. Þýzka valdastéttin hefur brugðizt þjóðinni, hervæðing er hafin á ný og tími þjóðfélagsóróa, vonandi ekki óreiðu, gæti verið framundan af þessum sökum. Það sést móta fyrir skepnunni nú þegar, því að verkfallshótanir hljóma nú um landið í þeim mæli, sem íbúar Sambandslýðveldsins hafa aldrei heyrt áður. Það er til vitnis um gjá þjóðfélagslegs vantrausts, sem ekki hefur sézt síðan á dögum Weimar-lýðveldisins á þýzkri foldu. Samhljómur hefur verið boðorð dagsins frá stofnun Sambandslýðveldisins, þá Vestur-Þýzkalands, 1949.
Þjóðverjum var sagt, að þeir gætu treyst á ótakmarkað, ódýrt jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi og í Rússlandi og í Kína væri óþrjótandi markaður fyrir þýzka iðnaðarframleiðslu. Pólitískt og viðskiptalegt stríð Þýzkalands og allra Vesturlanda við Rússland skall á með blóðugri styrjöld Rússa við Úkraínumenn 24. febrúar 2022. Rússar hafa beitt orkuflæðinu til Evrópu frá Síberíu sem vopni gegn Evrópumönnum í þessari baráttu á milli einræðis- og lýðræðisafla og hafa t.d. skert gasflæðið um Nordstream 1 um 80 %. Afleiðingin hefur orðið u.þ.b. tíföldun orkuverðs í Evrópu og fyrirsjáanlegur orkuskortur í vetur, þegar vetrarhörkur taka að herja á Evrópu. Þá getur komið til orkuskömmtunar, sem ekki hefur gerzt í hálfa öld þar eða síðan í fyrstu orkukreppunni á 8. áratugi 20. aldarinnar, þegar Arabar drógu verulega úr olíuframboði til Vesturlanda.
Þjóðverjar standa nú frammi fyrir endalokum tímabils, þegar þeir gátu knúið hagkerfi sitt áfram með ódýru jarðefnaeldsneyti, og þeir eru tómhentir í þessari viðureign, því að þeir hafa lokað kjarnorkuverum sínum, öllum nema þremur, og engin ný eru í byggingu. Ódýrt jarðefnaeldsneyti er ekki og verður ekki á boðstólum, og meginmarkaðir þeirra fyrir iðnaðarvörur eru nú meira eða minna lokaðir. Kalt stríð er skollið á við Kína. Mynt Evrópusambandsins, evran, stendur illa, svo að ekki sé meira sagt, og verðbólgan í Þýzkalandi slær öll met frá upphafi Deutsche Mark. Annaðhvort gliðnar þetta myntbandalag eða stofnað verður Sambandsríki Evrópu með einum ríkisfjármálum fyrir öll aðildarríkin, sbr BNA. Miklir atburðir eru í vændum.
Það eru fleiri í vandræðum, en þeir eru þó ekki bundnir á klafa evrunnar. Mjög hefur dregið úr gasstreymi úr virkjuðum lindum Norðursjávar til Bretlands, og hátt orkuverð herjar á Breta og raforkuskortur liggur í loftinu, sumpart vegna orkuskiptanna, sem eru í fullum gangi þar. Vikuna 18.-24. júlí 2022 komst London naumlega hjá straumleysi með því að borga Belgíu 9.724,54 GBP/MWh, sem mun vera 5000 % yfir venjulegu verði. Þessi litla saga gefur til kynna í hvers konar ógöngur stórar Evrópuþjóðir hafa ratað með orkumál sín. Nú verður að stokka upp efnahagslíkan og orkukerfi margra Evrópuþjóða. Þær munu örugglega draga mjög úr hlutdeild jarðefnaeldsneytis í raforkuvinnslu sinni, og þá verður að koma til skjalanna stöðugur orkugjafi. Lausn í sjónmáli eru stöðluð og fjöldaframleidd kjarnorkuver í verksmiðju, u.þ.b. 300 MW, sem flutt eru tilbúin til tengingar á byggingarstað. Heildarvinnustundum per MW má fækka til muna með þessu móti, niður í u.þ.b. 6 % við ýmsa verkþætti, og þannig má gera kjarnorkuna mun ódýrari en áður, en hár byggingarkostnaður hefur verið akkilesarhæll kjarnorkuvera um hríð.
Morgunblaðið gerði alvarlega stöðu Evrópu, m.a. orkumálanna þar, að umfjöllunarefni í forystugrein 21. júlí 2022 undir fyrirsögninni:
"Ótrúleg afturför".
Þar sagði m.a.:
"Á örfáum árum hefur staða Evrópu gjörbreytzt. Fæstir gerðu sér grein fyrir því, að öflugasta ríki álfunnar hefði misst öll tök á orkumálum eigin þjóðar og sé nú háð duttlungum þeirra, sem sízt skyldi. Framleiðslugeta þjóðarinnar hafði einnig misst að hluta styrk og yfirburði og er skyndilega háð risaveldinu Kína, sem fer sínu fram, hvað sem lýðræðislegum kröfum líður. Núverandi kanzlari Þýzkalands beitti sér af öllu afli til að gera Hamborg að þjónustuhöfn Kína á meginlandinu og tryggja, að stórveldið hefði þar ríkulegt eignarhald. Fyrirrennari hans í embætti sat á hljóðskrafi við sænska fermingarstúlku um, að þjóðirnar yrðu að kúvenda í meginmálum vegna heimshlýnunar, sem barnið var ein helzta heimild vestrænna leiðtoga um ! Þjóðverjar yrðu að láta sér kínverskar sólarsellur duga og vindmyllur, niðurgreiddar af skattborgurum, með sínum skaða á náttúrulegri umhverfismynd landsins. Og, á meðan að það gæti loks látið slíka orku duga, sem aldrei er raunhæft, þá yrðu gerðir risasamningar við Rússa, sem gerðu Þýzkaland að peði í risalúku þessa ríkis."
Þarna er reifaður sá stjórnmálalegi barnaskapur, sem varð þess valdandi, að efnahagslíf Þýzkalands, eimreiðar Innri markaðar Evrópusambandsins, stendur nú á brauðfótum. Stjórnmálaleg blinda á raunveruleika stjórnmálanna í alræðisríkjum á borð við Rússland og Kína, á ekkert skylt við "Realpolitik", sem Willy Brandt kallaði "Ostpolitik" sína og hefur sennilega ekki gert annað en að styrkja alræðisöflin í sessi og sennilega að sannfæra einræðisherrana um, að Vesturlönd væru að verða svo "dekadent" - úrkynjuð, að þau hefðu ekki burði til að verja sig. Sennilega hefur einörð stefna leikarans Ronalds Reagans, 40. forseta Bandaríkjanna 1981-1989, verið drýgsta framlag Vesturlanda til að fella "ríki hins illa", sem hann réttilega nefndi Ráðstjórnarríkin. Ekki er "ríki hins illa" síður réttnefni á ríkið, þar sem Vladimir Putin er æðsti koppur í búri sambandsríkis, sem er rotið ofan í rót, og hefur nú sigað agalausum her villimanna á saklausa þjóð, sem nú berst fyrir lífi sínu. Úrkynjun Vesturlanda nú kemur helzt fram í því, að beina ekki öllum öflugustu hefðbundnu hergögnum sínum í hendur úkraínska hersins, sem einn heldur nú uppi merki Vesturlanda í harðvítugri baráttu við villimenn af sléttum Rússlands. Það er eftirtektarvert, að sá stjórnmálamaður, sem nú heldur merki frelsishugsjóna Vesturlanda hæst á lofti og er í raun annar Winston Churchill (1874-1965) í sögunni, er líka leikari að atvinnu, Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2022 | 09:40
Rússland er hryðjuverkaríki
Mafían, sem nú stjórnar Rússlandi, er gengin af vitinu og er þegar búin að senda Sambandríkið Rússland á ruslahauga sögunnar. Hún hefur brotið allar brýr að baki sér með brotum á öllum reglum, sem gilda um samskipti ríkja. Þessi Kremlarmafía lýsti ekki yfir stríði gegn Úkraínu á innrásardaginn, heldur þvaðraði um "sérstaka hernaðaraðgerð", sem hafði það markmið að setja af lýðræðislega myndaða ríkisstjórn Úkraínu í Kænugarði og að setja til valda þar strengjabrúðu gjörspilltrar mafíunnar, sem ekki þyrfti að sækja vald sitt til fólksins, heldur til forseta Rússlands. Vladimir Putin er síðan í stríði við stjórnkerfi lýðræðis, sem hann óttast, og lýðræðisríki heimsins með NATO-ríkin í broddi fylkingar.
Þessi rússneska mafía heldur úti umfangsmiklum lygaáróðri, meinar aldrei, það sem hún segir, og svíkur alla samninga, eins og loftárásir á höfnina í Odessa innan sólarhrings frá undirritun samninga um að heimila og hefja kornútflutning frá þessari miklu hafnarborg við Svartahafið eru nýlegt dæmi um. Annað nýlegt fyrirlitlegt dæmi var að sprengja í loft um fangelsi fyrir úkraínska stríðsfanga í Kherson-héraði, þar sem pyntingar höfðu verið stundaðar, og kenna síðan Úkraínumönnum um að hafa skotið HIMARS-skeyti á fangelsið.
Þessi glæpsamlegu yfirvöld Rússlands eru óalandi og óferjandi í samfélagi þjóðanna, gjörsamlega siðblind, eins og þau hafa sýnt með löðurmannlegri framgöngu rússneska hersins í Úkraínu gegn almennum borgurum, að þau eru. Þá hefur mafían orðið uppvís af að brjóta Genfarsáttmálann um meðferð stríðsfanga.
Ýmsum lygum hefur verið reynt að beita í vitfirringslegum tilraunum til að réttlæta óverjandi innrás Rússahers í Úkraínu 24. febrúar 2022. Einna afkáralegust er kenning Putins um, að bolsévikar hafi skapað úkraínska ríkið í kjölfar byltingarinnar í Rússlandi 1917, en sögulega séð sé Úkraína hluti af Rússlandi og úkraínska þjóðin ekki til. Þetta er allt saman alrangt óráðshjal, enda er Kænugarðsríkið eldra en rússneska ríkið og var lengst af sjálfstætt á miðöldum og á hærra menningarstigi en hið rússneska, þótt Kænugarðskóngur hafi oft átt í vök að verjast, t.d. á uppgangstímum pólska og litháíska ríkisins. Þjóðernistilfinning Úkraínumanna er hrein og fölkskvalaus, eins og þeir hafa sannað með framgöngu sinni við varnir landsins, en á ekkert skylt við nazisma. Mafían í Kreml heldur þeim áróðri að almenningi í Rússlandi, að rússneski herinn sé að uppræta nazista í Úkraínu. Þar sannast enn og aftur hið fornkveðna, að margur heldur mig sig.
Í innantómum gorgeir sínum héldu valdhafar Rússlands, að þeir gætu valtað yfir Úkraínumenn og að þeim hefði með undirróðri flugumanna sinna í Úkraínu tekizt að skapa andrúmsloft uppgjafar og að rússneska hernum yrði jafnvel fagnað með blómum. Hvernig sem vinfengi Úkraínumanna við Rússa kann að hafa verið háttað fyrir 24.02.2022, er alveg öruggt núna, að yfirgnæfandi meirihluti Úkraínumanna hatar Rússa eins og pestina, hugsar þeim þegjandi þörfina og vill allt til vinna núna að reka þá til síns heima og ganga í raðir lýðræðisríkja Evrópu með formlegum hætti. Er vonandi, að Evrópusambandinu beri gæfa til að taka Úkraínu í sínar raðir og að NATO veiti landinu fullnægjandi öryggistryggingu gegn viðvarandi ógn frá vænisjúkum nágranna í austri.
Víðtæk skoðanakönnun í Úkraínu, sem brezka tímaritið "Spectator" birti 29.07.2022, sýndi, að 84 % Úkraínumanna eru andvígir því að láta nokkur landsvæði af hendi við Rússa fyrir frið af því landi, sem var innan landamæra Úkraínu 2014 áður en forseti Rússlands hóf landvinningastríð sín gegn Úkraínu undir fjarstæðukenndum ásökunum sínum um nazistíska eiturlyfjaþræla við stjórnvölinn í Kænugarði, sem ofsæktu rússneskumælandi fólk í Úkraínu. Ósvífni og fáránleiki þessara ásakana endurspeglast í þeirri staðreynd, að stjórnvöld Úkraínu eru lýðræðislega kjörin og forseti landsins, Volodimir Zelenski, er Gyðingaættar með rússnesku að móðurmáli sínu (ættaður úr austurhéruðunum), en tók sér úkraínsku sem aðalmál á innrásardeginum, 24.02.2022.
Vladimir Putin hefur breytt Rússlandi í fasistaríki, og rússneski herinn berst undir merki hálfs hakakross. Vesturlöndum stendur mikil ógn af þeirri stöðu, sem upp er komin í Austur-Evrópu. Kremlverjar hyggjast uppræta Úkraínu sem ríki, og draumurinn er að stofna samslavneskt ríki í Evrópu undir stjórn Kremlar. Einræðisstjórninni í Kreml stafaði pólitísk ógn af lýðræðisþróuninni í Úkraínu og þoldi ekki, að ríkisstjórnin í Kænugarði sneri við Rússum baki og horfði alfarið til vesturs um samstarf á stjórnmála- og viðskiptasviði. Það kom svo af sjálfu sér, eftir að landvinningastríð Rússa gegn Úkraínumönnum hófst 2014, að Úkraínumenn sæktust eftir samstarfi við og stuðningi Vesturlanda á hernaðarsviðinu, enda voru þeir rændir hluta af landi sínu. Hættan fyrir Rússland af NATO-aðild Úkraínu var hins vegar aldrei annað en skálkaskjól og ein af útúrborulegum "réttlætingartilraunum" á ínnrásinni 24.02.2022.
Ef Rússar meintu þetta, hvers vegna réðust þeir þá ekki á Finnland, þegar Finnar sóttu um aðild að NATO ? Þeim hefði reyndar ekki orðið kápan úr því klæðinu, því að finnski herinn er tilbúinn að taka á móti bjarndýrinu, og finnski herinn er ofjarl Rússahers m.v. lélega herstjórn hans í Úkraínu, lítt þróuð hergögn og lélegan anda innan rússneska hersins. Vladimir Putin dreymir um að sýna umheiminum það, sem hann kallar "mikilleik Rússlands", en honum hefur þvert á móti tekizt að sýna umheiminum, að rússneskir leiðtogar eru lygalaupar og grobbhænsni, og Rússland er í ruslflokki á öllum sviðum. Hvernig dettur þessu hyski í hug að leggja undir sig önnur lönd ? Það er eitthvað mongólskt í blóðinu, sem þar býr að baki.
Úkraínuher hefur nú hafið gagnsókn gegn innrásarliðinu í suðurhluta landsins og stefnir á að ná Kherson-héraði, en þar mun Katrín, mikla, 1729-1796, keisaraynja Rússlands frá Stettin í Pommern/Prússlandi, hafa unnið nokkra hernaðarsigra á sinni tíð, og í anda alræmdrar fortíðarþráar núverandi alvalds Rússlands, ætlar hann að innlima þetta svæði í Rússland. Boðuð er málamynda atkvæðagreiðsla um sameiningu við Rússland í september 2022, og hundruðir kennara hafa verið sendir frá Rússlandi til að heilaþvo blessuð börnin. Er það í samræmi við þá argvítugu Rússavæðingu, sem yfirvöld á hernámssvæðunum stunda. Hins vegar er starfandi vopnuð andspyrnuhreyfing í Kherson-héraðinu, sem taka mun höndum saman við úkraínska herinn um að reka óþverrana af höndum sér.
Andspyrnuhreyfingu virðist vera að vaxa fiskur um hrygg í Rússlandi sjálfu, þrátt fyrir ógnarstjórn Kremlar, því að eldar hafa brotizt út víðs vegar um Rússland í skráningarstöðvum hersins, í verksmiðjum - jafnvel í Moskvu, í vopnageymslum og í a.m.k. einni jarðgasvinnslustöð í Síberíu.
Ljóst er, að þungavopn frá Vesturlöndum geta snúið gangi stríðsins við Úkraínumönnum í vil, ef þau verða afhent þeim í þeim mæli, sem Úkraínumenn hafa farið fram á. HIMARS-fjölflauga, hreyfanlegi nákvæmnisskotpallurinn með 80 km drægni frá BNA er dæmi um þetta. Úkraínumönnum gætu staðið til boða 10.000 flaugar í þessa skotpalla, og þær mundu fara langt með að ganga frá getu rússneska hersins til aðgerða utan landamæra Rússlands. Úkraínumönnum hefur tekizt að eyðilegja birgðageymslur rússneska hersins og skemma aðdráttarleiðir að Kherson-borg með 8 slíkum skotkerfum. Til viðbótar eru 8 áleiðinni, en úkraínski herinn þarf a.m.k. fimmföldun núverandi fjölda skotpalla til að reka óværuna af höndum sér. Danir, Bretar og Eystrasaltsríkin hafa afhent flaugar á borð við Harpoon, sem grandað geta skipum, og hafa Úkraínumenn nú þegar valdið miklu tjóni á Svartahafsflota Rússa og tekið aftur Snákaeyju. Þjóðverjar hafa afhent Gephard loftvarnarkerfi og eru að undirbúa afhendingu á öflugasta skriðdreka nútímans, Leopard 2, en hafa verið sakaðir um seinagang og að vera tvíátta. Það er ekki nóg fyrir hinn kratíska kanzlara í Berlín að lýsa yfir í Reichstag, að vendipunktur hafi orðið í utanríkisstefnu Sambandsríkisins Þýzkalands. Verkin segja meira en nokkur orð.
Vesturlandamenn verða að gera sér grein fyrir því, að alvaldur Rússlands vill lýðræðislegt stjórnkerfi þeirra feigt og að hann er haldinn landvinningaórum um útþenslu Rússlands til vesturs með vísun til landvinninga rússneska keisaradæmisins og Ráðstjórnarríkjanna. Vesturveldin standa nú þegar í stríði við Rússland á efnahagssviðinu og á hernaðarsviðinu með milligöngu Úkraínumanna, sem bera hita og þunga blóðfórnanna í þágu fullveldis lands síns. Hættan er sú, að Vesturlönd geri sér ekki grein fyrir því í tæka tíð, að þau hafa ekki efni á því, að Úkraínumenn tapi þessu stríði við kvalara sína um aldaraðir. Hergagnaframleiðslu verður að setja í gang strax, eins og Vesturlöndum hafi verið sagt stríð á hendur. Ekki dugir að reiða sig á, að birgðirnar dugi. Þær gera það fyrirsjáanlega ekki, allra sízt birgðir Evrópuríkjanna.
Mest mæðir á Bandaríkjamönnum, og þeir hafa látið í té margháttaða verðmæta aðstoð. Stefnumörkun þeirra var látin í ljós, þegar utanríkisráðherrann, Antony Blinken, og varnarmálaráðherrann, Lloyd Austin, sneru til baka úr snöggri ferð til Kænugarðs 24. apríl 2022. Austin sagði þá:
"Úkraínumenn eru staðráðnir í að bera sigur úr býtum. Við erum staðráðnir í að hjálpa þeim til þess. Og það sem meira er: Við viljum sjá svo stóra burst dregna úr nefi Rússa, að þeir verði ekki færir um að endurtaka það, sem innrásin í Úkraínu felur í sér."
Nú er eftir að sjá, hvort þessum orðum Bandaríkjamannsins fylgja efndir. Mikið ríður á því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.7.2022 | 11:31
Eimreiðar atvinnulífsins
Nýlega hækkaði seðlabanki evrunnar, ECB, stýrivexti sína úr -0,5 % í 0,0, og var aðgerðin sögð til að hamla verðbólgu, sem nú nemur 8,6 % á evrusvæðinu að meðaltali, en er þar á bilinu 6,5 % - 22,0 %. Verðbólgan í Þýzkalandi er 8,2 %, en á þann samræmda mælikvarða, sem þarna liggur til grundvallar, er hún 5,4 % á Íslandi og þar með næstlægst í Evrópu. Ekki kemur á óvart, að verðbólgan skuli vera lægst í Sviss, 3,2 %, enda er CHF, svissneski frankinn, fyrir nokkrum vikum orðinn verðmætari en EUR, evran. Svissneski seðlabankinn barðist lengi vel við að halda verðgildi frankans undir verðgildi evrunnar, en nú horfir satt að segja mjög óbjörgulega með evrusvæðið, enda lofaði evrubankinn að koma skuldugum ríkjum evrusvæðisins til hjálpar með skuldabréfakaupum, um leið og hann hækkaði vextina. Ríkisstjórn Marios Draghi á Ítalíu er fallin, af því að ítalska þingið neitaði að samþykkja aðhaldsaðgerðir stjórnar hans á ríkisfjármálunum.
Deutsche Bank spáir þverrandi krafti þýzka hagkerfisins á næstu misserum. Reyndar fjarar svo hratt undan Þjóðverjum núna, að bankinn spáir jafnmiklum samdrætti þýzka hagkerfisins 2023 og íslenzka hagkerfisins 2009 eða 6 %, og er hið síðara kennt við Hrun, enda fór þá fjármálakerfi landsins á hliðina, en útflutningsatvinnuvegirnir, sjávarútvegur og orkukræfur iðnaður, björguðu því, sem bjargað varð. Hjá Þjóðverjum verður það væntanlega öfugt. Útflutningsatvinnuvegirnir, tækjaframleiðsla ýmiss konar, mun dragast saman, því að orkukræfir birgjar þeirra munu ekki fá þá orku, sem þeir þurfa, og það, sem þeir fá af jarðefnaeldsneyti og rafmagni, verður mjög dýrt (tíföldun frá í fyrra).
Þjóðverjar eru fastir í gildru, sem prestsdóttirin frá DDR-Deutsche Demokratische Republik, Angela Merkel, væntanlega óafvitandi, en undir áhrifum illmennisins, sem nú er blóðugur upp fyrir axlir í Úkraínu sem einvaldur í Kreml, leiddi þá í. Hún lét undir höfuð leggjast að útvega aðrar aðdráttarleiðir fyrir gas en frá Síberíu, t.d. móttökustöðvar í þýzkum höfnum fyrir LNG - jarðgas á vökvaformi, sem hægt hefði verið að flytja til Þýzkalands á skipum, en verður vart hægt fyrr en 2024. Hún lét Bundestag samþykkja lög, sem bönnuðu vinnslu jarðgass með leirsteinsbroti - "fracking", þótt mikið sé af slíku gasi í þýzkri jörðu. Putin laug því, að slíkt væri hættulegt og að þýzk heimili gætu átt á hættu að fá svartagall, jafnvel logandi, út um vatnskrana sína. Hún samþykkti Nordstream 2, sem hefði gert Þjóðverja algerlega háða jarðgasi frá Rússlandi, en þegar hún fór frá, nam hlutdeild Rússagass í heildareldsneytisgasnotkun Þýzkalands 55 %, en hefur nú í júlí 2022 minnkað niður í 30 %, enda hafa Rússar nú sýnt Þjóðverjum vígtennurnar og minnkað flæði um Nordstream 1 niður í 20 % af flutningsgetu lagnarinnar. Rússar eru nú með réttu skilgreindir sem hættulegir óvinir vestrænna bandamanna vegna villimannlegrar innrásar sinnar og löðurmannlegs hernaðar síns gegn óbeyttum borgurum þar í landi, sem flokkast undir þjóðarmorð.
Þá fékk Angela Merkel Bundestag til að samþykkja þá glórulausu ráðstöfun 2011 að loka nokkrum kjarnorkuverum, banna ný og loka síðustu kjarnorkuverunum fyrir árslok 2022. Allar þessar aðgerðir Angelu Merkel voru eins og að forskrift forseta Rússlands til að færa honum sem allra beittast orkuvopn í hendur. "Der Bundesnachrichtendienst" hefur að öllum líkindum vitað, eins og sumar aðrar vestrænar leyniþjónustur, hvað í bígerð var í Kreml (endurheimt tapaðra nýlendna með hervaldi), en Angela Merkel skellti skollaeyrum við öllum viðvörunum. Það er alls ekki einleikið og grafalvarleg pólitísk blinda, en nú hervæðast Þjóðverjar að nýju og undirbúa að senda Leopard 2 skriðdreka til Úkraínu, en Þjóðverjar og Frakkar hafa hingað til þótt draga lappirnar í hernaðarstuðningi sínum við aðþrengda Úkraínumenn, og er það mikið óánægjuefni í Bandaríkjunum og í Austur-Evrópu og Eystrasaltslöndunum.
Hagkerfi allra Vesturlanda eða mikilvægir þættir þeirra eru orkuknúin. Á Íslandi er mikilvægasta útflutningsatvinnugreinin knúin innfluttri olíu, sem frá ársbyrjun 2022 hefur hækkað í innkaupum um 60 % á tonnið, þótt frá norska ríkisolíufélaginu Equinor sé. Útgerðarkostnaður hefur þannig hækkað gríðarlega og sömuleiðis flutningskostnaður á markað, en vegna tiltölulegs stöðugleika í verði innlendrar orku hefur framleiðslukostnaður neytendavöru af íslenzkum fiskimiðum þó hækkað minna.
Vegna hækkunar tilkostnaðar hefur sjávarútvegur í ESB þegið neyðaraðstoð hins opinbera í tvígang síðan 2020, og það er engin furða, þótt íslenzkar útgerðir leiti leiða til hagræðingar. Slíkt sáum við, þegar almenningshlutafélagið SVN festi kaup á fjölskyldufyrirtækinu Vísi í Grindavík. Um þau viðskipti og fáránlegt moldviðri sumra stjórnmálamanna og blaðamanna út af þeim skrifaði Gunnar Þórðarson, viðskiptafræðingur, í Morgunblaðið 21. júlí 2022, undir fyrirsögninni:
"Veiðigjöld og samruni sjávarútvegsfyrirtækja".
Hún hófst þannig:
"Viðbrögð vinstri manna við kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi hf. koma ekki á óvart og eru í takti við fyrri ummæli þeirra um íslenzkan sjávarútveg. Oft veit maður ekki, hvort þetta fólk talar þvert um hug sér, eða hvort það skortir innsýn í atvinnugreinina. Hærri veiðigjöld valda samþjöppun í sjávarútvegi ! Það er eins augljóst og verið getur; en það er ekki neikvætt fyrir íslenzkt samfélag !"
Gunnar Þórðarson hefur góða innsýn í rekstrargrundvöll íslenzks sjávarútvegs. Honum er vel ljóst, hvað léttir undir með atvinnugreininni, og hvað er íþyngjandi fyrir samkeppni hans hér innanlands um fólk og fjármagn og á fiskmörkuðum erlendis, þangað sem yfir 95 % framleiðslunnar fer. Þegar ytri aðstæður versna, hvort sem er fyrir tilstuðlan þingmanna og ráðherra, aðfanganna, flutninganna eða vegna harðari samkeppni á vörumörkuðum, verður aukin tilhneiging til að draga sig út úr starfseminni. Þetta gerðist nú síðast í Grindavík, og það er fagnaðarefni, þegar traust innlent almenningshlutafélag í sjávarútvegi ákveður að hlaupa í skarðið og efla starfsemina í nýkeyptri eign. Það ætti öllum að vera ljóst, að nýja staðsetningin er verðmæt fyrir kaupandann, en engu að síður hafa slettirekur í hópi þingmanna og blaðamanna kosið að vera með svartagallsraus um allt annað en þó blasir við og kaupandinn hefur lýst yfir.
"Ef ekkert hefði breytzt undanfarna áratugi í sjávarútvegi og fyrirtæki ekki verið sameinuð eða yfirtekin, væri engin umræða um veiðigjöld; enda væru engin veiðigjöld, og afkoman væri slök. Svona svipað og ástandið var á 10. áratugi síðustu aldar, og lítil sem engin fjárfesting átti sér stað. Þá væri sennilega allt í góðu lagi, og vinstrimenn ánægðir með ástandið !"
Hér væri allt með öðrum brag, ef afturhaldssinnar hefðu komið í veg fyrir þróun íslenzks sjávarútvegs í krafti markaðsaflanna og stjórnmálamenn sætu uppi með rekstur atvinnugreinar, sem þeir hafa ekkert vit á og engan áhuga á, nema þeir geti beitt honum fyrir sig á atkvæðaveiðunum. Lífskjör í landinu væru í samræmi við óstjórnina, og þær hræður, sem hér hefðust við, væru sennilega augnkarlar í verstöð Evrópusambandsins hér úti í Dumbshafi.
Í lokin reit Gunnar Þórðarson:
"Tækifæri Síldarvinnslunnar við kaupin á Arctic Fish og Vísi blasa því við hverjum þeim, sem vill horfa hlutlægt á þessi mál: Aukin verðmæti fyrir íslenzkan sjávarútveg og íslenzka þjóð. Með því að taka til sín stærri hluta virðiskeðjunnar, verða bæði til verðmæti og eins spennandi störf fyrir Íslendinga í framtíðinni. Síldarvinnslan er fyrirtæki á markaði með þúsundir eigenda. Það er eðlileg krafa til stjórnmálamanna að ræða svona mál af alvöru, en ekki bara til að tala inn í tiltekna hópa. Bolfiskvinnsla Vísis er ein sú fullkomnasta í heimi og er ekki á leið frá Grindavík í framtíðinni. Þar er mannauðurinn, nálægð við fiskimið og markaðinn."
Sú neikvæða umræða, sem fór af stað um þessi viðskipti, eftir að þau voru tilkynnt, sýndi ljóslega fram á, að þau, sem að henni stóðu, höfðu lítið vit á málefninu og voru ekki í stakkinn búin til að bera neitt gagnlegt á borð. Slíkt fólk er bara að fiska í gruggugu vatni undir kjörorðinu, að betra sé að veifa röngu tré en öngu. Leiðinlegast er, hvað þessir gjammarar eru orðnir fyrirsjáanlegir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2022 | 11:15
Hóflaus skattheimta er hagkerfinu skaðleg
Íslendingar eru ein skattpíndasta þjóð í heimi. Þetta kemur auðvitað fram í samanburði á samkeppnishæfni þjóða, en þar eru Íslendingar eftirbátar hinna Norðurlandaþjóðanna, og til að festa góð lífskjör (kaupmátt) í sessi, þarf að bæta samkeppnishæfnina. Skattheimtan leikur þar stórt hlutverk, en hvað er hófleysi í þessu sambandi ? Margar snilldarhugmyndir og drög að lausnum á viðfangsefnum hafa orðið til með uppdráttum á munnþurrkum á matarborðinu undir góðum málsverði. Ein slík er kennd við bandaríska hagfræðinginn dr Arthur B. Laffer - Laffer ferillinn og sýnir, að til er skattheimtugildi (optimum-beztunargildi) á hverju sviði skattlagningar, sem hámarkar beinar heildartekjur (skattspor) hins opinbera af skattlagningunni, en bæði við lægri og hærri skattheimtu verða heildarskatttekjurnar minni.
Staksteinar Morgunblaðsins 25. júlí 2022 báru heitið:
"Skyndilegt áhugaleysi um skatta".
Þar stóð m.a. þetta:
"Afgangurinn [af kaupverði útgerðarfélagsins Vísis], mrdISK 6,0, er greiddur með peningum, en eins og greint var frá í frétt Morgunblaðsins á laugardag [23.07.2022], fer stærstur hluti þeirrar fjárhæðar í skattgreiðslu eða vel á fimmta milljarð króna. ....
Þetta [áhugaleysi ýmissa fjölmiðla á þessari háu skattheimtu] kemur nokkuð á óvart ekki sízt í ljósi þess, að gagnrýnendur viðskiptanna fundu m.a. að því, að ríkið fengi ekkert út úr þeim. Fyrrverandi ríkisskattstjóri, sem hefur jafnan miklar áhyggjur, ef einhvers staðar liggur óskattlögð króna, sagði t.a.m., að viðskiptin færu fram "án þess að þjóðin fengi krónu í sinn hlut"."
Þessi viðskipti eru ofureðlileg og stórfurðulegt að halda því fram, að skattalöggjöfin hérlendis spanni ekki viðskipti af þessu tagi. Það er deginum ljósara, að lítilsigldir vinstri menn ruku upp til handa og fóta vegna viðskipta, sem þá varðar ekkert um, og fóru að fiska í gruggugu vatni í von um, að einhver teldi sig hafa verið hlunnfarinn.
Að lokum stóð í þessum Staksteinum:
"Þjóðin hefur notið þess ríkulega, bæði beint og óbeint, að hér á landi er sjávarútvegur rekinn með hagkvæmum hætti, en er ekki niðurgreiddur, eins og almennt tíðkast í nágrannalöndum okkar. Eigi hann áfram að skila miklu í þjóðarbúið, þarf hann að búa við viðunandi rekstrarumhverfi, ekki sízt stöðugleika í regluverki."
Hér munar mestu um regluna um frjálst framsal nýtingarréttarins, sem var að verki í hagræðingarskyni, þegar almenningshlutafélagið Síldarvinnslan á Neskaupstað festi kaup á fjölskyldufyrirtækinu Vísi í Grindavík, og önnur regla um sjávarútveginn á við veiðigjöldin, sem er ekkert annað en sérskattur á sjávarútveginn og auðvitað íþyngjandi sem slíkur, enda nemur hann þriðjungi framlegðar fyrirtækjanna (framlegð er það, sem fyrirtækin hafa upp í fastan kostnað sinn). Veiðigjaldið var á sínum tíma réttlætt með því, að í sjávarútveginum væri fólgin auðlindarenta, en sú hefur aldrei fundizt.
Nýjasta dæmið um, að í sjávarútveginum fyndist engin auðlindarenta (þ.e. hagnaður umfram annan atvinnurekstur), kom fram í grein Svans Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Bláa hagkerfisins og sjávarútvegsfræðings, í Morgunblaðinu 21. júlí 2022. Hún hófst þannig:
"Í oft og tíðum ruglingslegri umræðu um sjávarútveginn hafa margir lagt lykkju á leið sína til þess að halda því fram, að hagnaður og afkoma fyrirtækja þar sé önnur og betri en þekkist í íslenzku samfélagi. [Þetta er hin ósanna fullyrðing um auðlindarentu, sem skapi ríkinu rétt til viðbótar skattheimtu - innsk. BJo.] Það geri síðan fyrirtækjum í sjávarútvegi kleift að kaupa "upp" aðrar atvinnugreinar [so what ?]. Ekkert er fjær lagi, því [að] fyrirtæki í sjávarútvegi eru ekki með betri afkomu en gengur og gerist, og arðsemi þar er sízt meiri en við eigum að venjast á íslenzkum fyrirtækjamarkaði. Því miður, liggur mér við að segja, en sem betur fer eru mörg fyrirtæki í sjávarútvegi vel rekin og skila góðri afkomu, þó [að] þau starfi í mjög krefjandi umhverfi, þar sem alþjóðleg samkeppni er hörð, á sama tíma og þau þurfa sífellt að laga sig að breytingum, sem lúta að grunnþáttum greinarinnar."
Svanur Guðmundsson bar síðan saman framlegð í % af veltu fyrirtækja með a.m.k. 80 % af veltu í hverri af 10 atvinnugreinum samkvæmt ársreikningum 2020-2021. Framlegð sjávarútvegs, sem ein atvinnugreina sætir því af hálfu löggjafans, að framlegðin sé skattstofn, nam 25 %, en meðaltal 10 greina var 26,3 %. Hann bar líka saman hagnaðinn sem % af eigin fé fyrirtækjanna. Hjá sjávarútveginum nam hagnaðurinn 14 %, en meðaltal 10 fyrirtækja nam 13,5 %.
Þrátt fyrir að þessi athuguðu 2 ár hefðu verið sjávarútveginum tiltölulega hagfelld, er alls enga auðlindarentu að finna í fórum hans. Hvað veldur því, að sumir hagfræðingar búa til spuna um atvinnugrein, sem gefur skattasjúkum pólitíkusum, embættismönnum, blaðamönnum o.fl. tilefni til að krefjast viðbótar skattlagningar á atvinnugrein, sem á í höggi við niðurgreiddar vörur á erlendum mörkuðum ?
Skattspor sjávarútvegsins er stórt, því að hann veitir mörgum vinnu, bæði beint og óbeint, og greiðir há laun. Hærri skattheimta af honum en nú tíðkast yrði aðför að dreifðum byggðum landsins, þar sem sjávarútvegur er kjölfesta byggðarlaga víða. Óhjákvæmilega drægi hærri skattheimta úr getu sjávarútvegsins til fjárfestinga, sem drægi strax úr hagvexti í landinu, og innan skamms kæmist hann á vonarvöl, því að fólk og fé tæki að forðast hrörnandi atvinnugrein, og hann yrði hreinlega undir í samkeppninni á erlendum mörkuðum.
Í stað þess að vera flaggskip íslenzks atvinnulífs yrði hann að ryðkláfi, sem ríkissjóður yrði sífellt að hlaupa undir bagga með í nafni byggðastefnu. Sú tíföldun veiðigjalda, sem aldurhnignir Berlínarkommar og vizkubrekkur í Icesave-hlekkjum úr HÍ hafa talað fyrir, er ekki einvörðungu svo langt til hægri á X-ási Laffer-ferilsins, að hann sé kominn að núlli (0), heldur hefur Laffer-ferillinn í þessu tilviki skorið X-ásinn, og ríkið fær þá ekki lengur skatttekjur af brjálæðislegri skattheimtu, heldur verður ríkissjóður fyrir útgjöldum við að halda atvinnugreininni á floti. Það er einmitt draumsýn kommúnistans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.7.2022 | 17:26
Ánægjuleg þróun matvælaframleiðslu
Kjötframleiðsla á Íslandi á undir högg að sækja. Kjötneyzla á mann er mjög mikil eða um 50 kg/ár, en hún fer minnkandi á sama tíma og grænmetisneyzla góðu heilli vex. Innlenda kjötið keppir bæði við innflutt kjöt og vaxandi framboð af fiski; bæði er fjölbreytt úrval villtra fisktegunda og af eldisfiski. Þessi misserin á sér stað gríðarleg aukning í eldisfiski, bæði á sjó og landi. Vegna mikillar nýtniaukningar og vöruþróunar innan hefðbundins sjávarútvegs er samt ekki líklegt, að útflutningsverðmæti eldisfisks verði meiri en villts fisks á þessum eða næsta áratugi. Mikil aukning framleiðslu á próteinríkri fæðu með tiltölulega lítið kolefnisspor er fagnaðarefni.
Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, gerði þróun í fiskeldi að umræðuefni í Morgunblaðinu, 16. júlí 2022, undir fyrirsögn, sem vísar til merkra tíðinda á þeim vígstöðvum:
"Strategískar ákvarðanir um fisk".
Greinin hófst þannig:
"Frá því var skýrt undir lok júní [2022], að færeyska fiskeldisfyrirtækið Bakkafrost hefði keypt Boeing-757 þotu til að ná forskoti í keppninni um að koma ferskum laxi á borð veitingastaða á Manhattan á innan við 24 tímum frá slátrun.
Í frétt brezka blaðsins The Guardian um þotukaupin segir, að stjórnendur Bakkafrosts, sem einnig eigi Scottish Salmon Company (nú Bakkfrost Scotland), svari gagnrýni á kolefnisspor þotuflugsins yfir Atlantshaf á þann veg, að sporið minnki með því að fara ekki um Heathrow-flugvöll með laxinn; jafnframt minnki matarsóun, þegar tíminn styttist [á] milli slátrunar og matargerðar bandarísku viðskiptavinanna.
Í Færeyjum tala þeir um eldislaxinn sinn sem "kampavínslaxinn". Hann sé sem sagt allra laxa beztur. Seiðin í þennan hágæðalax koma héðan, þar sem eldisfyrirtæki verða sífellt öflugri. Í nýjasta tölublaði Bændablaðsins (7. júlí [2022]) um öran vöxt landeldis, einkum á laxi og bleikju, en 5 fyrirtæki, sem stundi "þauleldi fisks á landi", hafi nýlega stofnað samtökin Eldís, Landeldissamtök Íslands."
Það er saga til næsta bæjar, þegar fyrirtæki kaupir stóra vöruflutningaflugvél til að spara flutningatíma og skjóta keppinautunum ref fyrir rass, með því að bjóða ferskari vöru en jafnvel framleiðendur í heimalandinu eða í nágrannaríkjum, t.d. Kanada í þessu tilviki, geta gert. Þetta er áreiðanlega framkvæmt að vel athuguðu máli og sýnir, hversu mikils kröfuharðir viðskiptavinir meta ferska matvöru, enda eru þeir fúsir að greiða meira fyrir hana en hina.
Við Ísland eru ekki síðri aðstæður til fiskeldis en við Færeyjar. Þótt sjórinn sé hlýrri við Færeyjar og vöxturinn þar með hraðari, fylgir sá böggull skammrifi, að lúsin er þar vágestur allt árið. Hér lifir laxalúsin ekki vetrarkuldann í sjónum. Eitrun er því beitt í meira mæli þar en hér.
Íslendingar eru þar að auki með ás uppi í erminni í samkeppninni við fiskeldisfyrirtæki annars staðar við Norður-Atlantshaf, þar sem er landrými, nægt ferskvatn, raforka á hagstæðu verði og síðast en ekki sízt víða jarðvarmi, sem gefur af sér hitaveituvatn til að stýra vaxtarhraðanum. Þá losna landeldisfélögin við alla áhættu af blöndun eldisfisks við villtan lax, og lækkar þá eftirlitskostnaður og viðhaldskostnaður kera. Það hefur reyndar verið gert allt of mikið úr áhættu erfðablöndunar hérlendis, þar sem sjókvíaeldi er bannað á Vesturlandi og Norðurlandi (nema í Eyjafirði), og er ekki stundanlegt úti fyrir Suðurlandi, nema í úthafskvíum framtíðarinnar. Þá er langur vegur á milli þess, að eldislax sleppi og að hann æxlist með villtum laxi og að erfðaeinkenni eldislaxins komi fram í lífvænlegum afkvæmum.
Þessari fróðlegu grein lauk Björn Bjarnason þannig:
"Fjórum vikum fyrir Vísis-kaupin birtust fréttir um, að Síldarvinnslan hefði keypt 34,2 % hlut í norska laxeldisfélaginu Arctic Fish Holding AS fyrir um mrdISK 14,8. Arctic Fish Holding á 100 % hlutafjár í Arctic Fish ehf., einu af stærstu laxeldisfyrirtækjunum hér; rekur það eldisstöðvar á Vestfjörðum með rúmlega 27 kt/ár leyfi fyrir eldi í sjó.
Án þess á nokkurn hátt sé gert lítið úr eignarhaldi á þorskígildistonnum og gildi veiða og vinnslu þeirra, blasir við, að hér verði sama þróun og í Noregi: eldi í sjó og á landi og útflutningur á slátruðum eldisfiski vegi meira við sköpun verðmæta en gamalgrónu veiðarnar.
Alls eru 98 % íslenzks sjávarfangs flutt á erlenda markaði. Þar er samkeppni hörð og kröfur miklar. Flugvélarkaup Bakkafrosts sýna, að keppinautar um beztu markaðina vilja skapa sér forskot með ofurgæðum. Sjávarútvegsfyrirtæki hér keppa við þá beztu.
Í þessu ljósi ber að skoða strategískar ákvarðanir öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þær eru teknar til að styrkja samkeppnisstöðu þjóðarinnar allrar sem framleiðanda matvæla í hæsta gæðaflokki. Er fagnaðarefni, að fyrirtækin hafi fjárhagslegan styrk til stórsóknar án þess að vera háð opinberri fyrirgreiðslu."
Undir þetta allt, ályktanir og fullyrðingar Björns, skal heils hugar taka. Íslendingar hafa borið gæfu til að skjóta stoðum undir öflugan sjávarútveg. Hann færir nú út kvíarnar og fjárfestir í fiskeldi, bæði í sjó og á landi. Þröngsýnis- og smammsýnismenn hérlendir hafa gagnrýnt erlent eignarhald á fiskeldinu. Það er óviturleg gagnrýni, enda hefur erlendu fjármagni fylgt þekking, tækni og markaðssambönd. Nú þegar fiskeldinu vex fiskur um hrygg, eru Íslendingar að flytja fjármagn í þessa grein, m.a. úr hefðbundnum sjávarútvegi. Hælbítar sjávarútvegsins hafa af þekkingarleysi og almennri bölsýni sinni gagnrýnt hann fyrir að fjárfesta í öðrum greinum, þótt þeim komi það lítið við. Er það óeðlilegt m.v. þær þröngu skorður, sem íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum eru settar um aflahlutdeildir ? Skyldu sömu aðilar þá vilja leggjast þversum gegn fjárfestingum sjávarútvegsins í fiskeldinu ? Þessir gagnrýnendur sjávarútvegs og fiskeldis virðast vera gjörsamlega úti á þekju. Þetta er yfirleitt sama fólkið og gagnrýnir fiskveiðistjórnunarkerfið af talsverðri heift. Það skilur ekki enn löngu viðtekin sannindi um, að framseljanlegar nýtingarheimildir aflahlutdeilda eru grundvöllur allrar vel heppnaðrar auðlindanýtingar. Það klifar á þeirri illa ígrunduðu fullyrðingu í anda marxista, að þetta fyrirkomulag feli í sér arðrán, en það er öðru nær, því að þetta er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmasta fyrirkomulagið. Evrópusambandið býr við annað fiskveiðistjórnunarkerfi, og þar er nú verið að ausa út í annað skiptið á stuttu tímabili fé úr opinberum sjóðum í "björgunarpakka" handa sjávarútvegi ESB.
Stærsti vaxtarbroddur innlendrar matvælaframleiðslu í fjárfestingum talið og tonnum próteins er laxeldi á landi. Á þessum áratugi gæti landeldið numið yfir 130 kt/ár til slátrunar, sem gætu gefið um 150 mrdISK/ár í útflutningstekjur. Ef slátrun upp úr sjókvíum undir lok þessa áratugar verður rúmlega tvöföld að magni m.v. 2021, þá gæti andvirði hennar numið um 100 mrdISK/ár, svo að eldið gefi þá alls um 250 mrdISK/ár. Árið 2021 nam heildarútflutningsverðmæti hefðbundins sjávarútvegs mrdISK 296, og binda má vonir við hækkun þessarar upphæðar að raunvirði vegna vaxandi gæða, meiri úrvinnslu, hækkandi nýtingar og vaxandi afla, þar sem ástand lífríkis í hafinu umhverfis Ísland lofar góðu um framhaldið. Þess vegna hillir ekki undir meiri tekjur af fiskeldi en hefðbundnum sjávarútvegi, hvað sem síðar verður. Alkunna er, að í Noregi hefur fiskeldið farið tekjulega fram úr hefðbundnum sjávarútvegi, en þar eru ekki viðlíka takmarkanir á laxeldi í sjó, eins og hér við land.
Bændablaðið fjallaði um þann efnilega vaxtarbrodd, landeldi, 7. júlí 2022. Undir fyrirsögninni:
"Landeldi í örum vexti",
stóð þetta m.a.:
"Rúnar [Þór Þórarinsson] segir umfang landeldis hér á landi vera í örum vexti.
"Samherji rekur eldisstöð í Öxarfirði, þar sem áherzlan er á áframeldi á laxi og bleikju, en þar að auki rekur Samherji bleikjueldi á landi í Grindavík og við Vatnsleysuströnd. Fyrirtækið áformar enn fremur að stórauka framleiðsluna á laxi með uppbyggingu sinni á Reykjanesi, [í] svo nefndum Auðlindagarði. Áformar Samherji að auka þannig framleiðslu sína á landöldum laxi upp í 45 kt/ár.""
Líklega er Samherji með þessum fjárfestingum að skipa sér sess sem brautryðjanda í heiminum á sviði landeldis laxfiska. Það hefur glímt við hælbíta í fjölmiðlaheiminum, og jafnvel Seðlabankanum undir fyrrverandi Seðlabankastjóra, sem aldrei hafa skapað nein verðmæti og líklega aldrei neitt annað en niðurrif og skítkast, eins konar eiturnöðrur.
Með aðgerðum sínum nú á sviði fjárfestinga í laxeldi sýnir fyrirtækið í hnotskurn, hversu framsækið og verðmætt það er, þar sem það haslar sér völl á sviði ferskvatnsnýtingar og hitaveitunýtingar til matvælaframleiðslu, sennilega að langmestu leyti í framtíðinni úr íslenzku fóðri. Þróun fiskeldis hérlendis í samstarfi Norðmanna og Íslendinga og í auknum mæli í krafti fjárfestinga íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja er ævintýri líkust.
"Saman tekið eru því 131,5 kt af landöldum laxi á ársgrundvelli við sjóndeildarhringinn hjá þessum 5 landeldisfélögum. Langmest eru uppbyggingaráformin, hvað landeldi varðar, á Suðurlandi og [á] Reykjanesi, segir Rúnar og bætir við, að til samanburðar hafi heildarmagn þess lax, sem slátrað var úr sjókvíum við Ísland árið 2021 verið alls 44,5 kt. Nam útflutningsverðmæti þess rúmum mrdISK 20 á síðasta ári."
Ef engir óvæntir erfiðleikar koma upp í landeldinu, stefnir það hraðbyri í að verða með talsvert meiri framleiðslu en sjókvíaeldið, þar til tæknin leyfir úthafseldi. Verður spennandi að sjá, hvort einhver verðmunur verður á afurðum þessara tveggja greina, en kostnaðarmunurinn er verulegur. Það vekur athygli, að samkvæmt ofangreindum upplýsingum hefur verð fyrir sjókvíaafurðirnar aðeins numið um 450 ISK/kg, sem er svipað og fyrir t.d. þorskinn, en yfirleitt hefur verð laxins verið a.m.k. tvöfalt þorskverðið.
""Lífrænn úrgangur og hliðarafurðir eru orðnar enn mikilvægari auðlindir en áður til áburðarnotkunar í ljósi mikilla hækkana á innfluttum, tilbúnum áburði. Hlutverk BÍ og Eldís næstu mánuði verður að vinna að sameiginlegri umsókn í samkeppnissjóði á sviði loftslags- og umhverfismála á grundvelli þeirrar hugmyndafræði, að með innlendri endurnýtingu á lífrænum efnum, sem falla til við landbúnað og landeldi, sé hægt að framleiða áburð, sem mætir þörfum innanlandsmarkaðar, og þannig stuðla að aukinni sjálfbærni í íslenzkum landbúnaði", segir í sameiginlegri tilkynningu félaganna. Með samstarfsverkefninu sé hafin ein af þeim framtíðaraðgerðum, sem lögð var til í spretthópi matvælaráðherra."
Þetta hljómar mjög vel, og ekki er að efa, að efnainnihaldið og áburðargildið er ríkt, en það verður að leggja rannsóknir til grundvallar á því, hversu mikið þarf að bera á til að fá æskilega uppskeru á hverju ræktarlandi fyrir sig. Skemmst er að minnast hraklegrar ofstjórnar ríkisstjórnar Sri Lanka á bændum þar, en hún bannaði þeim að nota tilbúinn áburð, og allir bændur skyldu umsvifalaust leggja fyrir sig lífræna ræktun. Afleiðingin varð hrun landbúnaðarframleiðslunnar á Sri Lanka, gjaldeyrisvarasjóðurinn varð uppiskroppa með fé, og hungursneyð hélt innreið sína í landið. Ekki má gleyma því, að vegurinn til heljar er varðaður góðum áformum.
Orkuverð í Evrópu mun ekki lækka niður í jafngildi 70 USD/tunnu hráolíu, sem það var í um áramótin 2021/2022. Það gæti rólað um 100 USD/tunnu næstu árin, og gasverðið verður áfram hátt, því að gasflæðið frá Rússlandi til Evrópu er nú aðeins um 40 % af því, sem var, og stefnt er að því, að það verði ekkert á næstu árum. Í staðinn mun koma jarðgas víða að, t.d. frá gaslindum úti fyrir ströndum Ísraels um lögn til Krítar, Kýpur og meginlands Grikklands. Jarðgas á gasformi frá Ísrael og á vökvaformi (LNG) annars staðar frá, verður dýrara en Rússagasið, og þessi viðskipti munu auðga Ísrael mjög (tugmilljarða USD tekjur á mánuði). Þannig er líklegt, að rekstrargrundvöllur verði fyrir vetnis- og ammoníakframleiðslu með raforku hérlendis og arðsamt rafeldsneyti og áburð úr þessu "hráefni".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2022 | 17:30
Lítt af setningi slegið
Þegar tilkynnt var um ofureðlileg kaup almenningshlutafélagsins Síldarvinnslunnar á Neskaupstað á útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík, gaus upp moldviðri loddara og lýðskrumara, sem létu aðalatriði málsins lönd og leið, en einbeittu sér að hugðarefnum sínum, sem eiga það sameiginlegt að vera sjávarútveginum skaðleg. Sjávarútvegur er höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar, og hann verður að reka á viðskiptagrundvelli. Með rekstur hans er ekki hægt að hlaupa eftir illa ígrundaðri hugmyndafræði um "réttlæti" í ráðstöfun hagnaðar af fjárfestingum í greininni.
Aðalatriði málsins er, að hlutverk íslenzks sjávarútvegs er að skapa hámarksverðmæti úr auðlind íslenzkra fiskimiða fyrir íslenzkt þjóðarbú, enda er auðlindin í þjóðareign, þótt enginn eigi óveiddan fisk í sjó, og þar með hefur ráðherra það mikla vald til inngripa í þessa atvinnugrein að setja aflamark í hverri tegund á hverju fiskveiðiári, og Hafrannsóknarstofnun getur lokað svæðum fyrir fiskiskipum í verndarskyni.
Hverjir fá að stunda sjóinn og eiga aflahlutdeild í hverju settu aflamarki réðist í upphafi af aflareynslu og síðan 1989 af markaðinum upp að hámarksaflahlutdeild í hverri tegund. Algengast er 20 % kvótaþak, en þó aðeins 12 % í þorski per fyrirtæki. Þetta fiskveiðistjórnunar fyrirkomulag hefur tryggt Íslendingum skilvirkasta sjávarútveg í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Greinin varð arðbær í flestum árum, eftir að nægilegri lágmarks samþjöppun var náð, og hún greiðir meira til samfélagsins en aðrar atvinnugreinar. Er það réttlátt, t.d. gagnvart almenningshlutafélögum í greininni, sem berjast við fyrirtæki í öðrum greinum um fjármagn ?
Íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin flytja yfir 96 % afurða sinna á erlendan markað og eiga þar í flestum tilvikum í höggi við stærri fyrirtæki en þau eru sjálf, fyrirtæki, sem njóta þar að auki fjárhagsstuðnings hins opinbera í sínu landi og greiða sáralítið þangað í samanburði við íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin. Alþingismenn hafa ekki látið sinn hlut eftir liggja við að skekkja samkeppnisstöðu þessarar greinar á erlendum fiskimörkuðum og innlendum fjármagns- og vinnumarkaði. Verða þeir að gæta að sér að mismuna ekki þessari grein úr hófi fram.
Hælbítar íslenzks sjávarútvegs spanna litrófið frá vinstri-sósíalistum með böggum aflóga hugmyndafræði austur-þýzka alþýðulýðveldis Walters Ulbricht og Erichs Honecker til áhangenda kenningarinnar um, að Íslandi sé bezt borgið alfarið innan vébanda Evrópusambandsins - ESB, þ.e. "við borðið", en ekki bara á Innri markaði ESB, eins og 2 önnur EFTA-ríki með EES-samninginum, sem gildi tók 1. janúar 1994.
Sameiginlegt málflutningi allra þessara aðila er að mæla fyrir ráðstöfunum, sem veikja mundu samkeppnisstöðu íslenzka sjávarútvegsins stórlega, og þar með óhjákvæmilega draga úr getu hans til verðmætasköpunar fyrir íslenzka þjóðarbúið úr auðlind þjóðarinnar í lögsögunni og utan hennar samkvæmt samningum ríkisstjórnarinnar. Þessi málflutningur hælbítanna er þess vegna klæddur í búninga, sem eiga að hætti lýðskrumara að höfða til mismunandi fólks. Annars vegar er lofað gríðarlega auknum skatttekjum ríkissjóðs af sjávarútveginum, og hins vegar er lofað uppboðsmarkaði veiðiheimilda og um leið árlegum afskriftum veiðiheimilda þeirra, sem fengu þær úthlutaðar á grundvelli veiðireynslu og/eða hafa keypt þær hingað til. Í raun er þetta sami grautur í sömu skál, sem endar í þjóðnýtingu útgerðanna, þegar öllu er á botninn hvolft. Hvorug aðferðanna er til þess fallin að hámarka verðmæti auðlindar þjóðarinnar í hafinu, heldur munu þær rýra hinn þjóðhagslega hagnað frá því, sem hann getur orðið, ef atvinnugreinin fær að þróast í friði fyrir loddurum, sem lítið skynbragð bera á það, hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi, til að atvinnugreinar fái að njóta sín. Engin góð reynsla frá öðrum þjóðum mælir þessum dillum málsbót.
Sjónarhólsgrein um alþjóðaviðskipti birtist í Morgunblaðinu 13. júlí 2022 eftir Stefán E. Stefánsson, blaðamann, undir fyrirsögninni:
"Skref í rétta átt".
Þar stóð m.a.:
"Kaupin á Vísi eru því áhættudreifing í sinni tærustu mynd. Það má ekki sízt sjá, þegar borið er saman úthlutað aflamark [aflahlutdeild] Síldarvinnslunnar annars vegar og Vísis hins vegar í mikilvægum botnfisk- og uppsjávartegundum. Fyrir kaupin var Síldarvinnslan aðeins með 2,7 % hlutdeild í þorski, en Vísir 5,4 %. Í ýsu var hlutdeild Síldarvinnslunnar 3,8 %, en Vísis 6,1 %, og í síld og loðnu er hlutdeild Síldarvinnslunnar í úthlutuðu aflamarki annars vegar 16 % og hins vegar 18 %, [á] meðan hlutdeild Vísis er 0 %. Styrkurinn, sem felst í kaupunum á Vísi er því að efla Síldarvinnsluna í botnfiski."
Þetta er vafalaust hárrétt athugað hjá Stefáni E., og slíkar aðgerðir fyrirtækja eru öllum í hag og koma hvorki Samkeppnisstofnun né stjórnmálamönnum við. Með öflugri stoðir mun Síldarvinnslan standa betur að vígi í samkeppninni á erlendum mörkuðum, þar sem hún samt verður tiltölulega lítil. Sterkari staða á markaði þýðir, að hún getur fengið betri viðskiptakjör á fiskmörkuðum. Þetta er aðalatriði máls, og að hóta fyrirtækjunum enn hærri skattheimtu, af því að þau eru öflug og vel rekin og hafa í sér stækkunarkraft, eins og jafnvel innviðaráðherra gerði sig sekan um, er fyrir neðan allar hellur.
Hér er um að ræða almenningshlutafélag, skráð í Kauphöll Íslands, sem sækir sér fé á hlutabréfamarkað, t.d. til lífeyrissjóða, og stjórnmálamenn verða að gæta að sér og kunna sér hóf í málflutningi, svo að ekki sé hægt að saka þá um atvinnuróg og brot á stjórnarskrárreglu um jafnræði til atvinnufrelsis.
"Við kaupin á Vísi upphófst gamalkunnur söngur þeirra, sem alla tíð hafa öfundazt út í sjávarútveginn hér á landi og þann glæsta árangur, sem náðst hefur í uppbyggingu margra fyrirtækja á þessu sviði. Þeir hinir sömu skella skollaeyrum við öllum þeim rökum, sem borin eru á borð varðandi styrkleika íslenzka kvótakerfisins og þá þrotlausu vinnu, sem lögð hefur verið í uppbyggingu þessara sömu fyrirtækja. Engu er líkara en þessir sömu aðilar telji kerfisbreytingar æskilegar, sem mundu draga enn frekar úr fyrirsjáanleika og ganga af þeirri áhættudreifingu, sem þó er fyrir hendi innan greinarinnar, gjörsamlega dauðri."
Sjávarútvegur er sjálfstæð atvinnugrein, en ekki tilraunaleikhús stjórnmálamanna og annarra viðvaninga á sviði fyrirtækjarekstrar. Fiskveiðiauðlindin er eign þjóðarinnar, en stjórnmálamenn seilast um hurð til lokunnar, þegar þeir halda, að þetta gefi þeim heimild til að ráðskast með sjávarútveginn á leiksviði fáránleikans. Þjóðin er ekki lögaðili, en ákvæðið gefur ríkisvaldinu í nafni þjóðarinnar heimild til að stjórna nýtingu auðlindarinnar og gengur auðvitað ekki út yfir eignarrétt útgerðanna og stjórnarskrárvarin atvinnuréttindi.
"Söngurinn er allur sniðinn í kringum þá rómantísku hugmynd, að allir eigi að geta róið til fiskjar og að það sé óheppilegt, að fyrirtækin stækki og eflist. Þar er horft fram hjá þeirri staðreynd, að fyrirtækin keppa á alþjóðavettvangi við fyrirtæki, sem í sumum tilvikum eru stærri en allur íslenzki sjávarútvegurinn til samans. Nær allur afli, sem dreginn er á land við Ísland fer á markaði erlendis, og því eiga samkeppnissjónarmið, sem alla jafna mundu gilda um fyrirtæki á innlendum markaði, ekki við. Hvert er annars markmiðið með íslenzkum sjávarútvegi ? Er það ekki að hámarka verðmætin, sem sótt eru í greipar Ægis ?"
Þetta er mergurinn málsins. Alls konar sótraftar eru á sjó dregnir með skoðanir á þessari atvinnugrein, og sameiginlegt málflutningi þeirra er tvennt: atvinnugreinin sé óalandi og óferjandi eins og hún er rekin núna, og stjórnmálamenn (Alþingi og ríkisstjórn) verði að gjörbreyta leikreglunum. Hugmyndafræði þessa svartagallsrauss rekstrarviðvaninga og loddara er öll því markinu brennd, að rekstrarlegur og þjóðhagslegur arður sjávarútvegsins mun minnka, verði reynt að framfylgja hugmyndafræði þeirra.
Það er rangt, sem haldið er fram, að mikil samþjöppun sé í íslenzkum sjávarútvegi, hvort sem litið er til samanburðar við aðrar íslenzkar atvinnugreinar eða til erlendra samkeppnisaðila, eins og Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins ehf og sjávarútvegsfræðingur, sýndi fram á í grein í Morgunblaðinu 14.07.2022. Samkeppnisstofnun, sem er á góðri leið með að eyðileggja tæplega mrdISK 80 viðskipti Símans með Mílu, fer í geitarhús að leita ullar vegna kaupsamnings Síldarvinnslunnar við Vísi í Grindavík. Eftirlitsiðnaðurinn hérlendis gín yfir þáttum, sem honum kemur ekki við og sem hann ræður illa við í þokkabót.
"Myndi þetta sama fólk, sem sífellt talar öflugan sjávarútveg niður, tala fyrir því, að Marel yrði klofið upp í margar smáar einingar, sem gætu svo keppt sín á milli, en þó í baráttu við alþjóðlega risa, sem ættu auðvelt með að ryðja þeim öllum út af markaðinum ?"
Munurinn er sá, að það eru engir beturvitar áberandi um þessa grein iðnaðar, en það er hins vegar enginn hörgull á skrýtnum og fjandsamlegum hugdettum beturvita um íslenzka sjávarútveginn. Þeir eru með sérvizkuhugmyndir, sem ekki væru taldar gjaldgengar í neinu öðru landi.
Hvernig á að ákvarða hámark aflahlutdeildar, s.k. kvótaþak ? Eðlilegast er að hafa hliðsjón af þróun þeirra mála í samkeppnislöndum sjávarútvegsins. Sé það skoðað, kemur í ljós, að kvótaþakið hér hefur setið eftir, sérstaklega í þorskinum, þar sem það er aðeins 12 % hér, en t.d. um 25 % í Noregi. Hið tiltölulega lága kvótaþak hérlendis er farið að standa íslenzkum útgerðarfélögum fyrir þrifum og hefur e.t.v. ýtt undir krosseignatengsl þeirra á milli.
Í lok greinar sinnar skrifaði Stefán E. Stefánsson:
"Nákvæmlega sömu sjónarmið eiga við um íslenzku sjávarútvegsfyrirtækin. Eftir því sem þeim fækkar og þau eflast að innri styrk, því betur mun íslenzkt þjóðarbú standa. Úrtölufólkinu finnst ekki gaman að heyra þetta. Raunar þolir það alls ekki að horfast í augu við þessa staðreynd. En svona er það nú samt."
Þetta er hárrétt hjá höfundinum, en hvers vegna ? Það vefst fyrir "úrtölufólkinu", en er samt sára einfalt, og í stuttu máli er aðallega um að ræða hagkvæmni stærðarinnar. Kostnaður útgerðanna á hvert veitt tonn fer lækkandi með aukinni stærð þeirra og þar með verður framlegð þeirra meiri, og þau geta þá aukið framleiðni sína með fjárfestingum í nýrri tækni án eða með lítilli skuldsetningu. Afleiðingin verður betri aðbúnaður sjómanna um borð og hærri tekjur þeirra með auknum afla á skip. Jafnframt eykst hagnaður fyrirtækjanna og þar með skattstofninn og arðgreiðslur, sem er allra hagur, ekki sízt eigendum hlutafjárins, sem fjármagna fyrirtækin, t.d. lífeyrissjóða í tilviki almenningshlutafélaga á borð við Síldarvinnsluna á Neskaupstað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)