Færsluflokkur: Bloggar
18.7.2022 | 09:55
Finnlandisering í Evrópu er liðin tíð
Dr Otto von Habsburg (1912-2011) vakti athygli á því í ræðu árið 2003, að Vladimir Putin, þá nýskipaður arftaki verkfræðingsins Borisar Jeltsin á forsetastóli Rússlands, hefði í ræðu í Minsk í Hvíta-Rússlandi (Belarus) árið 2000 viðrað hugmyndir sínar um endurheimt nýlendna Rússlands í Evrópu, en útþenslukeisarar Rússlands höfðu gert Úkraínu, Eystrasaltslöndin, Finnland, Pólland o.fl. lönd að nýlendum Rússlands. Þessi kaldrifjaði og einræðissinnaði nýi forseti, þá undir sýndarmerkjum lýðræðis, en nú einvaldur til æviloka, vissi, að hann yrði að beita hervaldi til að framkvæma hugmyndafræði sína, en í svívirðilegri innrás í Úkraínu 24. febrúar 2022, misreiknaði þessi ógnarstjórnandi sig herfilega. Hann ímyndaði sér, að úkraínski herinn myndi lyppast niður og leggja niður vopn og að Vesturveldin myndu líka lyppast niður og samþykkja innlimun Úkraínu á nýjan leik. Ef menn af gamla Kaldastríðsskólanum á borð við Henry Kissinger, bundnir í þrælaviðjar áhrifasvæða stórvelda, Finnlandiseringu, hefðu mátt ráða, hefði svo vafalítið orðið, en ofan á urðu réttmæt sjónarmið að alþjóðalögum um, að ekkert ríki mætti komast upp með það að beita fullvalda nágrannaríki sitt hervaldi. Putin er ofbeldismaður, sem hættir ekki fyrr en hann er stöðvaður, nákvæmlega eins og Adolf Hitler. Þess vegna ber höfuðnauðsyn til að reka rússneska herinn út úr Úkraínu, þ.m.t. Krímskaga.
Umsóknir Finnlands og Svíþjóðar um NATO-aðild eru kjaftshögg á granir Kremlarherranna, sem reyndu að réttlæta óverjanlega ákvörðun sína um innrás í Úkraínu með því, að þar með væru þeir að koma í veg fyrir að fá NATO upp að vesturlandamærum sínum. Nú hafa yfirgangssamir og ósvífnir Kremlarherrar orðið að kyngja því, að handan 1300 km landamæra við Finnland verður NATO-ríki með einn öflugasta her í Evrópu og öflugasta stórskotaliðið.
Hortugar og ógnandi yfirlýsingar þeirra um, að innganga Úkraínu í NATO mundi hafa hernaðarlegar afleiðingar, eru aðeins skálkaskjól nýlenduherra í landvinningahug. Þeim stendur engin ógn af varnarbandalaginu NATO, og þeir eiga alls ekki að ráða ákvörðunum fullvalda nágranna sinna um utanríkis- og varnarmál. Það er kominn tími til að vinda ofan af þeirri vitleysu, að þessir grimmlyndu og gjörspilltu stjórnendur Rússlands hafi einhver áhrif á það, hvernig aðrar þjóðir í Evrópu haga sínum málum, enda hefur styrkur Rússlands verið stórlega ofmetinn hingað til, og Rússland hefur nú beðið siðferðislegt skipbrot og bíður vist í skammarkróki heimsins.
Rússlandsforseti hefur haldið því fram, að stækkun NATO til austurs, að þrábeiðni þjóðanna þar eftir fall Ráðstjórnarríkjanna, sé brot á samkomulagi, sem James Baker, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi gefið Ráðstjórnarríkjunum í febrúar 1990. Margir stjórnmálamenn og stjórnmálaskýrendur á Vesturlöndum átu það upp eftir Kremlarherrum, að stækkun NATO til austurs væri óskynsamleg, af því að Rússum stæði ógn af slíku. Angela Merkel fór illu heilli fyrir þessum sjónarmiðum á NATO-fundi 2008, þar sem umsókn Úkraínu var til umfjöllunar og knúði Bandaríkin til undanhalds um þetta. Undirlægjuháttur hennar gagnvart Rússlandi reið ekki við einteyming.
Ef innganga Úkraínu hefði verið samþykkt, hefði Úkraínumönnum verið hlíft við þeim hörmungum, sem síðan hafa á þeim dunið fyrir tilverknað glæpsamlegra afla í Rússlandi. "Partnership for Peace" eða bandalag við NATO um frið veitir þjóðum ekki öryggistryggingu í viðsjárverðum heimi, og þess vegna sóttu Svíar og Finnar um inngöngu.
Þessi málatilbúnaður Rússa um samkomulag við Baker 1990 er að engu hafandi, enda finnst ekkert skriflegt um það. Orð Bakers áttu ekki við löndin í Austur-Evrópu, heldur var hann að tala um Austur-Þýzkaland, og við Endursameiningu Þýzkalands áttu þau ekki við lengur. Eftir upplausn Varsjárbandalagsins um 18 mánuðum eftir að orð Bakers féllu, hrundu forsendur þeirra.
Samkomulag á milli NATO og Rússlands var undirritað árið 1997, og þar voru engar hömlur lagðar á ný aðildarríki NATO, þótt stækkun hefði verið rædd þá þegar. Tékkland, Ungverjaland og Pólland gengu í NATO u.þ.b. 2 árum seinna. Samkomulagið, sem hefur verið brotið í þessu samhengi, er loforð Rússlands gagnvart Úkraínu frá 1994 (Búdapest-samkomulagið) um að beita Úkraínu hvorki efnahagsþvingunum né hernaðaraðgerðum. Samkvæmt þessu samkomulagi Úkraínumanna, Rússa og Breta afhenti Úkraína Rússlandi kjarnorkuvopnin, sem hún erfði frá Ráðstjórnarríkjunum.
NATO á fullan rétt á að stækka. Skárra væri það nú. Samkvæmt lokaútgáfu Helsinki-samningsins 1975, sem var m.a. undirritaður af hálfu Ráðstjórnarríkjanna, er ríkjum frjálst að velja sér bandamenn. Varsjárbandalagsríkin þjáðust mjög undir rússnesku ráðstjórninni. Hvers vegna skyldu aðildarríkin ekki leita skjóls gagnvart ríki, sem þau þekkja af grimmilegri kúgun ?
Í mörg ár töldu Finnar og Svíar hagsmunum sínum betur borgið utan NATO. Þetta breyttist, þegar þessi ríki horfðu upp á algert virðingarleysi Rússlands gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum og lögum 24. febrúar 2022. Eitt af mörgum grundvallarmálum, sem nú eru í húfi í Úkraínu, er réttur fullvalda ríkja til að ákvarða sjálf örlög sín.
Var stækkun NATO til austurs viturleg ráðstöfun ? Hún hefur hingað til tryggt öryggi þessara ríkja, sem augljóslega hefði verið í uppnámi annars samkvæmt reynslunni frá 24. febrúar 2022. Þannig var hún viturleg ráðstöfun, og að sama skapi hefði átt að skella skollaeyrum við geltinu úr Kreml 2008 og verða við ósk Úkraínu um aðild. Sífelld friðþæging Þýzkalands og Frakklands með því að henda beinum í Kremlarhundinn var óábyrg og skammsýn. Rússar láta eins og þeir hafi ástæðu til að óttast árás að fyrra bragði frá NATO, en það er helber áróður, og stækkun NATO breytir því ekki. Kaldrifjaður Putin hefur ýtt undir rússneska þjóðerniskennd og notað rétttrúnaðarkirkjuna til að efla völd sín. Hún hefur nú lýst stríð Rússlands í Úkraínu heilagt, hvorki meira né minna, enda fá Rússar að heyra, að þar stundi rússneski herinn afnazistavæðingu, sem er eitthvert vitlausasta áróðursbragð, sem heyrzt hefur frá nokkrum einræðisherra um langa hríð.
Meintar ógnanir við rússneskumælandi fólk handan landamæranna voru skálkaskjól Putins fyrir innrásinni í Georgíu 2008 og í Úkraínu 2014. Merkja menn ekki sömu klóförin hér og í Súdetahéruðum Tékkóslavikíu 1938 og í Póllandi 1939 (Danzig-hliðið og Slésía). Í báðum tilvikum höfðu stórveldi misst spón úr aski sínum og leituðust við með ólögmætum hætti að rétta hlut sinn. Í ljós hefur komið, að Wehrmacht var þó miklu öflugri en þessi Rússaher við framkvæmd skipana alræðisherrans.
NATO var ekki annar orsakavaldur í þessu sjónarspili nú en sá að veita Austur-Evrópuríkjunum, sem í það gengu, skjól gagnvart árásargirni risans í austri. Hið eina, sem stöðvar villimennina, sem þar hafa hrifsað til sín völdin með fláræði, er samstaða og einarður viðnámsþróttur Vesturveldanna og heilsteyptur stuðningur við Úkraínu á öllum sviðum.
Finnar og Svíar nutu Bandalags um frið (Partnership for Peace) við NATO, en treystu ekki lengur á, að það dygði þeim til öryggis eftir 24. febrúar 2022. Nú liggur í augum uppi, að hefði NATO hafnað aðildarbeiðnum fyrrverandi Varsjárbandalagsríkja, mundi hafa myndazt öryggislegt tómarúm í Austur-Evrópu vestan Úkraínu, sem hefði freistað Rússa að fylla. Finnland og Svíþjóð komust að réttri niðurstöðu um það, að Rússlandsforsetinn Putin er hættulegur og ófyrirsjáanlegur - ekki vegna NATO, heldur þess, hvernig hann stjórnar Rússlandi. Umsókn þeirra ætti að samþykkja við fyrsta mögulega tækifæri, enda mun aðild þeirra styrkja NATO, einkum á Eystrasalti, við varnir Eystrasaltsríkjanna og á norðurvængnum almennt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2022 | 10:13
Dregur til tíðinda í orkumálum Evrópu ?
Klukkan 0400 að morgni 11. júlí 2022 var lokað fyrir Nordstream 1 jarðefnaeldsneytis gaslögnina frá Rússlandi (Síberíu) til Evrópu vegna viðhalds. Þar með minnkaði gasflæðið umtalsvert til Vesturveldanna, t.d. um þriðjung til Ítalíu. Þar með verða þau að ganga á forða, sem þau voru að safna til vetrarins. Þau óttast, að Rússar muni ekki opna aftur fyrir flæðið 21. júlí 2022, eins og þó er ráðgert. Næsti vetur verður þungbær íbúum í Evrópu vestan Rússlands, ef vetrarhörkur verða.
Þegar miskunnarlaust árásareðli rússneska bjarnarins varð lýðum ljós 24.02.2022, rann um leið upp fyrir Þjóðverjum og öðrum, hvílíkt ábyrgðarleysi og pólitísk blinda einkenndi kanzlaratíð Angelu Merkel, sem bar höfuðábyrgð á því, að Þjóðverjar o.fl. Evrópuþjóðir urðu svo háðir Rússum um afhendingu á eldsneytisgasi sem raun ber vitni (allt að 50 % gasþarfarinnar kom frá Rússum). Þjóðverjar máttu vita, hvaða hætta þeim var búin, með því að atvinnulíf þeirra og heimili yrðu upp á náð og miskunn kaldrifjaðs KGB-foringja komin, sem þegar í ræðu árið 2000 gerði grein fyrir fyrirætlunum sínum um stórsókn Rússlands til vesturs í anda keisara á borð við Pétur, mikla, og keisaraynjuna Katrínu, miklu.
Otto von Habsburg, 1912-2011, gerði grein fyrir þessu í ræðu árið 2003, sem nálgast má í athugasemd 3 við pistilinn "Þrengist í búi", 09.07.2022.
Björn Bjarnason, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, ritaði markverða grein á umræðuvettvangi Morgunblaðsins laugardaginn 9. júlí 2022, enda má segja, að orkumálin hafi nú bein áhrif á framvindu sögunnar. Greinin bar fyrirsögnina:
"Kjarnorka, gas og jarðvarmi".
Hún hófst þannig:
"Á þingi Evrópusambandsins voru miðvikudaginn 6. júlí [2022] greidd atkvæði um mikið hitamál. Meirihluti þingmanna (328:278 - 33 sátu hjá) samþykkti umdeilda tillögu um að skilgreina fjárfestingar í kjarnorkuverum og nýtingu á gasi sem "sjálfbærar"."
Þetta eru stórtíðindi og vitna um öngþveitið, sem nú ríkir í orkumálum ESB. Samkvæmt skilgreiningu á sjálfbærri orkuvinnslu má hún ekki fela sér, að líf næstu kynslóða verði hættulegra eða erfiðara á nokkurn hátt. Þessu er ekki hægt að halda fram um raforkuvinnslu í kjarnorkuverum, sem nýta geislavirka klofnun úrans. Þótt geislavirka úrganginn megi nota aftur til raforkuvinnslu í sama kjarnorkuveri, verður samt að lokum til geislavirkur úrgangur í aldaraðir, sem engin góð geymsla er til fyrir.
Bruni jarðgass við raforkuvinnslu eða upphitun felur í sér myndun CO2-koltvíildis, sem er s.k. gróðurhúsalofttegund, sem margir telja valda hlýnun andrúmslofts jarðar.
Þetta er augsýnilega neyðarúrræði ó orkuskorti, samþykkt til höfuðs kolum og olíu, sem menga meira og valda meiri losun CO2 á varmaeiningu.
Úr því að fjárfesting í kjarnorku er orðin græn í ESB, hlýtur núverandi kjarnorkuverum í ESB að verða leyft að ganga út sinn tæknilega endingartíma, og þar með verða dregið úr tjóni flaustursins í Merkel. Þetta varpar ljósi á glapræði þeirrar fljótfærnislegu ákvörðunar Angelu Merkel 2011 að loka þýzkum kjarnorkuverum fyrir tímann og í síðasta lagi 2022. Um það skrifaði Björn:
"Þegar kjarnorkuslysið varð í Fukushima í Japan fyrir 11 árum, ákvað Angela Merkel, þáv. Þýzkalandskanzlari, á "einni nóttu" að loka þýzkum kjarnorkuverum. Við það urðu Þjóðverjar verulega háðir orkugjöfum frá Rússlandi. Reynist það nú hættulegt öryggi þeirra og Evrópuþjóða almennt. Í aðdraganda stríðsins hækkaði orkuverð í Evrópu [og] nær nú hæstu hæðum."
Með þessari fljótræðisákvörðun, sem kanzlarinn keyrði í tilfinningalegu uppnámi í gegnum Bundestag, sem fundar í þinghúsinu Reichstag í Berlín, spilaði hún kjörstöðu upp í hendur miskunnarlauss Kremlarforseta, sem þá þegar var með stríðsaðgerðir í Evrópu á prjónunum, eins og Otto von Habsburg sýndi fram á, og hugði gott til glóðarinnar að kúga (blackmail") Evrópuríkin til undirgefni með orkuþurrð, þegar hann léti til skarar skríða með sína landvinninga.
Þetta er eins konar Finnlandisering þess hluta Evrópu, sem háðastur er jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi. Afleiðingar af óeðlilegu pólitísku daðri austur-þýzku prestsdótturinnar við hinn grimma KGB-foringja í Dresden, sem ábyrgur er fyrir böðulshætti Rússahers í Úkraínu, eru m.a. þær í Þýzkalandi núna, að Þjóðverjar hvetja Kanadamenn til að senda Siemens-gashverfil úr Nordstream 1 úr viðgerð og til sín, og þýzkum almenningi er nú sagt, að fjarvarmaveitur geti ekki hitað ofnana á heimilum hans upp í hærra hitastig en 17°C í vetur.
Orkufyrirtæki með samninga um fast verð við sína viðskiptavini riða nú til falls, og ESB hefur veitt undanþágu frá reglum um fjárhagslegt inngrip ríkisins á orkumarkaði til stuðnings heimilum og fyrirtækjum.
Í Japan eru nú aðeins um 10 % orkunotkunarinnar úr innlendum orkugjöfum að meðtöldum kjarnorkuverum í rekstri, og þrátt fyrir að Japanseyjar séu fjöllóttar með vatnsföll og jarðhita. Hvað skrifaði Björn um Japan ?:
"Í Japan var ákveðið eftir atburðina í Fukushima [2011] að minnka stig af stigi hlut kjarnorku sem raforkugjafa. Nú standa Japanir hins vegar í þeim sporum, að óvissa ríkir um aðgang að jarðefnaeldsneyti, og orkuverð sligar efnahaginn. Vegna kosninga til efri deildar japanska þingsins hefur verið tekizt á um, hvort virkja eigi að nýju kjarnorkuver, sem staðið hafa verkefnalaus [síðan 2011]. Í kosningunum á morgun, 10. júlí [2022], er lagt í hendur kjósenda að breyta japanskri orkustefnu. Við kjósendum blasir sú staðreynd, að orkuframleiðsla Japana sjálfra stendur aðeins undir 10 % af orkuneyzlu þeirra. Stórátak er nauðsynlegt til að auka orkuöryggið."
Sjálfsagt er löngu runnið upp fyrir japönskum almenningi, að viðbrögðin við umræddu Fukushima slysi voru yfirdrifin og aðeins örfá dauðsfallanna vegna geislunar, en hin vegna flóða og óðagots, sem greip um sig. Þess vegna er litlum vafa undirorpið, að íbúarnir munu verða alls hugar fegnir að fá raforku frá nú ónotuðum kjarnorkuverum á lægra verði en nú býðst.
Flutningaskipum með LNG (jarðgas á vökvaformi) hefur undanfarna mánuði verið beint frá Asíu til Evrópu, af því að í Evrópu er hæsta orkuverð í heimi um þessar mundir. Lánið leikur ekki við Þjóðverja að þessu leyti heldur, því að þeir eiga enga móttökustöð í sínum höfnum fyrir LNG og munu ekki eignast slíkar fyrr en 2024, þótt þeir hafi nú stytt leyfisveitingaferlið til muna. Mættu íslenzk yfirvöld líta til afnáms Þjóðverja á "rauða dreglinum" í þessu sambandi.
Þessu tengt skrifaði Björn:
"Þegar litið er til þessarar þróunar [orkumála á Íslandi] allrar, sést, hve mikilvægt er í stóru samhengi hlutanna að festast ekki hér á landi í deilum, sem verða vegna sérsjónarmiða Landverndar og annarra, sem leggjast gegn því, að gerðar séu áætlanir um virkjun sjálfbærra, endurnýjanlegra orkugjafa, sem enginn getur efast um, að séu grænir."
Höfundur þessa pistils hér er sama sinnis og Björn um fánýti þess að ræða íslenzk orkumál á forsendum Landverndar. Svo fráleit afturhaldsviðhorf, sem þar eru ríkjandi, eru að engu hafandi, enda mundi það leiða þjóðina til mikils ófarnaðar að fylgja þeim eftir í reynd. Tólfunum kastaði, þegar Landvernd lagði það til í alvöru að draga úr rafmagnssölu til iðnaðarfyrirtækja með langtímasamninga um allt að 50 % til að skapa svigrúm fyrir orkuskiptin hérlendis. Sönn umhverfisverndarsamtök leggja ekki fram slíka tillögu. Hins vegar gera þeir það, sem færa vilja neyzlustig hér, og þar með lífskjör, aftur um áratugi og koma síðan á stöðnun. Þetta eru s.k. núllvaxtarsinnar, sem spruttu fram í kjölfar bókarinnar "Endimörk vaxtar" á 7. áratugi 20. aldar.
Grein sinni lauk Björn Bjarnason þannig:
"Hér er almennt of lítil áherzla lögð á að efla samstarf opinberra aðila og einkafyrirtækja til að efla grunnstoðir samfélagsins. Við setningu opinberra reglna, eins og nú innan ESB vegna grænna fjárfestinga í kjarnorku og við nýtingu á gasi, eru aldrei allir á einu máli. Skrefin verður þó að stíga og fylgja þeim fastar eftir við aðstæður, eins og myndazt hafa vegna stríðs Pútíns í Úkraínu.
Augljóst er, að ekki er eftir neinu að bíða við töku ákvarðana, sem búa í haginn fyrir stóraukna nýtingu íslenzks jarðvarma. Jafnframt er óhjákvæmilegt að virkja vatnsafl af miklum þunga."
Þarna er á ferðinni snjall samanburður á aðstæðum við ákvarðanatöku um orkumál á tímamótum í ESB og á Íslandi. Þeir, sem um orkumál véla í ESB eru ekki svo skyni skroppnir að skilja ekki, að hvorki jarðgas né geislavirka úraníum samsætan í hefðbundnum kjarnorkuverum eru sjálfbærar og algrænar orkulindir. Þetta eru ósjálfbærar orkulindir, þar sem kjarnorkan að vísu veldur engri losun gróðurhúsalofttegunda, og jarðgasið aðeins minni losun og minni loftmengun en olía og kol.
Í sama anda verða þeir Íslendingar, sem um orkumálin véla, að vinna á þessum alvarlegu tímum. Allar virkjanir náttúrulegra orkulinda hafa einhverjar breytingar í för með sér á virkjunarstað, og það þarf að leiða raforkuna af virkjunarstað og til notenda, en sé þess gætt að nota beztu fáanlegu tækni (BAT=Best Available Technology) við hönnun og framkvæmd verksins og ef framkvæmdin er að auki afturkræf, þá verður umhverfislegi, fjárhagslegi, samfélagslegi og þjóðhagslegi ávinningurinn nánast örugglegi mun meiri en meint tjón af framkvæmdunum. Það er nauðsynlegt, að almenningur, þingheimur, stjórnkerfið og orkugeirinn geri sér grein fyrir þessari raunverulegu stöðu orkumálanna hið fyrsta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2022 | 10:30
Orðagjálfur um samkeppnishæfni dugar skammt
Það er rétt, að íslenzkar orkulindir eru samkeppnishæfar sem stendur í alþjóðlegu samhengi, en enginn veit, hversu lengi það varir, og það er auðvitað ekki hægt að tala um, að vara eða þjónusta, hér rafmagn, sem verður fyrst til reiðu eftir 5 ár, sé samkeppnishæf. Sinnuleysi orkufyrirtækja og seinagangur yfirvalda og Alþingis í þessum efnum veldur því, að Ísland getur ekki nú þegar tekið þátt í lífsnauðsynlegum umskiptum úr jarðefnaeldsneyti í rafeldsneyti. Eftir 5 ár, þegar Íslendingar fyrst losna út úr klaufalegri skortstöðu á raforku, gæti nýr og vinsæll orkugjafi verið orðinn tiltækur í fjöldaframleiðslu og þar með samkeppnishæfur við íslenzkar orkulindir. Það er vel þekkt, að í ófremdarástandi verður tækniþróun hröð. Má nefna þóríum kjarnorkuver, stór og lítil, sem skilja eftir sig mun minna geislavirkan úrgang með helmingnartíma, sem telst í áratugum, en ekki árhundruðum eða árþúsundum.
Staksteinar Morgunblaðsins 9. júlí 2022 hittu naglann á höfuðið, eins og fyrri daginn, nú undir fyrirsögninni:
"Ónýtt tækifæri".
Þeir hófust þannig:
"Ísland fylgir sem betur fer ekki jafnvitlausri orkustefnu og löndin á meginlandi Evrópu, sem eru búin að koma sér í mikil vandræði með því að elta öfgafull sjónarmið af ýmsu tagi. Þessar þjóðir eru farnar að gjalda orkustefnuna dýru verði, en þó að Ísland standi betur, hefur það ekki alveg sloppið."
Einkenni á orkustefnu landanna, sem þarna er átt við, er, að þau hafa framselt hluta af sjálfsákvörðunarrétti sínum á sviði orkumála til Evrópusambandsins, ESB. Megininntak orkustefnu ESB er að samtengja orkuflutningskerfi aðildarlandanna með öflugum hætti og að samræma orkustefnur landanna til að búa til samræmdan orkumarkað með jarðgas og rafmagn, sem stjórnað er af ACER-Orkuskrifstofu ESB. Ekki verður séð, að markvert gagn hafi hlotizt af þessu brambolti fyrir aðildarríkin, nú þegar harðnar á dalnum. Orkuskortur hefur leitt til svimandi orkuverðshækkana til heimila og fyrirtækja, þótt ríkisstjórnir hafi varið tugmilljörðum EUR til niðurgreiðslna.
Uppboðsmarkaður orku, sem ESB fyrirskrifar í orkulöggjöf sinni, verður að skrípaleik við þessar aðstæður. Nú vill svo illa til, að EFTA-ríkin í EES glöptust á að innleiða hjá sér þessa orkulöggjöf við gjörólíkar aðstæður þeim, sem ríkja á meginlandinu. Undir umsjón Orkustofnunar hefur Landsnet nú tilkynnt, að fyrirtækið vinni að og sé langt komið með undirbúning innleiðingar á orkukauphöll fyir heildsölumarkað raforku á Íslandi. Við þær skortaðstæður, sem búið er að koma upp á íslenzka raforkumarkaðinum, liggur í augum uppi til hvers þetta feigðarflan mun leiða fyrir neytendur hérlendis.
"Hér hefur of lítið verið virkjað á síðustu árum vegna þess, að of auðvelt er að þvælast fyrir virkjanaáformum eða öðrum framkvæmdum alveg óháð því, hvort þær framkvæmdir hafa verulega skaðleg áhrif á náttúruna eða ekki."
Þetta er hárrétt, og nú hefur Orkustofnun bætzt við dragbítaflokkinn af öllum stofnunum, því að afgreiðsla hennar á umsóknum virkjanafyrirtækja um virkjunarleyfi hefur dregizt úr hömlu, eftir að nýr Orkumálastjóri fór að setja mark sitt á verkefnastjórnina þar. Orkumálastofnun hefur misst sjónar á hlutverki sínu, sem er að leggja faglegt mat á tillögu virkjunarfyrirtækis um virkjunartilhögun. Þetta snýst m.a. um það að meta, hvort bezta tækni sé nýtt við að virkja aflið á virkjunarstað með hliðsjón af lágmarks raski á þeirri náttúru, sem er undir. Stofnunin á að gera þetta sjálf, en ekki að hlaupa út um allar koppagrundir til að leita umsagna. Það er hlutverk annarra.
Athygli vekur, að núverandi Orkumálastjóri virðist vera upptekin af því í hvað orkan fer. Það kemur henni ekki við. Samkvæmt orkulöggjöfinni, sem hún á að standa vörð um, ræður markaðurinn því. Það er ennfremur rangt hjá henni að halda því fram, að "endalaus" spurn sé eftir íslenzkri grænni orku. Svo er alls ekki, enda væri raforkuverð á Íslandi þá í hæstu hæðum. Alvörueftirspurn er takmörkuð með verðlagningunni. Þegar Orkumálastjóri virðist vilja beina nýrri orku einvörðungu í orkuskiptin, er um forræðishyggju að ræða hjá Orkustofnun, sem á ekki heima þar undir núverandi löggjöf, enda virðist hún alveg gleyma því, að atvinnulífið allt þarf meiri orku til að halda uppi atvinnustigi, bættum lífskjörum og sífellt dýrara heilbrigðis- og velferðarkerfi hins opinbera.
"Þetta hefur orðið til þess, að orkuskortur hefur gert vart við sig, sem er með ólíkindum í landi fullu af orku, og nú er svo komið, að við getum ekki nýtt þau tækifæri, sem standa til boða við að skapa meiri tekjur fyrir þjóðarbúið."
Þetta er hverju orði sannara hjá þeim, sem handfjallaði staka steina í þetta skiptið, en svo er helzt að skilja á Orkumálastjóra, að hún sé ekki sama sinnis, af því að ekki hafi enn komið til rafmagnsskömmtunar á heimilum. Forstjóri Landsvirkjunar hefur þó viðurkennt, að raforkukerfið sé þanið til hins ýtrasta, og það er auðvitað alger falleinkunn á framkvæmd orkustefnunnar, sem síðasta ríkisstjórn fékk samþykkta, því að á sama tíma eru 5 ár í, að næsta virkjun fyrirtækisins komist í gagnið.
Framkvæmd kerfisáætlana á að vera þannig, þar sem vel er haldið á málum, að fullnýting aflgetu kerfis og gangsetning nýrrar virkjunar, 35 MW eða stærri, beri upp á sama tíma. Hvernig í ósköpunum má það vera, að Orkumálastjóri komist upp með það við þessar aðstæður að stinga hausnum í sandinn og láta sem ekkert sé ?
Í baksviðsfrétt Morgunblaðsins 9. júlí 2022 undir fyrirsögninni:
"Ísland í kjörstöðu á orkumarkaði",
er viðtal við Pál Erland og hófst þannig:
"Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, segir sterka samkeppnisstöðu íslenzkra orkufyrirtækja um þessar mundir skapa tækifæri til að laða hingað viðskiptavini, sem nýta græna orku til verðmætasköpunar.
"Við Íslendingar þurfum áfram að nýta ýmis tækifæri, sem okkur bjóðast til gjaldeyrissköpunar til að halda uppi lífskjörum á Íslandi. Jafnframt þurfum við að eiga orku í orkuskiptin til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum í loftslagsmálum, sem að er stefnt", segir Páll. Skýrt samhengi er [á] milli orkuframboðs og hagvaxtar á Íslandi."
Það er til lítils að fjölyrða um sterka samkeppnisstöðu íslenzkra orkufyrirtækja, þegar þau eiga enga nýja orku til að selja. Hvað verður, ef/þegar þau eignast raforku til að selja nýjum viðskiptavinum, veit enginn, því að bæði er óvíst um kostnað þeirrar raforku og verðið, sem þá mun bjóðast í öðrum löndum. Með töfum hér innanlands hafa dragbítar framfara valdið töfum á orkuskiptum og valdið efnahagslegu tjóni, sem kemur niður á lífskjörum landsmanna. Orkugeirinn er varla nógu beittur til að fást við ormana, sem búnir eru að grafa um sig.
"Haft var eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í Morgunblaðinu í gær [08.07.2022], að fyrirtækið geti ekki annað eftirspurn eftir orku. Varðandi hækkandi raforkuverð beggja vegna Atlantshafsins benti Hörður á, að hagkerfin hefðu farið skarpt af stað, eftir að faraldrinum lauk, og að það ætti, ásamt örvandi efnahagsaðgerðum og innrás Rússa í Úkraínu, þátt í hækkunum á orkumarkaði."
Sú staðreynd, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun situr uppi með 2 hendur tómar (og báðar í skauti) og mun halda því áfram næstu árin, þegar kemur að nýjum viðskiptasamningum við raforkukaupendur, sem eru fúsir til að greiða uppsett verð fyrir raforkuna, og eru t.d. í matvælaframleiðslu eða í starfsemi, sem tengist orkuskiptum, er reginhneyksli á tímum, þegar heimurinn glímir við mjög alvarlegan orkuskort. Þessi staða sýnir grafalvarlega brotalöm í orkulöggjöfinni og stofnanir ríkisins, sem við sögu koma til að hindra ófremdarástand af þessu tagi, í fyrstu atrennu Orkustofnun, gera aðeins illt verra. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur verk að vinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.7.2022 | 14:11
Þrengist í búi
Það hefur vakið athygli í fyrirlitlegum og glæpsamlegum landvinningahernaði Rússa í Úkraínu, hversu frumstæð, illa skipulögð og mistakagjörn hervél Rússa er í baráttunni við mun fámennari her hraustra og hugrakkra Úkraínumanna, sem fram að þessu hefur skort þungavopn. Hið síðast nefnda stendur nú til bóta vegna síðbúinna vopnasendinga Vesturveldanna. Úkraínumönnum berast nú vopn, sem hermenn þeirra hafa hlotið þjálfun á, og vonir standa til, að í krafti þeirra muni Úkraínumönnum verða vel ágengt í gagnsóknum með haustinu (2022).
Stórbokkaháttur og ósvífni forystu Rússlands er með eindæmum í þessu stríði, en nýjasta stóra asnasparkið í þessum efnum kom frá Medvedev, þekktum kjölturakka Putins, í þá veru, að það stappaði nærri geggjun að ætla að saksækja forystu Rússlands, mesta kjarnorkuveldis heims, fyrir stríðsglæpi. Á öllum sviðum hernaðar hefur geta Rússlands hingað til verið stórlega ofmetin. Það hefur opinberazt í stríði þess við Úkraínu. Það er litlum vafa undirorpið, að þetta frumstæða og árásargjarna ríki færi sjálft langverst út úr því að hefja kjarnorkustríð. Það er kominn tími til að jarðsetja það yfirvarp Rússlandsforystunnar og dindla hennar, að Rússum hafi staðið slík ógn af NATO og mögulegri aðild Úkraínu að þessu varnarbandalagi, að þeir hafi séð sig til neydda að hefja innrás í Úkraínu og ekki skirrast við stríðsglæpum og þjóðarmorði þar. Þetta er falsáróður og helbert skálkaskjól heimsvaldasinnaðs og árásargjarns ríkis.
Á einu sviði hefur Rússland kverkatak á Vesturlöndum þrátt fyrir almennan vanmátt, en það er á orkusviðinu, en sú tíð verður vonandi liðin eftir 2 ár. Vesturlönd hafa stöðvað kolakaup af Rússlandi og eru þegar farin að draga úr kaupum á olíuvörum og jarðgasi þaðan og reyna að beina kaupum sínum annað og til lengri tíma að framkvæma orkuskipti, en það er víðast risaátak. Þetta hefur valdið miklum verðhækkunum á jarðefnaeldsneyti á heimsmarkaði, sem, ásamt annarri óáran í heiminum, gæti valdið eftirspurnarsamdrætti og efnahagskreppu af gerðinni "stagflation" eða verðbólgu með samdrætti og stöðnun.
Þetta virðist nú veita þjóðarbúskap Íslendinga högg, sem óhjákvæmilega mun bitna á lífskjörum þjóðarinnar. Ef aðilar vinnumarkaðarins semja ekki um kaup og kjör í haust með hliðsjón af versnandi stöðu þjóðarbúsins, gæti brotizt hér út verðbólgubál, stórhættulegt fyrir atvinnulífið og hag heimilanna.
Tíðindi af þessum umsnúningi til hins verra bárust með Morgunblaðsfrétt 07.07.2022 undir fyrirsögninni:
"Olíuverðið farið að bíta".
Hún hófst þannig:
"Vísbendingar eru um, að viðskiptakjör þjóðarinnar hafi gefið eftir á 2. [árs]fjórðungi [2022] samhliða hækkandi olíuverði. Höfðu þau þó ekki verið jafnhagfelld síðan haustið 2007."
Þótt hlutfall jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun þjóðarinnar sé aðeins um 15 %, vegur kostnaður þess þó þungt við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og á viðskiptajöfnuðinn, einkum þegar þegar svo mikil hækkun verður á eldsneytinu, að það dregur úr kaupmætti almennings og framleiðslugetu fyrirtækja á meðal þjóða, þar sem hlutdeild jarðefnaeldsneytis í heildarorkunotkun er yfir 2/3, eins og víðast er, eða jafnvel 85 %, og slíkt á við um ýmsar viðskiptaþjóðir okkar. Frá ársbyrjun 2022 til 06.07.2022 hefur verð Norðursjávarolíu hækkað úr 75 USD/tunna í 114 USD/tunna eða um 52 %. Íslendingar eru þó í þeirri kjörstöðu að geta dregið úr þessum sveiflum viðskiptakjara, en þó með töfum vegna fyrirhyggjuleysis við orkuöflun, eins og minnzt verður á hér á eftir.
""Fiskverð sem hlutfall af hráolíuverði hefur lækkað verulega á einu ári eða um rúm 30 %. Svipaða sögu er að segja af álverði, en lækkunin er ekki jafnmikil vegna hás álverðs. Bæði álverðið og olíuverðið eru kauphallarverð, en fiskverðið kemur í grunninn frá Hagstofunni, en mælikvarðinn þar er s.k. verðvísitala sjávarafurða", segir Yngvi [Harðarson hjá Analytica]."
Í þessu tilviki kann að vera um árstíðabundinn öldudal að ræða ásamt leiðréttingu á skammtímatoppi eftir Kófið, en einnig kann að vera um verðlækkun sjávarafurða og áls að ræða vegna minni kaupmáttar neytenda á mörkuðum okkar sakir mikils kostnaðarauka heimila og fyrirtækja af völdum verðhækkana jarðefnaeldsneytis, en verð afurða okkar voru reyndar í hæstu hæðum í vetur eftir lægð Kófsins.
Megnið af eldsneytisnotkun íslenzka sjávarútvegsins er á fiskiskipunum, og hann hefur tæknilega og fjárhagslega burði til að laga vélar sínar að "rafeldsneyti" eða blöndu þess og hefðbundins eldsneytis. Þessa aðlögun geta líka flutningafyrirtækin á landi og sjó framkvæmt, sem flytja afurðirnar á markað, en lengra er í það með loftförin.
Innlent eldsneyti mun draga úr afkomusveiflum sjávarútvegs og þjóðarbús og hjálpa til við að ná loftslagsmarkmiðunum, sem stjórnvöld hafa skuldbundið þjóðina til á alþjóða vettvangi án þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að liðka fyrir orkuöflun virkjanafyrirtækja. Þarna er allt innan seilingar, svo að ekki er eftir neinu að bíða öðru en raforku frá nýjum virkjunum, en hún virðist raunar lítil verða fyrr en e.t.v. 2027. Það er til vanza fyrir landsmenn í landi mikilla óbeizlaðra, hagkvæmra og sjálfbærra orkulinda.
Aðra sögu er að segja af áliðnaðinum. Þar er enn ekkert fast í hendi með að verða óháður kolum, en þau eru notuð í forskaut og bakskaut rafgreiningarkeranna, um 0,5 t/tAl. Morgunblaðið birti 07.07.2022 útreikninga á rekstrarkostnaði álvers Century Aluminium í Hawesville, Kentucky, þar sem raforkuverðið hefur síðan í ársbyrjun 2021 stigið nánast stöðugt úr 25 USD/MWh í 100 USD/MWh í júlíbyrjun 2022. Þetta hefur skiljanlega snúið hagnaði af verksmiðjunni í rekstrartap, svo að þar verður dregið úr framleiðslu og jafnvel lokað. Þannig hefur orkukreppan náð til Bandaríkjanna, a.m.k. sumra ríkja BNA, og er þar með orðin að heimskreppu minnkandi framboðs og eftirspurnar, þar sem svimandi hátt orkuverð kæfir báðar þessar meginhliðar markaðarins.
Þetta sést bezt með því að athuga meginkostnaðarliðina í USD/t Al og bera saman við álver á Íslandi:
- Kentucky Ísland
- Rafmagnskostnaður 1500 600
- Súrálskostnaður 760 800
- Rafskautakostnaður 500 600
- Launakostnaður 200 200
- Flutningur afurða 50 150
- Alls 3010 2350
Markaðsverð LME fyrir hráál er um þessar mundir um 2400 USD/t Al, svo að rekstur íslenzka álversins með hæsta raforkuverðið slyppi fyrir horn, þótt ekkert sérvöruálag (premía) fengist fyrir vöruna, en hún er um þessar mundir um 500 USD/t Al, svo að framlegð er um 550 USD/t Al m.v. núverandi markaðsaðstæður eða tæplega fimmtungur af tekjum fyrir skattgreiðslur. Þarna skilur á milli feigs og ófeigs. Það borgar sig ekki að halda Kentucky-verksmiðjunni í rekstri, nema þar sé kaupskylda á verulegum hluta raforkusamnings, en þar sem raforkuverðið sveiflast eftir stöðu á orkumarkaði, er álverið líklega ekki bundið af kaupskyldu. Þetta sýnir kosti þess fyrir kaupendur og seljendur raforkunnar að hafa langtímasamninga sín á milli, og það kemur líka mun betur út fyrir launþegana og þjóðarhag.
Það er yfirleitt ládeyða á álmörkuðum yfir hásumarið. Nú hafa Kínverjar heldur sótt í sig veðrið aftur við álframleiðslu, en Rússar eru lokaðir frá Evrópumarkaðinum, og álverksmiðjur víða um heim munu draga saman seglin eða þeim verður lokað vegna kæfandi orkuverðs. Þess vegna má búast við hóflegri hækkun álverða á LME, þegar líða tekur á sumarið, upp í 2700-3000 USD/t Al. Það dugar þó ekki téðu Kentucky-álveri til lífs, nema kostnaður þess lækki.
Iðnaðurinn á Íslandi er í tæknilega erfiðari stöðu en sjávarútvegurinn við að losna við losun gróðurhúsalofttegunda. Tilraunir eru í gangi hérlendis með föngun koltvíildis úr kerreyknum, og það eru tilraunir í gangi erlendis með iðnaðarútfærslu með byltingarkennt rafgreiningarferli án kolefnis. Rio Tinto og Alcoa standa saman að tilraunum með nýja hönnun í Kanada, og Rio Tinto á tilraunaverksmiðju í Frakklandi. Þar er að öllum líkindum sams konar tækni á ferðinni og frumkvöðlar á Íslandi hafa verið með á tilraunastofustigi.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), reit stuttan og hnitmiðaðan pistil í Fréttablaðið, 06.07.2022, undir fyrirsögn, sem vitnar um bjartsýni um, að jarðarbúum muni með kostum sínum og göllum takast að komast á stig sjálfbærni áður en yfir lýkur:
"Bætt heilsa jarðar".
Pistlinum lauk undir millifyrirsögninni:
"Aukin orkuöflun í þágu samfélags".
"Eigi þessi framtíðarsýn [Ísland óháð jarðefnaeldsneyti 2040-innsk. BJo] að verða að veruleika, þarf að afla meiri orku á Íslandi og nýta hana betur. Til þess eru mörg tækifæri án þess að ganga um of á náttúruna. Þannig er hægt að nýta gjafir jarðar og njóta þeirra á sama tíma [jafnvel betur en ella vegna bætts aðgengis og fræðslu í stöðvarhúsum nýrra virkjana-innsk. BJo].
Vonandi verður tilefni til að fagna árangri í loftslagsmálum árið 2040. Íslenzkur iðnaður mun ekki láta sitt eftir liggja til að ná settum markmiðum í loftslagsmálum og að skapa aukin verðmæti."
Það er stórkostlegt, að Íslendingar skuli vera í raunhæfri stöðu til að verða nettó-núll-losarar gróðurhúsalofttegunda eftir aðeins 18 ár og auka jafnframt verðmætasköpunina. Eins og orkumál heimsins standa núna (raunverulega enginn sjálfbær, stórtækur frumorkugjafi), eru Íslendingar orkulega í hópi örfárra þjóða í heiminum, en hafa skal í huga, að sitt er hvað gæfa og gjörvileiki. Íslendingar mega ekki láta villa sér sín, þegar kemur að því að velja orkulindir til nýtingar. Það má ekki skjóta sig í fótinn með því að ofmeta fórnarkostnað við vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir og vanmeta samfélagslegan ábata þeirra og hrökklast síðan í neyð sinni í vindorkuveravæðingu, jafnvel úti fyrir ströndu, eins og þjóðir, sem skortir téðar orkulindir náttúrunnar. Tíminn líður, og embættismenn Orkustofnunar draga enn lappirnar við úthlutun sjálfsagðra virkjanaheimilda, og geta vissulega gert landsmönnum ókleift að standa við markmiðið um Ísland óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.7.2022 | 18:41
Landvernd afhjúpuð
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að allt frá útkomu bókarinnar "Limits to Growth" (Endimörk vaxtar) á 7. áratugi 20. aldar, einmitt þegar grundvöllur var lagður að fyrsta meiriháttar virkjanaátaki Íslendinga til að stíga fyrstu umtalsverðu skref til iðnvæðingar í krafti íslenzkra orkulinda, hefur verið við lýði sérlundaður hópur á Vesturlöndum, sem trúir því, að auðlindir jarðar séu að klárast vegna þess, sem þeim finnst vera neyzluæði og kenna að sjálfsögðu auðmagnshagkerfinu um, sem þurfi stöðugan hagvöxt til að þrífast. Þetta þröngsýna viðhorf er reist á fákunnáttu og misskilningi og má alls ekki fá að móta þjóðfélagsþróunina.
Þennan sérvitringahóp hefur dagað uppi, því að ekkert af heimsendaspánum rættist, því að höfundarnir hugsuðu ekki málið til enda. Þeir gleymdu mikilvægum þætti auðmagnshagkerfisins, sem er verðmyndun, en hún er fall af framboði og eftirspurn og mikilvægi vörunnar/þjónustunnar í framleiðslukeðjunni og því, hvort til sé staðkvæmdarvara, sem nota megi í staðinn. Þá þróast ytri aðstæður, t.d. tækni á öllum sviðum, sem lítill gaumur var gefinn í "Endimörkum vaxtar".
Allt hefur þetta leitt til þess, að ekkert þeirra efna, sem spáð var, að yrðu uppurin innan tilgreinds tíma á 20. öldinni, hefur horfið af markaðinum enn. Markaðskraftar ýta í raun undir sjálfbæra auðlindanýtingu, því að hún er hagkvæmust til lengdar. Hringrásarhagkerfið þrífst með vörur, sem ódýrara er að endurvinna en að frumvinna. Gott dæmi um þetta er álið, sem hægt er að vinna aftur og aftur með lítilli rýrnun og tiltölulega lítilli orkunotkun.
Orkulindir Íslands eru fjarri því að vera fullnýttar að teknu tilliti til hófsemi í vernd og nýtingu. Nú hafa verið virkjaðar um 20 TWh/ár í vatnsföllum og jarðgufu til raforkuvinnslu, og hiklaust á með varfærni að vera unnt að bæta a.m.k. 15 TWh/ár við úr sams konar orkulindum. Síðan er spurning, hversu mikið verður ásættanlegt að framleiða með vindmyllum til að anna allri orkueftirspurn um árið 2040, þegar orkuskiptum og kolefnishlutleysi á að verða náð. Þau, sem þá þurfa að velja á milli orkulinda, munu e.t.v. hafa um fleiri kosti að velja en þau, sem nú taka ákvörðun, t.d. þóríum-kjarnorkuver af ýmsum stærðum.
Þau, sem móta stefnuna núna, eru Alþingismenn. Þar er margur sauður í mörgu fé, og spurning, hvort þeir glutra völdunum úr höndum sér með fáfræði og ábyrgðarleysi, t.d. til ACER, orkustofnunar Evrópusambandsins. Reyndar er embættisfærsla æðsta fulltrúa ACER á Íslandi nú um stundir, Orkumálastjóra, alveg afleit, og stærsta dæmið um það er, að Orkustofnun hefur lagzt á umsókn Landsvirkjunar um leyfi til að reisa Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá og tafið afgreiðslu óeðlilega í tæpt ár, en komnir eru um 13 mánuðir síðan stofnunin fékk þessa sjálfsögður umsókn loks í hendur. Þeir eru víða Júmbóarnir og dragbítar embættiskerfisins.
Jónas Elíasson, fyrrverandi verkfræðiprófessor, gerði þingmenn, orkumál og umhverfisvernd að viðfangsefni sínu í Morgunblaðsgrein 30. júní 2022:
"Þingmenn í biðflokki".
Þar gat m.a. að líta þetta:
"Það er alltaf forvitnilegt að fylgjast með umræðum um orku- og umhverfismál á Alþingi. [Það er þó fremur sorglegt en forvitnilegt - innsk. BJo.]. Margir þingmenn nota tækifærið til að belgja sig út í miklum æsingi yfir því, hversu miklir náttúruverndarmenn þeir séu, ekki megi skemma náttúruna fyrir nokkurn mun, "íslenzk náttúra er það dýrmætasta, sem við eigum", sem er satt og rétt, en menn verða að vita, hvað eru náttúruspjöll og hvað ekki, til að geta fylgt þessu eftir."
Sá málflutningur, sem þarna er vitnað til, er endurómur af talsmáta Landverndar og kemur í raun vernd einstakra náttúruminja ekki við, heldur er einfaldlega afturhaldsstefna undir fölsku flaggi rekin af trúflokki, sem trúir því, að til að bjarga jörðunni frá glötun verði að stöðva framleiðsluaukningu á jörðunni og þar með vöxt hagkerfanna, sem þó er undirstaða bættra lífskjara.
Þessu fólki hryllir við aukinni raforkuvinnslu á Íslandi, þótt úr endurnýjanlegum orkulindum sé og engu einstæðu gróðurlendi, landmyndunum eða vatnsföllum sé fórnað fyrir vikið. Þau leggja einfaldlega allar breytingar á náttúrunni af mannavöldum til jafns við óafturvirkt tjón. Þetta ofstækisviðhorf gengur auðvitað ekki upp í siðuðu samfélagi, sem vill reisa auðlindanýtingu á beztu fáanlegu þekkingu. Málamiðlun á milli nýrrar verðmætaköpunar og ósnortinnar náttúru verður að finna, og löggjöf um Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda var tilraun til þess, en þar skipta mælikvarðarnir öllu máli, og illa rökstudd slagsíða til verndunar hefur einkennt þá. Á tímum orkuverðs í himinhæðum í heiminum og orkuskorts, sem sums staðar má jafna við kreppu, er tímabært, að fram fari hlutlæg rýni og endurskoðun á þessum mælikvörðum og vægi þeirra, sem ráða því, hvort Verkefnisstjórn um Rammaáætlun raðar virkjunarkostum í verndar- eða nýtingarflokk. Mikið er í bið vegna meints skorts á gögnum.
"En hvað er til í þessu tali um, að virkjun sé náttúruspjöll ? Nánast ekki neitt. Ef menn eiga að nefna einhver náttúruspjöll, sem íslenzk virkjanagerð hefur valdið, vefst flestum tunga um tönn. Þau eru til, en æstir náttúruverndarmenn hafa bara sjaldnast hugmynd um, hver þau eru. Þeir kunna nöfnin á nýlegum orkuverum, hafa mótmælt þeim öllum, en sitja svo uppi með, að enginn teljandi skaði varð af byggingu þeirra."
Fyrrverandi verkfræðiprófessor, Jónas Elíasson, er ekki líklegur til að fara með neitt fleipur, svo að það má slá því föstu, að virkjanir hingað til hafi ekki valdið neinu óafturkræfu tjóni á íslenzkri náttúru. Ef þessi tilgáta er rétt, má telja afar sennilegt í ljósi stöðugra tækniframfara við slíka hönnun og framkvæmd, að niðurstöður verkefnastjórna Rammaáætlunar hingað til séu gróf yfirskot í þágu verndunarsjónarmiða. Þetta bendir aftur til rangrar aðferðarfræði við mat á kostum og löstum virkjunar. Almennilegar (hlutlægar) skilgreiningar á mælikvörðum matsins vantar.
"Þá gera virkjanir heilmikið gagn í verndun náttúrunnar. Bezta dæmið er líklega Efra-Fall. Þá var útrennsli Þingvallavatns stíflað, og þar með hvarf möguleiki rennslisins til að til að grafa gil í haftið niður í farveg Sogsins og tæma Þingvallavatn, rétt eins og Jökulsá á Brú tæmdi Hálslón og Tungnaá Sigölduvatn á sínum tíma, en Sigöldugljúfur tæmdi vatnið alveg. Það vatn er nú komið til baka sem Sigöldulón, en með heldur lægra vatnsborði en gamla vatnið.
Nær allir ferðamenn á leið til Landmannalauga fara fram hjá virkjanaröðinni í Þjórsá-Tungnaá og hafa ánægju af, enda eru stöðvarhúsin haganlega gerð. Sumir leggja lykkju á leið sína til að skoða Sigöldulónið. Það neikvæða við þessa þróun er, að umferð um Dómadalsleið hefur næstum lagzt af, sem er synd, því [að] sú leið í Landmannalaugar er mjög falleg."
Hægt er að taka undir hvort tveggja hjá verkfræðiprófessornum fyrrverandi, að vatnsaflsvirkjanir draga úr eða stöðva stöðugar náttúrulegar breytingar á náttúrunni, sem flestir eru sammála um, að séu til hins verra, og þess vegna eru vatnsaflsvirkjanir oft til bóta fyrir þróun náttúrunnar. Jöfnun rennslis neðan við virkjaðar ár er jákvæð fyrir fiskgengd í árnar og dregur jafnframt úr landbroti og tjóni á ræktarlandi í flóðum og vegna ísjakareks. Dæmi um þetta eru Neðri-Þjórsá og Blanda, en framburður þeirra á seti og ísi stöðvast að mestu í miðlunarlónunum, svo að þær breytast í góðar veiðiár.
Hitt atriðið er alþekkt staðreynd í öllum löndum vatnsaflsvirkjana, að mannvirkin, stíflur og stöðvarhús, virka sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn, einkum ef virkjunareigandinn setur upp móttökuaðstöðu fyrir áhugasama ferðalanga. Við mat á virkjanakostum hérlendis hefur allt of mikið varið gert úr neikvæðum áhrif virkjana á ferðamennsku. Jákvæðu áhrifin eru yfirgnæfandi.
Að lokum reit Jónas Elíasson:
"Nú er búið að samþykkja nýja [nr 3-innsk. BJo] rammaáætlun á Alþingi. Það telst til tíðinda, að nokkrir þingmenn ákváðu að skella sér í biðflokkinn og styrkja hann. Kjalölduveita og Héraðsvötn voru færð í þann flokk. Þetta er ekki stórt skref, en verulega til bóta. Full þörf er á að virkja jökulvatnið og draga þar með úr landbroti, og þetta á við um báða þessa virkjunarkosti. Bændur í Skagafirði verða oft fyrir búsifjum af völdum Héraðsvatna, en virkjun getur bægt landbroti frá jörðum þeirra, eins og gerzt hefur meðfram Þjórsá og Blöndu. Þannig hjálpa virkjanir til við að varðveita náttúruna. Vel gert, þingmenn."
Það er rík ástæða til að leggja meiri áherzlu á jöfnunaráhrif virkjana á rennslið og þar með á öryggi fólks og fénaðar neðan virkjunar og auðveldari landnotkun og aukið notagildi ánna ásamt eflingu ferðamennskunnar, sem af virkjunum leiðir. Þessir þættir hafa verið vanmetnir hingað til af verkefnisstjórnum um Rammaáætlun. Þessi atriði auk framfara í virkjanatilhögun og mikil verðmætaaukning raforkunnar á síðustu misserum vegna orkuskipta og landvinningastríðs Rússa í Úkraínu getur hæglega lyft virkjanakostum úr verndarflokki og í nýtingarflokk, ef aukin hlutlægni fær að ráða för, og valdið því, að fleiri færist úr biðflokki í nýtingarflokk en í verndarflokk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2022 | 13:46
Blekkingaleikur Landverndar
Margir hafa veitt mótsagnakenndum málflutningi Landverndar athygli, en talsmaður hennar og framkvæmdastjóri, Auður Önnu Magnúsdóttir, hefur reynt að skáka lygalaupinum Munchhausen í fjarstæðukenndum frásögnum af því, hvernig lifa mætti betra lífi í landinu með því að kippa um 150 mrdISK/ár út úr hagkerfinu með því að draga saman seglin í orkukræfum iðnaði og setja stoppara á ný virkjanaverkefni.
Það bezta, sem um svona Munchhausen málflutning má segja er, að einfeldningar hafi ofmetnazt og farið inn á svið, sem þeir ráða ekki við. Líklegra er þó, að um vísvitandi blekkingar sé þarna að ræða, þar sem gerð er ósvífin tilraun til að kasta ryki í augu almennings varðandi þjóðhagslega þýðingu iðnaðarins og þörfina á nýjum virkjunum í landinu til að spara jarðefnaeldsneyti og efla hagvöxt sem undirstöðu lífskjarabata almennings og bætts velferðarkerfis.
Það er eins og ábyrgðarlausir viðvaningar véli um mál hjá Landvernd. Hvaða áhrif halda menn, að yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar um, að hún óskaði eftir því í nafni orkuskipta, að orkufyrirtæki með samninga við orkukræfan iðnað tilkynntu þessum viðskiptavinum sínum, að þau stefndu á helmingun orkusölunnar til þeirra við fyrsta tækifæri. Traust fjárfesta, erlendra sem innlenda, í garð íslenzkra stjórnvalda og Íslands sem fjárfestingarlands mundi gufa upp í einni svipan.
Þetta mundi leiða til fjármagnsflótta frá landinu og lækkunar á gengi ISK að sama skapi. Þetta yrði bara upphaf stórfelldrar kjaraskerðingar almennings, og samneyzlan yrði að sjálfsögðu að laga sig að tekjulækkun ríkissjóðs og sveitarsjóða. Þetta er svo foráttuvitlaus boðskapur Landverndar, að vart er á hann orðum eyðandi, en samt hefur framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, SI, dr Sigurður Hannesson, séð sig knúinn til að leggja hér orð í belg. Landvernd hefur á undanförnum árum farið mikinn, tafið mörg framfaramál, ekki sízt með rekistefnu fyrir dómstólum, en nú hefur hún skotið sig í fótinn með yfirgengilegum fíflagangi.
Í Morgunblaðinu 30. júní 2022 tjáðu Sigurður Hannesson og Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, sig við blaðamenn Morgunblaðsins undir fyrirsögninni:
"Afleiðingin yrði lakari lífskjör".
Upphaf fréttarinnar var þannig:
"Talsmenn Samtaka iðnaðarins (SI) og Viðskiptaráðs eru ósammála þeirri afstöðu framkvæmdastjóra Landverndar til orkumála, sem kom fram í Morgunblaðinu á þriðjudag [28.06.2022].Ekki nægi að forgangsraða þeirri orku, sem þegar er framleidd, til að mæta aukinni orkuþörf í stað þess að fjölga virkjunum, eins og framkvæmdastjóri Landverndar hefur lagt til, að mati Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI."Íslenzkt samfélag hefur hagnazt ríkulega á orkusæknum iðnaði. Innlendur kostnaður álveranna á síðasta ári var mrdISK 123. Það er það, sem varð eftir hér", segir Sigurður. "Nærri 2 þús. manns eru á launaskrá hjá þessum fyrirtækjum ásamt verktökum auk afleiddra starfa." Það er ekkert til, sem heitir "forgangsröðun orku", sem þegar hefur verið samið um, nema í skömmtunarástandi. Landvernd endurvarpar kreppu- og ofríkishugarfari, sem getur ekki leitt til annars en tjóns og líklega lögsókna fyrir dómstólum, jafnvel athugasemda frá ESA og lögsókna gegn orkufyrirtækjunum og/eða eigendum þeirra fyrir ómálefnalega mismunum, þegar aðrar og mun nærtækari lausnir eru í boði. Landvernd er gegnsýrð af forræðishyggju og boðar, að orkufyrirtækin skuli sitja og standa, eins og ríkið (í höndum trúfélaga Landverndar) skipar fyrir. Það er einfaldlega óleyfilegt samkvæmt reglum Innri markaðar EES, og innan ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) er áreiðanlega engin samúð með þeim sérlundaða boðskap Landsverndar, að á Íslandi megi ekki virkja meiri endurnýjanlegar orkulindir, á sama tíma og orkuskorturinn er svo grafalvarlegur í Evrópu, að verið er að ræsa gömul kolaorkuver og hætt er við að loka um 7 kjarnorkuverum um sinn. Der Zeitgeist (andi tímans) er á móti Landvernd, þótt hún þykist boða nútímalega stefnu. Stefna Landverndar er fátæktarstefna, og hún hefur þegar valdið miklu samfélagslegu tjóni með því að tefja orkuframkvæmdir úr hófi fram. Þegar tekið er tillit til fjölda á launaskrá orkukræfs iðnaðar, verktakanna, sem fyrir þennan iðnað vinna, bæði innan verksmiðjugirðinga og utan, til starfsmanna orkufyrirtækjanna og flutningafyrirtækjanna, sem vinna í aðfanga- og frálagskeðju orkukræfs iðnaðar, er varfærið að áætla, að um 12 þúsund ársverk sé þar að ræða, og fleiri bætast þar við á tímum verulegra nýframkvæmda. ""Við yrðum verr sett sem samfélag, ef við ætluðum að fórna verðmætasköpun orkusækins iðnaðar til að framleiða rafeldsneyti í þágu orkuskipta", segir Sigurður. Þá megi ekki gleyma því, að orkusækinn iðnaður, og hugverkaiðnaður að einhverju leyti, séu einu útflutningsgreinarnar, sem nýta eingöngu hreina orku. Aðrar útflutningsgreinar, eins og ferðaþjónusta og sjávarútvegur, noti fyrst og fremst [aðallega] olíu til að knýja verðmætasköpun, sem byggir mikið á flutningum í lofti, á landi og á sjó. Orkuskipti muni þá ganga út á að nota hreina raforku til að framleiða hreina orkugjafa fyrir þessar greinar. Sigurður segir, að þróun í þá átt sé komin á fleygiferð og rifjar upp, að Samskip hafi nýlega fengið myndarlegan styrk úr norskum sjóði til að gera tilraunir með hreina orkugjafa á skip." Umrædd stefnumörkun Landverndar er aðeins enn eitt dæmið um þá þröngsýni, sem ríkir á þeim bæ. Hvergi á Vesturlöndum mundi það verða talið ábyrg ráðstöfun íslenzkra orkufyrirtækja að undirlagi ríkisvaldsins að hætta að selja allt að helming þeirrar sjálfbæru raforku, sem nú fer til orkukræfs iðnaðar á Íslandi, því að sú framleiðsla og jafnvel meira mundi þá færast til landa, sem bjóða raforku að mestu leyti framleidda með jarðefnaeldsneyti. Þannig er boðskapur Landverndar eins umhverfisfjandsamlegur og hugsazt getur á tímum stórfelldrar vöntunar á endurnýjanlegum og kolefnisfríum orkugjöfum. Við ættum yfir höfði okkar útskúfun á alþjóðavettvangi sem umhverfissóðar og blindingjar, sem ekki skilja þá alvarlegu stöðu, sem orkumál heimsins eru í og verða, þar til orkuskipti úr jarðefnaeldsneyti hafa farið fram. Landvernd getur ekki notið snefils af trausti eða tillitssemi eftir þetta síðasta útspil, sem setur hana í hóp umhverfissóða á alþjóðavísu. "Hann [dr Sigurður] bendir á, að við séum engu bættari með að taka orku af iðnaði og nýta til annarra greina. Það auki ekki verðmætasköpun, heldur leiði til stöðnunar og verulegrar afturfarar varðandi lífskjör landsmanna. "Við breytum hvorki lögmálum hagfræðinnar né eðlisfræðinnar. Raunveruleikinn er eins og hann er, og við þurfum að laga okkur að því. Markmið stjórnvalda eru metnaðarfull, og hér er verið að taka ábyrga afstöðu í umhverfismálum í þágu okkar og heimsins alls. Við hljótum að vilja róa að því öllum árum að ná þeim metnaðarfullu markmiðum", segir Sigurður." Þarna flettir framkvæmdastjóri SI á sinn hátt ofan af sértrúarsöfnuðinum, sem kallar sig "Landvernd", en ástundar ekki "ábyrga afstöðu" til umhverfismála og er þess vegna ekkert annað en forstokkaður hópur um stöðnun samfélagsins á öllum sviðum, "núllvöxt", sem auðvitað leiðir óhjákvæmilega til hrörnunar samfélagsins, aukinnar eymdar og fátæktar. Eina leiðin fram á við er að auka skilvirkni á öllum sviðum til að gera landið samkeppnishæfara við útlönd, varfærin og sjálfbær aukin nýting auðlinda með beztu þekkingu og tækni að vopni til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi og auka framleiðslu landsmanna til að standa undir hagvexti og bættum lífskjörum. Téðri frétt Morgunblaðsins lauk þannig: "Jóhannes [Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs] ítrekar, að fjórðungur srarfa á Íslandi sé í iðnaði og þaðan komi fimmtungur landsframleiðslu. Hann segir [því] enn þá ósvarað, hvað eigi að koma í staðinn fyrir stóriðjuna, og hver annar eigi að greiða fyrir uppbyggingu á dreifikerfinu [flutningskerfi raforku-innsk. BJo].Bætir hann við, að Auður nefni ferðaþjónustuna sem betri kost en stóriðju, en að hans mati er ferðaþjónusta ágæt, þangað til hún er það ekki. Vísar hann þá til kórónuveirufaraldursins, og hversu sveiflukenndur ferðamannageirinn er. Að auki tekur hann fram, að ferðaþjónusta sé ekki með háa framleiðni, heldur þvert á móti og krefjist mikils vinnuafls. "Auðvitað þarf alltaf að huga að forgangsröðun orku, en ef við ætlum að viðhalda efnahagslegri velferð þjóðarinnar, verður það ekki gert með því að draga úr orkunotkun þjóðarinnar. Það eru draumórar", tekur Jóhannes fram í lokin." Orkukræfur iðnaður og ferðaþjónusta eru ósambærilegar atvinnugreinar, andstæður að flestu leyti hérlendis. Þar sem hagsmunir þeirra rekast þó engan veginn á hérlendis, fara þessar tvær atvinnugreinar ágætlega saman og höfða til ólíkra aðila í þjóðfélaginu. Saman gera þær hagkerfi og samfélag sterkara. Það er rangt, að virkjanir fæli ferðamenn frá og loftlínum fækkar í landinu. Hérlendar virkjanir eru aðdráttarafl fyrir ferðamenn, en öðru máli gegnir um vindorkuverin. Það er þó önnur saga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.6.2022 | 20:59
Fjarstæðukenndur afturhaldsáróður
Í landinu hefur alltaf verið andstaða við orkunýtingu til atvinnusköpunar og gjaldeyrisöflunar, eins og sagan greinir frá allt til Títanfélags Einars Benediktssonar, skálds. Átökin um fyrstu stórvirkjun landsins við Búrfell (Sámstaðamúla) í Þjórsárdal á árunum 1963-1969 eru höfundi þessa vefpistils enn í minni, en þá börðust andstæðingar Viðreisnarstjórnarinnar, Alþýðubandalagið og Framsóknarflokkur, hart gegn Búrfellsvirkjun og stofnun álverksmiðjunnar í Straumsvík við Hafnarfjörð, sem fá átti raforku frá Búrfellsvirkjun.
Virkjuninni var talið margt til foráttu, einkum að rennslistruflanir í jökulvatninu yrðu svo miklar, að stöðva yrði starfsemi virkjunarinnar. ISAL-verksmiðjan var uppnefnd "hausaskeljastaður" og sagt, að fjöldi verkamanna mundi tína þar lífinu strax á byggingarskeiðinu. Fullyrðingaflaumur beturvitanna lætur aldrei að sér hæða.
Þessi fordæðumálflutningur varð sér allur til skammar, enda reistur á fordómum og vanþekkingu. Annað bjó undir. Það mátti ekki tengja Ísland við alþjóðlega peningakerfið (Alþjóðabankinn lánaði Landsvirkjun fé fyrir Búrfellsvirkjun) til hagsbóta fyrir verkalýðinn og þjóðina alla. Það var ennfremur alið á fordómum gegn erlendri fjárfestingu öflugra iðnrekenda, í þessu tilviki svissneska álfélagsins Alusuisse, og 100 % eignarhaldi þess og þar með áhættutöku á ISAL. Þessi brautryðjendastarfsemi í atvinnusögu landsins var sögð þjóðhættuleg af andstæðingum Viðreisnarstjórnarinnar, en hún (Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn), leidd af mikilhæfum leiðtogum, sem hikuðu ekki við að berjast fyrir sannfæringu sinni um gagnsemi þessara breytinga fyrir landið, hélt sínu striki.
Það er næsta víst, að hefði þjóðin ekki notið leiðsagnar Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og atvinnustefnu hans, hefðu landsmenn ekki farið inn á braut orkukræfrar iðnaðarframleiðslu á tímum Viðreisnarstjórnarinnar og jafnvel aldrei í þeim mæli, sem nú er (yfir 300 mrdISK/ár útflutningstekjur). Þjóðfélagið stæði þá fjarri því jafntraustum fótum fjárhagslega, verkmenning og öryggi á vinnustað væru fátæklegri og þjóðin væri vafalaust fámennari en nú, því að atvinnuleysi og þekkingarflótti hefðu orðið plága. Þessar voguðu breytingar í atvinnuháttum urðu landsmönnum mikið gæfuspor, en afturhaldið í landinu varð bert að innihaldslausum hræðsluáróðri alveg eins og nú að breyttu breytanda.
Sams konar innihaldslausum hræðsluáróðri er enn beint að landsmönnum, og lengst gengur félagið Landvernd. Framkvæmdastjóri Landverndar, Auður Önnu Magnúsdóttir, stundar ábyrgðarlausan málflutning um orkumál landsins, sem einkennist af innantómum fullyrðingum og klisjum, sem hún af fullkominni ósvífni ber á borð fyrir almenning sem nútímalega stefnumörkun, en er hvorki fugl né fiskur og ekkert annað en draumórakenndur fáránleiki.
Hún gerir sig seka um tilraun til að leiða almenning á þær villigötur, að í stað nýrra virkjana fyrir orkuskipti og atvinnusköpun fyrir vaxandi þjóð bjóðist landsmönnum sá töfrasproti að beina allt að 50 % raforku, sem nú fer til iðnaðarins, frá iðnaðinum án þess, að nokkur verði þess var á tekjuhlið sinni, þegar þessi orka hafi fundið sér nýja notendur. Þetta er vitlausasti málflutningur, sem sézt hefur um raforkumál landsmanna frá því að rafvæðing hófst hérlendis, og er þá langt til jafnað.
Efnismikil og vel rökstudd grein birtist í Morgunblaðinu 27. júní 2022 eftir Jóhannes Stefánsson, lögfræðing Viðskiptaráðs, þar sem hann útskýrir glögglega fyrir lesendum með gröfum, súluriti og hringsneiðmynd, að tillögur Landsverndar mundu í framkvæmd leiða til hruns í lífskjörum landsmanna, eins og nærri má geta. Auður Önnu hjá Landvernd er hins vegar við sama heygarðshornið, þegar Tómas Arnar Þorláksson átti við hana viðtal, sem hann birti í Morgunblaðinu 28. júní 2022 undir einum af fjarstæðukenndum frösum Landverndar í fyrirsögn:
"Forgangsraða orku í stað virkjana".
Viðtalið hófst með ógeðfelldu yfirlæti þekkingarsnauðrar Auðar Önnu á atvinnusköpun og -rekstri:
""Við erum ekki bara einhverjir aumingjar, sem bíða hérna eftir því, að stórfyrirtæki komi og skapi handa okkur vinnu", segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, um grein Jóhannesar Stefánssonar, lögfræðings Viðskiptaráðs, sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Þar tók Jóhannes fram, að tillaga Landverndar um full orkuskipti án aukningar í orkuframleiðslu og neikvæðra áhrifa á efnahagslega velsæld stæðist ekki skoðun."
Það er erfitt að gera sér í hugarlund, hvert Auður Önnu er að fara með svona fráleitri yfirlýsingu. Ef hún hafði í huga sokkabandsár orkukræfs iðnaðar og aðdraganda hans 1964-1969, þá er hún á algerum villigötum, eins og fyrri daginn. Það er yfirlætisfull heimska fólgin í því að kalla menn aumingja, þótt þá skorti þekkingu á framleiðsluferli málma á borð við ál og ráði hvorki yfir nauðsynlegum viðskiptasamböndum né fjármagni til að reisa og reka slíkar verksmiðjur. Allt þetta fengu landsmenn með samningum Viðreisnarstjórnarinnar við Alusuisse, og sá samningur veitti aðgang að láni hjá Alþjóðabankanum á mun hagstæðari viðskiptakjörum en ella. Íslendingar voru hins vegar snarir í snúningum við að tileinka sér framleiðslutæknina og vinnubrögðin við stórverkefni á borð við álver og stóra vatnsaflsvirkjun, og nú standa þeim engir á sporði við tæknilegan rekstur álvera.
Hér er um mikilsverða verkþekkingu að ræða, sem dreifzt hefur um allt samfélagið almenningi til hagsbóta. Þegar framkvæmdastjóri Landverndar leggur til, að íslenzka ríkið, eigandi Landsvirkjunar, stöðvi afhendingu um helmings núverandi raforkuafhendingar til orkukræfs iðnaðar við fyrsta tækifæri, er um að ræða þvílíkan óvitaskap, ábyrgðarleysi og fjarstæðukennt bull, að engu tali tekur. Samtök, sem ráðið hafa talsmann þessarar gerðar til starfa, eru hreinræktað niðurrifsafl í þjóðfélaginu, sem hafa fyrir vikið ekki snefil af trúverðugleika lengur.
"Að mati Auðar er þetta ekki rétt hjá Jóhannesi, og segir hún Landvernd taka þetta allt fyrir í sviðsmyndagreiningu samtakanna, sem sé mjög ítarleg. "Forsendurnar fyrir þessu eru, að við forgangsröðum orkunni, sem við framleiðum nú þegar, en 80 % af þeirri orku fara í stóriðju, sem hagnast á erlendum stórfyrirtækjum", segir Auður, og að hennar mati nýtur íslenzkt samfélag ekki góðs af þessu. Segir hún, að samkvæmt útreikningum þeirra þurfi stóriðjan að draga úr orkunotkun sinni um allt að 50 %."
Þetta er eiginlega óskiljanlegt rugl í Auði Önnu. Hver hagnast á erlendum stórfyrirtækjum ? Eru það ekki raforkufyrirtækin Landsvirkjun, OR, HS Orka og Landsnet ? Hagnaður Landsvirkjunar 2021 varð um mrdISK 30, megnið af honum frá stórnotendum og helmingurinn fór í arðgreiðslur til ríkissjóðs. Það bætist við skattgreiðslur fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra, en bullukollan kveður íslenzkt samfélag "ekki njóta góðs af þessu". Þetta er undirmálsmálflutningur.
"Hvað varðar ályktun Jóhannesar, að orkuskipti án frekari virkjana séu ómöguleg, segir Auður það ekki rétt, nema ef notazt er við lausnir gærdagsins. Segir hún svarið ekki vera að sækja enn frekar í auðlindir. Undirstrikar hún, að það þurfi að koma á hringrásarhagkerfi og virða náttúruauðlindirnar."
Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem Auður Önnu reynir að klæða trúarbrögð sértrúarsafnaðarins í Landvernd í búning nútímalegra viðhorfa, en það er ekkert nútímalegt við farsakenndar firrur í opinberri umræðu annað en falsfréttabragurinn, sem nú tröllríður fréttamiðlunum. Það er engin glóra í því að setja fram atvinnustefnu og efnahagsstefnu á þeim grundvelli, að ekki megi virkja meira af endurnýjanlegum og nánast kolefnisfríum orkulindum í náttúru Íslands án þess að sýna fram á það með haldbærum rökum án trúarlegra stefja á borð við, að náttúran skuli njóta vafans, að unnið hafi verið óafturkræft tjón á náttúrunni hingað til með virkjunum.
Hér verður að greina á milli breytinga og tjóns, en margar breytinganna hafa orðið til góðs fyrir náttúruna, s.s. til að verjast giljagreftri og landbroti og að framkalla nýjar laxveiðiár. Á Íslandi er vert að hafa í huga, að náttúran sjálf er miklu stórtækari breytinga- og tjónvaldur á náttúrunni en íbúar landsins. Stefna Landverndar er í stuttu máli svo laus við að vera nútímaleg, að nútímalegu og fjölbreytilegu velferðarþjóðfélagi verður ekki viðhaldið í landinu, ef sveigja á inn á glórulausa afturhaldsbraut Landverndar. Boðskapur af því tagi, að ekki skuli nýta meiri jarðvarma og vatnsföll eru einsdæmi í landi, þar sem hlutfallslega er jafnlítið nýtt (virkjað) og hérlendis. Það er einhver ofdekursbragur allsnægta yfir boðskap Landverndar.
"Þá bendir Auður á, að bæði Landvernd og tímaritið The Economist hafi sýnt, að verðmætasköpun á hverja orkueiningu á Íslandi sé með því lægsta, sem gerist á heimsvísu. Enn frekar bendir hún á, að mjög fá störf skapist á hverja orkueiningu. Ítrekar hún þá, að ef við breytum því, hvernig við nýtum orkuna, sem er nú þegar framleidd, getum við skapað meiri verðmæti. Tekur hún fram, að fyrir kórónuveirufaraldurinn árið 2019 hafi ferðaþjónustan verið langstærsti útflytjandi vöru og þjónustu."
Þarna reynir Auður Önnu að spyrða Landvernd við hið virta tímarit The Economist, en hér skal fullyrða, að ritstjórn The Economist yrði gáttuð á því rugli, sem Landvernd setur á oddinn í orkumálum Íslands. Það er spurning, hvort téðir útreikningar á verðmætasköpun á orkueiningu hafa verið gerðir, þegar Kínverjar og Rússar dembdu miklu magni málma inn á Evrópumarkaðinn, svo að verðið hríðféll, en nú hefur verð á t.d. áli tvöfaldazt frá fyrri hluta Kófstímans.
Það er þó annar samanburður áhugaverðari, en hann er verg landsframleiðsla á mann, en þar eru Íslendingar á meðal hinna allra hæstu í heiminum og líka í launakostnaði á mann. Það er gríðarleg erlend fjárfesting á hvert MW eða starf í orkukræfum iðnaði. Á slíkum vinnustöðum eru nánast alltaf hærri laun en á hinum, og þetta eru einmitt þau störf, sem sótzt var eftir að fá til Íslands, af því að starfsemin er stöðug, og eigandinn leggur ógjarnan niður starfsemi mikilla fjárfestinga og hárrar skilvirkni, en sú er reynslan af íslenzku starfsfólki verksmiðjanna upp til hópa.
Þegar um sjálfbæra orkunotkun er að ræða, er viðhorfið til verðmætasköpunar á MW auðvitað allt annað en til brennslu jarðefnaeldsneytis, svo að hin seinheppna Auður Önnu hefur hér slysazt til að bera saman epli og appelsínur. Hún virðist telja æskilegt, að ferðaþjónustan á Íslandi, sem ekki flytur út vörur, eins og hún heldur fram, taki við starfsfólkinu, sem missir sín störf, verði farið að tillögum Landverndar. Gerir Auður Önnu sér grein fyrir álagsaukningunni á umhverfið, gangi það eftir, launalækkun fólksins og þeirri miklu ósjálfbæru orkunotkun, sem fylgir hverju starfi í þessari grein ?
"Segir hún að auki útreikninga Jóhannesar ekki rétta, að án frekari orkuframleiðslu muni lífskjör hér á landi versna fyrir árið 2050 og verða svipuð og þau voru rétt eftir árið 2000. "Við erum að leggja til, að lífskjör verði eins og í dag að teknu tilliti til fólksfjölgunar. Til þess þurfum við að forgangsraða orkunni öðruvísi og betur", segir Auður."
Það er kjaftur á keilunni, þegar hún fullyrðir skilmerkilega greinargerð Jóhannesar Stefánssonar ranga og færir fyrir því aðeins það útþvælda slagorð, að "forgangsraða [þurfi] orkunni öðruvísi og betur. Er ekki augljóst, að verði 150 mrdISK/ár teknir út úr hagkerfinu, og það vel launaða fólk, sem þá missir vinnuna, fer að vinna við ferðaþjónustu, eins og virðist vaka fyrir forræðishyggjupostulanum Auði Önnu,eða fari að starfa við að framleiða rafeldsneyti, eða flýi land, þá verði samfélagið að sama skapi fátækara og lífskjör alls almennings lakari ?
Delluhugmyndafræði forræðishyggjupostula, sem engum einkaframtaksmanni mundi hugnast, hefur aldrei vel gefizt í sögunni og alltaf gert almenning fátækari, hafi einhverjar slíkar hókus-pókus- lausnir orðið ofan á. Auður Önnu dregur enga hvíta kanínu upp úr hatti sínum, þótt hún klæðist búningi töframanns. Til þess er hugmyndafræði hennar of illa ígrunduð, full af þverstæðum og raunar algerlega óþörf fórn í anda "Endimarka jarðar". Á Íslandi þarf að afnema afl- og orkuskort tafarlaust og virkja fyrir þörfum orkuskipta og vaxandi útflutningsframleiðslu til lífskjarabata fyrir vaxandi þjóð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2022 | 17:23
Ferli ákvarðanatöku í lýðræðisríki
Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi (Kraganum), hefur reynzt eljusamur talsmaður einstaklingsfrelsis og lýðræðis í hefðbundnum vestrænum skilningi. Hann hefur iðulega í ræðu og riti, á "öldum ljósvakans" og á síðum Morgunblaðsins vakið athygli á veikleikum í stjórnarfari landsins, sem þó eru ekki bundnir við Ísland, sem kalla mætti útþynningu lýðræðisins og felast í úthýsingu raunverulegrar stefnumörkunar ríkisins frá Alþingi eða ráðherrum, sem standa þurfa Alþingi reikningsskap gerða sinna samkvæmt Stjórnarskrá lýðveldisins, til embættismanna innanlands og utan. Með erlendum embættismönnum er hér átt við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) og stofnanir og embættismenn á hennar vegum, sem með ákvörðunum sínum, reglugerðum og tilskipunum, eru orðnir áhrifaríkir um lagasetningu á Íslandi vegna innleiðingar Alþingis á reglum Innri markaðar EES (Evrópska efnahagssvæðisins), sem Ísland er aðili að síðan 1994. Hér verða aðeins tekin 3 dæmi um innlenda embættisfærslu, sem vitna um gagnrýniverða embættisfærslu í ljósi krafna um lýðræðislegar heimildir.
Samkvæmt innleiðingu Alþingis á Orkupakka 3 (OP3) haustið 2019 (Orkulöggjöf ESB á þeim tíma. Núgildandi orkulöggjöf ESB er OP4, sem hefur enn ekki verið innleidd í EFTA-ríkjum EES vegna skorts á pólitískum stuðningi við það á Stórþinginu og innan norsku ríkisstjórnarinnar.) skal Orkumálastjóri vera fulltrúi ACER-Orkustofnunar ESB á Íslandi og sjá til þess, að ákvæðum gildandi orkupakka sé framfylgt á landinu. Þar er eindregið mælt með orkukauphöll fyrir raforku, þ.e. að markaðurinn ákvarði orkuverðið á hverri klukkustund sólarhringsins. Við afbrigðilegar aðstæður, eins og nú ríkja í Evrópu, hefur þetta fyrirkomulag reynzt neytendum herfilega illa og rafmagnið, eins og jarðefnaeldsneytið, orðið þungur fjárhagsbaggi á mörgum heimilum.
Nú eftir þinglok í vor bregður svo við, að Landsnet (undir eftirliti Orkumálastjóra) kynnir til sögunnar nýja undirstofnun sína, sem ætlað er að innleiða þetta markaðsfyrirkomulag á Íslandi. Í ljósi þess, að við núverandi aðstæður orkumála á Íslandi (orkuskort) eru mestar líkur á, að verðmyndun rafmagns eftir skammtíma framboði og eftirspurn muni leiða til umtalsverðra hækkana á meðalverði rafmagns á Íslandi, er vert að spyrja, hvort eðlilegt sé, að embættismenn vaði áfram með þetta mál án þess, að Alþingi hafi fjallað um það sérstaklega ? Málið er a.m.k. einnar vandaðrar áhættugreiningar virði.
Þann 23. júní 2022 ritaði Arnar Þór Jónsson grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:
"Engin stemning ?".
Hún hófst þannig:
"Í viðtali við RÚV 16. júní sl. lét Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, þau ummæli falla, að ekki yrði gripið til takmarkana "strax" vegna fjölgunar Covid-smita. Slíkt réðist af "því, hvernig faraldurinn þróast". Í beinu framhaldi sagði Þórólfur "alveg ljóst, að það er engin stemning fyrir neinum takmörkunum í þjóðfélaginu, eða hvar sem er". Ástæða er til að vekja athygli almennings á þessum síðastnefnda "mælikvarða" sóttvarnalæknis, sem hann hefur raunar ítrekað vísað til í öðrum viðtölum."
Það er líka ástæða til að fetta fingur út í þá áráttu fráfarandi sóttvarnarlæknis að tala um nauðsyn þjóðfélagslegra takmarkana yfirvalda vegna pestar, sem mjög líkist inflúensu, en getur, eins og flensan, leitt af sér ýmis stig lungnabólgu, ef ónæmiskerfi líkamans er veikt fyrir og líkamann vantar D-vítamín.
Samanburðarrannsóknir á viðbrögðum yfirvalda víða um heim gefa til kynna, að heildardauðsföllum fækki ekki við þjóðfélagstakmarkanir til að stemma stigu við C-19. Þar sem yfirvöld reka harðýðgislega einangrunarstefnu vegna C-19, eins og í Kína, grasserar pestin enn. Þarna hefur ofurtrú á stjórnsemi yfirvalda leitt embættismenn víða á villigötur, en aðeins hjarðónæmi getur kveðið þessa pest niður (hjarðónæmi af völdum almennra smita, því að bóluefnin, sem kynnt hafa verið til sögunnar, hindra ekki smit og veikindi).
Bóluefnafarsinn gegn C-19 er kapítuli út af fyrir sig og ber keim af einhvers konar peningamaskínu lyfjaiðnaðarins, sem yfirvöld hafa látið ginnast til að ánetjast (vanheilagt bandalag stórfyrirtækja, stjórnmálamanna og embættismanna til að græða á ótta almennings). Bóluefnin veittu ekkert hjarðónæmi, sem þó var lofað, m.a. af íslenzka sóttvarnarlækninum, og ending þeirra í líkamanum reyndist skammarlega skammvinn, enda var hún horfin, eins og dögg fyrir sólu innan 3 mánaða samkvæmt rannsóknum, sem sænski læknirinn Sebastian Rushworth hefur kynnt á vefsetri sínu.
Slæmar aukaverkanir bóluefnanna, í sumum tilvikum lífshættulegar, eru miklu algengari en af hefðbundnum bóluefnum. Leyfisveiting fyrir almennri notkun þessara mRNA-bóluefna voru mistök, reist á allt of stuttum athugunartíma á virkninni. Var þar samsæri á ferðinni ? Nauðsynlegt er rannsaka það niður í kjölinn. Enn ráðleggur íslenzki sóttvarnarlæknirinn örvunarkammt, nú þann 4. í röðinni með þeim orðum, að slíkt dragi úr einkennum C-19. Eru vísindalegar rannsóknir, sem hægt er að treysta, að baki þeirri fullyrðingu, eða eru þessar upplýsingar komnar frá hagsmunaaðilum ? Nú er allt annað afbrigði á ferðinni en Wuhan-útgáfan, sem þróun bóluefnanna var sniðin við. Þekkt er, að flensusprautur eru gagnslausar, nema við afbrigðinu, sem flensubóluefnin eru þróuð við.
"Ummælin um "stemningu" sem forsendu valdbeitingar opinbera þann stjórnarfarslega háska, sem íslenzk stjórnmál hafa ratað í. Þau eru til merkis um öfugþróun, sem beina verður kastljósinu að: Lýðræðið deyr og réttarríkið sundrast, þegar vald og ótti sameinast; þegar stjórnvöld og stórfyrirtæki ganga í eina sæng [það virtist gerast í Kófinu-innsk. BJo]; þegar fjölmiðlar ganga gagnrýnislaust í þjónustu valdhafa [gerðist með RÚV í Kófinu og vinstri slagsíðan þar keyrir úr hófi fram, enda lögbrot-innsk. BJo]; þegar fræðimenn kjósa starfsöryggi fremur en sannleiksleit; þegar embættismenn setja eigin frama ofar stjórnarskrá; þegar óttasleginn almenningur afsalar sér frelsi og réttindum í hendur manna, sem boða "lausnir". Allt eru þetta þekkt stef í alræðisríkjum, þar sem stjórnvöld ala á ógn í þeim tilgangi að treysta völd sín."
Hafrannsóknarstofnun gegnir geisilega mikilvægu hlutverki, enda starfa þar margir hæfir sérfræðingar. Vísindalegar niðurstöður þeirra og ráðgjöf er þó ekki óumdeild, og það er miður, þegar starfsmenn í sjávarútvegi sjá knúna til að bera brigður á réttmæti ráðlagðra aflamarka mismunandi tegunda. Hafró verður að leggja sig fram um að útskýra ráðgjöf sína fyrir hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og fyrir eiganda auðlindarinnar, þjóðinni. Ráðherrann hefur síðasta orðið, eins og á sviði sóttvarna, en verður að hafa þungvæg og hlutlæg mótrök til að ganga í berhögg við stofnanir ríkisins.
Þann 23. júní 2022 birtist harðorð grein í garð Hafró eftir Björn Jónasson, skipstjóra á Málmey SK1, og Ágúst Ómarsson, skipstjóra á Drangey SK2, undir fyrirsögninni:
"Rugluð ráðgjöf".
Hún hófst þannig:
"Allan hringinn í kringum landið erum við sjómenn að upplifa mokfiskerí bæði grunnt og djúpt og nánast á hvaða veiðarfæri sem er. Sjórinn er sem sagt kjaftfullur af fiski. Á sama tíma ákveður Hafrannsóknastofnun að skera veiðiheimildir í þorski niður um 6 % til viðbótar við 13,5 % niðurskurð í fyrra. Í karfa er niðurskurðurinn á milli ára hvorki meiri né minni 20 %, enda þótt hann mokveiðist, hvar sem menn bleyta í veiðarfærum."
Það er ótvíræð jákvæð afleiðing lækkunar veiðihlutdeildarstuðuls niður í 20 % af viðmiðunarstofni (viðmiðunarstofn þarf að skilgreina á heimasíðu Hafró), að fiskurinn skuli nú vera mun veiðanlegri en áður var. Sérfræðingar Hafró hafa sagt, að endurskoðun á gömlum stórfiski upp á við í áætlaðri stofnstærð hafi leitt til endurskoðunar niður á við í viðmiðunarstofnstærð (ekki sama og heildarstofnstærð). Þetta er nokkuð torskiljanleg útskýring og kemur á sama tíma og "hafið (landhelgin) er fullt af fiski". Það er þess vegna engin furða, að brigður séu bornar á réttmæti þess að draga úr fiskveiðiheimildum á þessu og næsta fiskveiðiári. Hér stendur upp á Hafrannsóknarstofnun að útskýra niðurstöður sínar betur. Það hefur verið viðurkennt af hálfu stofnunarinnar, og um það birtist frétt í Morgunblaðinu 24. júní 2022 undir fyrirsögninni:
"Vill ræða við sjómenn".
Fréttin hófst þannig:
"Forstjóri Hafrannsóknastofnunar vill efna til samtals við sjómenn um ráðgjöf stofnunarinnar um hámarksafla einstakra nytjategunda fiska. Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri, segir, að slíkt samráð hafi verið viðhaft áður og það þurfi að endurvekja. Hann segir þó spurningu, hvort það eigi að vera í því formi, sem var, eða með öðru fyrirkomulagi."
Á heimasíðunni https://www.hafogvatn.is mætti vera kjarnyrt og skýr útlistun á, hvers vegna Hafrannsóknarstofnun telur nú nauðsynlegt að draga úr veiðum á nokkrum tegundum til að tryggja sjálfbæra nýtingu þessara stofna, og hvers vegna ekki hefur enn dregið neitt úr veiðanleika þeirra í lögsögunni.
Sjávarútvegurinn er svo þjóðhagslega mikilvægur og svo margir hafa lífsviðurværi sitt af nytjastofnum við Ísland, að nauðsynlegt er, að almenningur skilji, hvað sérfræðingar Hafró eru að fara með ráðgjöf sinni.
Höfundur þessa pistils er ekki í nokkrum færum að draga réttmæti hennar í efa, enda hefur hún verið rýnd og samþykkt af sérfræðingum ICES-Alþjóða hafrannsóknarráðsins. Það mætti gjarna árétta stefnumörkunina um þróun nytjastofnanna við Ísland, sem ráðgjöfin tekur mið af. Er sú stefnumörkun ættuð frá Alþingi, ráðuneyti eða Hafrannsóknarstofnun ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2022 | 13:56
Barátta Úkraínumanna mun móta framtíð heimsins
Rússland hefur brotið allar viðteknar alþjóðareglur um samskipti við fullvalda þjóð með skefjalausri innrás Rússahers í Úkraínu 24.02.2022, og hefur hagað hernaði sínum gegn Úkraínumönnum, jafnt rússnesku mælandi sem mælta á úkraínska tungu, með svo grimmdarlega villimannslegum hætti, að flokka má undir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.
Fyrir vikið er Rússland orðið "persona non grata" í lýðræðislöndum, og hvers konar viðskiptum við Rússland ber að halda í algeru lágmarki, sérstaklega á sviðum, þar sem rússneska ríkið á mikilla hagsmuna að gæta, eins og í útflutningi og jarðefnaeldsneyti og innflutningi á tæknibúnaði. Rússland er orðið útlagaríki og gæti fljótlega endað á ruslahaugum sögunnar, enda er því augljóslega stjórnað af siðblindingjum, lygalaupum og ígildi mafíósa.
Við þessar aðstæður er forkastanlegt, að forkólfar öflugustu Evrópusambandsríkjanna, ESB, Olaf Scholz, kanzlari Sambandslýðveldisins Þýzkalands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, skuli enn gera sig seka um einhvers konar baktjaldamakk við Vladimir Putin, Rússlandsforseta og einvald Rússlands, þótt öðrum sé ljóst, að samtöl við þann mann eru tímasóun ein; hann tekur ekkert mark á viðmælendum sínum, og hann sjálfan er ekkert að marka. Froðusnakkið í nytsömum einfeldningum Vesturlanda gefur einvaldinum "blod på tanden", því að hann túlkar slíkt sem veikleikamerki af hálfu Vesturlanda á tímum, þegar þeim er brýnt að sýna Úkraínu fullan stuðning í orði og verki.
Stríðið í Úkraínu er einstakt og örlagavaldandi, því að eins og Bretland sumarið 1940 berst nú Úkraína alein fyrir málstað lýðræðis og einstaklingsfrelsis í heiminum gegn herskáu stóru ríki í landvinningahami undir stjórn grimms og siðblinds alvalds. Til að tryggja frið og stöðugleika í Evrópu og jafnvel víðar og til að tryggja öryggi lýðræðisríkja má Úkraína ekki tapa þessu stríði, heldur verða Vesturlönd nú að bíta í skjaldarrendur og senda Úkraínu öll þau hergögn, þjálfun á þau og fjárhagsaðstoð, sem þau megna og stjórnvöld Úkraínu óska eftir. Fyrir tilverknað færni og bardagahæfni Úkraínumanna mun þá takast að reka siðlausan Rússaher, morkinn af spillingu, út úr Úkraínu. Spangól frá Moskvu um beitingu kjarnorkuvopna er að engu hafandi, enda færi Rússland verst út úr slíkum átökum við algeran ofjarl sinn, NATO.
Í heimssamhengi er líklegasta afleiðing þessa stríðs tvípólun heimsstjórnmálanna. Annars vegar verður fylking lýðræðisríkja undir forystu Bandaríkjamanna með um 60 % heimsframleiðslunnar innan sinna vébanda og mikil viðskipti sín á milli, en hins vegar verða einræðisríkin undir forystu Kínverja. Rússar verða í þeirri fylkingu, en munu einskis mega sín og verða að sitja og standa, eins og Kínverjum þóknast.
Áðurnefnd ESB-ríki auk Ítalíu og Ungverjalands verða að fara að gera sér grein fyrir alvarleika málsins og leggjast á sveif með engilsaxnesku ríkjunum, norrænu ríkjunum, Eystrasaltsríkjunum og hinum Austur-Evrópuríkjunum í einlægum og öflugum stuðningi við baráttu Úkraínumanna fyrir óskoruðu fullveldi sínu og frelsi íbúanna til að búa við frið í landi sínu og til að haga lífi sínu að vild.
Íslendingum og Þjóðverjum hefur alltaf komið vel saman og auðgazt af gagnkvæmum viðskiptum a.m.k. frá 15. öld, og Hansakaupmenn mynduðu mikilvægt mótvægi við danska kaupmenn hér fram að einokunartímanum. Íslendingar neituðu að segja Þýzkalandi stríð á hendur í seinni heimsstyrjöldinni, þótt það ætti að verða skilyrði til stofnaðildar að Sameinuðu þjóðunum, Sþ. Nú rennur mörgum hérlendis og víðar til rifja hálfvelgja þýzku ríkisstjórninnar í Berlín undir forystu krata í stuðningi sínum við Úkraínu. Þessu kann að valda ótti við, að Pútin láti loka fyrir gasflutninga til Þýzkalands, en honum er andvirðið nauðsyn til að halda hagkerfi Rússlands á floti. Þýzka stjórnin ætti að hlíta ráðleggingum manna eins og Klaus Wittmann, fyrrverandi undirhershöfðingja í Bundeswehr, sem e.t.v. er skyldur þeim mikla kappa, skriðdrekaási Þjóðverja, SS-Hauptsturmführer Michael Wittmann.
Fyrst verður vitnað í upphaf forystugreinar Morgunblaðsins, 13.06.2022:
"Laskað orðspor".
"Angela Merkel, fyrrverandi Þýzkalandskanzlari, steig fram í fyrsta sinn í síðustu viku, eftir að 16 ára valdatíð hennar lauk. Þar var Merkel vitanlega spurð, hvort hún sæi eftir einhverju í kanzlaratíð sinni, en hún einkenndist af tilraunum Merkel til þess að beizla Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, með því að auka viðskipti Þýzkalands og Rússlands.
Merkel sagðist nú ekki sjá eftir neinu og sagði, að þó að "diplómatían" hefði klúðrazt, væri það ekki merki um, að það hefði verið röng stefna á þeim tíma að leita sátta. Merkel fordæmdi innrásina í Úkraínu, en sagðist á sama tíma ekki hafa verið "naíf" [barnaleg] í samskiptum sínum við Pútín."
Það er sorglegt, að þessi þaulsetni kanzlari Þýzkalands, prestsdóttirin Merkel, skuli ekki iðrast gerða sinna nú, þegar öllum er ljóst, að viðskipti Þýzkalands og annarra Vesturlanda við Rússland ólu óargadýrið, sem lengi hafði alið með sér landvinningadrauma til að mynda "Stór-Rússland" í Evrópu í anda landvinningazara, sem lögðu undir sig Finnland, Eystrasaltslöndin, Pólland o.fl. lönd. Putin hefur látið í ljós mikla aðdáun á Pétri, mikla, með svipuðum hætti og Adolf Hitler á Friðriki, mikla, Prússakóngi. Flestir eru sammála um, að stöðug eftirgjöf við Hitler á 4. áratuginum og friðmælgi við hann hafi sannfært hann um veikleika Vestursins og að enginn gæti staðið gegn landvinningastefnu hans í allar áttir. Nákvæmlega hið sama á við einvald Rússlands. Friðþæging gagnvart sturluðum einvöldum er dauðadómur.
Í frétt Morgunblaðsins, 10.06.2022:
"Ein erfiðasta orrusta stríðsins",
er eftirfarandi haft eftir Serhí Haísaí, hérraðsstjóra Lúhansk-héraðs:
""Um leið og við fáum langdrægt stórskotalið [hábyssur og fjöleldflaugaskotpalla - innsk. BJo], sem getur háð einvígi við rússneska stórskotaliðið, geta sérsveitir okkar hreinsað borgina á 2-3 dögum", sagði Haídaí í viðtali, sem dreift var í samskiptaforritinu Telegram.
Sagði Haídaí, að varnarlið borgarinnar hefði mikla hvatningu til að halda uppi vörnum áfram, þrátt fyrir að stórskotalið Rússa léti nú rigna eldi og brennisteini yfir borgina.
Þannig skutu Rússar tvisvar á Asot-efnaverksmiðjuna, en talið er, að um 800 manns séu nú þar í felum. Skemmdi eitt flugskeytið smiðju fyrir ammóníakframleiðslu, en búið var að fjarlægja efni þaðan, sem hefðu getað valdið frekari sprengingum."
Vesturlönd hafa því miður tekið hlutverk sitt í vörnum Úkraínu fyrir fullveldisrétt sinn, frelsishugsjón og lýðræðisfyrirkomulag, sem í raun er vörn fyrir öll lönd í heiminum, hverra þjóðir aðhyllast lýðræðislega stjórnarhætti með virkt þingræði í stað einræðis, misalvarlega. Öll ættu þau að vera sneggri í snúningum við afhendingu þess vopnbúnaðar, sem Úkraínumenn hafa óskað eftir og sem þeir telja forsendu þess, að þeim takist að hrekja glæpsamlegt og villimannslegt innrásarlið útþenslusinnaðs einræðisríkis í austri með mikla landvinningadrauma af höndum sér. Árangur Úkraínuhers til þessa má mest þakka hugrekki og baráttugleði hermannanna og góðri herstjórn þeirra og pólitískri stjórn landsins, en allt kæmi það fyrir ekki, ef ekki hefði notið við dyggs hergagnastuðnings og þjálfunar Bandaríkjamanna og Breta. Stærstu Þjóðir Vestur-Evrópu, aðrir en Bretar, þ.e. Þjóðverjar, Frakkar og Ítalir, hafa hingað til valdið miklum vonbrigðum og sýnt, að þegar hæst á að hóa bregðast þær algerlega. Forystumenn þeirra hafa sumir hverjir lofað öllu fögru, en efndirnar hingað til eru litlar sem engar. Macron og Draghi hafa staðið í óskiljanlegu símasambandi við Vladimir Putin og skilja ekki enn, að við þann mann er ekki hægt að semja, honum er í engu treystandi.
Í grein The Economist 4. júní 2022: "Baráttan um Severodonetsk" er haft eftir Oleksiy Arestovych, ráðgjafa forseta Úkraínu, að stórskotalið Úkraínu hafi orðið sérlega illa úti í baráttunni. Suma dagana hafa um 200 hermenn fallið af þessum og öðrum orsökum, og þess vegna eru hendur þeirra vestrænu leiðtoga, sem geta sent öflug, langdræg vopn, en hafa tafið vopnasendingarnar, blóði drifnar.
"Við höfum einfaldlega ekki haft yfir nægum vopnabúnaði að ráða til að geta svarað þessari skothríð", segir hann. Yfirburðir í öflugum skotfærum virðast einnig hafa gert Rússum kleift að snúa við gagnsókn Úkraínuhers við Kharkiv, næststærstu borg Úkraínu. Könnunarsveit úkraínska hersins þar komst að því, að landgönguliðar Eystrasaltsflota Rússa og fleiri úrvalssveitir búi nú tryggilega um sig í steyptum varnarbyrgjum.
"Þeir ætla að vera þarna lengi, og erfitt verður að stugga þeim á flótta", sagði ráðgjafinn.
"Á Vesturlöndum hafa komið upp nokkur áköll um, að efnt verði til vopnahlés hið fyrsta og jafnvel þá gefið í skyn, að Úkraínumenn verði einfaldlega að sætta sig við orðinn hlut og gefa eftir landsvæði í skiptum fyrir frið.
Slík áköll hafa ekki tekið mikið tillit til óska Úkraínumanna sjálfra, en Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu, sagði fyrr í þessari viku [5.-11.06.2022], að of margir Úkraínumenn hefðu fallið til þess að hægt væri að réttlæta það að gefa eftir land til Rússa.
"Við verðum að ná fram frelsun alls landsvæðis okkar", sagði Zelenski, en hann ávarpaði þá viðburð á vegum Financial Times. Zelenski var þar einnig spurður um nýleg ummæli Emmanuels Macrons, Frakklandsforseta, sem sagði í síðustu viku [um mánaðamótin maí-júní 2022], að það væri mikilvægt að "niðurlægja" ekki Rússa til að ná fram endalokum stríðsins. "Við ætlum ekki að niðurlægja neinn, við ætlum að svara fyrir okkur", sagði Zelenski um ummæli Macrons."
Viðhorf Macrons eru dæmigerð fyrir uppgjafarsinna, sem glúpna óðara fyrir ofbeldisfullu framferði árásargjarnra einræðisseggja, eins og franska dæmið frá júní 1940 ber glöggt vitni um. Þar var árásarliðið reyndar með færri hermenn og minni vopnabúnað en lið Frakka og Breta, sem til varnar var, en bæði tækni og herstjórnarlist var á hærra stigi hjá þýzka innrásarhernum. Það er dómgreindarleysi að gera því skóna, að vitstola einræðisseggur í Moskvu 2022 muni láta af upphaflegum fyrirætlunum sínum um landvinninga, ef samþykkt verður, að hann megi halda þeim mikilvægu landsvæðum fyrir efnahag Úkraínu, sem Rússar hafa lagt undir sig með grimmdarlegum hernaði gegn innviðum og íbúum, sem lygararnir þykjast vera að frelsa. Þorpararnir munu sleikja sárin og skipuleggja nýjar árásir til framkvæmda við fyrsta tækifæri.
"Klaus Wittmann, fyrrverandi undirhershöfðingi í þýzka hernum [Bundeswehr] og lektor í samtímasögu við Potsdam háskóla [e.t.v. skyldur fremsta skriðdrekaási Wehrmacht, SS-Hauptsturmführer Michael Wittmann], ritaði grein í Die Welt í vikunni, þar sem hann sagði, að þeir, sem krefðust vopnahlés fyrir hönd Úkraínumanna, áttuðu sig líklega ekki á, hvernig umhorfs yrði á þeim svæðum, sem Vladimir Putin, Rússlandsforseti, hefði lagt undir sig.
Sagði Wittmann, að engar líkur væru á, að Rússar myndu skila þeim í friðarviðræðum og að það væri vel vitað, að hernámslið Rússa tæki nú þátt í óskiljanlegum voðaverkum á hernámssvæðunum. Nefndi Wittmann þar m.a. morð, nauðganir og pyntingar, auk þess sem hundruðum þúsunda Úkraínumanna hefur verið rænt og þeir fluttir með valdi til Rússlands. Þá væru Rússar að ræna menningarverðmætum frá söfnum, eyðileggja skóla og sjúkrahús, brenna hveiti og hefna sín á stríðsföngum.
Það að gefa eftir landsvæði til Rússlands væri því að mati Wittmanns að ofurselja milljónir Úkraínumanna sömu örlögum, sem væru jafnvel verri en dauðinn. Benti Wittmann jafnframt á, að engin trygging væri fyrir því, að Pútín myndi láta staðar numið, þegar hann hefði lagt undir sig Úkraínu að hluta eða í heild.
Gagnrýndi Wittmann sérstaklega hægagang þýzkra stjórnvalda og tregðu við að veita Úkraínumönnum þungavopn, sem hefðu getað nýtzt þeim í orrustunni í [bardögum um] Donbass. Sagði hann, að Þjóðverjar þyrftu að íhuga, hvaða hlutverk þeir vildu hafa spilað [leikið].
"Ef Úkraína vinnur, viljum við vera meðal þeirra, sem lögðu mikið af mörkum ? Eða, ef Úkraína tapar og er þurrkuð út og bútuð í sundur sem sjálfstætt evrópskt ríki, viljum við segja við okkur, að stuðningur okkar var ekki nægur, því [að] hann var ekki af heilum hug - að við gerðum ekki allt, sem við gátum ?". Sagði Wittmann í niðurlagi greinar sinnar, að það þyrfti því ekki bara að hafa áhyggjur af örlögum Úkraínu og úkraínsku þjóðarinnar, heldur einnig [af] orðspori Þýzkalands."
Allt er þetta satt og rétt, þótt með eindæmum sé í Evrópu á 21. öld. Villimannleg og óréttlætanleg innrás rússneska hersins í Úkraínu 24.02.2022 var ekki einvörðungu gerð í landvinningaskyni, heldur til að eyðileggja menningu, nútímalega innviði og sjálfstæðisvitund úkraínsku þjóðarinnar, svo að Úkraínumenn og lýðræðisríki þeirra mundi aldrei blómstra og verða Rússum sjálfum fyrirmynd bættra stjórnarhátta. Að baki þessum fyrirætlunum liggur fullkomlega glæpsamlegt eðli forstokkaðra einræðisafla í Rússland, sem eiga sér alls engar málsbætur og hinum vestræna heimi ber að útiloka algerlega frá öllum viðskiptum og meðhöndla sem útlagaríki, þar til skipt hefur verið um stjórnarfar í Rússlandi, því að glæpahyski Kremlar og Dúmunnar er ekki í húsum hæft í Evrópu.
"Andrzej Duda, forseti Póllands, gekk skrefinu lengra í gagnrýni sinni í gær [09.06.2022] og fordæmdi bæði Macron og Olaf Scholz, kanzlara Þýzkalands, fyrir að vera enn í samskiptum við Pútín. Í viðtali við þýzka blaðið Bild spurði Duda, hvað þeir teldu sig geta fengið fram með símtölum sínum við Pútín.
"Talaði einhver svona við Adolf Hitler í síðari heimsstyrjöldinni", spurði Duda. "Sagði einhver, að Adolf Hitler þyrfti að bjarga andlitinu. Að við ættum að hegða okkur á þann veg, að það væri ekki niðurlægjandi fyrir Adolf Hitler ? Ég hef ekki heyrt af því", sagði Duda.
Hann bætti við, að samtöl vestrænna leiðtoga við Pútín færðu honum einungis réttmæti þrátt fyrir þá stríðsglæpi, sem rússneski herinn hefði framið í Úkraínu og þrátt fyrir, að ekkert benti til þess, að símtölin myndu bera nokkurn árangur.
Duda gagnrýndi einnig þýzkt viðskiptalíf, sem virtist skeyta lítið um örlög Úkraínu eða Póllands og vildi helzt halda áfram viðskiptum sínum við Rússland, eins og ekkert hefði í skorizt. "Kannski trúir þýzkt viðskiptalíf ekki, að rússneski herinn geti aftur fagnað stórum sigri í Berlín og hertekið hluta Þýzkalands. Við í Póllandi vitum, að það er mögulegt.""
Sjónarmið og málflutningur forseta Póllands, Andrzej Duda, eru fullkomlega réttmæt, af því að þau eru reist á réttu stöðumati og hættumati. Viðhorf, hegðun og gerðir forystumanna stærstu ESB-ríkjanna, Þýzkalands og Frakklands, eru að sama skapi fullkomlega óréttmæt. Þau eru reist á röngu hagsmunamati, vanmati á hættunni, sem af Rússum stafar, vanvirðu við Úkraínumenn og skilningsleysi á eðli þeirra átaka, sem nú fara fram í Úkraínu.
Þar fer fram barátta um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, í þessu tilviki fullvalda þjóðar, og á milli kúgunarstjórnkerfis og frelsisstjórnkerfis, þar sem í fyrra tilvikinu ríkir miðstýring upplýsingaflæðis og í síðara tilvikinu ríkir frjálst flæði upplýsinga. Hið síðast talda er undirstaða framfara á öllum sviðum, þ.á.m. í atvinnulífinu og í hagkerfinu, enda var árlegur hagvöxtur í Úkraínu 14 % á nokkrum árum fyrir innrásina, þegar hann var aðeins 2 % á ári í Rússlandi. Hefði þessi munur á hagvexti fengið að halda áfram óáreittur, mundi hagkerfi Úkraínu hafa náð því rússneska að stærð innan 21 árs. Það er þessi þróun mála, sem hefur valdið ótta í Kreml; miklu fremur en ótti við aðild Úkraínu að varnarbandalaginu NATO, enda er áróður rússnesku stjórnarinnar um það, að Rússland eigi rétt á áhrifasvæði (Finnlandiseringu) við landamæri sín hruninn með væntanlegri aðild Finnlands að NATO.
Nú er stórvirkari vopnabúnaður en áður á leiðinni til Úkraínu frá Vesturlöndum. Yfirmaður leyniþjónustu Úkraínu sagði fyrir um innrás Rússa með lengri fyrirvara en leyniþjónusta Bandaríkjamanna. Hann hefur spáð því, að viðsnúningur muni eiga sér stað á vígvöllunum síðla ágústmánaðar 2022 og að Úkraínumenn verði búnir að reka rússneska herinn af höndum sér um áramótinn 2022-2023 og að mannaskipti hafi þá farið fram í æðstu stjórn Rússlands, enda eru afglöp forseta Rússlands þau mestu í Evrópu síðan 01.09.1939, þegar þýzki herinn réðist inn í Pólland. Strax haustið 1940 laut Luftwaffe í lægra haldi fyrir Royal Airforce í baráttunni um Bretland, sem átti eftir að hafa forspárgildi um úrslit styrjaldarinnar þrátt fyrir hetjulega baráttu Þjóðverja við ofurefli liðs. Nú er ekkert hetjulegt við lúalega baráttu Rússahers við mun minni her og herafla Úkraínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2022 | 18:00
Samþjöppun ?
Þegar talað er um samþjöppun í atvinnugrein, er vanalega átt við fækkun sjálfstæðra fyrirtækja/eigenda, sem leitt geti af sér skort á frjálsri samkeppni, staða, sem stundum er nefnd fákeppni. Nýlega dæmdi EFTA-dómstóllinn þá niðurstöðu ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, að hlutafjáraukning ríkisins í Farice, sem einokar þráðbundið fjarskiptasamband Íslands við umheiminn, stríddi ekki gegn reglum Innri markaðar EES (Evrópska efnahagssvæðisins) um ríkisafskipti og fákeppni, úr gildi. Það hefur engin ábending komið frá ESA, hvað þá dómsúrskurður frá EFTA-dómstólinum, um viðsjárverða þróun innan íslenzka sjávarútvegsins í átt til fákeppni. Engu að síður staglast fyrrverandi misheppnaður sjávarútvegsráðherra og núverandi vonlaus formaður s.k. Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, á því í tíma og ótíma, að binda verði endi á "samþjöppun" í sjávarútvegi.
Hugtakið samþjöppun í atvinnugrein kallar á viðmiðun, og viðmiðunin er yfirleitt fortíðin, en fortíð sjávarútvegsins er ekki fögur, svo að afturhvarf til fortíðar er ókræsileg tilhugsun og kemur einfaldlega ekki til greina, ef sjávarútvegurinn á áfram að verða hryggjarstykkið í hagkerfinu, eins og hann hefur verið, frá því að fyrirtækjum og skipum tók að fækka umtalsvert, svo að þau, sem störfuðu eftir "samþjöppun" tóku að skila hagnaði og þeim, sem hættu fé sínu í þessa starfsemi, arði, eins og er talið eðlilegt á meðal fyrirtækja hvarvetna á Evrópska efnahagssvæðinu, EES. Rekstur með hagnaði er þó ekki raunin innan sjávarútvegs EES, nema á Íslandi, og má útskýra þá sérstöku stöðu alfarið með aflahlutdeildarkerfinu og frjálsu framsali aflahlutdeilda hérlendis.
Það er líka hægt að útskýra, hvers vegna ESA hefur ekki sent íslenzkum yfirvöldum kvörtun yfir "samþjöppun" í íslenzkum sjávarútvegi. Skýringin er sú, að hún er minnst á Íslandi innan EES, og t.d. er kvótaþakið u.þ.b. tvöfalt hærra í Noregi, sem einnig býr við gjöful fiskimið á landgrunni sínu. Hér hafa heimóttarlegir íslenzkir stjórnmálamenn sem sagt búið til vandamál úr engu. Það er vel af sér vikið og þeim líkt. Það slagar upp í þónokkurt afrek óhæfninnar. Líklega hefur varaformaður Viðreisnar enn ekki meðtekið "uppgötvun" formannsins, því að hún vantreysti honum, prófessor í auðlindanýtingu, til að taka sæti á vegum flokksins í umfangsmiklu nefndafargani, sem matvælaráðherra í vingulshætti sínum hefur slysazt til að setja á laggirnar til að skilgreina fyrir sig vandamálið ósýnilega, "samþjöppun í sjávarútvegi". Fíflagangurinn og sóun ríkisins ríða ekki við einteyming.
Morgunblaðið gerði þessu máli góð skil í forystugrein 1. júní 2022 undir fyrirsögninni:
"Meinsemd sjávarútvegsins".
Hún hófst þannig:
"Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur sjávarútvegsmál á sinni könnu, og í fyrradag [30.05.2022] lét hún þá skoðun í ljós í svari við fyrirspurn á Alþingi, að samþjöppun í sjávarútvegi væri "meinsemd" eða öllu heldur sú staðreynd, að hún vissi ekki, hve mikil samþjöppunin væri. Þetta er sérkennileg yfirlýsing; ekki þó sízt, að ráðherrann gerði hana að ástæðu þess, að hún hygðist skipa fjölmenna samráðsnefnd og 4 sérfræðihópa til þess að grafast fyrir um þetta og önnur málefni sjávarútvegsins. Binda verður vonir við, að þeim fjölda takist að uppræta meinsemdina í huga ráðherrans, en nefndirnar voru kynntar í gær."
Það er "futile" verkefni og verður unnið fyrir gýg að reyna að fækka meinlokunum í huga þessa ráðherra, sem er sameignarsinni og vill þess vegna færa öflugustu atvinnutæki landsins í hendur ríkisins í anda kenningasmiða misheppnuðustu hugmyndafræði seinni tíma í mannkynssögunni, sameignarstefnunnar, sem sósíalismi og jafnaðarstefna (kratismi) eru sprottin af.
Reynslan sýnir, að ríkisvaldið ræður ekki við að reka nokkra atvinnustarfsemi skammlaust. Ráðherrann fylgir hugmyndafræði, hverrar æðsta mark er gríðarleg samþjöppun atvinnulífs undir einum eiganda, ríkinu. Þess vegna grætur ráðherrann krókódílstárum yfir samþjöppun yfirleitt í atvinnulífinu. Það sætir furðu, að þessi endemis yfirmaður matvælamála landsins skuli ekki hafa neitt þarfara að gera, þegar ofboðslegar erlendar verðhækkanir á aðföngum íslenzks landbúnaðar eru u.þ.b. að ríða honum á skjön. Hefur sjávarútvegurinn þurft að leita á náðir ríkisvaldsins við þessar aðstæður ? Nei, en þá grípur afskiptasamur og illviljaður ráðherra gagnvart einkaframtaki til þess óyndisúrræðis að búa til vandamál. Svona eiga ráðherrar ekki að beita sér.
"Nú er það raunar svo, að samþjöppun í sjávarútvegi á Íslandi er alls ekki mikil. Jú, það er auðvelt að benda á örfá stórfyrirtæki í þeim geira, en þau segja fremur sögu um það, hvernig kvótakerfið hefur komið á hagkvæmni í greininni, gert sjávarútveginn arðsaman og líkan öðrum greinum, þar sem rúm er fyrir stór og vel rekin fyrirtæki. Stórfyrirtækin eru hins vegar undantekning, því [að] það er einmitt einkenni á sjávarútvegi, hvað þar þrífast mörg fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum umhverfis landið. Það er erfitt að benda á aðrar atvinnugreinar, þar sem samþjöppun er minni, hvort sem litið er til smásölu, fjármálageira, iðnaðar eða einhvers annars."
Samþjöppunartal hælbíta sjávarútvegsins er fremur reist á draumórakenndri fortíðarþrá en umhyggju fyrir viðskiptavinum sjávarútvegsins. Að 95 % í tonnum talið er markaðssetningin á erlendri grundu, og flestir þar kjósa að eiga viðskipti við trausta fiskbirgja með sveigjanlegt afhendingarmagn á viku eftir þörfum markaðarins. Það er alveg öruggt, að fyrir íslenzka þjóðarbúið er æskilegt, að íslenzkir birgjar á erlendum fiskmörkuðum séu stórir og öflugir á íslenzkan mælikvarða, því að þannig verða þeir aldrei á erlenda mælikvarða.
Hagkvæmni stærðarinnar gerir sjávarútvegsfyrirtækjum kleift að fjárfesta í afkastamiklum veiðitækjum og fiskvinnslum með mikilli sjálfvirkni og þar með samkeppnishæfri framleiðni. Ef enn þrengri stærðarmörk yrðu sett af stjórnvöldum á íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki, mun verðmætasköpun þeirra einfaldlega dvína. Þannig væri hælbítum sjávarútvegsins á Alþingi hollt að fara í áhættugreiningu á því, hverjar afleiðingar eru af stöðugu nöldri þeirra og nagi í garð sjávarútvegsins, og hverjar þær yrðu af því að þrengja að hag fyrirtækjanna með strangari stærðarmörkum og/eða hærri skattheimtu.
"En það er þessi kvörtun um, að sjávarútvegurinn fjárfesti í öðrum greinum, sem kemur upp um Þorgerði Katrínu og Viðreisn. Það er einmitt lóðið í kapítalismanum [við auðhyggjuna - innsk. BJo], að þar er skapaður arður og auður, sem nota má í fleira en uppsprettu hans. Að þar verði til afgangur, sem megi nota í eitthvað nýtt og betra, að menn geti stuðlað að nýsköpun í atvinnulífi án þess að skipta um starfsvettvang. Að auðsköpun í einni grein nýtist í öðrum, landi og þjóð til heilla. Flokkur, sem skilur það ekki, skilur ekki neitt og er ekki hægri flokkur í neinum skilningi.
Þess vegna er Viðreisn sjálfsagt hollast að fara að uppástungu í forystugrein flokksmálgagnsins í liðinni viku og sameinast systurflokknum Samfylkingu."
Þetta er vel að orði komizt. Hvers konar ráðsmennska er það eiginlega vítt og breitt í samfélaginu, að útgerðarmenn eða fiskvinnslumenn megi ekki græða eða þurfi að ganga fyrir Pontíus og Pílatus til að fá leyfi til að fjárfesta annars staðar en í sjávarútvegi ? Þeir, sem hagnast, hafa fullt frelsi til að ráðstafa þeim hagnaði, sem í þeirra hlut fellur. Ef hömlur yrðu settar á þetta, er eins víst, að þessi hagnaður mundi gufa upp. Það er hið bezta mál, að arður sjávarútvegsins dreifist sem víðast í samfélaginu.
Nú berast fregnir af því, að sjávarútvegsfyrirtæki fjárfesti í fiskeldi, mest í landeldi. Það er ofur eðlilegt. Fiskveiðum við Ísland eru skorður settar á grundvelli fiskveiðiráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar, en í fiskeldinu eru engar slíkar skorður, ef úthafseldi er tekið með í reikninginn, en Norðmenn reka nú tröllvaxnar tilraunakvíar úti fyrir fjörðum Noregs. Markaðurinn er mjög próteinþurfi, svo að eftirspurninni eru engin merkjanleg takmörk sett.
Með framgöngu Viðreisnar í Reykjavík eftir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2022 má öllum vera ljóst, hvar hjarta hennar slær. Það slær í brjóstholi kratakvikindisins í pólitíkinni. Eftir þetta ráðslag í Reykjavíkeru dagar Viðreisnar taldir. Atkvæði hennar komu frá hægri, en munurinn á stefnu flokksforystunnar og kratakraðaksins er bitamunur, en ekki fjár. Ef kjósendur greina vart á milli flokka, er hætt við, að annar lognist út af, verði afvelta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)