Færsluflokkur: Bloggar
18.9.2022 | 17:52
Misheppnaðir gjörningar í orkumálum
Stjórnmálamönnum er fullljóst, hvers konar lykilhlutverki frumorka hvers konar og raforkuvinnsla úr henni gegna í þjóðfélögum nútímans, en þeim eru þó mörgum hverjum mjög mislagðar hendur, þegar kemur að hlutverki þeirra sjálfra við mótun og framkvæmd orkustefnu fyrir sín samfélög. Að fjalla af viti um orkumál krefst þekkingar, sem er eðlilega ekki á allra færi, enda skripla þar margir á skötunni. Það er aðeins tvennt, sem hægt er með sanngirni að gera kröfu til stjórnmálamanna á Vesturlöndum, að þeir geri fyrir orkumál landa sinna:
(1) að tryggja heimilum og atvinnulífinu viðunandi orkuöryggi, þ.e. nægt orkuframboð til að fullnægja eftirspurn m.v. verð á hverjum tíma og (2) framboð frumorku sé nægt til að halda einingarverði orkunnar tiltölulegu stöðugu, t.d. sveiflur minni en +/- 30 % frá ársmeðaltali.
Það er öllum ljóst, að yfirvöldum í Evrópu hefur tekizt þetta hrapallega. Þeir settu á laggirnar markaðskerfi raforku, sem var ekki hannað fyrir frumorkuskort. Þvert á móti verður alltaf að vera nægt framboð frumorku, til að uppboðskerfi raforku, reist á jaðarkostnaðarreglu, virki. Nú er raforkuverð í Evrópu hátt yfir meðalkostnaði raforkuvinnslunnar, og þess vegna er mikill gróði hjá raforkuframleiðendum öðrum en gasorkuverum. Á meðal raforkusölufyrirtækja er hins vegar tap og getur blasað við gjaldþrot, þar sem selt hefur verið fram í tímann á gamla verðinu.
Samið var við einræðisríki, með ofbeldisfulla og árásargjarna sögu, um kaup á frumorku í miklum mæli án tiltækra varaleiða. Nú hefur þetta einræðisríki sýnt sitt rétta andlit og notfært sér stöðu sína á orkumarkaðinum í tilraun til að knýja fram vilja sinn á öðrum sviðum, þ.e. til að dregið verði úr refsiaðgerðum á þetta hryðjuverkaríki vegna villimannlegrar og óréttlætanlegrar innrásar í lýðræðislegt og friðsamlegt nágrannaríki. Einræðisríkið hefur reynt að búa til orkuskort í Evrópu. Þær tilraunir hafa enn ekki leitt til beins skorts, en verðið hefur margfaldazt á eldsneytisgasi, en er nú tekið að falla aftur á jarðolíu og jafnvel á jarðgasinu líka vegna aukins framboðs annarra og minni eftirspurnar frá Kína. Notendur hafa líka dregið úr notkun jarðgass, svo að betur gengur að safna vetrarbirgðum en óttazt var snemmsumars.
Þetta sýnir, hversu mikilvægt er, að yfirvöld og birgjar hafi vakandi auga fyrir áhættuþáttum á framboðshliðinni. Það er ekki nóg að stýra flutningskerfunum í smáatriðum og veita nákvæma forskrift um markaðssetningu orkunnar, í þessu tilviki um uppboðsmarkað í orkukauphöll, eins og Evrópusambandið (ESB) gerir með gölluðum hætti, ef framboðshliðin er vanrækt.
Þessi veikleiki á líka við um Ísland, þótt öðruvísi sé. Hér hafa stjórnmálamenn og embættismenn búið til stjórnkerfi, sem er með slíkum böggum hildar, að það hefur bæði búið til staðbundinn raforkuskort vegna úrelts flutningskerfis og tímabundinn heildar afl- og orkuskort vegna tregðu við að veita framkvæmdaleyfi. Að þetta skuli gerast í orkuríkasta landi Evrópu frá náttúrunnar hendi m.v. fjölda íbúa, þar sem ætti að vera auðveldara að skapa gegnsætt og skilvirkt stjórnkerfi en annars staðar vegna fámennis, er sorgarsaga. Það er mjög fátt, ef nokkuð, sem virðist ganga hnökralaust, þar sem stjórnmálamenn og embættismenn eru í aðalhlutverkum.
Það er þess vegna mikilvægt stefnumál að einfalda og straumlínulaga stjórnsýsluna og draga úr áhrifum embættismanna á þjóðfélagsstarfsemina á öllum sviðum, þar sem flöskuhálsar koma í ljós. Þetta er hægara sagt en gert, því að varðhundar kerfisins eru fjölmennir í pólitíkinni.
Þann 9. september 2022 gerðu Staksteinar Morgunblaðsins pistil Jóns Magnússonar, lögmanns, um orkumálin skil undir fyrirsögninni:
"Kuldaleg örbirgð".
"Stjórnmálastétt Evrópu hefur um árabil hamazt við að loka orkuverum og stuðla að svo nefndum orkuskiptum til þess að koma í veg fyrir hlýnun af mannavöldum. Afleiðingin er hærra orkuverð til neytenda og heljartak Rússa á orkusölu."
Téð stjórnmálastétt hefur gert allt með öfugum klónum. Hún hefur tekið gríðarlega og óverjandi áhættu á framboðshliðinni, og í Evrópusambandinu hefur hún ekki gert neinar vitrænar og róttækar ráðstafanir, sem duga til að draga úr losun koltvíildis við orkuvinnslu og orkunotkun. Ráðstafanirnar, sem mundu duga Evrópumönnum í þessum efnum, er að reisa kjarnorkuver og loka kolaorkuverum, þegar framboð raforku er orðið nægt. Þess í stað hafa þeir fordæmt kjarnorkuna og lokað kjarnorkuverum. Allar stærstu gjörðir þeirra í orkumálum hafa gert illt verra, svo að engu er líkara en þessir stjórnmálamenn hafi einfaldlega verið strengjabrúður Pútíns, og að Angela Merkel hafi þar leikið aðalhlutverkið. Arfleifð hennar er afleit. Hún beitti sér t.d. fyrir banni Sambandsþingsins í Reichstag á gasvinnslu með vökvaþrýstingi neðanjarðar, sem Pútín laug að henni, að væri stórhættuleg, en engin dæmi voru þó um umhverfisslys af þessum völdum áður í Þýzkalandi. Græningjar sem ríkisstjórnarflokkur í Berlín eru nú að vinda ofan af hverri vitleysunni á fætur annarri í sinni stefnu, hvort sem um er að ræða skinhelgi í hermálum eða dellu í umhverfismálum. Þýzkalandi verður þó vart mörkuð leiðandi og lífvænleg framtíðarstefna fyrr en Friedrich Merz, formaður CDU, sem Merkel bolaði burt, tekur við keflinu í "Kanzleramt" í Berlín.
"Afleiðing af glórulausu ofstæki í orkumálum og hjátrú loftslagsbreytinga verður til þess, að í vetur verður helkuldi víða á heimilum í Evrópu, af því að fólk hefur ekki efni á að hita upp. Framleiðsla dregst saman og örbirgð eykst vegna minni þjóðarframleiðslu."
Ekki er líklegt, að þessi helkuldaspádómur á mörgum heimilum rætist vegna þess, að markaðskraftarnir eru fljótir að taka við sér. Bæði olíu- og gasverð fer nú lækkandi. Bretar o.fl. munu sennilega geta aukið gasvinnslu sína í haust og vetur að tilhlutan Liz Truss, enda til mikils að vinna. Þýzkum fyrirtækjum hefur á undraskömmum tíma tekizt að draga stórlega úr gasþörf sinni án þess, að komi niður að ráði á framleiðslunni. Afkomendum þeirra, sem héldu uppi fullri hergagnaframleiðslu fyrir Wehrmacht með allt í rúst ofanjarðar, er ekki fisjað saman. Tapararnir eru Moskvumenn, sem enn á ný sýna af sér arfaslaka herstjórn, misreiknuðu sig á öllum vígstöðvum og tókst ekki að knýja skjálfandi Evrópumenn á hnén núna með því að skrúfa fyrir eldsneytisgasið til þeirra. Með villimannlegum tilburðum sínum á öllum vígstöðvum hafa þeir bitið af sér beztu kúnnana um alla framtíð. Fyrir vikið bíður þeirra að lepja dauðann úr skel.
"Kaldhæðni örlaganna verður þá, að fjöldi þeirra, sem deyja úr kulda í Evrópu margfaldast vegna tilrauna stjórnmálastéttarinnar til að koma í veg fyrir, að fólk deyi úr hita. Því miður virðist íslenzka stjórnmálastéttin jafnlangt gengin í ruglandanum og sú evrópska og hefur skuldbundið þjóðina til að greiða milljarðatugi á næstu árum á grundvelli Parísarsamkomulagsins svo nefnda, sennilega af því að fólki finnst vera allt of hlýtt á Íslandi."
Kjarni þessa boðskapar er, að það er kolröng forgangsröðun á ferðinni í Evrópu allri í orkumálunum. Framboðshliðin hefur verið hundsuð. Það er skylda stjórnmálamanna í nútíma þjóðfélögum að sjá til þess, að jafnan sé til næg raforka og orka til upphitunar á viðráðanlegu verði fyrir alla borgarana og atvinnureksturinn. Inngrip stjórnmálamanna hafa verið þveröfug. Þeir hafa lagt frumorkuafhendinguna í hendur ofbeldisfulls einræðisherra, sem um langa hríð er búinn að láta í ljós opinberlega vitstola hugmyndir um nýlendustríð til að endurreisa kúgunarstöðu Rússa yfir öðrum Slövum og Eystrasaltsþjóðunum, jafnvel Finnum. Þeir hafa niðurgreitt raforku frá vindmyllum og sólarhlöðum, sem valda miklu álagi á náttúruna við öflun efna og þurfa stóran flöt á afleiningu og eru algerlega óáreiðanlegur aflgjafi. Þeir hafa útilokað þá gerð orkuvera, sem ein getur víðast hvar leyst orkuver knúin jarðefnaeldsneyti af hólmi, þ.e. kjarnorkuverin. Á Íslandi virðast þeir vera á góðri leið með að útiloka hagkvæmustu og umhverfisvænstu tæknina, þ.e. þá, sem felst í að beizla fallorku vatns. Allt, sem stjórnmálamenn hafa aðhafzt í orkumálum, er markað sérvizku og dómgreindarleysi.
Afleiðingin er sú, að hjakkað er í sama farinu varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, orkuverðið í Evrópu er orðið svimandi hátt, og fleira fólk mun deyja úr kulda í vetur í Evrópu en dó af völdum hás hitastigs í sumar. Að Íslendingar skuli hafa verið skuldbundnir með jafnóábyrgum hætti og raun ber vitni um varðandi samdrátt losunar koltvíildis að viðlögðum þungum fésektum er til vitnis um, að ráðamenn eru á valdi sefasýkilegs áróðurs um heimsendi handan við hornið. Sá heimsendir kæmi ekki 5 mínútum fyrr, þótt Íslendingar ykju bara losun sína í samræmi við hagvöxt, því að það munar nánast ekkert um losunina innan lögsögu Íslands, enda er um 85 % orkunotkunarinnar úr umhverfisvænum orkulindum. Það leika ekki margar þjóðir eftir.
Þetta hrikalega sjálfskaparvíti meginlandsmanna og Breta í orkumálum er vatn á myllu þeirra Evrópumanna, sem framleiða allt sitt rafmagn án aðkomu jarðefnaeldsneytis, en það eru líklega bara frændþjóðirnar, Norðmenn og Íslendingar. Norðmenn sitja hins vegar með skeggið í póstkassanum, eins og þeir taka til orða sjálfir um þá, sem verður á í messunni, því að menn með þá pólitísku trú, að vist í fangi Evrópusambandsins sé frelsandi fyrir Norðmenn, börðu Stórþingið til hlýðni (þetta á aðallega við um Verkamannaflokkinn), svo að það samþykkti innleiðingu Orkupakka 3 í norka lagasafnið. Með því lét Stórþingið völdin yfir millilandaflutningum raforku til og frá Noregi í hendur ACER-Orkustofu ESB vitandi vits, því að margsinnis var varað við þessu í ræðu og riti innan þings og utan. Nú sitja íbúar Noregs, nema norðurhlutans, uppi með Svarta-Péturinn og u.þ.b. tífalt hærra raforkuverð en eðlilegt getur talizt m.v. aðstæður í Noregi, og ríkisstjórnin getur ekki ákveðið að hætta útflutninginum til að safna vetrarforða í miðlunarlónin vegna OP3. Ola Nordmann og Kari eru ekki ánægð með þetta.
Í þessu orkuríka landi, Noregi, frá náttúrunnar hendi kemur þetta ástand líka niður á orkukræfum iðnaði, því að hann er ekki með langtímasamninga, sem spanna alla orkuþörf hans. Þannig er Norsk Hydro að draga saman seglin í áliðnaðinum í Noregi, og hefði það einhvern tímann þótt vera saga til næsta bæjar m.v. markaðstæður núna og markaðshorfur, þegar álver annars staðar án aðgangs að raforku frá vatnsorkuverum eru að leggja upp laupana eða a.m.k. að minnka umsvifin vegna þrúgandi hás orkuverðs. Stór hluti Mittelstand í Þýzkalandi, sem er samheiti eigenda smárra og meðalstórra iðnaðarfyrirtækja, oft fjölskyldufyrirtækja í nokkra ættliði á sérhæfðu sviði, segjast ekki lengur vera samkeppnishæfir á mörkuðum, því að þeir þurfi að borga tífalt hærra orkuverð en samkeppnisaðilar, t.d. í Bandaríkjunum. Grundvöllur atvinnulífs í ESB er að bresta með kreppu sem afleiðingu vegna algerlega misheppnaðrar orkustefnu Þýzkalands og ESB.
Þann 9. september 2022 birtist frétt með viðtali við Þórð Gunnarsson, hagfræðing, undir fyrirsögninni:
"Orkukreppan gæti kallað á lokun fleiri álvera í Evrópu".
Um þessa fyrirsögn má segja, að eins dauði er annars brauð (Eines Tot einem anderen Brot), því að bann við Rússaáli, tollur á Kínaál og stöðvun kerskála í Evrópu vegna hás orkuverðs ætti að skapa grundvöll fyrir meiri eftirspurn en framboð af áli og þar með hátt verð á því. Það skapar grundvöll til aukinna fjárfestinga hérlendis, góðs hagnaðar íslenzkra orkufyrirtækja og þar með ávöxtun eigendanna á eigin fé í orkuverunum.
Í fréttinni sagði m.a.:
"Haft var eftir Clive Moffatt, sérfræðingi í orkumálum, í viðtalsþætti Nigel Farage á GB News, að verkfræðingar hefðu verið boðaðir til fundar vegna áætlana um að hefja á ný raforkuframleiðslu úr kolum í Drax-raforkuverinu á Bretlandi.
Þórður [Gunnarsson, hagfræðingur] segir aðspurður, að heyrzt hafi óstaðfestar fréttir um slík áform, en taka muni nokkurn tíma að endurræsa kolaorkuverin. Þá sé til skoðunar að aflétta banni við vinnslu jarðgass með bergbroti í Bretlandi, en henni sé hægt að koma í gagnið á nokkrum mánuðum.
Að sama skapi sé til umræðu í Hollandi að hefja á ný vinnslu jarðgass úr Groningen-gaslindinni, en henni hafi verið hætt vegna loftslagsmála."
Það er grundvallar skilyrði, að forgangsraðað sé í þágu fólksins, en í orkumálunum fer því fjarri, að það hafi verið gert í Evrópu. Í fyrsta forgangi er að útvega næga raforku á viðráðanlegu verði fyrir almenning. Þess vegna verður núna að kveikja upp í öllum fáanlegum kötlum, sem knúið geta rafala, og jafnvel hitað vatn til upphitunar húsnæðis ásamt því að afla allrar fáanlegrar frumorku innanlands og þess, sem á vantar erlendis frá utan Rússlands, sem skrúfað getur hvenær sem er fyrir allar lagnir, sem það ræður yfir, til Vesturlanda, auk Nord Stream 1 og 2, sem eru lokaðar.
Fysta krafan er að hindra straumleysi, að gera fólki kleift að hita híbýli sín. Losun Evrópu á koltvíildi í fáein ár mun hvort sem er engum sköpum skipta um hlýnun jarðar. Stjórnmálamenn eru búnir að valda miklu tjóni með rangri forgangsröðun. Það er hægt að bæta birgðastöðu eldsneytisgass með því að leyfa aftur vinnslu þess á landi úr setlögum með því að beita vökvaþrýstingi neðanjarðar, en það var ein af vitleysum stjórnmálamanna á fyrstu tveimur áratugum þessarar aldar, t.d. Angelu Merkel, að banna þessa vinnslu vegna ímyndaðrar umhverfisvár, en aldrei hafði orðið nokkurt umhverfisslys af þessum völdum í Þýzkalandi. Það er eins og Merkel hafi gert sér leik að því að gera Þjóðverja berskjaldaða gagnvart Rússum, þegar þeim dytti í hug að loka fyrir gasið.
""Nýlega var samþykkt á Evrópuþinginu, að fjárfestingar í raforkuframleiðslu úr gasi flokkist sem grænar. Markmið í loftslagsmálum eru ekki efst á baugi núna, heldur snýst málið um, hvort fólk krókni úr kulda í vetur", segir Þórður."
Þarna lýsir Þórður Gunnarsson, hvert vitlaus forgangsröðun stjórnmálamanna í orkumálum hefur leitt Evrópubúa. Engir hafa eytt meira af skattpeningum íbúanna í niðurgreiðslur á raforku úr vindmyllum og sólarhlöðum. Nú, þegar hæst á að hóa, er ekkert hægt að reiða sig á þessar kjánalegu fjárfestingar. Áður en orkuver knúin jarðefnaeldsneyti eru lögð niður, verður að vera búið að reisa orkuver án koltvíildislosunar, sem geta tekið við, t.d. kjarnorkuver.
Að reiða sig á mikilvæga aðdrætti frá einræðisríki, sem hefðbundið hefur stundað nýlendukúgun í Evrópu, og var jafnvel með grimmilega árásarsögu á 21. öldinni fyrir 24. febrúar 2022, er svo mikil blindni og grafalvarlegur barnaskapur, að það er ekki einleikið, og hafa grunsemdir um fláræði vaknað af minna tilefni.
Hér á Íslandi hafa draumlyndir stjórnmálamenn skuldbundið þjóðina um minnkun losunar koltvíildis 2030, sem er óraunhæf með öllu án verulegrar kjaraskerðingar, en láta þó Orkustofnun komast upp með að láta útgáfu virkjanaleyfa, t.d. fyrir Hvammsvirkjun, dankast. Þegar kemur að orkumálum, nær framlag stjórnmálamanna ekki máli og veldur miklu samfélagslegu tjóni. Tvískinnungur og hræsni eru aldrei vænleg fyrir árangur í þágu fólksins í stjórnmálunum.
Að lokum stóð í þessari frétt:
"Spurður um stöðuna í Frakklandi segir Þórður, að vegna lítillar úrkomu hafi kjarnorkuver þar í landi verið keyrð með 30 %-40 % afköstum í sumar, enda hafi skort kælivatn fyrir kjarnakljúfana. Það hafi birzt í orkuverðinu í sumar, sem hafi oft og tíðum verið hærra en í Þýzkalandi.
"Ríki, eins og Frakkland og Þýzkaland, munu komast í gegnum þetta, en þurfa að borga mikið fyrir orkuna. Ef Rússar halda áfram að skrúfa fyrir gasið, er fátt, sem bendir til, að orkuverð muni lækka mikið [í Evrópu á næstunni], nema það verði meiri háttar kreppa og stórnotendur raforku stöðvi framleiðslu", segir Þórður."
Í Frakklandi er nú lögmál Murphys að verki, þ.e. það slæma, sem getur gerzt, gerist á versta tíma. Umfangsmikið fyrirbyggjandi viðhald eftir ástandsgreiningu margra kjarnorkuvera var ekki talið mega bíða. Á sama tíma hefur vatnsorkuverin skort vatn. Afleiðingin er sú ótrúlega staða, að raforkuverð í Frakklandi hefur um hríð verið hærra en í Þýzkalandi. Gallarnir sitja ekki uppi með græningja í ríkisstjórn, eins og nágrannarnir austan Rínar, og hafa þess vegna tekið þá rökréttu ákvörðun að setja kraft í að reisa um 6 ný kjarnorkuver, en slík vitræn ákvörðun vefst fyrir Germönum, sem hafa ekki einu sinni ákveðið að fresta lokun 3 síðustu kjarnorkuvera sinna. Öðru vísi mér áður brá. Neyðin mun þó kenna nakinni konu að spinna sem forðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2022 | 16:15
Orkupakki 4 í dvala
Það er að vonum á örlagatímum, þegar orkan í öllum sínum myndum er í brennidepli, að umræðan um Orkupakka 4 (OP4), nýjustu endurskoðun Evrópusambandsins (ESB) á orkulöggjöf sinni, hafi um sinn hafizt aftur í Noregi. Annar stjórnarflokkurinn, Senterpartiet (Sp-Miðflokkurinn) hefur nú samþykkt í flokksstofnunum sínum að leggjast gegn innleiðingu þessarar ESB-orkulöggjafar í norskan rétt. Þar með er loku fyrir það skotið, að núverandi ríkisstjórn Noregs muni samþykkja, að OP4 verði vakinn úr dvala á vettvangi EFTA, og þar með verður hann ekki tekinn á dagskrá Sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem fjallar um alla löggjöf ESB, sem Sambandið vill, að EFTA-lönd EES-samningsins innleiði hjá sér.
Nú hefur hinn stjórnarflokkurinn, Verkamannaflokkurinn (Ap-Arbeiderpartiet), og aðrir flokkar á Stórþinginu, sem á sínum tíma greiddu götu OP3 inn í norskan rétt, áttað sig á því, að ekki eru öll 8 skilyrði þeirra fyrir að fallast á norska innleiðingu OP3 uppfyllt, eins og andstæðingar OP3 sögðu raunar fyrir um. Ap hélt því fram, að opinbert eignarhald á mörgum vænum virkjunum og Statnett, sem á allar millilandatengingarnar við Noreg, mundi duga til að varðveita stjórnunarrétt ríkisins á nýtingu orkulinda Noregs. Annað er nú komið á daginn.
Vatnsstaða miðlunarlóna austanverðs og sunnanverðs Noregs er svo lág núna m.v. árstíma, að samhljómur er á meðal stjórnmálamanna um, að nú sé brýnt fyrir Noreg að hætta að flytja raforku til útlanda, á meðan safnað sé vetrarforða í miðlunarlónin. Hvað gerist þá ? ACER-Orkustofa ESB neitar að láta stjórnun millilandaflutninganna af hendi, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem á að fylgjast með framfylgd EES-samningsins í EFTA-löndunum, rýkur út með opinbera tilkynningu um, að yfirtaka norskra stjórnvalda á stjórnun orkuflutninga millilandatenginga muni verða túlkuð af ESA sem brot á EES-samninginum og muni framkalla alvarleg mótmæli frá ESA og, ef nauðsyn krefur, að norska ríkið verði dregið fyrir EFTA-dómstólinn til að svara fyrir gjörninginn.
Þessi hjálparvana staða norska ríkisins í orkumálum kemur á versta tíma fyrir stjórnmálaflokkana, sem studdu OP3 árið 2018, því að raforkuverðið hefur hækkað upp úr öllu valdi í framangreindum landshlutum, þar sem vatnsstaða miðlunarlónanna er bágborin og áhrifa millilandastrengjanna gætir á raforkumarkaðinn. Athuguð var staða miðlunarlóna í % af hámarksfyllingu 09.09.2022 og raforkuverð í ISK/kWh 10.09.2022:
- Austurlandið------67,1 %------57,6 ISK/kWh
- Suðurlandið-------50,3 %------57,6 ISK/kWh
- Vesturlandið------69,8 %------57,6 ISK/kWh
- Mið-Noregur-------83,1 %------15,5 ISK/kWh
- Norður-Nor--------92,0 %-------5,7 ISK/kWh
Lónfylling í Noregi í heild er aðeins 68,5 % og lækkandi, sem er ófullnægjandi forðastaða fyrir veturinn. Hún er lökust, þar sem áhrif hinna öflugu sæstrengja til útlanda eru mest, en verðáhrifa millilandatenginganna gætir alls staðar, nema í Norður-Noregi. Þar er lónsstaðan og heildsöluverð raforku á svipuðu róli og á Íslandi um þessar mundir.
Með hliðsjón af þessari reynslu Norðmanna er með eindæmum að hlýða á einn af framkvæmdastjórum Landsvirkjunar í kvöldfréttum RÚV 08.09.2022 halda því fram, að óljóst sé, hver verðáhrif millilandatengingar með aflsæstreng frá Bretlandi eða meginlandinu til Íslands yrðu hérlendis. Þau yrðu háð flutningsgetu millilandatengingarinnar og vatnsstöðunni hér, en t.d. 1000 MW sæstrengur mundi hafa róttæk áhrif á vatnsstöðu íslenzkra miðlunarlóna til hins verra í núverandi markaðsstöðu, því að nánast alltaf væri arðsamara út frá þröngum sjónarmiðum virkjanaeigenda að selja raforkuna utan en innanlands. Sá gjörningur yrði hins vegar ekki þjóðhagslega hagkvæmur, því að raforkuverðið hér mundi togast upp í áttina að verðinu erlendis, eins og reyndin er í Noregi, þar sem allt að tíföldun raforkuverðs er afleiðing millilandatenginganna um þessar mundir. Tíföldun raforkuútgjalda heimila og almennra fyrirtækja hefði skelfileg efnahagsáhrif hér og mundi stórskaða samkeppnisstöðu, sem þegar á í vök að verjast. Hlutverki Landsvirkjunar samkvæmt lögum um hana yrði þá bókstaflega snúið á haus. Það verður tafarlaust að gera þá lágmarkskröfu til stjórnenda Landsvirkjunar, að þeir mæti ekki ólesnir í tíma, heldur geri sér grein fyrir þessum sannindum, sem nú eru fyrir framan nefið á þeim í Noregi.
Á Íslandi er nú miklu meiri spurn eftir raforku en framboð, og þannig mun staðan fyrirsjáanlega verða allan þennan áratug. Þegar af þeirri ástæðu er tómt mál að tala um að tengja raforkukerfi landsins við útlönd. Hér þarf nú að bretta upp ermar og hefja virkjunarframkvæmdir, sem eitthvað munar um. Það er nóg af kaupendum, sem vilja greiða nógu hátt verð fyrir rafmagn til nýtingar á Íslandi, til að nánast allir virkjunarkostir hérlendis gætu verið afar afar arðsamir.
Bloggar | Breytt 16.9.2022 kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.9.2022 | 13:38
Frelsisstríð og auðlindastríð
Það er þyngra en tárum taki, að þjóð í Evrópu skuli þurfa að heyja stríð til varnar frelsi sínu og fullveldi og þar með til að koma í veg fyrir að verða enn á ný hneppt í ánauð grimmra, villimannlegra og frumstæðra árásarseggja í austri. Úkraínumenn eru á hærra menntunar- og menningarstigi en Rússar almennt. Frelsisandinn hefur jafnan verið ríkur í brjóstum þeirra og dugar að nefna forfeður þeirra, kósakkana. Þeir vilja þess vegna mun fremur halla sér að Vesturlöndum en að Rússlandi um menningartengsl, viðskipti og stjórnarfar, og þetta þolir ofríkisgaurinn í Kreml ekki. Úkraínumenn þekkja til rússneskrar kúgunar af biturri reynslu. Hvorki forseti Rússlands né aðrir Rússar eiga að ráða neinu um stjórnskipun og stjórnarfar í nágrannaríkjum Rússlands, ekki frekar en Spánverjar eiga að ráða um málefni Portúgala.
Sagt er, að án Úkraínu hefðu Ráðstjórnarríkin vart verið annað en svipur hjá sjón. Það veitir þó að sjálfsögðu hinum fjölmennari og landmeiri Rússum engan rétt til að heyja landvinningastríð gegn Úkraínumönnum sem hvert annað illvígt nýlendustríð. Vesturlöndum hefur orðið á í messunni, að Rússar skyldu nú dirfast að rjúfa friðinn í Evrópu með stórfelldu árásarstríði. Evrópskir stjórnmálamenn gerðu grafalvarleg mistök með þeirri óverjanlegu áhættutöku að veita Úkraínumönnum enga öryggistryggingu og með því að setja eigin þjóðir í orkusnöru Kremlverja. Nú líður Evrópa öll fyrir þessi pólitísku mistök í öryggismálum.
Sárabót er, að Svíþjóð og Finnland leita nú inngöngu í NATO, og NATO verður að tryggja upphafleg (1991) landamæri sjálfstæðrar Úkraínu, svo að Úkraínumenn geti um frjálst höfuð strokið í framtíðinni.
Úkraína að austurhéruðunum og Krímskaga og lögsögu hans út í Svartahafið meðtöldum er gríðarlega auðugt landsvæði og sjávarbotn frá náttúrunnar hendi. Í Úkraínu, ekki sízt í austur- og suðurhlutanum, er t.d. hægt að vinna gríðarlega mikið af eldsneytisgasi með því að beita vökvaþrýstingi neðanjarðar (e. fracking). Hins vegar hefur komið í ljós, að enn betri horfur eru á vænum gasforðabúrum undir botni Svartahafs. Þar eru svo miklar birgðir af eldsneyti, að séð gætu allri Evrópu vestan Rússlands fyrir allri sinni gasþörf um áratugaskeið eða svo lengi, sem þörf krefur, þar til orkuskipti hafa farið fram. Rússland hefur nú lokað fyrir Nord Stream 1 og þar með jarðsett allan snefil af trausti Evrópuríkjanna til Rússlands sem eldsneytisbirgis. Ef Úkraínu tekst að endurheimta sín réttmætu landsvæði m.v. landamærin 1991-2014, þá bíður hennar vonandi björt framtíð sem lýðræðislegt velferðarríki, eins og hugur almennings þar stendur til, á traustum efnahagslegum grunni. Um þetta er barizt.
Það er með endemum, að einræðisseggur í Moskvu með innistæðulausa stórveldisdrauma skuli dirfast að ráðast inn í nágrannaland til að troða upp á það frumstæðum og spilltum stjórnarháttum sínum og framhald á langvinnri kúgun. Honum og meðreiðarsveinum hans verður að kenna sína lexíu. Niðurlæging Rússlands er mikil orðin, þegar stjórnvöld þar leita til útlagaríkisins Norður-Kóreu um kaup á vopnabúnaði, eins og nú berast tíðindi af. Settu Kínverjar afarkosti ?
Forystugrein Morgunblaðsins 25. ágúst 2022 fjallaði um það helvíti á jörðu, sem villimennirnir austan við Úkraínumenn bjóða þeim upp á núna:
"Hálft ár af hörmungum".
Þar stóð m.a.:
"Með það í huga [viðhorf Rússa til Úkraínumanna - innsk. BJo] verður sú spurning áleitin, hvernig friður geti á endanum náðst, ef endanlegt markmið Rússa er að ná yfirráðum í Úkraínu. Slík niðurstaða yrði einfaldlega óviðunandi fyrir hinn vestræna heim, enda yrði þá staðfest, að alþjóðalög væru til einskis og að nú gilti hnefarétturinn einn. Hver yrðu þá örlög annarra svæða, sem búa við hlið ágengra nágranna, sem ásælast þau ?
Volodimir Zelenski, forseti Úkraínu, orðaði það nýlega svo, að Úkraínumenn yrðu að berjast á hverjum einasta degi, til þess að hvert einasta mannsbarn gæti skilið, að Úkraína væri ekki hjálenda, skattland eða eign nokkurs heimsveldis, heldur "frjálst, fullvalda, ósundranlegt og sjálfstætt ríki". Í þessum orðum felst, að Úkraínumenn telja sér heldur ekki fært neitt annað en að berjast til annaðhvort sigurs eða hinztu stundar."
Þarna er vel komizt að orði um langstærsta viðfangsefni samtímans. Vesturlönd standa frammi fyrir því vali að láta engan bilbug á sér finna í vetur, þótt orkuskortur og dýrtíð kunni að sverfa að fólki, á meðan beztu synir og dætur Úkraínu falla á vígvellinum í vörn fyrir sjálfsagðan rétt þjóðar þeirra, og senda til Úkraínu allan þann bezta búnað og mesta, sem í valdi Vesturveldanna stendur, til að halda uppi merkjum frelsis og lýðræðis, eða lyppast niður með skömm gagnart glæpsamlegum ofbeldisöflum í Moskvu, sem einskis svífast í vitfirrtu stríði sínu gegn vestrænni Úkraínu.
Það er á flestra vitorði, að komist frumstætt ríki, sem stjórnað er af mafíósum, upp með gjörning sinn í einu ríki, þá verður enginn óhultur í kjölfarið. Þetta er ögurstund fyrir Vesturlönd. Þau verða að standa saman sem klettur með Úkraínu og beita öllum sínum mikla efnahagsmætti, sem er margfaldur á við Rússland í VLF mælt, til að hjálpa hinni einörðu og hugrökku þjóð, Úkraínumönnum, úr klóm bjarnarins. Ef það verður ekki gert núna, eru öll góð gildi Vestursins í húfi, gildi, sem áður hefur verið úthellt blóði fyrir. Þessi gildi eiga á hættu að rotna, ef gerðir fylgja ekki orðum núna.
Þessari forystugrein Morgunblaðsins lauk þannig:
"Það er enda sá hængur á [hernaðarárangri Úkraínumanna], að Úkraínumenn hafa þurft að treysta á stuðning bandamanna sinna í vestri til þessa, og sá stuðningur hefur, með nokkrum mikilvægum undantekningum, verið veittur með miklum semingi. Þó að fátt bendi til, að Bandaríkjamenn, Bretar, Pólverjar o.fl. muni hætta stuðningi sínum í bráð, má enn greina raddir í Þýzkalandi og annars staðar í Evrópu, þar sem menn virðast furða sig á því, að Úkraínumenn haldi áfram að berjast fyrir lífi sínu.
Það veltur því mikið á, að samstaða Vesturveldanna með Úkraínu haldi, þrátt fyrir að fram undan séu mögulega enn dimmari tímar fyrir Úkraínumenn. Sagan sýnir, að alræðisríki, en Rússland ber nú ógnvekjandi mörg merki slíkra ríkja, láta sjaldan gott heita í landvinningum sínum. Falli Úkraína, verður spurningin einfaldlega sú, hverjir verða næstir."
Þessi semingur við vopnaafhendinguna virðist að sumu leyti hafa átt við Bandaríkin líka fram að þessu, en þá ber að hafa í huga, að nauðsynlegur þjálfunartími á stórbrotinn og afkastamikinn vopnabúnað tekur sinn tíma. Það á t.d. við um HIMARS, sem ásamt öðrum vopnabúnaði, sem nýlega hefur verið tekinn í brúkið af Úkraínumönnum, er að breyta gangi stríðsins þeim í vil. Búnaður á borð við skriðdrekann Leopard 2 frá Þýzkalandi og orrustuþotuna F15 frá Bandaríkjunum, sem Úkraínumenn hafa óskað eftir, hefur þó ekki borizt enn, svo að vitað sé. Með því að flýta afhendingu mikilvirkra vopna til Úkraínumanna þyrma Vesturveldin mörgum úkraínskum mannslífum og jafnvel verður þá hægt að tryggja öryggi stærsta kjarnorkuvers Evrópu gegn hernaðarvá, en tíðindi þaðan eru váleg um þessar mundir.
Kostnaðurinn við afhent hergögn til Úkraínumanna er lítill í samanburði við kostnað Vesturveldanna af orkuverðshækkunum og jafnvel líka í samanburði við boðaðan kostnað ríkissjóðanna við "frystingu" orkuverðs og alls konar bætur til þeirra, sem minna mega sín, til að hjálpa þeim að ná endum saman í heimilisbókhaldinu. Ríkin standa þar misjafnlega að vígi, af því að þau eru misskuldsett. Nú nýtir þýzka ríkið styrk sinn, losar um skuldsetningarhöft ríkissjóðs, og hann nýtur mun hagstæðari lánskjara en t.d. ítalski ríkissjóðurinn.
Olaf Scholz, kanzlari, hefur boðað mrdEUR 65 úr ríkissjóði til stuðnings almenningi í dýrtíðinni. Til samanburður nemur kostnaður BNA við hernaðarstuðning við Úkraínumenn fram að þessu aðeins mrdUSD 16 (gengi þessara gjaldmiðla er á sama róli núna). Aftur á móti boðaði fyrrverandi forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, í síðustu heimsókn sinni til Kænugarðs sem leiðtogi Bretlands, 24. ágúst 2022, á þjóðhátíðardegi Úkraínu, að Bretar ætluðu að senda hergögn að andvirði mrdGBP 54, og er það rausnarlegt og Bretum til sæmdar. Liz Truss, arftaki Borisar, var fyrsti ráðherra Vesturlanda, sem höfundur þessa pistils heyrði nefna, að aðeins brottrekstur rússneska hersins frá Úkraínu m.v. landamæri 1991-2014 væri niðurstaða þessa stríðs, sem ásættanleg væri.
Þann 25. ágúst 2022 birti Stefán Gunnar Sveinsson skilmerkilega frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Við munum berjast til þrautar".
Þar stóð m.a.:
"Zelenski sagði í þjóðhátíðarávarpi sínu, að það kæmi ekki til greina, að Úkraínumenn semdu við "hryðjuverkamenn", en úkraínsk stjórnvöld hafa þrýst á um, að Rússland verði nefnt hryðjuverkaríki. Þá sagði hann einnig, að Úkraína samanstæði af öllu landsvæðinu, sem tilheyrði landinu, þ.m.t. þeim héruðum, sem Rússar hafa nú lagt undir sig eða innlimað.
Vísaði Zelenski þar ekki sízt til Krímskaga, sem Rússland innlimaði árið 2014, en Úkraínumenn hafa á síðustu vikum náð að gera árásir á skaganum, sem hingað til hafði verið talinn langt utan þess svæðis, sem þeir gætu náð til. Hafa Úkraínumenn sagt á síðustu vikum, að endanlegt markmið þeirra sé að frelsa Krímskaga undan yfirráðum Rússa.
Þá hafa Úkraínumenn einnig gert ítrekaðar árásir á birgðageymslur rússneska hersins í rússnesku borginni Belgorod, sem er um 40 km frá landamærum Rússlands að Úkraínu."
Úkraínski herinn virðist beita fjölbreytilegri og óvæntri hernaðartækni, hafa gott vald á nýjum tæknivæddum herbúnaði og sýna stundum af sér sjaldgæfa herkænsku, enda hefur herinn náð undraverðum árangri í viðureigninni við fjölmennari, rotinn, siðlausan og niðurlægðan rússneskan her, sem hafði ógrynni hertóla úr að moða í upphafi innrásar, en virðist nú hafa farið erindisleysu inn í Úkraínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.9.2022 | 11:03
Lengi eimir eftir af Molotoff-Ribbentropp-samninginum
Molotoff og Ribbentropp voru utanríkisráðherrar einræðisherranna Stalíns og Hitlers. Hitler sendi utanríkisráðherra sinn til Moskvu síðla ágústmánaðar 1939 til að ganga frá samningi við Kremlverja, sem innsiglaði skiptingu Evrópu á milli þessara stórvelda. Þessi samningur var ósigur fyrir lýðræðið og sjálfsákvörðunarrétt þjóða um að haga málum sínum að vild, enda voru þjóðir Evrópu með honum dæmdar til kúgunar og þrælahalds. Það er einmitt gegn slíku þrælahaldi, sem Úkraínumenn berjast núna blóðugri baráttu, og er það ótrúlega hart nú á 21. öldinni að þurfa að berjast fyrir sjálfsögðum rétti sínum í Evrópu upp á líf og dauða.
Í Evrópu sluppu t.d. Bretar, Íslendingar, Svisslendingar, Svíar, Spánverjar og Portúgalir undan stríðsátökum. Einörð varnarbarátta Breta bjargaði Vestur-Evrópu undan járnhæl nazismans. Vegna einstakrar frammistöðu flughers Breta í viðureigninni við flugher Þjóðverja haustið 1940 og öflugs flota Breta tókst að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja yfir Ermarsundið. Með aðgerðinni Rauðskeggur 21. júní 1941 splundraði Hitler þessum illræmda samningi, en það er engu líkara en hann lifi þó í hugskoti ýmissa enn.
Afstaða Þýzkalandskanzlaranna Kohls, Merkel og Scholz ber þess merki, að þau hafi í hugskoti sínu stjórnazt af þeirri úreltu hugmyndafræði, að Þýzkaland og Rússland ættu að skipta Evrópu á milli sín í áhrifasvæði. Þýzka ríkisstjórnin var Eystrasaltsríkjunum fjandsamleg við lok Kalda stríðsins, Merkel stöðvaði áform Bandaríkjamanna 2015 um að veita Úkraínu aðild að NATO, og Scholz hefur dregið lappirnar í hernaðarstuðningi Þjóðverja við Úkraínu. Afleiðingin er ófögur.
Jón Baldvin Hannibalsson, krati og fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, á heiður skilinn fyrir framgöngu sína, þegar hann, ásamt forsætisráðherranum, Davíð Oddssyni, beitti sér fyrir því, að Ísland braut ísinn á örlagaþrungnum tíma og viðurkenndi fullveldi Eystrasaltsríkjanna. Þetta er bezti gjörningur Íslands gagnvart öðrum ríkjum á lýðveldistímanum. Hvar værum við stödd, ef réttur þjóðríkja til óskoraðs fullveldis væri ekki virtur að alþjóðalögum ? Barátta Úkraínumanna núna við rotið Rússland, sem stjórnað er með vitfirrtum hætti til að snúa sögunni við, snýst um rétt stórra og smárra ríkja til fullveldis og til að búa í friði í landi sínu. Þess vegna eiga Vesturlönd að styðja Úkraínu hernaðarlega án þess að draga af sér og fylgja þar fordæmi Póllands og Eystrasaltsríkjanna.
Nú verður vitnað í grein JBH í Morgunblaðinu 30.ágúst 2022, sem hann nefndi:
"Um þá sem þora ..."
"Í næstum hálfa öld voru Eystrasaltsþjóðirnar hinar gleymdu þjóðir Evrópu. Lönd þeirra voru þurrkuð út af landakortum heimsins. Tungumál þeirra voru til heimabrúks, og þjóðmenningin lifði neðanjarðar. Þessar þjóðir voru horfnar af pólitískum radarskjá umheimsins. Þegar ég ræddi um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða við starfsbróður minn, utanríkisráðherra NATO-ríkis, reyndi hann að eyða umræðuefninu með eftirfarandi ummælum: "Hafa þessar þjóðir ekki alltaf tilheyrt Rússlandi ?".
Þarna minnist JBH ekki á eitt alsvínslegasta tiltæki rússnesku kúgaranna, sem þeir hafa beitt alls staðar, þar sem þeir hafa talið þörf á að berja niður sjálfstæðistilhneigingu þjóða og að eyðileggja þjóðareinkenni þeirra. Þeir hafa stundað hina mannfjandsamlegu kynþáttahreinsun, "ethnic cleansing", í Eystrasaltsríkjunum, og hana stunda viðbjóðirnir á herteknum svæðum Úkraínu. Fólkið er flutt burt langt frá heimkynnum sínum og Rússar látnir setjast að í staðinn. Þetta er glæpur gegn mannkyni, og það er ískyggilegt, að rússneska valdastéttin skuli vera á svo lágu siðferðisstigi á 21. öldinni að gera sig seka um þetta. Þeir verðskulda ekkert minna en fulla útskúfun Vesturlanda sem hryðjuverkaríki.
"Hinn atburðurinn [á eftir "syngjandi byltingunni" í júní 1988-innsk. BJo], sem náði inn á forsíður blaða og sjónvarpsskjái heimsins, var "mannlega keðjan" í ágúst 1989. Næstum 2 milljónir manna héldust í hendur frá Tallinn í norðri til Vilniusar í suðri til að mótmæla Molotov-Ribbentrop-samninginum og leyniskjölum hans frá því fyrir hálfri öld (1939). Þessi alræmdi samningur [á] milli tveggja einræðisherra, Hitlers og Stalíns, reyndist vera upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar. Samkvæmt samninginum var Stalín gefið frítt spil til að innlima Eystrasaltsþjóðirnar í Sovétríkin, þ.m.t. Finnland - eitt Norðurlandanna."
Þannig var lenzkan á miðöldum í Evrópu, að stórveldin ráðskuðust með fullveldi minni ríkjanna og röðuðu þeim inn á áhrifasvæði sín. Enginn, nema kannski páfinn eða æðsti prestur rétttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu, hafði gefið þeim þennan rétt. Þau tóku sér hann annars með vopnavaldi. Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar, 1914-1918, tók þetta fyrirkomulag að rakna upp fyrir tilstuðlan Bandaríkjastjórnar. Þá var kveðið á um rétt þjóða til að ákvarða sjálfar örlög sín, hvort þau kysu að vera í ríkjabandalagi eða afla sér sjálfstæðis um eigin mál og fullveldis. Þá urðu t.d. Ísland og Finnland sjálfstæð ríki, og Úkraína varð sjálfstæð í öreigabyltingunni rússnesku 1917. Þetta er nú hinn ríkjandi réttur að alþjóðalögum. Vladimir Putin snýr öllu á haus, vill snúa klukkunni til baka, en það mun ekki ganga til lengdar.
"Leiðtogar Vesturveldanna stóðu frammi fyrir hörðum kostum. Ættu þeir að fórna öllum ávinningi af samningum um lok kalda stríðsins með því að lýsa yfir stuðningi við endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsþjóða ? Eða ættu þeir að fórna þessum smáþjóðum - í því skyni að varðveita frið og stöðugleika ?
Bilið [á] milli orðræðu þeirra um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og að færa út landamæri lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis annars vegar og þeirrar stórveldapólitíkur, sem þeir fylgdu í reynd hins vegar, var orðið óbrúanlegt."
Að stærri ríki hafi öll ráð hinna smærri í hendi sér, er óalandi og óferjandi viðhorf. Valdið til að ákvarða fullveldi ríkis liggur hjá íbúum þess ríkis sjálfum og ekki hjá stjórnmálamönnum stærri ríkja, sízt af öllu gamalla nýlendukúgara eins og Rússlands. Þetta viðurkenndu Bretar og Frakkar í raun með því að segja Stór-Þýzkalandi stríð á hendur í kjölfar innrásar Wehrmacht í Pólland 1. september 1939. Frakkland féll að vísu flestum að óvörum á undraskömmum tíma vorið 1940 fyrir leifturárás, "Blitzkrieg Guderians", en Stóra-Bretland hélt velli og stóð uppi sem sigurvegari 1945 með dyggri hernaðarhjálp Bandaríkjamanna.
"Það var þess vegna, sem Bush, Bandaríkjaforseti, flutti ræðu í þinginu í Kænugarði í ágúst 1991, sem síðan hefur þótt með endemum. Í ræðunni skoraði hann á Úkraínumenn "að láta ekki stjórnast af öfgakenndri þjóðernishyggju", heldur halda Sovétríkjunum saman "í nafni friðar og stöðugleika".
Það var þess vegna, sem Kohl, kanzlari, og Mitterand, forseti, skrifuðu sameiginlega bréf til Landsbergis, leiðtoga sjálfstæðishreyfingarinnar í Litáen, þar sem þeir skoruðu á hann að fresta framkvæmd sjálfstæðisyfirlýsingar Litáa frá 11. marz 1990."
Ráðstjórnarríkin voru of rotin undir þrúgandi kommúnisma, til að þau gætu haldizt saman. Það hefur þessum forsetum og kanzlara verið ljóst, en þeir hafa talið sig skuldbundna Gorbasjeff fyrir þátt hans í friðsamlegu hruni Járntjaldsins. Þeir höfðu hins vegar engan rétt til að slá á frelsisþrá undirokaðra þjóða, sem þráðu endurheimt frelsis síns og fullveldis. Þar kemur að hinu sögulega gæfuspori Íslands, smáríkis norður í Atlantshafi, sem öðlazt hafði fullveldi í eigin málum í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldar og fullt sjálfstæði við lýðveldisstofnun, sem Bandaríkjamenn studdu dyggilega í júní 1944, skömmu eftir innrás Bandamanna í Normandí.
"En hvers vegna sætti Ísland sig ekki við þessa niðurstöðu ? Það voru engir þjóðarhagsmunir í húfi. Þvert á móti: Ísland var háð Sovétríkjunum um innflutning á eldsneyti - sem er lífsblóð nútímahagkerfa - allt frá því, að Bretar skelltu viðskiptabanni á Ísland í þorskastríðunum (1954-1975). Vissum við kannski ekki, að smáþjóðum er ætlað að leita skjóls hjá stórþjóðum og lúta forystu þeirra ? M.ö.o. kunnum við ekki viðtekna mannasiði ?
Allt er þetta vel þekkt. Engu að síður vorum við [Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur - innsk. BJo] tregir til fylgispektar. Leiðtogar Vesturveldanna létu augljóslega stjórnast af eigin hagsmunum. Við vorum hins vegar sannfærðir um, að fylgispekt vestrænna leiðtoga við Gorbachev væri misráðin. Hún byggðist á rangri og yfirborðskenndri greiningu á pólitískum veruleika Sovétríkjanna. Ég var sannfærður um, að Sóvétríkin væru sjálf í tilvistarkreppu, sem leiðtogar þeirra fundu enga lausn á. Heimsveldið væri að liðast í sundur, rétt eins og evrópsku nýlenduveldin í kjölfarið á seinni heimsstyrjöldinni."
Það er eins og Vesturveldin hafi verið fús til á þessari stundu að stinga þeirri dúsu upp í Gorbasjeff að skipta Evrópu á milli tveggja stórvelda í anda Mólotoff-Ribbentropp-samningsins og Þjóðverjar stutt það leynt og ljóst sem verðandi forysturíki Evrópusambandsins. Þetta er ólíðandi hugarfar og ekki reist á öðru en rétti, sem sá "sterki" tekur sér til að kúga og skítnýta þann "veika". Saga nýlendustjórnarfars í Evrópu leið undir lok með hruni Járntjaldsins, en nú reyna Rússar að snúa við hinni sögulegu þróun. Það mun allt fara í handaskolum hjá þeim, enda með endemum óhönduglega og villimannslega að verki verið. Enginn kærir sig um að þjóna slíkum herrum á 21. öldinni.
"Mér var stórlega misboðið að heyra leiðtoga vestrænna lýðræðisþjóða áminna undirokaðar þjóðir um, að þær ættu að sætta sig við örlög sín, til þess að við á Vesturlöndum gætum notið "friðar og stöðugleika". Í mínum eyrum hljómaði þetta ekki bara sem smánarleg svik, heldur sem örlagarík mistök."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.9.2022 | 10:44
Orkustríð Rússlands við önnur Evrópulönd
Hegðun rússneska sambandsríkisins um þessar mundir gagnvart öðrum Evrópulöndum, sér í lagi með hernaði gegn óbreyttum borgurum Úkraínu og sprengjuárásum í grennd við stærsta kjarnorkuver Evrópu, og gegn gasnotendum í Evrópuríkjunum, er fyrir neðan allar hellur, og fyrir þessa fáheyrðu framgöngu verðskulda þeir útskúfun hins frjálsa heims.
Rússar sýna nú sitt rétta andlit og fyrirgera öllu trausti í sinn garð. Þeir eru stimplaðir ofbeldisgjarnir ómerkingar, sem eru ekki í húsum hæfir. Þegar þetta er ritað, eru þeir búnir að stöðva alla gasflutninga um Nord Stream 1, lögn á botni Eystrasalts, sem tengir Þýzkaland við gaslindir Síberíu án viðkomu í öðrum löndum og bera við bilun, sem þeir geti ekki gert við vegna viðskiptabanns á sig. Ef það væri rétt afsökun, væri rússneskur iðnaður óttalega aftarlega á merinni.
Undrun hefur vakið, hversu vel Þjóðverjum hefur tekizt að fylla á gasforðabúr sín fyrir veturinn, en í lok ágúst 2022 mun staðan að meðaltali hafa numið tæplega 70 % af hámarki, sem er meira en búizt var við. Norðmenn hafa aukið gasvinnslu í Norðursjónum og meðfram strandlengjunni eftir mætti, en það er allt önnur og skuggalegri skýring á þessu. Það liggur fremur afkastalítil gaslögn frá Síberíu til Kína, en að auki flytja nú Rússar gas á vökvaformi (LNG) til Kína.
Nú er þungt undir fæti í efnahagslífi Kínverja vegna sprunginnar húsnæðisbólu og strangra, misráðinna opinberra sóttvarnarráðstafana, sem engu hafa skilað öðru en gríðarlegu efnahagstjóni og töfum á útbreiðslu C-19 faraldursins. Heildarfjöldi dauðsfalla yfir s.s. 3 ára tímabil eykst yfirleitt af völdum opinberra sóttvarnarráðstafana vegna slæmra áhrifa á geðkvilla og aðra sjúkdóma, svo að ekki sé nú minnzt á ósköpin úr Kófinu, þegar óreyndum efnum var sprautað í flesta með mjög litlum varnaráhrifum, en alvarlegum aukaáhrifum í sumum tilvikum. Þessari vitleysu er haldið áfram fyrir 60+.
Opinberar sóttvarnarráðstafanir með verulegum frelsisskerðingum, sem upprunnar eru í einræðisríkinu Kína, gera aðeins illt verra, þegar um skæða flensu er að ræða. Bezta ráðið er að styrkja ónæmiskerfi líkamans, en sú ráðlegging hefur ekki verið áberandi hjá landlæknisembættinu hér. Þetta á við alla aldurshópa.
Kínverjar hafa vegna kreppu hjá sér verið aflögufærir um jarðgas. Þeir eru kaupahéðnar að eðlisfari og hafa selt Evrópumönnum afgangsgas og makað krókinn. Hvaðan hafa þeir fengið þetta gas ? M.a. frá Rússlandi. LNG eldsneytið, sem flýtt hefur forðasöfnun í Evrópu, er ættað frá Rússlandi, en á uppsprengdu verði m.v. gas um Nord Stream 1. Þetta er ófagurt afspurnar.
Gasverð fer enn hækkandi og hækkaði t.d. í síðustu heilu viku ágúst 2022 um 30 % m.v. vikuna áður. Sumarið 2021 gerðu Frakkar og Þjóðverjar framvirka samninga um eldsneytisgas á verði, sem jafngilti 100 EUR/MWh rafmagns, en um mánaðamótin ágúst-september 2022 náði það 1000 EUR/MWh og hjaðnaði svo nokkuð. Jaðarkostnaður rafmagns samkvæmt orkumarkaðskerfi Evrópusambandsins ræðst af kostnaði gasorkuveranna. Algert ófremdarástand ríkir nú í orkumálum Evrópu vegna kolrangs mats á eðli rússneska ríkisins, eins og margir gerðu sig seka um á sínum tíma varðandi Þriðja ríkið. Undantekning var Winston Churchill.
Sum ríki Suður-Evrópu hafa nú þegar varið sem nemur 5 % af vergri landsframleiðslu sinni í að verja neytendur gegn ofurverði á jarðgasi. Það eru um mrdISK 150 á íslenzkan mælikvarða, og munu þessi ríki nú lenda á framfæri digurs Kófsjóðs Evrópusambandsins, sem ekki var búið að ráðstafa öllu fé úr.
Frændur vorir, Norðmenn, sem búa sunnan Dofrafjalla, sitja algerlega í súpunni, þótt nánast öll raforka þeirra komi úr vatnsaflsvirkjunum vítt og breitt um landið. Vandræði þeirra á orkusviðinu er himinhátt raforkuverð sunnan Dofrafjalla. Heildsöluverðið, þ.e. verð frá virkjun án flutnings- og dreifingarkostnaðar og skatta, var 30.ágúst 2022 jafnhátt á Vestur-, Austur- og Suðurlandinu, þ.e. á áhrifasvæði millilandatenginganna, og á Jótlandi, Sjálandi og Fjóni, Þýzkalandi, Lúxemborg og Litháen samkvæmt Nord-Pool og Gunnlaugi Snæ Ólafssyni í fréttaskýringu í Morgunblaðinu 31. ágúst 2022. Í tveimur löndum Evrópu, Frakklandi og Austurríki var verðið enn hærra. Þetta verð sunnan Dofrafjalla jafngilti 94 ISK/kWh. Það er tæplega 19 sinnum hærra en íslenzkt heildsöluverð og rúmlega 24 sinnum hærra en í Mið-Noregi (Þrændalögum) og rúmlega 59 sinnum hærra en í Norður-Noregi.
Ef engar millilandatengingar væru virkar í Noregi, mundi heildsöluverð raforku að mestu vera ákvarðað út frá vatnsforða miðlunarlóna, árstíma, og lestun landshlutatenginga. Á þessum árstíma mætti þá núna búast við raforkuverði sunnan Dofrafjalla um 5,6 ISK/kWh, en það er tæplega 17 sinnum hærra, og verður að skrifa það alfarið á millilandatengingarnar. Norðmenn fóru út í þær til að græða og til að draga úr fjárfestingum í varaafli og varaorku, en þess ber að gæta, að norsk heimili kaupa 5-falt meiri raforku en íslenzk heimili, enda eru langflestar byggingar rafhitaðar í Noregi. Gróðinn átti að felast í því að selja afl og orku utan á daginn á hærra verði en var á norskum innanlandsmarkaði og kaupa orku inn á nóttunni og um helgar á mun lægra verði. Þetta gekk eftir, á meðan millilandatengingarnar voru ekki eins öflugar og nú og á meðan Norðmenn stjórnuðu þessum flutningum sjálfir, en ríkisfyrirtækið Statnett, þeirra Landsnet, á allar millilandatengingarnar. Eftir lögleiðingu Orkupakka 3 stjórnar ACER-Orkustofa ESB þessum flutningum, og ríkisstjórnin má ekki grípa inn í þessi viðskipti. Markaðurinn ræður. Fyrirsögnin í téðri fréttaskýringu Gunnlaugs Snæs Ólafssonar vísar einmitt til þessa:
"Harma raforkuverð, en geta ekkert gert".
"Norska ríkið hefur ekki tök á því að sporna gegn verðhækkunum, þar sem salan fer fram á rafmagnsmarkaði, sem innleiddur er í gegnum hina svo kölluðu "orkupakka" ESB. Þeir ná til alls EES og stýra því, hvernig sölu á raforku til Evrópu frá Noregi [og til baka - innsk. BJo] um sæstrengi er háttað."
Ákvæði um millilandatengingar og millilandaviðskipti með rafmagn og jarðgas komu fyrst inn í orkulöggjöf ESB með Orkupakka 3. Þess vegna urðu deilurnar um OP3 í Noregi og á Íslandi svo hatrammar sem raun bar vitni um. Nú kemur OP3 almenningi og atvinnulífinu í Noregi í koll, nema orkufyrirtækjunum, sem græða á tá og fingri. Skrýtið, að jafnaðarmenn í ríkisstjórn og á Stórþinginu skuli teka þetta í mál. Ríkisstjórnin er undir forsæti Verkamannaflokksins, sem er hallur undir ESB-aðild Noregs. Hinn stjórnarflokkurinn, Miðflokkurinn, barðist gegn innleiðingu OP3 og spáði einmitt hækkandi raforkuverði í kjölfar öflugra sæstrengja til Bretlands og Þýzkalands, sem þá var verið að leggja og nú hafa verið teknir í rekstur. Flokkurinn fær hins vegar ekkert að gert núna, enda stendur ekki reiðfærið á ESB til að veita Noregi undanþágur frá orkuafhendingu. Kostnaðurinn af millilandatengingum Noregs lendir nú á ríkissjóði, eins og Gunnlaugur Snær rakti í téðri fréttaskýringu:
"Í millitíðinni hefur myndazt eining um, að norska ríkið greiði 90 % af orkukostnaði heimila umfram 70 Naur/kWh [9,9 ISK/kWh] frá 1. september [2022] upp að 5,0 MWh. Verð nú er um 644 Naur/kWh."
Það vekur athygli, að niðurgreitt orkumagn nemur aðeins fjórðungi ársnotkunar meðalíbúðar í Noregi með rafhitun. Það eru þó fáir að spá verulegri orkuverðslækkun í Evrópu innan 3 mánaða. Verðið mun sennilega ekki lækka fyrr en með vorinu 2023.
Í lokin stóð þetta í fréttaskýringunni:
"Ákallið um, að eitthvað verði gert til að tempra raforkuverðið hefur þó ekki fjarað út í Noregi, og hafa flokkar m.a. lagt til, að útflutningur verði takmarkaður og að hámarksverð verði sett á rafmagn. Breytingar verða þó ekki gerðar á löggjöf ESB, nema áhugi sé fyrir því innan sambandsins. Það er því óljóst, nákvæmlega hvað norska Stórþingið hyggst ræða á fundi sínum í september [2022]."
Rökin fyrir markaðsvæðingu raforkunnar á sínum tíma í Noregi voru neytendavernd, þ.e. samkeppnin átti að tryggja raforkunotendum hagstæðustu kjör. Nú hefur þessi neytendavernd snúizt upp í neytendaáþján. Þá er spurningin, hvort stuðningur er við afnám lagasetningar um OP3 í Noregi. Á sínum tíma var því haldið fram, að lögleiðing OP3 hefði mikla þjóðhagslega þýðingu í Noregi. Þá var ekki sízt horft til aðgangs Noregs að evrópskum gasmarkaði. Nú er aðalleikarinn, Rússland, að mestu dottinn út af evrópskum gasmarkaði um ófyrirsjáanlega framtíð, og þar með eru norskar gaslagnir til Bretlands og meginlandsins orðnar enn mikilvægari. Með þessa sterku markaðsstöðu þurfa Norðmenn í raun ekkert á OP3 að halda, en það er hins vegar spurning, hvort þeir vilja berjast fyrir uppsögn hans innan EFTA og í Sameiginlegu EES-nefndinni. Það er annað mál og af pólitískum toga. Tæpast getur ríkisstjórnin sameinazt um slíka stefnu, nema Alþýðusamband Noregs álykti í þá veru. Það mundi breyta afstöðu Verkamannaflokksins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.9.2022 | 14:43
Orkustefnan og hagsmunir verkalýðs
Þórður Gunnarsson, hagfræðingur, reit athygliverða Sjónarhólsgrein í Morgunblaðið í sumar, 6. júlí 2022, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu, að stefna landverndarsinna mundi óhjákvæmilega leiða til lífskjaraskerðingar almennings. Höfundar þessarar stefnu virðast draga dám af höfundum bókarinnar um Endimörk vaxtar (Limits to Growth), sem boðuðu afturhvarf til fortíðar til að bjarga jörðunni. Þeir reyndust vera falsspámenn, þótt margir hafi síðar orðið til að feta í fótspor þeirra, t.d. framkvæmdastjóri Landverndar á Íslandi.
Það er ástæða til að halda þessari grein hagfræðingsins á lofti nú, þegar kjaramál eru í brennidepli. Kjaraskerðing almennings á Íslandi er hjóm eitt m.v. þær hrikalegu holskeflur, sem orkuskortur hefur leitt yfir önnur Evrópulönd. Sú staðreynd ætti að leiða öllum landsmönnum fyrir sjónir, hversu farsæl stefna hefur verið við lýði í landinu við nýtingu orkulinda landsins, en öfgasjónarmiðum um landvernd hefur verið gert of hátt undir höfði í löggjöfinni, svo að dýrkeyptar tafir hafa orðið við að reisa flutningsmannvirki raforkunnar með þeim afleiðingum, að alvarlegur, staðbundinn raforkuskortur ríkir. Þá ríkir nú illskiljanleg lognmolla yfir virkjanamálum á tímum, þegar raforkueftirspurn í landinu er meiri en raforkuframboð . Ótrúleg málsmeðferð Orkustofnunar á umsókn Landsvirkjunar um leyfi til virkjunar Neðri-Þjórsár (Hvammsvirkjun) hefur rýrt faglegt traust til OS, eftir að nýr Orkumálastjóri tók þar við.
Hefst nú tilvitnun í téða Sjónarhólsgrein:
"Á Íslandi hefur umræða um umhverfismál oft verið óskipulögð og ólíkum hugtökum blandað og ruglað saman. Í sömu umræðu erlendis er skýr munur gerður á umhverfisvernd og landvernd. Þar til nýlega ægði þessum hugtökum saman í íslenzkri umræðu um virkjanaframkvæmdir og raforkuframleiðslu.
Umhverfisvernd snýr fyrst og fremst að því að framleiða orku með sem minnstum tilkostnaði m.t.t. loftslagsmála. Landvernd snýst hins vegar um, að helzt megi ekki hrófla við náttúrunni, sama hvað það kostar.
Þeir, sem tala fyrir landvernd, verða einfaldlega að vera heiðarlegir með þessa afstöðu sína og hætta að fela sig að baki merkimiðum í loftslagsmálum. Öll orkuframleiðsla útheimtir náttúrufórnir. Þeir, sem tala fyrir aukinni orkuframleiðslu, eiga svo ekki að vera feimnir við að segja það hreint út."
Orkumálin eru í kyrrstöðu núna, m.a. af því að stuðningsmenn meiri nýtingar hefðbundinna íslenzkra orkulinda, vatnsafls og jarðgufu, hafa sig lítt í frammi. Framkvæmdastjóri Landverndar hefur hins vegar talað berum orðum fyrir hönd samtaka sinna um, að þessi nýting skuli ekki aukin, heldur skuli ríkisvaldið, sem alfarið á stærsta orkufyrirtæki landsins, Landsvirkjun, beita sér fyrir því, að dregið verði svo mjög úr orkusölu til orkusækins iðnaðar, stóriðju, að svigrúm skapist til orkuskiptanna og almennrar aukningar raforkunotkunar vegna fólksfjölgunar. Þessi boðskapur jafngildir því ósköp einfaldlega að leggja stóriðjuna niður, líklega með því að endurnýja enga orkusölusamninga við hana, hvað þá að gera nýja slíka samninga, því að riftun gildandi samninga yrði óheyrilega dýr.
Þessi stefna Landverndar er fullkomlega ábyrgðarlaus, því að hún mun fyrr en seinna leiða til meiri einsleitni í atvinnulífinu, viðvarandi halla á viðskiptajöfnuði með gengislækkun og atvinnuleysi, einkum vestanlands og austan, sem afleiðingu. Þetta mundi ekki síður koma niður á félagsfólki verkalýðsfélaganna en öðrum landsmönnum, og þess vegna skýtur skökku við m.v., að sumir verkalýðsforingjar, sem tjá sig um allt mögulegt í þjóðfélaginu, skuli ekki hafa gagnrýnt harðlega málflutning Landverndar, sem hvetur til stjórnvaldsaðgerða, sem óhjákvæmilega mundu gera marga verkamenn, iðnaðarmenn og aðra í góðum störfum stóriðjunnar, að fórnarlömbum vanhugsaðrar hugmyndafræði.
"Málflutningur landverndarsinna felur hins vegar í sér að skrúfa niður í lífsgæðum almennings. Fráleitt er að tala um breytta forgangsröðun í orkumálum á Íslandi og ýja að því, að taka eigi pólitíska ákvörðun um að draga úr sölu til stórnotenda og beina raforkunni þess í stað til íslenzkra heimila og fyrirtækja."
Að félagssamtök skuli álykta með þessum hætti og kynna stefnuna sem hvern annan valkost, sem landsmenn geti valið og eigi að velja án þess, að það muni draga nokkurn dilk á eftir sér, er alvarlegt sjúkdómseinkenni. Fjölmiðlar hafa heldur ekki spurt sérlega gagnrýninna spurninga um afleiðingarnar. Þeir gefa sér væntanlega, að þá færu þeir í geitarhús að leita ullar.
Fyrir utan efnahagsáfall og atvinnuleysi má nefna, að traust til Íslendinga á meðal erlendra fjárfesta, sem eru að eða munu íhuga fjárfestingar á Íslandi, yrði að engu við aðfarir, sem væru einsdæmi á Vesturlöndum. Þessi hnekkir einn og sér er á við annað efnahagsáfall. Hugarfarið, sem að baki þessari tillögugerð Landverndar býr, er þess eðlis, að óþarfi er að taka nokkurn boðskap þessa félags alvarlega. Þjóðarhagur er þar látinn lönd og leið, svo að minnir á skæruliðastarfsemi.
"Landverndarsinnum hefur tekizt að snúa sönnunarbyrðinni við í þessum efnum á liðnum árum. Sá hópur, sem áttar sig á því, að framleiðsla og sala raforku sé ein undirstaða hagkerfisins, hefur þurft að standa í stöðugri baráttu við að benda á þá einföldu staðreynd.
Sem betur fer virðist núna annað hljóð í strokknum. Þeir, sem halda því fram, að uppbyggingu orkuframleiðslu á Íslandi geti verið lokið núna, verða einfaldlega að láta það fylgja máli, að slíkri stefnu fylgir afturför í lífsgæðum, minni kaupmáttur og fábrotnara líf.
M.ö.o. boðar landverndarstefnan aukið meinlæti. Minna handa öllum."
Ofstækisfólk, sem oft ber mest á, leggur allar framkvæmdir í náttúrunni að jöfnu við landspjöll. Það viðurkennir ekki afleiðingar stefnu sinnar, sem Þórður Gunnarsson telur þarna upp. Þvert á móti setur það á langar ræður um, að enginn, nema fjárfestirinn, tapi á að leggja starfsemi hans niður. Veruleikafirringin knýr þetta fólk áfram og tálmar því sýn. Það lifir í eigin heimi, útópíu, sem enginn verður feitur af.
"Í ljósi alls þessa sætir furðu, að verkalýðsforystan á Íslandi [t.d. ASÍ - innsk. BJo] beiti sér ekki meira í þessari umræðu. Þeir, sem segjast standa í stafni lífsgæðabaráttu verkafólks, ættu að vera fremst í flokki þeirra, sem knýja á um aukna uppbyggingu orkuframleiðslu og iðnaðar.
Skýringin á afstöðuleysi flestra verkalýðsleiðtoga, sem jafnan veljast úr hópi vinstri manna, er sú, að helzti fararmáti vinstri stefnu á síðast liðnum þremur áratugum hefur verið í formi umhverfis-eða landverndarstefnu. Enda var ekkert annað hægt en að markaðssetja vinstri stefnu undir nýjum formerkjum í kjölfar þess, að efnahagsstefna sósíalismans beið skipbrot fyrir um 3 áratugum."
Hérlendis stóð Alþýðuflokkurinn (jafnaðarmenn) með Sjálfstæðisflokkinum að kaflaskilum í iðnvæðingu landsins og virkjun fallvatna til að knýja þennan iðnað og aðra starfsemi í landinu ásamt heimilunum. Síðan hefur reiðfærið ekki staðið á vinstra liðinu til atvinnuuppbyggingar af neinu viti. Öðru vísi hefur þessu verið háttað á hinum Norðurlöndunum, t.d. í Noregi og Svíþjóð, þar sem sósíaldemókratar (jafnaðarmenn) studdu jafnan gerð virkjana í ánum til að knýja orkusækinn iðnað í hinum dreifðu byggðum.
Vegna þeirra sinnaskipta vinstri manna, sem Þórður Gunnarsson lýsir þarna, eru þeir rótlausir, vita vart sitt rjúkandi ráð, en stunda lýðskrumsstjórnmál til að fiska óánægjufylgi, sem kann að reka á fjörur þeirra. Síðan eru auðvitað gjalda- og skattahækkanir viðvarandi kliður hjá þeim og þar með útþensla opinbera geirans, en að hlúa að verðmætasköpuninni, sem öll verður til í fyrirtækjum landsins, fer fyrir ofan garð og neðan í loftslagsjapli og landverndarstagli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2022 | 11:36
Eru áberandi verkalýðsforingjar veruleikafirrtir
Af málflutningi og skrifum sumra verkalýðsforingja nú í aðdraganda ASÍ-þings og samningagerðar um kaup og kjör á almenna vinnumarkaðinum mætti stundum ætla, að þar séu geimverur á ferð, sem aldrei hafðu heyrt minnzt á þau almennt viðteknu efnahagslögmál, sem gilda í mannheimi. Þá virðast þeir ekkert hafa kynnt sér, hvaða aðferðarfræði er líklegust til árangurs við að bæta kjör og velferð skjólstæðinga sinna og þar með alls almennings í bráð og lengd. Það versta við þá er þó, að þeir tala, eins og þeir telji sig hafa höndlað einhvern nýjan sannleika, sem öðrum, þ.á.m. atvinnurekendum og Peningastefnunefnd Seðlabankans, sé dulinn. Þegar þeir þó reyna að rúlla hinu nýja hjóli, sem þeir telja sig hafa fundið upp, sjá allir, nema þeir sjálfir, að hjólið þeirra er ferkantað og er þess vegna gagnslaust og í raun hreinn brandari, ef þessir sömu menn hefðu ekki miklu meiri völd en þeir hafa vit á að fara með. Í þessu er fólgið þjóðfélagsvandamál, sem er ekki að finna á hinum Norðurlöndunum og vart á siðmenntuðu bóli.
Hatur þessa fólks á Seðlabankanum og aðgerðum hans er lýsandi fyrir sálarástand þess og almenna skynsemi. VR heldur úti dýrri og kjánalegri auglýsingaherferð í sjónvarpi um aðaltól Peningastefnunefndar Seðlabankans. Foringjarnir, m.a. starfandi forseti ASÍ, halda því fram, að þeir verði að krefjast launahækkana til að vega upp á móti kjaraskerðingunni, sem af stýrivaxtahækkununum hefur leitt. Er þeim ekki ljóst, að hlutverk þessara vaxtahækkana er einmitt að draga úr kaupmætti, sem er sá hæsti í Evrópu að Sviss undanskildu, til að hemja verðbólguna ? Höfrungahlaupið, sem þessir verkalýðsforingjar boða með þessum talsmáta, er eins heimskulegt og hugsazt getur út frá hagsmunum fólksins í verkalýðsfélögunum, en verðbólgan er versta ógnin við hagsmuni þess. Þess vegna væri þveröfug stefna verkalýðsfélaganna gagnvart Seðlabankanum skjólstæðingum verkalýðsforingjanna mest í hag, þ.e. að leggjast á sveif með bankanum með lágmarks launakröfum í bili og þar með að kveða verðbólguna sem hraðast niður.
Stýrivaxtahækkanir koma auðvitað niður á hag fyrirtækjanna í landinu líka, launagreiðendanna, þaðan sem öll verðmætasköpun landsins kemur. Þannig mun draga úr fjárfestingum og þar með hagvexti og vinnuframboð minnka. Ef verkalýðsforingjar ætla að halda stefnu sinni til streitu, munu þeir framkalla atvinnuleysi og samdrátt hagkerfisins. Ísland er nú þegar dýrasta land í heimi að heimsækja fyrir ferðamenn, og hækki stærsti kostnaðarliðurinn enn mikið, er slíkt fallið til að gera samkeppnisstöðu íslenzkra útflutningsgreina óbærilega, nema gengið falli, og þar með er fjandinn laus.
Sumir verkalýðsforingjar og ráðgjafar þeirra hafa sett reiknifærni sína undir mæliker, þegar kemur að útreikningum á "sanngjörnum" launahækkunum í næstu kjarasamningum. Þá hefur ekki tekið betra við, að 2 starfsmenn Viðskiptaráðs hafa í Morgunblaðsgrein 25. ágúst 2022 tekið að sér að sýna fram á alvarlegar gloppur í útreikningum verkalýðsfélaganna, í þessu tilviki Eflingar, við útreikninga þeirra að baki kröfugerðinni. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál, en ekki er síður umhugsunarvert, að vitið skuli ekki duga til að draga dul á eigin skavanka.
Í Staksteinum Morgunblaðsins var þessi samanburður á útreikningum Viðskiptaráðs og Eflingar dreginn samann undir fyrirsögninni:
"8,3 % neikvætt svigrúm Eflingar",
sem sýnir, að Efling skaut sig í fótinn með því að birta þessa útreikninga sem alvöru gagn í kjarabaráttunni:
"Tveir starfsmenn Viðskiptaráðs svöruðu í grein hér í blaðinu í gær sjónarmiðum Eflingar um, að "við undirritun kjarasamninga í haust hækki laun [um] sem nemur 7,5 % verðbólgu samkvæmt spá Hagstofu auk spár um 2 % framleiðniaukningu, samtals að meðaltali 9,5 % með flatri hækkun upp á 66.000 kr/mán fyrir alla tekjuhópa. Fullyrt er, að svigrúm sé til þessa. Jafnframt er því haldið fram [af Eflingu], að þessar launahækkanir muni ekki hafa áhrif á verðlag."
Þarna gösslast Efling fram á ritvöllinn og sýnir annaðhvort af sér vanþekkingu á staðreyndum, sem þarf að leggja til grundvallar heiðarlegri kröfugerð verkalýðsfélaga, eða virðingarleysi fyrir staðreyndum og ásetning til blekkingarstarfsemi í aðdraganda kjarasamninga í von um, að einfeldningar lepji vitleysuna upp eftir þeim.
"Útreikningar Eflingar horfi aðeins til þessa árs [2022], en, eins og greinarhöfundar [Viðskiptaráðs] benda á, þarf að horfa til þróunar frá síðustu kjarasamningum árið 2019."
Aðeins geimverum, sem ekkert kunna fyrir sér í þessum efnum og ekkert hafa lært á þessu sviði, dettur í hug að miða útreikninga á launahækkanaþörf aðeins við lokaár gildandi kjaratímabils.
"Samkvæmt forsendum Eflingar [afar hæpnar-innsk. BJo] er innistæðan til launahækkana þessi að mati greinarhöfunda: "Frá ársbyrjun 2019 og til loka ársins 2022 má vænta samtals 22 % verðbólgu, 2,7 % hagvaxtar og 8,1 % fólksfjölgunar m.v. nýjustu spár. Framleiðni hagkerfisins samkvæmt skilgreiningu Eflingar mun því fyrirsjáanlega dragast saman um 5,4 % [2,7 %-8,1 % = -5,4 %].
Svigrúm til launahækkana yfir þetta tímabil er því 16,6 % [22 %-5,4 % = 16,6 %] m.v. aðferðarfræði Eflingar. Laun hafa aftur á móti þegar hækkað um 24,9 % frá undirritun síðustu kjarasamninga, langt umfram þróun verðlags og framleiðni.
Svigrúm til launahækkana við gerð næstu kjarasamninga ætti því að vera neikvætt um 8,3 % [16,6 %-24,9 % = -8,3 %] m.v. aðferðarfræði Eflingar."
Þegar forysta Eflingar fór að reikna, endaði það auðvitað með þeim ósköpum, að hún sýndi fram á, að ekkert svigrúm er til launahækkana á þessu ári, og þannig skaut hún sig í fótinn. Þess var að vænta m.v. andlegt atgervi þar á bæ, þar sem leðjuslagur liggur betur við þeim en greiningarvinna.
Glíman við verðbólguna er umfjöllunarefni forystugreinar Morgunblaðsins 29. ágúst 2022 undir heitinu:
"Við höfum val".
Hún endaði þannig:
"Verðbólgan verður ekki kveðin í kútinn með slíkum ráðum [boðum og bönnum - innsk. BJo]. Hana þarf að sigra með því að auka framboð, þar sem framboð skortir og aukning er möguleg [t.d. lóðaframboð sveitarfélaga - innsk. BJo], og svo þarf að stíga á bremsuna á öðrum sviðum [almenn neyzla - innsk. BJo]. Seðlabankinn hefur réttilega gert það með hækkun vaxta, en aðrir verða að gera það einnig, bæði þeir, sem stýra opinberum útgjöldum og þeir, sem semja um kaup og kjör á almennum og opinberum vinnumarkaði.
Með sameiginlegu átaki af þessu tagi er hægt að tryggja, að verðbólguskeiðið verði stutt og skerði kaupmátt almennings lítið og jafnvel ekki. Verði reynt að vinna bug á verðbólgunni með því að hella olíu á eldinn eða skekkja markaðsstarfsemina enn frekar en verðbólgan hefur gert, þá er tryggt, að glíman verður löng og endar með ósköpum."
Þarna er ritað af heilbrigðri skynsemi, reynslu og þekkingu á málefninu. Af málflutningi áberandi verkalýðsforingja að dæma virðast þeir ætla að verða í því hlutverki að hella olíu á eldinn. Hvers vegna í ósköpunum ? Verkalýðshreyfingin virðist alls enga alvöru greiningarvinnu hafa gert um það, hvers konar ráðstafanir henta nú bezt til að verja einn hæsta kaupmátt í Evrópu. Ætla má, að stefnumörkun með vinnuveitendum og stjórnvöldum í þá veru að draga úr verðbólgu og halda háu atvinnustigi í landinu muni koma launþegum bezt og mun betur en illa ígrundaðir lýðskrums óskalistar, sem birtir hafa verið.
Verðbólgan á Íslandi er enn þá einna lægst í Evrópu og má rekja það til þess, að um 85 % orkunnar, sem hér er notuð, á sér innlendan uppruna, sem er óháður orkuverði erlendis. Norðmenn eru í svipaðri stöðu, en þar hefur raforkuverðið u.þ.b. tífaldazt á einu ári sunnan Dofrafjalla. Hvers vegna er það ? Þar eru markaðsöflin að verki, þar sem raforkukerfi Noregs (vatnsorkukerfi) er tengt með öflugum aflsæstrengjum við meginland Evrópu og England og stjórnun þessara raforkuflutninga lýtur orkulöggjöf Evrópusambandsins, þ.e. s.k. Orkupakka 3. Af hinu síðara leiðir, að stjórnvöld Noregs hafa ekki heimild til að grípa inn í þessi viðskipti, þótt þau augljóslega ógni afkomu margra heimila og fyrirtækja í Noregi. Þau hafa hins vegar gripið til fjárhagslegra stuðningsaðgerða, eins og víðast hvar annars staðar í EES á sér stað um þessar mundir.
Norðan Dofrafjalla, þar sem verðlagsáhrifa sæstrengjanna gætir lítið vegna flöskuháls í flutningskerfinu þar, hafa verðhækkanir raforku ekki orðið neitt í líkingu við hækkanir sunnan við. Það sannar verðlagsáhrif sæstrengjanna. Þann 29. ágúst 2022 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Magnús B. Jóhannesson, framkvæmdastjóra Storm Orku, undir fyrirsögninni:
"Ástæða hærra raforkuverðs í Evrópu".
Hún endaði þannig:
"Þessar tölur sýna svart á hvítu, að orsök hás raforkuverðs í Evrópu og Bretlandi [Bretland hefur alltaf verið hluti af Evrópu - innsk. BJo] er hækkun á verði á gasi, sem notað er til húshitunar og raforkuframleiðslu. Mikill misskilningur er að halda, að skýringuna sé að finna í orkupakka EB [svo !] eða afleiðingum af innleiðingu orkupakkans og að ástæða þess, að raforkuverð hækki ekki á Íslandi líkt og í nágrannalöndum okkar sé vegna þess, að landið er ekki tengt öðrum mörkuðum með sæstreng. Það er fjarri sanni.
Aðalástæða þess að Íslendingar sjá ekki viðlíka hækkanir hér er hátt hlutfall grænnar raforku, sem framleidd er án þess, að nota þurfi gas til framleiðslunnar. Þriðji orkupakkinn eða sæstrengur er ekki orsökin."
Hvernig ætlar höfundur þessarar hrákasmíði að nota hana til að útskýra þróun raforkuverðs í Noregi á árinu 2022 ? Í Suður-Noregi er ekki notað jarðgas við raforkuvinnslu, heldur vatnsafl. Verðþróun raforku í Evrópusambandinu á þessu tímabili er flóknari en svo, að einvörðungu megi útskýra hana með verðbreytingum á jarðgasi. Frakkar hafa t.d. þurft að draga tímabundið mikið úr raforkuafhendingu frá mörgum kjarnorkuvera sinna vegna viðhalds og viðgerða. Hreinn skortur á jarðgasi til raforkuframleiðslu vegna mikillar minnkunar á framboði frá Rússlandi og vegna fyrirskipunar stjórnvalda um að safna vetrarbirgðum vegur þó þungt í verðlagningu raforkunnar, einkum þegar lítið blæs á vindmyllurnar. Það væri hins vegar stórfurðulegt og bryti viðtekin efnahagslögmál, ef öflug tenging íslenzka raforkukerfisins við kerfi ESB og eða Bretlands hefði ekki veruleg áhrif til verðhækkunar rafmagns hérlendis. Orkupakki 3 stjórnar ekki verðinu (hver heldur því fram ?), en hann stjórnar því, hvernig flutningunum eftir sæstrengjunum er háttað. Þannig gætu íslenzk stjórnvöld ekki reynt að hafa áhrif á raforkuverðið innanlands með því að hlutast til um flutningana til og frá útlöndum, t.d. með því að stöðva þá tímabundið, nema í neyð, ef lónin væru að tæmast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2022 | 11:08
Sannleikurinn um Rússland og Evrópusambandið afhjúpaður
Tímamótagrein um glæpsamlega nýlendustefnu Rússlands og yfirgang Frakka og Þjóðverja innan Evrópusambandsins, ESB, eftir forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki, birtist í Morgunblaðinu 22. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:
"Sögulegar áskoranir og fölsk stefnumál - Evrópa á krossgötum".
Pólverjar hafa í sögulegu tilliti haft bitra reynslu af bæði Rússum og Þjóðverjum og hafa í raun verið klemmdir á milli þessara evrópsku stórvelda. Málflutningur forsætisráðherra Póllands á ekki sízt í þessu ljósi brýnt erindi við nútímann, af því að hann skrifar af djúpstæðri þekkingu og skarpri rökhyggju um hegðun þessara nágranna sinna í nútímanum. Það er ófögur lýsing, sem á fullt erindi við Íslendinga, enda eru hér á Íslandi heilu stjórnmálaflokkarnir, sem leynt og ljóst vinna að því að gera Íslendinga þrælbundna stofnanaveldi ESB, þar sem smáþjóðir verða bara að sitja og standa, eins og ríkjandi þjóðir ESB telja henta "heildinni" bezt.
Grein forsætisráðherrans hófst þannig:
"Stríðið í Úkraínu hefur afhjúpað sannleikann um Rússland. Þeir, sem neituðu að taka eftir því, að ríki Pútíns hefði tilhneigingu til heimsvaldastefnu, verða núorðið að horfast í augu við þá staðreynd, að djöflar 19. og 20. aldar hafa nú lifnað við: þjóðernishyggja, nýlendustefna og æ sýnilegri alræðishyggja. Stríðið í Úkraínu hefur þó einnig flett ofan af sannleikanum um Evrópu. Margir Evrópuleiðtogar hafa látið Vladimir Pútín draga sig á tálar og verða nú fyrir áfalli."
Það, sem nú blasir við í Rússlandi, er grímulaus fasismi undir stjórn hryðjuverkamafíu í Kreml. Útþenslufasismi er aldagamall í Rússlandi og talið er, að á dögum Ráðstjórnarríkjanna hafi neisti fasismans verið varðveittur í leyniþjónustunni KGB, og Stalín hallaði sér þangað á stríðsárunum með því að virkja þjóðerniskennd Rússa í "The Great Patriotic War". Hugmyndagræði Pútíns um yfirráð Rússa yfir slavnesku löndunum ásamt Georgíu og Eystrasaltslöndunum á sér þannig sögulegar rætur, en hún stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og sjálfsögðum sjálfsákvörðunarrétti þjóða og er fullkomin tímaskekkja. Í höndum ólígarka og hrotta í Kreml er hér um að ræða nýlendustefnu, þar sem kúga á nágrannaþjóðirnar til undirgefni og skítnýta náttúruauðævi þessara landa til auðsöfnunar ólígarkanna. Úkraína, ekki sízt austurhlutinn, er t.d. gríðarlega auðug af náttúrunnar hendi. Menntunarstig Úkraínumanna og færni er á mun hærra stigi en almennt gerist í Rússlandi, og menning Úkraínumanna ber sköpunargáfu þeirra fagurt vitni. Úkraínumenn höfðu markað sér stefnu um lýðræðislegt stjórnarfar og aðild að stofnunum Vesturlanda. Þetta þoldi Kremlarstjórnin hins vegar ekki, því að hún óttaðist, að frelsisaldan bærist austur yfir landamærin, enda hafa verið mikil samskipti þar á milli, en nú hefur Pútín gert þessar þjóðir að fjandmönnum, og mun seint gróa um heilt á milli þeirra.
Nú, eins og 1939-1945, er tíðarandinn (der Zeitgeist) frelsinu hliðhollur. Hann blæs Úkraínumönnum eldmóð í brjóst, svo að enn mun Davíð sigra Golíat. Við, sem ekki þurfum að vera á vígvöllunum, verðum vitni að stríði um framtíð Evrópu. Rússar munu ekki láta staðar numið, nái þeir Úkraínu á sitt vald, fyrr en þeir hafa skapað óstöðugleika í álfunni, lagt undir sig fleiri ríki og Finnlandíserað hin. Einangrunarhyggju gætir í Bandaríkjunum og fyrrverandi forseti BNA hótaði að draga Bandaríkin út úr NATO. Þar með verður lítil vörn í NATO í framtíðinni. Vonandi verður Úkraínulexían þó til þess að styrkja samstöðu Vesturlanda í bráð og lengd.
"Evrópa kom sér ekki í þessa stöðu vegna þess, að hún var ekki nægilega samþætt, heldur vegna þess, að hún kaus að hlusta ekki á rödd sannleikans. Sú rödd hefur verið að koma frá Póllandi í mörg ár. Pólland áskilur sér ekki rétt á sannleikanum, en af samskiptum við Rússland hefur Pólland þó talsvert meiri reynslu en aðrir. Lech Kaczynski, fyrrverandi forseti Póllands, hafði rétt fyrir sér, líkt og Kassandra, sem sá fyrir fall Trójuborgar. Kaczynski sagði fyrir mörgum árum, að Rússland myndi ekki láta staðar numið í Georgíu, heldur myndi teygja sig áfram til að sölsa meira land undir sig. Ekki var heldur hlustað á hann."
Evrópa hefur lifað í þeirri sjálfsblekkingu, að hægt sé að tryggja friðsamlega sambúð við Rússland með viðskiptum, menningarsamskiptum og diplómatíu. Það var hægt, á meðan það hentaði Rússlandi, en þegar Rússar töldu tímann vera kominn til að láta til skarar skríða, þá létu þeir vopnin tala. Vesturlönd geta því miður aðeins tryggt fullveldi sitt og sjálfsákvörðunarrétt með því að verða grá fyrir járnum. Það er ekki notaleg framtíðarsýn, en þetta er raunveruleikinn, sem þessi nágranni Evrópu í austri býður upp á. Samskiptin verða í frosti um langa framtíð.
"Sú staðreynd, að rödd Póllands hafi verið hundsuð er einungis birtingarmynd stærra vandamáls, sem ESB stendur frammi fyrir í dag. Jafnrétti einstakra ríkja í ESB telst vera einungis formlegs eðlis, en stjórnmálavenja sýnir fram á, að rödd Þýzkalands og Frakklands hefur mest áhrif. Þá er um að ræða formlegt lýðræði, sem er í raun fámennisstjórn, þar sem vald er í höndum þeirra sterkustu. Þeir sterkustu geta gert mistök, en geta ekki tekið gagnrýni frá öðrum."
Þarna beinir forsætisráðherra Póllands kastljósinu að lýðræðishallanum innan ESB. Hann er alvarlegra og djúpstæðara vandamál en komið hefur fram í umræðum hérlendis hjá efasemdarmönnum um gagnsemi þess fyrir Ísland að vera þarna aðili. Pólland er stórt land í km2 talið, og þjóðin telur um 40 M manns. Samt hlusta ráðandi ríki, Þýzkaland og Frakkland, ekki á aðvörunarorð Pólverja um mál, sem ætla má af reynslunni, að þeir hafi meira vit á en hinar ráðandi þjóðir. Þessar ráðandi þjóðir voru á stórhættulegri braut í samskiptunum við rússneska ráðamenn, sérstaklega sú, sem mestu ræður í krafti fólksfjölda og efnahagsstyrks.
Hérlendis eru gasprarar, sem reyna að halda því fram, að úr því að Íslendingar séu komnir með aðra löppina inn fyrir þröskuldinn hjá ESB (með EES-samninginum), þá sé miklu eðlilegra fyrir þá að fá sæti við borðið, þar sem ákvarðanirnar eru teknar. Samkvæmt Morawiecki, sem er innanbúðarmaður hjá ESB, eru bara fulltrúar tveggja þjóða við það borð, svo að barnalegt blekkingarhjal um vald smáþjóða innan ESB fellur niður dautt og ómerkt.
Adolf Hitler talaði á sínum tíma um pólska þjóðríkið eins og Vladimir Putin talar núna (2022) um úkraínska þjóðríkið. Allt var það bull og vitleysa af hálfu einræðisherra stórveldis, sem var kominn á fremsta hlunn með að leggja viðkomandi ríki eða drjúgan hluta þess undir sig. Hvorugur þessara nazistísku einræðisherra (málflutningur og aðgerðir Putins eru liður í þjóðarmorði, þar sem reynt er að ganga af menningu og heilbrigðri þjóðernistilfinningu dauðri) hefur nokkuð til síns máls, hvað verðar tal þeirra um þessar 2 þjóðir.
"Ef mælt er með því, að aðgerðir ESB verði enn háðari Þýzkalandi, en slíku yrði komið á, ef meginregla um einróma samþykki yrði afnumin, þá nægir hér að gera stutta greiningu á ákvörðunum Þýzkalands aftur í tímann. Ef Evrópa hefði undanfarin ár hegðað sér eftir vilja Þýzkalands, værum við í dag í betri eða verri stöðu ?
Ef öll Evrópulönd hefðu fylgt rödd Þýzkalands, þá hefði fyrir mörgum mánuðum verið komin af stað ekki einungis Nord Stream 1, heldur einnig Nord Stream 2. Þá hefði Evrópa orðið svo háð rússnesku gasi, að nánast vonlaust hefði verið að losna undan því fjárkúgunartæki Pútíns, sem ógnar allri álfunni.
Ef öll Evrópa hefði samþykkt tillögu í júní 2021 um að halda leiðtogafund ESB og Rússlands, hefði það haft í för með sér, að Evrópa hefði þá viðurkennt Pútín sem fullgildan samstarfsaðila, og einnig afléttingu refsiaðgerða, sem Rússland hefur verið beitt eftir 2014. Hefði sú tillaga verið samþykkt, hefði Pútín fengið tryggingu fyrir því, að ESB gripi ekki til raunverulegra aðgerða til að verja landhelgi Úkraínu. Þau lönd, sem höfnuðu þessari tillögu þá, voru Pólland, Litháen, Lettland og Eistland."
Í ljósi sögunnar er ljóst, að forsætisráðherra Póllands hefur hér rétt fyrir sér. Þýzka ríkisstjórnin hefur tekið kolrangan pól í hæðina, séð frá hagsmunum fullvalda lýðræðisríkja Evrópu. Allt frá lokum Kalda stríðsins 1989-1991 hafa Þjóðverjar verið á röngu róli, því að mottóið var að styggja ekki Kremlverja, heldur friðþægja þá, hvað sem það kostar. Þannig var hún á móti því að viðurkenna fullveldi og sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, og hún var á móti því að samþykkja inngöngubeiðni aðildarríkja sundraðs Varsjárbandalags í NATO. Henni tókst síðar að hindra inngöngu Úkraínu í NATO, sem Bandaríkin mæltu sterklega með, og hefði hindrað villimannlega styrjöld Rússa gegn úkraínsku þjóðinni frá 2014.
Utanríkisstefna Þjóðverja hefur verið reist á þröngsýni (viðskiptahagsmunum Þýzkalands), skammsýni (röngu mati á fyrirætlunum Kremlverja) og óþörfu þakklæti í garð Rússa fyrir að koma ekki í veg fyrir sjálfsagða endursameiningu Þýzkalands 1990. Rússland hefur valdið Evrópuþjóðunum miklu tjóni og á alls ekki að komast upp með að ráðskast með landamæri fullvalda ríkja, sem ákveðin voru 1945. Að hnika við landamærum Evrópu er stórhættulegt.
Utanríkisstefna Þýzkalands hefur verið lævi blandin, þótt á yfirborðinu hafi hún verið friðsamleg, því að hún hefur borið keim af stórveldapólitík, þar sem hagsmunum minni ríkja hefur mátt fórna fyrir hagsmuni öxulsins Berlín-Moskva. Nú er mál að linni, enda er þetta blindgata, sem nú hefur verið gengin til enda. Væntanlegum kanzlara Þýzkalands, Friedrich Merz, er þetta ljóst. Gangan til baka verður þrautaganga, en mun takast, ef stuðningur Bandaríkjanna bilar ekki.
"Ef Evrópusambandið hefði einnig samþykkt tillögu um reglur um dreifingu innflytjenda árið 2015 í staðinn fyrir að beita harðri pólitík, sem felst í að styrkja eigin landamæri (en það telst vera grunneiginleiki fullvalda ríkis), þá hefðum við orðið að peði í dag frekar en þátttakanda í alþjóða stjórnmálum. Það, sem Pútín kom auga á árið 2015, var einmitt möguleikinn á að nýta innflytjendur í blendingsstríði gegn ESB. Þá réðst hann ásamt Alexander Lúkasjenkó á Pólland, Litháen og Lettland. Hefðum við hlýtt talsmönnum opinna landamæra, væri viðnámsþrek okkar í dag í síðari stórkreppum enn minna."
Rússar ætluðu sér allan tímann að sigla undir fölsku flaggi, reka stöðugan blendingshernað gegn Evrópuþjóðunum til að veikja þær og sundra þeim, svo að þeir kæmust upp með beint árásarstríð án þess að lenda í miklum átökum og gætu síðan Finnlandiserað afganginn af Evrópu í krafti orkusölu þangað. Þetta er ótrúlega fjandsamleg og fífldjörf fyrirætlun gagnvart nágrönnum, enda hefur hún ekki aðeins farið í vaskinn, heldur opinberað, hversu lítils megnugir Rússar eru á flestum sviðum. Rússneski herinn hefur farið halloka fyrir úkraínska hernum. Fyrir vikið er óhætt að segja, eins og forseti Úkraínu, Volodimir Zelenski, sagði á þjóðhátíðardegi Úkraínu, 24. ágúst 2022, að úkraínska þjóðin er nú endurfædd.
"Að síðustu væri stríðinu löngu lokið, ef öll Evrópa hefði sent til Úkraínu vopn í þeim mæli og á þeim hraða, sem Þýzkaland gerir. Stríðinu myndi ljúka með algjörum sigri Rússlands. Og Evrópa væri á barmi annars stríðs, en Rússland héldi áfram vegna hvatningar, sem fælist í veikleikum mótherjans.
Í dag telst hver rödd, sem kemur frá Vesturlöndum, um að takmarka vopnaflutning til Úkraínu, draga úr refsiaðgerðum eða fá "báða aðila" (s.s. árásaraðilann og fórnarlambið) til að ræða saman, merki um veikleika. Þó er Evrópa miklu öflugri en Rússland."
Kratinn, Olaf Scholz, á kanzlarastóli í Berlín, hefur bitið höfuðið af skömm Þjóðverja gagnvart Úkraínu með vífilengjum varðandi afhendingu þýzkra þungavopna til úkraínska hersins. "Die Wende"-vendipunktsræða hans reyndust orðin tóm. Það er enn alvarleg meinloka í hausnum á Þjóðverjum gagnvart afstöðunni til Rússa. Rússar eru langalvarlegasta ógnin við friðinn í Evrópu, og Þjóðverjum, sem forystuþjóð þar, ber skylda til að snúast gegn þeim enn og aftur með kjafti og klóm. Átökunum við þá lauk ekki í maí 1945, því er ver.
"ESB á æ erfiðara með að virða frelsi og jafnrétti allra aðildarríkja. Við heyrum æ oftar, að meirihlutinn, fremur en einróma samþykki, eigi að ákvarða framtíð allra ríkja Evrópusambandsins. Að víkja frá meginreglu um einróma samþykki á fleiri sviðum starfsemi ESB færir okkur nær því fyrirkomulagi, þar sem þeir sterkari og stærri ráða yfir þeim veikari og minni.
Frelsis- og jafnréttisskortur eru einnig áberandi á evrusvæðinu. Það að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil tryggir ekki varanlega og samræmda þróun. Evran kemur jafnvel af stað innbyrðis samkeppni, sem sést t.a.m. í umframútflutningi sumra ríkja. Hún kemur í veg fyrir endurmatshækkun á eigin gjaldmiðli og viðheldur stöðnun í atvinnulífi hjá öðrum ríkjum. Í slíku kerfi teljast jöfn tækifæri einungis orðin tóm."
Þetta er harðasta gagnrýnin á þróunina innan Evrópusambandsins, sem heyrzt hefur, og hún kemur frá forsætisráðherra fremur stórs ríkis innan sambandsins. Mikið hefur gengið á og örvænting gripið um sig hjá minni ríkjum sambandsins áður en gagnrýni af þessu tagi er sleppt út í eterinn. Ráðandi ríkjum innan ESB, Þýzkalandi og Frakklandi, hefur farizt forystuhlutverk sitt svo illa úr hendi, að þverbrestir eru komnir í ESB, og aðeins óttinn við Rússland og stórhættulegir tímar í Evrópu og víðar af völdum glæpahyskis í Kreml heldur nú Evrópusambandinu saman. Evran veldur vandræðum við stjórnun peningamálanna á evru-svæðinu. Hún er of veik fyrir Þýzkaland og of sterk fyrir rómönsku ríkin. Svigrúm til vaxtahækkana til að hemja verðbólguna er lítið sem ekkert hjá ECB, af því að stórskuldugur ríkissjóður Ítalíu myndi þá lenda í greiðsluþroti og óvíst er, að evran mundi lifa það af, enda er bandaríkjadalur nú orðinn verðmætari en evran og svissneski frankinn rýkur upp, sem eru vísbendingar um, hvert fjármagnið leitar nú.
Við þessar aðstæður gera sumir Íslendingar mjög lítið úr sér með því að predika fyrir löndum sínum mikilvægi þess fyrir Ísland að sækja um aðild að ESB og að ganga í myntbandalag Evrópu. Þeim er ekki sjálfrátt, taka kolrangan pól í hæðina og þá hefur nú dagað uppi sem steingervingar. Málflutningur prinsessu Samfylkingarinnar í hinu gamla leikhúsi við Tjörnina um daginn bar þess merki, að þessi bankaprinsessa hefur áttað sig á því, að ekki er vænlegt fyrir flokk hennar að hamra á aðildinni lengur. Hún orðar þetta þó í véfréttastíl um, að flokkurinn undir hennar forystu muni einblína á hagsmuni hins venjulega manns.
"Það verður æ torveldara að verja réttindi, hagsmuni og þarfir meðalstórra og smárra ríkja í árekstri við stór ríki. Um er að ræða brot gegn frelsi og þvingun, sem á sér stað í nafni meintra hagsmuna heildarinnar.
Það gildi, sem var kjarninn í stofnun Evrópusambandsins, var almannaheill. Það var drifkraftur í samþættingu Evrópu frá upphafi. Í dag er það gildi í hættu vegna sérstakra hagsmuna, sem þjóna aðallega þjóðernissjálfhverfu. Kerfið býður okkur upp á ójafnan leik á milli þeirra veikari og sterkari. Í þeim leik er pláss fyrir stærstu ríkin, sem eru efnahagsveldi, og meðalstór og lítil ríki með minna efnahagskerfi. Þeir sterkustu sækjast eftir pólitískum og efnahagslegum yfirráðum, en hinir eftir pólitískri og efnahagslegri fyrirgreiðslu. Fyrir þeim öllum verður hugtakið almannaheill meira og meira abstrakt [afstætt]. Samstaða Evrópu er að verða að merkingarlausu hugtaki, sem jafngildir því að þvinga fram samþykki á einræðisvaldi þess sterkara.
Segjum það bara beint út: skipan Evrópusambandsins ver okkur ekki nægilega vel að svo stöddu gegn heimsvaldastefnu annarra ríkja. Þvert á móti eru stofnanir og stjórnarvenjur ESB opnar fyrir því, að hin rússneska heimsvaldastefna finni sér leið inn, enda eru þær sjálfar ekki lausar við freistingu til að ráða yfir þeim veikari."
Það er grimmúðlegt árásarstríð Rússa gegn Úkraínumönnum, sem hefur leyst grundvallarágreining úr læðingi innan ESB. Það sést með því að skoða söguna, að þýzka ríkisstjórnin, hver sem hún er, er höll undir þau sjónarmið, að Þýzkaland og Rússland eigi að skipta Evrópu á milli sín. Auðvitað verður þá fullveldi minni ríkja fórnarlambið. Bretar og Bandaríkjamenn hafa allt aðra stefnu. Rússar herða nú hálstakið, sem þeir hafa á Þjóðverjum með Nord Stream 1 og hjálparleysi Þjóðverja í orkulegum efnum, sem er fullkomið sjálfskaparvíti og sýnir bezt skipbrot utanríkisstefnu þeirra. Þeir verða nú að taka sér heiðarlega stöðu með Engilsöxunum í stuðningi við Úkraínu, ef trúverðugleiki þeirra í hópi Vesturveldanna á ekki að bíða hnekki. Þolgæði þýzku þjóðarinnar er mikið. Það sýndi hún bezt 1939-1945 og nú á þessum vendipunkti í sögu Evrópu verður afstaða þýzku stjórnarinnar í Berlín til fullveldis óskiptrar Úkraínu prófsteinn á stöðu Þýzkalands í Evrópu 21. aldarinnar.
Lokatilvitnunin í stórmerka blaðagrein forsætisráðherra Póllands, Mateusz Morawiecki:
"Nú þarf að sýna Úkraínu stuðning, til að hún geti endurheimt þau landsvæði, sem hún hefur tapað, og til að hún geti þvingað rússneska herinn til að hörfa. Aðeins þá verður hægt að taka þátt í viðræðum af einhverri alvöru og fá fram raunveruleg stríðslok, en ekki einvörðungu skammvinnt vopnahlé. Aðeins slík stríðslok munu þýða, að við höfum sigrað.
Við verðum einnig að sigrast á ógn af heimsvaldastefnu ESB. Við þurfum á umfangsmiklum endurbótum að halda, þar sem meginreglur ESB endurspegli það, að almannaheill og jafnræði séu sett á oddinn á ný. Það verður ekki að veruleika að hugmyndafræði ESB óbreyttri, þ.e. ef ákvarðanir um stefnumál og forgangs hlutverk ESB verða ekki teknar af öllum aðildarríkjum fremur en af stofnunum ESB. Stofnanir eiga að þjóna hagsmunum ríkja, en ekki ríki hagsmunum stofnana. Grundvallaratriði í samstarfi verður hverju sinni að vera samkomulag fremur en yfirráð þeirra stærstu yfir hinum minni."
Stofnanavæðing ESB er sem sagt dulbúin yfirtaka Þjóðverja og Frakka á ákvarðanatöku innan ESB og eykur þannig enn við lýðræðishalla sambandsins. Íslendingar hafa kynnzt þessari stofnanvæðingu með nánu samstarfi við ESB um Innri markaðinn á grundvelli EES-samningsins, sem gildi tók 1. janúar 1994. Er skemmst að minnast kröfu ESB og þrýstings ríkisstjórnar Noregs um samþykki EFTA-landanna (utan Sviss) á orkulöggjöf um ACER-Orkustofnun ESB. Við sjáum nú, hversu fjarri þessi löggjöf er frá því að stuðla að almannaheill í Noregi vegna útflutnings á raforku frá Noregi til ESB og Englands. Hérlendis er í bígerð uppboðsmarkaður á raforku á grundvelli þessarar löggjafar, og við ríkjandi aðstæður í orkumálum á Íslandi (meiri eftirspurn en framboð) mun slíkur uppboðsmarkaður bitna á heimilum og atvinnurekstri í landinu, svo að ekki sé nú minnzt á orkuskiptin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2022 | 17:02
Stjórnmálamenn, embættismenn og rekstur fara illa saman
Það, sem talið er upp í fyrirsögninni, virðist vera eitruð blanda, þótt kaffihúsasnatinn Karl Marx hafi um miðja 19. öldina talið fyrirkomulagið varða leiðina inn í draumaríki kommúnismans, sem mundi leysa auðmagnskerfi Adams Smiths af hólmi. Allt voru þetta ranghugmyndir raunveruleikafirrts heimspekings.
Hérlendis hafa undanfarið dunið á almenningi fréttir um ríkisrekið heilbrigðiskerfi, sem sé að hruni komið, og leikskólakerfi borgarinnar, sem annar ekki þörfinni. Einkenni opinbers rekstrar eru óhóflegar biðraðir, sem oftast lengjast, og sú er einmitt raunin í þessum tveimur kerfum. Samt er gríðarleg tregða hjá embættismönnum og stjórnmálamönnum að grípa til þeirra einu ráða, sem duga til að bæta þjónustuna, þ.e. úthýsingar starfsemi hins opinbera til einkaframtaksins. Á því græða bæði skjólstæðingar ömurlegrar þjónustu hins opinbera og skattborgararnir. Opinber rekstur stenzt einkaframtakinu einfaldlega ekki snúning, og það er reginhneyksli hérlendis á 21. öldinni, að stjórnmálamenn skuli standa uppi ráðþrota og bara berja hausnum við steininn. Vilji er allt, sem þarf til að berjast við embættismennina, sem standa vörð um þetta rotna kerfi.
Þann 16. ágúst 2022 birti Morgunblaðið lýsandi viðtal um þá stöðu, sem að ofan er lýst. Þar er lýst ofan í ormagryfjuna. Fréttin hófst þannig:
"Eins og fram hefur komið, er mikill skortur á læknum á Íslandi. Nú er svo komið, að í nokkrum sérfræðigreinum er meirihluti lækna yfir 60 [ ára] og mikill skortur á nýliðun [svo !; nýliðun er lítil]. Þannig er staðan í augnlækningum í dag. 59 % starfandi augnlækna eru 60 ára eða eldri, og meira en helmingur þeirra, sem eru eldri en 60, eru komnir yfir 70. Ljóst er, að bregðast þarf við þessu grafalvarlega ástandi.
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir á augnlæknastöðinni Augljós, segir, að ekki hafi verið gerð nákvæm úttekt á því, hversu marga augnlækna þurfi, til að ástandið [verði] bærilegt.
"Það er erfitt að meta þetta, en hins vegar er alveg ljóst, að heilbrigðisyfirvöld, og þá sérstaklega Sjúkratryggingar, hafa að mörgu leyti brugðizt sinni skyldu. Augnlækningar eru fag, sem byggist oft eingöngu á samningum við Sjúkratryggingar, því [að] það eru ekki allir augnlæknar, sem vinna á sjúkrahúsum [betra er: ekki vinna allir augnlæknar á sjúkrahúsum-innsk. BJo]. Nú hafa samningar verið lausir í 4 ár; nýir sérfræðingar úr námi hafa átt erfitt með að komast á samning, og án samnings eru þeir ekki samkeppnishæfir við aðra augnlækna. Þeir geta jafnvel séð hag sínum betur borgið að verða áfram erlendis eða flytja aftur út með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenzkt heilbrigðiskerfi.""
Hér er vandamál ríkisrekstrarins í hnotskurn. Embættismenn í heilbrigðisráðuneyti og/eða hjá Sjúkratryggingum Íslands draga lappirnar við samningsgerð við sérfræðilækna, t.d. á sviði augnlækninga, og búa þar með til tvöfalt heilbrigðiskerfi og læknaskort vegna þess, að ungir læknar í sérnámi erlendis skortir réttu hvatana frá ríkisvaldinu til að hasla sér völl á íslenzkum vinnumarkaði. Aðalástæða þessarar óeðlilegu og stórskaðlegu hegðunar embættismannanna er af hugmyndafræðilegum toga. Þeir eru illa haldnir af grillum um, að heilbrigðisþjónusta eigi hvergi annars staðar heima en á stofnun í opinberri eigu, helzt í ríkiseigu, en rekstur slíkra stofnana er nánast undantekningarlaust með þeim ömurlega hætti, að þar myndast biðraðir, jafnvel með bið í meira en eitt ár. Nýtingu tækjakosts er þar ábótavant og óánægja í starfi landlæg, sem leiðir til starfsmannahörguls og yfirálags. Engu virðist breyta, þótt hellt sé í hítina fé úr ríkissjóði í meira mæli en nokkru sinni fyrr á alla mælikvarða.
Auðvitað kom þessi ömurlega hugmyndafræði alla leið frá ráðherra málaflokksins í síðustu ríkisstjórn, sem hrúgaði nýjum verkefnum á yfirlestaðan Landsspítalann glórulaust með slæmum afleiðingum. Eins og nýr stjórnarformaður Landsspítalans hefur ýjað að, verða þessi vandamál ekki leyst, nema Landsspítalinn taki upp nýtt fjármögnunarkerfi (greiðslu fyrir verkþátt) og úthýsingu til einkarekinna læknastofa.
Svipað vandamál er fyrir hendi í menntageiranum. Svik borgarstjórans í Reykjavík gagnvart foreldrum með börn á 2. ári hafa verið í sviðsljósinu, enda svæsin og endurtekin. Ástandið í Reykjavík er þannig, að augljóslega ráða stjórnmálamenn og embættismenn ekki við viðfangsefnið, enda gufaði borgarstjóri upp strax eftir fyrsta hústökufundinn í Ráðhúsinu, eins og hans var von og vísa, sbr skolpmálið alræmda, þegar hann lét ekki ná í sig. Hvers vegna er ekki löngu búið að virkja einkageirann á þessu sviði og hætt að láta stjórnmálamenn og embættismenn borgarinnar fást við það, sem löngu er útséð með, að þeir ráða ekki við ? Þaðan kemur ekkert annað en froðusnakk og þokulegar glærusýningar, sem foreldrar hafa ekkert gagn af og fóru þar af leiðandi í taugarnar á þeim á hústökufundi með varaborgarstjóra. Viðbára jafnaðarmanna er jafnan sú, að enginn megi græða á þessari starfsemi. Hvers vegna er það "tabú", ef það leysir brýnan vanda fjölda fólks og veitir samfélagslegan sparnað og/eða tekjuauka ? Fordómar eru vandi jafnaðarstefnunnar í hnotskurn. Jafnaðarstefnan glímir við tæringu. Farið hefur fé betra.
"Jóhannes var yfirlæknir hjá augnlækningastöðinni Sjónlagi á árum áður. "Á árunum 2006-2008 reyndum við að koma á augnsteinsaðgerðum fyrir utan spítala í fyrsta sinn. Það hafði myndazt 2 ára biðlisti, og vandinn fór sífellt vaxandi. Við áttum samtal við 3 heilbrigðisráðherra, og það var alltaf sama sagan. Gríðarleg tregða er gagnvart því að koma verkum út af spítalanum til að framkvæma þau í miklu ódýrara húsnæði. Það endaði með því, að við keyptum bara inn tæki til augnsteinsaðgerða án þess að hafa fengið samning, og þau lágu nær ónotuð í 2 ár. Þetta bjó þó til þrýsting á Sjúkratryggingar og á ráðherra. Þó var það ekki fyrr en í ráðherratíð Guðlaugs Þ. Þórðarsonar, að loksins var tekin ákvörðun í málinu árið 2008. Í kjölfarið voru augasteinsaðgerðir boðnar út, og þær voru þá framkvæmdar í fyrsta sinn utan spítala hér á landi. Við þetta styttust biðlistarnir hratt, og viðbótar tilkostnaður varð ekki mikill. Þessir samningar, sem verið er að gera við augnlækna utan spítalans, eru alveg gríðarlega hagstæðir. Það er stjarnfræðilegur munur á kostnaði við að senda sjúkling til útlanda í aðgerðir eða sinna þeim hér á stofum. Þessi tregða við að gera hlutina ódýrar og hagkvæmar er óskiljanleg."
Þetta er afar lýsandi dæmi um tregðu embættismannakerfisins til breytinga, sem leitt geta til samkeppni við ríkisstofnun. Frumkvöðlar ræða við ráðherra og gera honum grein fyrir því, að tækniþróunin hafi nú gert kleift að auka afköstin og spara ríkissjóði fé með úthýsingu verkefna frá Landsspítala-háskólasjúkrahúsi, sem annar ekki verkefnunum og veldur þar með þjáningum fjölmargra og óþarfa samfélagslegum kostnaði. Ráðherra talar við ráðuneytisfólk sitt, en það er í hugmyndafræðilegum viðjum ríkisrekstrar og lítur jafnvel á nýbreytni sem ógnun við kerfið fremur en tækifæri fyrir sjúklinga og skattgreiðendur. Hann talar síðan við forstjóra Landsspítalans, sem strax fer í vörn og finnur samkeppni um sjúklingana flest til foráttu. Ráðherrann skortir sannfæringu, innsæi og/eða stjórnunarhæfileika til að halda áfram með málið, og þingflokkur hans maldar jafnvel í móinn. Þetta er meginskýringin á botnfrosnu kerfi, sem ræður ekkert við verkefnin sín og er að hruni komið (lýsing núverandi forstjóra Landsspítalans á stöðu spítalans var sú nú í ágúst, að staðan þar hefði aldrei verið verri og að spítalinn væri að þrotum kominn, sem þýðir , að sjúklingarnir muni ekki njóta eðlilegrar þjónustu). Þetta hreyfir ekkert við búrókratíinu. Það er að veita neina þjónustu. Það er að standa vörð um kerfið sitt.
Nú er komin stjórn yfir Landsspítalann með stjórnarformann með auga fyrir skilvirkri stjórnun og rekstri. Ráðherra er þannig kominn með viðmælanda, sem getur ráðlagt honum af viti um útvistun verkefna, og ráðherrann verður að hrista upp í gaddfreðnum Sjúkratryggingum Íslands og koma á alvöru samningaviðræðum við "stofulæknana".
"Núna er staðan mjög slæm og líklega að verða tveggja ára bið eftir að komast í augasteinsaðgerð. Það er bilað ástand. Þessar hefðbundnu aðgerðir, sem flestir fara í, taka 10 mín/auga." Hann bendir á, að önnur aðgerð, sem er nú eingöngu gerð á sjúkrahúsi, ætti betur heima utan þess. "Það eru sprautumeðferðir í augnbotni, s.k. glerhlaupsinndælingar. Þá er lyfi sprautað inn í augað við sjúkdómi, sem fellur undir ákveðna gerð af hrörnun í augnbotnum. Þessi aðgerð hefur verið bylting í meðferð á þessum sjúkdómi. Hún tekur stuttan tíma og er framkvæmd aðallega af aðstoðarlæknum á spítalanum á skurðstofu, en væri hægt að framkvæma á hvaða stofu sem er, eins og víða er gert í löndunum í kringum okkur. Hérlendis má ekki framkvæma þessa aðgerð á stofu, því [að] lyfin, sem notuð eru til að sprauta í augun, eru með S-merkingu, sem þýðir, að eingöngu megi nota þau á spítala.
Það er engin ástæða fyrir því, að þessi lyf eru S-merkt í þessum tilvikum. Ef því væri breytt, væri hægt að framkvæma inndælingarnar á stofu sérfræðinga og nýta skurðstofur spítalans betur til að stytta biðlista fyrir augasteinsaðgerðir."
Þetta er svakaleg lýsing á heilbrigðiskerfi í fjötrum einokunar ríkisrekstrar. Klóför embættismanna, sem berjast með kjafti og klóm fyrir einokun Landsspítalans í smáu og stóru, má greina. Þarna binda búrókratarnir notkun lyfs við spítala í stað þess að binda hana við viðurkennda sérfræðinga. Þessi mismunun lækna á spítala og sérfræðinga á stofu varðar líklega við lög. Það er verið að skerða atvinnufrelsi, sem varið er í Stjórnarskrá. Þegar svona er í pottinn búið, er aðeins von, að keraldið leki. Ráðherrann verður að fá einhvern með rekstrarvit og auga fyrir sparnaði til að greina kerfisbundið, hvaða verkefni hins opinbera eru hæf til útvistunar og leggja tillöguna fyrir stjórn Landsspítalans og fulltrúa stofulækna til umsagnar.
Á meðan uppstokkun verkefnaskiptingar Landsspítalans og læknastofanna er látin dankast og samningsgerð Sjúkratrygginga Íslands við sérfræðilækna á stofum er látin reka á reiðanum, lengjast biðlistar með hörmulegum afleiðingum og læknaskorturinn verður sárari. Verknámsaðstaða Landsspítala er flöskuháls á útskriftarfjölda lækna og þar með innritunarfjölda. Jafnframt alvöru samningaviðræðum við fulltrúa læknastofanna má ræða við þá um möguleika á að taka við læknanemum í þjálfun til að auka útskriftargetuna. Þessi ofurtrú á stofnanaveldi og ríkisrekstur er ótrúlega lífseig tímaskekkja m.v. ömurlega reynslu hér og annars staðar af þessu trénaða fyrirkomulagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2022 | 13:27
Áhættugreiningu vantar fyrir flutningana
Stórfelldir vikurflutningar eru ráðgerðir frá námu austan Hafurseyjar austan Víkur í Mýrdal og til Þorlákshafnar. Sveitarfélagið Vík leggst ekki gegn námuvinnslunni sjálfri, en á bágt með að sætta sig við fyrirhugað flutningsfyrirkomulag á vikrinum. Ráðgert er að flytja um 1,0 Mt/ár úr námunni eftir þjóðvegum Suðurlands, sem liggja til Þorlákshafnar. Samráð skortir við sveitarstjórnina þar um endastöð þessara flutninga, og hefur sveitarstjórinn lýst því yfir, að ekki komi til mála að samþykkja opinn haug þar, enda skorti lóð undir hann.
Einar Freyr Elínarson tjáði sig með skynsamlegum hætti fyrir hönd sveitarfélagsins Víkur í Mýrdal um þessi efni í viðtali við Morgunblaðið 15. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:
"Efasemdir um stórfellda landflutninga".
Viðtalið hófst þannig:
"Við leggjumst ekki gegn námuvinnslu; þarna er skilgreind náma. En við verðum að sjá útfærsluna öðruvísi", segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi í samtali við Morgunblaðið um áform og mat á umhverfisáhrifum mikilla þungaflutninga með vikur í gegnum sveitarfélagið. Hann segir, að sveitarstjórnin hafi ekki enn fjallað um umhverfismatsskýrsluna, en ljóst sé, að miklar efasemdir séu uppi um þessa landflutninga.
Þá dregur hann í efa það mat, sem lýst er í skýrslunni á áhrifum flutninganna á umferð. Þar eru þau metin óverulega neikvæð."
Hvað liggur að baki þeirri umsögn verkfræðistofunnar, sem ráðin var í þá rannsókn, sem mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eða athafna jafnan er, að áhrifin á umferðina verði óverulega neikvæð ? Var gerð áhættugreining til að leiða líkum að áhrifum 30 % aukningar á þungaaumferð, sem Vegagerðin telur, að þessi áform jafngildi, og áhrifin á öryggi vegfarenda af völdum aukins vegaslits og meiri viðhaldsþarfar ? Var lagt mat á afleiðingar aukinnar tilhneigingar til erfiðs aksturs fram úr löngum farartækjum á öllum tímum sólarhrings ? Að öllum þekktum áhættuþáttum meðreiknuðum, hvað má ætla, að slysatíðnin á leið langra flutningabíla aukist mikið með mismunandi örkuml eða jafnvel dauða af völdum þessara flutningabíla með vikur til Þorlákshafnar og til baka til námunnar austan Hafurseyjar ? Hvaða auknum árlegum kostnaði má búast við vegna slysa, dauðdaga og tjóns á farartækjum og aukins vegviðhalds af þessum völdum ?
Af orðalaginu "óverulega neikvæð" mætti ætla, að áhættugreining verkfræðistofunnar hafi leitt í ljós, að vegfarendur framtíðarinnar á leið téðra þungaflutninga og íbúar í grennd við leiðina verði ekki fyrir mælanlegu tjóni eða áreiti af völdum þessara þungaflutninga, heldur aðeins óþægindum og minni háttar töfum á sinni leið. Hér skal varpa fram þeirri tilgátu, að sú niðurstaða standist ekki verkfræðilega rýni, heldur beri vitni um flaustursleg vinnubrögð. Það virðist vanta, það sem við á að éta, í þessa rannsókn.
Miðað við umferðartalningar og upplýsingar um þetta verkefni má áætla, að með viðbótarflutningum um meira en 1,0 Mt/ár (að þunga farartækjanna meðreiknuðum fram og til baka) muni slitið á vegunum verða svipað og frá umferð, sem er 2,5 sinnum meiri en núverandi umferð. Þá vaknar lykilspurningin í þessu máli: hverjar voru hönnunarforsendur leiðarinnar um umferð, sem vegurinn ætti að þola, svo að þáverandi öryggisstöðlum væri fullnægt. Líklegt er, að í tímans rás hafi sú árlega hámarksumferð, sem vegurinn átti að þola, þegar hann var hannaður, lækkað.
Ef verkefnið stendur og fellur með svona miklu álagi á samfélagsinnviði landsmanna, og hér er lagt upp með, á það ekki rétt á sér. Þar með er það þó ekki dauðadæmt, því að aðrar flutningaleiðir eru til, og hafa sumar verið nefndar, enda gætu útflutningsverðmætin frá fullri starfsemi á Mýrdalssandi (vikur og sandblástursefni) numið vel yfir 200 MEUR/ár.
Ein er, að fyrirtækið leggi fram áætlun um lestarteina frá námunni og til Þorlákshafnar. Önnur er viðleguaðstaða úti fyrir ströndinni og dæling efnisins með þrýstilofti úr landi og út í skip. Þriðji möguleikinn er svo að koma upp einhvers konar hafnaraðstöðu í grennd við námuna í samstarfi við sveitarfélagið Vík í Mýrdal.
Nokkrir hafa fjallað um þetta verkefni í fjölmiðlum. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur gert þetta verkefni að umfjöllunarefni á vefsetri sínu, og Friðrik Erlingsson, rithöfundur á Hvolsvelli hefur fengið birta grein um efnið í Morgunblaðinu. Þann 16. ágúst 2022 birtist svo forystugrein um efnið í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Á 7 mínútna fresti í öld".
Þar sagði m.a.:
"Það eru ótal dæmi til um það, gömul sem ný, hversu sárgrætilega auðvelt er að fá keyptar umsagnir, sem eiga að vera veittar í krafti sérfræðiþekkingar, þótt þær sýnist vera öndverðar öllu því, sem blasir við hverjum manni, að fái staðizt. Hinu er ekki að leyna, að skýrsla af slíku tagi gæti geymt vott um ólíkindalega gamansemi, þegar niðurstaða hennar er, "að aukning umferðar og hljóðvistar vegna malartrukkanna "hafi nokkuð neikvæð áhrif" eða svo sem miðlungsáhrif m.v., að flokkarnir fyrir ofan heita: "Talsvert neikvæð áhrif, Verulega neikvæð áhrif og Óvissa".
Það er varla hægt að gera því skóna, að höfundum skýrslunnar sé grín í huga, því að málefnið snýst um dauðans alvöru á þjóðvegunum og mögulega verulega skert lífsgæði þeirra, sem vinna og/eða búa í slíkri grennd við flutningaleiðina, að áhrif hefur á hljóðvist á vinnustað eða á heimili. Þetta huglæga mat um nokkuð neikvæð áhrif eða svo sem miðlungsáhrif er svo fljótandi, að það er óboðlegt sem niðurstaða í skýrslu frá verkfræðistofu, enda er lesandinn litlu nær með slíka einkunnagjöf höfundanna.
Hvers vegna var t.d. ekki gerð söfnunarmæling á hávaða við akstursbrautina, þar sem ætla má, að áhrif á hljóðvist verði mest, og viðbótar hávaðinn síðan áætlaður út frá tíðni ferða, hraða og hávaða frá sambærilegum flutningatækjum og búast má við, að verði í þessum vikurflutningum ? Þá væri eitthvað handfast fyrir þá, sem þurfa að fjalla um málið, og hægt að bera niðurstöðuna saman við staðla, sem um hljóðvist fjalla.
Það fara senn að æsast leikar á Mýrdalssandi, því að fyrirtæki er að koma þar upp búnaði til vinnslu efnis úr sandinum til yfirborðshreinsunar. Morgunblaðið sagði frá þessu 18. ágúst 2022 undir fyrirsögninni:
"Tæki til vinnslu sandblástursefnis".
Fréttin hófst þannig:
Tæki til að vinna sandblástursefni eru komin á lóð fyrirtækisins Lavaconcept Iceland ehf við Uxafótarlæk austan við Vík í Mýrdal. Áætlað er að hefja vinnslu og útflutning á næsta ári [2023]. Unnið hefur verið að þessu verkefni frá árinu 2008, og nú er skipulagsferli lokið. Aðstandendur verkefnisins leggja áherzlu á að fá heimamenn í Mýrdal til að vinna sem mest að undirbúningi og síðan vinnslu, þegar þar að kemur, enda var til verkefnisins stofnað til að skapa atvinnu á svæðinu. Steypa þarf undir tækin og leiða rafmagn á svæðið. Áætlað er, að 15-20 störf skapist síðan við vinnsluna."
Með aukinni starfsemi í sveitarfélaginu Vík í Mýrdal, sem þarf að koma framleiðslu sinni um borð í skip til útflutnings, eru vaxandi líkur á, að fjárhagsgrundvöllur verði fyrir hafnargerð, viðleguaðstöðu úti fyrir ströndinni eða lagningu járnbrautarteina frá athafnasvæðunum á Mýrdalssandi og til Þorlákshafnar, ef flutningsgeta þjóðvegarins reynist ekki anna fullri flutningsþörf umræddrar starfsemi á Mýrdalssandi til Þorlákshafnar samkvæmt athugun Vegagerðarinnar eða ef áhættugreining leiðir í ljós óásættanlega meiri slysatíðni á leiðinni eða hávaða í grennd við hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)