Færsluflokkur: Bloggar
11.3.2022 | 11:30
Orkan og stríðið
Frá Rússlandi kemur um fjórðungur olíunnar og helmingur jarðgassins, sem Evrópa vestan Úkraínu notaði áður en Rússaher réðist með offorsi inn í Úkraínu. Þann 7. marz 2022 birtist í Morgunblaðinu og sjálfsagt víða um heim áhrifarík grein eftir Oleg Ustenko, efnahagsráðgjafa Volodimirs Zelenski, forseta Úkraínu, frá maí 2019, og Simon Johnson (Project Syndicate). Greinin hét:
"Sniðgöngum rússneska orku strax".
"En engin af þessum refsiaðgerðum (frysting þess hluta rússneska gjaldeyrisvarasjóðsins, sem geymdur er utan Rússlands, lokun á SWIFT hjá nokkrum rússneskum bönkum, ekki öllum) hefur stöðvað innrás Rússa í Úkraínu af einni ástæðu, og engin þeirra mun gera það.
Ástæðan er einföld: Rússar halda áfram að flytja út olíu og gas. Reyndar hefur stríðið hækkað verðið á þessum vörum, mikilvægasta þætti rússneska hagkerfisins, til mikilla hagsbóta [fyrir þá]. Þannig er því, viku eftir að [stríðið] hófst, vestræn orkunotkun enn að fjármagna innrás Rússlands í Úkraínu, og rússneska yfirstéttin (elítan) hagnast meira en nokkru sinni fyrr. Það er engin hjáleið í kringum verkefnið. Það eina, sem mun stöðva yfirgang Vladimirs Pútíns, Rússlandsforseta, er að sniðganga alfarið allar rússneskar orkuafurðir.
Orka er burðarásinn í útflutningi Rússlands. Aðallega sala á gasi til Vestur-Evrópu [um lagnir] á langtíma viðskiptasamningum og sala á olíu á opnum heimsmarkaði."
Ekki þarf að draga í efa þetta mat Oleg Ustenko, enda eru Vesturveldin sama sinnis, en hafa mismunandi mikið svigrúm til athafna í þessa veru. Bandaríkjamenn brugðust fyrstir við og tilkynntu 8. marz 2022 bann við innflutningi jarðgass, olíuvara og kola frá Rússlandi, sem nema um 8 % af notkun þeirra á þessum efnum. Bretar búa enn að nokkru streymi gass og olíu úr botni Norðursjávar, bæði úr eigin lögsögu og Norðmanna, og ætla á nokkrum mánuðum að hætta þessum innflutningi frá Rússum.
Þjóðverjar hafa lagt mest undir í þessum orkuviðskiptumvið Rússa og ætluðu að vaða lengra út í ófæruna með Nord Stream 2. Þeir hafa líka sagzt ætla að hætta þessum viðskiptum við Rússa, en í áföngum og ekki að ljúka þeim fyrr en 2027. Það mun þó sennilega verða miklu fyrr í raun.
"Undanfarinn mánuð hefur daglegt verðmæti rússnesks olíuútflutnings aukizt um nærri 100 MUSD/dag (reiknað út frá mati IEA á daglegum útflutningi Rússa [og] margfaldað með mati okkar á hækkun á raunverði fyrir Úralhráolíu). Gjaldeyrishagnaður Rússa sl. janúar var um mrdUSD 19 eða um 50 % hærri en vanalega á sama tíma. Oft er mánaðarlegur hagnaður mrdUSD 9-12."
Það er athyglisvert, hversu köldu andar nú frá Sádi-Arabíu til Bandaríkjanna, en þetta mikla olíuútflutningsríki gæti fyrirvaralítið aukið framleiðslu sína, a.m.k. um nokkurra mánaða skeið, álíka mikið og nemur olíuútflutningi Rússa, um 0,7 Mt/dag (4-5 Mtu/d). Það kann að stafa af gagnrýnum ummælum háttsettra bandarískra stjórnmálamanna um stjórnarfarið í þessu Arabalandi.
Nú reyna Bandaríkjamenn að strjúka kommúnistanum Maduro í Venezúela meðhárs, en þar er allt í niðurníðslu, eins og mikill fjöldi flóttamanna frá Venezúela til Íslands er til vitnis um. Það yrði saga til næsta bæjar, ef konungsfjölskyldan í Riyadh bregst Vesturveldunum á ögurstundu og mun vart verða henni til framdráttar.
Það er svo að sjá, að rússneska ríkið muni ekki eiga sér viðreisnar von um áratugaskeið vegna villimannslegra aðfara rússneska hersins í Úkraínu. Líklega er pólitískur óstöðugleiki framundan í Garðaríki, og í vestrænum fjölmiðlum er farið að gera greiðslufalli rússneska ríkisins skóna. Lífskjör um allan heim hafa þegar versnað vegna afleiðinga þessa viðbjóðslega og óafsakanlega stríðs Kremlarherranna gegn friðsamri, fullvalda og lýðræðislega þenkjandi þjóð, sem sækist eftir vestrænum lifnaðarháttum. Í Rússlandi munu rýr lífskjör almennings hrapa, þegar VLF lækkar um 6 % eða meir og rúblan missir mikið af verðgildi sínu. Ætli ólígarkarnir í kringum forsetann megi þá ekki fara að biðja Guð að gleypa sig ?
"Stöðvun á orkusölu Rússa getur hafizt með algeru viðskiptabanni Bandaríkjamanna [gerðist 08.03.2022] auk afleiddra þvingana eða sekta, sem hægt er að leggja á þriðju aðila eða þjóðir, sem ekki falla beint undir viðskiptabannið, en eiga í viðskiptum, sem fara gegn tilgangi þess.
Heimsmarkaðsverð á olíu mun hækka, en verði refsiaðgerðunum að fullu framfylgt, mun hagnaðurinn af því ekki enda hjá rússneskum framleiðendum. Í slíkri atburðarás áætlar IEA, að olíuframleiðsla um allan heim verði aukin mjög hratt - Rússland flytur út 5 Mtu/dag, en viðbótar framboð heimsins gæti orðið a.m.k. 3 Mtu/dag. Ráðstafanir til orkusparnaðar geta og ættu einnig að verða innleiddar, þar sem við á."
Markaðsöflin munu vafalaust knýja á um aukna framleiðslu nú, þegar raunverð olíu er hærra en nokkru sinni áður og notendur munu sjá sér mikinn hag í að spara olíuna á öllum sviðum, ekki sízt bílaeigendur. Við þessar aðstæður kemur vel í ljós glámskyggni þeirra, sem bera ábyrgð á því, að á Íslandi er raforkuskortur. Af hagkvæmniástæðum og af þjóðaröryggisástæðum ætti alltaf að vera borð fyrir báru í raforkuframboðinu, svo að hægt sé að verða við allri eftirspurn forgangsorku gegn verði, sem skilar hóflegri arðsemi raforkugeirans. Nú er Landsvirkjun að fyllast örvæntingu yfir því að verða e.t.v. að draga úr forgangsorkuafhendingu í vor vegna eigin fyrirhyggjuleysis. Hún býðst til að greiða forgangsorkunotanda stórfé fyrir að draga úr raforkunotkun sinni nú. Hvílíkt sjálfskaparvíti ! Nýtur slík endemisstjórn Landsvirkjunar enn stuðnings Alþingis ?
"Auðvitað þyrfti Evrópusambandið að fylgja fast í kjölfarið. Til að vera ekki að skafa neitt utan af hlutunum þá er það bara spurning um tíma. ESB getur annaðhvort hætt að kaupa rússneskt gas strax til að stöðva innrásina eða það getur beðið í mánuð, þar til þúsundir til viðbótar hafa fallið - og skelfilegar myndir af mannfalli óbreyttra borgara hafa flætt um alla miðla. Það kemur að því, að Evrópubúar geti ekki lengur lifað með þeirri staðreynd, að þeir eru að fjármagna grimmdarverk Pútíns í Úkraínu."
Innrás Rússa í Úkraínu er fullkomlega fráleit. Þeir eiga ekkert tilkall til landsins, og skiptir sagan þá engu máli. Það, sem öllu máli skiptir í þessu sambandi, er, að Úkraína var frjálst og fullvalda ríki, og það hlutskipti völdu íbúarnir sér sjálfir í kosningum. Nú hafa þeir sýnt og sannað fyrir sjálfum sér og umheiminum með hetjulegri baráttu sinni við ofureflið, sem vill leggja þá undir sig, að þeir eru tilbúnir að fórna öllu fyrir land sitt, fullveldi ríkisins og frelsi íbúanna til að ráða málum sínum sjálfir. Það mun aldrei gróa um heilt á milli Úkraínumanna og Rússa, og þess vegna hafa hinir síðarnefndu algerlega eyðilagt alla möguleika sína til pólitískra áhrifa í landinu nú og í fyrirsjáanlegri framtíð. Rússneskir hermenn berjast þess vegna tilgangslausri baráttu í Úkraínu, og með svívirðilegum grimmdarverkum sínum leiðir rússneski herinn þjóð sína æ lengra út í fúafen, sem hafa mun svo slæm áhrif á rússneska þjóðarsál (sjálfsvitund almennings), að langvarandi kreppa og jafnvel upplausnarástand, verra en eftir fall hins kommúnistíska þjóðskipulags árið 1991, gæti hæglega orðið reyndin í Rússlandi. Sýnir þetta glögglega í hvers konar ógöngur einræðisskipulag getur leitt þjóðir og gerir oftar en ekki, sbr Þriðja ríkið.
"IEA [International Energy Agency] hefur birt áætlun um, hvernig megi draga úr notkun Evrópu á rússnesku gasi, og teymi hjá Brügel [hugveita] hefur birt tillögur um það, hvernig hægt sé að þrauka næstu mánuði án rússnesks gass. Allir evrópskir stjórnmálamenn þurfa að horfast í augu við verkefnið."
Evrópuþjóðirnar verða að setja í algeran forgang að fást við skrímslið í Kreml. Nú vorar í Evrópu, og það er hægt með mótvægisaðgerðum að komast af án rússneskrar olíu og gass. Því fyrr sem þjóðirnar í ESB lýsa sig reiðubúnar að taka á sig þær fórnir, sem til þarf til að stöðva stríðsvél Kremlarmafíunnar, þeim mun betra. Nokkur ríki innan ESB gerðu sig sek um að fóðra bjarndýrið og tóku með því allt of mikla áhættu, af því að þau vanmátu grimmd bjarndýrsins og ranghugmyndir um yfirráð þess. Þau verða um skeið að súpa seyðið af því.
"Áhrifin takmarkast heldur ekki aðeins við Evrópu. Úkraínskur landbúnaður mun t.d. mjög fljótlega hrynja. Enginn getur plægt akra eða sáð fræjum undir skothríð rússneskra hersveita. Þetta mun ýta undir hækkun matvælaverðs á heimsmarkaði vegna þess, að Úkraína er 5. stærsti útflytjandi hveitis í heiminum, og hafa neikvæð áhrif á efnahag og lífskjör í lágtekjulöndum."
Úkraína er kornforðabúr Evrópu, og var sú staðreynd notuð til að telja íbúum Þriðja ríkisins trú um nauðsyn "Drang nach Osten für Lebensraum", þ.e. útþenslustefnu nazista í austurveg. Í Kreml hefur í aldaraðir ríkt útþenslustefna í allar áttir, en nú er rússneska ríkið komið að leiðarlokum í þeim efnum. Að missa kornvörur Úkraínu út af markaðinum mun hækka verða landbúnaðarafurða, kynda enn meir undir heimsverðbólgu og auka hungursneyð í heiminum, en Bandaríkjamenn o.fl. munu e.t.v. geta aukið framleiðslu sína eitthvað á móti.
Grein Olegs Ustenko lauk þannig:
"Það er tími kominn til að horfast í augu við þann harðneskjulega veruleika, að Pútín og félagar hans hafa gengið berserksgang. Heimurinn getur annaðhvort sniðgengið rússneska orku með öllu til að stöðva innrásina strax eða haldið áfram að fylgjast með rússneskum hersveitum fremja hverja svívirðuna á fætur annarri - og fikra sig á hverjum degi nær yfirráðasvæði ESB-ríkja.
Enginn í veröldinni ætti að kaupa rússneska orku. Útskúfun fyrir það ætti að vera meiri og verri en fyrir viðskipti með blóðdemanta. Heimurinn er að vopnavæða og hvetja grimmt og stjórnlaust skrímsli. Það verður að hætta."
Nú er rússneski flugherinn tekinn til við að gera loftárásir í Úkraínu vestanverðri. Þar er mikið af flóttamönnum. Þá er ekki seinna vænna fyrir NATO að setja flugbann á vestanverða Úkraínu af mannúðarástæðum og sökum nálægðar við landamæri aðildarlandanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2022 | 20:58
Stríðshörmungar
Forseti Rússlands hefur með því að etja rússneska hernum á nágrannann í vestri, Úkraínu, valdið ólýsanlegum mannlegum harmleik og ofboðslegu efnislegu tjóni. Þetta er slíkt fólskuverk, að þessi viðbjóðslegi maður hefur á fáeinum sólarhringum áunnið sér fordæmingu alls heimsins, og Rússland er að taka á sig mynd hryðjuverkaríkis. Það er líka þyngra en tárum taki.
Honum má ekki verða kápan úr því klæðinu að breyta landamærum í Evrópu með hervaldi. Vladimir Putin er siðblindur ómerkingur, sem enga samninga virðir, ef honum býður svo við að horfa. Hann hefur nú (reyndar 2014 með hertöku Krímskaga) rofið samkomulag frá 1994 (The Budapest Memorandum of 1994), þar sem Bandaríkin, Rússland og Bretland hétu að ábyrgjast landamæri Úkraínu gegn því, að hún léti af hendi kjarnorkuvopn, sem hún tók að erfðum frá Ráðstjórnarríkjunum.
Árið 1854 var 35 ára Breti að nafni Roger Fenton skipaður konunglegur stríðsljósmyndari á Krímskaga til að gera Krímstríði Breta og Rússa skil með ljósmyndum. Nú þegar í 2. viku árásarstríðs Rússa í Úkraínu er þessi mannlegi harmleikur líklega orðinn sá mest myndaði í sögunni, bæði mest ljósmyndaði og kvikmyndaði, og hörmungarnar eru jafnóðum færðar inn á heimili almennings um allan heim. Þessar hörmungar vekja slíkan óhug, að fólk getur vart á heilu sér tekið. Að brjálæði eins manns geti rétt einu sinni valdið svo miklum þjáningum, dauða og tjóni, sem þessar myndir og lýsingar stríðsfréttaritara greina frá, er með ólíkindum á 21. öldinni og sýna, að herfileg pólitísk mistök hafa átt sér stað, þar sem Vesturlönd eru einnig undir sök seld, aðallega fyrir dómgreindarleysi gagnvart hættunni, sem frá Rússlandi undir gjörspilltum einvaldi stafar. Pólverjar voru lengi búnir að vara við þessari hættu, en töluðu fyrir daufum eyrum í Evrópusambandinu, ESB, og NATO.
Mikil bjartsýni og baráttugleði ríkti hjá sendiherra Úkraínu, Olgu Díbrovu, á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík, sem Morgunblaðið gerði skil 2. marz 2022:
"Olga Díbrova, sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi, segist vera örugg um það, að Rússar nái ekki Kænugarði á sitt vald, þar sem hún segir stríð ekki unnin með skotvopnum eða sprengjum, heldur með anda þjóðarinnar. Ef þörf krefur, muni úkraínska þjóðin berjast til síðasta blóðdropa."
Orð sendiherra Úkraínu fáum við staðfest daglega á fjölmörgum myndbandsupptökum stríðsfréttaritara í Úkraínu. Birt hafa verið viðtöl við rússneska stríðsfanga, þar sem þeir upplýsa, að þeir hafi farið yfir landamæri Úkraínu á fölskum forsendum. Þeim hafi verið sagt, að leiðangurinn væri til að frelsa úkraínskan almenning undan oki nazista, sem réðu ríkisstjórn Úkraínu. Fáránlegri lygaþvættingur hefur ekki heyrzt í háa herrans tíð, en nú bregður svo við, að nokkrir kvislingar Rússlandsstjórnar hérlendis gleypa við þessum sjúklega málflutningi (forseti Úkraínu er rússneskumælandi Gyðingur frá austurhéruðunum). Hermönnunum var jafnframt sagt, að þeim yrði fagnað með blómum, en reyndin varð sú, að almenningur kastaði Mólotoffkokkteilum að rússnesku skriðdrekunum.
""Úkraínska þjóðin er innblásin og sameinuð sem aldrei fyrr; meira að segja á samfélagsmiðlum sér maður, að þjóðin er tilbúin að berjast. Já, íbúar fela sig vegna sprengjuárásanna, en þeir eru ekki hræddir", sagði Díbrova í samtali við Morgunblaðið að loknum blaðamannafundi í gær."
Brent-olíuverðið hækkaði að morgni 7. marz 2022 um 6,1 % og fór í 125,3 USD/tunnu, sem er 80 % hækkun síðan 01.12.2021. Hækkunin á eftir að verða enn meiri út af þessu stríði, og hún mun smita yfir í plastið og nánast allar aðrar vörur, sem eiga uppruna sinn í olíu eða eru orkukræfar í framleiðslu. Skortur verður á hveiti og öðrum korntegundum, þegar um þriðjungur framboðsins dettur út.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, BNA, tilkynnti sunnudaginn 06.03.2022, að á milli BNA og Evrópusambandsins, ESB, færu nú fram viðræður um innflutningsbann á rússneska olíu og jarðgas. Forseti BNA tilkynnti 08.03.2022, að BNA væri að setja slíkt innflutningsbann á. Innflutningur BNA á þessu eldsneyti er þó lítill, en 27 % af olíuinnflutningi ESB er frá Rússlandi, og tæplega helmingur af jarðgasnotkun ESB er rússneskt gas. Það er kaldhæðni örlaganna, að Evrópa heldur uppi fjárhagslegu bolmagni Rússlands til að halda úti stríði af því tagi, sem nú er háð í Úkraínu með eldsneytiskaupum (gas, olía, kol) af Rússum fyrir um 700 MUSD/dag eða 256 mrdUSD/ár. Sennilega er hægt að lama efnahag Rússlands með því að hætta þessum viðskiptum við landið, en það er hægara sagt en gert. ESB tilkynnti þó 08.03.2022, að dregið yrði úr þessum innflutningi um 2/3 á örfáum árum og honum alfarið hætt fyrir 2030. Stórtíðindi þar á ferð.
Hvorki er hægt að hætta gaskaupunum, eins og hendi sé veifað, né geta Rússar fundið aðra viðskiptavini strax, því að það tekur tíma að leggja flutningslagnirnar annað. Þeir verða nú að fjárfesta í nýjum lögnum. Hvar fá þeir fé til þess ? Olíuútflutningur Rússa nam 4,5 Mtunna/dag fyrir þetta stríð. Það eru 5 % af heimsneyzlunni á olíu, og önnur lönd með Saudi-Arabíu í broddi fylkingar geta aukið framleiðsluna að sama skapi. Tankskip eru líklega tiltæ, enda rýkur nú hlutabréfaverð upp í útgerðum þeirra.
Putin hefur nú hótað að draga úr streyminu eftir Nord Stream 1 til Evrópu, ef innflutningsbann verður sett á rússneska olíu. Það kann að verða látið reyna á þá hótun einvaldsins.
Þjóðverjar voru svo blindaðir af friðþægingarþörf sinni við Rússa, að þeir hafa ekkert plan B gagnvart bresti á gasafhendingu. Þannig er enginn búnaður í þýzkum höfnum til að taka á móti jarðgasi á vökvaformi (LNG) og breyta því aftur á gasform. Það er samt umframafkastageta slíks búnaðar fyrir hendi í Evrópu, en hann er aðallega á Spáni. Sennilega mætti auka jarðgasinnflutning frá öðrum á gas- og vökvaformi um jafngildi 20 % af þörfinni, og þá liggja 30 % þarfarinnar óbættar hjá garði í Evrópu, ef skrúfað verður alfarið fyrir gasið frá Rússlandi. Það gæti komið sem LNG frá BNA og Persaflóaríkjunum, þegar móttökustöðvar LNG hafa verið reistar víðar, en þetta mun leiða til hærra gasverðs til neytenda. Allt mun þetta flýta fyrir kjarnorkuveravæðingu rafkerfisins til að draga verulega úr gasþörfinni.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands kynnti virkjanaþörf hérlendis næstu áratugina fyrir heildarorkuskipti, þörf vaxandi þjóðar og hagvöxt. Eru það um 25 GWh/ár eða ríflega tvöföldun núverandi virkjaðrar orku. Hvernig hennar verður aflað, verður mikilsvert rannsóknarefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2022 | 18:41
Leiðsögn vantar
Orkumál landsins eru í skammarlegu ástandi, þar sem engrar leiðsagnar stjórnvalda til þings og orkufyrirtækja virðist hafa gætt undanfarin ár, e.t.v. vegna markaðshugmyndafræði orkupakka ESB, svo að í algert óefni stefnir þegar í ár, þar sem orkufyrirtækin hafa ekki sinnt vaxandi aflþörf með nægilegri viðbót virkjana. Lagasetning Orkupakka 3 frá Evrópusambandinu (ESB) haustið 2019 hefur ekki bætt úr skák, heldur aukið við ruglinginn um það, hvar ábyrgðin er niður komin á því, að landsmenn verði ekki fórnarlömb alvarlegs orkuskorts, eins og nú er komið á daginn. Það er kaldhæðni örlaganna, að þegar meginland Evrópu og Bretland standa frammi fyrir ógnvænlegum orkuskorti, skuli Íslendingar þurfa að líða heimatilbúinn orku- og aflskort.
Þessi sannleikur var þó ekki lokaður inni í "launhelgum", þar sem fáum var veitt innganga, heldur hefur mátt lesa hann út úr orkuspá Orkustofnunar, og Verkfræðistofan EFLA hnykkti á því árið 2019 í skýrslu á vegum Landsnets, að afl-og orkuskortur væri yfirvofandi í landinu, en heimsfaraldurinn frestaði aðeins bráðavandanum. Að engar ráðstafanir skyldu þá þegar í stað verða gerðar til að forða þjóðinni frá stórtjóni og vandræðum og bjarga afar háleitum loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar frá því að verða ruslafötufóður, er makalaust. Við svo búið má ekki standa. Það verður æ ljósara, að miklu meiri áherzlu verður að leggja á sjálfbærni orkubúskapar og matvælaöflunar en verið hefur af þjóðaröryggisástæðum.
Draumórar umhverfisofstækisins í landinu um, að stóriðjan væri að leggja upp laupana, voru þá (í Kófinu) komnir á kreik, og jarðfræðingurinn á forstjórastóli OR kynti undir þeirri vitleysu, að ekkert þyrfti að virkja, því að næg orka væri og yrði til í landinu. Enginn hafði bein í nefinu til að berja í borðið og benda á, að orkuskortur væri yfirvofandi í Kína vegna óumflýjanlegrar lokunar kolakyntra raforkuvera þar vegna stórfelldra mengunarvandamála í lofti, á láði og legi, og þar af leiðandi mundu Kínverjar neyðast til að rifa seglin á útflutningsmörkuðunum. Offramboð á mörkuðum á vörum orkusækins iðnaðar yrði því senn úr sögunni, sem nú er komið á daginn, en auk þess hefur ESB sett á koltvíildistolla til að hamla gegn kolefnisleka. Nú koma málmar ekki lengur inn á vestræna markaði frá Rússlandi, og gæti það hækkað almennt markaðsverð upp í 4000 USD/t, sem er 2,földun verðs frá í Kófinu.
Afstaða eða öllu heldur afstöðuleysi Orkustofnunar (ISOR) í orkumálum þjóðarinnar nú um stundir vekur furðu. Stofnuninni voru fengin talsverð völd og mikið sjálfstæði gagnvart orkuráðherra með nýjustu útgáfu orkulaga 2019, sem þekkt eru sem Orkupakki 3 frá ESB. Orkumálastjóra var þar fengið hlutverk æðsta fulltrúa ACER-Orkustofu ESB á Íslandi, sem heitir "National Energy Regulator" eða orkulandsreglari Íslands.
Framlag Orkustofnunar til orkukreppunnar er þó ámáttlegt. Orkulandsreglarinn sendi bréf til forstjóra raforkuvinnslufyrirtækjanna og spurði þá, hvort þeir lumuðu ekki á rafölum, sem þeir gætu sett í gang í vetur eða jafnvel aukið álagið á þeim, sem fyrir eru í gangi. Svona embættisfærsla er ótrúleg og vonlaus. Á sama tíma situr Orkustofnun á umsókn Landsvirkjunar, sem send var þangað seint og um síðir, þann 10. júní 2021, um að fá virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun, 95 MW, 720 GWh/ár. Borið er við miklu gagnamagni og undirmönnun, en öllu nær er að halda, að vilja og hæfni vanti til verksins.
Lagaskylda Orkustofnunar stendur ekki til allsherjar hönnunarrýni á slíkum umsóknum, heldur að gæta að því, að orkulindin sé nýtt eins vel og kostur er og að mannvirkin falli eins vel að umhverfinu og tæknin og kostnaður leyfa. Þetta á ekki að taka meira en einn mánuð fyrir Orkustofnun, en nú eru komnir meira en 9 mánuðir. Þessi frammistaða er algerlega ótæk og óboðleg í ljósi þess tímahraks, sem virkjunarmálin eru komin í nú.
Nú hefur verið upplýst með nokkru stolti af hálfu Landsvirkjunar, að hagnaður fyrirtækisins hafi numið mrdISK 30 árið 2021. Þessi mikli hagnaður og háa arðgreiðsla, mrdISK 15, verða til vegna óeðlilegrar rekstrar- og fjárfestingarstefnu fyrirtækisins. Það verðleggur þjónustu sína of hátt, t.d. til húsahitunar og ylræktar, svo að veitur á köldum svæðum, t.d. Orkubú Vestfjarða, sjá sér ekki fært að bjóða viðskiptavinum sínum upp á forgangsrafmagn, og íslenzkir ylræktarbændur sögðu raforkuverð til kolleganna í Danmörku, Noregi og Hollandi vera lægra en til sín fyrir orkukreppu. Þetta nær engri átt hjá þessu dæmalausa ríkisfyrirtæki.
Fjárfestingar hjá Landsvirkjun í vatnsaflsvirkjunum hafa setið á hakanum í 8 ár, ef undan er skilin toppaflsvirkjunin Búrfell 2, en gufuaflsverið Þeistareykjavirkjun var reist fyrir kísilverið á Bakka fyrir nokkrum árum. Landsvirkjun ver allt of litlu fé í virkjanarannsóknir og virkjanafjárfestingar, og afleiðingarnar eru skortur á forgangsorku. Akureyri hefur verið í orkusvelti í 20 ár, og þegar hún loksins fær frambærilega tengingu við Fljótsdalsvirkjun sumarið 2022, verður sennilega engin orka á boðstólum.
Miklar arðgreiðslur nú frá Landsvirkjun eru óeðlilegar, því að hún á að vera að fjárfesta í sjálfbærri orkuöflun fyrir landsmenn. Landið býður upp á gnótt raforku, en heimili og fyrirtæki líða fyrir orkuskort. Ástandið er hneykslanlegt. Ömurlegur doði ræður för.
Morgunblaðið hefur jafnan gert orkumálunum góð skil og sker sig þar úr hópi fjölmiðla. Önnur forystugrein blaðsins 12. febrúar 2022 bar fyrirsögnina:
"Skömmtun rafmagns".
Hún hófst þannig:
"Landsvirkjun hóf í vikunni að skerða orku til fjarvarmaveitna á köldum svæðum, stóriðjufyrirtækja og gagnaveitna. Áður hafði skerðing á orku til fiskimjölsverksmiðja og fiskþurrkana á köldum svæðum tekið gildi.
Þetta þýðir, að nota þarf olíu í stað rafmagns með tilheyrandi útgjöldum, útblæstri og mengun. Kostnaður Orkubús Vestfjarða er til dæmis MISK 360, eins og fram kom í Morgunblaðinu á fimmtudag [10.02.2022], og þýðir það, að 2 ára rekstrarhagnaður er gufaður upp."
Á tímum strangra loftslagsmarkmiða ríkisstjórnarinnar er það tímaskekkja, að ríkisorkufyrirtækið Landsvirkjun skuli ekki bjóða almenningsveitum á "köldum" svæðum forgangsorku á rafhitunartaxta, sem er um 40 % lægri en heildsölutaxti til annarra nota, svo að ekki þurfi að grípa til olíukyndingar, nema í bilunartilvikum. Vonandi ryðja stjórnvöld hindrunum bráðlega úr vegi, svo að virkjunarframkvæmdir geti hafizt sem fyrst á Vestfjörðum, þar sem Vestfirðingar kjósa sjálfir að virkja að viðhöfðu lögformlegu umhverfismati, svo að orkumál á Vestfjörðum komist inn í nútímann. Umhverfisöfgar og forstokkun mega ekki ráða för.
Á Vestfjörðum er nýttur jarðhiti, t.d. á Reykhólum og á Reykjanesi, og lághiti, þar sem hægt er að hækka hitastigið um 30°C með varmadælu, kann að leynast tiltölulega nærri þéttbýli, en Orkustofnun (Orkusjóður) hefur ekki stutt nægilega við bakið á veitum lághitasvæða. Með varmadælum er unnt að spara allt að 70 % raforkunnar, og getur slík tækni sparað upphitunarkostnað, þótt fjárfestingar séu talsverðar.
Í Morgunblaðinu 10. febrúar 2022 var frétt af Vestfjörðum með fyrirsögninni:
"Undirbúa frekari leit að jarðhita".
Hún hófst þannig:
"Orkubú Vestfjarða er að undirbúa frekari jarðhitaleit í nágrenni Ísafjarðar og Patreksfjarðar. Ef það tækist að fá nægilegt heitt vatn fyrir hitaveitur þessara staða, sem nú eru rafkyntar, yrði hægt að færa yfir á jarðhita 80 % þeirra notenda á Vestfjörðum, sem nú treysta á rafkyntar hitaveitur með skerðanlegri orku. Orkubússtjóri telur eigi að síður þörf á að auka raforkuframleiðslu í landshlutanum og styrkja svæðisbundna flutningskerfið til að auka afhendingaröryggi raforku og telur virkjun í Vatnsfirði bezta kostinn.
Landsvirkjun hóf að skerða afhendingu raforku til fjarvarmaveitna á köldum svæðum á miðnætti. Ástæðan er léleg vatnsstaða á hálendinu og ákvæði í samningum um, að skerða megi afhendingu."
Rót vandans er, að raforkukerfið er fulllestað, og þá þarf vatnsbúskapurinn að vera yfir meðallagi góður, svo að miðlunarforðinn endist til næsta sumars án íþyngjandi inngripa Landsvirkjunar. Sjónarmið Orkubússtjórans eru fyllilega réttmæt. Það er líklegt, að nægt vatn finnist og nógu heitt til að það borgi sig að nýta það til hitaveitu, því að 45°C í borholu er nógu hátt hitastig fyrir varmadælu til að lyfta hitastiginu upp í 70°C frá kyndistöð.
Á árinu 2022 er með ólíkindum, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skuli vera í þeirri stöðu að telja sig ekki í færum til að selja almenningskyndistöðvum forgangsrafmagn á boðlegu verði. Þessi staða afhjúpar hræsnina, sem umlykur umhverfisverndina á Íslandi. Ofstækisgræningjar trúa því, að hægt sé bæði að halda kökunni og að éta hana. Hugmyndafræði þeirra gengur ekki upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2022 | 21:00
Skefjalaus útþenslustefna Rússlandsforystunnar
Það hefur nú loksins runnið upp fyrir forystu Evrópu, Bandaríkjanna og heimsins alls, hversu stórhættuleg fyrir framtíð heimsins alls forysta Rússlands er vegna skefjalausrar útþenslustefnu sinnar, þar sem hún reynir á vitfirringslegan hátt að skrúfa rás tímans aftur um rúmlega 30 ár og jafnvel langt aftur fyrir byltingu mensévíka gegn keisaranum og bolsévíka gegn þeim.
Það er forneskjuleg og glæpsamleg hugmyndafræði, sem forseti Rússlands hefur kynnt í ritgerðum og ræðum, að Rússlandi beri að sameina slavneskar þjóðir undir ríki sitt með svipuðum hætti og var í blóma rússneska keisaraveldisins. Frá Kalíningrad, gömlu Königsberg í Prússlandi, sem er víghreiður Rússlands við Eystrasaltið, getur rússneski herinn sótt inn í Eystrasaltslöndin, sem reyndar eru ekki slavnesk að stofni, og inn í Pólland. Þessi yfirvofandi hætta hefur nú sameinað Evrópu, Bandaríkin og nánast allan heiminn. (Kínverskur stórbanki í Shanghai, sem hefur haft milligöngu um mikil eldsneytisviðskipti Rússa, hefur nú stöðvað þau. Indverski herinn er búinn rússneskum hergögnum og hefur nú miklar áhyggjur af "gæðum" þeirra.)
Það er með ólíkindum og með öllu óviðunandi fyrir Evrópuþjóðir vestan Úkraínu, að tekin sé ákvörðun um það í Moskvu að leggja frjálst og fullvalda Evrópuland undir Rússland með villimannslegu hervaldi. Við þessa iðju sína beita Rússar ógnaraðferðum og gera óbreytta borgara að skotmörkum flugskeyta sinna og sprengjuvarpa með því að beina þeim að skólum, sjúkrahúsum, stjórnarbyggingum, torgum o.fl., þótt lygalaupurinn Pútín haldi öðru fram og sendimönnum ógnarstjórnar fyrrverandi KGB-manns sé falið að ljúga öðru upp í opið geðið á Vesturlandamönnum, sem búnir eru nú að fá upp í kok af lygaþvættingi stríðsglæpamanna ríkisstjórnar Rússlands og útsendara hennar. Að þvættingurinn frá Moskvu sé enn bergmálaður á Íslandi, er ekki einleikið.
Úkraínumenn hafa með hetjulegum varnarviðbrögðum sannað fyrir umheiminum með óyggjandi hætti, að þeir hafa fengið sig fullsadda af að vera undirsátar Rússa í eigin landi. Þeir eru tilbúnir að berjast til þrautar við Rússa fyrir fullveldi sínu og sjálfsákvörðunarrétti. Fjöldi mæðra ungra barna hafa flúið eða eru á flótta til nágrannalanda, en feðurnir verða eftir til að berjast við ofureflið. Fyrrverandi hermenn fara unnvörpum til föðurlands síns til að taka þátt í baráttunni. Úkraínska hernum hefur orðið ótrúlega vel ágengt gegn fjandmanninum, sem virðist ekki vita sitt rjúkandi ráð.
Úkraínska ríkisstjórnin og forsetinn hafa ákallað Vesturveldin um aðstoð gegn ofureflinu, og Vesturveldin hafa svarað með því að einangra Rússland á öllum sviðum og með vopnasendingum, læknabúnaði og matarsendingum, þ.e. með flestu öðru en því, sem þarf til reka fjandmanninn á flótta með skjótum hætti. Það verður samt að vona, að Rússar, sem horfast nú í augu við þá fáránlegu staðreynd, að einn maður hefur nú breytt "móður Rússía" í útlagaríki í heiminum, ýti óþokkanum frá völdum og dragi rússneska herinn inn fyrir landamæri Rússlands.
Úkraínumenn munu hins vegar seint gleyma því eða fyrirgefa, það sem þessi nágranni þeirra hefur á hlut þeirra gert, og Úkraínumenn eiga siðferðilegan rétt á því eftir þetta, að Vesturlönd ábyrgist landamæri þeirra og þeir fái sérstakt samband við Evrópusambandið og aðgang að Innri markaðinum, eins og þeir hafa ítrekað beðið um. Evrópa verður að standa saman að uppbyggingu Úkraínu eftir stríðið með aðstoð Bandaríkjanna. Hið gegnumrotna stjórnkerfi Rússlands, þar sem auðjöfrar og stjórnmálamenn með Vladimir Putin, gamlan leyniþjónustumann KGB á toppi pýramídans, stela auði stritandi alþýðu Rússlands, má hreinlega ekki til þess hugsa, að vestan landamæranna þróist grózkumikið hagkerfi og lýðræðislegt stjórnarfar.
Nina L. Khrushcheva, prófessor alþjóðamála hjá "The New School", á rætur að rekja til Úkraínu, því að langafi hennar, Nikita Khrushchev, var aðalritari sovézka kommúnistaflokksins 1953-1964. Eftir hana birtist í Morgunblaðinu 28.02.2022 greinin:
"Hvað er Pútín að hugsa ?"
Þar stóð m.a. þetta:
"Aðeins slík hugsun [Mao Zedong:"pólitískt vald vex úr byssuhlaupi"-innsk. BJo] getur útskýrt aðgerðir Pútíns í Úkraínu. Hann segist vilja "afnazistavæða" Úkraínu, en merkingarleysi þeirrar fullyrðingar ætti að vera augljóst ekki sízt vegna þess, að forseti Úkraínu, Volodimir Zelenski, er Gyðingur.
Hvert er markmið Pútíns ? Vill hann refsa NATO með því að eyðileggja hernaðarinnviði Úkraínu ? Vonast hann til að koma á fót leppstjórn, hvort sem er með því að skipta Zelenskí út eða með því að breyta honum í úkraínskan Philippe Pétain, samstarfsleiðtoga [leppstjóra] Frakklands í síðari heimsstyrjöldinni ?
Svarið við báðum þessum spurningum gæti verið já. En raunveruleg ástæða Pútíns fyrir innrás í Úkraínu er mun óraunsærri og meira ógnvekjandi. Pútín virðist hafa fallið fyrir sjálfhverfri þráhyggju sinni um að endurheimta valdastöðu Rússlands með eigið greinilega skilgreinda áhrifasvæði."
Sennilega hefur Khrushcheva rétt fyrir sér um það, að vitfirringsleg löngun forseta Rússlands til að endurvekja yfirráð Moskvustjórnar yfir löndum, sem zarinn réði fyrir forðum tíð, þegar veldi hans var mest, ráði gjörðum hans. Þá varð hann að byrja á Úkraínu, en Úkraínumenn hafa nú sýnt og sannað, að þeir kjósa að berjast til þrautar fyrir frelsi sínu og fullveldi landsins.
Það hafa verið hæg heimatökin hjá þeim að bera saman þjóðfélagsgerð, tæknilegar framfarir og lífskjör austan og vestan við sig, þ.e. í Rússlandi og t.d. í Póllandi. Þessi samanburður hefur leitt til þess, að þeir vilja eindregið horfa til vesturs, og glæpsamleg innrás Rússa í landið þeirra hefur farið langt með að sameina þá í þeirri afstöðu, og Vestrið hefur loksins vaknað upp við vondan draum. Það verður að stöðva stríðsglæpamennina í Kreml. Jafnvel Svisslendingar hafa nú fryst eigur þeirra í Sviss.
Úkraínski flugherinn þarf nú flugvélar og flugmenn og gagneldflaugakerfi, eins og t.d. Ísraelsmenn eiga. Flugbannssvæði yfir Úkraínu mundi þýða stríð NATO við Rússland, ef að líkum lætur. Ef vitfirringin fær að grassera í stjórn Rússlands, verður stríð við hana þó óhjákvæmilegt.
"Í ljósi þess, að Pútín treysti á Kína til stuðnings við að skora heimsmynd og yfirráð Bandaríkjanna á hólm, myndi það ekki hafa góð pólitísk eða stefnumótandi áhrif á Xi að ljúga að honum. Það, sem veldur svo miklum áhyggjum, er, að Pútín virðist ekki lengur fær um þá rökhugsun, sem ætti að stýra ákvarðanatöku leiðtoga. Langt frá því að vera jafningi er Rússland nú á góðri leið með að verða eins konar kínverkst leppríki."
Þarna lætur Khrushcheva í ljós áhyggjur margra um, að forseti Rússlands sé ekki lengur með "fulle fem", að hann gangi ekki á öllum. Það er alveg ljóst, að heilbrigð skynsemi hefur yfirgefið hann, hafi hann einhvern tímann búið svo vel. Hann er búinn að keyra Rússland niður í siðferðislegan, pólitískan og efnahagslegan ruslflokk og verður nú að sitja og standa, eins og Xi Jinping þóknast. Hann er með stórveldisdraumum sínum og landvinningastefnu að drekkja Úkraínumönnum í blóði. Hann mun fyrir vikið uppskera fyrirlitningu og viðbjóð landsmanna sinna og alls umheimsins. Hann er búinn að vera.
Ungur skriðdrekahermaður, sem féll í fyrstu viku átakanna, hringdi úr farsíma sínum í móður sína skömmu áður og sagðist vera kominn í stríð í Úkraínu, en hún hélt hann vera á heræfingu á Krím. Hann sagði, að hermönnunum hefði verið sagt, að Úkraínumenn mundu taka þeim fagnandi, en raunin væri allt önnur. Hann skammaðist sín svo mikið fyrir hlutskipti sitt, að hann sagðist helzt vilja binda enda á eigið líf. Þegar vika var liðin frá upphafi innrásarinnar höfðu 9000 rússneskir hermenn fallið í átökunum samkvæmt upplýsingum Úkraínustjórnar. Þessi villimannslega innrás rússneska hersins gengur á afturfótunum.
"Innrásin í Úkraínu hefur einnig myndað gjá [á] milli fyrrverandi bandamanna og Pútíns. Sumir af trúföstustu lærisveinum hans á Vesturlöndum, frá forseta Tékklands, Milos Zeman, til Viktors Orbáns, forsætisráðherra Ungverjalands, hafa fordæmt aðgerðir hans. En, kannski enn mikilvægara, þá hafa óráðsræður Pútíns hliðsett rússnesku þjóðina. Með villimannslegri árás á Úkraínu hefur hann fórnað áratuga langri félagslegri og efnahagslegri þróun og eyðilagt vonir Rússa um betri framtíð. Rússland verður nú alþjóðlegt úrhrak í áratugi."
Í ljósi þessa mats, sem er ekki langsótt, heldur liggur beint við, er stórfurðulegt að sjá nokkrar hræður á samfélagsmiðlum hérlendis bera í bætifláka fyrir stríðsglæpamanninn Vladimir Putin og jafnvel ganga svo langt í fáránleikanum, að hann sé með svívirðilegum stríðsrekstri sínum að uppræta spillingu í Úkraínu. Fólk, sem lætur svona þvætting frá sér fara, er ekki með öllum mjalla.
Hver er afstaða forsætisráðherra Íslands og flokks hennar, Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs, til varnarbandalags lýðræðisríkja, NATO ? Síðast, þegar fréttist, var hún og flokkurinn andsnúin veru Íslands í NATO. Við núverandi aðstæður gengur það alls ekki, að forsætisráðherra Íslands hafi þessa afstöðu eða sé óheil í afstöðu sinni, beri kápuna á báðum öxlum. Hvers vegna hefur hún ekki manndóm í sér til að fara að dæmi Svía og Finna, sem nú eru að endurskoða sína afstöðu, og viðurkenna villur síns vegar ? Ætlar hún enn að halda því fram, að eitthvert hald sé að hlutleysisstefnu ríkis í varnarmálum ? Vitleysa vinstri manna á Íslandi ríður ekki við einteyming nú frekar en fyrri daginn.
"Sömuleiðis er fullyrðing um, að 73 % Rússa styðji aðgerðir Pútíns í Úkraínu, hreinn áróður. Þúsundir safnast saman í rússneskum borgum og segja "nei við stríði", þrátt fyrir fangelsanir og lögregluofbeldi. Í þetta sinn virðast Rússar ekki líklegir til að gefast upp án andmæla. Á næstu dögum og vikum getur heimurinn búizt við mörgum vísbendingum til viðbótar um, að Rússar vilji ekki þetta stríð."
Það er vafalaust þyngra en tárum taki fyrir almenning í Rússlandi að sitja uppi með böðul frænda þeirra vestan landamæranna. Það þarf enga mannvitsbrekku til að átta sig á, að engin glóra er í því fyrir Rússa að standa blóðugir upp fyrir axlir við að þvinga fram sameiningu Rússland og Úkraínu. Það vissi alþýða Rússlands fyrir 24. febrúar 2022.
Það er sömuleiðis ótæk hegðun með öllu að láta börn eða fullorðna, sem eru af rússnesku bergi brotin hérlendis, gjalda fyrir framferði ríkisstjórnar lands þeirra, en að mótmæla framferði þessarar rússnesku ríkisstjórnar í Úkraínu með friðsamlegum hætti er hins vegar sjálfsagt mál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.3.2022 | 10:48
Kúvending við örlagaþrungna atburði
Í fyrsta sinn frá Heimsstyrjöld 2 hefur stórveldi ráðizt með hervaldi á fullvalda nágranna sinn í því skyni að ná tökum á öllu landinu. Það gerðist 24.02.2022 með innrás Rússlands í Úkraínu, þrátt fyrir fullyrðingar forseta Rússlands um, að liðssafnaðurinn við landamæri Úkraínu væri þar í æfingaskyni. Sannleikurinn vefst ekki fyrir þessum fyrrum leyniþjónustumanni, sem Kasparof, fyrrum heimsmeistari í skák, líkti nýlega við mafíuforingja.
Sovét-Rússland réðist að vísu með her inn í Ungverjaland og hertók Búda-Pest 1956 og inn í Tékkóslóvakíu árið 1968, en varla er hægt að kalla fórnarlömbin þá fullvalda ríki, enda voru þau á bak við járntjald alræðis kommúnismans í þá daga. Þá horfði Evrópa og upp á hin hræðilegu Balkanstríð á 10. áratugi 20. aldarinnar, þegar Serbar reyndu að sameina ríkin, sem áður voru hluti Júgóslavíu, undir veldi sitt, en Serbar voru ekki stórveldi. Þannig er hinn voveiflegi atburður að næturlagi 24. febrúar 2022 einstakur í sögunni og mun eðlilega hafa gríðarlegar, jafnvel geigvænlegar, afleiðingar. Miklar afleiðingar hafa þegar komið í ljós. Núverandi atburðir munu móta söguna í mannsaldur eða meir. Af afstöðu Kínverja að dæma til hinnar villimannlegu innrásar í Úkraínu, er Rússland að einangrast á öllum sviðum. Ríkisstjórn og herráð Rússlands hafa gert herfileg mistök með innrásinni í Úkraínu, herinn hefur lent í kviksyndi stríðsglæpa með árásum, einnig eldflaugaárásum, á saklausa borgara, íbúðarhús, skóla og sjúkrahús, og vakið viðurstyggð umheimsins. Óskandi væri, að bardagaþrek þessa rússneska innrásarhers þryti alveg og að hann hundskaðist heim til sín með skottið á milli lappanna.
Við sjáum nú, að glæpsamlegt atferli lygalaupsins og ómerkingsins, sem situr enn með valdataumana í Kreml, hefur ekki aðeins náð að sameina Úkraínumenn í blóðugri baráttu gegn ofurefli liðs einræðisseggsins, heldur einnig Vesturlönd og bandamenn þeirra. Þau hafa sameinazt um hörðustu refsiaðgerðir á fjármálasviðinu, sem þekkjast, með þeim afleiðingum, að rússneska rúblan hefur hrunið ásamt rússneska verðbréfamarkaðinum, ýmsum ólígörkum í kringum forseta Rússlands hefur verið meinaður aðgangur að fjárhirzlum sínum á Vesturlöndum, bankaviðskipti Rússa hafa verið torvelduð verulega (SWIFT-takmarkanir) og síðast en ekki sízt hafa eigur rússneska seðlabankans á Vesturlöndum verið teknar eignarnámi um sinn (á meðan Vladimir Putin er við völd). Það er athyglisvert, að Svissland, með alla sína bankaleynd, tekur þátt í ströngum refsiaðgerðum gegn téðum Pútin og hirðinni í kringum hann.
Téður Vladimir Pútín greip þá til vitlausasta svarsins, sem hugsazt gat, þ.e. að hóta kjarnorkustríði. Rússar eiga nú engra annarra kosta völ en að fjarlægja þennan mann úr valdastóli. Æ fleiri valdamönnum í Rússlandi hlýtur að verða það ljóst, að héðan af liggur leiðin bratt niður á við fyrir Pútín, og Rússland má ekki við því að verða dregið lengra ogan í svaðið. Það er þó hægara sagt en gert að losna við einræðisseggi, eins og sannaðist með hetjulegri tilraun Claus von Stauffenbergs og félaga 20. júlí 1944 í Úlfsgreninu í Austur-Prússlandi.
Vesturlönd standa nú sameinuð gegn Rússlandi. Þjóðverjar hafa gert sér grein fyrir áhættunni, sem fylgir kaupum á jarðeldsneytisgasi frá Rússlandi og stöðvað leyfisveitingaferli fyrir Nord Stream 2 gasleiðslu Gazprom á botni Eystrasalts. Þeir hafa kappkostað viðskipti við Rússa í nafni friðsamlegrar samvinnu, en hafa nú áttað sig á því, að hagsmunirnir fara ekki saman. 40 % af orkunotkun Þjóðverja á uppruna sinn í jarðgasi, og u.þ.b. helmingur þessa gass kemur frá Rússlandi.
Skyndilega er rússneska ríkið orðið fjandmaður Sambandslýðveldisins, þar sem sú ógn liggur í loftinu eftir ritgerðaskrif og ræðuhöld forseta Rússlands undanfarna mánuði, að hann sé haldinn einhvers konar köllun um að endurreisa rússneska ríkið með landvinningum, þar sem taka Úkraínu væri bara forsmekkurinn að því, sem koma skal. Fyrir vikið hefur Sambandslýðveldið nú orðið við beiðnum Úkraínustjórnar um að senda Úkraínuher öflug varnarvopn, og munar þar e.t.v. mest um handhæg flugskeyti gegn skriðdrekum og herflugvélum/herþyrlum. Ekki hefur þó frétzt af Leopard 2. skriðdrekanum enn í Úkraínu. Er þó um að ræða hressilega viðbót við þá 5000 hjálma, sem ríkisstjórn Olaf Scholz áður sendi, og sumir litu á sem lélegan brandara, en reyndist síðasti liðurinn í friðþægingarferli Þjóðverja gagnvart Rússum, sem mafíósar túlka bara sem veikleikamerki. Friðþægingarstefnan heyrir nú sögunni til.
Þá var sunnudaginn 27. febrúar 2022 tilkynnt í Berlín um, að ríkisstjórnin hygðist leggja fram fjáraukalagafrumvarp fyrir Bundestag, sem kveður á um mrdEUR 100 eða rúmlega 14 trilljóna ISK (tæplega 5-föld VLF Íslands) viðbótar fjárveitingu til Bundeswehr á örfáum árum til að fullnægja strax viðmiðum NATO um a.m.k. 2,0 % af VLF til hermála á ári. Það mundi svara til mrdISK 60 til varnarmála hérlendis.
Þjóðverjar gera það ekki endasleppt, þegar þeir finna, að að þeim er sorfið. Um þessa sömu helgi söðlaði ríkisstjórnin í Berlín um í orkumálunum. Í stað þess að hvetja til fjárfestinga í vindmyllum og sólarhlöðum, sem eru í senn lítilvirk, plássfrek og óáreiðanleg framleiðslutæki, sem krafjast gasorkuvera með til að fylla í eyður slitrótts rekstrar, þá var ákveðið að leysa raforkuvanda landsins með því að flýta fyrir því að reisa kjarnorkuver, en eins og mörgum er kunnugt, ákvað Bundestag 2011 að tilhlutan fyrrverandi kanzlara CDU, Angelu Merkel, í kjölfar Fukushima hamfaranna í Japan, að loka öllum kjarnorkuverum Þýzkalands í síðasta lagi 2022. Þarna hafa Þjóðverjar loksins tekið raunhæfa stefnu um að verða sjálfum sér nógir með rafmagn án þess að brenna jarðefnaeldsneyti.
Með þessum 3 ákvörðunum ríkisstjórnar og þings í Berlín, þ.e. að senda vopn til stríðandi aðila, að gera Bundeswhr vel bardagahæfan á ný og að reisa kjarnorkuver, hafa Jafnaðarmenn (SPD) kastað friðþægingarstefnu sinni gagnvart Rússum á haugana, og Græningjar hafa kastað friðarstefnu sinni (uppruni þessa flokks eru friðarhreyfingar í Þýzkalandi á 8. og 9. áratug 20. aldar) og hatrammri andstöðu við kjarnorkuver fyrir róða. Miklir atburðir hafa orðið, og er þó innan við vika síðan hinir örlagaþrungnu atburðir hófust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.2.2022 | 10:56
Stríð í hjarta Evrópu 2022
Sá fáheyrði atburður hefur nú gerzt í febrúar 2022, að stórveldi hefur ákveðið að ræna nágrannaríki sitt í Austur-Evrópu réttmætu fullveldi sínu með hervaldi. Þessi siðlausi og ólögmæti ofbeldisgjörningur hófst aðfararnótt fimmtudagsins 24. febrúar 2022, þegar rússneski herinn hóf eldflaugaárásir, stórskotaliðsárásir, flugárásir og skriðdrekaframrás úr norðri, austri og suðri, á Úkraínu.
Úkraínski herinn og úkraínskur almenningur berst hetjulegri baráttu gegn ofureflinu og sýnir þar með umheiminum, að Úkraínumenn eru tilbúnir til að berjast til þrautar fyrir sjálfstæði og fullveldi lands síns. Ef þjóð, sem tilbúin er til að færa slíkar fórnir sem Úkraínumenn fyrir fullveldi sitt og sjálfstæði þjóðarinnar, á ekki skilið að halda fullveldi sínu, hver á það þá skilið ?
Úkraínumenn hlutu fullveldi 1917 með sama hætti og Finnar í kjölfar rússnesku byltingarinnar, en urðu síðar hluti Ráðstjórnarríkjanna og hlutu þar slæma útreið, því að hlutskipti þeirra var að framleiða matvæli ofan í íbúa borga Ráðstjórnarríkjanna. Stalínstjórnin tók jarðir sjálfstæðra bænda eignarnámi og drap eða flutti þá nauðungarflutningum til Síberíu eða annað, sem ekki vildu taka þátt í samyrkjubúskapinum. Við þetta hrundi landbúnaðarframleiðsla Úkraínu, og eftirlitsmenn ráðstjórnarinnar tóku matarbirgðir bændanna og færðu þær til borganna.
Árið 1933 varð svo hungursneyð í Úkraínu og "Holodomer", sem er úkraínska fyrir hungurdauði, þegar ráðstjórn Stalíns lét 4 milljónir manna deyja drottni sínum úr hungri. Þessir voðaatburðir líða ekki úkraínsku þjóðinni úr minni.
Þótt Rússar og Úkraínumenn sé skyldar þjóðir, hafa Úkraínumenn margoft sýnt, að þeir vilja ekki vera í ríkjasambandi við Rússa. Þessar þjóðir eiga ekki samleið, og Úkraínumönnum vegnar mun betur sem fullvalda þjóð en í ríkjasambandi, þar sem þeir njóta sín ekki.
Úkraínumenn kjósa fullveldi sér til handa og lýðræðislegt stjórnarfar, sem reist er á þingræði. Þeir eru vestrænir í hugsun og háttum. Herinn, forsetinn, ríkisstjórn og þing Úkraínu hafa barizt hetjulegri baráttu við ofurefli liðs, og þjóðin hefur staðið að baki þeim, og tugir þúsunda óbreyttra borgara hafa vopnazt og barizt gegn kúgunaraflinu úr austri.
Allar þjóðir eiga rétt á að öðlast sjálfstæði, kjósi þær það, og að velja sér vini og bandamenn. Þannig ákváðu Finnar á sínum tíma að ganga í Evrópusambandið (ESB) til að efla tengsl sín við lýðræðisríki Evrópu, en þeir hafa ekki treyst sér til að ganga í NATO, enda hafa Rússar jafnan lýst sig andvíga því. Hins vegar gengu Eystrasaltsríkin bæði í ESB og NATO. Það hefur nú sýnt sig, að bezta og eina vörn lítilla og meðalstórra ríkja gegn grímulausri árásargirni stórveldis er aðild að NATO.
Vladimir Putin, einvaldur Rússlands, hefur á undanförnum mánuðum sent frá sér ritgerðir og haldið ræður, þar sem fram koma stórhættuleg viðhorf og söguskýringar, sem gefa til kynna, að þar sé einvaldur, haldinn landvinningahugmyndum. Hann telji hlutverk sitt að færa út yfirráðasvæði Rússa í það horf, sem það mest hefur verið. Þetta er vitfirringsleg hugmyndafræði á okkar tímum og mun verða þess valdandi, að lýðræðisríki Evrópu munu hervæðast, eins og mest þau mega. Allt er nú gjörbreytt í Evrópu, þar sem stríð hefur brotizt út á ný.
Þegar ríki sitja uppi með stríðsglæpamenn sem stjórnendur, verða þau að taka afleiðingunum af því. Það er eðlilegt, að þeim, sem nú ofbýður framferði Kremlverja gagnvart Úkraínu, skeri tengsl við Rússland niður við trog, á meðan glæpsamleg hegðun gagnvart friðsömu nágrannaríki einkennir valdhafa þess.
Lýðræðisríkin eiga að veita Úkraínumönnum alla þá aðstoð, sem verða má á meðan á þessu stríði stendur, á meðan á hernáminu stendur og á uppbyggingarskeiði landsins í kjölfarið. Eftir að Úkraínumenn endurheimta frelsi sitt, verður að hjálpa þeim við að tryggja öryggi sitt eftir þeim leiðum, sem þeir kjósa helzt sjálfir.
Vesturlönd hafa sofið á verðinum gagnvart yfirvofandi hættu og ekki rumskað fyrr en bjallan glumdi að morgni 24. febrúar 2022. Þetta er svipuð sviðsmynd og haustið 1939. Líklega er meiri hætta nú á 3. heimsstyrjöldinni en nokkru sinni áður. Eins og áður stafar hættan aðallega af einum manni, siðblindingja, sem virðir lög og reglur einskis, heldur virðir aðeins vald og styrk til valdbeitingar. Þess vegna ríður nú á, að NATO safni liði og hergögnum í Evrópu hið snarasta og komi sem mestu af vopnabúnaði í hendur Úkraínumanna hið fyrsta. Þótt NATO lendi ekki í beinum vopnaviðskiptum við fjandmanninn, er þó alveg ljóst, að Vesturlönd og bandamenn þeirra verða að færa fórnir í viðureigninni við árásargjarnt stórveldi til að halda frelsi sínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.2.2022 | 10:35
Áhyggjur þingmanna af orkumálum í öngstræti
Það er huggun harmi gegn, að loksins hefur runnið upp fyrir þingheimi, þó auðvitað ekki græningjum, sem leggjast gegn flestum framkvæmdum á þessu sviði af ótrúlegri glámskyggni og ábyrgðarleysi í efnahagslegu tilliti, því að tjónið af völdum raforkuskorts 2022 mun fara yfir mrdISK 20 og fara vaxandi á næstu árum, þar til nýjar virkjanir, sem um munar, stakar sæmilega stórar og litlar nægilega margar, fara að framleiða inn á landskerfið.
Ingibjörg Ólöf Ísaksen, Alþingismaður, ritaða góða grein um þetta viðfangsefni stjórnmálanna, sem birtist í Morgunblaðinu 29. janúar 2022. Hún hét:
"Orkuskortur - sorgleg staða, sem varðar okkur öll".
Þar gat að líta þetta undir millifyrirsögninni "Neyðarkall" (einstakt bréf Orkustofnunar til orkuvinnslufyrirtækjanna):
"Þetta [olíubrennsla vegna raforkuskorts-innsk. BJo] er sorgleg og ótrúleg staða, sem við eigum ekki að þurfa að búa við sem íslenzk þjóð með allar okkar endurnýjanlegu orkuauðlindir. Þetta getur ekki verið svona til frambúðar. Þetta er ástand, sem við viljum ekki búa við, svo einfalt er það."
Það er ástæða fyrir þingmenn að fá svar við því frá stjórnarformanni Landsvirkjunar, hversu langt á veg kominn undirbúningur að stækkun virkjana fyrirtækisins sé kominn til að nýta aukið vatnsrennsli vegna hlýnunar, og hvers vegna umsókn um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun hafi ekki verið send Orkustofnun fyrr en í fyrra (júní 2021). Þá þurfa þingmenn að gera það, sem í þeirra valdi stendur til að greiða götu þeirra eigenda vatnsréttinda, sem flýta vilja undirbúningi, byggingu og tengingu smávirkjana við dreifikerfin.
Undir millifyrirsögninni "Ástandið er alvarlegt"
skrifaði Ingibjörg Ólöf m.a.:
"Staðan í orkumálum er alvarleg og kom meginþorra landsmanna líklegast verulega á óvart. Þessi staða hefur hins vegar haft sinn aðdraganda. Landsnet varaði í skýrslu um afl- og orkujöfnuð 2019-2023 við mögulegum aflskorti árið 2022. Þar var bent á, að á tímabilinu myndi ekki nægilega mikið af nýjum orkukostum bætast inn á kerfið til að duga fyrir sívaxandi eftirspurn eftir rafmagni samkvæmt raforkuspá."
Það er mikilvægt að draga þá staðreynd rækilega fram í dagsljósið, eins og Ingibjörg Ólöf gerir, að vandamálið er aflskortur, og aflskortur er óháður vatnshæð miðlunarlóna. Forstjóri Landsvirkjunar stagast á lágri vatnshæð Þórisvatns vegna lélegs vatnsárs 2021, en þetta vatnsár var ekki sérlega slæmt, enda hitastig 0,2°C yfir meðallagi á SV-landi. Álag kerfisins var hins vegar mikið, sem kallar á mikla vatnsnotkun, og þá er of lítið borð fyrir báru til að mæta snöggri álagsaukningu eða brottfalli rafala af kerfinu. Þetta skýrir núverandi aflskort kerfisins.
Önnur meinloka forstjórans er, að vegna takmarkaðrar flutningsgetu eftir Byggðalínu frá Austurlandi til Suð-Vesturlands hafi ekki verið hægt að beita Fljótsdalsvirkjun nægilega til að draga úr miðlunarþörf Þórisvatns. Í þessu eru 2 villur. Í fyrsta lagi skortir Fljótsdalsvirkjun vélarafl til að anna fullu vetrarálagi á Austurlandi og framleiða yfir 150 MW fyrir Suð-Vesturland samtímis, en flutningsgeta gömlu 132 kV línanna til norðurs og suðurs frá Fljótsdalsvirkjun er líklega um 150 MW. Í öðru lagi leyfir miðlunargeta Hálslóns ekki slíka flutninga til Suð-Vesturlands, eins og sýnir sig með því, að núverandi staða Hálslóns er lægri en á sama tíma í fyrra og langt undir meðallagi. Væntanlega var þess vegna gripið til þess að neita fiskimjölsverksmiðjum Austurlands og (og í Vestmannaeyjum) um ótryggða orku.
Það er ástæða til að útskýra hugtakið ótryggð orka, því að jafnvel orkumálastjóri, Halla Hrund Logadóttir, skriplar á skötunni, þegar að því kemur að útskýra það fyrir almenningi. Hún var beðin um það í viðtali á Gufunni (RÚV-Rás 1) í þættinum Morgunvaktinni fimmtudagsmorguninn 3. febrúar 2022. Hún greip þar til þeirrar yfirborðslegu skýringar, að ástæðan fyrir ótryggðri orku væri sögulegs eðlis. Það er ekki rétt. Ástæðan er enn í fullu gildi og er af eðlisfræðilegu tagi eða nánar tiltekið veðurfræðilegs eðlis. Til ákvörðunar framleiðslugetu vatnsorkuvirkjunar eru lagðar rennslismælingar nokkurra ára eða áratuga til grundvallar og búið til rennslislíkan til að auka öryggi rekstrar virkjunarinnar. Út frá lágmarksársrennsli um virkjunina er lágmarksorkuvinnslugeta hennar reiknuð. Það er sú orka, sem óhætt er að selja frá virkjuninni sem forgangsorku, og út frá þeirri orkusölu er arðsemi virkjunarinnar reiknuð. Síðan fer það eftir stöðugleika álagsins, s.k. nýtingartíma toppálagsins, hversu mikið vélarafl þarf að setja upp til að mæta toppálaginu.
Til að koma hluta af umframorkunni í verð, er vélaraflið aukið, svo að það ráði við vatnsrennslið í 27 af 30 árum, og var sú umframorka áður kölluð afgangsorka (secondary energy) til aðgreiningar frá forgangsorkunni (primary energy, firm power), en er nú oftast nefnd ótryggð orka (unsecerud energy). Þetta þýðir, að búast má við skerðingu ótryggðrar orku á 3 af 30 árum.
Verð forgangsorkunnar tryggir arðsemi virkjunarinnar, svo að ótryggðu orkuna er hægt að selja á mun lægra verði, t.d. 20 % af verði forgangsorku með þeim skilmálum auðvitað, að hana megi skerða samkvæmt umsömdum reglum. Þetta er einfölduð mynd af hugtökunum ótryggð orka og forgangsorka.
Af þessu sést, að það er misskilningur hjá orkumálastjóra, sala ótryggðrar raforku frá vatnsorkuverum sé orðin úrelt. Hún er enn í fullu gildi, enda mun eðli vatnsorkuvera ekkert breytast með orkuskiptunum. Það getur hentað fyrirtækjum, sem geta dregið tímabundið úr framleiðslu sinni með fyrirvara að kaupa ótryggða orku, og það getur borgað sig fyrir fyrirtæki, sem notað geta aðra frumorku í staðinn 9 af hverjum 10 árum að kaupa ótryggða orku. Með afnámi jarðefnaeldsneytis kemur lífolía, t.d. repjuolía, eða rafeldsneyti, sem er blanda vetnis og annarra efna, í staðinn.
Undirgrein með millifyrirsögn:
"Glötum bæði orku og tækifærum" ,
hófst þannig:
"Styrking flutningskerfis raforku þolir enga bið. Í viðtali við fjölmiðla áætlaði forstjóri Landsnets, að orkan, sem tapast í flutningskerfinu á hverju ári samsvari afkastagetu Kröfluvirkjunar sökum annmarka flutningskerfisins. Á hverju ári tapast milljarðar ISK vegna þess og enn meira vegna glataðra atvinnu- og uppbyggingartækifæra um allt land."
Annmarkar flutningskerfisins, sem Ingibjörg Ólöf gerir þarna að umræðuefni, eru of lág kerfisspenna á Byggðalínu m.v. nauðsynlegar flutningsvegalengdir og afl. Byggðalínan er barn síns tíma af vanefnum gerð, en nú er verið að reisa nýja með kerfisspennu 220 kV í stað 132 kV. Þegar hún hefur öll verið tekin í notkun, munu orkutöp hennar aðeins verða um 36 % af orkutöpum gömlu Byggðalínunnar í sambærilegum rekstri. Þetta jafngildir þá um 320 GWh/ár eða 1,6 % af heildarkerfisflutningunum eða helmingi af orkunotkun heimilanna. Ef þessi orka væri til reiðu nú, þyrfti að líkindum ekki að grípa til neinna orkuskerðinga í vetur. Verðmæti þessarar orku á heildsölumarkaði er tæplega 2 mrdISK/ár. Af þessu sést, hversu brýn og arðsöm efling flutningskerfis raforku er, og enginn vafi er um þjóðhagslegt mikilvægi hennar.
Samt hefur ríkisvaldið látið endalausar tafir á þessari uppbyggingu viðgangast. Andmælaréttur er nauðsynlegur og ber að vernda í þeim tilgangi að fá að lokum fram beztu lausnina, sem dregur úr tjóni einstaklinga að teknu tilliti til viðleitni til hámörkunar þjóðarhags. Þetta er s.k. beztunarverkefni og er auðvitað leysanlegt innan ásættanlegs tímaramma, ef almennilega er að verki verið.
Lokakafli greinar Ingibjargar Ólafar var undir fyrirsögninni:
"Tími aðgerða er núna":
"Mikilvægt er að ráðast í eflingu fyrirliggjandi virkjana, þar sem það er hægt, hefja undirbúning að þeim orkukostum, sem auðveldast er að hrinda í framkvæmd fljótlega, og einfalda svo ferlið frá hugmynd að framkvæmd, þannig að nýting orkukosta, sem samfélagið þarfnast, gangi betur og hraðar fyrir sig í framtíðinni.
Á Íslandi hefur það sýnt sig, að tíminn, sem það tekur frá hugmynd um hefðbundna orkukosti, þar til framkvæmdir verða að veruleika, er um 10-20 ár. Sagan sýnir, að það er of langur tími, ef tryggja á orkuöryggi þjóðarinnar. Vissulega eru til aðstæður, þar sem það er vel skiljanlegt, og alltaf þarf að vanda til verka. En oft og tíðum eru óþarfa tafir, sem sóa dýrmætum tíma án þess, að það skili sér í betri framkvæmd m.t.t. umhverfisins. Við okkur blasir, að úrbóta er þörf og tími aðgerða er núna."
Núverandi regluverk ríkisins er óskynsamlegt, af því að það virðist hannað til að letja virkjunaraðila til framkvæmda fremur en að hvetja þá til að vanda sig. Nefna má, að stækkun virkjunar, þ.e. aflaukning, er háð nýju lögformlegu umhverfismati. Þessi krafa verndar ekki umhverfið, en hamlar framkvæmdum, enda hefur verið lítið um þetta hérlendis. Nú mun ætlunin að ráða bót á þessu, og verður þá auðveldara að mæta skammtíma álagi og að nýta offramboð vatns á sumrin (draga má þá niður í gufuorkuverunum).
Nú vantar allt að 200 MW af nýjum virkjunum inn á kerfið til að anna eftirspurn og hafa borð fyrir báru í viðhalds- og bilunartilvikum. Fyrir 2030 þarf 2000 GWh/ár og 500 MW einvörðungu fyrir orkuskiptin. Megnið af þessu þyrfti að vera fullhannað núna og með virkjanaleyfi, ef nokkur von á að vera til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar í losunarmálum koltvíildis, en það er fjarri lagi, að svo sé. Það verður að gera orkufyrirtækjunum kleift að leggja fyrir Orkustofnun raunhæfar áætlanir 10-20 ár fram í tímann um framkvæmdir, svo að Orkustofnun geti gætt hagsmuna notenda gagnvart orkuskorti. Tjón notenda af orkuskorti er nefnilega margfalt á við tjón orkufyrirtækjanna af tapaðri orkusölu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2022 | 08:49
Smávirkjanir geta linað verkina núna
Nú strax virðist bráðvanta 100-200 MW aflgetu í íslenzka raforkukerfið. Til að uppfylla óraunsæ loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar þarf ný 500 MW á tímabilinu 2022-2030. Þá er eftir að uppfylla vaxandi raforkuþörf hagkefisins á þessu tímabili, sem gæti numið 1,5 TWh/ár eða 300 MW árið 2030, alls 3,5 TWh/ár eða 800 MW. Eftir 5 ár gætu fyrirsjáanlega hafa bætzt við um 200 MW eða fjórðungur þarfarinnar 3 árum seinna. Fáum getur dulizt í hvers konar óefni stefnir, og hagvaxtarspár standa á brauðfótum með viðvarandi raforkuskort yfirvofandi.
Afkomu almennings er ógnað, þegar orkudrifið samfélag fær ekki þá orku, sem það þarf. Skynsamleg viðbrögð verkalýðshreyfingar eru ekki að heimta, að fyrirtækin í landinu taki af því, sem ekki er til, til að vega á móti verðbólgu gagnvart launþegum, því að slíkt framferði magnar aðeins verðbólgubálið, heldur að leggja lóð sín á skálar aukinnar verðmætasköpunar í landinu. Aukin verðmætasköpun fer nú á tímum ekki fram án aukinnar raforkunotkunar, þótt í mismiklum mæli sé í ISK/kWh reiknað.
Í þessari ólánlegu stöðu er eðlilegt að reyna að lina sársaukann með hraðari fjölgun smávirkjana inn á kerfið. Það er t.d. hægt með því að draga úr kostnaði við undirbúninginn og spara um leið tíma, þótt tæknileg gæði og öryggi mannvirkjanna verði áfram að vera í fyrirrúmi. Þessi hugmynd hefur þegar náð inn á Alþingi, eins og Fréttablaðið gerði grein fyrir 27.01.2022:
"Vilja, að slakað verði á skilyrði um umhverfismat fyrir smávirkjanir".
Fréttin hófst þannig:
"Halla Signý Kristjánsdóttir og 4 aðrir þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilja einfalda landeigendum að koma upp smávirkjunum. Mikil umræða hefur verið um virkjanir og orkuskort í landinu undanfarið, og Halla vonast til þess, að þingsályktunartillagan, sem hún leggur nú fram í 3. skiptið, verði samþykkt í ljósi þess, að núverandi stjórn hafi lagt mikla áherzlu á orkumál."
Þessi þingsályktunartillaga og afdrif hennar getur orðið prófsteinn á vilja þingsins til að létta landsmönnum róðurinn á tímabili illvígs sjálfskaparvítis, sem þingheimur með aðgerðarleysi sínu á síðasta kjörtímabili hefur leitt yfir þjóðina. Þjóð, sem býr yfir ríkustu sjálfbæru orkulindum í Evrópu á hvern íbúa, engist nú af raforkuskorti. Þetta er auðvitað merki um ófyrirgefanlega óstjórn á okkar tímum orkuskipta og ríkismarkmiða um minnkun á losun koltvíildis, sem sömu stjórnvöld hafa skuldbundið landið til á alþjóðavettvangi. Það er ekki öll vitleysan eins.
Sérstaklega verður horft til afstöðu umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, við afgreiðslu þessarar tillögu, en hann leitar nú logandi ljósi að fáanlegri orku undir leiðsögn orkumálastjóra, sem er þó með böggum hildar í leit að lausnum.
""Smávirkjanir eru mjög mikilvægar til þess að styrkja dreifikerfið. Ég kem að vestan, þar sem ekki er vanþörf á að huga að þessu", segir Halla, sem er úr Önundarfirði. Þar eru 4 smávirkjanir, og Orkubú Vestfjarða hefur hagað málum þannig, að ef rafmagn fer af svæðinu, er hægt að loka af, þannig að smávirkjanirnar vinni fyrir fjörðinn.
Smávirkjanir eru af stærðinni 0,2 MW - 10,0 MW, en flestar [eru] undir 1,0 MW að stærð. Fyrir [þær] þarf umhverfismat, sem fylgir nokkuð mikið umstang, tími og kostnaður."
Virkjanlegt afl lítilla (óvirkjaðra) vatnsorkulinda er umtalsvert, þegar allt er talið saman, eða líklega um 1000 MW. Þær geta þannig saman hjálpað til við að mæta vaxandi afl- og orkuþörf á landsvísu, þótt þær séu rjúfanlegar frá landskerfinu og geti þá þjónað nærumhverfinu einvörðungu í bilunartilvikum. Ef ráðherra beitir sér fyrir að fjarlægja "rauða dregilinn" að þessum virkjunum, fjarlægir "rauða límbandið" af undirbúningsferlinu, þ.e. einfaldar leyfisveitingaferlið og beitir sér fyrir því, að dreifiveiturnar tengi nýjar smávirkjanir snurðulaust og jafnharðan við dreifikerfið, þá gæti hér verið komin fljótvirkasta búbótin fyrir orkubúskap landsmanna.
Í téðri frétt var getið um mat á aflgetu smárra virkjanakosta:
"Smávirkjanakostir hafa verið greindir á undanförnum árum. Á Norðurlandi voru t.a.m. 500 kostir kortlagðir í sumar með samanlagt heildarafl upp á tæplega 830 MW [1,7 MW að jafnaði]. Fyrr á árinu 2021 voru 70 valkostir á Vesturlandi greindir með samanlagt afl upp á 59 MW [0,8 MW að jafnaði]. Auk þess eru margir kostir í boði á Austurlandi og Vestfjörðum, þar sem flestar smávirkjanir eru nú þegar.
Halla lítur til Noregs sem fyrirmyndar um, hvernig [leyfisveitingaferli smávirkjana á Íslandi ætti að vera]. Þar í landi sjái sérstök stofnun, NVE [þetta er Orkustofnun Noregs-innsk. BJo], um leyfisveitingarnar og skilyrðin séu almenn."
Nú getur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra látið hendur standa fram úr ermum til að auðvelda land- og vatnsréttindaeigendum undirbúning smávirkjana til að flýta fyrir því, að tugir eða jafnvel hundruðir smávirkjana komist í gagnið og verði tengdar við næstu dreifiveitu á ódýran hátt og án tafa. Þetta gæti orðið fljótvirkasta aðferðin til að bæta úr brýnum orkuvanda landsmanna, en þá verður að slá striki yfir það, sem flækjufætur kerfisins hafa sett upp sem hindranir fyrir áhugasöm virkjanafélög.
Það var eins og við manninn mælt, að hjartaskurðlæknirinn Tómas Guðbjartsson og félagi hans Ólafur Már Björnsson, augnlæknir, fengu birta grein eftir sig í Fréttablaðinu 27. janúar 2022, sem hét "Heilagur Vatnsfjörður", strax í kjölfar þess, að rafveitustjóri Orkubús Vestfjarða tjáði sig um það, að hann teldi núna einna vænlegast fyrir Vestfirðinga að reisa 20-30 MW vatnsaflsvirkjun í Vatnsfirði. Tómas þessi hefur beitt sér með öfgafullum hætti undanfarin misseri gegn virkjanaáformum Vestfirðinga. Nú fordæmir hann virkjanahugmynd rafveitustjórans án þess að hafa hugmynd um virkjunartilhögunina eða um áhrif hennar á umhverfið í Vatnsfirði eða á mannlífið á Vestfjörðum. Þetta gerir öfgafulla virkjanaandstöðu þeirra félaganna algerlega ótraustverða.
Það er kominn tími til að hætta að ljá eyra við illa ígrundaðri andstöðu við framfaramál Vestfirðinga. Þeir eru bezt til þess fallnir að fjalla um þessi mál sjálfir, vega þau og meta, og fyllilega treystandi til þess án afskipta og hortugheita "besserwissera" úr fjarlægum sveitum.
Dæmi um ofstækið í skrifum þeirra félaga um náttúruna getur að líta í téðri Fréttablaðsgrein. Sem betur fer er það ekki í þeirra höndum, hvað framkvæmt verður á Vestfjörðum eða hvað fellt verður undir þjóðgarð þar. Það er og verður málefni Vestfirðinga sjálfra, en ekki þröngsýnna lækna af höfuðborgarsvæðinu, sem setja velferð og lífsafkomu íbúanna á Vestfjörðum ekki í öndvegi, þegar hugmyndir koma fram um að nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir Vestfjarða:
"Fossarnir í Vatnsfirði búa ekki aðeins yfir einstakri fegurð, heldur býr í þeim orka, sem gírug raforkufyrirtæki ásælast nú sem aldrei fyrr. Virðast þau engu skeyta um, að árnar og fossarnir í Vatnsfirði eru friðaðir, auk þess sem friðlandið verður hjartað í Þjóðgarði á Vestfjörðum, sem átti að opna síðastliðið sumar og verður lyftistöng fyrir Vestfirði alla."
Vestfirðingar þurfa ekki á að halda hortugum fyrirmælum "besserwissera" úr fjarlægum sveitum um það, hvernig þeir nýta auðlindir á sínu landssvæði, enda er nóg komið af töfum og stöðvunum orkuframkvæmda í landinu.
Frétt í Morgunblaðinu 28. janúar 2022 undir fyrirsögninni:
"Segir stöðuna í orkumálum vera slæma",
hófst þannig:
"Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir stöðuna í orkumálum líta illa út, en Morgunblaðið greindi í gær frá greiningu Landsnets á afl- og orkuþörf, sem gefur til kynna viðvarandi orkuskort á næstu árum.
"Um leið og ég frétti af þessu, þá kallaði ég á fulltrúa Orkustofnunar og Landsvirkjunar á minn fund og setti af stað vinnu til að bregðast við vandanum, þ.e.a.s. skammtímavandanum.""
Það er athyglisvert, að upplýsingar um það, hvert margra ára aðgerðarleysi í virkjanamálum samhliða upphafi orkuskipta nútímans, hafa leitt yfir þjóðina, virðast ekki hafa náð inn á borð ráðuneytisstarfsmanna, og fer þá ekki á milli mála, að þar sofa menn á verðinum, og hrökkva svo upp af værum blundi, þegar raunveruleiki raforkuskortsins skellur á þjóðfélaginu. Þetta er náttúrulega engan veginn boðleg stjórnsýsla, sem landsmenn búa við.
Orkulöggjöf landsins er reyndar sniðin við frjálst markaðskerfi og treystir á (og tekur þar með allt of mikla áhættu fyrir þjóðarhag), að orkufyrirtækin sjái sér hag í því að koma í veg fyrir orkuskort með því að vera tilbúin með nýjar virkjanir í tæka tíð. Þannig er ekki raunveruleikinn í íslenzku umhverfi, þar sem sérvitringar, sem hafa borið fyrir sig umhverfisvernd, en eru í raun umhverfissóðar, sem valda olíubruna til raforkuvinnslu fyrir vikið, hafa komizt upp með að þvælast fyrir hverju orkuöflunar- og -flutningsverkefninu á fætur öðru með þeim afleiðingum, að allt er nú komið í óefni.
Að kalla á fulltrúa téðrar ríkisstofnunar og téðs ríkisfyrirtækis til að bregðast við bráðavandanum minnir á haldleysi þess að fara í geitarhús að leita ullar. Vonandi hefur þessi ráðherra þó haft rænu á að spyrja fulltrúa Orkustofnunar, hvers vegna hún sé ekki þegar búin að afgreiða umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun.
Nú eru góð ráð dýr. Samhliða því að veita nú þegar leyfi fyrir verkhönnuðum virkjanakostum í nýtingarflokki Ramma 3 með lagasetningu, ef nauðsyn krefur, þarf strax að liðka fyrir og hvetja til smávatnsaflsvirkjana í landinu, en örvæntingin má ekki verða slík, að hlaupið verði til að reisa hér vindmylluskóga, jafnvel í grennd við byggð. Ásýnd landsins mundi bíða mikinn hnekki við slíkt, og landið mundi tapa sérstöðu sinni sem land endurnýjanlegra orkulinda með orkumannvirkjum, sem falla vel að umhverfi sínu.
Það er ekkert vit í því að reisa vindmylluorkuver í vatnsorkulandi, þar sem ekkert borð er fyrir báru með aflgetuna. Auk umhverfissjónarmiðanna er ástæðan sú, að ekki er unnt að reiða sig neitt á afl frá vindorkuverum, og þess vegna verður að reisa vatnsorkuver á móti vindmyllunum til að grípa inn, svo að ekki verði skammtíma aflþurrð í kerfinu. Undir slíkum tvöföldum fjárfestingum er enginn fjárhagsgrundvöllur vegna lágs nýtingartíma.
Þannig hefur raforka vindmylla minna verðgildi á markaðinum en forgangsorka vatnsafls- og jarðgufuaflsvera. Það þýðir, að varla er annar markaður fyrir orku vindorkuveranna en markaður fyrir ótrygga orku, og fyrir hana fæst í mesta lagi helmingsverð á við forgangsorkuna. Við núverandi aðstæður dugar þetta ekki fyrir arðbæran rekstur vindorkuvera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.2.2022 | 15:15
Köttur í kringum heitan graut
Viðbrögð umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, gagnvart orkuvanda þjóðarinnar, sem í vetur veldur tugmilljarða ISK tekjutapi í hagkerfinu og mun draga úr hagvexti á þessu ári og næstu árum, eru ekki að öllu leyti uppörvandi fyrir þá, sem eldurinn brennur heitast á, þótt jákvæð tíðindi berist nú einnig.
Ráðherrann virðist að nokkru leyti koma af fjöllum sorglegt ástand orkumála landsins, og hið eina bitastæða, sem fyrir vorþinginu liggur af verkefnum frá honum, er að draga úr óþarfa skriffinnsku við endurnýjun og jafnvel aflaukningu virkjana og að auðvelda fólki á rafhitunarsvæðum að setja upp hjá sér varmadælu til húshitunar og spara þannig um 60 % raforku til húshitunar. Hvort tveggja er þó gott og blessað, en annars einkennast gjörðir ráðherrans af því að geta sagzt hafa brugðizt hratt við með nefndaskipunum til upplýsingaöflunar um mál, sem fullnægjandi þekking er á nú þegar í ráðuneytinu, hjá Orkustofnun og síðast en ekki sízt hjá Landsneti. Þó hefur nú frétzt af því, að Rammaáætlun 3 verði tekin á dagskrá vorþingsins, og er það gleðiefni, þótt mey skuli að morgni lofa. Það er vert að gefa gaum að því í þessu sambandi, að virkjanafyrirtækin hafa ekki séð sér hag í því enn að hefja framkvæmdir við öll verkefni í nýtingarflokki Rammaáætlunar 2. Ætla má, að nú væri enginn raforkuskortur í landinu, ef allur nýtingarflokkur Ramma 2 væri nú kominn í gagnið.
Í Markaði Fréttablaðsins 26.01.2022 birtist umfjöllun um orkuskortinn og frásögn af viðbrögðum téðs ráðherra undir fyrirsögninni:
"Ráðherra lítur mögulega skerðingu á raforku alvarlegum augum".
Sennilega á kaldhæðni Helga Vífils Júlíussonar þátt í þessari fyrirsögn, þannig að hann hæðist að máttleysislegum viðbrögðum ráðherrans. Umfjöllunin hófst þannig:
"Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, lítur tilkynningu Landsvirkjunar um, að mögulega verði dregið úr afhendingu raforku, alvarlegum augum. Um leið og ráðuneytið varð þess áskynja, voru fulltrúar Landsvirkjunar og Orkustofnunar kallaðir á fund, og í kjölfar þess var sett af stað vinna við að bregðast við vandanum."
Þetta hljómar eins og texti í fáránleikaleikhúsi. Allir landsmenn vita, að þegar á þessum tíma var í gangi skerðing á ótryggðri orku, af því að raforkukerfið hefur ekki undan þörfinni, og við því er lítið hægt að gera annað en að veita framkvæmdaaðilum framkvæmdaleyfi við fullhannaðar virkjanir í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3, þegar Alþingi hefur afgreitt hana. Landsvirkjun sótti 10. júní 2021 um virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun til Orkustofnunar. Orkustofnun svaraði meira en hálfu ári síðar með beiðni um meiri gögn. Kerfið heldur tafaleikjum sínum áfram. Þetta er stjórnsýsla án jarðsambands.
Einhverjir gætu misst neðri kjálkann niður á bringu af undrun yfir því, sem ráðherrann lætur út úr sér:
""Staðan kom mér satt að segja á óvart. Um leið og ég varð þess áskynja, hvernig málin stæðu, þá leit ég það mjög alvarlegum augum. Fundaði ég þegar í stað með aðilum, sem lýst höfðu yfir áhyggjum vegna stöðunnar til skamms tíma, og er unnið að lausn málanna. Þá fundaði ég með Orkustofnun vegna stöðunnar, en stofnunin sendi í kjölfarið bréf á raforkufyrirtækin, eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum í vikunni", segir hann."
Þetta er lítið annað en sjálfshól ráðherra, sem kemur fram sem álfur út úr hól. Er eitthvert annað raunhæft ráð við orku- og aflskorti en að virkja ? Umrætt bréf Orkustofnunar er sennilega tilgangslausasta bréf sögunnar frá þeirri virðulegu stofnun hæfra stjórnenda, en þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng.
Áætlanir um orku- og aflþörf og framboð hins sama hafa frá árinu 2019 sýnt fram á yfirvofandi skort. Kófið olli frestun vandans til 2022. Morgunblaðið gerði rækilega grein fyrir málinu í forsíðufrétt og baksviðsfrétt 27. janúar 2022. Baksviðsfréttin bar skuggalega fyrirsögn:
"Frekari skerðingar á næstunni".
Föstudaginn 28. janúar 2022 bilaði tengivirki ON/Landsnets við Nesjavelli. Þann dag kom til stórfelldra skerðinga á raforku og heitavatnslaust varð hjá tugþúsundum manna. Kólnaði verulega í húsum vegna gats, sem kom á stofnlögn Veitna vegna yfirþrýstings. Talverðar truflanir urðu á afhendingu raforku í kjölfar bilunarinnar á Nesjavöllum, t.d. hjá Norðuráli. Þetta sýnir, að menn treysta á Guð og lukkuna, en hafa engin úrræði, þótt aðeins ein eining bili, í þessu tilviki tengivirki ON/Landsnets við Nesjavelli.
Það er endalaust hummað fram af sér að styrkja kerfið til að gera það þolið gagnvart einni bilun, og aflgetan er nú nýtt til hins ýtrasta. Þessir rekstrarhættir bjóða hættunni heim með óábyrgum hætti, og Orkustofnun virðist hvorki hafa faglega getu né áhuga á eða heimildir til að leggja mat á afhendingaröryggið og krefjast úrbóta af orkufyrirtækjunum. Naglafægjarar og baunateljarar virðast móta stefnuna og ráða ferðinni varðandi raforkukerfið. Afhendingaröryggið liggur þar óbætt hjá garði.
Téð baksviðsfrétt hófst þannig:
"Ef miðað er við venjubundna aukningu raforkunotkunar samkvæmt raforkuspá eru líkur á, að draga þurfi úr afhendingu skerðanlegrar orku í meðalvatnsári, ekki aðeins í lélegu vatnsári, strax á næsta ári. Staðan verður mun verri, ef áform um orkuskipti eða aukning á fyrirtækjamarkaði verður umfram spár. Í greiningu Landsnets kemur fram, að nauðsynlegt sé að bæta við afli með nýjum virkjunum og styrkja flutningskerfið."
Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar voru september og nóvember úrkomusamir á Suð-Vesturlandi árið 2021, og meðalhitastig ársins var 0,2°C yfir meðallagi áranna 1991-2020 með tilheyrandi meiri jökulbráðnun. Það stendst því varla, að lág staða Þórisvatns stafi af sérlega lélegu ári fyrir vatnsbúskapinn, heldur stafar óvenju lág staða þar af einhverju öðru, og munar þar vafalaust mest um metálag á raforkukerfinu. Spár EFLU miða við meðalvatnsár, og kerfislíkan fyrirtækisins greindi þegar árið 2019 yfirvofandi skort í kerfinu. Kófið gaf gálgafrest, en nú árið 2022 er fyrirsjáanlegur orkuskortur skollinn á, og orkuyfirvöldin eru með allt á hælunum. Það er lakari frammistaða en þjóðin á að þurfa að búa við.
Áfram með téða baksviðsfrétt:
"Landsnet gerir reglulega greiningar á afl- og orkujöfnuði landsins. Í síðustu birtu greiningu, sem EFLA-verkfræðistofa gerði á árinu 2019, voru taldar líkur á aflskorti á árinu 2022 og enn frekar á árinu 2023. Aflskortur þýðir, að ekki er nægt afl tiltækt í virkjunum til að fullnægja aflþörf. Líkurnar á aflskorti aukast, ef litið er til kalds vetrardags, sem reikna má með, að komi á 10 ára fresti. Þetta hefur gengið eftir, eins og komið hefur fram í ákvörðunum Landsvirkjunar að undanförnu um að takmarka afhendingu á orku samkvæmt samningum um skerðanlega orku vegna lélegrar vatnsstöðu á Suðurhálendinu."
Orkustofnun og þáverandi atvinnuvegaráðuneyti mátti vera ljóst í síðasta lagi fyrir 3 árum, að í óefni stefndi með orkujöfnuð landsins og að þar af leiðandi væru loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar í uppnámi. Samt var setið með hendur í skauti og látið sem orkumálin væru í himnalagi og jafnvel enn bætt í loftslagsmarkmiðin. Um þetta er það aðeins að segja, að þetta er glórulaus stjórnsýsla, þar sem sýndarmennskan ræður ferðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.2.2022 | 11:10
"Gríðarleg olíubrennsla"
Orkustefna og þar með loftslagsstefna stjórnvalda eru staddar í öngstræti vegna lamandi áhrifa græningja á vinstri kanti stjórnmálanna á stjórn landsins, en hugmyndafræði þeirra virðist hafa snúizt upp í afturhvarf til fortíðar. Fyrirhyggjuleysið í orkumálum og hræsnin um náttúru og hlýnun andrúmslofts haldast hönd í hönd, því að samhliða öfgakenndri andstöðu við orkuframkvæmdir yfir 10 MW og jafnvel minni hafa græningjarnir tekið þátt í að semja loftslagsmarkmið fyrir Ísland, sem kynnt hafa verið á alþjóðavettvangi af núverandi forsætisráðherra sem skuldbindingar Íslands (55 % minnkun losunar 2030 m.v. 2005).
Hið veigamesta í þessum markmiðum er reist á orkuskiptum í landumferð og hjá fiskiskipaflotanum, en forsenda þessara orkuskipta er nægt raforkuframboð frá endurnýjanlegum orkulindum. Nú er staðfest, að raforkukerfi landsins er orðið yfirlestað, því að það ræður ekki við álag allra viðskiptavina að vetrarlagi. Þurrkaár í fyrra er bara smjörklípa. Fyrirsjáanlegur er orku- og aflskortur fram að næstu verulegu virkjun, þ.e. a.m.k. til 2027, þannig að loftslagsstefna stjórnvalda er ekki pappírsins virði og hefur aldrei verið annað en helber hræsni.
Hlutur Orkustofnunar (OS) er skrýtinn í þessu máli. Eðlilegt væri, að hún linnti ekki látunum, þegar fyrirsjáanlegt er, að spár hennar um þróun orkunotkunar fara fram úr spám um orkuframboð. Það hefur verið ljóst í nokkur ár, að yrði, þegar allt færi í gang eftir Kófið.
Fyrrverandi orkumálastjóri varaði iðulega við allt of þunglamalegu og óskilvirku leyfisveitingaferli fyrir nýjar virkjanir. Núverandi orkumálastjóri virðist vilja laga fyrirtækin að viðvarandi orkuskorti, því að hún hefur hvatt orkuseljendur til að selja ekki hæstbjóðanda raforkuna, nema hann styðji við orkuskiptin innanlands. Þetta er kúvending, sem gengur í berhögg við markaðslögmálin og getur framkallað ólögmæta mismunun mismunandi atvinnustarfsemi.
Þessi orkumálastjóri sendi um miðjan janúar 2022 bréf til allra raforkuframleiðenda landsins og spurði þá efnislega á þá leið, hvort þeir lumuðu á orkuvinnslugetu, sem þeir gætu hugsað sér að setja í gang í vetur. Þetta er afar sérkennileg spurning, því að enginn getur haft hag af því að halda aftur af orkuvinnslugetu fyrirtækis síns við núverandi aðstæður. Eiginlega hlýtur fiskur að liggja undir steini hjá orkumálastjóra. Vitað er um niðurdrátt í ýmsum jarðgufuvirkjunum, og hefur hann verið einna mestur í Hellisheiðarvirkjun, en til að vega upp á móti slíku þarf annaðhvort að tengja virkjun við annað jarðgufuforðabúr, auka niðurdælingu til að fá meiri gufu eða til bráðabirgða að fjölga vinnsluholum, en allt tekur þetta tíma. Gefnir voru 2 sólarhringar til að svara. Hefði ekki verið nær að hringja í forstjórana og fá uppgefna orkuvinnsluna vikuna á undan, bera saman við málgetuna og leita síðan skýringa á hugsanlegum frávikum ?
Þann 21. janúar 2022 gerði Morgunblaðið nokkrar afleiðingar yfirstandandi orku- og aflskorts að umfjöllunarefni á forsíðu sinni með sömu fyrirsögn og á þessum pistli. Umfjöllunin hófst þannig:
"Orkubú Vestfjarða og RARIK búa sig undir að brenna milljónum lítra af olíu á komandi mánuðum til þess að tryggja húshitun á Vestfjörðum og á Seyðisfirði. Forstjóri Orkubúsins telur raforkuskort leiða tæplega MISK 500 kostnað yfir fyrirtækið á komandi þremur mánuðum, og að honum verði óhjákvæmilega velt yfir á neytendur á Vestfjörðum til lengri tíma litið. Höggið jafngildi kISK 70 reikningi á hvert mannsbarn á svæðinu."
Hér eru mikil firn á ferð, sem skrifa má á öfgafulla virkjanaandstæðinga, sem lagt hafa sig í líma við að leggja stein í götu nýrra vatnsaflsvirkjana á Vestfjörðum, sem þó eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3. Slíkar öfgar eru hrein skemmdarverkastarfsemi gegn velferð almennings á Vestfjörðum, þegar árlegur reikningur á hverja 4 manna fjölskyldu þar mun nema a.m.k. 280 kISK/ár vegna raforkuskorts. Slíkar viðbótar byrðar eru ekkert gamanmál fyrir íbúa, sem mega una við háan vöruflutningakostnað og þ.a.l. væntanlega hærra verðlag en á höfuðborgarsvæðinu. Er ekki eðlilegt, að ríkið hlaupi undir bagga með íbúunum í ljósi þess, að handhafar ríkisvaldsins hafa brugðizt þeirri skyldu sinni (enginn þykist ábyrgur) að sjá íbúum landsins fyrir nægu framboði raforku (álagsgeta kerfisins er við þolmörk á vetrum) ? Kostnaðurinn er lítilræði í hlutfalli við væntanlegar arðgreiðslur Landsvirkjunar til ríkissjóðs í ár.
"Orkuskerðingin, sem fyrirtækin standa frammi fyrir, kemur í kjölfar þess, að Landsvirkjun hafði einnig tilkynnt öllum fiskimjölsverksmiðjum landsins, að þær myndu ekki fá keypta skerðanlega orku úr kerfum fyrirtækisins. Hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna áætlað, að það leiði til þess, að 20 Ml af olíu verði brennt við bræðsluna á yfirstandandi vertíð."
Þessi raforkuskerðing til fiskimjölsverksmiðjanna ríflega tvöfaldar orkukostnað þeirra, sem þýðir ríflega mrdISK 1 í viðbótarkostnað og ríflega 1 % aukningu á koltvíildislosun Íslands á árinu 2022. Tekjutap stóriðjunnar vegna orkuskerðinga við hana getur orðið einni stærðargráðu meira eða um mrdISK 20 á árinu 2022. Þetta er herfilegur minnisvarði um misheppnaða orkustefnu stjórnvalda undanfarinna ára, gjörsamlega að þarflausu, og nú verður umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Kötustjórnar 2 að setja hæl undir nára merarinnar til að afla orku fyrir landsmenn á þessu kjörtímabili, ef áratugurinn á ekki allur að markast af misráðinni orkulöggjöf, sem dregur niður lífskjörin og veldur atvinnuleysi í landinu, er fram líða stundir.
"Gögn, sem Landsvirkjun hefur veitt Morgunblaðinu aðgang að, sýna, að skammtímamarkaður með raforku hefur tekið miklum breytingum á örfáum vikum. Á 90 dögum hafa s.k. mánaðarblokkir á þeim markaði hækkað um 46 %. Í svari fyrirtækisins við fyrirspurn blaðsins segir, að vatnsbúskapur hafi ekki verið lakari um árabil vegna þurrka, og á sama tíma sé eftirspurn eftir raforku mikil. "Raforkukerfið er fulllestað um þessar mundir, og Landsvirkjun hefur ekki getað annað allri eftirspurn frá núverandi viðskiptavinum."
Þarna kemur fram, að raforkukerfið sé fulllestað. Skýringin á því er ekki slæm staða miðlunarlóna, heldur aflskortur í kerfinu, þ.e. það vantar nýjar virkjanir inn á kerfið. Miðlunarstaða Hálslóns hefur verið góð í haust og vetur, en samt er fiskimjölsverksmiðjum á Austfjörðum og reyndar í Vestmannaeyjum neitað um ótryggða orku, um 180 GWh. Skýringin er ekki vatnsskortur fyrir austan, heldur aflskortur í kerfinu. Hér sunnan heiða var hvorki sérlega þurrt né kalt árið 2021, svo að skýringar á lágri miðlunarstöðu Þórisvatns er ekki að leita í veðrinu, heldur í miklu álagi á vatnsorkuverum Tugnaár/Þjórsár m.v. miðlunargetuna.
Iðnaðurinn framleiddi á fullum afköstum og e.t.v. hafa önnur orkuver framleitt minna en vant er af illviðráðanlegum ástæðum. Þessi staða kann að boða árlegan orkuskort fram að næstu virkjun, sem um munar.
Daginn eftir, 22.01.2022, rakti Morgunblaðið fleiri afleiðingar raforkuskortsins á forsíðu sinni undir fyrirsögninni:
"Skortur hefur víða áhrif".
Af lýsingunni varð enn skýrara, að orkuskiptin hafa steytt á skeri, og það er urgur í sveitarstjórnarmönnum út af því, að miklar orkuskiptafjárfestingar nýtast ekki, heldur lendir nú mikill viðbótar rekstrarkostnaður á fjárfestum og/eða rekstraraðilum, þar sem olíuverð er nú í hæstu hæðum. Téð umfjöllun hófst þannig:
"Forsvarsmönnum Vestmannaeyjaferjunnar hefur verið tilkynnt, að komið geti til skerðingar á afhendingu raforku til rekstrar Herjólfs. Fyrirtækið hefur keypt skerðanlega raforku til starfseminnar. Mun olíunotkun skipsins margfaldast, verði skerðingin að veruleika.
Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri á Ísafirði, kallar eftir tafarlausum úrbótum á raforkumálum Vestfjarða. Tómt mál sé að tala um orkuskipti, þegar fjórðungurinn standi frammi fyrir því að þurfa að brenna milljónum lítra af olíu á komandi mánuðum til að tryggja húskyndingu. Þá komi ekki til greina að samþykkja stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum fyrr en tryggt verði, að slík stofnun girði ekki fyrir nauðsynlegar virkjanaframkvæmdir. Forstjóri Orkubús Vestfjarða ítrekar, að hagfelldasti kosturinn væri að reisa 20-30 MW virkjun í Vatnsfirði í Vestur-Barðastrandasýslu."
Hér skal taka eindregið undir með bæjarstjóranum á Ísafirði. Það hefur verið einstaklega ógeðfellt að fylgjast úr fjarlægð með því, hvernig ofstopa-umhverfisafturhald utan Vestfjarða hefur rekið skefjalausan áróður gegn því, að vilji Vestfirðinga og Verkefnisstjórnar Rammaáætlunar 3 um vatnsorkuver á Vestfjörðum nái fram að ganga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)