Færsluflokkur: Bloggar
13.2.2022 | 10:40
Vandræði í Noregi vegna raforkumarkaðarins
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sá áfangi í orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), sem gengur undir heitinu Orkupakki 3, var samþykktur af Stórþinginu í Ósló í marz 2018 við víðtæk mótmæli í landinu, og enn er í gangi rekistefna fyrir dómstólum um lögmæti þeirrar samþykktar, því að ekki var krafizt aukins meirihluta (3/4 greiddra atkvæða, þar sem a.m.k. 2/3 þingmanna greiði atkvæði), eins og stjórnarskrá Noregs áskilur, þegar um er að ræða valdframsal til útlanda, sem varðar hag almennings beint.
Alþingi samþykkti sömu löggjöf ESB haustið 2019 við fögnuð í norska stjórnarráðinu, en sorg um endilangan Noreg, en með þeim mikilsverða fyrirvara þó, sem líklega brýtur í bága við EES-samninginn, að Alþingi áskilur sér rétt til að eiga síðasta orðið um tengingu aflsæstrengs frá útlöndum við raforkukerfi Íslands. Það eru einmitt öflugar sæstrengstengingar á milli Noregs, Englands, Þýzkalands og Hollands, sem eru rót gríðarlegrar óánægju almennings í Noregi með raforkuverðið þar, sem hefur margfaldazt síðan 2020.
Samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum vill meirihluti Norðmanna nú segja skilið við ACER-Orkuskrifstofu ESB og ganga úr Orkusambandinu við ESB, sem lögfest voru í EFTA-löndunum þremur, sem eru í EES, með Orkupakka 3. Svo mikil er óánægjan í Noregi, að u.þ.b. helmingur landsmanna vill nú gera fríverzlunarsamning við ESB í stað EES-samningsins. Fríverzlunarsamningur EFTA, með Svisslendinga innanborðs, gæti þjónað hagsmunum Íslendinga vel.
Það er þannig í norska markaðskerfinu, að raforkuverð á heildsölumarkaði Nord Pool er breytilegt frá einni klukkustund til annarrar og það er ólíkt eftir landshlutum. Sunnan við Þrándheim er það tífalt á við verðið í Mið- og Norður-Noregi. Þann 9. febrúar 2022 var raforkukostnaður um 2,0 NOK/kWh=28,2 ISK/kWh (raforkuverð+flutnings- og dreifingargjöld og rafskattur og vsk). Í Þrándheimi nam heildsöluverðið þann dag að meðaltali aðeins 12,6 Naur/kWh=1,8 ISK/kWh, og lætur þá nærri, að einingarkostnaður þar hafi numið 3,0-4,0 ISK/kWh, sem er aðeins um fimmtungur þess, sem íslenzkar fjölskyldur borga fyrir kWh. Norska fjölskyldan kaupir hins vegar fimmfaldan fjölda kWh á við þá íslenzku, því að hún rafhitar íbúðina sína. Í Suður- og Vestur-Noregi er þess vegna um verulega lífskjaraskerðingu að ræða eða um 500 kISK/ár, sem alfarið er hægt að rekja til raforkuviðskiptanna við útlönd.
Þetta hefur valdið almennri óánægju með markaðskerfi raforku í Noregi. Statkraft (norska Landsnet, ríkisfyrirtæki), sem á allar millilandatengingarnar við Noreg, ræður ekki lengur yfir flutningunum (eftir OP3), heldur ACER, sem leyfir markaðinum að ganga svo á miðlunarlónin í Suður- og Vestur-Noregi, þaðan sem millilandatengingarnar eru, að verðið helzt tífalt á við það, sem það annars væri.
Íbúar Mið-Noregs óttast að verða fórnarlömb þessa orkuokurs í kjölfar bættrar tengingar við Vestur-Noreg, sem nú stendur yfir. Fyrirtæki í Suður- og Vestur-Noregi, sem ekki hafa langtímasamninga, hafa orðið fyrir gríðarlegum kostnaðarauka, og þessi fáránlega staða í vatnsorkulandinu Noregi virkar hagvaxtarhamlandi, en á sama tíma græðir norski olíusjóðurinn á mikilli gassölu, og olíuverði er nú spáð yfir 100 USD/tunnu áður en langt um líður. Ríkisstjórnin getur stundað dýrar millifærslur úr ríkissjóði án skuldsetningar með því að ganga á ávöxtun olíusjóðsins.
Ríkisstjórnin hefur t.d. aukið s.k. búsetustuðning við hina verst settu vegna hækkaðs orkukostnaðar og lækkað rafskattinn.
Norskt rafmagn hefur verið flokkað sem vara, sem er keypt og seld á Nord Pool markaðinum. Þetta er í samræmi við orkulöggjöf ESB. Raforkuvinnslufyrirtækin stórgræða á viðskiptunum við fjölskyldurnar, orkufyrirtæki án langtímasamninga og sveitarfélög, sem ekki eiga hlutdeild í virkjunum. Lengi vel var sá áróður hafður uppi í Noregi, að millilandaraforkutengingar væru Norðmönnum nauðsynlegar í slökum vatnsbúskaparárum, en fjárhagsleg sjónarmið annarra en alþýðunnar sátu í raun í fyrrúmi, enda eru nú téðar millilandatengingar orðnar fleiri og öflugri en þörf er á afhendingaröryggisins vegna. Afleiðingin er innflutningur á ógnvekjandi háu raforkuverði og útflutningur á orkuforða miðlunarlóna vatnsorkuvirkjananna, einkum í Suður- og Vestur-Noregi. Ofan á dræman vatnsbúskap sumarið 2021 lagðist mikil spurn eftir raforku frá útlöndum, svo að vatnsstaða miðlunarlóna í þessum landshlutum er langt undir meðallagi, sem endurspeglast í tíföldun raforkuverðsins núna.
Statnett stendur nú að eflingu raforkuflutningskerfisins á milli norðurs og suðurs á svipaðan hátt og Landsnet á Íslandi. Þetta er mikilvægt til að styrkja núverandi vinnustaði í báðum löndunum og til að gera kleift að stofna til nýrra, en eins og kunnugt hefur á Norðurlandi, t.d. í Eyjafirði, orðið að fresta framkvæmdum, og atvinnutækifæri hafa jafnvel tapazt fyrir vikið. Þetta er gjörsamlega ólíðandi fyrir almannahag á Íslandi, en í Noregi eru uppi miklar áhyggjur af því, að efling af þessu tagi verði aðeins til að auka útflutning raforku og hækka raforkuverð í Mið- og Norður-Noregi, sem þá gerir atvinnuuppbyggingu þar að engu. Brostnar vonir kynda undir þjóðfélagsóánægju, og hún mun brjótast fram í mótmælum í Noregi 15. febrúar 2022.
Rafmagn er hluti innviða þjóðfélagsins, sem nota ber til að búa til atvinnu og að tryggja trausta og grózkumikla byggð um allt land. Með þessu áframhaldi í Noregi eiga Norðmenn á hættu, að orkusækinn iðnaður í dreifðum byggðum landsins flytjist til landa, þar sem orkukerfið er alfarið reist á jarðefnaeldsneyti. Sams konar eyðilegging á samkeppnishæfni bíður fyrirtækja á Íslandi, ef yfirvöld glepjast á að innleiða hér spákaupmennsku á raforkumarkaði, eins og viðgengst í Noregi, og almenningur þar á fjölmennum landssvæðum sýpur nú soðið af. Nú er verið að rafvæða olíu- og gasborpalla á norska landgrunninu, sem þá keppa um rafmagn á markaði við heimilin, sem kynda húsnæði sitt með rafmagni. Hátt raforkuverð gerir vindorkuver hagkvæm í Noregi, en þau eru eðlilega náttúruunnendum í Noregi mikill þyrnir í augum, og vaxandi andstaða er gegn þeim, þegar fólk sér afleiðingarnar, enda eiga Norðmenn enn mikið óvirkjað vatnsafl.
Orkupakkar ESB leggja grunn að samkeppnismarkaði með rafmagn í kauphöll og ófyrirsjáanlegu raforkuverði. Orkuskrifstofa ESB, ACER, gegnir því meginhlutverki að koma á flutningskerfi og regluverki, sem valda nokkurn veginn sama raforkuverði í Noregi (og Íslandi og Liechtenstein) og í ESB. Ísland er sem betur fer enn ótengt erlendum raforkukerfum, en hér stefnir hins vegar í óefni, af því að þeirrar forsjár hefur ekki verið gætt að bæta við nægum virkjunum, svo að hér sé alltaf borð fyrir báru, hvernig sem tíðarfarið er.
Aðalkrafa mótmælendanna í Noregi 15. febrúar 2022 verður, að Noregur endurheimti fullveldi sitt yfir orkumálunum úr höndum ESB. Það er svo mikill hiti undir þeirri kröfu, að hrikt getur í stoðum EES-samstarfsins. Það er verkalýðshreyfing Noregs sem fer fyrir þessari kröfugerð, og stærri stjórnarflokkurinn í ríkisstjórn Noregs er nú Verkamannaflukkurinn, sem jafnan hefur sveigt stefnu sína að stefnumörkun Alþýðusambands Noregs og/eða stærstu verkalýðsfélaganna. Hinn stjórnarflokkurinn, Miðflokkurinn, barðist á Stórþinginu og í grasrótinni gegn innleiðingu Orkupakka 3 í Noregi.
Baráttufólk iðnaðarins í Noregi mun í samstarfi við verkalýðsforystuna í Björgvin og grennd taka frumkvæði að því að virkja almenning til að krefjast mikillar lækkunar raforkuverðs. Það jafngildir því, að stjórnvöld afnemi núverandi verðlagskerfi raforku og að stjórnmálamenn ákvarði raforkuverðið út frá heildarkostnaði og arðsemi í líkingu við meðalarðsemi atvinnulífsins. Norðmenn líta upp til hópa á vatnsaflið sem sitt erfðasilfur, sem þjóna eigi almenningi og eigi að skapa iðnaðinum og atvinnulífinu almennt samkeppnisforskot. Til bráðabirgða er farið fram á niðurfellingu rafskatts og virðisaukaskatts á rafmagni.
Til þess að lækka raforkuverðið með viðráðanlegum og sjálfbærum hætti eru kröfur baráttufólksins róttækar og skiljanlegar:
- Við rekstur raforkukerfisins skal leggja áherzlu á að halda miðlunargetunni ofan hættumarka á tæmingu. Stöðva ver útflutning rafmagns, þegar miðlunargetan fer niður að meðaltali árstímans.
- Ganga úr ACER og Orkusambandi ESB, en halda áfram að eiga raforkuviðskipti við nágrannalöndin Svíþjóð og Danmörk.
- Gera skal langvarandi raforkusamninga við norskan iðnað og landbúnað um fyrirsjáanleg verð og veita heimilum kost á tvíverðssamningum, t.d. dagtaxta og næturtaxta.
Þegar höfð er í huga þykkjan, sem er í Norðmönnum vegna þess, hvernig spákaupmenn komast upp með að leika sér með erfðasilfur þeirra, orkuafurð vatnsaflsins, undir verndarvæng löggjafar, sem flutt er inn frá ESB, nú síðast undir heitinu Orkupakki 3, er engin furða, að stjórnarflokkarnir hafi einfaldlega komið sér saman um að taka Orkupakka 4 af dagskrá í Noregi. Norðmenn vissu, að íslenzka ríkisstjórnin yrði fegin að þurfa ekki að leggja út í orrahríð út af Orkupakka 4, og þess vegna var ákveðið innan vébanda EFTA að salta OP4 í nefnd út þetta kjörtímabil og ESB tilkynnt þar um. Nú er hins vegar spurningin, hvort meirihluti myndast senn á Stórþinginu fyrir því að kasta OP3 í ruslakörfuna. Ef nógu margir Stórþingsmenn komast á þá skoðun, að hann vinni gegn hagsmunum Noregs, þá verður það gert. Alþingi mun varla sýta það, en spurning er, hvernig Framkvæmdastjórnin í Brüssel bregst við. Sem stendur eru Norðmenn í lykilstöðu sem einn af aðalbirgjum Evrópu fyrir jarðgas. Skrúfi Noregur fyrir, frýs í húsum Evrópu, og fyrr mun sennilega frjósa í Helvíti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.2.2022 | 10:24
Opinberar sóttvarnaraðgerðir hafa valdið tjóni, en hafa þær gert gagn ?
Hér birtist þýðing á grein sænska læknisins Sebastians Rushworth á vefsetri hans undir fyrirsögninni:
"Covid opinberlega afstaðin í Svíþjóð"
Við eigum eftir að standa andspænis öðrum og alvarlegri sjúkdómsfaröldrum en C-19. Þess vegna er nauðsynlegt að gera hlutlæga athugun á viðbrögðum hins opinbera og einkaaðila við þessum tiltölulega væga faraldri, t.d. í samanburði við ebólu, svo að móta megi hagkvæm og skilvirk og fumlaus viðbrögð við næstu faröldrum. Hefst nú grein Sebastians:
"Sænska ríkisstjórnin hefur ákveðið að binda enda á allar hömlur tengdar covid 9. febrúar 2022. Þar að auki verður samkomuhöldurum og atburðastjórnendum óheimilt að krefja gesti um bólusetningarvottorð. Ennfremur mælir landlæknir með, að covid verði ekki lengur flokkað sem "ógn við lýðheilsu". Svíþjóð er 3. í röð Norðurlandanna til að afnema covid-hömlur og fylgir þar á hæla Danmerkur og Noregs.
Ákvörðunin felur í sér viðurkenningu á þeirri staðreynd, að covid hefur breytzt úr því að vera heimsfaraldur í hefðbundna umgangspest. Landlæknir áætlar, að 500´000 Svíar hafi smitazt í viku 04/2022 [18´500 á íslenzkan mælikvarða-innsk. BJo] (sem er tvöfaldur fjöldi greindra tilvika ). Á sama tíma dó aðeins 181 af/með covid [7 á íslenzkan mælikvarða] (mögulega fleiri "með" en "af"). Það setur núverandi dánarhlutfall af covid í sömu stíu og kvef. Eins og margir hafa spáð, hefur C-19 nú orðið 5. "kvef"- kórónuveirusjúkdómurinn.
Nú þegar faraldurinn er opinberlega afstaðinn, finnst mér áhugavert að líta til baka og athuga, hversu slæmur hann raunverulega var. Áður en við gerum það skulum við minnast þess, að Svíþjóð beitti vægum úrræðum gegn faraldrinum allan tímann. Það þýðir, að Svíþjóð er gagnleg "viðmiðun" til að skilja, hvað mundi hafa gerzt, ef yfirvöld (í mörgum löndum) hefðu ekki beitt aflokunum (lockdowns), lokað skólum og þvingað alla til að setja upp grímu.
Ef við viljum skilja, hversu mikil lífsógn faraldurinn var, þá er bezti mælikvarðinn fjöldi heildardauðsfalla. Það er eini mælikvarðinn, sem ekki er auðveldlega hægt að föndra með í annarlegu augnamiði. "Coviddauðdagar" er ekki góður mælikvarði, af því að hann er túlkunaratriði. Ólíkir læknar, ólík sjúkrahús og ólík lönd, skilgreina coviddauðdaga með ólíkum hætti. Oft sést í opinberri tölfræði, að "dauðdagar með covid" (þ.e. dánarorsök önnur, en sá látni var með covid eða a.m.k. hafði slíkt próf reynzt jákvætt) eru skilgreindir sem "coviddauðdagar", sem gerir erfitt um vik að ákvarða hina raunverulegu dánartíðni af völdum covid. [Þetta á nánast örugglega við um Ísland einnig-innsk. BJo.]
Tölfræðistofnun sænsku ríkisstjórnarinnar (SCB) [Hagstofan] vinnur fyrirtaks tölfræðigögn, mögulega áreiðanlegustu opinberu tölfræðigögn í heiminum. "Harold on Twitter" hefur útbúið afar hjálpleg gröf á grundvelli þessarar tölfræði.
Á "harold-graph-1" í viðhengi koma fram heildardauðsföll í Svíþjóð 1991-2021. Við sjáum hægt fallandi dánartíðni á þessu 30 ára skeiði, frá u.þ.b. 1´100 dauðsföllum á 100´000 í byrjun 10 áratugarins niður í að meðaltali u.þ.b. 900 dauðsföll á 100´000 íbúa síðastliðin 5 ár. Þessi lækkun er líklega aðallega út af því, að vænt ævilengd í Svíþjóð hefur lengst töluvert á þessu 30 ára skeiði eða úr 78 árum 1991 í 83 ár núna.
Næst sjáum við óvenju lága dánartíðni 2019. Þess vegna var viðbúið, að árið 2020 yrði verra en meðalár af þeirri einföldu ástæðu, að árum með dánartíðni undir meðaltali fylgja vanalega ár með yfir meðaltals dánartíðni (af því að ár með undir meðaltals dánartíðni þýðir, að þá eru margir heilsuveilir við dauðans dyr í upphafi næsta árs). Við getum séð þetta á grafinu - þegar dánartíðni lækkar umtalsvert á einu ári, fylgir því venjulega hækkun dánartíðni árið eftir. Þannig verður árið 2020 líklegt til að vera með hærri dánartíðni en meðaltals dánartíðni áður en C-19 varð vart.
Þá komum við að árinu 2020, og þar sjáum við áhrif faraldursins (ásamt viðbúinni dánartíðni aðeins yfir meðaltalinu), með heildardauðsfallafjölda u.þ.b. 945 á 100´000 íbúa í samanburði við meðaltal síðustu 5 ára, sem er 900 á 100´000 íbúa. Þannig voru árið 2020 45 viðbótar dauðsföll á 100´000 íbúa í samanburði við meðaltal undanfarinna 5 ára, sem jafngildir u.þ.b. 4´600 manns. Það þýðir, að faraldurinn ásamt þeirri staðreynd, að 2020 sigldi í kjölfar árs með óvenju lága dánartíðni, olli um 4´600 viðbótar dauðsföllum, sem er 0,04 % af íbúafjölda Svíþjóðar.
Hvað getum við ályktað ?
Jú, það varð smáfjölgun dauðsfalla 2020 út af covid, en hún varð ósköp lítil. Ég segi ekki, að covid sé ekki hættulegur sjúkdómur fyrir suma hluta þjóðfélagsins, en allar fullyrðingar um, að þetta væri afar lífshættulegur faraldur á við spænsku veikina eru greinilega gríðarlega orðum auknar. Það kemur einkar vel í ljós, þegar við höldum áfram og lítum á árið 2021. Eins og fram kemur af grafinu, var dánarhlutfall það ár ekkert umfram meðaltalið. Raunar var 2021 með næstminnstu dánartíðni í sögu Svíþjóðar !
Þetta er svo þrátt fyrir þá staðreynd, að opinberar tölur sýna 6000 dauðsföll með/af covid í Svíþjóð 2021 [þetta eru 220 á íslenzkan mælikvarða]. Greinilega voru þá flest þessara 6000 dauðsfalla fremur "með" en "af" covid, eða fólkið, sem dó af covid var flest komið svo að fótum fram, að það hefði látizt árið 2021 hvort eð var, jafnvel án covid.
Þegar við skoðum gögnin mánuð fyrir mánuð (aftur leyfi frá Harold og SCB, sjá viðhengi þessa pistils), sjáum við dálítið áhugavert [harold-graphs-2-1].
Við sjáum dauðsföll yfir meðaltali í Svíþjóð frá apríl til júní 2020 og síðan aftur frá nóvember 2020 til janúar 2021. Í öllum öðrum mánuðum þessa tveggja ára tímabils voru dauðsföllin færri en búast mátti við. Þannig voru umframdauðsföll af völdum þessarar veiru í reynd aðallega á tveimur stuttum tímabilum, og var annað vorið 2020 og hitt veturinn 2020/2021. Utan þessara tveggja tímabila voru áhrif veirunnar lítil. Sænska ríkisstjórnin hefur opinberlega lýst yfir lokum faraldursins nú, en sé litið á tölfræði mánaðarlegra heildardauðsfalla, lítur út fyrir, að honum hafi lokið fyrir einu ári [líklega með hjarðónæmi í Svíþjóð - innsk. BJo].
Jæja, þetta var um það, hvernig covid lék Svía, þjóðina, sem aldrei var beitt aflokunum á starfsemi og sem margir gerðu lítið úr sem "útlagaþjóð" á fyrri hluta faraldursskeiðsins. Þegar við hins vegar skoðum tölfræði heildarandláta og sjáum fjöldann, sem raunverulega dó af völdum covid, er alveg ljóst, að Svíþjóð var e.t.v. landið, sem brást viturlegast við faraldrinum með aðgerðum, sem voru að mestu í samræmi við ógnina, sem við blasti. Aðrar þjóðir á hinn bóginn gengu fram með slaghömrum gegn flugum.
Eitt er það, sem áhugavert er að hugsa um í ljósi þessa, og það er heildardauðsfallafjöldi á 100 k íbúa í öðrum löndum. Fyrst Svíþjóð, sem skellti ekki í lás, var aðeins með örlítið fleiri dauðsföll 2020 en að meðaltali 5 árin á undan og engin umframdauðsföll 2021, er ljóst, að covid-19 hefur í sjálfu sér ekki valdið umtalsverðu tjóni. Það þýðir, að tíðni dauðsfalla umfram smáræðið í Svíþjóð í löndum, sem skelltu í lás (lockdown), getur ekki verið vegna veirunnar. Orsakanna hlýtur að verða að leita annað. Fyrst hið hina, sem skildi að Svíþjóð og þessi önnur lönd um þetta 2 ára skeið, var höfnun [Svíþjóð] og notkun [aðrir] aflokana, er næstum örugglega hægt að skýra umframdauðsföll með aflokunum.
Tökum Bandaríkin (BNA) sem dæmi. Ólíkt Svíþjóð var víða í BNA gripið til stórtækra aflokana. Komu þessar aflokanir í veg fyrir einhver covid-dauðsföll ? Ja, ef við lítum bara á hráar tölurnar, þá sjáum við enga slíka fækkun dauðsfalla m.v. Svíþjóð. Samkvæmt opinberum tölum hafa 0,27 % bandarísku þjóðarinnar látizt af/með covid [Ísland 0,01 %] í samanburði við 0,16 % Svía - þrátt fyrir aflokanir hafa Bandaríkjamenn mátt þola marktakt fleiri covid-dauðsföll en Svíar m.v. 100 k íbúa !
Þetta er í samræmi fjölda gagna, sem sýna fram á, að opinberar aflokanir og hömlur á samkomum og rekstri voru óskilvirkt úrræði gagnvart SARS-CoV-2. Nú fyrst við vitum, að höftin eru óskilvirkt úrræði til að stöðva veiruna, mundum við búast við, að í BNA væru áhrif faraldursins á heildarandlátsfjöldann svipuð og í Svíþjóð - þ.e. smávegis aukningu í fjölda heildarandláta má búast við. Ef á hinn bóginn aukningin er miklu meiri í BNA en í Svíþjóð, þá er hún líklega sökum haftanna. Hvað sjáum við á grafinu "image-1", sem reist er á gögnum CDC (Sóttvarnastofnun BNA) í viðhengi ?
Við sjáum aukningu í heildarfjölda andláta í BNA 2020 og 2021, sem er markvert meiri en í Svíþjóð. Í Svíþjóð er hlutfallsleg aukning heildarfjölda andláta 1 % í samanburði við meðaltal áranna 5 á undan (frá 900 dauðsföllum á 100 k árin 2015-2019 til 912 dauðsföll á 100 k árin 2020-2021).
Í BNA er hlutfallsleg aukning heildardauðsfalla 18 % ! (frá 860 dauðsföll á 100 k árin 2015-2019 til 1016 dauðsföll á 100 k árin 2020-2021). Það er 18-föld meiri aukning dauðsfalla á þessum 2 árum farsóttarinnar í BNA en í Svíþjóð !
Samantekt: BNA er með innan við tvöfalt fleiri [1,7 sinnum fleiri] covid-dauðsföll en Svíþjóð (0,27 % af bandarísku þjóðinni m.v. 0,16 % af sænsku þjóðinni), en 18 sinnum fleiri umframdauðsföll [frá meðaltali] ! Greinilega er ekki hægt að útskýra þann gríðarlega mun með veirunni. Það verður að útskýra hann öðruvísi. Eina haldbæra skýringin frá mínu sjónarhorni eru hrikalegar afleiðingar haftanna á frelsi fólks og fyrirtækja fyrir heilsufar almennings. Það verður áhugavert að fylgjast með því, hvort bandaríska þjóðin lætur stjórnmálaforystu sína á næstu árum gjalda fyrir gríðarlegan skaða, sem hún hefur valdið þjóðinni með dómgreindarleysi sínu." Undirstrikun þýðanda.
Sóttvarnaryfirvöld hérlendis sitja við sinn keip og fullyrða án þess að hafa rannsakað það neitt nánar, að alls konar dýrkeyptar hugdettur þeirra, sem framkvæmdar hafa verið umhugsunarlítið með útgáfu reglugerða heilbrigðisráðherra, hafi gert eitthvert gagn. Þá er því oftast kastað fram, að höftin hafi dregið úr álagi á heilbrigðiskerfið. Hér skal kasta fram þeirri tilgátu, að málinu sé öfugt farið. Höftin hafi aukið álag á heilbrigðiskerfið, og er þá vísað til þessarar athugunar Sebastians Rushworth hér að ofan. Öfgar sóttvarnaryfirvalda hafa verið yfirgengilegar með því t.d. að skikka einkennalausa og börn í sóttkví og hvetja foreldrana til að láta bólusetja börn sín í miðjum ómíkrón faraldri, sem bóluefnin eru frá upphafi gagnslaus gegn, og varnarmáttur þeirra hvarf á hálfu ári gagnvart fyrri afbrigðum.
Það er rík ástæða fyrir Alþingi til að verja almenning gegn öfgum lækna og annarra, sem blygðunarlaust hræða almenning til fylgilags við öfgafullar skoðanir sínar um frelsissviptandi forsjárhyggju sína. Það verður að beizla sóttvarnarlækni á hverjum tíma með víðsýnu sóttvarnaráði, skipuðu fólki úr öllum lögum samfélagsins, eins og núverandi heilbrigðisráðherra hefur nú í hyggju. Ný sóttvarnarlög ættu að taka völdin af ráðherra til frelsissviptinga almennings með reglugerð. Aðeins Alþingi á að geta veitt ráðherra slíkar heimildir, sem hann síðan útfærir í samráði við sóttvarnarráð, en hvorki landlækni né sóttvarnalækni eina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.2.2022 | 20:54
Örvænt um vitræna orkumálaumræðu
Framkvæmdastjóri félagsskapar, sem kallaður er Landvernd, Auður Önnu Magnúsdóttir, hefur gengið fram af mönnum fyrir sinn útúrborulega málflutning um íslenzkar virkjanir til raforkuvinnslu, einkum þær, sem enn hafa ekki komið til framkvæmda, en eru í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3 og nauðsynlegt er að færa af undirbúningsstigi yfir á framkvæmdastig eina af annarri á næsta aldarfjórðungi, ef hér á að verða hagvöxtur, næg atvinna og ef orkuskiptin eiga að verða barn í brók. Svipaða sögu er að segja af baráttu hennar gegn 220 kV flutningslínum raforku.
Téð mannvitsbrekka sá sig knúna til að hella úr vizkuskálum sínum yfir landslýð 16.01.2022 af því tilefni, að forstjóri Landsvirkjunar hafði þá nýlega tjáð sig um virkjanaþörf fyrir orkuskipti Íslendinga. Hún er um 50 % af núverandi orkugetu að hans mati, sem eru um 10 TWh/ár ný orkuvinnslugeta. Á þessum og næsta áratugi verður vonandi hagvöxtur og íbúum landsins fjölgar, þannig að orkuþörfin mun vaxa umfram það, sem orkuskiptin útheimta, e.t.v. um 35 % á 20 árum, enda skapa orkuskiptin viðskiptatækifæri til útflutnings á "grænu" eldsneyti.
Framkvæmdastjóri Landverndar talar vafalaust í nafni félagsins, þegar hún tilkynnir, að nóg sé komið af virkjunum á Íslandi. Spurð, hvernig eigi þá að uppfylla markmið ríkisstjórnarinnar um losun gróðurhúsalofttegunda, koma svör, sem sýna, að hún talar í senn af fullkomnu þekkingarleysi og ábyrgðarleysi gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum landsins.
Hún segir lausnina vera orkusparnað, en raunhæfur orkusparnaður fæst sjaldnast án fjárfestinga, og raforkan, sem hægt er að spara hérlendis með tækniframförum, mun aðeins nema broti af raforkuþörf orkuskiptanna. Einna stærsta orkusparnaðarverkefnið, sem nú er í gangi, er ný 220 kV Byggðalína í stað 132 kV línu, en Landvernd hefur einmitt lagt steina í götu þeirrar framkvæmdar og tafið hana stórlega. Þá hefur hún nefnt nýtingu á varmatöpum stóriðjunnar, en hitastigið er yfirleitt svo lágt í strompum verksmiðjanna, að enga raforku er hægt að vinna með þeirri orku, en e.t.v. með ærnum kostnaði hægt að nýta hana í fjarvarmaveitu.
Ef/þegar álverin söðla yfir í kolefnisfría rafgreiningu súráls, mun orkuþörf álveranna aukast að öðru óbreyttu, því að raforka þarf að koma í stað varmaorku frá bruna kolaforskautanna til að viðhalda hitastigi raflausnarinnar.
U.þ.b. 1 TWh/ár kann að fara núna til gagnaveranna í landinu. Fundið hefur verið að þessari sölu vegna þess, að talsvert af orkunni fer í "námugröft" eftir Bitcoin og öðru slíku. Eru slíkar aðfinnslur í samræmi við einstæða hvatningu nýs orkumálastjóra til orkufyrirtækjanna um að láta ekki viðskipti við fyrirtæki ráðast af því, hver býður hæsta verðið, heldur að setja orkuskiptaverkefni í forgang. Standast þessar hvatningar orkumálastjóra ákvæði orkulaga (Orkupakka 3) varðandi frjálsa samkeppni og jafnræði ?
Allt er þetta krepputal afleiðing af þeim raforkuskorti, sem fyrirhyggjuleysi stjórnvalda hefur leitt yfir þjóðina. Landsmenn standa nú frammi fyrir fulllestuðu raforkukerfi, sem þýðir, að vegna aflskorts (vöntun á nýjum virkjunum) mun verða að neita öllum óskum um raforku til nýrra verkefna og sennilega að neita fyrirtækjum um afhendingu ótryggðrar raforku, sem er 5-10 % af heildargetu raforkukerfisins, næstu 5 árin, eða þar til ný virkjun, sem eitthvað kveður að á landsvísu, kemst í gagnið. Augljóslega setur þessi staða loftslagsmarkmið stjórnvalda í uppnám, enda voru þau orðin tóm, þar sem það vantaði, sem við átti að éta.
Staksteinar Morgunblaðsins gátu ekki orða bundizt 20. janúar 2022 um delluna, sem upp úr framkvæmdastjóra Landverndar vellur:
"Þar [í viðtali á RÚV 16.01.2022 um virkjunarþörf versus orkusparnað Landverndar - innsk. BJo] nefndi hún t.d. strandsiglingar til vöruflutninga, sem lognuðust út af um aldamót. En hvað er Landvernd að segja ? Að fólk úti á landi sé ekki of gott til þess að neyta tveggja vikna gamallar dagvöru og geti vel beðið eftir sendingum ?"
Þessi málflutningur framkvæmdastjóra Landverndar er aðeins ein birtingarmynd þeirra afturhaldsviðhorfa, sem eru grundvöllur stefnu Landverndar yfirleitt. Ekki ber þó að útiloka strandsiglingar. Þungaflutningar valda megninu af vegslitinu og þar með viðhaldsþörf þjóðveganna. Þegar þetta ásamt aukinni slysahættu af völdum þungaflutninga á vegum er tekið með í reikninginn, kann vel að vera, að strandsiglingar með annað en dagvöru neytenda, t.d. með rusl að nýrri sorpbrennslustöð, sem gefur frá sér varmaorku og raforku, verði senn hagkvæmar, en bæði þungaflutningar á landi og sjó munu þurfa sitt rafeldsneyti, sem engin raforka er nú til í landinu til að framleiða.
"Aðalmálið sagði hún samt millilandaflugið. "Þar verðum við að sætta okkur við, að við getum ekki verið að fljúga til útlanda þrisvar á ári hver einasta manneskja, eins og við gerðum fyrir Covid." Þar fer hún með rangt mál. Árin fyrir plágu lætur nærri, að það hafi verið 1,7 ferðir á hvert mannsbarn."
Hvers vegna gerir framkvæmdastjóri Landverndar svo mikið úr utanlandsferðum Íslendinga ? Þær skipta ekki sköpum fyrir heildarlosun millilandaflugs til og frá Íslandi, og millilandaflug í heiminum skiptir ekki sköpum fyrir losun koltvísýrings á heimsvísu. Þar að auki er afar sennilegt, að 2030-2040 muni koma fram tækni, sem leysir jarðefnaeldsneyti af hólmi í millilandaflugvélum. Ef hugarfar Auðar Önnu Magnúsdóttur yrði hins vegar ráðandi í heiminum, yrðu engar framfarir í þessa veru. Afturhaldssjónarmið Landverndar hefja neyzlusamdrátt og núllvöxt til skýjanna. Þetta er hins vegar vís leið til fjöldaatvinnuleysis og fjárhagslegra vandræða um allt þjóðfélagið og um allan heim, ef því er að skipta. Enginn ábyrgur stjórnmálamaður getur léð máls á slíku, en engu að síður smjaðrar nánast öll vinstri slagsíða stjórnmálanna á Íslandi fyrir þessum útúrboruhætti.
Gervifjölmiðlar gera heldur enga athugasemd við delluna frá Landvernd, en það gerir alvörufjölmiðill á borð við Morgunblaðið aftur á móti:
"En það, sem Landvernd þarf að útskýra, er, hvernig þessum markmiðum skal náð, því [að] leiðirnar eru ekki margar. Með átthagafjötrum ? Með skömmtunarstofu utanlandsferða ? Með skattheimtu, svo [að] aðeins efnafólk hafi efni á utanlandsferðum ?
Í leiðinni mætti Auður segja okkur, hversu margar flugferðir hafa verið farnar á vegum Landverndar, nú eða fráfarins umhverfisráðherra hennar eða annarra í svipuðum erindum á ráðstefnur úti í heimi árin fyrir fraldurinn, og þess vegna [á] meðan á honum stóð."
Þarna varpa Staksteinar ljósi á hræsnina, sem umlykur öfgagræningja. Getur verið, að kolefnisfótspor öfgagræningjans sé stærra en meðalkolefnisspor landsmanna ? Ef við tökum tillit til afleiðinga baráttu þessara græningja gegn orkutengdum framkvæmdum undanfarinn áratug nú í raforkuskortinum, þá er engum vafa undirorpið, að kolefnisfótspor öfgagræningja er risastórt í öllum samanburði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2022 | 18:26
Tvær mikilvægar útflutningsgreinar í upphafi árs 2022
Sjávarútvegurinn nýtur velgengni á erlendum mörkuðum um þessar mundir, sem endurvarpast í hátt verð hér innanlands, t.d. er slægður þorskur nú á skrifandi stundu á tæplega 600 ISK/kg. Allt veltur á afkomu sjávarútvegsins í þorpum og kaupstöðum við strandlengju landsins, og hann gegnir lykilhlutverki fyrir hagsæld allrar þjóðarinnar. Það er áfram svo, að velgengni sjávarútvegs tryggi hagsæld þjóðarinnar, og vandræði þar og trosnandi eigið fé ógni velsæld hennar að sama skapi, þótt gjaldmiðillinn dansi ekki lengur eftir pípu sjávarútvegsins; svo er hinni stóru útflutningsgreininni, afurðum þungaiðnaðarins, fyrir að þakka.
Þróun íslenzka sjávarútvegsins á 21. öldinni hefur verið ánægjuleg og athyglisverð. Hann hefur nýtt aukna fjárfestingargetu sína í kjölfar fækkunar togara á Íslandsmiðum til tæknivæðingar á sjó úti og í landi, svo að greinin hefur reynzt vera samkeppnishæf erlendis, sem er algert lykilatriði fyrir grein, sem flytur út um 95 % framleiðslu sinnar. Greinin hefur líka í krafti vísindalegrar þróunar rutt braut bættri nýtingu hráefnisins, svo að hún er nú í stakkin búin til fullnýtingar hráefnisins. Það er afar virðingarvert og umhverfisvænt að taka þessa stefnu, og þetta mun reynast arðsöm fjárfesting, sem þegar veitir fjölbreytilegum hópi starfsfólks vinnu. Má kalla þetta einkenni íslenzks atvinnulífs, að grunnatvinnuvegirnir, sjávarútvegur, iðnaður og landbúnaður, mynda kjarnann í klösum fjölbreytilegrar starfsemi, sem oft nær að þróa sprota, sem framleiða bæði fyrir innlendan og erlendan markað. Þetta er heilbrigt og kvikt (dýnamískt) samfélag, eins og önnur fræg slík.
Það væri arfavitlaus hugdetta stjórnmálamanna að fara nú út í vanhugsaða og þarflausa tilraunastarfsemi með sjávarútveginn, sem reyndar hvergi hefur gefið góða raun. Því fjær sem stjórnmálamenn halda sig frá málefnum sjávarútvegsins, þeim mun betra. Þeir skópu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi í góðu samstarfi við auðlindahagfræðinga o.fl. til að gera atvinnugreinina sjálfbæra, sem hún var fjarri því að vera, enda er þessi atvinnugrein víðast hvar stunduð með ósjálfbærum hætti, líffræðilega og/eða fjárhagslega.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, reifaði sjávarútveg nútímans í Morgunblaðsgrein á gamlaársdag 2021 og nefndi hana:
"Það veltur margt á íslenzkum sjávarúvegi".
Þar gerði hún m.a. nýlega skýrslu um sjávarútveginn að umtalsefni:
"Skýrsla, sem gerð var að beiðni sjávarútvegsráðherra um stöðu og horfur í íslenzkum sjávarútvegi og fiskeldi, var kynnt í vor. Ritstjóri er Sveinn Agnarsson, prófessor við Háskóla Íslands. Í henni kemur m.a. fram, að:
"Sjávarútvegur hefur verið uppspretta helztu tækniframfara og nýsköpunar í hinu íslenzka hagkerfi, og samvinna fyrirtækja í sjávarútvegi, vísindasamfélagsins og yfirvalda, hefur verið mikil og öflug." Þarna er ekkert ofsagt og benda má á, að Nýsköpunarverðlaun Íslands hafa á tímabilinu 2011-2020 6 sinnum komið í hlut fyrirtækja, sem með einum eða öðrum hætti tengjast sjávarútvegi."
Vafalaust hafa þau Sveinn og Heiðrún Lind traust gögn við höndina, sem sýna þetta svart á hvítu, því að djúpt er tekið í árinni. Það er stórmerkilegt, að sjávarútvegur nútímans á Íslandi er nú orðin "uppspretta helztu tækniframfara og nýsköpunar í hinu íslenzka hagkerfi", og skákar þar með t.d. hefðbundnum iðnaði og stóriðnaði og landbúnaði, þar sem gríðarleg sjálfvirknivæðing og framleiðniaukning í krafti hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausna hefur átt sér stað undanfarna 3 áratugi.
Þessi þróun mála sýnir einfaldlega, að sjávarútvegur nútímans á Íslandi hefur fundið fjölina sína í samfélaginu. Þessu jafnvægi mega óánægju- og öfundaröfl, sem lítt eru til nokkurs uppbyggilegs fallin, ekki ná að raska. Af því hlytist þjóðhagslegt tjón, reyndar efnahagsslys.
"En á hitt skal bent, að sjávarútvegur er ekki eingöngu skip á sjó og vinnsla í landi. Hann er margfalt umsvifameiri en svo, og það eru svo ótrúlega margir, sem reiða sig á sterkan sjávarútveg, sem er í efnum til að fjárfesta. Og einmitt þarna verða til mikil og arðbær tækifæri.
Vilji fólk sjá heildarsamhengið, þá ætti að blasa við, að hlúa beri að þeim sprotum, sem vaxa í kringum sjávarútveg á Íslandi. Sumir hafa náð miklum styrk og gert sig gildandi á erlendum markaði; aðrir eru að skjóta rótum. Hug- og handverki eru engin takmörk sett, og nú þegar nemur útflutningur þeirra tugmilljörðum króna á ári, og í þessum fyrirtækjum starfar vel menntað fólk í góðum og verðmætum störfum."
Ef farið verður í hægfara þjóðnýtingu á sjávarútvegi með einhvers konar innköllun veiðiheimilda, sem reyndar mundi væntanlega varða við eignarréttarákvæði Stjórnarskrár (nýtingarréttur er ein tegund eignarréttar), og veiðiheimildum endurúthlutað með kostnaðarsömum hætti fyrir útgerðirnar, þá blasir við, að sprotar sjávarútvegs verða fyrsta fórnarlambið og síðan minnka fjárfestingar í nýjum búnaði á sjó og á landi. Núverandi kerfi hefur vel gefizt, og stjórnmálamenn (þetta er þó alls ekki algilt) ættu að láta af löngun sinni til að hræra í atvinnuvegum, sem vel ganga.
Hin meginútflutningsgreinin, orkusækinn iðnaður, gengur líka vel um þessar mundir, enda skortur á vörum hans á heimsmarkaði vegna breyttra aðstæðna í Kína og "mengunartolla" inn á Innri markað ESB. LME-markaðsverð á hrááli er nú um 3000 USD/t, sem er tvöföldun verðs í upphafi Kófs, og fyrirtæki með sérhæfða gæðaframleiðslu á borð við ISAL hafa verið að fá allt að 1000 USD/t til viðbótar (premía) fyrir sína sívalninga.
Akkilesarhæll álveranna nú á tímum er koltvíildislosunin, þótt álið spari reyndar meiri losun koltvíildis á endingartíma sínum en nemur losuninni við framleiðsluna, ef það er t.d. notað til að létta farartæki. Í þróun er ný tækni rafgreiningar súráls með eðalskautum, sem eru án kolefnisinnihalds. Þangað til sú tækni verður fjárhagslega fýsileg að teknu tilliti til kolefnisgjaldanna, sem Evrópusambandið (ESB) leggur á í sínu ETS-viðskiptakerfi, væri hægt að fara leið kolefnisbindingar með skógrækt og landgræðslu, ef ESB hefði samþykkt slíkt sem staðlað mótvægi, því að Ísland nýtur sérstöðu nógs landrýmis fyrir skógrækt og uppgræðslu lands. Þrátt fyrir miklar umræður á COP-26 í Gljáskógum í vetur, fékkst ekki niðurstaða í málið.
Hins vegar hefur ISAL ákveðið að freista annarrar leiðar til að draga úr gróðurhúsaáhrifum og fjárhagsbyrði af kolefnisgjöldum ESB. Sú leið er tæknilegur og fjárhagslegur vonarpeningur enn, enda dýr m.v. skógræktina og krefst mikillar auðlindanotkunar á formi lands, vatns og rafmagns. Einhverjum gæti orðið að orði, að hér væri verið að skjóta spörfugl með kanónu, enda er ekki vitað til, að álver erlendis séu ginnkeypt fyrir þessu. Rio Tinto lítur reyndar á þetta sem "pilot plant" fyrir aðrar verksmiðjur sínar, en aðstæður eru þó misjafnar á hverjum stað.
Þann 6. janúar 2022 birti Sigtryggur Sigtryggsson baksviðsfrétt í Morgunblaðinu um þetta mál undir fyrirsögninni:
"Höfnin í Straumsvík stækkuð":
"Þessar framkvæmdir [við hafnargerð] tengjast áætlunum um stórauknar skipakomur í Straumsvík á komandi árum vegna innflutnings og niðurdælingar á kolefni í svonefndu Carbfix-verkefni.
Í fjárfestingaráætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2022 og langtímaáætlun er gert ráð fyrir fjármunum til hönnunar og undirbúnings uppbyggingar á hinu nýja hafnarsvæði í Straumsvík [norðan núverandi stórskipabryggju-innsk. BJo]. Stefnt er að því, að verklegar framkvæmdir á svæðinu geti hafizt ekki síðar en árið 2024 og svæðið verði tilbúið árið 2027. "Þetta er mjög spennandi verkefni, sem vinna þarf hratt og skipulega", segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri."
Vonandi er hafnarstjórinn með tryggingar í höndum um framtíðar viðskipti, þ.e. skip í flutningum á koltvíildi til Íslands og kannski vetni frá Íslandi, því að kynningar á viðskiptahugmyndum Carbfix bera sterkan keim af skýjaborgum. Opinberir aðilar verða að fá meira en loftkenndan fagurgala áður en farið er út í viðamiklar framkvæmdir.
Það hljómar ótrúlega, að traustir viðskiptaaðilar fari að leggja í mikinn kostnað við að draga CO2 út úr afsogi sínu, flytja það að hafnarbakka t.d. í norðanverðri Evrópu, kosta upp á siglingu nokkur þúsund km leið og að lokum aflestun skipstanka í Straumsvík og niðurdælingu í berg þar í grennd. Þetta hljómar ekki, eins og það sé lífvænleg viðskiptahugmynd. Þessu lýsir téður Sigtryggur þannig í fréttinni:
"Þetta stefnumótandi samstarf felur í sér, að á lóð Rio Tinto við álverið í Straumsvík verður komið upp fyrstu móttöku- og förgunarstöð í heimi fyrir CO2, svokallaðri Coda Terminal. Þangað verður koldíoxíð einnig flutt í fljótandi formi sjóleiðina frá iðjuverum í Norður-Evrópu og því breytt í stein með Carbfix-aðferðinni við Straumsvík."
Það má mikið vera, ef þessi hugarleikfimi á eftir að verða barn í brók, þ.e. arðvænleg viðskiptahugmynd. Fróðlegt væri að sjá áhættugreininguna fyrir þetta verkefni og úrvinnslu á þeim hindrunum, sem þar koma fram. Hversu hreint verður niðurdælt koltvíildi ? Er verið að menga jarðveginn í Straumsvík ? Umhverfisstofnun þarf að komast til botns í því, en rúmtak hvers tonns af CO2 í jarðveginum mun verða 10 m3 af steindum í basalti.
Verkefnið sýnir þó svart á hvítu, að Rio Tinto/ISAL er full alvara með að draga úr gróðurhúsaáhrifum á hvert framleitt áltonn. Rio Tinto er nú með í tilraunastöð sinni í Frakklandi (áður í eigu ríkisálfélagsins Pechiney) í gangi tilraunaker í einum kerskála, sem í eru eðalskaut (keramík), sem ekkert koltvíildi losa út í andrúmsloftið við rafgreininguna. Það verður hin endanlega lausn á þessu viðfangsefni. Sú tækni þarf nokkru meiri raforku á hvert framleitt áltonn en gamla Hall-Heroult-tæknin, og þá styrkist samkeppnisstaða landa með "græna" hagstæða raforku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.2.2022 | 17:15
Næg raforka er undirstaða hagvaxtar og velmegunar
Það kom fram hjá Stefáni Einari Stefánssyni, fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu á gamlaársdag 2021, að Ísland hefði á árinu 2020 (Kófsbæling í algleymingi) reynzt vera með 5. hæstu landsframleiðslu á mann í USD í heiminum að teknu tilliti til "kaupmáttarjafnvægis" (Purchasing Power Parity) eða kUSD 55,2, en fyrir ofan voru Bandaríkin, kUSD 63,4, Noregur, kUSD 63,3, Danmörk, kUSD 60,6 og Holland, kUSD 59,3. Íslendingar eiga raunhæfa möguleika á að bæta stöðu sína enn í þessum samanburði. Það gæti t.d. gerzt, ef ferðamennskan í ár (2022) verður líflegri en í fyrra og aukningin hér verði hlutfallslega meiri en t.d. í Hollandi og Danmörku. Ef spár um loðnuvertíðir í ár og næstu ár rætast, mun útflutningur loðnuafurða einnig hjálpa til, en hagkvæmnin verður minni en efni stóðu til vegna tímabundins offramboðs, og af því að brenna verður dýrri olíu í kötlum fiskimjölsverksmiðjanna í stað rafhitunar, sem búið er fjárfesta mrdISK 3-4 í.
Það mundi og vafalítið einnig gerast, án tillits til uppgripa erlendra ferðamanna og loðnu, ef hér verður nægt framboð orku, raforku og varmaorku, á hagstæðu verði fyrir notendur. Því miður eru mörg teikn á lofti um, að svo verði ekki á næstu árum vegna mikils hægagangs í öflun virkjanaleyfa, sem eitthvað munar um, hjá virkjanafyrirtækjunum. Þar er eiginlega bara HS Orka, sem er með eitthvað (35 MW) í bígerð. Lognmolla hvílir yfir opinberu fyrirtækjunum. Þessi staða er grafalvarleg fyrir þróun hagvaxtar í landinu, og landsmenn tapa vegna raforkuskorts af nýjum tækifærum til sjálfbærrar nýrrar verðmætasköpunar.
Auðvitað eru miklar áhyggjur af þessu innan atvinnulífsins, þótt miklar fjarvistir vegna einkennalausrar sóttkvíar og einangrunar þeirra, sem greinzt hafa með C-19, yfirskyggi önnur vandamál í flestum fyrirtækjum núna. Allt moðverk sóttvarnaryfirvalda, skimanir, greiningar, rakningar, sóttkví, einangrun, samkomutakmarkanir og rekstrarhömlur, mætti nú að ósekju missa sín. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ritaði grein af hófsemd um ógöngur orkumálanna í Morgunbaðið 30.12.2021 undir fyrirsögninni:
"Sjálfbær nýting endurnýjanlegra orkulinda":
"Orkunýtingin hefur skipt gríðarlegu máli við þróun íslenzks samfélags; auk orkufyrirtækjanna sjálfra eru rekin öflug fyrirtæki, sem nýta orkuna, gróðurhúsaáhrif nýtingarinnar eru hverfandi, alls kyns fyrirtæki í tækni, ráðgjöf, sölu og þjónustu hafa sprottið upp; mikill fjöldi fólks byggir afkomu sína á störfum þessu tengdum, og opinber rekstur og þjónusta nýtur góðs af skattgreiðslunum."
Þetta er hverju orði sannara hjá Halldóri Benjamín. Þrátt fyrir bölbænir vinstri manna, þegar þessi slóð var rudd á dögum Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971, hefur orkukræfur iðnaður vaxið og dafnað, og í kringum hann hefur myndazt klasi flutningafyrirtækja, vélaverkstæða, rafmagnsverkstæða, verkfræðistofa o.fl. Stórnotendur rafmagns, sem mynda kjarnann í þessum klasa, eru líka grundvöllur að hagstæðu raforkuverði til almennings, sem nýtur einfaldlega góðs af hagkvæmni stærðar raforkukerfisins í þessu tilviki.
Mikil þekking hefur líka safnazt upp í orkufyrirtækjunum, sem þurfa að glíma við séríslenzk viðfangsefni vegna þess, sem einkennir íslenzka raforkukerfið, þ.e. fáeinir stórnotendur og 2 aðalvirkjanasvæði (Suðurland og Austurland), sem tengd eru saman með langri og veikri Byggðalínu í hring. Blönduvirkjun og Kröfluvirkjun ásamt Þeistareykjavirkjun þarna á milli bæta rekstrarskilyrði landskerfisins (styrkja kerfið).
Nokkru seinna vék Halldór Benjamín að því sjálfskaparvíti, sem nú veldur atvinnulífinu stórtjóni, sem mun vaxa ár frá ári, nema næstu vatnsár verði mjög hagstæð, þ.e. ótrúlega óskilvirku, þunglamalegu og dýrkeyptu leyfisveitingaferli fyrir nýjar virkjanir, sem nú hefur framkallað orkuskort, sem veldur aukinni olíubrennslu og mun hægja á orkuskiptunum:
"Lagaumhverfið hefur hins vegar reynzt snúið við að eiga. Ný náttúruverndarlög frá árinu 2013 takmarka mjög allar framkvæmdir á friðlýstum svæðum og banna þær í þjóðgörðum, nema þær, sem tengjast þjóðgarðinum sjálfum. Skipulagslög, ný lög um mat á umhverfisáhrifum áætlana og framkvæmda, og fleiri lagabálkar, gera að verkum, að allar nýjar virkjanir (og raflínur) þurfa að fara í gegnum langt og flókið ferli, þar sem sveitarstjórnir og almenningur hefur mikið um að segja, hvort framkvæmdin geti orðið að veruleika. Þessi lög eru þó að mestu svipuð og almennt gerist í Evrópu og hafa þróazt svipað og þar."
Kannski liggur hundurinn grafinn þar, að aðstæður á meginlandi Evrópu eru gjörólíkar aðstæðum hérlendis, og þess vegna gæti lausnin á þessu alvarlega vandamáli falizt í séríslenzkri lagasetningu um virkjanir og flutningslínur, en það er ljóst, að þá þurfa kunnáttumenn og lagasmiðir að láta hendur standa fram úr ermum. Orð innviðaráðherrans í kosningabaráttunni gætu gefið von um glætu í þessum efnum. Honum er áreiðanlega ljóst, hvað er í húfi fyrir þjóðarbúið og fyrir orðstír Íslands á tímum meintrar loftslagsvár. Það er saga til næsta bæjar á tímum, þegar reynt er hvarvetna að draga úr bruna jarðefnaeldsneytis, skuli þessi bruni vaxa á Íslandi vegna raforkuskorts, þótt nóg sé af endurnýjanlegum og óvirkjuðum orkulindum í landinu. Þetta er merki um óstjórn og er eins og þriðja heims heilkenni á samfélaginu.
Að lokum skrifaði Halldór Benjamín:
"Það blasir við, að lagaumhverfi nýrra virkjana er orðið allt of flókið og að nauðsynlegt er að endurskoða það. Fyrsta verkefnið hlýtur að vera að endurmeta ferlið við rammaáætlun m.a. með hliðsjón af lagabreytingum, sem átt hafa sér stað frá því, að lögin um verndar- og orkunýtingaráætlun voru samþykkt.
Nýting endurnýjanlegra orkulinda dregur úr losun og stuðlar að sjálfbærri þróun íslenzks samfélags og verður að taka mið af efnahags- og félagslegum þörfum okkar og komandi kynslóða ekki síður en náttúru- og umhverfisvernd."
Ef beitt er beztu tækni og hönnun tekur mið af lágmörkun breytinga á umhverfinu, þótt það komi niður á hagkvæmni virkjunar, þá mun kostnaðar- og ábatagreining leiða í ljós, að verjandi er að virkja allt, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3 og flest af því, sem þar er í biðflokki. Hér er um að ræða allt að 2200 MW í uppsettu afli og 16 TWh/ár. Þetta er nóg næstu áratugina.
Ráðherra umhverfis-, orku- og loftslags hefur skipað nokkra starfshópa til að safna gögnum og gera tillögur um, hvernig koma mætti framkvæmdum á skrið í orkugeiranum. Upplýsingarnar um stöðu Rammaáætlunar, virkjanaundirbúnings og flutningskerfis eru fyrir hendi. Nú þarf að forgangsraða og hleypa fullhönnuðum verkefnum af stokkunum. Stytztur aðdragandi er að smáum vatnsaflvirkjunum, P<10 MW. Ráðherra yrði orkujafnvæginu í landinu gagnlegur, ef hann mundi einfalda og straumlínulaga undirbúningsferli smávirkjana og greiða götu tafarlausrar tengingar þeirra við dreifikerfi landsins, en vonandi fellur hann ekki í freistni og leyfir vindmyllugarða nærri byggð eða á áberandi stöðum og fórnar þannig sérstöðu Íslands sem lands endurnýjanlegra orkulinda með orkumannvirki, sem falla vel að umhverfinu. Um slíkt getur líklega sízt náðst sátt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.1.2022 | 10:35
Loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar eru í uppnámi
Þingmenn flestir og fjöldi annarra þreytast ekki á þeirri tuggu, að loftslagsmálin séu mál málanna í heiminum og einnig á Íslandi. Hvað Íslendinga varðar er staðan sú, að það er alveg sama hvað þeir gera. Þeir munu í öllum tilvikum hafa hverfandi, nánast engin, áhrif á styrk koltvíildis í andrúmslofti, og allt tal um að aðrar þjóðir líti hingað í leit að fyrirmyndum í orkumálum er ímyndun ein.
Við eigum engu að síður að einhenda okkur í orkuskiptin, en á réttum forsendum. Þær eru efnahagslegs eðlis, eins og heimurinn hefur fengið forsmekkinn af í vetur, og heilsufarslegs eðlis, því að bruni jarðefnaeldsneytis mengar nærumhverfið með sóti, brennisteinsildum, níturildum og þungmálmum.
Það er hins vegar löngu orðið ljóst, að fjölþjóðlegar skuldbindingar Íslands um 55 % minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 en árið 2005 eru í uppnámi, og líkur á því, að hægt verði að fara í nægilega hröð orkuskipti á komandi 8 árum til að standa við þessar skuldbindingar íslenzkra stjórnmálamanna, þ.e. ríkisstjórna Katrínar Jakobsdóttur nr 1 og 2, eru orðnar mjög litlar.
Ríkisstjórnin hefur búið til stórt verkefni og sett landsmenn í næstum óyfirstíganlega tímaþröng við að leysa það, en samt gerir hún ekkert til að skapa raunverulega möguleika á að leysa það, þ.e.a.s. að skapa viðunandi skilvirkt leyfisveitingaferli í raforkugeiranum, og deyfð orkufyrirtækjanna er sláandi. Landsvirkjun sótti ekki um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá fyrr en um mitt ár 2021 til Orkustofnunar, og hún hefur enn ekki virt umsóknina viðlits. Hvað er að ?
Sú staða er einstæð, að raforkuskortur frá endurnýjanlegum orkulindum hrjáir nú atvinnulífið og olía er brennd aftur til að knýja vaxtarbrodd þess, en ekki hillir undir framkvæmdaleyfi fyrir nýja virkjun á sama tíma. Áður hefur orðið raforkuskortur, en þá hefur ný virkjun jafnan verið á næstu grösum.
Þetta er grafalvarlegur vitnisburður um hræsni og yfirdrepsskap ríkisstjórnar og þings. Núverandi forstjóri Landsvirkjunar hefur upplýst opinberlega, að fyrirtækið hafi ítrekað vakið athygli ráðherra á, að samkvæmt lögum væri enginn ábyrgur fyrir því að koma í veg fyrir orkuskort í landinu. Ef þetta er gjaldið, sem Sjálfstæðisflokkurinn með ábyrgð á orkumálunum þarf að greiða fyrir ríkisstjórnarsamstarf við Vinstri hreyfinguna grænt framboð, þá er það einfaldlega of hátt.
Tveir stærstu losunaraðilarnir, sem ríkisstjórnin hefur skuldbundið landsmenn til að minnka losun frá, eru farartæki á landi og fiskveiðiskip. Farartæki á landi losuðu árið 2019 952 kt CO2, sem þarf að fara niður um 607 kt til ársins 2030. Þetta eru um 190 kt af jarðefnaeldsneyti, sem þarf að spara, og nota raforku í staðinn. Ef 90 % eru leyst af hólmi með rafgeymum, þarf um 1,0 TWh/ár vinnslu í virkjun til að hlaða þá, og ef 10 % eru leyst af hólmi með rafeldsneyti, þarf þarf um 0,2 TWh/ár til framleiðslu þess.
Fiskiskipin losuðu árið 2019 522 kt CO2, sem þarf að fara niður um 186 kt til ársins 2030. Þetta jafngildir um 58 kt af olíu, og um 0,6 TWh/ár vinnslu í virkjun þarf til framleiðslu rafeldsneytis í staðinn.
Þetta eru alls 1,8 TWh/ár í virkjun, og ætla má, að þörfin fyrir landtengingu farþegaskipa aukist um a.m.k. 0,2 TWh/ár, svo að til að ná markmiðunum um 55 % samdrátt losunar þessara notkunargeira í síðasta lagi 2030 m.v. árið 2005 þarf viðbótar orku og afl inn á raforkukerfi landsins, sem nemur 2,0 TWh/ár og 500 MW. Þetta er um 10 % aukning raforkuvinnslu á 8 árum eða um 250 GWh/ár og rúmlega 60 MW/ár. Aukning aflgetunnar er hlutfallslega tvöföld á við aukningu orkuvinnsluþarfar, því að notkunarmynztur orkuskiptanna er ójafnara yfir sólarhringinn en í núverandi raforkukerfi landsins.
Eins og nú horfir munu orkuskiptin á næstu 5 árum ganga svo hægt vegna orkuskorts, að næstum ómögulegt verður að ná loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar 2030. Þessi dapurlega staða er í boði þeirra, sem mest hafa umhverfisvernd og "loftslagsvá" á vörunum í þjóðfélaginu, og pólitíska fulltrúa þeirra á þingi má m.a. finna í Vinstri hreyfingunni grænu framboði, sem sennilega hafa þannig náð lengst hérlendis í pólitískri hræsni og yfirdrepsskap.
Stjórnvöld geta ekki skýlt sér á bak við sofandi embættismenn, því að sterk aðvörunarorð komu frá fyrrverandi Orkumálastjóra, t.d. í jólahugvekjum hans, og fulltrúar atvinnulífsins hafa ekki dregið af sér við að lýsa áhyggjum sínum. Hér verður nú vitnað í einn úr þeim hópi:
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, birti 16. desember 2021 grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Aðgerða er þörf í orkumálum þjóðarinnar".
Hún hófst þannig:
"Blikur eru á lofti í raforkumálum landsmanna. Undanfarið hefur umræða skapazt um, hvort raforka sé næg eða ekki, og sitt sýnist hverjum. Staðreyndirnar tala sínu máli. Skerða hefur þurft raforku til ákveðinna atvinnugreina, og hluti landsmanna hefur þurft að búa við það eftir óveður að vera án raforku í marga daga. Þá hefur komið fram, að ónýtt raforka rennur til sjávar engum til gagns vegna raforkukerfis, sem er úr sér gengið.
Óhætt er að fullyrða, að með núverandi orkusamningum sé búið að selja þá raforku, sem tiltæk er, og hún því uppseld. Líkt og Landsvirkjun hefur greint frá, þá hafa vinnslumet ítrekað verið slegin í vinnslukerfi Landsvirkjunar, nú síðast föstudaginn 3. desember [2021], þegar vinnsla fyrirtækisins [álag á kerfi LV-innsk. BJo] fór í fyrsta skipti yfir 1900 MW. "Við slíkar aðstæður verður mjög þröngt um tiltækt afl í vinnslukerfi Landsvirkjunar og það í raun alveg upp urið." Þá gerir orkuspá hins opinbera ráð fyrir aukinni raforkunotkun landsmanna á næstu árum og áratugum."
Væntanlega hefur raforkunotkun landsmanna farið talsvert yfir 20 TWh á árinu 2021, og forgangsorkugeta raforkukerfisins þar með verið fullnýtt. Eins og fram kemur hér að ofan, hefur legið við kerfishruni, þegar álagið var í hámarki, enda ekki nægt reiðuafl í kerfinu fyrir hendi þá til að bregðast við fyrirvaralausri alvarlegri bilun í kerfinu, t.d. rofi einnar af stærstu einingum kerfisins. Þetta sannaðist í viku 04/2022, þegar tengivirkisbilun varð í Nesjavallavirkjun með þeim afleiðingum, að talsverð orka var skert við Norðurál til viðbótar við fyrri skerðingu ótryggðrar orku.
Þetta sýnir, að höfuðvandamálið er ekki lélegt vatnsár, heldur skortur á aflgetu í kerfinu og þörf á betri nýtingu vatns. Hvort tveggja mun nást með virkjun í Neðri-Þjórsá, en hún getur falið í sér lausn á brýnum og klárum vanda, sem felst í of lítilli miðlunargetu Þórisvatns og of litlu raforkukerfi m.v. álag og þar af leiðandi stórhættu á raforkuskorti til 2027, eða þar til næsta virkjun af stærð um 100 MW kemst í gagnið. Er Orkustofnun enn að stauta sig fram úr virkjunarleyfisumsókn Landsvirkjunar, sem verður ársgömul í sumar ?
Núverandi kreppa raforkugeirans mun óhjákvæmilega hamla orkuskiptum og draga úr hagvexti, því að ekki er og verður ekki hægt næstu 5 árin að fullnægja spurn eftir raforku. Flotið hefur verið sofandi að feigðarósi með einstæðu athafnaleysi í boði sérvitringa um breyttan lífsstíl og núll-hagvöxt, sem tekizt hefur að koma ár sinni fyrir borð við ríkisstjórnarborðið og í ráðuneytunum með ofstækisáróðri um, að "náttúran verði að njóta vafans", þótt enginn vafi leiki á um, að takmörkuð og staðbundin áhrif nýrra virkjana séu langt innan viðunandi marka að teknu tilliti til ávinningsins, sem einnig getur falið í sér aukin loftgæði og bætt heilsufar.
Undantekning frá þessu eru vindmyllurnar, sem fela í sér óskilvirka aðferð og dýra með hvorki takmörkuð né staðbundin umhverfisáhrif m.v. ávinning. Vindmyllur eru lengi að vinna upp kolefnisfótsporið, sem myndast við námuvinnslu, framleiðslu og uppsetningu að meðreiknaðri gríðarlegri, steyptri undirstöðu undir tæplega 100 m háa súlu. Þá menga plastspaðarnir umhverfið við slit, valda hávaða og nokkur fugladauði er rakinn til þeirra erlendis. Íslendingum er nauðsynlegt og nægjanlegt að halda sig við fallorku vatns og við jarðgufuna, en enga nauðsyn ber til að spilla ásýnd landsins og jafnvel nærumhverfis byggðar með óskilvirkum búnaði til raforkuvinnslu úr vindorkunni.
Grein sinni lauk dr Sigurður Hannesson þannig:
"Það er áhyggjuefni, ef ekki tekst að sækja tækifærin, sem felast í aukinni eftirspurn eftir grænni orku. Við búum svo vel að hafa aðgang að nægri slíkri orku, en hana þarf að vinna og nýta til að skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið. Við eflum samkeppnishæfni Íslands og þar með lífskjör allra landsmanna með aðgengi að nægu magni raforku til að mæta kröfum framtíðarinnar.
Ný ríkisstjórn hefur kynnt framsækna framtíðarsýn. Því eru vonir bundnar við, að raforkumál landsmanna verði sett í forgang með nauðsynlegum framkvæmdum, svo [að] Ísland geti áfram verið í fremstu röð í framleiðslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Hefjast þarf handa hið fyrsta."
Ekki er neitt lífmark enn með ríkisstjórninni í þá veru, að hún sé að rumska í orkumálum. Sú staða blasir við, að með hverju árinu muni orkuskerðingarnar nema fleiri MWh en árið á undan, og þar af leiðandi nemi tjón þjóðarbúsins yfir mrdISK 100 fram að næstu virkjun. Vitað er hverju það sætir. Er ekki bezt að senda þeim hinum sömu og flækzt hafa fyrir nánast öllum leyfisveitingum á orkusviði undanfarin ár reikninginn ? Það væri ágætis ráð að refsa þessu afturhaldi í næstu kosningum, sem eru til sveitarstjórna í maí 2022 enda verðskuldar erkiafturhald ekki stuðning almennings til valda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2022 | 10:56
"Góðar samgöngur eru fyrir alla"
Fyrirsögnin eru einkunnarorð á vefsetrinu https://samgongurfyriralla.com , sem áhugahópur borgara um bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu stendur að. Einkunnarorðin gætu líka verið "Betri samgöngur fyrir alla" með skírskotun til núverandi ástands, þar sem talið er, að tímasóun vegna frumstæðrar ljósastýringar, þrengsla og kauðslegra, stórhættulegra gatnamóta, nemi 30-40 mrdISK/ár. Slysakostnaður og eldsneytiskostnaður er ekki inni í þessu tölulega mati, heldur aðeins verðmæti tímans, sem fer í súginn. Þetta ástand hafa núverandi borgaryfirvöld kallað yfir vegfarendur og fjárhag heimila og fyrirtækja með óskiljanlegri þvermóðsku og framkvæmdastoppi á Vegagerðina, sem ábyrg er fyrir þjóðvegum í þéttbýli. Þessi hegðun ætti að binda enda á valdabrölt þeirra misheppnuðu, einstaklinga, sem skipa meirihluta borgarstjórnar og berjast fyrir lífstílsbreytingu almennings. Minnir það ónotalega á gamla sovétið, þar sem skapa átti "homo sovieticus".
Lausn þvergirðinga og þursa í meirihluta borgarstjórnar er engin lausn, heldur magnar hún tafirnar, svo að tafakostnaðurinn mun tvöfaldast á næstu tveimur áratugum, ef sú leið, leið miðlægra sérakreina fyrir almenningsvagna, verður farin. Bergþursar halda því fram, að vonlaus úrbótaaðferð sé að fjölga akreinum og losna við ljósastýrð gatnamót með mislægum gatnamótum á helztu umferðarásum höfuðborgarsvæðisins, af því að þá fjölgi bílunum enn þá meira og fulllesti umferðarmannvirkin. Þetta er úr lausu lofti gripið í því samhengi, sem hér um ræðir, en alveg dæmigerður afturhaldsmálflutningur, sem svipar til fíflagangsins í virkjanaumræðunni, þar sem streitzt er á móti nýjum virkjunum, af því að þær verði bráðlega fullnýttar líka.
Umferðarsérfræðingar á ofannefndu vefsetri halda því aftur á móti fram, að sú tæknilega og framfarasinnaða lausn að losna við ljós og þar með þverandi akstursstefnur í sama plani á helztu umferðaræðum muni duga sem lausn á umferðarvanda höfuðborgarsvæðisins í heila öld, ef jafnframt verður horfið af braut óþarfra þrenginga og hraðalækkana og farin leið téðs áhugahóps um nýjar sérreinar fyrir almenningsvagna hægra megin núverandi akreina.
Almenningi hafa verið kynntar þessar hugmyndir í fjölmiðlum. Einn sá ötulasti í þessum hópi er prófessor í verkfræðigrein (straumfræði) í HÍ, Jónas Elíasson. Eftir hann birtist grein í Morgunblaðinu 8. desember 2021 undir fyrirsögninni:
"Létta borgarlínan".
Hún hófst þannig:
"Létta borgarlínan er kerfi fyrir almenningssamgöngur með sama þjónustustigi og hin upphaflega þunga borgarlína, en kostar aðeins brot af henni. Munurinn er, að sérstakar akreinar fyrir vagnana eru hægra megin, en ekki í miðri götu. Í þessu liggur gríðarlegur sparnaður (um 1,2 mrdISK/km) án þess, að neinu sé fórnað, en skipulagslegur ávinningur er mikill.
Létta línan gefur möguleika á að byggja kerfið upp í áföngum og útilokar ekki, að miðjubrautirnar [verði] gerðar seinna, ef þörf verður fyrir þær og möguleiki finnst á að koma þeim fyrir. Því má líta á léttu borgarlínuna sem fyrsta áfanga af þeirri þungu. Að óbreyttum farþegafjölda verður ekki þörf fyrir miklar brautarlagnir strax; aðrar aðgerðir, sérstaklega þær, sem varða nýtingu á nýrri tækni, og loftslagsmálin eru meira aðkallandi."
Hin þunga borgarlína er umferðartæknilegt örverpi við íslenzkar aðstæður, sem verður líklega aldrei nokkur spurn eftir. Létta borgarlínan slær þungu borgarlínuna bæði út í fjárfestingarupphæð og rekstrarkostnaði. Sú þunga útheimtir vart minna fjárfestingarfé en mrdISK 100, en sú létta þarf minna en mrdISK 20. Tafakostnaður bílaumferðar einvörðungu vegna þungu borgarlínunnar mun nema um 40 mrdISK/ár um árið 2040, og má við samanburðinn færa þetta sem viðbótar rekstrarkostnað þungu borgarlínunnar, en sú létta mun ekki valda töfum. Þetta er svo sláandi mikill mismunur, að hið opinbera hlutafélag, sem á að fást við þessar framkvæmdir, verður að taka tillit til hans.
Ef borgaryfirvöld á borð við núverandi afturhald hefðu ráðið Reykjavík frá aldamótum 1900 væri höfuðborgin varla svipur hjá sjón, framfaraskref á borð við rafvæðingu og hitaveituvæðingu hefðu verið í skötulíki og íbúum höfuðborgarinnar hefði fjölgað lítið, því að þeim hefði ekki gefizt kostur á öðru en að búa í þröngum hnappi í kringum 101 R., og samgönguæðar og bílastæði hefðu verið skorin við nögl í Aðalskipulagi. Núverandi borgaryfirvöld draga lappirnar og skemma fyrir framfaramáli á borð við Sundabraut og brjóta þannig samgöngusáttmálann títtnefnda. Í Morgunblaðinu 26. nóvember 2021 birtist frétt með eftirfarandi fyrirsögn:
"Sundabraut hluti af samgöngusáttmála".
Hún hófst þannig:
""Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa skipulagsvaldið. Um leið sækja þau á ríkið um fjármagn í samgöngum", sagði Vilhjálmur Árnason, alþingismaður, sem hefur setið í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Hann minnti á, að gerður hafi verið samgöngusáttmáli milli ríkisins og 6 sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, oft kallaður höfuðborgarsáttmáli. Í honum felst, að sveitarfélögin hagi skipulagsmálum sínum þannig, að áform ríkisins um uppbyggingu gangi eftir.
"Sundabraut er hluti af höfuðborgarsáttmálanum, og sveitarfélögin þurfa að gera hana skipulagslega mögulega. Ef þau eru tilbúin að mæta ríkinu í skipulagsmálum þannig, að hægt sé að bjóða upp á betri samgöngur og fjölbreytta ferðamáta á öllu svæðinu, þá kemur ríkið að fjármögnun á uppbyggingunni", sagði Vilhjálmur."
Það er ekki hægt að eiga samstarf við borgina um nein framfaramál, á meðan bergþursar sótsvarts afturhalds sitja þar að völdum, enda hafa þeir ekki staðið við neitt í þessu samkomulagi. Ríkið vill leggja Sundabraut og reisa mislæg gatnamót, en bergþursarnir vilja stefna bílaumferðinni í öngþveiti. Ríkið vill leggja grunn að framtíðarnotkun Reykjavíkurflugvallar, en bergþursarnir vilja skipuleggja lóðir þarna í Vatnsmýrinni. Bergþursar vinna allt með öfugum klónum.
"Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og fleiri bentu okkur í nefndinni [Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis] á, að það ætti að vera mislægur samgönguás í gegnum höfuðborgarsvæðið, þannig að t.d. þungaflutningar þurfi ekki að stoppa í borgartraffík, heldur komist greiðlega leiðar sinnar. Þótt hágæða almenningssamgöngur gangi upp 100 %, þá segir skýrslan [verkefnishóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra], að það verði 24 % aukning bílaumferðar [til 2033] með breyttum ferðavenjum, en annars 40 % aukning. Það eru því ekki forsendur fyrir því að þrengja að umferð bíla. Við í meirihluta nefndarinnar vildum uppbyggingu fjölbreyttra samgangna, en ekki þannig, að einn samgöngumáti gengi á annan. Það að ætla að fækka akreinum á Suðurlandsbraut er ekki í þessum anda og er í andstöðu við forsendur þessarar skýrslu um, að bílaumferð muni aukast þrátt fyrir öflugri almenningssamgöngur.""
Auðvitað eiga samgönguásar um höfuðborgarsvæðið ekki að vera stýrðir af umferðarljósum, eins og bergþursarnir í borgarstjórn vilja þó, heldur á umferð þeirra að ganga greiðlega um mislæg gatnamót. Þótt engin aukning yrði frá núverandi umferð í Reykjavík, eru engin skilyrði fyrir hendi til að hægja enn á henni og auka slysahættu. Bergþursar stunda skæruhernað gegn íbúunum í nafni afdankaðrar og einfeldningslegrar hugmyndafræði. Þeir telja sig ekki kosna til að þjóna, heldur til að drottna og troða afdankaðri sérvizku sinni um fyrirkomulag umferðar og annars upp á teikniborð borgarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.1.2022 | 10:07
Fjandskapurinn við þarfasta þjón nútímans
Það er vart ofsögum sagt, að við völd í Reykjavík sé nú klíka sérvitringa, sem reynir að troða aflögðum lifnaðarháttum upp á Reykvíkinga og íbúa utan Reykjavíkur, sem oft eiga erindi til höfuðborgarinnar. Klíka þessi undir leiðsögn Samfylkingarinnar, með lækninn Dag B. Eggertsson í forystu, er forstokkuð, ofstækisfull og sést ekki fyrir í aðgerðum sínum gegn borgurunum. Hún hefur sett framkvæmdabann á stofnleiðir borgarinnar og tekið mislæg gatnamót og Sundabraut út af Aðalskipulagi borgarinnar. Til að bæta gráu ofan á svart hefur klíkan þrengt ýmsar götur og fækkað akreinum, t.d. á Grensásvegi, með þeim afleiðingum, að tafir í umferðinni hafa stóraukizt, og gæti tafakostnaðurinn nú numið allt að 40 mrdISK/ár hjá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum. Hvernig í ósköpunum má það vera, að slík óstjórn og sérvizka hafi náð hreðjatökum á stjórn borgarinnar ? Ætli þessu linni í vor ? Það er löngu kominn tími til.
Þetta er gert í anda svæsnustu forræðishyggju til að þvinga ökumenn og farþega þeirra út úr einkabílunum og í almenningsvagnana, á tvo jafnfljóta eða á reiðhjól eða hlaupahjól. Þetta felur hins vegar í sér svo gríðarlegt óhagræði og óþægindi fyrir fólk, að hlutdeild almenningssamgangna hjakkar enn í 4 % af öllum ferðum í Reykjavík yfir árið.
Borgarlínuáform meirihluta borgarstjórnar eru sniðnar við aðstæður erlendis í miklu fjölmennara samfélagi en höfuðborgarsvæðið er hér, þar sem bílaeign er ekki jafnalmenn og hér og veðurfarsskilyrði yfirleitt önnur. Verkefnið, s.k. þung borgarlína, er þannig miklu stærra í sniðum en nokkur þörf er á hér í fyrirsjáanlegri framtíð og óttaleg tréhestahugmynd, sem virðist einvörðungu hafa komizt á flug innan þessa skrýtna meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, af því að það felur í sér atlögu að ferðum með einkabíl, þar sem Borgarlínan verður á tveimur sérakreinum fyrir miðju, og farþegar munu fá rétt til að stöðva bílaumferð til að komast að og frá vögnunum.
Ætlunin er að fækka akreinum á leiðum Borgarlínu og yfirleitt, þar sem því verður við komið, jafnöfugsnúin og sú hugmyndafræði er nú. Hugarfarið að baki þessum Borgarlínuhugmyndum opinberaðist í frétt Morgunblaðsins 26. nóvember 2021, þar sem viðtal var við stjórnarformann Betri samgangna ohf, Árna Mathiesen, fyrrverandi ráðherra, undir fyrirsögninni:
"Segir óþarft að fækka akreinum".
Fréttin hófst þannig:
"Fækka á akreinum fyrir bílaumferð úr 4 í 2 á Suðurlandsbraut og efri hluta Laugavegar samkvæmt frumdragaskýrslu borgarinnar. Lagt er til, að borgarlínan verði öll í sérrými á Suðurlandsbraut og efri hluta Laugavegar. Sérrýmin verða að mestu miðlæg, og svo ein akrein í hvora átt fyrir bílaumferð. Lagt er til, að vinstri beygja verði ekki lengur möguleg, nema á hluta gatnamóta. Auk breytinga á götunni er gert ráð fyrir fækkun bílastæða næst Suðurlandsbraut. [Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum heilvita manni í hug að fækka bílastæðum við Suðurlandsbraut ? - innsk. BJo]
Þetta kemur fram í skipulagslýsingu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar [og] skipulagsfulltrúa að deiliskipulagi fyrir borgarlínu um Suðurlandsbraut og efri hluta Laugavegar frá leikskólanum Steinahlíð í austri að Katrínartúni í vestri. Leggurinn er 3,3 km langur. Skipulagslýsingin var kynnt í borgarráði Reykjavíkur 18. nóvember [2021].
"Frá okkar bæjardyrum séð er ekki nauðsynlegt að fækka akreinum á Suðurlandsbraut til að koma fyrir hraðvagnakerfi eða borgarlínu, eins og frumdrög skipulags hafa gert ráð fyrir", sagði Árni Mathiesen, stjórnarformaður Betri samgangna ohf.
Félagið mun hafa yfirumsjón með framkvæmdum vegna uppbyggingar samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu og fjármögnun þeirra. Að félaginu standa íslenzka ríkið og 6 sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes. Ríkið á 75 %, en sveitarfélögin 25 %, og skiptist eignarhlutur þeirra eftir íbúafjölda."
Þetta sýnir svart á hvítu, að ágreiningur um tilhögun framkvæmdarinnar mun verða verkefninu til mikils trafala, enda er ómögulegt að komast að vitrænni niðurstöðu í samráði við forstokkaða sérvitringa, sem ætla sér með verkefninu að ganga á milli bols og höfuðs á einkabílismanum í Reykjavík. Hvergi er gætt að hagkvæmni hjá Reykjavíkurborg, og þess vegna verður fjármögnunin í lausu lofti. Það eru til betri lausnir, miklu ódýrari og hagfelldari, þar sem hagsmuna notenda er gætt og annarra hagsmunum er ekki fórnað, sbr www.samgongurfyriralla.com.
Ríkisendurskoðandi hefur skynjað, að hið opinbera er rétt einu sinni að vaða út í fen fullkomlega óraunhæfra fjárfestinga, sem orðið hafa til í hugarheimi stjórnmálamanna án snefils af jarðsambandi. Það sárgrætilega er, að þessar fjárfestingar eru líka algerlega óþarfar, af því að aðrar og miklu ódýrari lausnir gera sama gagn og verða ekki farartálmi fyrir flesta vegfarendur, eins og þetta illúðlega hugarfóstur sérvitringa á vinstri vængnum vissulega er.
Ef ríkissjóður heykist á lántökuábyrgð til handa "Betri samgöngum ohf", eins og öll fjárhags- og eðlileg pólitísk rök hníga að, þá verður varla nokkuð úr þessum gapuxalegu framkvæmdum, heldur verður hugað að umferðartæknilega og fjárhagslega betri lausnum. Í Morgunblaðinu 16. desember 2021 var frétt um viðvörunarorð ríkisendurskoðanda undir fyrirsögninni:
"Geldur varhug við lántökuheimild".
""Gjalda þarf varhug, þegar kemur að heimildum til lántaka með ábyrgð ríkisins, þegar mikil óvissa ríkir um fjárhagsgrundvöll þess verkefnis, sem lána skal til", segir ríkisendurskoðandi í umfjöllun um mrdISK 4,0 lántökuheimild ríkisins í fjárlagafrumvarpi næsta árs til að endurlána fyrirtækinu Betri samgöngum ohf., en það var stofnað um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, þ.á.m. borgarlínu."
Borgin hefur þegar svikið samgöngusáttmálann við ríkið, sem þetta opinbera hlutafélag er reist á. Hún hefur enn ekki sett Sundabraut inn á Aðalskipulag, og heldur ekki sett nein mislæg gatnamót þar inn. Hún eyðilagði hagkvæmasta kost Sundabrautar með byggingarlóðum, og hér skal ekki minnast á meðferðina á Reykjavíkurflugvelli, sem er til háborinnar skammar fyrir eina höfuðborg. Luntarahátturinn og geðvonzkan út í nútíma samgönguhætti er með slíkum eindæmum, að ríkið, sem nú þegar er mjög skuldsett, á alls ekki að ljá máls á að vaða út í það fjárhagslega fen, sem Borgarlína meirihluta borgarstjórnar er.
Til að undirstrika ósamstarfshæfni núverandi meirihluta borgarstjórnar skal hér vitna til upphafs leiðara Morgunblaðsins 7. desember 2021 undir fyrirsögninni:
"Fjandskapurinn":
"Þvermóðska og einstrengingsháttur er það, sem einna helzt einkennir stjórn Reykjavíkurborgar um þessar mundir og á undanförnum árum. Þetta sést í hverju málinu á fætur öðru og skiptir þá engu, hvort málið er í eðli sínu stórt eða smátt, hvort það snertir alla borgarbúa eða fáa einstaklinga, alltaf er viðmótið hið sama. Og undirliggjandi ástæða þessarar framgöngu er oftar en ekki fjandskapur við einkabílinn, svo undarlegt sem það má teljast.
Borgaryfirvöld finna sér tækifæri í flestum málum til að tengja þau við þennan fjandskap og taka í framhaldinu ákvarðanir, sem engin skynsamleg skýring er á, aðeins þessi óskiljanlegi fjandskapur við langsamlega vinsælasta ferðamáta borgarbúa."
Það, sem Morgunblaðið lýsir þarna, eru einkenni sinnisveiki. Meiri hluti borgarstjórnar er með einkabílinn á heilanum, ef þau hafa slíkt líffæri, og leggja fæð á þessa blikkbelju, sem þau einu sinni uppnefndu svo. Þau túlka síðan umboð sitt í borgarstjórn þannig, að þeim beri að misnota aðstöðu sína þar til að stöðva alla framfaraviðleitni varðandi umferðarmannvirki í borginni og beri þvert á móti að þrengja að umferð einkabílsins með öllu hugsanlegu móti, svo að þau, sem þannig kjósa að fara á milli staða, gefist upp á umferðaröngþveitinu og setjist upp í almenningsvagnana. Þetta er svo ólýðræðisleg hegðun og heimskuleg stjórnun einnar borgar, að engu tali tekur. Slíkum borgarfulltrúum og stjórnmálaflokkum, sem að þeim standa, á einfaldlega að sparka út í hafsauga í sveitarstjórnarkosningunum í vor (maí 2022). Það má ekki seinna vera. Asnaspörkin eru legíó og fíflagangurinn verður óafturkræfur eftir næsta kjörtímabil.
Í lok forystugreinarinnar sagði þetta:
"En það er einmitt einn helzti kosturinn við skipulagið [minna en 1 bílastæði á hverja nýja íbúð] að mati borgaryfirvalda, því að með þessu er íbúunum gert erfiðara fyrir að eiga bíl, og þar með standa vonir borgaryfirvalda til þess, að þeir nýti sér aðra ferðamáta - nú eða haldi sig heima. Þeir flækjast ekki fyrir borgaryfirvöldum á meðan."
Af þessari umræðu er ljóst, að núverandi borgaryfirvöld eru aftan úr grárri forneskju og eru ekki í neinum færum til að svara þörfum tímans á því herrans ári 2022, hvað þá á öllu næsta kjörtímabili. Algerrar uppstokkunar og endurnýjunar er þörf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.1.2022 | 11:32
Er Novavax C-19 bóluefnið öruggt og skilvirkt í senn ?
Höfundi þessa vefseturs þykir jafnan fengur að skrifum sænska læknisins Sebastians Rushworth, ekki sízt um Kófsmálefni. Höfundur vefsetursins hefur þýtt og birt hér greinar SR um niðurstöður athugana á skilvirkni AstraZeneca, Biontech-Pfizer og Moderna bóluefnanna gegn C-19 og hættuna á hjartavöðvabólgu af völdum tveggja síðar nefndu efnanna, sem eru úr hópi mRNA-bóluefna.
Nú er komið nýtt efni á markaðinn í Evrópu, og gerir SR hér grein fyrir prófunum á því:
"Ég hef fengið margar beiðnir um 6 mánaða skeið nú að skrifa um Novavax-C-19 bóluefnið. Ég hef ekki viljað það hingað til, aðallega af því að óljóst hefur verið, hvort vestræn ríki mundu samþykkja efnið á markað. Nú þar sem það hefur verið samþykkt til notkunar í ESB, hafa forsendur breytzt, og mér finnst ég ekki geta frestað þessu lengur.
Ég býst við, að ástæða þess, að svo margir eru spenntir fyrir Novavax-bóluefninu, sé, að það er reist á hefðbundinni tækni, sem oft hefur verið notuð áður, en ekki nýtilkominni tækni, sem notuð er við gerð mRNA- og ferju-bóluefna, en fáanleg bóluefni hingað til í BNA og ESB hafa verið einskorðuð við þá flokka. Mörgum finnst meira öryggi að hefðbundinni tækni á þessu sviði.
Novavax-bóluefnið samanstendur af tvennu: Sars-CoV-2 broddpróteininu og hjálparefni (efni, sem setur ónæmiskerfi líkamans í viðbragðsstöðu gagnvart hættulegu aðkomuefni og setur þannig ónæmiskerfið í gang til að fást við broddpróteinið). Í stað þess að sprauta genatæknilegri forskrift í æð til að fá frumur til að framleiða broddprótein veirunnar sjálfar (eins og á við um fyrri 4 samþykkt bóluefni) er broddpróteininu sprautað inn beint.
Fyrsta landið til að viðurkenna Novavax-bóluefnið var Indónesía, sem samþykkti það til notkunar í nóvember [2021]. Það þýðir, að engin langtíma eftirfylgd almennrar notkunar hefur átt sér stað enn þá. Allt, sem við höfum í hendi, eru bráðabirgða niðurstöður slembivalsrannsókna. Það þýðir, að við höfum enn enga hugmynd um sjaldgæf aukaáhrif og munum ekki hafa enn mánuðum saman. Nokkrar milljónir manna höfðu þegar fengið AstraZeneca-bóluefnið [ferjubóluefni] áður en yfirvöldum varð ljóst, að það gat valdið alvarlegum blóðtöppum, og milljónir manna höfðu einnig fengið Moderna- og Pfizer-bóluefnin [mRNA-bóluefni] áður en ljóst varð, að þau geta valdið hjartavöðvabólgu. Að þessum varnagla slegnum skulum við nú athuga, hvað bráðabirgða niðurstöður slembivalsrannsókna færa okkur.
Fyrstu rannsóknarniðurstöður um Novavax-bóluefnið birtust í "The New England Journal of Medicine" í maí [2021]. Með slembivali var 4387 manneskjum í Suður-Afríku gefið annaðhvort bóluefnið eða saltvatnslyfleysa. Tilraunin var gerð á lokamánuðum ársins 2020, þegar beta-afbrigðið var ríkjandi í Suður-Afríku. Eins og í fyrri covid-bóluefnarannsóknum, var ætlunin með rannsókninni að komast að getu bóluefnisins til að koma í veg fyrir smit með einkennum, sem voru skilgreind sem covid-19 lík sjúkdómseinkenni að viðbættu jákvæðu covid-prófi.
Meðalaldur þátttakenda var 32 ár og viðvarandi sjúkdómseinkenni voru sjaldgæf, svo að þetta var hópur í lítilli hættu á alvarlegum sjúkdómi. Þegar þessi staðreynd er tengd tiltölulega fámennum hópi þátttakenda (fyrir bóluefnisrannsókn), var enginn möguleiki á, að rannsóknin gæti gefið nokkuð nytsemlegt til kynna um getu bóluefnisins til að koma í veg fyrir alvarlegan sjúkdóm. Þannig var þetta í raun tilraun til að komast að raun um getu Novavax-bóluefnisins við að hindra venjulegt kvef í heilbrigðu ungu fólki.
Kíkjum nú á niðurstöðurnar:
Eins og í fyrri birtum bóluefnarannsóknum, voru gögn um skilvirknina birt aðeins 2 mánuðum eftir sprautun. Við tveggja mánaða mörkin höfðu 15 bóluefnisþegar sýnt einkenni covid-19 í samanburði við 29 lyfleysuþega. Þetta gefur hlutfallslega áhættuminnkun 49 % gagnvart beta-afbrigðinu 2 mánuðum eftir bólusetningu, sem veldur vonbrigðum. Þetta er undir 50 % áhættuminnkuninni, sem eftirlitsaðilar setja sem lágmark til samþykktar bóluefnis.
Þetta veldur enn meiri vonbrigðum, þegar haft er í huga, að skilvirkni varnarinnar gegn smitum með einkennum nær líklega hámarki 2 mánuðum frá bólusetningu og fellur síðan hratt - þetta er mynztur, sem sést á öllum öðrum samþykktum covid-bóluefnum, og það er mjög líklegt, að hið sama eigi við um þetta bóluefni.
Ennfremur, beta-afbrigðið er löngu horfið. Hin samþykktu bóluefnin virðast hafa litla eða enga getu til að hindra smit af núverandi ríkjandi afbrigði, ómíkron (þótt þau virðist enn hafa verulega getu til að milda einkennin). Hér í Svíþjóð er fólk jafnlíklegt til að smitast af C-19, hvort sem það hefur verið bólusett eða ekki, en það eru enn mun minni líkindi á að lenda í gjörgæzlu vegna alvarlegs C-19, ef fólk hefur verið bólusett. Það er engin ástæða til að halda, að eitthvað sé öðruvísi með þetta bóluefni.
Höldum áfram og lítum á öryggishliðina. Öryggisgögn voru einvörðungu birt fyrir undirhóp sjúklinga og þá aðeins fyrir fyrstu 35 dagana eftir bólusetningu með fyrsta skammti. Það litla, sem þarna var þó, virkaði ekki uppörvandi. Það voru tvöfalt fleiri alvarleg sjúkdómstilvik, sem þörfnuðust læknismeðhöndlunar, í hópi bólusettra en óbólusettra (13 á móti 6), og tvöfalt fleiri bólusettir með mjög alvarleg einkenni í hópi bólusettra en óbólusettra (2 á móti 1). Til að gæta þó sanngirni verður að geta þess, að sjúklingafjöldinn er allt of lítill til að gera það kleift að draga nokkrar ályktanir um öryggið á grundvelli þessara takmörkuðu gagna, svo að við bíðum með að kveða upp dóm.
Snúum okkur að annarri rannsókninni í röðinni, sem birt var í "The New England Journal of Medicine" í september [2021]. Þetta var mun stærri rannsókn en sú fyrsta með 15´187 manns á Bretlandi, sem með slembivali fengu annaðhvort Novavax eða saltvatnslyfleysu.Eins og við fyrri rannsókn var verið að athuga getu bóluefnisins til að koma í veg veg fyrir smit með einkennum. Rannsóknin stóða yfir frá síðla 2020 þar til snemma árs 2021 á tíma, þegar alfa-afbrigðið var ríkjandi, svo að niðurstöður hennar eiga aðallega við um það afbrigði. Af þátttakendum voru 45 % haldnir sjúkleika, sem mundi geta leitt yfir þá alvarlegan sjúkdóm, og meðalaldur þátttakenda var 56 ár.
Hver varð svo niðurstaðan ?
Á meðal þátttakenda, sem fengur 2 skammta af bóluefninu, voru 96 C-19 smit í lyfleysuhópnum, en aðeins 10 í bóluefnishópnum á 3 mánaða tímabili eftir seinni sprautuna. Þetta gefur skilvirkni á fyrstu mánuðunum upp á 90 %, sem er svipað og í Moderna- og Pfizer-bóluefnarannsóknunum. Einn endaði á spítala vegna C-19 í lyfleysuhópnum, en enginn í bóluefnahópnum - svo að því miður aftur voru ekki nægilega margar sjúkrahússinnlagnir, til að hægt væri að segja nokkuð um getu bóluefnisins til að hindra alvarleg veikindi (þó er nokkuð ljóst af þessari rannsókn, að jafnvel í tilviki fólks í hópi með tiltölulega mikla áhættu er heildaráhætta sjúkrahússinnlagnar vegna C-19 lítil - af 96 manns í lyfleysuhópinum, sem fengu C-19, þarfnaðist aðeins einn innlagnar á sjúkrahús.
Snúum okkur nú að örygginu. Öryggisgögn eru aðeins fáanleg fyrir tímabilið frá 1. sprautu þar til 28 dögum eftir seinni sprautu, svo að við vitum ekkert um langtíma áhrifin, en á þessum tíma voru engin merki um alvarlegt heilsutjón af völdum bólusetninganna. Það voru þó 44 alvarleg slæm tilvik í bólusetningarhópnum, og 44 alvarleg slæm tilvik í lyfleysuhópnum. Einn í bólusetningarhópnum veiktist af hjartavöðvabólgu þremur dögum eftir seinni skammtinn, sem veitir vísbendingu um, að Novavax geti valdið hjartavöðvabólgu, alveg eins og Pfizer- og Moderna-bóluefnin gera.
Snúum okkur þá að lokarannsókninni, sem birtist í "The New England Journal of Medicine" í desember [2021]. Hún var gerð í BNA og Mexíkó fyrri hluta árs 2021. Eins og í áður greindri rannsókn, eiga niðurstöðurnar aðallega við alfa-afbrigðið. 29´949 þátttakendur voru slembivaldir fyrir annaðhvort Novavax-bóluefnið eða saltlausnarlyfleysu. Eins og í fyrri rannsóknunum tveimur var ætlunin að komast að, hvort bóluefnið kæmi í veg fyrir smit með einkennum og þau aftur skilgreind sem kunnugleg einkenni um C-19 auk jákvæðrar PCR-greiningar. Miðtölualdur þátttakenda var 47 ár, og 52 % þeirra voru haldnir sjúkleika, sem gæti valdið þeim alvarlegri sjúkdómi en ella, ef þeir veiktust af C-19.
Hverjar voru þá niðurstöðurnar ?
Að 70 dögum liðnum frá seinni sprautu höfðu 0,8 % lyfleysuhópsins greinzt með C-19, en aðeins 0,1 % bóluefnahópsins. Þetta gefur hlutfallslega áhættuminnkun 90 %, sem er sambærilegt fyrri athugun. Því miður voru engar upplýsingar veittar um sjúkrahússinnlagnir, sem ég býst við að þýði, að af þessum 29´949 þátttakendum hafi enginn þarfnazt sjúkrahússþjónustu vegna C-19, þannig að eins og í fyrri tilvikum er ómögulegt að segja til um, hvort bólusetningin dregur markvert úr sjúkrahússinnlögnum.
Að 28 dögum liðnum frá annarri sprautu höfðu 0,9 % þátttakenda í bóluefnishópnum orðið fyrir alvarlegum sjúkleika í samanburði við 1,0 % þátttakenda í lyfleysuhópnum. Það er uppörvandi.
Jæja, tökum þetta saman. Hvaða ályktanir getum við dregið af niðurstöðum þessara athugana ?
Í fyrsta lagi verndaði bóluefnið fólk með skilvirkum hætti gegn sýkingu af alfa-afbrigði C-19 með einkennum 2-3 mánuðum eftir bólusetningu (sem auðvitað segir okkur ekkert um verndarskilvirkni bólusetningarinnar 6 mánuðum eða ári eftir sprautun). Þessar upplýsingar eru nú að mestu einvörðungu af sögulegu tagi, þar sem alfa er löngu horfið, og við lifum á skeiði ómíkron. Ef Novavax-bóluefnið er svipað að verndaráhrifum og bóluefnin 4, sem áður hafa verið samþykkt, þá er það líklega gagnslaust við að hindra smit af ómíkron.
Í öðru lagi er ómögulegt út frá þessum bóluefnisprófunum að ákvarða, hvort Novavax-bóluefnið dregur eitthvað úr hættu á þörf á sjúkrahússinnlögnum vegna C-19, af þeirri einföldu ástæðu, að ekki varð nægilega mikið um sjúkrahússinnlagnir þátttakendanna. Að því sögðu gizka ég á, að bóluefnið verndi e.t.v. í einhverjum mæli gegn þörf á sjúkrahússinnlögnum og vist á gjörgæzlu, eins og hin samþykktu bóluefnin gera. Í raun gerir þetta bóluefni hið sama og hin - veldur ónæmisviðbragði við broddpróteininu, sem fannst í upphaflega Wuhan-afbrigðinu, og heildarniðurstöðum prófananna svipar mjög til prófunarniðurstaðna fyrir Moderna- og Pfizer-bóluefnin.
Í heildina benda gögnin til góðs öryggis bóluefnisins, með jafnvægi á milli bóluefnishóps og lyfleysuhóps varðandi alvarleg slæm tilvik af öðrum toga en C-19. Sjaldgæfar aukaverkanir koma þó ekki í ljós í slembiúrvalsathugunum með aðeins nokkur þúsund þátttakendum. Til að komast að þeim er langtíma eftirfylgd miklu stærra þýðis nauðsynlegt. Það er núna ómögulegt að vita, hvort Novavax-bóluefnið getur valdið hjartavöðvabólgu, eins og mRNA-bóluefnin, eða blóðtappa, eins og ferjubóluefnin, eða einhverjum allt öðrum slæmum aukaverkunum. Núna er þess vegna ógerlegt að kveða upp úr með það, hvort þetta bóluefni er öruggara, síður öruggt eða öryggislega jafngilt þegar samþykktum bóluefnum."
Þótt bóluefnið, sem hér var til umfjöllunar, sé annarrar gerðar en bóluefnin, sem notuð hafa verið á Íslandi gegn C-19, á það sammerkt með þeim að vera úrelt, þ.e. það gagnast ekki gegn ómíkron-afbrigðinu og endingin gagnvart vernd gegn alvarlegum veikindum er mjög léleg, og alvarleg sjúkdómseinkenni eru mjög sjaldgæf af völdum ómíkron. Ofuráherzla íslenzkra yfirvalda á bólusetningar gegn ómíkron, einnig bólusetningar barna, er óskiljanleg og felur í sér sóun opinbers fjár og tíma fólks, svo að ekki sé minnzt á óþarfa töku áhættu með heilsufar, einkum ungs fólks (undir fertugu).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.1.2022 | 09:31
Þjóðfélagið og sjúkrahúsið
Nú hefur verið upplýst um samsæri vísindamanna, embættismanna og stjórnmálamanna á Vesturlöndum, aðallega í Bandaríkjunum (BNA), um að kveða í kútinn þann þráláta orðróm, að veiran SARS-CoV-2, hafi sloppið út úr rannsóknarstofnun í veirufræðum í Wuhanborg í Kína, sem naut fjárveitinga frá BNA, líklega af því að rannsóknir í Kína eru ódýrari en í BNA vegna starfsmannakostnaðar og mismunandi varúðarráðstafana.
Sum lyfjafyrirtæki reyndust snör í snúningum gegn hinum nýja vágesti, sem WHO skírði COVID-19 (C-19). Sjúkdómurinn lýsti sér yfirleitt sem inflúensa, en gat hæglega orðið að lungnabólgu, þar sem varnir voru veikar, og allir vita, að þá er voðinn vís. Ekki verður farið út í uppbyggingu bóluefnanna, sem öll hafa verið ný af nálinni og með tvennu móti, þótt kenna megi báða hópana við genatækni. Er annar kenndur genaferjur og er AztraZeneca-bóluefnið þeirra þekktast, en hinn við genaboðefni mRNA, og eru bóluefnin frá Pfizer og Moderna þeirrar gerðar. Þriðja tegundin, Novavax, er nýsamþykkt af Evrópusambandinu (ESB). Það inniheldur broddprótein veirunnar, en fyrstu tilraunirnar benda ekki til, að það sé skárra en hin.
Öll bóluefnin hafa valdið svo miklum vonbrigðum, að kalla má þau gjörsamlega misheppnuð. Kemur þar aðallega þrennt til.
Endingin er til skammar, þar sem verndarvirkni þeirra gegn smiti og gegn alvarlegum einkennum er að engu orðin að hálfu ári liðnu frá bólusetningu. Virðist sem líkaminn sé fljótur að hafna þessum aðskotaefnum. Bóluefnin halda ekki máli, sem leyfisveitendur venjulega setja, sem er yfir 50 % virkni að ári liðnu. Hefði eftirlitsaðilum ekki legið lífið á, hefðu þeir þess vegna hafnað þessum bóluefnum sem ónothæfum.
Neikvæðar aukaverkanir eru fleiri og alvarlegri en sézt hefur frá þalídomíð-ósköpunum. (Lyf þróað á 6. áratugi 20 aldar, notað í 46 löndum og olli vansköpun fóstra.) Í BNA hefur verið tilkynnt um þrefalt fleiri neikvæðar aukaverkanir af bóluefnum gegn C-19 en alls á 35 árum áður(1985-2019). Víða er hætt að nota AstraZeneca vegna blóðtappamyndunar, og tíðni hjartavöðvabólgu hjá fólki undir fertugu margfaldast eftir 2. bólusetningu með Pfizer og í enn meiri mæli með Moderna, þar sem skammturinn þar er sterkari. Örvunarbólusetningin mun vafalaust valda aukningu á tíðni hjartavöðvabólgu líka.
Bóluefnin eru þröngt virkandi í mótsetningu við náttúrulegt ónæmi (eftir veikindi). Þau voru þróuð m.v. broddprótein upphaflegu veirunnar frá Wuhan, en veiran stökkbreytist oft, og bóluefnin virka lítið sem ekkert gegn ríkjandi afbrigði, ómíkron. Vísindamenn í Hollandi, sem birtu niðurstöður rannsókna sinna á ómíkrón-afbrigðinu í viku 2/2022, ályktuðu, að ómíkrón sé nægilega breytt frá fyrri stökkbreytingum til að geta talizt upphaf að nýjum hópi veira af tegundinni SARS-CoV-2. Ekki fylgdi sögunni, hvort náttúrulegt ónæmi gegn ómíkron muni duga gegn stökkbreyttu ómíkron.
Sá er hins vegar kosturinn við hið gríðarlega smitandi ómíkron-afbrigði, að það veldur vægum einkennum, sem þó geta magnazt upp í sjúklingum með veikt ónæmiskerfi fyrir. Einkennum ómíkron má líkja við hálsbólgu.
Sóttvarnaryfirvöld á Íslandi hafa reynzt glámskyggn. Þau lofuðu hjarðónæmi, ef yfir 70 % landsmanna létu bólusetja sig. Ekkert hjarðónæmi náðist þrátt fyrir yfir 90 % þátttöku, og ekkert hjarðónæmi mun nást fyrr en nægilega margir hafa smitazt til að mynda náttúrulegt lýðónæmi. Það er bágborið, að sóttvarnaryfirvöld skuli nú reka harðan áróður fyrir örvunarbólusetningu og barnabólusetningu. Fyrir hvorugu eru nein haldbær rök lengur.
14. janúar 2022 hertu sóttvarnaryfirvöld tökin á landsmönnum með ýmsum hætti í nafni þess, að vegna Landsspítalans þyrfti að ná daglegum smitfjölda úr 1100-1200 og niður í 500 til að draga úr álagi á Landsspítalann. Hann er þó nýlega búinn að fá öfluga blóðgjöf úr einkageiranum og innlagnafjöldi er minni en bjartsýnasta spá Aspelunds.
Það gengur auðvitað ekki, að eftir tæplega 2 ára farsótt og með fullbólusetta þjóð skuli vera talið réttlætanlegt að sveifla þjóðfélaginu til og frá með gríðarlega kostnaðarsömum hætti eftir því, hvernig Landsspítalanum gengur að fást við hálsbólguveiru. Það er barnaskapur að halda, að það unga fólk, sem aðallega sækir staði, sem nú er búið að loka eða takmarka gestafjölda mjög á og hefði e.t.v. sýkzt þar, muni eftir herðingu ekki sýkjast annars staðar. Þótt náttúran sé lamin með lurki, þá leitar hún út um síðir, sögðu Rómverjar.
Þegar óttinn er ekki lengur fyrir hendi, þá mun fólk halda áfram að hittast. Daglegur smitfjöldi var hættur að aukast áður en aðgerðir voru hertar 14.01.2022, og þeim mun fækka á næstu vikum, hvað sem sóttvarnaryfirvöld taka sér fyrir hendur. Seinni partinn í febrúar 2022 mun náttúrulegt lýðónæmi að öllum líkindum nást í landinu.
Sóttvarnaryfirvöld ættu að hætta rándýrum leikaraskap sínum og hreinum skrípaleik með því að sleppa þríbólusettum einum við einkennalausa sóttkví. Þríbólusettir eru ekki ólíklegri en aðrir til að smita út frá sér af ástæðum, sem hér hafa verið raktar. Afleggja ætti einkennalausa sóttkví með öllu og einfaldlega biðja fólk um að hafa hægt um sig heima við, ef það finnur fyrir einkennum. Botnlausum sýnatökum og rakningum má hætta og spara þannig stórfé, sem betur væri komið í fjárveitingum til sjúkrahúsa landsins.
Þann 10. janúar 2022 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Jóhannes Loftsson, verkfræðing, sem aflað hefur sér mikillar þekkingar á tölfræði Kófsins. Greinin hét einfaldlega:
"Ekki hlýða Víði".
Þar gat m.a. að lesa þetta:
"Ómíkron er svo smitandi, að vírusinn er óstöðvandi. Frekari frelsisskerðingar munu litlu breyta, og stríðið er tapað. En þó ekki í raun, því [að] stríðið fyrir eðlilegu lífi er að vinnast. Hið milda ómíkronkvef býr til svo góða vörn gegn deltalungnabólgunni, að hún er að hverfa. Fyrir eldheita bólusetningarsinna má kalla þetta "bóluefni, sem virkar", til að aðskilja það frá tilraunabóluefnunum, sem virka ekkert á Ómíkron samkvæmt nýjustu tölfræðiupplýsingum á covid.is.
Þessu hafa sumir áttað sig á, og í Suður-Afríku og Ástralíu eru menn hættir og farnir að bíða eftir ómíkronhjarðónæminu. Óumfjýjanlegt er, að fleiri fylgi eftir, því [að] svo ört fjölgar smitum um allan heim.
Sú ákvörðun heilbrigðisráðherra að bólusetja börn með þessu gagnslausa efni við þessar aðstæður á eftir að verða komandi kynslóðum ráðgáta. Börn eru í hverfandi hættu af covid og enn minni hættu af ómíkron. Tilraunalyfið, sem þau verða sprautuð með, verður hins vegar á tilraunastigi fram til 2026. Börn, sem eru sprautuð á mánudaginn [10.01.2022] munu svo ekki verða "fullbólusett" fyrr en 14 dögum eftir seinni bólusetningu eða 14. febrúar. Líklegt verður að telja, að þá verði síðasta eftirlifandi afbrigði, sem tilraunabólusetningin hefur virkni gegn, deltalungnabólgan, löngu horfin. Tilraunin virðist því algjörlega tilgangslaus. Skaði barnanna getur hins vegar orðið margs konar."
Undir allt þetta skal taka heilshugar. Dr Robert Malone, aðalhöfundur mRNA-tækninnar, flutti um áramótin 2021/2022 ávarp til heimsbyggðarinnar um skaðsemi þessarar tækni fyrir börn, sem sóttvarnaryfirvöld alls staðar hefðu betur tekið mark á, en sums staðar virðist það þó hafa verið gert. Það er óskiljanleg rökleysa að baki ákvörðun um að leggja heilsu barna í hættu gegn engum ávinningi fyrir heilbrigð börn. Glámskyggnin ríður ekki við einteyming. Að bólusetja börnin svo í miðjum faraldrinum stríðir gegn hefðbundinni aðferðarfræði á þessu sviði. "Something is rotten in the state of Danemark (and Iceland)."
Þorsteinn Siglaugsson, hagfræðingur, hefur manna ötulastur verið við skriftir um Kófið. Þann 11. janúar 2022 birtist eftir hann í Morgunblaðinu greinin:
"Þórólfur í Undralandi".
Henni lauk þannig:
"Misráðin áform sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra um bólusetningu 5-11 ára barna og mismunun fólks eftir sprautufjölda, sem þegar eru að hluta komin til framkvæmdar, því miður, grundvallast á úreltum gögnum. Samkvæmt gögnum frönsku læknaakademíunnar hafa heilbrigð ung börn engan ávinning af bólusetningunni, hvað þá þegar hið nýja afbrigði virðist leiða til þess, að hún auki smittíðni í stað þess að minnka hana. En hætta á alvarlegum aukaverkunum er óbreytt. Sérréttindi til þeirra, sem nú smitast mest [og þar af leiðandi dreifa veirunni mest - innsk. BJo] eru bersýnilega fjarstæðukennd ráðstöfun.
Lísa var í Undralandi. Eru sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra þar líka ?"
Sóttvarnarlæknir lemur hausnum við steininn. Hann virðir staðreyndir að vettugi og neitar að láta af ofurtrú sinni á þessa nýju tækni við bóluefnagerð, sem reynzt hefur þó gjörsamlega haldlaus og óvenju skaðleg m.v. hefðbundin bóluefni, sem fengið hafa markaðsleyfi.
Sóttvarnarlæknir Íslands er orðinn sjálfstætt heilbrigðisvandamál, efnahagsvandamál og jafnréttisvandamál. Þetta hefst upp úr því að veita einum manni heimild til að hræra upp í tilfinningum fólks með hræðsluáróðri gagnvart nýjum sjúkdómi, og að láta hann síðan um að ráðleggja ráðherra, sem á óhægt um vik með að taka sjálfstæða ákvörðun, þegar sóttvarnarlæknir er búinn að undirbúa jarðveginn (manípúlera) á fjölmiðlunum og með grátkór lækna á Landsspítalanum háværan að ógleymdum ónefndum lækni með vinnustað í Vatnsmýrinni.
Alþingi verður að taka stjórnkerfi sóttvarna til rækilegrar endurskoðunar með það í huga, að sóttvarnarráð, skipað farsóttarsérfræðingum og hagsmunaaðilum úr þjóðfélaginu, geri ígrundaðar og vel vegnar sóttvarnartillögur til ráðherra, en stundi ekki hræðsluáróður í fjölmiðlum.
Þann 8. janúar 2022 birtist líka grein eftir Þorstein Siglaugsson í Morgunblaðinu. Hún var undir fyrirsögninni:
"Minnkar bólusetning vörn gegn smiti ?"
Það er ekki vafa undirorpið, að hún gerir það fyrst í stað, því að ónæmiskerfið "fer á hliðina" við að fást við aðskotaefnin, en Þorsteinn hefur fundið út leitni til tíðari smita þríbólusettra, er frá líður, enda er léleg ending þessarar nýju bóluefnatækni í líkamanum vel þekkt:
"Nokkuð skýr leitni er í þessum gögnum. Með sama áframhaldi má vænta þess, að mjög fljótlega verði sú litla vernd, sem þreföld bólusetning veitir enn gegn smiti, alveg horfin - þeir verði jafnlíklegir til að smitast og óbólusettir og bólusett börn einnig."
Þorsteinn er sannspár, enda hafa aldrei staðið neinar líkur til þess, þrátt fyrir fullyrðingar sóttvarnarlæknis, að 3. sprautan mundi endast eitthvað betur en 1. og 2. sprautan. Líkaminn losar sig við efnin. Lendir ruslið í lifrinni ?
Þorsteinn lauk grein sinni þannig:
"Það vekur furðu, að þessi stórfellda breyting á smittíðni skuli enn ekki hafa ratað í fjölmiðla og ekki síður, að grundvallarforsendubreyting af þessu tagi virðist engin áhrif hafa á fyrirætlanir stjórnvalda, annars vegar um bólusetningu ungra heilbrigðra barna hverjum veiran er afar hættulítil, og hins vegar fyrirætlanir um að mismuna fólki eftir fjölda bóluefnaskammta. Það er skylda stjórnvalda að grundvalla aðgerðir á staðreyndum og endurskoða þær, þegar forsendur breytast. Það hljóta þau að gera nú."
Það er í fersku minni, hversu afdráttarlaust sóttvarnarlæknir fullyrti á sínum tíma, að 3. bólusetningin, örvunarsprautan, mundi skipta sköpum í viðureigninni við C-19. Þetta fullyrti hann, þótt spá hans eða kannski loforð til landsmanna um hjarðónæmi, ef þeir almennt létu bólusetja sig tvisvar, hefði reynzt alröng, og sérfræðiheiður hans hefði þannig beðið hnekki.
Leikmönnum, sem lítillega höfðu kynnt sér rannsóknir á virkni og endingu þessara bóluefna í líkamanum, var þó ljóst, að fullyrðing sóttvarnarlæknis um töframátt 3. sprautunnar, var án vísindalegs rökstuðnings, og þess vegna aðeins til vitnis um örvæntingu manns með gjaldþrota málstað, þar sem var misheppnuð tilraun á þjóðinni með nýja bóluefnatækni, sem hefur valdið fleiri og skaðlegri verkunum á líkamann en áður eru dæmi um með bóluefni með markaðsleyfi til almennrar notkunar. Þegar sami sóttvarnarlæknir síðan gerði tillögu um forréttindi í þjóðfélaginu til handa þríbólusettum, fór traustið fyrir lítið sums staðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)