Færsluflokkur: Bloggar
15.1.2022 | 11:39
Svíþjóð er enn fyrirmynd á vissum sviðum
Hrollvekjandi eru ógnartíðindi af glæpagengjum í sumum sænskum borgum, sem sýna, að sænska samfélagið er ekki lengur samstöðusamfélag, eins og það var, þegar Svíar voru einsleit þjóð með eina þjóðmenningu eða kannski tvær (Samar í Lapplandi). Fjölmenningarsamfélagið hefur fyrir löngu leitt til innri baráttu og togstreitu ólíkra menningarhópa. Trúarhópar leitast við að viðhalda forneskjulegum venjum og siðum úr átthögum sínum, sem fáa grunaði, að yrðu lífseig í Svíþjóð, þegar þessum innflytjendum og flóttamönnum var hleypt inn í landið, en annað kom á daginn, og þess vegna er fjandinn laus. Það gildir enn hið fornkveðna, er Þingeyingurinn Þorgeir Ljósvetningagoði kvað upp úr með á Alþingi á Þingvöllum 999-1000, að ef vér slítum í sundur lögin, þá munum vér og slíta friðinn.
Í sóttvörnum gegn C-19 fárinu, sem með ómíkron hefur breytzt úr lungnabólgu í hálsbólgu, hafa Svíar að mörgu leyti fetað sínar eigin brautir með vægari samkomutakmörkunum og rekstrarhömlum en aðrir, svo að frelsisskerðingar fólks hafa verið þar minni en víðast annars staðar, sem og kostnaður atvinnulífs og hins opinbera. Dauðsföll voru samt færri í Svíþjóð en í mörgum löndum, sem beittu íþyngjandi hömlum, enda náðist lýðónæmi strax vorið 2021. Strangar opinberar sóttvarnarhömlur á Íslandi og annars staðar missa marks gegn háum smitstuðli ómíkron og minnka þar af leiðandi álagið á heilbrigðiskerfið sáralítið, ef nokkuð. Það er ekki hægt að hemja vatnsflóð með stíflubúti.
Dánarhlutfall Svía af völdum C-19 er lægra en í meira en 50 löndum, þar sem beitt var meiri opinberum sóttvarnaraðgerðum en í Svíþjóð. Segir það ekki töluverða sögu um vanhugsaðan grundvöll opinberra sóttvarnaraðgerða gegn pest á borð við C-19.
Heimurinn brást illa við sóttvarnarhugmyndafræði Svía og fordæmdi landið og sóttvarnarlækni þess, Anders Tegnell. Aflokunarfólk spáði Svíum hörmungum, en dánarhlutfallið sýnir Svía komast betur af en þá, sem beittir voru langvarandi aflokunum og öðrum frelsissviptandi úræðum forsjárhyggjunnar.
Anders Tegnell fékk aftökuhótanir frá almenningi og var hæddur af stéttarsystkinum. Hann var fordæmdur af fjölmiðlum á borð við Time Magazine, New York Times, The Guardian, Focus, La Republica, CNN, BBC o.fl. Á hvaða vegferð eru flestir fjölmiðlamenn eiginlega í þessum faraldri ? Þeir vöruðu við hörmungum af stefnu Tegnells. Það gerðu líka norsku Aftenposten og Dagens Næringsliv, hvattir áfram af ritstjórnum og sjálfskipuðum sérfræðingum í NRK (norska RÚV) og TV2. Eru afleiðingar þess að kynda undir fjöldamóðursýki í þjóðfélögunum aðeins fáum fjölmiðlamönnum ljósar ?
Væri Svíþjóð eitt af ríkjum Bandaríkjanna, mundu Svíar veru með 3. lægsta dánarhlutfallið í BNA. Svíar fylgdu aðeins hefðbundnum vestrænum ráðum gagnvart smitsjúkdómum.
Svíþjóð fylgdi ekki Kína. Svíar fóru hefðbundnar leiðir, sem heilbrigðisstarfsfólk hefur farið til að fást við smit. Svíar lögðust ekki í þjóðfélagslega tilraunastarfsemi. Það gerðu hins vegar flestir hinna með því að setja í gang óreyndar, frelsisskerðandi aðgerðir í sögulegri þjóðfélagstilraun, sem spannaði allan heiminn. Þetta var gert án vísindalegrar kostnaðar- og ábatagreiningar og kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum frá Kína.
Svíþjóð hefur náð betri árangri en ýmis lönd, sem beitt hafa aflokunum að hætti Kínverja.
Með bráðum 2ára reynslu og gögn um 21 mánaðar skeið frá 50 löndum, er myndin að skýrast. S.k. samfélagsnýsköpun með óreyndum aðgerðum er dýrkeypt. Dánarhlutfall sýnir, að Svíar hafa komið betur út úr Kófinu en þjóðir, sem beitt hafa langvinnum aflokunum og öðrum íþyngjandi aðgerðum.
Samkvæmt opinberu talnayfirliti Eurostat eru Bretland, BNA, Pólland, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland, Spánn, Argentína og Belgía með hærra dánarhlutfall af C-19 en Svíþjóð. Í nóvember 2021 voru 50 lönd með hærra dánarhlutfall en Svíþjóð vegna C-19. Tölur fyrsta árs Kófsins, 2020, sem þótti ganga brösuglega í Svíþjóð, setja þó Svía í 21. sæti af 31 landi, sem Eurostat sýnir um dánarhlutfall af völdum C-19. Borin saman við 50 ríki BNA, er Svíþjóð með þriðja lægsta dánarhlutfallið.
Samkvæmt Worldometer var dánarhlutfall í % af íbúafjölda í 9 löndum febrúar 2020-nóvember 2021 (Ísland til 12.01.2022) eftirfarandi:
- Tanzanía 0,001
- Rúanda 0,010
- Ísland 0,011
- Indland 0,033
- Ísrael 0,087
- Svíþjóð 0,148
- Úkraína 0,182
- Bretland 0,209
- Ítalía 0,220
- Bandaríkin 0,238
Athygli vekur, að lítt bólusettar Afríkuþjóðir eru með lægsta dánarhlutfallið. Talið er, að á Indlandi og í Svíþjóð hafi myndazt hjarðónæmi veturinn 2021, svo að þessi lönd sluppu að mestu við smit haustið 2021, og það er ekki fyrr en nú með ómíkrón-afbrigðinu, að smitum tekur að fjölga, en þau eru þó enn tiltölulega færri í Svíþjóð en á Íslandi. Athygli vekur einnig, að Ísraelar, sem fyrstir urðu til að bólusetja sína þjóð, eru samt með hærra dánarhlutfall en Ísland og Indland.
Ísland kemur alveg sérstaklega vel út í þessum samanburði, sem gæti stafað af tiltölulega litlum tóbaksreykingum landsmanna, hreinu lofti og tiltölulega dreifðri byggðl ásamt tiltölulega lágum meðalaldri þjóðarinnar. Ef litið er til Svíþjóðar, er ekki líklegt, að samkomutakmarkanir og rekstrarhömlur í sóttvarnarskyni hafi bjargað mörgum mannslífum á Íslandi, og sízt af öllu getur slíkt átt við veirusjúkdóm með dreifingarstuðul ómíkrón, sem augljóslega er alls staðar í þjóðfélaginu. Það yrði að stöðva samfélagið til að hemja faraldurinn, en til þess er alls engin ástæða, þegar hálsbólga á í hlut.
Áfengisbannið í BNA var líka tilraun.
Söguleg tilraun: 17. janúar 1920 gekk í gildi algert bann við sölu áfengis í BNA. Það var stærsta þjóðfélagslega tilraunin fram að því, ef bylting bolsévika og alræði öreiganna í Rússlandi er undanskilin. Árið eftir mótmæltu 20 þús. manns banninu á götum Nýju Jórvíkur. Mótmælendurnir litu á bannið sem gerræðislega skerðingu persónulegs frelsis. Bannið leiddi til útbreiddra átaka og glæpa, en var þó ekki afnumið fyrr en 1933. Þótt flestir séu sammála um, að tilraunin hafi mistekizt gjörsamlega, stendur hún þó í huga forræðishyggjufólks sem "eðaltilraun í góðum tilgangi".
Nú horfa landsmenn upp á sóttvarnarlækni í hlutverki don Kíkóta berjast við vindmyllur. Þar er átt við máttvana, en rándýrar opinberar sóttvarnarráðstafanir að undirlagi hans á formi endalausra skimana, rakninga, sóttkvía og einangrunar að ógleymdum 4 farsóttarsjúkrahúsum; allt í því skyni að hemja hálsbólgu með óvenju háan smitstuðul. Dánarhlutfallið á Íslandi af völdum kórónuveirunnar er svo lágt, að látnir af hennar völdum eru aðeins um 1 % af fjölda látinna af öðrum völdum, og eru dauðsföll þó skráð á C-19, þótt aðrir sjúkdómar hafi komið við sögu. Þegar um jafnbráðsmitandi veiru er að ræða og ómíkron, geta einstaka lokanir og samkomutakmarkanir ekki hamlað framrás veirunnar sem neinu nemur.
Hið athyglisverða er, að opinberar sóttvarnarráðstafanir eru framkvæmdar með sams konar röksemdafærslu og aðferðum í lýðræðisríkjum og einræðisríkjum. Þetta er alvarlegt umhugsunarefni fyrir Vesturlönd.
Nú er heimurinn allur í þjóðfélagstilraun með sams konar höft á frelsi fólks og mannréttindi og í sama göfuga augnamiðinu að bjarga mannslífum. Löggjafinn verður að fjalla af alvöru og vandvirkni um það til hvaða ráðstafana framkvæmdavaldinu er heimilt að grípa við mismunandi aðstæður án þess að fá til þess sérstaka heimild frá löggjafanum. Það hefur komið í ljós, að embættismönnum og ráðherrum hættir mjög til að fara offari í ráðstöfunum sínum. Það gengur ekki að setja heilt þjóðfélag í spennitreyju í nafni heilbrigðiskerfisins, þegar búið er að bólusetja yfir 90 % þjóðarinnar gegn sjúkdóminum og hann er jafnvægur og raunin er með ríkjandi afbrigði þessarar kórónuveiru.
Fjöldi óháðra sérfræðinga og heilbrigðisstarfsmanna lýsa að vísu bólusetningunum sem viðamestu læknisfræðilegu tilraun sögunnar. Hún er framkvæmd með bráðabirgða genatækni, sem á skömmum tíma hefur kostað tugþúsundir manna lífið. Heilsufarslegar langtíma afleiðingar bólusetninganna, t.d. á ónæmiskerfi líkamans, eru óþekktar. Astrid Stuckelberger, læknir, rannsakandi og uppeldisfræðingur, sem í mörg ár hefur unnið við að hemja sjúkdómsfaraldra, sagði við norska miðilinn hemali: - Opinberar tölur frá BNA sýna, að aukaverkanir kórónu-bóluefnanna fram að þessu eru þrisvar sinnum fleiri en summan af aukaverkunum bólusetninga síðastliðin 35 ár. - Þetta er grátlegt í ljósi haldleysis þessara sömu bóluefna. Hafa lyfjafyrirtækin gefið mannkyninu langt nef og samtímis haft það að féþúfu ?
Svíar gerðu ekki þjóðfélagstilraun, en það gerðu hinir. Fyrir vikið hefur verið reynt að setja Svíþjóð og sóttvarnarlækninn Tegnell í slæmt ljós.
Smitsérfræðingar, örverufræðingar og faraldursfræðingar, í Svíþjóð og annars staðar, töldu, að frelsið, sem Svíar urðu aðnjótandi í Kófinu, yrði þeim dýrkeypt. Fræðimenn við Uppsalaháskóla, Karólínska sjúkrahúsið og Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi notuðu tölvutæk líkön til að reikna út, að 96 þúsund Svíar myndu deyja sumarið 2020 (stærðargráðuvilla). Á alþjóða vettvangi spáðu fræðimenn við Imperial College, John Hopkins og fleiri háskóla, að milljónir íbúa Bretlands og BNA mundu deyja af völdum hinnar "nýju og óþekktu" veiru á árinu 2020.
Þrátt fyrir þessar dómsdagsspár má marka af þremur greinum eftir faraldursfræðinginn og tölfræðinginn John Ioannidis við Stamford University, að á heimsvísu varð dánarhlutfallið ekki hærra árið 2020 en árin á undan. Það hefur verið útskýrt þannig, að faraldurinn hafi lagzt þyngst á þá, sem áttu stutt eftir, og flensur hafi ekki náð sér á strik, en árlega deyr viðkvæmt fólk úr lungnabólgu. Til hvers var verið að skjóta lýðnum skelk í bringu ? Það er ekki fallega gert.
Útreikningar spálíkana um smit mynda ekki góðan grundvöll fyrir ákvarðanatöku um sóttvarnaraðgerðir.
Lærdómar ? Fólk er flóknara fyrirbæri en þjóðfélagsleg nýsköpun ræður við.
Veirulíkön, reist á kenningum um smitdreifingu, eru mjög óáreiðanleg og ónothæf sem grundvöllur fyrir íþyngjandi inngrip í líf fólks. Nokkrir óháðir fræðimenn, eins og dr Stephan Lanke, fullyrða, að líkönin séu reist á úreltri og rangri smitkenningu, sem rakin er aftur til Luis Pasteur á 9. áratug 19. aldar (um 130 ára).
Annar lærdómur er , að frelsið kostar. Frjálst samfélag veltur á einstaklingum, eins og Tegnell, sem hafa þrek til að ganga undir það jarðarmen að standa gegn valdsæknum valdhöfum ríkisvaldsins og fordæmingu margra, jafnvel almennings, ef búið er að kynda undir ótta í samfélaginu við hinn ósýnilega og jafnvel lítt þekkta óvin.
Bloggar | Breytt 16.1.2022 kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sænski læknirinn Sebastian Rushworth birti á vefsetri sínu 09.01.2022 umfjöllun um viðamikla enska rannsókn, sem leiddi í ljós með óyggjandi hætti, að áhætta fólks undir fertugu af að veikjast af hjartavöðvabólgu eykst svo mikið eftir bólusetningu með mRNA-efnunum, að ekki er læknisfræðilegur grundvöllur fyrir þessum bólusetningum í ljósi tiltölulega vægra veikinda af sjúkdóminum, C-19, einkum nýjasta afbrigðinu, ómíkron.
Þar að auki hefur nú verið sýnt fram á, sbr Morgunblaðsgrein Jóhannesar Loftssonar, "Ekki hlýða Víði", að mRNA-bóluefnin virka ekki gegn ómíkron-afbrigðinu, enda hefur lyfjaiðnaðurinn boðað nýtt bóluefni gegn því í marz 2022, en þá verður víðast hvar, einnig hérlendis, komið hjarðónæmi gegn því. Það munar mjög lítið um samkomutakmarkanir og rekstrarhömlur stjórnvalda, þegar smitstuðullinn er jafnhár og raunin er með ómíkron. Rakning og sóttkví fólks, sem ekki hefur verið greint jákvætt og er án einkenna, á ekki lengur við. Nú hefst grein Sebastians Rushworth í þýðingu höfundar þessa vefseturs:
"Það hefur verið ljóst um hríð, að Pfizer og Moderna bóluefnin valda hjartavöðvabólgu. Það, sem samt hefur verið óljóst, er, hvort hættan á hjartavöðvabólgu eftir bólusetningu er meiri en eftir smit [af C-19]. Ef áhættan í kjölfar smits er jafnvel meiri en í kjölfar bólusetningar, þá getur verið fram komin nokkuð góð ástæða fyrir því að hafa ekki áhyggjur af hjartavöðvabólgu, sem bólusetningin veldur að því gefnu, að nánast allir óbólusettir munu fyrr eða síðar fá covid og verða þannig fyrir áhættu af eftir-smits hjartavöðvabólgu.
Ef hins vegar áhættan er meiri eftir bólusetningu, þá þarf að fara í nákvæmara áhættumat. Fyrir þá stóru hópa þýðisins, sem geta búizt við hverfandi lítilli hættu fyrir sig af covid-19 (í grundvallaratriðum allir undir fertugu, sem eru ekki í yfirþyngd og ekki með undirliggjandi heilsufarslega veikleika), væri jafnvel aðeins lítil hætta á alvarlegum sjúkdómi af völdum bólusetningar nóg til að metaskálarnar yrðu þyngri þeim megin, að rétt væri að sleppa þessum bólusetningum.
Enginn skyldi fara í grafgötur um það, að hjartavöðvabólga er alvarlegur sjúkdómur. Upp á síðkastið hef ég oft heyrt þessa setningu: "en hjartavöðvabólga vegna covid-bóluefnanna er væg !". Fyrir covid hafði ég aldrei heyrt um væga hjartavöðvabólgu. Fyrir covid var hjartavöðvabólga alltaf talin alvarlegur sjúkdómur. Það, sem fólk á við með þessari yrðingu, er, að sjúklingar lagðir inn á sjúkrahús með hjartavöðvabólgu stuttu eftir bólusetningu, geta vanalega farið heim eftir nokkra daga og enda sjaldan á gjörgæzludeild. Þetta má til sanns vegar færa.
Við segjum samt ekki, að flest hjartaáföll séu "væg", bara af því að þau verði ekki til innlagnar á gjörgæzludeild og bara af því að sjúklingurinn er venjulega útskrifaður af spítalanum innan viku. Hjartaáfall er hjartaáfall og er í sjálfu sér alvarlegt. Hið sama á við um hjartavöðvabólgu. Hjartavöðvarnir eru ekki mjög hæfir til viðgerða á sjálfum sér, og núna er ómögulegt að vita í hversu miklum mæli hjartavöðvabólga af völdum bóluefnis eykur áhættu sjúklingsins á að verða í framtíðinni fyrir alvarlegum langvarandi einkennum á borð við stöðuga hjartveiki eða gáttatif.
Þannig er hjartavöðvabólga alltaf alvarleg án tillits til, hvort sjúklingurinn lendir í gjörgæzlu eður ei, og við þurfum að vita, hvort líkindi á hjartavöðvabólgu af völdum bóluefnanna eru meiri en líkindi á hjartavöðvabólgu af völdum smits [C-19].
Sem betur fer var nýlega birt rannsóknarskýrsla í "Nature Medicine", sem hjálpar okkur við að svara þessari spurningu af einhverju viti. Það, sem rannsakendurnir gerðu, var að safna gögnum um alla yfir 16 ára aldri, sem voru bólusettir gegn covid-19 í desember 2020-ágúst 2021. Þetta reyndust vera um 40 milljón manns (meira en helmingur brezku þjóðarinnar). Fyrir þetta risastóra þýði var gögnum síðan safnað um tilvik hjartavöðvabólgu og jákvæð covid-próf. 8 % af þessum 40 M greindust smitaðir af covid-19 á rannsóknartímabilinu. Fyrirætlun rannsóknarinnar var að meta áhættu hjartavöðvabólgu innan 28 daga frá bólusetningu í samanburði við hjartavöðvabólgu eftir smit, og að setja þetta í samhengi við bakgrunnsupplýsingar um hjartavöðvabólgu.
Það er einn hængur á að taka tölur úr þessari rannsókn, eins og þær koma fyrir af skepnunni, og hann er sá, að í rannsókninni var notazt við fjölda greindra sem mælikvarða á covid-smitaða. Við vitum hins vegar, að allt að helmingur covid-sýkinga er einkennalaus, og þar að auki er óþekktur fjöldi fólks, sem fær einkenni, en lætur hjá líða að fara í greiningu. Þannig er raunfjöldi smita líklega a.m.k. tvöfaldur fjöldi greindra. Þetta gefur ósanngjarnan samanburð við bólusetningarnar, því að vitað er um alla, sem eru sprautaðir. Það eru ekki margir, sem hafa verið sprautaðir á laun og ekki skráðir. Þannig þarf a.m.k. að helminga hlutfall tilvika hjartavöðvabólgu af greindum til að nálgast rétt hlutfall.
Jæja, þá að niðurstöðunum:
Það fyrsta, sem mikilvægt er að gaumgæfa, er, að hættan á hjartavöðvabólgu eftir bólusetningu í samanburði við hjartavöðvabólgu eftir smit, er, að tíðni hjartavöðvabólgu er gríðarlega háð aldri bólusettra. Fyrir aldurshópa yfir 40 sáust alls engin merki um, að bólusetningar ykju þessa tíðni. Jákvæð covid-19 greining á hinn bóginn jók líkindin 12-falt fyrir eldri en 40. Þannig var áhætta fólks eldra en 40 á að fá hjartavöðvabólgu eftir smit miklu meiri en hættan á slíku eftir bólusetningu.
Hins vegar var áhætta fólks 16-40 ára allt önnur. Í þessum hópi jókst hættan á hjartavöðvabólgu innan 28 daga eftir jákvæða greiningu covid-19 "aðeins" ferfalt, og áhættan eftir fyrsta skammt af Moderna bóluefninu jókst nú ferfalt.
Munum nú, að covid-prófin ná sennilega aðeins helmingi smitaðra í mesta lagi, svo að raunveruleg áhættuaukning eftir smit er nær því að vera tvöföld, en ekki fjórföld. Með öðrum orðum þá veldur fyrsti skammtur af Pfizer-bóluefninu nokkurn veginn sömu tíðni hjartavöðvabólgu og sýkingin sjálf, en fyrsti skammtur af Moderna-bóluefninu veldur gróflega tvöfaldri tíðni á við sýkinguna sjálfa.
Jæja, snúum okkur þá að annarri bólusetningunni í röðinni [í upphafi bólusetninga gegn C-19 nefndur seinni skammtur-innsk. BJo]. Annar skammtur af Pfizer-bóluefninu þrefaldaði hættuna á hjartavöðvabólgu, en af Moderna-bóluefninu 21-faldaðist áhættan.
Það er óhætt með vissu að álykta, að sú ákvörðun yfirvalda í mörgum Evrópulöndum fyrir nokkrum mánuðum að gera hlé á bólusetningum fólks undir 30 ára með Moderna, var viturleg. Eitt er víst, að annar skammturinn af bæði Pfizer og Moderna eykur áhættuna verulega í samanburði við áhættuna af fyrsta skammtinum. Þetta leiðir hugann að spurningunni, hversu viturlegt sé að ráðleggja fólki undir 40 þriðju sprautuna. Það er rökrétt að halda, að 3. skammturinn muni auka hættuna á hjartavöðvabólgu enn frekar. [Ábyrgð yfirvalda á Íslandi er mikil, að hvetja alla niður að 16 ára aldri til 3. bólusetningarinnar með því að undanskilja þá einkennalausri sóttkví. Það er einboðið að afnema alfarið regluna um sóttkví án einkenna - innsk. BJo.] Það er ljóst af gögnum þessarar rannsóknar, að það er brattur aldurshnigull áhættu, þ.e. hættan á hjartavöðvabólgu eykst gríðarlega með lækkandi aldri. Í raun var það svo fyrir yngsta hópinn (16-29 ára), að hættan á hjartavöðvabólgu jókst 74-falt eftir annan skammtinn af Moderna !
Með það í huga, að lækkandi aldur þýðir líka minnkandi hættu á slæmum afleiðingum covid (þ.m.t. minnkandi hætta á hjartavöðvabólgu eftir covid), er skynsamlegt að gera ráð fyrir ákveðnum aldri, þar sem skaði bólusetninganna verður meiri en gagnið. Þar að auki eru fram komin sönnunargögn um, að með auknum fjölda bólusetningarskammta aukist hættan á hjartavöðvabólgu. Með þessar 2 staðreyndir í huga er það rökstudd skoðun mín, að "örvunarbólusetningar" ungs og heilsuhrausts fólks, og þá einkum barna, sé óviturlegt. Auk þess hafa margir, ef ekki flestir, ungir fullorðnir, unglingar og börn, þegar fengið covid og hafa þar af leiðandi eins gott ónæmi gegn veirunni og mögulegt er að fá. Þess vegna setja örvunarsprautur þessa hópa í hættu á að verða fyrir heilsutjóni án nokkurs mögulegs gagns. Þegar gagnsemi bólusetninga er engin (núll), þá er öll áhætta, hversu lítil sem hún kann að vera, ósamþykkjanleg."
Harðvítugur áróður íslenzkra sóttvarnaryfirvalda fyrir bólusetningum barna og ungmenna virðist ekki vera reistur á beztu þekkingu á þessu sviði, eins og lesendum þessarar greinar Sebastians Rushworth ætti að verða ljóst, hafi þeir ekki þegar áttað sig á því eða a.m.k. rennt grun í það. Það verður að söðla um hið fyrsta áður en enn meira heilsutjón hlýzt af. Bóluefnin, sem fram hafa komið gegn C-19 eru meingölluð og virka lítið sem ekkert gegn ómíkron-afbrigði SARS-CoV-2 veirunnar. Þar sem afbrigðið veldur vægum einkennum hjá annars heilbrigðu fólki, eiga við rök Sebastians Rushworth um, að öll áhætta af bóluefnum sé óásættanleg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.1.2022 | 09:35
Falleinkunn í orku- og loftslagsmálum
Sú einstæða staða er nú uppi, að forgangsraforkan má heita upp urin í landinu, eins og sést af höfnun Landsvirkjunar á nýjum viðskiptum, og þetta ríkisfyrirtæki, langstærsta orkufyrirtæki landsins, er tekið til við að skerða verulega (75 MW af 100 MW til fiskimjölsverksmiðjanna) þjónustu sína við viðskiptavini með skammtíma samninga um ótryggða raforku.
Það, sem er einstætt núna, er, að á sama tíma eru engar verulegar virkjunarframkvæmdir í gangi hjá Landsvirkjun, og eina orkufyrirtækið, sem eitthvert lífsmark er með, er einkafyrirtækið HS Orka, sem er með nýja orkuöflun á prjónunum (a.m.k. 35 MW).
Veitir Suðurnesjamönnum sannarlega ekki af auknu orkuöryggi, því að eina tenging þeirra við stofnkerfi landsins, 132 kV Suðurnesjalína 1, annar ekki lengur hámarksþörf þeirra. Allt er á sömu bókina lært í orkumálunum. Þar ríkir doði og drungi vegna ráðleysis og jafnvel áhugaleysis stjórnvalda við að kljást við afturhaldsöfl, sem bera fyrir sig umhverfisvernd, þegar þau þvælast fyrir nýjum orkuöflunar- og orkuflutningsframkvæmdum í landinu. Þarna er um lítinn og illvígan hóp sérvitringa með núll-hagvöxt á heilanum að ræða, sem virðist hafa tekið stjórn og þing í gíslingu í krafti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Þessi pattstaða veldur nú stórtjóni, sem á eftir að margfaldast á næstu árum, því að raforkuþörfin vex jafnt og þétt (orkuskiptin) og ekki hillir undir virkjun, sem um munar (um 100 MW).
Dæmi um óánægju landsmanna með sjálfskaparvíti orkumála landsins gat að líta í Fréttablaðinu 14. desember 2021 í stuttri klausu undir fyrirsögninni:
"Eyjamenn vilja tryggt rafmagn".
""Það er með öllu ótækt, að upp sé komin sú staða, að keyra þurfi fiskimjölsverksmiðjur á olíu í stað grænnar raforku vegna ónógrar raforkuframleiðslu og/eða lakrar flutningsgetu á rafmagni", segir bæjarráð Vestmannaeyja í bókun vegna skerðingar Landsvirkjunar á afhendingu rafmagns í vetur.
Bæjarráðið segir skerðinguna þýða, að fiskimjölsverksmiðjur um allt land þurfi á komandi loðnuvertíð að framleiða rafmagn með olíu í stað grænnar raforku.
"Slíkt er í andstöðu við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og orkustefnu, sem stjórnvöld hafa boðað. Þá er það alvarlegt mál, ef sú staða kemur upp, að ekki verði hægt að afhenda Herjólfi rafmagn til siglinga, sem var mikið framfaraspor í loftslagsmálum", bókar bæjarráðið og skorar á stjórnvöld að tryggja afhendingu raforku um allt land."
Nú er spurningin, hvernig orku-, umhverfis- og loftslagsráðherrann bregst við þessari þörfu brýningu úr Vestmannaeyjum. Á tímum meintrar loftslagsvár og hás verðs á jarðefnaeldsneyti, sem væntanlega mun vara út orkuskiptatímabilið, er einfaldlega uppi sú krafa í þjóðfélaginu, að á hverjum tíma sé nægt tiltækt virkjað afl og orka úr endurnýjanlegum orkulindum landsins, til að ekki þurfi að keyra eldsneytisknúið varaafl í landinu mánuðum saman ár eftir ár, eins og nú gæti verið uppi á teninginum. Til þessa varaafls á aðeins að þurfa að grípa til að brúa bil í stuttan tíma vegna ófyrirséðra atvika. Nú gæti þetta ástand varað á háálagstímabilinu næstu árin, þar til t.d. virkjun í Neðri-Þjórsá verður tekin í gagnið.
Langtíma samningar um ótryggða raforku, t.d. hjá álverunum, hafa enn ekki verið nýttir til skerðinga. Sú hætta vofir yfir, að til þess muni koma í vetur (2022) og jafnvel oftar fram að næstu verulegu virkjun í gagnið. Að hámarki má skerða 700 GWh/ár til stóriðjunnar, og það gæti jafngilt útflutningstapi upp á 160 MUSD/ár eða 21 mrdISK/ár. Þetta gefur til kynna það ógnartjón, sem dráttur á að taka nýja virkjun í gagnið hefur í för með sér, og að það er til mikils að vinna að hafa borð fyrir báru á tímum tiltölulega hraðfara aukningu raforkuþarfarinnar. Það er forkastanleg frammistaða ríkisvaldsins að geta ekki útvegað rafmagn til búnaðar hjá fyrirtækjum, sem sýnt hafa mikinn metnað við fjárfestingar til að greiða fyrir orkuskiptum í landinu.
Þessi afspyrnu lélega frammistaða var gerð að umfjöllunarefni í Staksteinum Morgunblaðsins 8. desember 2021 undir fyrirsögninni:
"Raforkumál í ólestri, en næg orka".
Þessir Staksteinar hófust þannig:
"Ástandið í raforkumálum landsins er augljóslega orðið grafalvarlegt. Morgunblaðið greindi frá því fyrir nokkrum dögum, að fiskimjölsverksmiðjur, sem hafa rafvæðzt til að nýta innlenda orku, hefðu orðið fyrir skerðingu rafmagns. Síðan hefur það gerzt, að Landsvirkjun sendir frá sér tilkynningu um enn frekari skerðingar og að þær taki þegar gildi. Fyrir þessu eru nefndar þær ástæður, að ekki sé til næg orka auk þess, sem flutningskerfi raforkunnar sé flöskuháls."
Það er orðum aukið hjá Landsvirkjun, að Byggðalínu sé um að kenna, hvernig komið er. Landsvirkjun gæti sent meira en 200 MW alls frá Fljótsdalsvirkjun eftir þessari "hringlínu" til norðurs og suðurs, ef aflgeta Fljótsdalsvirkjunar mundi leyfa það til viðbótar Austurlandsálaginu, en Fljótsdalsvirkjun hefur ekki afl til þess, og þá yrði teflt á tæpasta vað með forða Hálslóns í vor. Þetta er frekar ódýr smjörklípa hjá Landsvirkjun.
Það, sem jók vanda landskerfisins og flýtti fyrir skerðingu, var, að Landsvirkjun missti einn rafala úr rekstri í Búrfelli 1 vegna bilunar og að tafir eru á, að rafali á Nesjavöllum komi aftur í rekstur. Þetta sýnir, hversu tæpt kerfið stendur. Í því er ekki bara orkuskortur, heldur aflskortur, sem er skýrt merki um, að nýja virkjun bráðvantar inn á kerfið. Þangað til hún kemur, verða uppi vandamál á vetrum, sem bitna á einhverjum raforkunotendum með stórtapi fyrir þjóðarbúið. Sú staða, að nú eru 4-5 ár í næstu verulegu virkjun, lýsir mjög slæmri stjórnun orkumála, fávísi eða algeru ábyrgðarleysi, enda fá Staksteinar heldur ekki orða bundizt:
"Að þetta skuli gerast á Íslandi, þar sem nóg er til af virkjanlegu fallvatni og jarðvarma, er með miklum ólíkindum."
Það, sem er óvenjulegt og "með miklum ólíkindum" er, að ekki hillir undir nýja virkjun í rekstur, þegar orkuskortur dynur á hérlendis. Enginn veit, hvar verður virkjað næst, eða hvenær verður hafizt handa. Þessari óreiðu um brýnt hagsmunamál landsins verður að bæta úr á þessu misseri 2022, ef orkuskiptin eiga ekki að lenda í öngþveiti og landið að verða fyrir stórfelldu efnahagstjóni. Ætla draugarnir, sem þessum gjörningum hafa valdið, að taka á sig ábyrgðina ? Nei, þeir flýja ofan í holurnar, þegar óhugnaðurinn af starfsemi þeirra kemur í ljós. Það er ekkert umhverfisvænt við það það að flækjast fyrir nýjum virkjanaframkvæmdum á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.1.2022 | 11:39
Væringar í ESB út af sjálfskaparvíti á orkusviði
Hefur ACER (Orkustofa ESB - samstarfsvettvangur orkulandsreglara EES-landanna) rétt fyrir sér ? Er sameiginlegur orkumarkaður ESB nauðsynlegur til að skapa samfélög, reist á endurnýjanlegri orku ? Er hátt raforkuverð kostnaðurinn við þessa orkubyltingu ?
Eins og sést á þessum spurningum, sem fólk á hinum sameiginlega orkumarkaði ESB (Evrópusambandsins) veltir núna vöngum út af, eiga viðfangsefni ACER afar takmarkaða eða enga skírskotun til Íslands. Að álpast til að ganga löggjöf ESB á orkusviðinu á hönd, getur ekki bætt stöðu Íslands á nokkurn hátt, og röksemdafærslan fyrir því á sínum tíma var ýmist út í hött eða hreinn sparðatíningur, en þessi aðild getur valdið vandræðum innan EFTA og í samskiptum við ESB, ef Eftirlitsstofnun EFTA-ESA fer að fetta fingur út í innleiðingu Orkupakka 3, sem var ekki samkvæmt bókstaf EES-samningsins, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri. Flokkarnir, sem að nýju norsku ríkisstjórninni standa, komu sér saman um að leggja 4. orkupakka ESB í saltpækil allt þetta kjörtímabil (2021-2025), og Norðmenn ráða afstöðu EFTA-landanna innan EES.
Frakkland, Grikkland, Ítalía og Rúmenía (allt vatnsorkulönd í nokkrum mæli) vilja, að verðlagning raforku innan Orkusambands ESB fari fram á grundvelli meðaltalsvinnslukostnaðar rafmagns. Á fundi orkuráðherra ESB 02.12.2021 réðust orkuráðherrar þessara 4 landa á grundvöll ACER fyrir verðlagningu raforkunnar, sem er jaðarkostnaðarreglan, þ.e. að síðasta kWh, sem framleidd er í kerfinu, ákvarði verðið. Núna kemur þessi síðasta kWh frá jarðgasi, og gasverðið hefur fjórfaldazt á skömmum tíma.
Þessi 4 lönd hafa mikið til síns máls. Hvers vegna eiga t.d. Norðmenn, heimili og fyrirtæki, sem orðnir eru þræltengdir við raforkukerfi ESB og reyndar Bretlands einnig, að greiða yfir 100 Naur/kWh (14,6 ISK/kWh), þegar meðaltalskostnaðurinn við raforkuvinnsluna í Noregi er undir 10 Naur/kWh (1,46 ISK/kWh) ? Á öllum öðrum sviðum vöru og þjónustu, sem almenningur verður að hafa aðgang að á hverjum degi, ákvarðar meðaltalskostnaður við framleiðsluna verðið. Hvers vegna á annað að gilda um rafmagn, er nú spurt í ráðherraráði ESB ?
Völdin liggja þar hjá Þýzkalandi, sem fékk til liðveizlu við sig 8 önnur lönd í þessu máli. Þarna togast rétt einu sinni á germanskur og rómanskur hugarheimur. Röksemdirnar fengu germönsku þjóðirnar úr hraðsoðinni, en þó viðamikilli skýrslu ACER um verðlagningu á orku, sem er að finna í viðhengi með þessum pistli.
ACER fullyrðir í skýrslunni, að raforkuvinnsla framtíðarinnar verði æ breytilegri eftir því sem vinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum vindur fram. Það þýðir, að orkuvinnslan verður sífellt háðari jöfnunarorku, þegar náttúran bregst með vind- og sólarleysi. Ef á að verða arðsemi í fjárfestingum á borð við rafgeyma, orkugeymslu í miklu magni, vetni og öðrum tæknilausnum, þá verður að ákvarða orkuverðið á grundvelli kostnaðar síðustu kWh, sem þörf er á. ACER er með skýrt mótaða stefnu: verðþak eða meðaltalsverð ógna sameiginlegum orkumarkaði ESB. Þessi stefna hentar Íslendingum illa.
Hefur ACER rétt fyrir sér ? Er sameiginlegur orkumarkaður nauðsynlegur fyrir þróun samfélaga til endurnýjanlegrar orkunotkunar ? Er hátt rafmagnsverð gjaldið, sem greiða verður fyrir sjálfbærnina ?
Taka má dæmi af Noregi, sem hefur nú verið rækilega tengdur, þótt enn bíði umsókn um aflsæstreng til Skotlands afgreiðslu af pólitískum ástæðum. Þegar hafizt var handa um að virkja vatnsföll Noregs, var það gert á grundvelli verðlagningar á raforkunni samkvæmt tilkostnaði. Þegar sama fyrirtæki virkjaði meira, gilti meðaltalskostnaður fyrirtækisins við verðlagningu nýrrar orku. Þegar framboðshliðin ein á að ráða markaðsverðinu, þá verður það dýrasta virkjunin per kWh, sem ræður verðinu. Þessi ófélagslega hlið á þeirri samfélagslegu innviðaþjónustu, sem útvegun rafmagns er, virðist varða leiðina að endurnýjanlegri raforkunotkun á hinum sameiginlega orkumarkaði ESB, og hún er illa til þess fallin að njóta lýðhylli, sem aftur torveldar orkuskiptin. Á Íslandi vofir yfir innleiðing á þessu framandi uppboðskerfi raforku, sem í raun á hingað ekkert erindi og getur aðeins skaðað samkeppnishæfni rafknúins samfélags.
ACER hefur lengi litið hýru auga til Norðurlandanna til orkuöflunar fyrir meginlandið og þá aðallega útvegun jöfnunarorku, sem æ meiri þörf verður fyrir á meginlandi Evrópu og ný gasknúin raforkuver sjá um nú í auknum mæli. Talsmenn ACER halda því fram, og endurómurinn hefur birzt hérlendis, t.d. í skrifum varaformanns Viðreisnar, að verðhækkanir megi að nokkru skýra með því, að sveiflugeta miðlunarlónanna á vatnsforðanum verði verðmætari (með lágum framleiðslukostnaði teygist raforkuverð vatnsorkuveranna auðvitað upp í átt að verðinu á sameiginlega markaðinum, og þetta hefur valdið gríðarlegri óánægju í Noregi). Meðaltal raforkuverðs í Noregi á 3. ársfjórðungi 2021 var 76,3 Naur/kWh eða 11,1 ISK/kWh, sem er tvöföldun m.v. meðaltal síðast liðinna 5 ára, og þetta er tæplega tvöfalt verð frá orkuveri til íslenzkra heimila.
Það geta varla verið aðrir en raforkuframleiðendur, sem sjá sér hag í því að taka þátt í þessum sameiginlega orkumarkaði, hvort sem Ísland eða Noregur á í hlut. Bæði löndin flæktust í Orkusamband Evrópu með lögfestingu Þriðja orkupakka ESB, en aðeins annað landanna sýpur seyðið af því, enn sem komið er, en vonandi ná Norðmenn að losa um klær ACER, svo að þeir geti sjálfir stjórnað raforkuflutningum inn og út úr landinu, sjálfum sér til hagsbóta.
Hins vegar eru óánægjuraddir með þetta Orkusamband víðar innan EES. Þótt ACER búist við lækkun gasverðs í apríl 2022 (allt er það undir hælinn lagt eftir ákvörðun Þjóðverja, með tilstyrk Bandaríkjamanna, að opna ekki fyrir gas frá Rússlandi um Nord Stream 2, nema Rússar haldi sig á mottunni gagnvart Úkraínu), þá mun jaðarkostnaðarregla ACER við verðlagningu raforku leiða til hás raforkuverðs á áratugum orkuskiptanna. Þetta kemur sér sérlega illa fyrir fátæk lönd á borð við Grikkland og er ekki til hagsbóta fyrir lönd, sem eru sjálfum sér nóg um raforkuöflun, eins og Frakkland, Búlgaría og Tékkland eru.
Alls staðar í Evrópu aukast mótmælin gegn þessari stefnu ACER/ESB. ESB, sem hlustar meira á ACER en borgarana í aðildarlöndunum, mun ekki lægja öldurnar.
Því má svo bæta við þetta rifrildisefni innan ESB, að Frakkar, sem nú fara með æðstu stjórn ESB, embætti forseta ráðherraráðsins, hafa nú lagt til, græningjum Evrópu til armæðu, að kjarnorkuknúin og gasorkuknúin raforkuver verði af ESB viðurkennd sem græn og umhverfisvæn mannvirki. Þetta hefur sett ríkisstjórnina í Berlín, með græningja innanborðs, í vanda. Þjóðverjar lokuðu 3 kjarnorkuverum sínum í fyrra [2021], og eru nú enn háðari kolum og jarðgasi en áður. Þetta er gott dæmi um mótsagnakennda loftslagsstefnu. Kjarnorkunni mun verða veitt brautargengi á ný í heiminum, því að hún er hið eina, sem leyst getur kolaorkuver almennilega af hólmi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.1.2022 | 11:28
Plága ofríkis og ofverndar
Hérlendis hafa dauðsföll af völdum kórónuveirunnar illræmdu, SARS-CoV-2, verið afar fátíð í samanburði við flest önnur lönd eða um 1 % af heildarfjölda dauðsfalla á ári. Til samanburðar deyja um 13-falt fleiri (meðaltal undanfarinna ára er 263) af völdum reykinga hérlendis. Samt eru reykingar hér fátíðar í samanburði við önnur lönd. Sú staðreynd ásamt tiltölulega hreinu lofti, litlu þéttbýli og lágum meðalaldri þjóðarinnar á ásamt dugnaði og þrautseigju heilbrigðisstarfsfólks í ófullnægjandi aðstöðu þátt í, að dauðsföll af völdum veikinda af C-19 sjúkdóminum (SARS-CoV-2) eru einna fæst í heiminum á Íslandi í hlutfalli við mannfjölda. T.d. er fjöldi látinna í Bandaríkjunum af völdum C-19 tæplega 22 sinnum hærri í Bandaríkjunum í hlutfalli við mannfjölda.
Um áramótin 2021/2022 höfðu rúmlega 27 k manns greinzt sjúkir af C-19, og voru þá 6,4 k sjúkir, á sjúkrahúsi voru 21 og í gjörgæzlu 6. Summa nýgengis innanlands og á landamærum var 1847 og hafði aldrei verið svo há hérlendis. Af þessu má áætla, að allt að 120 k manns hafi smitazt og að náttúrulegt ónæmi náist síðla í febrúar 2022, ef sóttvarnaryfirvöld leyfa pestinni, ómíkron afbrigðinu, sem lýsir sér í megindráttum sem hálsbólga, en er í mörgum tilvikum einkennalaus, að geisa í þjóðfélaginu nokkurn veginn óáreittri.
Við þessar aðstæður eiga hvorki smitrakning né einkennalaus sóttkví við. Ekki hefst undan í smitrakningunni og sóttkvíin veldur mjög miklum truflunum í atvinnulífinu og á stofnunum, ekki sízt á Landsspítalanum, þar sem mannekla var fyrir. Þess má geta, að náttúrulegt ónæmi Svía, sem þeir voru búnir að ávinna sér á undan stökkbreytingunni yfir í ómíkron, virðist að mestu halda gagnvart þessu gjörbreytta afbrigði. Smitum hefur fjölgað í Svíþjóð með ómíkron, en þar er samt engin bylgja.
Nú stendur fyrir dyrum hjá sóttvarnaryfirvöldum að bjóða upp á almenna bólusetningu barna, 5-11 ára gamalla, í skólum landsins. Þetta er óskiljanleg ráðstöfun í ljósi nánast einskis gagns og mikillar heilsufarsáhættu og kostnaðar. Börnum verður yfirleitt lítið meint af pestinni, sem í hlut á, svo að hér er gengið óhóflega langt í ráðsmennskunni með heilbrigði barnanna, sérstaklega í ljósi grafalvarlegra aðvarana dr Róberts Mallone, sem mun vera aðalhöfundur mRNA-tækninnar (að eigin sögn).
Hann segir í myndbandsávarpi, að mikilvæg líffæri barnanna á borð við heila, hjarta, æðakerfi og æxlunarfæri geti orðið fyrir óafturkræfum skaða af völdum bóluefnanna og ónæmiskerfi líkamans geti beðið hnekki. Það er ekki hægt að skella skollaeyrum við þessu og setja bara upp sauðarsvip.
Þann 30. desember 2021 birtist alvarleg varúðargrein gegn þessum bólusetningum í Morgunblaðinu eftir sérfræðing í heimilislækningum, Guðmund Karl Snæbjörnsson, undir fyrirsögninni:
"Hvernig getum við gert það bezta fyrir börnin".
Þar sagði m.a.:
"Vernd bóluefnanna hefur verið klén, ef nokkur, eins og öllum ætti að vera orðið ljóst.
Rannsóknir á milljónum barna í Evrópu hafa verið gerðar, á um 2 milljónum í Svíþjóð og enn fleirum í Þýzkalandi. Í þeim öllum kemur skýrt fram, að mjög fá börn urðu alvarlega veik af Covid og engin dauðsföll [urðu]. Fjöldi rannsókna sýnir ótvírætt fram á, að afar sjaldgæft er, að börn veikist alvarlega af Covid og segja má, að andlát meðal þeirra séu engin (faraldsfræðilega séð). Sænsk rannsókn Ludvigssons á 1´951´905 börnum í Svíþjóð á aldrinum 1-16 ára, sem sóttu skóla að mestu án nándartakmarkana eða notkunar andlitsgríma, sýndi engin dauðsföll hjá börnunum. Þrátt fyrir að Svíþjóð hafi haldið leikskólum og grunnskólum sínum opnum, kom í ljós mjög lág tíðni alvarlegra Covid-19-einkenna hjá þessum börnum.
Nýleg þýzk rannsókn, SARS CoV-2-KIDS, varðandi börn og unglinga, sem lagzt hafa inn á sjúkrahús í Þýzkalandi með annaðhvort SARS-CoV-2 eða PIMS-TS (Pediatric Inflammatory Multisystem Syndrome), sýndi, að ekkert barn á aldrinum 5-18 ára lézt."
Niðurstöður umfangsmikilla rannsókna sýna sem sagt, að veiruafbrigðin delta og fyrirrennarar ollu litlum veikindum barna og urðu engum að fjörtjóni í þessum 2 löndum. Þótt fleiri börn kunni að veikjast af ómíkron en áður á jafnlöngu skeiði, verða veikindin ekki alvarleg. Börnin verða þannig síður en svo betur sett eftir bólusetningu en áður, en hættan á aukaverkunum er umtalsverð. Í þessu ljósi er heldur ekki verjandi að nota börnin sem skjöld fyrir fullorðna, enda segir dr R. Mallone, að fullorðnum starfi engin hætta af smiti frá börnum.
"Verndin [frá bóluefnunum] er engin, en óvissa aukaverkana er nokkur. Hver er ávinningurinn, ef aukaverkanirnar eru bara eftir."
"Hjarðónæmið bíður enn síns tíma, þótt 90 % þjóðarinnar séu að fullu tví- eða þrísprautuð, en vitað er núna, að bóluefnið virkar ekki gegn Ómíkron. Ekki frekar en það gagnast Dönum, frændum okkar, þar sem flest Ómíkronsmitin virðast borin uppi af tví- og þrísprautuðum einstaklingum undir fertugu. Nú er ekki verið að ræða skaðsemi bólulyfjanna til lengri eða skemmri tíma, sem eðlilega hefur ekkert verið rannsakað; það bíður enn þá niðurstaðna rannsókna."
Læknirinn hefur á réttu að standa. Vernd bóluefnanna er engin gegn ómíkron-afbrigðinu, sem er orðið æði ólíkt upphaflegu kórónuveirunni erfðalega séð, þ.m.t. hið alræmda broddprótein. Sóttvarnaryfirvöld rembast eins og rjúpan við staurinn með velþóknun lyfjaframleiðendanna að reyna að telja landsmönnum trú um hið þveröfuga.
"Svo miklar hafa stökkbreytingarnar orðið, að nýju bóluefnin virka ekki lengur, né virðast þau vernda þá, sem hafa fengið Covid áður eða verið meðhöndlaðir með einstofna mótefnum (monoclonal antibodies)."
Ekki er víst, að náttúrulegt ónæmi sé jafnhaldlítið og bóluefnin, því að ný bylgja hefur ekki risið, þar sem náttúrulegu ónæmi hafði verið náð, t.d. í Svíþjóð. Þá getur vel verið um falska jákvæða greiningu á smiti að ræða, því að greiningartæknin er ekki nákvæm, og sýktir af ómíkron hafi þannig aldrei áður veikzt af SARS-CoV-2, þótt PCR-próf hafi reynzt jákvætt.
Síðan kom ákall til foreldra um að hugsa sitt ráð tvisvar áður en þau samþykkja bólusetningu barna sinna:
"Ef barnið mitt hefur litla sem enga áhættu af Covid; enga áhættu alvarlegra afleiðinga sjúkdóms eða dauða; engan ávinning af bólusetningu, en mögulegan skaða til skamms tíma, til lengri tíma hugsanlegan skaða vegna óþekktra skaðlegra afleiðinga af bólusetningunni: Hvers vegna ætti ég þá að vera að útsetja barnið mitt fyrir óþarfa áhættu með þessari bólusetningu ?
Morgunblaðið er skeleggur málsvari sjálfstæðrar og gagnrýninnar hugsunar, sem reist er á þekkingu á viðkomandi málefni. Sóttvarnarmálefni voru eðlilega fyrirferðarmikil í ritstjórnardálkum blaðsins á gamla árinu, 2021. Þann 27.12.2021 birtist þar ritstjórnargrein undir fyrirsögninni:
"Réttarríkið og plágan".
Þar sagði m.a.:
"Hann [Arnar Þór Jónsson í jómfrúarræðu á þingi] velti upp þeirri spurningu, hvort "hættan, sem við stöndum frammi fyrir [sé] slík, að það sé réttlætanlegt að stýra nú landinu með reglum, sem eru settar án þinglegrar umræðu, án lýðræðislegrar temprunar". Og hann hélt áfram og spurði, hvort það gæti verið, að hér væri að birtast einhvers konar nýtt stjórnarfar og að almenningur áttaði sig ekki á því og mögulega þingheimur ekki heldur.
Þá ræddi Arnar Þór stöðu þingsins og sagði það alls ekki mega láta sniðganga sig. Hér væri þingbundin stjórn, og framkvæmdavaldið ætti að lúta eftirliti og temprun Alþingis og dómstóla.
Í framhaldi af því vék hann að sjónarmiðum um neyðarástand, sem aðgerðir vegna kórónuveirunnar hafa gjarnan byggzt á, og sagði, að stjórnarskráin fæli ekki í sér neina almenna heimild til að lýsa yfir neyðarástandi. Hann nefndi, að ástandið, sem hér hefur ríkt í næstum 2 ár væri "til þess fallið að deyfa mörkin í hugum almennings og mögulega í hugum þingmanna milli þess, sem við getum kallað lögmætt lýðræðislegt stjórnarfar annars vegar og þess, sem ég kalla ofríkisstjórnarfar hins vegar". Og hann sagðist óttast, að smám saman væri verið að grafa undan réttarríkinu.
Neyðaraðgerðir hefðu verið skiljanlegar í upphafi faraldursins, en hann efaðist um, að þær væru skiljanlegar eða réttlætanlegar nú."
Þetta voru orð í tíma töluð á Alþingi. Engum blöðum er um það að fletta, að í skjóli ímyndaðs og sviðsetts neyðarástands hafa sóttvarnaryfirvöld tekið völdin í sínar hendur með minnisblaðafarsa frá sóttvarnarlækni og sniðgengið Sóttvarnarráð og Alþingi. Þetta er hættulegt fordæmi, enda ólöglegt að beita slíku ofríkisstjórnarfari í skálkaskjóli neyðarástands. Innihald minnisblaðanna er mjög umdeilanlegt, og reglugerðirnar á grundvelli þeirra hafa valdið gríðarlegu tjóni, og árangurinn er lítill sem enginn, enda stóð aldrei nein vá fyrir dyrum. Meiri vá stafar af reykingum landsmanna og óheilbrigðum lifnaðarháttum af ýmsu tagi. Verið er með barnalegum og ólögmætum hætti að ryðja brautina fyrir einhvers konar barnfóstrusamfélagi, sem endar með ósköpum. Brýn þörf er á nýrri og vandaðri löggjöf um sóttvarnir, sem gætir jafnvægis og temprar völd og áhrif embættismanna.
Téðri forystugrein lauk þannig:
"Varnaðarorð Arnars Þórs Jónssonar eiga ríkt erindi við Alþingi, ríkisstjórn og allan almenning, nú þegar faraldurinn hefur geisað í tæp 2 ár. Nauðsynlegt er, að borgaraleg réttindi og réttarríkið standi pláguna af sér og að almenningur fái sem allra fyrst um frjálst höfuð strokið."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.12.2021 | 13:57
Keifað í Kófinu
Innan ríkisstjórnarinnar og í samfélaginu hefur verið kallað eftir stefnumörkun í þessum heimsfaraldri, sem ekkert bólar á hjá sóttvarnaryfirvöldum landsins. Þó glitti í hana nú á síðustu dögum ársins, er sóttvarnarlæknir, síðastur manna, eygði von um hjarðónæmi vegna náttúrulegs ónæmis. Hin miklu vonbrigði með bólusetningarnar eru, að þær reyndust ófærar um að skapa hjarðónæmið, sem sóttvarnaryfirvöld þó lofuðu afdráttarlaust, ef þátttakan yrði góð, og hún varð það. Þó voru nokkrir, sem veigruðu sér við þessum bólusetningum, margir þeirra vegna undirliggjandi heilsufarsveikleika. Það er fljótfærnislegt og óskynsamlegt að draga þá ályktun, að þeim hefði farnazt betur eftir smit, ef þau hefðu látið bólusetja sig.
Sóttvarnarlæknir og Landlæknir og margir fleiri í læknastétt virðast ekki í stakkinn búin til að líta vítt yfir sviðið. Það væri óskandi, að Alþingi sýndi þann mannsbrag að semja leiðarvísi fyrir stjórnvöld út úr þessu Kófi, en í fjarveru slíks leiðarvísis verður ríkisstjórnin að taka af skarið og bera nýja stefnumörkun undir þingið. Ríkisstjórnin þarf að leita ráða út fyrir heilbrigðiskerfið, sem er niðurgrafið í eigin vandamál. Hún getur t.d. leitað til Jóns Ívars Einarssonar, læknaprófessors, sem skrifaði áhugaverðar hugleiðingar um þessi mál á Innherja Vísis 26.12.2021, sem hann nefndi:
"Siglum báruna".
Undir fyrirsögninni:
"Reynum aðrar leiðir til eðlilegs lífs",
skrifaði læknirinn:
"Í næstum 2 ár höfum við reynt að nota sömu tólin (sam[komu]takmarkanir, grímur, fjarlægðarmörk o.s.frv.), en sitjum þrátt fyrir það áfram í sömu súpunni.
Það er hins vegar ekki hægt að vera með strangar samfélagslegar takmarkanir til eilífðarnóns. Skaðinn af þeim er of mikill til lengdar. Við þurfum að halda áfram með lífið, og það er helzt unga fólkið, sem líður fyrir það ástand, sem við höfum skapað. Við þurfum því að sleppa tauminum meira og undirbúa okkur, eins og bezt verður á kosið, áður en að því kemur.
Aðalatriðið er, að nú er þörf á nýrri hugsun, sérstaklega m.t.t. þess, að við erum nú að fást við nýtt afbrigði, sem er meira smitandi og virðist valda minni veikindum, langflestir eru bólusettir, og ný lyf hafa komið fram, sem minnka líkur á alvarlegum veikindum hjá þeim, sem smitast."
Þarna kveður við nýjan tón m.v. þann fádæma grátkór, sem einkennir þau úr heilbrigðisstéttum, sem tjá sig um stöðu heimsfaraldursins C-19 á Íslandi og viðnámsþrótt heilbrigðiskerfis og samfélags gegn honum. Rannsóknir í Suður-Afríku benda til, að náttúrulegt ónæmi gegn ómíkron-afbrigðinu veiti líka mikla vörn gegn deltu-afbrigðinu. Þess vegna gæti ómíkron smit og ónæmi í kjölfarið varðað leið mannkyns út úr heimsfaraldri af völdum allra afbrigða SARS-CoV-2 veirunnar.
Bóluefnin veita hins vegar afar litla vörn gegn smiti af völdum ómíkron og enga vernd eftir 2 mánuði frá bólusetningu, benda ísraelskar athuganir til. Augljóslega er þá vernd bóluefna gegn veikindum afar takmörkuð, og ísraelskir læknar hafa nú varpað fram áhyggjum af því, að 3 sprautur eða meira geti valdið óafturkræfri veiklun á öllu ónæmiskerfi líkamans. Sóttvarnaryfirvöld á Íslandi hafa hingað til skellt skollaeyrum við öllum varnaðarorðum um mRNA-bóluefnin (genatækni), eins og áróður þeirra fyrir bólusetningum barna ber vott um.
Læknirinn, Jón Ívar Einarsson, varpaði fram hugmynd í 6 liðum að stefnubreytingu í sóttvarnarmálum í téðri grein. Nú ríður á, að pólitísk stjórnvöld í landinu axli ábyrgð sína og hverfi af braut huglausrar hlýðni sinnar við þröngsýna sóttvarnarembættismenn, sem fastir eru í sama farinu og virðast ekki gera sér neina grein fyrir neikvæðum afleiðingum frelsisskerðinga almennings og líklega afar takmörkuðu gagni af þeim:
- "Undirbúa mætti sjúkrastofnun, sem sinnti eingöngu covid-sjúklingum. Þessi stofnun hefði gjörgæzlu og aðra nauðsynlega aðstöðu og stoðmeðferðir. Þetta hefur verið gert áður í meðhöndlun smitsjúkdóma og hægt að gera það aftur. Starfsfólk, sem vinnur á covid-stofnuninni, myndi einungis vinna þar og fengi því greitt álag/hærri taxta í samræmi við það." -- Ef þetta hefði verið gert strax í byrjun faraldursins, hefði það sennilega létt álagi af Landsspítalanum og dregið úr hættu á smitum inn á spítalann. Nú er álagið lítið af innlögnum, en mikið vegna veikinda/sóttkvíar starfsfólks og vegna göngudeildarinnar. Spítalinn þarf að meta, hvort þetta breytta fyrirkomulag yrði til bóta úr þessu. Búið er að slaka á kröfum um lengd einkennalausrar einangrunar og sóttkvíar starfsfólks Landsspítalans, enda er mannekla höfuðvandamál sjúkrahússins. Þannig hafa stjórnvaldsráðstafanir bitið í skottið á sér.
- "Undirbúa þarf almenning, eins og bezt verður á kosið. Fólk er hvatt til að fara í bólusetningu og örvunarbólusetningu áður en samfélagslegum takmörkunum er aflétt. Þeir, sem kjósa það hins vegar ekki, geta tekið upplýsta ákvörðun um það, enda hættan á alvarlegum veikindum eftir smit lítil hjá hraustum, ungum einstaklingi." -- Ástæðan fyrir þeim ógöngum, sem samfélagið er í núna vegna ómíkron, er haldleysi bóluefnanna, og skaðsemi þeirra hefur líka verið staðfest hjá óvenju stórum hópi sprautuþega. Langtíma virkni á ónæmiskerfi og mikilvæg líffæri er óþekkt. Er þá ekki skynsamlegra að birgja spítalana upp af lyfjum, sem gagnleg hafa reynzt í baráttunni við SARS-CoV-2 ?
- "Þegar þjóðfélagið er eins vel undirbúið og hugsazt getur, ætti að hætta handahófskenndum, kostnaðarsömum og oft tilgangslitlum sóttvarnaraðgerðum. Þetta á m.a. við um smitrakningu, skimun á landamærum, notkun hraðprófa fyrir stórviðburði og notkun almennings á grímum. Ef fólk vill nota grímur, er því að sjálfsögðu frjálst að gera það eftir sem áður. Áfram ætti að hvetja til og minna á handþvott og spritti." -- Þetta er hægt að taka undir, enda er það kjarninn í hugmyndum læknisins um nýja aðferðarfræði. Hvetja ætti fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga, til að viðhafa ráðstafanir, sem draga úr hættu á hópsmitum, en skyldan sé afnumin. Allt mun þetta spara þjóðfélaginu stórfé og létta fólki lífið.
- "Þegar búið er að undirbúa hlutina vel, mætti samfélagið ganga að mestu eðlilega. Ungt fólk og börn gengur í skóla, er í íþróttastarfi o.s.frv. Ef fólk verður veikt, þá heldur það sig heima, eins og við höfum alltaf gert. Ekki er skylda að fara í sóttkví eða smitgát, þótt umgengni hafi verið við einstakling, sem greinist með covid. Ef fólk, sem hefur verið útsett, vill vera heima/fara varlega, þá getur það auðvitað gert það. Þetta mun byggja upp náttúrulegt ónæmi í samfélaginu tiltölulega fljótt, sérstaklega með omicron afbrigðinu, sem er mjög smitandi og virðist valda mildari veikindum. Náttúrulegt ónæmi stórs hluta þjóðarinnar mun svo hjálpa til [við] að minnka líkur á síendurteknum smitbylgjum, þótt vissulega sé mögulegt, að ný afbrigði muni koma upp, sem valdi aftur veikindum hjá þeim, sem smitazt hafa af fyrri afbrigðum." -- Jafnvel sóttvarnarlæknir Íslands talaði um það í hádegisfréttum RÚV 29.12.2021, að nú mætti fara að huga að tilslökunum í samfélaginu vegna vægra veikinda, en ekki var hann þá tilbúinn að fara að dæmi Bandaríkjamanna um styttingu sóttkvíar og einangrunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, heldur vill hann nú bíða eftir ráðleggingum frá sóttvarnarstofnunum Evrópu. Maðurinn er allt of regandi í sinni afstöðu, sem er ekki traustvekjandi. Hin pólitísku stjórnvöld verða að taka af skarið. Athuganir í Suður-Afríku, þar sem ómíkron afbrigðisins varð fyrst vart, veita von um, að náttúrulegt ónæmi gegn ómíkron muni veita nægilegt viðnám gegn öllum afbrigðum SARS-CoV-2 til að hindra faraldra. Einkennalaus sóttkví er orðin tímaskekkja.
- "Fólki í áhættuhópum er ráðlagt að fara áfram varlega, og gerðar eru ráðstafanir til að færa því nauðsynjar, ef þarf. Ef um blönduð heimili er að ræða, væri boðið upp á tímabundið húsnæði/hótel fyrir hluta heimilismanna, ef nauðsyn væri á. Þeim, sem búa á blönduðum heimilum, er einnig ráðlagt að fara varlega og e.t.v. að fara í skyndipróf í meira mæli. Ný lyf virðast minnka líkur á innlögn hjá áhættuhópum, og mikilvægt [er] að nota þær aðferðir, sem til eru til að lágmarka hættu á alvarlegum veikindum í þessum hópi og öðrum." -- Þarna minnist Jón Ívar á ný lyf við C-19. Þau hljóta að verða einn af hyrningarsteinum hinnar nýju sóttvarnarstefnu, sem liggur til eðlilegra lífs en nú og að hætta að reiða sig á og leggja stórfé og tíma í fullkomlega misheppnuð bóluefni. Margt bendir til, að bóluefnin veiti alls enga vernd gegn ómíkron. Þess vegna er það eins og út úr kú að hvetja nú foreldra til að láta bólusetja börn sín með efnum, sem eru meira en lítið varasöm fyrir þau, ef marka má dr Robert Mallone, aðalhöfund mRNA-tækninnar.
- "Starfsfólk annarra heilbrigðisstofnana, sem sinnir aðhlynningu sjúklinga og áhættuhópa, þyrfti að fara í dagleg covid-próf og vera með viðurkennda grímu og nota hlífðarbúnað við aðhlynningu, á meðan mestur fjöldi smita gengur yfir."
Þann 27.12.2021 birti Morgunblaðið harða ádrepu á sóttvarnaryfirvöld og ríkisstjórn fyrir tréhestalega stjórnun sóttvarna, þar sem farið er offari í frelsisskerðingum m.v. vægari einkenni nýrra afbrigða veirunnar á borð við ómíkron. Þar er brotið á grundvallarréttindum almennings, þegar önnur vægari úrræði eru í boði. Tregða sóttvarnarlæknis við styttingu einkennalausrar einangrunarvistar og sóttkvíar, sem ómíkron afbrigðið hefur þó orðið ýmsum öðrum þjóðum ástæða til að gera, er lítið dæmi um embættisfærslu, sem hefur mesta tilhneigingu til að hjakka í sama farinu. Téð grein í Morgunblaðinu var eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann, og hét einfaldlega:
"Hættið þessu".
Hún hófst þannig:
"Ráðstafanir íslenzkra stjórnvalda í tilefni af covid-veirunni hafa nú gengið úr öllu hófi [brot á stjórnsýslulögum - innsk. BJo]. Langflestir Íslendingar hafa látið sprauta sig og langflestir með þremur sprautum. Yfirgnæfandi meirihluti manna er kominn í skjól á þann hátt, að jafnvel þeim, sem hafa smitazt af veirunni, stafar ekki hætta af henni. Meira en 95 % þeirra fá engin eða bara smávægileg einkenni. Þeir, sem eftir standa, veikjast lítillega, en nær enginn alvarlega. Morgunblaðið birti aðgengilegar upplýsingar um þetta 23. desember sl. (bls.6).
Þrátt fyrir þessar staðreyndir eru landsmenn, svo furðulegt sem þar er, beittir frelsisskerðingum til að hindra, að smit berist milli manna. Hafi einstakur maður verið í návist annars, sem ber veiruna með sér, er sá fyrrnefndi settur í sóttkví og bannað að umgangast annað fólk um tiltekinn tíma. Hann er mældur fyrir smiti í upphafi og við lok sóttkvíar, sem stendur í 5-14 sólarhringa. Það er því ekki skilyrði fyrir því að verða beittur ofbeldinu að hafa smitazt af veirunni. Nóg er að hafa komið nálægt einhverjum, sem hefur smitazt. Þetta er sagt gert til að hindra útbreiðslu veirunnar. Samt segja yfirvöld, að líklega muni um 600 landsmenn smitast á dag. Svo er að skilja, að markmið þeirra sé að fækka í þeim hópi, kannski í 400-500 ?"
Allt umstangið er sagt vera til að verja heilbrigðisstofnanir, aðallega Landsspítalann, en nú blasir við, að þetta gerræðislega fyrirkomulag er helzta orsök vandræða Landsspítalans nú um stundir á formi gríðarmikils álags á starfsfólkið, sem þó heldur uppi þjónustunni. Við þessar aðstæður blasir við, að aðgerðir sóttvarnaryfirvalda gera aðeins illt verra, og þess vegna ber að afnema sóttkví og einkennalausa einangrun. Það mun aðeins stytta tímann fram að náttúrulegu ónæmi og létta á atvinnulífinu og stofnunum sveitarfélaga og ríkis.
Í lok greinar sinnar dró höfundurinn saman rök sín:
"Það er auðvitað furðulegt að beita þvingunum til að forðast smit á sjúkdómi, sem er svo til hættur að valda skaða og kallar ekki á önnur úrræði en aðrir sjúkdómar, þ.e. aðstoð lækna. Aðgerðirnar fela auk annars í sér alvarleg frávik frá meginreglunni um frelsi fólks og ábyrgð á sjálfu sér, sem verður að teljast grunnregla í samfélagi okkar.
Svo ég segi bara við þessa valdsæknu stjórnarherra: hættið þessu og það strax."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.12.2021 | 13:49
Tálsýn lyfjafyrirtækjanna og EMA
Nú geisar ómíkron-afbrigði SARS-CoV-2 og er mjög smitandi, talið ferfalt á við deltu, en veldur mun færri sjúkrahússinnlögnum (allt að 80 % færri) og mun færri alvarlegum veikindum (allt að 70 % færri) en fyrra afbrigðið, delta, á hverja 1000 greinda. Enginn veit, hvað við tekur eftir þetta afbrigði, en eitt virðist alveg ljóst. Bóluefnin eru engin fyrirstaða fyrir þessa veiru, sízt mest stökkbreyttu afbrigðin.
Þessi bóluefni við C-19 væru almennt aðhlátursefni vegna getuleysis, ef staða þeirra væri ekki grafalvarleg, eins og lesa má um í viðhengi með þessum vefpistli fyrir eitt mRNA-bóluefnið. Þar er um að ræða þýðingu pistilhöfundar á þýzkri veffrétt um, að 2 efni, ALC-0159 og ALC-0315, sem bönnuð eru til notkunar á og í mönnum, hafi verið notuð í BionTech/Pfizer-bóluefnið gegn C-19 með vitund Lyfjaeftirlitsstofnunar Evrópu. Þar eru því jafnframt gerðir skórnir, að forstjóri þeirrar stofnunar, sem er ábyrg gagnvart ESB um lyfja- og bóluefnamál, sé ekki merkilegur pappír, eins og þar stendur, og reyndar vanhæf vegna tengsla sinna við lyfjaiðnaðinn. Hún er á þessu vefsetri, Anti-Spiegel, vænd um að draga taum stórfyrirtækja innan lyfjaframleiðslugeirans.
Ýmsum hérlendis og í öðrum löndum þykja viðbrögð yfirvalda við faraldrinum C-19 vera yfirgengileg og fara fram úr heimildum þeirra. Það er í raun mjög varhugavert, að yfirvöld fari inn á braut frelsisskerðinga einstaklinga, sem hafa ekki einkennt lýðræðisríki hingað til, heldur þvert á móti einræðisríki. Þar að auki verður að draga mjög í efa gagnsemi lokana og alls kyns hamla í sóttvarnarskyni, því að jafnan hljóta persónulegar sóttvarnir að virka bezt. Í þessu sambandi kemur upp í hugann latneska spakmælið: "þótt náttúran sé lamin með lurk, þá leitar hún út um síðir". Hinir fornu Rómverjar vissu, hvað þeir sungu.
Þann 21. desember 2021 birtist í Morgunblaðinu stutt grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann. Honum er nóg boðið með þeirri forræðishyggju og stjórnlyndi, sem skín út úr sóttvarnaraðgerðum íslenzkra stjórnvalda og minna hann á sovétskipulag fyrri tíðar, alls ekki að ófyrirsynju. Þá orti Jóhannes úr Kötlum lofkvæði um kommúnismann og óskaði þess heitast, að slíku þjóðskipulagi yrði komið á á Íslandi, væntanlega með stjórnarbyltingu í anda bolsévíka. Enn þann dag í dag finnast slíkir furðupésar á meðal vor: "Sovét-Ísland-óskalandið-hvenær kemur þú ?" Nú verður enn frekar vitnað í grein JSG, sem heitir:
"Draumsýn verður að veruleika":
"Þó að mannkynið eigi að hafa lært af reynslunni, eru samt margir, kannski flestir, borgarar á þeirri skoðun, að viðspyrna gegn vá, eins og t.d. veiru, sem fólk smitast af, felist í því að koma á sovézku skipulagi. Í því felst, að heimild borgara til að ráða sér sjálfir er afnumin eða skert og valdið falið handhöfum ríkisvalds á hendur. Sérfræðingar leggja ráðamönnum til hugmyndir um frelsisskerðingar undir þeim formerkjum, að verið sé að vernda fólkið. Einkenni sovétsins leyna sér ekki. Þau felast m.a. í, að tjáskipti ríkis og borgara fara aðallega fram í aðra áttina, þ.e. frá ríkinu og til borgara, sem oft eiga engan kost á að fá svör við spurningum um réttlætingu þessarar valdbeitingar gagnvart þeim sjálfum."
Það má kalla uggvænlegt, hversu almenns stuðnings frelsisskerðingar og hömlur njóta í samfélaginu, en hann er reistur á hjarðeðli, sem er manninum áskapað, þegar visst hugarástand skapast "í hjörðinni" vegna meintrar eða raunverulegrar ytri ógnar. Þetta minnir óþyrmilega á, hversu auðvelt þjóðernisjafnaðarmönnum reyndist að afnema frelsi þýzku þjóðarinnar stig af stigi á árunum 1933-1934 með skírskotun til Versalasamningsins og fjandmanna þýzka ríkisins, innan ("der Feind hört mit") og utan landamæra þess ("sigurvegarar" hildarleiksins 1914-1918). Veikburða stoðir lýðræðis Weimar-lýðveldisins hrundu eins og spilaborg. Þetta hefur vakið furðu ýmissa seinni tíðar manna, en nú upplifa þeir hið sama á eigin skinni að breyttu breytanda ("mutandum mutandis" (kannski er farið að fenna yfir latínu 4. bekkjar MR)).
Þessi upprifjun er til að varpa ljósi á gildi einstaklingsfrelsisins, og hversu berskjaldað það er við vissar aðstæður. Þess vegna ber að fagna hugvekjum og baráttu hugsjónamanna á borð við Arnar Þór Jónsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Jón Magnússon, lögmenn, gegn hvers konar aðför að grunnstoðum lýðræðisins og stjórnskipun lýðveldisins með valdatöku framkvæmdavalds ríkisins á kostnað borgaralegs frelsis.
"Ætla verður, að þessi ráð [sóttvarnarráð hins opinbera - innsk. BJo] séu vanmáttug. Bezta vörnin felst áreiðanlega í að bjóða fram lyf og bóluefni, sem hver og einn borgari á kost á að fá, en gera síðan í meginatriðum ráð fyrir, að hver og einn passi upp á sjálfan sig. Það er a.m.k. allt of mikið í húfi, til að réttlætanlegt sé að taka völdin af borgurum um eigin hag þeirra og fá þau misvitrum stjórnmálamönnum í hendur.
Við ættum því að snúa af þessari leið og taka aftur til við að treysta borgurum fyrir forræði sinna eigin mála."
Undir þetta skal taka með einum varnagla þó. Lyf berast nú frá framleiðendum, sem eru gagnleg gegn pestinni og beitt er gegn miklum veikindum, en bóluefnin virðast hins vegar vera gjörsamlega misheppnuð. Í Svíþjóð eru 10 sinnum tíðari aukaverkanir mRNA-bóluefnanna, sem með ærnum kostnaði er beitt gegn C-19, en hefðbundinna bóluefna gegn öðrum veirusjúkdómum. Í þessu sambandi er bent á viðhengi þessa pistils.
Nokkrir sænskir læknar hafa skorað á yfirvöld að gera hlé á bólusetningum með BionTech/Pfizer vegna meints fúsks framleiðendanna í tilraunafasa 3 með bóluefni gegn C-19.
Sænsk skýrsla, sem Sebastian Rushworth, læknir í Svíþjóð, gerði grein fyrir á vefsetri sínu í vetur, sýndi fram á hraksmánarlega lélega endingu á verndarvirkni bóluefnanna gegn C-19, og þau virðast hafa afar litla verndarvirkni gegn ómíkron-afbrigðinu. Nú berast tíðindi af því, að ending "örvunarskammtsins" (3. sprautu) sé aðeins 2 mánuðir, en eftir þann tíma frá bólusetningu fjari hratt undan verndaráhrifunum. Er það í samræmi við sænska rannsókn á endingu tveggja skammta af bóluefnum við C-19. Stingur það fullkomlega í stúf við fullyrðingar sóttvarnarlæknis Íslands um varanleika varnar "örvunarskammtsins", sem hann sagði, að yrði miklu meiri en af fyrstu tveimur. Nú er nóg komið af áróðri þessa mæta manns fyrir stórgölluðum bóluefnum og misheppnaðri stórkarlalegri tilraun á fólki með nýja bóluefnatækni.
Morgunblaðið hefur verið gagnrýnið á frelsisskerðingar almennings, sem opinberar sóttvarnarráðstafanir fela í sér, og er þessi gagnrýni gríðarlega mikilvæg fyrir heilbrigða stefnumótun í þessu heilbrigðisviðfangsefni, en opinber stefnumörkun er reyndar í skötulíki og felst ekki í öðru en að bregðast skjótt við illa rökstuddum minnisblöðum sóttvarnarlæknis. Nú hefur veiran sjálf tekið völdin og stefnir ótrauð á náttúrulegt hjarðónæmi, hvað sem kjánalegum og dýrum opinberum hömlum og fjöldatakmörkunum líður og algerlega óháð fjöldabólusetningum. Sóttvarnirnar hafa beðið skipbrot, en samt er hjakkað í sama farinu.
Forystugrein Morgunblaðsins 22. desember 2021 hét:
"Framtíð með faraldri":
"En er hægt að ganga að því vísu ? [að 3. sprautan dragi úr útbreiðslu smitanna og alvarlegum veikindum - nei, auðvitað ekki, en mRNA-bóluefnin hafa valdið heilsutjóni og sumum orðið að fjörtjóni - innsk. BJo.] Getur ekki verið, að fljótlega komi afbrigði, sem kalli á 4. eða 5. sprautuna ? Enn vægara afbrigði, en enn meira smitandi. Hvað gerum við þá ? Verður öllu skellt í lás á ný ?
Við slíkum vangaveltum hafa aldrei fengizt svör og til þess vísað, að ekki sé hægt að segja neitt um aðgerðir fyrr en á hólminn er komið. En er það ásættanlegt ? Getum við búið við slíkt fyrirkomulag til frambúðar ? Og þá hve lengi ? Veiran virðist ekkert á förum og gæti, í ýmsum afbrigðum, fylgt okkur árum saman.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, vék að þessu í gær og sagði, að kallað væri eftir því, "að á sama tíma og við bregðumst við ástandinu á grundvelli upplýsinga, sem breytast frá degi til dags, þá verðum við á sama tíma að teikna upp nýja framtíðarsýn, eitthvert plan um það, hvernig við hyggjumst tryggja sem fyrst, að fólk endurheimti eðlilegt líf.""
Jón Ívar Einarsson, prófessor í læknisfræði við Harvard-háskóla, hefur þegar svarað flestum ofangreindum spurningum Morgunblaðsins og "teiknað upp nýja framtíðarsýn" í þessum efnum, sem þessum pistilhöfundi þykir að flestu leyti raunhæf og skynsamleg. Hann birti hugmyndir sínar á vefsetri Innherja Vísis nýlega. Þannig hafa stjórnvöld nú 2 valkosti, þ.e. að hjakka í vonlausu fari sóttvarnaryfirvalda með miklum opinberum kostnaði og gríðarlegu tjóni einkaaðila í þjóðfélaginu, fyrirtækja og einstaklinga, eða að varða leiðina út úr þokunni (Kófinu) inn á slóð, sem lágmarkar tjónið.
"Nauðsynlegt er, að þingið taki þessi mál til rækilegrar umræðu. Það má aldrei verða léttvægt að skerða frelsi fólks, og þó að það kunni að vera nauðsynlegt við ákveðnar aðstæður og til skamms tíma, t.a.m. þegar farsótt skellur skyndilega á hér á landi og um heiminn allan, þá hljóta allt önnur lögmál að gilda, þegar mánuðir og ár líða og allt útlit er fyrir, að ástandið vari lengi enn."
Það er tímabært, að Alþingi taki nú afstöðu til sóttvarnarstefnu, sem einkennist af einleik sóttvarnarlæknis framhjá Sóttvarnarráði, og álitlegrar stefnu, sem Jón Ívar Einarsson, læknaprófessor, hefur sett fram, þar sem hann leggur til, að hið opinbera dragi úr eða hætti skimunum, smitrakningum, lokunum og fjöldatakmörkunum, viðkvæmir verði verndaðir sérstaklega og sóttvarnarráðstafanir lagðar í hendur fyrirtækja, viðburðahaldara, félaga og einstaklinga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.12.2021 | 14:28
Auðvitað er brýn þörf á nýjum virkjunum
Forstjóri OR hefur lengi þann steininn klappað, að ekki vanti nýjar virkjanir hérlendis, og alls ekki þurfi að virkja til að knýja farartæki á landi með rafmagni eða rafeldsneyti. Þetta er leiðinleg meinloka hjá þessum jarðfræðingi.
Til að knýja tæplega 200 k (k=1000) farartæki (175 k fólksbíla og 10 k vinnuvélar og vagna) um 2030 þarf að framleiða um 2 TWh/ár í virkjun. Álag þessarar raforkunotkunar verður ekki jafndreift yfir sólarhringinn, vikuna og árið, eins og segja má, að eigi við um álverin, og þess vegna þarf tiltölulega mikið uppsett afl að baki orku til fólksbílanna, sem flestir verða knúnir frá rafgeymum, eða um 350 MW, en vinnuvélar og vagnar verða flestar á vetni og afleiðum þess. Framleiðsla þess getur verið tiltölulega jöfn, svo að aflþörf þess er aðeins um 150 MW, þótt orkuþörfin geti orðið svipuð og fólksbílanna árið 2030. Alls eru þetta 2 TWh og 500 MW í orku- og aflþörf vegna farartækja á landi 2030, ef vel á að vera.
Þar að auki kemur orkunotkun í höfnum og lífeldsneyti á fiskveiðiflotann. Orku- og aflþörf verður þar af leiðandi að líkindum meiri en þetta árið 2030 vegna orkuskiptanna, ef nálgast á markmið stjórnvalda. Þeir, sem gera svo lítið úr þessari orkuþörf, að ekkert þurfi að virkja á þessum áratugi, eru algerlega úti að aka í þessum efnum, því að landsmenn munu ekki aka á ótryggðri orku. Þeir verða að geta reitt sig á trausta forgangsorku, ef orkuskiptin eiga einhvern tímann að verða barn í brók.
Virkjunartími ásamt leyfisveitingum er langur á Íslandi, og þess vegna veitir ekkert af því að fara að hefjast handa, enda er aukin spurn eftir orku á öðrum sviðum líka. Til samanburðar er Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá áformuð 95 MW og 720 GWh/ár að uppsettu afli og framleiðslugetu. Það er skammarlegt að halda að sér höndum nú og vilja eða geta ekki fullnægt raforkuþörf í landinu á tímum alvarlegs skorts á endurnýjanlegri orku víðast hvar í heiminum.
Í Fréttablaðinu 10. desember 2021 birtist frétt, sem reist var á speki forstjóra OR um orkuþörf og virkjanaþörf. Fyrirsögnin bar þess merki, að þessi forstjóri virðist telja viðvarandi orkuskort viðunandi og að engin þörf sé á að virkja. Þetta er dæmalaus málflutningur fyrir mann í hans stöðu, og mundu sumir kenna við ábyrgðarleysi gagnvart rafmagnsnotendum. Það hefur t.d. verið upplýst, að ON, dótturfélag OR, hefur séð sér þann kost vænstan í núverandi ástandi að fresta ráðgerðu viðhaldi í gufuaflsstöðvum sínum, væntanlega vegna skorts á vélarafli í landinu. Það er óeðlilegt og býður hættunni heim að grípa til þess óyndisúrræðis, jafnvel þótt vatnsstaða Þórisvatns sé bágborin. Það er aldrei hægt að skáka í því skjólinu, að allt gangi eins og í sögu og að allt vélarafl sé tiltækt, þegar hæst á að hóa. Það er óverjandi að reka raforkukerfi á horriminni, þannig að ekkert megi út af bregða.
"Forstjóri OR telur enga þörf á fleiri virkjunum til orkuskipta"
Fréttin hófst þannig:
"Það vantar vatn til að knýja vatnsaflsvirkjanir, það er vandinn", segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Hann segir umræðuna um skort á rafmagni hér á landi vera undarlega.
"Það er verið að skerða núna rafmagn til stóriðju og fiskimjölsverksmiðja vegna þess, að það er ekki hægt að vinna nógu mikið rafmagn, eins og er. Það er ekki vegna þess, að það vanti virkjanir. Orkuvinnslugetan á venjulegu ári er meira en fullnægjandi. Ástæðan er, að það vantar vatn til að keyra virkjanir, það er eingöngu þess vegna", segir Bjarni."
Maðurinn viðurkennir orkuskortinn, en telur hann ekki stafa af virkjanaskorti. Það má benda honum á, að ekki hefði enn þurft að koma til skerðinga hjá neinum notenda Landsvirkjunar, ef Hvammsvirkjun (95 MW, 720 GWh/ár) hefði tekið til starfa í haust, því að hún mun nota sama vatnið (350 m3/s) og virkjanir í Efri-Þjórsá og Tungnaá. Forgangsorkan er upp urin að mati Landsvirkjunar m.v. upplýsingar fyrirtækisins um að hafa hafnað óskum notenda um viðbótar orku. Með stefnu sinni í virkjanamálum er téður Bjarni að vísa raforkunotendum orkuumskiptanna á ótryggða orku, sem auðvitað nær engri átt. Hvað skyldi manninum ganga til ?
Einu sinni var maður, sem var kallaður Vellygni- Bjarni. Téður Bjarni nær ekki svo langt, en útskýring hans á því, hvers vegna hægt er með gróða að selja stóriðju á borð við álver raforku á lægra verði en heimilinum sýnir fullkomið skilningsleysi á málinu:
"Bjarni segir, að Ísland framleiði 5 sinnum meira rafmagn en aðrar [og] 80 % af því fari til stóriðju. Stóriðja fái rafmagn á lægra verði en heimili vegna þess, að rafmagn til þeirra sé skert í aðstæðum sem þessum. Það vanti ekkert upp á fyrir orkuskipti í samgöngum."
Þetta er bolaskítur (e. bullshit). Hér á eftir koma nokkrar ástæður þess, að forgangsorka til álvera er ódýrari í framleiðslu en forgangsorka til heimila:
- Um er að ræða mikið magn til eins notanda, sem tekur við 220 kV rafmagni af Landsneti og sér sjálfur um niðurspenningu og dreifingu innan verksmiðjusvæðisins, bæði á jafnstraumi og riðstraumi.
- Notkun álvers, sem er uppistaða stóriðjuálagsins, er að jafnaði lítt breytileg yfir sólarhringinn árið um kring, svo að framleiðslutækin í virkjun eru mjög vel nýtt (nýting um 94 % yfir árið) við að framleiða fyrir viðkomandi álver. Hjá heimilum er álagið lítið, nema þar sem rafhitun er, og ójafnt, meira á veturna en á sumrin og yfirleitt með toppi um kl. 1900. Þetta veldur lítilli nýtingu framleiðslutækja í virkjun eða um 60 %.
- Aflstuðullinn, sem er ákveðinn mælikvarði á nýtingu búnaðar í virkjun við að framleiða söluhæfa afurð, er miklu hærri í álverum en í dreifiveitum heimilanna, eða yfir 0,97 m.v. um 0,8 í dreifiveitunum.
- Þegar virkjunareigandinn gerir samning við stóriðju um orkusölu, fær hann kauptryggingu fyrir næstum allri forgangsorku virkjunarinnar í 25-45 ár, háð gildistíma samnings. Slíkt dregur mjög úr áhættu fjárfestingarinnar, sem veitir hagstæðari lánskjör, og þar með verður fjármagnskostnaðurinn lægri, en hann er um 95 % af kostnaði vatnsaflsvirkjana.
- Uppsett afl í vatnsaflsvirkjun borgar sig að hafa umfram það, sem þarf til að framleiða forgangsorku vegna þess, að flest árin á rekstrartíma virkjunar má búast við meira vatni til virkjunarinnar en svarar til forgangsorkunnar, sem myndar hinn fjárhagslega grundvöll virkjunarinnar. Umframorkan kemur ekkert við sögu við verðlagningu forgangsorkunnar, heldur er verðlögð sér, enda nemur kostnaðurinn við framleiðslu hennar aðeins breytilegum kostnaði virkjunarinnar, sem í megindráttum er rekstrarkostnaður hennar. Að tengja verðlagningu forgangsorku við skerðingarheimildir virkjunareiganda á ótryggðri orku er grundvallar misskilningur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.12.2021 | 11:03
Úrtölumenn og dómsdagsspár
Úrtölumenn um nýtingu sjálfbærra orkulinda landsins hafa glatað trúverðugleika í augum margra með framferði sínu, sem einkennist af fjandskap gegn meiri orkunotkun og draumórum um afturhvarf til fortíðar með minni neyzlu og að sjálfsögðu minni velferðarþjónustu, enda er aukin raforkunotkun forsenda meiri velferðar hjá vaxandi þjóð, þar sem meðalaldur fer hækkandi.
Biblía þessara úrtölumanna er um sextugt kver, "Limits to Growth-Endimörk vaxtar", sem boðaði einmitt nauðsyn þess fyrir jörðina, að fólk á Vesturlöndum drægi verulega úr neyzlu sinni hið snarasta, því að annars væri voðinn vís og margar auðlindir jarðar yrðu upp urnar fyrir lok 20. aldarinnar. Ekkert gekk þar eftir.
Það gleymdist við samningu þessa kvers, að tæknin er í stöðugri þróun vegna samkeppni markaðsbúskaparins, og tæknin hefur bætt nýtnina við nýtinguna, fundið staðgönguefni og aukið skilvirkni við leit. Heimurinn er þó ekki fullkominn, og fyrir tilverknað fáfróðra stjórnmálamanna hefur ríkisvaldið víða beint þróuninni inn á rangar brautir. Sennilega var þessi fráleita kenning sett á koppinn til að veikja auðhyggjuna (kapítalismann) í kalda stríðinu við kommúnismann, sem alls staðar hefur mjög litla framleiðslugetu m.v. auðhyggjukerfið, nema í Kína, þar sem kommúnistaflokkurinn hefur virkjað kapítalismann á framleiðslusviðinu og viðskiptasviðinu, en stundar áfram valdaeinokun og skoðanakúgun á stjórnmálasviðinu auk þess að vera öryggisógn í Suð-Austur-Asíu, sem kremur nú lýðréttindi undir hælnum í Hong Kong og ógnar fullveldi Taiwan, sem á fullan rétt á sjálfstæðri tilveru, enda eru langflestir íbúanna þess sinnis.
Dæmi um ranga stefnumörkun yfirvalda víða um heim er, hvernig raforkuvinnslan fer fram. Hér á landi þó, hvernig hún fer ekki fram þrátt fyrir ríkulegar endurnýjanlegar orkulindir. Stjórnvöld í ýmsum löndum hafa bannfært kjarnorkuver, stundum í kjölfar óhappa, og eftirlitsaðilar hafa stöðugt fært sig upp á skaptið, þannig að öryggiskröfur eru í sumum tilvikum komnar út í öfgar og hafa valdið svo óheyrilegum viðbótar kostnaði og töfum að óþörfu, að raforka kjarnorkuveranna verður mjög dýr á meðan verið er að greiða upp fjárfestingarnar. Fyrir vikið hefur kjarnorkuverum á Vesturlöndum farið fækkandi á þessari öld, þótt viðsnúningur sé í vændum með tækniþróun og viðhorfsbreytingum, og hlutdeild þeirra í raforkuvinnslu er nú aðeins um 10 % á heimsvísu, en þó t.d. um 20 % í Bandaríkjunum og 50 % í Frakklandi.
Kjarnorkan er eini raunhæfi valkosturinn til að leysa kolaorkuver af hólmi og þannig að draga úr loftmengun og koltvíildislosun frá raforkuverum.
Aftur á móti hafa stjórnvöld, oft þau sömu og lagzt hafa gegn kjarnorku, hvatt til og niðurgreitt orku frá vindorkuverum. Það er goðsögn, að vindmyllur séu umhverfisvænar. Þær leggja hald á mikið land og raforkuvinnsla þeirra er óskilvirk. Nýtingartíminn á Íslandi virðist vera um 40 %, sem árlega svarar til 4,8 mánaða á fullum afköstum og 7,2 mánaða á engum afköstum, en yfirleitt er hann undir 30 % annars staðar á landi (meiri nýting úti fyrir ströndu).
Mikið af málmum, sumum sjaldgæfum, fer í vindmyllur. T.d. þarf 6 MW vindmylla (algeng stærð úti fyrir ströndu) 65 t af Cu, og til að vinna þann kopar úr jörðu þarf að grafa upp um 50 kt úr námunni. Þetta er dæmi um óskynsamlegan ágang manna á náttúruna, sem ekki er hægt að mæla bót, því að þennan kopar mætti nota með skilvirkari og hagkvæmari hætti, en ríkisvaldið í mörgum löndum hefur þarna skekkt markaðinn og hvatt til námugraftar með niðurgreiðslu orkuverðs frá vindmyllum, sem sums staðar hefur valdið óafturkræfum landspjöllum og mengun jarðvatns, t.d. í Chile.
Þann 23. nóvember 2021 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Hauk Ágústsson, kennara. Þar voru raktir nokkrir heimsendaspádómar, sem auðvitað hafa allir orðið sér til skammar. Greinin hét:
"Brostnir spádómar",
og hún endaði þannig:
"Enn dynur á almenningi hræðsluáróður; þessa dagana sprottinn af COP26-ráðstefnunni í Glasgow í Skotlandi. Í ljósi liðins tíma og brostinna spádóma - er ekki rétt að gjalda varhug við þeim upphrópunum, yfirlýsingum og áróðri, sem þaðan berst ?"
Svarið er jú og dugir að líta á heildarmynd málatilbúnaðarins til að fyllast grunsemdum um, að fiskur liggi þar undir steini. Þar er aldrei minnzt á neina raunhæfa lausn á vandanum, en bara hamrað á, að þjóðir heims verði að draga úr losun koltvíildis, annars líði heimurinn, eins og við þekkjum hann, undir lok. Þetta hefur þó ekki reynzt árangursríkara en svo, að losun flestra ríkja heims 2021 mun verða meiri en á ári Parísarsamkomulagsins, 2015. Hvers vegna er ekki eytt neinu púðri í að setja á kolefnisgjald um allan heim, þar sem greitt yrði fyrir hvert t losunar CO2 ? Þá kæmi fjárhagslegur hvati til breytinga til skjalanna.
Hvers vegna hljómar IPCC eins og trúarsöfnuður, þar sem aðeins ein túlkun er leyfð ? Trúverðugum vísindamönnum á borð við prófessor John Christy, loftslagsfræðing við UAH-University of Alabama-Huntsville - og skoðanasystkini hans er úthýst úr skýrslum IPCC. Hann og félagar hans búa þó yfir yfirgripsmikilli þekkingu á þróun hitafars í lofthjúpi jarðar og nákvæmustu mæligögnum, sem völ er á um hitastigið í lofthjúpinum í um 4 undanfarna áratugi. Niðurstöður hans eru á allt öðru róli en niðurstöður IPCC, sem veifar í sífellu ógn um allt að 2,5°C hlýnun 1950-2080, en gervihnattamælingar, sem unnið hefur verið úr á UAH, benda til hitastiguls 0,14°C/10 ár, sem með einfaldasta framreikningi gefur 1,4°C hlýnun 1980-2080.
Þar að auki bendir ýmislegt til, að þetta sé bara eðlileg sveifla, sem muni ganga til baka á næstu öld, enda er meiri hætta á yfirvofandi kuldaskeiði en hlýskeiði á jörðunni í sögulegu ljósi. Tölfræðingar, sem rannsakað hafa hitastigsþróunina í 2000 undanfarin ár með árhringjarannsóknum í trjám, sjá enga óeðlilega þróun undanfarna áratugi. Hitastigið hafi allt þetta 2000 ára tímabil sveiflazt hægt um fast meðaltal. Gagnrýna tölfræðingarnir óburðuga meðhöndlun IPCC á tímaröðum. Þetta kom fram í Morgunblaðsgrein Helga Tómassonar, prófessors í hagrannsóknum og tölfræði við HÍ, 14.10.2021, og lesa má um hér:https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2270868 .
Einn af þeim, sem dyggilegast hafa alla tíð stutt boðskap IPCC-Loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna hérlendis - er Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins. Hann skrifar tíðum í Morgunblaðið áhugaverðar greinar, og ein af greinum hans birtist þar 23. nóvember 2021 undir spennuþrunginni fyrirsögn:
"Nú reynir á gjörvalla heimsbyggðina".
Þar gat m.a. að líta eftirfarandi:
"Í Glasgow var samþykkt sú stefna að takmarka meðaltalshlýnun lofthjúpsins við 1,5°C í stað 2°C. Mikilvægar yfirlýsingar voru gefnar um að stöðva eyðingu skóga og vinna sérstaklega gegn losun metans. Jarðefnaeldsneyti var nú brennimerkt sem helzti skaðvaldurinn með kol í fararbroddi. Indland, sem keppir við Kína í kolanotkun, varð sér til minnkunar með því að krefjast á 11. stundu breytinga á þeirri áherzlu. Fjöldi ríkja, stórra og smárra, hafði í aðdraganda þessa fundar gefið út fyrirheit um að draga stórlega úr losun CO2 fram til ársins 2030 og ná kolefnishlutleysi fyrir eða um miðja öldina. Þar hefur Ísland sett markið við árið 2040."
Í sannleika sagt er þetta eintómt froðusnakk snjórnmálamanna og búrókrata þeirra, sem virðist skorta allt jarðsamband. Dettur einhverjum í hug, að árangursríkt geti reynzt að hóa saman þúsundum stjórnmálamanna, búrókrata og öðrum, til að gefa út yfirlýsingar um, að þeir hyggist fækka tilteknum glæpum um einhverja hlutfallstölu (%) í sínu landi og að heildarfjölda slíkra glæpa í heiminum fækki þá úr áður aðstefndu marki í lægra mark, þótt þeim fjölgi enn þá ?
Hafa borizt einhverjar fréttir frá Gljáskógum um, að á COP-26 hafi tekizt að ná alþjóðlegu samkomulagi um, hvernig meta á koltvíildisbindingu trjáa og eigendur trjánna geti síðan selt þessa bindingu á alþjóðlegum koltvíildismarkaði ? Nei, ekkert vitrænt í þá veru hefur birzt. Slíkt gæti samt snúið við eyðingu regnskóga og annarra skóga og lagt grunninn að mikilli aukningu bindingar á koltvíildi, því að skógurinn yrði verðmætari standandi en felldur. Nei, þess í stað eru gefnar út einhverjar innihaldslausar yfirlýsingar um "að stöðva eyðingu skóga". Þessu fólki er ekki sjálfrátt, enda er árangurinn eftir því.
Í stað þess að setja á kolefnisgjald á heimsvísu, er jarðefnaeldsneytið brennimerkt. Hvers konar fíflagangur er þetta eiginlega ? Íbúar Norður-Indlands standa frammi fyrir grafalvarlegri lífsógn. 16 % allra dauðsfalla þar eru vegna loftmengunar, en aðeins 10 % þessarar mengunar stafar frá kolakyntum raforkuverum. Kol eru notuð innanhúss, annar eldsneytisbruni er mikill, og líkbrennslur menga gífurlega. Jarðefnaeldsneytið er mikill heilsuskaðvaldur.
Nýja íslenzka ríkisstjórnin, Hringekjan, eða hvað menn kalla þetta 2. ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, hefur hent í Mörlandann nýju markmiði, sem er 55 % samdráttur koltvíildislosunar 2030 m.v. 1990. Fyrra markmiði fylgdi aðgerðaáætlun, þar sem botninn var suður í Borgarfirði. Auðvitað er engin komin enn frá Hringekjunni, en til að ná þessu markmiði þarf kraftaverk, nokkrar nýjar vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir og stóreflt flutnings- og dreifikerfi raforku. Fyrra ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur skildi eftir sig þá stöðu, að skerða þarf raforku til fiskimjölsverksmiðja, kyndistöðva og annarra, sem samið hafa um annað en forgangsorku. Á meðan svona er í pottinn búið, hjökkum við áfram í sama farinu, umhverfislega og efnahagslega. Taka verður til hendinni. Finnur Borgnesingurinn á stóli orkuráðherra rétta botninn í málið ?
Áfram með boðskap Hjörleifs. Nú kemur krafan um lífstílsbreytingu:
"Flest ríki hafa aukið mengun lofthjúpsins í kjölfar Parísarsamþykktarinnar, þannig að stefnir í hlýnun upp á 2,4°C og þaðan af meira. Umskiptin, sem þurfa að verða á þessum áratug, jafngilda byltingu í framleiðsluháttum, neyzlu og samskiptum við móður jörð. "Pláneta okkar hangir á bláþræði" var meðal aðvörunarorða framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Antonios Guterres, við opnun ráðstefnunnar í Glasgow. Lausnin felst ekki aðeins í að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis í tíð einnar kynslóðar, heldur verður að draga úr rányrkju á öllum sviðum. Temprun neyzlu og lífshátta, að fólksfjölgun meðtalinni, er óhjákvæmileg, eigi mannkynið að komast yfir þær hindranir, sem við blasa."
"Now you are talking, man", var sagt. Þarna opinberar Hjörleifur, það sem að baki áróðrinum um hlýnun andrúmsloftsins og um virkjanaandstöðuna hérlendis býr.
Að sjálfsögðu hefur losun CO2 aukizt víðast hvar frá Parísarráðstefnunni í desember 2015. Hvernig í ósköpunum á annað að vera með þeim málatilbúnaði, sem þar var viðhafður með froðusnakki um háleitar hugsjónir stjórnmálamanna um framtíð jarðarinnar ? Ekkert, sem hönd var á festandi, um tæki og tól til þess á borð við sameiginlegan koltvíildisskatt eða sambærilegt.
Þessi framreikningur á hlýnun andrúmsloftsins, sem Hjörleifur vitnar þarna til, er algerlega úr lausu lofti gripinn og verður að flokka sem áróðursbrellu, því að reiknilíkönin, sem að baki búa, eru meingölluð, eins og prófessor John Christy, loftslagsfræðingur við UAH, hefur sýnt fram á.
Síðan afhjúpar Hjörleifur hugmyndafræðina, sem að baki öllum þessum látum býr. Það þarf að gjörbreyta lifnaðarháttum almennings og stórdraga úr neyzlunni. Þetta þýðir auðvitað, að framkvæma verður stórfellda lífskjaraskerðingu, því að í hvað eiga peningarnir annars að fara ? Hvað segja verkalýðsfélögin um þennan boðskap vinstri mannsins Hjörleifs Guttormssonar. Eru þau tilbúin að beita sér fyrir neyzlustýringu, sem miðar að stórfelldri minnkun neyzlu ? Nei, það hafa engin teikn á lofti sézt um það. Þessi viðhorf eiga sér enga raunveruleikatengingu, enda reist á illa ígrunduðum dómsdagsspám, sem óþarfi er að taka alvarlega. Viðhorfin eiga aðeins upp á pallborð sérvitringa á borð við Landvernd, sem berst gegn þjóðarhagsmunum með því að þvælast fyrir flestum orkuframkvæmdum í landinu, og á borð við meirihluta borgarstjórnarinnar, sem leggur fæð á samgöngumannvirki eins og greiðfærar akbrautir og afkastamikil og hættulítil mislæg gatnamót ásamt flugvelli á einu bezta flugvallarstæði landsins. Þetta afturhald er ekki á vetur setjandi og verður að brjóta á bak aftur hið fyrsta. Til þess þarf að hafa bein í nefinu. Hefur téður Borgnesingur það, þegar til kastanna kemur ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.12.2021 | 08:34
Almannahagsmunir verða að ráða för
Hnökralausir raforkuflutningar á milli landshluta og innan þeirra þjóna almannahagsmunum. Það er stórfellt hagsmuna- og öryggismál íbúa í hverjum landshluta, að þangað sé næg flutningsgeta fyrir hámarksnotkun raforku á hverju ári og auðvitað, að nægt framboð sé á rafmagni í landinu til að anna alltaf þessari hámarksþörf.
Það eru enn nokkur svæði á landinu, sem ekki njóta þessara sjálfsögðu réttinda og lífsgæða, og má nefna Vestfirði og Suðurnesin. Báðir landshlutarnir eru háðir geislatengingu, þ.e. stakri 132 kV loftlínu, á meðan sjálfsögð krafa svo veigamikilla landshluta er hringtenging við stofnkerfi landsins eða að hafa nægt raforkuframboð innan svæðisins í (n-1) rekstri (þ.e. m.v. að öflugasti rafalinn falli úr rekstri).
Þetta þýðir útflutning orku af svæðinu til stofnkerfisins í venjulegum rekstri. Á Vestfjörðum er mun fýsilegra að virkja vatnsföll en að tvöfalda tenginguna við meginstofnkerfið. Þar hefur verið þvælzt fyrir framkvæmdum af dæmafárri þrákelkni, þótt almennur vilji heimamanna sé fyrir þeim og viðkomandi virkjun sé í nýtingarflokki Rammaáætlunar. Hegðun af þessu tagi er tímaskekkja á tímum orkuskipta, þótt enn heyrist í þokulúðrum, jafnvel innan úr einstaka orkufyrirtæki (OR), að þörfina megi leysa með orkusparnaði. Landsnet hefur í nafni "umhverfisverndar" verið tafin von úr viti við sitt mesta orkusparnaðarverkefi, sem er ný Byggðalína á milli Vestur- og Austurlands á 220 kV í stað gömlu 132 kV línunnar. Það er ekkert gagn af þessum þokulúðrum samtímans, en hinir upprunalegu stóðu þó fyrir sínu. Það er ekki nóg að henda fram einhverjum slagorðum, heldur verða tölur og grófar verklýsingar að fylgja.
Á Suðurnesjum hefur raforkuþörfin vaxið hratt, og jarðgufuvirkjanir á svæðinu hafa ekki haft undan aukningunni. Þess vegna má eina 132 kV línan frá meginstofnkerfinu heita fulllestuð, og brýn þörf hefur lengi verið fyrir 220 kV línu og hringtengingu fyrir Suðurnesin. Allir vita, hvernig kraumað hefur í iðrum jarðar undanfarið á Suðurnesjunum, en samt er HS Orka með metnaðarfull verkefni í gangi í Reykjanesvirkjun og Svartsengi til aflaukningar og nýtnibóta.
Ásmundur Friðriksson, hinn skeleggi Alþingismaður Suðurlandskjördæmis, ritaði áhrifamikla grein í Fréttablaðið 26. nóvember 2021 undir fyrirsögninni:
"Varðar staða í raforkumálum á Suðurnesjum þjóðaröryggi ?".
Hún hófst þannig:
"Í dag er ein lína, sem flytur raforku til og frá Suðurnesjum. Fari hún úr rekstri, er engum öðrum leiðum til að dreifa. Atvinnurekstri og heimilum er veruleg hætta búin, komi upp alvarleg tilvik straumleysis. Flutningsgetan annar ekki þörf, og hafa Suðurnesin orðið af uppbyggingu og atvinnutækifærum, þar sem fyrirtækjum hefur verið neitað um raforku, þar sem innviðirnir eru sprungnir, orkan fæst ekki flutt. Í 18 ár hefur nú verið barizt fyrir afhendingaröryggi raforku með lagningu Suðurnesjalínu 2, en vegna 3 landeigenda og 7 manna sveitarstjórnar í Vogum á Vatnsleysuströnd er framkvæmdin stopp. Þessi fámenni hópur kemur í veg fyrir, að 30 þúsund manna samfélag búi við orkuöryggi. Framkvæmd, sem er hornsteinn mikillar uppbyggingar, sem framundan er, svo sem orkuskipti með hliðsjón af staðsetningu Keflavíkurflugvallar og vistvæn[s] auðlindagarð[s]."
Grundvöllur lýðræðisins er einstaklingsfrelsi og einkaeignarréttur. Þetta frelsi og þessi réttindi mega þó ekki valda öðrum tjóni, og það eru ekki mannréttindi að mega hindra framfarir í landinu, s.s. innviðauppbyggingu, sem er forsenda aukinnar verðmætasköpunar.
Stjórnvöldum ber skylda til að standa vörð um almannahagsmuni, og þegar örfáir einstaklingar taka sig saman um að valda tjóni á heildarhagsmunum nærsamfélagsins og í þessu tilviki þjóðarinnar allrar (miðstöð alþjóðaflugs og hervarna landsins), þá ber stjórnvöldum að grípa til þeirra ráða, sem duga til að losa íbúana úr "umsátrinu". Það verður að ætlast til skjótra viðbragða af hálfu nýkjörins Alþingis, og þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson hefur einmitt gert ráðstafanir til þess:
"Staðan er grafalvarleg og fer að varða almannavarnir á Suðurnesjum, bregðist Alþingi ekki við lagafrumvarpi greinarhöfundar um framkvæmdaleyfi til handa Landsneti fyrir Suðurnesjalínu 2. Frumvarpið er í skráningu og verður lagt fram ekki síðar en í næstu viku [v.48/2021]. Ábyrgð Alþingis er algjör, og verður þingið að taka skipulagsvald af sveitarfélaginu í þessu mikilvæga máli, ef ekki á illa að fara."
Það verður fróðlegt að sjá, hvernig innviðaráðherrann bregst við þessu lagafrumvarpi Ásmundar. Ásmundur metur stöðu orkumála svæðisins rétt og bregst líka rétt við. Það hefur hann áður gert, þegar mikið lá við.
Lok þessarar þörfu hugvekju Ásmundar hljóðuðu þannig:
"Alþingi verður að hafa í sér dug og setja nýja löggjöf um uppbyggingu mikilvægra innviða. Að sveitarfélög, eða örfáir einstaklingar, geti komið í veg fyrir það árum og áratugum saman, að innviðaframkvæmdir, eins og lagning vega, flutningskerfi raforku, línur og möstur fyrir fjarskipti, rísi, er óásættanlegt. Suðurnesjalína 2 er framkvæmd, sem er mikilvæg út frá þjóðarhagsmunum og er orðin svo brýn, að sveitarstjórnarmenn hafa beint áhyggjum sínum til þjóðaröryggisráðs. Grípa þarf í taumana í þessu mikilvæga máli til að koma í veg fyrir frekari tafir á uppbyggingunni og flýta því, að framkvæmdir geti hafizt."
Ljóst er, að reynt hefur á þolrif sveitarstjórnarmanna, þegar þeir leita ásjár hjá Þjóðaröryggisráði. Þeir telja þá fokið í flest skjól og biðja ríkisvaldið einfaldlega að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að bjarga þessu máli úr herkví sérhagsmuna og afturhalds. Vonandi falla hvorki Alþingi né stjórnvöld á þessu mikilvæga prófi. Ásmundur Friðriksson er með svörin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)