Leiðsögn vantar

Orkumál landsins eru í skammarlegu ástandi, þar sem engrar leiðsagnar stjórnvalda til þings og orkufyrirtækja virðist hafa gætt undanfarin ár, e.t.v. vegna markaðshugmyndafræði orkupakka ESB, svo að í algert óefni stefnir þegar í ár, þar sem orkufyrirtækin hafa ekki sinnt vaxandi aflþörf með nægilegri viðbót virkjana. Lagasetning Orkupakka 3 frá Evrópusambandinu (ESB) haustið 2019 hefur ekki bætt úr skák, heldur aukið við ruglinginn um það, hvar ábyrgðin er niður komin á því, að landsmenn verði ekki fórnarlömb alvarlegs orkuskorts, eins og nú er komið á daginn. Það er kaldhæðni örlaganna, að þegar meginland Evrópu og Bretland standa frammi fyrir ógnvænlegum orkuskorti, skuli Íslendingar þurfa að líða heimatilbúinn orku- og aflskort.   

Þessi sannleikur var þó ekki lokaður inni í "launhelgum", þar sem fáum var veitt innganga, heldur hefur mátt lesa hann út úr orkuspá Orkustofnunar, og Verkfræðistofan EFLA hnykkti á því árið 2019 í skýrslu á vegum Landsnets, að afl-og orkuskortur væri yfirvofandi í landinu, en heimsfaraldurinn frestaði aðeins bráðavandanum. Að engar ráðstafanir skyldu þá þegar í stað verða gerðar til að forða þjóðinni frá stórtjóni og vandræðum og bjarga afar háleitum loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar frá því að verða ruslafötufóður, er makalaust. Við svo búið má ekki standa. Það verður æ ljósara, að miklu meiri áherzlu verður að leggja á sjálfbærni orkubúskapar og matvælaöflunar en verið hefur af þjóðaröryggisástæðum.

Draumórar umhverfisofstækisins í landinu um, að stóriðjan væri að leggja upp laupana, voru þá (í Kófinu) komnir á kreik, og jarðfræðingurinn á forstjórastóli OR kynti undir þeirri vitleysu, að ekkert þyrfti að virkja, því að næg orka væri og yrði til í landinu. Enginn hafði bein í nefinu til að berja í borðið og benda á, að orkuskortur væri yfirvofandi í Kína vegna óumflýjanlegrar lokunar kolakyntra raforkuvera þar vegna stórfelldra mengunarvandamála í lofti, á láði og legi, og þar af leiðandi mundu Kínverjar neyðast til að rifa seglin á útflutningsmörkuðunum. Offramboð á mörkuðum á vörum orkusækins iðnaðar yrði því senn úr sögunni, sem nú er komið á daginn, en auk þess hefur ESB sett á koltvíildistolla til að hamla gegn kolefnisleka. Nú koma málmar ekki lengur inn á vestræna markaði frá Rússlandi, og gæti það hækkað almennt markaðsverð upp í 4000 USD/t, sem er 2,földun verðs frá í Kófinu. 

Afstaða eða öllu heldur afstöðuleysi Orkustofnunar (ISOR) í orkumálum þjóðarinnar nú um stundir vekur furðu.  Stofnuninni voru fengin talsverð völd og mikið sjálfstæði gagnvart orkuráðherra með nýjustu útgáfu orkulaga 2019, sem þekkt eru sem Orkupakki 3 frá ESB.  Orkumálastjóra var þar fengið hlutverk æðsta fulltrúa ACER-Orkustofu ESB á Íslandi, sem heitir "National Energy Regulator" eða orkulandsreglari Íslands. 

Framlag Orkustofnunar til orkukreppunnar er þó ámáttlegt.  Orkulandsreglarinn sendi bréf til forstjóra raforkuvinnslufyrirtækjanna og spurði þá, hvort þeir lumuðu ekki á rafölum, sem þeir gætu sett í gang í vetur eða jafnvel aukið álagið á þeim, sem fyrir eru í gangi.  Svona embættisfærsla er ótrúleg og vonlaus.  Á sama tíma situr Orkustofnun á umsókn Landsvirkjunar, sem send var þangað seint og um síðir, þann 10. júní 2021, um að fá virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun, 95 MW, 720 GWh/ár. Borið er við miklu gagnamagni og undirmönnun, en öllu nær er að halda, að vilja og hæfni vanti til verksins. 

Lagaskylda Orkustofnunar stendur ekki til allsherjar hönnunarrýni á slíkum umsóknum, heldur að gæta að því, að orkulindin sé nýtt eins vel og kostur er og að mannvirkin falli eins vel að umhverfinu og tæknin og kostnaður leyfa.  Þetta á ekki að taka meira en einn mánuð fyrir Orkustofnun, en nú eru komnir meira en 9 mánuðir.  Þessi frammistaða er algerlega ótæk og óboðleg í ljósi þess tímahraks, sem virkjunarmálin eru komin í nú.

Nú hefur verið upplýst með nokkru stolti af hálfu Landsvirkjunar, að hagnaður fyrirtækisins hafi numið mrdISK 30 árið 2021.  Þessi mikli hagnaður og háa arðgreiðsla, mrdISK 15, verða til vegna óeðlilegrar rekstrar- og fjárfestingarstefnu fyrirtækisins.  Það verðleggur þjónustu sína of hátt, t.d. til húsahitunar og ylræktar, svo að veitur á köldum svæðum, t.d. Orkubú Vestfjarða, sjá sér ekki fært að bjóða viðskiptavinum sínum upp á forgangsrafmagn, og íslenzkir ylræktarbændur sögðu raforkuverð til kolleganna í Danmörku, Noregi og Hollandi vera lægra en til sín fyrir orkukreppu.  Þetta nær engri átt hjá þessu dæmalausa ríkisfyrirtæki.

  Fjárfestingar hjá Landsvirkjun í vatnsaflsvirkjunum hafa setið á hakanum í 8 ár, ef undan er skilin toppaflsvirkjunin Búrfell 2, en gufuaflsverið Þeistareykjavirkjun var reist fyrir kísilverið á Bakka fyrir nokkrum árum.  Landsvirkjun ver allt of litlu fé í virkjanarannsóknir og virkjanafjárfestingar, og afleiðingarnar eru skortur á forgangsorku.  Akureyri hefur verið í orkusvelti í 20 ár, og þegar hún loksins fær frambærilega tengingu við Fljótsdalsvirkjun sumarið 2022, verður sennilega engin orka á boðstólum. 

Miklar arðgreiðslur nú frá Landsvirkjun eru óeðlilegar, því að hún á að vera að fjárfesta í sjálfbærri orkuöflun fyrir landsmenn.  Landið býður upp á gnótt raforku, en heimili og fyrirtæki líða fyrir orkuskort.  Ástandið er hneykslanlegt.  Ömurlegur doði ræður för. 

Morgunblaðið hefur jafnan gert orkumálunum góð skil og sker sig þar úr hópi fjölmiðla.  Önnur forystugrein blaðsins 12. febrúar 2022 bar fyrirsögnina:

"Skömmtun rafmagns".

Hún hófst þannig:

"Landsvirkjun hóf í vikunni að skerða orku til fjarvarmaveitna á köldum svæðum, stóriðjufyrirtækja og gagnaveitna.  Áður hafði skerðing á orku til fiskimjölsverksmiðja og fiskþurrkana á köldum svæðum tekið gildi.  

Þetta þýðir, að nota þarf olíu í stað rafmagns með tilheyrandi útgjöldum, útblæstri og mengun. Kostnaður Orkubús Vestfjarða er til dæmis MISK 360, eins og fram kom í Morgunblaðinu á fimmtudag [10.02.2022], og þýðir það, að 2 ára rekstrarhagnaður er gufaður upp."

Á tímum strangra loftslagsmarkmiða ríkisstjórnarinnar er það tímaskekkja, að ríkisorkufyrirtækið Landsvirkjun skuli ekki bjóða almenningsveitum á "köldum" svæðum forgangsorku á rafhitunartaxta, sem er um 40 % lægri en heildsölutaxti til annarra nota, svo að ekki þurfi að grípa til olíukyndingar, nema í bilunartilvikum. Vonandi ryðja stjórnvöld hindrunum bráðlega úr vegi, svo að virkjunarframkvæmdir geti hafizt sem fyrst á Vestfjörðum, þar sem Vestfirðingar kjósa sjálfir að virkja að viðhöfðu lögformlegu umhverfismati, svo að orkumál á Vestfjörðum komist inn í nútímann.  Umhverfisöfgar og forstokkun mega ekki ráða för. 

Á Vestfjörðum er nýttur jarðhiti, t.d. á Reykhólum og á Reykjanesi, og lághiti, þar sem hægt er að hækka hitastigið um 30°C með varmadælu, kann að leynast tiltölulega nærri þéttbýli, en Orkustofnun (Orkusjóður) hefur ekki stutt nægilega við bakið á veitum lághitasvæða.  Með varmadælum er unnt að spara allt að 70 % raforkunnar, og getur slík tækni sparað upphitunarkostnað, þótt fjárfestingar séu talsverðar.

Í Morgunblaðinu 10. febrúar 2022 var frétt af Vestfjörðum með fyrirsögninni:

"Undirbúa frekari leit að jarðhita".

Hún hófst þannig:

"Orkubú Vestfjarða er að undirbúa frekari jarðhitaleit í nágrenni Ísafjarðar og Patreksfjarðar.  Ef það tækist að fá nægilegt heitt vatn fyrir hitaveitur þessara staða, sem nú eru rafkyntar, yrði hægt að færa yfir á jarðhita 80 % þeirra notenda á Vestfjörðum, sem nú treysta á rafkyntar hitaveitur með skerðanlegri orku.  Orkubússtjóri telur eigi að síður þörf á að auka raforkuframleiðslu í landshlutanum og styrkja svæðisbundna flutningskerfið til að auka afhendingaröryggi raforku og telur virkjun í Vatnsfirði bezta kostinn. 

Landsvirkjun hóf að skerða afhendingu raforku til fjarvarmaveitna  á köldum svæðum á miðnætti.  Ástæðan er léleg vatnsstaða á hálendinu og ákvæði í samningum um, að skerða megi afhendingu."

Rót vandans er, að raforkukerfið er fulllestað, og þá þarf vatnsbúskapurinn að vera yfir meðallagi góður, svo að miðlunarforðinn endist til næsta sumars án íþyngjandi inngripa Landsvirkjunar. Sjónarmið Orkubússtjórans eru fyllilega réttmæt.  Það er líklegt, að nægt vatn finnist og nógu heitt til að það borgi sig að nýta það til hitaveitu, því að 45°C í borholu er nógu hátt hitastig fyrir varmadælu til að lyfta hitastiginu upp í 70°C frá kyndistöð. 

Á árinu 2022 er með ólíkindum, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skuli vera í þeirri stöðu að telja sig ekki í færum til að selja almenningskyndistöðvum forgangsrafmagn á boðlegu verði.  Þessi staða afhjúpar hræsnina, sem umlykur umhverfisverndina á Íslandi.  Ofstækisgræningjar trúa því, að hægt sé bæði að halda kökunni og að éta hana.  Hugmyndafræði þeirra gengur ekki upp. 

 

 

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband