Færsluflokkur: Bloggar

Mismunun ríkisvaldsins á sviði gjaldtöku af orkufyrirtækjum

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að árið 2016 féllst þáverandi ríkisstjórn (með bréfi utanríkisráðherra, Lilju Alfreðsdóttur) á allar kröfur ESA - Eftirlitsstofnunar EFTA - um verðlagningu á afnotarétti lands og vatnsfalla til orkufyrirtækja. Í megindráttum snerust þessar kröfur ESA um jöfnun samkeppnisstöðu ríkisfyrirtækja og einkafyrirtækju til afnota af vatnsréttindum og landi í eigu ríkisins til orkuvinnslu.  Ætla má, að sömu jafnaðarsjónarmið gildi um jarðgufu, en hún er óalgeng á Innri markaði Evrópusambandsins (ESB). 

Allir skyldu sitja við sama borð og greiða "markaðsvirði", en hvernig slíkt markaðsverð skyldi ákvarða, fylgdi ekki sögunni.  Það er annmörkum háð að finna, hvaða verð markaðurinn vill greiða fyrir slík verðmæti án opins útboðs og þá á Innri markaði ESB, ef marka má hliðstæðar kröfur Framkvæmdastjórnarinnar gagnvart 8 aðildarlöndum ESB, sem líka veita ríkisorkufyrirtækjum forgang að vatnsréttindum ríkisins, t.d. Frakklandi.  

Framkvæmd þessarar skuldbindingar íslenzka ríkisins gagnvart ESA bögglaðist fyrir íslenzka ríkinu, og ekkert hefur orðið úr útboði, enda svaraði norska ríkisstjórnin svipaðri kröfu ESA á hendur norska ríkinu nokkrum árum seinna snöfurmannlega þannig, að ráðstöfun orkulinda í eigu norska ríkisins væri utan við gildissvið EES-samningsins og þess vegna ekki í verkahring ESA, og þar við situr þar, en það er ekki líklegt, að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sé af baki dottin, því að bullandi innbyrðis ósamræmis gætir í ráðstöfun íslenzka ríkisins. Munurinn á viðbrögðum íslenzku og norsku ríkisstjórnarinnar gagnvart kröfu um að hleypa erlendum orkufyrirtækjum að rekstri íslenzkra og norskra virkjana er sorglegur.

Ráðstöfun vatnsréttinda íslenzka ríkisins hlýtur að falla undir íslenzk samkeppnislög, en það er auðvitað með öllu ótækt að fallast á almennt útboð þessara verðmætu réttinda á EES-svæðinu, eins og Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, gerði  árið 2016, en þá var dýralæknirinn Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi innviðaráðherra, forsætisráðherra. 

Baksviðsfrétt Helga Bjarnasonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, um "vatnsréttindi virkjana" fjallaði um nýlega samninga íslenzka ríkisins við Landsvirkjun um þessi vatnsréttindi.  Fréttin bar fyrirsögnina:

"Samið um mikil verðmæti",

og hófst þannig:

"Landsvirkjun greiðir ríkinu 90 MISK/ár [milljónir] fyrir afnot af þjóðlendum til rafmagnsframleiðslu í 6 vatnsaflsvirkjunum á Þjórsár-Tugnaársvæðinu og hluta afls í þeirri 7. Uppsett afl, sem samningurinn nær til, er liðlega 800 MW eða sem svarar til liðlega 40 % af uppsettu afli allra vatnsaflsvirkjana fyrirtækisins.  Hluta þessara virkjanaréttinda hafði Alþingi veitt Landsvirkjun án nokkurra skilyrða um endurgjald, en eigi að síður samdist svo um, að greitt yrði af öllum virkjununum, nema upphaflegu Búrfellsvirkjun [210 MW], og miðast gjaldið mikið við niðurstöðu dómsdóla um vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar." [Upphaflegu vatnsréttindin vegna Búrfells má skoða sem stofnframlag í Landsvirkjun, sem nú ber ávöxt - innsk. BJo.]

Af þessari upphæð að dæma fyrir nýtingu á orku, sem er a.m.k. 5500 GWh/ár, er um hreinan málamyndagjörning af hálfu ríkisins og fyrirtækis þess, Landsvirkjunar, að ræða, því að árlegt gjald er aðeins um 0,4 % af árlegum tekjum, sem búast má við að fá fyrir þessa orku að jafnaði m.v. núverandi samninga. Þetta er hlálega lágt og stingur algerlega í stúf við gjaldið, sem ríkið innheimtir af 3. aðila fyrir vatnsréttindi smávirkjana (<10 MW) á ríkisjörðum. 

Þarna mismunar ríkið aðilum á markaði með þeim hætti, að klárlega varðar við samkeppnislög.  Jafnframt býður ríkisvaldið hættunni heim, að ESA fetti fingur út í þessa stjórnsýslu og færi málið á endanum fyrir EFTA-dómstólinn, ef íslenzka ríkið ekki sér að sér og gætir jafnréttissjónarmiða. Það yrði ekki ferð til fjár fyrir íslenzka ríkið.

Um ESA-þáttinn skrifar Helgi Bjarnason m.a.:

"Það var síðan ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá 2016 um, að það teldist ólögleg ríkisaðstoð til orkufyrirtækja að heimila þeim að nota orkuréttindi í opinberri eigu án endurgjalds, sem ýtti á frekari undirbúning og samninga við Landsvirkjun."

Samningar af þessu tagi á milli skyldra aðila hljóta að gefa bæði Samkeppniseftirlitinu og ESA "blod på tanden" og eru þess vegna óskynsamlegir.  Forsendurnar eiga alls ekki við, þar sem miðað er við dóm Hæstaréttar í deilu Fljótsdalshrepps við Landsvirkjun.  Þar var Landsvirkjun dæmt til að greiða eins konar aðstöðugjald til landeigendanna, 1,4 % af stofnkostnaði virkjunarinnar á ákveðnu árabili, en Landsvirkjun dregur frá afskriftir, sem er út í hött, því að verið er að bæta landeigendum meint tjón (þeir hafa nú reyndar fengið laxveiðiá í kaupbæti), en ekki verið að veita þeim hlutdeild í verðmætasköpun virkjunarinnar.  Öllu er þess vegna snúið á haus í þessu máli.

Helgi Bjarnason ritaði samdægurs framhaldsfréttaskýringu um sama mál í Morgunblaðið, en nú með aðaláherzlu á meðferð og stórlega mismunun ríkisvaldsins á einkafyrirtækjum, sem berjast við að nýta lítil vatnsföll.  Fyrirsögnin var sláandi:

 "Sama gjald fyrir smávirkjun og greitt er fyrir Sigölduvirkjun".

Hvernig í ósköpunum má það vera, að stjórnsýslan á Íslandi mismuni fyrirtækjum svo herfilega, að refsivöndur eftirlitsstofnana sé einboðinn ?  Fréttaskýringin hófst þannig:

"Sláandi munur er á kjörum, sem ríkið býður stóru orkufyrirtækjunum og þeim, sem byggja svo kallaðar smávirkjanir. ... [Eigandi 9,9 MW, í mesta lagi 70 GWh/ár, greiðir 15,7 MISK/ár fyrir afnotaréttinn og tvöfalt meira að 10 árum liðnum frá gangsetningu.  Af Sigölduvirkjun, 150 MW, 920 GWh/ár, greiðir Landsvirkjun aðeins 15,7 MISK/ár fyrir sinn afnotarétt.  Svona mismunun er í einu orði sagt vond stjórnsýsla, sem Samkeppnisstofnun og/eða ný ríkisstjórn þarf að hafa forgöngu um að laga - innsk. BJo.]

Útreikningar á hlutfalli leigu af rekstrartekjum  sýna sömuleiðis, að Landsvirkjun greiðir að jafnaði 0,39 % af tekjum virkjana sinna, á meðan eigandi smávirkjana greiðir að jafnaði 3-10 % af sínum tekjum.  

Fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga eru ráðandi í orkuöflun í landinu.  Aðeins HS orka nær inn í þann klúbb [úr hópi einkafyrirtækja].  Raunar eru einkafyrirtæki að kveða sér hljóðs með byggingu lítilla virkjana.  Þar hefur HS orka einnig séð tækifæri til vaxtar."

Það er eðlilegt að leggja framlegð virkjunar (ekki tekjur) til grundvallar gjaldtöku fyrir afnot af vatnsréttindum og landi ríkisins, og það er jafnframt eðlilegt, að þessi gjaldtaka sé óháð eignarhaldi á virkjun.  0,39 % af söluandvirði raforkunnar er allt of lágt afgjald, og  10 % er rányrkja í nafni ríkisins.  Á bilinu 3 %-5 % af framlegð virðist eðlilegt afgjald fyrir þessi réttindi. 

Hér yrði um umtalsverðar tekjur ríkisins að ræða, sem freistandi væri að leggja í sjóð, sem stæði straum af verkefnum í þágu umhverfisverndar.  Þar er af nógu að taka, og mætti nefna stærsta umhverfisvandamálið á Íslandi, uppblástur lands, en brýn þörf er á að snúa vörn í sókn í þeim efnum og klæða landið gróðurþekju að nýju.

Til að undirstrika óréttlætið, sem ríkir í þessum málum, er rétt að vitna áfram í téða fréttaskýringu Helga Bjarnasonar:

"Stofnendur smávirkjana, sem nýta jarðeignir ríkisins, fá allt aðrar kröfur um gjald fyrir afnot réttinda hjá fjármálaráðuneytinu en stóru virkjanafyrirtækin fá hjá forsætisráðuneytinu, þegar samið er um að virkja á þjóðlendu.

Kjörin, sem Landsvirkjun og væntanlega önnur fyrirtæki, sem virkja stórt, fá hjá forsætisráðuneytinu ... [nema 0,39 % af söluandvirði rafmagns - innsk. BJo].  Til samanburðar má geta þess, að fram hefur komið opinberlega, að Arctic Hydro, lítið virkjanafyrirtæki, sem er að byggja sig upp, þarf að greiða 3 % af brúttótekjum í upphafi til að fá leyfi til að byggja 9,9 MW Geitdalsárvirkjun á Fljótsdalshéraði, og leigan fer svo stighækkandi, þar til gjaldið verður 10 % eftir 10 ár frá gangsetningu.   Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro, staðfestir þessar tölur.  Aðspurður segir hann, að sveitarfélagið hafi verið tilbúið til að leigja réttindin fyrir 2,5 % af tekjum í upphafi, en ríkið gert kröfu um 3 %, og þannig muni samningurinn verða." 

Það ríkir stjórnsýsluleg óreiða á þessu sviði, þar sem 2 ráðuneyti beita mjög ólíkum aðferðum við að ákvarða gjaldheimtuna.  Það er ótækt, þar sem ríkja þarf festa, samræmi og jafnræði.  Sennilega er ekki vanþörf á endurskoðun lagasetningar áður en ESA dregur fram pískinn.

 

 

 

 

 


Sjávarútvegur er kjölfesta efnahagslífsins

Sjórinn umhverfis landið var frá upphafi landnáms kjölfesta lífsafkomu þjóðarinnar ásamt afurðum landsins sjálfs.  Erlendar þjóðir voru í aðstöðu til að þróa svo öflug skip á miðöldum, að þau gátu sótt hingað til veiða, á meðan hér voru kænur einar til útróðra.  Bróðurpartur veiðanna var þess vegna útlendinganna, en við sátum eftir í rás tímans undir nýlendustjórn Dana og lápum dauðann úr skel. 

Jón Arason, Hólabiskup, gerði heiðarlega tilraun til að stöðva Siðaskiptin og kollvarpa veldi Danakóngs hérlendis 1540-1550 með bandalagi við kaþólskan keisara Þýzkalands (Þjóðverjar voru umsvifamiklir kaupmenn og fiskimenn á og við Ísland á þessum tíma), en það mistókst hrapallega, eins og alkunna er.  Um þessa miklu atburði hefur Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, skrifað læsilegt og æsilegt kver og nú sent frá sér upplýsandi rit um aðdraganda landnáms Íslands, Eyjan hans Ingólfs. 

Á Heimastjórnartímanum í byrjun 20. aldar hafa Íslendingar sennilega fyrir alvöru gert sér ljóst, hvílík verðmæti væru fólgin í sjávarauðlindinni í kringum landið, því að fljótlega var hafizt handa við að draga landhelgislínu um landið, fyrst 3 sjómílur frá ströndum, þá 4 sjómílur frá annesjum, síðan 50 sjómílur og að lokum 200 sjómílur 1976.  Jafnframt hafa Íslendingar verið á varðbergi gagnvart því, að útlendingar klófestu fiskinn til vinnslu og markaðssetningar erlendis með eignarhaldi sínu á útgerðum og fiskvinnslum hérlendis. 

Lykilatriði fyrir verðmætasköpunina er fullvinnsla hérlendis fyrir vel borgandi erlenda markaði.  Eftir vel heppnuð umskipti íslenzks sjávarútvegs með lögfestingu þess fiskveiðistjórnunarkerfis, sem nú er við lýði, en þokulegar vangaveltur eru um breytingar á, hefur hann haft bolmagn til mikilla fjárfestinga í veiðiskipum beztu gerðar og hátækni fiskvinnslum, sem standa erlendum samkeppnisaðilum snúning þrátt fyrir hjalla hér á borð við hátt launastig, há opinber gjöld og mikla fjarlægð frá mörkuðum.

Um erlendar fjárfestingar í í sjávarútvegi ritaði Guðjón Einarsson í Bændablaðið, 4. nóvember 2021:

"Allt frá dögum landhelgisstríðanna hafa Íslendingar verið á varðbergi gagnvart því, að útlendingar kæmust með klærnar í fiskveiðiauðlind þeirra á ný með verulegu eignarhaldi á sjávarútvegsfyrirtækjunum.  Því eru í gildi lög, sem banna, að erlendir aðilar eigi meira en 25 % í íslenzkum fyrirtækjum, sem stunda veiðar eða vinnslu sjávarafurða hér á landi. Með vinnslu sjávarafurða er átt við frystingu, söltun, herzlu og hverja aðra þá verkun, sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þ.m.t. bræðsla og mjölvinnsla, en undanskilin er reyking, súrsun, niðursuða, niðurlagning, umpökkun afurða í neytendaumbúðir o.fl."

Sú spurning vaknar, hvort erlend fyrirtæki eða "leppar" þeirra gætu keypt mikið magn á mörkuðum hér, ef mikil aukning yrði á því, sem fer um markaðina, og flutt fiskinn utan til vinnslu í verksmiðjum sínum og/eða annarra þar.   Höfundurinn segir, að nefnd um erlenda fjárfestingu hafi túlkað lögin með þeim hætti, "að beint og óbeint eignarhald í íslenzkum sjávarútvegi [megi] vera allt að 49 %". 

Þessi takmörkun á erlendu eignarhaldi í íslenzkum sjávarútvegi brýtur í bága við sáttmála ESB um Innri markaðinn og fjórfrelsið, en þar er frjálst flæði fjármagns innifalin.  Hins vegar kvað EES-samningurinn á um það í upphafi og gerir enn, að sjávarútvegur væri undanskilinn samninginum, og hefði betur farið á, að orkumálin væru það líka, eins og síðar kom á daginn.

"En hversu umfangsmikil er erlend eignaraðild að íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum ?  Ekki er til samantekt um það á einum stað, en í svari þáverandi ráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar á Alþingi veturinn 2019-2020 kom fram, að í tilefni fyrirspurnarinnar hefðu verið skoðaðir ársreikningar þeirra lögaðila, sem fengið hefðu úthlutað aflamarki [aflahlutdeild] í upphafi fiskveiðiársins 2019/2020.  Miðað var við þá aðila, sem fengu úthlutað 50 þorskígildistonnum eða meira.  Samkvæmt þeim upplýsingum var enginn erlendur aðili skráður eigandi að yfir 1 % hlut í slíku félagi (m.v. ársreikninga 2018). 

Síðan kallar Bændablaðið á kunnáttumann til að útskýra áhugaleysi útlendinga, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.  Sannleikurinn er sá, að nú er íslenzkur sjávarútvegur kominn á slíkt stig tækniþróunar, markaðssetningar og framlegðar, að vandséð er, að fjárfestingar útlendinga yrðu honum til nokkurrar framþróunar. 

  "Ég get þó ekki neitað því, að þess eru dæmi, að erlendir viðskiptavinir okkar hafi sýnt því áhuga að kaupa nokkurra % eignarhlut í Vinnslustöðinni til þess að styrkja tengslin, en ég hef alltaf sagt nei.  Það myndi almennt ekki vera vel séð. Hins vegar eru frjáls viðskipti með hlutabréf í fyrirtækjum eins og Vinnslustöðinni, og því gæti einn hluthafi tekið sig til og selt sín bréf til útlendinga, ef honum sýndist svo", sagði Sigurgeir Brynjar.  Hann bætti því við, að líklegasta skýringin á litlum áhuga erlendra fjárfesta á íslenzkum sjávarútvegsfyrirtækjum væri sú áhætta, sem alltaf vofði yfir vegna hugsanlegra breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu." 

Ófriður um fiskveiðistjórnunarkerfið er óviðunandi fyrir almenning á Íslandi, sem á feikilega hagsmuni undir því, að friður ríki um lagaumgjörð vel heppnaðs fiskveiðistjórnunarkerfis, sem ekki hefur verið mótmælt með rökum, að sé skilvirkasta fiskveiðistjórnunarkerfi, sem þekkist. Sök á þessum ófriði eiga óábyrgir stjórnmálamenn, sem leitast við að slá pólitískar keilur með því að ala á sundrungu og öfund um kerfið, sem nú er við lýði án þess að benda á trúverðuga valkosti.  Þessu þarf að linna, og mundi þá sennilega fjármagnskostnaður greinarinnar lækka og opinberar tekjur aukast af greininni.  

Þann 15. nóvember 2021 birtist í Morgunblaðinu ein af hinum fróðlegu og hnitmiðuðu greinum Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögmanns, um þjóðmálin, sem hann nefndi:

"Bezta kerfið".

Hún hófst með sögulegu yfirliti:

"Á 8. og 9. áratug síðustu aldar var fyrst að ráði farið með lögum að takmarka sókn íslenzkra veiðiskipa í fiskveiðistofnana við landið.  Byggðist þessi stjórnun á þeim grunni, sem lagður var við lagasetninguna, að nytjastofnar við Ísland væru sameign íslenzku þjóðarinnar, sem og því, að stofnunum stafaði hætta af ofveiði landsmanna.  

Komið var á því, sem við höfum nefnt aflamarkskerfi, sem fólst í að úthluta til fiskiskipa hlutdeild í hámarksafla hinna mismunandi tegunda sjávarfangs, sem heimilt væri að sækja í sjó og ákveðinn væri af stjórnvöldum."

 Hér má bæta við, að aflamark, sett af stjórnvöldum, skyldi reist á veiðiráðgjöf vísindamanna Hafrannsóknarstofnunar.  Var henni þó ekki fylgt út í æsar fyrstu ár kerfisins, en hin seinni árin má heita, að svo hafi verið gert.

Margvíslegir jákvæðir hvatar eru fólgnir í hinu íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfi, sem ýta undir útgerðarmenn og sjómenn að draga úr kostnaði við að sækja hvert tonn úr sjó og að hámarka verðmæti þess.  Þá hvetur varanleg úthlutun aflaheimilda til ábyrgrar umgengni við auðlindir hafsins og til að lágmarka mengun. Enn viðgengst þó umhverfisskussaháttur, sem mál er að linni og nefnist brottkast. 

Aðaláhrif kerfisins voru þau að treysta rekstrargrundvöll sjávarútvegsins, sem var ekki fyrir hendi áður, þ.e. að íslenzkur sjávarútvegur var ósamkeppnishæfur á mörkuðum erlendis.  Þetta leystu stjórnmálamenn fortíðar með því að míga í skóinn sinn, þ.e.a.s. þeir rýrðu verðmæti þjóðargjaldmiðilsins, sem er svindlaðgerð gagnvart hagsmunum almennings.  Öflugur gjaldmiðill er undirstaða velmegunar þjóðar, sem er svo háð innflutningi vara og þjónustu sem Íslendingar, en útflutningur verður að koma á móti, svo að þetta er jafnvægislist.  Hún næst aðeins með skilvirkni á öllum sviðum, framleiðni verðmætasköpunar, sem skapar grundvöll að samkeppnishæfni landsins. Þetta hefur náðst með tæknivæðingu á öllum sviðum atvinnulífs og auðlindanýtingu á fleiri sviðum en sjávarútvegi.  Enn er hægt að auka framleiðsluverðmæti takmarkaðs sjávarafla og auka sjálfbæra orkunotkun landsmanna, svo að því fer fjarri, að endimörkum vaxtar sé náð á Íslandi. 

Jón Steinar gerði síðan eignarhaldið að umræðuefni, en það er eins og það hafi farið mest fyrir brjóstið á gagnrýnendum kerfisins, enda vissulega byltingarkennd breyting innan sjávarútvegs, þó að það sé hefðbundið í öðrum greinum.  Gallinn við gagnrýnina er hins vegar sá, að breytingartillögur eru örverpi með alls konar alvarlegum annmörkum.  Þetta eru vanhugsaðar afurðir stjórnmálamanna, sem annars staðar hafa gefizt afspyrnu illa.

 "Það samrýmist vel meginhugmyndum í lýðræðisríkjum að koma verðmætum atvinnutækjum í hendur þeirra, sem atvinnuna stunda, enda sé gætt að málefnalegu jafnræði við ráðstöfun þeirra.  Landsins gæði eru í slíkum ríkjum í einkaeigu borgaranna, svo sem fasteignir og aðrar eignir, námur og land, m.a. það, sem nýtt er í landbúnaði.  Bændur eiga ekki bara heimalönd jarða sinna, heldur einnig tilkall til hálendissvæða til samræmis við nýtingu þeirra á slíku landi frá fornu fari. Stjórnskipun, sem byggir á einstaklingseignarrétti, er líka miklu líklegri til að skapa landsins lýð meiri verðmæti og tekjur heldur en fyrirkomulag í ríkjum sameignarsinna, svo sem saga mannkynsins sannar svo vel.  Við hikum ekki við að segja, að Ísland sé í sameign þjóðarinnar, sem byggir landið, þó að yfirleitt allt land sé háð eignarrétti einstakra manna."

Einkaeignarrétturinn er rótin að velgengni fiskveiðistjórnunarkerfis, enda beinast misheppnaðar atlögur stjórnmálamanna að honum.  Þeir hafa látið sér detta í hug þá fráleitu ofbeldisráðstöfun að þjóðnýta aflahlutdeildir útgerðarmanna án þess að gera sér nokkra grein fyrir grafalvarlegum réttarfarslegum, efnahagslegum og siðferðislegum áhrifum slíks gernings.  Stjórnmálamenn fortíðar migu í skóinn sinn, þegar þeir höfðu afskipti af sjávarútveginum, en þessar hugmyndir misheppnaðra stjórnmálamanna nútímans eru af enn verra tagi.  

"Þegar fiskveiðistjórnunarkerfi okkar var komið á, var ekki verið að taka eignarréttindi af öðrum borgurum en útgerðarmönnum.  T.d. sat ég sem lögmaður í miðbæ Reykjavíkur og varð ekki var við, að neitt væri af mér tekið við lagasetninguna um stjórn fiskveiða við landið og úthlutun aflaheimilda.  Ég naut þess hins vegar, eins og aðrir landsmenn, að þessi atvinnugrein við sjávarsíðuna blómstraði og skilaði góðri afkomu landslýð öllum til hagsbóta. 

 Kannanir sýna, að íslenzka kerfið skilar meiri efnahagslegum ábata en þau stjórnkerfi, sem þekkjast hjá öðrum ríkjum.  

Kröfur um sérstaka skattheimtu á þessa atvinnugrein umfram aðrar standast að mínum dómi ekki.  Við hljótum að skattleggja íslenzka borgara eftir lagareglum, þar sem jafnræðis er gætt og hið sama látið gilda um alla án tillits til þess á hvaða sviði atvinnulífs þeir afla sér tekna.  

Þeir, sem nú gera háværar kröfur um aukna hlutdeild almennings í verðmætum fiskimiðanna, ættu að hugsa sig aftur um.  Meginviðhorfin, sem orðið hafa ofan á í lagasetningu okkar á þessu sviði eru þau beztu, sem völ er á, þó að alltaf megi sjálfsagt bæta ýmis smáatriði í lögunum."

Jón Steinar Gunnlaugsson hefur lög að mæla og kemst þarna að kjarna málsins.  Jafnræðis verður að gæta, svo í skattheimtu sem öðru.  Þess vegna orka s.k. veiðigjöld tvímælis, enda eru þau ekki iðkuð í nágrannalöndum okkar, nema í litlum mæli í Færeyjum. Þessi gjöld eru þar að auki eins konar dreifbýlisskattur, sem skýtur skökku við byggðastefnuna, sem rekin er í landinu, og eru þess vegna fjármagnsflutningur frá hinum dreifðu byggðum landsins til Reykjavíkur.  Það er óskynsamlegt, að ríkið þvingi fram fjármagnsflutninga þaðan, sem verðmætin verða til, því að slíkt dregur úr fjárfestingum, sem eru undirstaða velmegunar, byggðastöðugleika og samkeppnishæfni.  

 

 

 

 


Áfellisdómur yfir loftslagsstefnu ríkisins

Löngu fyrirsjáanlegur raforkuskortur vegna of lítils framboðs raforku til að mæta þörfum vaxandi hagkerfis og orkuskipta er nú brostinn á með þeim afleiðingum, að hagvöxturinn á næstu árum verður minni en ella, því að búast má við raforkuskorti, þar til ný virkjun af sæmilegri stærð (um 100 MW) kemst í gagnið. 

Fyrstu fórnarlömbin nú (sem jafnan) eru fyrirtæki með skammtímasamninga um ótryggða orku frá Landsvirkjun, og munar þar langmest um fiskimjölsverksmiðjurnar í afli eða 100 MW.  Þegar hafa 75 MW verið skorin af þeim, og sennilega verður allt tekið af þeim um áramótin, þegar hæst á að hóa; brætt hefði verið með að líkindum 100 MW rafmagns í um 1500 klst veturinn 2022.  Þetta eru 150 GWh, sem gætu kostað u.þ.b. mrdISK 1, sem orka komin til bræðslnanna, en olían, um 18 kt, kostar um tvöfalt meira komin til sömu notenda (áætlun BJo). 

Þessi ákvörðun Landsvirkjunar gæti þannig jafngilt um mrdISK 1 og er þannig mikið fjárhagslegt högg fyrir sjávarútveginn, sem búinn er að fjárfesta a.m.k. mrdISK 3 í rafvæðingunni. Útskýringar forstjóra Landsvirkjunar eru ófullnægjandi.  Hann skellir skuldinni á ófullnægjandi flutningsgetu Landsnets á milli landsfjórðunga, en Landsvirkjun hefur ekki burði til að framleiða meiri raforku á Austurlandi en Austurland þarf um þessar mundir að viðbættri flutningsgetu þaðan til norðurs og suðurs eftir úreltri 132 kV Byggðalínu.  Þar að auki hefði Landsvirkjun getað hafið þennan flutning fyrr en gert var og sparað þannig meira vatn í Þórisvatni.

  Landsvirkjun er með svín á skóginum og ætti ekki að kasta frá sér ábyrgð yfir á Landsnet.  Fíllinn í stofunni er svo auðvitað Hvammsvirkjun í Neðri-Þjórsá, sem hefði verið tekin í notkun í haust, ef stjórn orkumála Íslands hefði undanfarið verið, eins og hjá mönnum.  Hefur Landsvirkjun verið að þrýsta á um að fá framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun ?  Opinberlega hefur ekki farið mikið fyrir því.  

Til að Landsvirkjun geti nýtt sér flutningsgetu nýrrar 220 kV Byggðalínu frá Fljótsdal til Grundartanga, verður hún að koma sér upp viðbótar framleiðslugetu í Fljótsdalsvirkjun og á Þjórsár/Tungnaársvæðinu, og núverandi vatnsvegir setja slíkum viðbótum skorður.  Landsvirkjun hefur áætlað, að orka Hverfanda, yfirfalls Hálslóns, hafi numið 500 GWh sumarið 2021. Ekki þarf að búast við, að nýtanleg viðbótarorka í Fljótsdalsvirkjun með viðbótar hverfli og rafala verði nema þriðjungur af þessari orku í góðum vatnsárum, og mörg ár mundi slík fjárfesting nýtast lítið, nema góðum vatnsárum sé að fjölga þar fyrir austan. 

Þann 7. desember 2021 birti Morgunblaðið fjagra dálka fyrirsögn ofarlega á forsíðu sinni með þessum válegu tíðindum, sem þó veru fyrirsjánleg.  Nú hefur Murphy blandað sér í málið og slegið út einum rafala í Búrfelli á sama tíma og enn vantar vél í rekstur á Nesjavöllum vegna viðgerða.  Háálagstíminn er í vændum á sama tíma og reiðuaflið er stórlega skert.  Þetta eykur líkur á alvarlegu straumleysi hjá notendum og jafnvel kerfishruni. Raforkukerfið er í uppnámi vegna óstjórnar. Það er stórlega ámælisvert, að eftirlitsaðili á borð við Orkustofnun skuli ekki opinberlega fyrir löngu hafa varað við því ófremdarástandi, sem athafnaleysi orkufyrirtækjanna á sviði nýrra virkjana er nú að leiða yfir landsmenn.  Það hefur verið flotið sofandi að feigðarósi: 

"Kemur sér illa fyrir hagkerfið"

Í fréttinni var leitað í smiðju Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins:

"Sigurður segir, að þessi staða komi sér sérstaklega illa á þeim tíma, sem hrávöruverð sé hátt með hliðsjón af því, að græn orkuskipti eru á næsta leiti.  "Skerðingin kemur illa við íslenzkt efnahagslíf og við hagkerfi Íslands", segir Sigurður og bætir við, að hún muni draga úr framleiðslu og verðmætasköpun.

Hann bætir við, að það sé rétt að ákveðnu marki, að flutningskerfið sé ekki nógu skilvirkt, en engu að síður sé það staðreynd, að það þurfi að afla meiri orku.  "Flutningskerfið er sannarlega eitthvað, sem þarf að skoða og bæta, en það breytir ekki því, að það þarf að afla meiri orku á landinu vegna þess, að eftirspurnin er sannarlega [fyrir hendi] og líka með hliðsjón af loftslagsmálunum, þar sem eftirspurn eftir grænni orku er að aukast á heimsvísu", segir Sigurður."

Þetta er einhver smjörklípa hjá forstjóra Landsvirkjunar að kenna lítilli flutningsgetu Byggðalínu um, að Landsvirkjun skelli á raforkuskerðingu í byrjun desembermánaðar.  Enginn með viti dregur það von úr viti að hefja virkjunarframkvæmdir, sem um munar, í von um að geta flutt næga orku á milli landshluta.  Það er ekki gefið, að Fljótsdalsvirkjun sé aflögufær, ef vatnsstaðan er lág í Þórisvatni, og 220 kV tenging á milli Austur- og Vesturlands verður varla tilbúin fyrr en um 2030.  Ef hendur verða nú látnar standa fram úr ermum, væri hægt að búast við orku frá Neðri-Þjórsá í ársbyrjun 2025. 

Þá var komið að 10 ára hrollvekju Landsnets, sem hefur í tímans ráð traðkað í salati landeigenda, en líka orðið fyrir barðinu á afturhaldinu í Landvernd, sem lagzt hefur þversum á leið loftlína, þótt samtökin eigi enga lagalega aðild að slíkum málum:

"Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir í samtali við Morgunblaðið, að það sé rétt, að flutningsgeta Byggðalínunnar, sem tengi saman Norð-Austur hornið og virkjanir fyrir sunnan, sé takmarkandi þáttur.  Aðalástæðan fyrir því séu miklar tafir á framkvæmdum Landsnets vegna leyfisveitinga.

"Við höfum lagt áherzlu á, að það þurfi að einfalda ferlið við leyfisveitingar og gera það skilvirkara og tryggja, að niðurstaða fáist í leyfisveitingaferlið", segir Guðmundur og nefnir, að umsóknir hafi tafizt mikið í kerfinu.  Séu dæmi þess, að framkvæmdaleyfisferlið geti tekið allt að 10 ár." 

 

  

 

 

 


Orkustefna í skötulíki

Orkustefna lands er lítils virði, ef hún varðar ekki leiðina að orkuöryggi, þ.e. búi svo vel í haginn fyrir nægt framboð afls og orku, að skortur forgangsorku myndist ekki, nema ófyrirsjáanlegir atburðir á borð við náttúruhamfarir eða ófrið ríði yfir. Nú horfir illa með vatnsbúskap Landsvirkjunar í vetur, sem þegar er komið í ljós, að koma mun harkalega niður á atvinnustarfsemi í landinu, sem samið hefur um kaup á ótryggðri raforku, bæði skammtíma og síðar langtíma.

  Ef illa fer, mun þurfa að skerða forgangsorku líka, sem er neyðarúrræði.  Að svo sé komið í rekstri raforkukerfisins, þar sem ríkisfyrirtæki gegna langstærstu hlutverki, og á sama tíma sé engin vinna í gangi við framkvæmdir í nýjum meðalstórum eða stórum virkjunum á vegum ríkisfyrirtækja, er þungur áfellisdómur yfir stjórnun ríkisins á þessum málaflokki, sem varðar hagkerfið gríðarmiklu, svo að ekki sé talað um það umhverfisslys að þurfa að brenna olíu, þar sem olíubrennarar eru til vara fyrir rafmagnið.

Afturhaldsöfl hafa drepið málaflokkinn í dróma. Eins og vanalega koma umhverfisráðstafanir gæningja eins og bjúgverpill í fangið á stjórnvöldum sem aukinn bruni jarðefnaeldsneytis.  Það gerist nú á meginlandi Evrópu, og það gerist nú á Íslandi.  Ef hér hefði tekið til starfa ný um 100 MW virkjun á svæði, sem 220 kV flutningskerfi Landsnets spannar, væri hvorki orku- né aflskortur í vetur.  Það er einsdæmi frá stofnun Landsvirkjunar, að á tíma orkuskorts skuli ekki hilla undir umtalsverða virkjun á vegum fyrirtækisins. Stendur á framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun.  Hvað í ósköpunum veldur þessum sofandahætti, doða og/eða amlóðahætti ?

Til sannindamerkis um þjóðhagslegan kostnað, sem nú blasir við af völdum orkuskerðinga Landsvirkjunar til fiskiðnaðarins, er forsíðufrétt Morgunblaðsins 3. desember 2021 um, að loðnubræðslur fengju einvörðungu 25 MW af umsömdum 100 MW af ótryggðu afli í vetur.  Til að vega þetta upp þurfa verksmiðjur, sem einnig eru með olíukatla, að brenna olíu.  Orðagjálfur stjórnmálamanna um 55 % samdrátt koltvíildislosunar 2030 m.v. 1990 er afhjúpað sem innihaldslaust blaður, þegar svona er í pottinn búið. Þetta heimatilbúna vandamál er orðið að ófyrirgefanlegu heimilisböli landsstjórnarinnar. 

Hér verður að gera bragarbót á hið snarasta, enda eru virkjanakostir til nánast verkhannaðir og tilbúnir til útboðs.  Nýi ríkisstjórnarsáttmálinn gefur undir fótinn með, að nú verði slegið í klárinn. Nú kemur til kasta innviðaráðherrans og orkuráðherrans.  

Íslendingar eru í óviðjafnanlegri stöðu á meðal Evrópuþjóða, hvað orkuöflun varðar.  Flestar aðrar þjóðir hafa farið á braut óskilvirkrar kolefnisfrírrar orkuöflunar á borð við vindmyllur og sólarhlöður, sem taka háan toll af efnaauðlindum jarðar m.v. orkuvinnslugetu á endingartíma, eða þær halda áfram að reisa kolefnisspúandi orkuver á borð við gas- og kolaorkuver.  Á árinu 2021 hefur vindafar verið óhagstætt í Evrópu fyrir vindmyllur, og þær þess vegna framleitt óvenjulítið.  Á sama tíma hefur raforkueftirspurn vaxið umfram framboðsaukningu, sem leitt hefur til óvenjulágrar birgðastöðu alls jarðefnaeldsneytis og þess vegna hárrar verðlagningar allrar orku samkvæmt lögmáli framboðs og eftirspurnar.  

  Sumir hérlendis tala fjálglega um nauðsyn orkuskipta til að koma í veg fyrir hlýnun andrúmslofts um 2°C eða meira fyrir árið 2080 síðan 1850, þótt röð gervihnattamælinga á hitastiginu bendi aðeins til meðalhitastiguls 0,14°C/10 ár á síðustu 30-40 árum, og þessi hækkun gæti hæglega gengið til baka, en þeir mega samt ekki heyra minnzt á nýjar virkjanir.  Þetta eru hreinræktaðir loddarar með sína snákaolíu til sölu. Að láta loddara móta orkustefnuna, leiðir auðvitað aðeins í ógöngur, eins og nú er komið á daginn.

Orkustefna Þýzkalands og margra annarra landa Evrópusambandsins (ESB) er sú að loka öllum kjarnorkuverum fyrir árslok 2022, en reiða sig á vindorkuver og sólarhlöður.  Þetta er óumhverfisvænt  og óskilvirkt.  Hver vindmylla er tiltölulega efnisfrek, nýtingartími á ári er stuttur og endingin er skammvinn.  Um 65 t af Cu (kopar) fara í um 6 MW vindmyllu, og slík koparvinnsla útheimtir 50 kt námugröft. 

Árið 2021 einkenndist af stillum, og vegna uppsveiflu hagkerfisins í ár og lágrar stöðu jarðgasforðans í Evrópu (vestan Rússlands) er kolabrennsla Þjóðverja nú með mesta móti og öll orkuverð í Evrópu í hæstu hæðum og knýja áfram verðbólgu, sem margir núlifandi Evrópumenn hafa aldrei séð áður. Ofan á angist vegna hárra orkureikninga í Evrópu bætast áhyggjur út af liðsafnaði Rússa við austurlandamæri Úkraínu og þeirri staðreynd, að 41 % af jarðgasinnflutningi Evrópu kemur frá Rússlandi.  

Í Frakklandi er afstaðan til kjarnorkuvera allt önnur, og þar kemur um helmingur raforkunnar frá kjarnorkuverum og t.d. á Bretlandi 16,5 % og vaxandi.  Þar er ætlunin að loka öllum, nema einu kjarnorkuveri, fyrir 2030 vegna aldurs og reisa ný með nýrri tækni.  Bretar eru þó að reisa nýtt, stórt kjarnorkuver, Hinkley Point C, 3,2 GW, fyrir mrdGBP 23, sem jafngildir fjárfestingu 9,5 MUSD/MW.  Þetta er 3-4 faldur virkjunarkostnaður á Íslandi. 

Til að auka samkeppnishæfni kjarnorkunnar er Rolls Royce nú með minni og forsmíðaðar einingar kjarnakljúfa og gufuhverfla í hönnun, s.k. SMR (Small Modular Reactors), 0,47 GW, sem lækka virkjunarkostnaðinn um 35 % niður í 6,2 MUSD/MW, og fjöldaframleiðsla og samkeppni frá öðrum framleiðendum, t.d. frönskum, mun lækka verðmiða kjarnorkunnar enn meira.  Þessi orkuver geta staðið undir stöðugu álagi og orkuverðið verður lítið háð verðsveiflum á úrani.

Bretum hefur orðið vel ágengt með minnkun losunar koltvíildis frá raforkuverum.  Á 10 ára tímabili 2012-2021 drógu þeir úr þessari losun um 51 %, og á árabilinu 2021-2030 ætla þeir að draga úr losun vegna raforkuvinnslu um 57 % og fara niður í 100 Gt CO2.  Þetta verður gert með lokun kolakyntra vera og gangsetningu SMR-kjarnorkuvera. Þessi stefnumörkun mun veita Bretum forskot á Evrópusambandið, sem hjakkar í sama farinu vegna rangrar stefnumörkunar. Bretar munu styrkja samkeppnisstöðu sína gagnvart ESB vegna lægra orkuverðs. 

Flest ríki heims hafa lýst yfir, að þau stefni á kolefnishlutleysi árið 2050 eða eftir tæplega 30 ár.  Það er risaverkefni á heimsvísu í ljósi þess, að jarðefnaeldsneyti stendur að 83 % af frumorkunotkun jarðarbúa.  Ótti við þvingunarráðstafanir stjórnvalda til að draga úr eftirspurn hafa leitt til 40 % lækkunar fjárfestinga í leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis síðan 2015, og þetta hefur þegar haft áhrif á framboðið, einnig á gasinu, á sama tíma og þjóðir vilja taka það í notkun í stað kola og olíu.  Þess vegna hefur verð á því rokið upp úr öllu valdi.  Skortur á LNG, sem Bandaríkjamenn hafa boðið ESB í stað gass um Nord-Stream 2 frá Rússum, nemur nú 2 % af eftirspurn á heimsvísu, en er spáð, að verði 14 % árið 2030. Ef ESB ekki semur við Rússa um kaup á gasi um Nord-Stream 2 lögnina, verður áfram mjög hátt orkuverð í Evrópu.  Slík staða eykur spurn eftir íslenzkri raforku, en Landsvirkjun situr samt með hendur í skauti.  Þessi doði í boði ríkisins er dýrkeyptur. 

Árið 1990 hófu ríki heims að samkeppnisvæða orkumarkaðinn. Orkuyrirtæki keppa þá um hylli neytenda með því að bjóða sem hagstæðasta afhendingarskilmála, og þau keppa um orkuna sín á milli á uppboðsmörkuðum.  Þegar hillir undir aflskort, hækkar verðið, og fyrirtækin fara í fjárfestingar.  Í skortskerfi, eins og núna, þar sem framboð orku getur ekki annað eftirspurn, koma regingallar þessa kerfis fram, því að fyrirtækjum og heimilum blæðir. 

Það getur ekki gengið til lengdar, að Norðmenn þurfi að greiða sem svarar 90 ISK/kWh í landi, þar sem raforkuverðið með flutningi, dreifingu og sköttum hefur í venjulegu árferði verið jafnvel lægra en á Íslandi eða 15-20 ISK/kWh.  Þetta samkeppniskerfi orku, sem ESB hefur tekið upp á arma sína með orkupökkunum, virkar sem hengingaról fyrir neytendur við núverandi aðstæður. 

Talið er (The Economist 16.10.2021-The energy shock), að fjárfestingar á heimsvísu í orkumálum þurfi meira en að tvöfaldast og fara í 4-5 trnUSD/ár til 2050 eða alls um trnUSD 135 fram til 2050.  Í þessum samanburði sleppa Íslendingar tiltölulega vel, en það verður að vera hér einhver vilji til verka (virkjana og línulagna) til að nýta náttúrulegt forskot Íslands. Hvenær skyldu orkuyfirvöld í Stjórnarráðinu rumska ?  Þau hafa sofið Þyrnirósarsvefna með þeim afleiðingum, sem nú eru öllum berar.    


Fullveldisbarátta í Noregi

Evrópusambandið (ESB) er að sumu leyti eins og fíll í postulínsbúð Evrópuríkjanna, ekki sízt EFTA-landanna, e.t.v. að Liechtenstein undanskildu. Þekkt er, að Svisslendingar sáu sér ekki fært að ganga í EES, hvað þá ESB, á sínum tíma, og eru enn fjær því að vera á biðilsbuxunum núna, þegar þróun ESB í átt að sambandsríki er enn þá auðsærri en á fyrri hluta 10. áratugar 20. aldarinnar. Nýja þýzka ríkisstjórnin undir forystu SPD-Jafnaðarmannaflokksins hefur þetta beinlínis á stefnuskrá sinni.

Svipaða sögu er að segja af Norðmönnum og Svisslendingum, þótt hinir fyrr nefndu hafi samþykkt EES-aðild.  Báðar þjóðirnar höfnuðu ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslum, en meirihluta stuðningur við aðild var á meðal fulltrúa á löggjafarsamkundum landanna.

Á Íslandi hefur hvorki verið meirihluti á Alþingi né á meðal þjóðarinnar fyrir ESB-aðild og verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð, enda vega ókostirnir miklu þyngra en kostirnir.  Bæði í Noregi og á Íslandi má rekja andstöðuna til ótta við að missa tökin á stjórnun auðlindanna. Þess vegna voru sjávarútvegs- og landbúnaðarmál undanskilin í EES-samninginum, og EFTA-ríkjunum bar heldur engin skylda til að lögleiða orkulöggjöf sambandsins. Þetta er skilningur forsætisráðherra og utanríkisráðherra Viðeyjarstjórnarinnar, sem sat, þegar gengið var frá EES-samninginum.

Sú innleiðing hefur valdið miklum deilum í Noregi og á Íslandi.  Ný ríkisstjórn Noregs ætlar að salta Orkupakka 4 út þetta kjörtímabil í nefnd hjá EFTA og hefur látið þær upplýsingar berast til framkvæmdastjórnar ESB og vafalaust til Reykjavíkur.  Á Íslandi er hægt að anda léttar um sinn fyrir vikið, en ESB mun sæta færis. Þess vegna þarf að efla varnir. Norðmenn halda um alla þræði í EES-samstarfi EFTA-landanna. 

Í annarri viku nóvember (v.45/2021) var s.k. ACER-mál dómtekið í þingrétti Óslóar, þar sem félagasamtökin "Nei til EU" saksóttu ríkið fyrir stjórnarskrárbrot, þegar Orkupakki 3 frá ESB var samþykktur í Stórþinginu. Dómur er fallinn ríkinu í vil, en málið mun fara fyrir fleiri dómstig. "Nei til EU" heldur því fram, að fullveldisframsalið, sem í því fólst, sé meira en "lítið inngrípandi", þ.e. hafi áhrif á hagsmuni lögaðila og einstaklinga í Noregi, og að Stórþinginu hafi þess vegna borið að fara með málið samkvæmt grein 115 í stjórnarskránni, sem krefst 3/4 meirihluta fyrir samþykkt, þar sem a.m.k. 2/3 þingheims sé mættur.

Orkumálastjórinn norski, Kjetil Lund, lagði í vitnaleiðslum áherzlu á, að hann er yfirmaður bæði NVE (Orkustofnunar) og hinnar nýstofnuðu skrifstofu  landsorkureglara (RME-Reguleringsmyndighet for energi), sem á að framfylgja ákvörðunum ACER (sameiginleg skrifstofa landsorkureglara ESB-landanna) í Noregi.  RME er sett í skipurit sem deild í NVE.  Svipað er uppi á teninginum hjá Orkustofnun á Íslandi.  Á sama tíma á RME að vera óháður reglari (stjórnandi-reglusetjari og regluvörður) fyrir orkumarkaðinn. 

Lund sá að því er virtist ekkert athugavert við þetta, og ekki hefur heyrzt múkk  frá íslenzka orkumálastjóranum.  Aftur á móti hefur ESB-dómstóllinn nýlega slegið í gadda, að túlka skuli kröfuna um sjálfstæði embættisins bókstaflega, og EES-eftirlitsstofnunin ESA hefur spurt, hvort norska fyrirkomulagið sé samkvæmt ákvæðum Orkupakka 3.  Ekkert hefur heyrzt frá íslenzkum yfirvöldum um þetta frekar en fyrri daginn. Á grundvelli úrskurðar ESB-dómstólsins gæti ESA séð ástæðu til að færa ágreiningsmálið fyrir EFTA-dómstólinn.  

Hlutverk RME hefur bein tengsl við hin hörðu átök um ACER í Noregi.  EES-aðlögunin er sniðin þannig, að EES tekur formlega ákvörðun á vegum ACER, en ákvarðanirnar skulu vera samhljóða drögum, sem ACER hefur skrifað.  Ákvörðun ESA fer þessu næst til framkvæmdar hjá RME.  RME er síðasti liður í ferlinu frá ACER-skrifstofunni í Ljublana til starfsemi í Noregi. 

RME á að vera reglari ekki aðeins fyrir millilandatengingar, heldur einnig flutningskerfi raforku innanlands.  T.d. er það RME, sem ákveður, hvernig Statnett (norska Landsnet) má nota umframtekjur (tekjur af óvenju háu verði) af orkusölu um millilandasæstrengina til svæða með öðru verði en er í Noregi.  RME á að fylgjast með, að þessar tekjur séu í höfuðatriðum notaðar til kerfisþróunar millilandatenginga í samræmi við ESB-reglur og fari aðeins í litlum mæli til lækkunar á gjaldskrá innanlands.

Í raforkumarkaðartilskipun Þriðja orkupakkans er þess krafizt, að RME sé óháð stjórnmálalegum yfirvöldum.  Margt bendir til, að Stórþingsmeirihlutinn og Alþingismeirihlutinn, sem samþykktu "pakkann", hafi vanmetið, hversu inngrípandi í samfélagið þessi ákvæði eru.  Sólberg- og Katrínarríkisstjórnirnar gerðu sitt til að breiða yfir þetta með lagasetningum um NVE og Orkustofnun, sem í Noregi kom fram sem frumvarp til breytinga á orkulöggjöf (nr 5L (2017-2018)).  Þar eru frasar á borð við, að "orkureglarahlutverkið verði áfram innan NVE", og "þegar NVE tekur ávörðun sem óháð orkureglarasyfirvald".  Þetta gefur undir fótinn með, að NVE sé áfram reglarayfirvaldið, og hið sama er uppi á teninginum á Íslandi með Orkustofnun, þótt undir fletinu sjáist í hala árans. 

Það kann að vera skynsamlegt á stundum að gera eigin aðlaganir á löggjöf ESB, en það er áhættuíþrótt að gefa til kynna, að EES-regluverkið sé minna ráðandi við stjórnun mála en það í raun og veru er.  Í október 2020 bað ESA norska Olíu- og orkuráðuneytið bréflega um að gera grein fyrir því, hvernig Noregur tryggi, að RME sé óháð.  Hefur íslenzka ríkisstjórnin fengið slíkt bréf ?  Hún er þögul sem gröfin um ESA.  ESA hélt því fram, að mörg norsku lagaákvæðin séu óskýr, og spurðist líka fyrir um það, hvernig óháð staða RME væri tryggð í raun.  Ráðuneytið sendi svarbréf í desember 2020 (Norðmenn eru duglegir við að svara bréfum.), og málið liggur enn á borði ESA í Brüssel.  Skyldi ESA enn bíða svars frá slóðunum í Reykjavík ? 

Í september 2021 féll úrskurður ESB-dómstólsins í máli, sem framkvæmdastjórn ESB hafði höfðað gegn Þýzkalandi fyrir brot á raforkumarkaðstilskipuninni (mál C 718/18).  Framkvæmdastjórnin taldi reglarayfirvaldið  (Bundesnetzagentur) ekki hafa nægilegt svigrúm til til eigin mats á aðstæðum, sem óháðum reglara bæri.  Til þess væri þýzka löggjöfin of nákvæm og leiðandi.

Málið er í grundvallaratriðum mikilvægt fyrir pólitíska stýringu raforkumarkaðarins og fyrir sambandið á milli ESB-réttar og stjórnkerfis hvers lands.  Svíar áttuðu sig á mikilvægi málsins og studdu Þýzkaland í málaferlunum.  Það var samt framkvæmdastjórn ESB, sem vann málið.  ESB-dómstóllinn kvað upp úr um, að regluverkið krefjist þess, að landsorkureglari sé "algerlega óháður" bæði aðilum á markaði og hinu opinbera - hvort sem það eru stofnanir eða stjórnvöld.  Ennfremur nefnir dómstóllinn, að nauðsyn sé á "eindregnum aðskilnaði" frá stjórnmálalegum yfirvöldum hvers lands. 

 Í nýju meistaraverkefni við Háskólann í Bergen (Björgvin) eru einmitt rannsakaðar kröfurnar, sem ESB-reglurnar gera um óháðan orkureglara.  Höfundurinn, Alexander Sæthern, leggur sérstaklega mat á, hvort norska fyrirkomulagið uppfylli kröfur tilskipunarinnar.  Niðurstaðan er, að RME sé ekki nægilega óháð. 

Sæthern bendir á, að NVE sé stofnun undir Olíu- og orkuráðuneytinu (með svipuðum hætti og Orkustofnun), þar sem möguleiki sé á fyrirmælum og öðrum pólitískum afskiptum.  RME er afmörkuð eining, en samt hluti af NVE-skipulaginu og undir orkumálastjóranum, og þetta sé ekki nægilegt til að uppfylla kröfuna um að vera óháður landsorkureglari.  Tilskipunin áskilur ennfremur, að settur sé á laggirnar "einn" orkulandsreglari, en í norska (og íslenzka) líkaninu séu NVE (Orkustofnun) og RME í eins konar tvíeyki.

Kjarninn í ACER-málinu fyrir Ósló-þingrétti (héraðsdómur) var, hversu inngrípandi í samfélagið fullveldisafsalið á orkusviðinu er.  Uppkvaðning dóms ESB-dómstólsins um, að krafizt sé, að RME sé eindregið óháður, gerir ACER samþykkt Stórþingsins (og Alþingis) meira inngrípandi en ríkisstjórnin hélt fram á sínum tíma. Gagnrýnar spurningar ESA og matið í meistararitgerðinni leiða í sömu átt.  RME (landsorkureglari), algerlega óháður yfirvöldum landsins, felur í sér, að reglarayfirvaldið eitt og sér er handbendi (framlenging á) ACER.  Raforkumarkaðstilskipunin kveður skýrt á um, að RME skuli fara eftir og framkvæma allar bindandi ákvarðanir stofnunarinnar (ACER).

Að RME er óháð stofnunum landsins afnemur jafnframt fyrirmælaréttinn, sem norska ríkisstjórnin hefur samkvæmt stjórnarskrá, gr. 3.  Lagadeild Stórþingsins hefur áður fallizt á, að þetta felur í sér viðbótar valdaafsal, en hefði hins vegar takmarkaða þýðingu fyrir mat þeirra (um nauðsyn aukins meirihluta).  Eindregin krafa um, að RME sé óháður, eins og nú er staðfest, veldur því, að áhrif Orkupakka 3 eru meira inngrípandi. 

Óháður RME (landsorkureglari) veldur því, að út frá pólitísku sjónarhorni hverfur stjórnun innlendra yfirvalda og eftirlit með flutnings- og dreifingarfyrirtækjunum.  Það er að skammhleypa eftirliti kjörinna fulltrúa. 

 Í umræðunni um Orkupakka 3 hérlendis var varað við því, m.a. á þessu vefsetri, að hafa landsorkureglara ACER á Orkustofnun, því að slíkt samrýmdist ekki löggjöf ESB.  Í Noregi var ákveðið að fara í lögfræðilegar hundakúnstir til að réttlæta að viðhafa aðeins kröfu um einfaldan meirihluta í Stórþinginu, og hérlendis var vaðið út í sama fenið til að draga fjöður yfir stórfellt fullveldisframsal, sem var stjórnarskrárbrot.  Nú koma þessar hundakúnstir mönnum í koll, og fyrir vikið hangir Orkupakki 3 á bláþræði. Upp komast svik um síðir.    

 

     


Sæstrengsviðskipti í hillingum

Viðskipti með rafmagn um sæstreng frá Íslandi til Bretlands eða annað mundu lúta öðrum lögmálum en þau viðskipti, sem Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við HÍ, dregur upp mynd af um sæstrengi á milli Noregs og Danmerkur á fyrri tíð.  Ástæðurnar eru miklu meiri fjárfesting í Íslandsstreng og meiri rekstrarkostnaður vegna orkutapa og mikils dýpis, sem þýðir væntanlega mun meiri flutningskostnað, enda mun strengeigandinn vilja fá nokkuð mikið fyrir snúð sinn, þar sem áhætta fjárfestingarinnar er mikil (bilanahætta o.fl.).  Hluti af kostnaðinum er fólginn í tiltölulega miklum orkutöpum á langri leið.

   Statnett í Noregi (norska Landsnet) á allar millilandatengingar fyrir raforkuflutninga til og frá Noregi, svo að hagnaður af þeim fjárfestingum hefur nýtzt við uppbyggingu flutningskerfis í Noregi.  Landsnet hefur enga burði í þær hundraða milljarða fjárfestingar (ISK), sem flutningskerfi og aðveitustöð, afriðla- og áriðlastöð hérlendis vegna millilandatengingar, útheimta. Þá er takmarkað svigrúm í íslenzka raforkukerfinu, að miðlunarlónum meðtöldum, til að jafna út sveiflur í framboði og eftirspurn raforku á miklu stærri raforkumarkaði.  Norska raforkukerfið var og er stærra en hið danska vegna rafhitunar húsnæðis og stóriðjuálags í Noregi og gat þess vegna tekið að sér þetta miðlunarhlutverk.  Að reyna að heimfæra þessi viðskipti Norðmanna upp á aðstæður Íslendinga er óraunhæft og gæti í versta tilviki reynzt verða einhverjum stjórnmálamönnum villuljós. Það er of mikill spákaupmennskubragur á íslenzkri sæstrengsumræðu og of lítill raftæknilegur þungi.  Hvernig á t.d. að verja íslenzka notendur fyrir truflunum af völdum yfirsveiflna (harmonics) og spennusveiflna, sem geta orðið skaðlegar. Það er hættuleg ofeinföldun að ætla að afrita gamlar viðskiðtahugmyndir til Íslands í þessum efnum.  Það liggur við að vera einfeldningslegt.  

Lítum á, hvað téður prófessor og varaformaður Viðreisnar hafði fram að færa um þetta efni:

"Nýtt viðskiptalíkan þróaðist því í kjölfar tengingarinnar milli Noregs og Danmerkur.  Dönsk kolaorkuver framleiddu raforku jafn og þétt. Dægursveifla er hins vegar í eftirspurn eftir raforku [hún er miklu minni á Íslandi en í Danmörku og Noregi vegna mikils stóriðjuálags - innsk. BJo].  Hún er lítil á nóttunni, en toppar á daginn.  Verð á raforku tekur mið af þessari sveiflu og er hærra yfir daginn en á nóttunni.  Viðbrögð eigenda norskra vatnsaflsvirkjana var að draga úr framleiðslu á nóttunni, kaupa í staðinn orku frá Danmörku og geyma vatnið í miðlun til að nota það yfir daginn, þegar verðið í Danmörku var hátt.  [Þetta stafar af kostnaði við að breyta álagi kolaorkuvera.  Nú eru gasorkuver að taka við af þeim hvarvetna í Evrópu, og þau eru miklu sveigjanlegri í rekstri - innsk. BJo.] 

Þannig gátu norskar vatnsaflsvirkjanir hagnazt á viðskiptum með raforku innan dags [sólarhrings]. Þetta líkan reyndist svo ábatasamt, að það borgaði sig að auka framleiðslugetu norskra vatnsaflsvirkjana umfram miðlunargetuna [fjárfestingar í auknu vélarafli - innsk. BJo].  Miðlunin fékk nýtt hlutverk, að geyma danska næturorku til að selja hana dýrar yfir   daginn.  Arðsemi í rekstri norska raforkukerfisins óx mikið í kjölfarið á sama tíma og framleiðslukostnaður raforku lækkaði, enda tóku norskar vatnsaflsvirkjanir yfir hlutverk mun dýrari valkosta í framleiðslu á orku yfir daginn í Danmörku, s.s. díselaflstöðva."

Þetta er fortíðarlýsing.  Nú keyra yfirleitt gasorkuver á móti vindorkustöðvum í Danmörku, þar sem gasorkuverin taka upp álagssveiflur.  Danir eru nú  nettókaupendur raforku frá Noregi til að spara dýrt gas. 

Síðan kom draumsýn Viðreisnar um "opnun íslenzka raforkukerfisins":

"Eins og hér hefur verið rætt, myndi opnun íslenzka raforkukerfisins skapa nýjar forsendur fyrir ábata af þeim virkjunum, sem þegar hafa verið reistar.  Hægt væri að fá betra verð fyrir orkuna á stærri markaði.  Hægt væri að selja umframframleiðslugetu í stað þess að hleypa vatni framhjá virkjunum í góðum vatnsárum. 

Hægt væri að stórbæta afkomu með því að nýta miðlunina til að geyma orku í stuttan tíma og jafna þannig misræmi í framboði og eftirspurn, sérstaklega sveiflum, sem tengjast framleiðslu annarra endurnýjanlegra orkukosta, s.s. vindorku og sólarorku.  Allt þetta myndi stórbæta arðsemi núverandi fjárfestinga í íslenzka raforkukerfinu."

  Þetta er skrifborðsæfing hagfræðings, sem gerir tvenn mistök.  Hann áttar sig ekki á, að gasorkuver eru að yfirtaka reglunarhlutverkið í raforkukerfum Evrópu, og þá felst í því sóun að senda "sömu orkuna" fram og til baka eftir löngum sæstreng.  Kjarni málsins er sá, að hann vill kasta barninu út með baðvatninu með því að stórhækka raforkuverðið í landinu og kallar það að "stórbæta arðsemi fjárfestinga í íslenzka raforkukerfinu".  Það á þvert á móti að vera sérstakt keppikefli landsmanna að viðhalda hér lágu orkuverði og leggja þannig grunninn að góðum lífskjörum landsmanna og mikilli notkun á sjálfbærum orkulindum, sem nóg er af til atvinnustarfsemi og heimila, nema það feigðarflan yrði ofan á að tengja þetta litla raforkukerfi við risakerfi Evrópu.  Þeir, sem mæla með því, hafa ekki hugsað málið til enda, eða eru ábyrgðarlausir í sínum málflutningi. 

  "En spurningar vakna einnig um, hvort auka ætti framleiðslu til að auka enn þennan ábata.  Því meira, sem flytja mætti út af orku, [þeim mun] meiri yrði ábatinn.  Á sama tíma er ljóst, að verulegt rask og umhverfiskostnaður fylgir virkjanaframkvæmdum.  Hagsmunir framleiðenda raforku og umhverfisverndar ganga í gagnstæðar áttir."

Enginn fjárfestir leggur í að fjármagna aflsæstreng hingað, nema tryggt verði, að nýting hans standi undir fjárfestingunni á 10-20 árum.  Til að svo megi verða þurfa að fara um strenginn um 8 TWh/ár, og megnið af því þarf að koma frá nýjum virkjunum (tæplega 40 % aukning).  Það getur sízt af öllu orðið sátt um slíkt í þjóðfélaginu eða á Alþingi, ef fylgifiskurinn verður stórhækkað raforkuverð í landinu, aukin verðbólga og verri samkeppnisstaða við útlönd. 

Það er mjög huglægt mat, hvað er "verulegt rask", og það er rangt, að "hagsmunir framleiðenda raforku og umhverfisverndar gang[i] í gagnstæðar áttir", nema átt sé við afturhald, sem hefur alltaf verið á móti nánast öllum virkjunum.  Hönnuðir hafa nú yfir að ráða meiri getu til að búa til lausn með góðri nýtingu orkulindar, sem fellur vel að umhverfinu, enda eru sjálfbærar orkuvirkjanir Íslands vinsælir áningarstaðir ferðamanna. 

"Svar hagfræðinnar er, að hvort tveggja eigi að meta og bera saman með skipulögðum hætti. Allar framkvæmdir ættu að fara í kostnaðar- og ábatamat, þar sem skipulega yrði lagt mat á hagnað af raforkuframleiðslu annars vegar og umhverfiskostnað hins vegar. Þetta er því miður ekki gert í dag.

Rammaáætlun hefur ekki nýtt sér slíkt skipulegt mat, þó [að] einstakir kostir hafi verið metnir, og það er heldur ekki skylda að framkvæma það vegna einstakra verkefna.  Þetta er mjög miður, því [að] mat á heildarábata fer hvort eð er fram - bara ekki skipulega.  Þegar ákvörðun er tekin um að virkja, er í raun verið að ákveða, að ábati virkjunar sé meiri en umhverfiskostnaðurinn - þó svo engin tilraun sé gerð til að leggja skipulega mat á hann.  Matið er óbeint og því miður oft pólitískt.  Þessu þarf að breyta."  

Málið er ekki eins einfalt og hagfræðingurinn vill vera láta.  Annars hefði Verkefnastjórn um Rammaáætlun líklega bitið á agnið.  Það eru til almennt viðurkenndar aðferðir til að reikna kostnað virkjunar í ISK/kWh og þar með arðsemi virkjunar, ef markaðsverð orkunnar er þekkt.  Málið vandast, þegar kemur að umhverfiskostnaðinum.  Þar vantar hlutlæg viðmið, sem sátt ríkir um.  Kostur væri, að Orkustofnun legði hér eitthvað að mörkum og þá helzt með vísun til alþjóðlegra viðmiðana. 

Viðreisnarvaraformaðurinn vill taka pólitíkina út úr þessu ákvörðunarferli.  Það er í anda Evrópusambandsins og ACER, Orkustofnunar ESB, en er það lýðræðisleg hugsun ?  Varla frekar en annað á þeim bænum.  Alþingi á áfram að taka ákvarðanir um helztu virkjanir landsins yfir ákveðnum mörkum, t.d. 35 MW, en hafa þá helzt í höndunum hlutlægt hagfræðilegt mat á kostum og göllum.

 


Sæstrengsrímur kveðnar við raust

Nú er verð á orkugjöfum og orkuberum, þ.á.m. rafmagni, á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum hátt.  Þann 8.11.2021 tilkynnti Landsvirkjun um hækkun raforkuverðs skammtímasamninga við almenningsveiturnar og ber við lágri miðlunarlónsstöðu, enda er vatnshæðin í Þórisvatni óbeysin í byrjun vetrar.  Ef orkumálum landsins væri almennilega stjórnað, og ekki bara látið reka á reiðanum, þá væri ný virkjun á borð við Hvammsvirkjun (95 MW) að taka til starfa nú í haust, og engin hætta væri á vatnsleysi í Þórisvatni (sama vatnið og í virkjunum ofar), en enginn er lagalega ábyrgur fyrir því, að á hverjum tíma, nema í náttúruhamförum, sé tiltæk næg raforka. Landsvirkjun er úti á þekju (hluti hennar var í Gljáskógum) og er nú í einhvers konar framboðs/eftirspurnarleik. 

Með því að hækka raforkuverðið er ætlunin að draga úr eftirspurninni, en verðteygni rafmagns til almennings er ekki með þeim hætti, að aðferð Landsvirkjunar hrífi. Hver mun draga úr aflþörf sinni um jólin, þótt Landsvirkjun sé í sandkassaleik ? Landsnet undirbýr nú uppboðskerfi raforku, og þá mun orkuskorturinn bitna á almenningi fyrir alvöru. Noregur er með svipað kerfi, og þar kostar raforkan um þessar mundir 30 ISK/kWh + flutningur, dreifing og gjöld, alls um 60 ISK/kWh. Hér er um undirstöðu innviði samfélagsins að tefla, sem á ekki við að hleypa í uppnám spákaupmennsku, eins og tíðkast á uppboðsmörkuðum rafmagns í ESB og víðar við allt aðrar aðstæður en hér eru. Munu innviðaráðherra og/eða orkuráðherra grípa í taumana, áður en tjöldin verða dregin frá í þessu leikhúsi fáránleikans, eða á að skýla sér á bak við Orkupakka 3 frá ESB, sem jú er í gildi hér.

Raforkufyrirtækin eiga ekki að verða sogrör ofan í vasa almennings fyrir fyrirtæki á fákeppnismarkaði.  Það er mikið hagsmunamál almennings, eins og við höfum fengið staðfest á undanförnum vikum frá hinum Norðurlöndunum, frá Bretlandseyjum og frá meginlandi Evrópu.  Því miður eru þessi mál eftir innleiðingu Orkupakka 3 í höndum Orkustjóra ESB á Íslandi og ACER (Orkustofnunar ESB, sem ESA afritar fyrirmæli frá), en ekki í höndum íslenzkra ráðuneyta.  Þingmenn gætu þó reynt að leggja fram þingsályktunartillögu um frestun á málinu, t.d. út þetta kjörtímabil eða þar til örlög Orkupakka 4 ráðast í EFTA. Norska verkalýðshreyfingin verður sífellt gagnrýnni á EES-aðildina, svo að til tíðinda kann að draga með EES-samninginn á þessu kjörtímabili.  Noregur er kjölfesta hans innan EFTA og mótar stefnuna í grundvallaratriðum.

Daði Már Kristófersson, hagfræðiprófessor við HÍ, fer mikinn í Vísbendingu, 39. árg., 40. tlbl., 05.11.2021, um gróða Norðmanna á raforkuviðskiptum um sæstrengi.  Þar minnist hann ekki á nokkur atriði, sem eru neikvæð fyrir slíka sæstrengstengingu við Ísland:

  1. Norska Landsnet (Statnett) á allar millilandatengingar við Noreg, og þess vegna njóta norskir raforkunotendur góðs af hagnaði orkuflutninganna, þótt ESB hafi lagt hömlur á hagnaðartilflutninga flutningsfyrirtækja í aðra starfsemi en millilandaflutninga.  
  2. Meiri afl- og orkutöp verða í sæstreng til Íslands frá Betlandi eða meginlandinu en í norskum sæstrengjum til útlanda vegna vegalengdar. 
  3. Allir aflsæstrengir Noregs hafa flutningsgetu, sem nemur alls um 30 % af framleiðslugetu landsins, en einn  aflsæstrengur til Íslands mundi hafa flutningsgetu, sem nemur tæplega 50 % af núverandi framleiðslugetu Íslands.  Verðsveiflur á Íslandi yrðu að sama skapi í enn meiri líkingu við verðsveiflur á hinum endanum.
  4. Miðlunargeta norskra lóna er meira en tíföld sú íslenzka.  Það er mjög takmörkuð orka, sem hægt er að geyma í íslenzkum miðlunarlónum fyrir raforkufyrirtæki í Evrópu.  Það er stórhættulegt fyrir Íslendinga að draga niður í eigin miðlunarlónum með sölu til útlanda, og verða þá algerlega háðir "hundi frá Evrópu" með raforku yfir veturinn. 
  5. Með slíkri tengingu við Evrópu og markaðskerfi ESB samkvæmt Orkupakka 3 (og 4) mun heildsöluverð raforku til almenningsveitna verða svipað og í Evrópu.  Þetta mun líka hækka hitaveitukostnaðinn (dæling) og kostnað allra fyrirtækja og heimila á landinu.  Samkeppnisstaðan versnar að sama skapi, en gróði raforkuframleiðenda verður fugl í skógi, því að rándýr sæstrengurinn þarf sitt. 
  6. Gríðarleg orku- og flutningsmannvirki innanlands verða nauðsynleg til að þjóna erlendum raforkumörkuðum.  Það er ekki ljóst, að nægar orkulindir verði þá tiltækar fyrir raforkuþörf landsmanna til 2040, ársins, þegar kolefnishlutleysi á að nást, og enn þyngra getur orðið undir fæti með framkvæmdaleyfi fyrir flutningsmannvirki til innanlandsþarfa en ella.  

Prófessorinn reit:

"Nokkur umræða hefur verið um möguleika á raforkuútflutningi um langt skeið.  Ólík sjónarmið eru uppi um ágæti hugmyndarinnar.  Raddir eru uppi um, að nýta eigi orkuna fremur hér á landi en flytja hana út, að búið sé að virkja nóg og umhverfisáhrif virkjana séu nú þegar of mikil og að útflutningur orku muni leiða til hækkunar á raforkuverði.

Á móti er bent á þann hag, sem aðrar þjóðir hafa haft af slíkum viðskiptum, t.d. Norðmenn, og á nauðsyn þess að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku á tímum aðgerða í loftslagsmálum.  Hér er því af mörgu að taka."  

Þarna er ýmislegt tínt til. Hinn raunverulegi lærdómur, sem Íslendingar geta dregið af viðskiptum Norðmanna með rafmagn á erlendum mörkuðum, er, að verðhækkun rafmagns innanlands er óhjákvæmilegur fylgifiskur viðskipta, innflutnings og útflutnings, fyrir vatnsorkulönd með lágan vinnslukostnað á rafmagni.  Hagfræðingar geta fegrað þessi viðskipti á ýmsa lund, en hinn þjóðhagslegi kostnaður, sem felst í að rýra stórlega samkeppnishæfni atvinnuveganna og kaupmátt heimilanna verður alltaf hærri en nemur meintum ábata raforkufyrirtækjanna.  Þeir, sem raunverulega græða, eru fyrirtæki erlendis, sem fá græna og kannski ódýrari raforku til að framleiða samkeppnishæfari vöru eða þjónustu. 

Það verður alltaf hagkvæmara að nýta orkulindirnar innanlands til að skapa vinnu, þekkingu og verðmæta og eftirsótta vöru. Orkulindirnar eiga að verða hjálpartæki til að efla innlenda atvinnuvegi, en ekki leiksoppur spákaupmanna.  Ríkisfyrirtæki á borð við Landsvirkjun á að sjá sóma sinn í þessu og hætta gælum við spákaupmennsku á erlendum mörkuðum, sem er órafjarri hlutverki Landsvirkjunar fyrr og síðar.  Núverandi forysta hennar er heillum horfin, ef hún sér ekki villur síns vegar, og hættir ekki að einblína á Statkraft í Noregi, sem mikil óánægja er með á meðal norsks almennings um þessar mundir vegna útflutnings á raforku, sem bitnað hefur á stöðu miðlunarlónanna á viðkvæmum tíma. Við þetta er að bæta, að Norðmenn hafa afhent ESB/ACER stjórnun flutninganna um strengina til ESB-ríkjanna með innleiðingu Orkupakka 3, svo að þeir geta ekki staðið í þessum viðskiptum með hagsmuni Noregs að leiðarljósi, heldur verða hagsmunir heildarinnar, þ.e. ESB-landanna, hafðir að leiðarljósi undir umsjón ACER.

"Almennt er því ástæða til að ætla, að útflutningur raforku hefði jákvæð áhrif á Ísland.  Verðmætasköpun og útflutningur mundi styrkjast."

 Hér er hrapað að niðurstöðu.  Útflutningurinn, sem fyrir er, mundi veikjast vegna verðhækkana rafmagns, svo að dregur úr hefðbundinni verðmætasköpun, sem vegur meira en ávinningurinn af sölu rafmagns.  Þá mundi nýsköpun verða kyrkt með vöntun á grænu rafmagni á hagstæðu verði.  M.ö.o. við yrðum undir í samkeppninni við útlendingana um eigið rafmagn vegna hærra kostnaðarstigs hér og flutningskostnaðar á vörum frá landinu.

"Lokuð raforkukerfi, eins og það íslenzka, þar sem milliríkjaviðskipti eru ekki möguleg, þurfa að tryggja nægilegt framboð fyrir ófyrirsjáanlegum sveiflum.  Þessi umframframleiðslugeta þarf að vera umtalsverð í raforkukerfum, þar sem vatnsafl er ráðandi vegna óvissu um vatnsbúskap. Miðlunargeta þarf að geta brúað bilið milli góðra og slæmra vatnsára.  Það þýðir jafnframt, að á meðalári er framleiðslugetan meiri en eftirspurn.  Fossinn Hverfandi við Kárahnjúkastíflu er skýrt dæmi um þessa umframgetu.  Vatnsaflskerfi Norður-Evrópu, s.s. Noregs og Svíþjóðar, voru með þeim fyrstu, sem nýttu sér útflutning, einmitt til að koma þessari umframframleiðslugetu í verð.  Með þeim hætti var hægt að skapa verðmæti úr því, sem að jafnaði er kostnaðarliður vatnsaflskerfa."

Það hefur verið ljóst, frá því að fyrsta stórvirkjun Íslands, Búrfellsvirkjun, var hönnuð, að ójafnt aðrennsli frá ári til árs mundi valda sveiflukenndri framleiðslugetu á ársgrundvelli.  Við þessu var séð á hagkvæman hátt með því að rannsaka rennslisraðir margra ára og síðar var farið að framkalla rennslisraðir með líkindareikningi og hermilíkönum í tölvum.  Miðlunargeta lóns, uppsett afl í virkjun og orkusölusamningar, voru samhæfð þannig, að virkjun gæti alltaf (nema í neyðartilvikum-"force majeur") afhent viðskiptavinum sínum forgangsorku og í um 27 af 30 árum a.m.k. 50 % af s.k. ótryggðri orku, sem mest næmi um 10 % af heildarorkuafhendingu.  Miðlunargetu á Íslandi er þannig ekki ætlað að brúa bilið á milli góðra og slæmra vatnsára, heldur einvörðungu á milli árstíða, og í slökum vatnsárum er einfaldlega dregið úr afhendingu ótryggðrar raforku samkvæmt samningum þar um. 

Þetta fyrirkomulag hefur yfirleitt heppnazt ágætlega, þótt stóriðjan hafi einstaka sinnum þurft að taka á sig forgangsorkuskerðingu, þegar saman fara bilanir og slakt vatnsár.  Það er misskilningur höfundar þessarar Vísbendingargreinar, að "á meðalári sé framleiðslugetan meiri en eftirspurn" og að yfirfall á stíflu (Hverfandi) sé til merkis um það.  Þvert á móti er um undirframleiðslugetu í góðum vatnsárum að ræða.  Að þetta sé "kostnaðarliður vatnsaflskerfa" er fráleit túlkun.  Ef viðbótar fjárfesting færi fram í vatnsaflsvirkjunum til að nýta umframvatnið og sú fjárfesting stæði ekki undir sér, væri hægt að tala um "kostnaðarlið" vegna umframframleiðslugetu. 

Landsvirkjun hefur þegar farið inn á þá braut að nýta yfirfallsvatn, og er Búrfell 2 dæmi um það.  Nú gæti verið að skapast markaður fyrir "umframorku" vatnsorkuvera með aukningu á flutningsgetu rafmagns á milli landshluta og framleiðslu rafeldsneytis.  Spáð er aukinni úrkomu á landinu og minnkun jökla með hækkun hitastigs, og þá gætu stækkanir vatnsaflsvirkjana orðið enn fýsilegri.

"Opnun lokaðra raforkukerfa, sérstaklega kerfa, sem byggja fyrst og fremst á vatnsafli, hefur því tvíþætta kosti.  Það eykur verðmæti raforkuframleiðslu almennt með því að stækka markaðssvæðið, og það nýtir fjárfestingu betur með því að skapa möguleika á að nýta framleiðslugetu að fullu."

Þessar ályktanir höfundarins eru úr lausu lofti gripnar m.v. íslenzkar aðstæður.  Raforkukerfi landsins er í raun innviðauppbygging hins opinbera, sem þjónar því hlutverki að gera framleiðendum kleift að framleiða alls konar vörur og þjónustu með hagkvæmum hætti og fólkinu í landinu að njóta ávaxtanna af þessum stórviðskiptum með lágu orkuverði til sín. 

Það gefur auga leið, að orðalagið um "aukin verðmæti raforkuframleiðslu almennt" felur í sér verðhækkun og aukna raforkuvinnslu.  Það mun koma harkalega niður á núverandi og framtíðar orkunotendum í landinu. Engum dettur í hug að leggja sæstreng alla leið til Íslands til að nýta það smáræði, sem felst í yfirfallsvatninu.

Noregur er víti til varnaðar í þessum efnum.  Nýlega voru teknir í brúkið 2 öflugir aflsæstrengir þar, annar til Þýzkalands og hinn til Englands. Samkvæmt "Europower Energi" hefur rannsókn leitt í ljós, að þeir hafi á þessu ári leitt til orkuverðshækkunar í Noregi, sem nemur 13 Naur/kWh eða um 2,0 ISK/kWh.  Þetta mun leiða til kostnaðarauka hjá meðalfjölskyldu um 3250 NOK/ár eða um 50´000 ISK/ár.  Þar á ofan bætast hækkanir vegna lágrar stöðu í miðlunarlónum sökum mikils útflutnings (staðan var nefnilega góð í vor), enda hefur raforkuverð með flutningskostnaði, söluþóknun og opinberum gjöldum farið upp í 4,0 NOK/kWh eða 60 ISK/kWh.  Þetta er meira en þrefalt það, sem flestir Íslendingar búa við um þessar mundir, og þetta er meira en þreföldun þess, sem Norðmenn hafa löngum búið við.

Frá október 2020-október 2021 hækkaði raforkuverð með flutningsgjaldi í Noregi um tæplega 80 %. Svona "trakteringar" vegna spákaupmennsku með auðlindir þjóðarinnar eiga Norðmenn erfitt með að sætta sig við.  Þetta er meðvirkandi þáttur í andstöðu núverandi  Stórþings við innleiðingu Orkupakka 4 í norskan rétt og svo kann að fara, að æðri dómstig dæmi afgreiðslu fyrra Stórþings á Orkupakka 3 sem stjórnarskrárbrot, þótt héraðsdómur (tingretten i Oslo) hafi hafnað því.  Þá verður hann felldur úr gildi af núverandi Stórþingi, sem yrði einsdæmi. 

Í næsta vefpistli verður fjallað um seinni hluta þessarar villandi Vísbendingargreinar.  

 

 norned_hvdc-cable-work-1

        


Vafasöm orðræða

Við setningu Alþingis nú í viku 47/2021 þótti ýmsum gæta ósmekkvísi í garð óbólusettra af hálfu forseta lýðveldisins, Guðna Th. Jóhannessonar, svo að ekki sé meira sagt, enda virtust þau orð illa ígrunduð bæði lagalega og sóttvarnarlega.  Það er harla óvenjulegt, að úr þessu tignarembætti, sem betra er, að friður ríki um, sé veitzt að einum þjóðfélagshópi, sem ekkert hefur aðhafzt, er brjóti í bága við lög landsins eða ógni hagsmunum nokkurs manns umfram aðra. 

Þetta var umfjöllunarefni Staksteina 24. nóvember 2021 og skopmyndateiknara Morgunblaðsins sama dag og daginn eftir með eftirminnilegum hætti.  Höfundi þessa vefseturs þykir svo mikið til þessarar umfjöllunar koma, að hann tekur sér það bessaleyfi að birta þessa Staksteina hér í heilu lagi:

"Spurt og svarað":

"Jón Magnússon, lögmaður, vekur athygli á, að forseti lýðveldisins hafi í setningarræðu Alþingis sagt, að "frelsi til að sýkja aðra væri vafasamur réttur".  Jón spyr og svarar svo:

"En hvaða réttur er það ?  Hefur einhver gefið einhverjum þann rétt ?  Eru einhvers staðar lagaákvæði eða önnur fyrirmæli, sem mæla fyrir um það, að fólk eigi þann vafasama rétt ? 

Raunar alls ekki.  Samkvæmt íslenzkum rétti hefur enginn rétt til að sýkja aðra; það er bannað.

Það er beinlínis refsivert, sbr 175. gr. almennra hegningarlaga, sem mælir fyrir um refsingu, fangelsi allt að þremur árum, fyrir að valda því, að næmur sjúkdómur berist meðal manna.  Einnig mætti vísa í sóttvarnalög.

Frelsi til að smita aðra er því ekki fyrir hendi í íslenzku samfélagi.  

Það á enginn þann rétt.  

Það er beinlínis refsivert."

Niðurstaða Jóns Magnússonar er þessi:

"Frelsi borgaranna er mikilvæg undirstaða siðaðra samfélaga, og það er mikilvægt, að æðstu stjórnendur ríkja og alþjóðlegra stofnana gæti þess að skilgreina það með réttum hætti og gæti þess að setja frelsið ekki í spennitreyju valdsins.""

Hér hefur forseti lýðveldisins verið leiðréttur fyrir ummæli, sem hann lét falla í þingsetningsrræðu í nóvember 2021, bæði á lögfræðilegum og siðferðislegum grunni mannréttinda.  Ummælunum virtist vera beint gegn óbólusettu fólki með ósmekklegum hætti og þá í vanhugsaðri tilraun til að senda þá í bólusetningu.  Þar sem ummælin féllu á vettvangi Alþingis er hætta á, að einhver hafi túlkað þau sem hvatningu til að setja einhvers konar þvingunarlög á óbólusetta.  Eru einhver sóttvarnarleg rök fyrir slíku ?  Nei, alls ekki.  Bólusettir smita aðra, og er frá líður ekkert síður en óbólusettir.  Ef þessi síðasta fullyrðing væri röng, þá mundi ekki geisa nein 4. bylgja C-19 faraldursins núna á meðal fullbólusettra þjóða Evrópu.

  Sameiginlegt einkenni þjóða, sem sloppið hafa við þessa 4. bylgju, er, að þær hafa öðlazt náttúrulegt ónæmi gagnvart C-19.  Virkni bóluefnanna gegn öðrum afbrigðum en Wuhan, upphaflegu veirunni, er takmarkað og rýrnar svo hratt, að eftir 6-9 mánuði eru þau gagnslaus bæði sem smitvörn og vörn gegn alvarlegum veikindum.  Þær virka hjáróma raddirnar, sem nú kvaka um, að sennilega virki bóluefnin ekki gegn nýja Suður-Afríkanska afbrigðinu, omicron, sem kynnt var til sögunnar 23. nóvember 2021.  Staða faraldursins í fullbólusettum löndum er dauðadómur yfir þessari nýju tækni, genatækni, sem baráttutæki við kórónuveiruna, og sennilega við allar veirur, sem hafa mikla tilhneigingu til stökkbreytinga.

Í forystugrein Morgunblaðsins, 25. nóvember 2021, 

"Trúnaðartraust dalar",

er haft eftir leiðara The Telepgraph daginn áður, að  krafa sé um, að bólusetningarárangur ólíkra bóluefna verður upplýstur.  Það er þegar byrjað að upplýsa þetta, og skal hér vísa í sænska skýrslu, sem gerð var grein fyrir í https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271869  .

Þar kemur fram, að ending AstraZeneca var áberandi lökust af þeim 3 bóluefnum, sem prófuð voru, en ending Moderna var skárst, enda er styrkleiki þess þrefaldur á við 3. bóluefnið, sem var frá Pfizer BioNTech.  Styrkurinn kann að skýra alvarlegar aukaverkanir, t.d. hjartavöðvabólgu, af Moderna.

Leiðari Morgunblaðsins 25.11.2021 er mjög hógvær m.v. tilefnið, því að bóluefnamistökin eru reginhneyksli.  Hér er seinni parturinn:

"Það, sem mestu breytti um traust til sóttvarna, er, að talsmenn þeirra í ráðandi ríkjum gáfu ótvírætt til kynna, að allt myndi breytast, þegar bóluefnin kæmu.  Þó var viðurkennt, að þau myndu alls ekki þá hafa fengið þá skoðun, sem almennt væri gengið út frá. 

Heimsbyggðin (eða þau 30 % hennar, sem eygðu í raun þessa von) keypti þessa spá brött og hefur gengið út frá, að gagnvart veirufárinu væru ekki tök á að vera kræsin.  En á daginn hefur komið, að óþarflega margt hefur farið illa út úr óskhyggjunni, sem talsmenn vísindanna, sem við vildum fylgja, héldu loftinu í og virtust trúa á án mikilla fyrirvara, vitandi, að allt valt á, að nægilega margir yrðu með.  

Svo opnuðust glufur í væntingahjúpinn. Fyrst var, að flest bóluefnanna kæmu ekki í einni sprautu.  Eftir það skot þurfti að bíða í nokkra mánuði og fá svo nýtt.  Það leið ekki langur tími, þar til tvíbólusettir, sem töldu sig orðna jarðbundna himnaríkismenn, þurftu þriðju sprautu.  Þó hafði verið gefið upp, að tveggja sprautu menn væru varðir upp í 90 % alvörn og jafnvel rúmlega það.  Engum datt í hug, að tveggja sprautu menn smituðust og það furðu auðveldlega, og virtist það koma öllum fróðum á óvart, en ýtti auðvitað undir einn skammt enn !

Þetta varð óneitanlega hnekkir á trúnaðartrausti gagnvart vísindamönnunum, þótt enginn (í merkingunni fáir) geri því skóna, að þeir hafi ekki gert sitt bezta og í góðri meiningu.  En þessi vonbrigði og væntingahrun hafa því miður breytt stemningunni.  Og eins hitt, hversu fljótt "vísindamenn" gleyptu við hugmyndum um, að bólusetja þyrfti börn, sem fullyrt var og er, að smituðust vissulega, en ekkert umfram það, sem gerist í venjulegum pestum og með svipuðum ætluðum afleiðingum. 

Þessi viðbrögð og óvænt framganga án nokkurrar raunverulegrar umræðu, sem hvatt hafði verið til, varð ekki til góðs.  Sjónarmið þess hóps, sem efazt hafði um flest, fengu óneitanlega meiri byr en áður.  Lyfjarisarnir í heiminum hafa ekki unnið sér inn nein þau verðlaun, sem tengd eru helztu góðmennum sögunnar, þótt alheimur geti illa án framleiðslu þeirra verið.  Með réttu eða röngu eru þeir grunaðir um græsku og óneitanlega er margt, sem ýtt hefur óþægilega undir það.  Góðrarvonarhöfði er þekkt kennileiti, sem segir sig sjálft.  Gróðavonarhöfði er bautasteinninn, sem fyrrnefndir risar eru gjarna taldir halla sér að, þegar bezt gengur, og dæmin eru of mörg til um, að ekki hafi alltaf verið gáð að sér í þeim efnum."

Svo mörg voru þau, en þarna er með fínlegum hætti verið að rassskella sóttvarnar- og heilbrigðisyfirvöld á Íslandi, sem nú beita þeirri vonlausu aðferð að sprauta þrisvar, af því að hvorki eitt né tvö skipti dugðu.  Var sú aðferð ekki einhvern tíma talin einkenna þá, sem þjáðust af greindarskorti, að meira af sömu mistökum geti leyst vandann ? 

Ástandið er ekki einleikið.  Staðan er sú, að lyfjafyrirtækin stöðvuðu "langtíma" rannsóknir sínar á bóluefnunum eftir um 3 mánuði.  Hefðu þau haldið áfram í 6 mánuði, mundi hafa komið í ljós, bóluefnin eru misheppnuð, því að virkni þeirra er þá orðin langt undir viðmiði flestra stjórnvalda, sem er 50 % minnkun líkinda á smiti.  Í stað þess voru stjórnvöld dregin á asnaeyrunum og stærstu bólusetningartilraun sögunnar hleypt af stokkunum, og nú geisar 4. bylgjan.  Ef omicron er enn meira smitandi en deltan, þá tekur sú nýja við og hækkar þröskuldinn fyrir náttúrulegu lýðónæmi.  Um ónæmi frá bóluefnunum þarf ekki lengur að ræða.  Keisarinn er ekki í neinu.

  

 

 

 

 


Covid: hin óvænta 4. bylgja

Aftur hefur sænski læknirinn, Sebastian Rushworth, skrifað merka grein á vefsetur sitt um þróun C-19 faraldursins.  Allt ber þar að sama brunni.  Bóluefnin eru gagnslaus eftir um hálft ár frá bólusetningu, og hið eina, sem getur skapað lýðónæmi (hjarðónæmi) gegn pestinni, er náttúrulegt ónæmi, sem líkaminn sjálfur þróar með sér eftir smit.  Þannig hefur það gengið til hingað til með alla sjúkdómsfaraldra, sem lagzt hafa á öndunarfærin, og þau, sem nú reka áróður fyrir endurteknum bólusetningum gegn C-19 ættu að vita betur af reynslunni og þeim vísindaniðurstöðum, sem fyrir hendi eru. Þá er fyrir neðan allar hellur sá áróður, sem nú er rekinn víða um Evrópu, einnig á Íslandi, gegn óbólusettum, því að bólusettir smita aðra áfram og bóluefnin verða gagnslaus innan skamms tíma frá bólusetningu, eins og 4. bylgjan í fullbólusettum löndum sýnir. Í Svíþjóð virðist hins vegar náttúrulegt ónæmi í 70 % íbúanna duga til að hindra bylgju með delta-afbrigðinu í vetur.

Hér fer á eftir þýðing höfundar þessa vefseturs á grein sænska læknisins Sebastians Rushworth, sem birtist á vefsetri hans 20.11.2021:

"Ég var undrandi í fyrstu, þegar margar fullbólusettar þjóðir urðu fyrir barðinu á nýrri bylgju C-19 í haustbyrjun [2021]. Ég var hissa, þ.e.a.s. þar til ég fór að sjá skýrslur um, að vörn bóluefnanna er mun minni en búizt var við og hrapar niður í lággildi að fáeinum mánuðum liðnum frá bólusetningu. 

Í þessu ljósi hef ég verið að bera saman tíðni covid dauðsfalla í mismunandi löndum til að reyna að skilja, hvað er eiginlega um að vera.  Tíðni dauðsfalla er ákjósanlegri en tíðni greindra tilvika, því að hún breytist minna með tímanum.  Tíðni greindra tilvika hefur sveiflazt gríðarlega síðan faraldurinn hófst, þar sem fjöldi sýnataka hefur verið breytilegur með breyttri skilgreiningu á sýkingartilviki og með breytingum á sýnatökuaðferðum.  Greind tilvik eru þess vegna ómögulegt tæki til að skilja, hvernig faraldurinn hefur breytzt með tímanum.  Þó að lönd hafi mismunandi skilgreiningar á covid dauðsföllum, þá virðast þau vera sjálfum sér samkvæm um það í tímans rás.  Tíðni dauðsfalla er þess vegna miklu áreiðanlegri en tíðni greindra tilvika og þess vegna mun gagnlegri til að átta sig á þróun faraldursins. 

Við sjáum á yfirliti um Svíþjóð, að upphafsbylgjan reið yfir um vorið 2020 með upphaflegu Wuhan-veirunni, þá kom fall niður í næstum 0 vegna sumarsins.  Nú orðið ætti öllum að vera ljóst, að covid-19 er mjög árstíðabundin veira, sem eins og aðrar vetrarveirur hverfur að mestu frá því síðla vors fram í haustbyrjun. 

Það, sem næst gerðist samkvæmt sænsku gögnunum er enduruppsveifla Wuhan-veirunnar um haustið 2020, sem byrjar að hjaðna eftir nokkra mánuði, þegar nægilegt lýð- eða hjarðónæmi hefur verið náð.  Þessi hjöðnun stöðvast þó, og við tekur enn örari aukning dauðsfalla fyrir tilstilli brezka alfa-afbrigðisins í Svíþjóð.

Hvernig gat alfa-afbrigðið orsakað aðra bylgju, ef hjarðónæmi hafði þegar verið náð, mætti spyrja ?  Það er vegna þess, að þröskuldur lýðónæmis er háður smitnæmi og dreifimöguleikum veirunnar.  Því meiri dreifimöguleikar, þeim mun hærri verður þröskuldur lýðónæmis.  Þannig var þröskuldi lýðónæmis gagnvart Wuhan-veirunni náð í desember 2020, en þegar alfaafbrigðið mætti á svæðið, hækkaði þröskuldurinn og nýr faraldur reið yfir. 

Stöldrum nú við; alfa afbrigðið herjar hratt á íbúana, og nægilegt lýðónæmi var náð gagnvart þessu nýja afbrigði um miðjan janúar 2021.  Aftur verður erfitt fyrir veiruna að finna ný fórnarlömb, og þá tekur daglegum smitum að fækka niður í umgangspestargildi árstíðarinnar og eru þar þangað til í sumarbyrjun.

Þeim, sem vilja tengja fækkun covid-dauðdaga í febrúar [2021] við bólusetningar, bendi ég á, að aðeins fá % íbúa Svíþjóðar höfðu þá verið bólusett, svo að bólusetningar geta ekki hafa leitt til neinnar fækkunar dauðsfalla. 

Að sumrinu [2021] liðnu hækka gildin að nýju upp í eðlilegri árstíðabundin gildi, en eru áfram lág, eins og búast má við af veiru, sem veldur nú orðið umgangspest, en ekki faraldri.  Jafnvel þótt hið afar smitandi delta-afbrigði hafi borizt til Svíþjóðar síðla vors [2021] og hafi um haustið verið ríkjandi, gat það ekki skapað nýja bylgju vegna þess víðtæka [náttúrulega] ónæmis, sem áður var komið á. 

 Við sjáum svipað mynztur annars staðar, þar sem harkaleg bylgja skall á vorið 2020, eins og í Svíþjóð.  Þar má nefna Nýju Jórvík og Langbarðaland á Norður-Ítalíu.  Þar myndaði Wuhan-afbrigðið fyrstu 2 bylgjurnar, og alfa-afbrigðið myndaði 3. bylgjuna, og síðan ekki söguna meir, þrátt fyrir tilkomu delta-afbrigðisins.  Getuleysi delta-afbrigðisins við að mynda nýja bylgju er hægt að útskýra á 2 vegu - annaðhvort er dreifingargeta þess ekki nægilega mikið meiri en alfa-afbrigðisins til að mynda nýja bylgju á svæðum, þar sem lýðónæmi var þegar komið á gagnvart alfa-afbrigðinu, eða bólusetningarnar gera sitt gagn enn þá.

Förum nú til Indlands út af ályktunum, sem draga má um delta-afbrigðið þaðan:

Snemma árs 2021 verður delta-afbrigðisins fyrst vart á Indlandi og geisar á meðal íbúanna.  Mótefnisprófanir á íbúunum leiddu í ljós, að 50 % íbúanna sýktust á aðeins fárra mánaða skeiði, svo að hlutfall íbúanna með mótefni hækkaði úr 20 % í 70 %, sem er nægilega hátt hlutfall til að mynda lýðónæmi, svo að veirudreifingin hrapar niður á lágt umgangspestarstig. Athugið, að bóluefnin léku greinilega ekkert hlutverk hér, því að aðeins fá % íbúanna á Indlandi höfðu verið bólusett á þeim tíma, þegar dánartíðnin hrapaði niður í lág gildi, eins og átti sér stað í Svíþjóð.

Nú skulum við snúa okkur að löndum, sem hafa orðið fyrir barðinu á 4. bylgju faraldursins í haust [2021], og reyna að finna skýringu.  Tökum Ísrael sem dæmi:

Ísrael tókst að forðast víðtæka dreifingu covid vorið 2020.  Um haustið skall Wuhan-afbrigðið á Ísraelum, og einmitt í þann mund, að lýðónæmið náði gildi, sem fær dreifinguna til að hægja á sér, varð landið fyrir árás alfa-afbrigðisins, sem leiddi til hámarks í tíðni dauðsfalla af völdum covid seint í janúar 2021.  Á þeim tíma var þegar búið að bólusetja 20 % íbúanna að fullu, svo að hér gætu bólusetningarnar hafa átt þátt í að fækka dauðsföllum.  Þær gætu verið skýringin á því, að dauðsföllum fækkar síðan mjög mikið í stað þess að hjakka í umgangspestargildum alveg fram í maí [2021], eins og í Svíþjóð (þar sem bólusetning gekk mun hægar). 

Tíðni covid-dauðsfalla var áfram lág allt sumarið, eins og búast mátti við.  Þá komum við að haustinu 2021 og hinni óvæntu 4. bylgju, eða ekki svo óvæntu, ef litið er á gögnin, sem sýna, að skilvirkni bóluefnanna dvínar hratt, einnig sá eiginleiki, sem átti að koma í veg fyrir alvarleg veikindi (sem á sérstaklega við um viðkvæma eldri borgara, sem raunar eru eini hópur samfélagsins, sem er í mikilli hættu út af covid-19). [Gerð er grein fyrir þessum gögnum í 

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271869

og

https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2271929   ]

Jæja, Ísrael mátti þola 4. bylgjuna, eins og mörg önnur lönd.  Hvers vegna eru svæðin, sem gerð var grein fyrir í upphafi pistilsins, Svíþjóð, Langbarðaland og Nýja Jórvík, ekki þolendur 4. bylgju núna ?

Frá mínum bæjardyrum séð eru 2 möguleikar fyrir hendi.  Sá fyrri er, að íbúar þessara svæða hafi myndað svo víðtækt náttúrulegt ónæmi, þegar þeir urðu fyrir mikilli dreifingu covid-19 nokkuð lengi fram á vorið 2020, að þeir hafi nú afgreitt þennan faraldur fyrir sitt leyti og fleiri faraldra [SARS-CoV-2] sé ekki að vænta.  Í Ísrael er bólusetning útbreidd, en hafði í haustbyrjun 2021 orðið fyrir covid-dreifingu í færri mánuði [en téð 3 svæði], og þar af leiðandi hafði lægra hlutfall íbúanna en á viðmiðunarsvæðunum 3  þróað með sér náttúrulegt ónæmi frá fyrri sýkingum.  Það hefur nú verið leitt rækilega í ljós, að ónæmi, sem rætur á að rekja til sýkingar, er miklu varanlegra en ónæmið, sem framkallað er með bólusetningu. Þetta er eðlileg kenning núna, þegar við vitum, hversu mjög á reiki ónæmið er, sem bólusetningar framkalla.

Það getur verið upplýsandi núna að líta til Austur-Evrópu.  Austur-evrópsku ríkin hafa orðið sérstaklega illa úti í haust [2021].  Þar má nefna Búlgaríu og Slóvakíu. 

 Mér finnst tvennt vera athyglisvert þarna. Í fyrsta lagi sluppu bæði löndin nánast alveg vorið 2020.  Í öðru lagi var hröð dreifing veirunnar í gangi, þegar sumarkoman olli mikilli fækkun smita.  Þessar þjóðir náðu þess vegna aldrei lýðónæmi gagnvart meira smitandi afbrigðum, og þess vegna hlaut veiran að taka sig upp aftur haustið 2021.

Jæja, fyrri mögulega skýringin mín á því, að sum landsvæði verða ekki tiltakanlega fyrir barðinu á 4. bylgjunni, er sú, að þar sé þegar fyrir hendi nægilegt náttúrulegt lýðónæmi, sem verndi íbúana.  Sú síðari er, að íbúar þessara svæða njóti nú tímabundinnar verndar á þeim grunni, að íbúarnir voru bólusettir seinna en t.d. íbúar Ísrael.  Sé sú skýring rétt, mun 4. bylgjan skella á þeim eftir einn mánuð eða tvo. 

Gögn frá Þýzkalandi benda til, að fyrri skýringin sé líklegri, því að nú eru Þjóðverjar á leið inn í 4. bylgjuna.  Hafið í huga, að Þjóðverjar, eins og Ísraelar, urðu lítið varir við covid-19 um vorið 2020.  Hins vegar reið stór bylgja yfir þar veturinn 2020/2021 með Wuhan-afbrigðinu. Síðan kom smátoppur með alfa-afbrigðinu, sem myndaði meginálagið á Þýzkaland í apríl [2021].  Hins vegar komu hlýindi sumarkomunnar í veg fyrir myndun stórrar bylgju með alfa-afbrrigðinu. Á þessu skeiði voru Þjóðverjar bólusettir upp til hópa, og áttu flestar bólusetningarnar sér stað á tímabilinu marz-júní.  Þetta er ákaflega svipað bólusetningarferli og í Svíþjóð, þar sem flestir voru bólusettir í marz-júní [2021]. 

Hvers vegna verður Þýzkaland þá fyrir nýrri bylgju núna [haustið 2021], en Svíþjóð ekki ?

Ljóslega er skýringarinnar ekki að leita í, að Þýzkaland hafi orðið fyrri til við bólusetningar og íbúarnir hafi þess vegna misst sitt ónæmi fyrr, því að báðar þjóðirnar voru bólusettar á sama tíma.  Þess vegna hallast ég að réttmæti fyrri kenningarinnar, að Svíar hafi myndað náttúrulegt lýðónæmi með því, að covid hóf að breiðast mjög út í Svíþjóð vorið 2020, en útbreiðslan í Þýzkalandi hófst ekki að ráði fyrr en haustið 2020.  Þrátt fyrir að áhrif bóluefnanna hafi þegar rýrnað í báðum löndum, þá er Svíþjóð varin með sínu víðtæka náttúrulega ónæmi, en Þýzkaland ekki.  Ef þetta er rétt, mun Svíþjóð ekki verða fyrir barðinu á fleiri stórum bylgjum.  Eftir mánuð eða tvo [um áramótin 2021-2022] munum við vita sannleika þessa máls.    

 

 

 


Ótilhlýðilegur samanburður

Virtir raunvísindamenn hafa með rökföstum hætti og með vísunum til áreiðanlegra mælinga gagnrýnt vinnubrögð IPCC (Loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, SÞ).  Telja sumir, t.d. John Christy, loftslagsfræðingur og prófessor við UAH í BNA, hitastigshækkun andrúmsloftsins vera stórlega ýkta af IPCC og vísa þá til viðamikilla hitastigsmælinga með gervihnöttum, sem þeir hafa unnið úr og sem IPCC skellir skollaeyrum við, eða þeir telja um eðlilega sveiflu hitastigs að ræða í kringum fast meðaltal undanfarinna 2000 ára og leggja fram gögn sín því til sönnunar (árhringjamælingar trjáa). 

Hér eru ábyrgir vísindamenn á ferð, sem ekki hafa verið gerðir afturreka með kenningar sínar og gögn með neinum rökstuddum hætti, heldur hefur IPCC beitt þöggun.  Það er lítilmótlegt og samræmist engan veginn hefðbundnum vísindalegum vinnubrögðum.  Gagnrýnendurnir eru aðeins knúnir áfram af sannleiksást og virðingu fyrir vísindalegum heiðri.  

Þess vegna er miður að sjá Sigurð Friðleifsson, framkvæmdastjóra Orkuseturs, líkja þessum strangheiðarlegu vísindamönnum við einhvern Sergei Jargin, sem hann kveður bera brigður á þá margsönnuðu læknisfræðilegu staðreynd, að einangrunarefnið asbest sé stórhættulegt öndunarfærum manna, ef ögnum úr því er andað að sér.  Enginn hefur hrakið það með rökum, sem standast vísindalegar kröfur.  Þess vegna er þessi samanburður villandi og í raun algerlega út í hött. 

 Téð Morgunblaðsgrein 2. nóvember 2021 bar fyrirsögnina:

"Er ekki asbest allt í lagi ?",

og vitnar eiginlega um skrýtinn hugarheim.  Greinin hófst þannig:

"Asbest er frábært efni, sem nota má til einangrunar og eldvarna.  Olía er líka frábært efni, sem nota má til að knýja vélar og tæki.  Vísindamenn hafa tengt asbest við steinlungu og krabbamein.  Vísindamenn hafa líka tengt olíunotkun við loftslagsbreytingar og lungnasjúkdóma.  Neikvæð áhrif asbests koma oft í ljós löngu eftir notkun.  Neikvæð áhrif olíubrennslu munu sum koma í ljós löngu eftir brunann.  Stór hluti vísindamanna telur notkun asbests umhverfislega neikvæða.  Margir vísindamenn telja notkun olíu umhverfislega neikvæða.  Til eru vísindamenn, sem draga neikvæð áhrif asbestnotkunar í efa.  Til eru vísindamenn, sem draga neikvæð áhrif olíu á lofthjúpinn í efa.  Til er umhverfisvænni tækni, sem leysti að mestu asbestið af hólmi.  Til er umhverfisvænni tækni, sem leyst getur olíu að mestu af hólmi."

Þetta er kostulegur samsetningur, sem virðist ætlað að kasta rýrð á vandaða gagnrýni nokkurra virtra raunvísindamanna, sem ekki mega vamm sitt vita.  Hæpið er, að skrif með svona samlíkingum verði nokkrum málstað að gagni.  Að kalla asbest "frábært efni" er furðulegt, þegar það er sannað með klínískum rannsóknum, að það er svo hættulegt heilsu manna, að öll umgengni við það, niðurrif og förgun, er svo varasöm, að klæðast verður loftþéttum, einnota búningum við vinnu í grennd við það, hvað þá snertingu. 

Höfundurinn heldur því fram, að "til [séu] vísindamenn, sem drag[i] neikvæð áhrif olíu á lofthjúpinn í efa".  Hvaða vísindamenn eru það ?  Það er þvert á móti viðtekin staðreynd, sem hefur ekki verið andmælt með vísun til viðurkenndra rannsókna, að bruni jarðefnaeldsneytis leysir úr læðingi skaðlegar agnir og gastegundir, sem hættulegar geta verið heilsu manna og valda árlega ótímabærum dauða milljóna manna.  Þar að auki verða iðulega mengunarslys við leit, öflun og vinnslu þessara efna og hræðileg eru  námuslysin.  Seigdrepandi eru áhrif kolaryks á unga og hrausta kolanámumenn. Um þetta er enginn ágreiningur. Þess vegna er til mikils að vinna að losna við þessi efni úr orkunotkunarferlum manna, þótt þau muni nýtast í ýmsum efnaferlum. 

Víkjum þá að "lífsandanum", en svo hefur koltvíildið verið nefnt, af því að það er næring fyrir allar plöntur jarðar og þörunga hafsins.  Þannig er það ásamt súrefninu ein af undirstöðum lífsins á jörðunni.  Það verður til með margvíslegum hætti, og orkunotkun mannsins hefur vissulega leitt til aukningar á styrk þess í andrúmslofti.  Traustar mælingar liggja að baka þessari fullyrðingu, svo að um það verður ekki deilt, að núverandi styrkur þess er um 420 ppm. 

Það er heldur ekki deilt um gróðurhúsalögmál Fouriers og Arrheniusar frá 19. öld, en það er hins vegar deilt um áhrif þessa gróðurhúsalögmáls á hitastigsþróunina í andrúmslofti jarðar.  Veðurhjúpurinn verður fyrir margvíslegum áhrifum, og þar ríkir flókið samspil.  Ein virkunin er hitageislun út í geiminn, og hún eykst með hækkandi hitastigi andrúmslofts samkvæmt ákveðnu lögmáli eðlisfræðinnar.  Prófessor John Christy, loftslagsfræðingur við UAH í BNA, heldur því fram, að í loftslagslíkönum IPCC sé þessi þáttur vanmetinn, sem leiði til útreikninga á allt of háum hitastigli.  Hann rökstyður mál sitt með hitastigsmælingum gervihnatta yfir 40 ára tímabil, sem enginn hefur véfengt. 

Síðan hafa tölfræðingar gagnrýnt mjög meðferð IPCC á tímaröðum, og telja þeir ályktanir IPCC um yfirvofandi hækkun hitastigs glannalegar, og að þær fái ekki staðizt, sbr grein prófessors Helga Tómassonar í Morgunblaðinu 14.október 2021. Hann vitnar þar í rannsóknir á hitastigi jarðar 2000 ár aftur í tímann, sem bendi aðeins til tregbreytanlegra hitastigssveiflna um fast meðaltal, þ.e. núverandi hækkun gæti verið náttúruleg.  Í þessu samhengi verður að gæta að því, að margir vísindamenn spá ísöld eftir um 1500 ár.   

 

Síðan fullyrðir höfundurinn, að "til [sé] umhverfisvænni tækni, sem leyst [geti] olíu að mestu af hólmi".  Ef lífið er svona einfalt, af hverju eykst þá með hverju árinu (ef Kófsárið 2020 er undanskilið) notkun jarðefnaeldsneytis ?  Það er vitaskuld af því, að fullyrðingin er röng.  Það vantar á markaðinn frambærilega og nægilega umhverfisvæna tækni til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi á heimsvísu.  Það er hægt staðbundið mjög bráðlega, s.s. á Íslandi, en sjálfbærar orkulindir skortir einmitt.  Þar stendur hnífurinn í kúnni.  Kjarnorkutæknin, sem nú er á markaðinum, gæti það, en almenningur í mörgum löndum telur hana of hættulega og virðist meta meiri vá af kjarnorkuverum en brennslu jarðefnaeldsneytis.  Löggjafinn í sumum löndum hefur jafnvel gert eigendum kjarnorkuvera að loka þeim á næstu árum, þótt ekkert annað blasi þá við en aukin brennsla jarðefnaeldsneytis.  

 Kjarnorkuver í Japan

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband