Færsluflokkur: Bloggar

Þráhyggjan er þeirra einkenni

Þegar kommúnisminn hrundi sem siðferðislega og fjárhagslega gjaldþrota þjóðskipulag, þá misstu sósíalistar (sameignarsinnar) hvarvetna fótanna og hafa átt í mesta basli við að fóta sig síðan. Boðskapur þeirra um forræði stjórnmálamanna yfir atvinnurekstri og flestum eignum hefur alls staðar endað með ósköpum og afnámi einstaklingsfrelsis, þar sem þeir hafa komizt í aðstöðu til að láta að sér kveða.

Í kjölfar þessa og þjóðfélagsbreytinga á Vesturlöndum með enn meiri eflingu miðstéttarinnar hefur fylgið einnig reytzt af sósíaldemókrötum (jafnaðarmönnum) á Vesturlöndum, og nægir að minna á niðurlægingu brezka Verkamannaflokksins (Labour) og þýzka Jafnaðarmannaflokksins (SPD), en í fylkiskosningum 6. júní 2021 í Sachsen-Anhalt hlaut hann aðeins 8 % atkvæða. Boðskapur þeirra passar ekki við tíðarandann (Zeitgeist). Græningjar hafa hafa "Zeitgeist" með sér.

Það er ljóst, að íslenzkir vinstri menn þjást einnig af uppdráttarsýki, því að þeir hafa ekki lengur neinar rætur til verkalýðshreyfingarinnar. Í staðinn er blásið um mikilvægi þess, að Íslendingar verði "kolefnishlutlausir". Það mun þó engin mælanleg áhrif hafa á hitastig andrúmslofts jarðar. Sérvizkulegar kreddur, sem lítið sem ekkert höfða til daglegrar lífsbaráttu fólks, einkenna málflutninginn, og nú er að koma í ljós, að tvö mál ætla vinstri menn að halda dauðahaldi í í komandi kosningabaráttu af einskærri þráhyggju og málefnafátækt, fyrir utan loftslagsumræðuna, en það er endurskoðun stjórnarskrárinnar frá grunni, þ.e. ný stjórnarskrá, og umbylting fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Þegar hér er komið sögu, verður að átta sig á því, hverjir þessir vinstri flokkar eru.  Það eru t.d. þeir flokkar, sem sameinazt hafa um meirihlutamyndun til að stjórna Reykjavík, en stjórnun borgarinnar er, eins og sorgarleikur trúða, þar sem þekking á öllum málum, frá umferðartækni til fjármála, er fótum troðin, en fullkomnir fúskarar fá að traðka niður matjurtabeðin.

Eftir að varadekkið Viðreisn gekk til samstarfs við fallistana í Píratahreyfingunni og Vinstri hreyfingunni grænu framboði undir stjórn Samfylkingar, stendur ekki steinn yfir steini í borginni. Það hefur keyrt um þverbak í hænsnabúinu.  Bragginn með sínum dönsku stráum að annars gagnslausu, en risastóru sóunarverkefni, Borgarlínunni, eru á meðal ömurlegra minnisvarða samvizkulausra sérvitringa og bruðlara með almannafé, og hnífurinn hefur ekki gengið á milli þeirra, svo að öllu þessu ásamt Flokki fólksins og Sósíalistaflokkinum má kemba með einum kambi.

Um Lýðveldisstjórnarskrána með áorðnum breytingum er það að segja, að fullveldistrygging hennar, sem ESB-sinnarnir vilja feiga, reyndist sverð og skjöldur þjóðarinnar, þegar hæst þurfti að hóa og mest reið á í ólgusjó fjármálahrunsins 2008-2010. Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, rakti þetta og ósvífna aðför vinstri stjórnarinnar 2009-2013 að Lýðveldisstjórnarskránni í nýjasta hefti Tímarits lögfræðinga.  Morgunblaðið gerði rækilega grein fyrir þessu og ónothæfum drögum Stjórnlagaráðs í forystugrein 7. júní 2021:

"Vegið að undirstöðu".

Því er m.a. haldið fram af áhangendum þessa Stjórnlagaráðs, að þjóðin hafi samþykkt tillögu þess í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Þetta er alveg fráleit ályktun.  Lagðar voru fyrir kjósendur nokkrar spurningar og spurt eitthvað á þá leið, hvort leggja ætti tilgreindan texta til grundvallar nýrri stjórnarskrá.  Spurningarnar voru bæði loðnar og leiðandi og fullnægðu engan veginn þeim gæðakröfum, sem gera verður til spurninga í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þar að auki er þessi spurningavaðall ótækur í atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá.  Atkvæðagreiðslan var þess vegna ómarktæk sem slík.  Þegar fá á skoðun þjóðar á nýrri stjórnarskrá, ber að leggja hana fyrir þjóðina í heild sinni frágengna með góðum fyrirvara og spyrja síðan, hvort kjósandinn samþykki hana eða hafni henni.  Allt annað er kukl og fúsk. 

Miklar breytingar á stjórnarskrá skapa réttarfarslega óvissu í landinu, hvað þá alger endurnýjun.  Breytingar eiga að stuðla að auknum skýrleika fyrir almenning og dómara.  Sá kafli Stjórnarskrárinnar, sem er einna óskýrastur, jafnvel úreltur, er um forseta lýðveldisins.  Alþingi ætti að fela stjórnlagafræðingum að endursemja hann og fela forseta skýrt vald við stjórnarskipti og þingrof, svo og að setja inn ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Slíkt er í anda nútímalegra lýðræðishugmynda.  Að buxnast við að setja inn alls kyns óþarfa í stjórnarskrá lýðveldisins, er tímasóun og misskilningur.  Það er t.d. alger óþarfi að setja í stjórnarskrá einhver gjaldtökuákvæði fyrir afnotarétt af auðlindum.  Þessum málum getur Alþingi hagað að vild sinni með lagasetningu án atbeina Stjórnarskrár.

Verður nú vitnað í téðan Morgunblaðsleiðara:

"Kristrún [Heimisdóttir, lögfræðingur] rekur þann dapurlega og löglausa farsa, sem í hönd fór, allt í boði vinstri stjórnarinnar, og að auki, hvernig þetta stjórnlagaráð "fór út fyrir umboð sitt, eins og það var ákveðið í þingsályktun".  Þá tók við kosning um "tillögur stjórnlagaráðs", sem Kristrún bendir á, að hafi ekki einu sinni verið tillögur stjórnlagaráðs, enda hafi þær ekki verið fullbúnar "til þinglegrar meðferðar, hvað þá þjóðaratkvæðis".  Mjög var svo óljóst um hvað var kosið í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012, sem Kristrún segir, að hafi orðið til á "hrossakaupamarkaði" stjórnmálanna og kjósendur hafi verið látnir halda, að þeir væru að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs, sem hafi ekki verið raunin.  Og hún talar um, að "orðræða um frumvarp stjórnlagaráðs" og "tillögur stjórnlagaráðs" hafi í meðförum Alþingis orðið "völundarhús hálfsannleikans".  

Í ljósi þessarar úttektar Kristrúnar Heimisdóttur, lögfræðings, blasir við, að sú stjórnarskráræfing, sem þarna fór fram, var slys, og það er tímasóun og rangfærsla að fjalla um hana sem eitthvað, sem Alþingi skuldi þjóðinni. Þeir, sem það gera enn, fiska í gruggugu vatni fórnarlambstilfinningarinnar.  Þetta slys hefur verið afskrifað og bezt er, að það falli í gleymskunnar dá.

Núverandi Stjórnarskrá bjargaði Íslandi frá gjaldþroti 2008-2009 með sínum ótvíræðu fullveldisákvæðum, sem t.d. áhangendur ESB-aðildar vilja nú þynna út.  Með hliðsjón af úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslnanna um "Icesave" er harla ósennilegt, að þjóðin muni samþykkja nokkra útþynningu ákvæða, sem nú tryggja óskorað fullveldi ríkisins.  

Mogginn hélt áfram:

"Í grein sinni lýsir Kristrún því, hve fjarstæðukennt það sé að telja, að stjórnarskráin hafi haft eitthvað með bankahrunið að gera.  Þvert á móti fer hún yfir það, að stjórnarskráin hafi auðveldað Íslandi að komast út úr þeirri orrahríð, sem það lenti í. Um þetta segir í greininni:

"Ísland gat með engu móti bjargað of stóru fjármálakerfi frá þroti haustið 2008.  Því varð lagasetning innan ramma stjórnarskrár, sem sætti endurskoðunarvaldi dómstóla m.t.t. sömu stjórnarskrár, eina bjargræði þjóðfélagsins.  Aðgerðir Íslands skáru sig úr í alþjóðlegu fjármálakreppunni, og hvergi annars staðar var fullveldisrétti beitt á sambærilegan hátt í kreppunni.  Stjórnarskrá Íslands var í eldlínu alþjóðlegra átaka við erlendar ríkisstjórnir, alþjóðastofnanir og erlenda kröfuhafa, því [að] í krafti hennar og í íslenzkri lögsögu breytti Ísland reglum með neyðarlögum, forseti Íslands beitti málskotsrétti til þjóðaratkvæðis tvisvar [þegar honum og tugþúsundum kjósenda ofbauð gjörðir Alþingis - innsk. BJo], og allir ytri aðilar höfðu virt þessar aðgerðir, þegar upp var staðið. Vegna þess að útilokað var stöðva hrunið með íslenzku fjármagni eða lánstrausti að utan, voru stjórnarskráin og fullveldisréttur, byggður á henni, einu úrræðin til að stöðva hrunið. Og það gekk.  Stjórnarskráin stöðvaði hrunið, og íslenzka réttarríkið var nógu sterkt andspænis umheiminum." 

Þráhyggjumenn eru og að sönnu iðnir við kolann að níða skóinn ofan af útgerðarfélögum.  Sagt er, að útgerðarmenn valsi í auðlind þjóðarinnar, á meðan aðrir komist ekki þar að, og greiði allt of lágt gjald fyrir þennan aðgang.  Þeir ættu að greiða markaðsgjald, svo að þjóðin fái sitt og réttlætinu sé fullnægt.  Halda þessir niðurrifsmenn því fram, að leiguverðið, sem er yfir 200 ISK/kg, sýni markaðsverð aflahlutdeildanna.  Þetta sýnir, að þessir spekingar vita ekkert, hvað þeir eru að tala um.  Leiguverðið er s.k. jaðarverð, þ.e. verð á viðbótum við kvóta, sem útgerðarmenn hafa fjárfest í.  Þessi viðbót þarf ekki að standa undir neinum fastakostnaði, heldur aðeins breytilegum kostnaði.

Til að fá fram markaðsverð aflahlutdeilda er sagt, að  þurfi að bjóða þær upp á markaði, og sú útgerð, sem byði jaðarverðið, færi lóðbeint á hausinn á því sama fiskveiðistjórnunarári. Hvort er um fáfræði eða illskeytta rangfærslu að ræða ?  Uppboðskerfið er fyrirskrifað í hvítbók ESB um fiskveiðistefnuna, en á meðan útgerðir ESB-landanna eru niðurgreiddar úr ríkissjóðum landanna, ríkir ekki frjáls samkeppni á þessum markaði, og þess vegna hefur ESB ekki enn sett þetta kerfi á.  Hins vegar hafa einstök lönd gert það, t.d. Eistland, en þau hafa fljótlega horfið frá uppboðskerfinu, af því að það gaf skelfilega raun, gjaldþrot minni útgerða og söfnun aflahlutdeilda til stórútgerða.  Stórútgerðir í ESB og í Noregi eru miklu stærri en þær íslenzku. Það gefur líka auga leið, að með uppboðskerfi er innleidd skammtímahugsun í útveginn, sem leiðir alls staðar til verri umgengni við auðlindina. Til að hvetja útgerðarfélög til skráningar í kauphöll Íslands, svo að þau geti orðið almenningshlutafélög, mætti hækka kvótaþak einstakra tegunda úr 12 % í t.d. 18 % hjá slíkum félögum.  Þá mundi skapast svigrúm til enn meiri hagræðingar, sem mundi styrkja samkeppnishæfni þeirra um fjármagn og um erlenda markaði. 

Um 95 % afla íslenzkra útgerða fer á erlenda markaði, þar sem þær eiga í höggi við niðurgreiddar útgerðir.  Íslenzkar útgerðir eru þær einu í Evrópu, sem þurfa að greiða veiðigjöld, utan þær færeysku.  Samkeppnisstaðan er því nú þegar skökk, því að íslenzkar útgerðir greiða hátt hlutfall hagnaðar í veiðigjöld, en erlendum er bættur upp tapreksturinn.

Íslenzkur sjávarútvegur hefur fjárfest mrdISK 250 á undanförnum 10 árum í veiðum og vinnslu.  Samkeppnin knýr þau til að lækka kostnaðinn per kg, og það hefur þeim tekizt frábærlega. Þjóðhagslega hagkvæmasta fiskveiðistjórnunarkerfið er kerfi, sem hámarkar sjálfbærar veiðar, hámarkar verð á kg og lágmarkar kostnað á kg. Þar með verður mest til skiptanna, sem allir njóta góðs af. Þetta gerir einmitt núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem samþættir veiðar, vinnslu og markaðssetningu. Það væri óheillaskref aftur á bak fyrir hagsmuni þjóðarinnar, eiganda sjávarauðlindarinnar, að hrófla nú við kerfi, sem gefur henni hámarksarðsemi af auðlindinni í aðra hönd.

Að stórhækka veiðigjöld með einum eða öðrum hætti virkar eins og að hækka skattheimtu á fyrirtækin.  Fjárfestingargeta þeirra minnkar, og þau neyðast til að draga úr fjárveitingum til rannsókna og þróunar, sem hefur gert þeim kleift að gjörnýta hráefnið og stækka þar með enn kökuna, sem er til skiptanna fyrir alla þjóðina. 

Því hefur verið haldið fram, að óeðlilegar arðgreiðslur eigi sér stað í sjávarútvegi.  Samanburður talna um hlutfallslegar arðgreiðslur til fjármagnseigenda í sjávarútvegi og í öðrum fyrirtækjum sýnir þó, að þetta er hreinn uppspuni.  Sjávarútvegurinn er fjármagnsfrekur, og kostar t.d. góður togari nú um mrdISK 6.  Það er þess vegna eðlilegt og ánægjulegt, að sjávarútvegsfyrirtækin eru nú í auknum mæli skráð í Kauphöll Íslands og almenningi boðin þátttaka í eignarhaldinu og þar með að sjálfsögðu einnig arðgreiðslunum til eigenda.  Að tengja saman hagsmuni almennings og sjávarútvegsins með beinum hætti mun vonandi leiða til aukinnar ánægju almennt með góðan árangur í þessari grein, svo að áróður, reistur á öfund og illvilja, koðni niður.  Arður af eigin fé fyrirtækja hefur verið gerður að skotspæni öfundarmanna einkaframtaksins, en arður eru einfaldlega vextir af því áhættufé, sem lagt er í fyrirtækjastarfsemi.  Án arðsvonar verða engar fjárfestingar í einkageiranum.  Þá mun hagkerfið von bráðar skreppa saman öllum til tjóns. 

Í öllum atvinnugreinum á Íslandi hefur orðið góð framleiðniaukning, einkum í vöruframleiðslugeirunum, á undanförnum árum.  Tækniþróun í krafti öflugra fjárfestinga er undirstaða þessarar tilhneigingar.  Ávinninginum af framleiðniaukningunni er í flestum samfélögum, ekki sízt í lýðræðisríkjum, skipt á milli fjármagnseigenda og launþega.  Hvergi er hlutur launþega í skiptingu verðmætasköpunarinnar stærri en á Íslandi.  Það er þess vegna ljóst, að launþegar hafa mestra hagsmuna að gæta, að fjárfestingar í atvinnulífinu séu sem mestar og skynsamlegastar. Það verður bezt í pottinn búið fyrir fjárfestingar með pólitískum og efnahagslegum stöðugleika og lækkun opinberra gjalda.  Enn meiri hækkun veiðigjalda eða uppboðskerfi aflaheimilda mundi vinna þvert gegn þessum hagsmunum launþega. Það eru falsspámenn, sem fóðra sjúklegar skattheimtuhugmyndir sínar með gluggaskrauti á borð við, að þjóðinni beri að fá eðlilegan arð af auðlind sinni.  Í raun eru þessir falsspámenn að boða þjóðnýtingu sjávarútvegsins.  Bein afskipti stjórnmálamanna af atvinnurekstri leiða alls staðar og alltaf til ófarnaðar.  Ríkisrekstur stenzt einkaframtakinu ekki snúning, og þess vegna bregða stjórnmálamenn ríkisvæðingarinnar alltaf á ráð kúgunarinnar. 

Gott dæmi um framleiðniaukningu undanfarið í sjávarútvegi gat að líta í Viðskiptamogganum 2. júní 2021 undir fyrirsögninni:

 "Síldarvinnslan stefnir á nýja markaði".

 "Gunnþór [Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar] segir fyrirtækið hafa náð fram mikilli hagræðingu í rekstri.  Um það vitni t.d. fækkun fiskimjölsverksmiðja úr 8 í 2, og stóraukin framleiðni í loðnufrystingu á hvern starfsmann.  Afkastagetan farið úr 2 t/dag í 24 t/dag.  Þá geti 1 skip afkastað jafnmiklu á veiðum og 2-3 áður."

 Hér skal fullyrða, að taki stjórnmálamenn upp á því á næsta kjörtímabili, eins og hugur þeirra sumra virðist standa til, að fara að hræra í gildandi stjórnkerfi fiskveiða, þá verður sambærileg framleiðniaukning liðin tíð, og þar með mun sóknarþungi landsmanna til meiri velferðar koðna niður.  Hvernig mun þá fara fyrir þjóð, sem þarf að standa undir stöðugt vaxandi útgjöldum til heilbrigðis- og öldrunarmála, þótt hægi á fjölgun á vinnumarkaði ?  Kukl er enginn kostur.  

 

 

 

 

 


Alþjóðamál í deiglunni

Uppgangur Kína og tilhneiging til yfirgangs við nágranna sína á Suður-Kínahafi og Austur-Kínahafi, og vaxandi ógn, sem Taiwan stafar af Rauða-Kína, hefur ekki farið framhjá neinum, sem fylgjast dálítið með.  Þá hafa tök Kínverja á hrávöruöflun og vinnslu sjaldgæfra málma valdið áhyggjum iðnaðarþjóða frá Japan um Evrópu til Bandaríkjanna.

Framboð kínverskra málma í Evrópu og Bandaríkjunum hefur minnkað frá miðju ári 2020, líklega vegna minni raforkuvinnslu í gömlum og mengandi kolaorkuverum og mikillar málmeftirspurnar í Kína sjálfu.  Olíuverð og hrávöruverð almennt hefur hækkað mikið frá lágmarkinu í Kófinu, og má orsakanna að miklu leyti leita í Kína, þessu gríðarlega vöruframleiðslulandi. Eins og Huawei-málið sýndi, þarf nú að fara að meta viðskiptin við Kína í ljósi þjóðaröryggis.  

Á austurlandamærum Evrópusambandsins (ESB) eru væringar við Rússa og vopnuð átök á milli Úkraínu og Rússlands.  Í gildi er viðskiptabann á vissum vörum á milli Rússlands, EES og BNA.  Við áttum ekkert erindi í það viðskiptabann, því að Vesturveldin einskorðuðu það við tæknivörur, sem hægt væri að nýta við smíði hergagna.  Fyrir vikið misstum við mikilvægan matvælamarkað í Rússlandi.  Á fundi í Reykjavík nýlega óskaði utanríkisráðherra Rússlands eftir því, að Ísland væri dregið út úr þessu viðskiptabanni.  Við eigum að leita samninga um það við bandamenn okkar, enda taka t.d. Færeyingar ekki þátt í því.

Í Vestur-Evrópu hafa miklir atburðir gerzt, þar sem Bretar hafa rifið sig lausa frá ólýðræðislegu skrifræðisbákni meginlands Evrópu.  Engar af dómsdagsspánum hafa rætzt í því sambandi.  Bretar eru langt á undan Evrópusambandinu (ESB) í bólusetningum og hagvöxturinn er á hraðari uppleið á Bretlandi en í ESB. Bretar gera nú hvern fríverzlunarsamninginn á fætur öðrum við lönd um allan heim.  EFTA-ríkið Svissland með sína öflugu utanríkisþjónustu reið á vaðið á meðal EFTA-ríkjanna fjögurra og gerði víðtækan fríverzlunarsamning við Bretland fyrr á þessu ári.  Í kjölfarið sigldu hinar EFTA-þjóðirnar 3, Ísland, Noregur og Liechtenstein, og höfðu samflot, en EES-kom ekkert við sögu.  Íslenzkir hagsmunir voru greinilega ekki hafðir í neinu fyrirrúmi í þessari samningalotu, þannig að viðskiptakjör fiskverkenda hérlendis hafa ekkert batnað, þótt vonir stæðu til þess. Því miður hefur íslenzka utanríkisráðuneytið enn valdið vonbrigðum.  

Kvótinn fyrir innflutning brezks svínakjöts, kjúklinga, eggja, ávaxta og grænmetis er anzi ríflegur og gæta verður þess að draga úr kvóta ESB að sama skapi til að hagsmuna íslenzks landbúnaðar og gæða á markaði verði gætt. Þarna er vonandi fyrirmynd komin að fleiri fríverzlunarsamningum EFTA. Fríverzlunarsamningur þessi sýnir, að það er hægt að ná fríverzlunarsamningi við Evrópuríki, sem er a.m.k. jafnhagstæður EES-samninginum, hvað viðskiptakjör varðar.

Samskipti hinnar hlutlausu EFTA-þjóðar Svisslendinga við framkvæmdastjórn hins Frakkahalla Þjóðverja Úrsúlu von der Layen hafa kólnað verulega undanfarnar vikur.  Framkvæmdastjórnin er óánægð með, að löggjöf Sviss skuli ekki taka "sjálfkrafa" breytingum í takti við þróun Evrópuréttar, þótt Svisslendingar hafi aðgang að Innri markaði EES í krafti um 120 tvíhliða samninga á milli ríkisstjórnarinnar í Bern og framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel.  Svisslendingar fallast einfaldlega ekki á það ólýðræðislega fyrirkomulag, sem felst í að afhenda Brüssel þannig  löggjafarvaldið að nokkru leyti. 

Á Íslandi er skeleggasti gagnrýnandi slíkrar ólýðræðislegrar þróunar á Íslandi nú í framboði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi, þar sem hann býður sig fram í 2.-3. sæti. Arnar Þór Jónsson er ekki andstæðingur EES-samningsins, en hann er talsmaður þess að nota allt svigrúm samningsins og innbyggða varnagla þar af þekkingu og rökfestu til að verja hagsmuni Íslands og stjórnarskrá landsins, þegar á þarf að halda.

Ef rétt er skilið, hefur Miðflokkurinn nú tekið gagnrýna afstöðu gegn þessum samningi og Schengen.  Í Noregi er líka mikil gerjun á þessu sviði í aðdraganda Stórþingskosninga í september 2021. Alþýðusamband Noregs hefur lagzt gegn innleiðingu "gerða" ESB um lágmarkslaun og réttindi verkafólks, sem Alþýðusambandið telur rýra kjör verkafólks í Noregi.  Eftir kosningar til þjóðþinga Íslands og Noregs kunna að verða ný sjónarmið uppi á teninginum á meðal stjórnarmeirihlutans á þingi í hvoru landi.  Hann mun þó stíga varfærnislega til jarðar, en að hjakka í sömu sporunum er varla fær leið lengur.  

Hér er við hæfi að vitna í Arnar Þór (Mbl. 03.04.2021):

"Klassískt frjálslyndi byggist á því, að menn njóti frelsis, en séu um leið kallaðir til ábyrgðar.  Það byggir á því, að menn hugsi sjálfstætt, en láti ekki aðra hugsa fyrir sig - ofurselji sig ekki tilbúinni hugmyndafræði."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði stjórnarskrár um lýðræði og klassískt frjálslyndi."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði alþjóðlegra sáttmála um neitunarvald Íslands og sjálfstæði gagnvart öðrum þjóðum."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - lýðræðislegan grunn íslenzkra laga um skilyrði aðildar Íslands að EES og Mannréttindasáttmála Evrópu."

"Við eigum að virða - ekki misvirða - ákvæði laga um frelsi einstaklingsins og ábyrgð í siðmenntuðu samfélagi."

"Embættismenn hafa ekkert umboð til þess að ganga gegn eða breyta þeim lýðræðislegu forsendum, sem að framan eru nefndar.  Sú freisting er ávallt til staðar og því rétt og skylt að viðhalda vökulli varðstöðu gegn því, að menn seilist ótilhlýðilega til valds og áhrifa."

Í forystugrein Morgunblaðsins 31.05.2021, "Swexit ?" , sagði m.a.:

"Samningarnir [við ESB-innsk. BJo] breyta löggjöf Sviss ekki með sömu sjálfvirkni og gerzt hefur t.d. hér á landi, en þar skiptir einnig máli, að hér á landi hafa stjórnmálamenn ekki verið á varðbergi gagnvart þróun ESB í seinni tíð, þó að full ástæða hafi verið til, þar sem sambandið tekur stöðugum breytingum í átt að auknum samruna og ásælni yfirþjóðlega valdsins."

 Þessi varnaðarorð Morgunblaðsins og gagnrýni í garð stjórnmálamanna, þ.e. þingmanna á núverandi kjörtímabili og á nokkrum fyrri kjörtímabilum, beinist mjög í sama farveg og málflutningur Arnars Þórs Jónssonar.  Hann er ekki einn á báti með sín viðhorf, hvorki hérlendis né í hinum EFTA-löndunum. Það er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að vera með á nótunum gagnvart þróun samskipta hinna EFTA-landanna við ESB.

  Í Noregi er að myndast samstaða á meðal stjórnarandstöðuflokkanna gegn Orkupökkum 3 og 4 (OP3, OP4).  Sú andstaða kann að verða stjórnarstefna nýrrar norskrar ríkisstjórnar að afloknum Stórþingskosningum í haust.  Þá verður ómetanlegt að hafa á Alþingi víðsýnan, vel lesinn, grandvaran, nákvæman og vel máli farinn mann á íslenzku sem erlendum tungum til að leggja orð í belg við mótun utanríkisstefnu Íslands í breyttum heimi eftir Kóf.

Morgunblaðið tefldi í téðri forystugrein jafnvel fram Carl I. Baudenbacher, sem utanríkisráðherra fékk til að skrifa rándýra greinargerð með innleiðingu OP3 og mæta fyrir utanríkismálanefnd þingsins og kannski fleiri nefndir til að vitna um, að ESB gæti farið í baklás gagnvart EES-samninginum, ef Alþingi hafnaði OP3.  Nú er þessi fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins orðinn gagnrýninn í garð ESB:

"Baudenbacher segir, að það sé í anda spunavéla Brussel að kenna Sviss um, hvernig fór, en málið sé ekki svo einfalt. Hann segir, að bæði stjórnvöld í Sviss og Brussel hafi reynt að þoka landinu bakdyramegin inn í ESB, en vanmetið hafi verið, hve mikil andstaða sé við slíkt í Sviss. Þar vilji fólk efnahagslega samvinnu, en ekki stjórnmálalegan samruna.  Þegar fólk hafi fundið, að reynt hafi verið að ýta því svo langt inn í ESB, að ekki yrði aftur snúið, hafi það spyrnt við fæti."

Í ljósi ótrúlega slæmrar stöðu í samskiptum Sviss og ESB og vaxandi gagnrýni á stjórnskipulega íþyngjandi  hliðar EES-samningsins m.t.t. stjórnarskrár, fullveldis og alvöru lýðræðis, í Noregi og á Íslandi, er tímabært fyrir allar EFTA-þjóðirnar í sameiningu að freista þess að ná frambúðar lausn á samskiptunum við ESB á viðskipta- og menningarsviðunum.  Þetta gæti orðið einhvers konar nýtt fyrirkomulag á EES-samninginum, þar sem gætt yrði aðlögunar að Innri markaðinum án þess að ógna fullveldi og lýðræði í EFTA-ríkjunum. Augljóslega ekki auðvelt, en ætti þó að vera viðráðanlegt verkefni fyrir hæft fólk með góðan vilja.

Í téðri forystugrein Morgunblaðsins var enskt viðhorf til ESB reifað:

"Fleiri hafa bent á, t.a.m. Ambrose Evans-Pritchard, yfirmaður alþjóðlegra viðskiptafrétta Telegraph, hve hart Evrópusambandið gengur fram gegn nágrönnum sínum, ólíkt t.d. Bandaríkjunum, sem eiga farsæl samskipti við fullvalda nágranna sinn Kanada.  Hann bendir á, að ESB sé stöðugt að reyna að útvíkka regluverk sitt og dómsvald og þvinga hugmyndum sínum upp á aðra.  Nú hafi Sviss hafnað þessari leið og ESB, sem hafi nýlega misst Bretland úr sambandinu, geti einnig verið að ýta Sviss frá sér."

Þetta er lýsing á sífellt víðtækari völdum, sem safnað er til Framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel og veldur einnig EFTA-ríkjunum vandræðum. ESB er í eðli sínu tollabandalag, sem ver sinn Innri markað gegn utan að komandi samkeppni með viðamiklu regluverki, sem er íþyngjandi að uppfylla.  ESB er hemill á frjáls viðskipti í Evrópu, en við verðum hins vegar hagsmuna okkar vegna að aðlaga okkur honum.  Við, eins og Svisslendingar, hljótum að stefna á að gera það í sátt við Stjórnarskrána, fullveldi þjóðarinnar og raunverulegt lýðræði í landinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

  


Orkumál í öngstræti

Þann 3. júní 2021 birtist forsíðufrétt í Morgunblaðinu:"Raforkuverð tekur kipp".  Tilefnið var mikil verðhækkun á náttúruafurð Landsvirkjunar (LV), þar sem heildsölugjaldskrá LV hafði nýlega verið hækkuð um 7,5 %-15,0 % eftir flokkum.  Þetta er birtingarmynd óstjórnar orkumálanna, sem lengi hefur verið gagnrýnd á þessu vefsetri, þar sem einn þáttur gagnrýninnar snýst um fullkomið fyrirhyggjuleysi um öflun nýrrar og nægilegrar orku til að verða við óskum viðskiptavina um aukin raforkukaup, jafnvel þegar illa árar í vatnsbúskapinum, eins og nú.

Gildandi orkulöggjöf landsins einkennist af Orkupakka 3 (OP3), og samkvæmt honum á markaðurinn að ráða framboði raforku, og ekki má gera neitt fyrirtæki ábyrgt fyrir því að koma í veg fyrir orkuskort, því að það gæti skekkt samkeppnisstöðuna. Nú hefur komið í ljós, eins og ítrekað var varað við, að þetta framandi fyrirkomulag í vatnsorkulandi býður hættunni á alvarlegum orkuskorti heim og er sannarlega mjög andsnúið hagsmunum neytenda og atvinnustarfsemi vegna hærra raforkuverðs en nokkur þörf er á, sem af þessu leiðir. 

Ef hér væri nú komið uppboðskerfi raforku, eins og orkustjóra ACER á Íslandi ber að koma á laggirnar hér, og er í undirbúningi, þá hefði heildsöluverð á markaði í byrjun júní 2021 ekki hækkað um 7,5 %-15,0 %, heldur að öllum líkindum tvöfalt meira og færi enn hækkandi, þegar nálgast haustið meira, ef vatnsbúskapurinn braggast ekki í sumar. Þetta má marka af verðþróuninni í Noregi. 

Markaðurinn hér getur ekki brugðizt við með auknu framboði fyrr en eftir nokkur ár vegna langs aðdraganda nýrra virkjana á Íslandi. Þess vegna er þetta kerfi stórslys hérlendis, þar sem engrar fyrirhyggju gætir.  Á framboðshlið eru örfá fyrirtæki, og eitt þeirra gnæfir yfir önnur.  Það hefur markaðinn í greip sinni og hefur nú gengið á lagið.  Þessi staða mála sýnir, að það er vitlaust gefið og að OP3 hentar ekki hér, heldur gerir illt verra. Hvað segir iðnaðarráðherra nú, sem barðist fyrir innleiðingu OP3 á þeim grundvelli, að hann leiddi til aukinnar samkeppni, neytendum til hagsbóta ? Raunveruleikinn getur reyndar orðið verri en nokkurn grunaði þá, ef Murphys-lögmálið fer að gilda um þessi mál.

Það eru fá rök fyrir því, að ríkisvaldið eigi hér ríkjandi fyrirtæki á raforkumarkaði, nema það beri jafnframt ábyrgð á raforkuöryggi landsmanna ásamt flutningsfyrirtækinu Landsneti að sínu leyti og sérleyfisfyrirtækjunum í dreifingu að þeirra leyti. Réttast væri að setja lög, hvað þetta varðar strax, og láta reyna á þau fyrir EFTA-dómstólinum, ef ESA   (Eftirlitsstofnun EFTA) gerir athugasemd.  Um er að ræða nauðsynlega lagasetningu vegna sérstöðu Íslands.  Almannahagsmunir liggja við. 

Þessi hækkun Landsvirkjunar er bæði óþörf og þjóðhagslega illa ígrunduð.  Landsvirkjun er spáð 14 % tekjuaukningu árið 2021 m.v. árið á undan, og lánshæfismat fyrirtækisins var nýlega hækkað af einu matsfyrirtækjanna.  Þessi hækkun kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum og er atlaga að samkeppnishæfni fyrirtækjanna, sem þessi hækkun bitnar á og hafa verið að krafla sig upp úr öldudalnum.  Það er líklegt, að hinir birgjarnir á heildsölumarkaði raforku fylgi í kjölfarið, og þannig mun hækkunin bitna á öllum heimilum landsins.  Hækkunin mun kynda undir verðbólgu, sem þegar er utan við ytri viðmiðunarmörk Seðlabankans.  Það er svo mikil efnahagsleg áhætta tekin með hækkuninni, að fulltrúi eigandans, fjármála- og efnahagsráðherra, ætti að beita sér fyrir afturköllun hennar, því að hún vinnur gegn efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og peningastefnu Seðlabankans.  Hlutdeild þessa heildölumarkaðar er svo lítill af heildarraforkumarkaðinum, að minni raforkunotkun af völdum þessarar hækkunar mun vart hafa mælanleg áhrif á stöðu miðlunarlónanna auk þess, sem það er fjarri því öll nótt úti um fyllingu þeirra, þótt útlitið sé slæmt núna, einkum með Þórisvatn.

Staðan í Blöndulóni er yfir meðaltali, en miðlunargeta þess er lítil.  Hálslón er 40 m neðan yfirfalls og undir meðaltali.  Þórisvatn er 13 m neðan yfirfalls og nálægt lágmarksstöðu árstímans. 

Morgunblaðið reyndi að leita skýringa á stöðunni, en fékk ekki góð svör:

"Sérfræðingur, sem Morgunblaðið ræddi við, sagði afar óvanalegt, að Landsvirkjun hækkaði raforkuverð á þessum tíma árs og að það væri helzt til marks um, að fyrirtækið teldi hættu á, að framboðshlið markaðarins stefndi í ranga átt.  [Loðið orðalag um minnkandi framboð, en 50 MW brottfall í jarðgufuvirkjun í 3 vikur hefur lítil áhrif, þótt sú orka verði tekin úr miðlunarlónum, og er ekki meira en búast má við vegna venjulegs viðhalds - innsk. BJo.]  Annar sérfræðingur, sem blaðið ræddi við, sagði stöðu lónanna, auk erfiðleikanna í Reykjanesvirkjun, vekja spurningar um, hvort orkufyrirtækin gætu lent í vandræðum með að afhenda ótryggða orku til kaupenda á komandi mánuðum.  Horfa menn þar sértaklega til fiskimjölsverksmiðja, sem hafa verið rafvæddar á síðustu árum, en geta einnig gengið fyrir jarðefnaeldsneyti, ef í harðbakkann slær."

Ekki eru allar fiskimjölsverksmiðjurnar búnar varakötlum fyrir olíu, gas eða kol.  Samningar þeirra um ótryggða orku eru smáræði hjá samningum álveranna þriggja og kísilverksmiðjanna tveggja um ótryggða orku.

Þessi slæma staða orkumálanna var fyrirsjánleg að skella mundi á í nánustu framtíð vegna sleifarlags orkufyrirtækjanna við orkuöflun, og ef vatnsbúskapur þessa árs verður undir meðallagi, þá mun verða orkuskortur og stórtap fyrir atvinnuvegina í vetur.  Vonandi fer þetta ekki á versta veg, svo að skerða þurfi forgangsorkuafhendingu, jafnvel til heimila.  

Hver svarar til saka fyrir þetta ?  Að nokkru er sökudólgurinn Orkupakki 1 frá ESB, en með orkulögunum 2004 í kjölfar hans var afnumin skylda Landsvirkjunar til að sjá þjóðinni fyrir nægri raforku á hverjum tíma.  Það var réttlætt með innleiðingu samkeppni á milli virkjanafyrirtækjanna og smásölufyrirtækjanna.  Það eru ekki góð rök af ástæðum, sem blasa við. Ekkert virkjanafyrirtækjanna virðist vilja reyna að ná stærri markaðshlutdeild með því að virkja.  Það sýnir betur en nokkur orð, að samkeppnin, sem orkupakkarnir áttu að koma á á milli birgjanna, virkar ekki við núverandi aðstæður á Íslandi.  Það eru ekki tíðindi fyrir alla, þótt fólk kunni að vera hissa í iðnaðarráðuneytinu.  

 

 

 

 

 


Sýn iðnaðarráðherra

Þann 16.05.2021 birtist pistill eftir ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar á sunnudagsvettvangi Morgunblaðsins.  Þar reit Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir um tengsl orkumála og loftslagsmála.  Þessi pistill ráðherrans er athyglisverður í ljósi Morgunblaðsgreinar forstjóra Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins 10 dögum áður, og gerð er grein fyrir í pistlinum á undan þessum á þessu vefsetri, en þar kvarta þeir undan því, að stjórnvöld hafi ekki skapað forsendur fyrir grænni atvinnubyltingu með því að ryðja hindrunum úr vegi á sviði skipulagsmála, umhverfismála, skattamála eða varðandi "hvert annað atriði, sem snertir rekstur fyrirtækjanna". Túlka mátti greinina þannig, að stöðnun sú, sem nú ríkir á sviði nýrrar atvinnusköpunar í krafti grænnar orku Íslands væri sinnuleysi stjórnvalda að kenna og væri grein tvímenninganna ákall um "að ryðja brautina".

Pistill ráðherrans,

"Orka - lykillinn að árangri í loftslagsmálum",

hófst þannig:

"Fyrir nokkrum dögum skoruðu náttúruverndarsamtök á stjórnvöld að standa sig betur í því að ná loftslagsmarkmiðum.  Í yfirlýsingu þeirra var þó ekki vikið neitt að því, sem skiptir einna mestu máli í því sambandi." 

Hvað knýr náttúruverndarsamtök til slíkrar áskorunar á íslenzk stjórnvöld ?  Umhyggja fyrir umhverfinu ?  Ef sú umhyggja er ástæðan, er hún reist á fölskum forsendum, því að það er ekki nokkur leið fyrir íslenzk stjórnvöld eða landsmenn alla að hafa nokkur mælanleg áhrif á hlýnun jarðar.  Þess vegna yrði mjög misráðið af stjórnvöldum að fara nú að beita þjóðina enn frekari þvingunarráðstöfunum á formi t.d. hækkunar gjalds á jarðefnaeldsneyti til ríkisins eða hækkunar aðflutningsgjalda á benzín- og dísilbílum, eins og eru ær og kýr slíkra samtaka.  (Taka skal fram, að pistilhöfundur ekur hreinum rafmagnsbíl síðan 2020.) Hins vegar er sjálfsagt að veita áfram jákvæða hvata til orkuskiptanna.  Frumatvinnuvegirnir sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður, hafa allir staðið sig með prýði á alþjóðlegan mælikvarða við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á hvert tonn framleiðslu sinnar, og það er aðalatriðið.  Tækni orkuskiptanna er í hraðfara þróun núna, svo að það er allsendis ótímabært að verða við beiðni téðra náttúruverndarsamtaka.  Þó verður að hvetja stjórnvöld til að vera kröfuharðari en nú er um vísindalegan grundvöll aðgerða, sem styrktar eru af ríkisfé, og trónir þar endurmyndun mýra með mokstri ofan í skurði efst á blaði.

"Til að ná raunverulegum árangri í að minnka losun og breyta hlutum þarf endurnýjanlega raforku og meiri háttar tækniþróun og nýsköpun.  Ekki bara landverndarverkefni - heldur loftslagsverkefni. Og fjölga þannig stoðum verðmætasköpunar.  

Ég fagna því auðvitað, að minnt sé á nauðsyn þess að draga meira úr losun gróðurhúsalofttegunda.  En til að ná þeim árangri, sem þetta ákall snýst um, þurfum við að verða óháð jarðefnaeldsneyti, eins og segir í nýrri Orkustefnu.  

Til að verða óháð jarðefnaeldsneyti þurfum við nýja græna orkugjafa á borð við rafeldsneyti og fleira.  Og til að framleiða þessa orkugjafa [orkubera-innsk. BJo], þurfum við að framleiða meira af grænni orku [virkja meira - innsk. BJo].

Þeir, sem kjósa að líta framhjá þessu, hafa ekki svörin, sem duga."

Þetta er góður málflutningur hjá iðnaðarráðherra, og það er eðlilegt, að hún taki ekki mark á málflutningi um, að tímabundin umframorka í kerfinu árið 2020 og dökkar horfur um framhald stóriðnaðar í landinu, valdi því, að ekkert þurfi að virkja á næstunni, eins og t.d. forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hélt fram í fyrra.  Nú hefur hagur strympu vænkazt og endurskoðun raforkusamnings Landsvirkjunar og ISAL/Rio Tinto er í höfn.  Árið 2010 heimtaði forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, að álverðstenging við raforkuverðið yrði afnumin.  Með semingi var það látið eftir honum, og samningurinn frá 2011 innihélt einvörðungu tengingu við neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum, svo gáfulegt sem það nú er.  Við endurskoðun þessa raforkusamnings 2019-2021 þvældist Landsvirkjun lengi vel fyrir tillögu ISAL/Rio Tinto um endurupptöku álverðstengingar, þótt í breyttri mynd yrði, en söðlaði svo skyndilega um síðla árs 2020. 

Strax og raforkuverðið til ISAL skreið yfir verðið samkvæmt eldri samningi, 39 USD/MWh, birtust trúnaðarupplýsingar um verðútreikning eftir endurskoðun í Markaði Fréttablaðsins, 19. maí 2021, og stutt viðtal við Hörð.  Hvaðan komu þessar upplýsingar ?  Það er furðulegt, að forstjóri Landsvirkjunar skuli ekki hafa þvertekið með öllu að ræða um hinn endurskoðaða raforkusamning á grundvelli trúnaðarupplýsinga í höndum Markaðar Fréttablaðsins.

Þar er hann þó enn við sama heygarðshornið og kveður "fast" verð áfram vera fyrsta val Landsvirkjunar, sem er skrýtið í ljósi þess, að lágmarksverðið í þessu tilviki er hátt eða um 30 USD/MWh  (þar fer hann ekki nákvæmlega með).  Fari álverð yfir 1800 USD/MWh, deila ISAL og Landsvirkjun hagnaðinum með sér.

"Ótal fjárfestingarverkefni eru á teikniborðinu, sem snúast um að ná árangri í loftsalgamálum.  Þar má nefna fjölnýtingu orkustrauma (með tilheyrandi orkusparnaði), föngun kolefnis, förgun kolefnis og framleiðsla á rafeldsneyti."  

Þetta er rýrt í roðinu hjá iðnaðarráðherra, nema hið síðast nefnda.  Nú hafa Þjóðverjar boðið Íslendingum upp í dans á sviði vetnistækni. Sjálfsagt er að stíga þann dans undir ljúfri þýzkri "Tanzmusik".  Þetta varð ljóst við lestur greinar sendiherra Sambandslýðveldisins, Herrn Dietrich Becker, í Bændablaðinu 27. maí 2021.  Það er eðlilegt að stofna með þeim þróunar- og framleiðslufélag hérlendis, sem framleiði hér vetni með rafgreiningu og flytji megnið út, en aðstoði hér við að nýta vetnisafurðir á vinnuvélar, skip og flugvélar. Skrýtið, að iðnaðarráðherra skuli ekki geta um þessa þróunarmöguleika í téðri orku- og loftslagsgrein sinni. 

Auðvitað útheimtir verkefnið nýjar virkjanir.  Getur verið, að heimóttarleg afstaða vinstri grænna til þeirra setji landsmönnum stólinn fyrir dyrnar við raunhæft verkefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópu. Þá yrði Vinsri-hreyfingin grænt framboð heimaskítsmát í loftslagsskákinni, eins og sumir áttu von á. Reyndar hefur nú Landsvirkjun dregið lappirnar svo lengi að hefja nýjar virkjanaframkvæmdir, t.d. í Neðri-Þjórsá, að nú stefnir í alvarlegan orkuskort næsta vetur, sem getur þýtt tap útflutningstekna upp á tugi milljarða ISK.  Sleifarlag ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar er óviðunandi.  Hneykslanlegt útspil fyrirtækisins, sem fram kom á forsíðu Morgunblaðsins 03.06.2021 (allt að 15 % gjaldskrárhækkun) er efni í annan pistil. 

Síðan heldur iðnaðarráðherra áfram í tengslum við ótilgreind græn verkefni:

"Ef þessi viðleitni á að geta blómstrað, megum við ekki kæfa hana í fæðingu með sköttum og skrifræði.  Við eigum þvert á móti að greiða götu hennar með einföldu regluverki og jafnvel styrkjum og ívilnunum.  Skref í þá átt hafa þegar verið stigin með verkefninu "Græni dregillinn", nýjum áherzlum og auknum fjárheimildum Orkusjóðs og nýjum lögum um ívilnanir til grænna fjárfestinga.  Auk þess hef ég nýlega hafið frumathugun á því, hvort raunhæft sé að ganga lengra með því að verja a.m.k. hluta af tekjum ríkissjóðs af losunarkvótum til að styðja við fjárfestingarverkefni, sem þjóna loftslagsmarkmiðum okkar."  

Græn verkefni á borð við vetnisverksmiðju og verksmiðjur vetnisafurða á borð við ammoníak, metanól, etanól o.fl. verða arðberandi verksmiðjur, sem nýta þróaða tækni, og þurfa þess vegna ekki styrki úr ríkissjóði, heldur aðeins samkeppnishæft raforkuverð, væntanlega 25-35 USD/MWh.  Þeir, sem lifa í hugmyndaheimi afdankaðs sósíalisma, munu vilja háa skattheimtu af arðgreiðslum þessara félaga sem annarra.  Þeir horfa fram hjá því, að fjármagn kostar, og ef ekki er aðsvon af fjárfestingu í fyrirtækjum, þá verður ekkert af fjárfestingunum, nema ríkissjóður slái lán til áhættufjárfestinga, en ríkisvaldið stenzt einkafyrirtækjum ekki snúning, hvað rekstur varðar, og er þá nánast sama, hvað um ræðir. Iðnaðarráðherra hefur rétt fyrir sér um skattana, en vanmetur e.t.v. vilja einkafjárfesta til fjárfestinga á þessu sviði alfarið á viðskiptalegum grundvelli.  Sjálfsagt er að beina opinberum tekjum af sölu koltvíildiskvóta til þróunar á mörkuðum fyrir vetnisafurðir, skógræktar o.fl.

Síðan kemur iðnaðarráðherra á óþarflega almennan hátt að nauðsyn nýrra virkja: 

"Ef við ætlum að tryggja, að bæði núverandi og nýir notendur grænnar orku geti fengið hana á samkeppnishæfu verði, þurfum við að huga miklu betur að framboðshlið orkunnar og sjá til þess, að hér verði framleidd meiri orka.  Það ætti að öllu jöfnu að stuðla að lægra verði, þó að auðvitað komi samkeppnin þar líka við sögu."

Þetta er rétt hjá iðnaðarráðherra og orð í tíma töluð.  Halda mætti, að einhver valdalaus skrifari úti í bæ hefði párað þetta, því að stjórn stærsta orkufyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, sem alfarið er í eigu ríkisins, virðist vera annarrar skoðunar en ritarinn, því að Landsvirkjun er alls ekkert í virkjunarhugleiðingum þessa stundina.  Hvernig í ósköpunum má þetta vera ?  Orkuskortir blasir við næsta vetur. Ef allir núverandi viðskiptavinir Landsvirkjunar hefðu síðastliðinn vetur nýtt samninga sína til hins ýtrasta, sem þeir voru fjarri því að gera vegna deilna við Landsvirkjun og markaðsaðstæðna, hefði komið til stöðvunar á afhendingu allrar orku, nema forgangsorku, frá orkuverum Landsvirkjunar.  Þetta ásamt mjög lágri vatnsstöðu Þórisvatns núna, sýnir, að yfirvofandi er orkuskortur í landinu.  Hvers vegna skipar eigandinn ekki Landsvirkjun að hefjast handa strax til að forða stórfelldu efnahagstjóni árum saman (nokkur ár tekur að reisa virkjun, þótt fullhönnuð sé nú) ?  Þykist ríkisstjórnin ekki hafa til þess vald vegna lagaákvæða Orkupakka 3, sem að forminu gætu virzt draga völd úr höndum ráðherra og til Orkustjóra ACER á Íslandi, sem einnig stjórnar Orkustofnun Íslands, eða svífur andi vinstri grænna yfir vötnunum ? Hvort tveggja er afleitt. "Something is rotten in the state of Danemark", var einu sinni skrifað.  Eru orkumálin í lamasessi vegna stjórnmálaástandsins ?  Það er of dýrt til að vera satt.

Iðnaðarráðherra hélt áfram hugleiðingum sínum um orkumálin:

"Því miður hefur hagkvæmni orkukosta nánast horfið út úr ferli rammaáætlunar, því að þetta grundvallaratriði hefur fallið í skuggann af flóknari spurningum um þjóðhagslega hagkvæmni - spurningum, sem ekki er hægt að svara, þegar ekki er vitað, hver muni kaupa orkuna.  Þetta ferli þarf augljóslega að laga, og ég hef áður sagt, að svo virðist sem skynsamlegt væri að stíga skref til baka og huga betur að kostnaðarverði nýrra orkukosta, eins og gert var á fyrstu árum rammaáætlunar."

 Í ljósi alvarlegrar stöðu orkumálanna er þetta tilþrifalítið hjá iðnaðarráðherra í lok kjörtímabils hennar.  Það er alveg sama, hvaða virkjanakost menn velja núna - hann verður þjóðhagslega hagkvæmur vegna þeirrar einföldu ástæðu, að hann mun koma í veg fyrir orkuskort, og hver megawattstund, sem raforkubirgjar ekki geta afhent, kostar viðskiptavini á bilinu 100-1000 USD/MWh (12-120 ISK/kWh).  Þótt ekki stafaði bráðavandi að núna, þá eru horfur á orkumarkaði hér nú þannig, að núvirði hagnaðar af hverri ISK í líklega öllum virkjanakostum í framkvæmdaflokki gildandi Rammaáætlunar er að líkindum hærra en af öðrum fjárfestingarkostum, sem eigendum virkjanafyrirtækjanna standa til boða.  Þess vegna eru þessi skrif iðnaðarráðherra um flóknar spurningar um þjóðhagslega hagkvæmni virkjana torskiljanlegar. Við þurfum ekki flækjufætur, við þurfum framkvæmdafólk. Það hvílir óþarflega mikil þoka yfir iðnaðarráðuneytinu. 

Næst víkur hún sér að vindorkunni:

 "Vindorkan er síðan annar og mjög þýðingarmikill kapítuli, en hún hefur á fáum árum orðið sífellt ódýrari og er núna farin að veita okkar hefðbundnu orkulindum, vatnsafli og jarðvarma, mjög harða samkeppni.  Þar eru tækifæri, sem við eigum að nýta."

Hefur iðnaðarráðherra séð einhverja samanburðarútreikninga, sem skjóta stoðum undir þessa fullyrðingu hennar um samkeppnihæfni vindorku á Íslandi, eða er þetta bara enn eitt dæmið um, að hver étur þessa fráleitu fullyrðingu upp eftir öðrum ?  Vindorkuverin þurfa tiltölulega mikið landrými á hvert uppsett MW, og kostnaður landsins hefur áhrif á vinnslukostnað vindmylluversins.  Gríðarlegir steypuflutningar kosta sitt.  Niðurtekt og eyðingu þarf einnig að taka með í reikninginn.  Dreifing trefjaplasts frá spöðunum, sem slitna í regni og sandbyljum, þarf að taka með í umhverfiskostnaðinn. 

Kolefnisspor vindmyllna á framleiddar megawattstundir endingartímans, sem er styttri en hefðbundinna íslenzkra virkjana, er tiltölulega stórt, þegar allt er tekið með í reikninginn.  Í íslenzku samhengi eru vindmyllur þess vegna ekki svo fýsilegar, að ástæða sé fyrir iðnaðarráðherra að hvetja til þeirra. 

Lokatilvitnun í ráðherrann:

 "Loks höfum við nú þegar gert gangskör að því að greina tækifæri til að lækka flutningskostnað raforku.  Þær tillögur voru unnar hratt, en þó faglega og birtust í frumvarpi mínu til nýrra raforkulaga, sem miðar ótvírætt að því að lækka flutningskostnað með breyttum forsendum um útreikning á gjaldskrám eða nánar tiltekið tekjumörkum."

Þetta brýna mál fyrir allan atvinnurekstur í landinu hefur tekið ráðherrann allt of langan tíma.  Hún hefði átt að vinda sér í málið á fyrsta ári ráðherradóms síns yfir orkumálunum, og á hvaða vegi er jöfnun flutningsgjalds á milli þéttbýlis og dreifbýlis statt, það brýna réttlætismál til að jafna stöðu íbúa í þéttbýli og dreifbýli m.t.t. þjónustu sérleyfisfyrirtækja ? 

 

 

 


Stjórnmálaþróunin framkallar þingframboð

Í viðtali Stefáns Gunnars Sveinssonar við Arnar Þór Jónsson, héraðsdómara, (AÞJ), í Morgunblaðinu 8. maí 2021, kom fram, að hann hefur alla tíð fylgzt gaumgæfilega með opinberri umræðu og stjórnmálaþróuninni í landinu.  Hann íhugar mál sitt rækilega og flanar ekki að neinu.  Þess vegna hefur verið áhugavert að fylgjast með skrifum hans og ræðum, og fyrir höfund þessa vefseturs á það ekki sízt við greiningar hans á Orkupakka 3 (OP3) út frá lagalegu viðhorfi og stjórnskipulegum álitamálum. 

Það er þröng á þingi og margt hæfileikaríkt fólk, sem býður sig fram í prófkjöri sjálfstæðismanna í SV-kjördæmi (Kraganum) á þessu vori, en ástæða er til að vekja sérstaka athygli á nýjum frambjóðanda AÞJ í 2.-3. sæti D-listans, af því að málflutningur hans er að mörgu leyti nýstárlegur, en mjög í anda hugsjóna upphafsmanna Sjálfstæðisflokksins, og höfundur þessa vefseturs telur þennan frambjóðanda til þess fallinn að draga nýtt fylgi að Sjálfstæðisflokkinum, en fyrir því er höfuðnauðsyn til að tryggja landinu stjórnmálalegan stöðugleika og stjórnvöldum traust inn á við og út á við til að fást við erfið verkefni.

Viðtal Stefáns Gunnars við Arnar Þór, sem hér verður vitnað til, bar fyrirsögnina:

"Ég kýs að fylgja hjartanu".

 

"Áhyggjur mínar snúa að því, að það sé verið að þrengja þann ramma [frjálslynds lýðræðis í klassískum skilningi] með stjórnlyndum sjónarmiðum, sem á sama tíma þrengja að borgaralegum réttindum, tjáningarfrelsi og samvizkufrelsi."

Neikvæð þróun af þessu tagi læðist að, jafnvel án þess að margir verði hennar varir.  Það er hættulegt, og þess vegna ómetanlegt, að menn á borð við AÞJ bjóði sig fram til að stíga á bremsurnar á Alþingi, þegar vafasöm mál fyrir mannréttindi, atvinnufrelsi einstaklinga og lögaðila, svo og fullveldi þjóðarinnar, fljóta á fjörur Alþingis.  Efld varðstaða á þingi um grundvallarréttindin og Stjórnarskrána er landsmönnum nauðsyn.

"Arnar Þór segir, að hann hafi ekki talið sig geta skorazt undan því að tjá sig um þriðja orkupakka ESB.  "Ég tel reyndar, að það mál sé, hvernig sem á það er litið, hvort sem það er lagalega, stjórnskipulega eða lýðræðislega, mjög sérstaks eðlis.  Ég taldi og tel ennþá, að það hefði verið ábyrgðarlaust af mér að sitja hjá og taka ekki þátt í umræðunni."

Hann rifjar upp, að kveikjan að því hafi verið ýmiss konar afflutningur um orkupakkann, innleiðingu hans og réttaráhrif, sem og fullyrðingar um, að hann stæðist þau skilyrði um fullveldisframsal, sem lögð höfðu verið til grundvallar aðildinni að EES á sínum tíma. 

Arnar Þór segir, að sér virðist sem hagsmunagæzla Íslands hafi verið í molum, þegar kom að orkupakkamálinu.  "Það var enginn í markinu, þegar málið fór fyrir sameiginlegu EES-nefndina, og boltinn lak inn.  [Sama má segja um umfjöllun þingnefnda Alþingis á undirbúningsstigum málsins og undirbúningsviðræður EFTA-landanna í orkunefnd EFTA og Fastanefnd EFTA, þar sem afstaða EFTA-landanna er mótuð áður en málin fara til téðrar nefndar, þar sem ESB líka á fulltrúa - innsk. BJo.]" Íslendingar verði að standa vaktina betur.  "Þá virðist mér, að stjórnmálamennirnir hafi talið sig hafa þyngri skyldum að gegna gagnvart erlendum kollegum sínum og mögulega erlendum stofnunum en kjósendum sínum.  [Þrýstingur frá norsku stjórnsýslunni skein í gegn í umræðunum, og því var beinlínis haldið fram, að Ísland mundi skaða hagsmuni Noregs með því að hafna OP3. Það var fjarstæða. Á fyrri stigum hefðu fulltrúar Íslands átt að fá undanþágur frá gerðum og tilskipunum, sem vörðuðu ACER og millilandaviðskipti með orku.  Slíkt hefði ekki snert Noreg - innsk. BJo.]" 

Arnar Þór segir þetta mál hafa vakið sig til umhugsunar um stöðuna.  "Hagsmunagæzla Íslands gagnvart ESB var augljóslega ekki í lagi, og því meira sem ég hef skoðað þetta, sýnist mér blasa við, að framsal á íslenzku ríkisvaldi hafi gengið allt of langt", segir Arnar Þór.  Hann segir ákveðna þöggun ríkja um það ástand.  

"Ég tel, að Ísland standi frammi fyrir mestu stjórnskipunarkrísu og lýðræðiskreppu, sem nokkurt vestrænt lýðræðisríki hefur glímt við frá stríðslokum.  Við erum komin í samstarf, þar sem okkur er veittur aðgangur að ákveðnum markaði gegn þeim skiptum, að erlendir aðilar setji okkur lög og taki ákvarðanir fyrir almenning og fyrirtæki hér í sívaxandi mæli.  Og þegar það er svo komið, að erlendir aðilar eru jafnvel farnir að seilast í ítök yfir náttúruauðlindum okkar, verða Íslendingar að fara að vakna af þyrnirósarsvefni og taka til ýtrustu varna", segir Arnar Þór.  "Við núverandi ástand verður ekki unað." "  (Undirstr. BJo.)

Þessi viðvörunarorð verður að taka alvarlega, og þau verðskulda að hljóma innan veggja Alþingis, þar sem efla þarf þann hóp manna, sem lítur málin svipuðum augum og Arnar Þór og er líklegur til að bregðast við "mestu stjórnskipunarkrísu og lýðræðiskreppu" með þeim ráðum í hópi félaga, sem til úrbóta duga. 

Mjög svipuð viðhorf og AÞJ lýsir eru uppi í Noregi, og þar hafa einnig mikilsvirtir fræðimenn á sviði lögfræðinnar lagt orð í belg.  Það blasir við, að íslenzk og norsk stjórnvöld móti með sér sameiginleg stefnumið eftir kosningar í báðum löndum í haust í viðræðum við framvæmdastjórn ESB um endurskoðun á EES-samninginum til að draga úr langvinnum deilum í báðum löndunum um fyrirkomulag, sem átti í upphafi að vera til bráðabirgða, einhvers konar forleikur að fullri aðild að Evrópusambandinu.

Í lok þessa viðtals við Arnar Þór kom fram, að hann hefur komið auga á slæma veikleika íslenzka menntakerfisins.  Menntamálaráðherrann núverandi blaðrar út og suður, en gerðir hennar eru yfirleitt ekki til að hrópa húrra yfir.  Síðasta hálfkákið hjá henni var að heykjast á að draga úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði til að auka tekjuöflunarmöguleika einkarekinna fjölmiðla.  Í stað þess beit hún í sig ríkisofþenslulausn, þ.e. að veita þeim ölmusu úr ríkissjóði.  Það bar ekki vott um hugrakkan stjórnmálamann, eins og hún hefur hælt sér fyrir að vera.  Lok viðtalsins:

""Við Íslendingar berum ein ábyrgð á framtíð okkar. Við eigum gríðarlegra hagsmuna að gæta í að kalla ungt fólk til starfa, þar sem hæfileikar þess nýtast sem bezt, og til þess þarf að gera talsverðar umbætur í menntamálum."  Hann segir, að drengir eigi undir högg að sækja í grunnskólakerfinu og að mikið áhyggjuefni sé, þegar stór hluti grunnskólanemenda útskrifist illa læs. 

Íslenzk lög eiga að vera sett með íslenzka hagsmuni að leiðarljósi.  Þá vil ég verja tjáningarfrelsið og leiða umræðu um mikilvægi þess, að við nýtum styrkleika okkar, treystum hvert öðru og byggjum þannig upp gott samfélag.""

 Sú óeðlilega staða er uppi, að talsverður hluti lagasetningar hérlendis á sér alls engar rætur hérlendis, heldur er hún reist á hugmyndafræði embættismanna ESB um vöxt og viðgang Evrópusambandsins og jafnvel þróun þess til sambandsríkis. Þetta höfum við undirgengizt með aðild landsins að EES, þar sem fjórfrelsið gengur framar öðru í lagalegu tilliti.  Þegar framkvæmdastjórn ESB merkir lagasetningu Sambandsins sem "EEA relevant", þ.e. viðeigandi fyrir EES, hefur í umfjöllun EFTA um slík mál ekki verið í nægilega ríkum mæli tekið tillit til sérstöðu Íslands sem eyjar langt norður í Atlantshafi, t.d. án samtengingar við raforkukerfi ESB, en bæði Noregur og Liechtenstein hafa slíkar tengingar.  Það er nauðsynlegt að fá á Alþingi trausta talsmenn, sem eru miklu gagnrýnni á innleiðingu ESB-löggjafar en þar hafa verið síðan vinstri stjórnin framdi það glapræði með hjálp "handjárna" að fá Alþingi til að samþykkja, að sú ríkisstjórn mundi senda umsókn um aðildarviðræður til framkvæmdastjórnar ESB. 

Hér er við hæfi að vitna til 12. atriðis af 20 í Morgunblaðsgrein Arnars Þórs Jónssonar 3. apríl 2021:

"Útgangspunktar og forsendur til íhugunar":

  • "Klassískt frjálslyndi ber að verja gagnvart ógn gervifrjálslyndis, sem misvirðir grundvöll vestræns lýðræðis.  Gervifrjálslyndi virðir ekki einstaklinginn, heldur einblínir á hópa og ýtir  þannig undir hjarðhegðun.  Gervifrjálslyndi treystir ekki dómgreind einstaklingsins, en vill, að sérvalinn hópur stjórni, ritskoði og hafi eftirlit."   Klassískt frjálslyndi er reist á virðingu fyrir frelsi einstaklingsins til orðs og athafna og jöfnun tækifæra einstaklinganna í landinu án tillits til uppruna eða búsetu.  Hver er sinnar gæfu smiður.  Þetta felur í sér lýðræðislegan rétt einstaklinganna til að velja sér fulltrúa á löggjafarsamkundu, sem setur honum lög.  Þessi réttur hefur verið útþynntur með því að innleiða hér stóra lagabálka, sem hafa áhrif á daglegt líf borgaranna og starfsemi fyrirtækjanna.  Það er ekki í anda lýðræðishugmyndarinnar um, að ákvarðanir skuli taka sem næst íbúunum af fulltrúum, sem standa ábyrgir gerða sinna gagnvart þeim.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur með skýrasta hætti allra stjórnmálaflokkanna í landinu komið til móts við óskir margra um persónubundnar kosningar með því að efna til prófkjörs í öllum kjördæmum landsins um röðun í efstu sæti D-listans í hverju kjördæmi.  Þetta er í anda klassísks frjálslyndis um jöfnun tækifæra.  Nú gefst nýju fólki kostur á að spreyta sig og auðga flokkinn nýju lífi með sínum áherzlum.  Ætla má, að ekki aðeins flokksfólkið, heldur og aðrir kjósendur margir hverjir kunni að meta þessa lýðræðislegu aðferð, sem þannig er líkleg til að verða flokkinum til framdráttar í komandi Alþingiskosningum. 

Listakjör

 

 

 

 


Brýn skilaboð

Seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, talaði tæpitungulaust í prýðisviðtali við Hörð Ægisson í Markaði Fréttablaðsins 20. maí 2021.  Báðir hafa þeir tileinkað sér rökrétta og gagnrýna hugsun, og þess vegna fá skilaboð Seðlabankastjóra þunga vigt.  Á þessu undirbúningsstigi fyrir skipun framboðslista í Alþingiskosningum í haust hefur annar maður kveðið sér hljóðs á grundvelli rökréttrar og gagnrýninnar hugsunar, en það er Arnar Þór Jónsson, dómari, sem býður sig fram í 2.-3. sæti á lista sjálfstæðismanna í Kraganum.  Verður líka vitnað í hann í þessum pistli.

Viðtalsgrein Harðar bar heitið:

"Getum ekki lifað í einhverri hliðarveröld".

Hún hófst þannig:

"Vaxtahækkunarferli Seðlabankans er hafið, en hversu hratt það verður, fer eftir verðbólguþróuninni.  Seðlabankastjóri vill, að ríkið fari að draga sig í hlé og varar við hröðum vaxtahækkunum, verði ákall um frekari launahækkanir.  Auðvelt [er] að eyðileggja samkeppnisstöðuna."

Óhætt er að segja, að Seðlabankastjóri segi ríkisstjórninni til syndanna fyrir lausbeizlaða fjármálastjórnun og skuldasöfnun, sem nú þurfi að fara binda enda á, enda atvinnulífið að taka við sér, og spáð er 3,1 % hagvexti í ár og 5,2 % hagvexti 2022. Hann hrósar ríkisstjórninni þó fyrir að hafa deyft höggið, sem á mörgum launþegum og fyrirtækjum reið vegna sóttvarnarráðstafana yfirvalda hér og erlendis, en nú sé tími kominn til að snúa við blaðinu.  Verkalýðsleiðtogum, sem grafi undan efnahag almennings með launakröfum, sem reistar eru á sandi, þ.e. helberu óraunsæi, ef ekki einhverju enn verra, hótar hann bannfæringu í anda Jóns Arasonar, Hólabiskups, en uppreisn hans gegn Danaveldi á Íslandi gerði Seðlabankastjóri frábær skil í nýlegri bók sinni.

""Það er engin framtíð í því fyrir landið að ætla að búa til hagvöxt með skuldsetningu og opinberum útgjöldum.  Það er mun æskilegra, ef okkur farnast að búa til þannig aðstæður, að ný störf skapist í einkageiranum með hagstæðum fjármögnunarskilyrðum og þannig örva fjárfestingu í atvinnulífinu.  Það er hin eðlilega leið að mínu viti, og þess vegna verður ríkið að fara að stefna að því að draga sig í hlé og minnka hallareksturinn", segir Ásgeir Jónsson í viðtali við Fréttablaðið." 

Ríkisvaldið er ekki lengur þrískipt á Íslandi, heldur fjórskipt, þar sem Seðlabankinn hefur mikið sjálfstæði gagnvart framkvæmdavaldinu til athafna að þýzkri fyrirmynd.  Slíkt gafst Þjóðverjum prýðilega, á meðan die Deutsche Mark var og hét, og nú virka fjármálatól Seðlabankans vel á Íslandi, en fulltrúar die Bundesbank eru nú oftast í andófi gegn meirihluta bankastjórnar ECB, evrubankans. 

Nú virðast endurráðningar vera að hefjast í ferðageiranum, og nýting gististaða vex með hverri vikunni, svo að tímabært er nú að hægja á lántökum  ríkissjóðs vegna atvinnulífsins.  Annars mun hægja á endurreisninni vegna áframhaldandi hækkunar vaxta.

Launin eru aðalkostnaðurþáttur margra fyrirtækja, ekki sízt í ferðaþjónustu.  Launakostnaður er einna hæstur hér í heiminum sem hlutfall af verðmætasköpun fyrirtækjanna.  Þetta minnkar svigrúm þeirra til fjárfestinga og til framleiðniaukningar.  Nú ber nauðsyn til að fylgja fordæmi hinna Norðurlandanna og láta útflutningsatvinnuvegina gefa tóninn varðandi svigrúm til launahækkana.  Seðlabankastjóri er ómyrkur í máli:  

""Ef við erum t.d. að fara að sjá ákall um launahækkanir til að bregðast við minni kaupmætti vegna aukinnar verðbólgu, þá verður Seðlabankinn neyddur til þess að bregðast við strax.  Það er engin spurnig", útskýrir Ásgeir."  

Agaleysi verkalýðsfélaga og Alþýðusambands getur hæglega leitt til mjög versnandi lífsskilyrða í landinu og áframhaldandi fjöldaatvinnuleysis.  Það er einfalt lögmál framboðs og eftirspurnar á vinnumarkaði.  ASÍ getur ekki haldið áfram á braut þess ábyrgðarleysis að krefjast áframhaldandi lántöku ríkissjóðs til að fjármagna hærri atvinnuleysisbætur.  Alþýðusambandið hefur engan siðferðislegan rétt til að krefjast þess, að byrðunum verði velt yfir á framtíðina í stað þess að leggja lóð sín á vogarskálar samkeppnishæfs atvinnulífs, sem skapar öllum, sem vilja vinna, vinnu.  

Seðlabankastjóri hélt áfram:

"Það er orsakasamband á milli launa og verðbólgu, og það sama má segja um ríkisútgjöldin, en það liggur fyrir, að hið opinbera hefur verið á útopnu til að bregðast við efnahagslegum áhrifum farsóttarinnar."

Menn geta rétt ímyndað sér, hvernig verðbólguþróunin væri hér, ef Ísland væri í ESB og hefði þar af leiðandi orðið að taka upp evru.  Stjórn peningamála landsins væri í höndum evrubankans í Frankfurt am Main og stýrivextir þar með við 0.  Stjórnendur þar á bæ mundu ekki skeyta nokkurn skapaðan hlut um það, þótt húsnæðisverð ryki hér upp úr öllu valdi knúið áfram af ódýru lánsfé og lóðaskorti aðallega í boði óhæfs meirihluta borgarstjórnar undir forystu Samfylkingar.  Þá (við Main-fljótið í Hessen) mundi heldur ekkert varða um það, þótt verkalýðsfélögin á Íslandi heimtuðu hækkun launataxta til að vega upp á móti mikilli verðbólgu.  Þeir gætu hins vegar gert athugasemd við hækkun skulda ríkissjóðs umfram 60 % af VLF, þótt hærra skuldahlutfall sé nú fremur regla en undantekning á evrusvæðinu þrátt fyrir Maastricht-skilmálana.  Án þess að beita öflugum tólum peningamálastjórnunar, væri hérlendis ríkjandi óstöðugleiki í verðlagsmálum, og samkeppnishæfni atvinnuveganna væri þar af leiðandi í hers höndum.

"Þegar rætt er um ábyrgð aðila vinnumarkaðarins á þeirri stöðu, sem nú er að teiknast upp, bætir Seðlabankastjóri því við, að þeir verði að átta sig á því, "að við getum ekki lifað í einhverri hliðarveröld hérna á norðurhveli jarðar með því að hækka launin á allt öðrum hraða en aðrar þjóðir og telja okkur síðan trú um, að það hafi ekki afleiðingar fyrir verðbólgu og gengisstöðugleika.  Þetta er einhver séríslenzk hugsun, sem hefur margoft sýnt sig, að gengur ekki upp."" 

Þetta eru einföld sannindi, en vandinn er sá, að  skammtíma hugsun virðist vera ráðandi í verkalýðshreyfingunni í stað þess að hugsa um, hvað þjónar bezt hagsmunum félagsmanna verkalýðsfélaganna til langs tíma.  Samt er margbúið að reyna að leiða verkalýðsleiðtogunum fyrir sjónir, hvers konar vinnubrögð gagnast skjólstæðingum þeirra bezt. Einhvers konar pissukeppni virðist vera í gangi á milli þeirra um það, hver treystir sér til að ganga lengst í vitlausum og ábyrgðarlausum málflutningi og gerðum.  Það er miður, að efnahagslögmál og heilbrigð skynsemi skuli vera litin hornauga á þeim bæ.

Nú setur Seðlabankastjóri hnefann í borðið og hótar að grípa til sinna ráða, ef verkalýðsleiðtogarnir láta sér ekki segjast.  Munu þá renna á þá tvær grímur ?

Óveðursský eru úti við sjóndeildarhringinn:

""Ef það verður ekkert lát á hallarekstri ríkissjóðs eftir lok farsóttarinnar eða við sjáum áframhald á launahækkunum, sem eru margfaldar á við það, sem þekkist í öðrum löndum, þá er ljóst, að það verður auðvelt að eyðileggja þá góðu samkeppnisstöðu, sem við njótum núna", segir Seðlabankastjóri."

Lok þessa merka viðtals, sem sýndi okkur skriftina á veggnum, hljóðuðu þannig:

"Sjálfstæð peningastefna hefur létt mikið á ríkisfjármálunum og þannig sparað skattgreiðendum háar fjárhæðir.  Að öðrum kosti hefði ríkissjóður þurft að vera einn með fótinn á bensíngjöfinni - og eyða því enn meiri peningum í því skyni að reyna að ýta undir eftirspurn og örva hagkerfið", segir seðlabankastjóri og furðar sig á því, að þetta sé ekki haft í huga, þegar stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir að hafa ekki beitt ríkisfjármálunum af enn meiri krafti en samt var gert."

Það er Samfylkingin, sem ekki hefur skilið þetta samspil og lagt til aukin ríkisútgjöld.  Ljóst er af eldræðu Seðlabankastjóra, að stjórnvalda, löggjafarvalds, framkvæmdavalds og Seðlabanka, bíða erfið viðfangsefni á næsta kjörtímabili.  Þá þarf að skapa skilyrði öflugs hagvaxtar, ná jafnvægi í opinberum rekstri, hefja lækkun skulda og tryggja samkeppnishæfni atvinnuveganna. Öruggast er þá, að þingflokkur sjálfstæðismanna stjórni för.  Borgaraleg ríkisstjórn er bezt hæf til að fást við þessi verkefni, og til þess að auðvelda myndun hennar þarf Sjálfstæðisflokkurinn að hljóta gott brautargengi, talsvert betra en síðast.

 Til að auðvelda nýju fólki að styðja flokkinn, er affarasælt fyrir hann að tefla fram fullveldissjónarmiðum og viðhorfum um mikilvægi lýðræðislegra ákvarðana sem næst kjósendum í þeim anda, sem Arnar Þór Jónsson, frambjóðandi í 2.-3. sæti D-listans í Kraganum, hefur verið óþreytandi við að boða.  Er þá ekki úr vegi að líta á atriði, sem hann birti í Morgunblaðinu 3. apríl 2021:

  • "Allt vald þarf að tempra, embættisvaldið ekki sízt."  Forræðishyggjan hefur riðið húsum á kjörtímabilinu. Frumvarp um þjóðgarð á allt að 40 % af flatarmáli landsins, s.k. Miðhálendisþjóðgarð, er dæmi um tilhneigingu til miðstýringar, sem er algerlega óþörf og aðför að skynsamlegri nýtingu náttúrunnar.  Þá hefur mörgum ofboðið stjórnfyrirkomulag sóttvarna, þar sem skort hefur á heildarsýn. Dæmi eru að koma fram hér og annars staðar um skaðlegar afleiðingar þröngsýnnar sóttvarnarstefnu. 
  • "Virða ber sérhvern mann og meta út frá orðum hans og athöfnum, en ekki á grundvelli útlitseinkenna, kynferðis, kynhneigðar o.fl."  Hver er sinnar gæfu smiður.  Öllum á að gera kleift að ná þeim þroska, sem hugur þeirra og geta stendur til.  Þannig tryggjum við bezt streymi hæfileika á milli stétta, sem lágmarkar stéttaskiptingu í landinu. Teikn eru á lofti um, að vaxandi stéttaskiptingar gæti í landinu á milli aðflutts fólks af erlendu bergi brotnu, sem vilja setjast hér að, og borinna og barnfæddra Íslendinga.  Sumpart kann þetta að stafa af of miklum straumi útlendinga til landsins á skömmum tíma.  Það er sérstaklega mikilvægt, að börnum innflytjenda gefist kostur á því námi, sem hugur þeirra og geta stendur til. 
  • ""Merkimiðastjórnmál" (e. identity politics) bjóða þeirri hættu heim, að menn taki sér siðferðilegt vald yfir öðrum, brennimerki fólk eins og sauðfé, útiloki og dragi menn í dilka sem "seka" og "saklausa", þar sem sérvöldum einkennum er beitt til alhæfinga, ásakana og sakfellinga.  (Saga 20. aldar ætti að hafa kennt okkur að varast fólk, sem talar á síðastnefndum forsendum.)"   Eins og AÞJ bendir á, er þetta hvimleiða fyrirbrigði í umræðunni ekki nýtt af nálinni, en á okkar dögum hefur aukið úrval tjáningarmöguleika gert þessa undirmálsumræðu meira áberandi en áður. Þeir, sem halda henni uppi, eru oftar en ekki haldnir andlegum skavönkum, en sagan sýnir, að einnig þeir geta við vissar þjóðfélagsaðstæður haft áhrif á talsverðan fjölda.  Grunnhygni, tómleiki og andleg vesöld leynir sér þó sjaldnast. 
  • "Lýðræðið grundvallast á því, að sérhver einstaklingur sé metinn að verðleikum, en ekki sem hluti af hópi."     Það er margþekkt að sigla undir fölsku flaggi og að leika tveimur skjöldum.  Slíkt er óheiðarlegt atferli og skapar vantraust á viðkomandi, þegar upp kemst.  Þá má hafa þessi orð AÞJ í huga, þegar sóttvarnaraðgerðir eru metnar.  Þær hafa komið mörgum mjög illa, t.d. öðrum sjúklingum en C-19 sjúklingum, nemendum, mörgum launþegum og lögaðilum, andlega veikburða fólki o.fl.  Heilsufarslegar afleiðingar þessara aðgerða eru þess vegna af margvíslegu tagi.  Þess vegna þarf að líta vítt yfir sviðið, þegar stórfelldum frelsisskerðingum er skellt á einstaklingana í nafni sóttvarna hópa (t.d. aldraðra) eða heildarinnar.  
  • "Lýðræðið hvílir á þeirri forsendu, að við verjum klassískt frjálslyndi, sem viðurkennir málfrelsi, fundafrelsi og frelsi til skoðanaskipta, þ.m.t. frelsi okkar og getu til að skipta um skoðanir."   Þetta eru mannréttindi, sem fjarri fer, að öllum þjóðum hafi hlotnazt, eins og allir vita. Órjúfanlega tengd þessum mannréttindum virðast vera atvinnufrelsi, þ.e. frelsi til að stunda þá starfsemi, sem hugurinn girnist og ekki er bannaður eða háður leyfisveitingum með málefnalegum rökum, t.d. á grundvelli mannhelgi, heilsufars eða sjálfbærni.  Heilbrigð atvinnustarfsemi og frjálst framtak virðast ennfremur þurfa að njóta verndunar eignarréttarins og löggjafar, sem stuðlar að frjálsri samkeppni og hófsamri skattheimtu.  Við þetta má bæta atvinnulöggjöf, sem temprar átök á vinnumarkaði og möguleika aðila vinnumarkaðarins til kúgunar í því skyni að fá kröfum sínum framgengt.  Íslenzka vinnulöggjöfin er barn síns tíma frá kreppuárunum fyrir Síðari heimsstyrjöld og þarfnast endurskoðunar eða aðlögunar að nútímanum með hliðsjón af vinnumálalöggjöf hinna Norðurlandanna.        

 

 

 

 

 


Ferskur vorblær í stjórnmálunum

Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, býður sig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi (Kraganum) á þessu vori.  Þetta er mikið fagnaðarefni þeim, sem sakna umræðna og afstöðu til grundvallar stjórnmálanna, einstaklingsfrelsis, hlutverks ríkisins og síðast, en ekki sízt, stöðu Íslands á meðal þjóðanna. 

Áhugi á meðal almennings í þessa veru er ekki einsdæmi á Íslandi.  Hann er t.d. ríkur í Noregi, þar sem mikil umræða á sér stað um afstöðu Noregs til Evrópusambandsins (ESB), en eins og gildir um Ísland og Liechtenstein, fara samskipti Noregs við ESB í höfuðdráttum fram á vettvangi Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Í Noregi og á Íslandi eru efasemdir á meðal leikra og lærðra, þ.e. löglærðra og hinna, um það, hvort innleiðing sumra gerða (tilskipana og reglugerða), þar sem framsal ríkisvalds til stofnana ESB á sér stað, brjóti í bága við stjórnarskrár ríkjanna eða ekki.  Er deila um réttmæti afgreiðslu 3. orkupakka ESB (OP3) í Stórþinginu nú til úrlausnar í dómskerfi Noregs. 

Frost, lávarður, sem leiddi samninganefnd Bretlands í útgönguviðræðunum við ESB, sagði nýlega, að nú væri Bretum brýnast að einfalda opinbert regluverk fyrir  atvinnulífið, sem að megninu til er komið frá Brüssel (ESB), og jafnhliða ættu embættismenn brezku stjórnsýslunnar að venja sig af að hugsa eins og embættismenn ESB. Þetta er mjög umhugsunarvert fyrir EFTA-þjóðirnar í EES, sem taka gagnrýnilítið við löggjöf Evrópusambandsins á vettvangi EFTA og síðan í Sameiginlegu EES nefndinni, þar sem ESB á líka fulltrúa, en þar er ákveðið, hvað innleiða skal.  

Þetta átti t.d. við um OP3, þótt hlutverk hans sé aðallega að fá stjórnun orkuflutninga (rafmagns, olíu og gass) á milli EES-landanna í hendur Orkustofnun Evrópusambandsins - ACER og framkvæmdastjórn ESB. Spyrja má, hvort einhver rökrétt ástæða hafi verið til að innleiða nánast allan OP3 á Íslandi í ljósi þess, að engar slíkar lagnir liggja til Íslands, og stjórnvöld hafa opinberlega engin áform um að samþykkja slíkar tengingar við Ísland. 

Þegar svona er í pottinn búið, er eðlilegt, að margir fyllist tortryggni um, að fiskur liggi undir steini.  Hins vegar setti Alþingi m.a. það skilyrði við lögleiðingu OP3 að áskilja samþykkt Alþingis fyrir tengingu aflsæstrengs við íslenzka raforkukerfið.  Þótt áhöld séu um, hvort þetta afbrigði við innleiðingu ESB löggjafar sé í samræmi við EES-samninginn og haldi fyrir EFTA-dómstólinum, er ákvæðið þó góðra gjalda vert og óbeinn afrakstur andófs "Orkunnar okkar" o.fl. við OP3. 

Arnar Þór Jónsson (AÞJ) hefur einmitt fjallað um útþynningu lýðræðisins við innleiðingu löggjafar ESB, sem Alþingismenn hafa nánast engin áhrif á, þegar hún er mótuð, enda er hún á engan hátt sniðin við  íslenzkar aðstæður. Það er andstætt lýðræðislegri hugsun, að löggjöf sé tekin hrá upp erlendis frá og lögleidd hér á færibandi.  Með þessu má segja, að Alþingi sé breytt í stimpilstofnun og löggjafarvaldið fært í hendur erlendra embættismanna. Þetta fyrirkomulag grefur undan þingræðinu.

Bretar vildu ekki taka upp þetta kerfi eftir útgönguna, þ.e. ganga í EES, heldur stefna þeir á að gera víðtækan fríverzlunarsamning við ESB.  Spurningin er fyrir EFTA þjóðirnar, hvort ekki fari að verða tímabært að óska viðræðna við framkvæmdastjórn ESB um endurskoðun EES-samningsins. Auðvitað verður að fara að öllu með gát og skipulega, því að miklir viðskiptahagsmunir eru í húfi. 

Eftir Stórþingskosningar í haust er líklegt, að í Noregi verði þingmeirihluti fyrir ríkisstjórn, sem setur a.m.k. alvöru valkostagreiningu í þessum efnum á dagskrá sína, enda er óánægja með núverandi framkvæmd EES-samningsins að magnast í Noregi, ekki sízt innan verkalýðshreyfingarinnar, sem þykir áunnin réttindi sinna félagsmanna fyrir borð borin við innleiðingu ýmissa gerða ESB. Ef norska alþýðusambandið verður afhuga EES-aðild Noregs, mun norski Verkamannaflokkurinn í kjölfarið söðla um til samræmis.  

AÞJ hefur ritað bækur um hugðarefni sín, t.d. "Lög og samfélag", sem gefin var út árið 2016 af Háskólanum í Reykjavík og Háskólaútgáfunni.  Þá hefur hann ritað greinar í tímarit, t.d. Þjóðmál, og í Morgunblaðið.  Ein slík birtist þar 3. apríl 2021 undir fyrirsögninni:

      "Útgangspunktar og forsendur til íhugunar".

Hún gefur í stuttu máli allgóða mynd af hugmyndafræði og boðskap þessa frambjóðanda í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kraganum að þessu sinni.  Það er mat höfundar þessa vefseturs, að gagnrýnin og rökföst hugsun AÞJ geti orðið Sjálfstæðisflokkinum til heilla og bætt vinnubrögð þingflokks sjálfstæðismanna án þess, að kastað sé rýrð á núverandi þingflokk.  Hér verða tíundaðir 6 fyrstu punktar AÞJ:

  1. "Lýðræðisbarátta - og sjálfstæðisbarátta - okkar tíma snýst um að verja innviði og auðlindir þjóða gagnvart ásælni erlends valds.  Þetta verkefni snýst um að verja grunnstoðir velsældar og almannahags."  Íslendingar munu varla nokkurn tímann samþykkja að gangast undir CAP-sameiginlega landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB af þessum ástæðum, því að samkvæmt Hvítbók Framkvæmdastjórnarinnar um þessi mál er ætlunin að bjóða fiskimiðin innan lögsögu ESB-landanna upp, og geta þá útgerðir ESB-landanna boðið í fiskveiðikvótana.  Útgerðir ESB-landanna eru margar hverjar stærri en þær stærstu íslenzku, svo að íslenzku útgerðirnar mundu áreiðanlega missa vænan spón úr aski sínum.  Þessi uppboðsstefna er einmitt sú, sem ESB-flokkarnir, Viðreisn og Samfylking, boða hérlendis.  Það var lán, að sjávarútvegsmál voru undanskilin valdsviði EES-samningsins.  Það voru orkumálin hins vegar ekki, og þess vegna krafðist ESA-Eftirlitsstofnun EFTA þess í byrjun síðasta áratugar, að vatnsréttindi ríkisins, aðallega Landsvirkjunar, yrðu leigð út á markaðskjörum á Evrópska efnahagssvæðinu.  Stjórnarráðið framdi þau hrapallegu mistök árið 2016 að fallast á allar röksemdir ESA og kröfugerð.  Þegar norska ríkisstjórnin fékk sams konar kröfugerð ESA 2019, var henni hafnað samstundis.  Ekki er ljóst, hvort samþykktarbréf íslenzku ríkisstjórnarinnar frá 2016 hefur verið dregið til baka.  Af þessu sést, að þörf er fullrar aðgæzlu í viðskiptunum við ESB og ESA.
  2. "Á slíkum tímum höfum við þörf fyrir sjálfstæða einstaklinga og sjálfstæða hugsun.  Annars getum við ekki verið sjálfstæð þjóð."  Það kom í ljós árið 2016, að botninn var þá suður í Borgarfirði hjá ráðherrum og utanríkisráðuneyti, þegar að sjálfstæðum einstaklingum og sjálfstæðri hugsun kom.  Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að AHJ leggur áherzlu á þetta til að varðveita sjálfstæði þjóðarinnar. 
  3. "Sem sjálfstætt ríki á Ísland að vera fullgildur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi eftir því, sem við á, og hafa rödd, en ekki vera þögull og óvirkur farþegi eða strengjabrúða."  Íslandi tókst vel upp á sviði hafréttarmála og leiddi þróun alþjóðaréttar að mörgu leyti á því sviði.  Landvörnum landsins er vel fyrir komið með herverndarsamningi við Bandaríkin og aðild landsins að NATO. Landið er með fjölmarga fríverzlunarsamninga við lönd um allan heim og stendur frammi fyrir gerð víðtæks fríverzlunarsamnings við Bretlands.  Fjölþætt samband landsins við meginland Evrópu fer fram samkvæmt samninginum um Evrópska efnahagssvæðið, EES, frá 1993, sem gildi tók 01.01.1994.  Sá samningur er einstakur að því leyti, að stöðugur straumur nýrrar löggjafar streymir frá ESB til lögleiðingar í EFTA-löndunum í EES, án þess að íslenzkir þingmenn komi þar að nokkru leyti að stefnumörkun.  Til Alþingis berst löggjöf til innleiðingar í íslenzka lagasafnið, sem ekki er hægt að réttlæta sem aðlögun að Innri markaði ESB, eins og t.d. lagabálkar um orkumál.  Þegar ofan á bætist valdframsal til stofnana ESB, hlýtur slíkur málatilbúnaður að valda deilum í landinu, enda jafnvel Stjórnarskrárbrot. Það er þess vegna æskilegt að leita af varfærni endurskoðunar á EES-samninginum, a.m.k. ef samstaða næst um það með Norðmönnum eftir haustkosningarnar í ár. 
  4. "ESB byggist ekki á grunni hefðbundins þjóðréttarlegs samstarfs, heldur gefur sig út fyrir að vera "sérstaks eðlis" (sui generis).  Reynslan hefur sýnt, að smáþjóðir hafa þar lítil sem engin áhrif."  ESB er yfirþjóðlegt ríkjasamband, sem Frakkar og Þjóðverjar ráða nú lögum og lofum í.  Forkólfar þessara þjóða stefna leynt og ljóst að því að endurvekja ríki Karlamagnúsar með stofnun sambandsríkis, en alþýða manna í þessum ríkjum eða annars staðar er ekki hrifin. Áður fyrr höfðu aðildarþjóðirnar neitunarvald í flestum málum, en þeim málaflokkum fækkar óðum, og atkvæðagreiðslur með vegnum atkvæðastyrk eftir íbúafjölda ryðja sér til rúms.  Það væri algert óráð fyrir Íslendinga að færa ráðstöfunarrétt náttúruauðlinda sinna til framkvæmdastjórnar ESB.
  5. "Sem fullvalda ríki á Ísland ekki að leyfa erlendum ríkjum, ríkjasamböndum eða stórfyrirtækjum að ráðskast með innri málefni íslenzka lýðveldisins."    Það er mikilvægt að gefa þessum orðum gaum.  Íslenzka utanríkisráðuneytið virðist stundum verða fyrir þrýstingi frá því norska vegna málefna, sem norsku ríkisstjórninni er í mun að fái framgang á vettvangi EFTA í EES.  Nýjast af þessum toga er sameiginleg yfirlýsing EFTA-ríkjanna í EES, sem er í skjalasafni norska stjórnarráðsins, en hefur ekki fengizt birt, um, að EFTA-ríkin fallist á einnar stoðar meðferð Járnbrautarpakka 4, sem þýðir, að járnbrautarmálum Noregs og Liechtenstein verður stjórnað frá ERA, ESB-stofnun fyrir járnbrautir, en ekki með milligöngu ESA.  Þá eru nokkur dæmi um inngrip ESA í íslenzk málefni, sem varða þjóðarhagsmuni, eins og krafa ESA um markaðssetningu vatnsréttinda í eigu ríkisins eða ríkisfyrirtækja.  Þetta mundi þýða uppboð vatnsréttinda innan EES.  Hið alvarlega í þessu máli er, að íslenzka ríkisstjórnin féllst á þetta 2016, en þegar norsku ríkisstjórninni barst sams konar krafa frá ESA nokkrum árum síðar, var henni einfaldlega hafnað, og batt núverandi ríkisstjórn þá sitt trúss á þann sama hest.  Nú er eftir að sjá, hvort ESA muni kæra Ísland og Noreg til EFTA-dómstólsins fyrir samningsbrot. Kann það að ráðast af dómi ESB-dómstólsins í svipuðu máli Framkvæmdastjórnarinnar gegn einum 8 vatnsorkulöndum í ESB. Þetta sýnir, hversu bráðnauðsynlegt er að vinna að hugarfarsbreytingu hérlendis á meðal stjórnmála- og embættismanna, þegar kemur að spurningum um fullveldi landsins.   
  6. "Lýðræðislega kjörnir fulltrúar eiga sjálfir að mæta þeirri ábyrgð og valdi, sem þeim hefur verið falið; ekki afhenda hlutverk sitt embættismönnum, sem svara ekki til lýðræðislegrar ábyrgðar."  Það er einkenni á vinnubrögðum ESB að draga völd úr höndum stjórnmálamanna aðildarlandanna og færa þau í hendur embættismanna Sambandsins.  Þetta smitar óhjákvæmilega yfir á EFTA-ríkin í EES.  Nægir að nefna sem dæmi Orkustjórann ("The National Energy Regulator"), en hérlendis var Orkumálastjóra falið að fara með þessi völd, sem eru umtalsverð samkvæmt Orkupakka 3 og aukast enn með Orkupakka 4, ef hann verður innleiddur hér, en nauðsynlegt er að rýna þörfina á því gaumgæfilega. Nýjasta dæmið er líklega fyrirkomulag stjórnar sóttvarna hérlendis.  Þegar tillögur Sóttvarnalæknis fela í sér meiriháttar inngrip í daglegt líf fólks og takmarkanir á starfsemi fyrirtækja, þá er augljóst, að líta verður til fleiri átta en sóttvarnanna einna við ákvarðanatöku.  Sóttvarnaráð hefur verið sniðgengið, en með nýrri sóttvarnalöggjöf ætti að endurskipuleggja það með þátttakendum, sem veita því breiða skírskotun í þjóðfélaginu, og það geri tillögur til ráðherra í sóttvarnaskyni.  

Eru stjórnvöld með á nótunum ?

Þann 6. maí 2021 mátti sjá sjaldgæfa sjón á 38. síðu Morgunblaðsins, þ.e.a.s. sameiginlega afurð Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, og Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, um iðnaðar- og orkumál.  Þeir virtust þarna taka höndum saman um gagnrýni á stjórnvöld orku- og iðnaðarmála í landinu fyrir sinnuleysi um umgjörð ríkisins fyrir þennan mikilvæga málaflokk fyrir hagvöxt og atvinnutækifæri í landinu. Þeir telja, að tregða stjórnvalda við að ryðja hindrunum úr vegi fjárfesta standi nú framförum á Íslandi stórlega fyrir þrifum.  Þetta er saga til næsta bæjar á kosningaári. Greinina nefndu þeir:

"Græn framtíð orkuvinnslu og iðnaðar".

Hún hófst þannig:

"Lausn loftslagsmála felst aðallega í þrennu.  Í fyrsta lagi að stórauka endurnýjanlega orkuvinnslu.  Í öðru lagi að minnka kolefnisspor framleiðslu og þar með neyzlu okkar með nýsköpun og nýjum eða breyttum framleiðsluferlum. Í þriðja lagi þarf að fanga og nýta eða farga þeirri kolefnislosun, sem eftir stendur.  Ótal tækifæri leynast á Íslandi til grænnar atvinnuuppbyggingar í tengslum við framangreindar lausnir, þ.á.m. fullkomið orkusjálfstæði landsins." 

Óstöðug raforkuvinnsla, mikil landþörf og landlýti eru megingallarnir við þær tvær aðferðir, sem flest lönd hafa aðeins úr að moða við raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkulindum, þ.e. raforkuvinnslu með vindmyllum og sólarhlöðum.  Skýjafar og stuttur sólargangur útilokar síðar nefndu aðferðina á Íslandi, nema í litlum, afmörkuðum mæli, og aðferð til að geyma orkuna og taka hana út, þegar þörf er á, er nauðsynleg í nútímasamfélagi til að vindorkan komi að fullum notum sem endurnýjanlegur orkugjafi.  Í vatnsorkulöndum er þetta hægt með því að spara vatn, þegar vindur blæs og ekki er þörf fyrir alla orkuna.

Hins vegar er þröskuldur umhverfisverndar mun hærri hér fyrir vindmyllur en víðast hvar annars staðar, af því að hérlendis spara vindmyllurnar ekkert jarðefnaeldsneyti.  Þá er landþörfin á hverja framleidda kWh á endingartímanum miklu meiri fyrir vindorkuver en okkar hefðbundnu vatnsorkuver og jarðgufuver, og það er gríðarlegur galli, sem framkallar árekstra við aðra hagsmuni. Þetta er viðkvæmt mál, því að meiri raunverulegir hagsmunaárekstrar ferðamennsku og útivistar eiga sér stað í tilviki vindorkuvera en vatnsorku- og jarðgufuvera. Ferðamenn dragast hinum síðar nefndu, en forðast vindorkuverin. Auk þess þarf að gefa gaum að áhrifum spaðanna á hljóðvist og fuglalíf í grennd og áhrif slits þeirra á efnamengun umhverfis.  Að öllu virtu liggur beinna við að anna aukinni orkuþörf atvinnulífs og heimila hérlendis með nýjum virkjunum vatnsafls og jarðgufu en með vindmyllum enn um sinn, enda vindmyllurnar vart samkeppnishæfar, hvað vinnslukostnað varðar.

Nú er svo komið, að vegna batnandi alþjóðlegra markaða eru verksmiðjur hér á leiðinni til fullnýtingar orkusamninga sinna, og þá verður ekkert eftir fyrir nýja notendur.  Það skýtur þess vegna skökku við málflutning forstjóra Landsvirkjunar um orkusjálfstæði landsins, að fyrirtækið skuli ekki nú vera að hleypa framkvæmdum við nýja, umtalsverða virkjun af stokkunum. Hvaða hindranir eru þar í veginum ?  Það þarf að tala og skrifa skýrt. 

Stöðugt er unnið að minnkun kolefnisspors í öllum atvinnugreinum á Íslandi, og mest hafur munað um iðnaðinn og sjávarútveginn, en landbúnaðurinn hefur einnig staðið sig afar vel. Réttust viðmiðana í þessum efnum er þróun losunar á framleidda einingu, og þar á sennilega áliðnaðurinn vinninginn, því að verkfræðingum og öðrum sérfróðum þar á bæ hefur tekizt að lágmarka spennuris (tíðni og tímalengd) í rafgreiningarkerunum, en við þau verða m.a. til gastegundirnar CF4 og C2F6, sem eru mjög öflugar gróðurhúsalofttegundir. 

Fleiri umbótaaðgerðir starfsmanna iðnaðarins hafa leitt í sömu átt, og það er ekki grobb að halda því fram, að fyrir tilstilli íslenzkra hugbúnaðarmanna og annarra sérfræðinga, rafgreina o.fl. íslenzku álveranna séu þau í fremstu röð í heiminum, hvað þetta áhrærir.  

Þriðja atriðið, sem höfundarnir nefna, föngun og förgun kolefnis, FFK, er algerlega vanþróuð enn og á sér tæplega nokkra framtíð í sinni núverandi mynd vegna mikillar auðlindaþarfar á hvert tonn CO2 á formi orku og vatns, sem endurspeglast í háum kostnaði við föngun og förgun hvers tonns CO2. 

Hjá ISAL í Straumsvík hyggja menn á tilraunir með föngun CO2 úr kerreyk reykháfanna og telja 20 USD/t CO2 efri mörk viðunandi kostnaðar.  Erlendis er þessi kostnaður jafnvel tvöfalt hærri.  Með heildarkostnað FFK á bilinu 40-70 USD/t CO2 er FFK hvorki samkeppnishæf við bindingu kolefnis með ræktun eða hreinlega við kolefnisfríar virkjanir, og það er engan veginn á vísan að róa með svo hátt gjald fyrir losunina af þessum ástæðum. Höfundarnir gera þessari vanburða og dýru aðferð allt of hátt undir höfði. 

"Tækifæri okkar byggjast á, að við eigum þegar öflugt orkukerfi með hverfandi kolefnisspor og lítið vistspor, en landnýting í þágu vinnslu og flutnings endurnýjanlegrar orku á Íslandi er í dag áætluð um 0,4 % af landinu.  Sambærilegt umfang er um 1,5-2 í Noregi og Danmörku."

Þessi tiltölulega litla landnotkun undir virkjanir, miðlunarlón og flutningslínur á Íslandi, sýnir í hnotskurn, hversu vel hefur verið staðið að þessum framkvæmdum m.t.t. lágmörkunar vistsporsins, þegar höfð er í huga sú staðreynd, að raforkuvinnsla á mann hérlendis er sú mesta, sem þekkist í nokkru landi.  Sú staðreynd myndar trausta undirstöðu lífskjara í landinu, enda er jákvætt samband á milli rafvæðingar lands, raforkunotkunar, hagvaxtar og lífkjara í hverju landi.

Þótt raforkunotkunin sé mikil að tiltölu, gefur lítil landnotkun til kynna, að landið þoli tvöföldun hennar, án þess að líða tiltakanlega fyrir í ásýnd lands m.v. hin Norðurlöndin, enda eru fleiri virkjanir og öflugra flutningskerfi raforkunnar frumforsenda þess, að hugmyndir stjórnvalda um orkuskipti geti orðið að raunveruleika.  Þetta var áréttað í Morgunblaðspistli iðnaðarráðherra 16.05.2021. Loftlínum fer mjög fækkandi á lægri spennustigum, og með hækkun 220 kV flutningsspennu í 400 kV má fjórfalda flutningsgetuna.

Að tiltölulega lítilli landnotkun var ýjað í grein Harðar og Sigurðar, en hrifning þeirra á vindorkuverum er illskiljanleg í ljósi kostnaðar, lélegrar nýtingar mannvirkja, mikillar og mjög lýtandi landnotkunar og mengunar af alvarlegu tagi (hljóð, efni). 

"Tækifæri okkar er að byggja á þessum öfluga grunni og bæta við orkukerfi okkar með áframhaldandi ábyrgri nýtingu íslenzkra orkulinda, ekki sízt vaxandi vindorku, aukinni grænni framleiðslu í núverandi og nýjum iðngreinum og nýtingu hugvits okkar og reynslu, sem getur orðið öðrum fordæmi um, hvernig bæta megi efnahagslega velsæld, samfélag og umhverfi."

Það er ofmetið, að við getum orðið öðrum þjóðum fyrirmynd.  Til þess eru aðstæður okkar of ólíkur aðstæðum annarra þjóða.  Hið bezta mál er þó, ef hægt er að flytja út tækniþekkingu á viðskiptalegum grunni til að virkja orkulindir náttúrunnar, en það getur aldrei skipt miklu máli, og skrýtið, að höfundarnir skuli nefna það.  Það er eins og kækur í stássræðum, einhvers konar gluggaskraut, að hér fljóti út úr vizkubrunni, þótt vel sé staðið að verki.

Höfuðatriðið á þessu sviði hérlendis núna er að hefja markvissan undirbúning að aukningu framboðs raforku með nýjum vatnsorkuverum og jarðgufuverum og hætta þessum gælum við stórkarlaleg mannvirki vindorkuvera, sem yrðu stórfellt lýti á landslaginu, eru dýr og óáreiðanleg. Ef hendur verða ekki látnar standa fram úr ermum, verður hér mikil hækkun raforkuverðs samkvæmt lögmálum framboðs og eftirspurnar, sem tefja mun framgang orkuskiptanna.  Framboð hitaveituvatns þarf líka að auka, svo að "kuldaboli" taki ekki völdin í mestu frosthörkunum, eins og óttazt var síðastliðinn vetur.  

"Stjórnvöld verða þó að vera hér í fararbroddi, tala fyrir tækifærum, framkvæma til samræmis og ryðja hindrunum úr vegi. 

Það eru sameiginlegir hagsmunir Landsvirkjunar og Samtaka iðnaðarins að benda á þau orkutengdu tækifæri, sem felast í grænni framtíð.  En við ætlum að gera meira.  Við ætlum saman að taka virkan þátt í að auka það, sem verður til skiptanna í samfélagi okkar.  Þar liggja sameiginlegir hagsmunir allra Íslendinga."

Þarna virðist koma fram sú raunverulega ætlun með þessari grein höfundanna tveggja að vera gagnrýni á sinnuleysi og aðgerðaleysi iðnaðarráðuneytisins. M.ö.o. finnst höfundunum forystu iðnaðarráðherra í orku- og atvinnumálum vera ábótavant.  Þeir eru ekki einir um þessa skoðun.  Þó er ekki skýrt kveðið á um í gagnrýni tvímenninganna, hverju þeir vilja, að ráðherrann beiti sér fyrir. 

Ráðherrann hefur haft forgöngu um myndun orkustefnu, sem sumum þykir þó vera rýr í roðinu, en það vantar hvata af hálfu hins opinbera, til að orkufyrirtækin gangi rösklega fram við virkjanaundirbúning.  Þvert á móti hvílir sá grámi yfir vötnunum, að þau bíði eftir orkuskorti, svo að þau fái ástæðu til að hækka orkuverðið.  Það mun auðveldlega gerast, eftir að Landsnet og Orkustjóri ACER á Íslandi hafa komið hér á laggirnar framboðs- og tilboðsmarkaði (uppboðsmarkaði) fyrir raforku að evrópskum hætti, en iðnaðarráðherra taldi það mundu verða búbót fyrir neytendur, þegar Orkupakki 3 var til umræðu.  Það á eftir að koma í ljós og verður e.t.v. látið bíða fram yfir Alþingiskosningar í haust. Frestur er á illu beztur.

"Heimurinn er nú á hraðferð inn í nýjan veruleika rafbíla, vetnisskipa og -flugvéla og annars græns samgöngumáta, og við eigum alla möguleika á að vinna matvæli og fisk með því að nýta grænu orkuna okkar."

Það er dæmalaus tvöfeldni af hálfu forstjóra Landsvirkjunar að eiga þátt í þessum skrifum í ljósi þess, að garðyrkjumenn hafa kvartað sáran undan stífni Landsvirkjunar í samningagerð um raforkuverð til ylræktunar.  Þar, eins og annars staðar, hefur Landsvirkjun hundsað upphaflegt hlutverk sitt um að sjá íslenzkum atvinnufyrirtækjum fyrir nægri og ódýrri raforku, sem þó að sjálfsögðu þarf að standa undir öllum kostnaði við framleiðslu, flutning og dreifingu. Lækkun raforkuverðs til fiskvinnslu mundi t.d. auka samkeppnishæfni hennar við aðrar evrópskar fiskvinnslur, sem mundi leiða til þeirrar æskilegu þróunar að auka hlutdeild fullunninnar vöru sjávarútvegsins í útflutningi.

Loksins er í bígerð hjá iðnaðarráðuneytinu að gera ráðstafanir til að skapa forsendur til lækkunar gjaldskráar Landsnets og til jöfnunar á gjaldskrám dreifingarfyrirtækjanna á milli þéttbýlis og dreifbýlis.  Slíkt er einfaldlega í anda þess að styrkja matvælaöryggi landsmanna og samkeppnishæfni atvinnulífsins almennt. Það er því vonum seinna, að þetta kemur fram.

"Öll okkar rafrænu samskipti kalla á vinnslu og vörzlu gagna í gagnaverum, sem þegar hafa risið hér, og getur sá iðnaður haldið áfram að vaxa og dafna með tilheyrandi útflutningstekjum og þekkingu fyrir þjóðarbúið.  Þessi græna framtíð kallar bæði á orkuvinnslu og uppbyggingu græns iðnaðar."

Þetta er hræðilegur moðreykur í ljósi þess, hvernig Landsvirkjun hefur komið fram við eigendur gagnavera hérlendis, og formaður samtaka þeirra hefur gert grein fyrir opinberlega.  Landsvirkjun hefur ekkert hlustað á þá um endurskoðun raforkusamninga í ljósi lækkunar raforkuverðs í nágrannalöndunum, sem leitt hefur til minni viðskipta og stöðnunar á sviði fjárfestinga í þessum geira hérlendis.  Fagurgali forstjóra  Landsvirkjunar er fullkomlega raunveruleikafirrtur. Þetta tengslaleysi við raunveruleikann nálgast siðleysi. Hvað gengur honum til ?  Hefur hann eða stjórn Landsvirkjunar söðlað um ? Mun Norðurál og umbylting steypuskála fyrirtækisins á Grundartanga fyrir allt að mrdISK 15 njóta góðs af því ?  Eiga ekki kjósendur, eigendur Landsvirkjunar, að fá haldbetri upplýsingar um framkvæmd orkustefnu iðnaðarráðherra en þessi óljósu reykjarmerki ? Svarið kemur í framhaldi greinar tvímenninganna hér að neðan.  Boltinn er í fangi iðnaðarráðherra samkvæmt þeim.  Þar ríkir ákvarðanatregða og forystuleysi, ef marka má höfundana.  Þá vita kjósendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi það, nema ráðherrann leiðrétti misskilning þeirra tvímenninga snarlega.

"Ekkert af þessu gerist, nema þau, sem halda um stjórnvölinn, séu sammála okkur um mikilvægi þess að stefna í þessa átt.  [Undirstr. BJo.]

Vissulega hafa mörg skref verið stigin á þeirri braut, en betur má, ef duga skal.  Við eigum í harðri  samkeppni við önnur lönd, sem einnig bjóða græna orku.  Sú samkeppni harðnar enn meira, nú þegar beizlun vinds og sólar verður enn algengari um allan heim, og saxar á forskotið, sem orka vatnsafls og jarðvarma tryggði okkur áður."

Óhjákvæmileg aðgerð hérlendis til að bregðast við þeirri harðnandi samkeppni, sem nú er um að selja raforku úr "grænum" orkulindum í heiminum, er að lækka arðsemiskröfur á hendur íslenzkra orkufyrirtækja, ekki sízt Landsvirkjunar, svo að fyrirtækin geti í senn lækkað verð sín og fullnægt kröfum eigendanna.  Einnig þarf að einfalda stjórnsýsluna um nýjar virkjanir, framkvæmdaleyfi og virkjanleyfi, sem flækjufætur hafa komizt í og skapað öngþveiti, sem leiðir til hás kostnaðar og orkuskorts, ef svo heldur fram sem horfir.  

Það blasir við, að Hæstiréttur veitti fordæmi um, hvernig meðhöndla á virkjanamannvirki m.t.t. álagningar fasteignagjalds "orkusveitarfélaga", þegar hann dæmdi Fljótsdalshreppi í vil gegn Landsvirkjun í deilumáli um Kárahnjúkavirkjun.  Þetta mun leiða til hærri rekstrarkostnaðar virkjanafyrirtækjanna, en líta má svo á, að verið sé að deila virkjanávinninginum með viðkomandi sveitarfélögum, sem hýsa þær, og það er eðlilegt, enda lækki arðgreiðslukrafa eigendanna á móti. 

Síðan koma hugleiðingar höfundanna um framtíðina, sem ekki verða skildar öðruvísi en svo, að sú græna framtíð, sem þeir þykjast vilja beita sér fyrir, geti ekki orðið að veruleika, nema stjórnvöld landsins taki til hendinni.  Þetta verður ríkisstjórnin að taka alvarlega og gera hreint fyrir sínum dyrum nú á kosningaári:

 "Erum við reiðubúin að taka á móti þeim, sem vilja byggja hér næstu gagnaver ?  Rafhlöðuverksmiðju til að mæta þörfum rafbílaframleiðenda ?  Stór gróðurhús, sem tryggja ferskt grænmeti allan ársins hring ?  Getum við tryggt aðstöðuna, orkuna, samstarf við önnur fyrirtæki, sveitarstjórnir og aðra hagaðila ?

Því miður skortir enn töluvert upp á.  Landsvirkjun er reiðubúin að mæta þessari áskorun, og það eru Samtök iðnaðarins og íslenzk iðnfyrirtæki líka.  En stjórnvöld verða að ryðja brautina, tryggja, að löggjöf sé með þeim hætti, að við missum ekki forskot okkar, hvort sem þar er rætt um skipulagsmál, umhverfismál, skattamál eða hvert annað atriði, sem snertir rekstur fyrirtækjanna.  Frumkvöðlar eru vissulega tilbúnir til að taka ýmsa áhættu og skapa grundvöll undir starfsemi sína, en það þarf að ryðja hindrunum úr vegi.  Ef við getum tryggt snör viðbrögð og fyrirsjánleika í rekstrarumhverfinu, eru allar líkur á, að hér byggist upp enn öflugri grænn iðnaður til framtíðar." [Undirstr. BJo.]

Halló, er iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ekki heima ?  Er allt froðusnakkið undanfarið ekkert meira en það, froðusnakk ?  Hefur hún átt samtöl við þessa herramenn um hindranirnar, sem þeir telja stjórnvöld þurfa að ryðja úr vegi, svo að hér verði blómleg nýsköpun á sviði nýtingar grænnar orku ?  Er það svo, að stjórnvöld standi eins og bergþurs gegn sköpun þeirra nýju atvinnutækifæra, sem ráðherrum verður svo tíðrætt um til að skapa ný störf og verðmæti, sem skotið geti stoðum undir núverandi lífskjör, sem ella munu hrynja, því að þau eru um efni fram.  Það er eitthvað mikið óútskýrt fyrir kjósendum í þessu máli.  Stendur einhver ríkisstjórnarflokkanna þversum gegn nauðsynlegum umbótum, eða hvers vegna í ósköpunum hefur ríkisstjórnin ekki látið verkin tala í kjölfar skrúðmælgi ?

Það verður þó að setja spurningarmerki við eina verksmiðjutegund, sem höfundarnir nefna hér að ofan sem æskilega fyrir Íslendinga að sækjast eftir, en það er rafgeymaverksmiðja.  Hugmyndin er komin frá Landsvirkjun, en viðskiptalega er hún gjörsamlega fótalaus og umhverfislega gæti hún reynzt bjóða upp á illvíg vandamál.  Ísland, með sínar miklu fjarlægðir frá hráefnum og mörkuðum rafgeyma, getur tæplega verið fýsileg staðsetning í augum slíkra fjárfesta.  Við sjáum staðsetningu Tesla á risaverksmiðju í grennd við Berlín.  Það verksmiðjuverkefni hefur reyndar lent í miklum mótbyr af umhverfisverndarástæðum vegna sjaldgæfs dýralífs, sem þar þarf að víkja. 

Slík verksmiðja notar ýmsa sjaldgæfa málma, og verði þeir hreinsaðir hér, getur það leitt til mengunar, sem við viljum ekki sjá, t.d. geislavirkni.  Megnið af þessum sjaldgæfu málmum, t.d. kobalt, sem í sumum tilvikum eru unnir með vafasömum hætti úr jörðu í Kongó, er reyndar flutt til Kína til vinnslu þar.  Kínverjar ráða lögum og lofum á hráefnamarkaði bílarafgeyma og framleiða reyndar mest allra af þeim sjálfir.  Þetta er ekki sérlega traust atvinnugrein að innleiða hérlendis, enda líklegt, að um bráðabirgða tækni verði að ræða.

Eftir þetta spark forstjóra Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins í mark ríkisstjórnarinnar, verða ráðherrar, t.d. iðnaðarráðherra, að gera hreint fyrir sínum dyrum.  Ella situr ríkisstjórnin uppi ómarktæk með Svarta-Pétur efnahagslegrar stöðnunar og rýrnandi lífskjara.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


ETS-kerfi ESB er óþörf byrði

Það er ekki aðeins á sviði bóluefnaútvegunar, sem hérlendum búrókrötum, höllum undir Evrópusambandið, ESB, ásamt óstyrkum stjórnmálamönnum, tókst að hengja íslenzku þjóðarskútuna aftan í draugaskip Evrópu, heldur var það einnig gert í loftslagsmálunum á sinni tíð, þótt hér séu losunarmál koltvíildis með allt öðrum hætti en í ESB. Þessi undarlega staða gæti hafa myndazt vegna þrýstings frá hinum EFTA-ríkjunum í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) um að fylgja leiðsögn búrókratanna í Brüssel, svo gáfulegt sem það nú er, en í Noregi og Liechtenstein er stjórnkerfið undirlagt af fólki, sem hrifið er af þeirri tilhugsun að verða hluti af stórríki Evrópu, þótt t.d. norska þjóðin deili ekki þeim hagsmunatengdu viðhorfum "elítunnar" með henni. Það er vert að hafa í huga núna á þjóðhátíðardegi Norðmanna, frænda okkar, "Grunnlovsdagen".  Í íslenzka utanríkisráðuneytinu er ekki fúlsað við slíkum "trakteringum" téðra búrókrata, hvað sem líður drýldni og sjálfshóli fyrir sjálfstæðisviðleitni þar á bæ.  

Þann 8. maí 2021 birtist baksviðsfrétt Þórodds Bjarnasonar í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Fanga kolefni en greiða samt".

 Hún hófst þannig:

"Ef íslenzk álver taka þátt í þróun og nýtingu tækni, sem fangar koldíoxíð varanlega, þá þurfa þau engu að síður að greiða milljarða í losunargjöld innan ETS-kerfisins, viðskiptakerfis ESB um losunarheimildir.  Að sögn Péturs Blöndals, framkvæmdastjóra Samáls, samtaka álframleiðenda, vantar hvata í ETS-kerfið til að þróa og tefla fram nýjum lausnum, þrátt fyrir að slíkur hvati hafi verið frumforsendan fyrir því, að kerfinu hafi verið komið á fót."

Þetta sýnir, að ETS-kerfið hentar illa við íslenzkar aðstæður, enda er það sniðið við að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuvinnslunni, þar sem skórinn kreppir einmitt í ESB.  Sá hlutur er sem kunnugt er næstum 100 % á Íslandi. 

Fyrir álver eru ýmsir kostir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en róttækasta leiðin er að leysa kolaskaut rafgreiningarkeranna af hólmi með eðalskautum (t.d. úr keramik).  Ef tilraunir risanna, Rio Tinto og Alcoa, sem þeir hafa sameinazt um, takast með þetta, má búast við, að þeir muni reisa nýjar verksmiðjur með þessari nýju tækni, þótt raforkunotkunin per áltonn muni að öllum líkindum verða meiri en nú er til að vega upp á móti hitamyndun  frá bruna kolaskautanna.

Að óbreyttu gerir ETS gjaldkerfið íslenzku álverin væntanlega ósamkeppnishæf við ný kolefnisfrí álver.  Risafjárfesting af þessu tagi er ekki fýsileg fyrir álverseiganda, sem er aðeins með raforkusamning til 2036. Hefur Landsvirkjun reynt að hvetja til þessarar þróunar á Íslandi með því að bjóða hagstæða langtímasamninga til kolefnisfrírra álverksmiðja ?  Í mekki fagurgalans heyrist þó ekkert um raunhæf verkefni.  Þess vegna ríkir stöðnun í íslenzkri iðnvæðingu.  Orðin ein duga skammt.

"Losun gróðurhúsalofttegunda frá álframleiðslu er hvergi minni en á Íslandi [vegna innlendrar þróunar kerstýritækni og árvekni starfsmanna - innsk. BJo]. Þrátt fyrir það bera álverin kostnað af sinni losun, en ekki álver í Kína, sem knúin eru með kolaorku og losa því tífalt meira.  Ástæðan er sú, að ETS-kerfið nær einungis til evrópskra álvera.  Hættan, sem skapast við það, er, að álframleiðslan flytjist út fyrir álfuna, þar sem kolefnisfótsporið er stærra, en ekki þarf að greiða fyrir losunina."

ETS-kerfið hentar illa iðnaði, sem er færanlegur og stendur í alþjóðlegri samkeppni.  Kerfið hefur unnið gegn upphaflegum stefnumiðum með þessum "kolefnisleka"; það er vanhugsað, af því að gríðarlegar fjárfestingar og tækniþróun þarf til orkuskipta í iðnaði.  Á sama tíma er ETS mikil byrði á fyrirtækjunum, og þau hafa þess vegna ekki bolmagn til orkuskiptanna.  (Meginstarfsemi Rio Tinto og Alcoa er utan EES.) 

Það væri mun eðlilegra að umbuna fyrirtækjum, sem hafa lágmarkað sína losun niður í tæknilega mögulegt gildi, með því að sleppa þeim undan ETS um hríð (einn áratug) til að auðvelda þeim að þróa og innleiða nýja, kolefnisfría tækni.  

Síðan í apríl 2020 hefur álverð á markaði LME hækkað um 75 % og nálgast þá 2600 USD/t Al.  Spár hafa sézt um 3000 USD/t Al árið 2021.  Skýringin er sú, að framleiðsla hvers kyns varnings, þ.á.m. bifreiða, er með vaxandi hlutdeild áls af orkusparnaðar ástæðum, og Kínverjar hafa dregið úr álframleiðslu sinni af mengunarástæðum og eru nú orðnir nettó innflytjendur áls.  Öðru vísi mér áður brá.

Álver hvarvetna eru þess vegna að fara upp í fulla framleiðslugetu og jarðvegur að skapast til að auka framleiðslugetuna.  Hvernig bregðast Íslendingar við þeirri nýju stöðu ?  Á að grípa gæsina á meðan hún gefst, eða á að sitja á gerðinu, horfa í gaupnir sér og tauta, að orkulindir landsins séu að verða uppurnar ?  Hvar er sóknarhugurinn í verki ? Það væri mesta fásinna að gefast þannig upp fyrir afturhaldssjónarmiðum hérlendis, sem einkennast af svartagallsrausi í hvert sinn, sem taka á til hendinni við framkvæmdir, sem leiða til nýrrar verðmætasköpunar, sem veigur er í. Verði slík sjónarmið ofan á, geta atvinnuvegir landsins ekki veitt vaxandi þjóð atvinnu og þá velmegun, sem mikil spurn er eftir.

  


Gösslast í endurheimt votlendis

Innlendir loftslagstrúboðar staglast á frelsun landsmanna frá samvizkubiti koltvíildislosunar (kolvizkubit ?) með því að moka ofan í skurði, gamla og nýja, sem grafnir voru til að auka hér landnytjar á sinni tíð. Í elztu móunum, svo að ekki sé minnzt á túnin, sem ræktuð hafa verið á uppþurrkuðu mýrlendi, er sérstöku niðurbroti  lífmassa af völdum súrefnis lokið, og þar með komið á jafnvægi koltvíildislosunar eftir þurrkunina.  Þar með verður ávinningur endurbleytingar enginn og jafnvel neikvæður af völdum hinnar sterku gróðurhúsalofttegundar metans, CH4, ef ekki er gætt ýtrustu vandvirkni við endurbleytinguna. 

Annars staðar orkar þessi endurbleyting tvímælis, og  ætti þegar í stað að stöðva fjárútlát úr ríkissjóði til þessa vafagemlings, eins og lesa má út úr greininni:

"Endurheimt votlendis verður að byggja á traustum grunni",

sem birtist í Bændablaðinu 29.04.2021 og er eftir Guðna Þorgrím Þorvaldsson, prófessor við LbhÍ.  Hún hófst þannig:

"Árið 2018 skrifuðum við Þorsteinn Guðmundsson tvær greinar í Bændablaðið (2. og 4. tbl.) um losun og bindingu kolefnis í votlendi.  Við bentum á ýmsa þætti, sem valda óvissu í útreikningum á losun kolefnis úr jarðvegi hér á landi.  Þeir helztu eru óvissa um stærð þurrkaðs votlendis, breytileiki í magni lífræns efnis í jarðvegi, sem taka þarf tillit til, og takmarkaðar mælingar á losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.  Við töldum, að á meðan verið væri að afla meiri gagna um votlendið, ætti fremur að leggja áherzlu á uppgræðslu lands til kolefnisbindingar." (Undirstr. BJo)

Það er ámælisvert, að fé sé veitt úr ríkissjóði í "loftslagsaðgerðir", þar sem ávinningurinn er ímyndaður, en raunveruleikinn er í þoku.  Það er lágmarkskrafa að fjármagna aðeins aðgerðir, sem eru vísindalega staðfestar "gagnlegar".  

 

"Af þessum þáttum er það hitinn, sem gefur tilefni til að ætla, að hér á landi sé niðurbrot hægara en í nágrannalöndunum.  Hér er sumarhiti mun lægri en víða í Norður-Evrópu, líka á svæðum, sem eru á sömu breiddargráðum og við.  [Þrændalög í Noregi eru gott dæmi um þetta - innsk. BJo.] Hér er hins vegar mikið framboð næringarefna, einkum á svæðum, sem reglulega verða fyrir öskufalli.  Það getur ýtt undir niðurbrot m.v. svæði, þar sem meiri skortur er á næringarefnum."

 Af þessu sést, að það er ótækt með öllu að réttlæta mokstur ofan í skurði á kostnað hins opinbera með losunartölum uppþurrkaðra mýra og endursköpuðum mýrum frá útlöndum, eins og Votlendissjóður gerir sig sekan um.  Það er ekki einu sinni haldbært að nota meðaltöl fyrir Ísland, heldur verður að mæla losun fyrir og eftir bleytingu á hverjum stað.  Vegna þess að metanmyndun kemur við sögu í endurbleyttum mýrum, verður að hafa nákvæmt eftirlit með myndun mýra á nýjan leik, en metan, CH4, er meira en 20-sinnum öflugri gróðurhúsagastegund en CO2, á meðan það varir í andrúmsloftinu. 

"Í tengslum við endurheimt votlendis hefur Landgræðslan notað tæki, sem mælir heildaröndun og mælir því allt, sem fer út; ekki bara það, sem er vegna niðurbrots á jarðvegi.  Það mælir heldur ekki bindinguna, sem kemur á móti.  Þetta þarf að hafa í huga, þegar niðurstöður þessa tækis eru skoðaðar.  Ef allt kolefni, sem fer inn og út úr kerfinu, er mælt, er ekki nauðsynlegt að sundurgreina þessa 3 þætti, heldur má líta á jarðveg, plöntuleifar og gróður sem einn pott.  Binding telst þá, þegar meira fer inn í pottinn en kemur út, og losun, þegar meira fer út en kemur inn."

Af þessu má ráða, að þeir, sem fást við árangur bindingar með ræktun eða myndun mýrlendis, verða að þekkja vel til mælitækja í notkun og beita rétta verklaginu við að komast að réttri niðurstöðu.  Ef það er gert, er líklegt, að áróðurinn fyrir endurbleytingu mýra á forsendum gróðurhúsalofttegunda muni missa fótanna.  

Síðan kemur lýsing á annarri, álitlegri aðferð:

"Í öðrum rannsóknum var borið saman magn kolefnis ofan ákveðins öskulags í jarðvegi, sem hafði verið framræstur, og jarðvegi á sama svæði, sem ekki hafði verið ræstur. Mælt var, hversu mikið lífrænt efni hefði minnkað frá því framræsla var gerð í samanburði við óframræst land og þannig fengin meðallosun yfir tímabilið.  Kosturinn við þessa aðferð er sá, að hún mælir beint breytingar á kolefnisstöðu í jarðveginum og endurspeglar margra ára atburðarás. 

Samkvæmt þessum rannsóknum var árleg losun á C á bilinu 0,7-3,1 tonn/ha.  Þar sem mælingin fór fram ofan við tiltekið öskulag (30 cm dýpt), er ekki útilokað, að einhver losun hafi orðið á meiri dýpt, en mest gerist þó ofan þessarar dýptar." 

Að meðaltali jafngildir þetta losun 7,0 t CO2/ha, sem er aðeins þriðjungur þess, sem Votlendissjóður lepur upp eftir IPCC, sem birt hefur töluna 20 t CO2/ha sem meðaltal fyrir heiminn.  Þetta sýnir hættuna, sem stjórnvöldum og almenningi er búin af fúskurum, sem grípa eitthvað á lofti erlendis frá án þess að kunna hina réttu túlkun gagnanna.  

"Í vetur bættist við ný ritrýnd grein, þar sem fylgzt var með losun og bindingu á Sandlæk í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.  Þar er um 20 ára gamall asparskógur á framræstu landi.  Í þetta sinn var mælt með útbúnaði, sem mælir inn- og útstreymi kolefnis allan sólarhringinn allt árið um kring.  

 

 

Niðurstöðurnar voru þær, að skógurinn batt mikið kolefni og jarðvegurinn batt 0,5 t C/ha á ári [=1,9 t CO2/ha á ári], þannig að þarna var engin losun á C úr jarðvegi í þessi 2 ár, sem mælingar stóðu yfir.  [Að auki kemur svo bindingin í viðnum, sem er há hjá ösp eða um 20 t CO2/ha - innsk. BJo]. 

Skurðir eru ekki þéttir í landinu, en skógurinn þurrkar mikið að sumrinu.  Vatnsstaða yfir veturinn er yfirleitt há í mýrartúnum á Íslandi og því lítil losun.  Kostur þessarar aðferðar er m.a., að hún mælir allt, sem fer út og inn allt árið, á meðan punktmæling tekur bara yfir lítið brot af árinu." 

 

 Af þessu má ráða, að sú aðferð að planta öspum í uppþurrkaðar mýrar hefur mun meiri burði til að draga úr myndun gróðurhúsalofttegunda en mokstur ofan í skurðina.  Netto-binding með asparaðferðinni er um 22 t CO2/ha á ári, en með bleytingunni er nettó minnkun losunar 7 t CO2/ha á ári.  Mismunurinn er 15 t CO2/ha á ári, sem er tiltölulega mikið, og að auki kemur síðan viðarnýting við grisjun og fellingu trjáa sem hráefni til trjáiðnaðar.  Að moka ofan í skurði virkar sem frumstætt atferli í samanburðinum.

"Ef tekið er vegið meðaltal þessara 15 staða, koma út 2,7 t C/ha á ári [=10 t CO2/ha á ári - innsk. BJo], sem er um helmingi minna en losunarstuðlar IPCC (Milliríkjanefndar Sþ um loftslagsmál). Þessar tölur [af Suðurlandi og Vesturlandi] gefa til kynna töluverðan breytileika í losun og bindingu, sem stafar bæði af árferðismun, mun á milli staða og e.t.v. milli aðferða. 

Ef menn vilja fara í endurheimt, þarf því að skoða vel aðstæður á hverjum stað.  Þetta undirstrikar líka, að við þurfum að gera mun fleiri mælingar um allt land og birta niðurstöðurnar með þeim hætti, að þær fái alþjóðlega viðurkenningu. [Þetta er mergurinn málsins og staðfestir, að allsendis ótímabært er fyrir hið opinbera að styrkja endurheimt votlendis, heldur á að beina kröftum hins opinbera að rannsóknum og mælingum á þessu sviði - innsk. BJo.]

Það er forsenda þess, að við getum notað stuðla, sem byggjast á athugunum, sem gerðar eru hér á landi, og þurfum ekki að nota stuðla frá IPCC, eins og gert er nú."

Af hérlendum rannsóknum á þessu sviði, sem vísað hefur verið í hér, má draga þá ályktun, að hreint fúsk felist í að moka ofan í skurði til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá landi hérlendis.  Ávinningurinn er 1/3 - 1/2 þess, sem IPCC gefur út sem meðaltal fyrir heiminn, en langöflugasta mótvægisaðgerðin er að planta trjáplöntum í móana, sem vinna mikið CO2 úr lofti og binda í rótum og viði, t.d. ösp.

"Það hefur verið rekinn mikill áróður fyrir endurheimt votlendis undanfarið.  Þá vakna spurningar um það, hver ávinningurinn sé af því að moka í skurðina.  Í umræðunni er því gjarnan haldið fram, að losun kolefnis nánast stöðvist við þessa aðgerð.  Hér á landi hefur verið gerð ein tilraun, þar sem borin er saman losun og binding á kolefni og metani, annars vegar í endurheimtu landi og hins vegar landi, sem ekki var endurheimt, en á sama stað.  Landið var mælt í nokkra mánuði fyrir endurheimt og svo báðir meðferðarliðir eftir endurheimt í 4 mánuði. 

Niðurstaðan var sú, að losun kolefnis minnkaði aðeins um 20 % við endurheimtina, en metanlosun jókst töluvert, en var samt lítil.  Mælingar voru svo gerðar árið eftir, en niðurstöðurnar hafa ekki birzt.  Ekki voru gerðar mælingar á tilraunasvæðinu árin þar á eftir."

Þessi niðurstaða felur í sér falleinkunn á endurheimt votlendis í þágu loftslags.  CO2-losunin minnkar um 20 %, en á móti eykst metanlosunin, og verður að meta hana á móti, því að hún er yfir 20-falt sterkari gróðarhúsalofttegund en CO2.  Ekki kæmi höfundi þessa pistils á óvart, að þessi mokstur ofan á skurði sé í mörgum tilvikum algerlega unninn fyrir gýg (kostnaður út um gluggann og rýrir beitiland og hugsanlegt ræktarland framtíðar fyrir korn, repju, iðnaðarhamp o.fl.).

 

  

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband