Færsluflokkur: Bloggar
15.7.2021 | 13:49
Fullveldið er fjársjóður
Forfeðrum okkar og formæðrum í Noregi var frelsishugsjónin í blóð borin. Bændur á Vesturlandinu norska börðust gegn valdabrölti kóngsins í Víkinni (nú Ósló (lóð ásanna)), og þegar þeir sáu, að þeir höfðu ekki bolmagn til að verjast hernaðarmætti kóngsa (Haraldar hárfagra), sem vildi sameina Noreg í eitt ríki, þá seldu þeir sumir hverjir jarðir sínar, fjárfestu í rándýrum skipakosti (allt að 400 MISK/stk að núvirði) og freistuðu gæfunnar á Bretlandseyjum, Færeyjum og á Íslandi. Með lævísi, tökum á siglingunum vegna norskra skipasmíða og hervaldi eða hótunum þar um tókst Noregskonungi síðar að ná tangarhaldi á þessum landsvæðum, byggðum afkomendum Norðmanna. Þegar Íslendingar brutust undan oki Danaveldis, sem höfðu vegna konunglegra mægða öðlazt völd í Noregi, í Færeyjum og á Íslandi auk Grænlands, sönnuðu þeir fyrir sjálfum sér og öðrum mátt og styrk sjálfstjórnunarinnar (fullveldisins), sem þeir höfðu barizt svo lengi fyrir. Ekkert hefur breytzt, sem ætti nú að leiða til betra lífs á Íslandi, gerist landið fylki í Noregi (sem ekki er í boði, nema í höfði grillupúka) eða fullgildur aðili að Evrópusambandinu (ESB).
Engu að síður lifir frelsishugsjónin enn á meðal íbúa þessara landsvæða norska ríkjasambandsins, ekki sízt á Íslandi, og fullveldið hefur borið ríkulegan ávöxt hér. Frelsishugsjón forfeðra okkar og formæðra var ekki bara reist á vilja þeirra til að lifa lífi sínu óháð fjarlægu valdi, sem þau höfðu enga stjórn á, heldur hafa þau áreiðanlega talið, að afkomu sinni væri bezt borgið með frelsinu til að haga málum sínum að eigin geðþótta innan marka laganna, sem ákveðin voru á héraðsþingum í Noregi (fyrirmynd íslenzkra héraðsþinga og Alþingis að breyttu breytanda).
Þegar við skoðum stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna núna, hefur tekizt ótrúlega vel til. Varnarmálunum hefur verið skipað, eins vel og kostur er fyrir herlaust land úti í Atlantshafi, hvers lega skapar talsvert hernaðarlegt mikilvægi. Landið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum án þess að segja fyrst öxulveldunum stríð á hendur, eins og þó var krafa Vesturveldanna. Það var farsæl ákvörðun fyrir framtíðar samskiptin við Þýzkaland, Ítalíu og Japan.
Landið nýtur góðs af aðild að Fríverzlunarsamtökum Evrópu, EFTA, og á aðild að ýmsum fríverzlunarsamningum EFTA og tvíhliða fríverzlunarsamningum, en afdrifaríkastur er EES-samningurinn, sem EFTA gerði við ESB árið 1992 og 3 af 4 ríkjum EFTA hafa innleitt í sína löggjöf. Þessi samningur er ekki venjulegur fríverzlunarsamningur, heldur gerir hann kröfu um innleiðingu löggjafar ESB, sem framkvæmdastjórn Sambandsins telur varða Innri markaðinn, og er þetta skilyrði fyrir aðild að honum.
Þetta er að sjálfsögðu viðkvæmt mál fyrir fullvalda ríki, sem stendur utan samningsins, því að innleiðing löggjafar ESB á sér alls engar lýðræðislegar rætur í EFTA-ríkjunum, og dómsvaldið er líka að nokkru leyti flutt til EFTA-dómstólsins, sem dæmir samkvæmt löggjöf ESB og fylgir dómafordæmum ESB-dómstólsins. Það eykur vandann, að Framkvæmdastjórnin er tekin að færa út kvíarnar, hvað varðar málefni Innri markaðarins, og eru persónuverndarlöggjöfin og orkulöggjöfin (orkupakkarnir) með eigin stofnunum dæmi um þetta. Í EES-samninginum er þó að finna ýmsa varnagla fyrir EFTA-ríkin. Við innleiðingu OP3 var innleiddur í löggjöfina sá varnagli, að Alþingi skyldi þurfa að samþykkja lagningu aflsæstrengs til Íslands, og var það vel. Í raun og veru eiga þessir orkupakkar ESB ekkert erindi við Íslendinga, á meðan landið er ótengt við raforkukerfi ESB-ríkjanna.
Þann 10. júlí 2021 birtist í Morgunblaðinu grein um mikilvægi þess fyrir Íslendinga að vera á varðbergi gagnvart útþynningu lýðræðis og fullveldis í nafni meints "frjálslyndis", sem eru í raun alger öfugmæli sem lýsing á stefnu þeirra, sem telja nú mestu varða fyrir Íslendinga að fela framkvæmdastjórn ESB völd til að ráðskast með málefni Íslands, eins og ráðherraráði og þingi ESB þóknast hverju sinni. Það er með ólíkindum, að nokkur hérlendis skuli vera svo blindur á staðreyndir, sögulega lexíu og lítilla sanda og sæva að vilja fela ríkjasambandi, sem stefnir á að verða sambandsríki Evrópu, forsjá fullveldis landsins rúmlega 100 árum, eftir að það var endurheimt frá Dönum. Sem betur fer nær áróður fyrir þessari fúlu stefnu litlum hljómgrunni á meðal þjóðarinnar, en þó setja a.m.k. 2 stjórnmálaflokkar á Alþingi, Samfylkingin og Viðreisn, þetta mál á oddinn hjá sér, og píratar virðast hallir undir þennan málflutning líka, þótt þeir virðist hafa lítinn áhuga á öðru en skrumi, pólitískum upphlaupum og "nýrri stjórnarskrá", sem mikil dulúð hvílir yfir.
Téð Morgunblaðsgrein er eftir manninn í baráttusæti Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi, Arnar Þór Jónsson- AÞJ, og nefnist:
"Höfum það sem sannara reynist".
Greinin var rituð af því tilefni, að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og nú innarlega á gafli hjá Viðreisn, fékk birta í Morgunblaðinu 8. júlí 2021 grein, þar sem hann með útúrsnúningi reynir að kenna baráttumál AÞJ við andstöðu við "fjölþjóðastefnu", "Evrópusamstarf" og skort á frjálslyndi, m.ö.o. einangrunarhyggju. Það er til marks um vondan málstað ÞP og Viðreisnar að gera andstæðingum sínum upp skoðanir og deila síðan á þá fyrir þær:
"Í greininni segir Þorsteinn m.a.: "Sjálfstæðismenn í suðvesturkjördæmi ákváðu nýlega að setja í baráttusæti á lista sínum í þessu sterkasta vígi flokksins einn helzta andófsmann EES-samningsins, sem auk þess var aðalhugmyndafræðingurinn í andstöðunni við þriðja orkupakkann. Áður skipaði þetta sæti talsmaður frjálslyndra viðhorfa í flokknum.""
Þetta er skrýtið hnoð hjá ÞP. Hvaða skilning ætli Þorsteinn leggi í þau hugtök, sem þarna er fleygt fram, eins og t.d. "frjálslyndur". Bezt gæti ég trúað, að sá sé "frjálslyndur" í huga ÞP, sem er alveg sama, hvernig íslenzka stjórnarskráin, lýðveldisstjórnarskráin, sem um 96 % atkvæðisbærra manna samþykkti árið 1944, er teygð og toguð og jafnvel hundsuð. Það er mjög afbrigðilegt viðhorf, sem ekkert erindi á við þorra þjóðarinnar.
Orðabókin skilgreinir hins vegan frjálslyndan þannig: "víðsýnn, umburðarlyndur og í stjórnmálum er sá frjálslyndur, sem beitir sér fyrir frjálsum markaði með sem minnstum afskiptum og er yfirleitt fremur umburðarlyndur í siðferðilegum efnum".
Þessi lýsing á ágætlega við um Sjálfstæðisflokkinn frá fornu fari, og höfuðbarátta AÞJ á stjórnmálasviðinu hefur einmitt snúizt um að hefja upphafsgildi Sjálfstæðisflokksins til vegs og virðingar á ný. Mörgum þykir mjög tímabært að beina flokkinum inn á þær brautir í meiri mæli en verið hefur um sinn.
Meira úr hinni ágætu grein AÞJ:
"Sú "ákvörðun" sjálfstæðismanna, sem Þorsteinn vísar þarna til, er lýðræðisleg niðurstaða prófkjörs, þar sem alls 4772 manns greiddu atkvæði, fleiri í þessu kjördæmi einu en í prófkjörum allra annarra íslenzkra stjórnmálaflokka samtals á landsvísu. Flokkur Þorsteins valdi ólýðræðislega á framboðslista sína."
Sú klíkukennda aðferðarfræði við val á framboðslista fyrir Alþingiskosningar haustið 2021 sýnir, að flokkurinn er hallur undir valdboð að ofan og skortir lýðræðislegan þroska. Klíkunni í Viðreisn hefur farizt verkið einstaklega óhönduglega, t.d. gagnvart fyrrverandi formanni, sem sóttist eftir að leiða flokkinn í einu kjördæmanna. Klíkan bauð honum neðsta sætið í Reykjavík. Síðan fékk klíkan pata af því, að búast mætti við klofningsframboði gamla formannsins, og þá bauð nýi formaðurinn þeim gamla 2. sætið í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Þetta ákvað sá gamli að þiggja, en þá dró sá nýi allt til baka og kvað klíkuna ekki unna honum þessa sætis. Nú er náttúrulega hver höndin uppi á móti annarri í þessu klíkuviðrini, sem Viðreisn nefnist. Eitt er víst, að einkunnin "frjálslyndur" fer viðrininu afar illa.
"Eftir útgöngu Breta hefur þessi straumur [í átt að "æ nánari samruna ESB-ríkjanna"-innsk. BJo] orðið merkjanlega þyngri, sbr. frétt Reuters 8. júní sl. um þau ummæli utanríkisráðherra Þýzkalands, að afnema ætti neitunarvald aðildarríkja ESB í utanríkismálum. Smáríkjum á þannig ekki lengur að leyfast að standa í vegi fyrir meirihlutavaldi innan ESB. Á sama tíma berast fregnir af sambærilegri einstefnuþróun í innanríkismálum aðildarríkjanna, því [að] framkvæmdastjórn ESB hefur tilkynnt, að hún hyggist stefna 7 ríkjum fyrir dómstól ESB vegna brota á Evrópureglum, m.a. Þýzkalandi fyrir að heimila þýzka stjórnarskrárdómstólnum að segja, að skattfé Þjóðverja skuli varið í samræmi við þýzku stjórnarskrána, en ekki samkvæmt Evrópurétti. Þeir, sem harðast vilja halda sig við ESB-draumsýnina [og á Íslandi eru ýmsir kaþólskari en páfinn-innsk. BJo], munu svara þessu með því að segja, að allar þessar málshöfðanir og valdbeiting þjóni göfugum tilgangi. [Í Þriðja ríkinu var svipað haft á orði: "Der Erfolg berechtigt das Mittel"-innsk. BJo.] Fram hjá því verður þó ekki horft, að slíkir einstefnutilburðir Brusselveldisins misvirða ítrekað lýðræðislegan vilja aðildarþjóðanna. Í framkvæmd víkur lýðræðið þar fyrir skrifræðinu og lýðveldin fyrir skrifstofuveldinu.
Íslendingar þurfa ekki að rýna í neina krystalskúlu til að sjá, hver staða smáríkja í slíku fyrirkomulagi kemur til með að vera. Stærstu ríkin, sem leggja fram mest fjármagn, verða ráðandi í öllum meginatriðum."
Þróun stjórnfyrirkomulags ráðherraráðsins er í átt til atkvæðagreiðslna með veginni þyngd hvers ráðherra samkvæmt hlutfallslegum mannfjölda í ríki hans og til afnáms neitunarvalds einstakra ráðherra. Ríki verða því ofurliði borin í atkvæðagreiðslu, og atkvæði okkar ráðherra mundi vigta um 1/1000. Við mundum týnast í mergðinni, og sjálfstæði Íslands mundi heyra fortíðinni til. Hvers konar framtíðarsýn er það ?
Í landsöluáróðrinum hefur verið reynt að draga fjöður yfir þessa náköldu baksviðsmynd ESB-trúboðsins með hagfræðilegum vangaveltum um, að Íslendingum mundi vegna betur með EUR en ISK. Það hefur þó aldrei verið sýnt fram á það, að hagvöxtur og stöðugleiki verðlags muni vaxa í litlu hagkerfi með því að taka upp mynt stórs hagkerfis, sem sveiflast með allt öðrum hætti en litla hagkerfið. Þeim, sem eru í vafa um hagfræðileg rök fyrir því að kjósa ISK fram yfir EUR, er bent á að lesa grein eftir Adam Glapinski, prófessor í hagfræði og forseta ríkisbanka Póllands, í Morgunblaðinu, 13.07. 2021.
"Skrif Þorsteins bera vott um skeytingarleysi gagnvart fullveldi Íslands, því [að] hagsmunir Íslands samræmast illa þeim veruleika að vera jaðarsett og áhrifalaust smáríki gagnvart æðsta valdi innan ESB. Hugsjónir um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og alþjóðlega samvinnu eru ekki í takti við þá vaxandi einstefnu, sem nú blasir við á vettvangi ESB. Fullveldi felur í sér, að íslenzk lög séu sett af lýðræðislega kjörnu Alþingi og að æðsta túlkunarvald um þau lög sé hjá íslenzkum dómstólum. Vilji menn ofurselja íslenzka kjósendur öðru fyrirkomulagi, er sjálfsagt, að viðkomandi láti á það reyna í lýðræðislegum kosningum."
Íslenzka stjórnarskráin takmarkar alþjóðasamvinnu nánast við þjóðréttarlegar skuldbindingar á borð við aðild að Sameinuðu þjóðunum, NATO og Hafréttarsáttmálanum, en þegar kemur að samstarfi, sem felur í sér að lúta yfirþjóðlegu valdi með innflutningi á erlendri löggjöf, sem hefur vel merkjanleg áhrif á daglegt líf íslenzkra ríkisborgara, þá vandast málið augljóslega, ekki aðeins gagnvart íslenzku stjórnarskránni, heldur einnig í Noregi gagnvart hinni norsku.
Á vettvangi EFTA/ESB við gerð EES-samningsins var brugðizt við þessum vanda með því að búa til lögfræðileg lausn, hálfgerða hrákasmíði, enda ætlað standa til bráðabirgða fram að inngöngu í ESB, sem kallast tveggja stoða fyrirkomulagið, þar sem stofnanir EFTA-ríkjanna eiga að spegla ESB stofnanir. Þar speglar ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) Framvæmdastjórnina og EFTA-dómstóllinn ESB-dómstólinn. Evrópusambandið virðist verða æ þreyttara á þessari sérsniðnu lausn, og samhliða fjölgun stofnana þess hefur það krafizt sömu valda þeirra yfir viðkomandi málefnasviðum í EFTA-ríkjunum og á við í ESB-ríkjunum. Dæmi um þessar stofnanir eru Persónuverndarstofnun ESB, Fjármálaeftirlitsstofnun og Orkustofnun ESB (ACER). EFTA-ríkin hafa þó ekki atkvæðisrétt í þessum stofnunum, aðeins áheyrnar- og tillögurétt.
Þessi þróun í átt til aukinnar miðstjórnar í ESB veldur því, að EFTA-þjóðirnar verða að gæta betur að fullveldi sínu en áður var þörf á innan EES og knýja á um undanþágur í meiri mæli. Regluverkið á Íslandi er líka orðið svo íþyngjandi fyrir fyrirtæki og almenning, að það stendur framleiðniaukningu fyrir þrifum og þarfnast stórfelldrar grisjunar, eins og OECD hefur nýlega bent á. Embættismenn hafa af tillitsleysi við hagsmuni almennings plantað frumskógi reglugerða, sem erfitt og kostnaðarsamt er að rata í, sérstaklega fyrir lítil fyrirtæki, og þannig eru flest fyrirtæki á Íslandi.
"Í því samhengi mun mér gefast tækifæri til að draga fram veikleika og misskilning, ef ekki afbökun, í málflutningi Þorsteins og annarra, sem horfið hafa frá sjálfstæðisstefnunni og telja nú "augljóst", að fríverzlun útheimti fullveldisframsal til yfirþjóðlegs embættismannavalds og stofnanaveldis í fjarlægum borgum. Þennan draug hafa Bretar kveðið niður eftir útgöngu sína úr ESB með tvíhliða samningum við önnur ríki [og við ESB-innsk. BJo]. Lausnin felst einfaldlega í gagnkvæmri viðurkenningu framleiðslustaðla, auk synjunar- og neitunarvalds, þar sem það á við.
Hvað sem firrum Þorsteins Pálssonar kann að líða, er Íslandi þessi leið fær sem fullvalda ríki án þess að ofurselja sig erlendu lagasetningar- og túlkunarvaldi. Þetta er hrein skynsemi og stendur nær klassísku frjálslyndi í framkvæmd en ákall Þorsteins Pálssonar um blint íhald, undirlægjuhátt, miðstýringu og órjúfanlega tryggð við ESB, allt á kostnað sjálfsákvörðunarréttar og lýðræðis. Ég treysti kjósendum til að hafna gervistjórnmálum, sýndarlýðræði og gervifrjálslyndi af þeim toga, sem Þorsteinn Pálsson boðar nú."
Það neistar undan hófförum ritfáks AÞJ, þar sem hann ríður á hólm við ÞP. Það er kominn tími til að hrekja af snerpu villukenningar falsspámanna um utanríkismál Íslendinga. Hvað gengur þeim til ? Í Fréttablaðinu 15.07.2021 heldur ÞP sig við firrur sínar og líkir jafnvel aðild Íslands að NATO við þá aðild að ESB, sem hann berst fyrir. Barnalegri málflutning er vart hægt að hugsa sér, og getur hann vart orðið Viðreisnarhrófinu til vegsauka, því að hann sýnir málatilbúnað án tengsla við raunveruleikann, eins og tíðkast innan raða sértrúarsafnaða.
Með NATO-aðild höfum við undirgengizt, að árás á einn er árás á alla, en er hægt að hugsa sér meiri öryggistryggingu fyrir herlaust land en slíkan samning við öflug vestræn herveldi ? NATO semur ekki lög, sem hægt er að þröngva upp á Ísland, enda hafa aðildarlöndin neitunarvald um samþykktir varnarbandalagsins. NATO rekur heldur ekki dómstól, sem er fordæmisgefandi um uppkvaðningu dóma, er varða Ísland. Þessi samanburður er algerlega út í hött og sýnir, að málstaður Viðreisnar er vondur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2021 | 18:42
Uggvænlega horfir með vatnsbúskapinn í vetur
Hagkerfi þróaðra ríkja eru knúin áfram með orkugjöfum. Það, sem skilur íslenzka orkukerfið og þar með hagkerfið frá öðrum, er mjög mikil orkunotkun á hvern íbúa. Þetta er í raun undirstaða velmegunarinnar hér, sem er engan veginn sjálfgefin í ljósi staðsetningar og engra hefðbundinna auðlinda í jörðu. Þær eru hins vegar í hafinu umhverfis landið, og í jarðhitanum er gríðarleg auðlegð fólgin. Orkukerfi landsins sker sig frá orkukerfum flestra annarra þjóða með því, að það er talið sjálfbært, en veikleiki þess er hins vegar sá, að það er háð duttlungum náttúrunnar. Nú virðist vatnsbúskapur vera með lakasta hætti, þar sem vatnshæð Þórisvatns er undir lágmarki árstímans og hækkar hægt.
Það er hægt að sjá við minniháttar minnkun á framboði orku í slæmum vatnsárum, eins og núna, með því að hafa borð fyrir báru, bæði í vatnsmiðlunargetu og aflgetu. Það kostar og undir þeirri orkulöggjöf, sem landsmenn búa við frá 2003, þegar Orkupakki 1 (OP1)frá Evrópusambandinu (ESB) var innleiddur, virðist ekkert orkuvinnslufyrirtækjanna sjá sér hag í slíkum varaforða, en Landsvirkjun bar ábyrgð á raforkuöryggi landsmanna frá stofnun sinni 1965 fram að OP1.
Alvara þessa máls er hins vegar fólgin í því, að samfélagslegt tjón af raforkuskorti, þótt hann verði með fyrirvara, eins og nú stefnir í, er margfalt meira en tjón orkufyrirtækjanna af minnkaðri raforkusölu. Orkupakkarnir hafa skilið landsmenn eftir berskjaldaða gagnvart afleiðingum þess að innleiða orkulöggjöf á Íslandi, sem sniðin er við gjörólíkar aðstæður. Þennan yfirþyrmandi veikleika löggjafarinnar hér þarf að sníða af, eins og hverja aðra annmarka á löggjöf, svo að einhver aðili í þessu þjóðfélagi verði ábyrgur fyrir raforkuörygginu og hafi nægileg völd til að knýja á um nýja virkjun í nafni þjóðarnauðsynjar. Engu er líkara en þau þjóðfélagsöfl, sem reyna stöðugt að þvælast fyrir framfaramálum þjóðarheildarinnar, hvort sem um ræðir nýjar virkjanir eða flutningslínur, stingi nú hausnum ofan í sandinn. Í kosningunum í september 2021 fer bezt á því, að þau hafi áfram hausinn í sandinum. Hvað þarf mikið tjón að hljótast af afturhaldsstefnunni áður en hún missir allan hljómgrunn og horft verður hlutlægum augum á virkjana- og línuáform.
Það er ekki nóg með, að yfirvofandi sé afnám ótryggðrar raforku vegna vatnsskorts til þeirra, sem hana kaupa nú, heldur er Landsnet tekið að búa viðskiptavinni sína undir skort á s.k. reiðuafli, sem þýðir, að Landsnet sér fram á að geta hvorki annað álagstoppum né brugðizt við brottfalli rafala af kerfinu. Þetta skapar hættu á tíðnilækkun í kerfinu, sem í sinni verstu mynd leiðir til kerfishruns, nema liðavernd stórra viðskiptavina bregðist rétt við. Allt mun þetta leiða til framleiðslutaps, en vonandi ekki tjóns á búnaði hjá notendum.
Ástand, eins og hér er lýst, ógnar efnahagslegri viðspyrnu landsmanna og mun draga úr hagvexti. Þetta er sjálfskaparvíti og algerlega fyrirséð í hvað stefndi. Sjálfskaparvítið er virkjanatregða, sem er af pólitískum toga. Einstrengingsleg náttúruvernd tefur flestar framkvæmdir á sviði orkuöflunar (og flutnings), og er skemmst að minnast áforma HS Orku og Vesturverks um Hvalárvirkjun á Vestfjörðum, um 55 MW að uppsettu afli.
Enn einkennilegra er, að Landsvirkjun skuli ekki hafa ráðizt í virkjun Neðri-Þjórsár, t.d. Hvammsvirkjun, en hún mun vera fullnaðarhönnuð fyrir meðalrennsli 352 m3/s, orkuvinnslu 720 GWh/ár með uppsettu afli 93 MW. Umhverfisáhrif verða í lágmarki, enda inntakslónið aðeins 4 km2. Landsvirkjun ætlar að reisa trausta og varanlega brú á staðnum, sem tengja mun Árnessýslu og Rangárvallasýslu á nýjum stað. Virkjunin mundi leysa úr brýnasta viðfangsefni orkugeirans, sem stafar af álagsaukningu vegna aukinnar eftirspurnar hjá útflutningsiðnaðinum og vegna orkuskiptanna auk fjölgunar íbúða.
Í baksviðsfrétt Loga Sigurðarsonar í Morgunblaðinu 25. júní 2021 er viðtal við Lárus M.K. Ólafsson, viðskiptastjóra á iðnaðar- og hugverkasviði Samtaka iðnaðarins, SI. Fyrirsögnin var:
"Fyrirtæki lýsa áhyggjum af stöðu raforkumarkaðarins".
""Við höfum verulegar áhyggjur af þróun raforkuverðs, og auðvitað er ekki á bætandi, ef það er einhver óvissa með framleiðslugetu, sem þar af leiðandi hækkar raforkuverð. Þetta er viðvarandi, og við höfum lýst yfir áhyggjum af þessu alveg óháð því, hvort einhver túrbína bilaði í Reykjanesvirkjun, eða hvort það sé skert lónsstaða", segir Lárus."
Hagsmunir atvinnulífsins eru tvímælalaust miklir gagnvart því, að á hverjum tíma sé nægt framboð raforku, og þar eru þjóðarhagsmunir undir. Næg "græn" raforka á hagstæðu verði fyrir kaupendur er eitt helzta samkeppnisforskot Íslands. Ef stjórnmálaöfl í ríkisstjórn eru að þvælast fyrir gerð nýrra virkjana, þegar orkuskortur blasir við, þá er það hreint skemmdarverk og ógn við lífsafkomu fólks. Að þvælast fyrir nýjum vatnsorkuvirkjunum, sem hafa lágmarks umhverfisrask í för með sér, ógnar bæði efnahagsframþróun vaxandi þjóðar og markmiðum ríkisvaldsins um 55 % minnkun losunar koltvíildisjafngilda árið 2030 m.v. 1990 og kolefnishlutleysi árið 2040. Til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi á láði, legi og í lofti, verður líklega að virkja sem nemur um 2 TWh/ár, og þar að auki kemur vaxandi orkunotkun vegna aukinnar framleiðslu á þessu tímabili. Hvammsvirkjun er nauðsynleg vegna beggja þessara þátta.
Umhverfisráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs setti sig upp gegn gerð varnargarða gegn hraunrennsli frá Fagradalsgígum. Sýnir það, hversu forstokkað afturhald þar er á ferðinni. Það mun verða jafnvægi í orkumálum til trafala á Íslandi, ef sá maður verður kosinn á þing sem fulltrúi SV-kjördæmis í september 2021. Sporin hræða. Núverandi kyrrstöðu í virkjanamálum á Íslandi verður að skrifa á þá glórulausu hugmyndafræði, sem vinstri flokkarnir með vinstri græna í broddi fylkingar fylgja varðandi auðlindanýtingu á Íslandi. Þessari sjálfheldu verður að linna í nafni hagsmuna núverandi og komandi kynslóða.
"Lárus segist heyra mikið frá fyrirtækjum um hækkanir á flutningsgjaldskrá Landsnets, sem hækkaði í janúar [2021] um 5,5 % hjá stórnotendum og 9,9 % hjá dreifiveitunum.
Svandís Hlín Karlsdóttir, viðskiptastjóri Landsnets, segir hækkunina hafa verið nauðsynlega og bendir á, að flutningsgjaldskráin hafi lækkað frá 2013. Þetta hafi verið fyrsta hækkunin síðan þá.
Hún bætir við, að reynt hafi verið að koma í veg fyrir hækkunina í samstarfi við stjórnvöld, en það hafi ekki tekizt. Svandís segir eitt af markmiðum Landsnets að halda stöðugleika í flutningsgjaldskránni. "Við vorum í þeirri stöðu, að annaðhvort þurftum við að hækka gjaldskrána eða draga úr fjárfestingum, og það er eitthvað, sem við töldum ekki ákjósanlegt að gera. Við erum sérleyfisfyrirtæki, þannig að okkur eru settar ákveðnar tekjur, sem við megum hafa. Við höfum ákveðið svigrúm til þess að færa tekjur á milli ára, og við vorum að vinna með stjórnvöldum í faraldrinum til að fá aukið svigrum, bæði til þess að geta haldið áfram fjárfestingum og koma í veg fyrir hækkunina á gjaldskránni, en það náðist ekki í tæka tíð", segir Svandís."
Þarna er varla öll sagan sögð. Stjórnvöld (iðnaðarráðherra) var með frumvarp fyrir þinginu um að breyta reiknireglum fyrir tekjumörk Landsnets, svo að hækkunarþörf gjaldskrárinnar mundi minnka, en fjármagna mætti fjárfestingar í meira mæli með lántökum. Frumvarp þetta virðist illu heilli hafa dagað uppi í þinginu, úr því að þessar urðu málalyktirnar. Í sambandi við reiknireglur gjaldskráa Landsnets er jafnframt vert að hafa í huga, að Orkustjóri ESB á Íslandi (Landsreglari) á síðasta orðið um hana. Kannski hefur hann ekki verið hrifinn af, að við reiknireglunum yrði hróflað. Þótt iðnaðarráðherra beri hina pólitísku ábyrgð á þessum miklu hækkunum á gjaldskrá Landsnets, er hún líklega blóraböggull í þessu máli, en sökudólgana annars staðar að finna.
Allt of litlar beinar erlendar fjárfestingar eru á Íslandi fyrir eðlilegan vöxt athafnalífsins og atvinnusköpun, og þær eru tiltölulega mun meiri á hinum Norðurlöndunum. Það er athyglisvert, að erlendar fjárfestingar eru mjög litlar frá löndum ESB, nokkrar frá EFTA-ríkjunum, en mestar hafa þær verið frá Norður-Ameríku. Ein slík býðst landsmönnum núna, en Landsvirkjun stendur sem þvergirðingur gegn henni. Um er að ræða tæplega mrdISK 15 fjárfestingu Norðuráls á Grundartanga í nýjum búnaði í steypuskála fyrirtækisins til að geta steypt álsívalninga. Til að leggja í slíka fjárfestingu þarf Norðurál tryggingu fyrir orkuafhendingu á verði, sem er fyrirsjáanlegra en núverandi viðmiðun við Nordpool-markaðinn. Fyrirtækið hefur farið fram á verð, sem er nálægt meðalverði til stóriðju á Íslandi með álverðstengingu. Að öllu eðlilegu ætti að vera samningsgrundvöllur um þetta, en Landsvirkjun undir núverandi stjórn er ekki með öllu eðlilegt fyrirtæki.
Þann 30. júní 2021 birtist í Markaðnum viðtal Þórðar Gunnarssonar við Mike Bless, fráfarandi forstjóra Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls:
"Álverðstenging raforkuverðs var ein helzta ástæða þesss, að forsvarsmenn Century Aluninium sáu sér þann leik á borði að kaupa álverið við Grundartanga árið 2004 af Columbia Ventures Corporation.
Þetta er mat Mike Bless, fráfarandi forstjóra Century Aluminium, sem var staddur hér á landi á dögunum. Fram kom í kauphallartilkynningu þann 17. maí 2021, að Bless myndi brátt láta af störfum sem forstjóri Century eftir 10 ár á forstjórastólnum."
Álfyrirtækin líta á álverðstengingu raforkuverðs sem verulega áhættuminnkun fyrir eigendur sína og þess vegna eftirsóknarverða á svipulum markaði. Landsvirkjun áttaði sig fljótlega á, að gagnkvæmir hagsmunir væru fólgnir í álverðstengingunni, en árið 2010 varð afturhvarf til hins verra á þeim bæ.
"Málið snýst ekki endilega um lægra eða hærra verð. Það, sem okkur þótti aðlaðandi, var tengingin við álverð. Við borgum glaðir hærra raforkuverð, ef okkar afurðaverð er hátt. Century Aluminium er ekki stór álframleiðandi á alþjóðlegan mælikvarða, og samkeppnisaðilar okkar, sem eru með ýmiss konar aðra starfsemi en álframleiðslu, þola betur sveiflur í álverði en við.
Þess vegna er álverðstengingin afar mikilvæg fyrir okkur. Við erum líka með álverðstengingu í aðfangakaupum okkar, t.a.m. við innkaup á súráli. Á sama hátt og við raforkuinnkaup þá borgum við súrálsbirgjum okkar glaðir hærra verð, ef álverð hækkar.
En það var aðallega álverðstengingin, sem var aðlaðandi í okkar augum. Hún þýðir, að við getum haft betri stjórn á okkar rekstraráhættu. Svo verður líka að nefna, að álverið á Grundartanga er eitt það glæsilegasta m.t.t. stjórnunar, öryggismála, gæðamála og annars. Eitt er að komast á þennan stað, en annað að viðhalda svo háum gæðastöðlum allan þennan tíma. Það er stjórnendunum hér heima að þakka."
Þarna lýkur fráfarandi forstjóri móðurfélags Norðuráls lofsorði á árangur Norðuráls, og starfsfólkið verðskuldar hrósið. Hið sama á við um starfsemina í Straumsvík, þar sem ISAL hefur náð frábærum árangri með verksmiðju, sem er talsvert minni og eldri en Norðurál, en Hafnfirðingar höfnuðu á sinni tíð stækkun ISAL, sem eigandinn var fús til að leggja út í.
Álverðstenging er einnig hagstæð orkubirginum til lengdar, því að álfyrirtækið er yfirleitt fúst til að fallast á hærra meðalverð, ef það fær lægra verð, þegar á móti blæs á mörkuðunum. Núverandi forstjóri Landsvirkjunar taldi sig vita betur, þegar hann tók við 2010, og gekk þá hart fram í nafni stöðugleika að afnema álverðstenginguna. Afleiðingin varð ekki stöðugleiki, heldur var Landsvirkjun nærri búin að missa þennan elzta viðskiptavin sinn fyrir vikið.
"Þrátt fyrir að núverandi markaðsverð á áli myndi auðvitað réttlæta stækkun við Grundartanga, er ekki skynsamlegt að taka slíkar fjárfestingarákvarðanir út frá stundarverði. Allt ferlið, sem snýr að leyfisveitingum, hönnun, undirbúningi og framkvæmdum, er 4 til 5 ára ferli.
Hins vegar er raunhæfara til skemmri tíma að bæta við virðisaukandi framleiðslu við Grundartanga, t.a.m. álboltaframleiðslu [álboltar hér sívalar álstengur-innsk.BJo]. Þó að álagið á álbolta yfir hrááli sé 1000 USD/t, þá myndum við samt alltaf horfa á 250 USD/t langtímameðaltalið til að ákveða, hvort fjárfestingin borgi sig.
Það er snúið að taka langtímaákvarðanir út frá skammtímaverði. Eftirspurn grænna álbolta er hins vegar að aukast í Evrópu og hefur verið um lengri tíma, og því höfum við lagt mikla áherzlu á að koma því verkefni af stað hér heima. En til þess að svo megi verða, þurfum við að hafa betri vissu um raforkuverð okkar til framtíðar."
Það má ráða af þessu, að rækju stjórnvöld á Íslandi sókndjarfa iðnaðarstefnu, sem reist væri á meiri orkunotkun, þá væru líklega núna komin áleiðis áform um talsverða aukningu framleiðslugetu Norðurálsverksmiðjunnar. Því miður blasir allt annar og afturhaldssamari raunveruleiki við, stöðnun iðnvæðingarinnar og stefnuleysi varðandi nýjar virkjanir. Það er engu líkara en afturhaldið í stjórnarandstöðunni sé þegar setzt við stjórnvölinn á þessu mikilvæga sviði atvinnuuppbyggingar og gjaldeyrissköpunar.
Hjá Bless kemur fram, hversu ábatasöm álsívalningaframleiðslan er, því að verðið fyrir hana um þessar mundir er um 3500 USD/t samkvæmt honum. Að framkvæmdir við umbyltingu steypuskála Norðuráls skuli ekki nú þegar vera komnar á flugstig, verður að skrifa alfarið á þvergirðing Landsvirkjunar, sem er framfarahamlandi og einhvern veginn alveg í takti við stjórnarandstöðuna. Hefur Samfylkingin kverkatak á stjórn Landsvirkjunar ? Þetta er mjög óeðlilegt ástand, og tal talsmanna Landsvirkjunar um nýtingu grænna tækifæri til eflingar hags Íslands er hrein hræsni í þessu ljósi.
Þá kemur réttmætt hrós Bless í garð starfsmanna Norðuráls, en svipaða sögu er að segja af ISAL og mjög líklega af fleiri stóriðjuverum á Íslandi:
"Þessa aukningu í framleiðslugetu [úr 260 kt/ár í 320 kt/ár eða 23 %-innsk. BJo] má rekja til snjallra stjórnenda Norðuráls hér á landi, og það er ástæðan fyrir því, að þau hafa mikið að segja um rekstur álvera okkar í Bandaríkjunum. Þau hafa staðið sig einstaklega vel á Grundartanga."
Sé horft til íslenzkrar stóriðju og árangurs hennar í alþjóðlegu samhengi, er freistandi að alhæfa þessi orð Mike Bless og færa þau yfir á stóriðjuna í heild. Þau eru þess vegna beztu meðmælin, sem hægt er að fá fyrir aukningu þessarar starfsemi í landinu. Til að svo megi verða þarf hins vegar pólitískan vilja, jafnvel eldhug, eins og finna mátti hérlendis á 7. áratug síðustu aldar, aðallega innan vébanda Sjálfstæðisflokksins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2021 | 18:01
Sér undir iljar sósíalista
Heilbrigðisráðherra hefur verið rekin á flótta frá stefnu sinni um ríkisvæðingu skimana og rannsókna á sýnum teknum úr konum við leit að krabbameini. Rannsóknir þessar voru áður stundaðar hjá Krbbameinsfélaginu, en Landsspítalinn var alls ekki í stakkinn búinn að taka við þessum rannsóknum, svo að sýnin voru send utan til Danmerkur. Þjónusta Dananna var ófullnægjandi og hætta talin á ruglingi, enda virtust sýni jafnvel týnast.
Gösslaragangur ráðherrans við þessa valdsmannslegu yfirtöku á viðkvæmri þjónustu er yfirgengilegur, og má hiklaust segja, að nú sé mælirinn fullur varðandi mistök þessa ráðherra. Það voru skjólstæðingarnir, konurnar, sem í hlut áttu, sem með einurð sinni og samstöðu hröktu ráðherrann á flótta frá fyrri ákvörðun um ríkisvæðinguna, svo að nú mun Krabbameinsfélagið fá þessi verkefni á ný, ef rétt er skilið.
Þegar ráðherrann tílkynnti uppgjöf sína í þessu máli, fór hún illa að ráði sínu, því að hún axlaði ábyrgðina ekki sjálf, heldur kenndi Kófinu (C-19) um og miklum önnum Heilsugæzlu höfuðborgarsvæðisins þess vegna. Þetta var lítilmannlegur og lúalegur gerningur af hálfu ráðherrans, því að Heilsugæzla höfuðborgarsvæðisins með Óskar Reykdalsson í broddi fylkingar lék ekki aðalhlutverkið í þessum sorgarleik, heldur ráðuneytið. Þessi uppákoma segir meira en mörg orð um trúverðugleika og persónuleika þessa sósíalista á ráðherrastóli.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sami ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur reynt að svelta stofulækna til uppgjafar. Það er þyngra en tárum taki, að ríkisvaldið skuli grafa undan einni af þremur meginstoðum heilbrigðiskerfisins. Aðförin er ekki bara brot gegn atvinnuréttindum stofulæknanna, heldur hlýtur minni þjónusta þeirra að leiða til verra heilsufars skjólstæðinganna og aukins álags á heilsugæzluna og sjúkrahúsin, sem ekki máttu við meira álagi, sízt í Kófinu.
Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur, ritaði m.a. um þetta í Morgunblaðið 1. júlí 2021 undir fyrirsögninni:
"Vandinn sem aldrei var til".
Greinin hófst þannig:
"Því hefur ranglega verið haldið fram af yfirvöldum, að starfsemi stofulækna aukist í sífellu og á hana verði að koma böndum. Stjórnvöld hafa gengið hart fram í því að sauma að þjónustunni með neikvæðni og röngum upplýsingum og hafa ekki hlustað á álit og ráðgjöf lækna. Ferlið við gerð Heilbrigðisstefnu til 2030 og ráðgjöf kvensjúkdómalækna og rannsóknarlækna varðandi leghálsskimanir eru 2 skýr dæmi. Fleiri aðferðum hefur verið beitt, eins og stöðvun á nýliðun stofulækna með ólögmætum hætti árin 2015-2018. Sú aðgerð var svo úrskurðuð ólögmæt í héraðsdómi og henni hnekkt. Einnig hafa stjórnvöld lagt stein í götu starfseminnar með langvarandi samningsleysi, en síðast var samið við stofulækna árið 2013, og enginn samningur hefur verið í gildi frá því í lok árs 2018."
Það er með hreinum ólíkindum, að ríkisvaldið (heilbrigðisráðuneytið) skuli koma fram af slíkri óbilgirni gegn stofulæknum, að halda mætti, að þeir væru afætur, sem þyrfti að fjarlægja. Þessu verður að linna, og það verður að hleypa heilbrigðri skynsemi að. Það verður að setja í opinbera heilbrigðisstefnu, að heilbrigðisgeirinn skuli samanstanda af 3 stoðum, ríkisspítölum, þar af einu háskólasjúkrahúsi, heilsugæzlustöðvum, sem geti verið með frjálst rekstrarform, og einkareknum læknamiðstöðvum/stofum, þótt ríkissjóður fjármagni alla starfsemina og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greiði fyrir þjónustu og hafi eftirlit með tveimur síðast nefndu. Hið opinbera skuli jafnframt beina verkefnum í þann farveg, þar sem kostnaður er lægstur að uppfylltum öllum gæðakröfum.
Þetta þýðir, að sjúkrahúsin verða að hafa kostnaðarbókhald, sem gerir SÍ kleift að bera saman kostnað við sérfræðieiningar stofulækna. Tækniþróunin er í þá átt, að tæknilega er hægt að aflétta sífellt fleiri aðgerðum af t.d. háskólasjúkrahúsinu en áður, og það ber hiklaust að gera, ef það er hagstætt fyrir skattborgarana. Þetta ber að njörva niður í nýrri heilbrigðisstefnu. Það er mjög líklegt, að þannig mætti með hagkvæmum hætti útvista aðgerðum af spítölum sem nemur a.m.k. 20 % fjölgun sérfræðieininga árið 2020 eða 4,3 M sérfræðieininga. Með því að ríkisvaldið semji við stofulækna og nýti sér þjónustu þeirra, eins og eðlilegt má telja, gæti sá kostnaður ríkissjóðs hækkað um 50 % með ofangreindri fjölgun sérfræðieininga um 20 %, en hafa verður í huga, að hann yrði samt undir 6 % af heildarútgjöldum ríkissjóðs til heilbrigðismála. Það er líklegt, að finna megi út hagkvæmustu verkaskiptinguna út frá hagsmunum ríkissjóðs og að hún muni jafngilda hlutdeild stofulækna, sem er hærri en 6 %, e.t.v. 6-10 % af heildarkostnaði við heilbrigðiskerfið.
"Nú hefur enginn samningur verið við sérfræðilækna í 2,5 ár, og starfsemin hefur minnkað samfellt frá árinu 2016. Slæmar afleiðingar þessarar stefnu stjórnvalda eru nú að koma fram. Versnandi aðgengi, lenging á biðlistum og aukið álag á aðra þætti kerfisins. Þetta ásamt óvissu um framtíð starfseminnar er meðal ástæðna þess, að gamalgrónar læknastöðvar [t.d. Domus Medica - innsk. BJo] eru að loka. Meðalaldur sérfræðilækna á stofu hækkar sífellt (nálgast 60 ár), og nýliðun lækna og nýjungar í læknisþjónustu verða of hægfara."
Ósjaldan heyrast stjórnmálamenn skjalla þekkingariðnaðinn og telja hann til vaxtarbrodda atvinnulífsins. Í reynd eru þessir sömu stjórnmálamenn dragbítar á þróun læknisfræðinnar á Íslandi, því að einkageirinn knýr oft þá þróun. Nýliðun stéttarinnar hefur verið heft, og íslenzkir sérfræðingar í útlöndum sjá ekki mikla starfsmöguleika, þar sem Landsspítalann vantar nýtt húsnæði með nútímalegri starfsaðstöðu og einkageiranum er haldið í spennitreyju, sem stöðugt er hert á með ruddalegum hætti af forstokkuðum sósíalista, sem vill þessa starfsemi feiga.
"En hvað skyldi þessi niðurskurður skýra mikið af vaxandi álagi, sem nú er á aðra pósta heilbrigðiskerfisins ? Álagi, sem sumir þeirra eru að kikna undan, bráðadeild LSP og geðþjónustan. Áhugavert væri að meta hugsanlegt tjón, sem sjúklingar verða fyrir vegna þessa og eins áhrifin á starfsumhverfið. Hvort tveggja gæti verið verulegt."
Það eru tengsl á milli allra þessara þátta heilbrigðisgeirans og læknastofustarfseminnar. Ef dregið er úr síðast nefndu starfseminni, eins og raunin hefur verið undanfarin ár með sérstakri tilstuðlan heilbrigðisráðuneytisins, eykst álagið á hina þættina. Heilbrigðisráðherra hefur magnað það ófremdarástand, sem nú hrjáir heilbrigðisgeirann. Í lýðræðisþjóðfélagi ætti auðvitað að setja slíkan ráðherra af hið bráðasta, en forsætisráðherra heldur yfir henni hlífðarskildi. Þennan hlífðarskjöld verða kjósendur að rífa burt í kosningunum í haust, ef þeir eiga að eygja von um bætta tíð í þessum efnum, með því að hætta stuðningi við Vinstri hreyfinguna grænt framboð og reyndar aðra vinstri flokka, en færa stuðning sinn yfir á þá flokka, sem lofa stuðningi við sterkt og fjölbreytilegt heilbrigðiskerfi.
Nýjasta hneykslið í ranni heilbrigðisráðherra er kaldranaleg hundsun hennar á ákalli ljósmæðra við Fæðingardeild Landsspítalans, en þar og á öðrum fæðingardeildum ríkisins hefur nú skapazt neyðarástand vegna fjölgunar fæðinga í landinu og fækkunar ljósmæðra. Það er hræðilegt fyrir landsmenn að búa við stjórn, sem engan veginn er vandanum vaxin á viðkvæmu sviði.
Að lokum skrifaði Þórarinn Guðnason:
"Þessari óheillaþróun þarf að snúa við, taka upp nýjungar og liðka fyrir nýliðun. Starfsöryggi og rekstrarumhverfi stofulækna þarf að bæta. Augljóslega þarf að semja við lækna og bæta við verulegum fjármunum í þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar, rétt eins og fjármunir hafa verið auknir til heilsugæzlu og sjúkrahúsa.
Þetta þarf að gera áður en fleiri læknastöðvar loka og áður en fleiri læknar gefast upp á stofurekstri og snúa sér að öðrum verkefnum.
Það má einfaldlega ekki lengur láta reka á reiðanum með sérfræðilæknisþjónustuna utan spítala. Hún hefur setið eftir, og nú er hætt við, að sjúklingarnir verði skildir eftir með sárt ennið vegna heimatilbúins vanda, sem í raun var aldrei til."
Hernaðinum gegn heilbrigðiskerfinu verður að linna. Heilbrigðisráðherra hefur málað skrattann á vegginn af fullkomnu ábyrgðarleysi og hreinræktuðum fordómum í garð starfsemi stofulæknanna. Að þessu leytinu má líkja henni við riddarann sjónumhrygga, don Kíkóta, sem barðist við vindmyllur. Ráðherrann kann ekki að skammast sín. Það er eiginlega þyngra en tárum taki, og ætti aldrei að þurfa að gerast hér, að formaður Læknafélags Reykjavíkur sjái sig knúinn til að skrifa svona grein, en hafi hann þökk fyrir að útskýra stöðuna fyrir almenningi.
Ábyrgir Alþingismenn (þar eru því miður flautaþyrlar líka) hljóta að fylgjast með þeirri grafalvarlegu stöðu, sem heilbrigðisráðuneytið hefur skapað í heilbrigðismálum. Einn þeirra, Óli Björn Kárason, skrifaði grein í Morgunblaðið 14. apríl 2021, undir fyrirsögninni:
"Byggt undir tvöfalt heilbrigðiskerfi".
Þar stóð m.a.:
"Sárast er að horfa upp á, hvernig skipulega er verið að leggja grunn að tvöföldu heilbrigðiskerfi með einkareknum sjúkratryggingum. Almenningur verður að sætta sig við þjónustu innan ríkisrekins tryggingakerfis á sama tíma og efnafólk fær skjóta og góða þjónustu sjálfstætt starfandi lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Fyrirheitið um, að allir eigi jafnan og greiðan aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag verður án innihalds. Ég óttast, að þá bresti ýmislegt annað í íslenzkri þjóðarsál.
Tregða heilbrigðisyfirvalda til að nýta kosti einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustu og vinna að samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og sjálfstætt starfandi aðila er óskiljanleg. Dregið er úr valmöguleikum fólks, unnið gegn hagkvæmri nýtingu fjármuna og álag á opinber sjúkrahús aukið."
Þessi texti þingmannsins gefur vonir um, að Sjálfstæðisflokkurinn standi ekki aftur að ríkisstjórn, þar sem forstokkaður sósíalisti fær að leika lausum hala og rústa heilbrigðiskerfinu í nafni sósíalistískrar hugmyndafræði lítils þingflokks. Næst verður að njörva niður endurreisn heilbrigðiskerfisins með aukinni þátttöku þriðju stoðarinnar, einkarekinna læknastofa og læknamiðstöðva, ef þær verða hagkvæmasti kosturinn fyrir sjúklingana og skattborgarana.
Óli Björn hélt áfram:
"Hægt og bítandi er verið að hneppa heilbrigðisþjónustuna í fjötra fábreytileika og aukinna útgjalda. Við munum eiga stöðugt erfiðara með að fylgja öðrum þjóðum eftir á sviði heilbrigðisvísinda. Samkeppnishæfni okkar við að laða til landsins vel menntað og hæfileikaríkt heilbrigðisstarfsfólk, eftir langt sérnám, verður verri."
Það er ljóst af þessu, að ÓBK gerir sér grein fyrir stöðunni í bráð og lengd, sem upp er komin í íslenzka heilbrigðiskerfinu og er bein ógn við öryggi sjúklinga og hagsmuni skattborgaranna. Hann mun áreiðanlega tala fyrir öflugri viðspyrnu í þingflokki sjálfstæðismanna, enda er hún í anda grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins.
Að lokum skrifaði ÓBK:
"Þegar yfirvöld skilja ekki, að læknavísindin eru þekkingariðnaður, sem nærist á fjölbreytileika, ekki sízt í rekstrarformi, er sú hætta raunveruleg, að í stað framþróunar verði stöðnun. Ríkisvæðing elur ekki af sér nýsköpun, tryggir ekki lífsnauðsynlega nýliðun, gengur gegn atvinnufrelsi heilbrigðisstarfsmanna, og kannski það, sem er verst: dregur úr þjónustu og öryggi við sjúklinga.
Er þetta sú framtíðarsýn, sem ætlunin er að kynna landsmönnum fyrir komandi alþingiskosningar ?"
Óli Björn Kárason hefur greinilega gert sér grein fyrir, hvert ráðherrann stefnir með heilbrigðiskerfið núna, og til hvers það mun leiða fyrir þjónustuna og þann, sem borgar, skattgreiðendur. Þá er góð von til þess, að aðrir þingmenn flokksins og jafnvel aðrir frambjóðendur flokksins muni vekja rækilega máls á núverandi óheillabraut ráðherrans og benda á aðra leið, leið fjölbreytni, betri þjónustu og atvinnufrelsis. Sósíalistar mega ekki komast upp með að smygla stefnu sinni bakdyramegin inn á þjóðina. Ef almenningur vill ríkisvæðingu heilbrigðisgeirans og ganga af stofustarfseminni dauðri með lengingu biðlista og lakari nýtingu fjármagns en með einkarekstri, sem nýtt getur tækniþróunina til að aflesta spítalana, þá kýs hann sósíalistana. Að öðrum kosti kýs almenningur hina, sem eru opnir fyrir möguleikum einkarekstrar til bættrar þjónustu við sjúklinga og sparnaðar fyrir ríkissjóð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2021 | 21:24
Hugmyndafræðilegt skipbrot
Heilbrigðisráðherra hefur rekið skefjalausa ríkisvæðingarstefnu á sviði heilbrigðismála með þeim afleiðingum m.a., að líkja má Landsspítalanum við strandað risaskip (á íslenzkan mælikvarða) og einkareknu læknastofurnar eru í uppnámi. Skjólstæðingar kerfisins í nútíð og framtíð eru meginfórnarlömb þessa stríðsrekstrar ráðherrans í nafni löngu afdankaðrar hugmyndafræði marxismans, en allt starfsfólk Landsspítalans og læknastofanna líður önn fyrir ástandið, eins og nýleg yfirlýsing 985 lækna bar með sér. Það tekur langan tíma að bæta skaðann og koma á góðu jafnvægi, en ágæt byrjun væri að semja við sérfræðilækna og létta á Landsspítalanum með útvistun þaðan til aðila innanlands.
Óli Björn Kárason, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í SV-kjördæmi, hefur ritað mikið um heilbrigðismál og sýnt fram á, að miðstýring og ríkisvæðing að hætti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er fjarri því að vera sjálfsögð eða eðlileg leið til þess að veita sjúklingum hérlendis góða þjónustu. Hann óttast, að núverandi stefnumörkun heilbrigðisráðuneytisins muni kalla fram tvöfalt heilbrigðiskerfi, sem ber að varast til að magna ekki stéttaskiptinguna í landinu. Hann ritaði í Morgunblaðið 3. marz 2021 undir fyrirsögninni:
"Gegn tvöföldu kerfi".
Greinin hófst þannig:
"Hugmyndafræðin að baki lögum um sjúkratryggingar er skýr, "að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag", eins og segir í 1. grein laganna. Markmiðið er "að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum hennar" og um leið "að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna".
Það var mikilvægt hjá ÓBK að rifja upp þessi grundvallaratriði sjúkratryggingalaganna. Með aðför heilbrigðisráðherra að starfsemi sérfræðilækna á sjálfstæðum læknastofum og í læknamiðstöðvum virðist hún hafa brotið þessi lög, því að hún neitar sanngirniskröfu þessara lækna um hækkun gjaldskrár þeirra til samræmis við hækkun launavísitölu (launakostnaður vegur þyngst í rekstri læknastofa) og neyzluverðsvísitölu. Þar með keyrir hún stofurnar í fjárhagslegt þrot, nema læknarnir taki aukaþóknun af sjúklingum, sem Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa ekki heimild heilbrigðisráðuneytisins til að endurgreiða. Þar með brýtur ráðherra lagaákvæði um "jafnan aðgang" og einnig um "hámarksgæði" þjónustunnar. Um þetta skrifaði Þórarinn Guðnason, hjartalæknir og formaður Læknafélags Reykjavíkur, í Morgunblaðið 20. maí 2021 undir yfirskriftinni:
"Þúsund orð um einingarverð".
Hún hófst þannig:
"Í langvarandi samningsleysi undanfarinna ára hafa sjálfstætt starfandi sérfræðilæknar oft upplifað villandi málflutning frá stjórnvöldum. Nýlega var því t.d. haldið fram, að einingarverð sérfræðilækna hafi verið verðbætt að fullu eftir að samningur lækna rann út og reglugerð ráðherra tók við; reglugerð, sem ákvarðar einingarverð einhliða. Sannleikurinn er allt annar, eins og verður rakið hér. Á 13 árum, frá 1. apríl 2008 til 1. apríl 2021 hefur einingarverð hækkað um 65 %, en launavísitalan um heil 134 %. Einingarverðið ákvarðar upphæð greiðslu fyrir ákveðin læknisverk, og er greiðslan notuð til að greiða allan kostnað við rekstur læknastofanna, þ.á.m. laun starfsfólks. Engar aðrar greiðslur koma til."
Það er ríkisvaldinu ósamboðið að reyna með þessum hætti að knésetja starfsemi sjálfstætt starfandi lækna í læknamiðstöðvum og læknastofum, en aðferð heilbrigðisráðherra er að kippa rekstrargrundvellinum undan þeim. Þessi afstaða ráðherrans er óskiljanleg í ljósi þess, að við neyðarástandi liggur á Landsspítalanum og hann annar engan veginn þeim verkefnum, sem hann á að sinna (biðlistar). Það er engum vafa undirorpið, að það er þjóðhagslega hagkvæmt að stórefla starfsemi þessara læknastofa á þeim sviðum, þar sem gæðin eru fullnægjandi, því að einingarkostnaðurinn er lægri þar en t.d. á Landsspítalanum. Nýir valdhafar í heilbrigðisráðuneyti verða að snúa ofan af vitleysunni (sósíalismanum) og auka á næsta kjörtímabili hlutdeild þessarar starfsemi einkageirans í yfir 5,0 % af heildar útgjöldum til heilbrigðismála.
Áfram með Þórarin Guðnason:
"Til að geta haldið rekstri læknastofa áfram, hafa læknar neyðzt til að hækka gjaldskrá sína með því að innheimta s.k. aukagjöld eða komugjöld af sjúklingum - og skyldi engan undra, sem horfir á meðfylgjandi mynd. [Hún sýnir, að hækkun einingarverðs læknastofanna er aðeins um 70 % af hækkun launavísitölu. Þannig rekur heilbrigðisráðherrann sitt stríð gegn einkaframtakinu. Þetta er óásættanleg aðför með öllu og verður að leiðrétta hið fyrsta. Um þetta hneyksli þarf að ræða í kosningabaráttunni í sumar/haust - innsk. BJo.] Þessi aukagjöld eru bein afleiðing þeirrar gliðnunar, sem þar sést. Gjöldin eru í raun aðeins leiðrétting á gamalli úr sér genginni gjaldskrá, sem ekki hefur verið samið um í 8 ár, og yfirvöld hafa síðan valið að láta ekki fylgja verðlagi."
Þegar svona er í pottinn búið, þarf engan að undra, að nýliðun á læknastofunum er ekki sem skyldi, og er meðalaldur þessara lækna að nálgast 60 ár. Það er grafalvarlegt, ef aðstæður á Íslandi eru svo ókræsilegar fyrir tilstilli stjórnvalda, að vel menntaðir og þjálfaðir sérfræðingar veigra sér við að snúa heim til fósturjarðarinnar til að starfa þar. Framkoma stjórnvalda er til að skammast sín fyrir.
"Án gjaldskrárhækkana í formi aukagjalda hefði sennilega verið búið að loka einhverjum læknastöðvum nú þegar. Gjöldin hafa einfaldlega gert læknum kleift að halda rekstri áfram. Lokun læknastöðva hefði verið slæmur kostur, sett sjúklinga, starfsfólk og heilbrigðiskerfið í vanda og hefði getað valdið ófyrirséðum skaða. Skerðing á þjónustu, lengri bið, óvissa og óöryggi meðal sjúklinga eru allt þekktar afleiðingar þess, sem gerist, ef breytingar á heilbrigðisþjónustu eru illa undirbúnar."
Aðför heilbrigðisráðherra að einkarekinni heilbrigðisþjónustu misheppnaðist vegna þessara aukagjalda, sem skjólstæðingarnir tóku á sig. Með þeirri vitneskju, sem við nú höfum um bágborna getu Landsspítalans til að sinna öllum sínum verkefnum (nýleg yfirlýsing 985 lækna) má fullyrða, að heilbrigðiskerfið hefði lagzt á hliðina, ef sósíalistanum á stóli heilbrigðisráðherra hefði heppnazt hugsjónastarf sitt að leggja téðan einkarekstur í rúst. Þá hefði ekki jaðrað við neyðarástand í heilbrigðiskerfinu, heldur hefði það skollið á. Vinstri hreyfingin grænt framboð er ábyrg fyrir þessari ráðsmennsku og verðskuldar makleg málagjöld í komandi Alþingiskosningum.
Nú skal halda áfram að vitna í grein Óla Björns:
"Eftir því sem þjóðin eldist, munum við þurfa að auka útgjöld til heilbrigðismála. Ekki sízt þess vegna er mikilvægt, að fjármunir séu nýttir með skynsamlegum hætti, og þar skiptir skipulagið mestu. Ég hef áður haldið því fram, að innan kerfisins sé inngróin tregða til að nýta kosti einkaframtaksins, auka valmöguleika almenning og stuðla að hagkvæmri nýtingu fjármuna. Vegna þessa hefur aldrei tekizt fyllilega að virkja lögin um sjúkratryggingar - ná markmiðum þeirra um öfluga þjónustu við sjúkratryggða, ná rekstrarhagkvæmni og styrkja ríkið sem kaupanda að heilbrigðisþjónustu fyrir hönd landsmanna. Þessi innbyggða tregða hefur aukizt á síðustu árum. Afleiðingin er veikari og verri þjónusta.
Að óbreyttri stefnu festist íslenzk heilbrigðisþjónusta í sjálfheldu fábreytileika, aukinna útgjalda, verri þjónustu, biðlista og lakari starfsmöguleika heilbrigðisstétta. Með því að vinna gegn samþættingu og samvinnu opinbers rekstrar og einkarekstrar með áherzlu á ríkisrekstrarvæðingu heilbrigðisþjónustunnar verður til jarðvegur fyrir tvöfalt heilbrigðiskerfi og einkareknar sjúkratryggingar."
Þarna tíundar þingmaðurinn ÓBK, hvers vegna ríkisvaldið á þegar í stað að leggja af þjóðnýtingarstefnu sína á heilbrigðisgeiranum, sem ekkert er minnzt á í stjórnarsáttmálanum, en beina þess í stað auknu fé til hins einkarekna hluta heilbrigðisgeirans með útvistun verkefna. Þesssi rök hafa hvergi verið hrakin, en hverjar eru þá röksemdir sósíalista fyrir núverandi feigðarflani heilbrigðisráðuneytisins ?
Þau eru lágkúrulegar dylgjur um, að læknastofurnar misfari með traust, stundi ofgreiningar og oflækningar og rukki þannig SÍ og sjúklinga um of háar fjárhæðir. Þetta er ómerkilegur og einfeldningslegur áróður sósíalista fyrir ömurlegum málstað sínum. Læknastofurnar eru undir eftirliti Landlæknisembættisins og SÍ, sem er farin að gera stikkprufur og sannreyna innsenda reikninga. Enginn sómakær læknir hættir á að fórna starfsheiðri sínum í okkar litla samfélagi með því að stunda óheiðarleg vinnubrögð af þessu tagi.
Ráðherrann hefur jafnvel talað um sjálftöku lækna án þess að færa rök fyrir máli sínu og er þar með farin að dreifa gróusögum um upp til hópa heiðvirða stétt manna og kvenna. Málflutningur hennar er með öllu óboðlegur, og vitleysan er kórónuð, þegar hún jarmar um það, að ósiðlegt sé að græða á sjúklingum. Téður gróði, þar sem hann er fyrir hendi, er, eins og í öðrum atvinnurekstri, ekkert annað en vextir af fjármunum, sem lagðir hafa verið í fyrirtækið, og það er hár stofnkostnaður og miklir bundnir fjármunir í læknastofum og læknamiðstöðvum. Þess vegna eru þessi gróðabrigslyrði fyrir neðan allar hellur og varpa ljósi á ruddalegt framferði ráðherrans gegn læknastéttinni, framferði, sem verður sjúklingum sízt til framdráttar. Það þarf heldur ekki að fara í grafgötur með það, að einokunartilhneiging heilbrigðisráðherra á þjónustu við sjúklinga vinnur gegn hagsmunum skattgreiðenda. Af öllum þessum ástæðum hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að leggja þessi mál á stjórnarmyndunarborðið til að fá stefnubreytingu inn í næsta stjórnarsáttmála. Hversu hart hann getur fylgt því eftir, ræðst þó af gengi hans og VG í komandi Alþingiskosningum.
"Óskilgetið afkvæmi ríkisvæðingar stærsta hluta heilbrigðisþjónustunnar er tvöfalt kerfi. Í nafni jöfnuðar vilja andstæðingar einkarekstrar fremur lengja biðlista en nýta kosti einkaframtaksins. Afleiðingin er hins vegar aukið misrétti. Hinir efnameiri kaupa einfaldlega þjónustu beint hér á landi eða í öðrum löndum. Við hin, sem öll erum þó sjúkratryggð, þurfum að sætta okkur við að bíða mánuðum og misserum saman eftir nauðsynlegri þjónustu og höfum lítið sem ekkert val um hana."
Það er alveg dæmigert fyrir sósíalismann, að hann leiðir til skorts m.v. eftirspurn og síðan ójafnréttis og óréttlætis, eins og ÓBK lýsir slóðanum eftir heilbrigðisráðherrann. Þjóðin er auðvitað ekki ýkja hrifin af þessum ósköpum, enda á hún mikið undir. Í nýlegri skoðanakönnun kom í ljós, það sem engan undrar, að meirihlutinn vill blandað kerfi, þar sem er samkeppni og aukið valfrelsi. Yfirborðssvamlarar og falsfréttadreifarar hafa túlkað niðurstöðuna einokunarsinnum í hag, en það átti einvörðungu við sjúkrahúsrekstur. Hákólasjúkrahús og héraðssjúkrahús verða fyrirsjáanlega ríkisrekin um langa framtíð.
Að lokum skrifaði ÓBK:
"Ólíkt ríkisrekstrarsinnum hef ég verið sannfærður um, að verkefni stjórnmálamanna sé ekki að leggja steina í götur einkaframtaksins, heldur að virkja það öllum til hagsbóta. Valfrelsi um heilbrigðisþjónustu óháð efnahag á að vera markmiðið, og með því eykst aðhaldið og stuðlað er að hagkvæmari nýtingu fjármuna. Um leið viðurkennum við sem samfélag hið augljósa; læknisfræðin og heilbrigðisvísindin öll eru þekkingariðnaður og reist á hæfileikaríku og vel menntuðu starfsfólki. Þannig vinnum við gegn því, að tvöfalt heilbrigðiskerfi verði til með tilheyrandi ójöfnuði."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2021 | 18:46
Heilbrigðiskerfi í andþröng
Það má flestum vera alveg ljóst, að heilbrigðiskerfið á Íslandi á við verulega erfiðleika að etja, svo að ekki sé nú dýpra í árinni tekið. Ekki þarf að vera tíður viðskiptavinur þessa risakerfis til að gera sér þetta ljóst, heldur er nóg að lesa yfirlýsingar heilbrigðisstarfsfólks, sem innan þess starfar, en það er sumt hvert að þrotum komið. Ástandið á Landsspítalanum er ósamboðið háskólasjúkrahúsi og gæti ekki komið upp með réttri verkaskiptingu ríkisspítalans og einkageirans í heilbrigðiskerfinu og meiri valddreifingu innan spítalans. Þar eru nú þverbrestir að boði heittrúaðs heilbrigðisráðherra og því er nú ófremdarástand á háskólasjúkrahúsinu, svo að læknar hafa varað við, að öryggi sjúklinga geti orðið í uppnámi.
Það er líka ljóst, að ekki er við mannauðinn að sakast. Hann er fær um að leysa flókin og vandasöm verkefni og faglega einfaldari verkefni, sem útheimta góða skipulagshæfni og öguð vinnubrögð. Dæmi um hið síðara er frábær frammistaða sjúkrahúsa landsins og heilsugæzlustöðva í C-19 faraldrinum og við bólusetningu landsmanna, sem í júní 2021 náði því langþráða takmarki að framkalla hjarðónæmi hérlendis gegn leiðinda kórónuveiru SARS-CoV-2, sem í mörgum tilbrigðum veldur C-19 sjúkdóminum, sem reyndar yfirleitt olli aðeins vægum flensueinkennum, en hefur leitt 30 manns til dauða hérlendis.
Því verður þó að halda til haga, að 20-30 manns hafa látizt í kjölfar bólusetningar, flestir þeirra í sömu áhættuhópum og gagnvart C-19. Það er einnig þannig, að bólusettir geta sýkzt og smitað aðra, en með vægari hætti en ella.
Hlutfallslegur fjöldi dauðsfalla hérlendis af völdum C-19 er aðeins um 80 ppm (af milljón), sem eru lítil dánarlíkindi gagnvart faraldri og sennilega þau lægstu í heimi gagnvart C-19. Orsakir eru lágur meðalaldur þjóðarinnar, tiltölulega gott heilsufar hennar þrátt fyrir alls konar "skavanka", og góð þjónusta heilbrigðisstarfsfólks við þá veiku.
Í kjölfar hjarðónæmis innanlands aflétti ríkisstjórnin öllum samkomu- og nándarhömlum á miðnætti aðfararnótt 26. júní 2021 við mikinn fögnuð, en áfram er strangt eftirlit á landamærunum, þótt ferðamannastraumurinn hafi aukizt mjög og eru nú lendingar farþegaflugvéla á Keflavíkurflugvelli um 25 á sólarhring.
Það, sem hrjáir heilbrigðiskerfið, er framar öðru heilbrigðisráðuneytið. Þar situr nú og stjórnar aðgerðum ríkisvaldsins á heilbrigðissviði fólk, sem fórnar hagsmunum skjólstæðinganna og starfsfólksins fyrir úreltar stjórnmálalegar kreddur um nauðsyn miðstýringar ríkisvaldsins, þ.e. stjórnmálamanna og embættismanna, á stóru og smáu, og valddreifing og einkaframtak eru bannfærð þar. Þetta er beinlínis stórhættuleg stefnumörkun, því að hún framkallar stjórnleysi, öngþveiti og gríðarlega óánægju skjólstæðinga og starfsfólks auk sóunar á fjármunum almennings. Þetta var staðfest í yfirlýsingu 985 lækna nýverið, sem er í raun "rautt spjald" á ráðherra.
Þetta kom t.d. hastarlega í ljós, þegar heilbrigðisráðherra ákvað með einu pennastriki að færa krabbameinsskimanir kvenna frá Krabbameinsfélaginu til hins opinbera. Þarna var um að ræða skrifborðsákvörðun af verstu sort, sem sýnir, að ráðherrann er utan gátta og fer illa með vald sitt, og í því er stórhætta fólgin fyrir skjólstæðingana.
Landið ber aðeins eitt háskólasjúkrahús. Það er óumdeilt, en þar er nú hins vegar alls konar starfsemi, sem ekki á heima á háskólasjúkrahúsi og þarf að létta af Landsspítalanum með því að útvista henni til sjúkrahúsa á landsbyggðinni, og einnig er vel hægt að útvista margs konar starfsemi Landsspítalans til einkarekinna læknastofa. Valddreifing og verkaskipting ólíkra staða og stjórnunarfyrirkomulags geta létt álagi af yfirkeyrðum Landsspítala og skapað heilbrigðan samanburð á milli fagfólks og fyrirkomulags, bætt þjónustuna við skjólstæðingana og auðveldað kerfinu að laða til sín íslenzkt starfsfólk, sem lokið hefur námi sínu hérlendis og/eða erlendis. Þetta er vandamál núna, og þarf engan að undra. Starfólkið þarf að geta valið á milli fleiri vinnustaða og vinnuveitenda. Mönnunin mun þá reynast mun auðveldari viðfangs.
Hin dauða hönd heilbrigðisráðuneytisins (ríkisins) er búin að ýta heilbrigðiskerfinu fram á heljarþrömina, og það er nú bara seigla og þrautseigja starfsfólksins, sem heldur því gangandi frá degi til dags, en við svo búið má ekki standa. Það verður strax að stokka spilin upp, hætta að stjórna samkvæmt úreltri og löngu fallinni hugmyndafræði og hleypa heilbrigðri skynsemi á sviði rekstrar að, sem er fordómalaus og nýtir allar góðar leiðir til úrbóta. Ein slík leið er að hlíta ráðum starfsfólksins. Morgunblaðið birti 28. júní 2021 viðtal við dr Theódór Skúla Sigurðsson, lækni, undir fyrirsögninni:
"Þurfum svigrúm til að mæta stórslysi".
Það hófst svona:
""Sjónarmið okkar lækna eru ákall úr grasrótinni", segir Theódór Skúli Sigurðsson, svæfingalæknir á Landspítalanum. Hann er í forsvari þeirra 985 lækna, sem í síðustu viku afhentu fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins undirskriftir sínar, þar sem skorað er "á stjórnvöld að axla ábyrgð á stöðunni í heilbrigðiskerfinu", eins og komizt var að orði.
Læknar telja mikilvægt, að gefin fyrirheit um aukið fjármagn til alls heilbrigðiskerfisins verði efnd. Mikilvægt sé að koma með varanlegar lausnir á öldrunarþjónustu, sbr að á hverjum tíma dvelst á Landspítalanum fólk, sem lokið hefur læknismeðferð, en ekki er hægt að útskrifa, því [að] ekki er í önnur hús að venda. Í raun stífli þetta allt gangvirki spítalans."
Það er í raun og veru að fara í geitarhús að leita ullar að senda bænaskrá til silkihúfanna í heilbrigðisráðuneytinu og biðja þær um að "axla ábyrgð" á því, að undir yfirumsjón sama ráðuneytis er búið að ofkeyra Landsspítalann með nýjum verkefnum, sumpart verkefnum, sem einkaframtakið hefur sinnt fram til þessa, án þess að ganga úr skugga um, að spítalinn sé í stakk búinn til að leysa ný verkefni sómasamlega. Það er tómt mál að ætlast til aukinnar þjónustu Landsspítalans fyrr en hann kemst í nýtt húsnæði. Starfsemi hans er komin yfir þolmörk húsnæðis og starfsfólks. Ríkisvæðingarstefna Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á heilbrigðiskerfinu er óboðleg, enda er hún dæmd til að mistakast. Kerfi ráðstjórnarinnar er vanhugsað og reist á þekkingarleysi og ranghugmyndum. Ríkisvæðingin er ein meinloka og gengur þar af leiðandi hvergi upp. Það mun leiða til verri og dýrari þjónustu og sennilega til tvöfalds heilbrigðiskerfis, þar sem hægt verður að snara út úr eigin vasa til að fá framúrskarandi þjónustu strax.
Sjálfstæðisflokkurinn vill allt annað fyrirkomulag. Háskólasjúkrahúsið verður áfram ríkisrekið og á þess vegum verður áfram bráðadeildin og verkefni, sem hefðbundið er að hafa á háskólasjúkrahúsum. Hins vegar er hægt að nýta kosti einkaframtaksins til að létta byrðar háskólasjúkrahússins, svo að það geti betur sinnt sínu hlutverki. Læknastofur sérfræðinga fái greiðslusamning við Sjúkratryggingar Íslands, enda geta þær veitt ódýrari gæðaþjónustu en opinberar stofnanir. Til að leysa fráflæðisvanda Landspítalans verður ríkisvaldið að horfast í augu við hækkun verðlags í landinu, aðallega vegna kjarasamninga, svo að eftirsóknarvert verði að reka hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir aldraða.
""Þó [að] fjárveitingar til Landspítalans séu auknar, sjáum við þess ekki stað. Því teljum við, að hugarfarsbreytingu þurfi um rekstur spítalans. Læknar eru leiðtogar með hugmyndir og mikilvægt er að virkja þá til meiri áhrifa. Læknar eru langþreyttir og tilfinningin sú, að ekki sé hlustað á sjónarmið okkar, þegar varað er við hættulegu ástandi", segir Theódór Skúli og áfram:
Ýmis mál eru í ólestri, s.s. leghálsskimanir og rannsóknir á þeim, sem voru fluttar til Danmerkur með slæmum afleiðingum. Því miður virðist stefna stjórnvalda í heilbrigðismálum vera sú, að gefnar eru út tilskipanir á efstu stöðum; skilaboð, sem virðist eiga að fylgja umyrðalaust. Sjónarmið lækna hafa ekki skilað sér til stjórnvalda. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.
Erfið staða á bráðadeild Landspítala s.s. mannekla og langur biðtími sjúklinga eftir þjónustu hefur verið til umfjöllunar að undanförnu. Í þeim efnum bendir Theódór á, að í heilbrigðiskerfinu haldist allt í hendur. Engin heildstæð framtíðarstefna sé í öldrunarmálum, þrátt fyrir mikla fjölgun eldra fólks, sem alltaf þarf margvíslega þjónustu heilsugæzlu og sjúkrahúsa."
Læknirinn lýsir þarna afleiðingum skefjalausrar miðstýringar og ríkisrekstrar. Reksturinn er orðinn svo umsvifamikill, að æðstu stjórnendur hafa mjög ófullkomnar upplýsingar um stöðuna, þar sem þjónustan er veitt, enda fjöldi stjórnunarlaga á milli, og framlínufólkið er vonsvikið og uppgefið. Stefna vinstri grænna í heilbrigðismálum býður hættunni heim í þessum efnum. Það verður að draga úr þessari ráðstjórnarlegu miðstýringu, útvista verkefnum og minnka þannig umfangið, svo að hægt sé að sinna betur þeim verkefnum, sem háskólasjúkrahúsið á að sinna.
Í lokin kom hörð ádrepa á stjórnendur Landspítalans, en undirstrika verður, að um kerfisvandamál er að ræða, þannig að ábyrgðin liggur í heilbrigðisráðuneytinu:
"Núverandi stjórnendur Landspítalans hafa setið lengi, hið bezta fólk, sem vill vel, en nær ekki þeim árangri, sem þarf. Maður fær á tilfinninguna núna, að þeir séu algjörlega ráðþrota gagnvart vandanum og finni ekki neinar alvöru lausnir, sem haldi til langframa. Sé staðan þannig, að ekki verði komizt lengra í sparnaði, þyrftu stjórnendur að koma þeirri staðreynd til stjórnvalda. Nái þau skilaboð ekki í gegn, ætti stjórn Landspítalans að íhuga að segja sig frá verkinu til að undirstrika mikla alvöru málsins."
Þegar svona er komið, þ.e. starfsfólkinu finnst stjórnendur spítalans vera búnir að gefast upp gagnvart viðfangsefnunum, þá er komið að leiðarenda þess ríkisbákns, sem hér er um að ræða. Það verður að stokka spilin upp í samráði við starfsmenn, fá einkaframtak heilbrigðisstarfsfólks til að létta undir og sníða Landsspítalanum stakk eftir vexti.
Núverandi heilbrigðisráðuneyti mun aldrei grípa til þeirra róttæku úrræða, sem nú er þörf á, enda skilar það auðu í yfirlýsingu vegna ofangreinds neyðarkalls læknanna. Þar skilur fólk ekki rót vandans, enda hefur það skapað hann með forstokkaðri ríkisrekstrarafstöðu sinni og beinni fjandsemi við einkaframtak á þessu sviði. Morgunblaðið tíundar eftirfarandi viðbrögð ráðuneytisins, sem greinilega kemur af fjöllum:
"Skilaboð lækna um erfið starfsskilyrði eru grafalvarleg, sé litið til aðstöðu starfsfólks og þess, að núverandi ástand veldur stöðnun og jafnvel afturför. Þetta segir í yfirlýsingu heilbrigðisráðuneytisins um yfirlýsingu og undirskriftir læknanna. Sjónarmið læknanna eru sögð tekin alvarlega, þótt þau séu ekki algild lýsing á heilbrigðiskerfinu."
Heilbrigðisráðuneyti Svandísar Svavarsdóttur fær falleinkunn. Lifi Landsspítalinn !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.6.2021 | 18:50
Úrgangsstjórnun í skötulíki
Í síðasta pistli á þessu vefsetri (24.06.2021-Jónsmessu) var gerð grein fyrir þeim ógöngum, sem stjórn Sorpu hefur ratað í með sína nýju jarð- og gasgerðarstöð, GAJA. Borgin er aðaleigandi Sorpu, og núverandi borgarstjórnarmeirihluta eru mjög mislagðar hendur í verklegum efnum, svo mjög, að í fljótu bragði mætti ætla, að allt, sem borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar græns framboð, Píratahreyfingarinnar og Viðreisnar, kemur nálægt, endi með klúðri.
Því miður virðist GAJA vera enn eitt dæmið í þetta safn fúsks og óhæfni. Stjórnmálamenn, sem ánetjazt hafa forsjárhyggjunni, þykjast þess einfaldlega umkomnir að hafa vit fyrir öðrum, þótt þá skorti bæði til þess vit og þekkingu, þegar kemur að tæknilegum verkefnum.
Þeirri aðferð að virkja markaðsöflin til að koma fram með hagkvæma framtíðarlausn á viðfangsefnum í frjálsri samkeppni er hafnað, af því að markaðsöflin eru knúin áfram af hagnaðarvon, sem er ljótt og ófélagslegt hugarfar í huga draumóravingla á vinstri kantinum. Þessir stjórnmálamenn gerir þess vegna hverja skyssuna á fætur annarri til stórfellds tjóns fyrir almenning, sem fær reikninginn, og varla nokkur stjórnmálamaður axlar sín skinn út af óráðsíunni.
Í forystugrein Bændablaðsins, 24. júní 2021, fær vonlaus, pólitísk hugmyndafræði í umhverfismálum ærlega á baukinn og var kominn tími til slíkrar gagnrýninnar umræðu um viðfangsefni, sem er í raun tæknilegt, fjárhagslegt og lagalegt úrlausnarefni, hafið yfir sérvizku og hugmyndafræði sérlundaðra stjórnmálamanna, sem hafa tafið fyrir eðlilegri þróun sorpeyðingarmála hérlendis (eins og þeir núna tefja fyrir eðlilegri þróun umferðarmannvirkja í Reykjavík með hrapallegum afleiðingum).
"Eftir áratuga eyðimerkurgöngu í meðhöndlun sorps á Íslandi berast nú þau tíðindi, að fara eigi að taka til hendi við að "undirbyggja ákvarðanir" um tæknilausnir, staðarval og kostnað við byggingu á 100 kt/ár sorporkustöð, sem væntanlega verður byggð á Suðurnesjum.
Að undirbúningi ákvarðanatöku, sem á að taka 4 mánuði, standa 4 byggðasamlög, þ.e. Sorpa, Kalka á Suðurnesjum, Sorpurðun Vesturlands og Sorpstöð Suðurlands auk umhverfisráðuneytisins. Á starfssvæði byggðasamlaganna fellur til nærri 85 % alls úrgangs á landinu.
Eins og margoft hefur verið fjallað um hér í Bændablaðinu, þá hefur ríkt ótrúlegt úrræðaleysi í sorpmálum Íslendinga líkt og skolpmálum um áratuga skeið. Vandræðagangurinn í sorpmálunum er einkum tilkominn vegna kreddufullrar pólitískrar afstöðu þeirra, sem ráðið hafa ferðinni í umhverfismálum bæði á landsvísu sem og í sveitastjórnarpólitík, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Þar á bæ vildi fólk hreinlega ekki taka mark á þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í sorpbrennslumálum á Norðurlöndum og víðar um heim á liðnum áratugum. Gilti þá einu, þó [að] sýnt hafi verið fram á með vísindalegum gögnum og útreikningum ágæti þess að umbreyta sorpi í orku. Þess í stað hefur verið haldið dauðahaldi í þá afstöðu, að öll brennsla á sorpi sé alslæm og ekki í takti við þá hugmyndafræði, sem rekin hefur verið í loftslagsmálum." (Undirstr. BJo.)
Þessi texti sýnir, að stjórnmálamenn með einkennilegar skoðanir, sem illa fylgjast með á þessu sviði og lítt kunna til verka á sviði nútímalegrar meðhöndlunar sorps, hafa vélað um málin með arfaslæmum árangri á höfuðborgarsvæðinu, þar sem Sorpa er í djúpum skít með misheppnaða meira en mrdISK 6 fjárfestingu á bakinu undir formennsku vinstri græningja í borgarstjórnarmeirihluta undir forystu Samfylkingarinnar.
Það verður að snúa af þessari vonlausu braut með því að draga kunnáttumenn á sviði tækni og verkefnastjórnunar að undirbúningi verkefnisins "Sorpknúið orkuver fyrir landið allt", sem finni hagkvæma staðsetningu, helzt þar sem þörf er á orkunni), bjóði verkið út, uppsetningu og rekstur, og velji birgi og semji við hann. Það er að líkindum hagkvæmasta og áhættuminnsta leiðin fyrir skattgreiðendur. Stjórnmálamenn hafa ekki ráðið við verkefnið nútímaleg sorpeyðing hingað til, og með núverandi meirihluta í Reykjavík er algerlega borin von, að þeir finni hagkvæmustu og umhverfisvænstu leiðina í þessu máli.
Halldór Kristjánsson, ritstjóri Bbl., hélt áfram:
"Með þessa sérkennilegu hugmyndafræði að leiðarljósi var m.a. farið út í botnlausan fjáraustur við uppbyggingu á jarðgerðar- og gasstöð í Álfsnesi, sem kostaði skatt- og útsvarsgreiðendur á 7. mrd ISK. Sú stöð getur samt ekki annazt förgun á plasti og ýmsum efnum, sem áfram hefur orðið að urða. Þá hefur verið upplýst, að önnur meginframleiðsluafurð stöðvarinnar, molta, er algjörlega ónothæf vegna mengandi efna, sem í henni eru."
Það er ekki að ófyrirsynju, að varað er við áframhaldi þeirra vinnubragða, sem Sorpustjórnin hefur viðhaft, því að GAJA-verkefnið er alveg dæmigert um afleiðingar fúsks óráðþægra stjórnmálamanna, sem troðið hafa sér í stjórnunarstöður fyrirtækja hins opinbera, sem þeir ráða ekkert við. Umhverfisráðherra er í lykilstöðu til að beina undirbúningi sorporkuversins í réttan farveg, en þar sem hann er af sama sauðahúsi og téð Líf, er borin von, að hann geri það. Þess vegna stefnir í hreint óefni með um mrdISK 30 fjárfestingu. Í stað þess að skuldbinda útsvarsgreiðendur fyrir risaupphæðum í verkefni, sem e.t.v. verður bara til vandræða í höndum óhæfra stjórnmálamanna, á að fela einkaframtakinu verkefnið á grundvelli útboðs, sem vandað verkfræðiteymi með lögfræðinga sér til aðstoðar hefur undirbúið og síðan metið tilboð og samið við hagstæðasta birginn í nafni "sorpsamlags Íslands" um alverk og rekstur. Vonandi nunu sorpflutningar í nýju stöðina verða sjóleiðis, því að 100-200 kt/ár sorpflutningar eru ekki leggjandi á vanbúið vegakerfið.
"Nú segir borgarfulltrúi VG og formaður stjórnar Sorpu [Líf Magneudóttir], sem á og rekur jarðgerðar- og gasstöðina GAJA, í viðtali í Morgunblaðinu sl. þriðjudag [22.06.2021], að þar sé "verið að ná tökum á lífrænum úrgangi". Einnig segir: "Næsta stóra verkefnið er að afsetja brennanlegan úrgang". Fram kemur í þessu viðtali, að nú eigi loks að fara að skoða málin. Allt verði skoðað, m.a. flutningur sorpsins, sótspor þess og staðarval sorporkustöðvar sem og nýting "glatvarma".
"Nýta "fiskeldismykju", mannaseyru, moltu, brennistein og fleira sem áburð".
"Jónas Baldursson og Ragnhildur Friðriksdóttir, starfsmenn Matís, að vinna með moltu. Matís fékk 3 tegundir af moltu til að prófa, m.a. frá gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA, sem er í eigu Sorpu. Sú molta reyndist ónothæf vegna aukaefna, sem í henni eru. Þurfti reyndar undanþágu frá reglum til að gera prófanir með notkun hennar á afmörkuðu svæði."
(Undirstr. BJo.)
Samkvæmt þessu heldur stjórnmálamaðurinn, sem ber höfuðábyrgð á GAJA gagnvart eigendum Sorpu, fram blekkingavaðli til að breiða yfir misheppnaða fjárfestingu byggðasamlagsins Sorpu, sem stjórnmálamenn, aðallega í meirihluta borgarstjórnar, stjórna. Þetta hlýtur að hafa stjórnmálalegar afleiðingar í borginni og ætti, ef allt væri með felldu, að leiða huga stjórnvalda að nauðsyn breyttrar aðferðarfræði við stjórnun úrgangsmála landsins. Á því sviði, eins og öðrum, leiðir fúsk til falls fyrr en seinna.
Forsætisráðherra virðist hafa gert loftslagsmálin að aðalmáli sínu fyrir Alþingiskosningarnar 2021, þótt ekki verði séð, að þau geti orðið VG til framdráttar. Hún sagði t.d. nýlega, að sorphirðumálin væru mikilvæg fyrir árangur okkar í baráttunni við losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Er það svo, eða heldur hún það bara ?
Í nýjustu skýrslu Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda stendur þetta m.a.:
"Meðhöndlun úrgangs var uppspretta 5 % af losun Íslands árið 2019 (LULUCF)."
Þessi losun nam aðeins 224 kt (4,7 %) CO2íg 2019 og hafði þá minnkað um 2,2 % síðan 1990 og um 12 % frá 2018. Miklar fjárfestingar í sorpeyðingu er ekki hægt að réttlæta með minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Aðrar og mikilvægari ástæður gera nútímavæðingu þessara mála nauðsynlega hérlendis. Evrópusambandið hefur bannað urðun, og sú ESB-löggjöf hefur verið innleidd í EFTA-löndum EES. Það er ekki lengur verjanleg landnotkun út frá landnýtingarsjónarmiðum og mengun, sem getur verið lífríkinu skaðleg, að urða sorp. Urðun þýðir þar að auki myndun metans í mun meiri mæli en þörf er á hérlendis, og metan er meira en tuttugufalt öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi, sem stígur upp af sorpknúnum orkuverum. Þetta koltvíldi gæti verið hagkvæmt að fanga og selja gróðurhúsabændum og lífeldsneytisframleiðendum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2021 | 18:17
Sorpeyðing í ólestri - verkefnastjórn í soranum
Ætla mætti að óreyndu, að umhverfisráðherra landsins liti á það sem eitt sinna höfuðviðfangsefna að fást við meðhöndlun úrgangs með nútímalegum hætti. Því virðist ekki vera að heilsa, því að hann svarar ekki bréfum, sem til ráðuneytis hans berast um samstarf við innleiðingu á gjörbreyttu verklagi í þessum efnum. Þess í stað lætur hann undirsáta sína hringja út á land og spyrja, hvort þar þekki menn ekki svæði, sem hann gæti friðlýst.
Þess á milli er hann aðallega upptekinn af losun gróðurhúsalofttegunda, þótt hún sé svo lítil frá Íslandi, að áhrif hennar á hlýnun jarðar eru ómælanleg. Samt reynir hann, ásamt forsætisráðherranum, að setja "Ísland í fremstu röð" með nýjum, ótímabærum og rándýrum markmiðum um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda. Þannig hafa "erroribus" nokkuð að iðja.
Í Bændablaðinu 10. júní 2021 birtist átakanleg frásögn Harðar Kristjánssonar af molbúahætti íslenzkrar stjórnsýslu. Fyrirsögn fréttaskýringarinnar var svohljóðandi:
"Bauðst til að hanna, fjármagna, byggja og reka hátæknisorporkustöð á Íslandi."
Hún hófst þannig:
"Opnuð var rúmlega mrdISK 6 gas- og jarðgerðarstöðin GAJA í Álfsnesi á árinu 2020. Nú hefur komið í ljós, að moltan, sem er annað meginhráefnið, sem stöðin framleiðir, er með öllu ónothæf. Hugmyndir um að leysa málið með því að reisa sorporkustöð af fullkomnustu gerð hafa enn ekki fengið hljómgrunn, jafnvel þótt norskir rekstraraðilar slíkra stöðva hafi boðizt til að fjármagna, byggja og reka slíka stöð.
Bændablaðið hefur undir höndum bréf, sem John Ragnar Tveit, viðskiptaþróunarstjóri Daimyo AS í Ósló í Noregi, sendi Jóni Viggó Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Sorpu, þann 22. janúar 2021. Þar er óskað eftir samstarfi við Sorpu um byggingu á 80-100 kt/ár hátæknisorporkustöð (Waste-to-energy - WTE). Samkvæmt heimildum blaðsins hefur boðinu enn ekki verið svarað." [Undirstr. BJo.]
Vinstri græningjarnir, umhverfisráðherrann og stjórnarformaður Sorpu, hafa af hugmyndafræðilegum ástæðum ekki áhuga á að virkja einkaframtakið til að fást við þetta tæknilega viðfangsefni, heldur ætla þau að búa svo um hnútana, að hið opinbera vaði hér á foraðið, reynslulaust á þessu sviði, og stjórnmálamenn haldi um alla spotta verkefnisins og rekstrarins, þótt þeir hafi jafnvel enga þekkingu á verkefnastjórnun né innviðum nútímalegrar sorporkustöðvar. Hætt er við, að þessi gatslitna hugmyndafræði vinstri grænna muni reynast landsmönnum mjög illa í þessu máli.
Það er grafalvarlegt, ef hárri fjárfestingarupphæð úr vösum íbúa sveitarfélaganna, sem að byggðasamlaginu Sorpu standa, hefur verið ráðstafað þannig, að um kák eitt, fúsk og bruðl með skattpeninga hefur verið að ræða. Fyrst fór verkefnið GAJA langt fram úr fjárhagsáætlun, og síðan kemur í ljós, að meginhluti afurðanna, moltan, er ónothæf, ef satt er hjá Bb, og markað skortir fyrir hitt, þ.e. metangasið.
Þetta stafar varla af því, að tæknimenn, sem að undirbúninginum voru fengnir, hafi ekki reynzt vera starfi sínu vaxnir, heldur af því, að stjórnmálamenn ákváðu að sinna sjálfir verkefnastjórn og síðan rekstri framleiðslufyrirtækis. Hugmyndafræði vinstri manna, hér undir stjórn Samfylkingar í borginni, gengur ekki upp. Miklu vænlegra er að fela markaðinum verkefni af þessu tagi. Þá hefði þessi sorpeyðingar- og jarðgerðarstöð einfaldlega verið sett í útboð á Evrópska efnahagssvæðinu, og hagstæðasta tilboðinu um hönnun, byggingu og rekstur, út frá hagsmunum íbúanna, verið tekið. Ef það hefði verið gert, sætu íbúarnir ekki núna uppi með algerlega misheppnaða fjárfestingu. Sennilega hefði heldur ekki átt að stefna á moltu- og gasgerð, heldur "hátæknisorporkustöð" fyrir allt landið, eins og frásögn Halldórs Kristjánssonar fjallar aðallega um. Fjárfesting Sorpu í þessari nýju stöð sinni virðist byggðasamlagið nú þurfa að afskrifa, ef aðalafurðin er með öllu ónothæf.
Þá er kominn tími fyrir ríkið að hafa forgöngu án fjárhagsskuldbindinga til framtíðar að stofnun undirbúningsfélags um "state of the art" orkuver, sem safnar sorpi hvaðanæva að af landinu sjóleiðina og selur orku, sem verið vinnur úr sorpinu. Sennilega verður þetta hagkvæmasta og umhverfisvænsta leiðin í krafti stærðarinnar til að losna við sorpið. Skip þyrfti að safna sorpinu saman eftir endilangri strandlengjunni, því að þessir flutningar, 100-200 kt/ár, eru ekki leggjandi á þjóðvegakerfið, og sjóleiðin er sennilega umhverfisvænst og öruggust.
"Samhljóða bréf var sent til umhverfisráðherra. Hann hefur heldur ekki séð ástæðu til þess að svara því samkvæmt upplýsingum blaðsins.
Ljóst má vera, að þetta verkefni varðar öll sveitarfélög í landinu. Ef það á ekki einvörðungu að leysa þarfir sveitarfélaganna á suðvesturhorninu, þá kallar þetta á sjóflutninga á sorpi til stöðvarinnar af landsbyggðinni. Því þarf umhverisráðherra væntanlega að sýna eitthvert frumkvæði, ef ætlunin væri að koma þessu á koppinn . E.t.v. þarf ríkisvaldið líka að koma að rekstri eða niðurgreiðslum á flutningi sorps sjóleiðina til slíkrar stöðvar, ef af yrði. Annars er hætta á, að sveitarfélög úti á landi, fjarri suðvesturhorninu, verði áfram í miklum erfiðleikum með að losa sig við óendurvinnanlegan úrgang án urðunar."
Auðvitað þarf umhverfisráðherrann að koma að þessu verkefni, því að líklega er þjóðhagslega hagkvæmast að veita öllum sveitarfélögum landsins aðgang að flutningum að stöð fyrir allt landið með jöfnun flutningskostnaðar, vonandi sjóleiðina, á milli þeirra. Slíkt á þó ekki að vera skylda, enda virðast fleiri slík orkuver knúin úrgangi vera í deiglunni, t.d. í Vestmannaeyjum. Undirbúningsfélag landsstöðvar þarf að skilgreina orkustöðina og bjóða hana út á EES-markaðinum, bæði stofnsetningu og rekstur, og sá sem býðst til að annast verkið fyrir lægst gjald fyrir sorp inn í stöðina, ætti að fá verkið. Hann selur síðan orkuna frá verinu á markaðsverði. Hugsanlega þarf ríkissjóður að taka þátt með sveitarfélögunum í greiðslum fyrir sorp inn í orkuverið. Það mun koma í ljós, þegar tilboðin verða opnuð. Orkuverið selur orkuna á markaðsverði, og má hugsanlega tengja sorpgjaldið við orkuverðið.
Halldór Kristjánsson vitnaði í innihald bréfsins frá téðu norsku fyrirtæki. Þar stóð m.a.:
"Við höfum trú á, að Daimyo með sína góðu viðskiptasögu og samkeppnishæft viðskiptanet geti boðið fjármögnun og byggingu á fullkomnustu gerð af sorporkustöð, sem völ er á í Evrópu."
Það er sjálfsagt að ræða við þetta fyrirtæki, eins og önnur á þessum markaði, og leyfa því að taka þátt í þessu útboði, en ekki kemur til mála að veita því einhvern forgang að markaðinum hér vegna þess, hvernig í pottinn er búið með hann.
Áfram vitnaði HKr í þetta bréf, sem ekki hefur notið þeirrar lágmarkskurteisi að vera svarað innan eðlilegra tímamarka af íslenzkum yfirvöldum. Þótt þau hafi ekki vit á málinu, er sjálfsagt að hefja samtalið og viða að sér upplýsingum fyrir umhverfismatið og útboðið:
"Hér með er lýst yfir áhuga Daimyo á að stofna fyrirtæki á Íslandi, annaðhvort sem einkahlutafélag eða fyrirtæki í samvinnu við Sorporku, sem hafi það að markmiði að reisa og reka sorporkustöð á Íslandi. Við höfum trú á, að slík samvinna, sem byggi á öflugum bakgrunni og reynslu Daimyo í WTE geiranum og með aðkomu og þekkingu Sorporku, geti leitt til byggingar og rekstrar stórrar hátæknilegrar sorporkustöðvar á Íslandi í beggja þágu. Þar sem SORPA er stærsta félagið í meðhöndlun á sorpi á Íslandi, viljum við gjarna bjóða félaginu þátttöku í þessu verkefni, svo og öðrum sorphirðufyrirtækjum."
Það er eðlilegt, að umhverfisráðuneytið hafi forystu um þetta þjóðþrifamál á landsvísu, en ráðherrann virðist ekki hafa burði til þess, enda vanari því að þvælast fyrir verkefnum en að leiða þau til farsælla lykta. Málssóknir hans í nafni Landverndar og ýmsir tafaleikir, t.d. á orkusviðinu, hafa valdið þjóðinni búsifjum.
"Þá segist Daimyo tilbúið til að sjá um áætlanir, hönnun, fjármögnun, byggingu og rekstur sorporkustöðvar í náinni samvinnu við SORPU, íslenzk yfirvöld og fyrirtæki gegn því, að tryggt sé, að stöðin fái nægt hráefni til starfseminnar í 25 ár. M.v. umhverfisrannsóknir og annan undirbúning geti það tekið 5 ár frá undirritun samkomulags, sem byggi á þessu tilboði. Þar muni Daimyo sjá um að meta allan kostnað á framkvæmdatíma, framkvæmdatímann sjálfan, bjóða fjármögnun og alla nauðsynlega tæknilega aðstoð í öllu ferlinu, sem og að finna samstarfsaðila við ýmsa þætti í byggingu sorporkuversins. Ætla má, að slík stöð muni kosta mrdISK 25-30 samkvæmt upplýsingum frá Daimyo. Þá segist Daimyo hafa í hyggju að leita til íslenzkra fyrirtækja, eins og kostur er við alla framkvæmdina, einkum byggingarverktaka. Með því myndi skapast reynsla og þekking hjá íslenzkum fyrirtækjum til að sinna verkefnum á þessu sviði. Eigi að síður myndi tæknibúnaður, er lýtur að umhverfisvernd og orkuframleiðslu, að mestu vera í höndum Daimyo og samstarfsfyrirtækja þess. M.ö.o. Daimyo myndi sjá um verkið frá A til Ö, peningahliðina og allt annað."
Það eru ýmsar fallgryfjur á leiðinni að lyktum þessa máls. Verkefnisstjórn GAJA í Álfsnesi er víti til varnaðar. Undirbúningsfélag þessa verkefnis, sem er 5 sinnum stærra, þarf að vera með þátttöku ríkisins og e.t.v. Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Undirbúningsfélagið þarf að finna út, hvert er líklegasta sorpmagnið í byrjun og áfram, og bjóðendur bjóða verð á viðteknu sorpi samkvæmt því, en gefi jafnframt upp reiknireglu fyrir einingarverðið upp og niður samkvæmt innvigtuðum massa og orkuverði yfir árið.
Í Morgunblaðinu sólstöðudaginn 22. júní 2021 var baksviðsfrétt á bls. 11 með fyrirsögninni:
"Undirbúa sameiginlega sorpbrennslu".
Hún hófst þannig:
"Sorpsamlögin á Suðvesturlandi og umhverfisráðuneytið hafa hafið undirbúning að því að koma upp sorpbrennslu fyrir allt svæðið. Á brennslan að lágmarka þörf fyrir urðun úrgangs. Forverkefni samlaganna gengur út á að undirbyggja ákvarðanir um tæknilausnir, staðarval og kostnað, og á sú vinna að taka 4 mánuði. Að vinnunni standa Sorpa, Kalka á Suðurnesjum, Sorpurðun Vesturlands og Sorpstöð Suðurlands auk umhverfisráðuneytisins. Á starfssvæði þessara 4 byggðasamlega fellur til um 83-85 % alls úrgangs á landinu."
Það virðist af þessu að dæma ekki hafa verið hugað að því að reisa eina stöð fyrir landið allt, því að öll sorpsamlög landsins eru ekki þátttakendur á undirbúningsstigi. Hér er um svo mikla fjárfestingu að ræða að kappkosta verður að ná þeirri stærðarhagkvæmni, sem unnt er. Þó er skiljanlegt, að Vestmannaeyingar vilji reisa sína sorporkustöð. Getur ekki sorporkustöð fyrir landið allt verið í Vestmannaeyjum og veitt Vestmannaeyingum bæði birtu og yl, ef þeir vilja hýsa hana ?
""Þessir aðilar eru að taka höndum saman um að innleiða hringrásarhagkerfið. Við erum núna að ná tökum á lífrænum úrgangi með gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA, sem er stórt verkfæri í þessu verkefni og mikilvægt í loftslagsmálum. Næsta stóra verkefnið er að afsetja brennanlegan úrgang", segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG og formaður stjórnar Sorpu."
Það er alls ekki affarasælt að láta stjórnmálamann á borð við téða Líf, sem væntanlega ber höfuðábyrgð á óförum GAJA-verkefnisins, kostnaðarlega og tæknilega, véla um hið nýja stórverkefni á umhverfissviði. Hugmyndafræði hennar er þó sú, að einmitt stjórnmálamenn eigi að troða sér að í verkefnastjórnum og síðan rekstrarstjórnum opinberra framkvæmda og fyrirtækja. Eðlilegast er, að umhverfisráðuneytið stofni undirbúningsfélag um þetta verkefni á faglegum forsendum, sem auðvitað hefur samráð við sorpsamlög landsins, þar sem kjörnir fulltrúar sjálfsagt sitja, en undirbúningsfélagið hafi það meginhlutverk að staðsetja stöðina og semja útboðslýsingu fyrir byggingu og rekstur. Þar með er tryggt, eins og kostur er, að landsmenn njóti beztu fáanlegrar þjónustu á þessu sviði með lágmarks kostnaði m.v. gæði frá einkafyrirtæki, sem kann til verka. Að öðrum kosti er stórhætta á tæknilegu klúðri og allt of dýru verkefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2021 | 10:23
Svipull er sjávarafli
Ráðlegging Hafrannsóknarstofnunar um afla í íslenzku fiskveiðilögsögunni fiskveiðiárið 2021/2022 kom sem skrattinn úr sauðarleggnum til almennings í landinu. Því hefur verið haldið að almenningi, að með rannsóknum og tölfræðilegum greiningum á mæliniðurstöðum og 20 % aflareglu úr viðmiðunarstofni væri verið að byggja upp vaxandi hrygningarstofn, svo að veiðarnar mundu aukast, þar til stofninn hefði náð þolmörkum umhverfisins, fæðuframboðs o.þ.h. Menn töldu þeim mörkum enn ekki vera náð, en er það svo ?
Nú hefur annað komið á daginn. Vísindamenn telja sig nú hafa ofmetið þorskstofninn um 267 kt eða 28 %. Er það svo, eða er þorskurinn farinn annað, varanlega ? Vísindamenn hafa ekki svör við því, og úr því verður að bæta fljótlega. Þótt Hafrannsóknarstofnun starfi undir rýni alþjóðlegs vísindasamfélags, hefur henni orðið alvarlega á í messunni. Hún verður í sumar að gera raunhæfa áætlun um úrbætur með viðeigandi kostnaðaráætlun, sem ráðuneytin og fjárlaganefnd Alþingis geta þá tekið afstöðu til í haust. Ekki er ólíklegt, að setja þurfi samþykkta kostnaðaráætlun á fjármálaáætlun ríkisins, því að við svo búið má ekki standa.
Sama hvernig á þessa sviðsmynd er litið, er málið grafalvarlegt, því að afar gloppótt þekking fiskifræðinganna á ástandi fiskimiðanna við landið blasir nú við. Hins vegar varaði enginn spekingur utan stofnunarinnar við þessu, og enginn ráðlagði minni veiðar, nema síður sé. Sé gert ráð fyrir, að endurskoðun viðmiðunarstærðar þorskstofnsins frá maí 2021 sé "rétt", blasir við ofmat stofns um 28 %. Samkvæmt aflareglunni minnkar þessi áætlun leyfilegar þorskveiðar á fiskveiðiárinu 2021/2022 niður í um 188 kt eða um 70 kt, sem gæti jafngilt tekjutapi um mrdISK 40. Þetta er höggið, sem sjávarútvegurinn og þjóðarbúið standa frammi fyrir á fiskveiðiárunum 2021/2022-2022/2023 vegna óvænts mats á verðmætasta stofninum, en vegna dempunarreglu helmingast höggið á hvort fiskveiðiárið, og nokkrir aðrir stofnar virðast vera að hjarna við.
Í gamla daga hefðu þessi tíðindi haft í för með sér gengisfellingu ISK, en enn stendur hún alveg pallstöðug, þótt hún hafi hækkað talsvert, eftir að hagur strympu glæddist á málmmörkuðum og í ferðageiranum og þótt Seðlabankinn hafi látið af sölu gjaldeyris. Bæði er, að sjávarútvegurinn er nú stöndugur og sveigjanlegur með mikinn aðlögunarþrótt og þjóðarbúinu hefur nú vaxið fiskur um hrygg með fleiri öflugum gjaldeyrislindum.
Það sýnir sig nú svart á hvítu, að engin glóra er í, að stjórnvöld fari að ráðum sérvitringa og óvita um sjávarútveg og taki að spila einhvers konar rússneska rúllettu með stórhækkun veiðigjalda eða uppboði á þjóðnýttum aflaheimildum. Slíkt er hreinræktuð dilla þröngsýnna pólitískra hugmyndafræðinga og skemmdarverkastarfsemi á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.
Ferðageirinn mun taka vel við sér, þegar sóttkví óbólusettra linnir með viðunandi hjarðónæmi hér, vonandi 01.07.2021, og þá hlýtur að verða nóg að skima aðeins þá, sem ekki eru með ónæmis- eða bólusetningarvottorð. Árið 2021 verður líklega, þrátt fyrir höggið, ár sæmilegs hagvaxtar, eins og annars staðar á Vesturlöndum, enda varð rýrnun þjóðartekna meiri hér árið 2020 en víðast hvar annars staðar eða 6 %-7 %. Samt hækkaði kaupmáttur launa. Það er líklega einsdæmi, en jók örugglega atvinnuleysið. Verkalýðshreyfingin stakk hausnum í sandinn og fórnaði langtímahagsmunum launþeganna fyrir skammtímaávinning þeirra, sem eru í öruggri vinnu. Það er ótraustvekjandi afstaða, enda bera sumar yfirlýsingar forseta ASÍ o.fl. vott um stéttastríðshugarfar, sem reynslan og samanburður við hin Norðurlöndin hefur sýnt, að getur ekki gagnazt launþegum til lengdar. Það, sem gagnast launþegum bezt, er að vinna að hámörkun verðmætasköpunar í friði við vinnuveitendur.
Önnur grein, sem nú getur komið til hjálpar, er fiskeldið, bæði í sjókvíum innan marka áhættugreininga og burðarþolsmats Hafrannsóknarstofnunar, og í landeldiskerum. Eftirlitsstofnanir mega hvorki draga lappirnar né flaustra, heldur skulu þær halda sig innan lögboðinna tímamarka.
Viðbrögð forystu SÍF, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, við leiðréttingu á mistökum Hafró, voru rétt. Það er skárst í stöðunni að fylgja ráðum beztu fáanlegu þekkingar á sviði haf- og fiskifræði, þótt henni sé ábótavant, enda gæti hundsun slíkra ráðlegginga haft slæmar afleiðingar fyrir markaðsstöðu íslenzkrar framleiðslu sjávarútvegsins erlendis, þar sem samkeppnin er hörð. Vonandi dregur nú úr útflutningi óunnins fiskjar, svo að framleiðendur geti haldið markaðsstöðu sinni fyrir unna vöru. Nú er ástæða fyrir utanríkisráðuneytið til að juða í Bretum um lækkun tolla á slíkum vörum.
Gunnlaugur Snær Ólafsson birti frétt í Morgunblaðinu 16. júní 2021 um þessi slæmu tíðindi:
"Gera ráð fyrir samdrætti í útvegi".
Þar stóð m.a.:
""Ég verð bara að segja það, að þetta eru mikil vonbrigði og þungbær tíðindi. Þetta er svo mikill niðurskurður og mjög óvænt. Þetta mun valda tekjusamdrætti hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og ljóst, að menn verða að grípa til aðgerða í sínum rekstri til að mæta þessu.
Ég sé samt ekkert annað í stöðunni en við fylgjum ráðgjöf Hafró. Við verðum að taka á þessu af ábyrgð og fylgja þessari vísindalegu ráðgjöf með langtímahagsmuni í huga", segir Ólafur H. Marteinsson, forstjóri Ramma hf og formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi."
Af sömu ástæðum og Ólafur tilgreinir, mun sjávarútvegsráðherra að öllum líkindum fylgja þessari ráðgjöf Hafró í meginatriðum. Skaðinn er orðinn, og hann verður ekki bættur með hókus-pókus aðferðum.
Um þetta er þó ekki eining, og annan pól í hæðina tók Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, en félagsmenn hans eru mjög háðir þorskveiðum:
"Hann kveðst binda vonir við, að ráðherra sjávarútvegsmála fari út fyrir ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar til að lina höggið, sem fylgir skerðingunni. "Ég held það sé alveg hægt. 13 % niðurskurður í okkar helztu tegund er bara allt of mikið. Smábátarnir eru alveg háðir þorskinum.""
Það er innbyggð dempun á breytingum í ráðgjöf Hafró, því að skerðingin væri 27 %, ef hún kæmi að fullu fram á einu fiskveiðiári. Það er ekki nóg, að hagsmunaaðilar haldi, að óhætt sé að veiða meira, ef viðtekin aflaregla segir allt annað.
Það er eðlilegt og skiljanlegt, að sjávarútvegsfyrirtæki leiti leiða til að vaxa yfir í skylda starfsemi, sem veitir meiri stöðugleika. Það hafa þau gert með því að gjörnýta fiskinn og framleiða úr honum eftirsóttar vörur á grundvelli rannsókna og þróunar. Stórtækastar eru þó fjárfestingarnar á sviði fiskeldis. Samherji kannaði fýsileika þess að kaupa Norðurálshúsin í Helguvík undir landeldi, en hvarf frá því vegna skorts á ferskvatni. Nú hefur fyrirtækið kynnt áform í samstarfi við HS Orku við Reykjanesvirkjun. Morgunblaðið greindi frá þessu 17. júní 2021 í frétt undir fyrirsögninni:
"Ylsjórinn dró Samherja á Reykjanes".
Hún hófst þannig:
"Aðstæður til landeldis á laxi eru góðar í Auðlindagarðinum á Reykjanesi, en þar áformar Samherji fiskeldi ehf að reisa risastóra eldisstöð. Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis, segir, að ylsjórinn geri þessa staðsetningu sérstaka. Ylsjórinn er affall frá kælingu Reykjanesvirkjunar. Jón Kjartan segir, að aðgangur að miklum ylsjó sé forsenda þess, að hægt sé að koma upp hagkvæmu landeldi á stórum skala."
Hér er ætlunin að mynda nýtt lokastig nýtingar varmans úr jarðgufunni og þar með að gjörnýta orkuna úr jarðgufunni til að flýta vexti eldisfiskjarins. Þessi flýting ásamt hagkvæmni stærðarinnar mun sennilega gera þetta fyrirhugaða landeldi samkeppnishæft við sjókvíaeldi, en hár fjármagnskostnaður og rekstrarkostnaður hefur verið Akkilesarhæll landeldisins.
"Áformað er að byggja allt að 40 kt/ár laxeldi á landi í þremur áföngum á næstu 11 árum. Byggð verður seiðastöð og ker fyrir áframeldi. Jón Kjartan segir gert ráð fyrir, að komið verði upp aðstöðu til slátrunar á laxi, en frekari vinnsla og pökkun verði annars staðar á Suðurnesjum. Af því tilefni segir hann, að Samherji vinni afurðir sínar yfirleitt meira en minna. Því verði hluti laxaframleiðslunnar flakaður fyrir útflutning, en hann segir ekki ljóst nú, hversu stór hluti það verði.
Í 1. áfanga stöðvarinnar er gert ráð fyrir 10 kt/ár framleiðslu. Frumvinnsla á laxi og pökkun er mannaflsfrek starfsemi. Þannig er gert ráð fyrir, að bein störf við eldi og frumvinnslu í 1. áfanga verði um 100 og annað eins í afleiddum störfum. Þá muni fjölmörg störf verða við uppbygginguna."
Þetta verkefni Samherja er ekkert minna en hvalreki fyrir Suðurnesjamenn og landið allt. Þarna verða allt að 800 störf til 2032, bein og óbein, heildarfjárfesting verður líklega mrdISK 45 - mrdISK 50, og á verkstað gæti þurft um 1400 mannár á 11 ára skeiði. Þetta er þess vegna stórverkefni, sem er einmitt það, sem íslenzka hagkerfið þarf endilega á að halda núna, því að í landinu ríkir ládeyða í atvinnulífinu. Á sama tíma og umsvif sjávarútvegs minnka vegna niðursveiflu í lífríki hafsins, þá leggur Samherji grunn að hagrænum stöðugleika og vaxandi tekjustreymi til framtíðar, sem verður öllum landsmönnum til góðs. Þetta eru gleðitíðindi.
Fiskeldið er sannarlegur vaxtarbroddur hagkerfisins um þessar mundir. Árið 2020 var slátrað 40,6 kt af eldisfiski í landinu, og útflutningsverðmæti þess nam mrdISK 29,3. Verðmæti útfluttra sjávarafurða nam þá mrdISK 270, svo að hlutfallið var þá orðið 11 % og 5 % af heildarvöruútflutningi. Árið 2032 gæti fiskeldið numið 200 kt alls og hlutfall þess af heildarvöruútflutningi landsins numið 22 %. Það mun þess vegna mynda eina af meginstoðum íslenzka hagkerfisins.
Þann 14. apríl 2021 ritaði væntanlegur 1. þingmaður NA-kjördæmis, Njáll Trausti Friðbertsson, mjög fróðlega grein í Markað Fréttablaðsins:
"Drifkraftur og byggðafesta fiskeldisins".
Þar kom m.a. eftirfarandi fram:
"Nýsamþykkt tillaga Hafrannsóknarstofnunar um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar laxeldis, gerir ráð fyrir, að heimilt sé eldi 106 kt/ár í sjó. Vaxi það [sjóeldið - innsk. BJo] nærri gildandi áhættumati fiskeldisins, gæti útflutningsverðmæti sjóeldisins orðið nærri 80 mrdISK/ár. M.v. 800 ISK/kg greiðslu fyrir útflutninginn. Auk þess verðmætis í sjóeldi er á næstu árum stefnt á landeldi á laxi, bleikju og öðru fiskeldi fyrir um 15 mrdISK/ár. [Þarna voru tíðindin af verkefni Samherja á Reykjanesi ekki komin fram - innsk. BJo.] Það lætur því nærri, að útflutningsverðmæti fiskeldis geti orðið tæplega 100 mrdISK/ár á næstu árum. Gangi þetta eftir, verður fiskeldið stór hluti útflutningsverðmæta íslenzkra sjávarafurða."
Njáll Trausti Friðbertsson hefur öðlazt ríkan skilning á atvinnulífinu og heilbrigðu samspili innlendra og erlendra fjárfestinga þar og í seinni tíð innkomu Kauphallar Íslands við miðlun fjárfestingarfjár frá sparendum til fiskeldisfyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja. Kveður þar við annan og heilbrigðari tón en heyra má úr ranni sumra annarra á stjórnmálavettvangi, hverra ær og kýr eru niðurrif á trausti almennings til fyrirtækja og að kynda undir stéttastríði launþega og launagreiðenda. Slíkur forheimskandi áróður getur engum orðið til hagsbóta. Ágætri grein sinni í Markaðinum lauk NTF þannig:
"Þrátt fyrir að stór hluti Íslands hafi verið lokaður fyrir fiskeldi [í sjó] frá 2004 og stjórnvöld setji eldinu æ strangari kröfur, óttast menn umhverfisáhrif og vöxt fiskeldisins.
Við skulum gera ríkar kröfur um uppbyggingu eldis í sátt við umhverfið. Innan eldisfyrirtækja er sterk umhverfisvitund, enda sjálfra þeirra hagsmunir að ganga vel um náttúruna. Kröfur alþjóðlegra umhverfisvottana aga einnig starfsemina.
Ótti um aðkomu erlendra fyrirtækja í fiskeldi er ástæðulaus. Þau miðla íslenzku eldi mikilli reynslu og þekkingu og dreifa fjárhagslegri áhættu af innlendri uppbyggingu. Áhugavert er, að flest laxeldisfyrirtæki eru nú skráð á hlutabréfamörkuðum, og íslenzkir fjárfestar, þ.m.t. lífeyrissjóðir, hafa fjárfest í þessari vaxandi atvinnugrein. Óháð eignaraðild er fiskeldið að skilja mikið eftir sig í hinum dreifðu byggðum.
Efnahagsleg hagsæld mun áfram byggja á vexti útflutningsgreina. Þar verður fiskeldið æ mikilvægari drifkraftur atvinnusköpunar og byggðafestu, ekki sízt á Austfjörðum."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.6.2021 | 17:54
Vetnisvæntingar og virkjanaþörf
Við og við berast almenningi fregnir af miklum vetnisáformum. Síðast var það með forsíðuuppslætti forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarsonar, um samstarfsverkefni Landsvirkjunar og Rotterdam-hafnar um flutninga á vetni, framleiddu á Íslandi, til Rotterdam. Lesandinn var þó skilinn eftir í þoku með það, hvort þetta samstarfsverkefni spanni einnig vetnisverksmiðju. Aðrar fregnir herma, að Landsvirkjun vilji reisa vetnisverksmiðju við Ljósafossvirkjun. Sú hugmynd er algerlega út í hött. Á hvaða vegferð er þetta stóra og mikilvæga ríkisfyrirtæki eiginlega ? Hafa menn algerlega tapað áttum ? Það eru fleiri, sem eru að rannsaka fýsileika þess að reisa hér vetnisverksmiðjur, og þeir hafa sumir áhyggjur af því, að raforkuverðið, sem slíkum vetnisverksmiðjum býðst, sé ósamkeppnishæft. Landsvirkjun er að villast út í bullandi hagsmunaárekstra ("conflict of interests").
Hvað sem því líður samkeppnishæfninni, verður að telja mjög óeðlilegt, að afskipti Landsvirkjunar af vetnisframleiðslu hérlendis séu nokkur önnur en að selja raforku til slíkrar framleiðslu. Þetta ríkisraforkufyrirtæki, sem er risinn á fákeppnismarkaði stórsölu á rafmagni í landinu, verður að gæta "arms lengdar" við mögulega viðskiptavini sína, til að önnur vetnisfélög eða hvaða annar kaupandi þeirra takmörkuðu gæða, sem íslenzk raforka er, hafi ekki rökstudda ástæðu til að væna Landsvirkjun um mismunun.
Hafa fulltrúar eigenda Landsvirkjunar, Alþingismenn, rætt þessa útvíkkun á starfsemi Landsvirkjunar ? Það hefur þá farið mjög lágt. Þetta er grundvallarbreyting á hlutverki Landsvirkjunar, og slík stefnumörkun þarf að koma með lagasetningu eða a.m.k. þingsályktun frá Alþingi. Það gengur ekki, að fyrirtækið vaði út um víðan völl með þessum hætti. Alþingismenn þurfa að skerpa á hlutverki Landsvirkjunar og bæta við orkulögin lagagrein um, að það sé á ábyrgð Landsvirkjunar að sjá til þess, að aldrei komi til forgangsorkuskorts í landinu, nema náttúruhamfarir hamli raforkuvinnslu.
Í Morgunblaðinu 15. júní 2021 var forsíðufrétt um Rotterdam-ævintýri Landsvirkjunar og síðan frétt á bls. 4 undir fyrirsögninni:
"Grænt ljós á útflutning á grænu vetni".
Hún hófst þannig:
""Þessar niðurstöður eru mjög uppörvandi, og við hjá Landsvirkjun höfum trú á þessu samstarfi við Rotterdamhöfn", segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam hafa lokið við forskoðun varðandi möguleika á að flytja grænt vetni frá Íslandi til Rotterdam. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun sýna niðurstöðurnar, að tæknin er fyrir hendi jafnframt því, sem verkefnið er fjárhagslega ábatavænt. Eins telur Landsvirkjun, að verkefnið yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun, þegar hagkerfi heimsins skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orku á komandi áratugum."
Þetta er óttalega innantómt hjá forstjóranum, enda auðvelt að verða sér úti um upplýsingar, sem með smáútreikningum sýna, að hagkvæmt muni á allra næstu árum verða að virkja vatnsföll og jarðgufu og jafnvel vind á Íslandi til að framleiða vetni með rafgreiningu (klofnun vatns). Hins vegar yrði framboð vetnis frá Ísland alltaf hverfandi lítill hluti af heildarframboðinu til orkuskipta, og þess vegna mjög ofmælt og villandi, raunar tóm vitleysa, að halda því fram, "að verkefnið yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun". Réttara er, að það skiptir engu máli í því stóra samhengi. Það sést á því, að Landsvirkjun áformar að virkja 2-4 TWh/ár í þetta verkefni eða 200-500 MW að eigin sögn, sem gefur mjög háan nýtingartíma á ári, miklu hærri en mögulegur er með vindmyllum. Til samanburðar ætla Þjóðverjar fyrir árið 2030 að nýta vetni frá 80 GW uppsettu afli og miða þá við vindmyllur úti fyrir ströndum með nýtingartíma um 45 %. Það þýðir, að þetta framlag Landsvirkjunar til vetnisvæðingar Þýzkalands yrði innan við 1 % árið 2030. "Miklir menn erum við Hrólfur minn."
Fréttin í þessari frásögn er hins vegar sú, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, sem gæti fengið fyrirspurnir frá nokkrum vetnisframleiðendum um sölu raforku til nokkurra vetnsisverksmiðja á landinu, sé að blanda sér inn í fýsileikakönnun eins aðila um vetnisverksmiðju og vetnisflutninga. Þar er Landsvirkjun hreint út sagt komin út fyrir heimildir sínar og siðlega framgöngu í viðskiptum út frá samkeppnissjónarmiði. Hún gefur höggstað á sér gagnvart Samkeppniseftirlitinu og ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sem líklega telja hér um óeðlilega og samkeppnisskekkjandi ríkisaðstoð að ræða. Þetta er dómgreindarleysi af hálfu stjórnar Landsvirkjunar.
Afar áhugaverð grein birtist í Bændablaðinu 27. maí 2021 eftir Herrn Dietrich Becker, sendiherra Þýzkalands á Íslandi. Hann varpar fram aðlaðandi samstarfsgrundvelli Íslendinga og Þjóðverja á sviði vetnistækni. Greinin hét:
"Tækifæri fyrir Ísland og Þýzkaland".
Þar stóð í innganginum m.a.:
"Þýzkaland hefur náð miklum árangri í að byggja upp vind- og nýlega sólarorku. Þegar árið 2020 var meira en helmingur þýzkrar raforkuframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum: 247 TWh/ár samtals (þar af vindorka 131 TWh/ár, sólarorka 51 TWh/ár, lífmassi 45 TWh/ár, vatnsorka 18 TWh/ár). Heildar raforkuframleiðsla Íslendinga nam [þá] 19 TWh/ár [og var öll úr "endurnýjanlegum" orkulindum]."
Þetta er frábær árangur Þjóðverja, en dýrkeyptur sem mikil landfórn undir vindmyllur í þéttbýlu landi og hefur valdið háu raforkuverði. Á næsta ári á að loka öllum starfræktum kjarnorkuverum í Þýzkalandi, og mun sá pólitíski gjörningur auka á losun koltvíildis, og er þess vegna furðuleg friðþæging fráfarandi kanzlara í garð græningja. Framboðsgapið, ef af verður, verður fyllt með aukinni raforkuvinnslu gasorkuvera, kolakyntra orkuvera og innflutningi rafmagns. Aðgerðin er þess vegna allsendis ótímabær.
Nú stendur fyrir dyrum hjá Þjóðverjum að draga úr eldsneytisnotkun á fleiri sviðum en við raforkuvinnslu, og þá horfa þeir til vetnis og vetnisafleiða, s.s. ammoníaks. Sú aðgerð er raforkukræf, því að þeir einblína á "grænt" vetni, og til að fullnægja áætlaðri vetnisþörf 2030 þarf um 30 % meiri raforku en nú nemur allri raforku Þjóðverja úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Þjóðverjar búast við að geta aðeins annað um 15 % þeirrar raforkuþarfar sjálfir eða um 50 TWh/ár, sem væri þá um 20 % aukning "grænnar" raforku í Þýzkalandi. Það, sem á vantar af grænu vetni, verða þeir að flytja inn, og þeir hafa nú þegar samið um það við Portúgal, Marokkó og Síle. Norðmenn hyggja líka gott til glóðarinnar. Má líta á tilvitnaða grein þýzka sendiherrans sem lið í undirbúningi slíks samnings við Íslendinga. Í þessu ljósi er afar óskynsamlegt af Landsvirkjun að binda hendur íslenzka ríkisins við samstarf við hollenzkan kaupanda. Við eigum að hafa frjálsar hendur til þessara viðskipta, og benda má á, að stór markaður er að opnast fyrir grænt vetni á Norður-Englandi líka.
"Frá sjónarmiði þýzkra stjórnvalda og þýzks iðnaðar er greiningin ótvíræð. Mikilvægasti þáttur umskipta í þýzkum iðnaði verður grænt vetni, vetni framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Rafmagnsþörfin mun aukast mjög mikið vegna vetnisframleiðslu og samgangna með rafmagni. Frekari uppbygging nálgast efnisleg og pólitísk endimörk. Þýzkaland heldur áfram að byggja upp endurnýjanlegar orkulindir, en verður árið 2050 að treysta eftir sem áður á umtalsverðan innflutning á orku í formi rafmagns, vetnis og afleiðum þeirra."
Þýzkaland ræður varla við alger orkuskipti með núverandi tækni, þótt landið flytji inn "grænt" rafmagn, t.d. frá Noregi um sæstreng, sem trúlega kemst í gagnið á þessu eða á næsta ári, og "grænt" vetni, jafnvel alla leið frá vatnsorkulöndum Suður-Ameríku. Árið 2030 verður vafalítið komin til skjalanna ný, umhverfisvæn tækni til raforkuvinnslu, líklega kjarnorkutækni með mun minna geislavirkum úrgangi og styttri helmingunartíma en frá núverandi úraníum-verum. Hvers vegna taka íslenzk stjórnvöld ekki þýzk stjórnvöld á orðinu og fá þýzkan vetnisframleiðanda til að stofna vetnisfélag á Íslandi með íslenzkri þátttöku áhugasamra, sem mundi semja um raforkukaup við íslenzka orkubirgja og framleiða "rafeldsneyti" hér til útflutnings til Þýzkalands ?
Þann 10. marz 2021 birtist í Morgunblaðinu viðtal við Hafstein Helgason, verkfræðing hjá Verkfræðistofunni EFLU. Viðtalið bar fyrirsögnina:
"Áform um vetnisgarða á Íslandi".
Þar sagði Hafsteinn Helgason m.a.:
"Með þetta [fyrirhuguð vindorkuver á Íslandi - innsk. BJo] í huga er verið að undirbúa fundarhöld milli Íslands og Þýzkalands, en Þjóðverjar eru farnir að sýna Íslandi áhuga [sem hreinorkulandi - innsk. BJo]. Þeim hefur fundizt sem ekki sé hægt að framleiða nógu mikið af raforku á Íslandi. Við getum hins vegar vel framleitt 5-8 GW af vindorku án þess að þrengja að ferðaþjónustu eða vera lífríkinu til ama."
""Annað verkefnið snýst um að virkja allt að 1,0 GW á NA-horni landsins og reisa vetnisverksmiðju í Finnafirði. Við höfum unnið það með Þjóðverjum, en innlendir og erlendir aðilar tengjast þessu verkefni. M.v. að hvert MW með vindorku kosti MISK 180, þá kosta 1000 MW mrdISK 180. Þetta er aðeins vindorkuþátturinn. Svo er vetnisþátturinn eftir. Í þessu tiltekna verkefni er horft til þess að gera ammoníak úr vetninu, því [að] vetnisgasið er svo rúmfrekt; það kostar töluvert mikið að vökvagera það [kæling undir þrýstingi - innsk. BJo]. Rúmmetrinn af fljótandi vetni vegur aðeins 71 kg, en rúmmetrinn af ammoníaki 600 kg", segir Hafsteinn og leggur áherzlu á, að bezt sé að nýta ammoníakið beint sem orkugjafa [orkubera - innsk. BJo].
Hér er um gríðarlegar fjárfestingar að ræða, sennilega yfir mrdISK 500 í orkuveri, vetnisverksmiðju og ammoníakverksmiðju, hafnargerð og hafnaraðstöðu. Hagsmunir landshlutans og landsins alls af þessu verkefni eru gríðarlegir. Það er stórskrýtið, að ekki heyrist bofs um stefnumörkun iðnaðarráðuneytisins í málinu. Hins vegar býst ég við, að tilvonandi 1. þingmaður NA-kjördæmis verði þessu meðmæltur. Það mun samt verða nóg af andmælendum. Afturhaldið í landinu hefur allt á hornum sér, þegar verðmætasköpun í dreifbýlinu er á döfinni.
Það er mjög áhugaverð aukabúgrein, sem af þessu stórverkefni getur spunnizt:
""Svæðið er þar að auki einstaklega hentugt til uppbyggingar á laxeldi, staðsettu á landi. Jafnvel tugi þúsunda tonna árlega. Súrefnið við vetnisframleiðsluna færi til íblöndunar við eldissjóinn til að minnka dælingarþörfina [í orkusparnaðarskyni og til að draga úr viðhaldsþörf - innsk. BJo]. Glatvarminn frá iðnferlunum færi í að hita sjóinn til eldisins í kjörhitastig", segir Hafsteinn um hinn gagnkvæma ávinning. Þá muni vindorkuverin skapa landeigendum tekjur og ammoníakið skapa tækifæri "fyrir hröð orkuskipti fiskiskipaflotans."
Þetta er mjög áhugaverð viðskiptahugmynd, sem þarna er kynnt til sögunnar. Byrjunarumfangið nægir til samkeppnishæfs rekstrar, landrými er líklega nægt, og staðsetningin truflar vonandi fáa, og aðstæður fyrir hafnargerð eru fyrir hendi. Tækniþekking samstarfsaðilanna er væntanlega næg fyrir hönnun, uppsetningu og rekstur alls verkefnisins, og síðast en ekki sízt eru Þjóðverjarnir væntanlega fúsir til að fjármagna öll herlegheitin.
Hið sama verður ekki sagt um áform Landsvirkjunar. Fyrirtækið hefur beðið Grímsnes- og Grafningshrepp um aðalskipulagsbreytingu á lóð Ljósafossvirkjunar til að hola þar niður örlítilli vetnisverksmiðju, sem aldrei getur borið sig sökum smæðar og á alls ekki heima í þessu umhverfi. Verkefnið kallar á vetnisflutninga eftir þröngum vegum, þar sem ferðamannaumferð er mikil. Þetta virðist algerlega þarflaust verkefni og algerlega utan við verksvið Landsvirkjunar. Þessi hugmynd er sem út úr kú.
Í baksviðsfrétt Morgunblaðsins 17. júní 2021:
"Vetni framleitt við Ljósafoss",
stóð þetta m.a.:
"Í fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir, að íbúðasvæði vestan við Ljósafossvirkjun, sem er í núverandi aðalskipulagi skilgreint sem íbúðabyggð, verði breytt í iðnaðarsvæði. Við Ljósafossstöð áformar Landsvirkjun að hefja vetnisvinnslu, og því er þessi breyting á skipulaginu nauðsynleg. Uppsett afl virkjunarinnar er 16 MW, og Landsvirkjun áformar, að uppsett afl rafgreinis verði 10 MW. Stærð vetnisstöðvarinnar verður nálægt 700 m2."
Sveitarstjórnin ætti að hafna þessari ósk um skipulagsbreytingu. Vatnsorkuverið Ljósafoss er heimsótt af fjölda manns árlega og nær væri að efla þjónustu við ferðamenn á þessum fagra stað en að fæla ferðamenn frá með vetnisframleiðslu, vetnistönkum og vetnisflutningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.6.2021 | 20:58
Forgangur ESB-löggjafar í EFTA-löndunum er viðkvæmt mál
Alþýðusamband Noregs, LO (=Landsorganisasjonen), krefst þess, að norsk löggjöf um vinnumarkaðsmál sé æðri ESB-löggjöf um atvinnulífið, sem leidd er í norsk lög samkvæmt EES-samninginum. LO telur hallað á norskt verkafólk með innleiðingu ESB-löggjafarinnar og sættir sig ekki við lögþvingaða rýrnun réttinda sinna félagsmanna. Vaxandi óánægja innan LO með EES-samstarfið getur leitt til, að LO álykti um nauðsyn endurskoðunar á EES-samninginum. Þá kann að verða stutt í sams konar sinnaskipti stærsta stjórnmálaflokks Noregs, Verkamannaflokksins, sem líklega mun leiða nýja ríkisstjórn að afloknum Stórþingskosningum í september 2021.
Spyrja má, hvers vegna Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hafi ekki viðrað áhyggjur sínar með svipuðum og áberandi hætti af ráðandi stöðu ESB-réttar í íslenzkri löggjöf samkvæmt EES-samninginum. Svarið kann að nokkru leyti að vera að finna í þeim mun, sem er á viðkomandi lagasetningu þessara tveggja bræðralanda, sem bæði þurfa þó að hlíta bókun 35 við EES-samninginn, sem fjallar um skyldu EFTA-landanna að lögleiða forgang ESB-löggjafar umfram landslög.
Íslenzka innleiðingin á forgangi ESB-löggjafar var skilyrt og veitti dómstólum þannig ráðrúm til að meta hvert mál fyrir sig. Líklega teygir íslenzka löggjöfin um forganginn sig eins langt í átt að EES-samninginum og íslenzka stjórnarskráin leyfir. Það er hins vegar ekki nóg fyrir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA), sem hefur kvartað undan dómsuppkvaðningum hérlendis, þar sem innlend löggjöf var látin ráða, sjá viðhengi með þessum pistli. ESA sakaði Ísland árið 2017 um samningsbrot vegna rangrar lögfestingar um forgang ESB-réttar samkvæmt bókun 35. Íslenzka ríkisstjórnin svaraði ESA 10. september 2020 með vísun til Weiss-málsins, þar sem þýzki stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe taldi rökstuðning Evrubankans í Frankfurt am Main fyrir kaupum bankans á ríkisskuldabréfum evrulandanna ófullnægjandi. Evrópusambandið væri ekki sambandsríki, heldur ríkjasamband, og þess vegna væri stjórnarskrá Sambandslýðveldisins Þýzkalands æðri Evrópurétti.
ESA hefur nú sent Íslandi lokaviðvörun vegna téðs samningsbrotamáls, og gangi ESA alla leið og kæri íslenzka ríkið fyrir samningsbrot, má búast við, að áhugaverðar umræður spinnist um EES-samninginn hérlendis, sérstaklega ef kæra ESA birtist fyrir haustkosningarnar 2021.
Framkvæmdastjórnin er ekki af baki dottin, heldur hyggst brjóta rauðhempurnar í Karlsruhe á bak aftur. Hún hóf þann 9. júní 2021 samningsbrotsmál gegn Þýzkalandi fyrir að fótumtroða grundvallarreglur ESB-réttarins, með því að rauðhempurnar efuðust um heimildir Evrubankans til að kaupa ríkisskuldabréf, þrátt fyrir að ESB-dómstóllinn hefði þá þegar úrskurðað, að slík kaup væru í samræmi við ESB-réttinn. Þýzka þingið í Reichstag-byggingunni hefur fyrir sitt leyti samþykkt þessar stuðningsaðgerðir Evrubankans, en Framkvæmdastjórnin velur samt þá herskáu leið að höfða mál gegn Þýzkalandi til að geirnegla, að ESB-dómstóllinn sé æðstur allra dómstóla innan ESB og þá raunar einnig EES, því að EFTA-dómstólinum ber að hlíta dómafordæmum hans. Þetta er þess vegna stórmál fyrir EFTA-löndin líka, utan Svisslands, sem skákar í skjóli tvíhliða viðskipta- og menningarsamninga við ESB.
Það var í maí 2020, sem Stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe kvað upp úr með, að sá úrskurður ESB-dómstólsins, að Evrubankinn hefði téðar heimildir samkvæmt ESB-rétti, væri "ultra vires", þ.e.a.s. utan heimildasviðs hans. Framkvæmdastjórnin skrifar í fréttatilkynningu af þessu tilefni, að þýzki stjórnlagadómstóllinn hafi ómerkt réttaráhrif ESB-dómstólsins í Þýzkalandi og véki til hliðar grunnreglunni um forgang ESB-réttar. Framkvæmdastjórnin telur þetta munu hafa alvarleg fordæmisáhrif, bæði fyrir úrskurði og dóma þýzka stjórnlagadómstólsins og fyrir æðstu dómstóla og stjórnlagadómstóla annarra aðildarlanda.
Prófessor Halvard Haukeland Fredriksen við Háskólann í Bergen sagði í sambandi við dóm þýzka stjórnlagadómstólsins:
"Vandamálið við dóminn er eiginlega ekki, að stjórnlagadómstóllinn telur á valdsviði sínu að sannreyna, hvort ESB-dómstóllinn hafi haldið sig innan marka fullveldisframsals Þýzkalands til ESB, heldur að þröskuldurinn fyrir þessi inngrip hans virðist allt of lágur. Í fyrri málum hefur stjórnlagadómstóllinn alltaf látið ESB-dómstólinn njóta vafans og í því samhengi einnig lýst því yfir, að m.t.t. einingar um ESB-réttinn skuli veita ESB-dómstólinum visst "villuumburðarlyndi" ("Fehlertoleranz")."
ESA sendi Íslandi lokaaðvörun vegna samningsbrota út af löggjöf landsins um forgang ESB-réttar á Íslandi 30. september 2020. Svar íslenzku ríkisstjórnarinnar, sem barst ESA fyrir skömmu, er trúnaðarmál. Hvers vegna í ósköpunum þolir þetta svar ekki dagsljósið ? Hagsmunir hverra mundu skaðast við það að upplýsa um efnislegt inntak afstöðu íslenzka ríkisins til máls, sem á sér víðtæka skírskotun innan EES ? Það verður að leysa úr þessu deilumáli EFTA-ríkjanna við ESB með samningaviðræðum á milli EFTA og ESB. Að því kemur vonandi eftir þingkosningarnar í Noregi og á Íslandi í september 2021.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)