Er rekstrarárangur refsiverður ?

Furðuleg umræða gaus upp í sumum fjölmiðlum í viku 34/2021, er mánuður var til Alþingiskosninga.  Hún var á þá lund, að hagnaður sumra sjávarútvegsfyrirtækja væri svo mikill, að augljóslega þyrfti að hækka veiðigjöldin. Taka verður fram, að hagnaður sjávarútvegs eftir skatt er hlutfallslega minni að jafnaði en við á að jafnaði um annan atvinnurekstur, enda virka veiðigjöldin sem hver annar tekjuskattur á sjávarútvegsfyrirtæki.

Þetta viðhorf til sjávarútvegsins virðist markast af öfund yfir velgengni þeirra, sem náð hafa góðum árangri með sín fyrirtæki. Viðhorfið stenzt ekki jafnræðisreglu Stjórnarskrár um, að allir skuli njóta jafnræðis gagnvart lögum.  Málflutningurinn er einskært lýðskrum, reist á þeirri vitneskju, að flestum þykja skattahækkanir í góðu lagi, ef þær bitna á öðrum en þeim sjálfum.  Þá gleymist reyndar alveg, að með ofurskattlagningu eða hærri skattlagningu en á samkeppnisaðilana er verið að saga í sundur greinina, sem allir sitja á.  Þetta á sérstaklega við um útflutningsgreinarnar, en það má heldur ekki líta fram hjá því, að sjávarútvegurinn á í samkeppni við aðrar atvinnugreinar hér innanlands um fólk og fjármagn.

Þessi öfundsjúki málflutningur á aðallega rætur að rekja til fólks, sem gengur með þá grillu, að það hafi dottið niður á miklu betra og réttlátara fiskveiðistjórnunarkerfi en nú er við lýði hérlendis.  Hér er oftast um að ræða fólk, sem aldrei hefur migið í saltan sjó, eins og þar stendur, þ.e. hefur enga reynslu af rekstri útgerðarfyrirtækja, hvað þá meira vit á þeirri útgerð en þau, sem hana stunda núna, en gengur hins vegar með "frelsarann" í maganum um réttu trúna í málefnum sjávarútvegsins og hið fullkomna réttlæti.  Allt er það eins fjarri sanni og hugsazt getur og reyndar tómar grillur.

Hvar er réttlætið í því að þjóðnýta aflaheimildir með salami aðferðinni, 5 %-10 % á ári, sem flestar hafa verið keyptar á markaði og búið er að fjárfesta gríðarlega í, til að hægt sé að nýta þær ?  Hjá Evrópusambandinu (ESB) tíðkast ekki sá kvótamarkaður, og stefna þess, sem þó enn hefur ekki verið hrint í framkvæmd, er, að bjóða út allar útgefnar veiðiheimildir í lögsögu ESB. Þá munu gufa upp draumórar um "hlutfallslegan stöðugleika".  Íslenzkar útgerðir bjóða þá á móti öllum öðrum útgerðum í ESB, ef Ísland gengur þarna inn.  Er þetta ekki viðfelldin framtíðarsýn fyrir íslenzkar sjávarbyggðir og efnahag landsins ? 

Stefna ESB-flokkanna á Íslandi í sjávarútvegsmálum er ekkert annað en aðlögun að því, sem koma skal hjá ESB.  Það er engin glóra í því að leggja allt í sölurnar, t.d. að fótumtroða eignarréttinn með þjóðnýtingu keypts og löglega fengins nýtingarréttar á Íslandsmiðum (ath.: enginn á óveiddan fisk í sjó), til að innleiða hér fyrirkomulag, sem alls staðar hefur farið í handaskolum, þar sem það hefur verið reynt. Að halda því t.d. fram, að Færeyingar hafi ekki kunnað að hanna uppboðskerfi, er ósvífin drambsemi.  Þetta fyrirkomulag hefur alls staðar farið með útgerðina í hundana, þar sem það hefur verið reynt, t.d. í Eistlandi og í Rússlandi. 

Til að gefa almenningi kost á að hætta fé sínu í sjávarútveg í von um meiri ávöxtun þar en annars staðar er kjörin leið, að stærstu fyrirtækin í greininni verði gerð að almenningshlutafélögum með skráningu í Kauphöll Íslands. Sú þróun er þegar hafin.  Það er ólíkt meiri sáttasnykur af slíku en að þjóðnýta aflahlutdeildirnar.  Varaformaður Viðreisnar, sem er hagfræðingur að mennt, hefur viðurkennt, að leið flokks hans muni til lengdar ekki leiða til tekjuauka hjá ríkissjóði.  Hann breiðir hins vegar yfir eiginlegt ætlunarverk flokks síns með þeim öfugmælum aldarinnar, að þjóðnýting og uppboð aflahlutdeilda sé leið til sátta um sjávarútveginn.  Eru ekki allir með "fulle fem" ?

Fréttablaðið var með fréttaskýringu um málið 26. ágúst 2021 undir fyrirsögninni:

 "Hugnast ekki útboð aflaheimilda":

"Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, leggjast gegn þeirri tillögu Þjóðareignar að bjóða út 5-10 % aflaheimilda árlega.  Í könnun, sem framkvæmd var á vegum Gallup, kemur fram, að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga eða 76,6 % er hlynntur því, að útgerðin greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðum."

Það er fráleitt að gera skoðanakönnun um það, sem enginn þekkir haus né sporð á.  Enginn veit, hvert þetta markaðsverð verður, og útfærsla uppboðsins er í algerri óvissu, því að hún virðist eiga að vera einhvern veginn öðruvísi en aðrir hafa glapizt á hingað til.  Hér ímynda svarendur sér, að ríkistekjurnar muni hækka án þess, að peningar verði teknir úr þeirra vasa.  Samkvæmt varaformanni Viðreisnar er það misskilningur.  Tekjur ríkissjóðs hækka ekkert við þetta feigðarflan. 

""Uppboð afla hugnast okkur ekki.  Reynsla annarra þjóða hefur sýnt, að þau gefa ekki góða raun. Það er aukin samþjöppun, aukin skuldsetning, verri umgengni við auðlindina, og í ljós kemur, að það eru hinir stærri og sterkari, sem bera sigur úr býtum á uppboðum.  Þannig að ef hugsunin er að halda sjávarútvegi í dreifðri eignaraðild, þá er uppboð ekki ákjósanleg leið", segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS."  

Þetta eru óvéfengjanlegar staðreyndir, en hrakfallasaga uppboða erlendis ku vera vegna þess, að þau eru skipulögð og framkvæmd af imbum, sem ekkert kunna til slíkra, eða svo er að skilja á fulltrúa "Þjóðareignar" í sömu fréttaskýringu.  Þar er auðvitað vaðið á súðum í yfirlæti "besserwissers" um útgerðarmál.  Harla ódýr málflutningur á þeim bæ.

""Samkvæmt lögum greiðir sjávarútvegurinn á Íslandi veiðigjald, sem byggir að nokkru leyti á markaðnum fyrir sjávarfang, er 33 % af aflaverðmæti. Veiðigjaldið hefur að þessu leyti tengingu við markað með sjávarafurðir", segir hann [Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra]." "Þegar vel árar, þá hækkar gjaldið, og þegar illa árar, þá lækkar það."

Þriðjungur hagnaðar er engin smáræðis viðbót við almennan tekjuskatt fyrirtækja.  Það er stundum látið, eins og aðföng útgerða séu ódýrari en annarra fyrirtækja.  Þeir hinir sömu horfa fram hjá því, að útgerð er fjármagnsfrek (góður skuttogari kostar um og yfir mrdISK 6), og rekstarkostnaður við að sækja aflann er hár vegna eldsneytiskostnaðar og aflahlutdeildar sjómannanna.  Þessu til staðfestingar er, að s.k. auðlindarenta, sem var hugmyndafræðilegur grundvöllur veiðileyfagjalda á sínum tíma, hefur ekki fundizt í bókhaldi útgerðanna.  Þetta þýðir, að ríkisvaldið hefur enga fjárhagslega ástæðu til að mismuna útgerðunum í samanburði við önnur fyrirtæki, enda tíðkast veiðigjöld ekki í öðrum Evrópulöndum eða  víðast hvar annars staðar, nema að nokkru leyti í Færeyjum. Þvert á móti eru útgerðir í öllum öðrum útgerðarlöndum Evrópu niðurgreiddar.  Íslenzka ríkið teflir á tæpasta vaðið með þessari háu skattheimtu.  Það má fallast á, að viðbótar skattheimtan gangi á hverjum tíma til rekstrar Hafrannsóknarstofnunar og Landhelgisgæzlunnar. 

"Heiðrún Lind segir, að tilraunir Færeyinga til þess að bjóða upp aflaheimildir hafi ekki heppnazt vel:

"Reynsla Færeyinga er sú, að það var engin nýliðun í þeim uppboðum, sem þeir framkvæmdu.  Ég tel uppboð ekki réttu leiðina til að hámarka verðmæti sjávarauðlindarinnar.  Síðan liggur fyrir, að fyrsta skrefið fælist í því að innkalla þær aflaheimildir, sem á að bjóða út.  Þessar æfingar myndu mjög fljótt þurrka upp eigið fé í sjávarútvegi og auka á samþjöppun.  Það hugnast mér ekki", segir Heiðrún."

  Það var endurskoðunarfyrirtæki, sem sýndi fram á það fyrir nokkrum árum, að þjóðnýting aflahlutdeildanna (nýtingarréttarins) mundi á fáum árum eyða upp eigin fé útgerðanna.  Sú niðurstaða stendur óhögguð, þótt hugmyndafræðingarnir berji hausnum við steininn.  Það er ekkert nýtt.  Þótt sósíalisminn leiði alls staðar til siðferðilegs og fjárhagslegs gjaldþrots, er hann samt boðaður enn á þeim forsendum, að sósíalistarnir hafi brugðizt, ekki sósíalisminn.  Það er afkáraleg sjálfsupphafning þeirra, sem enn boða falskt fagnaðarerindi. Það er alveg áreiðanlegt, að stjórnmálamenn eru ekki betur fallnir til afskipta af atvinnumálum en núverandi eigendur og stjórnendur fyrirtækja. 

Sjávarútvegsfyrirtæki eru nú farin að gefa út s.k. samfélagsskýrslur um starfsemi sína.  Slík útgáfa er til þess fallin að draga tölulegar staðreyndir um þessi fyrirtæki fram í dagsljósið og kynna áform fyrirtækjanna. Slíkt helzt vel í hendur við skráningu þeirra í Kauphöll. Hvort tveggja er til þess fallið að skapa betri frið um starfsemina, sem hlýtur í raun að vera öllum landsmönnum í hag. Laugardaginn 28. ágúst 2021 gerði Karítas Ríkharðsdóttir grein fyrir fyrstu samfélagsskýrslu Eskju með viðtali við Pál Snorrason, framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrarsviðs Eskju í Morgunblaðinu:

""Eskja er að gefa út sína fyrstu samfélagsskýrslu, og tilgangur með útgáfu hennar er bæði að auka gagnsæi í okkar starfsemi og gera grein fyrir árangri okkar auk áhrifa á umhverfið og samfélagið", segir Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Eskju." 

Skattspor fyrirtækisins, einnig nefnt skattaslóð, nam árið 2020 mrdISK 1,4.  Þetta var 17,1 % af rekstrartekjunum (veltunni).  Þetta háa hlutfall er ástæða þess, að hagfræðingurinn á varaformannsstóli Viðreisnar játar, að uppboðskerfi aflahlutdeilda muni ekki auka tekjur ríkissjóðs. Þar að auki er kerfið  ósjálfbært, eins og komið hefur fram. 

"Samsvarar skattaslóðin um MISK 14 á hvern starfsmann fyrirtækisins og kISK 329 á hvert þorskígildistonn af aflaheimilda, sem fyrirtækið hefur yfir að ráða [á ári]."

Þessi gríðarlega skattaslóð gefur feiknarlega virðisaukningu til kynna í fyrirtækinu og sýnir í hnotskurn, að stjórnmálamenn eiga að láta fyrirtækin í friði og ekki að troða vansköpuðum og fáfengilegum hugmyndum sínum upp á þau í nafni þjóðarinnar og þjóðareignar á miðunum, sem á ekkert skylt við eignarrétt, heldur lögsögu íslenzka ríkisvaldsins yfir miðunum.  Ef fyrirtækin fá frið til verðmætasköpunar úr auðlindinni, þá bera sameiginlegir sjóðir landsmanna, ríkissjóður og sveitarsjóðir, mest úr býtum. Horuð og aðþrengd fyrirtæki eru lítils virði eigendum sínum og þjóðarheildinni. Sumir muna enn þrautagöngu útgerðanna fyrir 1984. Atvinnurekstur er bezt kominn hjá þeim, sem þar hafa skarað fram úr, en alls ekki í höndum stjórnmálamanna eða starfandi í umhverfi, skapað af stjórnmálamönnum, sem ekkert fyrirtæki þrífst í.    

 

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Sæll Bjarni.

Það virðist gleymast eða ekki hugnast sróru útgerðarfélögunum, sem þú kýst að þjóna, að kvótinn var settur til að vernda fiskinn í sjónum en ekki einstakar fiskvinnslur í landi.  Að klippa milli veiða og vinnslu er stóra málið. Í dag fer 80% af þorski framhjá fiskmörkuðum og þau 20% sem f viðara á markað eru keypt af fyrirtækjum sem njóta nafnleyndar.  Það er ekkert eðlilegt við þetta fyrirkomulag.  

Tryggvi L. Skjaldarson, 2.9.2021 kl. 08:23

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Tryggvi, og takk fyrir tilskrifið.  Jafnan minnist ég samtala okkar í skautsmiðjunni forðum daga með ánægju, er þig ber á góma.  Þú vilt skilja á milli veiða og vinnslu af réttlætissjónarmiðum, skilst mér.  Það eru nefnilega sáralitlar líkur á, að heildarverðmætasköpun sjávarútvegsins mundi aukast við það.  Fyrir mér er það aðalatriðið.  Atvinnugreinin sjálf virðist hafa valið fyrirkomulag, sem er til þess fallið að hámarka verðmætasköpun takmarkaðs afla.  Ég er ekki slíkur spámaður, að ég geti fullyrt, að greinin hafi valið ranga leið, enda hef ég aldrei migið í saltan sjó, þ.e. stundað sjómennsku eða útgerð.  Ég veit hins vegar um þjóð, sem viðhefur fyrirkomulagið, sem þú talar ákaflega fyrir.  Það eru frændur vorir Norðmenn.  Þar mega útgerðir eiga nýtingarrétt á tvöfalt meiri aflahlutdeild en íslenzkum útgerðum leyfist.  Samt fær norskur sjávarútvegur niðurgreiðslur úr ríkissjóði.  Aflinn, sem norskar útgerðir færa á land, er mjög breytilegur að magni til eftir tíma.  Stundum anna vinnslurnar ekki öllum aflanum með góðu móti, og verðið fellur á mörkuðum vegna offramboðs.  Þegar verðið er gott, getur þær hæglega skort hráefni.  Þar sem "virðiskeðjan er órofin", eins og hjá okkur, gerist þetta ekki.  Landaður afli er jafnari að magni, og veiðarnar ráðast af markaði.  Fyrir vikið fæst hærra meðalverð og verðmætasköpun á hvert aflað tonn verður meiri og skattaslóðin þeim mun stærri.  Þetta er ástæðan fyrir því, að ég sé ekki ástæðu til að amast við þessu.  

Bjarni Jónsson, 2.9.2021 kl. 11:48

3 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Sæll aftur Bjarni.

  Takk fyrir hlý orð í minn garð. Sömuleiðis minnist ég samtala okkar með mikilli ánægju og hef hrifist af yfirgripsmikilli þekkingu þinni á hinum ýmsu málum. Hvernig þú kemst svo að niðurstöðu hefur aftur á móti stundum staðið í mér.  Kannski er það vegna þess að ég er gamall eðalkrati en þú virðist hrifnari en ég að þeirri hugmynd að gefa einkaframtakinu lausan tauminn.

  Ef virðiskeðja er lausnarorð í sjávarútvegi liggur þá ekki beinast við að skella öllum veiðum í umsjá ríkisins?  Ríkið gæti svo boðið út einstakar veiðar með svipuðum hætti og marga dreymir um í heilsugæslu. 

 Kvótin opnaði augu manna fyrir að um takmarkaða auðlind væri að ræða og í beinu framhaldi snarbatnaði öll meðferð á fiski.  Fiskhjallar sem voru upp um allar brekkur fullir af þorski sem var verið að þurrka fyrir ódýr markaðssvæði, hurfu.  Framleiðsla fiskstauta í raspi, fyrir skólamötuneyti og fangelsi í Ameríku, hætti.  Menn áttuðu sig á að við vorum langt frá því að hámarka verðmæti sjávaraflans.  Menn áttuðu sig líka á að betra er, fyrir veskið,  að koma með verðmeiri fisk að landi en þann verðminni.  Kvótakerfið er langt því frá gallalaust og er verðugt umræðuefni hvað má betur fara.

Fyrir tölvuvæðingu og opnun fiskmarkaða þurftu útgerðir að tryggja sér hráefni með samningum.  Sá tími er löngu liðinn. Í dag er hægt að sjá á hverjum degi hvaða framboð er af nýveiddum fiski.  Að fara með 80% af fiski framhjá fiskmörkuðum er óeðlilegt í alla staði nema fyrir þá sem það stunda.  Ég er sannfærður um að útgerðamenn verða fljótir að átta sig á hvenær borgar sig að veiða og hvenær ekki.  Markaðurinn stjórnar því.  Ef velrekin fiskvinnsla er háð því að fá hráefni framhjá markaði, þá er maðkur í mysunni.

Ekki veit ég hvernig Norðmenn niðurgreiða sinn sjávarútveg, en heyrt hef ég frá mönnum sem þar stunda veiðar að þeir kannast ekki við að það gangi lengra en hér á landi.

Kveðja T 

Tryggvi L. Skjaldarson, 3.9.2021 kl. 09:34

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Tryggvi og takk fyrir tilskrifið.  Mig minnir við hafa orðið einhuga um ýmis mál í skautsmiðjunni, en sá er e.t.v. grundvallarmunurinn á viðhorfum okkar, að ég tel þvingunarráðstafanir stjórnmálamanna í atvinnumálum yfirleitt vera til bölvunar, og þá á ég við, að þær séu til þess fallnar að leiða til minni verðmætasköpunar, sem þýðir auðvitað kjararýrnun launþeganna, því að kjör almennings fylgja verðmætasköpun fyrirtækjanna, og hlutfall launþega af þessari verðmætasköpun er á Íslandi á meðal hins hæsta í heimi hér.  Þar sem vel gengur, og það er staðreynd, að verðmætasköpun íslenzks sjávarútvegs á hvert tonn afla er hin hæsta í Evrópu og þótt víðar væri leitað, eiga stjórnmálamenn að forðast eins og heitan eldinn að grípa inn með þvingunarráðstöfunum.  

Árið 1983 var íslenzkur sjávarútvegur kominn að fótum fram, enda mikilvægir stofnar á Íslandsmiðum ofveiddir.  Þá var fullkomlega réttlætanlegt, að stjórnmálamenn (Alþingi) gripu inn með þvingunarúrræði, sem var að setja aflamark á tegundir og úthluta fiskiskipum aflahlutdeild eftir veiðireynslu.  Síðar (1989) var hert með lögum á fækkun fiskiskipa og fyrirtækja með frjálsu framsali aflahlutdeilda.  Þá voru m.a. jafnaðarmenn við stjórnartaumana, en íhaldið í stjórnarandstöðu.  

Ég held, að fiskmarkaðir og viðskipti útgerðanna við þá, hafi verið til umræðu á milli sjómanna og útgerða.  Þessu máli mundi ég vilja leyfa að þróast án þvingunarúrræða Alþingis (ríkisvaldsins).  Ég hef ekki séð neina hagfræðilega greiningu á þessu máli, sem bendir til aukningar á verðmætasköpun sjávaútvegsins með því að þvinga allan afla um fiskmarkaðina.  Slík þarf að koma fram með sannfærandi hætti áður en hægt er að ljá slíku réttlætanlegan stuðning.  

Bjarni Jónsson, 3.9.2021 kl. 14:09

5 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Takk fyrir spjallið.  Ekki væri leiðinlegt ræða þessi mál betur yfir kaffibolla.

Tryggvi L. Skjaldarson, 3.9.2021 kl. 15:49

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er alveg rétt, Tryggvi.  Ég veit, að þú ert vel að þér um þessi mál og margt fleira.

Bjarni Jónsson, 3.9.2021 kl. 17:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband