Færsluflokkur: Bloggar
23.7.2020 | 21:12
Tækniþróunin gerir mögulegt að ná markmiðum orkuskipta
Ísland nýtur þeirrar sérstöðu að þurfa ekki að umbylta raforkuvinnslu landsins, eins og flest önnur ríki, til að ná markmiðum orkuskipta. Þau ættu því að verða að sama skapi léttbærari hérlendis, en samt eru þau viðamikil og tæknilega krefjandi verkefni. Þau felast í að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með rafmagni úr umhverfislega og efnahagslega sjálfbærum virkjunum náttúrulegra orkulinda.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, SA, ritaði grein Markaðinn 1. júlí 2020 undir fyrirsögninni:
"Fyrirtæki í forystu að minnka losun gróðurhúsalofttegunda".
Fyrirsögnin felur ekki í sér neina nýlundu eða ný sannindi, heldur hið augljósa, að þeir, sem losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið, eru bezt til þess fallnir að draga úr eða stöðva þá losun, enda stendur það þeim næst. Stjórnvöld líta aðallega á það sem sitt hlutverk að halda pískinum á lofti og berja fórnarlömbin, til að þau fari að hegða sér á annan og æskilegri hátt. Þarna getur t.d. verið um að ræða skattlagningu á jarðefnaeldsneyti, sem er slæm aðferð. Hún gerir alla flutninga dýrari og eykur þar með dýrtíð í landinu, en dregur lítið úr umferðinni eða t.d. sjósókn. Hins vegar getur dýrt eldsneyti hvatt til orkuskipta, t.d. við endurnýjun á fólksbílum, en hafa þarf í huga, að fjárfestingargetan minnkar með aukinni skattlagningu. Orkukostnaður rafmagnsbíla per km er um þessar mundir 30 % - 40 % af orkukostnaði benzínbíla.
Önnur aðferð yfirvalda er úthlutun síminnkandi "gjafakvóta", CO2, og gjaldheimta umframlosunar. Stóriðjan og flugið verða fyrir barðinu á þessu. Aðferðin knýr tækniþróunina áfram. Þotuhreyflar verða sífellt nýtnari, og farið er að huga að því að knýja flugvélar áfram með orku, sem ekki myndar gróðurhúsagös við nýtingu. Sjálfsagt er vetni þar mjög til skoðunar sem orkumiðill.
Öflugar álsamstæður hafa sameinazt um að þróa grunnþekkingu á nýju, kolefnissnauðu framleiðsluferli áls, áfram upp í hagkvæma iðnaðarstærð, sem þýðir allt að þúsundföldun rafgreiningarstraums frá tilraunastofustraumi. Þessi þróun hefur verið torsótt og kostnaðarsöm, en nú er verkhönnun fyrstu útgáfu lokið hjá Elysis, þróunarfyrirtæki Rio Tinto og Alcoa, og verið er að smíða framleiðslubúnað til uppsetningar í tilraunaverksmiðju Rio Tinto í Voreppe í Frakklandi, sem á að ljúka síðla árs 2021. Nái Elysis forskoti á markaðinum, mun sú tækni verða algerlega leiðandi á þessu sviði næstu áratugina.
Upphafaf greinar Halldórs Benjamíns var þannig:
"Fyrirtækin í landinu munu eiga mestan þátt í að ná markmiðum Íslands um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum og áratugum. Verulega hefur dregið úr kolefnisfótspori sjávarútvegsins síðustu áratugi, og sú þróun mun halda áfram með tækniþróun, betri nýtingu veiða og aukinni áherzlu á verðmætasköpun. Áliðnaðurinn er þegar í fremstu röð fyrirtækja í heiminum og uppfyllir ströngustu viðmið um losun kolefnis á hvert tonn, sem framleitt er."
Það er beint samhengi á milli fiskveiðistjórnunarkerfisins og frábærs árangurs sjávarútvegsins, aðallega togaraútgerðanna, í umhverfismálum. Þannig eiga stjórnvöld sinn þátt í heiðrinum. Fjöldi veiðiferða er í lágmarki, og útgerðunum hefur vaxið fiskur um hrygg, svo að þær hafa haft bolmagn til öflugrar tækniþróunar, sem leitt hefur til u.þ.b. helmingsfækkunar togara á 30 árum og mjög bættrar eldsneytisnýtingar. Þeir, sem vilja fjölga útgerðum á Íslandsmiðum eða að herða skattaskrúfuna með hækkun veiðigjalds, eru að biðja um að hægja á þessari hraðfara jákvæðu þróun umverfisverndar.
Íslenzki áliðnaðurinn er kominn að mörkum þess mögulega í rafgreinarferlinu varðandi lágmörkun losunar gróðurhúsagasa. Næsta skref í þessum efnum er ekki að bögglast við að binda koltvíildi og dæla því ofan í jörðina með ærnum tilkostnaði, heldur að umbylta framleiðsluferlinu í anda Elysis. Með því að bjóða lágt raforkuverð, gætu íslenzk orkufyrirtæki stuðlað að miklum fjárfestingum hérlendis í nýrri, hreinni tækni við álframleiðsluna. Hér er upplagt tækifæri fyrir Íslendinga til að grípa gæsina og skáka ýmsum öðrum um leið.
"Annars vegar er losun frá orkufrekum iðnaði, sem fellur undir s.k. ETS-kerfi, þar sem losunin er talin fram sameiginlega í öllum ríkjunum og á að minnka um 43 % til 2030 frá árinu 2005. Vegna þess að kerfið er samevrópskt og að ekki er ætlunin að stöðva iðnþróun í Evrópu, er búið til svigrúm, til að ný fyrirtæki geti hafið starfsemi. En í heildina er gert ráð fyrir, að nýsköpun og tækniþróun, ásamt úreldingu eldri fyrirtækja, muni leiða til samdráttar í losun. Þessi fyrirtækið fá úthlutað losunarheimildum, sem fækkar smám saman. Þær verða dýrari, og þessir þættir knýja fram minni losun jafnt og þétt."
Þannig hefur þetta verið, en íslenzku álfyrirtækin eru nú komin á leiðarenda þessarar þróunar. Augljóslega er erfitt fyrir íslenzka áliðnaðinn að miða við árið 2005, því að þá hafði stærsta álver landsins enn ekki hafið rekstur, og hin hafa aukið framleiðslugetu sína síðan þá. Við þessar aðstæður er bara stóra stökkið eftir, sem er innleiðing kolefnisfrírrar rafgreiningar súráls ásamt bindingu koltvíildis í gróðri. Ef framleiðslugetu að jafngildi verksmiðju ISAL í Straumsvík verður umbylt með nýrri rafgreiningartækni, þá minnkar losun álvera landsins um tæplega fjórðung. Þá eru 20 % eftir eða 320 kt CO2/ár að markmiðinu, sem er vel viðráðanlegt með skógrækt 60 kha svæði (600 km2).
"Hins vegar er svo almenn starfsemi innanlands. Í aðgerðaáætluninni er gert ráð fyrir mestum samdrætti losunar frá sjávarútvegi, jarðhitavirkjunum, orkufrekum iðnaði og ýmissi annarri starfsemi. Það verða því fyrirtækin, sem draga vagninn til að uppfylla skuldbindingar og markmið Íslands í loftslagsmálunum, bæði til 2030 og einnig til lengri tíma. Almenningur mun draga úr losun eftir því sem samgöngur breytast. Orkuskipti, vistvænir bílar, almenningssamgöngur, hjólreiðar og aðrir vistvænir samgönguhættir skipta miklu."
Hverjir aðrir en fyrirtækin ættu að draga þennan vagn með heimilunum ? Bezti hvatinn, sem ríkisvaldið gæti veitt samfélaginu, væri lækkun raforkukostnaðar almennings niður í það mark, að orkufyrirtækin hafi ekki bolmagn til arðgreiðslna. Þetta yrði að gerast með lagasetningu, sem gæti kallað á athugasemdir frá Landsreglara og ESA, en til varnar stendur forgangsmarkmiðið um minnkandi losun, sem Ísland hefur skuldbundið sig til í samráði við ESA.
Fulltrúi Landsreglara, Jón Ásgeir Haukdal, sérfræðingur á Orkustofnun, brást við gagnrýni Sigríðar Á. Andersen á íblöndunarkröfu yfirvalda á s.k. endurnýjanlegu eldsneyti í benzín og dísilolíu með smágrein í Morgunblaðinu 02.07.2020 undir fyrirsögninni:
"Rafbílar telja fimmfalt".
Hún hófst þannig:
"Vísað er í grein Sigríðar Á. Andersen í Morgunblaðinu 26. júní sl.. Þar er því haldið fram, að orkunotkun rafbíla telji ekki með í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands um hlut endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum á landi. Það er þvert á móti, því [að] orkunotkun rafbíla telur fimmfalt. Regluverk á þessu sviði er margþætt, og Orkustofnun er því ljúft og skylt að skýra helztu atriði í stuttu máli."
"Samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um endurnýjanlegt eldsneyti, nr 2009/28/EB, og nefnist á ensku Renewable Energy Directive, skulu ríki ná a.m.k. 10 % orkuhlutfalli af endurnýjanlegu eldsneyti í samgöngum á landi árið 2020. Ísland er á góðri leið með að ná þeim markmiðum, en árið 2019 var hlutfallið 9,2 %. Það skiptist svo: lífdísilolía 4,5 %, rafmagn 2,8 %, etanól 1,1 % og metan 0,7 %. Við útreikning á hlutfallinu er raforkunotkun rafbíla fimmfölduð, þar sem tekið er tillit til þess, að rafbílar nýta raforkuna mun betur en hefðbundnir bílar nýta jarðefnaeldsneyti. Raforkunotkun rafbíla er áætluð út frá fjölda skráðra rafbíla og heimahleðsla því tekin með, þótt hún sé ekki mæld sérstaklega. Einnig er heimilt að margfalda orkugildi eldsneytis, sem framleitt er úr úrgangi, með tveimur, og nýtur metanframleiðslan góðs af því."
Á fyrri hluta árs 2020 var markaðshlutdeild nýrra alrafbíla 26 % og var þá 4,3 sinnum meiri en árið 2019. Hlutfall orkunotkunar rafmagnsbíla af heildarbílaflotanum mun þannig fara yfir 10 % árið 2020, með sömu reikniaðferðum, og vaxa hratt eftir það, sem ætti fullkomlega að réttlæta afnám innflutnings á endurnýjanlegu eldsneyti, sem hefur leitt til verðhækkunar matvæla á heimsvísu og felur í sér gjaldeyrissóun við íslenzkar aðstæður.
Síðan hélt Jón Ásgeir Haukdal áfram sinni upplýsingagjöf:
"Markmið stjórnvalda er að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldsneytis í samgöngum á landi í 10 % árið 2020 og 40 % árið 2030. Til að ná þessum markmiðum voru m.a. sett lög um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr 40/2013, sem byggja á fyrrnefndri tilskipun. Með lögunum er gerð sú krafa til eldsneytissala að tryggja, að minnst 5 % af heildarorkugildi eldsneytis, sem þeir selja til notkunar í samgöngum á landi á ári, sé endurnýjanlegt. Allt endurnýjanlegt eldsneyti er hægt að telja til, þ.m.t. rafmagn, metan, metanól, lífdísilolíu og etanól, hvort sem það er innlent eða erlent. Engin íblöndunarskylda er til staðar, og hafa olíufélögin því frjálsar hendur um framkvæmdina, svo lengi sem sjálfbærniviðmið eru uppfyllt, en þau gera kröfu um a.m.k. 50 % samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á orkugildi samanborið við jarðefnaeldsneyti."
Það blasir við, að eðlilegast er fyrir olíufélögin að setja upp rafhleðslustöðvar, einkanlega í dreifbýli landsins, og að kaupa repjuolíu á innanlandsmarkaði til blöndunar í dísilolíu, til að uppfylla kröfur um hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis. Hvorugt hefur í för með sér nettólosun koltvíildis, og hvort tveggja er endurnýjanlegt, og slík viðskiptastefna styrkir vöruskiptajöfnuðinn, en Akkilesarhæll hraðrar rafbílavæðingar eru of fáar hraðhleðslustöðvar við fjölfarnar leiðir.
"Enn fremur var sett reglugerð um gæði eldsneytis, nr 960/2016, og byggðist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins, 2009/30/EB, sem kveður á um, að olíufélög skuli ná 6 % samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á hverja selda orkueiningu. Reglugerðin gerir töluvert ríkari kröfur til olíufélaganna en í lögum um endurnýjanlegt eldsneyti, þar sem hún tekur tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda, sem til verða við framleiðslu og notkun endurnýjanlega eldsneytisins. Það eldsneyti, sem hefur lítið kolefnisspor, hefur þess vegna meira vægi við útreikning á því hlutfalli, ólíkt fyrr nefndu 5 % hlutfalli."
Þessi regla er enn meiri hvati fyrir olíufélögin að selja sem mest rafmagn á farartæki. Til að olíufélögin dagi ekki uppi á tiltölulega skömmum tíma, þurfa þau að auka markaðshlutdeild sína á sviði rafmagns á ökutæki, því að bílar knúnir rafmagni af rafgeymum virðast vera í mikilli sókn og munu ryðja orkuskiptunum braut á vegunum. Þyngri farartæki, vinnuvélar, langferðavagnar o.þ.h. verða þó knúin með öðrum hætti, a.m.k. þar til bylting verður í orkuþéttleika rafgeymanna í kWh/kg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.7.2020 | 10:01
Vönduð fréttamennska af atvinnulífinu
Það er skoðun höfundar þessa vefpistils, að umfjöllun Morgunblaðsins, bæði vef- og ritmiðils, um viðskipti og atinnulíf, sé sú ítarlegasta og vandaðasta á Íslandi um þessar mundir. Þetta virðist stafa af því, að blaðamennirnir eru með fingurinn á þjóðarpúlsinum, og af góðri ritstjórn með heilbrigt fréttamat m.t.t. hagsmuna þjóðarinnar. Fyrir lýðræðisþróun er gríðarlega mikilvægt, að mikilvægir atburðir, tilhneiging og þróun innan atvinnulífsins séu þar ekki innilokaðir og sótthreinsaðir, þar til einhver sprenging verður eða ráðamönnum þar þóknast að láta einhverja matreiðslu í té að eigin smekk. Illmögulegt er þá fyrir almenning að mynda sér raunhæfa mynd af stöðu mála og þróun.
Almenningur á Íslandi á allt undir velgengni atvinnuveganna komið, einnig ríkis- og bæjarstarfsmenn, því að hjá atvinnuvegunum, í raunhagkerfinu, verður öll verðmætasköpun þjóðfélagsins til, sem heimilin fá síðan væna sneið af, eina þá stærstu í hlutfalli og verðmætum talið um þessar mundir, og hið opinbera heggur síðan í, bæði hjá heimilunum og fyrirtækjunum. Dæmi eru um skelfilega sóun verðmæta hjá hinu opinbera. Hjá Sjúkratryggingum Íslands stingur í augun kerfisóreiða, sem hvetur til utanfarar sjúklinga í stað aðgerðar á einkareknum fyrsta flokks stofum fyrir 1/3 kostnaðar við utanförina. Hjá Reykjavík er fjármálaóreiðan slík, að skuldirnar nema MISK 10 á hverja 4 manna fjölskyldu. Þar mun óreiðan enda með ósköpum, verði ekki fljótlega gripið í taumana. Borgarlína höfuðborgarsvæðisins er hugarfóstur, sem hentar engan veginn hér vegna mannfæðar, veðurfars og krafna almennings um lífsgæði.
Stefán E. Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, hefur látið sér annt um áliðnaðinn og flugstarfsemina og heyjað sér mikillar þekkingar á þessum sviðum. Laugardaginn 27. júní 2020 birti hann Baksviðsfrétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:
"Enn ber talsvert í milli".
Með greininni birtist mjög viðeigandi mynd af fyrsta hverfilshjóli Landsvirkjunar í Búrfelli, sem Landsvirkjun gaf ISAL við hátíðlegt tækifæri, þegar gott talsamband ríkti á milli fyrirtækjanna, sem yfirleitt var á tímabilinu 1966-2010. Nú er öldin önnur, eins og Stefán flettir ofan af í téðri baksviðsfétt. Hún hófst þannig:
"Enn ber talsvert á milli í viðræðum Landsvirkjunar og Rio Tinto um endurmat á raforkuverði til verksmiðju síðarnefnda fyrirtækisins í Straumsvík. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.
Greint var frá því í Viðskipta-Mogganum á miðvikudag [24. júní 2020], að Rio Tinto hefði lýst yfir vilja til þess að auka framleiðslu sína í álverinu að nýju, en fyrirtækið hefur dregið talsvert úr framleiðslunni, það sem af er ári. Álverð hefur haldizt mjög lágt á heimsmarkaði síðustu mánuði, og flest bendir til þess, að ástandið muni haldast þannig á komandi mánuðum. Verksmiðjan í Straumsvík var rekin með nærri mrdISK 14 tapi í fyrra [2019]."
Þarna er frásögnin af yfirstandandi samningaviðræðum um raforkusamning á milli fyrirtækjanna í véfréttastíl, enda kunna menn að leggja mismunandi mat á stöðu og horfur í flókinni stöðu. Hitt dylst engum, að það mun ráða örlögum ISAL, hvort samningar nást eða ekki. Rio Tinto hefur lýst yfir, að lengra verði ekki haldið á sömu tapsbraut og einnig, að náist viðunandi samningar, sé samstæðan tilbúin að nýta framleiðslugetu ISAL til fullnustu, sem er um 240 kt/ár af söluhæfu áli út úr steypuskála (m.v. aðkeypt ál um 25 kt/ár). Þetta er að sjálfsögðu miðað við, að framlegð fyrirtækisins sé yfir 0. Eftir verðlækkun helztu aðfanga gerist það sennilega við um 1700 USD/t, og þar sem viðbótar verð (premía) fyrir sérvöru hefur verið í lágmarki á þessu ári, er óvíst, að sú sér raunin enn, þótt álverð fikri sig nú í rétta átt.
Það er ótrúlegt til þess að hugsa, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun virðist ekki tvínóna við það að standa yfir höfuðsvörðum þessarar áhættulausu gjaldeyriskýr á tímum, þegar þjóðfélagið hefur orðið fyrir mesta gjaldeyristapi sögunnar, einnig hlutfallslega. Þetta ríkisfyrirtæki er utan gátta með núverandi forstjóra þar við völd, og þar verður að breyta þegar í stað um stefnu. Fyrirtækið á ekki að vera hágróða fyrirtæki, heldur lággróða fyrirtæki, eins og F.D. Roosevelt mótaði sína "New Deal" stefnu um á 4. áratugi 20. aldarinnar í BNA. Aðspurður um þetta, sagði hann: við tökum gróðann út á hinum endanum.
Síðar í Baksviðsfréttinni skrifaði Stefán:
"Talsverð harka virðist hafa hlaupið í viðræðurnar, og heimildarmenn Morgunblaðsins herma, að stjórnendur Rio Tinto hafi kvartað undan meintri óbilgirni forstjóra Landsvirkjunar í viðræðunum. Svo rammt hefur kveðið að þessari óánægju, að stjórnendur Rio Tinto hafa beint erindum sínum til stjórnar Landsvirkjunar í stað forstjóra, eins og hefð er fyrir í samskiptum milli fyrirtækjanna."
Hér er einstæður texti í sögunni. Aldrei áður hefur frétzt af svo yfirþyrmandi samskiptavandræðum á milli stórs íslenzks ríkisfyrirtækis og eins af stærstu viðskiptavinunum, hvað þá, þegar í hlut á öflugur erlendur fjárfestir, sem ekki vílaði fyrir sér að hlaupa undir bagga með Íslendingum, þegar mest reið á í kjölfar bankahrunsins 2008, með mrdISK 70 fjárfestingu (MUSD 500) í Straumsvík. Rio Tinto hefur lýst yfir vantrausti á Herði Arnarsyni, og hann hefur brugðizt við með þvergirðingshætti og langlokuskrifum til æðstu manna áldeildar Rio Tinto. Þetta er náttúrulega ekki hægt að líða. Maðurinn er skaðvaldur fyrir erlendar framtíðarfjárfestingar í landinu og helzti Þrándur í Götu nýrra raforkusamninga við RT/ISAL. Skyldi hann ekki þurfa hvíld frá miklum önnum ?
Niðurlag Baksviðsfréttarinnar var þannig:
"Endurskoðun rekstrarforsenda álversins töfðust vegna kórónuveirunnar, og Rio Tinto gat ekki staðið við fyrirheit um, að vinnu við hana myndi ljúka á fyrri hluta ársins. Vinnan er þó komin í gang að nýju, og vænta má niðurstöðu samkvæmt heimildum Morgunblaðsins síðar í sumar. Fyrirtækið mun hafa lýst sig reiðubúið til þess að auka framleiðsluna að nýju, náist samningar um nýtt raforkuverð. Að öðrum kosti komi enn til álita að loka verksmiðjunni, annaðhvort tímabundið, eins og eigendur PCC á Bakka hafa gert, eða til frambúðar."
Rio Tinto vill helzt selja ISAL, en hefur ekki enn tekizt það. Aðalástæðan er talin vera raforkusamningurinn við Landsvirkjun, en hann er í raun ávísun á tap verksmiðjunnar m.v. fyrirsjáanlegan álmarkað. Þess vegna eru mestar líkur á lokun verksmiðjunnar, ef stjórnendur Landsvirkjunar þverskallast við að semja um samkeppnishæft raforkuverð. Það yrði feiknarlegur fingurbrjótur og mikill ábyrgðarhluti. Nauðsynlegt er, að forstjórinn og stjórn fyrirtækisins axli þá ábyrgð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.7.2020 | 13:44
Af áliðnaðinum
Framleiðsla undirstöðuefna fyrir iðnað heimsins hefur átt mjög á brattann að sækja á þessu ári, og um þverbak keyrði, þegar bráðsmitandi veirusjúkdómur í öndunarfærum manna barst um allan heim frá Kína, og sér enn ekki fyrir endann á ósköpunum. Nú hafa læknar á Langbarðalandi upplýst um þá niðurstöðu reynslu sinnar og rannsókna, að umrædd kórónaveira geti í raun lagzt á hvaða líffæri líkamans sem er. Það er nýtt af nálinni og bendir til, að eigi sé allt með felldu um tilurð þessarar veiru.
Þar sem sóttvarnaraðgerðir flestra yfirvalda koma í veg fyrir myndun hjarðónæmis, verður SARS-CoV-2 líklega ógnvaldur, þar til bóluefni hefur verið þróað, e.t.v. árið 2021. Veiran hefur leikið hagkerfi heimsins grátt, lamað atvinnulífið og spurn eftir undirstöðuefnum á borð við ál, járnblendi og kísil, hefur fallið. Nýlega komu fréttir af tímabundinni lokun kísilverksmiðju PCC á Bakka, vitað er um viðsjárverða framtíð álvers ISAL í Straumsvík, og samningaviðræður Norðuráls og Verkalýðsfélags Akraness voru mjög þungar, þegar síðast fréttist.
Eftir þóf og þjark hófust alvöru samningaviðræður um raforkusamninginn á milli ISAL/Rio Tinto og Landsvirkjunar seint í maí 2020. Ef slitnar upp úr þeim samningaviðræðum, mun ISAL að líkindum stöðva starfsemi sína og kaup á öllum aðföngum, þ.m.t. rafmagni, síðsumars. Ætlunin er að leiða í ljós nú í júlí 2020, hvort samningar um endurskoðun raforkuverðs Landsvirkjunar til ISAL geti náðst.
Ekki þarf að orðlengja, að það yrði enn eitt áfallið fyrir efnahag landsins, og tap gjaldeyristekna, sem raska mun viðskiptajöfnuðinum til hins verra með mögulega slæmum afleiðingum fyrir gengi ISK og verðlagið á Íslandi, ef af stöðvun þessarar starfsemi verður. Þótt fjárhagstap eigandans af þessari starfsemi hafi síðast liðin 2 ár numið tæplega mrdISK 20, þá hefur íslenzka þjóðarbúið verið með allt sitt á hreinu og notið tugmilljarða gjaldeyristekna á hverju ári vegna greiðslna fyrirtækisins fyrir raforku, vinnu starfsmanna þess og verktaka og fyrir ýmsa aðra þjónustu.
Lítið spyrst út um gang viðræðnanna, en ýmislegt annað gerist, sem er ekki til þess fallið að bæta andann manna á milli í þessum viðræðum. Í miðju Kófinu tilkynnti Landsvirkjun um tímabundna lækkun raforkuverðs til viðskiptavina sinna með langtímasamninga til að létta undir með þeim. Fyrirtækið tilkynnti ISAL um 10 % tímabundna lækkun, sem er aðeins 40 % af hámarkslækkuninni, sem tilkynnt var. Síðan hvarf fyrirtækið frá þessari lækkun án þess að tilkynna um þá stefnubreytingu opinberlega. Hvers konar stjórnarhættir eru þetta eiginlega ? Ekki er síður furðulegt að innheimta fyrir maí 2020 fyrir meiri raforku en þá var notuð. Það hefur verið sameiginlegur skilningur beggja fyrirtækjanna á orkusamninginum hingað til, að ákvæðinu um 86 % kaupskyldu af forgangsorku eigi aðeins að beita við ársuppgjör viðskiptanna. Nú gæti myndazt inneign ISAL hjá Landsvirkjun, því að það er ætlun fyrirtækisins að auka aftur framleiðsluna kröftuglega, ef samningar takast. Með framferði Landsvirkjunar, t.d. skammarbréfum til Rio Tinto, syrtir stögut í álinn.
Innan Landsvirkjunar er orðrómur uppi um, að forstjórinn óttist viðbrögð skuldabréfaeigenda, ef kaupskyldan er ekki innheimt jafnóðum. Hann virðist þannig hafa lofað upp í ermina á sér í blóra við orkusamningana. Ef slitnar upp úr samningaviðræðum á milli ISAL/RT og LV og ISAL verður lokað, þá mun Rio Tinto vafalítið láta reyna á það frammi fyrir dómurum að fá verulegan afslátt á kaupskyldunni m.a. vegna þess, að LV hafi ekki gengið til samninga í góðri trú. Forstjóra ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar virðist verða á hver fingurbrjóturinn öðrum verri. Hann starfar á ábyrgð stjórnar fyrirtækisins. Hversu lengi er hún reiðubúin að taka þátt í og ábyrgjast þessa gandreið forstjórans ?
Í Morgunblaðinu 24. júní 2020 birtist frétt Höskuldar Daða Magnússonar um "íslenzka uppgötvun" á sviði álframleiðslu. Nú veit höfundur þessa vefpistils ekki gjörla um smáatriði þessarar uppgötvunar. Þó kom það fram, að ál hefði verið framleitt við 500 A straum með þessari nýju tækni og að skautin séu úr keramik og málmum. Þetta rímar við frumbýlingstilraunir álfyrirtækja um aldamótin síðustu við að framleiða ál án kolefna. Hætt er við, að mikilvægi þessarar "uppgötvunar" sé mjög orðum aukið og í raun séu stór álfyrirtæki miklu lengra komin á þessu sviði en fyrirtækið Arctus Metals og Nýsköpunarmiðstöðin. Hvers vegna er látið eins og það sé í fyrsta sinni undir sólunni, að ál er framleitt kolefnisfrítt ?
Sannleikurinn er sá, að Alcan, sem Rio Tinto keypti fyrir allmörgum árum, og Alcoa hafa stundað rannsóknir í mörg ár með það stefnumið að gera álframleiðsluna kolefnisfría. Sá áfangi að gera þetta í litlu tilraunakeri við 500 A náðist fyrir fjöldamörgum árum. Með því er björninn ekki unninn. Tæknilegi vandinn er að gera þetta með hagkvæmum og öruggum hætti við fullan iðnaðarstraum. Þá er átt við 1000 sinnum hærri straum en frumkvöðlar á Íslandi voru að föndra við og básúnuðu síðan sem meiriháttar uppgötvun (technical breakthrough ?).
Fyrir nokkrum árum stofnuðu fyrirtækin Rio Tinto og Alcoa með sér þróunarfélagið Elysis og lögðu fyrirtækinu til mikið fé. Þetta þróunarfélag hefur náð svo miklum árangri, án þess að berja sér tiltakanlega á brjóst fyrir það, eins og Ketill, skrækur, gerði á sinni tíð, að nú er verið að framleiða kerbúnað fyrir tilraunaverksmiðju Rio Tinto í Voreppe í Frakklandi (þróunaraðstaða franska ríkisálfélagsins Pechiney, sem Alcan keypti á sinni tíð), sem á að verða tilbúin til rekstrar með fullum iðnaðarstraumi fyrir árslok 2021. Gangsetning þessarar tilraunaverksmiðju markar raunveruleg tímamót í álheiminum, en ef gjörningur Arctus Metals og Nýsköpunarstöðvarinnar mun hafa einhverja þýðingu, á eftir að útskýra í hverju sérstaðan felst m.v. rannsóknir t.d. rússneska álrisans Rusal.
Frétt Höskuldar bar hið vafasama heiti:
"Íslensk tækni í kapphlaupi við risa á álmarkaði".
Efasemdir hljóta að vakna, þegar þess er gætt, að fyrir 20 árum voru ýmsar rannsóknarstofnanir, t.d. í hinu rótgróna áltæknisamfélagi Tækniháskólans í Þrándheimi, NTNU, að feta sig áfram með kolefnisfría álframleiðslu með lágum straumi. Var þetta iðulega kynnt á námstefnum Tækniháskólans í Þrándheimi, sem haldnar voru annað hvert ár. Hérlendis virðist vera um að ræða gamalt vín á nýjum belgjum, og "íslenzka tæknin", sem áhöld geta verið um, hvort er íslenzk, vera a.m.k. tveimur áratugum á eftir tímanum. Ef um einhverja sérstöðu er að ræða, sem hafi marktæka kosti framyfir t.d. Elysis-tæknina, hefur algerlega mistekizt að koma henni á framfæri.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, kom í þessari frétt með fráleita speki. Hann gerði því skóna, að nýja tæknin myndi hafa minna umhverfislegt gildi, væri hún nýtt Kína, með öll sín kolakyntu orkuver, en á Íslandi. Lofthjúpur jarðar gerir auðvitað engan greinarmun á því, hvort t.d. 1 Mt/ár eru framleidd með þessari nýju tækni í Kína eða á Íslandi. Svona málflutningur frá félagi álframleiðenda á Íslandi gerir ekkert gagn.
Þá var í lok fréttarinnar viðtal við Guðbjörgu Óskarsdóttur, forstöðumann hjá Nýsköpunarmiðsöð Íslands og framkvæmdastjóra Álklasans:
""Við viljum sjá svona lausnir koma sem fyrst hingað til lands, svo [að] það er ánægjulegt, að íslenzkt fyrirtæki sé að vinna að þessari byltingu. Öll stærstu álfyrirtækin í heiminum eru að horfa til þessarar tækni í framtíðinni", segir Guðbjörg Óskarsdóttir, forstöðumaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og framkvæmdastjóri álklasans.
Guðbjörg segir, að líklega verði þess ekki langt að bíða, að umrædd tækni verði tekin í gagnið. Á stórum álmarkaði sé pláss fyrir fleiri en eina lausn.
"Jón Hjaltalín hefur sagt sjálfur, að álver, sem ekki eru tengd þessum stóru, sýni tækni hans áhuga, enda vilja allir vera með svona lausn, þegar hún kemur og er tilbúin. Það, að íslenzkur frumkvöðull sé kominn þetta langt núna, styrkir samkeppnisforskot hans.""
Um þetta er vægast að hafa þá umsögn, að orð Guðbjargar lýsi meðvirkni. Það er fráleitt að tala um nýja tækni, þegar í hlut á tilraunastarfsemi í mælikvarðanum 1:1000, því að megnið af þróunarvinnunni er eftir, og hún er að baki í þróunarverkefninu Elysis. Ef um nýja aðferð er að ræða, í hverju lýsir hún sér, og hverjir eru kostir hennar m.v. við löngu þekktar aðferðir háskólasamfélaga og álrisa ?
Fyrir utan rafkerfið í álverksmiðju, þá er rafgreiningin hjartað í henni. Í hvoru tveggja liggja gríðarlegar fjárfestingar. Engum, sem snefil af þekkingu og reynslu hefur af starfsemi þessa geira, dettur í hug, að nokkurt álfyrirtæki kjósi fremur samstarf við smáfyrirtæki og nýgræðing á þessu sviði, sem virðist vera langt á eftir tímanum, en þróaða og reynda tækni, sem tækni Elysis verður eftir áratug.
Hugtakaruglingur tröllríður umfjöllun sumra fjölmiðla um álframleiðslu. Hann var áberandi í frétt Markaðar Fréttablaðsins 25. júní 2020 og kom fram í fyrirsögninni:
"Juku framleiðslu hreins áls eftir lokanir á meginlandinu".
Í þessu felst fullkomin mótsögn, því að hreinálsframleiðsla er sérgrein, sem ekki þrífst, ef markaðir "lokast". Hreinál er yfir 99,9 % ál, sem yfirleitt næst aðeins með flóknu hreinsiferli í steypuskála, en það sem í fyrirsögninni er átt við, er hráál, ómeðhöndlað ál, beint upp úr venjulegum rafgreiningarkerum, sem ekki er notað beint í neina framleiðslu, heldur fer allt í endurbræðslu. Hráál keranna inniheldur vanalega minna en 97,5 % ál. Þetta hlutfall mun hækka með innleiðingu kolefnisfrírrar framleiðslutækni. Á hrááli og hreináli er grundvallarmunur, og ruglingurinn kann að stafa af ónákvæmri orðanotkun talsmanna sumra álveranna, þó ekki ISAL, því að blaðafulltrúi fyrirtækisins notaði orðið "hráálskubbar", sem getur verið rétt, en einnig eru sums staðar við lýði hleifasteypuvélar, og þar eru steyptir hráálshleifar við þessar og aðrar aðstæður, þar sem ríður á að halda uppi eða auka til muna afkastagetu steypuskálanna án þess að steypa samkvæmt pöntunum.
Upphaf þessarar fréttar Markaðarins var þannig:
"Þegar kórónuveirufaraldurinn hafði skollið á Evrópu af fullum krafti, brugðust íslenzku álverin við með því að framleiða hreinál í stað sérhæfðara málmblendis að sögn talsmanna álveranna. Minni orkukaup og afslættir á raforkuverði til stórnotenda munu draga úr tekjum Landsvirkjunar á árinu [2020]."
Þessi frásögn bendir til, að vitleysan eigi rætur að rekja til talsmanna Norðuráls og Fjarðaáls, en þeir mega ekki mæta svona illa lesnir til leiks.
Svo undarlega sem það hljómar, þá hefur stóriðjufyrirtækið, sem hæst verð greiðir fyrir raforku Landsvirkjunar, enn engan Kófsafslátt fengið, þótt fyrirtækið hafi í apríl 2020 tilkynnt ISAL um 10 % lækkun. Ekki nóg með það, heldur rukkaði fyrirtækið fyrir meiri orku en notuð var í maí. Þetta heitir ruddaframkoma, þegar ekki er skafið utan af óþverranum.
Landsvirkjun reyndi í Kófinu að koma sér í mjúkinn hjá eigendum sínum (hún gefur skít í viðskiptavinina), og til marks um slepjuháttinn er eftirfarandi úr sömu frétt:
"Afslættir til stórnotenda einir og sér námu allt að 25 % og munu kosta fyrirtækið a.m.k. mrdISK 1,5 á þessu ári. Orkukaup álveranna hafa að sama skapi verið minni á þessu ári en hinu síðasta, en ekki liggur fyrir, hversu mikið þessi minni eftirspurn raforku mun kosta Landsvirkjun að sögn talsmanns Landsvirkjunar."
Upphæðin mrdISK 1,5, sem talsmaður Landsvirkjunar segir hana fórna með sjálfskipaðri verðlækkun, er dropi í hafið og t.d. aðeins um 11 % af tapi ISAL 2019. Það er víða pottur brotinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.7.2020 | 20:33
Landsreglari tjáir sig
Eins og kunnugt er, gegnir Orkumálastjóri líka hlutverki Landsreglara (National Energy Regulator), sem er æðsti fulltrúi Evrópusambandsins (ESB) hér á landi á sviði orkumála eftir innleiðingu Orkupakka 3 (OP#3). Hlutverk hans er í stuttu máli að hafa eftirlit með því, að stefnu ESB sé framfylgt hérlendis, eins og hún birtist í orkulöggjöf ESB, innleiddum orkupökkum, og að íslenzkri löggjöf á þessu sviði sé fylgt. Þar sem ósamræmi er á milli þessa tvenns, skal löggjöf ESB vera rétthærri við túlkun. Þetta er skýrt tekið fram í EES-samninginum.
Nú virðist vera kominn upp ágreiningur á milli Landsreglara og ráðherra umhverfis- og auðlindamála og reyndar einnig Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, því að Ari Trausti Guðmundsson, Alþingismaður VG, hefur andmælt sjónarmiðum Landsreglara um regluverk vindmylla frá A-Ö. Báðir hafa skrifað í Fréttablaðið um ágreininginn, og Landsreglarinn borið andmælin til baka á sama vettvangi.
Sá, sem skrifar fyrir hönd Landsreglara, er starfsmaður hans, Skúli Thoroddsen, lögmaður. Grein hans í Fréttablaðinu þann 17. júní 2020 bar yfirskriftina:
"Vindorka fellur ekki að rammaáætlun".
Hún hófst þannig:
"Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG, segir hér í blaðinu, 12. júní sl., að "vindorka sé hluti af heildarskipulagi orkuvinnslu og falli að rammaáætlun". Á vegum Landsvirkjunar séu "vindorkuver í orkunýtingarflokki og biðflokki "svokallaðrar rammaáætlunar" og margir myllulundir í skoðun. Þetta er rangt. 3ja rammaáætlun hefur ekki verið samþykkt, og engir vindlundir eru í núgildandi áætlun. Það er Orkustofnun [les Landsreglari], sem ákveður, hvaða virkjunarkostir eru nægilega skilgreindir, til þess að verkefnisstjórn um rammaáætlun og faghópar, á hennar vegum, geti yfirhöfuð fjallað um þá. Orkustofnun hefur ekki skilgreint neina vindorkukosti og því engir myllulundir í skoðun á þeim bæ.
Umhverfisráðherra sagði, aðspurður um vindorku, það vera "mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, að málefni vindorku heyri undir rammaáætlun". Atvinnuvegaráðuneytið kveðst aðspurt aldrei hafa haldið þessu fram. Afstaða þess sé óbreytt, en "þessi mál" séu til umfjöllunar í starfshópi þriggja ráðuneyta og "niðurstöðu verði að vænta innan skamms".
Þetta er ekki í fyrsta skiptið, sem umhverfis- og auðlindaráðherra skriplar á skötunni, þegar kemur að því lagaumhverfi, sem hann á að starfa eftir. Hann virðist fljótfærari en góðu hófi gegnir fyrir mann í hans stöðu. Með Orkupakka #3 fékk Orkustofnun sjálfstæða stöðu innan stjórnkerfisins, og Orkumálastjóri (Landsreglari) er óháður ráðuneytunum, nema um fjárveitingar; staðan hefur ígildi orkuráðherra. Túlkun Skúla Thoroddsen er vafalítið rétt. Orkustofnun (Landsreglari) skammtar Verkefnahópi Rammaáætlunar verkefni, og hann getur hvorki hafið sjálfstæða rannsókn á einu né neinu. Úr því að Orkustofnun ekki hefur enn skilgreint neinn vindorkukost, er allur undirbúningur vindorkuverkefna unninn fyrir gýg. Það er t.d. algerlega ótímabært fyrir sveitarfélög að breyta aðalskipulagi sínu til að geta hýst vindorkuver innan sinna vébanda. Það er Landsreglarinn, sem gefur tóninn, á meðan OP#3, eða seinni orkupakkar, hefur hér lagagildi.
"Tillaga umhverfisráðherra um vindorkukosti í 3ju rammaáætlun, Blöndulund í nýtingarflokk og Búrfellslund í biðflokk, er byggð á hugmynd verkefnastjórnar um "vindorkuver Landsvirkjunar", án afstöðu Orkustofnunar og þannig reist á röngum grunni. Ráðherra er vissulega frjálst að leggja hana fram sem sína tillögu í þágu Landsvirkjunar þrátt fyrir ágallana og mismuna þar með vindorkufyrirtækjum. Þar á Alþingi síðasta orðið eða eftir atvikum dómstólar."
"Fyrir liggur, að um orkurannsóknir slíkra kosta [vinds] fer eftir lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, auðlindalögum, sem lög um rammaáætlun vísa til í því sambandi. Auðlindalögin gilda ekki, hvorki um vind né vindorkurannsóknir. Sú stefnumörkun, sem felst í rammaáætlun, takmarkar stjórnarbundnar heimildir sveitarfélaga í skipulagsmálum. Slíkar skerðingar í þágu almannahagsmuna til verndar eða nýtingar á náttúruauðlindum, þurfa ótvíræða, skýra lagastoð, eins og rammaáætlun er varðandi vatnsföll og háhitasvæði. Hvort rammaáætlun taki til vindorku, ríkir í bezta falli óvissa um. Sé það svo, kæmi það í hlut Orkustofnunar að skilgreina vindorkulandsvæðin. Hin "takmörkuðu gæði", sem þannig verða til í eignarlandi sumra - en ekki allra - eða í þjóðlendum, yrði ríkið að bjóða út. Slíkt útboð tæki til skipulagssvæðis með gildu virkjunarleyfi fyrir vindlund til handa orkufyrirtæki á grundvelli jafnræðis innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ekkert regluverk lýsir slíkum útboðsferli hér á landi, frá afmörkun vindlunda til virkjunarútboðs. Svo virðist sem umhverfisráðherra vaði reyk um rammaáætlun, villtur vega. En þessi mál eru annars til umfjöllunar í starfshópi þriggja ráðuneyta, og þaðan er niðurstöðu að vænta "innan Skamms".
Undirstrikunin er pistilhöfundar til að leggja áherzlu á, að þar heldur Landsreglari Evrópusambandsins um fjaðurstaf. Umhverfis- og auðlindaráðherra er úti á þekju í þessu máli, og það virðast sumir þingmenn vera líka, t.d. Ari Trausti Guðmundsson, sem stakk niður penna og andmælti Skúla Thoroddsen á sama vettvangi. Í raun og veru er texti Skúla algerlega samhljóma úrskurði ESA árið 2016, sem Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi utanríkisráðherra, féllst á af fullkomnu dómgreindarleysi. Það verður sem sagt að bjóða nýtingarrétt orkulinda í eigu ríkisins út á Evrópska efnahagssvæðinu. Það felur í sér stórkostlegt fullveldisafsal yfir auðlindum Íslands, sem hafa mun mjög neikvæð áhrif á lífskjör í landinu. Héldu menn, að OP#3 mundi bara engin áhrif hafa á Íslandi, ef bara væri móazt við að taka við aflsæstreng frá Innri orkumarkaði ESB ? Orkulindirnar eru í uppnámi, þótt upphaflegi EES-samningurinn spanni þær ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
8.7.2020 | 11:11
Hentar Orkupakki #4 okkar umhverfi ?
Evrópusambandið (ESB) heldur áfram vegferð sinni um samræmingu og yfirtöku stjórnunar orkumála aðildarlanda sinna samkvæmt Lissabonssáttmálanum (stjórnarskrárígildinu), og stórt skref í þessa átt var samþykkt orkulöggjafar undir heitinu Orkupakki #4.
Þetta er orkulöggjöf, sem er samtvinnuð loftslagsstefnu ESB og hönnuð til að auðvelda Sambandinu að ná markmiðum sínum á því sviði. Ísland glímir ekki við neitt svipuð viðfangsefni í þessum efnum, þar sem næstum 100 % raforkunnar kemur úr endurnýjanlegum orkulindum samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum. Þegar af þeirri ástæðu á OP#4 ekkert erindi til Íslands, enda höfðu íslenzk stjórnvöld augljóslega engin áhrif á mótun þessarar löggjafar.
Til að stikla á mjög stóru má nefna eftirfarandi 12 atriði úr OP#4:
- Innlend löggjöf má ekki hindra framgang stefnu ESB
- Landsreglarinn mun fara með æðsta vald raforkumála í landinu
- Landsreglarinn mun handstýra Landsneti
- Landsreglarinn mun stjórna raforkumarkaðinum
- Völd innlendra stjórnvalda til afskipta af gjaldskrám verða mjög skert
- Embætti samræmingarstjóra undir Landsreglara mun tryggja, að Landnet fylgi áætlunum, sem ESB hefur samið og/eða samþykkt.
- Erfitt verður að koma í veg fyrir sæstrengi til útlanda
- Fjárfestingaráætlun Landsnets, sem ESB hefur samþykkt, er skuldbindandi fyrir Landsnet gagnvart ESB. Þetta jafngildir valdayfirtöku á Landsneti.
- Svæðisbundnar samræmingarmiðstöðvar verða nýtt yfirþjóðlegt verkfæri ESB
- Það verður framkvæmdastjórn ESB, sem ákveður, hvernig rafmagnsflutningum um sæstrengi verður háttað, en ekki íslenzk yfirvöld, stofnanir eða Landsnet.
- ESB mun móta forsendur leyfisveitinga fyrir ný vind- og vatnsorkuver
- Öllum raforkunotendum á að standa til boða kvikur verðsamningur, þar sem verð hverrar klukkustundar ræðst af framboði og eftirspurn. Þeir, sem velja þetta samningsform, fá upp settan hjá sér snjallorkumæli, sem sýnir einingarverð hverrar klukkustundar, mælir raforkunotkunina og reiknar út raforkukostnaðinn.
Eins og sést á þessari upptalningu, verður ekki um neitt smáræðis valdaafsal að ræða, ef stjórnvöld kokgleypa þetta á samráðsvettvangi EFTA og síðan í Sameiginlegu EES-nefndinni. Túlkun Stjórnarráðsins er sú, að það jafngildi riftun EES-samningsins, ef Alþingir síðan gerir slíkar samþykktir afturreka. Slík sjónarmið stangast á við skýran texta EES-samningsins sjálfs um heimild löggjafarvaldsins til að synja gjörðum Sameiginlegu EES-nefndarinnar staðfestingar, ef þingið telur stjórnlagaheimildir skorta til staðfestingar. Það er leikmanni í lögum ljóst, að samþykkt OP#4 án undanþága varðar broti á Stjórnarskrá Íslands.
Í kjallaragrein á síðu forystugreina Morgunblaðsins þann 16.06.2020 birtist áhugaverð hugleiðing og varnaðarorð Ólafs Ísleifssonar, Alþingismanns, undir fyrirsögninni:
"Fjórði orkupakkinn vofir yfir".
Kjallaragreinin hófst þannig:
"Iðnaðarráðherra hefur svarað fyrirspurn minni á Alþingi um mat á fjórða orkupakkanum. Þar er lýst hefðbundinni meðferð með skipan vinnuhóps og öðru í þeim dúr, en ekkert minnzt á, að í undirbúningi séu lögfræðilegar álitsgerðir, sem reyndust þýðingarmiklar í umræðum liðins árs um þriðja orkupakkann. Þær komu fyrst fram fáum vikum áður en málið var rætt á Alþingi vorið 2019. Þá voru tvö ár liðin frá því Ísland skuldbatt sig á vettvangi EES til að innleiða þriðja orkupakkann. Talið var af hálfu stjórnvalda, að þá skuldbindingu mætti ekki afturkalla þrátt fyrir ákvæði EES-samningsins í gagnstæða átt."
Þetta eru ill tíðindi af starfsháttum og "verkstjórn" iðnaðarráðherra við stórmál, en koma því miður ekki á óvart, því að hún sýndi Þriðja orkupakkanum hvorki skilning né áhuga. Sama kæruleysið kemur fram núna og boðar illt, eld og eimyrju. Um orkupakka 1-2 hélt hún því fram, að þeir hefðu með uppskiptingu raforkugeirans lækkað raforkukostnað neytenda vegna "samkeppninnar". Þetta var rækilega hrakið af hagfræðiprófessor í riti "Orkunnar okkar, ágúst 2019.
Það, sem Ólafur Ísleifsson nefnir hér að ofan, að vanti hjá ráðherra, hefur gríðarlega þýðingu. Ef ekki verður strax fengin bitastæð, fagleg lögfræðileg álitsgerð óvilhallra fræðimanna á borð við Stefán Má Stefánsson og Friðrik Árna Friðriksson Hirst um það, hvort innleiðing OP#4 í landslög á Íslandi standist Stjórnarskrá, þá verður að lýsa yfir vantrausti á iðnaðarráðherra og/eða utanríkisráðherra. Þau hafa þá brugðizt skyldum sínum sem ráðherrar gagnvart Stjórnarskrá.
Hin hlið orkupakkamálsins er efnahagsleg. Það er bráðnauðsynlegt að leggja þjóðhagslegt mat á afleiðingar innleiðingar OP#4 og reikna þá bæði með tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi Innri markaðar ESB og engri slíkri. Slík skýrsla yrði mikils virði, og leita þyrfti í smiðju höfunda ofannefndrar skýrslu "Orkunnar okkar", sem talizt geta verið sérfróðir um orkumál. Hér skal fullyrða, að líkan Evrópusambandsins fyrir orkumarkaðinn á illa við hér vegna þess, að orkukerfið á Íslandi er í eðli sínu gjörólíkt hinu miðevrópska, og þess vegna mun innleiðingin virka á Íslandi eins og há skattlagning á fólk og fyrirtæki, sem veikir samkeppnisstöðuna gagnvart útlöndum.
Í lok kjallaragreinarinnar skrifaði Ólafur Ísleifsson:
"Svar ráðherra ber með sér, að engir lærdómar hafi verið dregnir af þriðja orkupakkanum. Hinn stjórnskipulega þátt og aðrar lögfræðilegar spurningar þarf að kanna mun fyrr í ferlinu en gert var. Nú er rétti tíminn til að leita álits sérfræðinga á fjórða orkupakkanum áður en það er orðið of seint."
Íslenzk stjórnvöld verða að reka af sér slyðruorðið í EES-samstarfinu. Það er lítilmótlegt hlutskipti að reiða sig á leiðsögn Norðmanna, enda er Stjórnarskrá þeirra öðruvísi en okkar. Hagsmunamat norska stjórnarráðsins er bæði á öndverðum meiði við hagsmunamat norskrar alþýðu og íslenzkrar. Íslenzka Stjórnarráðið verður að fara að sýna festu og dug, frumkvæði vit og áhuga, þegar kemur að málefnum íslenzkra orkuauðlinda og ráðstöfun þeirra.
Þann 19. júní 2020 birtist í Morgunblaðinu grein eftir Elías Elíasson, verkfræðing og sérfræðing í orkumálum, þar sem bent er á mikilvægi öruggrar og ódýrrar raforku fyrir vöxt og viðgang byggðarlaga og hagvöxtinn í landinu. Orkupakkarnir stefna í þveröfuga átt, enda hefur ESB ekki lágt raforkuverð á sinni stefnuskrá, heldur nægilega hátt til að hvetja til fjárfestinga í endurnýjanlegum orkugjöfum, sem þar á bæ geta þó aðeins framleitt slitrótt eftir duttlungum náttúrunnar. Þeir henta markaðinum mjög illa. Grein Elíasar hét:
"Öngstræti orkupakkanna".
Þar gat m.a. að líta:
"Afleiðing hás orkuverðs og ótryggs framboðs raforku lýsir sér þannig, að í viðkomandi byggðarlögum fækkar tækifærum fólks til virðisaukandi starfsemi, fjárfestar koma ekki með fé og verðmætasti mannauður byggðanna, frumkvöðlarnir, leita annað. Þeim byggðum hrakar, og laun hækka minna."
Áhrif hás orkuverðs, eins og verða mun í fákeppnisumhverfi með markaðsráðandi stöðu eins fyrirtækis, sem reynir að hámarka arð sinn, eru hin sömu og áhrif ótryggrar raforku, sem þekkt eru á Íslandi. Það verður þess vegna að berjast gegn innleiðingu fyrirkomulags, sem er aðeins örverpi í íslenzku umhverfi, þar sem kostir frjálsrar samkeppni geta ekki notið sín á raforkumarkaði.
Úrelt raforkuflutnings- og dreifikerfi landsins er landinu að nokkru leyti dulin efnahagsbyrði. Aðbúnaður Vestfirðinga að þessu leyti er til skammar, en þar á sér nú stað mikil iðnvæðing (sjókvíaeldi og fiskvinnsla), sem krefst stöðugleika á öllum sviðum. Vestfirðingar geta orðið sjálfum sér nógir með rafmagn, og vegna óstöðugleika Vesturlínu, sem ekki verður jarðsett, munu rafmagnsmál Vestfirðinga standa þeim fyrir þrifum, þar til þeir verða sjálfum sér nógir um rafmagn. Stuðningur iðnaðarráðherra við Vestfirðinga í orkumálum virðist enginn hafa verið, þótt straumleysistími Vestfirðinga sé sá langhæsti á landinu. Mun slíkt áhugaleysi ráðherra ekki koma henni í koll, þegar/ef hún leitar eftir endurkjöri í kjördæminu ?
Fjárfestingar í flutnings- og dreifikerfum eru svo arðsamar, að þær standa vel undir lántökukostnaði. Þar sem þörfin er brýnust á ekki að hika við slíkt nú á tímum lágra vaxta. Ráðherra hefur þó beitt sér fyrir verulegri flýtingu á jarðstrengjavæðingu dreifikerfisins, og á því verki að ljúka árið 2025 samkvæmt áætlun stjórnvalda. Þar með kemst líka á þrífösun sveitanna, sem er forsenda blómlegra byggða og orkuskipta.
Nokkru síðar í greininni fjallaði Elías um orkulagasetningu ESB í samanburði við stefnu Roosevelts, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í "New Deal" um lágt raforkuverð:
"Orkupakkalög ESB, sem hér hafa verið innleidd, gera okkur erfitt fyrir að gera hliðstæðar ráðstafanir [ríkið taki ekki hagnað af raforkusölu, heldur á formi beinna og óbeinna skatta af virðisaukandi starfsemi í krafti ódýrs rafmagns-innsk. BJo]. Þau lög hindra, að þjóðin, eigandi auðlindafyrirtækjanna og flestra raforkufyrirtækjanna, geti ákveðið, að arðurinn af orkusölunni skuli koma fram á síðari stigum virðisaukakeðjunnar og skuli skattlagður þar. Að minnsta kosti virðast raforkufyrirtækin túlka lögin með þeim hætti, að einhver skilgreind jafnréttissjónarmið, sem þó skapa ójöfnuð, skuli ráða verðlagningu raforku, en eðlileg viðskiptasjónarmið verði að víkja.
Garðyrkjubændur hafa fengið að finna fyrir þessu og fá nú niðurgreiðslur á rafmagni eftir hinni margfalt dýrari leið gegnum ríkissjóð. Engum má heldur vegna fjórfrelsisákvæða EES-samningsins veita tækifæri, sem ekki standa til boða öllum þegnum Evrópska efnahagssvæðisins."
Þetta öfugsnúna fyrirkomulag, sem þarna er lýst, framkallast, þegar erlend löggjöf, sem tekur mið af gjörólíkum aðstæðum, er innleidd á Íslandi. Þeir, sem halda, að slík afglöp veiki ekki efnahaginn, vaða í villu og svíma. Evrópulöggjöf á sviði orkumála verður óhjákvæmilega þjóðhagslega óhagkvæm á Íslandi og leiðir þar af leiðandi til minni hagvaxtar en ella. Það er ástæðulaust að taka þessu sem hverju öðru hundsbiti, heldur þarf þegar í stað að vinna að því að fá undanþágur fyrir Ísland frá þessari orkulöggjöf að einhverju eða öllu leyti, og ætti að taka stefnuna á undanþágu frá öllum tilskipunum og gerðum Orkupakka #4.
Í lokin reit Elías:
"Hætt er við, að með tíð og tíma muni orkupakkarnir og önnur ákvæði EES-samningsins setja Ísland í þá sömu aðstöðu gagnvart hinum stóru iðnaðarsvæðum ESB eins og mörg afskekkt sjávarpláss eru nú í gagnvart stóru útgerðarstöðunum hér á landi. Stjórnvöld verða að horfa á þessa hættu og vinna landið út úr orkupökkunum, þannig að þjóðin hafi fullt sjálfræði yfir orkuauðlindum sínum og ráðstöfun þeirrar raforku, sem frá þeim fæst."
Það blasir við til hvers refirnir eru skornir hjá ESB. Í anda Lissabon-sáttmálans er ætlunin að sölsa undir ESB stjórnun orkumála aðildarlandanna og að tryggja framleiðslukjörnum Evrópu næga raforku á hverjum tíma. Jaðarsvæði Evrópu eiga að sjá kjarnanum fyrir orkunni, sem hann vantar, og borga á hærra verð fyrir orku úr endurnýjanlegum og kolefnisfríum lindum til að örva fjárfestingar í slíkum virkjunum. Forsendan fyrir því, að ná megi þessu stefnumiði fram, eru öflugar millilandatengingar og öflugt flutningsnet innan hvers lands. Að kokgleypa þessa stefnu setur Ísland á bekk hjálendu ESB, því að áhrif Íslendinga á stefnumótun ESB eru sama og engin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.7.2020 | 10:00
Aðlögun ferðaþjónustu að nýjum aðstæðum
Ýmsir spámenn hafa tjáð sig um framtíð ferðaþjónustu í heiminum. Áhrif COVID-19 hafa varpað ljósi á fallvaltleika þessarar atvinnugreinar. Hið sama gerðist í Eyjafjallagosinu 2010, en það reyndist í kjölfarið hin vænsta auglýsing fyrir Ísland. Hver veit, nema ferðamenn muni í kjölfar COVID-19 leita meira á fáfarnari slóðir ? Það gæti orðið ferðaþjónustunni í dreifðum byggðum Íslands til framdráttar.
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, ritar áhugaverðar greinar í Morgunblaðið um umhverfismál, þjóðmál og heimsmál. Þann 11. maí 2020 birtist þar eftir hann grein með fyrirsögninni:
"Maðurinn þarf að laga sig að náttúrunni sem við erum hluti af".
Þar stóð m.a.:
"Eins og horfir, má telja útilokað, að ferðalög hefjist í einhverjum mæli til og frá landinu fyrr en í fyrsta lagi næsta vetur, og móttaka stórra farþegaskipa frá útlöndum hlýtur að bíða um sinn."
Mánuði seinna benti fátt til, að þessir spádómar muni rætast. Þann 15. júní 2020 var krafan um sóttkví fyrir fólk frá öðru Schengen-landi gerð valkvæð á móti skimun fyrir SARS-CoV-2 veirunni, og f.o.m. 1. júlí 2020 á hið sama að gilda um farþega frá ýmsum öðrum löndum, sem ESB af sinni vizku dæmir sem tiltölulega hrein af þessari kórónuveiru. Leitt er til þess að vita, að ESB skuli ekki meta sýnatöku á landamærum Íslands og skimun að verðleikum. Það er meira hald í þessari skimun en einhvers konar huglægri síun embættismanna í Brüssel á grundvelli smittalna frá löndum vítt og breitt um heiminn. Sýnir þetta í hnotskurn tréhestaeðli fjarlægrar stjórnunar á málefnum Íslands.
Ferðamenn eru farnir að tínast til landsins, e.t.v. að jafnaði 2000-3000 á sólarhring, og ekkert snöggt hopp upp á við er í vændum í vetur, þótt ekki sé það útilokað. Móttaka "stórra farþegaskipa frá útlöndum" bíður ekki um sinn, heldur hefur verið tilkynnt um þau eitt af öðru í sumar. Að sjálfsögðu verður fjöldinn mun minni en síðast liðin ár, þegar þau hafa verið yfir 100 talsins. Mikill fjöldi er ekki keppikefli, heldur hámörkun tekna af hverjum ferðalangi.
Þá minntist Hjörleifur á skýrsluna "Endimörk vaxtarins" eða "Limits to Growth", 1972. Hjörleifur telur, að greining höfunda skýrslunnar hafi í meginatriðum reynzt rétt. Sú einkunn kann að orka tvímælis, t.d. varðandi nytjaefni í jörðu, sem höfundarnir töldu, að ganga mundu til þurrðar innan fárra ára, en enginn skortur er á enn þá.
Í inngangi skýrslunnar segir samkvæmt Hjörleifi:
"Niðurstöður skýrslunnar sýna, að mannkynið fær ekki ætlað sér þá dul að margfaldast með sívaxandi hraða og láta efnislegar framfarir sitja í fyrirrúmi án þess að rata í ógöngur á þeirri vegferð; að við eigum um það að velja að leita nýrra markmiða og ráða þannig sjálf örlögum okkar eða kalla yfir okkur afleiðingar hins taumlausa vaxtar, sem við fáum þá óumflýjanlega að kenna enn harðar á."
Það, sem mest hefur munað um í þessu tilliti síðan 1990 er stórsókn fjölmennra ríkja Asíu til bættra lífskjara, og munar þar mest um Kínverja og Indverja. Kínverjar eru gríðarlega þurftarfrekir á hráefni jarðar og matvæli, og hefur þetta valdið mikilli mengun lofts, láðs og lagar í Kína og aukið styrk koltvíildis í andrúmslofti mikið, en mestu losarar heims á CO2. Hafa Kínverjar varizt gagnrýni með því að halda því fram, að þeir séu að vinna upp áratuga forskot Vesturlanda í góðum lífskjörum.
Kínverjar eru ekki einsdæmi um þetta val á milli bættra lífskjara og þess að hlífa jörðunni við miklu vistfræðilegu álagi og mengun. Það virðist t.d. verða mjög á brattann að sækja fyrir flestar þjóðir heims að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsáttmálanum frá 2015. Með fjárfestingum í orkuskiptum eygja Íslendingar raunhæfa möguleika á að standa við markmið sín fyrir 2030, sem þeir hafa samið um á vettvangi EES.
Hjörleifur hélt áfram að rifja upp sögu alþjóðlegrar viðleitni til að snúa mannkyninu af þeirri óheillabraut, sem lýst var í "Endimörkum vaxtarins":
"Vegna áframhaldandi vaxandi umhverfisvanda settu Sameinuðu þjóðirnar á fót árið 1983 sérstaka nefnd, "World Commission on environment", undir formennsku Gro-Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs. Skilaði nefndin af sér 1987 með skýrslunni "Sameiginleg framtíð okkar" ( Our common Future, Oxford 1987), oftast kennd við hugtakið sjálfbæra þróun. Skilgreining þess hugtaks var: "Mannleg starfsemi, sem fullnægir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum framtíðarkynslóða til að fullnægja sínum þörfum.""
Þessi skilgreining á nauðsynlegum skilyrðum fyrir athafnir manna til að tryggja viðunandi lífsgæði í nútíð og framtíð á þessari jörð hefur staðizt tímans tönn. Ef við lítum á höfuðatvinnuvegi Íslendinga í þessu ljósi sést, að fiskveiðistjórnunarkerfið tryggir sjálfbæra nýtingu sjávarauðlindarinnar, iðnaðurinn nýtir orku, sem fengin er með sjálfbærri nýtingu innlendra orkulinda, en hann nýtir að vísu einnig vörur unnar úr jarðefnaeldsneyti, sem ekki er hægt að flokka sem sjálfbæra starfsemi, en allt stefnir það til bóta. Bæði á iðnaðurinn þess kost að kolefnisjafna starfsemi sína með því að fjárfesta í landgræðslu og/eða skógrækt, hann getur hugsanlega bundið gróðurhúsalofttegundir, t.d. í "steindum" neðanjarðar, og síðast, en ekki sízt, getur hann þróað nýjar framleiðsluaðferðir án losunar koltvíildis. Á vegum Alcoa og Rio Tinto hefur um nokkurra ára skeið verið starfrækt þróunarverkefnið Elysis, sem miðar að því að leysa núverandi forskaut og bakskaut rafgreiningarkeranna af hólmi með kolefnislausum efnablöndum. Nú er góð framvinda í þessu verkefni, og er stefnt að því, að fyrir árslok 2021 verði hafin framleiðsla á áli með fullum iðnaðarstraumstyrk í slíkum kolefnisfríum kerum í tilraunaverksmiðju Rio Tinto í Voreppe í Frakklandi. Gastegundin, sem myndast, er súrefni, O2.
Um íslenzkan landbúnað verður ekki annað sagt en hann sé nú rekinn með umhverfislega sjálfbærum hætti, þótt e.t.v. kunni notkun tilbúins áburðar að orka tvímælis. Þá kann beitarþoli sumra hrjóstugra svæða að vera ofgert, og verður þá að bæta úr því snarlega. Afurðir íslenzkra bænda eru af gæðum, sem vandfundin eru í heiminum. Ferðaþjónustan með sinni miklu brennslu eldsneytis og of mikla álagi á viss svæði landsins getur ekki talizt umhverfislega sjálfbær, en allt getur það staðið til bóta með orkuskiptum og bættu skipulagi.
Í lokin skrifaði Hjörleifur Guttormsson:
"Núverandi lífsmynztur samræmist engan veginn burðarþoli móður jarðar, og þar er breyting á ríkjandi efnahagskerfi og viðskiptaháttum lykilatriði. Svonefnt fótspor okkar Íslendinga í umhverfislegu samhengi er talið a.m.k. 5-falt stærra en góðu hófi gegnir, og losun gróðurhúsalofts hérlendis hefur verið með því hæsta í Evrópu, eða 14 tonn á mann. Um leið og staldrað er við vegna veirunnar, þarf að leggja grunn að lífsháttum, sem raunverulega skila afkomendum okkar sjálfbæru umhverfi."
Það þarfnast útskýringa, hvernig komizt er að því, að "umhverfisfótspor" Íslendinga sé "a.m.k. 5-falt stærra en góðu hófi gegnir", í ljósi þess, sem að framan er skráð um sjálfbærni höfuðatvinnuveganna.
Sú atvinnugrein, sem mest orkar tvímælis frá umhverfisverndarsjónarmiði, kann nú að standa andspænis markaði, sem féll til grunna í kórónuveirufaraldrinum COVID-19 og mun tæplega vaxa í sömu hæðir hérlendis eða alþjóðlega, hvað fjölda ferðalanga snertir. Baldur Arnarson birti um þetta baksviðsgrein í Morgunblaðinu 12. júní 2020 undir fyrirsögninni:
"Ferðaþjónusta í nýju ljósi".
Þar var vitnað til Gylfa Zoega, hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands, og hófst greinin þannig:
"Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, telur það ekki æskilegt að stefna að mikilli fjölgun erlendra ferðamanna, þegar ferðalög aukast á ný eftir kórónuveirufaraldurinn.
Þvert á móti sé rétt að staldra við og gera langtímaáætlanir. "Ferðaþjónustan var gríðarlegur búhnykkur síðustu árin og hefur aflað mikils gjaldeyris. Gjaldeyrisstaða landsins hefur snarbatnað og hefur aldrei verið betri. Það er líka jákvætt við þessa grein, að tekjurnar hafa dreifzt yfir þjóðfélagið miklu meira en segjum tekjur af sjávarútvegi. En mótsögnin í greininni er, að hún byggist á lágum launakostnaði og keppir við önnur lönd í ferðaþjónustu, þar sem laun eru lægri", segir Gylfi og rökstyður mál sitt."
Eyjafjallagosið setti Ísland á radar ferðamanna, og þá var ISK mjög ódýr eftir hrun ofvaxins fjármálakerfis landsins. Með fjölgun ferðamanna styrktist gengi ISK, og svo var komið árið 2019, að erlendum ferðamönnum fækkaði um 13 % m.v. toppárið 2018 með 2,3 M ferðalanga. Það kemur spánskt fyrir sjónir, að Gylfi telur tekjur af erlendum ferðamönnum hafa dreifzt betur um landið en frá sjávarútvegi. Lungi ferðamannanna dvaldi á hótelum höfuðborgarsvæðisins og skrapp í skoðunarferðir þaðan. Sjávarútvegurinn er með starfsemi nánast meðfram allri ströndinni og kaupir sér þjónustu hvaðanæva að af landinu, t.d. frá vélsmiðjum og fyrirtækjum, sem þróa og selja iðntölvustýrð framleiðsluferli. Íslendingar þurfa einmitt á slíkri starfsemi að halda. Þeir þurfa fyrirtæki með mikla fjárfestingarþörf og mikla framleiðni. Þannig verður til mikil verðmætasköpun á hvern starfsmann. Íslenzki vinnumarkaðurinn er lítill og dýr, og þess vegna henta vinnuaflsfrekar greinar aðeins upp að vissu marki.
""Samkvæmt OECD voru meðallaun á Íslandi árið 2018 þau hæstu í OECD-ríkjunum. Lífskjörin eru óvíða betri, og launin eru mjög há. Þegar grein, sem byggist á því að halda launakostnaði í hófi, fer að vaxa mikið í hálaunalandi, skapast togstreita. Greinin vex með því að ráða til starfa á ári hverju fjölda aðfluttra starfsmanna, sem felur í sér aðflutning fólks frá löndum, sem eru yfirleitt með lægri laun. Þá myndast sú mótsögn, að fólkið kemur hingað, af því að launakjör í ferðaþjónustu eru betri en kjörin í heimalandinu, en launin eru hins vegar að jafnaði lág í samanburði við laun í öðrum greinum hér innanlands. Þá myndast spenna á vinnumarkaði, sem brauzt út fyrir rúmu ári. Þá var samið um hóflega launahækkun, fasta krónutöluhækkun upp á 17 þúsund, sem fór mjög illa með þessa grein. Það má t.d. ætla, að rekstrargrundvöllur margra veitingastaða í miðborginni hafi brostið með þessari hækkun, en hann var veikur fyrir."
Staðan í hnotskurn er þá sú, að ferðaþjónustan er í alþjóðlegri samkeppni um ferðamenn. Löndin, sem samkeppni veita, eru auðvitað önnur norræn lönd, en einnig lönd með mun lægri tilkostnað, m.a. launakostnað, en hér. Spurningin er sú, hvort eftirsóknarvert sé fyrir Íslendinga að keppa á sviði vinnuaflsfrekrar láglaunastarfsemi. Starfsemin á auðvitað fullan rétt á sér með annarri atvinnustarfsemi, en umfangið í árlegum ferðamannafjölda talið orkar meir tvímælis. Að hámarka tekjur af hverjum ferðamanni er eftirsóknarverðara en mikill fjöldi.
""Svo myndast spenna í þjóðfélaginu milli láglaunahóps í þessari stóru og mikilvægu atvinnugrein og meðaltekjuhópa í landinu. Láglaunahópurinn hefur það ekki eins gott og aðrir íbúar landsins. Þannig eru innri mótsagnir í þessu öllu saman, sem voru farnar að valda erfiðleikum í ferðaþjónustu", segir Gylfi. Ásamt launaliðnum hafi skapazt spenna vegna gengisþróunar. Gjaldeyriskaup hafi haldið genginu niðri fram til ársins 2016 og byggt upp mikinn gjaldeyrisforða. Um leið hafi ferðaþjónustan notið góðs af lægra gengi."
Á árinu 2019 var svo komið, að hröð fækkunarþróun var hafin í komum erlendra ferðamanna til landsins, en þá fækkaði þeim um 300 k frá árinu áður. Meginástæðan var vafalaust versnandi samkeppnisstaða vegna aukins kostnaðar við ferðir hingað mælt í erlendum myntum. Botninn hrundi auðvitað í veirufárinu, og markaðurinn er sennilega ekki tilbúinn til að standa undir sama umfangi og áður og þjóðhagslega er óvíst, að slíkt sé áhættunnar virði.
Síðan sló Gylfi fram hugmynd um kvótasetningu, en ekki er víst, að nokkur þörf verði fyrir hana:
""Hver segir, að allir sem vilji, eigi að geta fengið lendingarleyfi í Keflavík ? Fyrirkomulagið er t.d. þannig víða annars staðar, að leyfin eru gefin út í kvótum, sem ganga kaupum og sölum milli flugfélaga. Með því að takmarka leyfin mætti tryggja, að ferðamönnum fjölgi ekki nema um vissa tölu á ári, svo [að] fjöldinn fari ekki yfir þolmörk", segir Gylfi."
Að svo búnu kom Gylfi að kjarna málsins. Kannski mun markaðurinn dæma áhyggjuefnið sem einvörðungu akademísks eðlis:
"Gylfi segir hætt við, að ef ferðaþjónustan verði gerð að aðalatvinnugrein landsins [aftur-innsk. BJo], verði Ísland um leið gert að láglaunalandi. Heppilegra sé að gera langtímaáætlanir, "þannig að kraftar einkafjármagnsins fari í að skapa betri störf"."
Það er hægt að taka undir þessa skoðun Gylfa Zoega, hagfræðiprófessors, og einnig lokaorð hans í þessu baksviðsviðtali:
"Það er gott að hafa ferðaþjónustu. Hún er góð búbót, einkum í sveitum landsins, en ekki góð sem leiðandi atvinnugrein."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.7.2020 | 09:22
Til hvers að virkja orkulindir ?
Orkumál Íslands eru í öngstræti. Sú staða er algert sjálfskaparvíti, því að utan frá séð eru Íslendingar að mörgu leyti öfundsverðir af orkumálunum. Þar ber auðvitað hæst, að nánast öll raforkan kemur úr endurnýjanlegum orkulindum, ef fallizt er á, að jarðgufan sé endurnýjanleg orkulind. Mjög lítið myndast af gróðurhúsalofttegunum samfara þessari orkuvinnslu, eitthvert metan, CH4, stígur upp af miðlunarlónum og ýmis gös, þ.á.m. gróðurhúsagös, losna úr læðingi við nýtingu jarðgufu, en unnið er að því að fanga þau og breyta í steintegundir neðanjarðar. Á heildina litið virðast virkjanir landsins falla mjög vel að umhverfinu, en samt hafa sumir allt á hornum sér, þegar ný virkjunarverkefni eru annars vegar.
Unnið er að því, að jarðstrengir yfirtaki hlutverk megnsins af loftlínunum, en hinar stærstu þeirra er of dýrt að leysa af hólmi með jarðstrengjum, nema á völdum köflum. Þegar svona er í pottinn búið, er alveg stórfurðulegt, að nú spretti fram aðilar, sem sækjast eftir leyfum til að setja upp vindorkuvirkjanir, sem augljóslega stórspilla víðáttumiklum svæðum. Linkind umhverfis- og auðlindaráðherra gagnvart reglusetningu um vindorkuver stingur í stúf við herskáa stefnu hans gagnvart vatnsorkuverum.
Staða íslenzkra orkumála er sérstaklega öfundsverð utanfrá séð í ljósi lágs meðalkostnaðar við raforkuvinnsluna. Þegar haft er í huga, að rafmagnið mun leysa jarðefnaeldsneytið að mestu leyti af hólmi, "með einum eða öðrum hætti", þá verður ljóst, að rafmagnið mun og myndar nú þegar hornstein traustrar samkeppnisstöðu landsins frá náttúrunnar hendi, en mennirnir eru mistækir, og í seinni tíð hefur verið sveigt af réttri leið, og verðlagningin dregið dám af löggjöf, sem sótt er í gjörólíkar aðstæður. Hingað á þessi löggjöf ekkert erindi, en hún miðar að því að hámarka hagnað orkufyrirtækjanna. Slík stefna verður auðvitað á kostnað neytendanna, stórra og smárra. Hér er auðvitað átt við "orkupakka" Evrópusambandsins, en réttast væri að fá undanþágu frá meginatriðum þeirra allra.
Þann 9. júní 2020 rituðu Jónas Elíasson, prófessor, og Viðar Guðjohnsen, lyfjafræðingur, merka grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:
"Með fallvötnin í farteskinu".
Fyrirsögnin er óræð, en túlka má hana á þann veg, að höfundarnir telji, að nú séu orkulindirnar undir í hráskinnaleik stjórnmálanna. Það má til sanns vegar færa með skírskotun til kröfugerðar ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, um markaðstengda úthlutun nýtingarréttar á landi ríkisins og þeim auðlindum, sem þar er að finna. Á þetta féllst ríkisstjórn Íslands í maí 2016, en núverandi ríkisstjórn treystir sér ekki í framkvæmdina, enda hefur norska ríkisstjórnin tekið gagnstæðan pól í hæðina og mun ekki eftirláta miðevrópskum fyrirtækjum erfðasilfur Norðmanna.
Tilvitnaðir höfundar vilja eðlilega endurvekja fyrri orkustefnu, sem felst í að virkja hagkvæmt og að halda raforkuverði í lágmarki (rétt yfir kostnaði). Þeir rekja þessa stefnu til Bandaríkja (Norður-) Ameríku, BNA:
"Viðbrögð Roosevelts við kreppunni voru New Deal-stefnan, sem hann hafði boðað í kosningabaráttu sinni. Hún var að koma fólki í vinnu við verðmætasköpun í stað atvinnuleysis. Virkasti þátturinn í þeirri aðgerð var virkjun fallvatna og sala á raforku til heimila og iðnaðar á hagstæðu verði. Lágt orkuverð var órjúfanlegur hluti af hugmyndafræði forsetans. Þegar honum var bent á, að rekstur orkuveranna mundi skila engum eða mjög takmörkuðum hagnaði, svaraði hann: Tekjur ríkisins koma á hinum endanum. Þar átti hann við, að framleiðsla og sala raforku eykur ekki verðmætasköpun að neinu marki umfram það, sem byggingu orkuveranna nemur.
En notkun á raforku gerir það; flestir þekkja, hvað orkureikningur heimilisbílsins lækkar, þegar hann er kominn á rafmagn [lækkar um a.m.k. 60 % - innsk. BJo], áhrifin í iðnaðinum eru enn sterkari [af því að þar vegur orkukostnaður meira af heildarkostnaði en hjá fjölskyldu á Íslandi - innsk. BJo], svo [að] þessi spá FDR rættist.
Lágt orkuverð til heimila og atvinnuvega varð snögglega að atvinnuauðlind, sem átti eftir að reisa við efnahag Bandaríkjanna og gera þau að mesta iðnveldi heims."
Hér er rétt farið með áhrif orkuverðs á atvinnulíf, atvinnustig, hagvöxt og lífskjör almennings. Þetta eru ómótmælanlegar staðreyndir. Ef þingmenn ætla að standa í ístaðinu og beita auðlindum í eigu ríkisins fyrir vagn endurreisnar hagkerfisins eftir efnahagsáfall kórónaveirunnar, SARS-CoV-2, þá munu þeir nú gera gangskör að því, að samin verði eigendastefna fyrir virkjanafyrirtæki ríkisins, Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða, sem dragi dám af ofangreindum kjarnaþætti í "New Deal" stefnu FDR. Þar með verði núverandi stefnu Landsvirkjunar snúið á haus, en hún snýst um að selja raforkuna á eins háu verði og fyrirtækið kemst upp með. Þetta hefur stjórn Landsvirkjunar kallað að hámarka virði orkulindanna. Sú einkunn er fölsk. Þjóðhagsleg hámörkun virðisaukningar af nýtingu orkulindanna fæst með sem lægstu, en þó arðbæru, verði til heimila og atvinnustarfsemi.
Þar sem stóriðjan er hryggjarstykki iðnaðar og orkunýtingar á landinu, verður að ganga fram af þekkingu og sanngirni varðandi lágmarksverð til stóriðju, sem samt lækki orkukostnað almennings, og tryggi samkeppnishæfni orkuverðsins á þeim orkumörkuðum, sem stóriðjufyrirtækin almennt starfa á. Allt eru þetta tiltölulega auðfáanleg gögn, þótt nokkur leynd hvíli víða yfir orkuverðum.
Eftir að hafa sýnt fram á, að margar aðrar þjóðir hafi fetað í fótspor Bandaríkjamanna í orkumálunum, þá sneru höfundarnir sér að íslenzkum orkumálum:
"Stefna Íslands í orkumálum undir forystu Sjálfstæðisflokksins var sambærileg. Raforkulögin frá 1946 meitluðu í stein upphaf þeirrar orkustefnu, sem við þekkjum og varð burðarstoð íslenzku atvinnuveganna, en í þeim sagði m.a., að "ríkinu einu er heimilt að reisa raforkuver, sem eru stærri en 100 hestöfl" og að "Rafmagnsveitur ríkisins skulu hafa það verkefni að afla almenningi og atvinnuvegum landsins nægrar raforku á sem hagfelldastan og ódýrastan hátt". Fyrrnefnd stefna varð ríkjandi hérlendis og hefur reynzt okkur Íslendingum vel, styrkt fyrirtækin í landinu og létt landsmönnum heimilisstörfin. Með stefnunni varð mjög jöfn dreifing á náttúruauðnum og sátt ríkti um virkjanirnar."
Of mikillar einokunarhyggju ríkisins varðandi virkjanaleyfi gætir í þessum lögum. Nú er staða ríkisins á raforkumarkaðinum svo sterk, að með ofangreindri eigendastefnu ríkisins væri tryggt, að verð á raforku héldist rétt ofan við meðalkostnað í landinu við að framleiða hana. Öðru máli gegnir þó í orkuskorti. Þá gæti verðið rokið upp, og það ætti þess vegna jafnframt að koma fram í eigendastefnunni, að virkjanafyrirtæki ríkisins sjái til þess, að í landinu sé jafnan nægt framboð raforku. Allt er þetta á öndverðum meiði við boðskap orkupakka Evrópusambandsins, en vert er að láta á þetta reyna.
"Stóriðjustefnan var rökrétt framhald af þessu. Stórar virkjanir framleiða ódýrari raforku en litlar, ef markaður er nægur. Landsvirkjun var stofnuð til að útvega markað og virkja eins stórt og hægt var án þess, að raforka til almennings hækkaði. Þetta hefur gengið mjög vel. Það var ekki fyrr en ríkið fór að innleiða flókið lagabákn Evrópusambandsins og skilgreina orku sem almenna vöru, sem málaflokkurinn fór að ókyrrast hérlendis. Fyrst stuttlega upp úr aldamótum með setningu nýrra raforkulaga til þess að innleiða fyrstu tvo evrópsku orkupakkana, en svo með innleiðingu þriðja orkupakkans, sem var í raun óskiljanlegur gjörningur, þvert á mikilvægustu hagsmuni þjóðarinnar.
Innleiðing þriðja orkupakkans var einstaklega slæm ákvörðun, sem byggðist á ótta, örlagahyggju og undirlægjuhætti gagnvart skriffinnaher Brussels. Við sjáum afleiðingarnar í fyrirhugaðri ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að styrkja grænmetisiðnaðinn hér á landi með sértækum ríkisstyrkjum. Eðlilegri ráðstöfun hefði auðvitað verið að lækka raforkuverð, en með slíkri almennri aðgerð skapast efnahagshvati, sem byggist á jafnræði og grunngildum Sjálfstæðisflokksins um, að dugnaður eigi að fá að njóta sín."
Önnur skýring á afspyrnu lélegri hagsmunagæzlu íslenzka utanríkisráðuneytisins gagnvart þeim málum, sem framkvæmdastjórn ESB merkir sem viðeigandi til umfjöllunar og eftir atvikum innleiðingar í EFTA-löndum EES, er sú, að ráðuneytið hafi tamið sér að fylgja leiðsögn norskra stjórnvalda í hvívetna. Þetta er einfeldningsleg og hættuleg afstaða, því að meirihluti Stórþingsins er iðulega hallur undir aðild Noregs að ESB, þótt þjóðin sé það ekki. Af augljósum ástæðum fara hagsmunir Íslands og Noregs ekki alltaf saman, en gera það þó stundum. Þeir fóru ekki saman í orkupakkamálunum, en hafa ber í huga, að meirihluti norsku þjóðarinnar var andvígur innleiðingu OP#3 samkvæmt skoðanakönnunum, og verkalýðshreyfingin lagðist gegn honum.
Dæmi um EES-mál, þar sem hagsmunir Íslands og Noregs fara saman, reyndar á sviði orkumála, en Ísland flaskaði á, af því að ESA gerði athugasemd við íslenzku ríkisstjórnina löngu á undan athugasemd við þá norsku, er stefnumál framkvæmdastjórnar ESB um markaðsvæðingu á leyfisveitingum til nýtingar náttúrugæða í eigu ríkisins. Íslenzku ríkisstjórnirnar, sem um þetta fjölluðu 2009-2016, tóku ekki afstöðu með vörn íslenzkra hagsmuna, og gengið var að öllum kröfum ESA í maí 2016, þótt málið hafi síðan legið á ísi. Fyrir rúmlega einu ári fékk norska ríkisstjórnin svipað erindi frá ESA, en hún hafnaði réttmæti þeirra krafna að bragði, og við það situr. Þarna beittu Norðmenn "frelsissvigrúmi", sem þeir hafa áskilið sér í viðskiptunum við ESA/ESB. Íslenzka Stjórnarráðið, hins vegar, sýndi af sér þau miður eftirsóknarverðu einkenni, sem tilvitnuðu höfundarnir nefna: "ótta, örlagahyggju og undirlægjuhátt gagnvart skriffinnaher Brussels" (ESA hefur aðsetur í Brüssel.) Þessu verður að linna. Málsmeðferð Orkupakka #4 verður prófsteinn á það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.6.2020 | 11:41
Sóknarfæri í landbúnaði
Í einu vetfangi hefur mannfrekasta atvinnugreinin, ferðaþjónustan, hrunið af orsökum, sem spekingar, spámannlega vaxnir og hinir, sáu ekki fyrir. Engum datt í hug, að á örfáum sólarhringum yrðu yfir 90 % allra farþegaflugvéla kyrrsettar á jörðu niðri vegna rétt einnar öndunarfæraveirunnar, sem frá Kína hefur borizt um heiminn. Þetta gerðist samt í marz 2020 og hvorki ferðaþjónustan né hagkerfi heimsins hafa borið sitt barr síðan, enda eru viðbrögð stjórnvalda í ríkjum heimsins fordæmalaus. Aðallega virðast þau hafa helgazt af ótta við, að heilbrigðisþjónustan myndi oflestast og engu öðru geta sinnt, eins og sást daglega í fréttum, m.a. frá Evrópu.
Landbúnaðurinn hefur gríðarlegu hlutverki að gegna við heilsueflingu, og þar með eflingu ónæmiskerfis einstaklinganna, í hverju þjóðfélagi. Íslendingar eiga því láni að fagna, að nægilega margir á meðal þeirra eru enn fúsir að yrkja jörðina og gera það með heilnæmari hætti en flestir starfsbræðra þeirra og -systra á Vesturlöndum. Óværan SARS-CoV-2 frá Kína beinir athyglinni að nauðsyn þess, að hér sé ræktað og framleitt það, sem hægt er aðstæðna vegna. Það er furðulegt, að fólk skuli ekki vanda betur til matarinnkaupanna og neyzlunnar í ljósi þeirrar vitneskju, sem fyrir hendi er um tilurð og grundvöll landbúnaðarafurða víða erlendis, t.d. í Evrópu.
Gríðarleg tækniþróun og framleiðniaukning hefur átt sér stað í íslenzkum landbúnaði á þessari öld. Enn geta innlendir framleiðendur aukið markaðshlutdeild sína á flestum sviðum starfseminnar, e.t.v. mest á grænmetis- og blómamarkaði. Gæði innlendrar framleiðslu fara ekki á milli mála, og heilnæmi matvæla verður stöðugt þungvægara við val neytandans, ekki sízt eftir mikla umræðu í Kófinu um mismunandi styrk ónæmiskerfisins eftir lifnaðarháttum fólks. Það, hversu þungt veiran lagðist á fólk, fór að miklu leyti eftir styrk ónæmiskerfisins og getu þess til að mynda mótefni gegn veirunni. Ef höfundur túlkar rétt, er þetta ein af niðurstöðum rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar, sem hún, í samstarfi við fyrirtæki vestanhafs, notar nú við þróun bóluefnis, sbr einkaþotu, sem flutti þessi efni í byrjun júní 2020 vestur um haf úr "sterkum" Íslendingum, sem höfðu sýkzt.
Eftir gosið í Eyjafjallajökli 2010 gripu bændur gæsina og efldu mjög getu sína til móttöku ferðamanna. Þeir ásamt fjölskyldum sínum eru kjörnir til þess verks, enda hefur mikil framleiðniaukning skapað þeim sumum svigrúm til þess í tíma. Nú hefur hins vegar illilega sýnt sig, að ekki er á vísan að róa með erlenda ferðamenn. Nýjar stoðir undir starfsemina væru því mörgum bændum kærkomnar.
Á flestum hinna Norðurlandanna er skógarhögg og skógrækt mikilvæg atvinnugrein, og er stóriðnaður í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Ýmsir Íslendingar hafa kynnzt þessari starfsemi þar. Næg grundvallarþekking er fyrir hendi í landinu til að hefja þessa starfsemi til vegs og virðingar í landinu undir forystu Skógræktarinnar og Landbúnaðarháskóla Íslands. Það er lag núna og sjálfsagt að ganga á lagið.
Albert Þór Jónsson, viðskiptafræðingur, hefur skrifað mikið í Morgunblaðið um landsins gagn og nauðsynjar. Þann 18. maí 2020 birtist í blaðinu grein eftir hann undir fyrirsögninni:
"Íslenzk skógrækt er verðmætasköpun og snjöll atvinnugrein".
Hún hófst þannig:
"Mikil verðmætasköpun gæti átt sér stað, ef markmið rætast um að fimmfalda þekju skóga á Íslandi á næstu 20 árum og fara úr t.a.m. [rúmlega] 1 % í 6 % af flatarmáli Íslands, og ná þannig að standa undir atvinnusköpun og sjálfbærri byggðaþróun.
Verðmæti lands eykst verulega með aukinni skógrækt, en öll ræktun í skjóli skóga verður hagkvæmari og verðmætari. [Þetta á ekki sízt við um hina vaxandi kornrækt á Íslandi - innsk. BJo.]
Landsbyggðin á Íslandi er sannkallaður óslípaður demantur, og það er ljóst, að skógrækt með skipulögðum hætti hefur mikil áhrif til styrkingar byggðar um allt land. Það er ekki ólíklegt, að vörzlumönnum muni fjölga, sem gæta ómetanlegra verðmæta, sem eru í náttúru og náttúruauðlindum Íslands. Gæta þarf að mikilvægi sjálfbærrar þróunar, sem hefur að leiðarljósi að byggja upp og varðveita skógarauðlind, sem þjónar hagrænum umhverfismarkmiðum og lækkar samfélagskostnað."
Skilyrði til landbúnaðar hafa batnað á Íslandi frá náttúrunnar hendi og vegna tækniþróunar, þróunar verkmenningar og meiri eftirspurnar á innlendum markaði (fleiri munnar að metta) og erlendis (aukin kaupgeta og versnandi ræktunarskilyrði). Skapazt hefur spánýr markaður með gasið koltvíildi, CO2, sem íslenzkir skógarbændur verða í góðum færum að keppa á.
Nokkru seinna í greininni skrifaði Albert um fjárfestingarhliðina:
"Ef skógræktarverkefni, þar sem horft er til lengri tíma og ávöxtun m.t.t. áhættu er innan þeirra marka, sem lífeyrissjóðir gera, væri hægt að hefjast handa við stórfellda skógrækt á Íslandi í samstarfi íslenzkra lífeyrissjóða, stjórnvalda, skógræktarfélaga og bænda um allt land. Þjóðarátak í skógrækt á Íslandi með aðkomu helztu aðila, s.s. stjórnvalda, opinberra fyrirtækja eins og Landsvirkjunar, einkafyrirtækja og einstaklinga um allt land, getur gert það mögulegt að hefja stórsókn í skógrækt og ná þannig metnaðarfullum markmiðum um sjálfbærni og verðmætasköpun fyrir Ísland og Íslendinga."
Málið er, að með markaðsmyndun fyrir koltvíildiskvóta er skógrækt orðin arðsöm á Íslandi. Trjátegundirnar eru mjög misjafnar, og það þarf að velja þær af kostgæfni m.v. aðstæður, þ.e. landsins, sem planta á í og nytjanna, sem ætlunin er að hafa af skóginum. Á meðal fagfólks á þessu sviði er fyrir hendi öll nauðsynleg þekking og mælitækni, sem völ er á. Er þar ólíku saman að jafna við endurvætingu uppþurrkaðra mýra, sem er í raun fát út í loftið og ætti að stöðva nú þegar, nema þar sem Landbúnaðarháskólinn mælir með því og hefur eftirlitið með höndum.
Karl Gauti Hjaltason, Alþingismaður Miðflokksins, ritaði um skógrækt í Bændablaðið 4. júní 2020 undir fyrirsögninni:
"Sveiflum haka og ræktum nýjan skóg".
Hún hófst þannig:
""Í þá tíð var Ísland viði vaxið milli fjalls og fjöru", ritaði Ari, prestur fróði, Þorgilsson í upphafskafla Íslendingabókar. Talið er, að við landnám hafi um þriðjungur landsins verið þakinn birkiskógum og kjarri, en nú vex birki á um 1,5 % landsins, og ræktaðir skógar þekja 0,5 % þess. Íslendingar eru í þeirri óvenjulegu stöðu, að nær allir skógar landsins eyddust, og á eftir fylgdi hrikaleg jarðvegseyðing og hnignun landgæða, sem er okkar alvarlegasta umhverfisvandamál."
Hér er hvergi hallað réttu máli, en samt mætti af almennri umræðu ráða, að núlifandi kynslóð manna á Íslandi, starfsemi hennar og inngrip í náttúruna, oftast til að beizla krafta hennar til verðmætasköpunar, sé alvarlegasta umhverfisvandamálið. Þá hafa margir malarbúar gripið á lofti hráan áróður um, að endurvæting lands sé mikilvægari en að kljást við jarðvegseyðingu og endurheimt skóganna. Sá áróður ber keim af heilaþvotti loftslagsumræðunnar, þar sem látið er í verðri vaka, að mokstur ofan í framræsluskurði á Íslandi hafi einhver áhrif á þróun loftslags á jörðunni. Allt er það bull og vitleysa.
"Skógrækt er ung búgrein á Íslandi, og vöxtur trjáa er til muna öflugri en menn hafa þorað að vona. Fyrir hendi er mikið ónýtt landnæði, og trjárækt getur auðveldlega komið til stuðnings og viðbótar við aðra atvinnuvegi landsmanna."
Hér kemur Karl Gauti að samkeppnisstöðu Íslendinga á þessu sviði, sem er einstök vegna mikils landrýmis, sem hægt er að leggja skógræktinni til án þess að ganga á hlut annarrar starfsemi. Vaxtarhraðinn fer vaxandi með hækkandi meðalhitastigi, hærri koltvíildisstyrk í lofti og aukinni úrkomu, svo að hér er kjörið sprotatækifæri.
"Afurðir nytjaskóga verða að verðmætu lífrænu hráefni, timbri og smíðaviði. Á líftíma sínum skapar skógur margvísleg efnisleg verðmæti, fyrst brennsluvið, girðingarstaura, jólatré, trjákurl og arinvið, og síðar meir timbur og aðrar viðarafurðir, sem nýta má á ótal vegu. Verð á timbri hefur lengi farið hækkandi á heimsmarkaði, og ekkert, sem bendir til, að draga muni úr eftirspurn á næstunni. Sumar spár gera reyndar ráð fyrir því, að trjáviður muni í æ ríkari mæli koma í stað steinsteypu sem byggingarefni."
Loftslagsumræðan ýtir undir hið síðast nefnda hjá Karli Gauta, því að hvert tonn sements skilur eftir sig stórt kolefnisspor, sem ekki minnkar með aldri steypunnar, eins og á við um t.d. álið, sem hægt er að endurvinna takmarkalaust, og notkun þess í t.d. samgöngutæki minnkar í raun kolefnisfótsporið, sem myndast við frumvinnsluna. Það væri óskandi, að hér mundu skapast skilyrði fyrir skógariðnað, sem er mikilvægur þáttur í hagkerfi flestra hinna Norðurlandanna og er gjaldeyrissparandi.
Nú sjáum við, hversu atvinnustigið á Íslandi er hverfult. Að reiða sig á ferðaþjónustu í þeim efnum er ekki hægt. Ef skógariðnaður gæti komið sem aukabúgrein í landbúnaði, myndi hann bæta bæði atvinnuöryggi og afkomuöryggi á landsbyggðinni. Hvað skrifaði Karl Gauti um þetta ?:
"Nú með þverrandi atvinnu er unnt með aðgerðum stjórnvalda að skapa fólki arðbær störf við að undirbúa stórátak til að efla skógrækt. Strax má vinna að því að hirða um og grisja þá skóga, sem fyrir eru, og auka þannig gæði þeirra og hámarka árangur. Arður af skógi kemur reyndar ekki í sviphendingu, en býsna skjótt má fá tekjur af skógi vöxnu landi vegna grisjunar. Með vexti skógar aukast tekjur af honum og störfum fjölgar, og trjáviður er uppspretta ótal tækifæra til nýsköpunar á ýmsum sviðum iðnaðar. Skógrækt sem tiltölulega ný atvinnugrein mun þannig stuðla að jákvæðri byggðaþróun og skapa fjölmörg afleidd störf og vera framtíðarauðlind fyrir komandi kynslóðir landsmanna."
Varðandi tekjuhlið skógræktarinnar má ekki gleyma umtalsverðum þætti, sem vara mun svo lengi, sem mannkynið berst við að draga úr koltvíildisstyrk andrúmsloftsins, en það er sala á bindingu CO2 í viði og jarðvegi. Rannsóknir hafa sýnt nettó bindingu í mjög ungum ræktunarskógi. Það er engum blöðum að fletta um mátt trjáa til bindingar CO2, því að af 560 mrdt kolefnis í gróðri jarðar eru um 390 mrdt í skógunum eða 70 %. Alaskaöspin er langöflugusta trjátegundin hérlendis í bindingu og bindur að jafnaði yfir 20 t CO2/ha á ári. Barrtrén afkasta rúmlega 40 % af því, en birkið er hægvaxnast og bindur aðeins um 3,5 t CO2/ha á ári. Með fjórföldun á fjölda núverandi gróðursetningarplantna á ári má fljótt fá bindingu, sem nemur 535 kt CO2 ár, sem er 11 % af skráðri losun Íslands. Það er ekki vafi, að þetta er hjálplegt við að ná markmiði Íslands í samflotinu með EES gagnvart Parísarsáttmálanum, en það er enn óljóst, hversu mikið Ísland má telja fram á sviði bindingar.
Losun frá umferðinni fer nú minnkandi og sama má segja um útgerðirnar. Landsmenn ættu þess vegna ekki að þurfa að lenda í miklum þvinguðum kaupum á koltvíildiskvóta. Samt verður þörf á bindingu til viðbótar við minnkandi bruna jarðefnaeldsneytis, því að millilandaskip, flugvélar og ýmsar greinar iðnaðarins munu fram yfir árið 2030 verða háð orku úr jarðefnaeldsneyti. Á þessum sviðum geta þó orðið óvænt gegnumbrot, t.d. á sviði áliðnaðar, þar sem rannsóknir fara fram á kolefnisfrírri rafgreiningu súráls. Við rafgreininguna verður þá til súrefni, O2, í stað koltvíildis, CO2. Með Elysis verkefni Rio Tinto og Alcoa í Voreppe í Frakklandi er ráðgert að hefja framleiðslu áls með kolefnisfríum hætti fyrir árslok 2021 með fullum iðnaðarstraumi, sem er 1000 sinnum hærri en straumur í tilraunaverkefni, sem nýlega var kynnt hérlendis til sögunnar og er í raun 20 árum á eftir tímanum og getur því varla nokkurn tímann orðið barn í brók, en meira um það síðar.
Í lokin skrifaði Karl Gauti:
"Gróðursetning hefur dregizt verulega saman hér á landi frá efnahagshruni, og í fyrra [2019] voru aðeins gróðursettar 3 M trjáplantna. Nauðsynlegt er að auka þar verulega við og margfalda plöntun. Undirbúningur þess tekur nokkur ár og því mikilvægt að hefjast þegar handa. Aðgerðir stjórnvalda eru því miður í hænuskrefum að þessu leytinu, á sama tíma og innan fárra ára kemur að uppgjöri á kolefnisbókhaldi landsins.
Fram undan eru því tækifæri til að draga úr áhrifum niðursveiflu í efnahagslífinu, ná verulegum árangri í loftslagsmálum og byggja upp auðlind til hagsbóta fyrir land og þjóð í framtíðinni. Á erfiðum tímum þarf að horfa til framtíðar og byggja upp. Fátt eykur bjartsýni fólks eins mikið og gróðursetning trjáa. Nýtum það lag og blásum til grænnar sóknar - og ræktum skóga."
Það er óskandi, að þessi herhvöt Karls Gauta gangi eftir nú, þegar harðnandi samkeppni verður um fjármagnið. Efnahagur hins opinbera og atvinnulífsins er mjög aðþrengdur og allt gert með bullandi skuldsetningu. Flýtur á meðan ekki sekkur. Nú ríður á að fara vel með fé. Falskenningar eru á lofti um langmesta skilvirkni endurvætingar lands til að draga úr gróðurhúsaáhrifunum. Nýjar rannsóknir sýna, að ávinningurinn er mun minni en áður var talið, og hann er auk þess alveg undir hælinn lagður og getur jafnvel snúizt upp í andhverfu sína vegna þess, að land, sem þurrkað var fyrir meira en 50 árum, er komið í jafnvægi og sendir ekki frá sér koltvíildi af völdum þurrkunar. Réttast væri að hætta að svo stöddu fjárveitingum til ofanímoksturs skurða og beina fénu til skógræktar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2020 | 11:13
Stórtækar og öfgafullar friðlýsingartillögur
Umhverfis- og auðlindaráðherra án þingsætis hefur viðrað tillögur um risavaxinn Hálendisþjóðgarð, sem engin þörf er fyrir og yrði varðveizlu náttúru að engu leyti hjálplegri en núverandi fyrirkomulag, þar sem sveitarfélög og íbúar (bændur) þeirra koma mest við sögu. Nóg um það. Nú hefur hann gengið fram með tillögu, e.t.v. "spill for galleriet", sýndarleik, sem fjallar um friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Jón Gunnarsson, Alþingismaður, sýndi almenningi fram á það með Morgunblaðsgrein sinni 26. maí 2020:
"Að friðlýsa landið og miðin",
að hér er um löglaust framferði ráðherrans að ræða, sem engin sátt getur orðið um á meðal meirihluta þingheims, enda er málið á leiðinni fyrir dómstóla.
Öfgafullt hugarfar og viðhorf umhverfis- og auðlindaráðherra til reglusetninga um það, hvernig nýta má hálendið og reyndar hefðbundnar orkulindir, hvar sem þær er að finna hérlendis, er sorglegt. Hvers vegna vill hann stöðugt breyta leikreglunum sínum skoðunum í vil ? Það verður að þræða hinn gullna meðalveg í þessum efnum, sem felst í að nýta þær orkulindir, sem spurn er eftir, ef fórnarkostnaðurinn "að beztu manna yfirsýn" og með blessun Alþingis er minni en hinn þjóðhagslegi ávinningur. Spriklið í umhverfis- og auðlinda bendir til, að hann sætti sig ekki við þessa nálgun. Hann á dálítið bágt að geta ekki spurt kjósendur sína ráða, því að þeir eru engir. Hann getur aðeins hlustað í bergmálshelli Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Það er ógæfulegt til ákvarðanatöku í þágu þjóðar.
Nú verður vitnað til hinnar öflugu greinar Jóns:
"Tillaga verkefnisstjórnarinnar og þar með þingsályktunin var því unnin áður en málsmeðferðareglur laganna tóku gildi. Í þeim felast m.a. verklagsreglur, sem verkefnisstjórn og faghópar skulu fylgja. Verkefnisstjórn rammaáætlunar 2 vann sem sagt aldrei eftir þessum reglum, því að þær voru ekki til. Verkefnisstjórnin hafði ekki á þessum tíma (fyrir 2011/2013) það hlutverk að afmarka virkjunarsvæði eða virkjunarkosti. Af því leiðir, að afmörkun virkjunarsvæða eða virkjunarkosta var ekki hluti af tillögu verkefnisstjórnar og þar með heldur ekki hluti af ályktun Alþingis. Rammaáætlun 2 skorti því öll fyrirmæli um, hver væru mörk virkjunarsvæða eða virkjunarkosta og þingsályktunin því mjög ófullkomin að þessu leyti."
"Það er greinilega úr vöndu að ráða fyrir ráðherra umhverfis- og auðlindamála, þegar ákveða skal leiðina. En ráðherrann ákvað sem sagt, að lög og verklagsreglur, sem ekki voru til, þegar verkefnisstjórn vann tillögu að ramma 2, og ekki voru í gildi, þegar þingsályktunin frá 2013 var samin og samþykkt, skuli veita leiðsögnina um mörk friðunar."
Þetta er góð röksemdafærsla fyrir því, að umhverfis- og auðlindaráðherra veður reyk í tilraunum sínum til friðlýsingar vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Gjörðir ráðherrans eru ólögmætar og út í hött. Það gengur ekki, að ráðherra gangi erinda sérhagsmunaafla í landinu, sem draga úr möguleikum núverandi og komandi kynslóða til að taka ákvarðanir um atvinnutækifæri, gjaldeyrissparnað eða gjaldeyrissköpun.
Síðan heldur Jón áfram:
"Í engu tilviki voru heil vatnasvið sett í verndarflokk í rammaáætlun 2, þingsályktun 13/141. Í öllum tilvikum er talað um virkjunarkosti. Friðanir eða tillögur þar um verða að taka mið af þessu. Ekki kemur til álita að friða vatnasvið og árfarvegi, nema rammaáætlun segi það berum orðum."
Jón Gunnarsson er betur að sér en flestir aðrir menn á þingi um þessi mál, baksvið lagasetningar um orkumál og ætlun löggjafans. Hann er ennfremur víðsýnn þingmaður með þau viðhorf, að fjölbreytileg nýting landsins gæða eigi að fá að njóta sín. Jón Gunnarsson mun ekki láta ráðherra komast upp með rangsleitni, yfirgang og öfugsnúna lagatúlkun.
"Ég sat á sínum tíma í þingnefndinni, sem um þetta fjallaði, og í þeim nefndum, sem síðan hafa fjallað um þennan málaflokk. Vilji löggjafans er alveg skýr í þessum efnum. Ljóst er, að ef skýringar og stefna ráðherrans fengju að ráða, þarf ekki mikið að velta fyrir sér nýtingu orkuauðlinda okkar. Ef henni yrði beitt í ýtrasta tilgangi, yrði landið nánast allt friðað fyrir frekari virkjunum. Það liggur í augum uppi, að löggjafinn var ekki að færa svo mikilvægar ákvarðanir í hendur eins manns, þ.e. umhverfis- og auðlindaráðherra."
Ráðherrann er með brambolti sínu að troða sjónarmiðum jaðarhóps í þjóðfélaginu að sem stefnu ríkisvaldsins. Þessi stefna er ekki reist á neinum haldbærum rökum, heldur aðeins þeirri tilfinningu, að "náttúran verði að njóta vafans", þótt þjóðin verði að éta, það sem úti frýs. Þetta er afturhaldssjónarmið reist á rökvillu um, að maðurinn sé eini breytingavaldurinn í náttúrunni. Hið rétta er, að náttúran sjálf er öflugasti breytandinn og sjónræn áhrif vatnsaflsvirkjanaframkvæmda á náttúruna eru flest lítil og sum til bóta og mörg eru afturkræf. Kosti og ókosti þarf auðvitað að vega saman og málamiðlanir að gera, en ofstæki á ekki heima í þessum málaflokki frekar en öðrum, þar sem fjallað er um tæknilegar lausnir.
"Ákvarðanir um friðlýsingarmörk verða augljóslega að vera hluti af ákvörðunum um að setja virkjunarkost í verndarflokk. Ég vil taka það skýrt fram, að ég er ekki á móti friðlýsingum, en öfgar og útúrsnúningar sem þessir eru í andstöðu við vilja löggjafans. Ef skilningi ráðherrans yrði fylgt til hins ýtrasta varðandi virkjanakosti í verndarflokki, yrðu möguleikar til nýtingar orkuauðlinda okkar skertir stórkostlega og gerðu út af við möguleika okkar til sóknar á þeim vettvangi."
Þetta er mergurinn málsins. Ráðherrann stefnir að því að leggja höft á komandi kynslóðir um nýtingu landsins gæða. Það er í senn ólýðræðislegt og andstætt heilbrigðri skynsemi, því að nýjar kynslóðir búa við nýjar þarfir og ný úrræði til að beizla náttúruna. Þessi ríkisstjórn er ekki studd af meirihluta þings og þjóðar til slíkra óhæfuverka.
"Hér eru gríðarlegir þjóðhagslegir hagsmunir undir, og við höfum ekki efni á að skerða möguleika þjóðarinnar til að skapa verðmæti með nýtingu auðlinda sinna. Málamiðlun í þessu sem öðru þarf að vera það leiðarljós, sem við fylgjum. Það eru mörg tækifæri til að friða viðkvæmar náttúruperlur án þess, að gengið sé á möguleika okkar að öðru leyti."
Hér er vel að orði komizt um kjarna málsins. Það er engin glóra í því að útiloka virkjunartilhögun fyrirfram áður en hún hefur verið sett fram. Slíkt eru handabakavinnubrögð og fórn verðmæta með bundið fyrir augun. Þetta virkjanahatur er heimskulegt í ljósi umhverfismála heimsins og í ljósi þarfar þjóðarinnar fyrir aukna gjaldeyrissköpun um 50 mrdISK/ár til að halda í horfinu fyrir vaxandi þjóð, sem er að eldast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.6.2020 | 17:43
Vindmylluriddarar og aðrir einstefnumenn
Það er undarleg tilhneiging hérlendis til útskúfunar heilla atvinnugreina og að fella um þær palladóma, sem reistir eru einvörðungu á fordómum og þekkingarleysi. Iðulega styðjast þessi viðhorf við innflutt sjónarmið úr gjörólíku umhverfi, sem engan veginn eiga við hér. Þar með bíta þessir talsmenn höfuðið af skömminni, svo að á þeim er lítt mark takandi.
Hér verður tvennt gert að umræðuefni: áhugi á uppsetningu vindorkuvirkjana hérlendis og hernaðurinn gegn nýjum hefðbundnum íslenzkum virkjunum á sviði jarðgufu og vatnsafls.
Vindmyllur eru neyðarbrauð, sem gripið var til í örvæntingu erlendis til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í löndum, þar sem hlutdeild þeirra í raforkuvinnslu var yfirleitt undir 10 %. Hérlendis er þessi hlutdeild næstum 100 %, þökk sé vatnsorkuvirkjunum og jarðgufuvirkjunum. Frumskilyrði fyrir vindorkuver vantar þess vegna hérlendis.
Vindmyllurnar eru litlar að uppsettu afli, oft 3-5 MW, og nýting þeirra er slæm á landi (betri úti fyrir ströndu). Raforkuvinnsla þeirra er slitrótt, og jafngildir orkuvinnsla þeirra yfir árið því, að þær séu á fullu afli minna en 30 % af árinu á heimsvísu, en hérlendis líklega um 40 % að teknu tilliti til viðhalds. Að sama skapi hefur orkan frá þeim verið dýr, um 70 USD/MWh, en með bættri framleiðslutækni og lækkun verðs þeirra frá verksmiðju á hvert MW hefur e.t.v. náðst að lækka þennan vinnslukostnað niður í 50-60 USD/MWh. Þetta er þó einfaldlega ekki samkeppnishæft verð á Íslandi án niðurgreiðslna, á meðan nægt framboð er af raforku frá hefðbundnum íslenzkum virkjunum.
Hvað sem líður áformum um nýjar slíkar virkjanir, sem eru fremur fátækleg, nema helzt smávirkjanir vatnsafls og endurnýjun gamalla virkjana með aukin afköst og meiri orkuvinnslu í huga, þá er nóg af ónýttum virkjanakostum í gildandi Rammaáætlun, svo að ekki sé minnzt á biðflokkinn. Skynsamlegasta notkun vindmyllna hérlendis er að láta þær jafnan vera á mestu mögulegu afköstum og spara á móti vatn í miðlunarlónum, en engin þörf er á þessu á sumrin í góðum vatnsárum. Við venjulegar aðstæður er takmarkaður og óviss markaður fyrir vindmyllur á Íslandi. Er einhver spurn eftir þessari orku, eða fyrir hvað eru vindmylluriddarar nútímans að sverma hérlendis ?
Framleiðsluferli vindmyllna skilur eftir sig umtalsvert kolefnisfótspor, og í þeim eru verðmætir og sjaldgæfir málmar. Spaðarnir eru yfirleitt úr glertrefjum, og þeir slitna vegna loftmótstöðu og sandfoks og þarfnast skiptingar. Þeir gömlu eru yfirleitt urðaðir. Enn vex kolefnissporið, þegar jarðvinna og gríðarleg steypuvinna hefst á virkjanasvæði vindsins. Það er gríðarleg graftrarvinna fyrir stórar steyptar undirstöður, vegalagning og strengjaskurðir fyrir vindmyllurnar. Umhverfisraskið er gríðarlegt á stóru svæði vindorkuversins og miklir þungaflutningar þangað. Allt er það fyrir heldur rýra eftirtekju.
Spaðaendarnir geta hæglega verið á hraðanum 70 km/klst. Fuglar sjá margir illa upp fyrir sig, og hafa t.d. hafernir í Noregi slasazt tugum saman árlega til ólífis af höggi ofanfrá.
Mikil útlitsbreyting til hins verra verður á víðernum, þar sem vindorkuverum hefur verið skellt niður, og vegna hæðar sinnar, allt að 200 m frá efra borði undirstöðu að spaðatoppi, sjást þau marga tugi km að. Þegar kostir og gallar vindmylluorkuvera á Íslandi eru vegnir og metnir, virðast gallarnir vera yfirgnæfandi og yfirþyrmandi.
Forystugrein Morgunblaðsins 26. maí 2020 fjallaði um þetta og hét:
"Stundum verður að berjast við vindmyllur".
Þarna er skírskotað til þekkts miðaldaverks á Spáni, enda verður að telja það fremur forneskjulegt að mæla fyrir vindmyllum til raforkuvinnslu á Íslandi. Þar er svo sannarlega farið yfir lækinn til að sækja vatnið:
"Baráttan gegn því, að efnt yrði til vatnsfallsvirkjana, sem hagstæð skilyrði stóðu til, varð stundum mjög hatrömm [deilurnar um Búrfellsvirkjun eru pistilhöfundi í fersku minni-innsk. BJo]. Iðulega tók hún sama blæ og brag og baráttan gegn hersetu, þótt að henni kæmu stórir hópar fólks, sem innvígðist aldrei í þau mál. En nú var rætt um "hernaðinn gegn landinu" og fast kveðið að og fullyrt, að þeir, sem slíkt styddu, væru eins og landsölumennirnir, óvinir þjóðarinnar og svikarar við málstað hennar.
En meginþáttur í huga margra, sem börðust gegn því, að landinu væri spillt, svo [að] fegurð þess og yndi fengi áfram að njóta sín, snerist að sjónmenguninni, sem væri skemmdarverk af risavöxnu tagi."
Þetta er hárrétt athugað hjá leiðarahöfundinum, en hávær og innistæðulítill andróður gegn virkjun íslenzkra jökulvatna á borð við Þjórsá og Tungnaá reyndist stormur í vatnsglasi. Það var gert allt of mikið úr skemmdarverkum á náttúrunni og ekkert hugað að þjóðhagslegu mikilvægi raforkuvinnslunnar, sem varð afrakstur framkvæmdanna.
Ekkert af þessu á við um vindmyllurnar. Þær setja mjög neikvæðan svip á landslag á stórum landsvæðum, þar sem þær hafa verið settar upp (erlendis), enda er engin spurn á íslenzkum raforkumarkaði eftir þessari frumstæðu og óhentuga aðferð við raforkuvinnslu hérlendis.
"Á laugardaginn var [23.05.2020] birtist stutt grein frá lesanda blaðsins og vakti athygli. Kannski var hún merkilegust fyrir það, að þar var opnað á umræðu, sem illskiljanlegt er, að hafi ekki fyrr verið tekin af alvöru hér á landi. Greinarhöfundur, Halldór S. Magnússon, fjallar um vindmyllur og bendir í upphafi sinnar greinar á það alkunna, að "virkjun náttúruauðlinda hefur lengi verið eitt vinsælasta deiluefni Íslendinga. Annars vegar eru þeir, sem telja nauðsynlegt að virkja sem allra mest til þess að efla þjóðarhag, og hins vegar þeir, sem telja brýnt að virkja alls ekki meir til þess að vernda náttúru landsins."
Ef einhverjum hefur dottið í hug, að vindmyllur gætu brúað bilið á milli þessara hópa, þá lýsir það viðhorf fullkomnu skilningsleysi á skaðsemi vindmyllna í íslenzkri nátturu. Umhverfislega er verið að fara úr öskunni í eldinn. Flestir hérlandsmenn eru hófsamir m.t.t. nýrra virkjana, vilja leyfa nýjar virkjanir, ef þörf er á orkunni og nýta á beztu tækni til að draga úr umhverfisáhrifunum eftir föngum, t.d. með lunganum af mannvirkjunum neðan jarðar (sprengd inn í fjöll). Þessu er ekki fyrir að fara með vindmyllur. Þar er ekki val, nema á milli stærðar hverrar vindmyllu og fjölda þeirra. Hver sækist eftir slitróttri orku frá þeim, og eðli máls samkvæmt setja þær hræðilegan svip á ósnortin víðerni. Þetta hefur nú runnið upp fyrir mörgum þjóðum í Evrópu, t.d. Norðmönnum.
"Greinarhöfundi þótti lítið hafa heyrzt frá talsmönnum náttúruverndar um vindmylluáform. Enda er það umhugsunarefni, að almenningur hafi ekki látið þetta mál til sín taka áður en það er um seinan. Kannski er það vegna þess ofsa, sem einkennir umræðu um loftslagsmál, þar sem sérhver spurning er kaffærð, falli hún ekki að "réttum sjónarmiðum". Kannski óttast fólk, að taki það á móti þeim, sem vilja slá upp risavöxnum vindmyllum í náttúru landsins með óþolandi hvini og ónotum, verði það sakað um að stuðla að þeim aldauða, sem verði, fái loftslagsmenn ekki sitt fram."
Það er rétt hjá Morgunblaðinu, að erlendis eru náin tengsl á milli hvatamanna vindmylluorkuvera og loftslagsspámanna. Í löndum annarra endurnýjanlegra orkulinda, þar sem að auki enn er nóg af þeim, falla loftslagsrök fyrir vindmyllum algerlega um sjálf sig. Vindmyllur hafa stórt kolefnisfótspor, og eiga engan rétt á sér, þar sem nóg er af öðrum endurnýjanlegum orkulindum. Þetta er hin mikla meinloka vindmylluriddara nútímans á Íslandi.
"Halldór S. Magnússon bendir réttilega á, að þögn talsmanna náttúruverndar veki einkum furðu, "þar sem þeir hafi talið það fyrst og fremst vatnsaflsvirkjunum og jarðhitavirkjunum til foráttu, að þær séu óþolandi aðskotahlutir í íslenzkri náttúru, sem skemmi fyrir upplifun manna af landinu og stórkostlegri fegurð þess."
Þessi einkunnargjöf afturhaldsmanna um útlit og ljótleika vatnsaflsvirkjana og jafnvel jarðgufuvirkjana eru tilbúin falsrök þeirra fyrir vondum málstað. Vatnsaflsvirkjanir falla í langflestum tilvikum, ef ekki öllum, mjög vel að landslaginu, og miðlunarlónin eru yfirleitt til fegurðarauka í landslaginu, ekki sízt á gróðurlitlu og þyrrkingslegu hálendinu. Svipaða sögu má segja af jarðgufuvirkjunum, þótt gufumekkir og röralagnir falli vafalaust ekki öllum í geð. Þegar gríðarlegt notagildi og umhverfisvæn orkuvinnsla er höfð í huga, eru flestir tilbúnir til að horfa í gegnum fingur sér með þessi mannvirki. Fórnarkostnaðurinn er aðeins lítið brot af hinum þjóðhagslega ávinningi. Engu slíku er hins vegar til að dreifa um slitrótta orkuvinnslu hundruða vindmyllna, sem stinga í stúf við heilbrigða skynsemi á Íslandi.
"Og í tímamótagrein sinni spyr Halldór í framhaldinu: "En hvað með vindmyllur, geta þær fallið inn í landslagið ?" Og hann bætir við: "Í flestum tilvikum munu myllur vindorkuvera verða áberandi á fjöllum og hásléttum landsins og sjást víða að. Getur það samrýmzt skoðunum umhverfis- og náttúruverndarsinna, að reistar verði vindmyllur uppi á heiðum og fjöllum landsins í ósnortinni náttúru ?"
Þetta eru gildar spurningar og tímabærar og sætir reyndar nokkrum ugg, að dauðaþögn hafi ríkt um þessi mál þar til nú."
Spurningum téðs Halldórs er fljótsvarað. Það samrýmist alls ekki sönnum náttúruverndarsjónarmiðum að styðja reisningu fjölda vindmyllna, ekki einu sinni með þögninni. Þetta er ástæðan fyrir því, að andstaðan gegn vindmyllum fer nú sívaxandi í Noregi. Norðmenn hafa nú áttað sig á því, að útdjöflun ósnortinna víðerna þeirra er allt of dýru verði keypt. Norðmenn framleiða um tífalt meira af raforku með vatnsafli en Íslendingar, svo að þeir eru mjög vanir vatnsaflsvirkjunum (mörg stöðvarhús eru reyndar sprengd í fjöll af öryggisástæðum), miðlunarlónum og háspennulínum í ósnortnum víðernum. Miðlunarlónin eru meira en tíföld hámarksflatarmál íslenzkra miðlunarlóna, því að þau voru sniðin við þarfir norskrar stóriðju og húshitunar fyrir daga sæstrengstenginganna við Noreg. Nú hefur hins vegar verið gengið algerlega fram af norskum náttúruunnendum, enda er engin þörf fyrir vindmyllur inn á norska raforkukerfið. Raforka vindmyllanna fer nánast öll til útlanda um aflsæstrengi, og fjárfestarnir, margir frá meginlandi Evrópu, mökuðu krókinn, á meðan verðið var þar nægilega hátt, en við núverandi markaðsaðstæður lepja þeir dauðann úr skel.
Svo virðist sem núverandi umhverfisráðherra á Íslandi sé hallari undir vindmyllur en vatnsorkuver, og er það til vitnis um furðulegan öfugsnúning þessa ráðherra án þingsætis. Hér kemur inngangur að baksviðsgrein Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu, 29. maí 2020, sem hann nefndi:
"Setja viðmið við uppbyggingu vindorku":
Umhverfisráðherra er að undirbúa frumvarp til laga um umgjörð nýtingar vindorku í landinu. Ráðuneyti hans og ráðuneyti iðnaðarmála hafa verið að vinna að því að móta viðmið um það, hvar leyfa megi vindorkugarða og hvar ekki. Skipulagsstofnun vinnur í þessu sambandi að gerð viðauka við landskipulagsstefnu, þar sem sett verða viðmið fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga um vindorku.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir, að litið hafi verið til viðmiða erlendis og nefnir, að sums staðar hafi friðlýst svæði og svæði, sem farleiðir fugla liggja um, verið tekin út fyrir sviga."
Þetta er mjög ógæfulegt, því að við höfum fátt eitt til annarra þjóða að sækja í þessum efnum annað en sorgleg mistök, eins og dæmið af Noregi hér að ofan sýnir. Reglan um þetta getur verið mjög einföld. Alls ekki á að leyfa vindmyllur í ósnortnum víðernum. Ef áhugi er á að reisa vindmylluorkuver annars staðar, skal leita umsagnar Landsnets um þörf á aukinni innmötun þar. Það er eins og fyrri daginn. Flækjufótum Stjórnarráðsins leyfist að gera einföld mál flókin. Er ekki meirihluti á þingi fyrir einföldu reglunni ?
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur horn í síðu nýrra vatnsorkuvera. Alþingismaðurinn, Jón Gunnarsson, reit gagnmerka grein um þetta í Morgunblaðið 26. maí 2020, sem hófst þannig, en henni verða gerð betri skil síðar:
"Að friðlýsa landið og miðin":
"Umhverfisráðherra kom fram í fjölmiðlum sunnudaginn 17. maí [2020] og reyndi að réttlæta ákvörðun sína um friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Sú skýring hans, að þetta sé gert til að framfylgja vilja Alþingis, stenzt enga skoðun. Ég tel, að ráðherra skorti lagaheimild fyrir þessari ákvörðun. Ráðherranum hefur nú verið stefnt fyrir dóm af landeiganda vegna þessa."
Ráðherra þessi hagar sér að ýmsu leyti eins og kvíga, sem sleppt er út að vori. Hann gerir, það sem honum sýnist, og fullyrðir síðan, að hann hafi fullan rétt til þess. Það kom vel á vondan, fyrrverandi framkvæmdastjóra Landverndar, að verða sjálfur kærður fyrir embættisafglöp, sá kæruglaði maður. Fróðlegt verður að sjá, hvernig deilumálinu reiðir af í dómssölum. Ráðherra þessi varð alræmdur fyrir kærugleði sína í sínu fyrra starfi og hefur á samvizku sinni gríðarlega kostnaðarsamar tafir framkvæmda um allt land. Auðvitað sá hinn stórskrýtni þingflokkur vinstri grænna ástæðu til að verðlauna þennan mann fyrir afrekin, sem kostað hafa skattborgarana stórfé.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)