Færsluflokkur: Bloggar

Efnileg nýsköpun mætir sums staðar mótlæti

Laxeldi í sjókvíum og úrvinnsla afurðanna í landi er gríðarlega efnileg viðbót við íslenzkt atvinnulíf og verðmætasköpun.  Nú hefur orðið verulegt tekjutap íslenzka hagkerfisins við brottfall erlendra ferðamanna, sem dregur allt í einu upp nýja mynd af þessari grein, ferðaþjónustunni; sem sagt þá, að framtíð hennar er mikilli óvissu undirorpin; hún gæti hæglega átt sér afar skrykkjótta framtíð og aldrei náð hámarkinu fyrir COVID-19. 

Mengunarsjónarmið og sjálfbærniþörf mæla heldur ekki með þessari grein sem stendur.  Það er viss lúxuslifnaður að ferðast, og ferðalög með núverandi tækni eru ósjálfbær.  Út yfir allan þjófabálk tekur, þegar stjórnmálamenn bulla um, að "náttúran verði að njóta vafans", og þess vegna skuli sjókvíaeldi settur stóllinn fyrir dyrnar, t.d. í Eyjafirði, m.a. til að trufla ekki ferðir stórskipa, eins og farþegaskipa.  Þar tekur steininn úr, því að farþegaskip eru einhverjir verstu mengunarvaldar, sem þekkjast, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri. Ef velja þarf á milli farþegaskipa og sjókvíaeldis í Eyjafirði, er enginn vafi á, hvor kosturinn verður ofan á út frá hagrænum og umhverfislegum sjónarmiðum. 

Á Vestfjörðum hefur fiskeldi í sjó umbylt atvinnuástandi og byggðaþróun til hins betra. Nú er verið að auka úrvinnsluna, og til þess er nýtt nýjasta tækni frá hvítfiskvinnslunni.  Mikil sjálfvirkni kallar á sérfræðinga á staðnum á sviðum hugbúnaðar, rafbúnaðar og vélbúnaðar.  Gæði, framleiðni og aukin verðmætasköpun skjóta stoðum undir styrkari samkeppnisstöðu og veitir ekki af, því að innreið er hafin á verðmætan markað með bullandi samkeppni.

Helgi Bjarnason reit baksviðsgrein í Morgunblaðið 20. maí 2020, sem hann nefndi:

"Aðstaða til að framleiða hágæða afurðir":

"Fiskvinnslan Oddi hefur starfað í um 50 ár.  Skjöldur Pálmason segir, að til þess að stækka fiskvinnsluna á hefðbundinn hátt þurfi að fjárfesta í kvóta fyrir fiskiskipin og í vinnslunni fyrir marga milljarða [ISK]. Hann gefur ekki upp kostnaðinn við að koma upp vinnslu á laxi, en segir hann aðeins brot af kostnaði við að stækka hvítfiskvinnsluna.  Þetta sé því ódýr leið til að stækka og styrkja fyrirtækið.  Laxinn er verðmætari en annar fiskur og er reiknað með, að velta fyrirtækisins tvöfaldist með því að bæta 2,5 kt-3,0 kt af laxi við þau 4,5 kt-5,0 kt af fiski, sem nú fer í gegnum fiskvinnsluna [á ári]."

  Þetta er frábært dæmi um arðbært sambýli hefðbundinnar og rótgróinnar fiskvinnslu annars vegar og laxeldis hins vegar.  Með því að bæta um 60 % við afkastagetuna á ári næst tvöföldun á veltu með aðeins litlum hluta (e.t.v. 25 %) fjárfestingarupphæðar, sem þyrfti að verja í jafnmikla afkastaaukningu í hvítfiski.  Eins og fram kemur hér að neðan, er þar að auki verið að auka verðmæti laxafurðanna frá því, sem áður var, væntanlega um a.m.k. þriðjung.  Þessi nýsköpun er borðleggjandi viðskiptahugmynd.  Það eru furðuviðhorf og afturúrkreistingsleg að hafa allt á hornum sér varðandi atvinnugrein hérlendis, sem býður upp á vaxtarbrodda af þessu tagi.  

"Vegna staðsetningar Fiskvinnslunnar Odda á fiskeldissvæðinu á suðurfjörðum Vestfjarða og nálægðar við stærsta laxasláturhús landsins á fyrirtækið að geta framleitt hágæða flök, sem unnin eru áður en dauðastirðnun laxins hefst.  Afurðir af þeim gæðum eru m.a. eftirsóttar í sushí-rétti um allan heim.

Megnið af íslenzka eldislaxinum er flutt heilt og ferskt í frauðkössum á markaði austan hafs og vestan og einnig til Asíu.  Nokkur fiskvinnslufyrirtæki hafa flakað lax fyrir eldisfyrirtæki eða keypt og flakað á eigin reikning og selt á erlenda markaði.  Fleiri eru að huga að þeim málum. 

Verðmæti laxafurða eykst minna við laxflökun, og kostnaður við hráefnið er hærra hlutfall en við almenna fiskvinnslu.  Þess vegna er mikilvægt, að nýting hráefnisins sé sem bezt og nýttir séu þeir markaðir, sem gefa hæst verð."

Hér er frábært frumkvæði á ferð, þar sem ætlunin er að beita nýjustu tækni til að auka enn verðmæti eldislaxins og skapa um leið fjölbreytileg störf á Vestfjörðum.

"Fiskvinnslan Oddi á Patreksfirði hefur fjárfest í nýjustu og beztu vinnslulínunni, sem nú er völ á hjá Marel, og hefst flökun þar og útflutningur í haust.  Nýting hráefnisins á að verða, eins og bezt verður á kosið.  Vinnslulínan er tölvustýrð og sjálfvirk, allt frá innmötun til hausunar, flökunar, snyrtingar og pökkunar.  Áætlað er, að þörf verði á að bæta við 14-16 starfsmönnum til að vinna úr 2,5 kt - 3,0 kt af laxi á ári."

Það verður góð nýting og nákvæmni búnaðar ásamt hárri framleiðni, sem standa munu undir arðsemi þessara fjárfestinga.  Nýju störfin eru vafalítið ársverk, þ.e. heilsársstörf, með miklu atvinnuöryggi og vel borguð. Framleiðnin, 5,5 störf/kt, er góð. Þetta er ósambærileg atvinnustarfsemi við ferðaþjónustu, sem er gríðarlegri óvissu undirorpin á alla kanta og enda.

Að lokum stóð í þessari frétt: 

"Stjórnendur fyrirtækisins [Odda] og sölumenn eiga mikið verk fyrir höndum. Skjöldur segir, að gríðarlega hörð samkeppni sé á þessum markaði.  Þar eru fyrir á fleti stórar verksmiðjur.  Bindur hann vonir við, að góð nýting og hágæðavara, sem minna framboð er af í heiminum en almennum laxi, skapi fyrirtækinu sérstöðu og hjálpi því að komast inn á markaðinn.  Markaðsstarf er í fullum gangi.  Reiknar Skjöldur með, að hluti af viðskiptavinum fyrirtækisins í hvítfiski kaupi af þeim lax til dreifingar, og vonandi bætist nýir kaupendur við."

 Hér fara saman áræðni frumkvöðulsins, þekking og reynsla af hliðstæðri starfsemi í hvítfiski og skilningur á því, að hagnýting nýjustu innlendrar tækni á þessu sviði sé nægilegt afl til að ryðja nýjum birgi braut inn á bullandi samkeppnismarkað, þar sem meiri gæði vegna hreins umhverfis og minni sýklalyfjagjafar og eiturefnanotkunar (vegna lúsar) geta riðið baggamuninn. 

Þessi viðhorf á Vestfjörðum eru til fyrirmyndar og andstaðan við hjárænuleg viðhorf meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar gagnvart sjókvíaeldi í sjó, sem sami Helgi Bjarnason gerði að umfjöllunarefni tveimur dögum síðar í baksviðsfrétt 22. maí 2020 undir furðufyrirsögninni:

"Bæjarstjórn vill friða fjörðinn".

 Án þess að gefa staðreyndum mikinn gaum hljóp þessi meirihluti upp til handa og fóta og varð að athlægi með yfirlýsingu, sem einkennist af þröngsýni, þekkingarleysi og fordómum í garð sjókvíaeldis á laxi.  Bar hann fyrir sig hinn fáránlega frasa, að náttúran eigi að njóta vafans, en leggur um leið blessun sína yfir komur farþegaskipa til Eyjafjarðar, sem þó eru gríðarlegir mengunarvaldar.  Barninu er þarna kastað út með baðvatninu.  Í stað þess að leita til Hafrannsóknarstofnunar um ráðgjöf, þá er öllu laxeldi, einnig í lokuðum kvíum, einstrengingslega hafnað.  Þar setti yfirvöld Akureyrar, þess góða og snotra bæjar, niður.

Helgi Bjarnason hóf baksviðsfrétt sína þannig:

"Meirihluti fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að leggja til við sjávarútvegsráðherra, að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi.  Meirihlutinn klofnaði við afgreiðslu tillögunnar, því að tveir fulltrúar hans samþykktu tillöguna ásamt öllum fulltrúum minnihlutans, en fjórir fulltrúar úr meirihlutanum sátu hjá og lögðu til mildari leið.

Skoðanir eru skiptar í Eyjafirði um sjókvíaeldi.  T.d. var unnið að því í Fjallabyggð að koma upp aðstöðu til rekstrar fiskeldis frá höfninni í Ólafsfirði.

Nokkurt fiskeldi var í Eyjafirði fyrir nokkrum árum, en því hefur öllu verið hætt.  Tvö fyrirtæki hafa undirbúið stóreldi í sjókvíum og voru komin áleiðis í rannsóknum og matsferli, þegar ferlið var stöðvað með breytingum á fiskeldislögum á síðasta ári." 

Það er fáheyrt, að eitt sveitarfélag skuli ætla að setja öðru stólinn fyrir dyrnar við nýtingu náttúruauðlinda að lögum, þótt það hafi ekki sjálft áhuga á slíkri nýtingu.  Segja má, að með þessari samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar sé hún komin út fyrir sitt verksvið.  Vinnubrögðin eru óvönduð, hvernig sem á þau er litið. 

"Þau áform, sem lengst voru komin, voru borin fram af norska fyrirtækinu AkvaFuture, sem hugðist koma upp lokuðum sjókvíum innarlega í Eyjafirði á grundvelli nýrrar tækni, sem fyrirtækið hefur hannað og notað við eldi í Noregi.  Ætlunin var að framleiða 20 kt/ár.  Telur fyrirtækið, að minni umhverfisáhrif verði af eldi í lokuðum kvíum af þessu tagi."

Það lýsir einstrengingshætti bæjarstjórnar Akureyrar að hafna samstarfi við þetta framúrstefnufyrirtæki og Hafrannsóknarstofnun um þróun á nýrri eldistækni í Eyjafirði, sem veitt gæti allt að 400 manns fasta vinnu allt árið um kring.  Stjórnmálamenn í krossferð eru illa fallnir til leiðsagnar, hvort sem er á Akureyri eða í Reykjavík.

"Umræðan, sem leiddi til bókunar meirihluta bæjarfulltrúa á Akureyri,  kemur til af því, að landeigendur við austurhluta Eyjafjarðar og ferðaþjónustufyrirtæki hafa sent erindi til sveitarstjórna, þar sem varað er við áhrifum sjókvíaeldis á hagsmuni þeirra.  Einnig kveikti það umræðu, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti í lok marz [2020] aðgerðir á sínu málasviði vegna kórónuveirufaraldursins.  Ein af þeim er að flýta afgreiðslu rekstrarleyfa í fiskeldi, enda gæti það leitt til mikilla fjárfestinga og fjölgunar starfsfólks."

Á tímum, þegar leita þarf öld aftur í tímann til að finna sambærilegan samdrátt hagkerfisins ásamt metatvinnuleysi sökum hruns ferðaþjónustunnar, er alveg einboðið, að stjórnvöld liðki til fyrir efnilegasta vaxtarsprota hagkerfisins, hætti að standa þar á bremsunum, heldur leysi úr læðingi fjármagn, sem bíður eftir að komast í vinnu á þessu sviði.  Það hefur ekki verið sýnt fram á það með haldbærum rökum, að laxeldið skaði aðra starfsemi í landinu.  Starfsgreinar, sem ekki treysta sér til að keppa við laxeldið, t.d. um mannafla, þurfa að hugsa sinn gang áður en vaðið er fram með útilokunarstefnu í afturhaldsanda. 

Helgi Bjarnason hefur eftirfarandi eftir Gunnari Gíslasyni, oddvita sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Akureyrar, flutningsmanni umræddrar tillögu:

"Við viljum frekar láta náttúruna njóta vafans og vernda ásýnd fjarðarins en að taka áhættu, sem við vitum ekki, hver er, og fórna þannig meiri hagsmunum fyrir minni."  

Þessi stefnumörkun var sem sagt skot út í loftið, fullkomlega óupplýst ákvörðun.  Hvernig hefði nú verið að afla sér fyrst þekkingar á téðri áhættu með vandaðri áhættugreiningu í samvinnu við Hafrannsóknarstofnun ?  Ef þessi orð eru ekki algerlega marklaus, hlýtur sami maður að beita sér gegn komu farþegaskipa til Eyjafjarðar, því að þau skemma mjög "ásýnd fjarðarins" og menga ótæpilega, á meðan þau staldra við og sigla inn og út fjörðinn.  Hjá leiðandi stjórnmálamönnum er hægt að gera kröfu um, að það sé "system i galskapet".

Auðvitað er samþykkt af þessu tagi eins og blaut tuska í andlit nágranna, sem vilja þróa sjókvíaeldið.  Í lok téðrar baksviðsfréttar stóð þetta:

"Ólafsfirðingar höfðu vonir um að fá innspýtingu í samfélagið með starfsstöð þar.  Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, telur bókun bæjarstjórnar Akureyrar nokkuð bratta.  Bæjarstjórn Fjallabyggðar hafi viljað horfa til þessarar greinar, eins og annarra, við fjölgun atvinnutækifæra."

Ríkisstjórn, sem horfir nú framan í ríkissjóðshalla upp á mrdISK 500 á tveimur árum og viðskiptajöfnuð í járnum hlýtur að fagna áhuga stjórnenda Fjallabyggðar á nýrri gjaldeyrissköpun og atvinnueflingu.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  

 


Bakkabræður moka ofan í skurð

Það er upp lesið og við tekið, að uppþurrkaðar mýrar valdi meiri losun gróðurhúsalofttegunda en venjulegir móar eða mýrarnar sjálfar. Þó er vitað, að frá mýrum með tiltölulega lágt vatnsyfirborð getur streymt mikið magn metans, CH4, sem er meira en 20 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi, CO2, sem frá nýþurrkuðum mýrum streymir.

Með flausturslegum hætti hefur ríkisvaldið látið undan einhvers konar múgsefjun á grundvelli rangra losunartalna og greitt styrki til að moka ofan í skurði án þess t.d. að mæla losun viðkomandi móa fyrir og mýrar eftir ofanímokstur.  Það er svo mikill breytileiki frá einum stað til annars, að þessi vinnubrögð er í raun ekki hægt að kalla annað en fúsk, og eru þau umhverfisráðuneytinu til vanza.

  Það er líka ráðuneytinu til vanza að hafa ekki nú þegar leiðrétt gróft ofmat á losun uppþurrkaðra mýra á grundvelli nýrra upplýsinga, sem stöðugt koma fram.  Fyrir þessu gerði Hörður Kristjánsson nákvæma grein í Bændablaðinu miðvikudaginn 20. maí 2020.

Í fyrsta lagi er viðmiðunarlengd framræsluskurðanna ekki mæld stærð,  heldur áætluð 34 kkm, sem er að öllum líkindum of langt, t.d. af því að hluti skurða er aðeins ætlaður til að veita yfirborðsvatni frá og á ekki að vigta í þessu sambandi.

Í öðru lagi er áhrifasvæði hvers skurðar reiknað 2,6 falt það, sem nú er talið raunhæft.  Þetta ásamt nokkurri styttingu veldur því, að þurrkaðar mýrar spanna sennilega aðeins 38 % þess flatarmáls, sem áður var áætlað. 

Í þriðja lagi styðst Umhverfisráðuneytið við gögn að utan um losun á flatareiningu þurrkaðs lands, en vísindamenn hafa bent á, að hérlendis er samsetning jarðvegar allt önnur, og meira steinefnainnihald hér  dregur úr losun.  Umhverfisráðuneytið notar stuðulinn 2,0 kt/km2=20 t/ha, en höfundur þessa pistils telur líklegra gildi vera 40 % lægra og nema 1,2 kt/km2. Er það rökstutt með tilvitnunum í vísindamenn í þessum pistli.

Í fjórða lagi hefur verið sýnt fram á, að jafnvægi niðurbrots hefur náðst 50 árum eftir uppþurrkun.  Þar verður þá engin nettó losun.  Höfundur þessa pistils áætlar, að nettó losunarflötur minnki þá um 38 % niður í 1,0 kkm2, og er það sennilega varfærin minnkun, sbr hér að neðan.

Þegar nýjustu upplýsingar vísindamanna eru teknar með í reikninginn, má nálgast nýtt gildi um núverandi losun gróðurhúsalofttegunda frá uppþurrkuðum mýrum þannig (áætluð heildarlosun):

  • ÁHL2=1,0 kkm2 x 1,2 kt/km2=1,2 Mt CO2eq

Gamla áætlunin er þannig (og var enn hærri áður):

  • ÁHL1=4,2 kkm2 x 2,0 kt/km2=8,4 Mt CO2eq

Nýja gildið er þannig aðeins 14 % af því gamla, og er sennilega enn of hátt, sem gefur fulla ástæðu til að staldra við og velja svæði til endurvætingar af meiri kostgæfni en gert hefur verið og minnka umfangið verulega.  Þessi losun er ekki stórmál, eins og haldið hefur verið fram af móðursýkislegum ákafa.

Grundvöll þessa endurmats má tína til úr Bændablaðsumsumfjölluninni, t.d.:

"Þá hafa bæði dr Þorsteinn Guðmundsson, þá prófessor í jarðvegsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, og dr Guðni Þorvaldsson, prófessor í jarðrækt við LbhÍ, bent á í Bændablaðinu mikla óvissu varðandi fullyrðingar um stærð mýra og losun."

Þeir hafa m.a. bent á, að ekki sé nægt tillit tekið til "breytileika mýra og efnainnihalds".  Af þessum sökum er nauðsynlegt að mæla losun í hverju tilviki fyrir sig til að rasa ekki um ráð fram.  Í grein í Bbl. í febrúar 2018 skrifuðu þeir ma.:

"Íslenzkar mýrar eru yfirleitt steinefnaríkari en mýrar í nágrannalöndunum, m.a. vegna áfoks, öskufalls, mýrarrauða og vatnsrennslis í hlíðum, og lífrænt efni er að sama skapi minna."

"Þá benda þeir á, að samkvæmt jarðvegskortum LbhÍ og RALA sé lítill hluti af íslenzku votlendi með meira en 20 % kolefni, en nær allar rannsóknir á losun, sem stuðzt hafi verið við, séu af mýrlendi með yfir 20 % kolefni."

""Það þarf að taka tillit til þessa mikla breytileika í magni lífræns efnis, þegar losun er áætluð úr þurrkuðu votlendi", segir m.a. í greininni." 

"Þorsteinn og Guðni telja líka, að mat á stærð lands, sem skurðir þurrka, standist ekki.  Í stað 4200 km2 lands sé nær að áætla, að þeir þurrki 1600 km2.  Þá sé nokkuð um, að skurðir hafi verið grafnir á þurrlendi til að losna við yfirborðsvatn, þannig að ekki sé allt grafið land votlendi.  Mat sitt á umfangi votlendis byggja þeir m.a. á því, að algengt bil á milli samsíða framræsluskurða á Íslandi sé 50 m, en ekki 130 m, eins og miðað er við í útreikningum, sem umhverfisráðuneytið hefur greinilega byggt á.  Áhrifasvæði skurðanna geti því vart verið meira en 25 m, en ekki 65 m út frá skurðbökkum."

Áhrifasvæði skurðanna er lykilatriði fyrir mat á losun frá uppþurrkuðum mýrum. Umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun virðast hafa kastað höndunum til þessa grundvallaratriðis áður en stórkarlaleg losun gróðurhúsalofttegunda var kynt með lúðraþyt og söng.  Miðað við auðskiljanlegan rökstuðning ofangreindra tveggja vísindamanna er líklegt flatarmál uppþurrkaðra mýra hérlendis aðeins 38 % af handahófskenndu opinberu gildi.  Þetta er óviðunandi frammistaða opinberra aðila.  Betra er að þegja en að fara með fleipur.

Hugsandi fólk hefur áttað sig á því, að niðurbrot lífrænna efna í uppþurrkuðum mýrum hlýtur að taka enda, og þar af leiðandi er stór hluti þeirra orðinn áhrifalaus á hlýnun jarðar.  Þetta er staðfest í neðangreindu:

"Í meistararitgerð Gunnhildar Evu Gunnarsdóttur við Háskóla Íslands frá 2017 var reynt að meta losun kolefnis í þurrkuðum mýrum.  Niðurstöður hennar benda til, að losun sé mest fyrstu árin, en sé síðan hlutlaus að 50 árum liðnum. Það er ekki í samræmi við þær viðmiðunartölur, sem yfirvöld á Íslandi styðjast við í sínum aðgerðaráætlunum.  Það þýðir væntanlega, að losunartölur geti verið stórlega ýktar og mokstur í stærstan hluta skurða á Íslandi kunni því að þjóna litlum sem engum tilgangi.  Jarðraskið, sem af því hlýzt, gæti hins vegar allt eins leitt til aukinnar losunar."

Hér er kveðið sterkt að orði, en allt er það réttmætt, enda reist á rannsóknum kunnáttufólks á sviði jarðvegsfræði.  Höfundur þessa pistils dró aðeins úr virkum losunarfleti um 38 % (minnkaði 1600 km2 í 1000 km2), sem er mjög varfærið, sé ályktað út frá tilvitnuðum texta hér að ofan.  Umhverfisráðuneytið virðist þess vegna vera á algerum villigötum, þegar það básúnar heildarlosun frá þurrkuðum mýrum, sem er a.m.k. 7 falt gildið, sem nokkur leið er að rökstyðja út frá nýjustu niðurstöðum í þessum fræðaheimi.  Taka skal fram, að mun meiri rannsóknir og mælingar eru nauðsynlegar á þessu sviði áður en nokkurt vit er í að halda áfram ofanímokstri skurða til að draga úr hlýnun jarðar.    

 

 


Hömlulosun

Ætíð er fengur að blaðagreinum Jóhannesar Loftssonar, verkfræðings.  Hann setur oftast fram frumleg og vel rökstudd sjónarmið.  Oft fjallar hann um það, sem efst er á baugi.  Allt á þetta við um Morgunblaðsgrein hans 

"Sumarið er tíminn".

Þar leggur hann til með rökstuddum hætti, að opna ætti landið nú þegar án sýnatöku og greiningar við komuna.  Hann nefnir ekki tilmæli yfirvalda um smitrakningarapp í farsíma ferðamanna, enda kostar slíkt fjárhagslega lítið, og Persónuvernd er búin að leggja blessun sína yfir gjörninginn með þeim varnöglum, sem þar eru. (Áður var reyndar svo að skilja, að appið yrði krafa.)

Við upphaf greinarinnar veltir Jóhannes vöngum yfir þróun bóluefnis.  Hann færir fyrir því rök, að það muni ekki vera væntanlegt á næstunni:

"Þróun bóluefnis fyrir kórónuvírus er vandasamt verkefni.  Slíkt bóluefni hefur aldrei verið þróað fyrir þessa tegund vírusa og óvíst er, hvort það takist frekar en fyrir HIV-vírusinn. Ef það tekst, mun þróunin alltaf taka langan tíma, enda er að mörgu að huga, þegar heilbrigt fólk er "sýkt" með bóluefni.  Bæði þarf að tryggja, að lækningin sé ekki hættulegri en sjúkdómurinn, og verndin, sem bólusetningin veitir, sé nægjanleg, til að áhættan borgi sig.  Óhætt er að segja, að fyrstu væntingar yfirvalda um skjóta úrlausn á kórónufaraldrinum fyrir lok maí [2020] hafi verið óskhyggja.  Nú sjá flestir, að langt er í bóluefni, og gefur framtíðarsýn Lyfjastofnunar Evrópu til kynna, að ár sé í slíkt, ef það þá yfirhöfuð finnst."

 Hafi einhver talið, að vandamál samfara SARS-CoV-2 veirunni á heimsvísu mundu hverfa í maí 2020, er sá hinn sami ekki með báða fæturna á jörðunni.  Þótt veiran hverfi af Íslandi í maí, sem gerðist ekki alveg, þá er hún grasserandi í mörgum löndum, sem við eigum í miklum samskiptum við og verðum að hefja eðlileg samskipti við eigi síðar en 15. júní 2020, ef efnahagurinn á að eiga sér viðreisnar von á næstunni. Nú hefur dómsmálaráðherra tilkynnt, að við munum fylgja Evrópusambandinu (Schengen) að málum, sem ætlar ekki að opna ytri landamæri sín fyrr en í fyrsta lagi 1. júlí 2020.

Bólusetning kann að vera moðreykur einn, því að áhættulítið bóluefni verður varla komið í almenna dreifingu fyrr en 2022 (og verður líklega rándýrt), og þar sem téð veira er "ólíkindatól", kann hún að hafa breytzt nægilega, þegar þar kemur sögu, til að bóluefni virki ekki sem skyldi.  Vona verður, að breytingarnar verði hvorki í átt til meira smitnæmis né þungbærari sýkinga. Venjulega hafa stökkbreytingar virkað til minni skaðsemi þessara veira, en það flýgur fjöllunum hærra, að þessi sé manngerð.  

Hins vegar hafa verið gerðar rannsóknir á virkni veirulyfs, sem beitt hefur verið gegn malaríu og eyðni með góðum árangri, á COVID-19 sjúkdóminn, og gefa niðurstöður til kynna, að sjúklingunum batni fyrr og dauðsföllum fækki mikið.  Ekki var getið um aukaverkanirnar.  Heilbrigðisyfirvöld í mörgum löndum eru nú að leyfa notkun þessa lyfs gegn COVID-19, og mun því áreiðanlega verða beitt hérlendis og annars staðar í Evrópu, ef önnur bylgja faraldursins ríður hér yfir.  

 

 "Lág dánartíðni er ekki það eina, sem svipar með kórónuveiki og flensu.  Vísbendingar eru þegar komnar fram um, að árstíðasveiflur séu í kórónusmitum líkt og þekkt er fyrir flensu.  Á sama tíma og hægt hefur á smitum á norðurhveli jarðar, hefur orðið stökk í smitum í nokkrum löndum á suðurhveli (Síle, Argentínu og Suður-Afríku) samhliða því, að vetur hefur gengið í garð."

 Rúmlega 1800 manns er vitað til, að smitazt hafi hérlendis.  Það er aðeins um 0,5 % íbúanna.  Slembiúrtak ÍE gaf til kynna innan við 1 % smit, en mælingar á ónæmisefnum í blóði bentu til 1,5 %. Það er trúlegt, að þrefalt fleiri hafi smitazt en skráðum smitfjölda nemur.  Sóttvarnalæknir hefur nefnt, að smitfjöldi gæti numið allt að 5 % þjóðarinnar.  Ef svo er, nemur fjöldi dauðsfalla af völdum COVID-19 sjúkdómsins aðeins 0,05 % smitaðra, sem er sambærilegt við venjulegan flensufaraldur.  Í ljósi þessa virðast viðbrögð yfirvalda vítt og breitt um heiminn hafa verið úr hófi fram.  Annars konar áherzlur verður að leggja við næsta sambærilega faraldur.  Beitt hefur verið aðgerðum, sem viðeigandi væru væntanlega við ebólu. 

Þjóðverjar náðu góðum árangri með viðbrögðum sínum.  Þeir notuðu sýnatökur og greiningar til að beina athyglinni að miklum smitstöðum.  Sláturhús landsins reyndust slíkir staðir.  Ástæðan er sú, að þessi kórónuveira þrífst vel og lifir lengi á köldu yfirborði, og kemur þetta heim og saman við skrif Jóhannesar hér að ofan. Hann reit reyndar fleira athyglisvert um áhrif hitastigs og rakastigs:

"Loftraki er einn stærsti áhrifaþáttur í skaðsemi flensu á veturna.  Kalt vetrarloft verður mjög þurrt, þegar það er hitað upp innandyra.  Í þurru lofti endast vírusar lengur, og smitdropaagnir verða minni, þannig að þær svífa lengur í loftinu og smita því lengur. Einnig er varnarkerfi líkamans gegn smiti mun veikara í þurru lofti, og smit minni dropa berast dýpra í öndunarfærin og virðast hættulegri.  

Hlýtt smuarloft ber margfalt meiri raka en kalt vetrarloft.  Það lokar þannig á smitleiðir og eflir náttúrulegar varnir líkamans.  Einnig hjálpar til, að með hækkandi sól batnar D-vítamínstaða líkamans, sem hefur sýnt sig að gagnast gegn kórónuveikinni.  Þessi liðsauki gerir sumarið að bezta tímanum til að eiga við þessa óværu."

Með þessum upplýsingum er Jóhannes að reisa stoðir undir þá ráðleggingu, að nú sé rétti tíminn til að opna landamærin og leyfa óhefta starfsemi í hverju landi um sinn.  Með þessu má draga úr gríðarlegu efnahagstjóni, sem annars er fyrirsjáanlegt, og verður það þó óhjákvæmilega mjög mikið. Jóhannes hélt áfram: 

"Í ljósi þess gríðarlega skaða, sem öll hindrun á komu erlendra ferðamanna mun hafa á möguleika Íslendinga til að takast á við þá erfiðu tíma, sem fram undan eru, er afar mikilvægt, að gengið sé sem vasklegast fram við að opna landið sem fyrst, [á] meðan sumarið er með okkur í liði.  Þó að einhver viðbótar smit berist hingað með sumum þeirra, eru sterkar líkur á, að slíkt verði ekki til vandræða, því [að] ef það er rétt hjá sóttvarnalækni, að allt að 5 % Íslendinga hafi smitazt fram að þessu, þýðir það, að 90 % allra smita á Íslandi urðu til og hurfu af sjálfu sér, án þess að nokkur tæki eftir.  Ef smit verða mildari með hækkandi sól, mun þetta hlutfall skaðlausra smita hækka enn meira á næstu mánuðum."

Þetta er mikilvæg röksemdafærsla.  Þótt hæpið sé, að um sé að ræða svo víðtæk smit í samfélaginu, sem þarna kemur fram, má hiklaust reikna með, að a.m.k. annar hver smitaður hafi ekki orðið var við smit sitt.  Þegar þar við bætist, að 80 % hinna, sem verða varir við einkenni, veikjast aðeins vægt og það hlutfall er sennilega hærra að sumarlagi, virðist áhættan vera svo lítil, að vert sé að taka hana.

Þar sem dánartíðni hefur verið hæst, hefur mistekizt að vernda viðkvæma hópa.  Það verður þess vegna áfram að gæta ýtrustu varkárni gagnvart þeim.  Þetta á við alla þá, sem eru með veiklað ónæmiskerfi eða lítið mótstöðuþrek gagnvart sjúkdómum almennt.  Þetta á t.d. við um dvalarheimili aldraðra og sjúkrahúsin. 

Síðan heldur Jóhannes því fram, og hér skal undir það taka, að farsælast sé að opna landið strax alveg án allra óþarfa og íþyngjandi takmarkana:

"Þær rándýru prófanir, sem yfirvöld ætla að gera á hverjum ferðamanni, eru vanhugsaðar.  Í fyrsta lagi geta slíkar prófanir aldrei tryggt, að smit berist ekki hingað til lands.  Enn verra er þó, að með því að halda vírussmiti niðri yfir sumartímann, [á] meðan auðvelt er að eiga við sjúkdóminn, er verið að flytja vandann yfir á næsta haust, þegar smithætta vex og smit verða lífshættulegri.  Aukið ónæmi yfir sumarið mun draga úr hættunni, sem skapast næsta haust."

Misvísandi upplýsingar hafa borizt um kostnaðinn við sýnatökur og greiningar vegna COVID-19.  Frá Sýkla- og veirufræðideild Landsspítalans, Karli G. Kristinssyni, hafa borizt upplýsingar um tækni, sem lækki kostnaðinn niður í kISK 5-6/greiningu, en við kynningu á þessum valkosti við sóttkví var nefnd talan kISK 50/greiningu.  Ætlunin er að láta þennan kostnað falla á ríkissjóð fyrst um sinn, en síðan að taka kISK 15 gjald af hverjum ferðamanni.  Ætla yfirvöld einhverra annarra þjóða að leggja út í þessa miklu fyrirhöfn með takmörkuðum ávinningi ?  Þessar tafir og óþægindi fyrir ferðamenn auk kostnaðarbyrðar virðast ekki vera réttlætanlegar.  

 

 

 

 

 

 

 


Þingmaður stingur á kýli

Sjálfstæðasti þingmaðurinn á núverandi Alþingi, Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti máls á ófremdarástandi skipulagsmála verklegra framkvæmda í innviðum á Íslandi í Morgunblaðsgrein 20. maí 2020:

"Tafaleiðir framkvæmda og stjórnun í þágu fjöldans".

  Í mörgum tilvikum þvera þessir innviðir fleiri en eitt sveitarfélag, og slík tilvik eru skipulagslega erfiðust.  Hér er um að ræða klúður löggjafans, sem hann verður að bæta úr.  Hann verður að einfalda og straumlínulaga þetta ferli, sem er allt of dýrt í framkvæmd.  Sumir ráðherranna hafa verið að grisja reglugerðarfrumskóginn frá ráðuneytum sínum, þótt sparnaðurinn af því nemi aðeins broti af því, sem sparast mundi með einföldun að hætti Ásmundar. 

Grein sína hóf Ásmundur á því að minna á, hversu léttvægar gjörðir mannanna eru enn gagnvart náttúruöflunum, og innviðaframkvæmdir snúast nú á dögum í mörgum tilvikum um að auka nothæfni innviða, þegar verulega reynir á þá, t.d. vegna náttúruaflanna.  

"Í vetur hafa náttúruöflin svo sannarlega minnt okkur á, hvaða kraftar það eru, sem raunverulega ráða ríkjum.  Veikleikar í raforkukerfinu, sem Landsnet hefur í mörg ár bent á, voru afhjúpaðir.  Samgöngur stöðvuðust, og hefur Öxnadalsheiðin til dæmis verið ófær 12 sinnum í vetur.  Þá lágu fjarskipti niðri."

Nú er ekki víst, að lokið væri nýrri 220 kV Byggðalínu alla leið frá Klafastöðum í Hvalfirði og til Hryggstekks í Skriðdal, þótt nýtt straumlínulagað skipulags- og leyfisveitingaferli hefði verið við lýði í t.d. 5 síðastliðin ár, en hún hefði örugglega verið komin vel á veg, sem hefði hugsanlega nýtzt til að draga úr því stórtjóni, sem varð á Norður- og Austurlandi í vetur vegna mjög langdregins straumleysis.  Fjarskiptin lágu niðri vegna straumleysis, þó í allt of langan tíma, en það er önnur sorgarsaga.

Síðan bendir Ásmundur á, að kerfið sjálft fari ekki að lögum, heldur hundsi tímafresti mjög gróflega.  Í raun ætti kerfið að vera þannig, að opinberar stofnanir komist ekki upp með að taka sér lengri afgreiðslutíma en áskilinn er í lögum. Ef ekkert gerist í máli að áskildum tíma liðnum hjá viðkomandi stofnun, sé viðkomandi tillaga eða umsókn talin samþykkt, og málið haldi þannig áfram í ferlinu. Ásmundur hélt síðan áfram:

"Uppi er gríðarlegur vandræðagangur við uppbyggingu og viðhald raforku- og vegakerfisins í landinu.  Sérlega verndað umhverfi hefur skapazt, þar sem stöku sveitarfélög, hagsmunasamtök og einstaklingar, geta leyft sér að troða á hagsmunum samfélagsheildarinnar, þrátt fyrir að málefnaleg rök liggi fyrir um nauðsynlega uppbyggingu grunninnviða okkar. Þetta eru ára- og áratugalangar tafir.  Við búum við svo margflókið kerfi leyfisumsókna og kæruferla, að ekkert nágrannaríki okkar býr við annan eins reglufrumskóg.  Hér verða rakin raunveruleg dæmi, sem Landsnet hefur þurft að þreyta í gegnum kerfið mánuðum og árum saman, langt fram úr öllum lögbundnum frestum áður en hægt er að byrja hina eiginlegu vinnu við framkvæmdina.  Þá hafa sveitarstjórnir nýtt sér tafaleiðir laganna þrátt fyrir að hafa áður samþykkt kerfisáætlun Landsnets."

Þetta er ljót lýsing á hegðun Skipulagsstofnunar, nokkurra sveitarfélaga og félagasamtaka, sem brugðið hafa fæti fyrir framfaramál.  Ef skýr rök eru fyrir hendi um notagildi eða jafnvel nauðsyn opinberrar framkvæmdar, þá eiga að vera mjög þröngir tafamöguleikar fyrir hendi, eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa innleitt hjá sér.  Hvernig stendur á því, að hér hafa flækjufætur komið ár sinni rækilega fyrir borð, svo að laga- og reglugerðafrumskógur um téðar framkvæmdir er hreinn óskapnaður ?

"Tökum sem dæmi Reykjanesbrautina, þar sem nú er unnið að því að ljúka tvöföldun brautarinnar, sem er um 50 km löng að Hafnarfirði. Lokaáfanganum, 5 km kafla frá Hvassahrauni að Krísuvíkurafleggjara, hefur verið breytt í samræmi við nýtt aðalskipulag Hafnarfjarðar innan iðnaðarsvæðis, og þarf breytingin að fara í kerfislega þungt, langt og rándýrt umhverfismat þrátt fyrir augljósan kost við breytinguna."

Umræddur kafli færist frá því að eiga að fara ótroðnar slóðir sunnar og að gamla veginum.  Heilbrigð skynsemi kallar ekki á umhverfismat fyrir slíka breytingu.  Löggjafinn verður að opna á skemmri skírn greinargerðar um umhverfisáhrif, þegar í raun er eingöngu verið að breikka gamlan veg eða annað sambærilegt.  Það er engu líkara en kerfissnötum hafi í sumum tilvikum tekizt að búa til algerlega óþörf verkefni í tengslum við framkvæmdir.

Að lokum skrifaði Ásmundur: 

 "Líkt og ég hef rakið hér að framan, er ljóst, að kerfið er ekki í neinu samræmi við almennan vilja í samfélaginu.  Það er því nauðsynlegt, að endurskoðun laganna horfi til einföldunar, svo að fámennir hópar geti ekki stöðvað eða tafið framkvæmdir, sem varða afkomu og lífsgæði íbúa á heilum landsvæðum árum og áratugum saman."

 

 


Orkumál í deiglu

Nú hefur olíu- og gasverð á heimsmarkaði rúmlega helmingazt og raforkuverð u.þ.b. helmingazt.  Á þessu verður vart mikil breyting í bráð, því að allir vita, að lágt orkuverð mun mjög flýta fyrir efnahagsbatanum, nema í olíu- og gasframleiðslulöndunum. 

Það hefur lengi verið stefnumið Evrópusambandsins, að orkuverð sé hátt, þótt kalla megi Evrópu orkusnauða af náttúrunnar hendi. ESB hefur því rekið upp á sker í orkumálum, eins og í fleiri mikilvægum málum, þar sem Sambandið virðist vera komið á endastöð. 

Hvers vegna hefur ESB rekið þessa stefnu, sem hefur reynzt íbúunum dýrkeypt og verið dragbítur á hagvöxt innan ESB ?  Hátt orkuverð átti að tryggja nægar fjárfestingar einkageirans í orkuvinnslu til að hindra aflskort.  Eldsneytismarkaðurinn hefur svo séð um, að næg orka væri fyrir hendi.  

Hátt orkuverð átti líka að beina fjárfestingum í endurnýjanlegar orkulindir, sem eru enn dýrari á hverja MWh en eldsneytisstöðvarnar.  Þessi stefna er ágætlega samþættanleg metnaðarfullri markmiðssetningu ESB varðandi losun gróðurhúsalofttegunda.  Ljóst er, að losun gróðurhúsalofttegunda mun minnka miklu meira alls staðar í heiminum en ráð var fyrir gert árið 2020 og líklega einnig 2021 án beitingar skattalegra þvingana á borð við síhækkandi gjald fyrir losun koltvíildis, CO2, umfram heimildir, eða háa opinbera gjaldtöku af rafmagni til almennings.  Hagkerfi heimsins hafa öll veikzt umtalsvert, og þá er spurning, hvort stjórnmálamenn telji sig hafa umboð lengur til íþyngjandi ráðstafana vegna losunar út í andrúmsloftið. Mál málanna víðast hvar verður að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang og fólki aftur til starfa.  Ný verðmætasköpun mun vonandi spretta fram, og jafnvægi verða komið á rekstur ríkissjóðs að nýju á fyrri hluta næsta kjörtímabils ásamt minnkun skulda hans.  Að öðrum kosti stöndum við of berskjölduð gagnvart næsta efnahagsáfalli, sem mun mjög líklega verða innan áratugar af hvaða tagi, sem það verður.  

Elías Elíasson, sérfræðingur í orkumálum, skrifaði fróðlega grein um orkumálin að vanda í Morgunblaðið 13. nóvember 2019, sem hann kallaði:

"Rautt viðvörunarljós".

Segja má, að umfjöllunarefnið sé, hversu illa orkustefna ESB, eins og hún birtist í orkulöggjöf Sambandsins, s.k. orkupökkum 1-4, samræmist íslenzkum þjóðarhagsmunum.  Verður nú vitnað í greinina:

"ESB ásælist ekki eignarrétt yfir orkulindunum, heldur stjórnun orkuvinnslunnar eftir sínum þörfum.  ESB vill ekki takmarka rétt okkar til að nýta orkulindirnar, heldur tryggja, að fjárfestar innan EES hafi þar sömu tækifæri og opinberu íslenzku fyrirtækin."

Þetta er að mati pistilhöfundar kjarni orkupakkamálsins og nauðsynlegt að átta sig á honum.  Með Orkupakka 3 (OP#3) öðlaðist ESB ítök í stjórnkerfi landsins á sviði orkumála með sérstökum fulltrúa sínum, Landsreglara, sem á Íslandi gegnir einnig starfi Orkumálastjóra, en er í Noregi sjálfstætt embætti, RME (Reguleringsmyndighet for energi), til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur.  RME rekur þá stefnu ESB, en norski Orkumálastjórinn mun starfa í anda norsku kenningarinnar um "handlingsrommet", "aðgerðasvigrúm" Norðmanna gagnvart Evrópuréttinum. 

Landsreglarinn situr í samkundu landsreglara allra EES-landanna, sem starfar innan vébanda ACER (Orkustofnunar ESB).  Þar er framkvæmd orkulöggjafar ESB samræmd og ágreiningsmál um fyrirkomulag og rekstur samtenginga á milli landa rædd. Ný reglugerð, (ESB) 2019/942, sem er endurskoðuð reglugerð um ACER, er hluti af OP#4.  EES/EFTA metur nú, hvort hún á erindi inn í lagasafn EFTA-ríkjanna í EES.  Hún felur í sér aukna valdtilfærslu frá aðildarlöndunum til ACER og gæti þar af leiðandi valdið lagalegum og stjórnmálalegum ágreiningi í Noregi og á Íslandi.  Eigi síðar en í september 2021 verða þingkosningar í báðum löndunum, og fáir munu hafa hug á að bæta OP#4 við deilumál í kosningabaráttunni. 

Stjórnun orkuvinnslunnar eftir þörfum ESB þýðir einfaldlega markaðsvæðingu hennar, þannig að orkan fari til hæstbjóðanda hverju sinni. Þeir, sem borið geta hæst orkuverð, eru að öðru jöfnu þeir, sem eru með starfsemi sína næst mörkuðum sínum. Allt ber að sama brunni.  Kerfið þjónar ekki hagsmunum jaðarríkjanna. 

Raforkuverðið hefur að sjálfsögðu hrunið á uppboðsmörkuðum ESB, t.d. Nord Pool, í "Kófinu", enda hefur eftirspurnin lamazt.  Nú er Landsnet að hanna uppboðsmarkað fyrir Ísland með hjálp aðallega erlends ráðgjafa, og hafa margir áhyggjur af því, hvernig til muni takast, í ljósi samsetningar íslenzka markaðarins. Slæm niðurstaða yrði hækkun raforkuverðs til heimila og atvinnurekstrar á þessum markaði. 

Hitt atriðið, að ESB vilji með orkulöggjöf sinni og Landsreglara tryggja jafnræði allra áhugasamra fjárfesta við innlenda aðila, ekki sízt opinber fyrirtæki, er sýnu alvarlegra.  Norska ríkisstjórnin með stuðningi Stórþingsins hefur einarðlega hafnað þessu, en sú íslenzka ekki.  Það er afar slæm staða. 

"Samkvæmt skilningi ESB á EES-samningnum skulu öll samskipti hins opinbera við aðila á raforkumarkaði og í raforkuvinnslu byggjast á markaðslögmálum og tryggt skal vera, að markaðurinn starfi óáreittur af hálfu hins opinbera.  ESB hagræðir síðan viðskiptareglum og kostnaðarforsendum raforkumarkaðarins til að ná fram sínum markmiðum.  Eins og í öllu öðru, sem EES-samninginn varðar, er aðeins tekið eitt skref í einu, þar til við ráðum ekki lengur eign okkar, orkulindunum."  (Undirstr. BJo.)

   ESB aftengir með löggjöf sinni bein áhrif og stjórnun ríkis og sveitarfélaga á raforkumarkaðnum. Norðmenn hafa farið í kringum þetta, væntanlega á grundvelli kenninga sinna um "aðgerðasvigrúm" og niðurgreitt stórlega orkuverð til stóriðju undanfarin misseri úr opinberum sjóðum.  Það er þess vegna engin goðgá, að eignarhaldi hins opinbera á orkufyrirtækjum hérlendis sé beitt í sama augnamiði, enda tíðkast enn ýmis opinber inngrip í orkumarkaðinn í Evrópusambandinu sjálfu. Síðasta málsgrein Elíasar hér að ofan er mjög umhugsunarverð fyrir íslenzka fullveldissinna.  Ísland verður í raun nýlenda þeirra erlendu afla, sem ná að klófesta stjórnun auðlinda landsins, t.d. fiskveiða og orkulinda. 

Síðan gerði Elías að umtalsefni samþykkt ríkisstjórnarinnar 19.05.2016 á kröfu ESA um markaðsvæðingu nýtingarréttar hins opinbera á landi og auðlindum þess, t.d. orkulindum.  Þessi eftirgjöf íslenzkrar ríkisstjórnar er reginhneyksli, enda tóku Norðmenn algerlega öndverðan pól í hæðina gagnvart sams konar kröfu ESA og höfnuðu henni einfaldlega.  Hér hafa Nefjólfssynir sótt í sig veðrið á seinni árum, en Þveræingar andæfa. 

 "Það er erfitt að sjá, hvernig þessum úrskurði [ESA] verður framfylgt án þess að bjóða vinnsluleyfi fyrir raforkuver út innan EES, þannig að erlendir fjárfestar geti keppt á jafnræðisgrundvelli við íslenzk fyrirtæki í almannaeigu.  Það er ekki alveg í samræmi við hugmyndir almennings um full yfirráð yfir orkulindunum."

Þetta er hárrétt athugað, og það er alveg með ólíkindum, ef íslenzk stjórnvöld hafa ekki áttað sig á þessu í maímánuði 2016, þegar þau samþykktu að framfylgja úrskurði ESA á Íslandi, sem jafngildir að gefa öflugum erlendum orkufyrirtækjum tækifæri til að klófesta íslenzkar orkulindir í opinberri eigu í nafni markaðsvæðingar orkugeirans og frjálsrar samkeppni, eins og orkulöggjöf ESB kveður á um.  Íslenzk stjórnvöld eru ekki svo skyni skroppin, að þau hafi ekki áttað sig á afleiðingum þessa ESA-úrskurðar.  Þau skulda Alþingi og þjóðinni allri útskýringar á því, hvað þeim gekk til að gangast við úrskurði, sem opnar greiða leið að afsali yfirráða yfir íslenzkum orkulindum í hendur erlendum lögaðilum, sem lúta lögsögu Evrópuréttar. Föðurlandssvik hafa verið nefnd af minna tilefni.   

Í lok tímabærrar greinar sinnar, reit Elías:

"EES-samningurinn er lifandi samningur og tekur tíðum breytingum með nýjum og breyttum reglugerðum.  Úrskurðir ESA og dómar EFTA-dómstólsins hafa mikið gildi og stundum óvænt áhrif. Alþingi taldi, að orkulindir Íslands hefðu fulla vernd í EES-samningnum, en nú er ESB á annarri skoðun.  Hafi ekki við samþykkt EES-samningsins verið í honum fótfesta fyrir ásókn ESB í íslenzkar orkulindir, þá er svo nú.  Þarna logar stórt, rautt viðvörunarljós.  Við þessar aðstæður verður smáríki, eins og Ísland, að gæta vel að fullveldi og yfirráðum yfir auðlindum sínum." 

Frá tímanum, þegar gengið var frá EES-samninginum, 1992-1993, hefur ESB tekið miklum breytingum, og nægir að nefna stjórnarskrárígildið - Lissabonsáttmálann, þar sem Evrópusambandinu voru færðar heimildir gagnvart orkumálum aðildarlandanna, og er síðari tíma orkulöggjöf Sambandsins reist á þessum heimildum.  Þá má nefna dómsuppkvaðningu EFTA-dómstólsins, sem er bundinn við Evrópurétt og dómafordæmi ESB-dómstólsins, um eignfærslu norskra vatnsréttinda og virkjana frá einkafyrirtækjum, oft í eigu erlendra fyrirtækja, til norska ríkisins, án bóta eftir 65-80 ár í rekstri.  Þetta dæmdi EFTA-dómstóllinn óleyfilega mismunun eignarhaldsfyrirkomulags, en Norðmenn eru sleipir og beittu "aðgerðasvigrúmi" sínu til að taka bitið úr þessum dómi.  Þeir settu lög um lágmarkseignarhaldshlutfall ríkisins í vatnsréttindum og virkjunum yfir ákveðinni stærð, og hvorki ESB né Carl I. Baudenbacher hafa gert opinbera athugasemd við þessa málsmeðferð.  Á Íslandi hefðu þessi gömlu lög um "hjemfallsretten" einfaldlega verið tekin úr sambandi til að þóknast Carl I. Baudenbacher, sbr það að taka lögin frá 2009 um sóttvarnir vegna innflutnings matvæla úr sambandi eftir EFTA-dóm.

Það er hægt að fá það á tilfinninguna, að hérlendis kasti skessur á milli sín fjöreggi fullveldis landsmanna með hlátrasköllum, eins og í þjóðsögunum.  Full yfirráð Alþingis yfir auðlindum Íslands eru grundvöllur raunverulegs fullveldis landsins. 

 


Einhæfni er skaðræði

Hrun ferðaþjónustu á heimsvísu í marz 2020, sem ekki sér fyrir endann á, beinir athyglinni sem aldrei fyrr að mikilvægi fjölbreytilegra gjaldeyristekjulinda landsins.  Þar er hins vegar hægara um að tala en í að komast, enda ber mest á hugmyndum og hugarfóstrum, sem óvíst er, að nokkurn tímann verði barn í brók.  Þess vegna heldur enn fullu gildi sínu sú 60 ára gamla hugmynd að láta orku fallvatnanna knýja orkusækinn iðnað á alþjóðlega samkeppnishæfu orkuverði og skapa þannig landsmönnum verk- og stjórnunarþekkingu, fjárfestingar með erlendu áhættufé og fjölbreytilega vinnu. Málmiðnaðurinn er að vísu um hríð búinn að vera í fjötrum offramleiðslu og niðurgreiðslna frá ríkisverksmiðjum, en hver veit, nema hagur strympu skáni, ef Kínverjar kæra sig ekki um að fara í gamla farið aftur.  

Þann 14. febrúar 2020 gerði Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins, stríð Landsvirkjunar og ISAL/Rio Tinto að umræðuefni og kallar forystugrein sína:

"Störukeppni" .

Hörður er oft nokkuð skarpskyggn á staðreyndir viðskiptalífsins, en í þessari forystugrein fatast honum víða flugið í ljósi raforkuverðs til ISAL, sem er ekki lengur í neinu samræmi við þróun orkuverðs í heiminum né það, sem kalla mætti samkeppnishæft raforkuverð til áliðnaðar.  "Störukeppnin" hófst þannig:

"Þung staða álversins í Straumsvík (ISAL) er ekki ný af nálinni.  Reksturinn hefur verið óarðbær um langt skeið - tap ISAL frá 2016 nemur yfir mrdISK 20 - og framleiðsla álversins var nýlega minnkuð um 15 % vegna taprekstrarins.  [Hún hefur síðan minnkað til muna vegna kera, sem komizt hafa að lokum endingar sinnar og ekki verið endurnýjuð. Ef lyktir nást í viðræðum um nýtt raforkuverð, má búast við aukinni framleiðslu aftur - innsk. BJo.] Endurnýjaður raforkusamningur við Landsvirkjun fyrir um áratug, þar sem orkuverðið var hækkað og tenging við álverð réttilega [svo ?] afnumin, hefur ekki hjálpað til, en aðrir þættir, einkum erfiðleikar á hrávörumörkuðum, skipta meira máli.  [Álverðstenging er hugsuð að gagnast báðum samningsaðilum, þar sem álverð hefur í sögulegu samhengi verið sveiflukennt.  Þetta afnám var eitt af því, sem veikti samkeppnisstöðu ISAL stórlega - innsk. BJo.] Aðföng hafa hækkað í verði, og á sama tíma hefur heimsmarkaðsverð á áli lækkað verulega.  Með stóraukinni álframleiðslu Kínverja, sem niðurgreidd er af þarlendum stjórnvöldum og stendur nú undir um 60 % af álframleiðslu heimsins, hefur rekstrarumhverfi vestrænna álfyrirtækja versnað til muna.  Útflutningur á áli frá Kína hefur farið vaxandi og haldið niðri álverði.  Ólíklegt er, að þessi staða taki breytingum í náinni framtíð, og álverð verður því áfram undir þrýstingi til lækkunar."

Þetta ritaði Hörður Ægisson um miðjan febrúar 2020 áður en menn á Vesturlöndum fóru almennt að íhuga áhrif COVID-19 heimsfaraldursins.  Verð á aðföngum hefur lækkað m.a. vegna helmingunar olíuverðs.  Evrópa mun leggja áherzlu á að verða ekki háð Kínverjum um ál, sem er "strategískur", þ.e. þjóðhagslega- og öryggislega mikilvægur málmur.  Líklegt má telja, að hömlur verði þess vegna settar á framboð, sem augljóslega ekki er á grundvelli frjálsrar samkeppni, og það er líka óvíst, að Kínverjar telji óbreytta ráðstöfun orkunnar heppilega, en vinnsla þessarar raforku hefur yfirleitt gríðarlega mengun lofts, láðs og lagar í för með sér auk myndunar gróðurhúsalofttegunda. 

 "Er hótun Rio Tinto [um lokun ISAL-innsk. BJo]  trúverðug ?  Fyrir liggur, að álverið er skuldbundið til að kaupa að lágmarki um 80 % raforkunnar af Landsvirkjun fram til 2036 óháð því, hvort álverið verði starfrækt.  Fullvíst má telja, að forsvarsmenn álversins hóti málaferlum, komi Landsvirkjun ekki til móts við kröfur álrisans um lægra orkuverð, þar sem látið verður reyna á ákvæði kaupskyldunnar, og hvort móðurfélagsábyrgð sé fyrir hendi.  Mikilvægt er að hafa í huga þá gríðarlegu hagsmuni, sem eru í húfi.  Verðmæti slíkra langtíma raforkusamninga Landsvirkjunar, sem er í eigu landsmanna, hleypur á mörg hundruð milljörðum [ISK].  Lækkun orkuverðs, jafnvel þótt tímabundin væri, myndi þýða, að Landsvirkjun yrði af umtalsverðum fjárhæðum."

Það er ljóst, að sá markaður, sem Landsvirkjun er á, raforkumarkaðurinn, hefur tekið mikla dýfu á heimsvísu undanfarið.  Framboðið er meira en eftirspurnin, og verðið hefur lækkað mikið á rafmagnsmörkuðum, t.d. Nord Pool, þar sem verðið hefur fallið um a.m.k. helming.  Auðvitað getur Landsvirkjun ekki hagað sér, eins og hún sé óháð þróun til lækkunar, en þurfi jafnan að draga dám af tilhneigingu til hækkunar í nágrannalöndunum.  Viðskiptavinir hennar keppa við fyrirtæki, sem njóta nú mikillar lækkunar orkuverðs.  Ef Landsvirkjun ætlar að halda viðskiptavinum sínum, verður hún að fylgja þróun heimsmarkaðar. 

Ef forráðamenn Landsvirkjunar ætla að skáka í skjóli móðurfélagsábyrgðar á kaupum 85 % forgangsorku, taka þeir gríðarlega áhættu.  Lögfræðingateymi Rio Tinto getur dregið fram margvísleg rök, jafnvel óviðráðanleg öfl heimsfaraldurs, sem valdi því, að félagið eigi rétt að alþjóðalögum á að losna undan skuldbindingum sínum gagnvart viðsemjanda, sem ekki virðist hafa gengið að samningaborði í áratug "í góðri trú". 

"Álverið í Straumsvík er ekki eins og hvert annað fyrirtæki á Íslandi.  Það er einn mikilvægasti og verðmætasti viðskiptavinur Landsvirkjunar - nærri fjórðungur af raforkusölu hennar er til álversins [nær þriðjungur teknanna við fulla framleiðslu-innsk. BJo] -  og verði starfsemi þess hætt hér á landi, yrði það mikið efnahagslegt áfall. Álverið stendur undir um mrdISK 60 í útflutningstekjum á ári, og um 500 manns starfa hjá fyrirtækinu. Vandinn, sem Landsvirkjun kann að standa frammi fyrir, nú þegar minni og stærri viðskiptavinir fullyrða, að orkuverðið sé ekki lengur samkeppnishæft, er, að það verði erfitt að finna aðra kaupendur að því magni af orku, sem gæti losnað á næstu árum - einkum nú, þegar áform um sæstreng til Bretlands virðast því miður [svo !] óraunhæfari en áður.  Það er eins gott, að stjórnendur Landsvirkjunar, sem hafa teflt djarft, séu reiðubúnir með plan B.  Ef ekki, er hætta á, að illa geti farið." 

 Þetta eru að mörgu leyti góðar vangaveltur hjá Herði, en varðandi sæstreng til Bretlands er nauðsynlegt að benda Herði og öðrum á, að hann hefur í raun aldrei verið annað en draumórar fjárplógsmanna og spákaupmanna.  Þeir hafa á seinni árum gælt við það, að Evrópusambandið myndi standa straum af lunga kostnaðarins. Eftir COVID-19 mun ESB varla setja þetta verkefni aftur á forgangsverkefnaskrá sína, þótt verkefnisbakhjarlar verði til að óska þess.  Hvað, sem fjármögnuninni líður, getur verkefnið líklega aldrei orðið þjóðhagslega hagkvæmt fyrir landsmenn, sem eiga megnið af orkunni.  Ástæðan eru mikil töp á leiðinni, og alltaf verður meiri verðmætasköpun við nýtingu orkunnar innanlands en hægt verður að fá fyrir beinan útflutning orkunnar. Hafi Landsvirkjun einhvern tímann haft Plan B í þessu máli, er það farið í vaskinn með COVID-19.

Þann 7. maí 2020 skrifaði Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, grein í Morgunblaðið, sem hún nefndi:

"Landsvirkjun sýnir stuðning í verki".

Hún hófst þannig:

"Viðskiptavinir Landsvirkjunar á stórnotendamarkaði munu njóta sérstakra kjara í 6 mánuði, frá 1. maí til 31. október 2020.  Öllum stórnotendum, sem greiða yfir kostnaðarverði Landsvirkjunar, býðst að lækka raforkuverð niður í kostnaðarverðið.  Þannig sýnir Landsvirkjun stuðning sinn í verki á þessum óvenjulegu tímum.  Samband fyrirtækisins við viðskiptavini þess er hornsteinn starfsemi Landsvirkjunar.

Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt, að raforka er stór hluti breytilegs framleiðslukostnaðar þeirra.  Raforkuverð er þannig einn af þeim þáttum, sem hafa áhrif á samkeppnishæfni viðskiptavina Landsvirkjunar, en þó ekki sá, sem hefur úrslitaáhrif á fjárhagslega afkomu þeirra.  Þar skiptir afurðaverðið, t.d. verð á áli og kísilmálmi, mestu máli.  Afurðaverð hefur farið lækkandi undanfarin misseri, m.a. vegna offramleiðslu og birgðasöfnunar. 

Raforkuverð á erlendum raforkumörkuðum hefur lækkað talsvert undanfarna mánuði vegna lækkandi verðs á jarðefnaeldsneyti og svo minnkandi eftirspurnar á þessu ári vegna COVID-19."

Hér kveður við annan tón en hjá forstjóra Landsvirkjunar, sem hefur komið svo illa fram við viðskiptavini fyrirtækisins, að þeir forðast hann.  Þeir hafa neyðzt til að sniðganga hann til að fá raunverulega áheyrn fyrir vandamál tengd því, sem hingað til má kalla óraunsæja og þrákelknislega verðlagsstefnu Landsvirkjunar.  

Stefanía Guðrún skrifar hins vegar af meiri fjálgleik um viðmótsþýðleika Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum en innistæða virðist vera fyrir.  Út frá Ársskýrslu Landsvirkjunar er fljótlegt að finna, að rekstrarkostnaður fyrirtækisins er um MUSD 144 á ári og afborganir og vextir um MUSD 150 á ári.  Heildarkostnaður er þá 294 MUSD/ár.  Með sölu á 14,8 TWh/ár fæst þá meðalkostnaður fyrirtækisins um 20 USD/MWh (=2,9 ISK/kWh). 

Því fer fjarri, að Landsvirkjun hafi hingað til boðið viðskiptavinum þessi kjör.  Hvers vegna fer þetta öfluga ríkisfyrirtæki fram með villandi boðskap ?  Hefur örvænting gripið um sig í háhýsinu við Háaleitisbraut ?

"Öllum stórnotendum, sem greiða yfir kostnaðarverði Landsvirkjunar, mun bjóðast lækkun raforkuverðs niður í kostnaðarverð Landsvirkjunar, sem er á bilinu 28 USD/MWh til 35 USD/MWh eftir því til hvaða virkjana er horft.  Verð til stórnotenda, sem eru núna að borga yfir kostnaðarverði, lækkar því tímabundið um allt að 25 %."

Ekki batnar það.  Framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar vill tengja afsláttinn við virkjanir.  Elztu virkjanir Landsvirkjunar eru allar afskrifaðar, og þar er vinnslukostnaðurinn undir 10 USD/MWh.  Ef t.d. er miðað við elztu verksmiðjuna, ISAL í Straumsvík, þá eru allar virkjanir, sem í samningum hafa verið tengdar henni, afskrifaðar, nema Búðarhálsvirkjun, sem vegur innan við 10 % af heildarþörf verksmiðjunnar.  Þannig má finna út, að meðalkostnaður raforkuvinnslu fyrir ISAL sé um 11 USD/MWh, en raunverð til verksmiðjunnar (án flutningsgjalds) er a.m.k. þrefalt.  Það er mjög mikið, sem fer á milli mála, í málflutningi talsmanna Landsvirkjunar. 

"Markmið aðgerðanna er að verja samkeppnishæfni viðskiptavina Landsvirkjunar og styðja við markaðsstarf þeirra við krefjandi ytri aðstæður.  Horft er til þess, að með aðgerðunum sé verið að hvetja núverandi viðskiptavini á stórnotendamarkaði til þess að styrkja eða auka við starfsemi sína á Íslandi, enda fara langtímahagsmunir Landsvirkjunar og viðskiptavina saman.  Gert er ráð fyrir, að tekjur Landsvirkjunar muni lækka um allt að MUSD 10 vegna þessarar tímabundnu aðgerðar, eða um mrdISK 1,5."

Að orðskrúðinu slepptu er hér fáránleiki nokkur fram settur.  Það er út í hött, að fyrirtækin auki við starfsemi sína á Íslandi á grundvelli 6 mánaða lækkunar, sem er eins og upp í nös á ketti.  Að sýndarmennska Landsvirkjunar sé með eindæmum léttvæg, sést bezt á því, að heildarkostnaður lækkunarinnar fyrir Landsvirkjun er um 1/10 af tapi þess stóriðjufyrirtækis landsins 2019, sem bjó við langhæsta raforkuverðið af hálfu Landsvirkjunar.  

 

 


Hagsmunaárekstrar innan Evrópusambandsins

Það fer ekki framhjá þeim, sem utan við standa, að Evrópusambandið (ESB) fjarlægist sífellt meir að geta kallast kærleiksheimili. Þegar fátt virðist lengur réttlæta tilvist þessa skrifræðisbákns flestra Evrópuríkja, er samt iðulega gripið til þess ráðs að þakka Sambandinu það, að herir gömlu stórveldanna í Evrópu skuli enn ekki hafa farið í hár saman eftir 1945.  Þessi söguskýring er þó ekki upp á marga fiska. 

Það hefur vakið athygli, að COVID-19 virðist hafa veitt efnahag t.d. rómönsku ríkjanna slíkt högg, að nálgist rothögg, svo að greiðsluþrot blasi við.  Það eru gríðarlegar áhyggjur út af þessu víða, og í Þýzkalandi eru miklar efasemdir um lagalegan grundvöll Seðlabanka evrunnar, ECB, fyrir stórfelldum kaupum hans á ríkisskuldabréfum. Allt annað mál er, þegar ríkisstjórnir með samþykki þjóðþinga ákveða að efna til samskota úr digrum (mrdEUR 750) sjóði á vegum ESB.

Ágreiningurinn um gjörðir stofnana Evrópusambandsins er ekki einvörðungu á pólitíska og peningalega sviðinu, heldur einnig á lagalega sviðinu.  Sá einstæði atburður gerðist 5. maí 2020, að Stjórnlagadómstóll Þýzkalands bað stjórnendur Seðlabanka evrunnar með Frakkann Christine Lagarde í broddi fylkingar, að útskýra innan 3 mánaða, hvernig "kórónuskuldabréfakaup" bankans samræmist Evrópurétti um meðalhóf.  Stjórnlagadómstóllinn setti jafnframt ofan í við dómstól ESB fyrir ósjálfstæði gagnvart öðrum stofnunum ESB og að virka sem "stimpilstofnun" fyrir þær, eins og Seðlabanka evrunnar.  

Strax 6. maí 2020 gerði Markaður Fréttablaðsins grein fyrir þessum sögulega atburði undir fyrirsögninni:

"Krefja Seðlabanka Evrópu um svör":

"Dómstóllinn skipaði þýzkum stjórnvöldum og þinginu að tryggja, að seðlabankinn framkvæmdi "hlutfallsmat" á víðtækum skuldabréfakaupum sínum til að tryggja, að áhrif aðgerðarinnar á hagkerfið og ríkisfjármál væru í samræmi við markmið peningastefnu bankans."

Verkefni ríkisstjórnar og Sambandsþingsins í Berlín úr hendi dómaranna er að ganga úr skugga um það með lögformlegum hætti, að ECB hafi haldið sig innan þeirra heimilda, sem honum eru formlega veittar í sáttmálum og lagabálkum ESB. 

"Seðlabankinn hefur keypt ríkisskuldabréf fyrir mrdEUR 2200 frá árinu 2014 til þess að viðhalda verðbólgu, en stefna bankans hefur verið umdeild í Þýzkalandi.  Gagnrýnendur segja, að bankinn fari þannig út fyrir heimildir sínar með því að fjármagna ríkisstjórnir með ólöglegum hætti."  

Hér er fast að orði kveðið, en ekki um of.  Segja má, að nú hafi Þjóðverjar dregið fram Stóru-Bertu (risafallbyssa af Vesturvígstöðvunum í Fyrri heimsstyrjöldinni), þegar Stjórnlagadómstóll þeirra lætur í senn skothríðina dynja á Evruseðlabankanum og Dómstóli ESB út af glæfralegri meðferð fjár, sem þeir telja vera bæði ólöglega og skaðlega fyrir peningakerfið.  Líklega má líkja aðgerðum Lagarde við  heftiplástursaðgerð á blæðandi sár án sóttvarnaraðgerða, svo að illvíg bólga mun hlaupa í sárið, sem valdið getur blóðeitrun líkamans.

"Stefnendurnir [fyrir Stjórnlagadómstólnum] - hópur 1750 manns - höfðuðu málið árið 2015, en það fór fyrir Dómstól ESB, sem dæmdi seðlabankanum [evrunnar] í hag árið 2018.  Málið fór aftur til stjórnlagadómstóls Þýzkalands, sem hafnaði rökum fyrrnefnds dómstóls og sagði þau ekki halda vatni. 

Með því að hafna rökum Dómstóls ESB hefur dómstóllinn í Karlsruhe velt upp veigamiklum spurningum um beitingu Evrópulöggjafar. 

"Þetta er fyrsta tilvikið, þar sem þýzkur dómstóll segir, að dómur Dómstóls ESB hafi ekki lögsögu", segir Panos Koutrakos, prófessor í Evrópurétti við háskólann í City í London, í samtali við Financial Times. 

Hæstirétturinn gaf margar ástæður fyrir því, af hverju Seðlabanki Evrópu hefði farið út fyrir heimildir sínar, en sagði jafnframt, að ekki væri unnt að ákvarða, hvort Seðlabankinn hefði brotið gegn Evrópulöggjöfinni án frekari upplýsinga um, hvernig bankinn samrýmdi áhrif skuldabréfakaupanna og markmið peningastefnunnar. 

Clemens Füst, forstöðumaður hagfræðistofnunarinnar Ifo í München, segir, að höfnun hæstaréttar Þýzkalands á rökum Dómstóls Evrópusambandsins "lesist eins og stríðsyfirlýsing"." 

Það hefur komið í ljós í kjölfar dóms Stjórnlagadómstólsins, að ályktun Clemens Füst er rétt.  Dómstóll og framkvæmdastjórn ESB hafa gefið út hortugar yfirlýsingar og dómari í Stjórnlagadómstólnum (sá sem samdi dóminn) hefur gert athugasemd við þær.  Það er ljóslega grundvallarágreiningur á ferðinni um hlutverk og lagaheimildir Evrubankans.  Það sést á texta Stjórnlagadómstólsins hér að ofan, að Þjóðverjar telja meginhlutverk Evrubankans vera stjórnun peningamála evrusvæðisins og að stórfelld verðbréfakaup, eins og bankinn hefur stundað síðan 2014, rúmist ekki innan Evrópuréttarins og reglna bankans.  Þarna skilur algerlega á milli viðhorfa norðan og sunnan Alpafjalla.  Þessi gjá er nú orðin af því tagi, að hún verður ekki brúuð úr þessu.  Þýzkaland getur greinilega ekki sætt sig lengur við þessa lögleysu, sem Miðjarðarhafsríkin leggja höfuðáherzlu á að viðhalda.  COVID-19 fárið mun leiða til þess, að sverfa mun til stáls um stjórnun Evrubankans.  

Að lokum sagði í þessari umsögn Markaðarins:

""Við vissum, að það væru pólitískar hindranir í skiptingu kostnaðar milli sambandsríkjanna, og nú eru einnig lagalegar hindranir", bætir McGuire [hjá Rabobanka] við.

Flestir höfðu búizt við, að dómstóllinn í Karlsruhe myndi samþykkja, þó með miklum semingi, að skuldabréfakaup Seðlabanka Evrópu væru lögleg. Dómstóllinn sagðist þó ekki hafa fundið brot gegn banni við fjármögnun aðildarríkja."

Stjórnlagadómstóll Þýzkalands hefur sett fram veigamiklar spurningar.  Svara verður krafizt.  Öll kurl eru ekki enn komin til grafar.


"Óttast um framtíð evrunnar"

Ofangreind fyrirsögn var á frétt Stefáns Gunnars Sveinssonar í Morgunblaðinu 7. maí 2020 í tilefni dóms Stjórnlagadómstóls Sambandslýðveldisins í Karlsruhe.  Hvort ástæða er til að óttast um framtíð evrunnar vegna þess dóms skal ósagt láta, enda hefur hún ýmsa fjöruna sopið.  Í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2007-2008, þegar evran stóð tæpast 2012, var henni haldið uppi af framleiðslumætti Þýzkalands. Nú hefur framleiðslumáttur Þýzkalands lamazt, og æðsti dómstóll Þýzkalands hefur skotið aðvörunarskoti bæði í átt að Evrópudómstólinum, ECJ, og Evrubankanum, ECB, fyrir það að túlka heimildir ECB til ríkisskuldabréfakaupa allt of vítt og frjálslega.  Þetta er gamalkunnugt viðhorf þýzkra hagfræðinga í Bundesbank og fulltrúa hans í stjórn ECB og stangast alveg á við stefnu rómanskra þjóða um lausatök á ríkisfjármálum, dúndrandi ríkissjóðshalla og skuldasöfnun hins opinbera.  Fyrir vikið er efnahagslegur viðspyrnukraftur þessara þjóða núna afar takmarkaður, og þau reiða sig á, að germönsku þjóðirnar á evru-svæðinu hlaupi undir bagga með sér aftur. 

Til þess m.a. að kaupa ríkisskuldabréf hefur Evrópusambandið (ESB) safnað saman í "Faraldurseignakaupasjóð" - "Pandemic Equity Purchase Program" - PEPP, mrdEUR 750.  Hinn franski bankastjóri ECB hafði hins vegar ekki þolinmæði til að bíða eftir þessum sjóði og taldi, að miklu meira þyrfti til, enda hefur ECB nú þegar spreðað út mrd EUR 2´200 frá 2014.  Þetta var kært í hópmálssókn Þjóðverja til Karlsruhe.

"Óvæntur úrskurður þýzka stjórnlagadómstólsins í fyrradag hefur hleypt mikilli óvissu í tilraunir Evrópusambandsins til þess að finna sameiginlega lausn fyrir ríki evrusvæðisins á kórónaveirukreppunni.  

Stjórnlagadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu, að Seðlabanki Evrópu hefði líklega farið gróflega fram úr heimildum sínum við kaup á skuldabréfum vegna kórónaveirunnar, en upphæð þeirra nemur nú um 2´200 milljörðum evra [nær yfir lengra tímabil-innsk. BJo]. Um leið hefði bankinn óbeint seilzt inn í fjárveitingarvald þýzka sambandsþingsins.  

Gaf dómstóllinn bankanum þrjá mánuði til þess að sanna, að meðalhófi hefði verið fylgt við skuldabréfakaupin, ellegar yrði Seðlabanka Þýzkalands meinað að taka frekari þátt í magnbundinni íhlutun evrópska bankans. 

Niðurstaða dómstólsins kemur á einkar óheppilegum tíma fyrir Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem leggur nú allt kapp á að finna sameiginlega lausn á kórónaveirukreppunni."

Hér er gamalkunnugt deilumál Þjóðverja og Frakka í brennidepli.  Réttara væri að segja, að germönsku þjóðirnar eru hallar undir þýzka hagfræðiskólann, sem leggur áherzlu á aðskilnað ríkisstjórnar og seðlabanka, þar sem annar á að sjá um hallalausan rekstur ríkisins, en hinn á að varðveita heilbrigði peningakerfisins með lágri verðbólgu og jákvæðri ávöxtun sparnaðar. Það er órói á meðal Þjóðverja með það, að raunvextir eru nánast engir orðnir, en Þjóðverjar eru sparsöm þjóð og spara m.a. til elliáranna á bankareikningum.

Rómönsku þjóðirnar vilja, að ríkisstjórnirnar grauti í öllu saman, aðhaldslítið (og drekki rauðvín með).  Afleiðingin af því er bullandi halli á ríkissjóði, skuldasöfnun og verðbólga. 

Stjórnlagadómstóli Þýzkalands hefur ofboðið hegðun ECB í kórónafárinu og telur evrubankann skorta heimildir til stórfelldra skuldabréfakaupa af ríkissjóðum, sem Gallinn Lagarde hefur beitt sér fyrir.  Stjórnlagadómstóllinn leitaði álits ESB-dómstólsins, ECJ, sem taldi ECB mega stunda þessa peningaprentun.  Hugsunargangur Framkvæmdastjórnarinnar kemur vel fram í eftirfarandi:

"Sagði Paolo Gentiloni, framkvæmdastjóri Sambandsins í efnahagsmálum, að ef sum ríki svæðisins drægjust um of aftur úr öðrum, gæti það hæglega ógnað framtíð evrunnar og Innri markaði ESB, en að um leið væri hægt að koma í veg fyrir hana [ógnina-innsk. BJo] með sameiginlegum aðgerðum." 

Það sem ECB er að gera er að kaupa skuldabréf ríkissjóða rómönsku landanna og Grikkja í miklum mæli og í minni mæli af öðrum, til að koma í veg fyrir, að ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa illa settra ríkja rísi upp í himinhæðir yfir ávöxtunarkröfu skuldabréfa þýzka ríkissjóðsins og lendi þar með í ruslflokki.  Þar með yrði hætt við greiðsluþroti þessara ríkissjóða, einnig hins franska, svo að mjög mikið hangir á spýtunni.  Þjóðverjar telja, að Christine Lagarde, hinn franski aðalbankastjóri ECB, sé að draga allt evrusvæðið ofan í svaðið, og Karlsruhe beitir fyrir sig lagabókstaf, að sjálfsögðu:

 "Það vakti sérstaka athygli, að fyrir utan "viðvörunarskot" stjórnlagadómstólsins þýzka í átt að Seðlabanka Evrópu, setti hann einnig ofan í við dómstól Evrópusambandsins og sagði, að afstaða hans til meðalhófs í þessu efni væri "óskiljanleg" og í engu samræmi við afstöðu dómstólsins á nánast öllum öðrum sviðum Evrópuréttar.  Ályktaði stjórnlagadómstóllinn því sem svo, að dómarar Evrópudómstólsins hefðu farið út fyrir lagalegar heimildir sínar.  

Þetta er í fyrsta sinn frá upphafi Evrópusamrunans árið 1957, sem Stjórnlagadómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu, að ákvarðanir og gerðir evrópskra stofnana hafi brotið í bága við þýzku stjórnarskrána, en Stjórnlagadómstóllinn hefur aldrei viðurkennt, að lög og reglur Evrópusambandsins séu rétthærri en þýzka stjórnarskráin.

Um leið benti Stjórnlagadómstóllinn á það sérstaklega í úrskurði sínum, að Lissabon-sáttmálinn hefði ekki sett lög ESB ofar lögum aðildarríkjanna og að Evrópusambandið væri ekki sambandsríki."

Hér er fram komin tímabær og gagnmerk yfirlýsing, eins konar fullveldisyfirlýsing æðsta dómstóls Sambandslýðveldisins Þýzkalands, sem hafa mun lögfræðileg og fullveldisleg bylgjuáhrif um allt Evrópska efnahagssvæðið.  

Þetta kom flatt upp á ECJ, dómstól ESB, sem tók þessari þýzku breiðsíðu ekki þegjandi, eins og frétt Stefáns Gunnars Sveinssonar í Mogganum 9. maí 2020 bar með sér.  Hún hafði fyrirsögnina:

"Hafnar niðurstöðu stjórnlagadómstólsins":

"Evrópudómstóllinn lýsti því yfir í gær, að hann einn hefði lögsögu yfir evrópska seðlabankanum.  Hafnaði dómstóllinn þar með alfarið niðurstöðu þýzka stjórnlagadómstólsins, þar sem bæði bankinn og Evrópudómstóllinn voru gagnrýndir fyrir afstöðu sína gagnvart skuldabréfakaupum bankans.  

Í tilkynningu dómstólsins sagði m.a., að til þess, að hægt væri að tryggja, að lög ESB væru alls staðar túlkuð á sama hátt, hefði dómstóllinn einn "lögsögu til að skera úr um, að [hvort] aðgerð stofnunar ESB sé í trássi við lög Sambandsins.

Þá sagði, að skoðanamunur milli dómstóla hvers og eins aðildarríkis um lögmæti slíkra gjörða myndi vera líklegur til að setja hina lagalegu skipan sambandsins úr skorðum og draga úr réttaröryggi."

Þetta er þunnur þrettándi hjá ESB-dómstólinum og jafngildir pólitískum orðahnippingum við þýzku Stjórnlagadómarana, því að ECJ hefur enga tilburði uppi til að vísa í þá lagagrein, sem veitir evrubankanum svo takmarkalitlar heimildir, sem hann hefur tekið sér, eða hvaðan ECJ hefur einn lögsögu yfir evrubankanum.  

"Úrskurður stjórnlagadómstólsins á þriðjudaginn var sérstaklega harðorður í garð Evrópudómstólsins, sem að sögn þýzku dómaranna hafði farið fram úr lagalegum heimildum sínum, þegar hann fjallaði um mál Seðlabankans, og hefði í raun gerzt "afgreiðslustofnun" fyir bankann.  

Þá áréttaði Stjórnlagadómstóllinn þá afstöðu sína, að aðildarríki Sambandsins væru "ábyrg fyrir [gagnvart - innsk. BJo] sáttmálum þess" og að ESB væri ekki sambandsríki."

Hér eru stórtíðindi á ferð.  Dómstóll ESB, ECJ, er vanur að fara sínu fram og skeytir lítt um lagaheimildir, ef "eining ESB" er annars vegar.  Nú mætir hann aðhaldi, er bent á af stjórnlagadómurum aðildarlands, að hann skorti heimildir fyrir gjörðum sínum og sé í reynd þægt verkfæri annarra; starfi eftir pöntun.  Þá firrtist ECJ og fer í ham einvaldskonunga í Evrópu á fyrri tíð:

"Vér einir vitum". 

Hvorki ECB né ECJ hafa heimildir fyrir gjörðum sínum samkvæmt stjórnarskrárígildi ESB, Lissabonsáttmálanum.  ESB er ekki sambandsríki og er þess vegna ekki ábyrgt gagnvart þessum sáttmála eða öðrum, heldur aðildarríkin, og æðsti dómstóll hvers aðildarríkis sker úr um, hvað má og hvað má ekki.  Nú flæðir undan réttargrundvelli óhófsaðgerða ECB.

Frétt Morgunblaðsins, þar sem óttast var um framtíð evrunnar, lauk þannig:

"Sú ályktun [Karlsruhe] kallaði á svar frá Brüssel, og sagði talsmaður Framkvæmdastjórnar ESB það vera skoðun Sambandsins [svo ?], að lög þess væru rétthærri lögum aðildarríkjanna og að ríki þess hefðu fallizt á að vera bundin af úrskurðum dómstóls ESB.  Framundan gæti því verið hörð lagaleg rimma um stöðu Evrópuréttar innan Þýzkalands, eins helzta forysturíkis ESB.  

 Um leið virðist nokkuð ljóst, að tilraunir til þess að leysa kórónaveirukreppuna með útgáfu sameiginlegra "kórónuskuldabréfa" muni rekast á þýzku stjórnarskrána og komi því ekki til greina.

Ríkisstjórnir Spánar og Ítalíu gætu því orðið nauðbeygðar til þess að sækja um neyðarlán til Seðlabanka Evrópu, en þær hafa verið tregar til þess að stíga slík skref, ekki sízt í ljósi þess fordæmis, sem Grikklandskreppan 2012 gaf, þar sem harðir skilmálar fylgdu neyðarláni bankans. 

Úrskurður Stjórnlagadómstólsins hefur því leitt til stórra spurninga um framvinduna innan ESB, og hvernig það muni leysa úr þeirri stöðu, sem kórónaveirufaraldurinn færði því."

 Neyðarlán frá ECB einum til ríkisstjórna kemur ekki til greina nú fremur en 2012, því að bankinn er ekki þrautavaralánveitandi.  Árið 2012 endurskipulagði þríeykið AGS, ESB og ECB, ríkisfjármál Grikklands, og sami háttur verður líklega hafður á aftur, ef ríkissjóðir aðildarlanda ESB lenda í greiðsluþroti.  Það er svo lítillækkandi ferli, að reyna mun mjög á veru viðkomandi ríkis í myntsamstarfinu.  Ekki var í fréttinni minnzt á bleika fílinn í stofunni, Frakkland.  Þjóðverjar munu væntanlega ekki taka þá neinum vettlingatökum nú fremur en á krossgötum fyrri tíðar.

Berlaymont sekkur

 

 

 

 

 

 


"Aðgerða er þörf"

Hér hefur í síðustu tveimur vefpistlum verið gerð grein fyrir afhjúpunum Carls I. Baudenbachers (CIB) í Morgunblaðinu 23. apríl 2020 undir fyrirsögninni "EES í kreppu".  Þar afhjúpaði hann rotna starfshætti EES síðan 2008, þegar norska embættiskerfið, og sérstaklega handhafar dómsvaldsins, mótuðu sér "aðgerðasvigrúm" innan EES í krafti fjármagns, sem tryggja skyldi hagsmuni norska ríkisins, hvað sem tautaði og raulaði innan ESA og EFTA-dómstólsins.  Innan Sameiginlegu EES nefndarinnar og á undirbúningsstigum innan ESB hafa Norðmenn verið duglegir við að koma ár sinni fyrir borð og sínum sjónarmiðum að.  Sé ekki tekið tillit til sjónarmiða þeirra við mótun tilskipana og reglugerða ESB, vísa þeir síðar í athugasendir sínar og telja sig þar með óbundna af gerðum ESB. Svona eiga sýslumenn að vera, en gallinn er sá, að það gengur ekki eitt yfir öll EFTA-löndin í EES-samstarfinu í þessu sambandi.  Það felur í sér gríðarlegt misræmi og beinlínis misrétti, sem ekki verður við unað.  Að aflokinni gerð fríverzlunarsamnings við Breta, þurfa Íslendingar að losa sig af klafa EES.  Ef EFTA vill ekki gera fríverzlunarsamning við ESB, verður íslenzka utanríkisþjónustan að hefja þá vinnu.  Ákjósanlegast væri, að öll 4 EFTA-ríkin stæðu að slíkum samningi undir fána EFTA, því að aðild Svisslendinga myndi styrkja samningsstöðu EFTA.

Hvað skrifaði CIB í lok Morgunblaðsgreinar sinnar.  Millifyrirsögnin var:

"Aðgerða er þörf":

"RFM-stefna Noregs [um "aðgerðasvigrúm norska ríkisins"], sem er mesta ógnin við, að EES virki sem skyldi, stangast á við hagsmuni Íslands (og Liechtenstein). Eins og segir í þekktu orðatiltæki, opnar maðurinn frá Hamborg regnhlíf sína, þegar það byrjar að rigna í London.  Íslendingar verða því að gæta sín, ef Noregur lendir í krísu gagnvart EES.  Það er hafið yfir vafa, að norska RFM-stefnan er ósamrýmanleg grundvallarreglum EES-réttar - sem eru einsleitni, gagnkvæmni, tryggð og meðalhóf.  Þess vegna verður að hverfa frá þessari stefnu. 

Sú spurning vaknar hins vegar einnig, hvort Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn séu nægilega öflug til að gegna því hlutverki, sem þeim er ætlað samkvæmt EES-samningnum.  Fyrrverandi forseti Eftirlitsstofnunarinnar, Sven Svedman, hefur réttilega sagt, að þar sem hvert aðildarríki hafi 3 fulltrúa, séu Eftirlitsstofnunin og EFTA-dómstóllinn ekki veikburða, þótt stofnanirnar séu viðkvæmar. Að mati greinarhöfundar ætti hver stofnun að hafa 5 fastafulltrúa, og þar af komi nýir 2 óháðir fulltrúar frá löndum utan EES/EFTA-ríkjanna."

     CIB vill þurrka út sem mest af sérkennum og sérhugmyndum frá EFTA-ríkjunum, þannig að þau verði sem mest að haga sér sem ESB-ríki.  Þetta sýnir ofangreind tillaga hans.  Þá er ekki nóg fyrir CIB að tilfæra manninn í Hamborg til sönnunar því, að "aðgerðasvigrúmsstefna" norskra stjórnvalda sé andstæð hagsmunum hinna EFTA-landanna.  Þegar þau hins vegar hvorugt reka slíka stefnu, er komið upp mikið misræmi innan EES, og löndin verða þá ójafnsett gagnvart Evrópuréttinum.  Þegar þetta er látið viðgangast, má jafnvel líkja því við rotna stjórnarhætti.  

CIB gerir of mikið úr því, að ríkisstjórnarlögmaðurinn (regjeringsadvokat) Sejersted grafi undan EES og Evrópurétti innan EFTA-landanna.  Sejersted vill, að Norðmenn uppfylli skýlausar lagaskyldur sínar samkvæmt EES-samninginum, en hann er mjög andsnúinn því, að Norðmenn gangi of langt í þeim efnum, og hann vill að rannsakað sé ítarlega í hverju tilviki, hvert hið raunverulega svigrúm er til túlkana.  Að öðrum kosti segir hann, að lýðræðislegt ákvarðanaferli þjóðríkisins geti hæglega orðið í uppnámi.  

Það er mikið til í þessu hjá Sejersted, og bráðvantar okkur ríkislögmann eða lögmann í utanríkisráðuneytið af þessu tagi.  Hér hefur aldrei orðið vart nokkurra lögfræðilegra rannsóknartilburða í þá átt, sem Sejersted stundar í Noregi.  Þegar álit og úrskurður kom frá ESA á sinni tíð um lífshagsmuni þjóðarinnar, sem varða úthlutun á nýtingarrétti náttúruauðlinda (vatnsréttinda) í eigu ríkisins, þá var án lögfræðilegra varna fallizt á allar kröfur ESA.  Þegar svipað bréf barst olíu- og orkuráðuneyti Noregs í lok maí 2019, svaraði Sejersted (eða menn af hans sauðahúsi) því á rúmum mánuði með hvössum lögfræðilegum rökum, og norska ríkisstjórnin hafnaði gjörsamlega málatilbúnaði ESA, sem augljóslega er spegilmynd málarekstrar Framkvæmdastjórnar ESB gegn einum 8 vatnsorkulöndum í ESB, þ.á.m. Frakklandi.  

Annað dæmi er auðvitað dómur EFTA-dómstólsins gegn Íslandi um innflutning á hráu kjöti og ógerilsneyddum eggjum og mjólk.  Þessi dómur var í andstöðu við hagsmuni Íslands, eins og Alþingi skilgreindi viðnám gegn lýðheilsuógnum og varnir gegn búfjársjúkdómum 2009.  Í anda "frelsissvigrúms" hefði Alþingi átt að leysi þessi lög af hólmi með nýjum lögum, rækilega rökstudd með vísindalegum rökum fyrir nauðsyn slíkra varna. 

Þess má geta til gamans, að hin lögfræðilega þróun virðist vera þjóðríkinu í hag, eftir að Hæstiréttur Þýzkalands úrskurðaði, að Evrópudómstóllinn hefði ekki lögsögu um deilumál, er varðaði það, hvort Evru-bankinn mætti kaupa þýzk ríkisskuldabréf. 

"Í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA [ESA] og í EFTA-dómstólnum verða að vera einstaklingar, sem eru hafnir yfir vafa, ekki aðeins hvað varðar hæfni, heldur einnig hvað varðar sjálfstæði og óhlutdrægni.  Í ESB er skipun framkvæmdastjóra ferli, sem vekur mikla athygli fjölmiðla.  Í EFTA-ríkjunum gerist þetta án þess, að almenningur verði þess var, í eins konar reykfylltu bakherbergi.  Við skipun dómara í EFTA-dómstólinn er engin yfirþjóðleg nefnd til að kanna hæfni, sjálfstæði og óhlutdrægni þeirra, sem ríkin leggja til, að hljóti starfið. 

EFTA-dómstóllinn óskaði þegar árið 2011, þegar Skúli Magnússon var skrifstofustjóri dómstólsins, eftir því, að slík nefnd yrði sett á fót, og hafa stjórnvöld á Íslandi og í Liechtenstein tekið vel í þá tillögu.  Noregur hefur hins vegar staðið í vegi fyrir þessu, til að kleift sé að koma að fólki, sem búast má við, að standi vörð um hagsmuni þess [hans Noregs-innsk. BJo] í dómsstörfum.  Þetta verður að breytast.  Í ljósi stærðar (eða smæðar) EFTA er það ekki heldur viðunandi lengur, að einstök ríki samþykki gagnrýnislaust þá, sem eru tilnefndir eða endurtilnefndir af öðrum ríkjum til setu í stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA og í EFTA-dómstólnum.  Þess í stað verða öll aðildarríkin að skoða allar tilnefningar vandlega - í þágu eigin hagsmuna."

Það er ljóst, að CIB er mjög óánægður með, hvernig trippin hafa rekin verið af hálfu ríkisstjórna EFTA-landanna í EES.  Hann er mjög óánægður með "frelsisvigrúmið", sem norska ríkisstjórnin ein hefur tekið sér.  Það er skammsýni og dómgreindarleysi af hálfu íslenzkra stjórnvalda að hafa ekki líka tekið  upp norsku Sejersted-línuna og áskilið Íslandi "frelsissvigrúm" í lífshagsmunamálum, sem stundum koma til kasta ESA og EFTA-dómstólsins. 

CIB vill, að Evrópurétturinn njóti forgangs fram yfir landsrétt í ágreiningsmálum.  Nú er farið að draga þetta sjónarmið alvarlega í efa innan Evrópusambandsins.  Þann 05.05.2020 kvað Stjórnlagadómstóll Þýzkalands í Karlsruhe upp stefnumarkandi úrskurð um dóm Evrópudómstólsins varðandi hópákæru Þjóðverja á hendur Evru-bankanum (ECB) um það, hvort bankanum væri heimilt að kaupa ríkisskuldabréf Þýzkalands nú í kjölfar COVID-19 faraldursins.  Stjórnlagadómstóllinn gaf ECB þriggja mánaða frest til að sýna skriflega fram á, að Seðlabanki evrunnar hefði og ætlaði að gæta meðalhófs við þessa útgáfu. Er hér kominn upp gamall ágreiningur germanskra og rómanskra þjóða um leyfilega seðlaprentun til stuðnings ríkissjóðum. Þýzki Stjórnlagadómstóllinn hélt því fram, að Evrópuréttur væri óæðri stjórnarskrám aðildarlandanna og að það hefði ekki breytzt með Lissabonsáttmálanum, sem er stjórnarskrárígildi ESB.  Framkvæmdastjórn ESB hefur lengi haldið hinu gagnstæða fram, og þess vegna er hér augljóslega komin fram ný og skörp átakalína innan ESB á versta tíma fyrir Sambandið. 

Hagsmunir Íslendinga og Norðmanna eru hinir sömu og Þjóðverja í þessum efnum.  Annars væru fyrrnefndu  þjóðirnar fyrir löngu gengnar í ESB.  Ef ESA og EFTA-dómstóllinn úrskurða og dæma þvert á ákvæði Stjórnarskráar Íslands, þá er sá úrskurður eða dómur að engu hafandi á Íslandi, og þannig ber íslenzkum dómstólum að dæma.  Það er einmitt Sejersted-línan frá Noregi.  Ísland og Noregur eiga samleið í þessum efnum, en Carl I. Baudenbacher hefur alla tíð verið á andstæðri línu.  Höfundur hefur ekki kynnt sér, hvort það samræmist hagsmunum flestra íbúa furstadæmisins Liechtensteins, sem CIB er fulltrúi fyrir og sem hefur stundum verið nefnt skattaparadís, og það er kannski meginástæða þess, að hagsmunir ríkisins og ESB hafa ekki verið taldir fara nægilega vel saman fyrir fulla aðild.   


Rotið samstarf

Hvað á að kalla "samstarf", þar sem aðili A tekur við löggjöf frá aðila B gegn réttindum og skyldum til "fjórfrelsisins" hjá B (ESB), en land innan A (EFTA-stoðar EES) ákveður einhliða og án nokkurs samráðs að virða að vettugi úrskurði þess aðila, EFTA-dómstólsins, sem á að úrskurða í deilumálum um framkvæmd EES-samningsins ?  Hvað er eiginlega til rotið í fjölþjóðlegu "samstarfi", ef þetta fyrirkomulag verðskuldar ekki þá einkunn ?

Ofan af þessu fletti Carl I. Baudenbacher (CIB), fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn og mjög áhrifamikill þar um langa hríð, í Morgunblaðsgrein 23. apríl 2020, "EES í kreppu",

sem byrjað var á að fjalla um í síðasta vefpistli, og nú verður tilvitnunum og umfjöllun haldið áfram.  Málið snýst um RFM (Room For Manoeuvre) eða "handlingsrom" á norsku, sem þó sér hvergi stað í EES-samninginum sjálfum, en Norðmenn tala um sem eins konar fullveldisrétt ríkisins í þessu undarlega EES-samstarfi, sem hinar þjóðirnar hafa ekki tileinkað sér, enda skrifar CIB, að þetta komizt Norðmenn upp með í krafti mikilla fjárframlaga sinna í sjóði ESB.

CIB gerir hér grein fyrir RFM:

  "Við Háskólann í Ósló, þar sem kennsla og rannsóknir eru að mestu í höndum fólks, sem tengist RFM-stefnunni, hefur meira að segja verið mælzt til virkrar andstöðu við EES-rétt, sem er talinn utanaðkomandi, og við stofnanir EFTA-stoðarinnar, Eftirlitsstofnun EFTA [ESA] og EFTA-dómstólinn. Í kennslubók, sem var skyldulesning í mörg ár, var kallað eftir því, að EFTA-dómstóllinn yrði lagður niður og í stað hans kæmi eins konar gerðardómur, þar sem dómarar frá ríkjunum skiptust á um að taka sæti í dómi. Hinn öflugi rannsóknarstyrkur þýzka orkurisans Ruhrgas féll einnig í hendur andstæðinga EES í Ósló.  Í útgefnum ritum á vegum rannsóknarstyrksins var eftir mætti reynt að halda EES-rétti eins langt frá norskum rétti og mögulegt var.  Árið 2018 var birt á vegum Ruhrgas-samstarfsins gríðarmikið skýringarrit um EES-rétt.  Pólitísk úrslitaatriði á borð við grundvallarréttindi, einsleitni, gagnkvæmni og tengsl á milli EFTA-dómstólsins og Dómstóls Evrópusambandsins, voru sett í hendur þekktra aðildarmanna RFM-stefnunnar.  Skýringarriti[nu] og ritstjór[um] þess, sem allir eru RFM-fólk, er grímulaust beint að norskum lesendahópi, en gegn ritum, þar sem öðru er haldið fram.  Á Íslandi og í Liechtenstein hefur miklu meira verið lagt af mörkum til þróunar EES-réttar með mun minni tilkostnaði."

  Í ljósi þessarar sérgæzku Norðmanna, sem hér er flett ofan af, er alveg sérstaklega ógeðfelld framkoma norskra stjórnvalda, t.d. utanríkisráðherrans Eriksens, sem lögðu sig í líma við að sannfæra Íslendinga og íslenzk stjórnvöld um mikilvægi þess fyrir eininguna og eindrægnina innan EES, að Alþingi felldi sem fyrst á brott stjórnskipulega fyrirvara við samþykki Sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017 um innleiðingu Orkupakka #3 í íslenzka löggjöf. Tvískinningurinn og stórveldistilburðirnir ríða röftum.

Síðan rekur CIB s.k. NAV-hneyksli:

"Í lok október 2019 kom í ljós, að Atvinnumála- og velferðarstofnun Noregs (NAV) hafði frá upphafi mistúlkað EES-reglur um ferðafrelsi. Gert var að skilyrði fyrir greiðslum frá stofnuninni, að þiggjendur þeirra væru staddir á norskri grund.  Þeir, sem höfðu ferðazt til útlanda án leyfis voru saksóttir og margir saklausir dæmdir í fangelsi.  Jafnvel Hæstiréttur Noregs varð sér til skammar með því að staðfesta ranga dóma á lægri dómstigum.  Þegar þetta hneyksli varð og almenningur brást ókvæða við, grétu andstæðingar EES innan stjórnkerfisins og háskólanna krókódílatárum og kvörtuðu sáran undan skorti á grundvallarþekkingu á EES-rétti innan stjórnkerfisins og dómstólanna. Sumir þeirra voru hinir sömu og höfðu áður hrósað Hæstarétti Noregs fyrir "fullveldistilburði", þegar hann braut gegn EES-rétti með því að neita að fylgja niðurstöðum EFTA-dómstólsins.  Sömu einstaklingar höfðu einnig tryggt, að embættismenn og dómarar fengju ekki fullnægjandi þjálfun í EES-rétti.  Að mati greinarhöfundar verður að skoða NAV-hneykslið í samhengi við almenna stórveldistilburði norskra ríkisstarfsmanna og einkum RFM-stefnunnar."

    Innan norska stjórnkerfisins eru sem sagt við lýði stórveldistilburðir, og er RFM-stefnan innan EES angi af þeim.  Við Íslendingar höfum orðið fórnarlömb þessara stórveldistilburða innan Sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem Norðmenn marka stefnu EFTA-landanna og íslenzku fulltrúarnir eru eins og mýs undir fjalarketti.  Í Orkupakka #3 (OP#3) málinu fór fram heilaþvottur af hálfu Norðmanna, þar sem íslenzka stjórnkerfinu var talin trú um, að OP#3 skipti Íslendinga engu máli, en innleiðing hans væri Norðmönnum gríðarlegt hagsmunamál.  Hvort tveggja var rangt, eins og rækilega var bent á bæði hérlendis og í Noregi, þar sem andstæðingar OP#3 voru fjölmargir og sennilega í meirihluta á meðal þjóðarinnar, þótt "elítan" styddi innleiðingu OP#3, og sú afstaða endurspeglaðist á Stórþinginu, eins og vant er. 

Nú fjarar hins vegar undan þessum undarlega EES-samningi í Noregi.  Grein Carls I. Baudenbachers (CIB) er nagli í líkkistu EES.  Norðmenn vinna nú að gerð víðtæks fríverzlunarsamnings við Breta, og sú spurning verður æ ágengari í Noregi, hvers vegna ekki má gera slíkan samning líka við ESB, og losna  þannig  við allt EES-moðverkið og þann "monkey business", sem viðgengst innan EES og er norskri alþýðu mjög á móti skapi, því að hún ber í brjósti sér ríka réttlætiskennd, eins og sú íslenzka.

Síðan kemur trúverðug skýring á því, hvernig Norðmenn hafa komizt upp með þetta framferði gagnvart ESB og hinum EFTA-löndunum.  Enginn veggur er svo hár, að asni, klyfjaður gulli, komist ekki yfir hann."

 "Að mati greinarhöfundar hafa Norðmenn hingað til komizt upp með RFM-stefnu sína, sem er framkvæmd grímulaust og af ákafa, vegna þess að Noregur er ekki aðeins öflugt ríki, heldur borgar það líka brúsann.  Á tímabilinu 2014-2021 hefur norska ríkið skuldbundið sig til að leggja mrdEUR 2,8 af mörkum til verkefna Evrópusambandsins, eða 97,7 % af öllu fjármagni frá EES.  Þetta er líklega ástæða þess, að ESB hefur hingað til haldið sig til hlés.  Sú staðreynd, að framkvæmdastjórn ESB hefur aldrei rætt neitun Noregs í Sameiginlegu EES-nefndinni um að koma á fót hæfnisnefnd til að meta umsækjendur um dómaraembætti við EFTA-dómstólinn, verður aðeins skýrð í þessu ljósi.  

Þegar  mesti æsingurinn yfir NAV-hneykslinu var um garð genginn, fóru stjórnmál og stjórnsýsla í Noregi skjótt aftur í fyrri farveg.  Loforð Ernu Solberg, forsætisráðherra, um að afhjúpa öll mistök varðandi EES-rétt, og þá ekki aðeins í tengslum við NAV-hneykslið, reyndust orðin tóm.  Ríkisstjórnin setti á laggirnar 7 manna nefnd til að rannsaka NAV-hneykslið, undir forystu Finn Arnesen, sem er líklega næstmikilvægasti fulltrúi RFM-stefnunnar.  Í nefndinni er annar áberandi talsmaður RFM-stefnunnar, lögmaðurinn dr Karin Flöistad.  Þannig er ljóst, að margir norskir lögfræðingar, jafnvel þeir, sem eru vel þekktir, skilja ekki hugtökin hagsmunaárekstur og hlutdrægni [vanhæfi-innsk. BJo].  Svo lengi sem (ætlaðir) hagsmunir ríkisins eru í húfi, eru nánast öll meðul réttlætanleg.  Umboð nefndarinnar er takmarkað við NAV-málið, og enn er óvíst, hvort hún hefur styrk til að varpa ljósi á ástæður þess hörmungarmáls og þátt ríkislögmannsins í því."

Hér er flengjandi gagnrýni hámenntaðs lögfræðings í Evrópurétti á norska lögmannastétt.  Sumt, eins og að skella skollaeyrum við meintu vanhæfi, er þekkt úr íslenzku lögmannaumhverfi, en íslenzkir lögmenn virðast aldrei í þessu dæmalausa EES-lagaumhverfi hafa haft uppi nokkra "fullveldistilburði", hvað þá að hafa áskilið sér "aðgerðasvigrúm" til varnar hagsmunum íslenzka ríkisins. (Undantekning er skýrsla tveggja lögfræðinga um OP#3, sem bentu á, að hann stangaðist líklega á við Stjórnarskrána.) Þessi mikli munur er sláandi.  Íslenzkir lögmenn og dómarar virðast hafa talið skyldu sína að fylgja EES-samninginum, sem veitir Evrópurétti forgang á íslenzkan rétt, þar sem þessi réttarkerfi stangast á.  Í krafti mikilmennsku og fjárhagsstyrks hefur norsk lögmannastétt og dómarar tekið allt annan pól í hæðina og hundsað erkibiskups boðskap.  Þetta skapar Íslendingum óþolandi misrétti.  Þeir eiga aldrei að sætta sig við einhvers konar hjálenduhlutverk.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband