Orkumál og orkunýting á umbreytingaskeiði

Það hefur komið fram, að rekstur álvers ISAL í Straumsvík er orðinn fjárhagslega ósjálfbær.  Meginástæðan er hrun álmarkaðanna, en við þær aðstæður verður hár innanlandskostnaður að óbærilegum klyfjum fyrir eigandann, eins og mrdISK 13 í tap árið 2019 ber vitni um.  Mjög hátt raforkuverð, hið langhæsta til stóriðjustarfsemi á Íslandi um þessar mundir, vegur þar þyngst á metunum. 

Sömu sögu er að segja úr kísilgeiranum, bæði járnblendinu og kísilmálmframleiðslunni.  Elkem á Íslandi berst í bökkum með orkuverð, sem gerðardómur dæmdi og Landsvirkjun er óánægð með og hefur lýst áformum um hækkunarkröfur við fyrsta tækifæri. Verði þeirri ósanngjörnu kröfu haldið til streitu, mun Elkem á Íslandi stöðva starfsemi sína á Grundartanga, ef rétt er ráðið í yfirlýsingu nýs forstjóra fyrirtækisins.  PCC á Bakka hefur dregið stórlega saman seglin mun nú jafnvel hafa verið lokað alveg  tímabundið, þótt kaupskylda raforku sé þar við lýði. 

Nú hafa gagnaversrekendur bætzt í hóp bónbjargarmanna.  Af frétt Markaðarins 15. júlí 2020 að dæma óttast þeir yfirvofandi hækkun raforkukostnaðar á Íslandi á næstunni.  Í öllum tilvikum er hér um að ræða viðskiptavini Landsvirkjunar.  Verðlagsstefna hennar er hörð og ósveigjanleg og virðist beinlínis ætluð til að ganga af starfsemi viðskiptavinanna dauðri.  Landsvirkjun er í krafti stærðar sinnar einokunarfyrirtæki, sem nýtur einskis aðhalds frá samkeppni vegna þess, að aðrir leikendur á sviðinu hafa ekki bolmagn til að taka við stórum viðskiptavinum.  Við þessar aðstæður blasir við, hversu forkastanlegt það er af stjórn Landsvirkjunar að taka upp þann þátt orkustefnu Evrópusambandsins, ESB, í Orkupakka #3, sem fjallar um, að hvert fyrirtæki eigi að haga starfsemi sinni til hámörkunar tekna sinna.  Þetta felur reyndar í sér fjárfestingar til að mæta aukinni aflþörf og um leið að auka markaðshlutdeild sína, en undarlega lítið ber á nýjum virkjunaráformum Landsvirkjunar nú, þótt ytri aðstæður séu hinar hagstæðustu til þess. Gælt er við vindorkuver, sem er fáránleg fjárfesting á Íslandi með gríðarlegum umhverfisspjöllum og stóru kolefnisspori á orkueiningu yfir endingartímann. 

Nú hafa Rio Tinto Tinto/ISAL kært Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins fyrir misnotkun á markaðsráðandi aðstöðu sinni.  Að þessu hlaut að koma.  Tímasetningin tengist slitum á samningaviðræðum fyrirtækjanna um endurskoðun raforkusamnings og kann að vera upphafið að miklu lögfræðiþrefi fyrirtækjanna í tengslum við uppgjör þeirra á milli vegna lokunar ISAL áður en núgildandi raforkusamningur rennur sitt skeið á enda árið 2036.   

 

Erfiðleikar orkukræfs iðnaðar eru alþjóðlegir.  Álverksmiðjur á Nýja-Sjálandi hafa aðallega selt ál til Japans, en kínverskar álverksmiðjur eru nær þeim markaði, svo að þær hafa náð þar undirtökunum.  Er það ólíkt Japönum að láta Kínverja komast í ríkjandi stöðu með svo öryggislega mikilvæga vöru sem ál er.  Engu að síður hefur Rio Tinto nú lokið við úttekt sína á rekstraraðstæðum verksmiðju syðst á syðri eyjunni við Tiwai Point og komizt að þeirri niðurstöðu, að verksmiðjan beri sig ekki með núverandi raforkukostnaði á MWh, sem er mjög svipaður og í Straumsvík.  Verksmiðjurnar eru á svipuðum aldri, en Tiwai Point er líklega með töluvert lægri rekstrarkostnað á framleiðslueiningu, því að hún er með 77 % meiri framleiðslugetu og aðdráttarleiðir  hennar fyrir aðalhráefnin eru miklu styttri en Straumsvíkurverksmiðjunnar, þar sem Ástralía er á næsta leiti.  Launakostnaður á hvert framleitt t er nánast örugglega lægri á Nýja-Sjálandi en hérlendis, enda er árlegt tap í Tiwai Point miklu lægra en í Straumsvík. 

Sams konar úttekt á rekstraraðstæðum ISAL er sennilega lokið og þess vegna vitað, hvert er hámarksraforkuverð, sem verksmiðjan getur staðið undir.  Það hefur greinilega enn ekki náðst samkomulag á milli RT/ISAL og Landsvirkjunar um að framlengja líf verksmiðjunnar til 2036, þegar gildistíma raforkusamnings lýkur.  Lýsir það vel öngstrætinu, sem íslenzk iðnaðar-, orku- og atvinnustefna er í, að framtíð þessa stóra vinnustaðar og gjaldeyrislindar skuli hanga á bláþræði stefnu Landsvirkjunar, sem á sér engan bakhjarl í eigendastefnu frá Alþingi. Er alveg stórfurðulegt og ámælisvert, að iðnaðarráðherra skuli við þessar grafalvarlegu aðstæður í atvinnumálum landsins skýla sér á bak við sinn Orkupakka #3, sem setur Landsreglara í þá stöðu, sem ráðherra gegndi áður varðandi orkumálin.  Með hliðsjón af miklum afskiptum ríkisstjórna innan EES á þessum Kófstímum á hún ekki að hika við að láta til sín taka í þessu máli, ef hún hefur bein í nefinu til sáttaumleitana.   

Þórður Gunnarsson á Fréttablaðinu var með umfjöllun um þessi mál í Markaðnum 15. júlí 2020 undir fyrirsögninni:

"Rekið með minna tapi en Straumsvík".

Þar gat m.a. að líta þetta:

"Miklar deilur áttu sér stað á Nýja-Sjálandi fyrir byggingu álversins, en ráðast þurfti í miklar virkjanaframkvæmdir á Manapouri-vatnasvæðinu til að útvega álverinu rafmagn.  Álverið er kaupandi um 13 % allrar framleiddrar raforku á Nýja-Sjálandi, en nú þarf að finna þeirri orku nýjan farveg.  Að sama skapi er þetta skellur fyrir hið staðbundna hagkerfi álversins, en talið er, að um 2500 bein og óbein störf muni tapast vegna lokunar álversins."

Þarna er sem sagt um að ræða meðalstórt álver, sem knúið er raforku frá vatnsorkuveri.  Álverseigandinn fær líklega ekki hærra verð fyrir sína vöru, þótt hún sé framleidd með sjálfbærum hætti.  Á Nýja-Sjálandi er hins vegar nóg af kaupendum raforkunnar, sem verður á lausu, öfugt við það, sem hér á Íslandi verður uppi á teninginum, ef ISAL verður lokað.  Í grein Þórðar Gunnarssonar er haft eftir ónafngreindum, að í Kanada greiði Rio Tinto 26 USD/MWh að flutningsgjaldi meðtöldu til álvera sinna.  Það er ívið lægra en RT/ISAL hefur farið fram á við Landsvirkjun og reyndar gert að úrslitaatriði fyrir áframhaldandi rekstri verksmiðjunnar og fjárfestingum í henni til að halda henni vel gangfærri í 16 ár. Að Landsvirkjun skuli þrjózkast við sýnir, að hún er að verðleggja sig og þar með Ísland út af markaðinum.  Standa ríkisstjórn og Alþingi að baki þeirri stefnumörkun ríkisfyrirtækisins ? 

Að lokum þessi tilvitnun í greinina:   

""Við höfum ekki enn náð samkomulagi við Landsvirkjun um raforkusamning, sem gerir ISAL samkeppnishæft", sagði Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi." 

Þessi stutta tilvitnun sýnir, að skessur Landsvirkjunar leika sér nú með fjöregg iðnaðarins á Íslandi af fullkominni léttúð og skilningsleysi á þjóðhagslegu mikilvægi hans og raunverulegu hlutverki Landsvirkjunar.  

Eitt af uppátækjum núverandi forstjóra Landsvirkjunar var að heimta afnám tengingar raforkuverðs við álverð við endurskoðun samninga.  Þetta er þó eina eðlilega tengingin, sem miðar að því að tryggja sem mest raforkukaup álversins í niðursveiflu og hlutdeild orkusalans í ávinningi uppsveiflunnar.  Þessi tenging tíðkast út um allan heim og er jafnan með gólfi og þaki.  Landsvirkjun álpaðist til að leysa þessa tengingu af hólmi í samningum við Norðurál árið 2016 með tengingu við norðvesturhluta Nord Pool raforkumarkaðarins í Evrópu, sem hefur sáralitla tengingu við hinn alþjóðlega álmarkað.  Í ár hefur Landsvirkjun goldið fyrir þetta og tapað stórlega, enda ekki gert neinar ráðstafanir til að jafna út sveiflurnar á þessum markaði með tryggingum.  Það er eins og viðvaningar í fjármálastjórnun séu í sandkassaleik í háhýsinu ofarlega á Háaleitisbraut.  

Í Markaðnum 1. júlí 2020 var m.a. fjallað um þetta undir fyrirsögninni:

"Tekjufall gæti orðið töluvert á árinu":

"Mikil lækkun á Nord Pool-raforkumarkaðinum í Evrópu kemur illa við Landsvirkjun, en nýjasti raforkusamningur fyrirtækisins við Norðurál, sem tók gildi í nóvember sl. [samkvæmt samningi frá 2016] tekur mið af því verði.  Meðalverð í nóvember sl. var um 42 EUR/MWh, en meðalverð í júní á þessu ári [2020] var ríflega 3 EUR/MWh.  Landsvirkjun hefur ekki keypt neinar áhættuvarnir gegn sveiflum á Nord Pool-verðinu, sem hefur lækkað um meira en 90 % síðastliðið hálft ár."

 

 

""Norðurál kaupir u.þ.b. 1,6 TWh af okkur á hverju ári og eru því kaupandi um 11 % af okkar framleiðslu, þó [að] þeir hafi aldrei náð sama hlutfalli í okkar tekjum.  En það hefur komið mjög á óvart, hvernig Nord Pool hefur þróazt. 

Þarna er ákveðinn forsendubrestur, sem hefur átt sér stað, sem tengist inngripum stjórnvalda með að loka mörkuðunum", segir Hörður.  

Auk fullra miðlunarlóna, einkum í Svíþjóð og í Noregi, hefur mikill samdráttur eftirspurnar rafmagns í Evrópu þrýst rafmagnsverði niður á við."

Lækkun raforkuverðs var hafin í Evrópu áður en kórónuveiran hélt innreið sína þar og stafaði af niðursveiflu efnahagslífsins, sem viðskiptastríð Kína og Bandaríkjanna átti þátt í að framkalla, og af auknu framboði umhverfisvænnar orku. Þetta hefur veikt samkeppnisstöðu gagnavera á Íslandi, en gagnaver í Evrópu kaupa þar eðlilega raforku á verði, sem dregur dám af Nord-Pool heildsöluverði.  Í Markaðnum 15. júlí 2020 var fjallað um þetta undir fyrirsögninni:

"Staða gagnavera fer versnandi".

Upphaf umfjöllunarinnar var þannig:

"Lágt raforkuverð á samkeppnismörkuðum íslenzkra gagnavera skapar talsverðar áskoranir fyrir atvinnugreinina, sem horfir fram á versnandi samkeppnishæfni.

"Hagstætt og fyrirsjáanlegt raforkuverð hefur í gegnum tíðina verið einn af stóru þáttunum, sem hafa skapað íslenzkum gagnaverum það samkeppnisforskot, sem hefur skilað þeim á þann stað, sem þau eru í dag, en til viðbótar við aðgengi að hreinni orku þurfa þau einnig góðar nettengingar og aðgengi að frábæru starfsfólki.   Öll þessi atriði þurfa ætíð að vera samkeppnishæf við það, sem bezt gerist erlendis.  Stór hluti af þeim áskorunum, sem við stöndum frammi fyrir núna, er hins vegar, að Ísland er ekki lengur samkeppnishæft, þegar kemur að raforkuverði, en sú staða er grafalvarleg, sérstaklega í ljósi hægari umsvifa í öðrum útflutningsgreinum", segir Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera, í samtali við Markaðinn."

Aðvörunarbjöllurnar glymja allt um kring.  Vitlaus orkulöggjöf hér m.v. aðstæður á Íslandi og túlkun og fylgni risans á íslenzkum orkumarkaði á henni er að steypa stórnotendum og miðlungsnotendum í fjárhagslega glötun.  Það eru alls engar markaðslegar forsendur fyrir því á Íslandi að reka þá verðlagsstefnu, sem Landsvirkjun gerir, þ.e. að hámarka arð sinn og margtuggnar arðgreiðslur.  Eigandum, ríkissjóði, kemur á hinn bóginn bezt, að hér starfi öflugur og samkeppnisfær iðnaður og önnur atvinnustarfsemi, knúin ódýru gæðarafmagni (mikið afhendingaröryggi og spennu- og tíðnistöðugleiki).  Þá verður arður af eignum ríkisins í raforkukerfinu tekinn út "á hinum endanum", eins og F.D. Roosevelt, Bandaríkjaforseti, orðaði eitt sinn svar sitt við spurningu um lágorkuverðsstefnu "New Deal", sem kippti BNA upp úr kreppufeni 4. áratugar 20. aldarinnar.  

"Jóhann segir, að til viðbótar við lægra orkuverð erlendis, sé mikill munur á kostnaði við flutning og dreifingu á raforku á Íslandi samanborið t.d. við Noreg og Svíþjóð, sem leiðir til þess, að heildarorkukostnaður verði umtalsvert lægri í þessum löndum samanborið við Ísland.  Þá áformar Landsnet fjárfestingu upp á tugi milljarða í flutningskerfi sínu í tengslum við kerfisáætlun til að bæta raforkuöryggi, en það getur orðið til þess, að raforkuverð til stórnotenda hækki umtalsvert á næstu árum." 

Einmitt vegna hins háa flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku á Íslandi leiðir orkupakkastefnan um hámörkun arðsemi orkuvinnslufyrirtækjanna óhjákvæmilega til þess, að Ísland verður ósamkeppnishæft á orkusviðinu.  Þess vegna ber að lágmarka verðið m.v. lágmarksarðsemi í stað þess að hámarka það.  Í gamla daga var flutningur og vinnsla á einni hendi, þ.e. Landsvirkjunar, og fyrirtækið notaði einfaldlega hagnaðinn af vinnslunni til að fjármagna flutningsmannvirkin.  Það er hið eðlilega, "með einum eða öðrum hætti", m.v. íslenzkar aðstæður.  

"Við erum nú þegar í ósamkeppnishæfu umhverfi, og frekari hækkanir á flutningskostnaði veita samkeppnishæfni íslenzkra gagnavera þungt högg."

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Miðflokknum finnst stóriðja og fiskeldi hér á Íslandi í eigu útlendinga í góðu lagi en berst svo hatrammlega gegn því að þeir eigi annað hér á Klakanum, til að mynda hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum og orkufyrirtækjum, svo og jarðir með laxveiðiréttindum, sem allt er leyfilegt samkvæmt aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). cool

Og hvorki Miðflokkurinn né aðrir stjórnmálaflokkar sem sæti eiga á Alþingi vilja segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Þar að auki vill Miðflokkurinn greinilega að Landsvirkjun, sem er í eigu ríkisins, allra íslenskra ríkisborgara, haldi áfram að virkja ár hér á Íslandi í þágu erlendra stórfyrirtækja, enda þótt einungis langt innan við 1% Mörlendinga, langflestir verkamenn með lág laun, fái vinnu hjá þessum erlendu fyrirtækjum, sem flytja arðinn úr landi.

Og Miðflokkurinn vill endilega að Landsvirkjun greiði eiganda sínum, íslensku þjóðinni, engan arð af fyrirtækinu vegna þess að þjóðin græði svo mikið á því. cool

En hver er allur þessi meinti "gróði", fyrir utan allan "gróðann" sem felst í gríðarlegum náttúruspjöllum vegna til að mynda Kárahnjúkavirkjunar og gríðarstórra raflínumastra úti um allar koppagrundir sem spilla hér góðu útsýni til allra átta og er að sjálfsögðu mikils virði fyrir okkur Íslendinga alla og ferðaþjónustuna hér á Íslandi, sem skapar hér langmestu gjaldeyristekjurnar og er að langmestu leyti einkafyrirtæki í eigu Íslendinga í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins?! cool

Þorsteinn Briem, 4.8.2020 kl. 20:37

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Álverin greiða einungis brot af þeim sköttum sem fyrirtæki greiða hér á Íslandi og meðallaun í álverum hér eru lægri en í ferðaþjónustunni. cool

Mikil meirihluti skatta fyrirtækja og einstaklinga kemur frá höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal þjónustufyrirtækjum og þeim sem þar starfa, enda er þar mikill meirihluti fyrirtækja og einstaklinga.

Til að reisa hér virkjanir tekur Landsvirkjun lán erlendis, þannig að tugmilljarða króna vextir af þeim fara árlega til lánastofnana erlendis sem erlendur gjaldeyrir. cool

Þar að auki þurfa álfyrirtækin hér, sem eru í eigu erlendra fyrirtækja, að kaupa gríðarlegt magn af súráli í erlendum gjaldeyri til sinnar framleiðslu. cool

Stóriðjan þarf gríðarmikla raforku og stóriðjufyrirtæki verða einungis á örfáum stöðum á landinu.

Ferðaþjónusta er hins vegar í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.

Þar að auki eru langflest fyrirtæki í ferðaþjónustunni hér á Íslandi einkafyrirtæki, sem mörlenskir hægrimenn tala sífellt um af mikilli lítilsvirðingu, eins og mörg önnur einkafyrirtæki hér, til að mynda alls kyns þjónustufyrirtæki. cool

Þorsteinn Briem, 4.8.2020 kl. 20:43

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

19.11.2015:

"Alcoa á Íslandi hefur frá upphafi starfsemi sinnar hér á landi greitt tæpa sextíu milljarða króna í vexti til Alcoa-félags í Lúxemborg. Starfsemin hér á landi er rekin með samfelldu tapi.

"Tilbúið tap" og "skandall" að mati fyrrverandi ríkisskattstjóra."

"Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Þar segir að á síðasta ári hafi Alcoa á Íslandi, móðurfélag álverksmiðjunnar á Reyðarfirði sem rekin er undir merkjum Alcoa Fjarðaáls ehf, greitt móðurfélagi sínu í Lúxemborg tæpa 3,5 milljarða króna í vexti og vitnar til nýlegra ársreikninga Alcoa félaganna á Íslandi. 

Kastljós hefur ítrekað fjallað um þá staðreynd að Alcoa hafi aldrei greitt svokallaðan fyrirtækjaskatt hér á landi, enda hefur félagið aldrei skilað hagnaði hér.

Á sama tíma hafa 57 milljarðar króna runnið út úr rekstrinum hér til Lúxemborgar í formi vaxtagreiðslna sem ekki eru skattlagðar og dragast í leiðinni frá hagnaði starfseminnar hér á landi."

Alcoa aldrei greitt fyrirtækjaskatt hér á Íslandi - Alcoa greitt Alcoa um 60 milljarða króna í vexti

Þorsteinn Briem, 4.8.2020 kl. 20:48

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nettóskuldir Landsvirkjunar voru 1. janúar 2013 309,4 milljarðar króna, samkvæmt ársreikningi Landsvirkjunar fyrir árið 2012, andvirði tveggja Kárahnjúkavirkjana. cool

26.2.2014:

"Fram til ársins 2018 eru afborganir Landsvirkjunar á erlendum lánum áætlaðar um 128 milljarðar króna [andvirði Kárahnjúkavirkjunar]. cool

Langstærstur hluti af handbæru fé fyrirtækisins frá rekstri mun því líkt og síðustu ár fara í að standa skil á afborgunum erlendra skulda." cool

Áhersla lögð á að lækka miklar erlendar skuldir Landsvirkjunar næstu árin

21.2.2014:

Landsvirkjun tapaði 4,4 milljörðum króna árið 2013 vegna lækkandi álverðs

10.4.2013:

"Á aðal­fundi Lands­virkj­un­ar í dag var samþykkt til­laga stjórn­ar fyr­ir­tæk­is­ins um arðgreiðslu til eig­enda, þ.e. rík­is­sjóðs, að fjár­hæð 1,5 millj­arðar króna fyr­ir árið 2012.

Lands­virkj­un greiddi 1,8 millj­arða í arð í rík­is­sjóð í fyrra en fyr­ir­tækið greiddi eng­an arð fjög­ur ár þar á und­an." cool

Þorsteinn Briem, 4.8.2020 kl. 20:59

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

28.3.2013:

"Alþingi samþykkti í gær frumvarp sem veitir atvinnuvegaráðherra heimild til að gera fjárfestingasamning um byggingu 33 þúsund tonna kísilvers á Bakka við Húsavík.

Félagið fær sérstakar skattaívilnanir vegna nýfjárfestinga umfram aðrar heimildir í lögum hvað varðar tekjuskatt, tryggingagjald, stimpilgjöld, fasteignagjöld og fleira fyrir um 1,5 milljarða króna á tíu ára tímabili. cool

Ríkið greiðir einnig nærri 800 milljónir króna vegna framkvæmda við lóðina og þjálfun nýs starfsfólks. cool

Alþingi samþykkti einnig frumvarp um þátttöku ríkisins í gerð vegtengingar milli Húsavíkurhafnar og Bakka fyrir 1,8 milljarða króna.

Ríkissjóður veitir víkjandi lán vegna hafnarframkvæmda fyrir 819 milljónir króna."

Og það er nú ekki nýtt að álverið í Hafnarfirði sé á hvínandi kúpunni. cool

16.9.2015:

Álverið í Straumsvík rekið með tapi frá degi til dags og tapið fer vaxandi segir Rannveig Rist forstjóri

Á fjórða ársfjórðungi 2014 voru 185.700 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaðnum hér á Íslandi, samkvæmt Hagstofu Íslands. cool

Hjá Norðuráli á Grundartanga unnu um 500 manns í árslok 2009, þar af um 400 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.

"Störf í ferðaþjónustu og tengdum greinum eins og veitingarekstri eru yfir 22% allra starfa á Íslandi. cool

Sé tekið mið af meðaltali undanfarinna sjö ára gegna konur 54% þessara starfa en karlar 46%."

Ferðaþjónusturit Landsbankans - Mars 2015

Heildarfjöldi erlendra ferðamanna hér á Íslandi árin 2015-2019

Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum hér á Íslandi eru um ein milljón króna að meðaltali af hverri fjögurra manna fjölskyldu og laun í ferðaþjónustunni hér eru hærri en í stóriðjunni. cool

Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar rúmlega fimm hundruð milljarðar króna árið 2017 - Um þrefalt meira en útflutningsverðmæti sjávarafurða

Þorsteinn Briem, 4.8.2020 kl. 21:05

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í miðju kóvítinu koma nú rúmlega tvö þúsund erlendir ferðamenn hingað til Íslands með flugi á degi hverjum en árið 2012 voru þeir um 1.500 á dag og mörlenskir hægrimenn hafa aldrei haft rétt fyrir sér hvað snertir spár um erlenda ferðamenn hér á Íslandi. cool

4.8.2020 (í dag):

Ferðamanna­straum­ur­inn virðist bara aukast og yfir tvö þúsund sýni hafa verið tek­in dag­lega í landa­mæra­skimun á Keflavíkurflugvelli síðustu tvo daga. cool

11.5.2017:

Starfsmönnum álversins í Straumsvík fækkað um eitt hundrað á nokkrum árum í 380

Hjá Norðuráli á Grundartanga unnu um 500 manns í árslok 2009, þar af um 400 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness, og á vef félagsins er tekið sem dæmi að starfsmaður, sem unnið hefur í sjö ár hjá Norðuráli, hafi fengið 308.994 króna mánaðarlaun í nóvember 2010. cool

12.6.2008:

"Á vefsíðu Fjarðaáls kemur fram að meðallaun framleiðslustarfsmanna eru tæpar 336 þúsund krónur á mánuði, með innifalinni yfirvinnu, vaktaálagi og fleiru." cool

Samkvæmt launakönnun VR, sem gerð var í ársbyrjun 2009 og tæplega ellefu þúsund manns svöruðu, voru heildarmánaðarlaun á hótelum, veitingahúsum og ferðaskrifstofum 362 þúsund krónur, í samgöngum á sjó og landi og flutningaþjónustu 377 þúsund krónur og flugsamgöngum 391 þúsund krónur. cool

(Og í matvæla- og drykkjariðnaði voru heildarmánaðarlaunin 391 þúsund krónur, lyfjaiðnaði 411 þúsund krónur, ýmsum iðnaði og byggingastarfsemi 441 þúsund krónur, byggingavöruverslunum 363 þúsund krónur og stórmörkuðum, matvöruverslunum og söluturnum 352 þúsund krónur.)

Félagssvæði VR nær yfir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar, Álftaness, Kjósarhrepps, Akraness og nágrennis, Húnaþings vestra, alls Austurlands og Vestmannaeyja.

Launakönnun VR 2009 - Grunnlaun, heildarlaun og vinnutími á hótelum, veitingahúsum, ferðaskrifstofum, í samgöngum á sjó og landi, flutningaþjónustu og flugsamgöngum, bls. 23-25

Þorsteinn Briem, 11.2.2015:

Að minnsta kosti 1.600 íslenskir flugmenn, flugfreyjur, flugþjónar, flugvirkjar og flugumferðarstjórar starfa hér í ferðaþjónustunni við innanlandsflugið og millilandaflugið.

Þeirra laun hafa ekki verið tekin hér með í reikninginn og þau hækka að sjálfsögðu meðallaunin töluvert í ferðaþjónustunni.

Rúmlega 600 eru í Félagi atvinnuflugmanna (FÍA), rúmlega sjö hundruð í Félagi flugfreyja. um 200 flugvirkjar vinna hjá Icelandair og Flugfélagi Íslands og um 100 flugumferðarstjórar starfa hér á Íslandi.

Meðallaun flugmanna virðast vera um ein milljón króna á mánuði, samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar 2009 og þar má finna flugfreyjur með 400 og 500 þúsund krónur á mánuði, flugvirkja með 400 og 700 þúsund krónur á mánuði og flugumferðarstjóra með um eina milljón króna á mánuði.

Ræstingafólk vinnur í öllum fyrirtækjum, bæði í þjónustu- og framleiðslufyrirtækjum, álverum sem ferðaþjónustu.

Og á móti þeirra launum koma mun hærri laun flugmanna, flugfreyja, flugþjóna, flugvirkja og flugumferðarstjóra. cool

Þorsteinn Briem, 4.8.2020 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband