Færsluflokkur: Bloggar
15.5.2020 | 18:12
Stríð Carls Baudenbachers við norska stjórnkerfið
Það hefur lengi verið vitað um óvild á milli Carls I. Baudenbachers (CIB), fyrrverandi dómara við EFTA-dómstólinn, og norskra dómara, en fáir áttað sig á rótum deilna þeirra í millum. Nú hefur CIB með eftirminnilegum hætti varpað ljósi á inntak deilumálsins í Morgunblaðsgrein 23. apríl 2020, sem hann nefndi:
"EES í kreppu".
Heiti greinarinnar er réttnefni á ástandinu. Í EES-samstarfi EFTA-ríkjanna þriggja, Noregs, Íslands og Liechtensteins, fara Norðmenn sínu fram án þess að skeyta um grundvallaratriði Evrópuréttar, ef þau stangast á við túlkun norskra embættismanna, dómara og stjórnmálamanna, á "eðlilegum" norskum hagsmunum. Ríkislögmaður Noregs (Regjeringsadvokaten) gefur tóninn í þessum efnum. Með öðrum orðum reka Norðmenn skefjalausa stórveldisstefnu innan EES-samstarfsins í krafti fjármuna sinna, og er þetta oft á kostnað hinna EFTA-ríkjanna að mati CIB. Framkvæmdastjórn ESB hefur látið þessi brot viðgangast vegna gríðarlegra fjárframlaga Noregs til sjóða ESB.
Þessi staða er með öllu óboðleg fyrir Ísland og sýnir með öðru, hversu óeðlilegt þetta EES-samstarf er fyrir sjálfstæða þjóð.
Norðmenn virðast í krafti auðs hafa tekið sér svigrúm til aðgerða. Þeir kalla þetta sjálfir "handlingsrom", en CIB nefnir þetta fyrirbrigði á ensku "room for manoeuvre", og þýðandi greinarinnar nefnir þetta "svigrúm til mats", sem er ekki bein þýðing, en nær þó norsku hugsuninni þokkalega, þ.e. Norðmenn áskilja sér svigrúm til að meta í hverju tilviki fyrir sig, hvort og hvernig EES-málefni samræmist hagsmunum norska ríkisins. Þetta svigrúm hafa hinar EFTA-þjóðirnar ekki tekið sér, og þess vegna hafa Norðmenn sett sig skör hærra en okkur Íslendinga innan EES samkvæmt CIB.
Hvað skrifaði CIB um "aðgerðasvigrúm" Norðmanna. Hann er ekki þekktur fyrir að fara með fleipur á opinberum vettvangi:
"Undir lok fyrsta áratugar þessarar aldar [á tímum alþjóðlegrar fjármálakreppu - innsk. BJo] var sett fram í Ósló stefna, sem kölluð hefur verið "Svigrúm til mats" (e. room for manoeuvre, RFM) og fól í sér að styðja með virkum hætti við hagsmuni Noregs á öllum sviðum, eins og framast væri unnt. RFM er heildstæð stefna, sem hefur ekki einungis áhrif á túlkun EES-reglna af hálfu norskra stjórnvalda og dómstóla. Lögmætir hagsmunir borgara og fyrirtækja mæta afgangi; meintir þjóðarhagsmunir norska ríkisins eru framar öllu. RFM hefur einnig haft áhrif á samsetningu Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins auk samskipta Norðmanna við þessar tvær stofnanir. Miklu máli skiptir að geta náð samkomulagi um deiluefni án afskipta Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins. Eftirlitsstofnunin fylgir þessu, þar sem hún hefur í mesta lagi einu sinni á ári höfðað mál gegn einhverju af EES/EFTA-ríkjunum þremur.
EFTA-dómstóllinn hefur jafnframt verið sniðgenginn með því að óska eftir, að norskir dómstólar haldi þeim málum innanlands, sem tengjast EES, þ.e. að þeir leiti ekki ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum. Þessi stefna ásamt öðru leiddi til sniðgöngu af hálfu Hæstaréttar Noregs við að afla ráðgefandi álits frá dómstólnum, sem stóð yfir í 2,5 ár (frá 2012-2014). Ef máli er engu að síður vísað til EFTA-dómstólsins og ríkislögmaður Noregs er ekki sáttur við niðurstöðuna, mun hann, af hvaða átyllu sem er, mælast til þess, að norski dómstóllinn fari ekki eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins. Með því færir ríkislögmaður sér í nyt þá staðreynd, að norskir dómarar, ólíkt kollegum sínum á Íslandi og í Liechtenstein, eiga erfitt með að samþykkja meðalhófsreglu Evrópuréttar. Hið hefðbundna norska viðhorf er, að nægjanlegt sé fyrir inngripi ríkisins í grundvallarréttindi- og frelsi, að það sé "eðlilegt", en í því felst ekki krafa um, að það sé "nauðsynlegt".
Grundvallarregla í samskiptum manna og þjóða er, að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum. Það er frágangssök fyrir þetta dæmalausa EES-samstarf, að nú hefur fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn afhjúpað, að því fer fjarri innan EES, heldur njóta Norðmenn þeirra sérkjara að ákveða sjálfir, hvenær norskir dómstólar hlíta fordæmi þessa dómstóls. Norðmenn hafa komizt upp með þessa hegðun, af því að þeir borga 97 % af gjaldkröfu ESB á hendur EFTA-ríkjunum fyrir EES-samstarfið. Þetta er um 10 % meira en þeim ber skylda til samkvæmt höfðatölu.
Íslendingar hafa margir hverjir verið sáróánægðir með suma úrskurði EFTA-dómstólsins, og hann hefur m.a. hnekkt lagasetningu Alþingis, sem hefði verið ástæða til að reisa burst við. Embættismannakerfinu íslenzka hlýtur að hafa verið ljóst, hvernig málum var háttað í Noregi, en það fýldi ekki grön við dóminum, heldur bukkaði sig og beygði. Nú er komið að því að vinda ofan af þessari vitleysu með vísun til fordæma frá Noregi.
Nefna má EFTA-dóminn um, að íslenzku lögin frá 2009 um bann við innflutningi á ófrosnu keti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum, brjóti í bága við EES-samninginn og fjórfrelsið. Þegar í stað á að innleiða inntak þessara laga að nýju með vísun til þjóðaröryggis í tengslum við varnir gegn smitsjúkdómum. Því er spáð, að fjölónæmir sýklar verði á næstu árum skaðræðislegri vágestir en veirur á borð við SARS-CoV-2 í manntjóni mælt.
Það er hafin deila á milli ESA og Noregs um úthlutun nýtingarréttar á náttúruauðlindum í eigu ríkisins. ESA mun líklega vísa deilumálinu til EFTA-dómstólsins og hann dæma Noregi í óhag, en norski ríkislögmaðurinn mun vafalítið beina því til norskra dómstóla, að í nafni RFM skuli þeir virða dóminn að vettugi. Þar með verður hægt að skera Íslendinga úr snörunni, sem íslenzkir embættismenn og ráðherrar flæktu landsmenn í með klaufaskap og undirlægjuhætti 2016.
Nokkru síðar ritar CIB:
"Þar sem dómstólar á Íslandi og í Liechtenstein hneigjast til þess að hlíta niðurstöðum EFTA-dómstólsins, er ójafnvægi innan EFTA-ríkjanna þriggja, sem kemur niður á þeim tveimur smærri."
Hér er mjög vægt að orði kveðið um grafalvarlegt mál. CIB hefur flett ofan af gegnumrotnu samstarfi tveggja kotkarla við höfðingja, sem heldur kónginum góðum með fjárfúlgum til hans. EES-samstarfið er ólífvænlegt með öllu fyrir sjálfstæðar þjóðir. Þetta "samstarf" þarf að leysa af hólmi með víðtækum fríverzlunarsamningum við Breta og ESB í fyllingu tímans. Við það er reyndar vaxandi stuðningur í Noregi. Ef EFTA vill ekki beita sér fyrir slíkum samningum, eins og Stórþingið kann þó að verða áfram um eftir þingkosningarnar haustið 2021 í Noregi, þá verður íslenzka utanríkisþjónustan að girða sig í brók og fara með slíka samningagerð fyrir Íslands hönd gagnvart Bretlandi og ESB.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.5.2020 | 13:15
Margt riðar til falls og víða
Samkvæmt AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðnum), sem við höfum ekki enn þurft aftur að segja okkur til sveitar hjá, og losnum vonandi við að þessu sinni, verður enginn hagvöxtur í Asíu sem heild á árinu 2020 í fyrsta skipti í 60 ár. Þetta sýnir grafalvarlegt efnahagsástand í kjölfar Wuhan-veirunnar, SARS-CoV-2, og veitir smjörþefinn af því, sem koma skal, því að þessi veira er aðeins ein af nokkrum, sem komið hafa fram frá síðustu aldamótum í Kína, Afríku og í Mið-Austurlöndum.
Mannkynið slapp fyrir horn með SARS, MERS og ebóluna. Ef SARS og MERS hefðu verið meira smitandi, hefðu þær getað dreifzt um heim allan. Ebóla var bráðsmitandi, og um 60 % sýktra lézt af hennar völdum, en með stórkostlegu átaki tókst að kveða hana niður á þeim svæðum Afríku, þar sem hún herjaði. Af þeim dæmum, sem hér hafa verið nefnd, má leiða líkum að því, að veirufaraldrar verði alvarlegasti vágestur heimsbyggðarinnar á næstu áratugum, og auðvitað hverfur þá losun CO2 í skuggann, enda munu breyttir lifnaðarhættir í kjölfar COVID-19 líklega leiða að einhverju leyti til minni losunar. Aukin áherzla á sjálfbærni samfélaga og "sjálfsþurftarbúskap" með lífsnauðsynjar (minni flutningar) kann að verða eitt af einkennum næstu ára.
Þótt smit Wuhan-veirunnar virðist af fréttum frá Kína að dæma aðallega hafa verið í héraðinu, þar sem Wuhan er aðalborgin, virðast Kínverjar hafa tekið smithættuna föstum tökum á öllum helztu framleiðslu- og viðskiptasvæðum Kína. Til marks um það er bæði árangur þeirra við að hefta útbreiðslu veirunnar og, að í fyrsta skipti frá upphafi skráninga á hagvexti í Kína 1992, skrapp verg landsframleiðsla þeirra saman á fyrsta ársfjórðungi 2020. Þetta er gríðarlegt efnahagshögg, því að hún hefur oftast numið 6 %-12 % á ári frá 1992. Hún minnkaði um 6,8 % á fyrsta ársfjórðungi m.v. sama tíma árið áður, en þá jókst hún um 6,0 %.
Bretar fara mjög illa út úr þessum veirufaraldri. Þeir reyndust óviðbúnir og brugðust seint við. Spáð er 35 % samdrætti landsframleiðslu þeirra í júní 2020. Hagkerfi þeirra er mjög þjónustudrifið. Þjóðverjar virðast munu fara út úr COVID-19 viðureigninni með minna tapi en Bretar, enda voru þeir betur undirbúnir ("alles muss ganz gut vorbereitet sein" er enda viðkvæði þeirra). Smit hjá þeim eru færri en hjá öðrum meginþjóðum Evrópu, og dauðsföll í Þýzkalandi af völdum COVID-19 eru tiltölulega fá. Undirbúningur, skipulag og þjálfun borgar sig, en mestu skiptir þolgæði og seigla í allri baráttu.
Launagreiðslur til stórs hluta atvinnulífs á Vesturlöndum eru nú á höndum ríkisins, á sama tíma og tekjur hins opinbera dragast stórlega saman. Í ESB hefur triEUR 3 (trilljón = 1000 milljarðar) verið veitt til atvinnulífsins og í BNA var í marzlok samþykkt að veita triUSD 2 til stuðnings atvinnulífinu. Þar hefur æðsti maður landsins ekki veitt landslýðnum gagnlega leiðsögn, og stundum hefur slegið svo alvarlega út í fyrir honum, að margir hljóta að efast um, að hann verðskuldi endurkjör í ár, þótt hinn öldungurinn í framboði sé ekki mikið gæfulegri, og þó. Hann sætir nú ásökun fyrir kynferðislega áreitni fyrir löngu.
Hér á þessu vefsetri var í einni vefgrein vitnað til Morgunblaðsgreinar Ragnars Árnasonar 21. apríl 2020:
"Covid-kreppan: Mesta efnahagshögg í heila öld",
og verður nú gripið niður í síðari hluta greinarinnar:
"Stóra spurningin er, hvernig við sem þjóð bregðumst við þessari vondu stöðu. Ef brugðizt er við af skynsemi og fyrirhyggju, er unnt að lágmarka tjónið, sérstaklega þegar til lengri tíma er litið. Sé hins vegar ranglega við brugðizt og rasað um ráð fram, er hætta á, að þetta upphaflega efnahagsáfall leiði til langvarandi uppdráttarsýki í þjóðarbúskapnum. Hvað þetta snertir, er rétt að hafa hugfast, að framleiðslugeta þjóðarinnar hefur ekki minnkað. Efnahagskreppan nú stafar stafar annars vegar af minni eftirspurn erlendis og hins vegar þeim takmörkunum, sem við höfum sjálf sett á atvinnulífið innanlands til að draga úr áhrifum Covid-veirunnar. Þjóðarframleiðslan getur því frá tæknilegu sjónarmiði vaxið aftur hratt og vel. Hvort hún gerir það, fer eftir því, hvernig tekið verður á vandanum."
Þetta er satt og rétt, svo langt sem það nær, og þarfnast nokkurrar útlistunar lesandans til að tengja við raunstöðuna. Í fyrsta lagi hefur COVID-19 hjaðnað hraðar hérlendis en sóttvarnaryfirvöld áttu von á. Landlæknir boðaði það nálægt toppi faraldursins (hámarksfjölda sjúklinga), að farsóttin myndi láta hægar undan síga en hún sótti á. Það var ekki rökstutt sérstaklega, en spekin reyndist vera ættuð frá WHO-Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Þarna vanmátu sóttvarnaryfirvöld áhrifamátt eigin ákvarðana og fyrirmæla, en Íslendingar virðast hafa fylgt þessum fyrirmælum út í æsar, þó sjálfsagt með einstaka undantekningum. Þetta hefur komið mörgum landsmönnum þægilega á óvart, en sams konar sögu er að segja af Grikkjum, sem ekki hafa verið þekktir af yfirþyrmandi hlýðni við yfirvöld sín.
Í byrjun 2020 ber ekki á öðru en búið sé að uppræta smit, þótt talsverður fjöldi sé enn í sóttkví, og þá verða yfirvöld auðvitað að endurskoða fyrri áform sín og flýta afléttingu kvaða á hegðun fólks og starfsemi fyrirtækja og stofnana. Það er t.d. óþarflega íþyngjandi að miða samkomubann við 50 eftir 4. maí 2020, og sjálfsagt að opna sundstaði sem fyrst til heilsueflingar. Nær væri að miða við t.d. 500, og þegar ekkert smit hefur greinzt í 2 vikur, ætti hreinlega að aflétta öllum hömlum af starfsemi í landinu. Áfram munu auðvitað flutningar fólks á milli landa verða háðir sóttkví um sinn, en tvíhliða samningar um óhefta flutninga kunna að verða gerðir á milli þjóða, sem treysta sér til þess. Þó er líklegt, að við verðum í aðalatriðum að fylgja ákvörðunum Schengen-samningsins.
Gríðarlegt fé streymir úr ríkissjóði til ferðaþjónustunnar, eins og hún var í febrúar 2020. Þessi ferðaþjónusta var í stakk búin til að taka við 2,0 M ferðamanna á ári hið minnsta. Það er algerlega útilokað, að svo margir erlendir ferðamenn leggi leið sína til landsins á þessu ári, og afar ólíklegt á árinu 2021. Það er ekki sennilegt, að slíkt geti orðið fyrr en í fyrsta lagi 2023, og þá sitjum við uppi með ofvaxinn ferðamannageira í 4 ár í höndum ríkisins. Það gengur auðvitað ekki. Þegar reiðarslag af þessu tagi ríður yfir þjóðfélagið og af mestum þunga yfir eina atvinnugrein, er óhjákvæmilegt, að sársaukafullar breytingar og endurskipulagning eigi sér stað. Það hefur í för með sér minnstar almannafórnir að horfast í augu við líklegustu sviðsmyndina strax, en gæla ekki lengur við snögga endurræsingu á öllum vélunum, og að rándýr auglýsingaherferð stjórnvalda og greinarinnar muni valda kraftaverki á viðhorfum væntanlegra ferðamanna.
Prófessor emeritus í hagfræði, Ragnar Árnason, varaði reyndar við þessu sama í næstu undirgrein, þar sem hann skrifaði:
"Mikilvægt er að átta sig á því, að hið opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélög, getur ekki verið hjálpræði í þessari stöðu."
Á öðrum Vesturlöndum eru þó uppi hafðir miklir tilburðir af hálfu ríkisvaldsins til að dæla fé í atvinnulífið "til að viðhalda ráðningarsambandi" á milli vinnuveitanda og launþega. Forsendan er þó væntanlega oftast sú, að þörf verði á lítt breyttri afkastagetu viðkomandi atvinnugreinar, eftir að ósköpin eru um garð gengin. Þeim fækkar táknum á lofti um það, að slíkt geti átt við um spurn erlendra ferðamanna eftir þjónustu á Íslandi. Stóra spurningin í þessu viðfangsefni er þó, hvernig þróun millilandaflugsins verður, svo að úr afar vöndu er að ráða fyrir stjórnvöld.
Það kom þess vegna eins og skrattinn úr sauðarleggnum, þegar haft var eftir formanni Framsóknarflokksins, Sigurði Inga Jóhannssyni, að Icelandair yrði að bjarga sér sjálft. Þetta félag er þó eins konar grunnstoð íslenzkrar ferðaþjónustu, þannig að fjárstuðningur og ábyrgðir ríkisins til annarra ferðaþjónustufélaga virðast verða unnin fyrir gýg, ef Icelandair getur svo bara étið, það sem úti frýs. Þarna hlýtur eitthvað að fara á milli mála.
Í lokin reit Ragnar:
"Þjóðin á einn sjóð raunverulegra verðmæta. Það er gjaldeyrisvarasjóðurinn. Í honum liggur mjög há upphæð, nálægt mrdISK 800, á litlum sem engum vöxtum. Sjálfsagt virðist að nota hluta þessa sjóðs til að brúa óhjákvæmilegan gjaldeyrishalla vegna kreppunnar og koma þar með í veg fyrir enn frekari gengislækkun krónunnar og verulega verðbólgu í framhaldinu."
Taka skal undir þetta. Tímabundinn halli á viðskiptum við útlönd virðist nú valda allt of hröðu gengissigi fyrir kaupmáttinn innanlands. Viðsnúningur virðist reyndar orðinn. Kaupgetan er verulega skert nú hjá þorra fólks vegna tekjumissis, og ef ekki á að láta gjaldeyrisvarasjóðinn halda genginu í skefjum núna, t.d. við 10 % sig frá febrúarlokum 2020, hvenær á þá eiginlega að nota hann almenningi til hagsbóta ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2020 | 18:08
Stefnubreyting hjá Landsvirkjun er þjóðhagsleg nauðsyn
COVID-19 umræðan yfirgnæfir annað nú um stundir. Með samstilltu átaki þjóðarinnar og ofboðslega kostnaðarsömu hefur sóttvarnaryfirvöldum og heilbrigðisstarfsfólki með Landsspítalann í broddi fylkingar tekizt ágætlega upp í baráttunni við vágestinn. Til marks um það er aðallega þetta:
Sýkingum fjölgaði mjög ört í upphafi faraldursins hérlendis, og fjöldi sýkinga sem hlutfall af mannfjölda hérlendis var um hríð sá hæsti í heimi, en fjöldi sýkinga á sólarhring sveigði mjög af uppleið vegna ráðstafana til að draga úr smithættu, svo að hámarksfjöldi sjúklinga (virkra smita af SARS-CoV-2) varð aldrei meiri en 1096. Það var 06.04.2020. Þá nam fjölgun smitaðra 76 og fjölgun sjúklinga 42. Þá nam fjöldi á sjúkrahúsum (af völdum C-19) 37, en sá fjöldi varð mestur 45, dagana 3. og 4. apríl, en nam aðeins 4,4 % af af fjölda sjúkra, og á gjörgæzlu varð fjlöldinn mestur 13, þann 7. apríl.
Af þessum tölum er ljóst, að ráðstafanir til fækkunar smitum hafa leitt til viðráðanlegs álags á heilbrigðiskerfið, og hlutfallslegur fjöldi sjúkra, sem þurfti innlögn, þegar mest mæddi á, var aðeins 4,4 %, sem er óvenjulág tala á heimsvísu. Hún er til vitnis um árangursríka stjórnun, þ.e. fylgzt var með sjúklingum í einangrun. Það var stjórnunarlegt snilldarbragð. Fjöldi látinna er líklega lægstur hér sem hlutfall af sýktum, eða innan við 0,6 %, og hann er aðeins 27 á milljón íbúa, sem er á meðal þess lægsta, sem þekkist. Nú er fyrsta bylgja þessa faraldurs afstaðin, þótt sjúklingar séu enn 18 talsins. Áhrif sóttvarnaaðgerðanna voru meiri en yfirvöldin reiknuðu með, en faraldurinn hér hefur fylgt vel kenningunni um 40 daga að toppi og 70 daga varanleika alls. Á meðan landið er enn "einangrað", er óþarft að hafa uppi íþyngjandi takmarkanir á starfsemi í samfélaginu. Staðfest smit í samfélaginu eru um 0,5 % af mannfjölda, sem er lægra hlutfall en búast mátti við. Raunveruleg smit gætu verið um 1 %, þannig að landsmenn verða viðkvæmir fyrir næstu bylgju sýkinga, komi hún á undan almennri bólusetningu. Ekkert hjarðónæmi hefur myndazt. Það er afleiðing mótvægisaðgerðanna. Á tímabili faraldursins á Íslandi hefur dauðsföllum fækkað m.v. meðaltal 2017-2019. Þannig er það sjaldnast, og sum lönd, einnig í Evrópu, hafa orðið hrottalega illa úti í faraldrinum. Þar hafa heilbrigðiskerfin farið á hliðina. Það vildi enginn sjá þá stöðu uppi hér.
Sársaukafyllstu afleiðingar þessa veirufaraldurs á Íslandi verða á efnahagssviðinu, og þær verða langvinnar. Aðallega stafar þetta af ósamræmdum ákvörðunum einstakra þjóða um lokun flugvalla fyrir farþegaflug. Íslendingar verða fyrir sérlega hörðum skelli af þessum sökum, þar sem landið heimsóttu meira en 5 erlendir ferðamenn á hvern íbúa landsins á ári, en leitun er að svo háu eða hærra hlutfalli í heiminum, þótt þau dæmi finnist.
Það er vandasamt að setja réttar hömlur á þjóðfélög á réttum tíma, en það er ekki síður vandasamt að aflétta þeim til að lágmarka byrðar samfélagsins. Þá má hafa hliðsjón af niðurstöðu stærðfræðingsins í Ísrael, Isaac Ben-Israel, sem samkvæmt "Times of Israel" 14. apríl 2020 komst að því, að COVID-19 fjaraði út eftir 70 daga frá fyrsta staðfesta smiti. Það þýðir, að leyfa ætti atvinnustarfsemi hérlendis að hefja venjulegan rekstur að viðhafðri almennri smitgát (um hreinlæti og snertingu), þegar eftir v.19 2020, sem endar 9. maí 2020. Hópsamkomur þarf þó áfram að banna, þar til engin smit hafa greinzt á landinu í a.m.k. 2 vikur.
Efnahag landsmanna ríður á að önnur starfsemi en ferðaþjónusta, sérstaklega gjaldeyrisskapandi eða gjaldeyrissparandi starfsemi, geti gengið á þeim afköstum, sem markaðurinn leyfir. Það er líklegt, að fiskmarkaðirnir taki fljótlega við sér, þegar lífið færist í samt horf, og vonandi taka álmarkaðir við sér, þegar bílaverksmiðjurnar og byggingariðnaðurinn fara í gang aftur. Það er veik von um, að Kínverjarnir hrúgi ekki sinni niðurgreiddu framleiðslu inn á markaðinn, og e.t.v. verður nú tekið fyrir það.
Jónas Elíasson, prófessor, reit merka grein í Morgunblaðið 14. apríl 2020 um heimatilbúinn vanda álvinnslunnar á Íslandi, sem gert hefur illt verra:
"Raforkuvinnsla á Íslandi: Aftur á byrjunarreit ?"
Þar gat m.a. á að líta eftirfarandi:
"Íslendingar báru til þess gæfu að setja í forystu þessa verks afburðamann, Jóhannes Nordal, seðlabankastjóra, sem stjórnaði aðgerðum úr stóli formanns stjórnar Landsvirkjunar. Hann markaði stefnu uppbyggingarinnar að öðrum ólöstuðum, sem líka lögðu hönd á plóginn. Sú stefna markar reit nr 1 í nútímavæðingu raforkukerfis Íslands."
Sú stefna að beita stórsölu raforku til langs tíma (45 ára með endurskoðunarákvæðum) til að fjármagna stórvirkjanir á íslenzkan mælikvarða, sem sæju viðsemjandanum, öðrum iðnaði, öllum atvinnugreinum um allt land ásamt heimilunum, fyrir ódýru rafmagni, var mörkuð af Viðreisnarstjórninni og líklega öðrum framar dr Bjarna Benediktssyni, iðnaðarráðherra og síðar forsætisráðherra, og Jóhanni Hafstein, iðnaðarráðherra og síðar forsætisráðherra. Þessir menn fengu dr Jóhannes til að gegna stöðu formanns samninganefndar um stóriðju, sem náði að brjóta ísinn í samskiptum við erlenda fjárfesta og gera samning við svissneska álfélagið, Alusuisse, um raforkukaup til ISAL í Straumsvík, sem stofnað var 1966, ári á eftir Landsvirkjun. Dr Jóhannes náði vissulega góðu sambandi við Svisslendingana, sem treystu honum, og það hafði úrslitaþýðingu um, að samningar tókust.
"Það, sem öðru fremur skipti sköpum, var sú ákvörðun að selja rafmagnið á rúmu kostnaðarverði gegn tryggum greiðslum í formi kaupskyldu. Þetta losaði Ísland nánast algerlega undan allri áhættu, en takmarkaði gróðann um leið. Í þessu skjóli hafa nánast engin vandamál komið upp, gagnrýnisraddir þagnað, nema hjá einstaka furðufuglum, og eignauppbygging í raforkukerfinu verið ótrúlega hröð.
Þessi stefna á sér rætur í New Deal stefnu F.D. Roosevelt, forseta BNA. Svo hefur raforkuverðið hækkað með tímanum og endurnýjun samninga. Stóriðjan hefur reynzt [vera] ágætur viðskiptavinur, og allir fordómar um stórfellda eitrun umhverfis og yfirvofandi fjárhagstap, jafnvel gjaldþrot, löngu dottnir fyrir borð."
Það var ekki uppfinning dr Jóhannesar í "stóriðjunefndinni" að selja Svisslendingunum rafmagnið "á rúmu kostnaðarverði". Þetta var þá alsiða, einnig í Evrópu, og t.d. vel þekkt frá Frakklandi og Noregi. "Stóriðjunefnd" dr Jóhannesar náði einfaldlega hagstæðustu samningum, sem þá stóðu Íslendingum til boða. Íslendingar voru óskrifað blað á meðal iðnjöfra þess tíma, og slíkt er stór óvissuþáttur, sem virkaði til lækkunar rafmagnsverðs miðað við markaðsverð til álvera á sinni tíð, t.d. í Noregi. Íslenzka raforkukerfið var á þessum tíma vanþróað, og það voru efasemdir um, að Íslendingar gætu veitt rafmagninu nægt afhendingaröryggi m.v. þarfir álvers. Það var þá einsdæmi í Evrópu, að treysta þyrfti á eina flutningslínu 100-200 km leið fyrir heilt álver í storma- og ísingasömu landi, enda kom fljótlega að því, að Búrfellslína 1 slitnaði (á hafinu yfir Hvíta í ísingarveðri) með þeim afleiðingum, að nokkurra sólarhringa framleiðslustöðvun varð í Straumsvík og mörg ker voru "svæfð" (ekki þó svefninum langa), en nokkur töpuðust (frusu).
Ofan á línuvandræðin bættist svo innrennslistregða Búrfellsvirkjunar vegna ísingar við inntaksmannvirkin. Mikið svartagallsraus hafði farið fram um þetta vandamál, sem reyndist samt ekki jafnalvarlegt fyrir rekstur virkjunarinnar og svartsýnir höfðu spáð, enda náðu starfsmenn Landsvirkjunar smám saman undirtökunum í viðureigninni við þetta viðfangsefni. Þegar Íslendingar höfðu náð tökum á þeim byrjunarörðugleikum, sem hér hafa verið tíundaðir, skapaðist grundvöllur til að leita hófanna um að hækka raforkuverðið, enda hafði heimsmarkaðsverð hækkað mikið í fyrstu olíukreppunni 1973.
"Stjórn Landsvirkjunar hefur lýst því yfir, að markmið þeirra [hennar] sé að auka verðmæti auðlindarinnar. Þetta er illframkvæmanleg[t], nema hækka rafmagnið, en sú stefna er þvert á tilganginn með stofnun Landsvirkjunar, sem var að tryggja raforku á sem lægstu verði til almennings og iðnaðar. Þetta hefur tekizt, þó [að] ekki hafi verið eins langt gengið og hjá FDR á sínum tíma, sem nánast gaf rafmagnið, en fékk í staðinn skattana af gríðarlegri iðnaðaruppbyggingu, sem reif Ameríku upp úr kreppu þriðja áratugarins á undraverðum hraða."
Hér er komið að aðalásteytingarsteininum núna varðandi Landsvirkjun. Árið 2010 setti "fyrsta tæra vinstri stjórnin" til valda í Landsvirkjun nýtt fólk, sem kúventi upphaflegri og þágildandi stefnu Landsvirkjunar og aðlagaði hana að gildandi orkulöggjöf landsins, sem mótaðist af orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), s.k. orkupökkum 1 og 2, sem miða að einkavæðingu orkuvinnsluhluta raforkukerfisins, og að hvert fyrirtæki innan hans eigi að miða alla sína starfsemi við að hámarka hagnað sinn án tillits til annarra hagsmuna, s.s. atvinnuþróunar og hámörkunar verðmætasköpunar í landinu.
Þessi stefna er sniðin við frjálsan orkumarkað, þar sem frjáls samkeppni margra fyrirtækja ríkir um viðskiptavinina, og samkeppnin heldur þá verðlagi orkunnar í skefjum til hagsbóta fyrir neytendur, en bezt reknu orkufyrirtækin ná að auka markaðshlutdeild sína og fjárfesta í nýjum orkuverum. Ef þetta markaðskerfi er hins vegar innleitt í einokunarumhverfi, eins og íslenzki raforkumarkaðurinn er í raun og veru á sviði stórsölu raforku og að miklu leyti á öllum heildsölumarkaði raforku, þá losnar fjandinn úr grindum. Það er einmitt það, sem hefur gerzt á Íslandi, með voveiflegum afleiðingum fyrir atvinnulífið og þar með heimilin í landinu.
Reynslan hérlendis hefur sýnt, að ávöxtun arðs af orkulindunum er ekki bezt komin hjá Landsvirkjun, heldur hjá almenningi, rafmagnsnotendum, atvinnulífi og heimilum, með því að halda rafmagnsverði í landinu samkeppnishæfu, þ.e. lægra en yfirleitt er annars staðar í boði, óniðurgreitt þó, og standandi vel undir meðalkostnaði Landsvirkjunar, jafnvel að næstu virkjun meðtalinni.
"Nú stefnir í, að Rio Tinto vilji loka Ísal [ISAL]. En það er bara byrjunin, hin álverin sitja í sömu súpunni, þó [að] minna heyrist frá þeim. Þau geta líka tekið ákvörðun um að loka, þó [að] þau hjari e.t.v. út kaupskyldutímann. Taki þau slíka ákvörðun, verður öll viðhaldsvinna lágmörkuð, og menn fara frá útkeyrðum, verðlausum iðjuverum. Eftir sitja Íslendingar með gríðarlega verðmætar orkulindir, en enga kaupendur og engar tekjur.
Við verðum aftur komin á reit nr 1, árið 1969. Er þetta stefnan að klára núverandi samninga og hætta svo ? Hvernig er öðruvísi hægt að skilja skæting frá Landsvirkjun um arðgreiðslur og kjarasamninga hjá Ísal; mál, sem henni kemur ekkert við ? Er það stefnan að hækka rafmagnið fram í rauðan dauðann ? Sitja út samningstímann, [á] meðan kaupskyldan varir, og fara svo ánægðir á eftirlaun ?"
Þetta er hárrétt athugað hjá Jónasi. Mesti viðhaldskostnaður álvers er fólginn í endurfóðrun kera. Sú starfsemi hefur verið aflögð í Straumsvík. Með fækkandi rafgreiningarkerum í rekstri minnkar rafmagnsnotkunin vikulega og framleiðslan og þar með raforkunotkunin.
ISAL verður ekki einsdæmi, heldur kanarífuglinn í námunni, fyrsta fórnarlambið, af því að Straumsvíkurverksmiðjan er elzt, og þar var orkusamningurinn útrunninn og þarfnaðist endurnýjunar fyrst. Iðnaðarráðherrann og ríkisstjórnin ásamt Alþingi verða að gera sér grein fyrir þeirri háskalegu þróun, sem nú á sér stað yfir hausamótunum á þeim. Núverandi stefna Landsvirkjunar mun leiða til þess, að hún stendur yfir höfuðsvörðum allra orkusæknu fyrirtækjanna í landinu. Er það virkilega þróun, sem Íslendingar þurfa á að halda, að hefjist nú, þegar umsvifamesta atvinnugrein landsins er í rúst og mun fyrirsjáanlega ekki ná vopnum sínum á næstunni ?
Bloggar | Breytt 10.5.2020 kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2020 | 18:22
Lítil frétt um stórmál og klúður
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur í um 3 áratugi reynt að koma í kring innan Sambandsins markaðsvæðingu á ríkiseignum í náttúrunni, t.d. ríkisjörðum, námum og orkulindum. Framkvæmdastjórn ESB telur sig hafa lögsögu um nýtingu náttúruauðlinda, sbr sameiginlega fiskveiði- og landbúnaðarstefnu Sambandsins (CAP), en styr hefur staðið við einar 8 aðildarþjóðir um nýtingu vatnsréttinda til raforkuvinnslu. Ætlaði Framkvæmdastjórnin með ágreininginn við Frakka, sem eru mesta vatnsorkuþjóðin innan ESB, fyrir Evrópudómstólinn. Nú er spurning, hvort þetta stefnumál verður eitt þeirra, sem lendir undir exi Úrsúlu von der Leyen í kjölfar COVID-19. Ástæðan er sú, að aðferðarfræði ESB hefur óhjákvæmilega í för með sér orkuverðshækkanir, og það er einmitt ætlun ESB til að knýja á um frekari fjárfestingar í dýrum mannvirkjum endurnýjanlegrar orku. Hagkerfi ESB-landa þarf hins vegar nú, eins og annars staðar, framar öðru á að halda ódýrri orku til að knýja endurreisn hagkerfa aðildarlandanna, sem eru mjög veikburða eftir lömun af völdum aðgerða til að hamla smiti á COVID-19, og loftslagsmarkmiðin verða einfaldlega að sitja á hakanum á meðan hjól atvinnulífsins eru að komast aftur á fyrri snúningshraða hið minnsta.
Innan EFTA-ríkjanna í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) er staðan lítið eitt önnur að því leytinu til, að EES-samningurinn fjallar ekki um orkulindirnar og reglur um stjórnun þeirra, en Lissabon-sáttmálinn veitir Framkvæmdastjórninni víðtækar heimildir til yfirstjórnunar á orkumálum ríkjanna. E.t.v. þess vegna hefur EFTA-dómstóllinn teygt sig ískyggilega langt inn á þetta svið, og dæmdi hann t.d. gegn norska ríkinu, að það væri að mismuna einkafyrirtækjum og ríkisfyrirtækjum með gamalli lagasetningu um það, sem Norðmenn kalla "hjemfall av vannkraftsressurser" eða þjóðnýtingu vatnsréttinda og vatnsaflsvirkjana eftir fyrst 80 ár og nú 60 ár í rekstri. Norðmenn breyttu þessari lagasetningu sinni, nýttu sér "frelsissvigrúmið", sem Carl Baudenbacher hefur gagnrýnt þá fyrir, og gerðu 2/3 eign ríkisins á þessari auðlind landsins að meginreglu, þannig að ekki gæti misréttis gagnvart einkaaðilum, og sú skipan hefur haldizt athugasemdalaust af hálfu ESA. Ríkisstjórnarlögmaðurinn (regjeringsadvokat) Sejersted, tefldi fram sínu "frelsissvigrúmi" og komst upp með það. Það sorglega er, að Íslendingar eiga engan Sejersted enn þá.
ESA, sem EFTA-megin er spegilmynd Framkvæmdastjórnar ESB, ákvað að ráðast á garðinn, þar sem hann var lægstur hjá EFTA með afskiptm af úthlutunarreglum nýtingarréttinda auðlinda á landi í eigu ríkisins með bréfi til íslenzku ríkisstjórnarinnar á þeim tíma, þegar hún átti fullt í fangi með að lágmarka neikvæðar afleiðingar bankahrunsins með undirbúningi Neyðarlaganna. Fyrsta bréfið var dagsett 14.10.2008.
Síðan gengu mörg bréf á milli, en varnir ríkisstjórnanna, sem í hlut áttu á Íslandi, hafa verið vegnar og léttvægar fundnar í Brüssel, enda alls ekki reynt að nýta sér neitt "frelsissvigrúm". Bréf ríkisstjórnanna íslenzku til ESA hafa ekki verið gerð aðgengileg almenningi, en af bréfum ESA, sem aðgengileg eru á vefsvæði Eftirlitsstofnunarinnar, má ráða í efni þeirra. Þessum ríkisstjórnum virðist ekki hafa hugkvæmzt sú djarfa og árangursríka leið Norðmanna, þegar þeir síðar fengu bréf svipaðs efnis, að efast hreinlega um lögsögu ESA yfir ráðstöfun náttúrulegra orkulinda til raforkuvinnslu. Vonandi sér íslenzka ríkisstjórnin að sér með aðstoð Alþingis og gengur í skóla prófessors Sejersteds. Atbeini Alþingis er eðlilegur og nauðsynlegur í stórmáli, sem stjórnvöld hafa frá upphafi gert sér far um að drepa á dreif.
Úrskurður ESA, nr 075/16/COL, í þessu máli var gefinn út 20.04.2016, og íslenzk stjórnvöld vöktu ekki sérstaka athygli þjóðarinnar á honum, þótt hann fæli í sér kröfu um fullveldisafsal á megninu af orkulindum Íslands með því að fyrirskrifa markaðssetningu á Innri markaðinum á nýtingarrétti orkulinda í ríkiseigu. Hvernig í ósköpunum ríkisstjórninni kom til hugar að fallast alfarið á þetta fullveldisframsal er eftir að útskýra fyrir þjóðinni. Tveir ráðherranna, sem þá áttu hlut að máli, sitja í núverandi ríkisstjórn, svo að þingmönnum er í lófa lagið að leita skýringa hjá þeim. Þessir ráðherrar fá falleinkunn, ef þau svara þannig, að embættismenn hafi sagt þeim, að EES-samningurinn legði Íslendingum þær skyldur á herðar að framselja markaðnum nýtingu orkulindanna eða að embættismenn hafi haldið því fram, að Stjórnarskráin eða almenn löggjöf bannaði stjórnvöldum það ekki. Kenningar Sejersteds voru þá löngu kunnar.
Þessir ráðherrar eru:
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, 07.04.2016-11.01.2017
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, 08.04.2016-11.01.2017.
Þann 15.12.2016 fór síðan bréf frá ríkisstjórninni með tímasettri framkvæmdaáætlun, og skyldi lúkning verða 30.05.2017. Á þessum grundvelli lauk þessu máli af hálfu ESA með bréfi til ríkisstjórnar: 010/17/COL, en ekkert hefur verið framkvæmt í málinu og verður sennilega ekki úr þessu. Þessi vinnubrögð íslenzkra stjórnvalda eru afspyrnuléleg og gæti kæra ESA fyrir EFTA-dómstólinum þar af leiðandi verið yfirvofandi fyrir skort á efndum.
Um hvað fjallaði litla fréttin í Mogganum 11.04.2020 ? Hún bar fyrirsögnina:
"Fresta frumvarpi um nýtingu auðlinda"
og hófst þannig:
"Upp hafa komið rökstuddar efasemdir um, að tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins um þjónustu á innri markaðinum, og til vara grein EES-samningsins um staðfesturétt, eigi við um raforkuframleiðslu.
Því hafa íslenzk stjórnvöld ákveðið að fresta fyrirhuguðum lagabreytingum uns betri vissa verður fengin fyrir því, hvaða þjóðréttarlegu skuldbindingar hvíla á íslenzka ríkinu að þessu leyti. Frumvarpið verður því ekki lagt fyrir Alþingi á þessum vetri."
Frestur er á illu beztur má um þessa niðurstöðu ríkisstjórnarinnar segja. Hún vísar augljóslega beint til málatilbúnaðarins gegn Noregi og snöfurmannlegs svars Sejersteds eða a.m.k. í anda "frelsissvigrúms". Málatilbúnaðurinn gegn gegn Íslandi var af öðrum toga, þótt afleiðingarnar yrðu hinar sömu, næði ESA sínu fram.
Það vafðist ekki eitt andartak fyrir norskum stjórnvöldum, hvort Noregur væri að þjóðarétti bundinn við að hlýða ESA og framselja náttúrulegar orkulindir sínar, aðallega virkjaðar vatnsorkulindir, í hendur Innri markaði EES, sem í einu og öllu lýtur regluverki ESB. Þegar mikilvægir ríkishagsmunir eru í húfi, grípa Norðmenn til "frelsissvigrúmsins", sem þeir reyndar nefna "handlingsrommet".
Bréf ESA til norsku ríkisstjórnarinnar (orku- og olíumálaráðuneytisins) barst ekki fyrr en 30.04.2019. Málatilbúnaður þar var af öðru tagi en gegn Íslandi, en krafan þó sams konar, og afleiðingar uppgjafar yrðu eins. ESA kvað norska ríkið verða að finna óyggjandi markaðsverð á vatnsréttindum í eigu ríkisins og leyfa jafnan aðgang allra fyrirtækja, óháð eigendum og rekstrarformi. Ljóslega er hér átt við allan Innri markað EES. Var vitnað í þrenns konar lögskýringargögn ESB kröfunni til fulltingis:
- Þjónustutilskipun nr 2006/123/EB
- Tilskipun um opinber innkaup nr 2014/23/EB
- TFEU (stofnsáttmáli ESB) gr. 49 og 56
Norska ríkisstjórnin svaraði snöfurmannlega rúmum mánuði síðar, bar svarið undir Stórþingið og fékk fullan stuðning þess. Bréf orku- og iðnaðarráðuneytisins var vel ígrundað og stutt sannfærandi lagalegum rökum. Niðurstaða þess var höfnun á þeim grundvelli, að ofangreindar tilskipanir og greinar stofnsáttmála ættu ekki við raforkuvinnslu og Norðmenn hefðu tekið það fram á sínum tíma, þegar þjónustutilskipunin var í burðarliðnum, að þeir teldu orkuvinnslu úr náttúruauðlindum Noregs alls ekki falla undir gildissvið hennar.
Svona eiga sýslumenn að vera. Það er eitthvað annað en klúðursleg vinnubrögð íslenzka Stjórnarráðsins í þessu máli. Hvað skyldi valda því, að hér eru flækjufætur einar settar til verka og dagskipun ráðherra virðist vera að bukka sig og beygja fyrir Brüssel (einnig aðsetur ESA). Þessu verður að linna, og það verður að draga línu í sandinn. Það er Sejersted-línan. EES-samningurinn snertir ekki stjórnun auðlinda landsins.
Í viðhengi er ítarlegri grein um þetta mál eftir pistilhöfund.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.5.2020 | 10:26
Breytt heimsmynd
Mannskæðir alheims sjúkdómsfaraldrar breyta heiminum. Afleiðingar spænsku veikinnar, sem var víst amerísk, ef nánar er að gáð, hafa vafalaust haft djúptæk áhrif, en þau hurfu í skugga hrikalegrar lífsreynslu af Heimsstyrjöldinni fyrri og þeirra feiknarlegu þjóðfélagsátaka, sem af henni leiddu, en þá missti kirkjan mikil völd í Evrópu, og aðallinn missti fótanna. Þessir aðilar höfðu fram að því talið alþýðunni trú um guðlegt boðvald sitt yfir henni, en helvíti skotgrafanna leysti alþýðuna úr viðjum, því að guðlegur vilji og vald gat ekki legið að baki slíkum hörmungum. Byltingarástand ríkti víða, og hún tókst í Rússlandi 1917 að undirlagi þýzku hérstjórnarinnar, sem sendi kaffihúsasnatann Lenín frá Sviss til Rússlands. Þessi bylting át börnin sín, eins og sú franska 1789. Aðeins sú borgara- og bændabylting, sem varð á Englandi öld áður, tókst. Efldist þá þingræðið á Englandi á kostnað konungsvalds, en aðlinum tókst að laga sig að breytingunum og flaut ofan á (eins og hrossataðskögglarnir).
Það er mörgum umhugsunarefni, hvað taka muni við í heiminum eftir COVID-19. Það er líklegt, að talsvert af þeirri framleiðslu, sem vestræn fyrirtæki hafa á undanförnum áratugum flutt að heiman og til Kína og annað, muni snúa í heimahagana á næstu árum, a.m.k. sú, sem talin er varða miklu fyrir öryggi og heilsufar þegnanna. Þetta gæti táknað endalok alþjóðavæðingarinnar, eins og við þekktum hana, þar sem þjóðir reiða sig ekki lengur á aðdrætti frá útlöndum í sama ríka mæli og verið hefur. Traust til Kínverja hefur beðið hnekki vegna upphaflegra viðbragða þeirra við SARS-CoV-2 veirunni, sem voru í ætt við viðbrögðin við SARS-CoV-1 rúmum hálfum öðrum áratugi fyrr. Stórveldistilburðir þeirra eru líka að verða ruddalegri en góðu hófi gegnir. Vestræn ríki munu draga úr viðskiptasamstarfi við Kínverja á "strategískum" sviðum, en vonandi getum við nýtt fríverzlunarsamninginn við þá meira til matvælaútflutnings. Þeir eru háðir matvælainnflutningi.
Þetta hlýtur að styrkja innlenda framleiðslu á Íslandi á nauðsynlegu viðurværi, t.d. matvælum. Það er heldur ekki í kot vísað fyrir landsmenn að snúa sér í auknum mæli að innlendum matvælum. Það er leitun að sambærilegum gæðum og hollustu, t.d. vegna hreins lofts, gæðavatns og mjög lítillar notkunar sýklalyfja. Hvers vegna að fara yfir lækinn til að sækja vatnið ?
Auðvitað á ríkisfyrirtækið Landsvirkjun að teygja sig langt í að bjóða ódýra raforku, bæði ótryggða orku og forgangsorku, og þursahátt stjórnenda þar í garð viðskiptavina á ekki að líða. Óljósar fréttir um verðafsláttarhugmyndir þar á bæ eru ófullnægjandi.
Guðlaugu Kristinsdóttur, stjórnarformanni Límtré-Vírnets o.fl., eru greinilega þessi mál hugleikin. Þann 8. apríl 2020 birtist frábær grein eftir hana í Markaði Fréttablaðsins, undir fyrirsögninni:
"Sveigjanleiki skiptir sköpum"
"Hagkerfi heimsins eru nær öll á hnjánum. Ísland er þar engin undantekning, og fram undan er mikið verk til að tryggja upprisu lands og þjóðar. Íslenzkt hugvit og handverk mun ráða miklu um árangurinn, en ekki síður stefnan, sem við tökum í þessum skrýtnu aðstæðum.
Á undanförnum vikum hefur komið í ljós, að þjóðir heims hugsa fyrst um sjálfar sig, þegar hætta steðjar að. Virðiskeðja alþjóðaviðskipta er rofin, vöru- og fólksflutningar eru afar takmarkaðir, og alþjóðasamningar eru í hættu. Aðstæðurnar kalla víða á breytt viðhorf, ekki sízt hvað varðar sjálfbærni hagkerfa. Skyndilega sjá allir mikilvægi þess, að þjóðir geti framleitt mat fyrir sjálfar sig og forgangsröðun fjármuna í þágu heilbrigðiskerfa. Allir virðast sammála um, að ríki grípi til umfangsmikilla efnahagsaðgerða, svo [að] hjól samfélagsins snúist, þrátt fyrir vírusa og innilokanir." [Undirstr. BJo]
Staðan er einstök, því að öll hagkerfi heimsins eru í lamasessi samtímis og öll verða nú fyrir gríðarlegum tekjumissi og munu þurfa á miklu lánsfé að halda í kjölfarið. Seðlabankar prenta peninga, og ríkisstjórnir ætla að láta verðbólguna rýra höfuðstólinn á verðbólgubáli. Lántakendur í erlendum gjaldmiðli verða fórnarlömbin.
COVID-19 tímabilið hefur í eymd sinni verið lærdómsríkt. Þjóðir heims hafa borið sig misjafnlega að og orðið mjög misjafnlega vel ágengt í baráttunni við SARS-COV-2 veiruna. Má nefna Suður-Kóreu sem dæmi um góðan árangur utan Evrópu, en í Evrópu virðist Þýzkaland bera af í hópi hinna fjölmennari og þéttbýlli landa. Er munurinn rétt einu sinni sláandi á Þjóðverjum og nágrönnum þeirra, Frökkum, hinum fyrrnefndu í vil. Þjóðverjar voru undirbúnir með fjölda sjúkrarúma og mikinn varnar- og sjúkrabúnað, þ.m.t. öndunartæki, og gripu leiftursnöggt inn í atburðarásina. Gott skipulag, góður undirbúningur og öguð viðbrögð, gerðu gæfumuninn. Þess vegna urðu tiltölulega fá smit í Þýzkalandi og hlutfallslega fá dauðsföll. Fyrir vikið mun atvinnulífið fyrr verða drepið úr dróma, og heildarkostnaðurinn mun verða lægri hjá Þjóðverjum en Frökkum. Í Belgíu virðist heilbrigðiskerfið gjörsamlega hafa farið á hliðina. Um það vitnar gríðarhátt hlutfall látinna af smituðum. Hérlendis er þetta hlutfall aðeins um 0,6 %, en þar sem sérlega illa hefur tekizt til, er þetta hlutfall 20-40 sinnum hærra.
Það, sem þó háir Íslendingum í þessari baráttu er skortur á hentugu húsnæði og aðbúnaði, þar sem nýi Landsspítalinn er enn í byggingu og kemst a.m.k. 5 árum of seint í gagnið m.v. þörfina. Þar verður að hafa til reiðu fjölda sjúkrarúma og gera ráð fyrir snöggri stækkun á gjörgæzluaðstöðu. Það munu ekki líða 100 ár að næstu alvarlegu kórónuveiru, og aðrir enn hættulegri heimsfaraldrar gætu hæglega blossað upp á þessum áratugi. Hin hrikalega ebóla var kveðin niður í Afríku með miklu harðfylgi vestræns heilbrigðisstarfsfólks á fyrsta áratugi þessarar aldar. Veirur eru til rannsókna og þróunar í misjöfnu augnamiði á rannsónarstofum heimsins og geta sloppið þaðan af ýmsum orsökum. Forseti Bandaríkjanna hefur fjálglega viðrað grunsemdir um uppruna Wuhan-veirunnar á rannsóknarstofu þar í borg, en hann er að vísu alræmdur blóraböggulsframleiðandi. Það eru ekki öll kurl komin til grafar með þessa SARS-CoV-2 veiru, uppruna hennar, og hvernig hún dreifðist út fyrir Kína, til skíðasvæðanna í Ölpunum og víðar. Seinagangur Kínverja í upphafi á sök á útbreiðslunni. Lokun Kína í desember 2019 hefði væntanlega þýtt, að kostnaður heimsins í baráttunni við óværuna hefði aðeins orðið brot af þeim hundruða trilljóna USD kostnaði, sem heimurinn situr uppi með.
Í þessum kórónafaraldri hefur komið í ljós, að virðiskeðjur fyrir inn- og útflutning landsins rofna auðveldlega og samkomulag og sambönd halda illa. Nægir að nefna, að framleiðsla í "Verksmiðju heimsins", Kína, stöðvaðist á mörgum sviðum og framkallaði það skort á þessum "just-in-time" tímum, þegar enginn vill halda birgðir. Jafnvel þýzka hernum var bannað að halda birgðir af skammsýnum stjórnmálamönnum, og hefur það valdið því, að megnið af kafbátum og orrustuþotum landsins voru ekki bardagahæf, þegar til átti að taka á æfingum. Ursula von der Leyen var landvarnarráðherra, þar til Þjóðverjar sendu hana til Brüssel. Hún rýrði bardagahæfni hersins til muna með aðgerðum af þessu tagi, en hún gekk lengra. Hún vildi uppræta hefðir hersins, eins og að ganga fylktu liði og syngja marsa, siði, sem rekja má allt aftur til prússneska hersins fyrir daga Friðriks, mikla, sem margan frækinn sigurinn vann í Evrópu. Þá fyrirskipaði hún að taka niður mynd af Helmut Schmidt, fyrrum kanzlara Vestur-Þýzkalands, þar sem hann var í herbúningi Wehrmacht (barðist á Austurvígstöðvunum). Ekki þarf að spyrja að því, að forystuhæfileika í ESB sýndi téð von der Leyen enga, þegar til átti að taka, þegar SARS-CoV-2 herjaði sem verst á Evrópu í marz-apríl 2020. Er Evrópusambandið ekki búið að bíta úr nálinni með lömun sína og aðgerðaleysi til varnar íbúunum, þegar hæst átti að hóa. Þetta er einn naglinn í líkkistu ESB.
Nú hefur heimsmarkaðsverð olíu hrapað niður í 20-30 USD/tunnu. Jafnframt hefur raforkuverð heimsins hrapað, og er á heildsölumörkuðum yfirleitt undir 10 USD/MWh. Þetta grefur undan orkustefnu ESB í bráð og lengd. Margir hljóta að spyrja sig í Evrópu: hvers vegna erum við að halda uppi gráðugu skrifstofubákni í Brüssel og víðar, sem virðist ekki vera til neins gagns, þegar mest ríður á ? Þótt Bretar hafi farið illa út úr COVID-19, er ekkert, sem bendir til, að aðild að ESB hefði verið hjálpleg.
Schengen samningurinn fór fyrir lítið, því að hvert ríkið á fætur öðru lokaði landamærum sínum í trássi við von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Um síðir samþykkti ESB að loka ytri og innri landamærum sínum.
Alvarlegastur er ágreiningurinn innan Evrópusambandsins (ESB) um sameiginlegar hjálparaðgerðir við nauðstödd ríki innan ESB vegna kostnaðarins og tekjutapsins af völdum COVID-19. Suðurríkin, sem Frakkar styðja, vildu, að Seðlabanki evrunnar gæfi út "Kórónubréf", en Norðurríkin snerust öndverð við því af skiljanlegum ástæðum, sbr "við greiðum ekki skuldir óreiðumanna". Úr varð, að úr björgunarsjóði verða mrdEUR 500 til ráðstöfunar inn á við í ESB út af COVID-19. Viðtakendur verða aðallega Ítalir, Spánverjar og Frakkar, ef að líkum lætur, en upphæðin mun ekki duga til að koma efnahag þessara ríkja í samt lag. Norðurríkin verða langt á undan Suðurríkjunum við að koma hjólum efnahagslífsins aftur á góðan snúning. Þetta mun enn auka á efnahagslega og pólitíska sundrungu á milli suðurs og norðurs, sem getur endað með ósköpum og talsverðri veikingu evrunnar.
"Á sama hátt er ómetanlegt fyrir þjóðir að ráða sjálfar sínum efnahagsmálum, reka sína eigin peningastefnu, og eiga sinn eigin gjaldmiðil. Kostir þess hafa sýnt sig í fyrri kreppum, og þeir munu gera það núna.
Íslenzkur iðnaður þekkir þetta vel. Líkt og aðrar þjóðir hafa Íslendingar tekizt á við miklar efnahagssveiflur, en með sjálfstæði og sveigjanleika í farteskinu hefur okkur tekizt að að vinna vel úr áföllunum. Nái ég kjöri sem formaður Samtaka iðnaðarins, mun ég beita mér fyrir auknu alþjóðasamstarfi iðnaðarins. Ég vil, að iðnaðurinn efni til meira samstarfs út fyrir Norðurlöndin og Evrópu, við systursamtök í öðrum heimsálfum og löndum, sem hafa náð langt. Tækifærin eru víða og einskorðast sannarlega ekki við innri markað Evrópusambandsins."
Fyrsti hluti þessarar tilvitnunar er hárrétt athugaður hjá Guðlaugu, en skilningi á þessu hefur verið ábótavant hjá mörgum formönnum SÍ. Síðari hlutinn sýnir vel víðsýni Guðlaugar, og að hún er vel meðvituð um þróun viðskiptatækifæranna á næstunni. Hún hefði orðið mikill fengur fyrir forystu Samtaka iðnaðarins. Því miður átti það ekki fyrir SI að liggja að þessu sinni.
Sumir eru þeirrar skoðunar, að SARS-COV-2 veiran verði banabiti ESB í sinni núverandi mynd (án Breta). Morgunblaðið fylgist vel með þessum málum, sem öðrum, og þar var 7. apríl 2020 frétt undir fyrirsögninni:
""Mesta prófraun" ESB".Hún hófst þannig:
"Angela Merkel, Þýzkalandskanzlari, varaði við því í gær, að aldrei hefði reynt jafnmikið á samheldni Evrópusambandsríkjanna og nú. Hvatti hún ríki álfunnar til þess að vinna saman að því að endurreisa efnahag aðildarríkjanna, þegar heimsfaraldurinn verður liðinn hjá.
"Ég tel, að Evrópusambandið standi nú frammi fyrir mestu prófraun sinni frá stofnun", sagði Merkel og bætti við, að öll ríkin hefðu fundið fyrir faraldrinum, og því væri það hagur allra, að Evrópuríkin kæmu styrkum fótum frá þessari raun."
"Stjórnvöld í Frakklandi vöruðu við því í gær, að yfirvofandi væri versta efnahagskreppa, sem Evrópa hefði séð frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Sagði Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, að tryggja þyrfti, að ríkari ríki sambandsins næðu sér ekki af áhrifum kórónaveirunnar fyrr en hin verr settu, því [að] annars yrði eining aðildarríkjanna, sem og evrusvæðið [evrusvæðisins-leiðr. BJo], fyrir miklu höggi."
Þarna segja Frakkar, að þeir muni koma lamaðir út úr viðureigninni við SARS-COV2, enda ekki borð fyrir báru þar á bæ frekar en fyrri daginn. Fjármálaráðherrann segir í raun, að Þjóðverjar megi ekki nýta hlutfallslega yfirburði sína, þegar hagkerfi þeirra kemst í gang aftur, til að auka enn forskot sitt og auka hagvöxtinn hjá sér langt umfram það, sem hin ríkin munu verða fær um. Af þessu er ljóst, að vandamálin hrannast upp fyrir ESB úti við sjónarrönd, einkum vegna þess, hversu ólíkar aðildarþjóðirnar eru að upplagi. Evran var ótímabær og illa ígrunduð tilraun. Framtíð hennar er í meiri óvissu núna en í kjölfar fjármálakreppunnar 2007-2008 og Grikklandsfársins 2012, enda hefur lítið verið gert til að skjóta undir hana fótum, nema brauðfótum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.4.2020 | 13:47
Stærsta höggið
Lömun íslenzks atvinnulífs af völdum kóróna-veirunnar SARS-COV-2 verður líklega meira efnahagsáfall hérlendis en hrun fjármálakerfisins 2008 vegna þess, hversu vel Neyðarlögin vernduðu landsmenn þá. Líklega er þetta hlutfallslega meira efnahagsáfall en reið yfir þjóðina, þegar síldin hvarf 1967, og í Kreppunni miklu, sem hófst 1929, og erfiðara áfall en Fyrri heimsstyrjöldin, Spænska veikin og vandræðin í kjölfar erfiðleikaskeiðsins 1914-1918.
Gæti jafnvel þurft að leita aftur til Móðuharðindanna 1783-1785 til að finna hlutfallslega meira tekjutap sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en nú ríður yfir, um 15 %. Þar með er ekki sagt, að afleiðingarnar verði jafnalvarlegar og í þessum fyrri efnahagsáföllum. Það er vegna þess, að nú eiga landsmenn drjúga sjóði og ríkissjóður var orðinn skuldlítill. Þau búmannshyggindi, sem í hag koma síðar, verða einfaldlega að halda áfram, þegar hjól atvinnulífsins fara aftur að snúast á eðlilegum hraða. Það er alveg öruggt, að aftur mun ríða yfir efnahagsáfall, sem verður dýrkeypt, en það er skylda okkar að verða svo vel brynjuð, að ekki þurfi að segja landið til sveitar á meðal þjóðanna, hvað þá að til þjóðargjaldþrots komi.
Allir vita, að það er ekkert skjól að hafa í EES eða ESB. Hið eina, sem hjálpar er eiginn styrkur, lágar skuldir, öflugur gjaldeyrisvarasjóður og mikill hagvöxtur. Til þess þarf lágt raforkuverð í landinu, áherzlu á innlenda framleiðslu, aðhald í öllum rekstri og miklar (skynsamlegar) fjárfestingar.
Nú eru um 50 þúsund manns á atvinnuleysisskrá með einum eða öðrum hætti. Það er meira en fjórðungur vinnuaflsins og um þriðjungur vinnuafls einkageirans, en höggið lendir langþyngst á honum. Ekki getur orðið sátt í þjóðfélaginu um annað en allir geirar samfélagsins taki á sig kjaraskerðingar af þessum völdum, því að kjaraskerðing er óumflýjanleg í öllum löndum. Verkfallsboðun nú er hrópleg tímaskekkja, skemmdarverk og félagslegur vanþroski. Það má búast við, að tekjutap landsins nemi a.m.k. mrdISK 500 eða tæplega 40 % af árlegum gjaldeyristekjum landsins, því að samdráttur gjaldeyristekna mun vara mun vara mun lengur en eitt ár. Þetta högg lendir á þjóðinni, en ríkisstjórnin deyfir það með feiknarlegum lántökum, sem þarf að borga upp sem fyrst. Alþýðusamband Íslands hefur enn ekki horfzt í augu við þennan vanda, heldur stungið hausnum í sandinn. Þar með bregst forystan félagsmönnum sínum. Fyrr en síðar verður hún að draga hausinn upp úr sandinum og horfa raunsæjum augum á viðfangsefnið, sem er að lágmarka tjón almennings núna og að búa hann fjárhagslega sem bezt undir næsta áfall í stað þess að grafa sig ofan í enn dýpri holu.
Iðnaðurinn hefur náð því að standa undir 30 % útflutningstekna landsins. Áliðnaðurinn hefur í þokkalegu árferði staðið undir um 70 % af þessum tekjum. Hann stendur mjög illa núna, reyndar víðast hvar í heiminum, þó misvel, svo að búizt er við fækkun álvera í rekstri. Það mun draga markaðinn í átt að jafnvægi framboðs og eftirspurnar. Hvað er að gerast hjá Landsvirkjun. Í hádegisfréttum RUV í gær, 28.02.2020, var sagt frá 25 % lækkun raforkuverðs til stóriðju, en síðan ekki söguna meir. Hvers konar reykmerki var þetta ? Er bálköstur í háhýsinu ofarlega á Háaleitisbraut ?
Ekki er nóg með, að fyrrnefnd veira komi frá Kína, heldur voru Kínverjar búnir að eyðileggja þennan markað með offramboði, og vegna eftirspurnarleysis hefur botninn nú gjörsamlega fallið úr markaðinum, svo að CRU (brezkt ráðgjafarfyrirtæki) spáir því, að verðið eigi enn eftir að lækka um 100 USD/t eða niður í 1350 USD/t Al. Alls staðar hefur samfara þessu raforkuverðið lækkað, nema hjá ISAL í Straumsvík, enda er fyrirtækið nú í andarslitrunum, eins og fram hefur komið. Verður nú vitnað í nokkrar fréttaskýringar um þetta:
"Álverin í miklum vanda" var heiti baksviðsfréttar Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 2. apríl 2020. Hún hófst þannig:
"Íslenzkur áliðnaður hefur sjaldan eða aldrei staðið frammi fyrir jafnkrefjandi markaðsaðstæðum [og nú]. Vegna kórónuveirufaraldursins hefur eftirspurnin hrunið og við það safnazt upp miklar birgðir.
Áður en faraldurinn breiddist út til Evrópu var mikil umræða um rekstrarvanda álversins í Straumsvík. Til skoðunar var [og er] að loka álverinu vegna taprekstrar árum saman.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda (Samáls), segir ekki hægt að útiloka, að dregið verði enn frekar úr álframleiðslu á Íslandi vegna erfiðra aðstæðna."
Þessi sérstöku vandræði áliðnaðarins auka enn aðsteðjandi vanda landsmanna. Hvorki verkalýðshreyfing né aðrir geta litið undan og látið sem ekkert sé, enda gilda nýir kjarasamningar í Straumsvík aðeins til 30.06.2020. Þeir innihalda framlengingarákvæði, en það er skilyrt samkomulagi við Landsvirkjun fyrir þann tíma. Þar sem hvorki virðist ganga né reka í viðræðum Rio Tinto/ISAL við Landsvirkjun, stefnir nú í lokun eins af hryggjarstykkjum atvinnumarkaðarins á höfuðborgarsvæðinu. Veigamikil veiking iðnaðarins við þessar ömurlegu aðstæður mun gera endurreisnarstarfið enn erfiðara.
Baldur sýnir graf um verð áls á LME 01.03.2020-31.03.2020, þar sem það lækkar frá 1890 USD/t Al í 1489 USD/t Al, og nú er það komið nálægt 1450 USD/t Al og hefur þess vegna lækkað um tæpan fjórðung á rúmu ári. ISAL var rekið með um mrdISK 18 tapi árin 2018-2019, og þess vegna eru engar forsendur fyrir rekstri áfram að óbreyttu. 10 % lækkun raforkuverðs dugar ekki þar, svo að dæmi sé tekið.
Í lok baksviðsfréttaskýringarinnar vitnaði Baldur í Pétur Blöndal:
"Á þessum fordæmalausu tímum er mikilvægt sem aldrei fyrr að standa vörð um samkeppnishæfni íslenzks orkusækins iðnaðar. Það liggur fyrir, að ekki er framleitt á fullum afköstum í Straumsvík, en ISAL hefur bent á, að orkuverðið sé ekki samkeppnishæft. Ekki er heldur framleitt á fullum afköstum hjá Norðuráli, en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er það vegna þess, að ekki er í boði orka á samkeppnishæfu verði. Þetta hefur ekki einungis í för með sér tap fyrir álverin og orkufyrirtækin, heldur verður þjóðarbúið af miklum gjaldeyristekjum.
Það hlýtur að vera verkefnið að tryggja orkusæknum iðnaði á Íslandi sjálfbærar rekstrarforsendur, til þess að hann haldi áfram að blómgast hér á landi. Sú staða, sem komin er upp í viðskiptalífinu, er fordæmalaus og getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Íslenzkur áliðnaður er þar auðvitað ekki undanskilinn, og skapazt hefur mikil óvissa á mörkuðum. Ég hef hins vegar þá trú, að áliðnaður á Íslandi eigi framtíðina fyrir sér, ef rekstrarforsendur eru sjálfbærar til framtíðar og samkeppnishæfnin treyst", segir Pétur."
Ef það er stefna Landsvirkjunar, þá getur hún vissulega gengið á milli bols og höfuðs á iðnaðinum. Orkulögin á Íslandi fría orkufyrirtækin ábyrgð á afdrifum viðskiptavina sinna og uppáleggja þeim einvörðungu að hámarka eigin gróða. Við fordæmalausar aðstæður kemur skýrt í ljós það, sem þó mátti öllum vera ljóst fyrir, að orkulöggjöf innflutt frá ESB og auðvitað sniðin við gjörólíkar markaðs- og orkukerfisaðstæður þeim, sem hér ríkja, að þessi orkulöggjöf samrýmist ekki hagsmunum atvinnulífs og almennings á Íslandi. Það má jafnvel búast við endurskoðun orkustefnunnar á meginlandi Evrópu í kjölfar COVID-19, því að til að knýja endurreisnina áfram mun þurfa tiltölulega lágt orkuverð. Stefna ESB hefur verið hátt orkuverð til að ýta undir virkjanir endurnýjanlegra orkugjafa. Er þá ekki Orkupakki 4 sjálfdauður ?
Þetta krystallaðist í efstu forsíðufrétt Morgunblaðsins nú í dymbilvikunni, 7. apríl 2020, en dymbill getur verið kólfur í bjöllu eða kirkjuklukku. Þarna glumdi sú klukka landsmönnum, að undirbúningur eiganda ISAL-verksmiðjunnar að stöðvun hennar um árabil eða að endanlegri lokun væri í fullum gangi.
Hvaða áhrif ætli stöðvun starfseminnar í Straumsvík hefði á þjóðarhag ? Það kom m.a. fram í baksviðsfrétt Baldurs Arnarsonar í Morgunblaðinu 14. febrúar 2020:
"Lokun álvers hefði víðtæk áhrif":
""Lokun álversins í Straumsvík myndi hafa víðtæk efnahagsáhrif á Íslandi. Bæði mun það draga úr hagvexti og auka atvinnuleysi, sem þegar er mikið", sagði Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, og vísar til lykilstærða. Álverið skapi um 60 mrdISK/ár í gjaldeyristekjur og af þeim tekjum fari um 22-23 mrdISK/ár í að greiða fyrir innlenda þætti á borð við laun og raforku."
""Til að undirbyggja nýja uppsveiflu efnahagslífsins þarf að auka gjaldeyristekjur. Lokun álversins í Straumsvík færi þvert gegn því og myndi gera okkur erfiðara fyrir að snúa hagkerfinu frá samdrætti yfir í vöxt", segir Ingólfur."
Hver eru svo viðbrögð öflugasta ríkisfyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, við fordæmalausum aðstæðum á Íslandi ? Af viðbrögðum forstjóra Landsvirkunar við aðalfrétt Morgunblaðsins 7. apríl 2020 að dæma eru þau bæði óyfirveguð, vanstillt og fálmkennd. Í viðtali Stefáns E. Stefánssonar við hann í Morgunblaðinu á bls. 12, 3. apríl 2020, kom ekkert handfast fram. Bara reykur til að villa stjórnvöldum sýn. Þessi sömu stjórnvöld verða nú að taka af skarið:
"Hann segir, að Landsvirkjun vinni náið með viðskiptavinum sínum og vilji tryggja samkeppnishæfni sína til lengri tíma litið. Því leiti fyrirtækið leiða til að koma til móts við viðskiptavini sína, m.a. með lengri gjaldfresti, þar sem það á við.
Fyrir skemmstu var greint frá því, að Rio Tinto í Straumsvík hefði kallað eftir samtali um endurskoðun á raforkusamningi við LV vegna breyttra markaðsaðstæðna. Hörður segir, að það samtal standi enn yfir."
Það er ekki langur tími til stefnu að leiða þetta mál til lykta, og tíminn hleypur frá landsmönnum og fyrirtæki þeirra, Landsvirkjun, vegna þess, hvernig þar er haldið á málum. Stjórnvöld ættu nú að vera meðvituð um, hvað þarf að gera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2020 | 10:49
Heimilisbölið er verst
Vágestur frá borginni Wuhan í Kína hefur sett heimsbyggðina á annan endann. Við sérstakar aðstæður á matarmarkaði í Wuhan er sagt, að veiran SARS-CoV-2 hafi borizt úr leðurblöku í hreisturdýr og þaðan í menn, þar sem hún hefur stökkbreytzt oft. Það er líka orðrómur um, að þessi veira hafi sloppið út af lífefnafræðistofu í Wuhan, sem starfrækt er af kínverska hernum. Þykir uppbygging veirunnar styðja þá sviðsmynd, þar sem hún virðist vera samsett úr SARS-CoV-1, sem gekk í Kína og nágrannalöndum, og HIV-eyðniveirunni, sem var meira smitandi en hin. Það er einmitt smitnæmi veirunnar, sem gerir hana viðsjárverða og hefur valdið örvæntingarfullum viðbrögðum þjóða, sem hafa reynzt ofboðslega kostnaðarsöm og hagkerfin eru ekki búin að bíta úr nálinni með. Þetta ástand hefur líka leitt hugann að því, hversu tortímandi veiruhernaður getur verið í höndum hryðjuverkamanna eða ríkisvalds, sem einskis svífst. Slíkt ríkisvald gæti t.d. þróað skæða veiru og bóluefni gegn henni og bólusett eigin þjóð og bandamenn sína og sleppt svo veirunni lausri. Það er voðalega hætt við því, að alþjóðaviðskiptin bíði varanlegan hnekki við C-19 og að ferðaþjónustan verði stærsta fórnarlambið. Það er óhætt að leggja stækkunarhugmyndir ISAVIA vegna FLE á ís.
Það hverfur allt í skugga frétta af C-19, enda munu daglegir fundir sóttvarnalæknis, landlæknis og almannavarna hafa verið vinsælasta sjónvarpsefnið, þegar veiran geisaði, þótt ótrúlegt megi heita.
Það eru örlagaríkir tímar nú hjá ISAL í Straumsvík, og ber ekki á öðru en stefnt sé að lokun verksmiðjunnar 30.06.2020, en þá renna kjarasamningar við starfsmenn fyrirtækisins út. Álag verksmiðjunnar á raforkukerfið dvínar með hverri vikunni, sem líður, enda er áreiðanlega hætt að endurnýja rafgreiningarker, sem falla úr rekstri. Þetta er þyngra en tárum taki nú, þegar landið þarf á allri sinni framleiðslugetu að halda til útflutnings og gjaldeyrissköpunar, þegar engir erlendir ferðamenn koma til landsins.
Það er fyrir neðan allar hellur, ef ríkisstjórnin ætlar að láta þetta gerast fyrir framan nefið á sér, því að Landsvirkjun er að fullu í eigu ríkisins. Það er enginn að tala um fúlgur fjár úr ríkissjóði til ISAL, heldur að varðveita tekjustreymi frá fyrirtækinu og starfsmönnum þess til hins opinbera með lækkun á einu hæsta raforkuverði í heimi til starfandi álvers.
Sérfræðingur í orkumálum og orkusamningum Landsvirkjunar, enda stoð og stytta stjórnarformanns og forstjóra fyrirtækisins um orkusamninga þess um langa hríð, Elías B. Elíasson, ritaði grein um þessi málefni, sem birtist í Morgunblaðinu 16. apríl 2020 undir neðangreindri fyrirsögn. Hann gerði fyrst að umræðuefni sláandi upplýsingar um stöðu ISAL og samskiptin við Landsvirkjun, sem var efniviður mjög athygliverðrar forsíðufréttar og baksviðsgreinar Stefáns E. Stefánssonar í Morgunblaðinu 7. apríl 2020. :
"Að þrasa frá sér viðskiptavin":
"Hið síðara var svar Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, þar sem hann m.a. fárast yfir arðgreiðslum Ísal fyrir þrem árum og býsnast yfir því, að kjarasamningar þar voru ekki samþykktir lengur en fram á sumar. Skýrar verður því varla kastað yfir borðið til viðsemjanda, að það sé ekkert við hann að tala. Svona einfaldlega gerir maður ekki, þegar um er að ræða samninga, sem eru jafn þjóðhagslega mikilvægir og þessir, allra sízt á svo viðsjárverðum tímum sem nú."
Þetta er hárrétt mat hjá Elíasi. Viðbrögð forstjóra Landsvirkjunar við bitrum sannleikanum, sem þarna birtist þjóðinni umbúðalaust, báru vott um dómgreindarleysi og voru forstjóraembættinu ósamboðin með öllu. Þennan forstjóra varðar ekkert um fjárstreymi, sem fram fer á milli móðurfyrirtækis og dótturfyrirtækis, sem kaupir af Landsvirkjun orku. Fjárstreymi þetta er búið að vera margfalt í hina áttina, og munar þar mestu um MUSD 500 fjárfestingu Rio Tinto í Straumsvík í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008. Þá er hreinn dónaskapur af forstjóranum að blanda sér í efni eða tímalengd kjarasamninga í Straumsvík. Allt sýnir þetta, að þessi forstjóri er bara í bullandi pólitík gegn erlendum iðnaðarfjárfestum á Íslandi. Á slíkum þurfum við sízt á að halda nú á þessum síðustu og versu tímum með tæplega 20 % atvinnuleysi og sums staðar 40 %.
"Áður fyrr var það reglan, að viðræður fóru fram í "góðri trú", eins og það heitir á lagamáli. Landsvirkjun virðist hafa vikið af þeirri braut, en tímabært er að taka þá góðu siði upp aftur. Það er svo annað mál, hvort hægt sé að koma upp því trausti, sem ríkja þarf [á] milli aðilanna án þess að skipta um í brúnni."
Í góðri trú í þessu sambandi merkir, að báðir aðilar eru staðráðnir í að ná samkomulagi, sem báðir mega við una, og báðir eru sannfærðir um, að gagnaðilinn sé í viðræðunum af fullum heiðarleika og án undirmála. Þetta felur auðvitað í sér, að hvorugur aðilinn hótar hinum og komið er fram af fullri hreinskilni.
Nú er öldin önnur. Síðan vinstri stjórnin réð Hörð Arnarson til starfa, hefur forstjóri Landsvirkjunar verið herskár í garð viðskiptavina sinna og látið í veðri vaka við þá, að ef þeir gangi ekki að skilmálum hans, hafi Landsvirkjun þann möguleika að selja rafmagn inn á sæstreng, sem tengja myndi Íslandskerfið við Innri orkumarkað ESB. Þá hefur verið skellt hurðum og komið þar með fram af ókurteisi við viðsemjendur. Það þarf minna til en þetta til að hleypa illu blóði í gagnaðilann, kannski ekki sjóaða samningamennina, heldur þá, sem þeir starfa í umboði fyrir. Þegar ríkisfyrirtæki á í hlut, sem er langstærsta raforkufyrirtæki landsins, þá hefur framkoma af þessu tagi pólitískt inntak, sem er grafalvarlegt fyrir þingmenn og þjóðina alla.
"Búast má við miklum breytingum í öllum viðskiptum milli þjóða í kjölfar COVID-19-faraldursins. Sterkar raddir eru uppi í vestrænum ríkjum um, að tryggja þurfi örugg aðföng mikilvægra vöruflokka betur en nú er, jafnframt því sem hert er aftur á hjólum efnahagslífsins. Þó að nú sé mest rætt um vörur til heilbrigðisgæzlu, fer ekki [á] milli mála, að ál er grundvallar hráefni fyrir þessar þjóðir. Þjóðirnar verða að tryggja iðnaði sínum greiðan aðgang að þessu hráefni, hvað sem líður öllum ófriðarblikum og tilraunum annarra, eins og Kína, til að ná yfirráðum á þeim markaði."
Elías skrifar þarna um ýmis merki um aukinn stuðning við kaupauðgistefnu ("merkantílisma"), sem núverandi forseti Bandaríkjanna virðist reyndar vera fulltrúi fyrir, þegar hann ræðir ekki um hreinsiefni í æð eða útfjólubláa geislun í heilsuverndarskyni "í kerskni". Það getur verið, að sú verði raunin um lykilvörur fyrir næringaröryggi, sóttvarnaöryggi og landvarnir, en meginstefnan verður vonandi áfram frjáls viðskipti með sem minnstum tollahindrunum. Hvernig Kínverjar hafa hagað sér á álmarkaðinum jafngildir grófri misnotkun viðskiptafrelsis, og hundsun á mikilvægum sjónarmiðum, sem þjóðir heims hafa sammælzt um til að draga úr áhrifum mannsins á náttúruna. Þeir hafa ekki hikað við að reisa kolaorkuver hundruðum saman til þess m.a. að framleiða ál með niðurgreiddum kostnaði af hálfu opinberra aðila, sem sent er á vestræna markaði til þess eins að valda þar offramboði og að drepa af sér samkeppni á þessu sviði á Vesturlöndum. Það skaðar ekki frjálsa samkeppni að stöðva þetta framferði. Hvers vegna eigum við svo að beygja okkur í duftið fyrir Huawei og kaupa af þeim 5 G tækni ? Varaforseti BNA varaði okkur við því í heimsókn sinni hingað í fyrra, þar sem forsætisráðherra varð heldur betur á í messunni, eins og eftirminnilegt er.
"Vesturlöndum er líka ljóst, hvaða þýðingu lágt orkuverð hefur, þegar byggja þarf upp hagvöxt þjóða, eins og nú þarf. Það er því líklegt, að baráttan gegn loftslagsvánni muni færast yfir á önnur svið en það að hækka verð á rafmagni upp úr öllu valdi. Sú sviðsmynd, sem Landsvirkjun hefur boðað, að orkuverð, og sérstaklega verð hreinnar orku, muni hækka og hækka er því orðin afar varasöm."
Þarna skyggnist Elías af skarpskyggni sinni inn í heim orkumála nánustu framtíðar. Atburðir, sem gerðust á olíumörkuðum heimsins eftir birtingu greinarinnar og á síðustu dögum nýliðins vetrar, veita smjörþefinn af því, sem koma skal og sýna, að Elías á kollgátuna. Hann kveður helzt til veikt að orði um stefnu Landsvirkjunar við orkuverðlagningu. Stefna, sem er útúrboruleg sérvizka, verður þjóðhættuleg, þegar hún er gerð að stefnu helzta orkufyrirtækis landsins. Að svo skyldi vera gert, er gjörsamlega ólíðandi, því að stefnumörkunin var ekki aðeins röng, heldur fór hún fram á rangan hátt. Ef gæta átti lýðræðishagsmuna, eins og vera ber um ríkisorkufyrirtæki, mátti það ekki gerast, að stefnumörkun Alþingis fyrir Landsvirkjun væri snúið á haus án umræðu, hvað þá samþykkis, á Alþingi. Hvaðan kom stjórn og forstjóra umboð til að kúvenda stefnu Landsvirkjunar ? Ef umboðið var ekki fyrir hendi, ætti slíkt að geta leitt til brottvikningar.
"Það er stefna Landsvirkjunar að hámarka verðmæti þeirra auðlinda, sem fyrirtækinu er trúað fyrir, en túlkun Landsvirkjunar virðist vera, að verðmætin komi í ljós í tekjustreymi hennar einnar án tillits til þess virðisauka, sem lágt orkuverð veldur í þjóðfélaginu. Þetta er röng túlkun. Þjóðin stofnaði þetta fyrirtæki til að skapa sjálfri sér tækifæri til að hagnast, og Landsvirkjun er því ætlað að hámarka þjóðhagslegt verðmæti auðlindanna, svo [að] öll þjóðin njóti góðs af. Þá túlkun þarf að marka með eigendastefnu fyrirtækisins."
Allt er þetta satt og rétt hjá Elíasi, og góð vísa er aldrei of oft kveðin, segir máltækið. Hér skal fullyrða, að lágt orkuverð auki hagvöxt í landinu, en hátt orkuverð hægi á hagvexti. Þar af leiðandi verður miklu meiri þjóðhagslegur ávinningur í landinu af, að Landsvirkjun gæti hófs í verðlagningu sinni, gæti þess að skila góðri framlegð til fjárfestinga sinna, en algerlega verði hætt við að skila sem mestum arði í þjóðarsjóð, sem mun vera hugarfóstur forstjórans, Harðar Arnarsonar. Hann hefur haft forgöngu um kolranga verðlagsstefnu, sem valdið hefur tjóni á þjóðarbúinu. Ætla má, að ókunnugleiki hans á orkumálum og rótgróin andúð á stóriðjufyrirtækjum í erlendri eigu hafi ráðið þarna mestu um. Þessi stefna hans er nú komin á leiðarenda, og endurupptaka fyrri stefnu Landsvirkjunar, sem alltaf hefur verið stefna Alþingis, svo bezt er vitað, hlýtur að verða eitt af endurreisnarverkefnum ríkisstjórnar og þingmanna á næstunni.
Bloggar | Breytt 27.4.2020 kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.4.2020 | 11:22
Hagkerfi á heljarþröm
Kórónaveiran SARS-CoV-2 er ekki jafnbráðdrepandi og SARS-CoV-1, sem gekk í Kína og fáeinum öðrum ríkjum 2003-2004, en var ekki jafnsmitandi. Þekkt er frá þessari öld önnur og bráðdrepandi veira, sem olli EBÓLU-veikinni á afmörkuðu svæði Afríku, en hana tókst að hefta og kveða niður sem betur fór.
Mjög mismunandi dánarfregnir berast frá löndum um hlutfall dauðsfalla af af smituðum af SARS-CoV-2 veirunni. Á Íslandi virðist hlutfall látinna af fjölda sýktra vera einna lægst eða tæplega 0,6 %. Yfirleitt er hlutfallið 10-20 sinnum hærra. Á meðan svo er, er ekki hægt að áfellast stjórnun sóttvarna hérlendis, heldur vera þakklátur stjórnendunum og öllu heilbrigðisstarfsfólki.
Hins vegar er ljóst, að efnahagsleg fórnarlömb hérlendis og á alþjóðavísu verða fjölmörg, og íslenzka hagkerfið og hagkerfi heimsins verða lengi að ná sér, enda gæti verið um að ræða versta efnahagsáfall hérlendis síðan í Móðuharðindunum, þótt ólíku sé saman að jafna um fjárhagslegan og heilsufarslegan viðnámsþrótt. Verst er, að nægilega skelegga forystu virðist vanta á landsvísu og á meðal launþega til að sammælast um nauðsynleg neyðarlög til að draga úr reiðarslaginu á atvinnulífið. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur þó á Alþingi viðrað það, að æðstu menn ríkisvaldsins gengju á undan með góðu fordæmi um launalækkanir. Verkalýðsforingjar virðast sumir halda, að ríkissjóður einn geti séð um að létta byrðum í nægilegum mæli af fyrirtækjum, sem nú brenna upp eigin fé sínu, til að þau tóri nógu lengi til að ná bata, þegar rofar til. Það er dýrkeypt strútshegðun.
Af grunnatvinnuvegunum mun matvælaframleiðslan braggast fyrst, iðnaðurinn mun vonandi braggast síðar á þessu ári eftir miklar fórnir, en ferðageirinn mun koma með gjörbreytta ásýnd, og þar verða ekki veruleg umsvif fyrr en 2021. Allt hefur þetta sýnt ofboðslega veikleika nútíma þjóðfélags. Það hlýtur að verða sett í framhaldinu mikið fé til höfuðs veirum til að draga úr líkum á faröldrum af þessu tagi. Þær virðast flestar gjósa upp í Kína, og hefur athyglin beinzt að matarmörkuðum þar, sem eru varla mönnum bjóðandi nú á tímum. Þar á ofan bætist hættan á, að hættulegar veirur sleppi út af rannsóknarstofum. Kínverski herinn mun t.d. reka eina slíka í borginni Wuhan, en veirur eru þróaðar í nokkrum löndum í hernaðarskyni.
Ragnar Árnason, prófessor emeritus við HÍ, ritaði þann 21. apríl 2020 eina hinna fróðlegustu greina í Morgunblaðið um hagfræðilegar afleiðingar COVID-19, sem birzt hafa í fjölmiðlum landsins. Hún hét:
"Covid-kreppan: Mesta efnahagshögg í heila öld"
Þar var boðskapurinn sá, að þegar upp verður staðið, mun tjónið af völdum veirunnar markast af viðbrögðunum. Sem fyrr erum við okkar eigin gæfu smiðir. Þá kvað hann "mikilvægt að átta sig á því, að hið opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélög, getur ekki verið hjálpræði í þessari stöðu. Þessir aðilar eru ekki framleiðendur. Þeir ráðstafa einungis þeirri framleiðslu þjóðarinnar, sem hún lætur þeim í té með sköttum." Þess vegna er það arfavitlaus leið, sem þingmaður Samfylkingar lagði til sem lausn á atvinnuleysinu, að nú skyldi ríkið hefja stórfelldar ráðningar. Það eru villuljós af þessum toga, sem eru til þess eins fallin að lengja í hengingaról landsmanna. Það vantar framsæknar tillögur, sem lágmarka tjónið og flýta endurreisninni, sem jafnframt verður að fela í sér hraða uppgreiðslu lána til að vera í stakk búin að mæta næsta áfalli án þess að renna á rassinum í fang AGS.
"Afleiðingar Covid-faraldursins bitna á flestum höfuðgreinum íslenzks efnahagslífs. Ferðaþjónustan, sem lagt hefur beint um 8 % til íslenzkrar þjóðarframleiðslu og e.t.v. 10-12 %, þegar allt (beint og óbeint) er talið, hefur því nær verið þurrkuð út. Sjávarútvegur og stóriðja hafa orðið að þola verulegar verðlækkanir og sölutregðu. Framlag þessara atvinnugreina til þjóðarframleiðslunnar minnkar að sama skapi. Svipaða sögu má segja um fjölmargar iðnaðargreinar. Margar þjónustugreinar og verzlun hafa orðið að þola enn meiri samdrátt."
Þessar hörmungar hafa opnað augu manna fyrir því, að ferðaþjónustan er ekki venjuleg atvinnugrein, heldur stóráhættu grein ("high risk activity"). Fjárfestingar í þessari grein hljóta að draga dám af því. Greinin, sem hefur státað af að draga hlass "íslenzka efnahagsundursins" eftir 2009, er nú að miklu leyti við dauðans dyr í fangi ríkisins sem aðalfórnarlamb veirunnar. Það verður mjög áhættusamt að láta þessa grein áfram í framtíðinni verða stærstu gjaldeyristekjulind landsins. Það verður að þróa aðrar gjaldeyrislindir, sem eru ekki jafnsveiflugjarnar, og umfram allt þarf að fjölga stoðum gjaldeyrisöflunar. Bent hefur verið á fiskeldið í því sambandi, og yfirvöld landsins verða fremur að liðka þar fyrir nýjungum en að þvælast fyrir, t.d. varðandi þróun úthafskvía, sem t.d. Norðmenn eru með á tilraunastigi núna.
"Eins og staðan er núna, má fullvíst telja, að þjóðarframleiðsla Íslands minnki mjög mikið á þessu ári. Nánar tiltekið eru nú horfur á, að hún minnki um 10-15 % frá árinu 2019. Þetta merkir, að þjóðin hefur mrdISK 300-450 minna af raunverulegum verðmætum til að ráðstafa til neyzlu og fjárfestinga.
Ástæða er til að undirstrika, að hér er um gríðarmikið efnahagshögg að ræða, sennilega það mesta í heila öld. Þarf að leita aftur til ársins 1920 til að finna svipaða samdráttartölu í þjóðarbúskapnum. Jafnvel í kreppunni miklu 1931 og fjármálakreppunni 2008-2009, sem mörgum er í fersku minni, var samdrátturinn ekki svona mikill."
Af nýjustu fréttum má ráða, að efri mörk Ragnars, 15 % samdráttur þjóðartekna m.v. 2019, verði nær sanni. Það gefur til kynna, hver niðurfærsla launa í landinu þarf að verða til að aðlaga launastigið raunhagkerfinu í stað verðbólgu vegna gengissigs. Um 10 % m.v. meðallaunataxta 2019 er lágmarks tímabundin lækkun, sem æðsta stjórn ríkisins ætti að ganga á undan með til að vera fordæmisgefandi. Þetta mun létta og flýta fyrir endurreisninni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.4.2020 | 18:01
Útflutningsdrifinn hagvöxtur
Íslenzkum sóttvarnaryfirvöldum og landsmönnum virðist hafa tekizt betur upp við að hemja útbreiðslu SARS-CoV-2 veirunnar en flestum öðrum, og miðað við staðfestan fjölda sýktra ("virk smit") á hverjum tíma hefur fjöldi á sjúkrahúsi verið tiltölulega lágur, og sama er að segja um fjölda dauðsfalla m.v. önnur lönd. Þann 2. apríl 2020 hætti fjöldi sjúkra að aukast og fór síðan lækkandi. Það þýðir hjöðnun faraldursins um 5 vikum frá fyrsta greindu smiti, sem er ágætur árangur á alþjóðavísu.
Hugmyndafræðin, sem Sóttvarnalæknir beitir, virðist hafa haldið dreifingu sjúkdómsins í skefjum, eins og kostur var, en starfsfólk heilbrigðiskerfis og umönnunarstofnana á stóran hlut að góðum árangri, sem hefur t.d. lízt sér í tiltölulega mjög fáum dauðsföllum, en með það var lagt af stað í upphafi vegferðar. Síðan 26.03.2020 hefur dagleg hlutfallsleg aukning smita verið vel undir 10 % og iðulega undir 5 %. Fjöldi sjúklinga á sjúkrahúsi af völdum COVID-19 fór fyrst í 5,0 % 13. apríl, eftir að hjöðnun sjúkdómsins hafði staðið yfir í eina viku, þ.e. sjúklingum farið fækkandi, og það er líklega einstakt í heiminum. Ástæðan er stjórnunarlegt meistarastykki, sem var fólgið í að sinna sjúklingum í einangrun, aðallega heima hjá sér, með símtali eða heimsókn heilbrigðisstarfsmanns.
Það skiptir máli fyrir orðspor Íslands, hvernig til tekst við að ráða niðurlögum þessa COVID-19 faraldurs, og það kann aftur að hafa áhrif á viðreisn viðskiptanna, aðallega á matvæla- og ferðamannasviðunum. Ferðageirinn mun koma illa laskaður út úr nánast allsherjar stöðvun mánuðum saman, og ferðamannastraumurinn ekki ná sér á strik fyrr en e.t.v. árið 2022, þótt reytingur geti orðið á næsta ári.
Hins vegar verður fólk að borða, og ef þessi reynsla hefur kennt fólki eitthvað, þá er það um mikilvægi hollrar næringar og heilsusamlegra lífshátta til eflingar ónæmiskerfinu. Þetta gæti létt undir með íslenzkum útflutningsaðilum matvæla og auðveldað þeim að hasla sér völl að nýju bæði á mörkuðum fyrir veitingahús og heimiliskaup.
Í Fiskifréttum 26. marz 2020 var fróðleg umfjöllun um matvælamarkaðina í ljósi faraldursins:
""Eftirspurn eftir ferskum fiski er lítil sem engin í Evrópu, og sambærileg staða er í Bandaríkjunum", segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra. Hann ræddi áhrif COVID-19 á bæði sjávarútveg og landbúnað á ríkisstjórnarfundi á þriðjudagsmorgun [24.03.2020]. Undanfarið hefur hann reglulega upplýst ríkisstjórnina um stöðuna."
Það er ljóst, að útgöngubann eða samkomubann hefur áhrif á sölu matvæla, en eitthvað mun fólk kaupa sér til viðurværis, þegar það hefur gengið á birgðirnar (í frystinum). Í þessu ljósi eru eftirfarandi orð ráðherrans umhugsunarverð:
"Hann segir þetta ástand mögulega gett sett strik í reikninginn til lengri tíma. "Það er ekkert ólíklegt, að neyzluhegðun fólks breytist í framhaldinu, og í því eru bæði tækifæri og miklar ógnanir og áskoranir.""
Ef þetta mat ráðherrans er rétt, þá ætti breytingin á matarvenjum fólks eftir sjúkdómsfaraldur fremur að verða í átt til hollustusamlegra mataræðis. Þar ætti íslenzkur fiskur, kjöt og grænmeti, að koma sterklega til skjalanna, enda hljóta íslenzkir matvælaútflytjendur nú að hamra á hollustunni frá Íslandi. Vissulega getur tiltölulega góð útkoma COVID-19 sjúklinga hérlendis styrkt þessa ímynd af Íslandi, því að, þrátt fyrir tiltölulega útbreitt smit á meðal landsmanna framan af, lenda fáir smitaðra á sjúkrahúsi og dauðsföll eru tiltölulega fá. Auðvitað má draga þá ályktun, að ónæmiskerfið í landsmönnum eigi þátt í því, hvernig til hefur tekizt.
Ráðherra virðist vera svartsýnn á framhaldið, eins og neðangreind tilvitnun ber með sér. Það kann að stafa af vissunni um lægri kaupmátt almennt á erlendum (og innlendum) mörkuðum eftir fárið en áður var, og þá ríður á að geta haft áhrif á forgangsröðun neytandans:
""Hins vegar hef ég áhyggjur af markaðssetningu íslenzkra sjávarafurða erlendis og því umhverfi, sem þar er. Það er atriði, sem við þurfum að gaumgæfa vel, hvernig við getum farið til þess verks", segir Kristján og bætir því við, að Atvinnuvegaráðuneytið sé að vinna að aðgerðapakka, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. Hann verði kynntur fljótlega eða öðru hvoru megin við næstu helgi."
Tók fjallið jóðsótt og fæddist lítil mús ?
Ásgeir Ingvarsson tók Ásdísi Kristjánsdóttur tali í 200 mílum mbl.is 25. marz 2020. Það er alltaf fengur að boðskap Ásdísar:
"Umræðan um íslenzkan sjávarútveg er ólík umræðunni um flestar aðrar atvinnugreinar. Hún litast af deilum um allt frá grunnforsendum fiskveiðistjórnunarkerfisins; hvernig kvótanum er skipt, eða hve mikið má veiða; yfir í, hvernig sjávarútvegsfyrirtækin starfa, og með hvaða hætti á að skattleggja afnot þeirra af auðlindinni. Virðist stundum, að því betur sem árar í greininni, þeim mun háværari verði deilurnar, og segir Ásdís Kristjánsdóttir, að svipður tónn hafi komið í umræðuna um ferðaþjónustu, þegar uppgangur varð í þeirri grein."
Það er ekki deilt um góða skilvirkni fiskveiðistjórnunarkerfisins á sviði bæði umhverfisverndar, fjárfestinga og rekstrar. Í kerfinu er lágmarkssóun, það hvetur til gjörnýtingar hráefnisins. Má segja án þess að skreyta mikið, að enginn komist með tærnar, þar sem Íslendingar hafa hælana í þessum efnum. Þess vegna eru deilur um þetta stjórnunarfyrirkomulag á auðlindanýtingu sjávar í raun deilur um keisarans skegg, sem litlu máli skipta.
"Þegar vel gengur hjá fyrirtækjunum, í sjávarútvegi sem í öðrum greinum, er efnahagslegur ábati m.a. fólginn í aukinni verðmætasköpun, fjölgun starfa og hærri skatttekjum. "Lífsgæði okkar eru í grunninn byggð á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Ísland er dropi í hafi heimshagkerfisins og því mikilvægt, að útflutningsgreinar okkar geti sótt inn á stærri markaði."
Sjávarútvegurinn er ekki aðeins undirstöðugrein fyrir lífsafkomu landsbyggðarinnar. Hann er meginundirstaða hagkerfis landsins, eins og COVID-19 hefur berlega leitt í ljós, en þessi heimsfaraldur hefur drepið ferðamennskuna sem atvinnugrein hvarvetna í dróma og lamað áliðnað og aðra málmframleiðslu. Þótt veiran hafi svæft fiskmarkaði Íslendinga erlendis, standa engin rök til annars en þeir verði langt á undan flestum öðrum mörkuðum að hjarna við og ná sér á strik. Á meðan hjarðónæmi hefur ekki náðst, hvorki í hinum vestræna heimi né í Austur-Asíu, er hætta á, að faraldurinn gjósi upp aftur, og þessi hætta gæti haldið ferðamennskunni í heljargreipum mánuðum saman.
"Lífskjör eru góð á Íslandi, raunar ein þau beztu í heimi, og forsenda þess, að við getum bætt lífskjör okkar áfram er, að hér vaxi og dafni áfram útflutningsgreinar, sem standa framarlega á sínum sviðum."
Það er tómt mál á allra næstu árum að bæta hér lífskjörin. Eftir stórfellt efnahagsáfall af völdum veirunnar SARS-CoV-2, sem leiða mun til samdráttar hagkerfisins um allt að 15 % í ár (mrdISK 450), eru versnandi lífskjör óhjákvæmileg af þeirri einföldu ástæðu, að miklu minna er til skiptanna en áður. Launþegar verða að taka á sig hluta af þessu áfalli og fjármagnseigendur hluta. Til að vinna svo þetta tap upp er grundvallaratriði að treysta undirstöður vöruútflutnings frá landinu til bezt borgandi markaða heims og að komast framhjá tollmúrum þeirra. Til þess þurfum við víðtækan fríverzlunarsamning við Engilsaxana, Breta og Bandaríkjamenn, tollaafnám fyrir sjávarafurðir á Innri markaði Evrópu, að nýta betur fríverzlunarsamninginn við Kínverja og að opna aftur vinsamlegt viðskiptasamband við Rússland.
"Ásdís bætir við, að á Norðurlöndunum vegi umræðan um samkeppnishæfni útflutningsgreina þungt, þegar skattheimta og launaþróun eru ræddar. "Við þurfum á hverjum tíma að spyrja okkur, hvort verið er að ganga of langt í skattheimtu, og hvort laun séu í samræmi við undirliggjandi verðmætasköpun atvinnulífsins og getu þess til að standa undir hækkandi launakostnaði. Nú, þegar atvinnulífið stendur frammi fyrir verulegum samdrætti í efnahagslífinu vegna kórónuveirufaraldursins, blasir við, að höggið verður þeim mun meira á útflutningsgreinar okkar, enda eru landamæri víða að lokast, útflutningur á ferskum fiski hefur dregizt saman um tugi prósenta, og fiskvinnslustöðvar búa sig undir frekari samdrátt."
Þetta er rétt, og sá ósveigjanleiki, sem einkennt hefur afstöðu Alþýðusambandsins (ASÍ) gagnvart viðbrögðum, sem sniðin eru til að minnka tjón launþeganna, mun hitta verkalýðshreyfinguna illilega fyrir. Kjaramál á Íslandi eru í ólestri, og nú er eigið fé íslenzks atvinnulífs að brenna upp. Hraði þess bruna jókst 1. apríl 2020, þegar umsamdar launahækkanir tóku gildi á almenna vinnumarkaðinum, eins og enginn væri morgundagurinn. Hryggjarstykki ríkisvaldsins er með þeim hætti, að það hafði ekki bolmagn til að tefja kollsteypuna (með lagasetningu). Það blasir við, að lífskjör á Íslandi eru nú fölsk og munu hrapa. Verkalýðshreyfingin bætir ekki úr skák með því að stinga hausnum í sandinn. Atvinnuleysið og lífskjaraskerðingin verða meiri fyrir vikið. Atvinnulífið getur ekki staðið undir núverandi launatöxtum.
"Ásdís segir mikilvægt að bregðast skjótt við þeim aðstæðum, sem nú eru uppi og taka breytingum dag frá degi. Þegar faraldurinn hefur gengið yfir, tekur við tímabil uppbyggingar, og þá skiptir öllu máli að styðja við sjávarútveginn og aðrar útflutningsgreinar, þannig að þær nái viðspyrnu á sem skemmstum tíma.
Fyrirsjáanlegt er, að rekstur ríkisins verði þungur næstu misserin samfara minni efnahagsumsvifum og fallandi skatttekjum, en viðbrögð stjórnvalda megi hins vegar ekki vera af sama meiði og eftir síðustu efnahagskrísu, þegar skattar á atvinnulífið voru hækkaðir.
"Verkefnið framundan er að leggja grunninn að áframhaldandi hagvexti; það verður ekki gert með aukinni skattheimtu á atvinnulíf, sem er nú þegar verulega laskað eftir þessar efnahagsþrengingar"
"Ásdís minnir á, að það sé þessi fjárfesting í bættum veiðum og vinnslu, sem hafi hjálpað sjávarútveginum að dafna. "Samfara aukinni fjárfestingu í tækjum og tækni hefur tekizt að bæta nýtingu og auka verðmæti sjávarafurða, svo að við stöndum vel í samanburði við helztu samkeppnisþjóðir okkar. Árið 1985 var t.d. nýtingarhlutfall þorsks 58 %, en í dag [2020] er það rúmlega 80 %. Á sama tíma er nýtingarhlutfall þorsks 53 % í Færeyjum og 46 % í Kanada."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.4.2020 | 17:49
Lengi getur vont versnað
SARS-CoV-2 veiran herjar á alla markaði íslenzkra útflutningsatvinnuvega og líklega á alla markaði í henni versu. Á fiskmörkuðum Kína, Evrópu og Bandaríkjanna, hefur þannig orðið verðfall. Verðin gætu orðið lengi að ná hæstu hæðum, því að fiskætur, eins og almenningur allur, hefur orðið fyrir kaupmáttarrýrnun, sem mun taka tíma að jafna sig. Hún mun ekki hverfa, eins og hendi sé veifað. Sízt af öllu í skuldsettum þjóðfélögum. Tíminn, sem það tekur að endurreisa hagkerfið, fer alveg eftir því, hvernig efnahagslegar björgunaraðgerðir munu ganga, en búast má við, að gríðarleg verðmæti fari í súginn, og þar af leiðandi verður efnahagsáfallið ekki V-laga, eins og bjartsýnismenn vonuðu, en var vonlaust í ljósi umfangs tekjutapsins, heldur U-laga, þ.e. sennilega stöðnun fram á næsta ár eftir feikilegan samdrátt (mrdISK 300-500 í ár). Samt veittu nýjar fréttir frá Kína í lok marz 2020 von um, að þar yrði tiltölulega hraður viðsnúningur á framleiðslukerfinu, en það er ekki nóg fyrir okkur, þegar aðalmarkaðirnir eru í Evrópu og í Vesturheimi, og þar sér ekki fyrir endann á ósköpunum.
Ekki þarf að orðlengja, að ferðaiðnaður heimsins hefur stöðvazt. Undirstrikar það, hversu viðkvæm þessi grein er og áhættusöm. Fjárfestingar í þessari grein verða taldar áhættusamar, því að nýr áhættuþáttur er kominn til skjalanna, sem getur raungerzt hvenær sem er aftur. Hérlendis var fleyttur rjóminn af þessari grein, þegar vel áraði og áhugi var á norðurslóðum jarðar, m.a. vegna loftslagsumræðunnar, en vegna hás og hækkandi kostnaðar á Íslandi var samdráttur hafinn hérlendis í þessari grein áður en botninn féll gjörsamlega úr henni í marz 2020. Sennilega er búið að offjárfesta í greininni, og gæti orðið mjög erfitt að ná aftur 2 M ferðamanna til landsins, hversu háum fjárhæðum, sem varið er úr ríkissjóði til að auglýsa landið. Því fé kann að verða kastað á glæ. Það er gagnslaust að sá í ófrjóan jarðveg. Vegna efnahagsáfallsins um allan heim mun fólk ekki endurheimta ferðaáhuga sinn upp til hópa á þessu ári. Ofvaxin grein mun verða að endurskipuleggja sig í ár, því að hún getur ekki verið í fangi ríkissjóðs í heilt ár. Lokun, eftirgjöf gjalda og greiðslustöðvun kemur til greina, en þennan leik verður tæplega hægt að endurtaka, næst þegar landinu verður lokað að kröfu þeirra, sem reka Schengen-samninginn.
Segja má líka, að botninn sé dottinn úr áliðnaðinum, þegar LME-markaðurinn fyrir ál til endurbræðslu er staddur í kringum 1450 USD/t Al, eins og um þessar mundir. Þótt framboðið hafi vafalaust minnkað, t.d. frá Kína, þá hefur eftirspurnin minnkað enn meir vegna þjóðfélagslömunar víða af völdum aðgerða sóttvarnayfirvalda. Sama gildir um þessa eftirspurn og aðra. Hraði endurreisnarinnar verður háður því, hvernig fjárhagur fyrirtækja, alþýðu og ríkissjóða, verður útleikinn eftir rothöggið. Til skamms tíma hækkar verðið ekki fyrr en bílaverksmiðjurnar opna aftur.
Fólk verður að nærast á hollum og góðum mat, hvernig sem allt veltur. Áður en fólk fer aftur í sitt hefðbundna neyzlufar er afar líklegt, að það veiti sér kaup á dýrum fiski úr Norðurhöfum. Ef hægt verður að koma því á framfæri, að neyzla þessarar vöru efli ónæmiskerfið, er leiðin greið. Það er þess vegna líklegt, að fiskmarkaðir verði einna fyrstir til að ranka úr rotinu og spurn eftir eldislaxi muni aftur aukast hratt. Þess vegna var ánægjulegt að lesa grein Kjartans Ólafssonar, sjávarútvegsfræðings og stjórnarmanns í Arnarlaxi, í Morgunblaðinu 21. marz 2020,
"Margföldum útflutningsverðmæti sjávarafurða Íslands".
Hún hófst svona:
"Nú þegar við stöndum andspænis nýjum áskorunum í efnahagslífinu og útlit er fyrir samdrátt í einni stærstu atvinnugrein landsins, þá þykir væntanlega mörgum athyglisvert að heyra, að Íslendingar geti á næstu árum margfaldað verðmæti þeirra sjávarafurða, sem við flytjum út. Hvernig ? Jú, með því að rækta bláu akrana, sem finnast í efnahagslögsögu landsins. Við Íslendingar urðum ein fremsta fiskveiðiþjóð á nýliðinni öld. Ræktun fisks er hins vegar í dag orðinn stærri hluti sjávarútvegs en fiskveiðar á heimsvísu."
Það, sem Kjartan skrifar um þarna, er eina markverða hálmstráið, sem Íslendingar geta gripið til núna til að mynda nýjan og eftir atvikum traustan grunn fyrir nýja atvinnu- og gjaldeyrissköpun í landinu, en á henni veltur framtíð landsins. Greinin er þegar búin að slíta barnsskónum, tækniþekkingin og viðskiptasamböndin eru fyrir hendi og áhættufjárfestar eru reiðubúnir til að grípa tækifærið. Ferðaáhugi heimsbyggðarinnar verður ekki endurreistur í einni sviphendingu, og heimskreppa mun halda aftur af málmeftirspurn, en spurn eftir mat á borð við villtar og ræktaðar sjávarafurðir hlýtur að glæðast tiltölulega fljótt. Þess vegna eiga stjórnvöld að gefa þessum lífvænlegasta sprota atvinnulífsins lausan tauminn innan marka áætlaðs burðarþols fjarða á leyfðum svæðum, nema vel rökstuddur grunur sé um óviðunandi áhættu fyrir lífríkið á viðkomandi stað.
"Burðarþol þeirra fjarða og flóa, sem Hafrannsóknastofnun hefur þegar metið, er í heildina rúm 140 kt, margfalt það magn, sem fiskeldisfyrirtækin hafa nú leyfi til að ala í þessum fjörðum. Enn er eftir að meta nokkra firði, þannig að burðarþol þeirra svæða, sem henta og þola fiskeldi að mati vísindamanna og eftirlitsstofnana, gæti verið nær 200 kt. Heildarburðarþol strandlengjunnar er þó líklega mun meira eða um 500 kt ársframleiðsla. Með 500 kt ársframleiðslu af laxfiski mætti margfalda útflutningsverðmæti sjávarafurða og fylgja þar með farsælli vegferð vinaþjóða okkar. Með því væru Íslendingar að byggja ofan á aldalanga reynslu sína af fiskveiðum, vinnslu og markaðssetningu sjávarafurða. Það er bæði skynsamlegt og gæti einnig verið nauðsynlegt til að verja stöðu okkar, nú þegar eldi sjávarafurða er orðið umfangsmeira en fiskveiðar í heiminum."
Hér er um efnilegasta vaxtarsprota íslenzks atvinnulífs að ræða um þessar mundir. Það þarf í ljósi aðstæðna í atvinnulífi landsmanna að hraða áhættugreiningum, sem eftir eru og endurskoðun bráðabirgða greininga, sem gefa eiga til kynna ráðlegan hámarks lífmassa í eldiskvíum á leyfilegum eldisstöðum við Ísland m.t.t. lífríkisins, sem þar er fyrir, aðallega laxfiska. Þetta verður sú grein, sem borið getur uppi atvinnusköpun og hagvöxt framtíðarinnar og tekið við af ferðaþjónustunni í þeim efnum.
Það, sem Kjartan Ólafsson líklega á við, þegar hann nefnir burðarþol strandlengjunnar, eru risakvíar, sem hægt er að staðsetja úti fyrir fjörðum. Slíkar kvíar eru Norðmenn farnir að prófa hjá sér. Hérlend stjórnvöld þurfa nú endilega að hefja athugun á því, hvar ráðlegt er að leyfa þessar risakvíar. Norðmenn eru þegar búnir að koma fyrir a.m.k. einni slíkri risakví til reynslu. Hún var smíðuð í Kína og dregin í sjónum til Noregs.
Ef hérlendis verður árlega slátrað 500 kt (k=þúsund) af eldislaxi, má búast við, að gjaldeyrisverðmæti hans muni nema a.m.k. 500 mrdISK/ár, sem er um 40 % aukning útflutningsverðmæta undanfarinna ára og meira en nam gjaldeyristekjum ferðaþjónustunnar í fyrra. Til þess að viðhalda hér hagvexti til að halda uppi lífskjörum, að áfalli vegna SARS-CoV-2 slepptu, þá þarf þessi aukning útflutningstekna að eiga sér stað á 10 ára tímabili að hámarki. Það er engin önnur atvinnugrein í sjónmáli, sem afkastað getur lunganum af þessari verðmætaaukningu. Þess vegna á að veðja á hana, nú þegar komið hefur í ljós, hversu hættulegt er, að ferðaþjónustan sé aðalgjaldeyrisskapandi landsins.
Auðvitað á að þróa fóðurframleiðslu fyrir þetta eldi hérlendis. Hráefnið í það kemur bæði úr hafi og af landi. Það kemur t.d. úr fiskbræðslum og tilvonandi repjuræktun. Sú síðarnefnda getur þannig orðið mjög ábatasöm, því að stönglarnir og hratið fara í fóðrið, en fræolían í eldsneyti, t.d. fyrir togaraflotann.
Fiskeldið skapar um 7 bein störf/kt og 14 óbein störf/kt eða alls 21 starf/kt samkvæmt norskum viðmiðunum. Þannig gæti þessi framleiðsla skapað tæplega 11 þúsund heilsársstörf og raunar meira m.v. reynsluna hérlendis og með áðurnefndri fóðurframleiðslu. Greinin mun ekki hafa í för með sér nein ruðningsáhrif á vinnumarkaðnum, heldur skapa kærkomin tækifæri.
Þann 10. febrúar 2020 skrifaði Einar K. Guðfinnsson, starfsmaður SFS og fyrrverandi ráðherra, mjög upplýsandi grein í Morgunblaðið,
"Búhnykkur nú þegar þörf krefur".
Undirgreinin, "Fiskeldi vex fiskur um hrygg",
hljóðaði þannig:
"Sem betur fer sjáum við mikilsverð dæmi um aukinn útflutning. Þannig hefur fiskeldi svo sannarlega "vaxið fiskur um hrygg", svo [að] vitnað sé í fleyg orð úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Framleiðsla í fiskeldi hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári. Alls var slátrað um 34 kt. Árið 2018 nam þessi framleiðsla rúmum 19 kt. Þetta er 80 % aukning á milli ára, og á laxeldi þar langstærstan hlut að máli. Laxeldisframleiðslan tvöfaldaðist á milli ára, fór úr rúmum 13 kt í 27 kt. Framleiðsla á bleikju jókst sömuleiðis myndarlega, var tæp 5 kt árið 2018, en 6,3 kt í fyrra, sem er 29 % aukning.
Útflutningsverðmæti fiskeldisins nam á síðasta ári um mrdISK 25. Það svarar til um MISK 100 hvern einasta virkan dag ársins. Þetta er um 90 % aukning - nær tvöföldun - á milli ára.
Til þess að setja þetta í annað samhengi má benda á, að útflutningsverðmæti fiskeldisafurða var um 10 % af verðmæti sjávarafurða í fyrra, og hefur hlutfallið aldrei verið hærra."
Það eru gríðarlegir vaxtarmöguleikar fólgnir í fiskeldinu, eins og sjá má af því, að á næstu tveimur áratugum gæti framleiðslan 20-faldazt með því að taka úthafskvíarnar í brúk. Þetta mun veita mörgum vinnufúsum höndum og hugum eftirsóknarverða vinnu, eins og fram kemur í næstu tilvitnun, sem er úr undirgrein Einars:
"80 % launateknanna falla til á landsbyggðinni":
"Tæplega 500 manns unnu í fiskeldi hér árið 2018, sem er þreföldun á einum áratug. Launagreiðslur námu um mrdISK 3,5 á því ári. Um 80 % launatekna í fiskeldi falla til á landsbyggðinni. Varlega talið, samkvæmt því, sem Byggðastofnun reiknaði út og rímar við það, sem við þekkjum frá öðrum löndum, má ætla, að afleidd störf séu annað eins. Ljóst er, að störfum fjölgaði umtalsvert og launatekjur jukust í fyrra með stóraukinni framleiðslu, og sú þróun mun halda áfram. Þetta er fagnaðarefni, ekki sízt við efnahagsaðstæðurnar núna."
Einar tiltekur þarna fjölda launþega, en ekki ársstörf, svo að um hlutastörf kann að vera að ræða í einhverjum mæli. Alla vega jafngilda þessar upplýsingar 26 manns/kt árið 2018, sem er mjög hátt m.v. 7 bein ársstörf/kt í Noregi. Þar eru afleiddu störfin talin vera 14 ársstörf/kt eða alls 21 ársstarf/kt, en á Íslandi um 50 starfsmenn/kt samkvæmt upplýsingum Einars. Það er áreiðanlega meiri framleiðni í Noregi á þessu sviði vegna hagkvæmni stærðarinnar, en jafnframt er öruggt, að framleiðnin mun vaxa hér með aukinni framleiðslu. Sé gert ráð fyrir, að hér verði 40 ársstörf/kt, þá munu vegna fiskeldisins, beint og óbeint, verða hér 20 k heilsársstörf, ef tekst að koma framleiðslunni í risakvíar úti fyrir úthafinu.
Í lok greinar sinnar skrifaði Einar K. Guðfinnsson:
"Veruleg tækifæri liggja í frekari vexti. Miðað við útgefin leyfi og þær forsendur, sem fyrir liggja af hálfu löggjafans, má búast við aukinni framleiðslu og útflutningi í ár og í framtíðinni. Með minnkandi útflutningstekjum og meira atvinnuleysi er hið aukna fiskeldi því kærkominn búhnykkur, sannkallað búsílag. Vaxandi fiskeldi mun hjálpa okkur að ná nauðsynlegum markmiðum um auknar útflutningstekjur, hagvöxt, ný og fjölbreytt störf, og veita komandi kynslóðum spennandi tækifæri. Fiskeldið er sem betur fer þegar orðin þýðingarmikil stoð í efnahagslífi okkar og mun skipta stöðugt meira máli í framtíðinni."
Það er hægt að taka heilshugar undir þessa sýn Einars K. Guðfinnssonar á þessa atvinnugrein, sem lofar góðu um traust og verðmæt störf á þeim svæðum, þar sem Alþingi hefur leyft hana, aðallega á Vestfjörðum og Austfjörðum. Stjórnvöld mega þá fyrir alla muni ekki draga lappirnar. Þau þurfa að gefa í á öllum sviðum nýsköpunar. Það verður að koma nýrri, öflugri stoð undir atvinnulífið eftir alkul í ferðaþjónustu. Það á við um umgjörð greinarinnar, leyfisveitingaferli og eftirlitsþjónustuna, en þó sérstaklega þróun innviðanna. Þeir verða að taka stakkaskiptum.
Stórfelld starfsemi á þessu sviði útheimtir greiðar samgöngur á landi allan ársins hring og örugga afhendingu raforku af viðunandi spennugæðum (samkvæmt alþjóðlegum staðli). Þetta þýðir, að 66 kV flutningskerfið og allt dreifikerfi raforku þarf að fara í jörðu. Áformum um dreifikerfið var flýtt til 2025 eftir norðanáhlaupið í desember 2019, og vonandi bætir Landsnet flutningskerfið verulega á allra næstu árum líka. Hins vegar verður 132 kV Vesturlínan alltaf vonarpeningur í óveðrum, og þess vegna er bráðnauðsynlegt, að Vestfirðingar verði sjálfum sér nógir um rafmagn, enda eiga þeir næga virkjanakosti til þess í vatnsföllum sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)