Færsluflokkur: Bloggar

Verkfræðingur, lyfjafræðingur og veiran

Þann 24. marz 2020 birtust góðar greinar eftir 2 mæta menn á sömu síðu Morgunblaðsins.  Annar skrifaði af miklum þunga um þann mikla vanda, sem blasir við stjórnvöldum og eigendum Landsvirkjunar (landsmönnum öllum) vegna stefnu fyrirtækisins, sem það hefur mótað sér sjálft án aðkomu eigandans, gagnvart smærri og stærri stórnotendum raforku, en hinn fjallaði um hinn gríðarlega vanda, sem nú blasir við heimilum landsmanna, fyrirtækjum og stjórnvöldum, vegna CoVid-19 veirupestarinnar.  Auðvitað yfirgnæfir SARS-CoV-2 veiran og afleiðingar hennar alla umræðu hvarvetna um þessar mundir.

Elías Elíasson, verkfræðingur, skrifaði greinina:

"Ef ÍSAL verður lokað, hvað þá ?"

Þar reifaði hann þær ógöngur, sem Landsvirkjun hefur ratað í síðan 2010 í samskiptum sínum við viðskiptavini sína, þegar aðilar standa frammi fyrir ákvörðunartöku um að endurnýja raforkusamninga eða að slíta viðskiptasambandinu. Hann rifjaði upp spár frá þessum tíma, sem reyndust reistar á sandi, um þróun orkuverðs og álverðs á heimsmörkuðum upp á við.  Kröfuharka Landsvirkjunar var reist á þessum vitlausu spám ásamt nýjum raforkulögum, mótuðum af orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB) og þar af leiðandi sniðnum við annars konar orkukerfi og markaðsaðstæður en hér ríkja.  Gefum Elíasi orðið:

"En hvar stöndum við, ef álverinu verður lokað ?

Þó [að] móðurfyrirtæki álversins ábyrgist að greiða stóran hluta orkunnar þrátt fyrir rof á starfsemi, þá er ekki gefinn hlutur, að lögfræðingar þess finni ekki leið út úr þeim vanda. Alla vega er varla eðlilegt, að þessi orka verði látin óseld og ónotuð fram til 2036 og Landsvirkjun haldi áfram að reisa nýjar virkjanir, þegar eftirspurn vex, en Rio Tinto haldi áfram að borga allan þann tíma. 

Það verða málaferli og óvissuástand, þar til sú deila leysist, og Landsvirkjun verður að leita nýrra viðskiptavina á meðan; ella veikist staða hennar í málinu.  Með öðrum orðum: orkan fer á markað, hugsanlega brunaútsölu." 

Þetta er afar mikilvæg ábending hjá Elíasi um atriði, sem Landsvirkjun virðist hafa flaskað á.  Hún getur ekki komið fram, eins og bergþursi, og skákað í því skjólinu, að þótt ISAL verði lokað, hafi hún nánast allt sitt á þurru, þ.e. greiðslur fyrir 85 % forgangsorkunnar samkvæmt núverandi orkusamningi.  Það væri rétt einn fingurbrjóturinn, framinn á þeim bæ, sem hefði mjög slæmar afleiðingar fyrir nærsamfélag Straumsvíkur og reyndar þjóðfélagið allt.  Jafnframt myndu réttarhöld, sem allt stefnir í nú, setja Ísland í óæskilegt ljós í augum fjárfesta, og þurfum við sízt á því að halda nú.  Stjórnvöld verða hér að koma vitinu fyrir stjórn Landsvirkjunar eða að skipta um stjórn. 

"Markaðshorfur með raforku eru allt aðrar nú en þegar samningar við ÍSAL voru undirritaðir 2011.  Af er sú kenning, að orkuverð muni ekki breytast, nema til hækkunar; meira að segja gefa spár nú til kynna, að orkuverð kunni að lækka, ef tækniþróun verður ör.  

Ljóst er orðið, að spár á fyrri hluta þessa áratugar um síhækkandi orkuverð byggðust á óskhyggju og oftrú á stefnuna í loftslagsmálum, en vaxandi vantrúar gætir nú á því, að þær baráttuaðferðir gegn hlýnun jarðar, sem þá var lagt upp með, skili árangri.  Áhættumatið bak við orkuviðskiptin er gjörbreytt."  

Forstjóra og stjórn Landsvirkjunar hefur dagað uppi.  Þeim varð á sú reginskissa að misskilja þróunina, að rangtúlka skammtímafyrirbæri sem langtíma þróun.  Vestræn þjóðfélög hafa enga burði til að keppa á mörkuðum heimsins búandi við raforkuverð, sem er úr takti við raunkostnað frumorkunnar og raforkuverð í öðrum heimsálfum.

Þetta þýðir, að hin "klassíska" íslenzka orkunýtingarstefna, sem mótuð var á Viðreisnarárunum (7. áratug 20. aldar), stenzt tímans tönn, en viðvaningar á orkumálasviði, sem yfirtóku Landsvirkjun og að einhverju leyti stjórnsýslu orkumálanna á tímum hinnar mistæku "vinstri stjórnar" 2009-2013,  gleyptu orkupakka ESB hráa og tóku upp einhvers konar spákaupmennsku með raforkuna, sem hefur reynzt atvinnulífi landsins og verðmætasköpun hin versta forsending.  Ný orkulöggjöf frá 2003 og síðan orkupakkar 2 og 3 hafa síður en svo reynzt landinu hjálplegir, enda eru þessir ESB-orkupakkar eins og örverpi í íslenzku umhverfi, hvort sem litið er á orkukerfið eða orkumarkaðinn. 

"Þegar endursamið var við ÍSAL snemma á áratugnum, spáðu sérfræðingar hækkandi orkuverði í Evrópu, sem þó var hátt. Á þessum tíma fór Landsvirkjun að mæla fyrir sæstreng og komst þar með í aðstöðu til að setja viðsemjendum úrslitakosti með hótunum.  Nú hefur dæmið snúizt við.  Orkuverð í Evrópu hefur lækkað, svo [að] sæstrengur er fjarlægur möguleiki, WOW lagði upp laupana, ferðaiðnaðurinn er í bakslagi og loðnan að bregðast í annað sinn.  Eftir samningshörku sína á liðnum áratug getur Landsvirkjun ekki búizt við öðru en hörku á móti, nú þegar dæmið er annað.  

Ekki er að efast um, að Rio Tinto leitar allra leiða til að losna undan verulegum hluta greiðsluskyldunnar með öllum ráðum.  Málaferli skapa óvissu, sem kann að hafa áhrif á lánshæfismat Landsvirkjunar og jafnvel orðspor Íslands, þegar þau komast í fréttir.  Þetta bætist ofan á vinnutap slíks fjölda manna, að um munar í hagkerfinu.  Sú staða, sem nú er uppi, hefur greinilega ekki verið ein sviðsmyndin í áhættumati Landsvirkjunar eða stefnumörkun." 

Eins og þessi texti kunnáttumanns á sviði orkumála ber með sér, eru stjórn og forstjóri Landsvirkjunar nú komin á leiðarenda í sinni illa grunduðu vegferð, sem reist var á fádæma röngu stöðumati, sem nú er að koma eigendum fyrirtækisins í koll.  Af þessum sökum eiga stjórnvöld nú ekki annarra kosta völ en að leysa þessa stjórn frá störfum og skipa nýja stjórn, sem er í stakk búin til að leiða hina klassísku orkunýtingarstefnu Landsvirkjunar til vegs og virðingar á ný, því að núverandi forysta fyrirtækisins hefur beðið algert skipbrot.  Þar með væri unnt að gera sér vonir um, að tjón af völdum fráfarandi forystu yrði lágmarkað.  Öðru vísi en að gera hreint fyrir sínum dyrum geta stjórnvöld ekki stýrt Landsvirkjun inn í nýtt tímabil, þar sem horfið verður frá rangsleitni og ranghugmyndum um hlutverk Landsvirkjunar.

"Sú stefna, sem er ráðandi í orkupökkum ESB, að allar ákvarðanir fyrirtækja í raforkugeiranum skuli byggjast á markaðsverðum, er óheppileg fyrir Ísland.  Markaðsverð raforku fyrir stóriðju ræðst á alþjóðamörkuðum, og annar markaður hér er lítill og myndar varla orkuverð, sem mark er á takandi.

  Stefnumótun fyrirtækja tekur mið af reglum orkupakka ESB, en ekki þörfum þjóðfélagsins.  Fyrirtæki orkugeirans leitast helzt við að styrkja stöðu sína hvort [hvert á e.t.v. betur við-innsk. BJo] gagnvart öðru og gagnvart stjórnvöldum, fulltrúum eigenda sinna.  Þetta er ekki farsælt til lengdar, og stjórnvöld þurfa að vinna orkugeirann út úr þessari stöðu."

Að ríkjandi stefna í orkumálum á Íslandi sé "óheppileg fyrir Ísland", er of vægt til orða tekið, eins og raunar má ráða af því, sem á eftir fer í tilvitnuninni. Hún er óviðeigandi og skaðleg, af því að aðstæður á orkumálasviði eru gjörólíkar þeim, sem orkupakkar Evrópusambandsins eru sniðnir við.  Þar af leiðandi fara hagsmunir Íslands og ESB ekki saman í orkumálum.  Það, sem stjórnvöld á Íslandi, utanríkisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið með stuðningi og hvatningu Alþingis, ættu að marka stefnu og "strategíu" (framkvæmdaáætlun) um, er, að fá undanþágu fyrir Ísland frá öllum helztu tilskipunum og reglugerðum orkulöggjafar ESB.  Þannig kýs höfundur þessa vefpistils að túlka lokamálsgreinina í þessari ágætu grein Elíasar.  

Hin greinin hét:

 "Frá sjónarhóli lyfjafræðings" 

og er höfundur hennar Viðar Guðjohnsen, lyfjafræðingur.  Hann hefur réttilega áhyggjur af aðdráttum aðfanga til landsins á tímum lömunar athafnalífs og af langtímaáhrifum CoVid-19 faraldursins.  Ein þessara aðfanga eru vissulega orkugjafar á formi eldsneytis og gefur auga leið, að því fyrr sem orkuskiptin verða til lykta leidd hérlendis, þeim mun minni vá stendur landinu af truflun aðdrátta vegna hvers konar óáránar.  

Viðar reit m.a.:

"Hvað sem öllu líður, er mikilvægt að koma í veg fyrir, að fyrirsjáanlegur samdráttur leiði af sér framleiðslukreppu á nauðsynjum eða keðjuverkandi langtímaáhrif á atvinnuleysi. Innlend matvælaframleiðsla er hluti af þjóðaröryggi, og nú, þegar heimurinn er að lokast, hlýtur öllum að vera það ljóst.  Árásir umrótsmanna á landbúnað og sjávarútveg þarf því að brjóta á bak aftur.  Áform um að heimila innflutning á hráu kjöti, eggjum og mjólkurafurðum, þarf að leggja til hliðar, og þar sem sóttvarnir eru til umræðu, má skjóta því inn, að sýklalyfjaónæmar bakteríur drápu um 33 þúsund manns innan Evrópska efnahagssvæðisins á árinu 2015."

 

"Ísland verður í öllu falli ekki undanskilið yfirvofandi efnahagsáhrifum, en staða íslenzkra fyrirtækja er erfið og var erfið áður en faraldurinn lét á sér kræla.  Verkalýðsforystan virðist gengin af göflunum, og þeirra skollaleikur ásamt ofurgjöldum hins opinbera hefur þrýst fyrirtækjum í að keyra áfram á undirmönnun, og lítið má út af bregða. 

Líklega munu mörg fyrirtæki ekki lifa af næstu misseri.  Stjórnmálamenn þurfa að axla ábyrgð, því [að] ekki verður hægt að huga að neinum innviðum án verðmætaframleiðslu hjá fyrirtækjum og mannauði þeirra."

 

 


Bandaríkin og Ísland

Fróðlegt er að bera saman stöðu Bandaríkjanna og Íslands nú á krepputíma.  Ýmsir hagvísar bentu til þess fyrir SARS-CoV-2 kreppuna, að fjármálakerfi heimsins væri komið á yztu brún og að stutt væri í fjármálakreppu, þegar þessi veira tók að breiðast út fyrir Kína. Alþjóðleg fjármálakreppa var í raun orðin óhjákvæmileg vegna eignabólu langt umfram raunverðmæti í Bandaríkjunum (BNA) og misvægis á milli norðurs og suðurs á evrusvæðinu. Þetta misvægi í Evrópu er óbrúanlegt um fyrirsjáanlega framtíð vegna djúpstæðs mismunar, sem Evrópusambandið (ESB) hefur að sumu leyti magnað (frjáls för fólks hefur magnað vinnuaflsskort af völdum öldrunar samfélaga). Efnahagslegar afleiðingar CoVid-19 veikinnar bætast við eignabólusprengingu í BNA og væntanlegt uppgjör á evrusvæðinu.  Þetta saman mun skapa djúpa og langvinna efnahagskreppu í heiminum.  Við þessar aðstæður mun taka tíma fyrir tapaðar tekjulindir Íslendinga að jafna sig að fullu, og þess vegna er ekki hægt að búast við snöggum bata.  Lífskjaraskerðing hérlendis er óhjákvæmileg, eins og annars staðar.  Það væri fásinna að láta þessar aðstæður af völdum ytri krafta leiða til þjóðfélagsátaka hér.  

Undir þetta rennir Kristrún Frostadóttir stoðum í grein sinni í Markaðnum 18. marz 2020: 

"Hagstjórnarfyrirmynd annarra":

"Talsverður aðdragandi hefur verið að núverandi markaðstitringi víða um heim.  Stutta útgáfan af sögunni snýr að áhrifum lágra vaxta og ódýrs fjármagns í Evrópu og Bandaríkjunum á skuldsetningu og sókn í ávöxtun síðastliðinn áratug.  

Mikið fjármagn hefur streymt inn á hlutabréfamarkaði víða um heim, sérstaklega til Bandaríkjanna.  Í upphafi ársins [2020] var markaðsvirði bandaríska hlutabréfamarkaðarins 160 % af landsframleiðslu.  Árið 2007 var hlutfallið 100 %.  Ásókn í ávöxtun hefur einnig ýtt undir hraðan vöxt fyrirtækjaskulda í formi skuldabréfa í Bandaríkjunum á meðan hægt hefur á útlánavexti banka. 

Útgáfa annarra skuldaskjala hefur einnig stóraukizt, enda opinberar skuldir í Bandaríkjunum farið úr 60 % af VLF í rúmlega 100 % frá 2007. 

Bandaríski fjármálamarkaðurinn, þ.e. hlutabréf að meðtöldum skuldabréfum ríkis og fyrirtækja, mældist þrefalt stærri en raunhagkerfið í upphafi ársins [2020], en var 185 % af hagkerfinu 2007.  Húsnæðisskuldir hafa þó farið fallandi á þennan mælikvarða frá síðustu kreppu, úr 100 % af VLF í 75 %.  Hraður vöxtur á fyrrnefndum mörkuðum leiðir líklega til kreppu í raunhagkerfinu, sem er langt umfram COVID áfallið."

Þarna er lýst sjúku ástandi fjármálakerfis, sem hlaut að enda með verðmætahruni, enda stóð það á brauðfótum.  Skýringarinnar er að nokkru leyti að leita í lágum vöxtum Seðlabanka BNA, en lýsingin ætti þá að eiga í enn sterkari mæli við evrusvæðið, þar sem stýrivextir seðlabanka evrunnar hafa verið niðri við núllið.  Die Bundesbank, Seðlabanki Sambandslýðveldisins, hefur verið mótfallinn þessari lágvaxtastefnu einmitt af því, að hún hvetur til óarðbærra fjárfestinga og spákaupmennsku, sem endar í útþaninni blöðru, sem er dæmd til að springa með alvarlegum afleiðingum fyrir almenning. Lágvaxtastefnan hefur hentað þýzku þjóðfélagi illa, því að Þjóðverjar spara mikið á bankareikningum, t.d. til elliáranna, og kunna ekki að meta mjög lága eða jafnvel neikvæða ávöxtun. 

Hvað hafði Kristrún Frostadóttir að skrifa um stöðuna á Íslandi ?:

"Ójafnvægi hefur einnig verið til staðar í íslenzka hagkerfinu síðustu ár, en af öðrum toga.  Laun hafa hækkað mikið samhliða vexti mannaflafrekra greina [á borð við ferðaþjónustuna - innsk. BJo] og mælast nú 55 % af VLF.  Aðeins einu sinni á síðustu 50 árum hefur hlutfallið mælzt hærra eða 2007.  [Þetta er ótvírætt hættumerki og vísbending til verkalýðshreyfingarinnar um, að nú sé tími kröfugerða á enda, en komið að því að einbeita sér að því að treysta grundvöll lífskjaranna með framleiðniaukningu-innsk. BJo.]  Aukin greiðslugeta heimilanna, frekar en skuldsetning, hefur því drifið fasteignamarkaðshækkanir hér heima.  [Þetta er ekki næg skýring á óhóflegum fasteignaverðshækkunum, heldur koma þar til aukinn kostnaður vegna byggingarreglugerðar, lóðaokur og lóðaskortur, aðallega í höfuðstaðnum - innsk. BJo.]

Til samanburðar hefur launahlutfallið farið nær stöðugt lækkandi í Bandaríkjunum frá 1970 og stendur nú í 43 %.  [Þetta er enn óheilbrigðari þróun en á Íslandi.  Raunlaun hafa á þessu tímabili lítið hækkað í BNA og launþegar verið hlunnfarnir um ávinning framleiðniaukningarinnar, þótt eðlilegt sé, að launþegar og vinnuveitendur skipti honum á milli sín - innsk. BJo.] Þetta er spegilmynd hækkana á hlutabréfamörkuðum vestanhafs, þar sem hagnaður fyrirtækja [og arðgreiðslur - innsk. BJo] hefur aukizt hratt á kostnað launafólks og samneyzlu.  Þessi þróun hefur veikt stoðir samfélagsins til að bregðast við áföllum í bókstaflegri merkingu þessa dagana. 

Hér hefur hlutabréfamarkaðurinn hins vegar lítið tekið við sér síðustu misseri þrátt fyrir mikinn hagvöxt, en markaðsvirði fyrir núverandi áfall var um þriðjungur af landsframleiðslu samanborið við 200 % árið 2007.  Skuldabréfamarkaður með ríkis- og fyrirtækjabréf hérlendis er um 40 % af landsframleiðslu, en var tæplega 60 % árið 2007."

Nú eru stýrivextir Seðlabanka Íslands í sögulegu lágmarki, 1,75 %.  Það ætti að styðja við endurfjármögnun fyrirtækja með hlutabréfakaupum í þeim, enda hafa nú myndazt þar kauptækifæri.  Jafnframt er ljóst, að skuldabréfamarkaðurinn mun aukast á þessu ári vegna fjármögnunarþarfar hins opinbera og fyrirtækja, en ríkið hlýtur jafnframt að leita eftir lánveitingum erlendis.  Mun þá reyna á raunverulegan trúverðugleika ríkissjóðs Íslands á erlendum lánamörkuðum og formlegt lánshæfismat, og hvort lausafjárþurrð er orðið vandamál á heimsvísu.  Seðlabanki Íslands ætlar að hindra offramboð skuldabréfa með því að kaupa þau á eftirmarkaði, og fetar þar í fótspor margra annarra seðlabanka, þótt hann hafi látið þetta ógert síðan 1993.  

Botninn virðist vera dottinn úr álmörkuðum heimsins með álverð að nálgast 1400 USD/t, en fisk og aðrar matvörur verður fólk að kaupa, hvernig sem allt veldur, svo að sjávarútvegur og fiskeldi sigla vonandi hraðbyri gegnum þessa gríðarlega erfiðu tíma. Nú berast þó þau tíðindi af sjávarútvegi, að útflutningsverðmæti hans kunni að dragast saman á þessu ári vegna afleiðinga SARS-CoV-2 veirunnar bæði hérlendis og erlendis.  Vonandi nær sjávarútvegurinn þó fljótt og vel vopnum sínum, því að við þurfum á öllu að halda til að laga viðskiptastöðuna við útlönd.  

 

 

 

 

 

 

 


Traust Landsvirkjunar

Það hefur komið fram, áður en SARS-COV-2 eyðilegði alla markaði, að Landsvirkjun er að tapa stórfé með því að heimta árið 2016, að í stað álverðsvísitölu á orkuverð til Norðuráls (NÁ) skyldi taka upp viðmiðun við raforkuverð á Nord Pool - uppboðsmarkaði raforku. Ennfremur tapar þessi stærsti orkubirgir landsins  stórfé á framleiðsluminnkun í Straumsvík, sem stafar af viðleitni ISAL til að minnka tap fyrirtækisins, sem stafar af svimandi háu raforkuverði frá Landsvirkjun, verði, sem er algerlega ósamkeppnisfært við núverandi aðstæður og líklega einstætt í heiminum um þessar mundir.  Fram hefur komið, að kjarasamningar fyrirtækisins ná aðeins til 30.06.2020, svo að ljóst má vera, að þá vofir stöðvun fyrirtækisins yfir, eins og væntanlega mun koma í ljós eftir páskana með enn minni orkukaupum fyrirtækisins vegna hægfara framleiðsluminnkunar í átt að stöðvun.    

Framkoma forstjóra Landsvirkjunar við fréttum af því, að kjarasamningurinn í Straumsvík yrði framlengdur fram á næsta ár, ef nýr samningur næðist við Landsvirkjun um orkuverð, er stórfurðuleg í ljósi þess, að fram hefur komið, að slík endurskoðun væri skilyrði áframhaldandi rekstrar.  Hélt þessi forstjóri, að ekkert væri að marka slíkar yfirlýsingar og að aðrar skuldbindingar fyrirtækisins tækju ekkert mið af raunveruleikanum. Það eru vægast sagt ómálefnaleg viðbrögð þessa forstjóra að láta nú eins og alþjóðlegt stórfyrirtæki stilli fyrirtæki íslenzku þjóðarinnar upp við vegg.  Það er engu líkara en þessi dæmalausi forstjóri sé í persónulegu stríði við aðalviðskiptavini Landsvirkjunar. Þá sýna dylgjur hans um óeðlilega fjármagnsflutninga frá dótturfyrirtæki til móðurfyrirtækis 2017, að maðurinn stundar bara sína persónulegu pólitík. Slíkt er með öllu ábyrgðarlaust í þeirri grafalvarlegu efnahagsstöðu, sem þjóðin stendur frammi fyrir núna.  Svona riddarar eru ekki til mikils gagns, þegar á bjátar.

Fleira mætti nefna, sem rýrt hefur traust til þessa fyrrum virta orkufyrirtækis landsmanna undanfarið, og snýr það flest að hegðun og dylgjum forstjóra þessa fyrirtækis,t.d. um misferli helztu viðskiptavina þess gagnvart skattalöggjöf landsins (Kastljósþáttur í marz 2020) og dylgjum um að setja í gang áróðursstríð gegn Landsvirkjun með Straumsvíkuryfirlýsingunni frá 12.02.2020. 

Nú hefur Landsvirkjun að gefnu tilefni lýst yfir fullu traustu sínu í garð CRU (brezks greiningarfyrirtækis á sviði náma-, málma- og áburðarvinnslu) og starfsmanns þess, Martins Jackson.  Sá hélt erindi á opnum fundi Landsvirkjunar í janúar 2020 og komst þar á röngum og úreltum forsendum að villandi niðurstöðu um orkuverð Landsvirkjunar, sem var þó fyrirtækinu þóknanleg.  Samtök iðnaðarins bentu þegar í stað á veikleikana í málflutningi Jacksons, og það gaf Landsvirkjun tilefni til traustsyfirlýsingar á hann.  Þá vaknar spurningin: hvers virði er traustsyfirlýsing þess, sem rúinn er trausti ?

Nú verður rakinn lunginn úr frásögn Fréttablaðsins 18. janúar 2020 undir fyrirsögninni:  

"Landsvirkjun ber fullt traust til Martins Jackson og CRU":

"Landsvirkjun hafnar málflutningi Samtaka iðnaðarins um, að myndin, sem Martin Jackson, álsérfræðingur hjá greiningarfyrirtækinu CRU, dró upp á morgunverðarfundi Landsvirkjunar, sé ekki lýsandi fyrir stöðuna."

Þegar enginn rökstuðningur fylgir slíkri höfnun, er ekki annað um hana að segja en hún lýsir rökþrota og hrokafullum stjórnendum, sem hreiðrað hafa um sig hjá stóru ríkisfyrirtæki í einokunaraðstöðu á þeim markaði, sem hér um ræðir.  Öðru máli gegndi um málflutning gagnrýnandans, SI.  Þar á bæ hafa menn ítrekað bent á, að margt bendir til, að hæsta orkuverðið til stóriðjunnar, svo og það, sem minni stórnotendum býðst, t.d. gagnaverum, sé með öllu ósamkeppnishæft.  Enn hvílir þó leyndarhula yfir verðinu, og á meðan eiga SI erfitt um vik.

"Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær, segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins [SI], að samkeppnisstaða Íslands sé að versna, orkuverð á Íslandi hafi hækkað á sama tíma og það fari lækkandi annars staðar í Norður-Evrópu."

Þetta er staðreynd með þeirri undantekningu þó, að raforkuverð Landsvirkjunar til Norðuráls (NÁ) hefur lækkað frá gildistöku nýs orkusamnings í nóvember 2019 í takti við lækkun á markaði Nord Pool vegna ranghugmynda innan Landsvirkjunar um alþjóðlega þróun orkuverðs, sem leiddi starfsmenn þar á bæ til að veðja á stöðuga hækkun verðs á Nord Pool markaðinum. 

"Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar, segir Landsvirkjun bera fullt traust til Jacksons og CRU.  "Landsvirkjun ber fullt traust til sérfræðiþekkingar CRU og telur, að greiningar fyrirtækisins hafi í gegnum tíðina gefið raunsæja mynd af álmörkuðum og samkeppnisstöðu íslenzkra álfyrirtækja", segir Stefanía."

Spyrja má til hvers Landsvirkjun fékk téðan sérfræðing CRU til að messa hérlendis um samkeppnisstöðu íslenzkra álfyrirtækja.  Eins og staðan er núna er vitað, að ástæðulaust er að kvarta undan raforkuverði Landsvirkjunar til tveggja stærstu álveranna, en vandamálið er hins vegar hjá minnsta álverinu, ISAL í Straumsvík, þar sem mikil hækkun fór fram árið 2011 og raforkuverðið hefur síðan stigið stöðugt vegna tengingar þess við neyzluverðsvísitölu í Bandaríkjunum.  Það er nú meira en tvöfalt verðið til hinna álveranna hérlendis að flutningskostnaði meðtöldum. Á sama tíma hefur álverðið lækkað, svo að einfaldir útreikningar sýna, að til þess að halda óbreyttu kostnaðarhlutfalli raforku og skráðs markaðsverðs áls, þá þarf raforkuverð til ISAL að lækka um 30 % eða um 12 USD/MWh. 

Það er ekki þar með sagt, að samkeppnishæfnin mundi verða, eins og hún var 2011, þótt þessi lækkun færi fram.  Það stafar af því, að heimsmarkaðsverð á orku hefur lækkað síðan þá í bandaríkjadölum talið og sömuleiðis hefur verðlag launa og þjónustu hækkað mikið á Íslandi. Þá þarf að kanna þróun flutningskostnaðar líka. Þetta eru engin geimvísindi, eins og sagt er, og það á að vera óþarfi að fá hingað rándýran ráðgjafa frá útlöndum til að komast að hinu rétta í þessu máli.  Málið versnar verulega, þegar í ljós kemur, að honum mistókst hrapallega við úrlausn og framsetningu málsins. 

Út frá þessari reynslu er e.t.v. skiljanlegt, að iðnaðarráðherra hafi gripið til þess ráðs að fá til liðs við sig annan (rándýran) ráðgjafa, Fraunhofer, til að komast til botns í þessu máli um samkeppnishæfni íslenzkrar raforku til iðnaðar á Íslandi.  Vonandi verður hvorki fljótaskrift né slagsíða á rannsókn Fraunhofers, en það gæti verið orðið einu álveri færra í rekstri hérlendis, loksins þegar iðnaðarráðherra kynnir þessa skýrslu.  Svifasein stjórnsýsla getur verið verri en engin stjórnsýsla.

Vandamál tveggja elztu verksmiðjanna, ISAL og Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga (Elkem á Íslandi), er hins vegar svo brýnt úrlausnar, að ráðherrann og ríkisstjórnin hafa ekki margra mánaða umþóttunartíma.  Því miður hafa nú risavandamál ferðaþjónustunnar bætzt ofan á málahrúgu ríkisstjórnarinnar, en þeim mun mikilvægara er að keyra iðnaðinn á fullum afköstum.  

"Hún segir niðurstöðuna, sem Jackson kynnti á miðvikudag, vera skýra.  "Raforkuverð til álvera á Íslandi er vel samkeppnishæft við það, sem álverum býðst annars staðar í heiminum, og vegna baráttunnar við loftslagsbreytingar mun samkeppnisforskot íslenzku endurnýjanlegu raforkunnar líklega aukast enn meira í framtíðinni, bæði orkufyrirtækjum og stórnotendum á Íslandi til hagsbóta", segir Stefanía." 

Það er rangt, að niðurstaðan sé skýr í þeim skilningi, að hún kasti ljósi á vandamálið, sem nú er við að etja.  Í fyrsta lagi eru notuð gögn frá árinu 2018, og síðan þá hefur raforkuverð til ISAL sætt vísitöluhækkun, gerðardómur hækkað raforkuverðið til Elkem á Íslandi og farið þar bil beggja deiluaðila, og Landsvirkjun og NÁ hafa endursamið um 30 % raforkunotkunar NÁ.  Í síðasta tilvikinu samdi Landsvirkjun reyndar af sér árið 2016, þannig að skörp lækkun hefur orðið á raforkuverðinu til NÁ. 

Eina álverið á Íslandi, sem býr við gjörsamlega ósamkeppnishæft raforkuverð um þessar mundir, er þannig ISAL í Straumsvík, og það var villandi umfjöllun hjá Jackson á téðum morgunverðarfundi Landsvirkjunar að breiða yfir það.  Þar að auki hefði hann átt að gera grein fyrir þeim niðurgreiðslum (á orkuverði), sem tíðkast á meginlandi Evrópu og í Noregi.

Athafnir verða að fylgja orðum hjá Landsvirkjun.  Það er ekki nóg að vegsama framlag Íslands til baráttunnar við loftslagsbreytingar, ef á sama tíma er lagður steinn í götu landsins við framkvæmd áhrifamestu aðgerðarinnar til að draga úr losun koltvíildis á heimsvísu, sem er að framleiða ál með raforku úr kolefnisfríum orkulindum.  

"Áliðnaðurinn í heiminum býr sannarlega við krefjandi markaðsaðstæður um þessar mundir, sem má fyrst og fremst rekja til aðstæðna á alþjóðamörkuðum, minni eftirspurnar og mikils vaxtar í framleiðslugetu álvera í Kína, sem eru fyrst og fremst knúin af mengandi kolaorkuverum", segir Stefanía ennfremur."

Það er rétt hjá téðri Stefaníu, að vandamál álmarkaðarins var ekki eftirspurnarskortur fyrir COVID-19, því að spurn eftir áli hefur að jafnaði aukizt um 4 %/ár undanfarinn áratug og lengur, heldur hefur verið um offramleiðslu að ræða vegna gríðarlegrar ósjálfbærrar framleiðsluaukningar Kínverja.  Ákvörðun um hana er ekki tekin á markaðslegum forsendum, heldur eru þetta klóför kínverska kommúnistaflokksins, sem hefur stjórnað framsókn Kínverja á málmmörkuðum heimsins og námuvinnslu víða um heim. Nú veit enginn, hvað við tekur eftir stöðvun margra verksmiðja í Kína vegna sóttkvíar og einangrunar af völdum pestarinnar.  Gervitunglamyndir sýna, að loftið yfir Kína er nú mun hreinna en í fyrra.  Viðhorf breytast við atburði eins og baráttuna við þessa veiru, og ekki er hægt að útiloka, að Kínverjar dragi nú úr álútflutningi sínum. 

Það er engu að síður þannig, að þróun raforkuverðs hjá ISAL hefur frá gerð nýs samnings 2011 verið allt önnur og óhagstæðari en hjá keppinautunum.  Ef tryggja á áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar og fjárfestingar fyrir tímabilið til 2036, þegar samningurinn rennur út, er nauðsynlegt að færa raforkuverðið í það horf, að raforkukostnaður fyrirtækisins á hvert áltonn nemi ekki stærra hlutfalli af skráðu álverði en var við samningsgerðina 2011. Framhjá þessu kemst Landsvirkjun ekki með orðagjálfri stjórnenda hennar.

 


Landsvirkjun ríður ekki feitum hesti frá Nord Pool

Á árunum 2010-2011 birti Landsvirkjun spá sína um raforkuverð næstu tvo áratugina.  Sú var mjög bjartsýn og er löngu komin í vaskinn, en Landsvirkjun hefur samt alveg láðst að laga verðlagsstefnu sína að raunveruleikanum.  Árið 2016 endursömdu Norðurál og Landsvirkjun um raforkuviðskipti, og gildir nýi samningurinn tímabilið 01.11.2019 til jafnlengdar 2023.

Tekur raforkuverð samningsins mið af verðþróun á orkumarkaði Norð-Vestur Evrópu, þ.e. á hinum Norðurlöndunum, í Eystrasaltsríkjunum, Þýzkalandi, Benelúx, Frakklandi og Bretlandi.  Mánaðarlegt meðalverð í EUR/MWh það, sem af er 2020, er 24 í janúar, 14 í febrúar og 9 í marz.  Um þessar mundir er það í kringum 5 EUR/MWh. Meðaltal 1. ársfjórðungs 2020 er tæplega 16 EUR/MWh (=2,5 ISK/kWh = 17 USD/MWh).   Komið hefur fram, að verðið til ISAL í Straumsvík er um 35 USD/MWh að viðbættum flutningskostnaði. Nord Pool er ekki hálfdrættingur á við verð Landsvirkjunar til ISAL, enda er raforkukostnaður fyrirtækisins að gera út af við það, eins og fram kemur í nýbirtri Ársskýrslu ISAL 2019. Þá var botninn þó ekki gjörsamlega dottinn úr álmarkaðinum, eins og núna (nálgast 1400 USD/t Al).  Það hefur orðið verðhrun á Nord Pool síðan 2016, er nýr raforkusamningur var gerður á milli Landsvirkjunar og Norðuráls, og glámskyggni og einþykkni stjórnenda Landsvirkjunar varðandi þróun orkuverðs í heiminum valdið fyrirtækinu umtalsverðu fjárhagstjóni. 

Viðskiptablaðið gerði þessi viðskiptalegu mistök Landsvirkjunar að umræðuefni 27. febrúar 2020 undir fyrirsögninni:

"Landsvirkjun verði af milljörðum":

"Verð á Nord Pool raforkumarkaðnum er í sögulegri lægð.  Það kann að hafa í för með sér, að Landsvirkjun verði af umtalsverðum tekjum vegna tengingar raforkuverðs við markaðinn."

Síðan þetta var skrifað hefur verðið enn lækkað vegna COVID-19 og vegna hruns olíuverðs um meira en helming.  Það er ekkert sem bendir til varanlega hás orkuverðs á alþjóðlegum mörkuðum á þessum áratugi, þótt samtök olíuframleiðsluríkja (OPEC) rembist eins og rjúpan við staurinn (reyndar í öfuga átt núna), og hagkerfi Evrópusambandsins, sem boðar hátt orkuverð til að hvetja til fjárfestinga í dýrum virkjunum endurnýjanlegrar orku, ræður ekki við mun hærra orkuverð til lengdar en aðrir heimshlutar búa við. Lömun hagkerfis heimsins af völdum SARS-COV-2 virkar enn fremur til að halda orkuverði lágu næstu árin.  Landsvirkjun lítur út eins og eintrjáningur í þessu umhverfi.   

 "Raforkuverð á norræna raforkumarkaðnum Nord Pool hefur verið sögulega lágt síðustu daga.  Verðið féll um 50 % í upphafi ársins m.v. í byrjun nóvember, þegar nýr raforkusamningur tók gildi milli Norðuráls og Landsvirkjunar.  Verðið í samningnum er beintengt verðinu á Nord Pool raforkumarkaðnum. Því kann Landsvirkjun að verða fyrir milljarða tekjutapi á þessu ári m.v. verðið í upphafi nóvember.

Í uppgjöri Century Aluminium, móðurfélags Norðuráls á Grundartanga, kemur fram, að raforkuverðið hafi fallið frá því fyrir áramót úr um 40 USD/MWh í um 20 USD/MWh  ."

Þarna er verið að segja frá stórfelldum stjórnunarlegum mistökum á viðskiptasviðinu af hálfu Landsvirkjunar.  Forstjóri hennar og stjórn hafa bitið í sig algerlega úrelt viðhorf á sviði orkuverðlagningar í heiminum.  Þau virðast ekki enn skilja þá þróun, sem stjórnar orkuverðlagi, og hafa þess vegna gert afleit mistök fyrir hönd eiganda fyrirtækisins, íslenzka ríkisins, við gerð nýs orkusamnings við NÁ. 

Hjá Landsvirkjun er allt of rík tilhneiging til spákaupmennsku.  Þarna hefði verið skynsamlegra að draga inn fleiri vísitölur, og þá hefði verðið ekki helmingazt á nokkrum vikum.  Það er t.d. óvitlaust að hafa nokkrar álverðsvísitölur og nokkrar orkuverðsvísitölur til hliðsjónar, en það er hreinn barnaskapur að leggja aðeins Nord Pool-vísitölu til grundvallar. Auðvitað þarf að setja gólf, svo að raforkuverð geti ekki farið undir framleiðslukostnað raforkunnar, svo að hagnaður verði þrátt fyrir allt af raforkusölunni. 

"Þegar skrifað var undir samninginn milli Landsvirkjunar og Norðuráls árið 2016, sagði Morgunblaðið frá því, að hækkun raforkuverðs með samningnum gæti skilað nærri tveimur 2 mrdISK/ár í viðbótartekjum.  M.v. verðfallið frá því í nóvember [2019] mætti áætla, að tekjur, sem Landsvirkjun kann að verða af m.v. óbreytt raforkuverð, nemi 3-4 mrdISK/ár.  Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun metur fyrirtækið það sem svo, að ólíklegt sé, að lækkunin vari til lengri tíma."  [Undirstr. BJo.] 

Þetta sýnir, hversu skakkan og dýrkeyptan pól forysta Landsvirkjunar hefur tekið í hæðina, og það sárgrætilega er, að hún lemur enn hausnum við steininn og botnar ekkert í, hvað er að gerast í kringum hana. Landsvirkjun hefur með frumhlaupi sínu náð að lækka raforkuverðið til Norðuráls niður úr öllu valdi, þótt viðskiptavinurinn hafi alls ekki farið fram á lækkun.  Stjórn fyrirtækisins hlýtur að láta þann, sem þetta gerir og bað um samþykki hennar, sæta ábyrgð á gerðum sínum.  Hvenær verður mælirinn fullur af axarsköptum Landsvirkjunar, svo að eigandinn neyðist til að grípa í taumana ? 


Tengsl orkupakka ESB við hátt orkuverð á Íslandi

Elias B. Elíasson, verkfræðingur, hefur ritað fróðlegar og skarplegar greinar í Morgunblaðið um orkumál, orkupakka ESB og orkustefnu, sem af þeim leiðir. Undanfarið hafa þessar greinar snúizt um birtingarmynd hrikalegra afleiðinga innleiðingar orkulaggjafar Evrópusambandsins (ESB) á starfsemi stórnotenda raforku, einkum álverksmiðjunnar ISAL í Straumsvík. Er nú fram að koma, hversu umhendis og skaðleg innleiðing orkulöggjafar ESB er á Íslandi. 

Það, sem er einkennandi fyrir skarplega greiningu Elíasar á stöðu orkumálanna á Íslandi, er, að hann tengir hana með skýrum hætti við gildandi orkulög í landinu, sem að meginstofni koma frá ESB, þar sem gjörólíkt orkukerfi og orkumarkaðskerfi eru m.v. íslenzkar aðstæður, og þar með fæst einhver botn í þá kúvendingu á stefnu Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum sínum, sem átt hefur sér stað síðan 2010. 

Í ESB er aðalorkugjafinn jarðefnaeldsneyti, og á orkumarkaði þess ríkir frjáls samkeppni.  Í orkustefnu ESB eru innbyggðir hvatar til að hækka orkuverð til að örva áhuga á að reisa nýjar virkjanir, aðallega endurnýjanlegra orkulinda, en einnig hinna til að brúa bilið, þegar lygnt er eða sólarlaust. 

Frjáls samkeppni á Innri markaðinum hindrar hins vegar, að verðið rjúki þar upp úr öllu valdi. Reyndar er botninn dottinn þar úr markaðinum (verðinu) núna vegna eftirspurnarleysis. Hérlendis er hins vegar engin samkeppni um stóra viðskiptavini.  Allir ættu að sjá, að löggjöf, sniðin utan um orku- og markaðskerfi ESB hentar ekki á Íslandi.  Nú er þar að auki komið í ljós, að skaðsemisáhrif þessarar löggjafar á Íslandi eru feikileg og sízt minni en varnaðarorð í OP#3 umræðunni kváðu á um.  Orkupakkarnir valda stórtjóni á Íslandi, og er þó ekki bætandi ofan á loðnubrest og CoVid-19, sem er að ganga af mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum dauðum og að setja íslenzka hagkerfið á hliðina um stundarsakir.

Grein Elíasar í Morgunblaðinu 7. marz 2020 bar yfirskriftina:

"Enn um raforkuverð ÍSAL".

Ein fjögurra undirgreina bar fyrirsögnina:

"Áhrif ESB":

"Áhrif ESB á þessa samninga [við álverin-innsk. BJo] eru veruleg. Á ársfundi Landsvirkjunar 2016 birti Hörður Arnarson, forstjóri, stefnu fyrirtækisins, sem lýst var svo: "Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum, sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi."  [Undirstr. BJo.]

Í umfjöllun sinni lét hann þess svo getið, að samkvæmt lögum gæti stefna fyrirtækisins ekki verið langt frá því, sem í þessum orðum felst.  Lögin, sem hann vitnaði til, eru lög ESB innleidd í EES-samninginn.  Þetta verður ekki skilið öðruvísi en svo, að allur arður af þessum auðlindum þjóðarinnar skuli skila sér inn í Landsvirkjun lögum samkvæmt.  [Undirstr. BJo.]

Þjóðin sjálf eða fulltrúar hennar hafa engan rétt til að hlutast til um, hvar í þjóðfélaginu þessi arður komi fram.  Með þessu er þrengt að þeim sveigjanleika, sem hér þarf að vera, til að skapa íslenzku atvinnulífi viðunandi samkeppnisstöðu gagnvart þeim, sem eru nær mörkuðunum á meginlandi Evrópu.  

Forstjórinn gat þess einnig í Kastljósþætti RÚV á dögunum, að fyrirtækjasamstæður hefðu visst svigrúm til að ákveða, hvar arður samstæðunnar kemur fram. Samkvæmt túlkun hans á (ESB)-lögunum hefur íslenzka þjóðin sem eigandi raforkufyrirtækjanna ekki hliðstætt svigrúm til að hlutast til um, hvar arðurinn af orkunni kemur fram.  Þessu þarf að breyta."

Þetta er kjarni málsins varðandi það efnahagslega tjón, sem orkupakkar ESB valda á Íslandi.  Það er vafalaust rétt túlkun hjá Elíasi, að forstjórinn og þá væntanlega stjórn Landsvirkjunar túlka lögin (orkupakkana) þannig, að allur arður orkulindanna í nýtingu hjá Landsvirkjun eigi að falla til Landsvirkjunar. 

Sama dag og grein Elíasar birtist í Mogganum birtist þar önnur góð grein, og var sú eftir Ásmund Friðriksson, Alþingismann.  Þar stóð m.a., að hann liti svo á, að þessi arður væri bezt ávaxtaður hjá samfélaginu sjálfu, þ.e. heimilum og fyrirtækjum.  Undir það er heilshugar hægt að taka, og um þetta snýst meginágreiningurinn um orkumálin.  

Þar sem í ofangreindri stefnuyfirlýsingu Landsvirkjunar er einnig minnzt á verðmætasköpun, er þó ljóst, að túlkun forstjórans á stefnunni er röng.  Hann hámarkar ekki verðmætasköpun úr orkunni hér innanlands með því að hámarka verð hennar, heldur með því að orkuverðið skapi framleiðslufyrirtækjunum lífvænlega samkeppnisstöðu á alþjóðlegum mörkuðum, svo að þau geti framleitt og hagnazt sem mest á að auka virði raforkunnar í vöruútflutningi.  Slíkt verður ætíð helzti virðisaukinn af raforkuvinnslunni.

Þá eru orð forstjóra Landsvirkjunar almennt um flutning arðs innan samstæðu dylgjur einar um stóriðjuna í heild og sýna, að forstjórinn er úti á túni sem faglegur forstjóri stærsta raforkufyrirtækis landsins, kominn langt út fyrir verksvið sitt og er raunar farinn að stunda bullandi pólitík gegn erlendum fjárfestingum í landinu.  Við svo búið má ekki standa hjá Landsvirkjun.  Það eru umbrotatímar og vorhreingerninga er þörf.  

 

 


Á heljarþröm í hörðum bardaga

Fjármála- og efnahagsráðherra lýsti því yfir 10. marz 2020, daginn sem framtalsfresti lauk, að forsendur fjárlaga ríkisins væru fallnar.  Ástæðuna kvað hann efnahagslegar afleiðingar baráttunnar við SARS-CoV-2 veiruna. Merkilegar raðgreiningar Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) leiða í ljós, að á meðan sóttvarnaryfirvöld töldu meginhættuna stafa af skíðasvæðum Norður-Ítalíu og Austurríkis, þá smyglaði veiran sér inn í landið annars staðar frá, t.d. frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Þá voru yfirvöld þessara landa ekki meðvituð um vágestinn hjá sér, sem stafar sennilega af því, að sjúklingarnir hafi sjálfir talið sig vera með "venjulega" inflúensu, enda einkennin í mörgum tilvikum svipuð. Þetta er umhugsunarvert fyrir næsta faraldur.  Á þá að setja alla farþega í sóttkví við komuna strax og vitnast um faraldur til að koma í veg fyrir það, sem nú gerðist, að hlutfallslegur fjöldi sýktra af skeinuhættum faraldri yrði í upphafi langhæstur á Íslandi ?   Ítalir sýndu þessum kínverska vágesti í upphafi linkind og kæruleysi, en seint og um síðir (09.03.2020) hafa yfirvöldin séð sitt óvænna og sett alla þjóðina í sóttkví.  Það mundi Þórólfur seint ráðleggja íslenzkum stjórnvöldum, enda var þessi ráðstöfun einstæð í sögunni, þegar til hennar var gripið.  Það, sem verra er, það sér ekki fyrir endann á sóttkví Ítala.  Til að takmarka heilsufarslegar og efnahagslegar afleiðingar veirufaraldra er lykilatriði að grípa þegar í stað til strangra gagnráðstafana.  

Stjórnvöld hérlendis guma af styrkri stöðu íslenzka efnahagskerfisins og nefna til sögunnar stóran (mrdISK 900) gjaldeyrisvarasjóð og lágar skuldir ríkis og einkageira. Því miður eru undirstöðurnar ótraustar, svo að nú blasir við mikið tekjutap ríkisins og kostnaðarauki þess og þar af leiðandi skuldasöfnun. Ferðabann Bandaríkjastjórnar gagnvart Schengen svæðinu kippti grundvellinum undan fjölda fyrirtækja hér í ferðamennskunni.  Sá geiri er svo fallvaltur og ósjálfbær, að óráðlegt er, að hlutfallslegt umfang hans verði jafnmikið í þjóðarbúskapinum og verið hefur.  Það eru fleiri vaxtarbroddar til, sem verðugt er að gefa meiri gaum. 

Við svo búið í ríkisrekstrinum má ekki standa, svo að við blasir, að endurskoðun fjármálaáætlunar verður ekki áhlaupaverk og líklega sársaukafull.  Undirstöðurnar eru auðvitað atvinnulífið, en við blasir tímabundið hrun í ferðageiranum, sem er búinn að fjárfesta töluvert undanfarið, svo að fækkun fyrirtækja verður ekki umflúin. Vegna efnahagsáfalls heimsins mun ferðageirinn ekki ná sér hratt á strik.

Launakostnaður hins opinbera og atvinnulífsins hefur hækkað langt umfram framleiðniaukningu, sem þýðir, að verkalýðsfélögin hafa með kröfugerð sinni valdið því, að fjöldi atvinnulausra hefur og mun vaxa hratt.  Þau voru búin að verðleggja félagsmenn sína út af markaðinum áður en reiðarslagið reið yfir, eins og stjórn Landsvirkjunar hefur í krafti einokunarstöðu sinnar á stórsölumarkaði raforku verðlagt fyrirtækið út af raforkumarkaðinum, en vegna einokunarstöðu þess tekur það tíma fyrir afleiðingarnar að birtast. Þetta er ógæfulegt og sýnir, að skipulag vinnumarkaðar, kjarasamningagerð og orkustefnan (orkulöggjöfin) eru í ógöngum og þjóna í raun engum, en hjakka í gamla stéttabaráttu- og okurfarinu.  

Veiran hefur jafnvel eyðilagt sjávarvörumarkaðina um hríð, svo að allar bjargir gætu virzt bannaðar sem stendur.  Sjávarútvegurinn hefur einnig orðið fyrir barðinu á breytingum í lífríkinu, sem engan veginn sér fyrir endann á.  Fisksendingar frá Kína til Evrópu hafa stöðvazt, sem skapar fiskskort í Evrópu, en fiskmarkaðir þar og í BNA hafa lamazt.  Óvíst er, hversu ginnkeyptir Evrópumenn munu verða fyrir matvælakaupum frá Kína, þegar fram í sækir, en þeir hljóta að ranka við sér fyrr en síðar og treysta þá á matvælagæði úr norðurhöfum.  Nú stendur fastan sem hæst á meðal kaþólskra, og þá er venjulega hámark fiskneyzlunnar þar á bæ.  Hvað eru Evrópumenn eiginlega að éta nú um stundir ? Framtíð skilvirks, sjálfbærs og tæknivædds sjávarútvegs, fiskiðnaðar og fiskeldis á Íslandi, er þó björt að nokkrum vikum liðnum í samanburði við aðra atvinnuvegi landsins. 

Ekki er sömu söguna að segja af iðnaðinum almennt og allra sízt hinum orkusækna þungaiðnaði.  Þar hafa lagzt á eitt offramboð á mörkuðum og hár tilkostnaður innanlands.  Sérstaklega munar um verðkröfur Landsvirkjunar, sem hafa síðastliðinn áratug verið úr öllum takti við raunveruleikann.  Á meðan alþjóðlegt orkuverð hefur lækkað, hefur raforkuverð til atvinnurekstrar hækkað á Íslandi.  Það er engin skynsamleg skýring til á þessu, en öfugþróunina má rekja til fordildar stjórnenda Landsvirkjunar, skorts á viðeigandi orkustefnu í landinu og orkulaga, sem ekki henta hagsmunum Íslands.  

Í þessu sambandi gefur skelegg afstaða Alþingismannsins Ásmundar Friðrikssonar þó góða von um önnur viðhorf á Alþingi en í stjórn Landsvirkjunar, en Ásmundur skrifaði þetta m.a. í grein sinni í Morgunblaðinu 7. marz 2020, sem bar heitið: 

"Ögurstund í atvinnulífinu":

"Í mínum huga er samfélagið, heimili og atvinnulíf, þjóðarsjóðurinn, sem bezt nýtir hagnað ódýrrar raforku".

Þetta er hverju orði sannara hjá Ásmundi, og þess vegna ætti ríkisstjórnin að láta það verða sem lið í aðgerðum sínum gegn taprekstri fyrirtækja í fordæmalausri stöðu, þar sem heilu löndin hafa verið sett í sóttkví og farþegaflug liggur nánast hvarvetna niðri, að gefa Landsvirkjun fyrirmæli um að lækka raforkuverð sitt á heildsölumarkaði umtalsvert og endursemja við þá aðila, sem búið hafa við mestar hækkanir raforkuverðs frá 2011. 

Þann 27. febrúar 2020 birtist í Viðskiptablaðinu grein eftir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóra, Samáls, með heitinu:

"Þegar Ísland tók fram úr Evrópu í lífsgæðum".

Hún hófst þannig:

"Eftir margra ára taprekstur álversins í Straumsvík er komið að því, að eigendur félagsins hyggist taka stefnumarkandi ákvörðun um framtíð álversins og skoða, hvort forsendur séu til að halda starfseminni áfram, eða hvort hún verði lögð niður.  Ekki þarf að orðlengja, að það yrði mikið högg fyrir íslenzkt efnahagslíf. 

Vitaskuld er ekkert "óviðeigandi" við það að vekja máls á stöðu fyrirtækisins og mikilvægi þess, að það búi við samkeppnishæf rekstrarskilyrði.  Skárra væri það nú." 

Það var búið að reifa vandamál stóriðjunnar á Íslandi svo rækilega í fjölmiðlum áður en SARS-CoV-2 var flutt til landsins, að aðvörunarbjöllur hljóta þá að hafa klyngt í eyrum ríkisstjórnarinnar og þar að auki rauð ljós að blikka á skrifstofu iðnaðarráðherra. Hún fer reyndar líka með málefni ferðageirans, sem yfirgnæfa öll önnur vandamál atvinnulífsins um þessar mundir vegna stöðvunar, sem enginn sá fyrir.  Það á eftir að koma í ljós, hvernig hún og ríkisstjórnin bregðast við sérstökum vanda, sem stafar af ósjálfbærri verðlagningu Landsvirkjunar, en ef sú verður raunin í sumar, að RTA/ISAL tilkynni lokun verksmiðjunnar í Straumsvík, þá mun sú tilkynning koma á versta tíma fyrir hagkerfi landsins og bæta gráu ofan á svart. Ber ekki iðnaðarráðherra pólitíska ábyrgð á því, ef ekkert raunhæft hefur verið gert til að hindra það ? Að sama skapi, ef í ljós kemur, að hún hefur náð að beita áhrifum sínum í þá átt, að samningar takist á milli RTA/ISAL og Landsvirkjunar, sem tryggi rekstur fyrirtækisins áfram út samningstímabilið til 2036, þá fær hún pólitíska rós í hnappagatið fyrir sinn þátt.

RTA hefur mikið reynt til að selja ISAL, en án árangurs.  Fyrirtækið er í raun óseljanlegt á markaðnum með núverandi raforkusamning. Hann er líkið í lestinni.  RTA vill draga sig út úr álgeiranum, og þá er ekki annarra kosta völ en að loka verksmiðjunni.  Það yrði mikið áfall fyrir starfsmenn verksmiðjunnar og nærsamfélagið, aðallega Hafnarfjörð, enda hafa ráðamenn bæjarfélagsins lýst yfir miklum áhyggjum vegna málsins og beita sér vonandi gagnvart þingmönnum SV-kjördæmis, enda um gríðarlegt hagsmunamál fyrir hag kjördæmisins að ræða, að ISAL fái að þróast og dafna eðlilega á sinni lóð á næstu árum. 

Pétur Blöndal skrifaði meira í téðri grein sinni:

"Ekki er langt síðan hætt var við kaup Norsk Hydro á álverinu í Straumsvík, eftir að dregizt hafði hjá evrópskum samkeppnisyfirvöldum að gefa samþykki sitt. Það segir sína sögu um stöðu álversins, að kaupverðið var einungis mrdISK 35 [MUSD 350 - innsk. BJo].  Til að setja það í samhengi má nefna, að Rio Tinto hafði nýlokið við mrdISK 60 fjárfestingarverkefni í Straumsvík, hið stærsta á Íslandi frá hruni.  Sú fjárfesting skilaði 15 kt/ár framleiðsluaukningu, og að allar afurðir fyrirtækisins eru nú virðisaukandi, stangir með sérhæfðum málmblöndum fyrir hátt í 200 viðskiptavini." 

 Norsk Hydro hefur að líkindum misst áhugann á þessum kaupum í líkingu við aðra, sem orðaðir hafa verið við kaup á starfseminni í Straumsvík.  Það er ekki vegna uppsetts verðs og ekki vegna þess, að framleiðslan sé ófýsileg.  Hluti af ofangreindum fjárfestingum voru nýjar mengunarvarnir til að mæta kröfum um losun á enn minna af flúoríðum í gasi og ryki á hvert framleitt áltonn.  Mjög góð tæknileg tök eru á rafgreiningunni, svo að losun koltvíildis er niðri við fræðilegt lágmark. 

Áratuga hefð er fyrir framleiðslu á sérhæfðum vörum í steypuskála ISAL.  Það, sem gert var 2011-2013, var að umbylta framleiðslulínum hans, sem áður framleiddu völsunarbarra eftir pöntun viðskiptavina, yfir í að framleiða sívalninga af ýmsum gildleikum, lengdum og melmum.  Þetta var gert til að skapa sér aukna sérstöðu á markaðinum og enn hærra afurðaverð.  

RTA samþykkti árið 2008 fjárveitingu til gríðarlegrar styrkingar raforkukerfisins í Straumsvík, og 2009 var ákveðið að auka afkastagetu þess til að geta séð kerskálunum fyrir enn hærri straumi til framleiðsluaukningar. Það var þannig mikill hugur í eigandanum á þessum tíma, og hann var staðráðinn í að gera verksmiðjuna eins samkeppnishæfa og unnt væri, en því miður heyktist hann á að stíga skrefið til fulls með því að styrkja leiðarakerfi rafgreiningarkeranna, eins og áformað hafði verið til að auka framleiðsluna upp í a.m.k. 230 ktAl/ár.  Er áreiðanlegt, að framkoma Landsvirkjunarmanna með forstjórann, Hörð Arnarson í broddi fylkingar, í viðræðunum um nýjan raforkusamning, átti þátt í að drepa niður áhuga RTA á þeim auknu raforkukaupum, sem áform voru um.  Er líklegt, að allt verði þetta rifjað upp, ef til málaferla kemur á milli RTA og Landsvirkjunar út af stöðvun starfseminnar og þar með stöðvun orkukaupanna.

Álverin eru stórir kaupendur alls konar annarrar þjónustu innanlands. Þar koma við sögu alls kyns verktakar og birgjar.  Pétur skrifaði um þetta:

"Á hverju ári kaupa íslenzk álver vörur og þjónustu af hundruðum fyrirtækja hér á landi, og nam sá kostnaður mrdISK 23 árið 2018; er þá raforka undanskilin.  Það er því rangt, sem stundum er haldið fram, að sala á orku til íslenzkra álvera jafngildi útflutningi á orku - í raun er minnihluti þess mrdISK 86 kostnaðar álvera, sem til féll hér á landi árið 2018, kominn til vegna raforkukaupa."

Þessi heildarkostnaður innanlands jafngildir um 62 USD/MWh.  Þetta er lágmarksviðmiðun um nettó verðið, sem fást þyrfti fyrir orku um sæstreng til útlanda.  Með nettó verði er átt við markaðsverðið að frádregnum flutningskostnaði og kostnaði vegna orkutapa.  Markaðsverðið á Nord Pool var þann 12.03.2020 8,7 EUR/MWh, sem jafngildir 9,7 USD/MWh.  Það er ekkert, sem bendir til þess, að á næsta áratugi geti orðið hagkvæmt að flytja út orku um sæstreng, þótt Landsvirkjun hóti því jafnan í viðræðum um raforkuviðskipti hérlendis eða láti skína í þann möguleika sem valkost fyrir sig.    

      


CoVid-19 og evran

Stefán E. Stefánsson, viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, er skarpur greinandi.  Þann 18. marz 2020 birti hann í Viðskipta-Mogganum stórmerkilega "skoðunargrein" sína undir fyrirsögninni:

"Endalok evrunnar",

sem ástæða er til að birta hér og leggja út af:

"Það fór ekki vel af stað hjá Christine Lagarde, þegar hún kynnti fyrsta alvarlega inngrip Seðlabanka Evrópu, frá því að hún tók við stofnuninni síðastliðið haust.  Glannaleg yfirlýsing, sem mátti túlka sem svo, að bankinn myndi ekki bakka upp hagkerfi Ítalíu, þegar öll sund eru lokuð, olli því, að markaður með ríkisskuldabréf landsins fór á annan endann.  Hún baðst í kjölfarið afsökunar á framgöngu sinni - en skaðinn er skeður." ?! [Erlendur hortittur í lokin-innsk. BJo.]

Christine Lagarde endurómaði væntanlega þarna umræðurnar innan Seðlabanka evrunnar (ECB), þegar hún tók við stöðu formanns bankastjórnar hans.  Þar sem ítölsku ríkisskuldabréfin fóru í ruslflokk við þessi ummæli, er ljóst, að fjárfestar telja þau illseljanleg á markaði, nema ECB bjóðist til að kaupa þau.  Það er hins vegar ekki víst, að ECB hafi í þetta skiptið getu til að kaupa nóg af þeim.  Það má búast við, að mörg ítölsk fyrirtæki lendi í vanskilum við banka sína á næstu vikum og mánuðum, af því að þau hafa litlar eða engar tekjur haft vikum saman.  Bankarnir eru veikir fyrir, og ríkisstjórnin mun reyna að bjarga einhverjum þeirra, en lausafjárþurrð mun líklega reka bankana og ítalska ríkissjóðinn í þurrð.  

Seðlabanki evrunnar mun þurfa í fleiri horn að líta, t.d. til Spánar og Grikklands, en einnig norður fyrir Alpana.  Deutsche Bank stóð tæpt fyrir þetta áfall, og núverandi hagkerfislömun og vafalaust lausafjárskortur í Evrópu fyrir vikið mun geta riðið honum að fullu. Þýzki ríkissjóðurinn mun sennilega teygja sig langt til að bjarga einhverju af þessum risa, svo að Þýzkaland verður líklega ekki aflögufært fyrir björgunaraðgerðir utan landamæra Sambandslýðveldisins.  Allar þessar sviptingar hljóta að hafa veikjandi áhrif á evruna, sem gæti kannski upplifað fall í líkingu við fall norsku krónunnar, NOK, í viku 12/2020, er hún féll um fjórðung m.v. USD, líklega aðallega vegna helmingunar á verði hráolíu, sem þýðir, að allir olíuborpallar Noregs eru nú reknir með tapi.     

Á óróa- og óvissutímum leita fjárfestar í bandaríkjadal, USD. Þótt forseta Bandaríkjanna hafi brugðizt bogalistin illilega við að veita landinu forystu í vörnum þess gegn CoVid-19 veikinni með þeim afleiðingum, sem Bandaríkin munu væntanlega þurfa að súpa seyðið af (nú er 80 þúsund manns spáð dauðdaga í BNA af völdum SARS-CoV-2 veirunnar), þá er evran þegar farin að tapa talsverðu verðgildi m.v. USD eða tæplega 5 % á vorjafndægri 2020 m.v. marzbyrjun.  Aðeins glannar spá fyrir um gengi gjaldmiðla, en það er hægt að leyfa sér að ýja að því, að núverandi lömun hagkerfa af völdum CoVid-19 pestarinnar muni geta leitt til þess, að evran verði um hríð ódýrari en dalurinn.

"Ríkin í Suður-Evrópu, sem hafa barizt í bökkum allt frá fjármálahruninu 2008, ekki sízt vegna drápsklyfjanna, sem alþjóðlegar fjármálastofnanir fengu að hengja á ríkissjóðina, horfa nú fram á enn eitt rothöggið.  Nú er enginn peningur í kassanum til að bregðast við, og ríkin, sem gátu komið til hjálpar þá, eiga þess varla kost nú.  Merkel þarf ekki að neita þeim um aðstoð; hún er einfaldlega ekki aflögufær."

Þarna stiklar Stefán Einar á stóru um orsakir efnahagsvandræða Suður-Evrópu og þar með orsakir ógnana, sem nú steðja að evrusamstarfinu.  Því miður gliðnaði hin óbrúanlega gjá, sem efnahagslega liggur um Alpana og Rín, enn við hrossalækningu ESB og AGS við fyrstu evrukrísunni, sem náði hámarki 2012. Nokkrar afskriftir lána áttu sér raunar stað, en meginþungi aðgerðanna fólst í því, að stórbankar Frakklands, Bretlands og Þýzkalands, voru losaðir úr prísund áhættusamra lánveitinga og skuldaklafi ríkissjóða Suður-Evrópu aukinn að sama skapi.  Þetta hefur virkað svo vaxtarhamlandi á þessi ríki, að þau hafa ekki borið sitt barr síðan. 

 

Eðlilega mega þau ekki við neinum ytri áföllum við þessar aðstæður, og greiðsluþol ríkissjóða Suður-Evrópu mun verða í uppnámi, þegar hvert fyrirtækið á fætur öðru verður gjaldþrota vegna tekjubrottfalls af völdum SARS-CoV-2 veirunnar, sem tekur feiknarlegan toll af þessum ríkjum.  Þetta eru ill tíðindi fyrir evruna, því að seðlabanki hennar í Frankfurt getur ekki einbeitt sér að björgun Suður-Evrópu, þar sem öll Evrópa er lömuð af völdum veirunnar.  Skyldi nokkurn vísindaskáldsöguhöfund hafa órað fyrir því, að efnahagstjónið yrði jafnmikið af völdum lungnabólguveiru og raunin verður af þessari, en það mun hlaupa á tugum trilljóna bandaríkjadala á heimsvísu áður en yfir lýkur ? 

"Þegar veiran hefur gengið yfir með öllum sínum eyðileggingarmætti, ekki sízt í efnahagslegu tilliti, þurfa ríkin hvert og eitt að ræsa efnahagskerfi sín að nýju.  Það verður nánast ómögulegt innan sameiginlegs myntsvæðis.  Ríkin í suðri þurfa veikara gengi en Frakkar og Þjóðverjar, og við þeim bráða vanda er aðeins ein lausn.  Hún liggur í augum uppi, en enginn vill verða fyrstur til að benda á. Draumurinn um evruna er úti."

 Höfundur þessa vefpistils er alveg sammála málatilbúnaði og höfuðályktun Stefáns E. Stefánssonar hér að ofan, nema honum er til efs, að Frakkar muni fylgja Norður-Evrópu, heldur fremur Suður-Evrópu. Evran er hugarfóstur Frakka til að afnema ráðandi stöðu þýzku myntarinnar, DEM, á fjármálamörkuðum Evrópu.  Þá átti frammistaða franska frankans meira skylt við líruna og pesóann en þýzka markið.  Frakkar urðu ítrekað að biðja Vestur-Þjóðverja um að hækka gengi þýzka marksins til að þurfa ekki að lækka gengi frankans.  Frakkar héldu, að þeir hefðu leyst gjaldmiðilsvanda sinn með evrunni, en misreiknuðu sig.  Þýzka hagkerfið, skilvirkni og framleiðnivöxtur Þjóðverja, hefur haft mest áhrif á gengi evrunnar og haldið því uppi, en nú verða mjög líklega þau kaflaskil, að evran mun veikjast út á við og inn á við.  Til þess þurfti aðeins örsmáan próteinklasa frá Kína, sem sezt að í frumum manna um allan heim og reynir á þanþol og mótstöðukraft ónæmiskerfis þeirra.    

 

 

 


Áhrif CoVid-19 hérlendis

Sóttvarnalæknir hefur beitt hefðbundinni áhættustjórnun hérlendis, sem miðar að lágmörkun heildartjóns, þ.e. heilsutjóns/fjörtjóns og efnahagstjóns.  Það á eftir að koma í ljós, hvernig til tekst, en árangurinn hingað til lofar góðu.  Ef mat tölfræðinga á vegum sóttvarnalæknis gengur eftir, verður CoVid-19 í hámarki um páskana 2020, og mun þá e.t.v. ganga yfir hérlendis á 3 mánuðum. Nú (23.03.2020) er fjöldi smitaðra tæplega 600, en sú tala getur hafa meira en fimmfaldazt um það leyti, sem fjölgun smita nær hámarki. 

Ef svo fer í lok maí, þegar vonazt má eftir, að pest þessi verði um garð gengin, að fjöldi smitaðra hafi ekki farið yfir 6000 manns (1,7 % mannfjöldans), hafa aðgerðir sóttvarnalæknis borið mikinn árangur, þegar fjöldi sýktra af Spænsku veikinni er hafður til samanburðar, en smitnæmi þessara tveggja pesta gæti verið svipað (hver sýktur smitar 2-3, ef ekkert er að gert). Þá gæti heilbrigðiskerfið líka hafa náð mjög góðum árangri við að lækna sjúka, og hlutfallslegur fjöldi látinna af sýktum orðið lægri en annars staðar þekkist.  Hins vegar er hlutfallslegur fjöldi sýktra meiri en annars staðar hefur sézt.

Aðgerðir sóttvarnalæknis hafa verið dýrar, en munu aftur á móti spara mikinn sjúkrahúskostnað og bjarga mannslífum áður en yfir lýkur. Varnarherfræðin hér er svipuð og þar sem bezt hefur til tekizt, þ.e. í Suður-Kóreu, enda er fjöldi skimana hér per milljón íbúa sá langhæsti í heiminum (28 k).    

Fjárhagstapið af völdum CoVid-19 er aðallega fólgið í töpuðum tekjum af erlendum ferðamönnum. Þær gætu numið mrdISK 200 á þessu ári, því að ferðamenn hugsa sér varla til hreyfings fyrr en veiran er hætt að grassera bæði hérlendis og í heimalandi þeirra.  Kostnaður af vinnutapi sýktra og sóttkvíaðra gæti numið mrdISK 10 og annar kostnaður af völdum pestarinnar mrdISK 30, svo að heildarkostnaður nemi mrdISK 240 eða 8 % af VLF. Kynntar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast nema mrdISK 230. Þetta er svakalegt högg, sem mun taka nokkur ár að vinna upp og hlýtur að koma niður á lífskjörum hér.  Það er yfirgengilegt óraunsæi, ef ekki raunveruleikafirring við þessar aðstæður, að stunda hér harða verkfallsbaráttu og beita verkfallsvopninu.  Þessi kröfuharka og stéttabarátta á engan veginn við á gildistíma Lífskjarasamninganna. Slíkt framferði er einsdæmi í veröldinni og getur engan veginn orðið verkalýð til hagsbóta. Fólk á ekki að láta pólitíska loddara teyma sig á asnaeyrunum við þessar aðstæður eða aðrar.  Hér ættu allir að sameinast um að lágmarka tjónið og síðan að hraða uppbyggingunni sem mest í kjölfarið, þótt örugglega verði að rifa seglin um sinn vegna mikilla efnahagsvandræða í viðskiptalöndum okkar.   

Við þessar fordæmalausu aðstæður hafa miklar sviptingar orðið á verðbréfamörkuðum og t.d. hlutabréf ferðaþjónustufyrirtækja hrunið, eins og gefur að skilja, þótt t.d. Icelandair hafi eitthvað rétt úr kútnum.  Þegar flug nánast stöðvast í heiminum vikum eða mánuðum saman, er líklegt, að slíkt muni hafa langvarandi áhrif á flugfélögin og þau týna tölunni.  Komið hefur fram sú hugmynd í Noregi að sameina norrænu félögin Finnair, Icelandair, Norwegian og SAS undir einu eignarhaldsfélagi, en nú eru British Airways og Iberia Airlines undir sama félagi og Air France og KLM undir öðru.  Lufthansa hefur keypt millilandaflugfélögin í Austurríki og Belgíu.  Icelandair yrði sem sagt áfram flugrekandi, en með öflugan fjárhagslegan bakhjarl, sem hugsanlega gæti létt ábyrgðum af ríkissjóði, ef til þeirra þarf að koma.  Eignir lífeyrissjóðanna íslenzku eru þarna og miklu víðar í uppnámi um þessar mundir. Ávöxtun þeirra verður ekki upp á marga fiska 2020.

Hagkerfin hafa lamazt eitt af öðru, og nú virðast Bandaríkin stefna í eitthvað, sem hægt er að líkja við ítalskt ástand.  Það er vegna andvaraleysis stjórnvalda þar, sem hæglega getur kostað Donald Trump embættið í hendur Joe Bidens, sem elliglöp hafa þó hrjáð í forvalsbaráttu demókrata.  Þótt andvaraleysið geti framkallað hjarðónæmi, veldur það miklum veikindum, öngþveiti á heilbrigðisstofnunum og hárri dánartíðni smitaðra. Nú berast fréttir af útgöngubanni í Kaliforníu og í fleiri fylkjum BNA a la Ítalía.  

ISK gaf eftir, þegar ósköpin dundu yfir, enda munar hvert ferðamannaland um það, að innstreymi erlendra ferðamanna stöðvist í 3 mánuði eða meira.  Þótt mikill erlendur gjaldeyrir tapist, um mrdISK 200, sparast erlendur gjaldeyrir líka vegna færri utanlandsferða landsmanna, minni fjárfestinga og minni neyzlu Íslendinga á þessum erfiðu tímum.  Ef þar við bætist, að lífeyrissjóðir flytji stóran hluta af fjárfestingum sínum í evrum "heim ins Reich", sem þeir ættu hiklaust að gera, og stöðvi erlendar fjárfestingar sínar, þá verður sennilega hægt að hindra það, að viðskiptajöfnuðurinn snarist á neikvæðu hliðina yfir allt árið 2020.  Þar með gæti gengi ISK gagnvart EUR jafnað sig (140 ISK/EUR), en gengi USD virðist munu stíga m.v. EUR. Það er venjan, að á óvissutímum leita spákaupmenn í bandaríkjadalinn. Umfjöllun um EUR á tímum CoVid-19 er efni í annan pistil. 

 


CoVid-19-örlagavaldur

Heimsbyggðin er nú undirlögð af veiru, og hagkerfi heimsins eru lömuð um ófyrirsjáanlegan tíma.  Heilsufarslegar afleiðingar, fjöldi ótímabærra dauðdaga, efnahagslegar, peningalegar og pólitískar afleiðingar, eiga eftir að koma í ljós, en hægt er nú þegar að fullyrða, að sumt af þessu verður ærið stórskorið.

Margir alvarlegir sjúkdómar herjuðu á mannkynið á 20. öldinni, og voru margir þeirra kallaðir barnasjúkdómar, sem gengu á Íslandi t.d. á 6. áratuginum, þegar höfundur þessa pistils var að slíta barnsskónum og tók þá flesta þessara sjúkdóma, sem bóluefni voru síðan þróuð fyrir. Nú er verið að þróa bóluefni gegn CoVid-19, en það fer í fyrsta lagi í almenna dreifingu 2021.

Skaðlegasta veirupestin á 20. öldinni var þó líklega Spænska veikin, sem lagðist á öndunarfærin svipað og CoVid-19 nú.  Í Spænsku veikinni smituðust 63 % íbúa í þéttbýli á Íslandi, og var dánarhlutfall þeirra 2,6 % eða um 500 manns hérlendis.  Dánarfjöldi hérlendis af völdum CoVid-19 verður fyrirsjáanlega aðeins brot af þessari tölu, innan við 10, ef fer fram sem horfir, svo er einfaldlega aðgerðum sóttvarnayfirvalda fyrir að þakka, hvað sem gagnrýni á þau líður.

Hver smitberi er talinn hafa smitað 2-3 í kringum sig í spænsku veikinni, sem er sama smitnæmi og fyrir CoVid-19, en meðgöngutíminn var samt aðeins 2 dagar þá, sem er mun skemmri meðgöngutími en nú.  Spænska veikin lagðist þungt á aðra aldurshópa en CoVid-19, þ.e. 20-40 ára í stað elztu aldurshópanna nú, en þá voru reyndar þjóðfélagsaðstæður allt aðrar en nú og miklu minna af háöldruðu fólki. Ein af ástæðum skelfilegs ástands og hárrar dánartíðni á Ítalíu af völdum CoVid-19 er talin vera hár meðalaldur á Ítalíu.  Hann mun vera sá næst hæsti í heimi á eftir Japan, en þar í landi voru gagnráðstafanir líklega mun skeleggari frá upphafi en á Ítalíu.  Hérlendis var frá upphafi tekin upp róttæk stefna til að vernda elztu borgarana.   

Þar sem heilbrigðiskerfi almennings er öflugt, er dánartíðnin lægri en hún var í Spænsku veikinni, en þar sem það er vanþróað eða hefur kiknað undan álaginu, þar verður dánartíðnin hærri af völdum CoVid-19. Öflug smitrakning og sóttkvíun hérlendis hefur berlega dregið úr dreifingunni, og þar með standa góðar líkur til, að álagið á íslenzka heilbrigðiskerfið muni verða innan marka afkastagetu þess, þ.m.t. gjörgæzlan. 

Í byrjun þessarar aldar kom upp stórhættulegur veirusjúkdómur í Vestur-Afríku, sem fékk nafnið ebóla. Það varð mannkyni til happs þá, að hún dreifðist ekki í lofti og náði aldrei til þéttbýlis. Með fórnfúsu heljarátaki heilbrigðisstarfsmanna víða að tókst að hemja þessa veiru og ráða niðurlögum hennar, a.m.k. um sinn. Hún olli innvortis blæðingum, og dánarhlutfall sýktra var yfir 60 %.   

Mannkynið er alltaf óviðbúið veirufaröldrum.  Því verður að breyta.  Á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, þurfa þjóðir heims að sameinast um "varnarlið" heilbrigðisstarfsmanna, sem hafa beztu rannsóknarstofnanir í veirufræðum sem bakhjarla og er reiðubúið að fara á staðinn, þar sem grunur leikur á um veirusmit af nýju tagi og aðstoða heimamenn við að ráða niðurlögum veirunnar sem fyrst. Hérlendis þarf að rýna hönnun nýs Landsspítala m.t.t. einangrunarrýma og stækkunar gjörgæzluaðstöðu.  Þetta mundi líka gagnast baráttunni við fjölónæma sýkla. 

Skilyrði þess, að takast megi að hefta útbreiðslu, er, að grípa strax til gagnráðstafana og hafa opið upplýsingaflæði í viðkomandi landi og um allan heim um þróun mála.  Það virðist algerlega hafa brugðizt í Kína, a.m.k. að þessu sinni, því að talið er, að vart hafi orðið við veiruna í Wuhan í nóvember 2019, og sorgleg er sagan af hálffertugum lækni þar, sem vildi hringja aðvörunarbjöllum í Kína út af áður óþekktum veirufaraldri þegar í desember 2019, en yfirvöld stungu hausnum í sandinn og lögðu áherzlu á að þagga málið niður.  Ungi læknirinn, sem reyndi eftir megni að hjálpa fjölmörgum sjúklingum á sjúkrahúsum í Wuhan í miklu veiruumhverfi, smitaðist sjálfur af CoVid-19 og lézt úr sjúkdóminum í lok janúar 2020, þótt hraustur væri fyrir. Annað eins og þetta má aldrei endurtaka sig, enda má hafa mjög þung orð um slíka framvindu.  Síðan hafa kínversk stjórnvöld reynt að bæta ráð sitt og staðið sig vel í að hefta útbreiðsluna í Kína, en veiran náði samt að dreifa sér út fyrir landamærin, m.a. til Alpanna tiltölulega fljótt, eins og alræmt er.

Það er rannsóknarefni út af fyrir sig, hvers vegna svo margar veirupestir, eins og dæmin sýna, eiga upptök sín í Kína, og er þá skemmst að minnast SARS-veikinnar 2003 af völdum minna smitandi kórónu-veiru en CoVid-19, svo að hún barst ekki á okkar slóðir. Bent hefur verið á matarmarkaðina í Kína, þar sem ægir saman alls kyns kvikindum, lifandi og dauðum, sem Kínverjar leggja sér til munns.  Í þessum kvikindum eru alls kyns veirur, og ein tilgátan er sú, kórónaveirurnar finni sér nýjan hýsil á þessum mörkuðum.  CoVid-19 stökk úr leðurblöku yfir í "homo sapiens" samkvæmt þessari kenningu, en hún veldur þessum nýja hýsli skaða, þótt sambýlið hafi ekki verið svo slæmt við gamla hýsilinn.  Aðferð til að draga úr þessum veiruuppsprettum er þá að auka þrifnað og sóttvarnir á þessum mörkuðum, og enn róttækara væri að hætta að éta þessi kvikindi, en það er nú kannski svipað gagnvart Kínverjum og að biðja Íslendinga um að hætta að éta hangiket. 

Wuhan er mikil háskólaborg, og þar er miðstöð veirurannsókna í Kína.  Önnur tilgáta um uppruna veirunnar er sú, að hún hafi verið þróuð í hernaðarskyni á rannsóknarstofu í Wuhan, en sloppið þaðan út.  Sérfræðingur í veirufræðum hefur látið að því liggja, að CoVid-19 hafi orðið til við að skeyta erfðaefni úr HIV-eyðniveirunni við SARS til að gera hana meira smitandi en kóróna-veirur eru alla jafnan, sbr SARS (Severe Acute Respiratory Syndrome).

Auðvitað vita Kínverjar hið sanna í þessu máli, en leyndarhyggja þeirra veldur tortryggni, sem verður síðan gróðrarstía gróusagna.  Þeir meinuðu WHO aðgang að landinu í upphafi, sem út af fyrir sig er grafalvarlegt mál í ljósi þeirra geigvænlegu afleiðinga, sem útbreiðsla veirunnar hefur um gervallan heim. Sams konar þöggunartilburða í Kína gætti gagnvart upptökum SARS-veirunnar.  Í kjölfarið sögðu yfirvöld, að slíkt myndi ekki endurtaka sig vegna styrkrar stjórnar átrúnaðargoðsins, sem nú fer með æðstu völdin í Kína, en hið sama varð samt uppi á teninginum í Wuhan í a.m.k. 2 mánuði, og á meðan lék veiran lausum hala, og fólk ferðaðist óheft til og frá hinu sýkta svæði og einnig til útlanda. Þar með varð fjandinn laus.

Þótt takist að stöðva dreifingu veirusýkinnar CoVid-19 alls staðar í heiminum í sumar, þá er engin trygging fyrir því, að hún gjósi ekki upp aftur næsta vetur, jafnvel stökkbreytt og þá enn erfiðari viðfangs.  Það er algerlega óbærilegt, að fólk þurfi að búast við því nokkrum sinnum á sama áratugi, að tilvera þess og jafnvel líf verði í fullkomnu uppnámi.  Slíkt ástand mun hafa mjög slæm áhrif á lífskjör almennings hvarvetna í heiminum.  Það eru gríðarlegir sameiginlegir hagsmunir í húfi, og árangur í þessari baráttu næst alls ekki með leynimakki og einleik hverrar ríkisstjórnar fyrir sig, eins og við höfum horft upp á undanfarna daga og vikur, heldur með samstilltu átaki, þar sem höfuðáherzla verður lögð samstundis og veiran uppgötvast á einangrun, sóttkví, að rekja slóðir sýktra og læknisfræðilega aðstoð við upprunalandið á fyrstu dögum, eftir að grunsemdir vakna. Tíminn skiptir öllu máli hér sem oftar. Að sólunda honum er dýrt spaug, kostar tugþúsundir mannslífa og efnahagskreppu.

 

 


Útskýri stefnu á ögurstundu

Kveikjan að þessum vefpistli er stutt frásögn Morgunblaðsins 5. marz 2020 af ályktun Bæjarráðs Akraness undir fyrirsögninni "Útskýri stefnu"  og ljómandi góð og tímabær grein Ásmundar Friðrikssonar, Alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu 7. marz 2020, sem bar hið sláandi heiti:

"Ögurstund í atvinnulífinu".

Víkjum fyrst að frásögn Morgunblaðsins undir áherzluatriðinu: 

"Skagamenn krefja Landsvirkjun svara":

"Útskýringar þarf frá Landsvirkjun á því, hver er stefna fyrirtækisins gagnvart orkusæknum iðnaði á Íslandi.  Þetta segir í ályktun bæjarráðs Akraness, sem vekur athygli á því, að Landsvirkjun hafi í krafti yfirburðastöðu í raforkusölu á stórnotendamarkaði knúið fram mjög miklar hækkanir á raforkuverði til orkusækins iðnaðar.  

Slíkt telja Akurnesingar geta leitt til verulegs samdráttar í starfsemi stórfyrirtækja á Grundartanga með tilheyrandi fækkun starfa. Með slíku sé einvörðungu hugsað um að hámarka arðsemi Landsvirkjunar, en ekki horft til heildarhagsmuna þjóðar." 

Hér er um eðlilega og löngu tímabæra ályktun bæjaryfirvalda Akranesskaupstaðar að ræða, en Elkem á Íslandi (Járnblendiverksmiðjan) glímir nú við afleiðingar raforkuverðshækkunar í kjölfar úrskurðar gerðardóms, sem fór bil beggja, en Landsvirkjun lýsti samstundis yfir óánægju sinni af því offorsi, sem nú einkennir afstöðu einokunarfyrirtækisins Landsvirkjunar til orkuverðs, með þeim afleiðingum, að hún tapar árlega nýjum viðskiptum og gamlir viðskiptavinir eru bókstarflega keyrðir í þrot. Þegar ferðamannageirinn hefur orðið fyrir rothöggi, eins og nú af völdum CoVid-19, ríður á sem aldrei fyrr að keyra allt annað í landinu á fullum afköstum.  Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun leggst þversum gegn því með kolvitlausri verðlagsstefnu sinni, sem er algerlega úr takti við þróun orkuverðs í heiminum.

Kannski er einmitt verst af öllu, að Landsvirkjun er ekki með á nótunum um þróun orkuverðs almennt til stórfyrirtækja í heiminum, en það hefur farið lækkandi frá 2011.  Ríkisstjórnir í ESB hafa greitt orkuverðið niður um 10,5 USD/MWh (9,5 EUR/MWh), og norska ríkisstjórnin um 6 USD/MWh.  Á sama tíma okrar ríkisorkufyrirtækið á iðnfyrirtækjum hérlendis, sem berjast í bökkum, og ríkisstjórnin hér, kaþólskari en páfinn að vanda, setur kíkinn fyrir blinda augað og þykist hvergi nærri mega koma (út af EES-samninginum og orkupökkum ESB). Hún bíður nú rétt einu sinni eftir skýrslu.  Núverandi ástand krefst skjótra ákvarðana og leiðtogahæfni.  Yfirvöld, ber að heybrókarhætti, þegar að sverfur, eru ekki á vetur setjandi.  

Viðkvæði forstjóra Landsvirkjunar þess efnis, að henni beri að hámarka ávöxtun náttúrulegra orkulinda þjóðarinnar (í anda orkupakkanna), verður ekki lengur tekið gott og gilt, af því að það á við samkeppnisumhverfi, en Landsvirkjun er hins vegar í einokunaraðstöðu, og þar verður þessi stefna stórskaðleg fyrir atvinnulífið.  Keppinautarnir hefðu einfaldlega hirt viðskiptavinina af Landsvirkjun við þessa hegðun hennar í samkeppnisumhverfi, sem þýðir, að þeir hefðu boðið verð, sem bæði þeir og viðskiptavinir þeirra gætu búið við.  Það þarf að vera sambærilegt verðinu, sem í boði er erlendis, að frádregnum öllum viðbótar kostnaðinum samfara staðsetningu viðskiptavinanna á Íslandi.  Þetta er núna, með flutningsgjaldi, talsvert undir 30 USD/MWh, og er samt vel yfir meðalkostnaði vatnsaflsvirkjana á Íslandi.  Í  gufuvirkjunum er hins vegar úr vöndu að ráða vegna niðurdráttar í virkjuðu gufuforðabúri, og þess vegna erfiðara að slá á meðalkostnað þeirra, en liklega er hann um eða undir 30 USD/MWh.

Í lok frásagnar Morgunblaðsins er þessi tilvitnun í téða ályktun bæjarráðsins:

""Stjórn Landsvirkjunar ber alla ábyrgð á stefnu fyrirtækisins og framgöngu forstjórans, og því kallar bæjarráð eftir því, að stjórnarmenn Landsvirkjunar, og þá sérstaklega stjórnarformaðurinn, Jónas Þór Guðmundsson, stígi fram úr skugga forstjórans og útskýri fyrir íslenzku þjóðinni, hvert stjórn Landsvirkjunar sæki umboð sitt til að ganga fram með þessum hætti", segir bæjarráð Akraness.  Kallar ráðið því eftir útskýringum t.d. á því, hvort ráðagerðir fyrirtækisins samræmist leiðarljósum fyrirhugaðrar orkustefnu um að hámarka samfélagslegan ávinning af nýtingu orku, styðji við atvinnustefnu og jákvæða byggðaþróun."

  Ekkert bólar á svari stjórnar Landsvirkjunar.  Er það með öllu ólíðandi framkoma hjá ríkisfyrirtækinu, ef í ljós kemur, að stjórn Landsvirkjunar ætlar að hundsa ósk Akranesskaupstaðar um útskýringar á því, sem gerzt hefur. Þetta er ekki heilbrigt ástand hjá Landsvirkjun. Eðlilegt væri, að stjórnin mundi skrifa bæjarráðinu svarbréf og bjóðast til að senda formanninn til fundar með bæjarráðinu.  Bréf og fundargerð ættu að vera opinber plögg í lýðræðisþjóðfélagi. Það er rétt hjá bæjarráðinu, að stjórn Landsvirkjunar skuldar þjóðinni skýringar á stefnumörkun sinni.

Sú staða, sem virðist vera að koma upp í samskiptum Landsvirkjunar við landsmenn, er svo alvarleg, að ráðherra iðnaðar verður að kippa strax í taumana, þannig að Landsvirkjun magni ekki upp vanda aukins atvinnuleysis og minnkandi gjaldeyrisöflunar þjóðfélagsins, heldur stuðli að því að koma þeim hjólum atvinnulífsins, sem ekki eru stopp vegna CoVid-19, á fullan snúning.

Ásmundur Friðriksson, Alþingismaður, kom víða við í sinni ágætu grein, sem minnzt var á í upphafi.  Það, sem hann skrifaði um raforkumálin og ráðstöfun orkunnar, kom fram í undirgreininni: 

"Virðisauki raforkunnar":

"Miklu púðri hefur verið eytt í skýjaborgir um sæstreng til Bretlands, verkefni, sem á sér engar efnahagslegar forsendur, nema brezka ríkisstjórnin leggi til stórfelldar niðurgreiðslur í marga áratugi.  Við verðum að átta okkur á því, að draumurinn um sæstreng er áratuga gamall og mun eflaust lifa lengi í huga draumóramanna."

Þetta er hárrétt athugað hjá þingmanninum, og sæstrengsverkefnið missir auðvitað æ meir fótanna með sífelldri raunlækkun orkuverðs síðan 2011.  Undir því er enginn viðskiptagrundvöllur með heildsöluverð rafmagns hjá Nord Pool undir jafngildi 100 USD/MWh (og er þá ekki tekið tillit til virðisaukans, sem rafmagnið myndar við nýtingu á Íslandi), og Nord Pool verðið er jafnvel aðeins 1/10 af þessu lágmarki um þessar mundir. 

Draumar voru bundnir við styrk til verkefnisins frá Evrópusambandinu, ESB, en líkur á slíku dofnuðu verulega við útgöngu Breta úr ESB, enda hefur "Ice-Link"-strengurinn verið tekinn út af forgangsverkefnaskrá ESB um innviðaverkefni innan EES. 

Þá er eftir, það sem Ásmundur nefnir, ríkisstuðningur Breta.  Hann er úr þessu næstum útilokaður, því að þeir hafa einskorðað ríkisstuðning við vindorkuver úti fyrir ströndum Bretlands. Það kom þess vegna eins og skrattinn úr sauðarleggnum, þegar iðnaðarráðherra gat þess um daginn, að hún vildi alls ekki útiloka þátttöku Íslands í enn einni fýsileikarannsókninni á aflsæstreng til útlanda.  Kannski er hún þá með annan lendingarstað í huga en Stóra-Bretland ?  Skattfé eða ráðstöfunarfé íslenzkra ríkisfyrirtækja er hins vegar betur varið í flest annað nú um stundir en sæstrengsdraumsýnina.  Það er ekkert vit í því fyrir stjórnmálamenn að ljá máls á peningum í svo vonlaust verkefni sem hér um ræðir.  Þeir ættu að láta einkaframtakið alfarið um slíkt. 

"Er staða ISAL kannski draumur þeirra, sem vilja [sjá] sæstreng rætast.  Að þar verði störfum og afkomu þúsunda fórnað fyrir rafstreng, sem tengir landið markaðsverði raforku í Evrópu og við flytjum út virðisauka endurnýjanlegrar raforku, sem þjóðin öll á ? Þeir, sem trúa blint á markaðshugsun og telja, að tenging við raforkumarkað Evrópusambandsins sé hin eina sanna lausn, eru að kalla yfir okkur fækkun starfa og stórkostlega hækkun á raforkuverði fyrir íslenzk heimili og atvinnulíf." 

Það er fagnaðarefni, að mætur þingmaður skuli hér velta fyrir sér opinberlega, hvort samhengi sé á milli núverandi orkuverðsvanda í Straumsvík og greinilegum áhuga á að selja raforku um sæstreng til útlanda.  Svo vill til, að þessi mál tengjast bæði einum manni, núverandi forstjóra Landsvirkjunar, sem gekk hart fram gegn RTA/ISAL 2010-2011 og hefur sýnt manna mestan áhuga á, að Evrópumarkaðirnir opnist fyrir Landsvirkjun.  Í ljósi viðbragða hans í febrúar 2020 við neyðarkalli RTA/ISAL 12.02.2020 berast böndin sterklega að forstjóra þessum.

Við þessar aðstæður verður þó að gefa gaum líka að ríkisstjórnarhliðinni, því að Landsvirkjun er alfarið í ríkiseign.  Á stóli iðnaðarráðherra situr nú manneskja, sem virðist "trúa blint á markaðshugsun".  Það kom berlega í ljós í umræðunni um Orkupakka 3 (OP#3), að hún taldi honum það mest til ávinnings, að hann mundi auka samkeppni á raforkumarkaði.  Hún hélt því þá fram, að orkukostnaður almennings hefði lækkað vegna aukinnar samkeppni frá innleiðingu OP#1 árið 2003, en það var hrakið í grein hagfræðiprófessors í skýrslu "Orkunnar okkar" í ágúst 2019.  Hún hefur jafnframt sem iðnaðarráðherra verið jákvæð í garð frekari rannsókna á fjárhagslegum og tæknilegum fýsileika slíks sæstrengs. 

Með sæstreng tengjumst við uppboðsmarkaði Nord Pool í Norð-Vestur Evrópu.  Öll fyrirtæki og heimili munu þá lenda í bullandi samkeppni við fyrirtæki og heimili í NV-Evrópu.  Óneitanlega er þetta raunveruleg samkeppni, því að við munum geta flutt inn raforku, einkum að næturlagi, þegar Landsvirkjun skrúfar verð sitt upp úr öllu valdi.  Er þetta virkilega draumsýn iðnaðarráðherra ?  Almenningur á Íslandi veit lengra en nef hans nær og hefur alltaf gert.  Hann sér í hendi sér, að atvinnulífið á Íslandi verður ein rjúkandi rúst, ef þetta gerist, og að sjálfsögðu mun fólkið fylgja á eftir orkunni, sem þannig er seld úr landi. 

Alþingi endurspeglar ekki nákvæmlega þetta viðhorf, en það er samt að líkindum núna meirihluti gegn sæstrengstrengingu, og ekki væri nú að ófyrirsynju að staðfesta það, iðnaðarráðherra og öðrum til glöggvunar, með því að henda í eina þingsályktunartillögu þess efnis. Hún væri þá innlegg í orkustefnu, sem er í smíðum á vegum iðnaðarráðuneytisins. 

"Í mínum huga er samfélagið, heimili og atvinnulíf, þjóðarsjóðurinn, sem bezt nýtir hagnað ódýrrar raforku.  Ég mun berjast til síðasta manns fyrir því, að virðisauki raforkunnar verði til í landinu, svo [að] samfélagið njóti fjölbreyttra, vel launaðra starfa, sem raforkan mun skapa framtíðarkynslóðum þessa lands."

 "Svona eiga sýslumenn að vera."  Hér talar fulltrúi sannra sjálfstæðismanna, íhaldsmanna, sem vilja halda í upprunalega stefnu flokksins í þessum efnum, allt frá fyrsta formanni flokksins, Jóni Þorlákssyni, landsverkfræðingi, til Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins.  Sú stefna, sem dr Bjarni Benediktsson og Jóhann Hafstein náðu að hrinda í framkvæmd í samstarfi við Alþýðuflokkinn á Viðreisnarárunum, hefur gefizt svo vel, að fullyrða má, að átvinnulíf, raforkukerfi og lífskjör í landinu væru ekki svipur hjá sjón, ef þessi barátta frumkvöðlanna hefði ekki borið árangur.  Atvinnuuppbygging verður að njóta forgangs umfram auðhyggju.  Þá mun landinu vel vegna til lengdar, þótt mótvindar séu óhjákvæmilegir á öllum löngum siglingum.     

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband