Einhæfni er skaðræði

Hrun ferðaþjónustu á heimsvísu í marz 2020, sem ekki sér fyrir endann á, beinir athyglinni sem aldrei fyrr að mikilvægi fjölbreytilegra gjaldeyristekjulinda landsins.  Þar er hins vegar hægara um að tala en í að komast, enda ber mest á hugmyndum og hugarfóstrum, sem óvíst er, að nokkurn tímann verði barn í brók.  Þess vegna heldur enn fullu gildi sínu sú 60 ára gamla hugmynd að láta orku fallvatnanna knýja orkusækinn iðnað á alþjóðlega samkeppnishæfu orkuverði og skapa þannig landsmönnum verk- og stjórnunarþekkingu, fjárfestingar með erlendu áhættufé og fjölbreytilega vinnu. Málmiðnaðurinn er að vísu um hríð búinn að vera í fjötrum offramleiðslu og niðurgreiðslna frá ríkisverksmiðjum, en hver veit, nema hagur strympu skáni, ef Kínverjar kæra sig ekki um að fara í gamla farið aftur.  

Þann 14. febrúar 2020 gerði Hörður Ægisson, viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins, stríð Landsvirkjunar og ISAL/Rio Tinto að umræðuefni og kallar forystugrein sína:

"Störukeppni" .

Hörður er oft nokkuð skarpskyggn á staðreyndir viðskiptalífsins, en í þessari forystugrein fatast honum víða flugið í ljósi raforkuverðs til ISAL, sem er ekki lengur í neinu samræmi við þróun orkuverðs í heiminum né það, sem kalla mætti samkeppnishæft raforkuverð til áliðnaðar.  "Störukeppnin" hófst þannig:

"Þung staða álversins í Straumsvík (ISAL) er ekki ný af nálinni.  Reksturinn hefur verið óarðbær um langt skeið - tap ISAL frá 2016 nemur yfir mrdISK 20 - og framleiðsla álversins var nýlega minnkuð um 15 % vegna taprekstrarins.  [Hún hefur síðan minnkað til muna vegna kera, sem komizt hafa að lokum endingar sinnar og ekki verið endurnýjuð. Ef lyktir nást í viðræðum um nýtt raforkuverð, má búast við aukinni framleiðslu aftur - innsk. BJo.] Endurnýjaður raforkusamningur við Landsvirkjun fyrir um áratug, þar sem orkuverðið var hækkað og tenging við álverð réttilega [svo ?] afnumin, hefur ekki hjálpað til, en aðrir þættir, einkum erfiðleikar á hrávörumörkuðum, skipta meira máli.  [Álverðstenging er hugsuð að gagnast báðum samningsaðilum, þar sem álverð hefur í sögulegu samhengi verið sveiflukennt.  Þetta afnám var eitt af því, sem veikti samkeppnisstöðu ISAL stórlega - innsk. BJo.] Aðföng hafa hækkað í verði, og á sama tíma hefur heimsmarkaðsverð á áli lækkað verulega.  Með stóraukinni álframleiðslu Kínverja, sem niðurgreidd er af þarlendum stjórnvöldum og stendur nú undir um 60 % af álframleiðslu heimsins, hefur rekstrarumhverfi vestrænna álfyrirtækja versnað til muna.  Útflutningur á áli frá Kína hefur farið vaxandi og haldið niðri álverði.  Ólíklegt er, að þessi staða taki breytingum í náinni framtíð, og álverð verður því áfram undir þrýstingi til lækkunar."

Þetta ritaði Hörður Ægisson um miðjan febrúar 2020 áður en menn á Vesturlöndum fóru almennt að íhuga áhrif COVID-19 heimsfaraldursins.  Verð á aðföngum hefur lækkað m.a. vegna helmingunar olíuverðs.  Evrópa mun leggja áherzlu á að verða ekki háð Kínverjum um ál, sem er "strategískur", þ.e. þjóðhagslega- og öryggislega mikilvægur málmur.  Líklegt má telja, að hömlur verði þess vegna settar á framboð, sem augljóslega ekki er á grundvelli frjálsrar samkeppni, og það er líka óvíst, að Kínverjar telji óbreytta ráðstöfun orkunnar heppilega, en vinnsla þessarar raforku hefur yfirleitt gríðarlega mengun lofts, láðs og lagar í för með sér auk myndunar gróðurhúsalofttegunda. 

 "Er hótun Rio Tinto [um lokun ISAL-innsk. BJo]  trúverðug ?  Fyrir liggur, að álverið er skuldbundið til að kaupa að lágmarki um 80 % raforkunnar af Landsvirkjun fram til 2036 óháð því, hvort álverið verði starfrækt.  Fullvíst má telja, að forsvarsmenn álversins hóti málaferlum, komi Landsvirkjun ekki til móts við kröfur álrisans um lægra orkuverð, þar sem látið verður reyna á ákvæði kaupskyldunnar, og hvort móðurfélagsábyrgð sé fyrir hendi.  Mikilvægt er að hafa í huga þá gríðarlegu hagsmuni, sem eru í húfi.  Verðmæti slíkra langtíma raforkusamninga Landsvirkjunar, sem er í eigu landsmanna, hleypur á mörg hundruð milljörðum [ISK].  Lækkun orkuverðs, jafnvel þótt tímabundin væri, myndi þýða, að Landsvirkjun yrði af umtalsverðum fjárhæðum."

Það er ljóst, að sá markaður, sem Landsvirkjun er á, raforkumarkaðurinn, hefur tekið mikla dýfu á heimsvísu undanfarið.  Framboðið er meira en eftirspurnin, og verðið hefur lækkað mikið á rafmagnsmörkuðum, t.d. Nord Pool, þar sem verðið hefur fallið um a.m.k. helming.  Auðvitað getur Landsvirkjun ekki hagað sér, eins og hún sé óháð þróun til lækkunar, en þurfi jafnan að draga dám af tilhneigingu til hækkunar í nágrannalöndunum.  Viðskiptavinir hennar keppa við fyrirtæki, sem njóta nú mikillar lækkunar orkuverðs.  Ef Landsvirkjun ætlar að halda viðskiptavinum sínum, verður hún að fylgja þróun heimsmarkaðar. 

Ef forráðamenn Landsvirkjunar ætla að skáka í skjóli móðurfélagsábyrgðar á kaupum 85 % forgangsorku, taka þeir gríðarlega áhættu.  Lögfræðingateymi Rio Tinto getur dregið fram margvísleg rök, jafnvel óviðráðanleg öfl heimsfaraldurs, sem valdi því, að félagið eigi rétt að alþjóðalögum á að losna undan skuldbindingum sínum gagnvart viðsemjanda, sem ekki virðist hafa gengið að samningaborði í áratug "í góðri trú". 

"Álverið í Straumsvík er ekki eins og hvert annað fyrirtæki á Íslandi.  Það er einn mikilvægasti og verðmætasti viðskiptavinur Landsvirkjunar - nærri fjórðungur af raforkusölu hennar er til álversins [nær þriðjungur teknanna við fulla framleiðslu-innsk. BJo] -  og verði starfsemi þess hætt hér á landi, yrði það mikið efnahagslegt áfall. Álverið stendur undir um mrdISK 60 í útflutningstekjum á ári, og um 500 manns starfa hjá fyrirtækinu. Vandinn, sem Landsvirkjun kann að standa frammi fyrir, nú þegar minni og stærri viðskiptavinir fullyrða, að orkuverðið sé ekki lengur samkeppnishæft, er, að það verði erfitt að finna aðra kaupendur að því magni af orku, sem gæti losnað á næstu árum - einkum nú, þegar áform um sæstreng til Bretlands virðast því miður [svo !] óraunhæfari en áður.  Það er eins gott, að stjórnendur Landsvirkjunar, sem hafa teflt djarft, séu reiðubúnir með plan B.  Ef ekki, er hætta á, að illa geti farið." 

 Þetta eru að mörgu leyti góðar vangaveltur hjá Herði, en varðandi sæstreng til Bretlands er nauðsynlegt að benda Herði og öðrum á, að hann hefur í raun aldrei verið annað en draumórar fjárplógsmanna og spákaupmanna.  Þeir hafa á seinni árum gælt við það, að Evrópusambandið myndi standa straum af lunga kostnaðarins. Eftir COVID-19 mun ESB varla setja þetta verkefni aftur á forgangsverkefnaskrá sína, þótt verkefnisbakhjarlar verði til að óska þess.  Hvað, sem fjármögnuninni líður, getur verkefnið líklega aldrei orðið þjóðhagslega hagkvæmt fyrir landsmenn, sem eiga megnið af orkunni.  Ástæðan eru mikil töp á leiðinni, og alltaf verður meiri verðmætasköpun við nýtingu orkunnar innanlands en hægt verður að fá fyrir beinan útflutning orkunnar. Hafi Landsvirkjun einhvern tímann haft Plan B í þessu máli, er það farið í vaskinn með COVID-19.

Þann 7. maí 2020 skrifaði Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, grein í Morgunblaðið, sem hún nefndi:

"Landsvirkjun sýnir stuðning í verki".

Hún hófst þannig:

"Viðskiptavinir Landsvirkjunar á stórnotendamarkaði munu njóta sérstakra kjara í 6 mánuði, frá 1. maí til 31. október 2020.  Öllum stórnotendum, sem greiða yfir kostnaðarverði Landsvirkjunar, býðst að lækka raforkuverð niður í kostnaðarverðið.  Þannig sýnir Landsvirkjun stuðning sinn í verki á þessum óvenjulegu tímum.  Samband fyrirtækisins við viðskiptavini þess er hornsteinn starfsemi Landsvirkjunar.

Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt, að raforka er stór hluti breytilegs framleiðslukostnaðar þeirra.  Raforkuverð er þannig einn af þeim þáttum, sem hafa áhrif á samkeppnishæfni viðskiptavina Landsvirkjunar, en þó ekki sá, sem hefur úrslitaáhrif á fjárhagslega afkomu þeirra.  Þar skiptir afurðaverðið, t.d. verð á áli og kísilmálmi, mestu máli.  Afurðaverð hefur farið lækkandi undanfarin misseri, m.a. vegna offramleiðslu og birgðasöfnunar. 

Raforkuverð á erlendum raforkumörkuðum hefur lækkað talsvert undanfarna mánuði vegna lækkandi verðs á jarðefnaeldsneyti og svo minnkandi eftirspurnar á þessu ári vegna COVID-19."

Hér kveður við annan tón en hjá forstjóra Landsvirkjunar, sem hefur komið svo illa fram við viðskiptavini fyrirtækisins, að þeir forðast hann.  Þeir hafa neyðzt til að sniðganga hann til að fá raunverulega áheyrn fyrir vandamál tengd því, sem hingað til má kalla óraunsæja og þrákelknislega verðlagsstefnu Landsvirkjunar.  

Stefanía Guðrún skrifar hins vegar af meiri fjálgleik um viðmótsþýðleika Landsvirkjunar gagnvart viðskiptavinum en innistæða virðist vera fyrir.  Út frá Ársskýrslu Landsvirkjunar er fljótlegt að finna, að rekstrarkostnaður fyrirtækisins er um MUSD 144 á ári og afborganir og vextir um MUSD 150 á ári.  Heildarkostnaður er þá 294 MUSD/ár.  Með sölu á 14,8 TWh/ár fæst þá meðalkostnaður fyrirtækisins um 20 USD/MWh (=2,9 ISK/kWh). 

Því fer fjarri, að Landsvirkjun hafi hingað til boðið viðskiptavinum þessi kjör.  Hvers vegna fer þetta öfluga ríkisfyrirtæki fram með villandi boðskap ?  Hefur örvænting gripið um sig í háhýsinu við Háaleitisbraut ?

"Öllum stórnotendum, sem greiða yfir kostnaðarverði Landsvirkjunar, mun bjóðast lækkun raforkuverðs niður í kostnaðarverð Landsvirkjunar, sem er á bilinu 28 USD/MWh til 35 USD/MWh eftir því til hvaða virkjana er horft.  Verð til stórnotenda, sem eru núna að borga yfir kostnaðarverði, lækkar því tímabundið um allt að 25 %."

Ekki batnar það.  Framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar vill tengja afsláttinn við virkjanir.  Elztu virkjanir Landsvirkjunar eru allar afskrifaðar, og þar er vinnslukostnaðurinn undir 10 USD/MWh.  Ef t.d. er miðað við elztu verksmiðjuna, ISAL í Straumsvík, þá eru allar virkjanir, sem í samningum hafa verið tengdar henni, afskrifaðar, nema Búðarhálsvirkjun, sem vegur innan við 10 % af heildarþörf verksmiðjunnar.  Þannig má finna út, að meðalkostnaður raforkuvinnslu fyrir ISAL sé um 11 USD/MWh, en raunverð til verksmiðjunnar (án flutningsgjalds) er a.m.k. þrefalt.  Það er mjög mikið, sem fer á milli mála, í málflutningi talsmanna Landsvirkjunar. 

"Markmið aðgerðanna er að verja samkeppnishæfni viðskiptavina Landsvirkjunar og styðja við markaðsstarf þeirra við krefjandi ytri aðstæður.  Horft er til þess, að með aðgerðunum sé verið að hvetja núverandi viðskiptavini á stórnotendamarkaði til þess að styrkja eða auka við starfsemi sína á Íslandi, enda fara langtímahagsmunir Landsvirkjunar og viðskiptavina saman.  Gert er ráð fyrir, að tekjur Landsvirkjunar muni lækka um allt að MUSD 10 vegna þessarar tímabundnu aðgerðar, eða um mrdISK 1,5."

Að orðskrúðinu slepptu er hér fáránleiki nokkur fram settur.  Það er út í hött, að fyrirtækin auki við starfsemi sína á Íslandi á grundvelli 6 mánaða lækkunar, sem er eins og upp í nös á ketti.  Að sýndarmennska Landsvirkjunar sé með eindæmum léttvæg, sést bezt á því, að heildarkostnaður lækkunarinnar fyrir Landsvirkjun er um 1/10 af tapi þess stóriðjufyrirtækis landsins 2019, sem bjó við langhæsta raforkuverðið af hálfu Landsvirkjunar.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ef orkuverð á heimsvísu fer lækkandi verður erfiðara að keppa um hylli orkufreks iðnaðar, því kostnaður við orkuöflunina hérlendis lækkar ekki.

Til framtíðar er besta leiðin til að tryggja lífskjör í landinu markviss uppbygging sérhæfðs iðnaðar sem skilar háum virðisauka, ekki útsala á náttúruauðlindum í samkeppni við Kína. Í sjávarútveginum hefur þetta tekist að talsverðu leyti. Sjávarútvegurinn hefur auk þess drifið áfram nýsköpun í iðnaði. Þar eru Marel og Skaginn 3X framarlega í flokki, en langt í frá einu fyrirtækin.

Þorsteinn Siglaugsson, 31.5.2020 kl. 12:16

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Samtök iðnaðarins:

"Mikilvægi hátækniiðnaðar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar speglast í því að fimmtungur allra nýrra starfa sem urðu til í landinu á árunum 1990 til 2004 sköpuðust vegna hátækni.

Á sama tíma fjölgaði aðeins um 500 störf í stóriðju og fækkaði um fjögur þúsund í sjávarútvegi.

Í lok tímabilsins störfuðu 5% vinnuaflsins, 6.500 manns, við hátækni, 900 við stóriðju (0,7%) og ríflega 10 þúsund í sjávarútvegi.

Í hátækni eru 40% starfsfólksins með háskólamenntun og um 60% með háskóla- og iðnmenntun.

Ef borinn er saman virðisauki Íslendinga af stóriðju og hátækni sést að virðisauki framleiðslunnar í hátækni er rúmlega þrefalt meiri en í stóriðju.

Þetta skýrist af því að hátæknigeirinn er vinnuaflsfrekur og í innlendri eigu,
einungis þriðjungur virðisaukans í stóriðju verður eftir í landinu en um 70% flytjast úr landi."

Á fjórða ársfjórðungi 2014 voru 185.700 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaðnum hér á Íslandi, samkvæmt Hagstofu Íslands.

Hjá Norðuráli á Grundartanga unnu um 500 manns í árslok 2009, þar af um 400 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.

Þorsteinn Briem, 31.5.2020 kl. 13:15

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Útflutningur á vörum og þjónustu héðan frá Íslandi árið 2009:

1. sæti: Þjónusta 287 milljarðar króna (þar af samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta 197 milljarðar króna),

2. sæti: Iðnaðarvörur
244 milljarðar króna (þar af ál 171 milljarður króna og kísiljárn 17 milljarðar króna),

3. sæti: Sjávarafurðir
209 milljarðar króna,

4. sæti: Landbúnaðarvörur
8 milljarðar króna.

Útflutningsverðmæti samgangna, flutninga og ferðaþjónustu var því níu milljörðum króna meira árið 2009 en útflutningsverðmæti áls og kísiljárns.

Álverin greiða einungis brot af þeim sköttum sem fyrirtæki greiða hér á Íslandi og meðallaun í álverum hér eru lægri en í ferðaþjónustunni.

Mikil meirihluti skatta fyrirtækja og einstaklinga kemur frá höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal þjónustufyrirtækjum og þeim sem þar starfa, enda er þar mikill meirihluti fyrirtækja og einstaklinga.

Til að reisa hér virkjanir tekur Landsvirkjun lán erlendis, þannig að tugmilljarða króna vextir af þeim fara árlega til lánastofnana erlendis sem erlendur gjaldeyrir.

Þar að auki þurfa álfyrirtækin hér, sem eru í eigu erlendra fyrirtækja, að kaupa gríðarlegt magn af súráli í erlendum gjaldeyri til sinnar framleiðslu.

Stóriðjan þarf gríðarmikla raforku og stóriðjufyrirtæki verða einungis á örfáum stöðum á landinu.

Ferðaþjónusta er hins vegar í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.

Þar að auki eru langflest fyrirtæki í ferðaþjónustunni hér á Íslandi einkafyrirtæki, sem Sjálfstæðisflokkurinn talar sífellt um af mikilli lítilsvirðingu, eins og mörg önnur einkafyrirtæki hér, til að mynda alls kyns þjónustufyrirtæki.

Þorsteinn Briem, 31.5.2020 kl. 13:22

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Raforkuvinnsla hér á Íslandi árið 2008 var 16,467 GWh og hafði þá aukist frá árinu áður um 37,5%.

Og notkunin á íbúa jókst úr 38,5 MWh í 51,6 MWh.

Árið 2002 varð raforkunotkunin hér sú mesta í heiminum á mann en áður hafði hún verið mest í Noregi. cool

Með Fjarðaáli jókst raforkunotkun stóriðju verulega árið 2008 og hlutur hennar fór þá í 77% af heildarnotkuninni.

Stórfelld atvinnuuppbygging hér á Íslandi í öllum bæjum og sveitum undanfarin ár hefur fyrst og fremst verið vegna ferðaþjónustunnar.

Fjölmargir mörlenskir hægrimenn hafa hins vegar fundið íslenskri ferðaþjónustu allt til foráttu, eins og mýmörg dæmi sanna hér á Moggablogginu allt frá árinu 2007. cool

18.10.2013:

"Útflutningur vöru og þó einkum þjónustu hefur dregið vagninn frá hruni.

Mestu munar þar um hlut ferðaþjónustunnar
, sem hefur vaxið langt umfram væntingar og hvert metið verið slegið á fætur öðru í komu erlendra ferðamanna.

Álverð hefur
hins vegar lækkað skarpt frá því vorið 2011.

Verðið á tonni af áli var 1.820 dollarar í ágúst síðastliðnum en 2.600 dollarar í apríl 2011 [sem er verðlækkun um 30%]."

Rekstrartekjur Landsvirkjunar voru 6,5% minni árið 2012 en 2011, "sem að hluta má rekja til lækkandi álverðs," segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Landsvirkjun tapaði 4,4 milljörðum króna árið 2013 vegna lækkandi álverðs

Nettóskuldir Landsvirkjunar
voru 1. janúar 2013 309,4 milljarðar króna, samkvæmt ársreikningi Landsvirkjunar fyrir árið 2012, andvirði tveggja Kárahnjúkavirkjana.

16.12.2013:

"Landsvirkjun getur ekki annast orkuöflun fyrir álver í Helguvík nema að litlu leyti, að sögn forstjórans.

Álverð þyrfti að hækka um 30 til 40 prósent
til að hægt yrði að ljúka samningum."

Landsvirkjun getur ekki aflað orku fyrir álver í Helguvík


26.2.2014:


"Fram til ársins 2018 eru afborganir Landsvirkjunar á erlendum lánum áætlaðar um 128 milljarðar króna [andvirði Kárahnjúkavirkjunar].

Langstærstur hluti af handbæru fé fyrirtækisins frá rekstri mun því líkt og síðustu ár fara í að standa skil á afborgunum erlendra skulda."

Áhersla lögð á að lækka miklar erlendar skuldir Landsvirkjunar næstu árin


10.4.2013:

"Á aðal­fundi Lands­virkj­un­ar í dag var samþykkt til­laga stjórn­ar fyr­ir­tæk­is­ins um arðgreiðslu til eig­enda, þ.e. rík­is­sjóðs, að fjár­hæð 1,5 millj­arðar króna fyr­ir árið 2012.

Lands­virkj­un greiddi 1,8 millj­arða króna í arð í rík­is­sjóð í fyrra en fyr­ir­tækið greiddi eng­an arð fjög­ur ár þar á und­an."

7.8.2015:

"Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, sendi starfsmönnum bréf í dag þar sem hún útskýrir afstöðu fyrirtækisins."

"Rannveig segir í bréfinu að fyrirtækið hafi tapað samtals sjö milljörðum króna árin 2012 og 2013 og hagnaður fyrirtækisins hafi aðeins verið 0,3% arðsemi eigin fjár."

Þorsteinn Briem, 31.5.2020 kl. 14:01

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland er 227. þéttbýlasta land í heimi, næst á eftir Ástralíu, með um þrjá íbúa á hvern ferkílómetra og nóg pláss fyrir erlenda ferðamenn í báðum löndunum, enda þótt Miðflokkurinn sé að sjálfsögðu skíthræddur við útlendinga.

Hér á Íslandi voru að meðaltali um 22 erlendir ferðamenn á hvern ferkílómetra árið 2017 en í Færeyjum um 114. cool

Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar rúmlega fimm hundruð milljarðar króna árið 2017 - Um þrefalt meira en útflutningsverðmæti sjávarafurða

"Störf í ferðaþjónustu og tengdum greinum eins og veitingarekstri eru yfir 22% allra starfa á Íslandi.

Sé tekið mið af meðaltali undanfarinna sjö ára gegna konur 54% þessara starfa en karlar 46%."

Ferðaþjónusturit Landsbankans - Mars 2015

Um 139 milljarða króna afgangur af þjónustuútflutningi en 11 milljarða króna halli á vöruskiptum árið 2014

27.9.2015:

"Ef ferðaþjónustan hefði ekki komið til væri hagsveiflan sennilega á enda, þar sem vöruskiptajöfnuður er orðinn neikvæður á nýjan leik.

Ferðaþjónustan hefur gegnt algjöru lykilhlutverki í að byggja upp gjaldeyrisforða Seðlabankans." cool

Ásgeir Jónsson hagfræðingur (nú seðlabankastjóri) útskýrir það sem er að gerast í íslenska hagkerfinu

Auknar fjárveitingar ríkisins til Landspítalans, háskólanna og vegagerðar koma frá ferðaþjónustunni.

27.11.2014:

Hagvöxturinn byggist á vexti ferðaþjónustunnar

Þorsteinn Briem, 31.5.2020 kl. 14:12

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Þorsteinn;

Út af fyrir sig er það rétt, að erfiðara verður að keppa um hylli stórnotenda raforku í umhverfi lágs orkuverðs, en þá má ekki gleyma því, að slíkir stórnotendur geta ekki valið úr mörgum stöðum, þar sem saman fer þróað iðnaðarþjóðfélag, stöðug raforkuafhending og alfarið endurnýjanlegar og kolefnisfríar orkulindir.  Fyrirmynd að því, sem þú boðar, er að mörgu leyti þýzka "Mittelstand", sem er fræg fyrir mikla tæknigetu, sem hún í yfir 150 ár hefur beitt til að leysa viðfangsefni, sem aðallega stærri fyrirtæki hafa fært henni, t.d. að smíða verkfæri og vélar, nú á dögum oft þjarka, sem aukið hafa samkeppnishæfni þeirra, sem notið hafa þjónustunnar.  Grundvöllur þessara tæknifyrirtækja er næstum alltaf öflug eftirspurn innanlands, og þannig hefur það verið einnig hérlendis, einkum frá sjávarútvegi, landbúnaði og stóriðju.  Mér er ekki kunnugt um, að ferðaþjónustan hafi þurft á þessari þjónustu að halda, enda er framleiðni þar eðli máls samkvæmt lægri og launin fylgja auðvitað framleiðninni til lengri tíma litið.  Ég kannast sjálfur við, hversu auðgandi gott tæknisamstarf stórfyrirtækis við frumkvöðlafyrirtæki getur verið.   

Bjarni Jónsson, 31.5.2020 kl. 21:52

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ferðaþjónustan hefur í það minnsta hingað til ekki drifið nýsköpun í tæknigreinum, nema þá einna helst í hugbúnaði að einhverju leyti. Hún er mannaflsfrek og fá störf innan hennar sem hægt er að sjálfvirknivæða. Grundvöllur tæknifyrirtækjanna hefur yfirleitt verið eftirspurn innanlands í byrjun. En eins og við höfum séð til dæmis hjá Marel, getur sú nýsköpun oft orðið grundvöllur að alþjóðlegri sókn.

Þorsteinn Siglaugsson, 1.6.2020 kl. 14:52

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það má ekki gleyma því, að Icelandair má kalla öðrum þræði hátæknifyrirtæki með allt sitt háþróaða flugvélaviðhald, og svo flugherminn í Hafnarfirði, sem er tækniundur.  Engin grein, nú á dögum, kemst af án hátækni.  Það hefur myndazt frjótt samstarf á milli grundvallaratvinnuveganna og fjölskyldufyrirtækja og meðalstórra fyrirtækja á sviði tækniþróunar.  Þetta samstarf gefur vel af sér í allar áttir, einnig inn í skólakerfið.  Mynztrið er vel þekkt víðast hvar í Evrópu. 

Bjarni Jónsson, 1.6.2020 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband