Var iðnaðarráðherra gert rúmrusk ?

Tímamót hafa orðið í deilum Rio Tinto/ISAL og Landsvirkjunar um skilmála raforkuviðskipta fyrirtækjanna.  Ráða má af yfirlýsingu hinna fyrrnefndu, að eigendur ISAL hafi gefizt upp á samskiptunum og samningaumleitunum við Landsvirkjun.  Þessi staða er grafalvarleg fyrir framtíð ISAL, sem með skynsamlegum sveigjanleika af hálfu Landsvirkjunar hefði annars getað starfað út gildistíma raforkusamningsins, þ.e. í 16 ár enn.  Landsvirkjun virðist skáka í því skjólinu, að hún þurfi lítinn sem engan gaum að gefa yfirlýsingu Rio Tinto um, að stöðva verði stórfelldan taprekstur í Straumsvík með því að lækka kostnað ISAL, af því að hún geti gengið að greiðslum 85 % forgangsorkunnar sem vísum. Sá leikur Rio Tinto í þessari stöðu að kæra Landsvirkjun fyrir Samkeppniseftirlitinu er aðeins upphafið að stórfelldu lögfræðiþrefi á milli fyrirtækjanna.  Kæra til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, liggur í loftinu, ef þörf verður á, og allt er þetta til að undirbyggja hina lagalegu stöðu fyrir þeirri afstöðu, að Landsvirkjun hafi í raun með hegðun stjórnendanna fyrirgert rétti sínum til téðra 85 % greiðslna, neyðist eigendurnir til að loka dótturfyrirtæki sínu í Straumsvík.  

Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir birti þann 23. júlí 2020 frétt undir fyrirsögninni:

"Kæra Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins".

Hún hófst þannig:

"Rio Tinto kærði í gær Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins vegna "misnotkunar Landsvirkjunar á yfirburðastöðu fyrirtækisins gagnvart ISAL. Álframleiðandinn segir Landsvirkjun hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína á raforkumarkaði.  Í yfirlýsingu frá Rio Tinto segir, að láti Landsvirkjun "ekki af skaðlegri háttsemi sinni", hafi Rio Tinto ekki annan kost en að íhuga að segja upp orkusamningi sínum og virkja áætlun um lokun. Um 500 manns starfa hjá fyrirtækinu.  Rio Tinto óskar eftir því, að Samkeppniseftirlitið skoði "samkeppnishamlandi háttsemi Landsvirkjunar með mismunandi verðlagningu og langtímaorkusamningum, svo að álver ISAL og önnur íslenzk framleiðsla og fyrirtæki geti keppt á alþjóðavettvangi." 

Alf Barrios, forstjóri Rio Tinto á heimsvísu, segir í tilkynningunni, að ISAL "greiði umtalsvert meira fyrir orku sína en aðrir álframleiðendur á Íslandi, sem grefur undan samkeppnisstöðu fyrirtækisins."  Þá segir Barrios, að ISAL geti ekki haldið álframleiðslu sinni á Íslandi áfram, sé verðlagning orkunnar ekki "gagnsæ, sanngjörn og alþjóðlega samkeppnishæf". 

 Það hlaut að koma að því, að alvarlegar brotalamir á íslenzkum raforkumarkaði yrðu leiddar fram í dagsljósið, og það gerðist á vettvangi Samkeppniseftirlitsins.  Sú staða, sem nú er uppi, að í hópi raforkubirgjanna sé einn aðili með yfirburðastöðu, sem fylgir miskunnarlaust fram því stefnumiði orkupakka Evrópusambandsins, ESB, að orkufyrirtækin eigi einvörðunga að hugsa um eigin hag, reyna að hámarka eigin arð, gengur ekki upp, því að forsenda þess, að orkupakkar ESB geti gengið upp, er frjáls samkeppni, þar sem viðskiptavinir orkufyrirtækjanna hafa frjálst val.  Hér hafa stórnotendur raforku ekkert val.  Ekki verður annað séð en Alf Barrios hafi mikið til síns máls, þannig að úrskurður Samkeppniseftirlitsins gæti orðið örlagavaldur í sögu orkufyrirtækja og stóriðju á Íslandi. Verst, að sú stofnun þykir svifasein. Landsvirkjun í sinni núverandi mynd fær ekki staðizt, nema hún taki upp gjörbreytta verðlagsstefnu, hverfi aftur til fyrri stefnu um að halda raforkuverðinu í landinu í lágmarki til hagsbóta fyrir heimilin og fyrirtækin, en arður orkuveranna verði "tekinn út í hinum endanum", eins og F.D. Roosevelt, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sagði um "New Deal" stefnu sína, þ.e. á notendahliðinni, sem ríkið, eigandi kjölfestufyrirtækja orkugeirans, skattleggur þá með sínum hætti. 

Það, sem við horfum á núna, gæti verið upphafið að skipbroti stefnu Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, sem undir núverandi orkulöggjöf með lögsögu ESA og EFTA-dómstólsins í ágreiningi um samkeppnismál, getur leitt til sundrunar Landsvirkjunar.  Þessi sviðsmynd er grafalvarleg fyrir hagsmuni íslenzka ríkisins og eigandans, þjóðarinnar.  Tveir ráðherrar hafa tjáð sig um málið, og er tjáningin í öðru tilvikinu viturleg, en í hinu tilvikinu óviturleg.  Hér eiga í hlut formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, enda spratt Landsvirkjun á 7. áratug 20. aldar út frá hugmyndafræði forystumanna Sjálfstæðisflokksins, framar öðrum dr Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, sem var einn mesti framfaramaður þeirrar aldar á Íslandi. 

Með ofangreindri frétt birtist í Morgunblaðinu stutt viðtal við fjármála- og efnahagsráðherra undir fyrirsögninni:

"Framhaldið verði að koma í ljós".

Þetta er nokkuð véfréttarlegt, en framhaldið var gott:

"Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segist ekki gera athugasemdir við kæru Rio Tinto til Landsvirkjunar [þ.e. Samkeppniseftirlitsins-innsk. BJo].  "Við búum í landi, þar sem menn geta látið reyna á rétt sinn; það er lítið við því að segja, þegar menn gera það", sagði Bjarni í samtali við mbl.is í gær.  Rio Tinto kærði í gær Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins, en í tilkynningu frá álframleiðandanum segir, að Landsvirkjun hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á raforkumarkaði, og láti Landsvirkjun ekki af "skaðlegri háttsemi sinni", hafi fyrirtækið ekki annan kost en að íhuga að segja upp orkusamningi sínum og virkja áætlun um lokun [verksmiðjunnar].  

Bjarni segir, að koma verði í ljós, hvernig málum vindur áfram.  Bendir hann á, að fjölda álvera í Evrópu hafi verið lokað á undanförnum árum og að á sama tíma hafi ekkert nýtt álver verið reist í álfunni.  "Kína hefur tekið til sín æ stærri hluta heimsframleiðslunnar, sem brýzt út í því, að fyrirtæki, sem eru í rekstrarvanda út af breyttri heimsmynd, láta reyna á sína stöðu", segir Bjarni.  Þá segist hann telja, að ákveðinn tvískinnungur ríki í alþjóðapólitík. Hann segir það tímabært "að fara fram á það, t.d. í Evrópusamvinnu, að staðinn verði vörður um iðnaðarvöru innan Evrópska efnahagssvæðisins, sem augljóslega fer fram með mun umhverfisvænni hætti en sú framleiðsla, sem er seld inn á svæðið."  

Þetta er hárrétt athugað hjá Bjarna Benediktssyni, og gefa orð hans vonir um, að hann muni beita sér fyrir gerð raforkusamnings, sem gerir áframhaldandi framleiðslu í Straumsvík fjárhagslega lífvænlega. 

Af allt öðrum meiði var sunnudagsgrein iðnaðarráðherra, Þórdísar K.R. Gylfadóttur, í Morgunblaðinu 26.07.2020, en hún einkenndist af málefnafátækt og þunglyndislegu nöldri þess, sem gert hefur verið rúmrusk.  Afstaða þessa ráðherra er að hafa sem minnst afskipti af þjóðmálum, þótt þau heyri undir hana.  Ekki er vitað til, að hún hafi beitt sér neitt til sátta á milli ISAL og Landsvirkjunar.  Róbóti í ráðherraembættinu mundi ekki gera minna gagn. Grein sína nefndi ráðherrann:

"Staða Rio Tinto og ISAL":

Hún hófst þannig:

 "Rio Tinto tilkynnti í vikunni, að fyrirtækið hefði kvartað til Samkeppniseftirlitsins vegna þess, sem það telur vera misnotkun á markaðsráðandi stöðu af hálfu Landsvirkjunar.  Jafnframt segir Rio Tinto, að láti Landsvirkjun ekki af þeirri háttsemi, verði fyrirtækið að íhuga að segja upp orkusamningnum við Landsvirkjun. Með því er gefið í skyn, að álveri fyrirtækisins, ISAL, kunni að verða lokað eftir rúmlega 50 ára starfsemi hér á landi. 

Samkeppniseftirlitið mun fara yfir sjónarmið Rio Tinto, hvað varðar samkeppnislöggjöfina.  Yfirlýsing Rio Tinto um mögulega uppsögn orkusamningsins er hins vegar ekki síður alvarleg.  Yfirlýsingin framkallar að sjálfsögðu óvissu um lífsviðurværi hundraða starfsmanna ISAL og einnig starfsmanna þeirra  mörgu fyrirtækja, sem byggja afkomu sína að verulegu leyti á viðskiptum og þjónustu við álverið.  Hún kallar líka á vangaveltur um áhrifin á Landsvirkjun, sem er í eigu þjóðarinnar í gegnum ríkið, og á Hafnarfjörð og íslenzkt efnahagslíf almennt."

Hér tekur iðnaðarráðherra rangan pól í hæðina, eins og fyrri daginn.  Hún ruglar saman orsök og afleiðingu.  Orsök þess, hvernig komið er, eru gjörbreyttar aðstæður á álmörkuðum og orkumörkuðum, en Landsvirkjun hefur samt þverskallazt við að aðlaga sig breyttri stöðu og hlaupa undir bagga í Straumsvík og gefa starfseminni þar líf. Það er rangt, sem talsmenn Landsvirkjunar halda fram, að verð raforkunnar hafi verið lækkað til ISAL vegna Kófsins. Þetta hefði ráðherrann átt að kynna sér. 

Það lítur út fyrir, að samúð ráðherrans sé öll með Landsvirkjun.  Hún virðist ekki vita eða ekki vilja vita, hversu dólgsleg framkoma manna þar á bæ gagnvart Rio Tinto / ISAL hefur verið.  Það örlar ekki á skilningi þessa ráðherra á því, sem raunverulega er að gerast og rakið er í inngangi þessa vefpistils.  Rio Tinto er að skapa sér lagalega stöðu til að komast undan kaupskyldu raforkunnar í því tilviki, að verulega verði dregin saman seglin eða starfseminni jafnvel hætt í Straumsvík.  

Þess í stað gerir þessi ráðherra tilraun til að þvo hendur sínar af atvinnumissi og efnahagstjóni, sem samdráttur eða stöðvun í Straumsvík leiðir til.  Ætlar hún að bjarga málunum með sæstreng til útlanda ?  Hún veit líklega ekki, að borga þyrfti með orkunni þangað.  Er ekki heil brú í þessum orkupakkaráðherra ?

"Sem fyrr segir varpar Rio Tinto með yfirlýsingu sinni skugga óvissu yfir atvinnu hundraða starfsmanna og mikilvægar framtíðarþekjur Landsvirkjunar, sem er í eigu allrar þjóðarinnar. Í mínum huga orkar tvímælis  að varpa slíkum skugga óvissu án þess að varpa á sama tíma ljósi á uppsagnarákvæði orkusamningsins.  Fyrirtækið kýs að gera mögulega uppsögn að umtalsefni.  Þá er eðlilegt að gera ráð fyrir, að fyrirtækið upplýsi, hvaða skilyrði gilda um slíka uppsögn." 

Af þessum texta er ljóst, að ráðherrann hefur vaknað upp með andfælum, þegar slitnaði upp úr samningaviðræðum Rio Tinto/ISAL við Landsvirkjun og hinir fyrrnefndu kærðu hina síðarnefndu til Samkeppniseftirlitsins.  Þórdísi Kolbrúnu er það mikið kappsmál að gera blóraböggul úr Rio Tinto/ISAL og sannar þar með, að hún glórir hvorki í þróun alþjóðlegs orkuverðs til stóriðju eða samkeppnishæfni álvera á alþjóðamörkuðum.  Hún er bundin í viðjar þess hugsunarháttar orkupakka ESB, að orkufyrirtækin eigi að kappkosta hámarksverð fyrir "vöruna" rafmagn, sama hvað tautar og raular.  Þórdís dæmir sig algerlega úr leik með þessum málflutningi.  Hún hefur ekki unnið heimavinnuna sína sem iðnaðarráðherra, sem er að greina eðli þeirrar stöðu, sem orku- og iðnaðarmál Íslands nú eru í. Hún skákar í því skjólinu, að ákvæðið um kaupskylduna í raforkusamninginum standi naglfast, sama hvernig samningsaðilar haga sér.  Hana skortir hugmyndaflug til að stilla upp nýjum sviðsmyndum, svo að Íslendingar geti lágmarkað tjónið af efnahagsástandi heimsins og komið í veg fyrir yfirvofandi altjón í Straumsvík.  Það altjón er ekki óumfjýjanlegt, þótt Rio Tinto hafi lagt niður mörg álver á undanförnum árum.  Rio Tinto hefur ekki mótað stefnu um að hverfa alfarið frá álframleiðslu í Evrópu, nema starfsskilyrðin þar verði óaðgengileg. 

"Ákvörðun Norsk Hydro um að kaupa ISAL fyrir um tveimur árum endurspeglar líka trú á starfsskilyrðunum á Íslandi, þó að kaupin hafi ekki gengið eftir af öðrum ástæðum."

Þetta er villandi texti hjá ráðherranum.  Innan stjórnar Norsk Hydro ríkti eftirsjá eftir að sleppa miklum iðnaðartækifærum á Austurlandi í byrjun þessarar aldar, og það varð meirihluti innan stjórnarinnar fyrir því að ná loks fótfestu á Íslandi.  Hins vegar voru þar miklar efasemdir um arðbærni ISAL með þáverandi og núverandi kostnaðarmynztri, og efasemdarmenn urðu ofan á, þegar framkvæmdastjóri samkeppnismála ESB lýsti yfir efasemdum um yfirburðastöðu Norsk Hydro á markaði álstanga í Evrópu eftir kaupin.  Það gengur ekki, að ráðherra vaði á súðum, eins og ráðherra iðnaðarmála á Íslandi gerir um þessar mundir. 

Í lokin skrifaði Þórdís K.R. Gylfadóttir:

 "Ástæða er til að ætla, að umhverfisvænar orkulindir Íslands verði áfram eftirsóttar.  Við viljum bjóða upp á samkeppnishæft umhverfi, en við gerum að sjálfsögðu líka kröfu um, að sala á orkuafurðum úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sé arðbær.  Við erum nýbúin að ganga í gegnum langvinna umræðu um þriðja orkupakkann, sem snerist að miklu leyti um nauðsyn þess að standa vörð um sameiginlegar orkuauðlindir okkar.  Af þeirri umræðu hlýtur að leiða, að talað sé gegn því, að við seljum þær á útsölu." 

Þetta er fullkomin froða hjá ráðherranum, og orkupakkaumræðunni snúið á haus.  Hvaða ástæða er til að halda, að orkulindir Íslands séu eftirsóttar ?  Hafa orkuvinnslufyrirtækin gert nokkur ný stórviðskipti með rafmagn, síðan samningurinn við PCC á Bakka var gerður ?  Er ráðherrann að skírskota til áhuga Breta eða annarra á að tengja raforkukerfi Íslands risamarkaði, sem hefði fyrir aðeins einu ári stillt innlendri starfsemi upp við vegg í samkeppninni um rafmagnið, en myndi nú valda öllum viðriðnum aðilum stórtjóni, bæði sæstrengseigendum og virkjunaraðilum á Íslandi, sem lagt hefðu í fjárfestingar vegna slíks ævintýris. 

Hverjir eru "við", þegar ráðherrann skrifar, að við viljum bjóða upp á "samkeppnishæft umhverfi".  Það er a.m.k. ekki Landsvirkjun, því að forráðamenn hennar hafa barið hausnum við steininn og þverskallazt við að horfast í augu við blákaldar staðreyndir orkumarkaðarins. Hvað hefur þessi ráðherra gert til að koma í veg fyrir stórfellt þjóðhagslegt tjón í Straumsvík ?  Það er ekki vitað til, að hún hafi hreyft legg né lið, og það er henni til stórvanza sem stjórnmálamanni.  Ráðherra er reyndar settur á hliðarlínuna með orkupakkalöggjöf ESB, enda markaðinum ætlað að leysa málin.  Vandinn, sem iðnaðarráðherra hefur aldrei skilið, er sá, að hérlendis er enginn markaður í skilningi ESB og orkulöggjafar Sambandsins.   Þess vegna er nú komið sem komið er á vakt Þórdísar K.R. Gylfadóttur, að Landsvirkjun situr á sakabekk hjá Samkeppniseftirlitinu, sökuð um misbeitingu yfirburðastöðu, les einokunarstöðu, á markaði.  Þetta mál getur hæglega lent hjá ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem ekki er ólíklegt, að muni þá benda stjórnvöldum hérlendum á, að staða og hlutfallsleg stærð Landsvirkjunar samræmist engan veginn samkeppnislöggjöf Innri markaðar EES.  Iðnaðarráðherra er eins og álfur út úr hól í þessu stórmáli.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég hélt að Miðflokkurinn kallaði það landráð þegar mörlenskir menn agitera fyrir erlend fyrirtæki hér á Klakanum. cool

Þorsteinn Briem, 9.8.2020 kl. 22:24

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Starfsmennirnir í álverinu í Straumsvík, sem langflestir eru verkamenn með lág laun, verða einfaldlega að fara í betur borgaða vinnu í ferðaþjónustunni þegar kóvítinu lýkur á næsta ári, rétt eins og mörlenskir sauðfjárbændur fengu sér ærlega vinnu í ferðaþjónustunni í sveitum hér á Klakanum, því ekki lifa þeir á sviðakjömmunum einum saman. cool

Og nú vilja mörlenskir sauðfjárbændur greinilega ganga í Evrópusambandið. cool

6.8.2020 (síðastliðinn fimmtudag):

"Afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda er það lægsta í Evrópu og hefur lækkað talsvert að raungildi undanfarin ár.

Þetta sýna gögn sem Landssamtök sauðfjárbænda tóku saman. Þau byggja á skýrslu frá Evrópusambandinu þar sem fram kemur að rúmenskir bændur fá minnst allra innan sambandsins eða um 485 íslenskar krónur á kílóið. cool

Verð til íslenskra bænda haustið 2019 var með viðbótargreiðslum 468 krónur fyrir kílóið. cool

Árið 2013 var verðið tæpar sex hundruð krónur. Landssamtökin segja líka að verð á lambakjöti til neytenda hafi ekki fylgt almennri verðlagsþróun frá árinu 2014.

Að þeirra sögn hefur verðlag hækkað um 12,7% en lambakjötið aðeins um 2,7%. Verð á sauðfjárafurðum er frjálst á öllum sölustigum.

Hluti bænda af því nemur 37% en til samanburðar fá bændur í nágrannalöndunum að jafnaði 45-50% í sinn vasa."

Mörlenskir sauðfjárbændur líta til Evrópusambandsins

Þorsteinn Briem, 9.8.2020 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband