Færsluflokkur: Bloggar

Stjórnvöld og Stjórnarskráin

Arnaldur Hjartarson, aðjunkt við Lagadeild Háskóla Íslands, ritaði þann 2. júní 2018 grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Stjórnarskráin, EES-samningurinn og reglur um persónuvernd".

Tilefni greinarinnar er frumvarp ríkisstjórnarinnar um innleiðingu nýs umdeilds lagabálks ESB um persónuvernd. Þessi lagabálkur og krafa ESB gagnvart EFTA-ríkjunum um upptöku hans án tveggja stoða fyrirkomulags er enn ein staðfesting á stefnubreytingu ESB til hins verra fyrir EFTA, sem ekki dugar að láta sem ekkert sé.

Það er fengur að grein fræðimanns á sviði lögfræði um þetta viðkvæma mál. Of lítið bitastætt hefur verið í þeim efnum. Það er mikill samhljómur með þessari grein aðjunktsins og greinargerð norsku andófssamtakanna "Nei til EU", sem birtist hér á vefsíðunni 2. júní 2018 undir heitinu "Persónuvernd með fullveldisframsali", https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2217736 .

Það er ekki hægt að bera í bætifláka fyrir þetta frumvarp með þeirri viðbáru, að fullveldisframsalið, sem í því felst breyti litlu fyrir daglegt líf fólksins í landinu, sé "lite inngripende", eins og Norðmenn segja, sbr niðurlagsorð aðjunktsins:

"Þær reglur, sem felast í reglugerð ESB um persónuvernd, eru til þess fallnar að hafa víðtæk áhrif á íslenzkt samfélag.  Alþingi gefst nú tækifæri til að ræða hið nýja frumvarp.  Vonandi gefst nægur tími til að kanna, hvort gætt hafi verið fyllilega að ákvæðum stjórnarskrárinnar í samningaviðræðum ríkisins við viðsemjendur þess á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar."

Þetta er mjög varfærnislega orðað, þótt tilefnið sé ærið, því að í augum leikmanna blasa við gróf stjórnarskrárbrot, ef af þessari innleiðingu verður.  Þar að auki er téðum samningaviðræðum ekki lokið, því að Sameiginlega EES-nefndin hefur enn ekki lokið umfjöllun þessa máls.  Þar af leiðandi hefur ríkisstjórnin farið fram úr sér með framlagningu þessa frumvarps.  ESB á líka eftir að samþykkja aðlaganir gagnvart EFTA.  Frumvarp þetta er vanbúið og ótækt inn í lagasafn Íslands.  Alþingi ber þess vegna að vísa því aftur til ríkisstjórnarinnar eða hreinlega að fella það.  

Aðjunktinn sýnir fram á, að í frumvarpinu felst bæði framsal framkvæmdavalds og dómsvalds til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland á enga aðild.  Hvorki ríkisstjórn né Alþingi hafa umboð til slíks gjörnings:  

"Þessari stofnun ESB [EDPB-Persónuverndarráðinu-innsk. BJo] verður í einhverjum tilvikum heimilað að gefa Persónuvernd bindandi fyrirmæli.  Í þessu felst fyrirætlun um framsal framkvæmdavalds.  

Ákvarðanir stofnunar ESB virðist einungis mega bera undir Evrópudómstólinn, en íslenzka ríkið á ekki aðild að þeim dómstóli.  Þá mun ætlunin með reglugerð ESB jafnframt vera sú að binda hendur íslenzkra dómstóla, þegar kemur að mati á lögmæti þeirra ákvarðana Persónuverndar, sem tengjast ákvörðunum stofnunar ESB, sbr 143. mgr. formálsorða reglugerðarinnar.  Ef þetta er rétt, þá felst í þessu fyrirætlun um framsal dómsvalds."

Það er glapræði að grafa undan réttarríkinu með því að halda áfram á þessari braut spægipylsuðferðar við sniðgöngu íslenzku Stjórnarskrárinnar.  Stjórnvöld verða að leita sér fullnægjandi umboðs áður en lengra er haldið.  Þjóðaratkvæðagreiðsla um hvert mál af þessu tagi fullveldisframsals er ein leið til að afla fullnægjandi lýðræðislegs umboðs fyrir þessum og öðrum slíkum gjörningum.  Önnur leið er stjórnarskrárbreyting, sem veitir Alþingi slíkar heimildir með skilyrðum, t.d. með ákvæðum um aukinn meirihluta, þegar framsal fullveldis ríkisins á sér stað til yfirþjóðlegra stofnana, þar sem Ísland ekki er fullgildur aðili. 

Festung Europa


Persónuvernd með fullveldisframsali

Hin nýja persónuverndargjörð ESB er óskapnaður, sem á eftir að reynast okkur óþægur ljár í þúfu, þótt ekki væri nema vegna kostnaðarlega mjög íþyngjandi áhrifa á atvinnulíf og opinbera stjórnsýslu.  Ef kostnaðaraukinn svarar til 1 % af launakostnaði fyrirtækjanna, sem er vægt áætlað, er um að ræða 10 miaISK/ár, sem betur væru komnir í launaumslögunum eða í fjárfestingum fyrirtækjanna. Verst kemur þetta niður á minnstu fyrirtækjunum, sprotunum, sem eiga að verða drifkraftar framleiðniaukningar í landinu.

Nú er viðkvæðið, að þessi innleiðing sé óhjákvæmileg.  Það er nauðhyggja, sem stafar af innrætingu Evrópusambandsins. Hvernig fara Svisslendingar að, og hvernig ætla Bretar að skiptast á persónuupplýsingum við fyrrverandi félaga sína í ESB, þegar þeir hafa yfirgefið þá ?  Hvernig verður þessum samskiptum við Bandaríki Norður-Ameríku háttað.  Það er holur hljómur í þessu samræmingarhjali ESB.

Hvað sögðu fulltrúar norsku andófssamtakanna "Nei til EU", þegar þeir mættu hjá viðkomandi nefnd Stórþingsins til að veita umsögn um þetta alræmda persónuverndarfrumvarp.  Það er fróðlegt að kynna sér það.  Þýðing vefbónda fer hér á eftir:

""Nei til EU" heldur því fram, að frumvarpið um framkvæmd persónuverndargjörðarinnar hafi í för með sér valdframsal til ESB, sem er mikið áhyggjuefni og sem ríkisstjórnin virðist allt of lítinn gaum gefa.  Enn einu sinni á að yfirfæra vald til yfirþjóðlegrar stofnunar, í þessu tilviki Persónuverndarráðsins (EDPB).  Frumvarpið gefur ekki sannfærandi tryggingu gegn því, að ESB-dómstóllinn fái hlutverk við dómsúrskurð um samþykktir Persónuverndar (-stofnunarinnar norsku).

Gjörðin er reist á því, að hver starfsemi um sig beri ábyrgð á framkvæmd persónuverndarlöggjafarinnar. Það er ekki lengur tilkynningarskylda til Persónuverndarstofnunar né krafa um fyrirframsamþykki hennar.

Það er óljóst, hvernig jafnræðis verður gætt með þessu móti.  Hver starfsemi um sig verður að túlka og vinna á eigin spýtur eftir reglunum og ákvarða sjálf, hvort orðið skuli við kröfum um að fá að sjá gögn eða að þeim verði eytt. Þá getur auðveldlega orðið um mismunandi framkvæmd að ræða frá einni skrá til annarrar.  Krafa um tilkynningarskyldu til eftirlitsstofnunar mundi trúlega veita fyrirsjáanlegri og gegnsærri stjórnun.  

Yfirfærir vald til ESB-stofnunar:

Vandræðalegast við þessa gjörð er samt, að enn einu sinni er yfirþjóðlegt vald veitt ESB-stofnun, sem kölluð er Persónuverndarráðið (EDPB). Ráðið getur úrskurðað um ágreiningsmál á milli tveggja eða fleiri eftirlitsstofnana einstakra þjóða um meðhöndlun málefnis yfir landamæri, eða þegar deilt er um, hvaða eftirlitsstofnun (hvaða lands) á að sjá um mál fyrirtækis, sem starfar í nokkrum löndum.  Eftirlitsstofnanir í hverju landi eru í mörgum tilvikum skyldaðar til að æskja umsagnar Persónuverndarráðsins, sem getur fylgt máli eftir með bindandi samþykkt, ef skyldurnar eru ekki uppfylltar. 

ESB-stofnunin á að geta gert samþykktir, sem eru bindandi fyrir Persónuverndina í Noregi án þess, að samþykktin fari um hendur eftirlitsstofnunarinnar ESA.  Þetta brýtur gegn tveggja stoða kerfi EES-samningsins, þar sem aðgreining á að vera á milli málsmeðferðar gagnvart EFTA- og ESB-löndum.  Völd á sviði persónuverndar á þannig að flytja beint til ESB-stofnunar (1).  

Persónuverndargjörðin slær föstu, að Persónuvernd skal vera óháð stofnun og að yfirvöld í hverju landi skuli ekki geta gefið fyrirmæli (grein 52).  Persónuvernd er núna óháð stjórnvaldsstofnun, og ríkisstjórnin getur ekki skipað fyrir eða breytt einstökum ákvörðunum hennar.  Þessu er ætlað að tryggja sjálfstæða stöðu persónuverndarinnar.  Við erum þeirrar skoðunar, að það sé þá mótsagnakennt, að norska persónuverndin skuli vera óháð innlendum yfirvöldum, en vera gert að taka við fyrirmælum frá Persónuverndarráði ESB (2).  

Ríkisstjórnin viðurkennir í frumvarpinu, að valdaframsal eigi sér stað, en heldur því fram, að það "breyti litlu", sé "lite inngripende", og þar af leiðandi megi beita grein 26 í Stjórnarskrá (um hreinan meirihluta í Stórþinginu).  "Nei til EU" vill þá vísa til þess, að hin svokallaða kenning um "litlar breytingar" er umdeild í lögfræðinni og að hún styðst ekki við neitt í Stjórnarskrá.  Við teljum frumvarpið ekki geta hlotið afgreiðslu samkvæmt grein 26. Það er heldur ekki hægt að afgreiða það samkvæmt gr. 115 (í Stjórnarskrá um aukinn meirihluta), þar eð Noregur á ekki fullgilda aðild með atkvæðisrétti að Persónuverndarráðinu. Frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að leggja Persónuvernd undir Persónuverndarráð ESB ber þess vegna að hafna (3).  

Málflutningur fyrir ESB-dómstólinum ?:

Í svarbréfi til laganefndar Stórþingsins mælir dómsmálaráðherrann því í mót, að framkvæmd persónuverndargerðar ESB hafi í för með sér, að ESB-dómstóllinn fái nýtt hlutverk sem æðsta dómsvald gagnvart norsku eftirlitsstofnuninni einnig.  Í bréfinu er fullyrðingin: "Ákvarðanir Persónuverndarinnar er einvörðungu hægt að sannreyna fyrir norskum dómstólum."

Er þetta nú víst ?  Það er ESB-dómstóllinn, sem er úrskurðaraðili um ákvarðanir Persónuverndarráðsins.  Eins og komið hefur fram, eru ákvarðanir Persónuverndarráðsins bindandi einnig fyrir norsku Persónuverndina.  Hvernig mun ESB bregðast við því, að norskur dómstóll breyti ákvörðun, sem raunverulega kemur frá Persónuverndarráði ESB (4)?

Í frumvarpinu eru taldar upp nokkrar aðlaganir, sem gera á fyrir Noreg og hin EFTA-löndin.  Aðalatriðið er, að krafan í kafla 58 nr 4 um að fylgja skuli sáttmálum ESB skuli ekki gilda (orðin "í samræmi við sáttmálann").  EES-aðlögunin er ekki samþykkt í ESB.  Það, sem stendur í persónuverndargjörðinni núna þýðir, að ESB-dómstóllinn fær lögsögu í EFTA-löndunum (5).

Í sögu EES-samningsins eru mörg dæmi um einhliða forsendur norskra ríkisstjórna, sem ekki hafa staðizt.    Við erum þeirrar skoðunar, að tekin sé mikil áhætta með innleiðingu persónuverndargjörðarinnar áður en EES-aðlaganir hafa verið samþykktar í æðstu stofnunum ESB.

(1) Persónuverndarráð ESB gerir bindandi samþykktir fyrir persónuverndarstofnun hvers aðildarlands.  Það er gjörsamlega ótækt fyrir EFTA-löndin, brýtur tveggja stoða grunnregluna og er stjórnarskrárbrot á Íslandi og í Noregi.  Þessi innleiðing er þar af leiðandi ólögleg.

(2)  Að Persónuvernd, sem er sjálfstæð gagnvart íslenzkum stjórnvöldum, skuli eiga að lúta boðvaldi Persónuverndarráðs ESB, skýtur skökku við og er frágangssök í þessu máli.

(3)  "Lítil breyting" er heiti á spægipylsuaðferð við fullveldisframsal.  Þessari rökleysu er líka beitt á Íslandi, en hér á hún mun minna erindi en í Noregi.  Ástæðan er sú, að EES-samningurinn var á sínum tíma samþykktur af Stórþinginu með auknum meirihluta, yfir 75 % mættra þingmanna greiddi atkvæði með, en á Alþingi var EES-samningurinn samþykktur í bullandi ágreiningi og fremur mjótt á munum.  Þjóðin hefur aldrei verið spurð álits í þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa aðild.  Þrír eða fjórir lögfræðingar voru fengnir til að meta, hvort samningurinn samræmdist Stjórnarskrá.  Þeir komust að því, að hann væri á mörkunum, væri á "gráu svæði".  Síðan hefur heldur betur snarazt á merinni, og það gengur hreint ekki lengur að halda svona áfram og fótumtroða Stjórnarskrána.

(4)  Hvernig halda menn, að ESB muni bregðast við, ef íslenzkur dómstóll dæmir framkvæmd, sem ættuð er frá Persónuverndarráði ESB, ólöglega ?

(5)  ESB hefur enn ekki samþykkt aðlögun þessar gjörðar að EFTA-ríkjunum.  Þess vegna hefur ESB-dómstóllinn fortakslausa lögsögu þar eftir innleiðingu gjörðarinnar í EES-samninginn.  Er ekki rétt að bíða þessarar staðfestingar ESB ?  Jafnvel Sameiginlega EES-nefndin hefur ekki afgreitt málið.  Það má vel reyna á það hvað gerist, ef samþykkt Alþingis er frestað.  EES-samstarfið er komið á leiðarenda.  

 

 


Stjórnarskráin og EES

Stjórnarskráin er verðmætt leiðbeiningaskjal fyrir Alþingismenn og aðra um það, sem er í lagi og það, sem ber að forðast við lagasetningu.  Fullveldisákvæðin eru þar ekki upp á punt, heldur sett í varúðarskyni til að missa ekki tökin á stjórn landsins til útlanda.

Dæmigert fyrir EES-samstarfið er, að fullveldið glatast smátt og smátt með valdflutningi yfir einu málefnasviðinu á fætur öðru til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, ESB, og stofnana hennar.  Alþingismenn eru hér á mjög hálum ísi.  Þeir hafa aldrei leitað samþykkis þjóðarinnar á þessu fyrirkomulagi, sem aðild landsins að EES hefur í för með sér. 

ESB hefur gjörbreytzt síðan 1993, þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn, og kemur ekki lengur fram við EFTA-ríkin á jafnræðisgrundvelli, heldur heimtar, að þau lúti stjórn stofnana sinna á hverju sviðinu á fætur öðru.

Mikil umræða hefur farið fram í Noregi um þetta málefni.  Norska Stórþingið stendur þó stjórnlagalega aðeins betur að málum en Alþingi, því að við samþykkt EES-samningsins árið 1992 var farið að kröfu norsku stjórnarskrárinnar um meðferð valdframsalsmála ríkisvaldsins til útlanda og farið eftir grein 115 í Stjórnarskránni, sem áskilur a.m.k. 2/3 mætingu þingmanna við atkvæðagreiðslu, og að 3/4 þeirra samþykki hið minnsta. Hið sama var gert 2016 við innleiðingu fjármálaeftirlits ESB í EES-samninginn.  

Lagasérfræðingar við háskólana í Ósló, Björgvin og Tromsö bentu sumir á áður en Stórþingið afgreiddi ACER-málið 22. marz 2018, að innganga Noregs í Orkusamband ESB væri andstæð stjórnarskrá Noregs, en aðrir töldu, að hana yrði Stórþingið að afgreiða samkvæmt grein 115.  Yfirfært á íslenzku stjórnarskrána þýðir þetta, að innganga Íslands í Orkusamband ESB er andstæð henni.  Stórþingið lét einfaldan meirihluta duga í ACER-málinu, en það mun fá eftirmála, því að ætlun samtakanna "Nei til EU" er að láta reyna á réttmæti þeirrar ákvörðunar þingsins fyrir Hæstarétti.

Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB samanstendur af nokkrum regluverkum, og það er einkum gjörðin um orkustofnunina (ACER-gjörð 713/2009) og rafmarkaðstilskipunin (tilskipun 2009/72), sem vekja spurningar um fullveldisframsal.  

ACER gegnir ekki einvörðungu ráðgefandi hlutverki.  Orkustofnunin hefur einnig framkvæmdavald og eigið ákvörðunarvald.  Ákvarðanir hjá ACER eru teknar með auknum meirihluta samkvæmt Þriðja orkubálkinum, en það mun sennilega breytast með væntanlegum Fjórða orkubálki í einfaldan meirihluta.  

Gagnvart Íslandi er látið líta svo út, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA taki hina formlegu ákvörðun, sem þó kemur frá ACER, þar sem Ísland verður ekki fullgildur aðili.  Það var hins vegar tekið fram við þetta samkomulag EFTA og ESB, að ESA-ákvörðunin verði í samræmi við drögin frá ACER; sem sagt "monkey business" eða afritsákvörðun.

Erik Holmöyvik og Halvard Haukeland Fredriksen, báðir prófessorar við lagadeild Háskólans í Björgvin, lýsa stöðunni, sem upp kemur við ágreining á milli yfirvalda ólíkra landa þannig:

"Hér blasir sú lausn við, að ACER taki bindandi ákvörðun fyrir orkustjórnvöld í ESB-löndum og ESA taki síðan nauðsynlega samhljóða ákvörðun, sem bindi norsk stjórnvöld.  Að ACER taki raunverulega ákvarðanirnar, endurspeglast af alls konar EES-aðlögunum að málsmeðferðarreglum [ESB], sem raunverulega minnka ESA niður í millilið, sem miðlar sambandi á milli norskra orkuyfirvalda og ACER."

Eivind Smith, prófessor við Svið opinbers réttar, Háskólanum í Ósló, heldur því fram, að ESA-ákvörðun hafi bein áhrif á norskan rétt.  Í viðtali við Klassekampen tjáir hann það þannig:

"Hér er einmitt um að ræða ákvörðun, sem virkar beint inn í þjóðarrétt í Noregi og sem grípur inn í valdréttindi yfir framkvæmdavaldinu, sem Stjórnarskráin færir löggjafanum."

Smith skrifar ennfremur: "Hin nýja valdstjórn yfir orkumálum (RME-landsreglari) á að verða óháð pólitískri stjórnun með hætti, sem ekki á við um neina stofnun í stjórnkerfinu."

Stjórnlagalega er hér fitjað upp á nýjung, sem hefði átt að fá rækilega lögfræðilega og stjórnmálalega umfjöllun áður en til mála kæmi að innleiða hana á Íslandi.  Framkvæmdavald, sem lætur sér detta í hug að umgangast Stjórnarskrá lýðveldisins með þessum hætti, er á hálum ísi. Að ráðherra og ráðuneytisstarfsmenn skuli enn tala með þeim hætti, að þetta fyrirkomulag breyti nánast engu í raun á Íslandi, af því að við höfum enn enga afltengingu til útlanda, er fáheyrt og hrein ósvífni.  Þetta fyrirkomulag færir einmitt ákvörðunarvald um m.a. sæstrenginn "Ice Link" úr höndum íslenzka löggjafans, ríkisstjórnarinnar og íslenzkra dómstóla í hendur ACER/ESB og EFTA-dómstólsins.  

ESA-"ákvörðunum" verður í Noregi beint til óháðrar einingar í NVE, sem er orkustofnun Noregs.  Þessi óháða eining er Landsreglari fyrir orku, "Reguleringsmyndighet for energi"-RME.  Sjálfstæði RME er skilgreint í Orkulögum Noregs, greinum 2-3, þar sem skýrt kemur fram, að stjórnvöld landsins munu ekki geta gefið RME nein fyrirmæli.  RME mun fá eigin fjárveitingu á fjárlögum.  Holmöyvik og Haukeland Fredriksen telja, að ESA yfirtaki þar með stjórnun þeirra þátta orkumálanna, sem falla undir RME.  Hvaða augum skyldu íslenzkir stjórnlagafræðingar líta á þessi mál með hliðsjón af íslenzku Stjórnarskránni ?  Í huga leikmanns samræmist þetta fullveldisframsal henni engan veginn.  Hvað ætla þingmenn hérlendis að arka langt út í stjórnlagalega ófæru í þessum efnum ? Þótt ráðherra utanríkismála telji sig bundinn af samþykki Sameiginlegu EES-nefndarinnar um framlagningu þingsályktunartillögu um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þá verða Alþingismenn að ganga óbundnir til atkvæðagreiðslu um hana, og niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar á ekki að verða hægt að túlka sem vantraustsyfirlýsingu á utanríkisráðherra eða ríkisstjórnina.  Það má tryggja með samþykkt sérstakrar traustsyfirlýsingar í kjölfarið.  Alþingi verður einfaldlega að fá tækifæri til að nýta sér samningsbundinn synjunarrétt sinn samkvæmt EES-samninginum.   

 

 

 


Fyrirvarar Stórþingsins verða varla uppfylltir

 Þegar hluti stjórnarandstöðunnar á norska þinginu ákvað að ganga til liðs við norsku ríkisstjórnina, sem er minnihlutastjórn Hægri og Framfaraflokksins, þá var samið skjal, sem finna má undir tengli með þessum pistli.  Þar settu Verkamannaflokkurinn, Vinstri og Umhverfisflokkurinn-hinir grænu, fram 8 skilyrði fyrir stuðningi við samþykki frumvarps ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks Evrópusambandsins, ESB, í EES-samninginn og norska löggjöf.

Þetta var gert að frumkvæði Verkamannaflokksins, sem logaði stafnanna á milli vegna tilmæla Landsstjórnar flokksins til þingflokksins um að styðja ríkisstjórnina í þessu máli.  Fjölmargir oddvitar flokksins í sveitarstjórnum og fylkisstjórnum ásamt verkalýðsfélögum um allt land lögðust alfarið gegn þessu framsali fullveldis Noregs yfir mikilvægri afurð náttúruauðlinda landsins, rafmagninu, af ótta um afdrif byggðanna, sem eiga líf sitt undir afkomu orkukræfs iðnaðar, sem þar er starfræktur.  Skilyrðunum er í raun beint til ríkisstjórnarinnar við framkvæmdina, en norska ríkisstjórnin hefur ekki lengur vald á þessum málum, eftir að öll EFTA-ríkin hafa samþykkt innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í sína löggjöf. Það er furðulegt, að norskir kratar skuli láta, eins og þeim sé ókunnugt um þetta, en sams konar blindni og/eða tvískinnungs gætir hérlendis á meðal skoðanasystkina norsku kratanna.  Fleðulæti og undirlægjuháttur gagnvart ESB eru ekki gott vegarnesti í þessa vegferð. 

Í skjalinu gætir óhóflegrar og órökréttrar bjartsýni um, að eftir innleiðinguna verði nánast allt, eins og það var, og að ESB muni taka tillit til skoðana og tilfinninga Norðmanna við framkvæmd Þriðja bálksins og við stefnumörkun í væntanlegum Fjórða bálki. Þetta er einber óskhyggja, sem gengur í berhögg við reynsluna og mat á ástandinu innan ESB. Svipaðs viðhorfs gætir á Íslandi, og þar er jafnvel endurtekin vitleysa Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um "dramatíseraða" sviðsmynd, sem hún viðhafði í febrúar 2008, eftir að Davíð Oddsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabankans, hafði dregið upp þá mynd fyrir ríkisstjórninni, að allir bankarnir yrðu fallnir áður en október yrði á enda þá um haustið.  Ævintýrið um skessurnar, sem köstuðu á milli sín fjöregginu með ærslum og fíflalátum, kemur upp í hugann í þessu sambandi, þar sem fjöreggið er fullveldi landsins í þessu tilviki.    

Skilyrði #1: Það skal vera þjóðleg og samfélagsleg stjórnun og eftirlit á vatnsaflsauðlindunum.  Opinbert eignarhald á norskum vatnsaflsauðlindum skal standa óhaggað, og a.m.k. 2/3 af þeim skulu áfram vera í opinberri eigu.

ACER breytir engu um þjóðareign á vatnsaflinu.  Með því að samþykkja lögsögu ACER láta EFTA-löndin hins vegar af hendi ráðstöfunarrétt raforkunnar, sem hægt er að vinna úr náttúruauðlindum þeirra.  Eignarrétturinn mun standa óhaggaður, en um ráðstöfun rafmagnsins mun fara eftir reglum Þriðja orkumarkaðslagabálksins, enda væri hann annars varla til neins.

Skilyrði #2: Endurnýjanlega norska raforkuvinnslu skal nýta til aukinnar verðmætasköpunar og atvinnusköpunar í Noregi og til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með endurnýjanlegri orku.

Norskt rafmagn sem vara á samþættum evrópskum orkumarkaði samræmist ekki grunnreglunni um, að rafmagnið skuli nýta til byggðaeflingar í stað þess að verða selt hæstbjóðanda. Þetta skilyrði er óraunhæft að ætla, að ESB uppfylli. Norskur iðnaður getur hæglega misst sitt eina samkeppnisforskot.  Flytjist iðnaðurinn úr landi (vegna raforkuskorts og hækkaðs raforkuverðs), mun slíkt jafngilda glötuðum störfum í Noregi, flótta frá landsbyggðinni og aukinni notkun jarðefnaeldsneytis innanlands.  Allt þetta á einnig við um Ísland, en á líklega ekki við um Liechtenstein.  

Skilyrði #3:  Norsk yfirvöld skulu hafa fulla stjórn á og eftirlit með öllum ákvörðunum, sem þýðingu hafa fyrir orkuöryggið í Noregi, þ.m.t. ákvarðanir tengdar iðnaði og straumrofi.

Framkvæmdastjórn ESB samþykkti 7. febrúar 2018 aðgerðir fyrir orkuöryggi í 6 ESB-löndum, þar með ákvarðanir tengdar straumrofi/álagslækkun hjá iðnaði. Af því má ráða, að stjórn afhendingaröryggis raforku mun ekki verða á hendi orkuyfirvalda einstakra aðildarlanda Orkusambandsins, heldur verða hjá ACER/ESB.  Sumar aðgerðirnar voru samþykktar til bráðabirgða.  Samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum hefur ESB/ACER vald til að vega og meta norska aðgerðaáætlun á móti þörfum Innri orkumarkaðarins fyrir frjálst flæði orku á milli landa. Eftir að "Ice Link" hefur verið tekinn í gagnið, verður regluverk um ráðstöfun raforku, þegar orku- eða aflskortur kemur upp á Íslandi, í höndum ACER/ESB með sama hætti og í Noregi.

Orkustofnunin ACER getur gert bindandi samþykkt um meðferð deilna á milli landa, einnig deilur um málefni, er snerta framboðsöryggi, afhendingaráreiðanleika, þróun raforkukerfisins og uppbyggingu flutningskerfisins.  Með tilstuðlan Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, og orkuvaldsstofnunarinnar RME (Reguleringsmyndighet for energi í Noregi), "landsreglarans", verða slíkar samþykktir einnig bindandi fyrir Noreg og Ísland, þegar útibú ACER hefur verið stofnað í báðum löndunum.

Skilyrði #4:

Ákvarðanir um hugsanlega nýja aflsæstrengi til útlanda skulu áfram vera alfarið í höndum norskra yfirvalda.

Verkamannaflokkurinn hefur fengið ríkisstjórnina á sitt band um að meta skuli, hvort leggja eigi fleiri sæstrengi, en ekkert meira en það.  Hafni norsk stjórnvöld engu að síður þegar innsendri umsókn um Skotlandsstrenginn (NorthConnect), eru ACER og norski orkureglarinn RME skuldbundin samkvæmt Þriðja bálkinum til að vekja athygli ESB á því, að Noregur hafi lagt stein í götu Kerfisþróunaráætlunar ESB.  Skotlandsstrengurinn er forgangsverkefni í Kerfisþróunaráætlun ESB, eins og Ice Link, og ACER og RME skulu hafa framvindueftirlit með höndum.  Ef strengeigendurnir (NorthConnect er einkafyrirtæki) kæra höfnunina og fara að lokum með málið fyrir ESA og EFTA-dómstólinn, getur Verkamannaflokkurinn eða nokkur innlendur aðili þá ábyrgzt, að málið verði ekki að lokum útkljáð af ESB ?  Sama umræða hefur orðið á Íslandi.  Fylgjendur samþykktar Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum hafa haft "dramatíseringu" á orði, þegar höfundur þessa pistils hefur haldið því fram, að síðasta orðið um lagningu "Ice Link" verði ekki í höndum íslenzkra yfirvalda, heldur í höndum ESB.  Það standa engin rök til þess, að nokkuð annað muni gilda um EFTA-löndin en ESB-löndin, þegar kemur að því kjarnaatriði í starfsemi Orkusambands ESB að auka raforkuflæði á milli landa í Orkusambandinu.  Innan ACER verður vafalítið talið sérstaklega brýnt að koma á slíku sambandi við Ísland, þar sem ekkert slíkt er fyrir, sérstaklega þar sem hægt er að auka talsvert vinnslu raforku úr endurnýjanlegum orkulindum.  

Skilyrði #5:

Hugsanlegir nýir sæstrengir skulu vera þjóðhagslega hagkvæmir, og safna skal reynslugögnum og gera nákvæmar greiningar áður en nýju samtengiverkefni á milli landa er hleypt af stokkunum.  Hvaða þýðingu sú vinna hefur fyrir hugsanlegar nýjar framkvæmda- og rekstrarleyfisumsóknir, verður að meta við afgreiðslu þessara umsókna.

Þegar Innri markaður fyrir orku verður kominn á laggirnar í EFTA-löndunum, verða samtímis samkeppnisreglur og ríkisstuðningsreglur ESB virkar í Noregi og á Íslandi.  Ef ráðuneyti orkumála í þessum löndum komast hins vegar að þeirri niðurstöðu, að sæstrengurinn (NorthConnect eða Ice Link) sé ekki þjóðhagslega hagkvæmur, af því að hann þrýsti upp raforkuverði og sé þar með ógnvaldur við norskan og íslenzkan iðnað, er hægt að líta á slíkt sem ríkisstuðning við norskan og íslenzkan iðnað. EES-regluverkið mun þá banna norskum og íslenzkum stjórnvöldum að taka slíkt tillit til þjóðarhagsmuna.  Þannig verður unnt að fara út í sæstrengslögn gegn vilja rétt kjörinna yfirvalda í Noregi og á Íslandi og gegn þjóðarhagsmunum þessara landa.  

Skilyrði #6:

Statnett skal eiga og reka allar framtíðar millilandatengingar við Noreg (eins og gildir um allar núverandi millilandatengingar).  Þetta skal fella inn í orkulögin.  

Spurningin er, hvort þetta geti gilt um Skotlandsstrenginn NorthConnect, sem einkaaðilar hafa þegar sótt um lagnaleyfi fyrir.  Verði orkulöggjöfinni breytt, þannig að hann verði afgreiddur samkvæmt nýjum lögum, er verið að gefa löggjöfinni vafasama afturvirkni.  Báðir sæstrengirnir til Bretlands, þ.e. NorthConnect og strengverkefnið, sem þegar er í gangi á vegum Statnetts, eru næstum alfarið útflutningsstrengir.  Hvor þeirra getur flutt 10 TWh/ár af metnum núverandi 12 TWh/ár orkuforða miðlunarlónanna, til lands með 60 % hærra raforkuverð en Noregur.  Þar með flæðir nánast öll umframorka Noregs burt úr landinu.  Það eru þessir sæstrengir, sem starfsmenn í iðnaðinum óttast mjög af þessum sökum.  Terje Söviknes, orkuráðherra Noregs, hefur nýlega slegið föstu, að leyfisumsókn NorthConnect skuli hljóta málsmeðferð samkvæmt gildandi orkulögum (Nationen 16.03.2018).  Það þýðir, að Verkamannaflokkurinn hefur ekki fengið ríkisstjórnina til að fallast á skilyrði sitt um eignarhaldið á öllum framtíðar millilandatengingum. Þetta er forsmekkurinn að því, sem koma skal.

Skilyrði #7:

Hagnað af millilandatengingunum skal áfram (eftir aðildina að Orkusambandi ESB) mega nota til að lækka flutningsgjaldskrá (Statnetts) og til viðhalds og nýframkvæmda á norska raforkuflutningskerfinu.

Slík notkun hagnaðar af millilandatengingum er í gjörðinni, sem er hluti af Þriðja orkubálkinum, heimiluð í undantekningartilvikum.  Takmarkaðan hluta hagnaðarins má því aðeins nota á þennan hátt, ef hagnaðinn er ekki hægt að nota "skilvirkt" til viðhalds eða framkvæmda við nýjar tengingar. Í næstu útgáfu gjörðarinnar, sem nú er til umfjöllunar hjá ESB, er mögulegt, að þessi undantekning verði fjarlægð.  

Skilyrði #8:

Nýja orkuvaldsstofnunin RME verður sett á laggirnar, en verkefni hennar skal takmarka við að uppfylla lágmarkskröfur tilskipunarinnar.  Æðra stjórnvald við að semja og samþykkja forskriftir og lagafrumvörp (á orkuflutningssviði) skal áfram vera á hendi ráðuneytisins (OED-olíu- og orkuráðuneytisins) og stjórnvaldsstofnunarinnar (NVE-Norges vassdrags- og energidirektorat-Orkustofnunar).

Verkamannaflokkurinn norski og sumir hérlendir menn, sem haldnir eru þeirri meinloku, að aðild Íslands að Orkusambandi ESB muni litlu sem engu breyta "á meðan Ísland er ótengt erlendum rafkerfum", horfa algerlega framhjá þeirri staðreynd, að orkuvaldsstofnunin, RME í Noregi, "landsreglarinn" á orkusviði, fær völd til að starfa algerlega utan seilingar landsyfirvalda og verður undir yfirstjórn ACER með ESA sem millilið.

 

Það er sammerkt öllum þessum skilyrðum norska Verkamannaflokksins, að það er algerlega óraunhæft að ætla norsku ríkisstjórninni að framfylgja þeim.  Þau eru ekki á valdsviði hennar, heldur Framkvæmdastjórnarinnar í Brüssel, enda hefur ríkisstjórnin nú sent Framkvæmdastjórninni þetta bréf, en aðeins til upplýsingar. Ríkisstjórnin hefði auðvitað þurft að fá fund með fulltrúa Framkvæmdastjórnarinnar til að gera henni grein fyrir pólitískri alvöru málsins í Noregi.  Þegar þetta rennur upp fyrir félagsmönnum Verkamannaflokksins vítt og breitt um landið, munu þeir skynja málið þannig, að flokksforysta þeirra hafi farið á bak við þá í mikilvægu máli. Við endurupptöku málsins í Stórþinginu, eins og Miðflokkurinn hefur lagt til, ef Alþingi synjar Þriðja orkulagabálkinum samþykkis, getur niðurstaðan orðið á sömu lund og á Alþingi af þessum sökum.

Það má furðu gegna, að forysta stærsta stjórnmálaflokks Noregs, skuli vera haldin svo miklum meinlokum um virkni og áhrif Þriðja orkumarkaðslagabálksins, sem er gríðarlega mikið hagsmunamál og mikilvægt fullveldismál fyrir bæði Noreg og Ísland.  Þetta er skýringin á því, að Verkamannaflokkurinn var klofinn í herðar niður um afstöðuna til Orkusambandsins í aðdraganda samþykktar Stórþingsins 22. marz 2018.  

Ef svo illa fer, að Alþingi samþykki innleiðingu á þessum óláns orkubálki, mun fljótlega koma í ljós, að:

  1. Ráðstöfunarréttur raforkunnar er ekki lengur hjá innlendum, rétt kjörnum yfirvöldum, heldur hjá Innri orkumarkaði ESB, þar sem öll tiltæk raforka gengur kaupum og sölum.
  2. Innlendar orkulindir eru mjög takmörkuð auðlind, þegar markaður fyrir þær eru allt ESB.  Útflutt raforka verður hvorki notuð til verðmætasköpunar á Íslandi né til orkuskipta þar.  Ice Link verður að líkindum að meginstofni útflutningsstrengur, eins og NorthConnect, á meðan verðmismunur raforku við sitt hvorn enda strengsins helzt hár, en verðáhrif strengsins hér innanlands munu þó væntanlega fljótlega verða mjög mikil vegna tiltölulega lítils markaðar hér.
  3.  Með innleiðingu Þriðja orkubálksins munu gilda sömu stjórnunarreglur um rekstur millilandatenginga Íslendinga og gilda í ESB-löndunum, þ.e. ESB/ACER munu hafa síðasta orðið um það, hvernig afhendingaröryggi raforku verður háttað.  Hafa ber í huga, að ESB/ACER tekur ákvörðun út frá sínu mati á heildarhagsmunum, en ekki hagsmunum einstakra landa, hvað þá héraða.  Þetta boðar ekki gott um stýringu vatnshæðar í lónum á Íslandi og beztun á rekstri íslenzka raforkukerfisins.
  4. Endanleg ákvörðun um það, hvort Ice Link sæstrengurinn verður lagður eða ekki verður ekki hjá íslenzkum stjórnvöldum, ef Þriðji orkubálkur ESB verður hér innleiddur, enda er eitt megintakmarkið með honum og stofnun ACER að ryðja burt hindrunum í einstökum löndunum gegn auknum raforkuflutningum á milli landa og útjöfnun orkuverðs.
  5. Rök gegn nýju sæstrengsverkefni á borð við þau, að sæstrengur í hagkvæmniathugun, eins og Ice Link, sé ekki þjóðhagslega hagkvæmur, eru ógild og ótæk innan Orkusambands ESB.  Þetta er mjög gott dæmi um það, að þjóðarhagsmunir Íslendinga og hagsmunir ESB fara ekki saman í mikilvægum atriðum.
  6. Statnett (norska Landsnet) á og rekur allar millilandatengingar við Noreg.  Ice Link yrði miklu dýrari en nokkur norsku sæstrengjanna, og það yrði Landsneti um megn að fjármagna hann.  Það er ósennilegt, að það skilyrði verði sett af nokkrum stjórnmálaflokki á Alþingi, að Ice Link verði í eigu Landsnets.  Komi upp ágreiningur um eignarhaldið, verður hann hvorki útkljáður af íslenzku ríkisstjórninni, Alþingi né innlendu dómstólunum eftir samþykkt Þriðja orkubálksins.
  7.  Löndin í Orkusambandi ESB standa alls ekki frjáls að því, hvernig hagnaði af mannvirkjum til raforkuflutninga á milli landa er ráðstafað.  Í Þriðja orkubálkinum er þvert á móti fyrirskrifað, hvernig standa beri að ráðstöfun slíks hagnaðar, og meginreglan er þar að verja honum til að bæta raforkuflutningskerfið á milli landa með viðhaldi til að bæta afhendingaröryggið og með nýframkvæmdum til að auka flutningsgetuna.  Fjármögnun, rekstri og viðhaldi flutningskerfis frá íslenzka stofnkerfinu og að landtökustað Ice Link mundu innlendir raforkunotendur þurfa að standa straum af, og sá kostnaður mun fela í sér tilfinnanlega hækkun flutningsgjaldskrár Landsnets, sem ekki má við miklum hækkunum, svo há sem hún er. 
  8. Það eru eðlilega áhyggjur á Íslandi og í Noregi yfir þeim miklu og ólýðræðislega fengnu völdum, sem s.k. "landsreglara" hlotnast með stuðningi lögfestingar Þriðja orkubálksins.  Í stuttu máli verða völd Orkustofnunar og atvinnuvegaráðuneytisins (iðnaðarráðuneytisins) á sviði raforkuflutninga, sem ACER telur varða "sameiginlega hagsmuni", formið eitt eftir lögfestingu Þriðja orkubálksins hérlendis, því að "landsreglarinn", sem þiggja mun völd sín alfarið frá ACER og mun ekki búa við neitt aðhald frá íslenzku löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi eða dómsvaldi, mun semja þær reglugerðir og netmála, sem máli skipta fyrir millilandatengingar landsins á sviði raforku.   

 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Íslenzk stjórnsýsla annar ekki flóðinu frá Brüssel

Utanríkisráðherra hefur upplýst, að á 24 ára tímabilinu, 1994-2017, hafi rúmlega 9000 gerðir Evrópusambandsins, ESB, eða rúmlega 13 % allra gerða sambandsins, verið tekin upp í EES samninginn eða upp í íslenzka stjórnsýslu samkvæmt honum.  Þetta eru 375 gerðir á ári eða rúmlega 1 á dag hvern einasta dag, sem liðið hefur frá gildistöku EES-samningsins hérlendis 1. janúar 1994.

Þetta keyrir úr öllu hófi fram, og það verður að binda endi á þetta vegna gríðarlegs kostnaðar, sem þessi fjöldi opinberra gerða, reglugerða, tilskipana og laga, hefur í för með sér í litlu samfélagi hjá fyrirtækjum og stjórnsýslu.  Það er engin hemja, að við skulum þurfa, 350 þúsund hræður, að bera þessar byrðar til að njóta aðgengis að Innri markaði ESB með öllu því margvíslega álagi, sem slíkt hefur í för með sér, t.d. vegna hömlulauss innstreymis fólks, undirboða og lagabrota á vinnumarkaði og víðar í þjóðfélaginu.

Það blasir við, að það er hægt að losa landsmenn mestmegnis undan þessu fargi með uppsögn EES-samningsins og gerð fríverzlunarsamnings við ESB og Bretland, eins og nýlegt fordæmi er til um (Kanada).  Sá gríðarlegi óbeini og beini kostnaður, sem af þessu samneyti við stórþjóðir Evrópu leiðir, kemur niður á lífskjörum landsmanna.  Skattheimtan hérlendis er nú þegar á meðal hins hæsta, sem þekkist í Evrópu, m.a. vegna gríðarlegrar yfirbyggingar lítils samfélags, og framleiðniaukning fyrirtækjanna hefur um langt árabil verið óeðlilega lág. Reglugerðafarganið virkar hamlandi á þróun fyrirtækjanna í átt til aukinnar verðmætasköpunar.  Stórskorið reglugerðafargan og eftirlitsbákn að hætti miklu stærri samfélaga lendir hér kostnaðarlega á fáum hræðum, sem heldur niðri lífskjarabata.  Holtaþokuvæl um nauðsyn ESB til að tryggja frið í Evrópu heldur ekki vatni. Það hefur NATO gert án tilstuðlunar ESB, sbr Balkanstríðið.  Við eigum að eiga sem frjálsust viðskipti í allar áttir og ekki að binda trúss okkar allt á einn hest. Samstarf EFTA og ESB á vettvangi EES er komið í öngstræti, eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, benti í tvígang á í vetur.  Framsóknarflokkurinn hefur beinlínis á stefnuskrá sinni að endurskoða EES-samstarfið. 

 Samt hefur ríkisstjórnin ákveðið að veita meira fé í EES-samstarfið undir því yfirskyni, að taka eigi meiri þátt í undirbúningi mála. Eru embættismenn látnir komast upp með það að ráða för ? Það er borin von, að EFTA-ríkin geti haft marktæk áhrif á undirbúning mála hjá ESB. Framkvæmdastjórnin hlustar ekki lengur (eftir BREXIT) neitt á kvakið í EFTA-löndunum.  Það er vegna þess, að kjarni undirbúningsvinnunnar fer fram á bak við luktar dyr í Berlaymont, þar sem aðeins ríkin 28, nú bráðum 27, mega taka þátt.  Fjárveitingum úr ríkissjóði væri betur varið hér innanlands eða til undirbúnings uppsagnar EES-samningsins með því að leita hófanna um gerð fríverzlunarsamninga. Þegar allt er tínt til, mundu sparast stórar fjárhæðir við að hætta að eltast við búrókratana í Berlaymont. 

Sum stórmál, sem ESB heimtar, að verði innleidd í EES-samninginn, eru þannig vaxin, að vandséð er, að þau komi að nokkru gagni í EFTA-löndunum, en þau valda þar gríðarlegum kostnaðarauka.  Nýtt dæmi er persónuverndarlöggjöfin.  Fylgir henni einhver áþreifanlegur kostur fyrir almenning á Íslandi, sem verður í askana látinn ?  Það virðast fylgja henni ókostir, t.d. fyrir hluta vísindasamfélagsins, og henni fylgir viðbótar launakostnaður, sem gæti hækkað kostnað sumra fyrirtækja umtalsvert, og e.t.v. um 1 % fyrir landið í heild. Safnast, þegar saman kemur.

Ekkert lát er á flóðinu frá Brüssel.  Það má hverju barni vera ljóst, að íslenzk stjórnsýsla ræður ekkert við þetta gríðarlega magn. Þótt íslenzka utanríkisþjónustan mundi beita öllum kröftum sínum að ESB/EES, mundi slíkt engu skila í ávinningi eða sparnaði fyrir íslenzka þjóðarbúið.  Ísland verður aldrei annað en óvirkur viðtakandi samþykkta frá Berlaymont, enda á forysta ESB fullt í fangi með að samræma afstöðu 28 ríkja, þótt EFTA-ríkin bætist ekki við.

Þegar rýnt er í efnivið gerðanna kemur í ljós, að hann kemur ekki að neinu gagni við að bæta stjórnsýsluna hér, en veldur miklum kostnaði um allt þjóðfélagið, bæði hjá hinu opinbera og fyrirtækjunum.  Allur lendir sá kostnaður á heimilum landsins.  Það blóðuga við þetta er, að það er algerlega óþarft.  Það er til fýsilegur valkostur við þetta.

Fjöldi slíkra mála er í deiglunni hjá ESB eða er til umfjöllunar í sameiginlegu EES-nefndinni.  Eitt mál úr síðarnefnda hópinum er gjörð 391/2009 um skipaeftirlit.  Hún veitir Framkvæmdastjórninni heimild til að sekta vottuð eftirlitsfyrirtæki, sem hún hefur þegar viðurkennt sem hæf í eftirlitshlutverkið.  EFTA-ríkin vilja, að ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, fái þetta valda í EFTA-ríkjunum, og þar stendur hnífurinn í kúnni.  ESB skeytir engu um tveggja stoða kerfið lengur, og þingheimur verður að fara að gefa sér tíma til að ræða viðbrögð við þessari tilhneigingu Framkvæmdastjórnarinnar, sem stafar af stefnu sambandsins um valdflutning frá aðildarríkjunum til Framkvæmdastjórnarinnar og stofnana hennar.  

Hin svo nefnda aðferðargjörð nr 734/2013 fjallar um samræmda framkvæmd á reglum um ríkisstuðning með sektarheimild í höndum yfirþjóðlegs valds.  ESB hefur hafnað tillögu EFTA-landanna um að fela innlendum aðila í hverju landi sektarheimildina í staðinn fyrir ESA.  Innleiðing í EES-samninginn mun leiða til þess, að ESA fær aukin völd til að beita þvingunarúrræðum og sektum gagnvart lögaðilum á Íslandi. Þetta brýtur skýlaust í bága  við Stjórnarskrá Íslands.  Hversu langt eru stjórnvöld tilbúin að ganga eftir þessari braut lögleysunnar ? 

Það er dagljóst, að Ísland tapar fullveldi sínu í hendur Evrópusambandinu með þessu áframhaldi samkvæmt spægipylsuaðferðinni, þ.e.a.s. jafnt og þétt á sér stað fullveldisframsal til Brüssel á hverju málefnasviðinu á fætur öðru, nánast án umræðu í samfélaginu og án þess, að þjóðin hafi fengið beint að tjá sig í atkvæðagreiðslu um málið.  Það er vitað, að meirihluti þjóðarinnar er andvígur inngöngu Íslands í ESB, en þangað siglum við þó hraðbyri.  Þetta eru fullkomlega ólýðræðislegir stjórnarhættir, og stjórnmálamönnum er hollast að grípa í taumana strax áður en það verður um seinan með óræðri lagalegri stöðu landsins og eldfimu stjórnmálaástandi sem afleiðingu.  Höggvið á hnútinn með því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um úrsögn úr EES og gerð fríverzlunarsamninga. 

  

    

 


Dýr eru Dagur & Co. á fóðrum

 

Í vefpistlinum, "Úreltar skipulagshugmyndir baka bara vandræði" á þessu vefsetri var komizt að þeirri niðurstöðu, að landsmenn þyrftu að nota 2 % af vinnutíma sínum í óeðlilegar umferðartafir.  Alvarlegastar eru tafirnir kvölds og morgna á höfuðborgarsvæðinu, og þar eru þær talsvert yfir þessu landsmeðaltali. Með rangri stefnumörkun hafa stjórnmálamenn rænt fólk þessum tíma, sem jafna má til lífkjaraskerðingar. Stjórnmálamenn hafa ekki leyfi til að nota þegnana sem tilraunadýr í þjóðfélagstilraun, sem kostar þegnana stórfé, algerlega að óþörfu, þegar nánar er að gáð. 

Það er alræmt, að stjórnmálamenn á vinstri vængnum líta á tekjur fólks sem eign hins opinbera.  (Hver á þá launþegann ?)  Þetta má marka af því, að í hvert sinn, sem hin frjálslyndari öfl stjórnmálanna leggja til lækkun á skattheimtu, kveður við spangól sósíalista um, að ófært sé við núverandi aðstæður að afsala hinu opinbera tekjum sínum.  

Nú kveður svo rammt að forræðishyggjunni, að hún leggur purkunarlaust og markvisst hald á sífellt meira af tíma fólks.  Dagur, borgarstjóri, og meðreiðarsveinar og -meyjar hans, munu á næsta kjörtímabili halda áfram að lengja ferðatíma fólks í Reykjavík, og vandamálið hefur nú náð til allra nágrannasveitarfélaga hennar á annatímum.  Undandarin 6 ár hefur ferðatíminn úr Grafarvogi til miðborgarinnar lengzt um 40 %.  Á næstu 4 árum, 2018-2021, má ætla, að hann aukist enn um 30 %, og mun ferðatíminn þá á 10 árum (árið 2021) hafa aukizt um 82 %.  Það þýðir, að með sama áframhaldi meirihluta borgarstjórnar um að gera ekkert til úrbóta, en halda áfram með fáránlegar breytingar á borð við þrengingar umferðaræða til að tefja fyrir umferð, verða tafirnar tvöfalt meiri árið 2021 en árið 2017 m.v. árið 2011.  Þessa óheillaþróun er auðvelt og hagkvæmt að stöðva.  Vilji er allt, sem þarf. Það er reynt að bera í bætifláka fyrir vitleysuna með því að bera við auknu öryggi gangandi, sem þurfa að þvera akstursleiðina.  Til að auka öryggið við þær aðstæður byggja menn brú yfir götuna eða grafa undirgöng.  Hálfkák á borð við tiltektir Hjálmars Sveinssonar og Dags er engum til sóma.  

Skipulagsstefna Dags og Hjálmars snýst um að halda úthverfamyndun í skefjum, en beina nýjum íbúðarhúsum inn á svæði sitt hvorum megin við væntanlega Borgarlínu.  Afleiðing af þessari stefnumörkun sósíalistanna í borgarstjórn er allt of lítið framboð byggingarlóða, langur byggingartími og dýrt húsnæði. Þessi stefna hefur, eins og oft gerist með sósíalismann, virkað þveröfugt við það, sem höfundar hennar ráðgerðu.  Hún átti að minnka ferðatíma, draga úr akstri, lækka ferðakostnað og draga úr losun koltvíildis. 

Fólkið hefur hins vegar leitað lóða og húsnæðis út fyrir borgarmörkin, allt austur til Selfoss og suður til Reykjanesbæjar.  Þetta hefur margfaldað akstursþörf margra og ferðatímann, stórhækkað ferðakostnaðinn og margfaldað losun koltvíildis, nema hjá þeim, sem fengið hafa sér tengiltvinnbíl eða rafbíl vegna aukinnar akstursþarfar.  Þeir hrósa nú happi á tímum verðhækkunar eldsneytis.    

Þetta ástand hefur sprengt upp húsnæðiskostnað á "stórhöfuðborgarsvæðinu", og nemur verð á íbúðum "fyrir fyrstu kaup" nú um MISK 40.  Leiguverðið fylgir húsnæðisverði, og eru nú 50 m2 íbúðir í Reykjavík leigðar fyrir a.m.k. 200 kISK/mán.  Síðan 2012 hefur leiguverðið á höfuðborgarsvæðinu hækkað um a.m.k. 50 % í boði Dags og fylgdarliðs hans í borgarstjórn.  Kjaraskerðing hjóna eða sambýlinga, sem leigja ofannefnda 50 m2 íbúð, er 67 kISK/mán, ef reiknað er með 50 % hækkun, sem rekja má til gerræðislegrar hugmyndafræði sósíalistanna til að framkalla ástand sér að skapi.  Ef ráðstöfunartekjur parsins nema 500 kISK/mán, þá er þar um 13 % kjaraskerðingu að ræða.  

Slæm stjórnvöld eru dýr á fóðrum fyrir kjósendur.  Þegar kostnaðurinn af skipulagsstefnu Dags & Co. á sviði umferðar og húsnæðis, sem eru tvær hliðar á sama peningi, eru lagðar saman, nemur lífskjaraskerðingin fyrir Reykvíkinga í húsnæðishraki að lágmarki 15 %  f.o.m. 2012, að öðru óbreyttu. Af þessu hefur auðvitað leitt fjölgun húsnæðislausra í Reykjavík, og eru þau nú yfir 600 talsins, sem óstaðsett eru í hús.  

Að fátækt skuli þannig aukast í blússandi góðæri virkar sem mótsögn, en þegar framfærslukostnaður hækkar meira en laun og/eða styrkir/bætur frá hinu opinbera, þá er aukin fátækt niðurstaðan.  Þetta minnir óneitanlega á Venezúela og er ekki huggun harmi gegn. Venezúela var eitt efnaðasta land Suður-Ameríku um síðustu aldamót vegna olíuvinnslu og álvinnslu.  Upp úr aldamótunum komst þar sósíalistaflokkur Hugos Chavez til valda, og eftir andlát hans hékk sósíalistaflokkurinn enn áfram við völd undir forystu Nicholas Maduro.  Er nú svo komið fyrir Venezúela, að þjóðin sveltur heilu hungri, velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið eru hrunin, hagkerfið er hrunið, bólívarinn einskis virði og ríkissjóður gjaldþrota.

  Þannig hefur farið fyrir öllum, sem dýrkað hafa Karl Marx, Friedrich Engels, lærisveina þeirra og kenningar um afnám einkaeignarréttar, stéttastríð og að lokum alræði öreiganna, sem þýðir opinberan rekstur á öllu, stóru sem smáu.  Undantekning er kínverska útgáfan af kommúnisma, þar sem hagkerfinu var bjargað frá hruni með því að leyfa einkarekstri að starfa í hagkerfi undir stjórn Kommúnistaflokksins.  Hvort sú tilraun heppnast í Kína, er enn ekki til lykta leitt.  

Daufari útgáfu af kenningunum, s.k. lýðræðissósíalisma (socialdemocracy) eða jafnaðarstefnu, hefur líka rekið upp á sker, t.d. í Svíþjóð um 1990, en um það leyti söðluðu Svíar algerlega um, enda hafði skattaáþjánin kyrkt allan hagöxt, atvinnuleysi fór vaxandi og skuldir ríkissjóðs voru orðnar þungbærar.  Alls staðar í Evrópu fjarar undan jafnaðarmönnum í kosningum um þessar mundir.  Þeir, sem virða fyrir sér verk jafnaðarmanna á Íslandi, skilja hvers vegna.    

  

 


Úreltar skipulagshugmyndir baka bara vandræði

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur gerzt sérstakur talsmaður mjög illa ígrundaðrar skipulagshugmyndar fyrir höfuðborgarsvæðið, sem gengur undir nafninu Borgarlína.  Hugmyndin er að skapa sérakreinar fyrir hraðvagna, BRT (Bus Rapid Transfer), eftir helztu umferðaræðum höfuðborgarsvæðisins.  Þetta mun óhjákvæmilega víða þrengja að almennri bílaumferð.  Vandamálið, sem hraðvagnakerfið á að leysa, umferðarstíflur og sífellt lengri ferðatími á álagstoppum umferðar kvölds og morgna, mun þess vegna versna með Borgarlínu.

Sé litið til annarra borga, þar sem BRT hefur verið innleitt, hefur sú innleiðing haft sáralítil áhrif á fjölgun bíla í umferðinni.  Borgarlínan, sem áætlað er, að kosta muni miaISK 80 á næstu 20 árum, mun þess vegna engan vanda leysa, en tefja óhóflega fyrir þörfum umbótum á umferðarmannvirkjum vegna mikillar fjárþarfar úr sjóðum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæði og úr ríkissjóði og valda þar með slysaaukningu og verra heilsufari þéttbýlisbúa vegna aukinnar mengunar.

Borgarlína er lausn 20. aldarinnar á umferðarteppum í miklu þéttbýlli löndum en Ísland er og með margfalt fleira fólk meðfram umferðarásum hennar en hér tíðkast.  Þau eru anzi aftarlega á merinni, sem nú boða rándýrt og óviðeigandi afturhvarf til fortíðar í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins.

Nú er í þróun og á næstu grösum tækni 21. aldarinnar hjá öllum helztu bílaframleiðendum heimsins.  Hér er ekki átt við rafbílabyltinguna, sem er að hefjast og birtast mun bílakaupendum og öðrum í öllu sínu veldi strax um 2020.  Sem dæmi ætlar VW-samsteypan, stærsti bílaframleiðandi heims 2017, að afhenda rafknúinn valkost af öllum sínum bílgerðum á næsta áratugi.  Árið 2025 á fjórðungur framleiðslu samsteypunnar að verða rafknúinn. Viðsnúningur samsteypunnar eftir útblásturshneykslið 2015 er aðdáunarverður og sannar enn snilli og seiglu Þjóðverja, þegar þeir komast í hann krappan. Hröð rafvæðing framleiðslunnar er einmitt stefnumörkunin út úr þessum mengunarálitshnekki og a.m.k. miaUSD 40 fjárhagsskelli.

Það er hins vegar önnur þróun, sem, ásamt nýjum umferðarmannvirkjum, mun leysa úr umferðarhnútum höfuðborgarsvæðisins.  Það er AV (Autonomous Vehicles).  Hér verður þessi tækni kölluð SF eða sjálfvirk fartæki.  Þá má spyrja, hvernig SF geti leyst úr umferðarhnútum ?

Þann 3. marz 2018 birtist ítarleg grein í The Economist, "Reinventing wheels", sem svarar þessari spurningu.  Þar kemur fram, að fjöldi bifreiða í borgum heimsins sé nú um 1,05 milljarður talsins og muni ná hámarki árið 2027 og verða þá um 1,15 milljarður talsins.  Á 10 árum muni bifreiðum í borgum síðan fækka niður í 0,45 milljarð eða um 0,7 milljarða frá hámarkinu og síðan vaxa hægt með fjölgun SF.  Fækkun bifreiða í borgum frá núverandi fjölda og niður í lágmarkið um miðjan 4. áratuginn er 57 %.  Í borgum, þar sem þessi þróun verður, mun hún fara langt með að útrýma tímasóun í borgarumferð.  Á stórhöfuðborgarsvæði Íslands, þ.e. austan frá Selfossi, vestan frá Keflavíkurflugvelli og norður að Borgarnesi verður samt ekki hjá því komizt að hafa hið minnsta tvær akreinar í hvora átt inn til Reykjavíkur, leggja Sundabraut á brú og/eða í göngum og sprengja fyrir nýjum Hvalfjarðargöngum.  Þá verður heldur ekki komizt hjá því að auka verulega flæðið og öryggið á helztu gatnamótum höfuðborgarsvæðisins. 

Hvað knýr fram þessa hröðu þróun nýrra fartækja ?  Það mun verða markaðssetning "robotaxis", sem nefna má ökuþjarka.  Þar er um að ræða sjálfvirk fartæki, SF, sem taka nokkra farþega, e.t.v. 5-10 í sæti, og hægt verður að panta þjónustu af þeim með smáforriti í síma frá dyrum til dyra. 

Þótt ökuþjarkarnir verði dýrir vegna stórra rafgeyma eða "efnarafala", dýrra skynjara (myndavélar, radar og LIDAR) og mikils hugbúnaðar, e.t.v. um 100 kUSD/stk frá verksmiðju, þá mun notkun þeirra innanbæjar samt verða mjög hagkvæm fyrir almenning í samanburði við t.d. kostnaðinn við að eiga bíl í bæjarsnattið. Á heimsvísu er talið, að kostnaður notenda SF gæti numið um 0,37 USD/km eða tæplega 40 ISK/km m.v. 105 ISK/USD.  Kostnaður við að eiga og reka fólksbíl er talinn á heimsvísu vera tvöfalt hærri og við að nota hefðbundinn leigubíl um 4,2 sinnum hærri. Drifkraftur hinnar öru innleiðingar mun verða sparnaður fjár og  tíma, aukið öryggi og heilnæmara umhverfi. 

Kostirnir við þessa nýju tækni eru gríðarlegir, og það hafa bílaframleiðendur nú sannfærzt um með tilraunum sínum.  Fyrst má þar tiltaka aukið öryggi á vegum í þéttbýli, og væntanlega munu sjálfvirk fartæki einnig aka um á þjóðvegum landsins eftir 2040.  Árlega látast um 1,25 milljón manns í bílslysum í heiminum um þessar mundir samkvæmt WHO-Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni, sem eru a.m.k. tvöfalt fleiri dauðsföll en á Íslandi að tiltölu.  Umferðarslys eru megindauðaorsök ungmenna á aldrinum 15-29 ára.  Í umferðarslysum slasast árlega 20-50 milljón manns í heiminum eða 28 fyrir hvern látinn. Að tveimur áratugum liðnum verður þessi mikla umferðarslysatíðni talin vera mikill ljóður á ráði nútímans.

Umfangsmiklar tilraunir fara nú fram í mörgum borgum heimsins með SF í venjulegri umferð og lofa góðu.  Viðbragð SF við óvæntum atburðum er þúsund sinnum hraðar en mannsins, og af reynslynni hingað til að dæma þykir raunhæft að ætla, að slysatíðnin, þar sem SF kemur við sögu, muni verða aðeins 1/1000 af því, sem nú er í þéttbýli.  Sem dæmi um þann gríðarlega toll, sem umferðarslys taka af mannfólkinu, má taka Bandaríkin.  Á tímabilinu 2000-2017 létust þar um 650´000 manns í umferðinni.  Það er um 20´000 fleiri en þeir Bandaríkjamenn, sem féllu í öllum styrjöldum 20. aldarinnar, sem Bandaríkjamenn tóku þátt í.  

SF munu langflest verða rafknúin, hvort sem orkan mun koma frá vetnishlöðu eða rafgeymi.  Ökutækjum á götunum fækkar og sennilega sliti gatna líka, svo að loftgæði í þéttbýli munu batna, þó aðallega vegna orkuskipta, sem koma hvort sem er.  Svissneski bankinn UBS spáir 20 %- 30 % meiri raforkunotkun í Evrópu árið 2050 vegna orkuskipta fartækja á landi. Þá er eftir að bæta við raforkuþörf skipa og flugvéla auk alls kyns hitunarferla. Á Íslandi má hins vegar reikna með hærra hlutfallinu að öllum orkuskiptunum meðtöldum.  Ástæðan er sú, að raforkunotkun landsmanna er nú þegar sú mesta í heiminum reiknuð á hvern íbúa, enda er nánast öll raforkan úr orkulindum, sem taldar eru til endurnýjanlegra og sjálfbærra linda.

Umferðartíminn á km á annatímum mun sennilega styttast vegna fækkunar ökutækja og skynsamlegra vals á ökuleiðum m.t.t. lágmörkunar á töfum, en á móti koma meiri krókaleiðir með farþega áður en þeim síðasta er skilað á áfangastað.  Hitt þarf að taka með í reikninginn, að allir geta farþegarnir sinnt misaðkallandi verkefnum á leiðinni, talað í síma eða átt önnur samskipti á netinu. 

Talið er, að Bandaríkjamenn sitji fastir í umferðinni eða leiti sér að bílastæði í 30 milljarða klukkustunda á ári, sem er tímasóun, sem þeir geta sparað sér með SF. Fært til Íslands eftir höfðatölu eru þetta rúmlega 30 milljónir klst.  Samtök iðnaðarins, SI, hafa lagt mat á tímasóun í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu hérlendis og komizt að þeirri niðurstöðu, að ferðatíminn á álagstíma úr Grafarvogi til miðborgar hafi á tímabilinu 2011-2017 (6 ár) aukizt um 40 % og að tímasóunin, þ.e. umferðartafir, nemi um 5,5 milljón klst á ári.  Gizka má á, að á landinu öllu geti þessi tímasóun í bílaröðum numið 7,5 milljón klst eða rúmlega 2 % af heildarvinnutíma landsmanna.  Þessari sóun má líkja við 2 % kjaraskerðingu, sem að mestum hluta er í boði borgaryfirvalda Reykjavíkur.  Hún er að vísu hlutfallslega aðeins 1/4 af tímasóun Bandaríkjamanna í umferðinni, en tilfinnanleg samt, af því að hún er að mestu leyti óþörf.  

 

 

 

 

  

 


Fjárráðstafanir sveitarfélaga misjafnar að gæðum

Til langframa skiptir mestu máli fyrir velferð fólks, hvernig það og fyrirtæki landsins verja aflafé sínu, svo og yfirvöldin, sveitarfélög og ríkisvaldið. Sveitarfélögin hafa lengi tekið til sín vaxandi hluta landsframleiðslunnar, og hefur þessi hluti vaxið úr 7 % í 13 % af VLF á tímabilinu 1980-2017 eða tæplega tvöfaldazt á tæplega 40 ára skeiði.  Heildartekjur A-hluta, þ.e. sveitarfélagssjóðanna, eru taldar munu nema tæplega miaISK 360 árið 2018 og verða þá um 43 % af tekjum ríkissjóðs.  Hér er um mikla fjármuni að ræða, og ráðstöfun þeirra hefur áhrif á hag allra fjölskyldna í landinu.  

Útsvarstekjurnar eru stærsta tekjulindin og nema um 80 % af skatttekjum sveitarfélaganna og 62 % af heildartekjum.  Ríkisvaldið setur gólf og þak á útsvarsheimtuna, en slíkt er umdeilanlegt í ljósi þess, að samkeppni á að ríkja um íbúana á milli sveitarfélaganna.  Á höfuðborgarsvæðinu er Reykjavík eina sveitarfélagið, sem beitir hæstu leyfilegu útsvarsálagningu, 14,52 % af tekjum þegnanna, enda hefur fjölgun þar orðið einna minnzt á höfuðborgarsvæðinu, en það er reyndar einnig af lóðaskorti, sem er óáran af mannavöldum.

  Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur heitið því að lækka álagningu útsvars niður í 13,98 % á næsta kjörtímabili í 4 áföngum, þrátt fyrir mjög bága stöðu borgarsjóðs.  Það þýðir, að í lok kjörtímabilsins verður útsvarsheimtan 96 % af því, sem hún er núna.  Þetta er skref í rétta átt, sem skilar nokkrum þúsundköllum í vasa útsvarsgreiðenda í Reykjavík á mánuði, ef þeir kjósa svo, og mun ásamt fleiri vaxtarhvetjandi aðgerðum veita höfuðborginni viðspyrnu í samkeppninni.

Það er óeðlilegt, og reyndar sjúkdómseinkenni, að stærsta sveitarfélagið nái ekki að nýta sér hagkvæmni stærðarinnar og þá kosti að hýsa helztu stjórnsýslustofnanir ríkisins, eina háskólasjúkrahúsið, tvo háskóla, miðstöð samgangna innanlands og þannig mætti lengi telja tekjulindirnar, sem önnur og minni sveitarfélög njóta ekki, til að lækka útsvar á íbúana úr hámarkinu. 

Það er hins vegar fyrir neðan allar hellur, að borgarsjóður skuli undanfarin 8 ár hafa verið rekinn með dúndrandi tapi, svo svakalegu, að skuldirnar hafa tvöfaldazt á þessu góðæristímabili að raunvirði.  Skuldirnar hafa vaxið hraðar en tekjurnar, svo að skuldir borgarsjóðs sem hlutfall af tekjum hafa hækkað á 8 árum úr 56 % í 85 %. Á þessu kjörtímabili, einstöku góðærisskeiði, hefur skuldaaukningin numið miaISK 32 eða 8 miaISK/ár, og skuldir A-hluta nema nú yfir miaISK 100.

Skuldir OR hafa lækkað, en samt stefnir í, að skuldir samstæðunnar, A+B hluta bókhaldsins, fari yfir viðmiðunarmörk sveitarfélaganna á næsta kjörtímabili, og þá missir höfuðborgin í raun fjárhagslegt sjálfstæði sitt. Þegar svona er grafið undan fjárhag borgarinnar, er verið að draga úr getu hennar til að veita sómasamlega þjónustu í framtíðinni og til fjárfestinga eða til að mæta efnahagsáföllum.  Satt að segja vitnar þessi staða mála um fádæma búskussahátt að hálfu þeirra, sem undanfarin 8 ár hafa stjórnað málefnum borgarinnar. Um mikilvægi góðrar fjármálastjórnar  fyrir íbúana þarf ekki að fjölyrða, en um skattheimtuna skrifaði Óli Björn Kárason, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Kraganum þann 16. maí 2018:

"Mýtan um að hugmyndafræði skipti litlu":

"Fyrir launafólk skiptir miklu, hvaða stefna er rekin í skattheimtu sveitarfélagsins.  Útsvarsprósentan skiptir láglaunafólk meira máli en hvað ríkissjóður ákveður að innheimta í tekjuskatt.  Sá, sem hefur 300 þúsund krónur í mánaðarlaun greiðir helmingi meira í útsvar en í tekjuskatt til ríkisins (ef hann greiðir þá nokkuð [þangað]).  Í heild greiða Íslendingar mun meira í útsvar en í tekjuskatt.  Lækkun útsvars er stærra hagsmunamál fyrir flesta en að þoka tekjuskattsprósentu ríkisins niður."

Það, sem skilur á milli góðrar og slæmrar fjármálastjórnar, er fjármálavitið, þ.e. að kunna að greina á milli ólíkra valkosta við fjárráðstöfun.  Sá, sem hefur gott fjármálavit, ráðstafar takmörkuðu fé til hámarksgagnsemi fyrir eigandann, en sá, sem er án fjármálavits, kastar perlum fyrir svín og fleygir fé umhugsunarlaust í gæluverkefni án tillits til notagildis eða sparnaðar af fjárfestingunni.

Stærsti kostnaðarliður borgarinnar eru menntamál, forskóli og grunnskóli.  Þar tekst borginni að ausa út fé án nokkurs sýnilegs árangurs á alþjóðlega mælikvarða.  Af lýsingunum hér á eftir að dæma fer óhæft lið með æðstu stjórn skólamála borgarinnar, og borgarstjórinn er þar utan gátta, eins og hans er von og vísa.  

Brynjar Níelsson, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, skrifaði í Morgunblaðið, 7. maí 2018,

"Illa ígrunduð menntastefna Reykjavíkurborgar".

Hún hófst þannig:

"Yfirskrift þessarar greinar er fengin að láni hjá fráfarandi skólastjóra Réttarholtsskóla, Jóni Pétri Zimsen, og kom fram í viðtali við hann á mbl.is.  Undir stjórn hans hefur Réttarholtsskóli náð góðum árangri, bæði í innlendum og erlendum samanburði.  Jón Pétur hefur verið gagnrýninn á aðgerðir og stefnu skólayfirvalda í borginni og segir ófagleg vinnubrögð og skeytingarleysi þeirra í garð skólanna eiga m.a. þátt í því, að hann ákvað að hætta sem skólastjóri.  Þegar farsæll skólastjóri segir upp störfum, ætti það að vera borgarbúum áhyggjuefni."

Hér er varpað ljósi á óhæfni yfirstjórnar skólamála í Reykjavík.  Ætla foreldrar í höfuðstaðnum bara að yppa öxlum, láta sem ekkert sé og endurkjósa liðið, sem stjórnar Skóla- og frístundaráði Reykjavíkur ?  Það mundi bera vitni um ótrúlegt skeytingarleysi um hag barnanna að reyna ekki að hrista upp í þessu rotna liði og fá nýja vendi til að sópa ósómanum út í stað þess, að núverandi valdhafar sópa öllu undir teppið.

Um menntastefnu borgarinnar og getu- og metnaðarleysi núverandi valdhafa þar á bæ skrifaði Brynjar Níelsson:

"Niðurstaðan er sú, að enginn veit í hverju þessi menntastefna borgarinnar felst, en vitað er, að hún hefur skilað dýrasta grunnskóla innan OECD og slökum árangri í samanburði við aðrar þjóðir.  Ábyrgð á því ber meirihlutinn í borginni, en ekki þúsundir manna, sem Skúli Helgason og Dagur B. Eggertsson hafa talað við."

Annað svið borgarmálanna, sem ber vitni um algert skilningsleysi borgaryfirvalda á því, hvernig beztur árangur næst fyrir þorra borgarbúa fyrir hverja krónu, sem varið er í málaflokkinn, er samgöngusviðið.  Dagur, borgarstjóri, og Hjálmar, formaður Umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, stefna ótrauðir út í fullkomið fjárfestingarforrað, sem hægja mun enn meir á bílaumferðinni, en út af fyrir sig draga sáralítið og ekki merkjanlega fyrir bílstjórana úr fjölgun bíla á götum borgarinnar, enda hefur Þórarinn Hjaltason, umferðarverkfræðingur og MBA, komizt að þeirri niðurstöðu, að: 

"Borgarlínan = Nýju fötin keisarans".

Undir þessari fyrirsögn skrifaði hann grein í Morgunblaðið, 14. maí 2018, sem hófst svona:

"Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa nýlega samþykkt þá breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040, að tekið var af skarið með það, að borgarlínan verði hraðvagnakerfi (Bus Rapid Transit, BRT).  Áður hafði verið gert ráð fyrir, að borgarlínan yrði annaðhvort hraðvagnakerfi eða léttlestakerfi.  Það var gersamlega út úr öllu korti að reikna með þeim möguleika að byggja léttlestakerfi upp á allt að 200 milljarða [ISK] fyrir árið 2040.  Það er nógu galið að ætla sér að byggja hraðvagnakerfi upp á 80 milljarða [ISK], sem er mun hærri upphæð en hefur farið í uppbyggingu þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu sl. 20 ár."

Heilbrigð skynsemi ætti að skjóta kjósendum í Reykjavík, og reyndar landsmönnum öllum, skelk í bringu yfir því, að þvílík áform um sóun á almannafé skuli vera uppi í borgarkerfinu og hjá skipuleggjendum höfuðborgarsvæðisins fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018.  Að beztu manna yfirsýn munu þessar rándýru fyrirætlanir Samfylkingarmannanna Dags og Hjálmars o.fl. aðeins gera illt verra í umferðarmálum höfuðborgarsvæðisins og skipulagsmálum Reykjavíkur, og var þó ekki á bætandi, eins og Þórarinn vék að í téðri grein:

"Eins og ég benti á í grein í Morgunblaðinu í marz sl., mun borgarlínan í bezta falli leiða til þess, að bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu verði um 4 % minni en ella árið 2040.  Erlendar reynslutölur benda til þess, að líklega verði árangurinn aðeins 2-3 % minni bílaumferð en ella [gæti þá orðið um 10 % meiri en 2018-innsk. BJo]. Til að ná þessum takmarkaða árangri þarf nánast öll uppbygging á höfuðborgarsvæðinu að vera í formi þéttingar byggðar meðfram samgönguásum borgarlínunnar.  Auk þess þarf að setja þröngar takmarkanir á fjölgun bílastæða og taka vegtolla á höfuðborgarsvæðinu."

Hliðarskilyrði Borgarlínu, sem Þórarinn þarna nefnir, ættu ein og sér að fella Borgarlínuna alveg út af kortinu sem tæka lausn.  Í stað þessarar skipulagslegu ófæru og fjárhagslega kviksyndis þarf að velja lausnir, sem virka og kosta í mesta lagi þriðjung á við Borgarlínu fram til 2040.  Þær eru að brjóta nýtt land undir byggð og atvinnustarfsemi í austurhluta borgarinnar, samhæfa ljósastýringu og beina gangandi umferð undir eða yfir umferðaræðar, fækka ljósastýrðum gatnamótum með umferðarbrúm og fjölga akreinum, sumpart fyrir almenningsvagna, leigubíla og tæki með 3 eða fleiri innanborðs.   

 

 

 


Hagsmunir Íslands og Noregs gagnvart Orkusambandi ESB

Noregur er mikið orkuland, og næst á eftir Rússlandi mesti gasbirgir Evrópusambandsins, ESB. Norðmenn minnast enn Fyrstu gasmarkaðstilskipunar ESB frá 1998, sem tók réttinn af birgjum á norsku landgrunni til að standa sameiginlega að samningum við ESB-ríkin um magn og verð. Þar gaf ESB tóninn fyrir það, er koma skyldi í hagsmunagæzlu sinni fyrir hinar orkuhungruðu þjóðir sambandsins.  

Nú vinnur ESB að því að samræma afstöðu kaupendanna, til að þeir komi sameinaðir að samningaborðinu um gasafhendingu af norsku landgrunni.  Þannig breytir ESB styrkhlutfallinu Noregi í óhag, þegar hentar. ESB setur leikreglurnar hverju sinni í samskiptum Evrópuríkjanna og skeytir þá ekkert um jafnræði eða sanngirnissjónarmið. Það er einmitt í þessu samhengi, sem menn verða að líta á ACER sem skref í þá átt að færa ESB völdin yfir innviðunum, ekki með því, að ESB eignist þá, heldur með því, að ESB stjórni notkuninni.

Með ráðgerðum sæstrengjum til útlanda verður unnt að flytja út um helming allrar raforkuvinnslu á Íslandi og í Noregi til núverandi ESB-landa.  Bretland getur orðið milliliður á milli þessara landa hreinna orkulinda og hins stóra orkukaupanda slíkra orkulinda, ESB. Í umræðunni um ACER á Íslandi og í Noregi hefur verið fullyrt, að "Þriðji orkubálkurinn" komi sæstrengjum til útlanda eða orkustjórnsýslunni innanlands ekkert við.  Þetta sjónarmið er úr lausu lofti gripið og ber vott um blekkingaleik eða vanþekkingu. Hvorugt er til vitnis um góða stjórnsýslu eða góða dómgreind. 

Þau, sem halda þessu fram, horfa framhjá þeirri staðreynd, að hlutverk ACER er m.a. að sjá til þess, að aðildarlöndin framfylgi og styðji í hvívetna kerfisþróunaráætlun ESB.  Þar með er einmitt innviðauppbygging fyrir sæstreng orðin að einu af verkefnum hinnar nýju Orkustofnunar, sem nefnd hefur verið "landsreglari" eða orkuvaldsstofnun hérlendis (til aðgreiningar frá stjórnvaldsstofnun), sem lúta á stjórn ACER um milliliðinn ESA (í EFTA-ríkjunum) og verður óháð innlendum stjórnvöldum.

Halda menn, að "Ice Link" sé í Kerfisþróunaráætlun ESB upp á punt ?  Hafa einvörðungu sveimhugar komið að umfjöllun íslenzkra stjórnvalda um Orkusamband ESB, eða eru þar á ferð taglhnýtingar ESB ?  

Í Noregi er umdeildur sæstrengur til Skotlands, "NorthConnect" á vegum einkaaðila og á Íslandi er "Ice Link" á vegum Landsnets, Landsvirkjunar og dótturfélags brezka Landsnets; báðir eru á forgangsverkefnalista ACER um verkefni sameiginlegra hagsmuna ESB-landanna, PCI (Projects of Common Interests). ESB hefur veitt MEUR 10 eða miaISK 1,2 til verkefnisundirbúnings, forhönnunar "NorthConnect", en upplýsingar vantar enn varðandi verkefnisstöðu "Ice Link", nema hann á að taka í notkun árið 2027. 

Ef Alþingi samþykkir innleiðingu Þriðja orkubálksins í EES-samninginn, og Orkustofnun hafnar síðan umsókn um "Ice Link" frá eigendafélagi hans eða umtalsverðar tafir verða á undirbúningi hans, t.d. vegna umhverfismats á flutningslínum að landtökustað sæstrengsins og endabúnaði hans, sem verða gríðarstór tengivirki á íslenzkan mælikvarða, um 1500 MVA afriðla- og áriðlastöðvar ásamt sveifludeyfandi búnaði, þá mun orkuvaldsstofnuninni, "landsreglaranum", verða skylt að tilkynna þá stöðu mála til ACER sem frávik frá kerfisþróunaráætlun ESB. Hver halda menn, að hafi töglin og hagldirnar, ef/þegar þessi staða kemur upp ? Kötturinn eða músin ?  

Það leikur enginn vafi á því, að innan ESB verður ekki tekið á slíku með neinum silkihönzkum, enda túlkað sem brot á grundvallarreglu Þriðja orkubálksins um aukin raforkuviðskipti aðildarlanda Orkusambandsins.  Eigendur "Ice Link" geta kært höfnun leyfisveitingar til íslenzks dómstóls eða EFTA-dómstólsins, en réttarfar ESB mun ráða niðurstöðunni.  Þessi staða dómskerfisins er auðvitað algerlega óviðunandi fyrir "sjálfstæðar" þjóðir í EFTA.  

Völd ACER munu enn verða aukin:

Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB var samþykktur af æðstu stofnunum ESB árið 2009.  Síðan þá hefur Framkvæmdastjórnin kynnt og að nokkru fengið samþykkt áform sín um víðtækara Orkusamband.  Í tilkynningu Framkvæmdastjórnarinnar um þetta kom einnig fram viljayfirlýsing hennar um Noreg: "ESB mun halda áfram á þeirri braut að flétta Noreg að fullu inn í innri orkustjórn sambandsins".   Ekki hefur sézt neitt viðlíka um Ísland, en það á sér líklega pólitískar skýringar.  

Þungvægt atriði í Orkusambandinu er að auka völd ACER.  Stefnumið Framkvæmdastjórnarinnar er, að ákvörðunarferli orkustofnana aðildarlandanna verði allt miðlægt.  Þetta þýðir, að "landsreglarinn", útibú ACER, yfirtekur það, sem eftir er af Orkustofnun.  Jafnframt verða völd ACER aukin varðandi mál, sem snerta fleiri en eitt aðildarland.  Þetta þýðir auðvitað, að sjálfstæði Íslands í raforkumálum hverfur algerlega í hendur ESB.  Þar með nær ESB tangarhaldi á efnahagsstjórnun landsins.  Þessari framtíðarsýn verða Alþingismenn að velta fyrir sér, þegar þeir ákveða, hvernig þeir greiða atkvæði um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.  Þetta er í grundvallaratriðum önnur sýn en haldið hefur verið fram í algerum óvitaskap eða löngun til að binda sitt trúss við ESB. 

Varðandi Landsnet er hér t.d. um að ræða að semja  netmála, sem ákvarða, hvernig rafstraumnum er stjórnað í flutningsmannvirkjum á milli landa.  Stefnt er að ákvarðanatöku í ACER með einföldum meirihluta, en ekki auknum meirihluta, eins og nú er.  Þegar Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn hefur verið staðfestur inn í EES-samninginn (samþykkt Alþingis vantar), mun koma krafa frá ESB um, að téðar viðbætur verði teknar inn að auki.  Þetta er hin dæmigerða spægipylsuaðferð ESB.  Norska ríkisstjórnin andmælti því í Sameiginlegu EES-nefndinni á sínum tíma, að ACER fengi meiri völd en hún hefur samkvæmt Þriðja bálkinum.  Þróun mála nú innan ESB sýnir, að ESB hefur algerlega hunzað þetta sjónarmið Noregs.  Hver var afstaða íslenzku ríkisstjórnarinnar 2017 um þetta álitaefni ? 

Það er í raun og veru þannig orðið, að stjórnmálaleg stefnumörkun, sem snertir EES-samstarfið, þolir ekki lengur dagsljósið.  Skýringin á því er sú, að hún felur í sér gróft Stjórnarskrárbrot í hverju málinu á fætur öðru.  Þessi hluti utanríkisstefnunnar stefnir í algert óefni, enda virðist bæði skorta þekkingu og vilja til að taka sjálfstæða afstöðu til málanna, sem streyma frá ESB til EFTA.  Þetta ólýðræðislega samkrull mun enda með stórslysi ("point of no return"), ef ekki verður snarlega bundinn endi á það.  

 

 


Yfirþjóðleg stofnun leidd til öndvegis

Evrópusambandið (ESB) hefur grafið undan EES-samstarfinu (Evrópska efnahagssvæðið) með því að heimta af EFTA-löndunum í EES, að þau taki við fyrirmælum frá stofnunum ESB, eins og EFTA-löndin væru nú þegar gengin í ESB. Það breytir aðeins forminu, en ekki hinu stjórnlagalega inntaki þessa fyrirkomulags, að ESA - Eftirlitsstofnun EFTA - er látin taka við fyrirmælunum og gera um þau samhljóða samþykktir áður en þau eru send útibúi ESB-stofnunarinnar í EFTA-landinu til framkvæmdar. Útibúið, sem kallað hefur verið landsreglarinn, verður óháð stjórnvöldum landsins og mun móta hér stefnuna í raforkuflutningsmálum þjóðarinnar, verði Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB innleiddur í EES-samninginn.

ESA hefur ekki þegið neinar heimildir til að fjalla efnislega um og breyta fyrirmælum ESB-stofnunarinnar, ACER, og þess vegna er þessi uppsetning lögformlegt fúsk, ætluð til að friða þá, sem enn telja, að EES eigi að starfa samkvæmt upprunalegu tveggja stoða kerfi jafnrétthárra aðila. Tveggja stoða kerfið er sýndarmennska ein og skær. Blekkingariðjan heldur ekki lengur vatni og stenzt ekki Stjórnarskrá.  EES-samstarfið er nú byggt á sandi.

ACER (Orkustofnun ESB) hefur nú þegar tekið bindandi ákvarðanir um kostnaðarskiptingu á milli ESB-landa, sem varða upphæðir, er nema hundruðum milljarða ISK.  Árið 2014 ákvarðaði ACER kostnaðarskiptingu fyrir gaslögn á milli Póllands og Eystrasaltslandanna, þar sem Lettlandi, Litháen og Eistlandi var gert  að greiða sem nemur tugum milljarða ISK til Póllands.  

ACER hefur líka vald til að ákvarða nýtingu á flutningsgetu flutningskerfis yfir landamæri.  Hún  snýst ekki um samningaviðræður, eins og sumir hérlendis hafa látið í veðri vaka, heldur ræður hið  yfirþjóðlega vald, ACER, hvernig flutningsgetan er nýtt.  Bent hefur verið á þá miklu áhættu, sem slíkt felur í sér fyrir nýtingu og rekstur íslenzka vatnsorkukerfisins, sem hefur tiltölulega litla miðlunargetu og má lítt við miklum sveiflum í vatnsrennsli.  

Ef Ísland og ESB-land lenda í orkudeilum, getur ACER úrskurðað í deilumálinu.  ACER gjörðin í Þriðja orkubálkii veitir ákvarðanavald eftir nokkrum leiðum:

  • Kafli 7 veitir ACER vald til ákvarðanatöku um s.k. tæknileg viðfangsefni.  Þannig mun stofnunin ákveða reglurnar um aflflutning um sæstrengina.  Þetta felur í sér mikla áhættu fyrir íslenzka raforkukerfið, sem þarf stjórnunar við til að lágmarka hér hættu á raforkuskorti, og til að girða fyrir of snöggar breytingar á lónsstöðu eða vatnsrennsli.
  • Kafli 8 veitir ACER völd til að úrskurða í deilumálum stofnana eða fyrirtækja í þjóðríkjunum, eða, ef stofnunin telur vera of litla flutningsgetu í sæstrengjum, loftlínum eða gasrörum á milli landa, að fyrirskipa þá nauðsynlegar umbætur, sem oftast felast í nýjum mannvirkjum.  ACER getur ákveðið, hver skal greiða hvað í samstarfsverkefni tveggja eða fleiri landa.  

Ísland mundi ekki eiga aðild að ACER með atkvæðisrétti.  Við aðild að Orkusambandinu yrði Ísland hins vegar bundið af samþykktum ACER.  Í tilviki EFTA-landanna yrði sett á laggirnar kerfi, þar sem Eftirlitsstofnun EFTA-ESA- að forminu til á að gera samþykktir á vegum ACER, en samþykktin verður skrifuð hjá ACER og ljósrituð hjá ESA. Þannig er komið fyrir "tveggja stoða kerfinu". Þetta er dæmigerð sniðganga á upprunalegu tveggja stoða kerfi EFTA og ESB og dæmir EES-samninginn raunverulega úr leik.

Samþykkt ESA fer síðan til nýrrar valdsstofnunar á sviði orkumála, sem Norðmenn kalla RME hjá sér, "Reguleringsmyndighet for energi", sem samkvæmt regluverki ESB verður að vera óháð innlendu stjórnvaldi.  Nýja orkuvaldsstofnunin, sem kalla má útibú ACER á Íslandi, á að taka við fyrirmælunum frá ESA og framkvæma þau upp á punkt og prik; hvorki ríkisstjórnin né Alþingi getur sent henni nein tilmæli, hvað þá fyrirmæli.  Með þessu móti komast fyrirmæli ACER um milliliði óbreytt til íslenzkra aðila. Yfirþjóðleg stofnun, þar sem Ísland ekki er aðili, yrði einráð á mikilvægu málefnasviði á Íslandi.  Á slíkt að verða gjöf Alþingis til þjóðarinnar á 100 ára afmælisári fullveldis hennar ?  Er það draumsýn iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra ?  Það eru endemi að þurfa að varpa slíku fram, en málflutningur að hálfu ráðuneyta þeirra gefur því miður tilefni til þess.

Aðrir þættir í Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, þ.e. gjörð 714/2009 um raforkuflutning á milli landa, felur í sér valdflutning frá íslenzkum stjórnvöldum til ESA gagnvart einkaaðilum um það að sækja upplýsingar og sekta, ef upplýsingaskyldan er sniðgengin.  Þetta veitir ESA stöðu stjórnvalds á Íslandi, sem er klárt Stjórnarskrárbrot.  

Það er alveg makalaust, að fulltrúi Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni skyldi hafa verið látinn samþykkja þessi ósköp 5. maí 2017 í Brüssel. Það á eftir að kasta ljósi á það, hvernig það fór fram, og hverjir komu þar við sögu.  Augljóslega verður Alþingi að synja slíkum mistökum samþykkis.  Hér verður einfaldlega að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.    

  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband