Færsluflokkur: Bloggar

Flutningskerfi á fallanda fæti

Hvernig komið er fyrir flutningskerfi raforku á Íslandi er hneisa fyrir stjórnvöld orkumála í landinu.  Samkvæmt Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB, sem er hluti af orkulöggjöf landsins, á að vera eitt flutningsfyrirtæki í landinu, Landsnet, og það á að vera í eigu ríkisins.  Nú hefur iðnaðarráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi, sem m.a. kveður á um að falla frá ríkiseign á Landsneti.  Hvernig á þá að tryggja hlutlæga afstöðu Landsnets gagnvart nýjum og gömlum viðskiptavinum og jafnstöðu þeirra allra, t.d. jöfnu aðgengi að flutningskerfinu, ef hagsmunaaðilar munu geta keypt sig inn í Landsnet ? Þessi breytingartillaga iðnaðarráðherra kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum, efni hennar er hvorki á stefnuskrá flokks hennar, Sjálfstæðisflokksins, né samstarfsflokkanna í ríkisstjórn, og hún er andstæð Öðrum orkumarkaðslagabálki ESB, sem þó hefur lagagildi hér.  

Í þessu viðfangi er og rétt að minnast þess, að Landsnet á ekki að skila eigendum sínum beinni ávöxtun, heldur á að miða gjaldskrárnar við, að rekstur standi undir eðlilegu viðhaldi og framlegðin standi undir nauðsynlegum fjárfestingum í flutningskerfinu. Það er eitthvað bogið við þennan málatilbúnað ráðuneytisins, og Alþingismenn eiga ekki að leggja blessun sína yfir loðmullu, sem bæði brýtur í bága við reglur EES og grundvallarviðhorf um einokunarfyrirtæki samkvæmt lögum.    

Höfundur þessa pistils er ekki aðdáandi ríkisrekstrar, en þegar lög kveða á um einokun í einhverri starfsemi, eins og hér um ræðir, þá er ríkiseign nærtækust.  Nú er Landsnet í eigu fjögurra innlendra orkufyrirtækja og þannig óbeint að mestu í eigu ríkisins.  Þetta fyrirkomulag var hugsað til bráðabirgða, hefur reynzt gallað og er umkvörtunarefni á markaði. Það tryggir ekki skýlausa óhlutdrægni Landsnets gagnvart markaðsaðilum, og það er stjórnunarlega of þunglamalegt fyrir aðaleigandann, ríkissjóð, ef hann vill t.d. flýta einhverjum framkvæmdum í þágu þjóðarhags.  

Landsneti hefur gengið illa að þjóna hagsmunum ríkisins, og afleiðingin er fullnýtt og á köflum oflestað flutningskerfi, sem stendur frekari nýtingu umhverfisvænna orkulinda í landinu fyrir þrifum.  Þegar ríkisfyrirtæki stendur ekki undir væntingum, bregzt það þjóðinni, sem líður fyrir slíkt með lakari lífskjörum en ella staðbundið, hér á svæðum orkuskorts, fyrirtækjum vex vart fiskur um hrygg og hagvöxtur verður minni en ella, ef raforku vantar. Nægir hér að nefna Eyjafjarðarsvæðið sem dæmi.

Vanræksla ríkisvaldsins er komin á alvarlegt stig, þegar starfsmaður Landsnets skrifar grein í opinbert sérblað, sem líta má á sem ákall til ríkisstjórnarinnar um hjálp við vanda, sem fyrirtæki hans hefur ekki ráðið við frá stofnun sinni, þ.e. að láta flutningskerfið anna þörfum landsmanna allra, alls staðar á landinu.

Þann 24. maí 2018 birtist grein í Bændablaðinu eftir Jón Skafta Gestsson, sérfræðing á fjármálasviði Landsnets, með heitinu: 

"Raforkukerfi á brúninni".

Með henni birtust 2 kort.  Sýndi annað núverandi "mögulega orkuafhendingu frá meginflutningskerfi" og hitt "mögulega afhendingargetu frá meginflutningskerfi eftir fyrsta áfanga styrkinga", BLA-FLJ. 

Þessi fyrsti áfangi styrkinga Byggðalínu er ný 220 kV lína frá Blönduvirkjun um Rangárvelli á Akureyri til Kröflu og Fljótsdalsvirkjunar ásamt Suð-vesturlínu. Þessi styrking er nú mörgum árum á eftir áætlun, og er staðan svo alvarleg fyrir landsmenn, að Alþingi verður að taka í taumana og breyta þeim leikreglum, sem um þessi mál gilda núna, svo að óhóflegar tafir valdi landsmönnum ekki alvarlegum búsifjum. Það er ekki lengur valkostur að sitja með hendur í skauti og láta sem ekkert sé. Það er á ábyrgðarsviði iðnaðarráðuneytisins og Alþingis, að svo verði gert, en ekkert lífsmark sést í þá áttina.  Það er óásættanlegt m.v. tjónið, sem af aðgerðaleysinu hlýzt.

  Hér verða sveltir afhendingarstaðir raforku taldir upp ásamt afhendingargetu núna og eftir frumstyrkingu:

  • Fitjar: 0 MW, verður 70-150 MW (1) eftir SV-línu
  • Rauðimelur: 0 MW, verður 70-150 MW (1)
  • Brennimelur: 0 MW, verður 30-70 MW (2)
  • Vatnshamrar: 0 MW, verður 30-70 MW (3)
  • Hrútatunga: 10-30 MW, verður 10-30 MW (4)
  • Glerárskógar: 0 MW, verður 10-30 MW (5)
  • Geiradalur: 0 MW, verður 10-30 MW (5)
  • Mjólká: 0 MW, verður 0 MW (6)
  • Laxárvatn: 10-30 MW, verður 30-70 MW (4)
  • Blönduvirkjun: 10-30 MW, verður 30-70 MW (4)
  • Varmahlíð: 0 MW, verður 30-70 MW (7)
  • Rangárvellir: 0, verður 30-70 MW (7)
  • Krafla: 70-150 MW, verður 30-70 MW (8)
  • Þeystareykjavirkjun: 70-150 MW, 30-70 MW (8)
  • Bakki: 70-150 MW, verður 30-70 MW (8)

Ýmislegt vekur athygli við þessar upplýsingar:

 
  1. Þenslusvæðið á Suðurnesjum hefur ekki aðgang að neinni raforku frá aðveitustöðvunum þar fyrr en SV-lína hefur verið lögð. Sú lína er í kæruferli.
  2. Iðnaðarsvæðið á Grundartanga er svelt, þar til BLA-FLJ hefur verið lögð. Dráttur þegar úr hömlu.
  3. Vesturland verður svelt fram að framkvæmd BLA-FLJ.
  4. Norðurland vestra nýtur enn nálægðar sinnar við Blöndu.
  5.  Dalirnir og Vestfirðir eru sveltir.  Dalirnir og Barðaströnd fá úrbót með línu BLA-FLJ, en Vestfirðir ekki.
  6. Vestfirðir eru sveltir og verða áfram þrátt fyrir téða línu BLA-FLJ.  Þetta sýnir svart á hvítu, að fullyrðingar um, að engin þörf sé fyrir nýjar virkjanir á Vestfjörðum, af því að Vestfirðingar hafi Vesturlínu, er eintómt blaður út í loftið, reist á sandi þekkingarleysis á staðreyndum málsins.  Að hagur Vestfirðinga skuli ekkert vænkast í kjölfar fyrsta áfanga styrkingar Byggðalínu, sýnir með glöggum hætti, hversu vaxandi byggðarlögum Vestfjarða með sína öru atvinnuþróun bráðliggur á að fá aðgang að rafmagni frá nýrri virkjun á svæðinu.  Að hefjast handa við Hvalárvirkjun má ekki dragst lengur. Skipulagsstofnun ríkisins tefur nú málið.
  7. Bæði Skagafjörður og Eyjafjörður eru nú þegar og hafa allt of lengi verið í raforkusvelti.  Téður fyrsti áfangi Byggðalínustyrkingar fyrir norðan mun bæta úr brýnustu neyðinni. Eftir þær umbætur mun koma í ljós, hversu mikilvægar nýju virkjanirnar vestan og austan við þetta svæði verða öllu Norðurlandi, þ.e. Vestfjarðavirkjanir og Þeistareykjavirkjun ásamt hugsanlegri stækkun Kröfluvirkjunar.  
  8.  Þingeyjarsýslurnar eru nú einna bezt settar raforkulega  á landinu, hvað orkuvinnslugetu og orkuflutninga varðar.
Þann 26. marz 2018 felldi Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar til Landsnets vegna Lyklafellslínu 1.  Ætlunin er, að þessi 220 kV loftlína tengi saman aðveitustöðvar Landsnets á Sandskeiði og í Hafnarfirði, sem taka á við meginhlutverki Hamranessstöðvar, því að þangað eiga engar loftlínur að liggja í framtíðinni vegna byggðar.  Framhald uppbyggingar í Skarðshlíðarhverfi í Hafnarfirði er í uppnámi eftir úrskurðinn.
Ógilding téðrar nefndar á framkvæmdaleyfinu er reist á þeirri ályktun hennar, "að ekki sé sýnt fram á, að lagning jarðstrengs í stað háspennulínu sé raunhæfur kostur.  Þá sé ekki "... sýnt fram á, að jarðstrengskostir séu ekki raunhæfir og samanburður á umhverfisáhrifum þeirra og aðalvalkosts framkvæmdaraðila hafi ekki farið fram með þeim hætti, sem lög gera ráð fyrir", eins og komizt er að orði.", svo að vitnað sé í frásögn Morgunblaðsins, 27. marz 2018,
"Lyklafellslínu má ekki leggja".
 
Það er fádæma klaufaskapur af Landsneti og Hafnarfjarðarbæ að gera ekki umhverfismat og framkvæmdaleyfi þannig úr garði, að uppfyllt séu formleg lagaskilyrði.  Hitt er annað, að við blasir, að áhættan, sem Hraunvinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands nefna í kæru sinni, þ.e. "hætt[a] vegna mengunar, enda ætti línan að fara um vatnsverndarsvæði, hraunsvæði yrði raskað ..." yrði mun meiri af lagningu 220 kV jarðstrengs eða jarðstrengja um viðkvæmt svæði.  Í stað þess að tefja mikið hagsmunamál á formsatriði hefði úrskurðarnefndinni verið nær að kalla eftir greinargerð frá Hafnarfjarðarbæ um þetta tiltekna atriði.  Á innan við einni viku hefðu Landsnet og Hafnarfjarðarbær getað samið ítarlega greinargerð, þar sem sýnt er fram á, að mun minna umhverfisrask og mun minni hætta á mengunarslysi í viðkvæmu umhverfi verður við lagningu loftlínu en jarðstrengja á 220 kV spennu.
 
Þarna þarf ráðuneyti ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar, sem fer með orkumálin, að beita sér fyrir breytingu á erindisbréfi úrskurðarnefndarinnar, svo að vinna hennar verði skilvirkari en nú er.  Þessi endalausu kærumál eru allt of tafsöm og valda allt of miklu samfélagslegu tjóni, eins og nú standa sakir.  
 

 Háspennulína

 


Utanríkisráðuneyti á háskabraut - hvað gerir forseti ?

Utanríkisráðuneyti Íslands er orðið bert að einfeldningslegri rangtúlkun á mati lagaprófessors og sérfræðings í Evrópurétti á því, hvort innleiðing nýrrar persónuverndarlöggjafar Evrópusambandsins, ESB, í EES-samninginn, og þar með upptaka löggjafarinnar í lagasafn Íslands, brjóti í bága við stjórnarskrá Íslands eða ekki. 
Stefán Már Stefánsson var stjórnvöldum til ráðuneytis á undirbúningsstigum málsins og skrifaði skýrslu.  Utanríkisráðherra og hans fólk virðast hafa lesið hana eins og skrattinn Biblíuna, þ.e.a.s. aftur á bak, og niðurstaðan er eftir því, klúður.  Verður þessum orðum nú fundinn staður með því að vitna í frétt Hjartar J. Guðmundssonar á vef Morgunblaðsins, 18. júní 2018:
    1.   "Stefán Már benti í því sambandi á [hann ráðlagði stjórnvöldum að snúa af markaðri braut innleiðingar], að ákvarðanir, sem teknar væru af stofnun Evrópusambandsins, væru afar einhliða, en ákveðin gagnkvæmni væri mikilvægur þáttur við mat á mörkum leyfilegs framsals ríkisvalds samkvæmt stjórnarskránni.  Þær væru einnig í andstöðu við tveggja stoða kerfið og á svig við þann fyrirsjáanleika, sem gert hafi verið ráð fyrir við undirritun EES-samningsins [sem sagt þessi innleiðing er bæði Stjórnarskrárbrot og brot á EES-samninginum-túlkun BJo].
    2. "Fram kemur í greinargerð utanríkisráðherra, að ekki hafi verið talin þörf á að fara þá leið, að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) héldi utan um framkvæmd persónuverndarlöggjafarinnar hér á landi í stað stofnunar Evrópusambandsins, þar sem umræddar valdheimildir beindust aðeins að hinu opinbera hér á landi og stofnunum þess, en ekki að einstaklingum og lögaðilum.  Fram kemur í álitsgerð Stefáns Más, að þetta sé ákveðið viðmið, sem hafa verði í huga, þegar heimildir til framsals valds séu metnar. Hins vegar segir hann í samtali við mbl.is, að þar skipti miklu máli, hvort um sé að ræða raunverulegar sjálfstæðar ákvarðanir stofnunar á vegum EFTA, eða hvort hún sé í raun aðeins að afrita ákvarðanir stofnana Evrópusambandsins. [Þessi orð Stefáns Más eiga t.d. við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, þar sem um það er samið á milli EFTA og ESB, að ESA skuli vera milliliður boðskipta á milli ACER og nýrrar sjálfstæðrar orkustofnunar í EFTA-löndum EES.  Þar sem ESA i þessu tilviki er aðeins stimpilstofnun, er þarna um að ræða heimildarlaust framsal ríkisvalds til yfirþjóðlegar stofnunar, ACER - innsk. BJo.]  Þar er vísað til þess, þegar stofnun á vegum EFTA tekur ákvörðun á grundvelli uppkasts frá stofnun Evrópusambandsins. "Ef um er að ræða stofnun, sem tekur ekki sjálfstæðar ákvarðanir, heldur hefur bara þann tilgang að stimpla eitthvað, sem annar gerir, þá er tæplega unnt að ræða um aðra stoð.  Þá er hún bara milliliður.  Formlega tekur hún þá ákvörðun, og það skiptir að vísu einhverju máli.  Það, sem mestu máli skiptir, er þó, að hún tekur enga sjálfstæða ákvörðun um efni málsins." [Það er rangt hjá utanríkisráðherra, að valdheimildir Persónuverndarráðs beinist einvörðungu að stofnunum hins opinbera hérlendis.  Kæru einstaklinga eða lögaðila hérlendis á málsmeðferð Persónuverndarstofnunar verður vísað til Persónuverndarráðs ESB, og þar með mun úrskurður þess hafa bein áhrif á einstaklinga og/eða fyrirtæki hérlendis.  Það stríðir gegn íslenzku stjórnarskránni.  Gjörðina má þess vegna ekki leiða í lög hérlendis - innsk. BJo.]
    3. "Stefán Már segir mikilvægt að horfa heildstætt á það framsal valds, sem átt hefur sér stað, en ekki aðeins einstakar gerðir, sem teknar eru upp í gegnum EES-samninginn.  Saman teknar séu slíkar gerðir, sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn eftir gildistöku hans að verða talsverður pakki.  Þegar gætt sé að því, að EES-samningurinn hafi á sínum tíma verið talinn á mörkum þess, sem stjórnarskráin leyfði, að því er varðar framsal ríkisvalds [má ætla, að nú sé komið út fyrir leyfileg mörk Stjórnarskrár-innsk. BJo]. Af því leiði, að því séu takmörk sett, hve miklu sé hægt að bæta við hann að óbreyttri stjórnarskrá." [Hér kveður Stefán Már upp úr um það á hófsaman hátt, að stöðva verði þennan stanzlausa straum innleiðinga viðbóta í EES-samninginn, því að í heildina séð sé framsal ríkisvalds orðið meira en Stjórnarskráin heimili.  Það er brýnt, að forseti lýðveldisins gefi gaum að þessu atriði og öðrum í álitsgerð prófessors Stefáns Más Stefánssonar, þegar hann veltir því fyrir sér, hvort hann á að samþykkja eða synja þessum lögum samþykkis-innsk. BJo.]

"Stefán Már segir ekkert hafa verið því til fyrirstöðu lagalega séð, að farin væri sú leið, að ákvarðanir varðandi persónuverndarlöggjöfina gagnvart EFTA/EES-ríkjunum væru teknar af stofnunum á vegum EFTA, sem ríkin ættu aðild að, í stað þess, að þær væru teknar af ESB í andstöðu við tveggja stoða kerfi EES-samningsins."

 

Það þarf enga mannvitsbrekku til að gera sér grein fyrir, hvað hér er á ferðinni. ESB nennir ekki lengur að sinna sérþörfum EFTA-landanna innan EES.  Það er orðin skoðun Framkvæmdastjórnarinnar, að ófært sé að þurfa að hefja samningaviðræður við EFTA-ríkin um undanþágur eða sérafgreiðslu, þegar ESB-ríkin hafa loksins náð lendingu sín á milli.  Þess vegna var tveggja stoða lausninni hafnað í þessu persónuverndarmáli að kröfu ESB, og EFTA-löndin innan EES fá sömu meðhöndlun og ESB-löndin.  Þetta leiðir hins vegar til fyrirkomulags, sem stjórnarskrár Íslands og Noregs heimila ekki.  Í hnotskurn sýnir þetta, að EES-samstarfið, eins og til þess var stofnað árið 1993, er nú komið að fótum fram.  

Sérfræðingur ríkisstjórnarinnar við undirbúning þessa máls birti henni niðurstöður sínar á eins skýran og afdráttarlausan hátt og honum var auðið sem fræðimaður í Evrópurétti.  Hann var hins vegar ekki settur dómari í málinu, og þess vegna bar niðurstaða hans ekki blæ dómsúrskurðar.  Þetta notfærði utanríkisráðherra sér með ósanngjörnum og ófaglegum hætti og sneri niðurstöðu sérfræðingsins á haus, þ.e. þannig, að hann telji innleiðinguna "standast stjórnarskrána". "Aðspurður segir Stefán Már, að þarna sé nokkuð frjálslega farið með", skrifaði Hjörtur Guðmundsson.  Flestir skilja áður en skellur í tönnunum.  

 Úr því sem komið er, ber Alþingi að hreinsa andrúmsloftið og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild að EES eða uppsögn EES-samningsins.  Við gildistöku uppsagnar tekur gildi fríverzlunarsamningur, sem í gildi var við ESB fyrir 1994, ásamt almennum viðskiptaskilmálum WTO (Alþjóða viðskiptastofnunin), sem hafa þróazt mjög til bóta í átt til fríverzlunar í áranna rás.  Iðnvarningur var tollfrjáls og sjávarafurðir með að hámarki 6 % toll, sem góðar líkur eru á, að fengist lækkaður með vísun í WTO og nýlegan viðskiptasamning á milli ESB og Kanada, jafnvel afnuminn.  Í millitíðinni má semja um gagnkvæm atvinnuréttindi, námsréttindi og vísindasamstarf ásamt öðru, sem æskilegt er að halda; í stuttu máli allt annað en kvöðina um að taka upp  þær gjörðir ESB, sem sambandið telur, að erindi eigi inn í EES-samninginn.  

 


Fiona Reilly og einpóla aflsæstrengur

Þann 14. júní 2018 birtist frétt í Viðskipta Mogganum um nýja viðskiptahugmynd fyrir aflsæstreng á milli Bretlands og Íslands. Þar var smáviðtal við Fionu Reilly, framkvæmdastjóra fyrirtækisins Atlantic Superconnection, sem kynnt hefur íslenzkum stjórnvöldum hugmynd starfsmanna fyrirtækisins um ódýrara sæstrengsverkefni með minni flutningsgetu en áður hefur verið í umræðunni. Þarna er óbein staðfesting á því, að fyrri sæstrengshugmyndir hafa ekki verið arðbærar. Er þessi útfærsla áhugaverðari frá íslenzkum sjónarhóli séð en fyrra fyrirkomulag ?

Fréttina bar að með undarlegum hætti.  Í stað þess að kynna þessa viðskiptahugmynd með formlegum hætti fyrir þjóðinni, læðist iðnaðarráðuneytið með veggjum og eftirlætur Bretum frumkynninguna í Viðskipta Mogganum.  Er það eftir öðru metnaðarleysi í þessu ráðuneyti, sem setti í maí 2018 á koppinn:

"starfshóp með aðkomu allra þingflokka til að vinna orkustefnu fyrir Ísland.  Er þess vænzt, að hópurinn leggi tillögur sínar fyrir ráðherra í byrjun árs 2020.  Meðal verkefna hópsins er að horfa til hugmynda um útflutning raforku frá Íslandi um sæstreng.  Morgunblaðið leitaði viðbragða ráðherra við hugmyndum Atlantic Superconnection um lagningu fyrrnefnds strengs, en engin viðbrögð komu frá ráðuneytinu."

Þetta stóð í baksviðsfrétt Stefáns E. Stefánssonar, 15. júní 2018, í Morgunblaðinu, og sýnir, hversu rislágt þetta ráðuneyti er um þessar mundir, ráðuneyti, sem hvetur Alþingi til að kokgleypa Þriðja orkumarkaðslagabálk Evrópusambandsins (ESB) á þeim forsendum, að hann mundi hafa hér lítil sem engin áhrif hérlendis, svo lengi sem engin raftenging sé á milli Íslands og útlanda.  Þar er farið með rangt mál og litið framhjá þeirri staðreynd, að hlutverk téðs lagabálks er einmitt að færa ESB völd til að ryðja úr vegi hindrunum í einstökum löndum gegn nýjum og bættum raftengingum á milli landa.  "Oh, sancta simplicitas !"

Öll framganga iðnaðarráðuneytisins í sæstrengsmálum er óboðleg landsmönnum.  Ráðherrann getur í hvoruga löppina stigið og ætlar ekki að gera það fyrr en að tveimur árum liðnum. Einkafyrirtæki, sem stæði frammi fyrir brýnu úrlausnarefni um nýtingu náttúruauðlinda, sem það ætti afnotarétt á, mundi ekki geta varið slíkan seinagang fyrir hluthöfum sínum.  Liggur fiskur undir steini ?

Nú verður vitnað í téða frétt Viðskipta Moggans:

"Leggja til minni sæstreng":

"Strengurinn, sem AS hefur á teikniborðinu nú, er einpóla í stað tvípóla.  Sú útfærsla gerir því ráð fyrir einum streng í stað tveggja, sem er forsendan fyrir tvípóla tækni. Einpóla strengur yrði 60 % - 70 % ódýrari en strengur, sem byggði á tvípóla tækni."

Nafn fyrirtækisins, Atlantic Superconnection, gefur til kynna, að það þrói ofurleiðaratækni.  Sú tækni mundi vissulega koma sér vel á 1500 km leið frá Suð-Austur Íslandi til Norð-Austur Englands, þar sem fyrirtækið áformar landtöku sæstrengs og telur þá staðsetningu auka hagkvæmni þessa raforkuflutningsverkefnis m.v. landtöku á Skotlandi.  Ofurleiðni er þó ekki á dagskrá, en þó minni orkutöp en hefðbundið má búast við á svo langri leið, því að fyrirtækið býst við 5 % flutningstöpum, sem er helmingur af því, sem má vænta, að töpum í endamannvirkjum sæstrengsins meðtöldum. Kann þetta að stafa einvörðungu af hærri rekstrarspennu í streng AS en nokkur plasteinangrun hefur verið gerð fyrir hingað til.  Þar er þó komin aukin rekstraráhætta vegna óreyndrar tækni.

Að notast við aðeins einn leiðara virkar í hina áttina, þ.e. til aukinna tapa, en aukinn núvirtan tapskostnað í áranna rás af þessum sökum telur fyrirtækið greinilega munu verða lægri en núvirtan aukinn fjármagnskostnað af tveggja póla sæstreng.

Það eru fleiri meinbugir á einpóla útfærslunni.  Straumurinn til baka er leiddur um haf og jarðlög með því að grafa forskaut niður í hafsbotninn öðrum megin og bakskaut hinum megin.  Sæstrengur undir Eystrasalti á milli Svíþjóðar og Þýzkalands er 250 km að lengd á 450 kV spennu og getur flutt 600 MW, en aðeins frá Svíþjóð.  Forskautið er samsett af 40 títaníum möskvanetum, hvert um sig 20 m2, en bakskautið er óeinangraður koparhringur, 2,0 km í þvermál. Hættu af völdum rafstraums í náttúrunni þarf hér að meta og sömuleiðis truflanir af völdum segulsviðs á lífríki og búnað, t.d. siglingatæki.

Fiona Reilly hefur upplýst, að fyrirhugaður einpóla sæstrengur með endabúnaði eigi að geta flutt 600-700 MW og muni kosta miaGBP 2,0 eða miaISK 285 auk miaISK 50-80 fyrir flutningskerfi á Íslandi niður að lendingarstað sæstrengsins. Verða það engin smáræðis mannvirki. 

Án stórbilana er raunhæft að ætla, að slík mannvirki geti flutt 5000 GWh/ár af raforku.  M.v. 25 ára afskriftartíma og 8,0 %/ár ávöxtunarkröfu fjármagns í verkefninu, jafngildir þetta flutningskostnaði um 60 USD/MWh.  Þetta er 25 % lægri flutningskostnaður en með 1200 MW, tvípóla sæstreng, sem áður var í umræðunni.   

Fiona Reilly hefur upplýst, að hún geti selt þessa raforku í heildsölu á Englandi fyrir 65 GBP/MWh, sem samsvarar um 87 USD/MWh.  Þetta þýðir, að hún telur sig aðeins þurfa að borga 27 USD/MWh fyrir raforku inn á inntaksmannvirki sæstrengsins síns á Íslandi.  

Þetta yrðu hraksmánarleg viðskipti fyrir Íslendinga af eftirfarandi ástæðum:

  1. Sala raforku inn á sæstreng skapar engan virðisauka á Íslandi í mótsetningu við sölu raforku til t.d. álvera, þar sem um 40 % af veltu þeirra verður eftir í landinu að jafnaði. Ofangreint verð, 27 USD/MWh, er þar að auki aðeins rúmlega 70 % af núverandi verði til eins álversins hérlendis, sem samið var við um framlengingu raforkusamninga fyrir nokkrum árum, að flutningsgjaldi meðreiknuðu.
  2. Þvert á það, sem Fiona Reilly heldur fram í viðtali við Stefán E. Stefánsson, með fullri virðingu fyrir henni, munu raforkusamningar við sæstrengseiganda hækka raforkuverð til almennings á Íslandi.  Ástæðurnar eru í fyrsta lagi, að ætlunin er að þurrka alla ótryggða orku upp af markaðinum hér og senda hana til Englands.  Þetta er ódýrasta raforkan á markaðinum.  Samkvæmt Fionu er ætlunin að fá aðgang að 450 MW toppafli hér, en til þess þarf að bæta við yfir 400 MW af vélakosti, sem mun verða kostnaðarsamt og borgar sig varla, og víðast hvar þarf þá viðbótar fallgöng vatns, eins og í Búrfellsvirkjun 2. Í öðru lagi er ætlunin að bæta við einhverju lítilræði af virkjunum, 150-250 MW eru nefnd (um 30 % af heild í þessum viðskiptum) til orkuvinnslu.  Þetta lítilræði verður þá vafalaust fullnýtt í grunnorkusölu, sem þýðir, að almenningur fær engin afnot af þessum virkjunum.  Það er einmitt viðskiptahugmyndin með raforkusölu til stóriðju að byggja stærri virkjanir en hún þarf á að halda, svo að almenningur fái afnot af þeim virkjunum á hagkvæmum kjörum. Stóriðjan greiðir þannig niður raforkukostnað almennings með sanngjörnum hætti. Niðurlag viðtalsins við Fionu Reilly, sem birtist 14. júní 2018, bendir til, að hún hafi misskilið viðræðuaðila sína á Íslandi eða að þeir séu úti á þekju um þetta eðli íslenzka raforkukerfisins, sem er öðru vísi en hjá öðrum Evrópuþjóðum, nema Norðmönnum að nokkru leyti. Norðmenn búa hins vegar við mikið ónotað afl í sínum vatnsaflsvirkjunum utan hávetrartímans, þar sem þeir hita hús sín með raforku. Þessa vegna er út í hött hérlendis að benda til Noregs til að rökstyðja raforkusölu héðan um sæstreng.   
"Brezkur almenningur yrði stórnotandi að orku, sem annars myndi ekki nýtast hér á landi vegna eðlis hennar.  Því er engin ástæða til að halda, að þannig samningur um orku myndi hafa áhrif á verð á Íslandi frekar en samningar til annarra stórnotenda á Íslandi hafa gert í gegnum tíðina.", 
 
sagði Fiona Reilly í viðtalinu við Stefán. Þessi fullyrðing hennar stenzt sem sagt ekki skoðun.
 
Þetta einpóla sæstrengsmál, sem ber að með svo kyndugum hætti, ætti að verða hinni þverpólitísku nefnd, sem iðnaðarráðherra hefur skipað til að mynda landinu orkustefnu, ágætis sýnidæmi um það, að sæstrengslögn til útlanda, að undanskildum e.t.v. Færeyjum, er virkilega slæm viðskiptahugmynd fyrir íslenzka þjóðarbúið.
 
Það er löngu orðið tímabært af íslenzkum yfirvöldum að skrínleggja allar hugmyndir um orkusölu til útlanda um sæstreng og afskrifa þær sem þjóðhagslega óhagkvæmar.  Innlendar orkulindir ber að nýta til atvinnu- og verðmætasköpunar innanlands.  Slík stefnumörkun væri í góðu samræmi við þá stefnumörkun, sem vonandi verður ofan á, að Ísland gangi ekki í Orkusamband ESB og ACER til að verða einhvers konar "grænn rafgeymir" fyrir ESB-löndin, heldur varðveiti fullveldi sitt óskert á raforkumálasviði til að nýta auðlindina innanlands, m.a. til framleiðslu á útflutningsvörum til Bretlands og ESB-landanna.  
lv-kapall-kynning-april-2011
   

 

 

 


Orkustofnun ESB, aflsæstrengur og orkuverðshækkanir

Orkustofnun ESB, ACER, og hinn íslenzki afleggjari hennar, ef af verður, nýja Orkustofnunin, NOS, á að hafa eftirlit með því, að Ísland fylgi Kerfisþróunaráætlun ESB í orði og á borði, ef landið gengur í Orkusamband ESB.  Aflsæstrengur á milli Íslands og Skotlands, "Ice Link",  er á meðal forgangsverkefna í Kerfisþróunaráætlun ESB.

 VERÐIÐ:

Í Noregi hafa orkuviðskipti um sæstrengi til útlanda  óumdeilanlega valdið raforkuverðshækkunum.  Samt er þar aðallega um "raforkuskipti" að ræða, þ.e. Norðmenn flytja raforku út á daginn, ef ekki blæs eða skín sól á viðkomandi orkuver á meginlandinu eða á Bretlandi, en spara á móti vatn í miðlunarlónum sínum á nóttunni með innflutningi raforku. 

Þetta viðskiptalíkan gengur varla upp fyrir "Ice Link", sem er miklu dýrari en norskir sæstrengir og krefst í raun hárrar nýtingar allt árið um kring með flutningi þangað, sem raforkuverðið er hærra, ef hann á að geta borið sig, fjárhagslega. Auk þess er ekkert ónotað afl í íslenzkum virkjunum í líkingu við það, sem er í norskum vatnsaflsvirkjunum.

  1200 MW sæstrengur þarf að flytja um 9 TWh/ár (terawattstundir á ári) frá Íslandi til að standa undir sér, fjárhagslega.  Þetta er tæplega helmingsaukning á núverandi raforkuvinnslu á Íslandi, sem augljóslega  mun útheimta megnið af þeim virkjunum, sem nú eru í framkvæmdahluta Rammaáætlunar.  Er ekki þegar af þeirri ástæðu ljóst, að þessar sæstrengshugmyndir eru draumórar einir ?

Meðalvinnslukostnaður í þessum tilvonandi virkjunum verður miklu hærri en að meðaltali í núverandi raforkukerfi.  Þetta mun óhjákvæmilega strax leiða til mikillar verðhækkunar til almennings og síðar til stóriðju, við endurskoðun langtímasamninga, ef þeir þá verða úrskurðaðir leyfilegir af ESA, þegar þar að kemur.

GETA ÍSLENZK YFIRVÖLD SAMT SAGT NEI ?

Ef Alþingi, illu heilli, samþykkir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og framselur þannig fullveldi á orkusviði til Orkustofnunar ESB, ACER, getur Ísland samt hafnað aflsæstrengjum ?  Það eru mjög litlar líkur á, að sú tilraun heppnist.  Íslenzk höfnun mundi vera í andstöðu við grundvallarhugmyndina með Orkusambandinu og framkalla hneykslun í Ljubljana, aðsetri ACER, og í Berlaymont, höfuðstöðvum ESB í Brüssel.

ACER og afleggjari hennar á Íslandi, Nýja orkustofnun, NOS, munu fá það hlutverk að vakta, að Ísland framfylgi að sínu leyti Kerfisþróunaráætlun ESB. Með því að gera Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB að hluta orkulaganna á Íslandi og síðan að stofna NOS, hefur Ísland samþykkt þessar forsendur NOS, þ.e. Kerfisþróunaráætlun ESB.  

ESB lætur útbúa Kerfisþróunaráætlun til 10 ára, TYNDP, (Ten Years Network Development Plan), sem spannar skrá um forgangsverkefni, "Projects of Common Interest, PCI".  Á þessari skrá eru yfir 170 verkefni og "Ice Link", Skotlandsstrengurinn, er þar á meðal á hagkvæmniathugunarstigi, en með bráðabirgða tímasetningu um gangsetningu árið 2027.

ESB/ACER setja sem lágmarkskröfu á hvert land Orkusambandsins, að 15 % af raforkuvinnslugetu hvers lands sé hægt að flytja út, og þess vegna mun verða þrýst á Ísland að samþykkja fyrsta aflsæstrenginn til útlanda.  Stefnumið Orkusambands ESB er sameiginlegur orkumarkaður allra aðildarlandanna með sama verði og sama aðgengi raforku alls staðar.  Enginn þarf að fara í grafgötur með,  að ESB er full alvara með Kerfisþróunaráætlun sinni og Forgangsverkefnaskrá hennar.

Ef (gamla) Orkustofnun hafnar umsókn eigenda "Ice Link" verkefnisins, munu þeir áreiðanlega áfrýja þeim úrskurði til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA sem broti gegn grunnreglunum, sem Ísland hefur viðurkennt með samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB.

Eigendurnir munu væntanlega njóta stuðnings NOS, sem gegnir því hlutverki að sjá til þess, að Kerfisþróunaráætlun ESB sé framfylgt. Enginn getur fullyrt um, hver niðurstaðan verður.  Endanlegur úrskurður EFTA-dómstólsins verður þó kveðinn upp í samræmi við réttarkerfi ESB, og þess vegna þarf heldur enginn að efast um niðurstöðuna.

 Langflestir kunnugra telja, að að fáeinum árum liðnum muni ACER fá aukin völd (4. orkubálkurinn), og þá verður leyfishlutverk hefðbundins orkustjórnvalds hvers lands endurskoðað og þar með leyfisveitingar OS á sviði raforkuflutninga afnumdar. Með samþykki Alþingis á innleiðingu téðs orkubálks í EES-samninginn, væri þingið að fórna ráðstöfunarrétti raforkunnar á altari Evrópusamstarfsins.  Þar með væru umráð okkar yfir annarri verðmætustu auðlindinni fyrir borð borin.  Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, hvers konar sess í sögunni þeir þingmenn mundu ávinna sér, sem gerðu sig seka um slíkt glapræði, þrátt fyrir varnaðarorð.      

  

 

  


Forrannsókn Alþingis á ACER-málinu

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að nú stendur upp á Alþingi að fjalla um innleiðingu í EES-samninginn á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, því að í Sameiginlegu EES-nefndinni var 5. maí 2017 illu heilli og algerlega að óþörfu samþykkt í Brüssel að taka þennan gjörning inn í EES-samninginn. Ekkert fréttist af málinu á vorþinginu 2018. Hvers vegna er það ekki dregið fram í dagsljósið, fundinn á því kostur og löstur og síðan afgreitt í samræmi við stefnumörkun stjórnmálaflokkanna ? 

Þjóðþing Noregs og Liechtenstein hafa staðfest það fyrir sitt leyti, og í Noregi myndaðist gjá á milli þings og þjóðar við það.  Alþingi á snöfurmannlega að synja þessum ólögum staðfestingar, enda eru 80 % þjóðarinnar andvíg því, að þessi varasami gjörningur ESB fái lagagildi á Íslandi samkvæmt skoðanakönnun Maskínu um mánaðamótin apríl-maí 2018. 

Pólitískt má ætla, að téður gjörningur ESB njóti lítils stuðnings á Alþingi, því að tveir stjórnarflokkar hafa nýlegar landsfundarsamþykktir gegn ACER í farteski sínu, og af talsmanni þess þriðja í málinu má ætla, að hann sé alfarið á móti líka.  Einn stjórnarandstöðuflokkur hefur á landsþingi sínu markað sér stefnu á móti inngöngu Íslands í Orkusamband ESB.  

Ef Alþingi fær frumvarp til laga til umfjöllunar, ber því á málefnalegan hátt að finna á því kost og löst til að leggja til grundvallar ákvörðun sinni.  Það sem frá ráðuneytum utanríkis- og iðnaðarmála hefur fram að þessu komið um þetta mál, er ótrúleg þynnka og greinilega ekki reist á  faglegri greiningu af neinum toga, fjárhegslegri, lögfræðilegri né rekstrartæknilegri fyrir raforkukerfið.  Blaðrið einkennist af fávizku eða barnalegri trúgirni á áróður búrókrata ESB og/eða stjórnarinnar í Ósló og hreinræktuðum hræðsluáróðri, sem er íslenzkum ráðuneytum ekki til sóma. Í raun er málflutningur þeirra, sem þegar eru gengnir Evrópusambandinu á hönd, óboðlegur íslenzkum almenningi, því að einkenni hans er ömurleg útgáfa af "af því bara" flótta frá raunveruleikanum.  

Það, sem Alþingi þarf að krefjast af ríkisstjórn Íslands, er hún að lokum leggur fram téð ólánsfrumvarp, er vönduð greining á eftirfarandi viðfangsefnum, sem upp mundu koma eftir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og ACER:

  • Möguleikar Íslands á að hafna tillögu ACER um aflsæstreng eða -sæstrengi til Íslands.
  • Áhrif lagningar og rekstrar aflsæstrengs til útlanda á íslenzka náttúru við sæstrengslandtakið og á lífríki í og við miðlunarlón og virkjaðar ár, þegar virkjanir eru stilltar á hámarksafl til að anna mikilli afleftirspurn frá útlöndum.
  • Áhrif aðildar Íslands að Orkusambandi ESB á rafmagnsverð og flutningsgjald raforku fyrir atvinnulíf og heimili, einnig langtímaáhrif á iðnaðaruppbyggingu og endurskoðun langtímasamninga um raforkusölu innanlands.
  • Áhrif aðildar á þjóðhagsleg verðmæti íslenzkra orkuauðlinda, þ.e. verðmæti auðlindanna fyrir verðmætasköpun á Íslandi og hagsæld íslenzkra heimila.
  • Möguleikar íslenzkra stjórnvalda til að gera sjálf ráðstafanir til að tryggja nægt framboð afls- og orku á íslenzka raforkumarkaðinn, þ.e. möguleikar þeirra til að hafa áhrif á stjórnun aflflæðisins um strenginn.
  • Síðast en ekki sízt þarf að sýna fram á, að valdsvið ACER á Íslandi feli ekki í sér framsal á ríkisvaldi til erlendrar stofnunar, þar sem Ísland ekki er fullgildur aðili.  Ennfremur þarf að sýna fram á með lögfræðilegum rökum, að lögaðilar eða einkaaðilar á Íslandi geti ekki óbeint með ESA sem millilið lent undir valdsviði ACER, t.d. varðandi sektir og aðrar íþyngjandi aðgerðir. 

 


Þvermóðska keyrir um þverbak

Útgjöld til heilbrigðismála eru langstærsti útgjaldaliðurinn á fjárlögum íslenzka ríkisins, og útgjöldin þangað vaxa  reyndar meira en góðu hófi gegnir.  Samt linnir ekki fréttum af ófremdarástandi í þessum geira, sem er miðstýrður af skrifstofu heilbrigðisráðherrans í velferðarráðuneytinu, og heilbrigðisráðherrann er heldur betur frekur til fjárins við gerð fjárlagafrumvarps.   

Heilbrigðisráðherrann núverandi, Svandís Svavarsdóttir, flæmir nú forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, Steingrím Ara Arason, úr starfi sínu.  Eftir Steingrím Ara birtist uppgjörsgrein við ráðherrann í Fréttablaðinu, 17. apríl 2018, undir fyrirsögninni:

"Skammsýni og sóun":

Greinin er einn samfelldur áfellisdómur yfir téðum ráðherra.  Málið er grafalvarlegt fyrir þjóðina, um leið og það er hápólitískt.  Ráðherrann hefur sagt starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks stríð á hendur.  Sú stríðsyfirlýsing er glórulaus, því að hún vill færa þessa starfsemi til göngudeilda ríkissjúkrahúsanna, sem ekki eru í nokkrum færum til að taka við henni, eins og sakir standa.  Ráðherrann ætlar með öðrum orðum með háttsemi sinni að auka enn á öngþveitið á Landsspítalanum og víðar með hræðilegum afleiðingum fyrir sjúklingana og óhjákvæmilega auknum samfélagslegum kostnaði.  Spyrja verður: er þetta stefna ríkisstjórnarinnar ?  Ef ekki, er þá ekki komið fullt tilefni fyrir þingmenn að sýna vígtennurnar og undirbúa vantraust á ráðherra, sem leikur "sóló" af þessu tagi ?  

Ef ráðherrann verður ekki bráðlega stöðvaður á sinni óheillabraut, mun það hafa ómældar þjáningar í för með sér fyrir fjölda sjúklinga, mikinn samfélagslegan aukakostnað og óþörf útgjöld úr ríkissjóði.  Forstjóri SÍ hóf grein sína þannig:

"Systur tvær, skammsýni og sóun", fara oft saman.  Í atvinnurekstri og stjórnmálum er viðvarandi viðfangsefni að fyrirbyggja, að þær fái ráðið för.

Ragnar Hall, lögmaður, skrifaði 13.apríl sl. athyglisverða grein, þar sem hann fjallar um þá niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og úrskurðarnefndar velferðarmála að synja einstaklingi um greiðsluþátttöku vegna liðskiptaaðgerðar hjá Klínikinni Ármúla.  Þetta gerist þrátt fyrir, að einstaklingurinn hafi verið í brýnni þörf fyrir aðgerðina, þrátt fyrir meira en árs bið eftir aðgerðinni á Landsspítalanum, þrátt fyrir að Klínikin Ármúla hafi uppfyllt öll fagleg skilyrði og þrátt fyrir lægri kostnað ríkisins við að samþykkja aðgerðina hjá íslenzkum fremur en sænskum aðila.  Nei skal það vera, þar sem SÍ hafa einungis heimild til að taka þátt í kostnaði við liðskiptaaðgerðir, sem framkvæmdar eru erlendis."

Hér opnast lesendum sýn inn í forarvilpu sósíalistískrar stjórnunar á einokuðum geira, þar sem aðalatriðið er, að ákvarðanir fylgi hugmyndafræði sósíalismans um að knésetja þjónustu, sem reist er á einkaeignarrétti aðstöðu og tækjabúnaðar, en hagsmunir sjúklinga og ríkissjóðs eru um leið bornir fyrir borð.  Þessari endemis óstjórn, sem enda mun sem venezúelskt ástand í heilbrigðisgeiranum, enda fetar Svandís hér í fótspor ríkisstjórnar Hugos Chavez i Venezúela fyrir hálfum öðrum áratugi, verður að linna.  Þessi ráðherra hefur brugðizt skyldum sínum og misst traust fjölmargra starfsmanna heilbrigðisgeirans.

Hryllingssagan um yfirstjórn heilbrigðisgeirans heldur áfram:

"Samtímis hefur þeirri ósk SÍ verið hafnað að semja um gerviliðaaðgerðir á þeim grunni, að "mæli fagleg og fjárhagsleg rök með því, verði SÍ jafnframt heimilað að semja um hluta aðgerðanna við sjálfstætt starfandi bæklunarlækna."

Ósk, sem er sett fram til að tryggja sjúkratryggðum greiðan aðgang að þjónustunni og til að nýta fjármuni ríkisins, eins vel og kostur er.

Árið 2018 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að fela Landsspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands að framkvæma allar biðlistaaðgerðir átaksins án sérstaks samnings.  Þetta er ákveðið, þó að fyrir liggi, að sjálfstætt starfandi aðilar séu einnig reiðubúnir að veita þjónustuna og að biðlistaaðgerðirnar koma orðið niður á annarri þjónustu Landsspítalans."

Af þessari lýsingu Steingríms Ara má ljóst vera, að í velferðarráðuneytinu situr nú heilbrigðisráðherra, sem veit ekki sitt rjúkandi ráð.  Heilbrigðisráðherrann tekur geðþóttaákvarðanir án nokkurs tillits til raunveruleikans, sem er sá, að allar þessar þrjár stofnanir eru yfirlestaðar og geta ekki annað þessum viðbótar verkefnum án þess að þau bitni á annarri starfsemi þessara ágætu stofnana.  Skeytingarleysi ráðherrans um hag sjúklinganna og meðferð skattfjár er forkastanlegt.  

Þann 8. júní 2018 skrifuðu tveir menn grein í Morgunblaðið, sem bar heitið:

"Háskaleikur heilbrigðisráðherrans".

Höfundarnir voru Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja, og Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur.  Grein þeirra hófst þannig:

"Ekki verður betur séð en heilbrigðisráðherra þjóðarinnar sé í einhvers konar afneitun, þegar kostnaður og gæði heilbrigðisþjónustunnar eru annars vegar. Eitt virtasta tímarit heims í læknisfræði, The Lancet, birti fyrir nokkrum dögum úttekt á heilbrigðistengdum gæðavísum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu 195 landa fyrir árið 2016.  Til að gera langa sögu stutta toppar Ísland þennan lista.  Erfitt er að ímynda sér, hvernig hægt er að fá betri staðfestingu á góðu kerfi og glæsilegri frammistöðu heilbrigðisstarfsfólks.  Sjálfsagt er að óska því fólki til hamingju.  Við getum verið stolt af árangrinum, enda þótt ráðherrann virðist ekki mega heyra á hann minnzt."

Þeim, sem aðeins þekkja heilbrigðiskerfið af frásögnum í fréttatímum fjölmiðlanna, hlýtur þessi toppeinkunn að koma á óvart, en hinum ekki algerlega.  Þá þarf að hafa í huga samsetningu heilbrigðiskerfisins, sem er í grófum dráttum þrískipt: heilsugæzlur, sjúkrahús og starfsemi sjálfstæðra heilbrigðisstarfsmanna.  Í fréttatímum hefur megináherzlan verið á neikvæðar fréttir af hinum tveimur fyrrnefndu og þó aðallega af Landsspítalanum.  Af þeim fréttum að dæma er sjúkrahúsið þó rekið af duglegu og hæfu starfsfólki, en á yztu mörkum hins mögulega vegna gamallar umgjarðar og óheppilegs stjórnunarfyrirkomulags fastra framlaga úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum í stað afkasta- og gæðahvetjandi greiðslufyrirkomulags fyrir veitta þjónustu.

Það má telja víst, að Ísland hafi lent í efsta sæti téðrar könnunar fyrir tilverknað starfsemi hinna sjálfstæðu heilbrigðisstarfsmanna. Núverandi heilbrigðisráðherra beinir nú spjótum sínum að þeim og ætlar að rífa niður starfsemi þeirra.  Þessa niðurrifsstarfsemi í nafni löngu afskrifaðrar sósíalistískrar hugmyndafræði má Svandís Svavarsdóttir ekki komast upp með, enda eru þetta ólýðræðislegar aðfarir, hvergi getið í stjórnarsáttmálanum og nánast örugglega í blóra við vilja þings og þjóðar.  Ráðherrann hefur nú sjálfviljug sett hausinn í snöruna, og hún ræður ekki hinu pólitíska framhaldi.  

 Um afköst, gæði og kostnað þjónustunnar skrifuðu tilvitnaðir tvímenningar:

"Sérfræðiþjónusta lækna hefur um áraraðir verið kjölfesta góðrar læknisþjónustu hér á landi.  Á síðasta ári [2017] tóku sérfræðilæknar á rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands á móti um 500 þúsund heimsóknum.  Þeir framkvæmdu m.a. um 18 þúsund skurðaðgerðir og þúsundir speglana auk margs konar lífeðlisfræðilegra rannsókna.  Á sama tíma voru um 244 þúsund komur á göngudeild Landsspítala og um 250 þúsund komur á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.  Þannig er stofustarfsemi sérfræðilækna stærri en göngudeildarstarfsemi þessara tveggja stærstu heilbrigðisstofnana landsins."

Það er fullkomið dómgreindarleysi af heilbrigðisráðherra að skerða þessa starfsemi og ætla biðlistahrjáðum Landsspítala, hvers starfsemi er strekkt til hins ýtrasta, að taka við. Eitt er víst: hagsmunir sjúklinganna verða algerlega fyrir borð bornir með slíku fyrirkomulagi.  Það er bæði synd og skömm, að við skulum búa við fyrirkomulag, sem getur veitt misheppnuðum ráðherra tök á að vinna heilbrigðiskerfinu stórfellt tjón.

"Um 350 læknar starfa á samningum í ýmsum sérgreinum.  Til viðbótar eru um 300 önnur stöðugildi fagfólks í ýmsum greinum.  Enda þótt starfsemin sé afar umfangsmikil, er athyglisvert, að hún tekur einungis til sín um 6 % af heildarútgjöldum heilbrigðisþjónustunnar.  Sérfræðiþjónustan er einfaldlega vel rekin, ódýr m.v.í nágrannalöndum og með gott aðgengi sjúklinga.  Gæðin þarf enginn að draga í efa.  Það er vandséð annað en hér sé vel farið með hverja krónu skattfjárins."

Ein af leiðunum út úr kostnaðarógöngum heilbrigðisgeirans er að auka vægi annarra rekstrarforma en hins opinbera.  Með því fá sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn æskilegt valfrelsi, sem er nauðsynlegt fyrir sæmilega heilbrigða þjónustugrein.  Með auknum samanburði og samkeppni verða hagsmunir skattgreiðenda betur tryggðir en nú er, því að reynslan á hinum Norðurlöndunum er sú, að aukin fjölbreytni leiðir til bættrar skilvirkni.  

Marxisminn hefur því miður komið við sögu í þessum pistli um nýjustu vendingar í heilbrigðismálum á Íslandi, og þess vegna er ekki úr vegi að enda hann með tilvitnun í frábæra grein Carls Bildts, sem er fyrrverandi formaður "Moderatarna" í Svíþjóð og fyrrverandi forsætis- og utanríkisráðherra landsins, og birtist í Morgunblaðinu 15. maí 2018 undir fyrirsögninni,

"Hvers vegna Marx hafði rangt fyrir sér":

"Marx leit á eignarréttinn sem rót alls hins illa í þeim kapitalísku samfélögum, sem voru að myndast á dögum hans.  Af því leiddi, að hann trúði því, að bara með því að afnema hann væri hægt að laga stéttaskiptingu samfélagsins og tryggja samlynda framtíð.  Friedrich Engels, samverkamaður Marx, hélt því síðar fram, að undir kommúnismanum myndi ríkið verða óþarft og "veslast upp".  Þessar fullyrðingar voru ekki settar fram sem getgátur, heldur sem vísindalegar fullyrðingar um það, hvað framtíðin hefði í för með sér.

En að sjálfsögðu var þetta allt þvaður, og kenning Marx um söguna - díalektíska efnishyggjan - hefur síðan verið afsönnuð og reynzt hættuleg að nánast hverju einasta leyti." 

 

 

 


Skiptar skoðanir um raforkumál Vestfirðinga

Þann 2. júní 2018 birtist í Morgunblaðinu góð grein  eftir Birnu Lárusdóttur, upplýsingafulltrúa VesturVerks á Ísafirði undir fyrirsögninni,

"Dylgjur á dylgjur ofan".

Þegar Birna valdi grein sinni heiti, gæti hún hafa nýlokið við lestur greinar Tómasar Guðbjartssonar, hjartaskurðlæknis og náttúruverndarsinna, sem birtist í Morgunblaðinu 31. maí 2018 undir heitinu:

"Þar sem vegur sannleikans endar".

Í raun er ekki miklu við grein Birnu að bæta; svo vel gerir hún grein fyrir því, hvers vegna Vestfirðingar og aðrir umhverfis- og framfarasinnaðir landsmenn ættu að sameinast um að virkja vatnsföll á Vestfjörðum, sem eru í nýtingarhluta Rammaáætlunar, og þar sem virkjunartilhögun hefur verið rýnd af yfirvöldum og lögformlegt umhverfismat verið staðfest.  Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum, eins og hún hefur verið kynnt af virkjunaraðilanum, VesturVerki, nýtur stuðnings heimamanna og sennilega langflestra Vestfirðinga.  Allt þetta eru næg rök fyrir útgáfu  framkvæmdaleyfis.  

Gerð var dólgsleg tilraun fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar til að svipta íbúana lýðræðislegu forræði sínu á framkvæmdaleyfinu.  Það var fyrirlitleg aðför að lýðræðinu, kolólögleg og heimskuleg, enda rann hún út í sandinn. Nú hafa sömu aðilar kært framkvæmd kosninganna í Árneshreppi, og eru þetta firn mikil. 

Tómas Guðbjartsson, læknir, rembist eins og rjúpan við staurinn með áróðursherferð sinni að telja Vestfirðingum og öðrum trú um, að meiri verðmæti fari í súginn með virkjuninni en hún muni skapa.  Það er mjög ósannfærandi málflutningur, reistur á hans eigin tilfinningalega mati, sem alls ekki er þó ætlunin að gera lítið úr, en á samt ekki að hafa neitt vægi við opinbera ákvarðanatöku af þessu tagi, þar sem taka þarf tillit til fjölmargra opinberra hagsmuna, hagsmuna samfélagsins á Ströndum, á Vestfjörðum í heild og hagsmuna landsins alls. 

Ef aðeins er litið á nærsamfélag virkjunarinnar, er alveg öruggt, að virkjunin mun leiða til þess, að fleiri geta og munu njóta náttúrufegurðar svæðisins.  Það er einfaldlega segin saga, að ferðamennska og íslenzkar virkjanir eiga mjög góða samleið.  

Um umhverfishlið málsins hefur Birna þetta að segja í téðri grein og hefur þar mikið til síns máls:

"Mönnum verður tíðrætt um umhverfisáhrif virkjunarinnar, enda verður aldrei hjá því komizt að skerða land vegna slíkra framkvæmda.  Það er aftur á móti leitun að vatnsaflsvirkjun af þessari stærð, sem er jafnlítið inngrip í náttúruna og Hvalárvirkjun.  Ekki verður hróflað við náttúruperlum, s.s. fossum, giljum eða árfarvegum, þótt vissulega muni rennsli minnka í þeim á ákveðnum tímum árs, líkt og gerist reyndar í náttúrunni sjálfri.  Þrjú uppistöðulón á háheiðinni ásamt stíflumannvirkjum verða helztu sjáanlegu ummerki virkjunarinnar, sem verður að öðru leyti öll neðanjarðar." 

Ekkert hefur stuðlað meir að því að auka samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegu samhengi en virkjanir vatnsafls og jarðvarma, nema öll skrefin, sem tekin voru við útfærslu landhelginnar.

  Samkeppnisstaða landsins hefur látið undan síga á undanförnum misserum, og það er ávísun á lakari lífskjör og verri félagslega samkeppnisstöðu en við viljum sjá hérlendis.  Afturhaldssemi gagnvart frekari nýtingu orkulindanna með beztu fáanlegu tækni og lágmarks áhrifum á náttúruna, sem þar að auki eru öll afturkræf samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum þar um, er ávísun á áframhaldandi neikvæða þróun samkeppnisstöðu landsins og þar af leiðandi aukinn ójöfnuð í samfélaginu á milli landshluta og á milli stétta.  Hvorugt viljum við hafa.

Tómas Guðbjartsson hefur fullyrt, að Hvalárvirkjun sé óþörf fyrir Vestfirðinga og fyrir landið í heild.  Þetta er kolrangt.  55 MW virkjun mun hækka skammhlaupsafl á Vestfjörðum, sem er nú svo lágt, að það stendur stöðugleika raforkukerfisins þar fyrir þrifum, sem kemur fram í miklu spennuflökti við bilanir.  Þar að auki er hækkun skammhlaupsafls á Vestfjörðum forsenda þess, að unnt verði að færa flutnings- og dreifikerfið úr lofti í jörðu. Nægileg hækkun skammhlaupsafls á Vestfjörðum er óhugsandi án nýrra virkjana þar. Slík aðgerð yrði tvímælalaust til mikilla bóta fyrir afhendingaröryggi rafmagns og ásýnd Vestfjarða.  

Hvalárvirkjun er ákjósanlega staðsett fyrir hringtengingu flutningskerfis raforku á Vestfjörðum, því að með innmötun eftir aðeins einum legg, 132 kV Vesturlínu, kemur hringtenging á Vestfjörðum að mjög takmörkuðum notum.  Frá Nauteyri, sem verður mikilvæg aðveitustöð í Vestfjarðahringnum, staðsett í Ísafjarðardjúpi og með innmötun frá Hvalárvirkjun og Vesturlínu, mun koma tenging til norðurs við aðveitustöð í Ísafjarðarbæ, sem þannig mun loksins njóta bráðnauðsynlegrar 132 kV hringtengingar áður en langt um líður. Slíkt fyrirkomulag er bráðnauðsynlegt til að anna auknu álagi á norðanverðum Vestfjörðum án þess að þurfa að grípa til olíukyntrar neyðarrafstöðvar Landsnets á Bolungarvík.  

Aukning raforkunotkunar á Vestfjörðum er hlutfallslega meiri en víðast hvar annars staðar á landinu. Ástæðan er sú, að byggðin eflist nú mikið með aðflutningi fólks og góðri viðkomu.  Undirstaða þeirrar jákvæðu þróunar er sú, að nú er einkaframtakið að raungera þá stefnumörkun stjórnvalda frá því í byrjun 21. aldarinnar, að á Vestfjörðum (Austfjörðum og í Eyjafirði) yrði heimilað sjókvíaeldi á laxfiskum. 

Þar sem jarðhita skortir víðast hvar á Vestfjörðum, hefur ný atvinnugrein og mannfjöldaaukning í för með sér aukið álag á raforkukerfið og auknar kröfur um gæði raforkunnar.  Langhagkvæmast og skynsamlegast er, að alhliða uppbygging raforkukerfis Vestfjarða haldist í hendur við þessa umbyltingu atvinnuhátta.  

Því miður virkar ríkisvaldið hamlandi á þessa þróun, því að það er of seint á ferð með hringtengingu vegakerfis Vestfjarða, og það verður nú að sjá til þess, að Nauteyrarstöðin komist í fullt gagn sem fyrst eftir gangsetningu Hvalárvirkjunar.  

Tómas Guðbjartsson heldur uppi einskis nýtu pexi við virkjunaraðilann um eignarhald HS Orku og VesturVerks.  Það virðist hafa farið fram hjá honum, að öll ríki, nema ríki á borð við Norður-Kóreu, sækjast eftir beinum erlendum fjárfestingum í atvinnulífi sínu.  Samkeppnishæfustu lönd heims eru með meiri hlutdeild slíkra fjárfestinga en Ísland.  Ástæðan fyrir því, að þetta er þjóðunum hagstætt, er, að fjármagn kostar, og sá kostnaður lendir þá ekki á þjóðunum sjálfum, þar sem erlendar fjárfestingar eiga í hlut.  Annar vanmetinn kostur er sú stjórnunarþekking, tækniþekking og viðskiptaþekking auk viðskiptatengsla, sem  erlendri fjárfestingu fylgir. Laxeldið er gott dæmi um þetta.

Afturhalds- og einangrunarsinnar benda þá á, að erlendir fjármagnseigendur flytja ágóða sinn utan. Það gera þeir þó í enn meiri mæli á formi vaxtatekna, ef fjármögnun innanlands er með erlendum lántökum.  Fjárfestarnir beina oftast drjúgum hluta ágóða síns til endurfjárfestinga innanlands.  Tómas Guðbjartsson virðist vera málpípa þeirra sósíalistísku viðhorfa, að fjármagnseigendur eigi ekki rétt á umbun fyrir að setja fé í áhættusamar framkvæmdir í samanburði við  bankainnlán eða verðbréfakaup.  Þegar þetta blandast saman við andstöðu hans við umhverfisvænstu framkvæmdir nútímans, er ekki laust við, að holur hljómur verði í áróðrinum öllum.

Birna Lárusdóttir lýkur grein sinni með eftirfarandi orðum, sem einnig verða lokaorð þessa vefpistils:

"Ef við horfum á stóru myndina, er virkjun vatnsfalla til orkuframleiðslu ein umhverfisvænsta leiðin, sem völ er á til að stemma stigu við notkun jarðefnaeldsneytis og hlýnun jarðar.  Virkjun Hvalár er liður í því.  Um þetta ættu umhverfissinnar allra landa að geta verið á einu máli.  Á grundvelli sjálfbærrar nýtingar náttúrunnar ættum við því að geta sameinazt um að tala upp innviðauppbyggingu á Vestfjörðum, þannig að íbúar þessa fámennasta landshluta Íslands fái setið við sama borð og aðrir landsmenn." 

 


Heimildasöfnun er eitt, rökrétt ályktun annað

kvöldi 13. maí 2018 sýndi RÚV-Sjónvarp heimildarmynd um laxeldi.  Í myndinni voru fallegar landslagsmyndir, aðallega frá Noregsströnd, Vestur-Skotlandi og Svíþjóð, og einnig frá strönd Washington fylgis á NV-strönd Bandaríkjanna.  Með viðtölum við þarlenda o.fl. var gerð grein fyrir mengun, lúsasmiti og erfðablöndun af völdum laxeldis í sjókvíum á þessum svæðum.

Þetta var allt gott og blessað, en svo snaraðist heldur betur á merinni, þegar tekið var til við að heimfæra ófarir og mistök við laxeldi þarlendra á Ísland.  Við það breyttist fræðslumynd í óheflaða áróðursmynd gegn laxeldi í sjókvíum við Ísland.  Nú skal leitast við að finna þessum orðum stað, m.a. með vísun til fræðimanna.

1) Tökum fyrst mengunina.  Þar er aðallega átt við fóðurleifar og úrgang.  Þetta er í raun áburður og næring fyrir fjarðalífið í grennd við kvíarnar, en menn eru sammála um, að heppilegt sé vegna staðbundinnar níturmyndunar og súrefnisþurrðar, sem af uppsöfnun leiðir, að hvíla eldissvæðin, eins og þurfa þykir, í sumum tilvikum 1 ár af hverjum 3.  Eftirlit er að hálfu starfsleyfishafa haft með umhverfinu, opinberir eftirlitsaðilar gera stakar athuganir, og eru þetta væntanlega nauðsynlegar og nægilegar mótvægisaðgerðir gegn þessari mengun.

2)Gert var mikið úr lúsasmiti villtra stofna af eldislaxinum.  Það blasir við, að sú hætta er hverfandi á Íslandi m.v. nefnda staði erlendis. 

Í fyrsta lagi er sjávarhiti svo lágur við Ísland, að sníkjudýrið laxalús þrífst ekki, nema í undantekningartilvikum.  Þetta getur þó breytzt, ef sjórinn heldur áfram að hlýna við Ísland. Lúsin er mikill vágestur í laxeldi við Noreg og Skotland, en hérlendis er notkun lúsareyðis eða sýklalyfja í lágmarki og ætti að verða tilkynningarskyld til rekstrarleyfisveitanda.

Í öðru lagi er sjókvíaeldi aðeins leyft við Ísland á stöðum í grennd við heimkynni um 1 % íslenzku laxastofnanna.  Það er þess vegna út í hött að bera aðstæður á Íslandi saman við t.d. Noreg eða Skotland, þar sem sjókvíaeldi hefur áratugum saman verið staðsett við mynni helztu laxveiðiáa þessara landa.

3)Það var í téðri "heimildarmynd" mikið fimbulfambað um hættuna á erfðablöndun, ef eldislax nær upp í ár hérlendis til að hrygna.  Áhrif einstaka eldislaxa, sem ná að mynda klak með villtum fiski, eru engin merkjanleg á villta stofninn.  Rannsóknir norska fræðimannsins Kevens Glover o.fl. benda til, að þótt hlutfall sleppifiska í á sé 5 %-10 % af villta stofninum í hálfa öld, verði áhrif erfðablöndunar mjög lítil og hamli í engu vexti og viðgangi stofnsins.  Fyrst við hlutfallið 30 %-50% í hálfa öld verða breytingar á villta stofninum augljósar og til hins verra.  Leikmönnum, sem fullyrða allt annað, duga ekki upphrópanir, því að gríðarlegir almannahagsmunir eiga hér í hlut, þar sem 21 starf/kt verða til við laxeldisstarfsemina (7 bein+14 óbein í Noregi), og jafnvel meira á Íslandi, þar sem framleiðslueiningarnar eru minni.

Við áhættumat sitt beitir Hafrannsóknarstofnun varúðarreglu og miðar við 4 % leyfilegt hámark eldislaxa af villtum löxum í á.  Hún metur burðarþol Ísafjarðardjúps 30 kt/ár í sjókvíum.  Það gætu verið 12 M (M=milljón) fiskar.  Villtir laxar í ám, sem renna út í Ísafjarðardjúp, eru fáir, e.t.v. 600 talsins á ári.  Leyfilegt hámarkshlutfall hrygnandi eldislaxa í ám Ísafjarðardjúps er þá 2 ppm (ppm=hlutar úr milljón) af fiskafjölda í sjókvíum. 

Traustari sjókvíar, bætt vinnubrögð og strangur gæðastjórnunarstaðall hafa dregið úr líkum á, að laxar sleppi úr sjókvíum hér við land, um 98 %.  Þessa verða gagnrýnendur sjókvíaeldis á laxi að taka tillit til í málflutningi sínum, ef eitthvert vit á að vera í honum.  Þegar þar að auki er tekið tillit til, að aðeins hluti sleppifisksins ratar upp í árnar og hrygnir þar með eldislaxi, má gera ráð fyrir, að aðeins 1 ppm eldislax í sjókvíum geri þetta hér við land.  Hann getur samt hvergi gert óskunda með því.  Jafnvel í Ísafjarðardjúpi með 30 kt/ár af eldislaxi í sjókvíum, yrði blöndunin innan öryggismarka Hafrannsóknarstofnunar.  Þess vegna ætti henni ekkert að vera að vanbúnaði með að hækka áhættumörkin upp í burðarþolsmörkin þar, og leyfisveitendum með að veita virðurkenndum aðilum starfsleyfi og rekstrarleyfi, sem gjarna gæti farið stighækkandi á 5 árum upp í 30 kt/ár, í enn frekara varúðarskyni, og stöðvun aukningar, ef tilefni gefst til. 

Þann 8. maí 2018 birtist fróðleg grein í Fréttablaðinu eftir Gunnar Stein Gunnarsson, líffræðing, undir fyrirsögninni:

"Stofnanda áhugamannafélagsins IWF svarað".

Þar skrifaði hann m.a. um rannsóknir Kevens Glover, en af niðurstöðum þeirra má ráða, að áhyggjur m.a. hagsmunaaðila hérlendis, s.s. veiðiréttarhafa í ám, sé ástæðulaus út frá líffræðilegum og erfðafræðilegum forsendum:

"Reyndar mætti Ingólfur lesa fræðigreinar af meiri athygli áður en hann ríður fram á ritvöllinn, en í grein Glovers kemur einmitt fram, að því óskildari sem aðkomulaxinn er villta laxinum, þeim mun ósennilegra er, að hann skilji eftir sig spor.

Í grein Glovers kemur fram, að samsetning ákveðinna þátta, eins og lítill árangur eldislaxins við hrygningu, náttúrulegt val, sem hyglir aðlöguðum fenótýpum/genótýpum frá hinum villtu stofnum, sem og fenótýpiskur sveigjanleiki, dregur úr hraða og stærðargráðu breytinga í fenótýpum/genótýpum og líffræðilegum einkennum villta laxastofnsins, sem hefur upplifað innstreymi frá eldislaxi.

Þetta er í samræmi við niðurstöður annarra aðila í fræðaheiminum, svo sem Hindar, Norsku hafrannsóknarstofnunarinnar og fleiri.  Það þarf mikla, stöðuga og viðvarandi innblöndun af eldislaxi í áratugi til að hætta á erfðablöndun sé raunveruleg (Hindar;2006, 2017).  Um þetta eru fræðimenn nokkuð sammála í Noregi og víðar."

Með öðrum orðum er æxlunargeta eldislaxins dauf og náttúran hyglir hinum aðlagaða, villta stofni umfram stofn, sem í margar kynslóðir hefur verið ræktaður af mönnum til að vaxa hratt og verjast lús fremur en að geta af sér öfluga einstaklinga.  Þar af leiðandi er það fyrst við yfir 30 % "innstreymi" samfleytt áratugum saman, sem erfðafræðilegra breytinga tekur að gæta í villtum laxastofnum.  Slíkt er algerlega útilokað við núverandi aðstæður á Íslandi.  

Þá er rétt í þessu samhengi að vekja athygli á grein tveggja norskra prófessora við Landbúnaðarháskólann að Ási og við Háskólann í Björgvin, Erik Slinde og Harald Kyvi, en þeir hafa áhyggjur af úrkynjun villtra laxastofna, sérstaklega við skyldleikaræktun í ám með fáum löxum.  Grein þeirra:

"Viltu bjarga laxinum ? - leggðu þá flugustönginni", 

birtist í Morgunblaðinu, 12. maí 2018:

"Flestir [göngulaxanna] finna sína á, en um 5 % fara í aðra. Þetta skiptir máli; það hindrar skyldleikaræktun, sem hætta er á, séu fáir fiskar í ánni.  Skyldleikaræktun er ógn við laxastofna.  Sloppnir eldislaxar í Noregi synda sumir einnig upp í ár til hrygningar með sínum villtu ættingjum.  Mjög neikvætt, segja yfirvöld.  En eru til sérstök eldislaxagen, sem eru óheppileg, eða eru genin bara venjuleg, gagnleg laxagen ?

Bara brot þeirra laxa, sem synda til hafs úr hverri á, kemur aftur, og í sumum ám er fjöldinn ótrúlega lítill.  Stærsta ógn laxastofna er því veiðin í ánni.  Með vissu má því segja, að vilji maður bjarga villta laxinum, þá eigi maður að leggja veiðistönginni.  Sumir segja hægt að veiða laxinn og sleppa honum aftur.  Það er dýraníð, en úr því að laxinn gefur ekki frá sér hljóð, þá er það kannski í lagi ?"

Þarna kveður við nýjan tón m.v. mest áberandi umræðu á þessu sviði á Íslandi.  Tveir háskólaprófessorar gera því skóna, að takmörkuð blöndun við aðra stofna, eldislax innifalinn, leiði til æskilegrar erfðafræðilegrar fjölbreytni, sem er nauðsynleg til að hindra skaðlega skyldleikaræktun.

Þá er óhjákvæmilegt að gefa gaum að orðum þeirra um dýraníð, og dýraverndarsamtök, veiðiréttareigendur, dýralæknar og lögfræðingar þurfa að komast að niðurstöðu um það, hvort "veiða-sleppa" aðferðarfræðin samræmist núgildandi íslenzkum lögum um dýravernd og velferð dýra.

Norsku prófessorarnir hnykkja á vangaveltum sínum um veiðina á villtum laxi í lok greinar sinnar:

"Veiðin á villtum laxi í ám er umhugsunarverð og má líta á sem umhverfisfjandsamlega.  Það er tímabært, að yfirvöld skoði stjórnun á erfðaefni laxa og laxveiðiáa.  Yfirvöld ættu að spyrja stofnanir sínar um, hvaða markmið þær hafa sett um stjórnun erfðafjölbreytileika, og það ætti að gilda um öll dýr, ekki bara um lax."

Norður-Atlantshafslaxastofnarnir eiga allir undir högg að sækja.  Hér benda tveir fræðimenn á 2 hugsanlegar skýringar, ofveiði og úrkynjun stofnanna vegna skyldleikaræktar innan smárra stofna.  Það er nær að beina sjónum að raunverulegu vandamáli en að upphefja galdraofsóknir á grundvelli þröngsýni og fáfræði, eins og vanalega, gegn mikilvægri atvinnugrein á Íslandi, sem beitir beztu fáanlegu tækni og staðlaðri gæðastjórnun við sjókvíaeldi á eldislaxi.  Tal um geldingar og landeldi er óraunhæft í núverandi viðskiptaumhverfi.  Geldingar þessar geta flokkazt undir dýraníð og landeldið útheimtir mikla orku, ferskvatn og jarðhita.   

 

 

 

 

 


Ádrepa frá EES í garð Hæstaréttar

Skörin er farin að færast upp í bekkinn, þegar Eftirlitsstofnun EFTA, sem í raun er handlangari Evrópusambandsins, ESB, er farin að senda áminningarbréf til utanríkisráðuneytis Íslands út af því, að Hæstiréttur Íslands láti ekki EES-löggjöf njóta forgangs gagnvart íslenzkri löggjöf, eins og kveðið sé á um í EES-samninginum.  Víst er, að slíkar ádrepur munu verða tíðari, ef Alþingi samþykkir stóra lagabálka á borð við Persónuverndarlagabálkinn og Þriðja orkumarkaðslagabálkinn, sem hvor um sig færir innlent vald til yfirþjóðlegrar stofnunar. Sennilega telur Hæstiréttur þessar kröfur ESA stríða gegn Stjórnarskrá. EES-aðildin leiðir til lögfræðilegs kviksyndis. Það er mikill ábyrgðarhluti að hálfu þingheims að leiða landsmenn lengra út í það fúafen.

13. desember 2017 sendi ESA formlegt upphafsbréf til íslenzka utanríkisráðuneytisins um mál, sem snýst um, að Ísland hafi ekki uppfyllt réttarfarslegar skyldur sínar samkvæmt Bókun 35 við EES-samninginn og að þar með hafi Ísland brotið gegn EES-samninginum, grein nr 3. Bréfið sjálft er í viðhengi þessa pistils. 

ESA vísar til nokkurra dóma Hæstaréttar, þar sem hann virðist ekki hafa farið eftir Bókun 35 um, að landsreglan skuli víkja.

Bókun 35: "Í tilviki mögulegra árekstra á milli framkvæmdar á EES-reglum við aðrar lagareglur, skuldbinda EFTA-ríkin sig til, ef nauðsyn reynist, að setja í lög, að EES-reglurnar skuli hafa forgang í slíkum tilvikum." 

Stenzt þetta íslenzku Stjórnarskrána ?

Grein 3 í EES-samninginum hljóðar svo: "Samningsaðilar skulu gera almennar eða sértækar ráðstafanir til að uppfylla skyldur, sem leiða af þessum samningi.  Þeir skulu forðast allt, sem getur ógnað markmiðum þessa samnings.  Þeir skulu ennfremur létta samstarfið innan ramma þessa samnings."

Bókun 35 fyrirskrifar sem sagt, að EES-reglur skuli í framkvæmd njóta forgangs fram yfir aðrar lagareglur.  Þetta felur í sér, að EES-rétturinn almennt nýtur ekki forgangs fram yfir þjóðarrétt, en þegar kemur að framkvæmdinni og velja þarf á milli, er EES-rétturinn þó rétthærri.  Ennfremur merkir þetta, að EES-rétturinn nýtur ekki forgangs gagnvart Stjórnarskrá.  Hlutverk bókunarinnar er, að EES-rétturinn hafi svipað afl í  EFTA-löndunum eins og EES-rétturinn og viðeigandi ESB-reglur í aðildarlöndum ESB, en án þess að valdsvið löggjafans í EFTA-löndunum sé almennt rýrt.

EFTA-dómstóllinn, sem ætíð nýtir dómafordæmi frá ESB-dómstólinum, ef þau finnst, hefur í dómaframkvæmd lýst notkunarsviði þessarar grunnreglu um að veita EES-réttinum forgang þannig, að það gildi um EES-reglur í verki, sem séu nægilega skýlausar og nákvæmar til að veita einkaaðilum réttindi.  

Skýringin á því, að ESA hefur nú undirbúið málssókn gegn Íslandi, er, að Ísland hefur ekki framkvæmt Bókun 35 við grein 3 í EES-löggjöf sinni, sem fyrirskrifar, að "statutes and regulations shall be interpreted, in so far as appropriate, in conformity with the EEA Agreement and the rules laid down therein". 

Að mati ESA gefur íslenzka ákvæðið einvörðungu til kynna, að landsreglur skuli túlka í samræmi við ætlaða meginlagareglu EES.  Ætlaða meginreglan felur í sér, að gert er ráð fyrir, að landsreglur séu í samræmi við kvaðir EES-réttarfars.  Þessi túlkunarmeginregla leysir hins vegar ekki úr tilvikum, þegar staðfest er ósamræmi á milli landsreglunnar og þjóðréttarlegra kvaða.  

Það er athyglisvert, að ESA heldur því fram, að Hæstiréttur Íslands brjóti í bága við Bókun 35, þótt athyglinni sé beint að innleiðingu löggjafans á Bókun 35.  Þetta getur vakið umræðu um, hvort ESA telji Bókun 35 hafa bein áhrif á þjóðréttinn.  

Ísland fékk frest til 13. ágúst 2018 til að svara upphafsbréfi ESA, og verður athyglisvert að sjá viðbrögð Stjórnarráðsins.

Ýmsir hafa fallið í þá gryfju að halda því blákalt fram, eins og Viðskiptablaðið (VB) 14. maí 2018 og nokkrum sinnum áður með vísun til túlkunar "Stjórnarráðsins", að áhrif meiri háttar gjörninga ESB muni "lítil" áhrif hafa á Íslandi, þótt Íslendingar gangist undir lögsögu þessara gjörninga.  Hér er mikil og alvarleg meinloka á ferðinni.  Spyrja má, hvernig slíkar mannvitsbrekkur komust á legg á Íslandi, sem í einu vetfangi sáu slíka meinbugi á lagasmíð ESB, að hún verði bara óvirk við innleiðingu hér norður í Atlantshafi.  Þetta er auðvitað algerlega óboðlegur málflutningur, sem gripið er til af rökþrota mönnum, sem ekki geta tínt til eina góða röksemd fyrir því að taka þá áhættu að stinga hendinni upp í gin ljónsins með skýlausu fullveldisframsali.  

Tilvitnun í VB 14.05.2018:

"Sérfræðingar stjórnarráðsins segja hins vegar, að fyrst að Ísland tengist ekki raforkukerfi Evrópu, hafi orkumálapakkinn ekki mikil áhrif hér á landi."

Það er einfeldningsháttur að halda, að í svo miklu hagsmunamáli fyrir almenning á Íslandi sem það er að hindra, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB öðlist lagagildi hérlendis, sé hægt að skáka í skjóli "sérfræðinga stjórnarráðsins".  Eru þeir sérfræðingar á sviði rafmagnsmála, lögfræði eða annars ?  Kannski þeir séu lögfræðingar, sem sérhæft hafa sig á orkumálasviði, eins og Henrik Björnebye, "norsk ekspert i energirett, EU-rett og EÖS-rett".  VB hefur vitnað í hann, en hann á viðskiptahagsmuna að gæta í norskri orkustarfsemi, sem sér fram á hærra raforkuverð með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins. Hann gerir lítið úr áhrifum innleiðingar Þriðja orkubálksins í Noregi og sér ekkert fullveldisframsal felast í gjörðinni. Það er nauðsynlegt að gæta að viðskiptatengslum, þegar ráðizt er í tilvitnanir út fyrir landsteinana í aðila, sem óþekktir eru hérlendis.    

Það eru margir norskir lagaprófessorar, sem nær væri fyrir VB og aðra hérlendis að vitna til. Þeir gæta fyllstu hlutlægni sem fræðimenn.  Þar má nefna Peter Örebech, lagaprófessor við Háskólann í Tromsö með ESB-rétt sem eina af aðalkennslugreinunum.  Hann er mjög gagnrýninn á fullveldisframsalið, sem Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn og ACER munu hafa í för með sér, verði bálkurinn innleiddur í norska lagasafnið.

Þá væri VB og öðrum, sem fjalla um þetta mál, nær að fjalla um "Ice Link" og skuldbindingarnar, sem af téðri innleiðingu munu leiða, gagnvart Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER í stað innihaldslausts fimbulfambs um "lítil áhrif" Þriðja orkubálksins hérlendis, á meðan Ísland er enn ótengt við raforkukerfi Bretlands og þar með meginlandsins.   

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skuldbindingar Orkusambands ESB

Það hefur lítt stoðað fyrir áhangendur ESB og stuðningsmenn inngöngu Íslands í Orkusamband ESB að hamra á því, að slík innganga hefði nánast engar skuldbindingar í för með sér fyrir landsmenn og mundi litlu sem engu breyta fyrir íslenzka stjórnsýslu á orkumálasviði.

  Í Noregi hefur engum viti bornum manni dottið í hug að halda slíku fram um inngöngu Noregs í Orkusambandið, og á Íslandi hefur þessi innantómi áróður algerlega misst marks. Það er ekki nóg að setja sig á háan hest og þykjast allt vita, en vera í raun bara yfirborðssvamlari í málaflokki orkumála og án innsæis á þýðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB fyrir land og þjóð.

Það má marka af skoðanakönnun Maskínu í um 2 vikur í kringum mánaðamótin apríl-maí 2018, þar sem næstum tífalt fleiri lýstu sig andvíga en fylgjandi því að færa meira vald yfir íslenzkum orkumálum til evrópskra stofnana og tiltölulega fáir voru óákveðnir, að þjóðin er vel með á nótunum í þessu máli og lætur ekki viðmælendur búrókrata í ESB og kratíska áhangendur skrifræðisveldisins þar segja sér fyrir verkum.   

Norsku lagaprófessorarnir Holmöyvik og Haukeland Fredriksen lýsa áhrifunum þannig í hnotskurn fyrir Noreg, og þau má heimfæra á Ísland:

"Bindingaráhrif ákvarðana ESA munu þar að auki koma fram sem regluverk EES, sem mun verða hluti af innanlandsrétti í Noregi.  Norsk pólitísk stjórnvöld munu ekki geta gripið inn í framkvæmd innanlands af spegilákvörðun frá ESA [ESA speglar ACER í EFTA-löndunum - innsk. BJo] án þess að brjóta norsk lög.  Ef landsreglarinn (RME) [útibú ACER] verður með múður, geta væntanlega einkaaðilar framkallað framkvæmd [ákvörðunar ACER] með því að halda því fram gagnvart norskum dómstólum, að norsk lög skyldi landsreglarann til að framkvæma samþykkt ESA."

Síðan slá lögspekingarnir norsku eftirfarandi föstu: "Samkvæmt orðanna hljóðan í Stjórnarskránni, grein nr 115, og hefðum í Stórþinginu, útheimtir samþykkt á aðild Noregs að ACER [Orkustofnun ESB] 3/4 meirihluta í Stórþinginu." 

Peter Örebech - prófessor í réttarfari við Háskólann í Tromsö, bendir einnig á, að landsreglarinn á hvorki að meðtaka dómsuppkvaðningar né pólitísk merki frá Noregi.  Hann er þeirrar skoðunar, að RME-landsreglarinn, sé ekki norsk ríkisstofnun:

"Aðildin að Orkusambandi ESB (og ACER) er reist á því kerfi, að norsk stjórnmálaleg yfirvöld geti ekki gripið inn í gegn óæskilegum afritunarákvörðunum RME/ESA, af því að norsk löggjöf leggur nýja landsreglaranum, RME, það á herðar að framkvæma ákvarðanir ESB.  RME er fjármagnað af Stórþinginu og með yfirstjórn, sem skipuð er af Olíu- og orkuráðuneytinu án þess að vera stofnun á vegum norska ríkisins, heldur á vegum ESB."

Það orkar mjög tvímælis, að þetta fyrirkomulag standist stjórnarskrár Noregs og Íslands, þar sem vald á sviði orkumála, sem áður var hjá innlendu ríkisvaldi, er í raun flutt til yfirþjóðlegrar stofnunar, þar sem EFTA-ríkin ekki munu fá fullgildan fulltrúa (með atkvæðisrétti, aðeins áheyrn).  Það getur engum blandazt hugur um það lengur, að aðild Íslands að Orkusambandi ESB mundi fela í sér stórfellda breytingu á íslenzkum rétti og stjórnvaldi, þ.e. um er að ræða aðgerð, sem felur ótvírætt í sér fullveldisframsal á sviði orkumála, sem þjóðin að öllum líkindum er algerlega andsnúin, sbr skoðanakönnun Maskínu, sem birt var 13. maí 2018.

Ríkisstjórnin verður, væntanlega í sumar, að finna lausn á því, hvernig hún kemur þessu máli fyrir kattarnef.  Að biðja Alþingi um að framselja ríkisvald yfir mikilvægum málaflokki til yfirþjóðlegrar stofnunar á fullveldisári verður ríkisstjórninni þyngra í skauti en hún ræður við, enda flögrar það varla að oddvitum ríkisstjórnarinnar.    

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband